Hæstiréttur íslands

Mál nr. 23/2015


Lykilorð

  • Ölvunarakstur
  • Ómerking héraðsdóms


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 8. október 2015.

Nr. 23/2015.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Stefán Þórarinn Ólafsson hrl.)

Ölvunarakstur. Ómerking héraðsdóms.

X var ákærður fyrir umferðalagabrot með því að hafa ekið bifreið undir áhrifum áfengis. Hélt X því fram að annar maður hefði ekið bifreiðinni umrætt sinn og var hann sýknaður í héraði þar sem sekt hans taldist ekki sönnuð. Í dómi Hæstaréttar kom fram að lögreglumaður, sem kom að X umrædda nótt, hefði borið fyrir dómi að X hefði ekki nefnt við sig að annar en hann hefði ekið bifreiðinni. Þá hefði ákærði ekki skýrt frá því við skýrslugjöf hjá lögreglu að svo hefði verið heldur hefði hann fyrst haldið því fram við aðalmeðferð málsins. Nafngreint vitni hefði auk þess borið að það hefði séð X aka bifreiðinni og tvö önnur vitni skýrt frá því að X hefði verið einn á ferð í umrætt sinn. Þá hefði mjög skammur tími liðið frá því að lögreglu barst tilkynning um akstur ákærða þar til hún hefði haft afskipti af honum. Að virtum framburði ákærða og vitna var talið að líkur væru á að mat héraðsdómara á sönnunargildi hans væri rangt svo máli skipti um málsúrslit. Með vísan til 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála var hinn áfrýjaði dómur því ómerktur og málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar á ný.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 2. desember 2014. Af hálfu ákæruvaldsins er þess aðallega krafist að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar, en til vara að ákærði verði dæmdur til refsingar og sviptingar ökuréttar.

Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verið staðfestur, en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög leyfa.

I

Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar á [...] barst henni klukkan 2.13 aðfaranótt 7. febrúar 2014 tilkynning um að ölvaður ökumaður á [...] skutbifreið hafi ekið „frá [...] og áleiðis að [...].“ Lögreglumaðurinn F lagði strax af stað að bænum [...], sem er skammt vestan við [...]. Þar hitti lögreglumaðurinn fyrir A, sem bauð honum inn. Einnig var ákærði þar innandyra og var hann mjög ölvaður að áliti lögreglumannsins. Ákærði var handtekinn í kjölfarið vegna gruns um ölvun við akstur og fluttur á lögreglustöð. Mat lögreglumaðurinn ástand ákærða svo að ekki væri unnt að taka af honum skýrslu. Svo sem nánar greinir í héraðsdómi var ákærða tvívegis um nóttina tekið blóðsýni til alkóhólmælingar auk þess sem hann lét í té þvagsýni í því skyni. Eins og rakið er í dóminum mældist verulegt vínandamagn í blóði hans. Að lokinni töku síðara blóðsýnisins var ákærða ekið heim til sín.

Ákærði gaf skýrslu hjá lögreglu 12. febrúar 2014 og kaus að nýta rétt sinn til að svara ekki spurningum að öðru leyti en því að hann kannaðist við að hafa verið staddur að [...] þegar lögreglan hafði afskipti af honum. Fyrir dómi neitaði ákærði að hafa ekið fyrrgreindri bifreið umrædda nótt. Kvaðst hann hafa kvöldið áður en hann var handtekinn verið í teiti á [...] með vini sínum og útlendingum, sem unnið hafi í sláturhúsinu þar í bæ. Þegar ákærði hafi viljað fara að koma sér heim hafi einn útlendinganna, Pólverji að ákærði hélt, boðist til að aka sér. Manninn hafi ákærði ekki þekkt. Hafi maðurinn skutlað sér að [...] með viðkomu að [...], en á síðarnefnda bænum hafi ákærði staldrað við í tvær til þrjár mínútur. Þar hafi ákærði hitt fyrir B. Kvaðst ákærði hafa spurt B um nafngreindan mann, sem hinn síðarnefndi sagði ekki eiga heima á bænum. Ákærði minntist þess ekki hafa verið að leika við hund þar á bæ. Frá [...] hafi verið ekið að [...]. Kvað ákærði erindi sitt á þann bæ hafa verið að hitta bóndann þar, A, en um hafi verið að ræða eitthvað „fyllerís rugl.“ Hafi A boðið sér inn og þeir tekið tal saman. Þá kvað ákærði eiginkonu A, C, einnig hafa verið þarna, en útlendingurinn hafi verið úti að reykja. Sá hafi engin samskipti haft við fyrrnefndan B, hjónin á [...] né lögreglumanninn, sem þangað kom. Spurður hvort ákærði hafi fundið til mikilla áfengisáhrifa umrætt sinn svaraði hann: „Ég var vel ölvaður“.

B kvaðst hafa vaknað umrædda nótt við læti í öðrum hunda sinna. Hafi vitnið séð bifreið fyrir utan húsið og kallað hver væri „þarna“ og ákærði þá komið út úr gámi á hlaðinu. Vitnið hafi spurt ákærða hvað hann væri „að þvælast þarna inni“ og ákærði þá sagt að hann væri að hitta hundinn. Kvaðst vitnið hafa sagt ákærða að hafa sig á brott. Hafi ákærði sest inn í bifreiðina „bílstjóra megin“, ekið henni frá bænum og nærri verið búinn að aka á tvo ljósastaura á leiðinni niður á þjóðveg. Hafi vitnið þá ákveðið að hringja í lögregluna „svo hann færi sér ekki að voða“. Eftir það hafi vitnið séð lögregluna aka heim að [...].

A kvaðst áðurnefnda nótt hafa vaknað við hundgá. Þegar vitnið fór til dyra hafi ákærði verið þar, en enginn með honum. Um mínúta hafi liðið frá því ákærði birtist þar til lögregla kom á vettvang. Kvaðst hann ekki hafa orðið var við aðrar mannaferðir.

C kvað ákærða hafa komið einan inn að [...]. Hafi liðið um tvær til þrjár mínútur frá því þar til lögreglan kom eða „í mesta lagi fimm“. Kvaðst hún ekki hafa séð til ferða annarra en ákærða. Hún sagðist hafa verið búin að rumska eitthvað áður en ákærði bankaði. Hafi hún farið til maka síns, fyrrnefnds A, og sagt að sér „fyndist vera mannaferðir úti“, en ekki verið viss um það.

F kvað tilkynningu hafa komið til lögreglunnar á [...] um að ölvaður ökumaður væri á leiðinni frá bænum [...]. Vitnið hafi þegar í stað ekið að [...] og hafi um tíu mínútur liðið frá því tilkynningin barst þar til vitnið var komið að bænum.  Dyr hafi verið opnar á bifreið, sem þar var, og bjórdósir í henni, en enginn maður.  Á bænum hafi vitnið hitt fyrir A, C og ákærða. Engir aðrir hafi verið þar. Vitnið mundi ekki til þess að ákærði hafi haldið því fram að einhver annar en hann hafi ekið bifreiðinni og ef svo hefði verið hefði vitnið örugglega getið þess í frumskýrslu sinni. Vitnið kvað ákærða hafa verið það ölvaðan að ekki hafi verið fært að taka skýrslu af honum.

II

Svo sem rakið hefur verið hefur fyrrnefndur lögreglumaður borið að ákærði hafi ekki nefnt við sig umrædda nótt að einhver annar en hann hafi ekið bifreiðinni greint sinn. Þá skýrði ákærði ekki frá því við skýrslugjöf hjá lögreglu að svo hafi verið. Var það fyrst við aðalmeðferð málsins 30. september 2014 að ákærði hélt því fram að annar en hann hefði verið ökumaður bifreiðarinnar. Þá hefur vitnið B borið að hann hafi séð ákærða aka frá bænum [...] og jafnframt greint frá aksturslagi hans. Einnig hafa vitnin A og C skýrt svo frá að ákærði hafi verið einn á ferð er hann kom að [...]. Að lokum liggur fyrir í málinu að mjög skammur tími leið frá því að lögreglu barst tilkynning um akstur ákærða þar til hún hafði afskipti af honum.

Að virtum framangreindum framburði ákærða og vitna verður ekki dregin önnur ályktun af honum en að líkur séu á að mat héraðsdómara á sönnunargildi hans sé rangt svo máli skipti um málsúrslit. Samkvæmt því og með vísan til 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað til þess að aðalmeðferð geti farið fram á ný og dómur felldur á það.

Ákvörðun sakarkostnaðar í héraði bíður nýs efnisdóms í málinu. Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar á ný.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, Stefáns Þórarins Ólafssonar hæstaréttarlögmanns, 372.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 11. nóvember 2014.

I

       Mál þetta, sem tekið var til dóms 14. október sl., er höfðað af lögreglustjóranum á [...] 14. maí sl. á hendur X, fæddum [...], til heimilis að [...], [...], „fyrir umferðarlagabrot, með því að hafa aðfararnótt 7. febrúar 2014, milli kl. 02:00 og 02:30, ekið bifreið með skráningarnúmerinu [...], undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 2,70‰ að teknu tilliti til vikmarka), frá afleggjara sem liggur að bænum [...] í [...] í [...] og suður eftir [...], [...] uns hann ók inn afleggjara að bænum [...] í [...], þar sem hann lagði bifreiðinni, en lögregla handtók ákærða í íbúðarhúsinu að bænum kl. 02:32.

Telst brot þetta varða við 1. sbr. 3. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. lög nr. 48/1997.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, sviptingar ökuréttar samkvæmt 101. gr. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. lög nr. 44/1993 og lög nr. 66/2006 og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

Ákærði krefst sýknu og þess að allur sakarkostnaður þar með talin hæfileg þóknun verjanda verði greiddur úr ríkissjóði.

II

Samkvæmt frumskýrslu lögreglunnar á [...] barst tilkynning frá Fjarskiptamiðstöð Ríkislögreglustjóra um að ölvaður maður hefði ekið [...] skutbifreið frá [...] áleiðis að [...]. Vakthafandi lögreglumaður hélt strax af stað og hafði samband við tilkynnanda og fékk upplýsingar um að bifreiðinni hafi verið ekið að [...]. Lögreglumaðurinn fór að [...] rétt austan við [...] og hitti þar fyrir vitnið A sem bauð honum inn. Þar hitti lögreglumaðurinn ákærða, sem virkaði mjög ölvaður. Ákærði var handtekinn vegna gruns um ölvun við akstur. Bifreiðin [...] stóð á hlaðinu við íbúðarhúsið að [...] og var bílstjórahurð hennar opin. Bjórdósir voru í bifreiðinni. Blóð- og þvagsýni var tekið af ákærða kl. 03:00 á lögreglustöðinni á [...] og blóðsýni aftur kl. 04:00. Niðurstöður úr rannsókn sýnanna sýndu, að teknu tilliti til 0,15‰ frádráttar, að alkóhólmagn í fyrra blóðsýninu reyndist vera 2,70‰, þvagsýninu 3,68‰ og seinna blóðsýninu 2,55‰. Að mati lögreglumannsins var ekki unnt að taka skýrslu af ákærða sökum ölvunar hans og var hann boðaður til skýrslutöku síðar.

Í framhaldi af þessu voru teknar lögregluskýrslur af tilkynnanda, vitninu B, húsráðendum að [...], vitnunum A og C og ákærða sem við skýrslutöku nýtti sér rétt sinn til að svara ekki spurningum um sakarefnið.

III

Verður nú gerð grein fyrir framburði ákærða og vitna fyrir dómi eftir því sem þýðingu hefur fyrir úrlausn máls þessa.

Ákærði kvaðst hafa farið heiman frá sér á [...] á fimmtudeginum 6. febrúar. Hann hafi hitt vin sinn, D, og neytt áfengis með honum og fleiri mönnum um kvöldið. Síðan hafi hann viljað halda heim á leið og einn þeirra sem þar voru hafi boðist til að aka honum, þennan mann sem hann taldi vera pólverja kvaðst ákærði ekki þekkja. Ákærði kvaðst aðspurður geta trúað því að þessi maður hafi verið búinn að neyta áfengis. Ákærði kvaðst ekki vita hvort þessi maður búi enn á [...] en D búi núna í [...]. Þeir hafi ekið að [...] en þar hafi hann ætlað að hitta mann, E að nafni, sem hann þekkti. Á [...] hafi hann hitt B sem hafi sagt honum að E væri fluttur en frekari samskipti hafi þeir ekki átt. Ákærði kvaðst aðspurður ekki hafa farið inn í gám á [...] og ekki leikið við hund sem þar var. Ákærði bar að ökumaðurinn hafi ekki átt nein samskipti við B og ekki farið út úr bifreiðinni. Að sögn ákærða stoppuðu þeir í tvær til þrjár mínútur á [...] og þar hafi bifreiðin verið stöðvuð u.þ.b. 20 metra frá íbúðarhúsinu. B hafi staðið í dyrum íbúðarhússins á meðan en ekki komið út. Eftir þetta hafi þeir ekið að [...] þar sem hann hafi farið inn en ökumaðurinn hafi fengið sér að reykja. Eftir að hann kom í [...] hafi hann knúið dyra og A, sem hann hafi ætlað að hitta hafi boðið honum inn og þeir hafi spjallað saman. Einhverjum mínútum síðar, kannski 10 til 15 hafi F lögreglumaður komið á staðinn. Ákærði kvaðst ekki vita hvað varð um ökumanninn. Að sögn ákærða átti ökumaðurinn ekki nein samskipti við húsráðendur í [...] svo hann viti. Ákærði bar að þegar lögreglumaðurinn kom á vettvang hafi hafi hann beðið hann um að koma með sér út en hann hafi strax þá sagt að hann hafi ekki verið að aka bifreiðinni. Þeir hafi síðan farið á lögreglustöðina á [...] þar sem hann gaf blóð- og þvagsýni. Ákærði kvaðst ekki þekkja þann mann sem ók bifreiðinni í greint sinn. Ákærði kvaðst hafa talið það tilgangslaust að tjá sig um sakarefnið þegar lögregluskýrsla var tekin af honum en hann hafi verið búinn að segja lögreglunni ítrekað að hann hefði ekki ekið í þetta sinn en lögreglan hafi hins vegar verið búin að ákveða að svo væri. Ákærði kvaðst muna atvik nokkuð vel þrátt fyrir að verulegt magn áfengis hafi mælst í blóði hans en hann taldi sig þola áfengi nokkuð vel. Ákærði lýsti því að þegar hann sótti bifreið sína í [...] hafi hann tekið eftir því að húfa hans var á farþegasætinu sem var hallað aftur og taldi hann það benda til þess að hann hafi setið þar.

Vitnið B kvaðst, umrædda nótt, hafa vaknað við læti í hundi sínum og ætlað að hleypa honum út. Hann hafi orðið var við bifreið á hlaðinu og síðan séð ákærða, sem hann þekki, koma frá gámi sem staðsettur er þar rétt hjá. Hann kvaðst hafa spurt ákærði hvað hann væri að gera og fengið það svar að ákærði hafi verið að leika við hundinn. Hann hafi þá sagt ákærða að koma sér á brott sem hann hafi gert. Að sögn vitnisins var bifreið ákærða nokkra metra frá íbúðarhúsinu, ekki meira en tíu, og ákærði hafi ekið henni á brott. Aksturslagið hafi verið með þeim hætti að hann ákvað að hringja á lögregluna enda þung umferð vörubifreiða á þjóðveginum og hann hafi talið ólíklegt að ákærði kæmist heim til sín. Vitnið kvaðst ekki hafa orðið vart við nokkurn annan en ákærða í þetta sinn og ákærði ekki nefnt að hann væri ekki einn á ferð. Vitnið kvaðst telja ómögulegt að annar en ákærði hafi ekið bifreiðinni en kvaðst ekki geta fullyrt hvort einhver eða einhverjir aðrir hafi verið í bílnum. Vitnið kvaðst hafa staðið í þvottahúsdyrum íbúðarhússins á meðan hann ræddi við ákærða sem að sögn vitnisins var í annarlegu ástandi. Vitnið bar að lýsing við íbúðarhúsið sé frekar lítil að nóttu til en hann hafi séð ákærða fara inn í bifreiðina bílstjóramegin en bifreiðin hafi snúið framendanum í átt að þjóðveginum.

Vitnið F, lögreglumaður bar að tilkynning hafi borist um að ölvaðan ökumann. Hann kvaðst þegar hafa haldið af stað að [...] og þar hafi hann séð bifreið á hlaðinu, bílstjóradyrnar hafi verið opnar og umbúir af áfengi í bifreiðinni. Vitnið kvaðst hafa tekið lykla að bifreiðinni í sínar vörslu en mundi ekki hvaðan hann tók þá. Ákærði hafi síðan verið í íbúðarhúsi að [...]. Að sögn vitnisins liðu um fimm til tíu mínútur frá því að tilkynning barst og þangað til hann var kominn að [...]. Vitnið kvaðst ekki muna hvort búið var að segja honum að ákærði hefði ekið bifreiðinni. Að sögn vitnisins varð hann ekki var við aðra á staðnum en ákærða og húsráðendur að [...] sem hafi boðið honum inn þegar hann knúði dyra. Þar hafi hann hitt ákærða og tilkynnt honum um að hann væri handtekinn vegna gruns um ölvun við akstur. Vitnið mundi ekki hvort ákærði sagði eitthvað við hann af því tilefni en ákærði hafi komið með honum á lögreglustöð. Vitnið bar að ákærði hafi verið kurteis en það mikið ölvaður að hann taldi ekki hægt að taka skýrslu af ákærða í þetta sinn. Eftir að búið var að taka blóð- og þvagsýni af ákærða hafi honum verið ekið heim til sín en með viðkomu í [...] en hvað var gert þar mundi vitnið ekki. Vitnið mundi ekki hvort ákærði ræddi málavexti eitthvað við hann í þetta sinn en vitnið kvaðst ekki muna til þess að ákærði hafi verið ósáttur við handtökuna. Vitnið mundi ekki til þess að ákærði hafi nefnt að annar maður hefði ekið bifreiðinni en taldi víst að hann hefði þá sett slíkt í frumskýrslu málsins. Þá bar vitnið að ef slíkt hefði komið fram hjá ákærða þá hefði lögreglan reynt að hafa uppá þeim manni. Þá bar vitnið að ef hann hefði, á leið í útkall vegna ölvunaraksturs, séð mann á gangi á þjóðveginum sé víst að hann hefði haft tal af þeim manni.

Skýrsla var tekin af húsráðendum að [...], A og C, en þau báru bæði í aðalatriðum á þá lund að þau hefði ekki séð hver ók bifreiðinni í umrætt sinn. Þá báru það að skammur tími hafi liðið frá því að ákærði kom á heimili þeirra og þar til lögreglu bar að garði og þau hafi því lítil samskipti hafa haft við ákærða í þetta sinn. Vitnið A bar að hann hefði ekki orðið var við mannaferðir eftir að lögreglan og ákærði voru farin af heimili hans. Vitnið C bar að hún taldi sig hafa orðið vara við mannaferðir áður en ákærði knúði dyra.

IV

Í máli þessu er ákærða gefið að sök að hafa ekið bifreið sinni frá bænum [...] í [...] að bænum [...] í sama hreppi. Ákærði neitar sök og bar fyrir dóminum að annar maður, sem hann hafi verið með í samkvæmi fyrr um kvöldið en þekki ekki, hafi boðist til að aka honum heim og sá maður, sennilega pólskur hafi ekið bifreiðinni. Hér háttar svo til að einungis eitt vitni bar á þá leið að það hafi séð ákærða aka bifreið sinni í umrætt sinni. Önnur vitni sem fyrir dóminn komu sáu bifreiðinni ekki ekið og gátu þar af leiðandi ekkert um það borið hver var ökumaður bifreiðarinnar.

Ekkert hefur komið fram undir rekstri málsins sem er til þess fallið að draga úr trúverðugleika framburðar vitnisins B. Ákærði kvaðst strax við handtökuna hafa greint vitninu F, lögreglumanni frá því að hann hefði ekki verið að aka en vitnið rak ekki minni til þess og taldi víst að hann hefði gripið til einhverra aðgerða til að finna ökumanninn ef ákærði hefði sagt að annar maður hefði ekið bifreiðinni. Fyrir dómi kvaðst ákærði ekki hafa viljað tjá sig um sakarefnið hjá lögreglu þar sem hann hafi verið búinn að segja frá því að hann hefði ekki ekið bifreiðinni en ljóst væri að lögreglan hafi verið búin að ákveða að hann væri sekur um ölvunarakstur. Ákærði tjáði sig því í fyrsta sinn um atvik málsins í skýrslu sinni fyrir dóminum.

Samkvæmt því sem að framan er eru ekki önnur gögn en framburður vitnisins B sem styðja sekt ákærða en ekki er deilt um að ákærði var undir áhrifum áfengis í greint sinn. Að mati dómsins er nokkur ólíkindablær á frásögn ákærða þess efnis að pólskur maður sem hann ekki þekkti hafi ekið bifreið hans í umrætt sinn. Hins vegar er það ekki útilokað. Að því virtu að annarra gagna um sekt ákærða en títtnefnds framburðar B nýtur ekki í máli þessu er það mat dómsins að ákæruvaldið hafi ekki, gegn staðfastri neitun ákærða axlað þá ábyrgð sem á því hvílir um sönnun á sekt ákærða sbr. 108. gr. laga um meðferð sakamála. Tekst sekt ákærða því ósönnuð og verður hann því sýknaður af kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.

Með vísan til 2. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála ber að fella allan sakarkostnað á ríkissjóð, þar með talin þóknun verjanda ákærða, Stefáns Ólafssonar hæstaréttarlögmanns sem þykir hæfilega ákveðin, að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir. Við ákvörðun þóknunar hefur verið tekið tillit til þess tíma sem fór í ferðalög verjanda.

Af hálfu ákæruvalds sótti málið Björn Hrafnkelsson fulltrúi lögreglustjórans á [...].

Halldór Halldórsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

Dómsorð:

Ákærði, X, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.

Allur sakarkostnaður, þar með talin 213.350 króna þóknun Stefáns Ólafssonar hæstaréttarlögmanns, greiðist úr ríkissjóði.