Hæstiréttur íslands
Mál nr. 288/2007
Lykilorð
- Sjómaður
- Veikindalaun
- Ráðningarsamningur
|
|
Fimmtudaginn 6. mars 2008. |
|
Nr. 288/2007. |
Bogi Halldórsson(Jónas Haraldsson hrl.) gegn Ísfélagi Vestmannaeyja hf. (Jóhannes B. Björnsson hrl.) |
Sjómenn. Veikindalaun. Ráðningarsamningur.
B gegndi ásamt nafngreindum manni stöðu matsveins á fiskiskipi í eigu Í. Skiptust þeir á að fara í veiðiferðir og greiddi Í þeim laun í samræmi við samning þeirra sjálfra um það hvernig þeim skyldi skipt milli þeirra. Krafðist B í málinu launa í veikindaforföllum sem hann taldi sig vanhaldinn um. Talið var að B og umræddur maður hafi gegnt stöðu matsveins sameiginlega og að í ljósi þessa yrði litið svo á að Í hefði greitt að fullu laun B í veikindaforföllum í samræmi við ákvæði 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. maí 2007. Hann krefst þess að stefndi greiði sér 811.800 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 474.125 krónum frá 15. mars 2005 til 15. apríl sama ár, en af 811.800 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Áfrýjandi var ráðinn á árinu 2001 sem matsveinn á fiskiskip stefnda, Snorra Sturluson VE 28. Ráðningin mun hafa verið munnleg. Óumdeilt er að frá upphafi var starfi áfrýjanda hagað þannig að hann fór aðra hvora veiðiferð með skipinu, en var í fríi hina. Á móti honum gegndi starfinu Karl Günter Frehsmann, sem fór þá veiðiferð sem áfrýjandi var í fríi, en var sjálfur í fríi meðan áfrýjandi var á sjó. Snorri Sturluson er frystitogari og mun hver veiðiferð hafa staðið yfir í um það bil einn mánuð, en nokkurra daga stopp í höfn þess á milli.
Áfrýjandi varð óvinnufær vegna veikinda í lok desember 2004. Af læknisvottorðum, sem voru gefin út meðan hann var enn veikur, verður ráðið að veikindatímabil hafi staðið frá 30. desember 2004 til 2. apríl 2005. Ágreiningur málsaðila varðar uppgjör launa fyrir janúar og febrúar 2005 eins og nánar greinir í II. og III. kafla hér á eftir.
Fram er komið í málinu að frá upphafi skiptust launagreiðslur milli áfrýjanda og Karls Günters samkvæmt sérstöku samkomulagi þeirra sjálfra, sem stefndi greiddi launin eftir. Eyþór Harðarson, útgerðarstjóri stefnda, lýsti þessu fyrirkomulagi nánar í skýrslu fyrir dómi, sem um þetta fellur saman við skýringar áfrýjanda. Í stað þess að hvor um sig nyti allra launa fyrir veiðiferð, sem hann fór í og væri launalaus þess á milli, var launum fyrir allar veiðiferðir deilt upp á milli þeirra. Skipti þar mestu máli að aflahlut matsveins, sem var 1,25, var skipt jafnt þannig að hvor um sig fékk 0,625 aflahlut greiddan fyrir hverja veiðiferð. Aðrar sérstakar greiðslur féllu að meirihluta til í hlut þess, sem fór í veiðiferðina, svo sem fæðispeningar og hlífðarfatapeningar. Skiptin á heildarlaunum matsveins fyrir hverja veiðiferð voru þannig ekki jöfn, þar sem ívið meira kom í hlut þess, sem fór á sjó hverju sinni. Hafa báðir aðilar skýrt þetta á þann veg að með þessu hafi verið leitast við að jafna áhættu, svo sem vegna þess að veiðum gat verið beint að misjafnlega verðmætum fisktegundum hverju sinni. Er fram komið að allmargir skipverjar hafi samið sín á milli um slíka „innbyrðis greiðslumiðlun.“ Kvað Eyþór stefnda hafa litið svo á að hann gerði ekki annað en að deila launum milli tveggja manna, sem skiptu einni stöðu, í samræmi við óskir þeirra.
II.
Vegna veikinda Karls Günters fór áfrýjandi tvær veiðiferðir í röð í lok árs 2004. Hófst sú fyrri 7. október og lauk þeirri síðari 23. desember 2004. Áfrýjandi veiktist sjálfur 30. desember 2004. Fór Karl Günter í veiðiferð 2. janúar til 3. febrúar 2005, afleysingamaður 8. febrúar til 13. mars sama ár og Karl Günter 18. mars til 17. apríl 2005. Áfrýjandi fór aftur á sjó 22. apríl 2005 eftir að hafa náð sér af veikindum sínum.
Aðila greinir á um hvort áfrýjandi hafi verið í fríi eða frá vinnu vegna veikinda í veiðiferð 2. janúar til 3. febrúar 2005. Áfrýjandi byggir á því að hann hafi verið frá vinnu í janúar vegna veikinda, en hann hafi verið samfellt á sjó næstu tvær veiðiferðir á undan. Það hafi leitt til þess að svokallað skiptimannakerfi hafi raskast á þann veg að í stað þess að vera í fríi í janúar hefði hann átt að vera á sjó þá veiðiferð, en veikindi komið í veg fyrir það. Stefndi heldur hins vegar fram að áfrýjandi hafi samkvæmt skiptimannakerfi átt með réttu að vera í fríi í janúar og Karl Günter að fara í þá veiðiferð, sem hann hafi og gert. Kveður hann forföll ekki breyta greiðslum til sjómanna að því leyti að áðurnefnd „greiðslumiðlun“ haldist eftir sem áður eins og reyndin hafi orðið allan veikindatíma áfrýjanda. Aflahlut vegna veiðiferða 2. janúar til 3. febrúar og 8. febrúar til 13. mars 2005 hafi verið skipt milli áfrýjanda og Karls Günters, en að auki hafi afleysingamaður fengið greiddan fullan aflahlut matsveins vegna síðarnefndu veiðiferðarinnar. Kveður stefndi kröfugerð áfrýjanda vera ranga þegar af þessari ástæðu.
Meðal málsgagna eru launaseðlar áfrýjanda fyrir þau tímabil, sem tvær fyrstu veiðiferðirnar á árinu 2005 stóðu yfir. Kemur þar skýrt fram að í þeirri fyrri var áfrýjandi skráður í fríi, en frá vinnu vegna veikinda í þeirri síðari. Áfrýjandi hefur ekki mótmælt að hafa fengið launaseðlana. Honum hefur því verið ljóst frá upphafi að stefndi taldi hann vera í fríi í janúarveiðiferðinni samkvæmt skiptimannakerfi án þess að hreyfa andmælum við því. Eru engin efni til að hrófla við þeirri framkvæmd stefnda eins og málið liggur fyrir.
III.
Áfrýjandi reisir kröfu sína á 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Kveðst hann hafa átt rétt á „staðgengilslaunum í veikindaforföllum sínum“, að hámarki í tvo mánuði samkvæmt greininni, en stefndi hafi hins vegar einungis greitt um það bil helming af „staðgengilslaunum matsveins á hinu tveggja mánaða tímabili.” Veikindalaunaréttur áfrýjanda miðist við tímabilið frá 2. janúar til 1. mars 2005 og taki þar með yfir eina veiðiferð og hluta af annarri. Áfrýjandi telur ákvæði 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga fela í sér sérreglu, en samkvæmt henni hafi honum borið að fá greidd á þessu tímabili öll laun, sem fylgdu stöðu matsveins um borð í Snorra Sturlusyni og breyti engu um þá niðurstöðu að umrætt skiptimannakerfi hafi verið í gildi á skipinu. Stefndi hafi hins vegar aðeins greitt honum hálfan aflahlut á þessu tímabili og að auki séu vangreiddar aðrar greiðslur samkvæmt kjarasamningi vegna veiðiferðar í janúar. Telur áfrýjandi marga dóma Hæstaréttar allt frá 1985 staðfesta að sá réttur felist í 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga, sem hann krefst.
Stefndi telur sig hafa gert upp laun við áfrýjanda í samræmi við þann rétt, sem hann eigi samkvæmt áðurnefndu lagaákvæði. Sá síðarnefndi deili einni stöðu með öðrum manni og eigi aðeins rétt og beri um leið aðeins skylda til að fara í aðra hvora veiðiferð. Krafa hans feli hins vegar í sér að hann fái laun eins og hann hafi einn gegnt 100% starfi. Hann yrði þannig mun betur settur en ef hann hefði gegnt starfi sínu óforfallaður. Kveðst stefndi hafa gert upp laun við áfrýjanda fyrir allt veikindatímabilið með hefðbundnum hætti og hann því orðið jafnt settur og hefði hann verið fullfrískur. Telur stefndi skýringar áfrýjanda á ætlaðri sérreglu í 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga ekki standast. Efni þeirrar greinar sé sótt í lög nr. 49/1980, en með þeim hafi verið breytt þágildandi sjómannalögum nr. 67/1963. Tilgangurinn hafi verið sá að veita sjómönnum sama rétt til launa í forföllum vegna sjúkdóma og slysa og landverkamenn höfðu áður fengið við setningu laga nr. 19/1979. Telur hann ummæli í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi til laga nr. 49/1980 mæla gegn skýringu áfrýjanda á efni greinarinnar. Hið sama eigi við um framsöguræðu ráðherra á Alþingi, er hann mælti fyrir frumvarpinu, þar sem fram komi að „það er ekki beinlínis ætlast til að menn græði fjárhagslega á veikindum, heldur að þeir verði ekki fyrir tapi. Maður, sem slasast í launalausu fríi, fengi annars meiri greiðslur en ef hann slasaðist ekki.“ Stefndi mótmælir loks að dómar Hæstaréttar, sem áfrýjandi vísar til, skipti hér máli enda tilvikin ólík því sem nú sé til úrlausnar. Að því er varði sérstaklega hina elstu þeirra frá árinu 1985 hafi niðurstaða ráðist af ólíkum orlofsrétti sjómanna og landverkamanna, sem hafi fyrst verið jafnaður með lögum eftir það.
IV.
Í málinu reynir á ákvæði 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga, en þar segir meðal annars að verði skipverji óvinnufær vegna sjúkdóms eða meiðsla, sem hann verður fyrir meðan á ráðningartíma stendur, skuli hann „eigi missa neins í af launum sínum í hverju sem þau eru greidd ... þó ekki lengur en tvo mánuði.“ Ákvæðið hefur áður verið skýrt í dómi Hæstaréttar í máli nr. 3/1993 í dómasafni réttarins 1994, bls. 2514 þannig: „Lagaákvæðið er svo afdráttarlaust, að það verður eigi skilið öðruvísi en svo, í því samhengi, sem hér reynir á, að stefndi eigi rétt til þeirra launa, sem hann hefði fengið greidd fyrir að gegna starfi sínu áfram, ef veikindi hefðu ekki gert hann ófæran til þess.“
Það starf, sem áfrýjandi var ráðinn til að gegna, fólst í því að fara aðra hvora veiðiferð á fiskiskipinu Snorra Sturlusyni. Annar maður gegndi starfinu á móti honum og saman voru þeir í einni stöðu. Samkvæmt ráðningu áfrýjanda var þannig fyrirfram ljóst að hann var í fríi meðan á veiðiferð stóð 2. janúar til 3. febrúar 2005. Hann veiktist 30. desember 2004, en veikindin hindruðu hann ekki í að gegna starfsskyldum sínum fyrr en 8. febrúar 2005 þegar kom að því að hann skyldi hefja störf. Með sama hætti er ljóst, að Karl Günter var ekki staðgengill áfrýjanda vegna veikinda þess síðarnefnda í fyrstu veiðiferð á árinu 2005. Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga átti áfrýjandi rétt á óskertum launum í veikindum frá 8. febrúar til 1. mars 2005. Áður var greint frá launauppgjöri til áfrýjanda vegna veiðiferðar 8. febrúar til 13. mars 2005 og þeirrar næstu á undan vegna „innbyrðis greiðslumiðlunar.“ Að þessu virtu verður fallist á með stefnda að áfrýjandi hafi fengið að fullu greidd laun, sem hann átti rétt til samkvæmt áðurnefndu ákvæði sjómannalaga. Samkvæmt öllu framansögðu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.
Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 14. maí 2007.
Mál þetta, sem dómtekið var 19. mars s.l., er höfðað með stefnu birtri 22. ágúst s.l.
Stefnandi er Bogi Halldórsson, [kt.], Óðinsgötu 18a. Reykjavík.
Stefndi er Ísfélag Vestmannaeyja, [kt.], Strandvegi 28, Vestmannaeyjum.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 811.800 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 474.125 krónum frá 15. mars 2005 til 15. apríl sama ár, en af stefnufjárhæð frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.
Dómkröfur stefnda eru þær hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi hans að mati dómsins.
Málavextir.
Stefnandi lýsir málsatvikum svo að hann hafi frá árinu 2001 gegnt stöðu matsveins á skuttogaranum Snorra Sturlusyni VE-28 sem stefndi á og gerir út. Hann hafi veikst 30. desember 2004 og verið óvinnufær vegna veikinda allt þar til í upphafi aprílmánaðar 2005. Hafi stefndi greitt staðgengilslaun í tvo mánuði vegna þessa, með réttum hætti að því er stefnandi taldi. Stefnandi segist frétt það hjá skipsfélaga sínum í mars 2006, sem sækja hafi þurft veikindalaun sín hjá stefnda með aðstoð lögmanns, að hann ætti inni veikindalaun hjá stefnda. Hafi verið haft samband við útgerðarstjóra stefnda en beiðni um leiðréttingu hafi verið hafnað.
Stefnandi segist hafa starfað eftir svokölluðu skiptimannakerfi, þ.e. hann fari í eina veiðiferð en sé í fríi þá næstu o.s.frv. Greiðslufyrirkomulag launa sé hins vegar þannig að hann fái greiddan hálfan aflahlut vegna hverrar veiðiferðar til að jafna áhættuna af misjöfnu aflaverðmæti. Stefndi telur hins vegar að stefnandi hafi einungis gegnt hálfri stöðu matsveins um borð í skipinu og hafi hann því aðeins átt rétt á og verið skylt að fara annan hvern túr með skipinu á móti öðrum matsveini, sem gegnt hafi stöðunni á móti stefnanda. Hafi honum með sama hætti verið rétt og skylt að fara annan hvern túr og sinna stöðu matsveins um borð í skipinu að hálfu á móti stefnanda. Þá hafi skipverjar samið svo um sín á milli að þeir skipti til helminga þeim aflahlut sem til falli í hverri veiðiferð í því skyni að jafna áhættuna sín á milli vegna mismunandi aflaverðmætis.
Stefnandi segist hafa átt rétt á staðgengilslaunum í veikindaforföllum sínum að hámarki í tvo mánuði samkvæmt 36. gr. sjómannalaga. Stefndi hafi hins vegar greitt stefnanda laun með vísan til fyrr greinds skiptimannakerfis og greiðslufyrirkomulags í tvo mánuði og hafi stefnandi þar af leiðandi einungis fengið u.þ.b. helming af staðgengilslaunum matsveins á hinu tveggja mánaða tímabili.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir á því að hann hafi gegnt stöðu matsveins á skuttogaranum frá því á árinu 2001 og hafi hann því öðlast rétt til staðgengilslauna í veikindaforföllum samkvæmt 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, að hámarki í tvo mánuði, en hann hafi forfallast frá vinnu vegna veikinda 30. desember 2004. Hafi stefnandi verið óvinnufær vegna veikinda til 2. apríl 2005. Stefnandi byggir á því að samkvæmt 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga skuli skipverji sem verður óvinnufær vegna sjúkdóms eða meiðsla sem hann verði fyrir meðan á ráðningartíma hans standi, eigi missa neins í af launum sínum í hverju sem þau séu greidd svo lengi sem hann sé óvinnufær af framangreindum ástæðum, þó ekki lengur en tvo mánuði. Skipverji sem forfallist vegna veikinda eigi þó ekki rétt til launa í fleiri daga en hann hafi verið í þjónustu útgerðarmanns. Samkvæmt 2. málslið 1. mgr. 36. gr. laganna taki skipverji, sem sé í launalausu fríi er hann forfallast frá vinnu vegna slysa eða veikinda, laun frá þeim tíma er hann skyldi hefja störf að nýju. Samkvæmt lögskráningarvottorði hafi stefnandi verið lögskráður úr skiprúmi 23. desember 2004 og hafi þá hafist launalaust frí hans frá störfum á milli veiðiferða. Aftur hafi verið lögskráð í stöðu matsveins 2. janúar 2005. Miðist upphaf veikindalaunaréttar stefnanda, að afloknu launalausu leyfi, því við 2. janúar sama ár og 2ja mánaða staðgengilslaunaréttur hans í veikindaforföllum frá 2. janúar til og með 1. mars 2005.
Byggt er á því að samkvæmt launaseðlum dags. 3. febrúar og 28. febrúar 2005 hafi heildarlaun stefnanda í veikindaforföllum frá 2. janúar til 3. febrúar 2005 numið 485.739 krónum. Hásetahlutur í umræddri veiðiferð hafi numið 630.490 krónum. Af launaseðli sjáist að stefndi hafi ekki greitt stefnanda fullt kaup umræddan túr eins og honum hafi borið að gera samkvæmt framangreindu ákvæði sjómannalaga, heldur hafi hann fengið túrinn gerðan upp í samræmi við áðurgreint skiptimannakerfi og greiðslufyrirkomulag. Þá hafi stefnanda borið að fá aðrar kjarasamningsbundnar greiðslur, þ.e. fæðispeninga, starfsaldursálag og hlífðarfatapeninga. Stefnandi byggir einnig á því að samkvæmt launaseðlum dags. 14. mars og 6. apríl 2005, vegna veiðiferðar sem staðið hafi frá 8. febrúar til 13. mars sama ár, hafi heildarlaun stefnanda numið samtals 570.154 krónum (583.562 13.408). Réttur stefnanda til staðgengilslauna hafi náð til 1. mars 2005, eða í 22 daga af þeim 34 sem veiðiferðin hafi staðið yfir. Af því sjáist að launagreiðslur til stefnanda tímabilið frá 8. febrúar til 1. mars sama ár hafi numið 368.923 krónum (570.154 * 22/34 = 368.923). Eins og vegna fyrri veiðiferðarinnar hafi stefndi ekki greitt stefnanda fullt kaup í samræmi við ákvæði 36. gr. sjómannalaga. Stefnandi hafi þó fengið greiddar aðrar kjarasamningsbundnar greiðslur, þ.e. fæðispeninga, starfsaldursálag og hlífðarfatapeninga. Stefnandi telur því að staðgengilslaun stefnanda tímabilið 2. janúar til 3. ferbúar 2005 hefðu átt að nema 973.272 krónum og sundurliðar stefnandi fjárhæðina þannig að aflahlutur sé 630.490 krónur, 0,25% aukahlutur matsveins sé 157.623 krónur, 7% álag á aflahlut sé 55.168 krónur, fæðispeningar (33 * 945) séu 31.185 krónur, starfsaldursálag sé 3.751 króna (3.410 * 33/30), hlífðarfatapeningar séu 5.210 krónur (4.736 * 33/30) og 10.17% orlof 89.845 krónur. Þá telur stefnandi að staðgengilslaun sín tímabilið 8. febrúar til 1. mars sama ár hefðu átt að nema 706.598 krónum og sundurliðar stefnandi fjárhæðina þannig að aflahlutur sé 459.519 krónur, aukahlutur 114.880 krónur (710.165 * 0,25 * 22/34), 7% álag á aflahlut sé 40.208 krónur, fæðispeningar (22 * 945) séu 20.790 krónur, starfsaldursálag sé 2.501 króna (3.410 * 22/30), hlífðarfatapeningar séu 3.473 krónur (4.736 * 15/33) og 10.17% orlof 65.227 krónur.
Stefnandi byggir á því að staðgengilslaun stefnanda á fyrra tímabilinu hefðu átt að nema 973.272 krónum en veikindalaun hans hafi einvörðungu numið 499.147 krónum. Gerir stefnandi því kröfu um mismuninn, 474.125 krónur. Með sama hætti gerir stefnandi kröfu um mismun vegna síðara tímabilsins eða 337.675 krónur. Heildarkrafa stefnanda er því 811.800 krónur.
Stefnandi segir ljóst að á hinu tveggja mánaða tímabili hafi honum borið að fá öll þau laun greidd sem fylgt hafi stöðu matsveins um borð í skipinu og breyti engu um þá niðurstöðu að umrætt skiptimannakerfi hafi verið í gildi um borð í skipinu.
Stefnandi vísar um lagarök til ákvæða sjómannalaga nr. 35/1985, aðallega á 6. og 36. gr. laganna, meginreglu vinnuréttar um greiðslu verkkaups og fordæmis Hæstaréttar. Þá er byggt á ákvæðum í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Sjómannasambands Íslands. Dráttarvaxtakrafa er byggð á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 og krafa um málskostnað er reist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi byggir á því að uppgjör við stefnanda hafi verið í samræmi við ákvæði 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga og kjarasamning aðila, grein 1.21. Stefndi telur málið fjalla um það hvort stefnandi eigi rétt til þess að fá laun í veikindaforföllum með sama hætti og hefði hann gegnt 100% stöðu matsveins um borð í skipinu, þ.e. verið rétt og skylt að fara allar veiðiferðir skipsins. Telur stefndi stefnanda fara fram á það að algerlega verði litið fram hjá þeirri staðreynd, sem hann þó viðurkenni í stefnu, að hann hafi gegnt einni stöðu matsveins um borð í skipinu á móti öðrum, sem átt hafi jafn mikinn rétt og hann til að fara helming allra veiðiferða með skipinu.
Stefndi hefur lagt fram yfirlit yfir launagreiðslur fyrir sex veiðiferðir á tímabilinu 17. nóvember 2004 til 17. júlí 2005, en þar kemur fram að stefnandi hafi verið um borð í fyrstu veiðiferðinni og fengið greiddar 652.494 krónur fyrir hana, en hinn matsveininn hafi fengið greiddar 563.027 krónur. Í annarri veiðiferðinni hafi stefnandi verið í fríi en fengið greiddar 485.739 krónur en hinn matsveinninn, sem þá var um borð, hafi fengið greiddar 553.687 krónur. Hafi launagreiðslur til stefnanda í tengslum við umræddar sex veiðiferðir numið samtals 3.524.870 krónum en hinn matsveinninn hafi fengið 3.539.592 krónur. Stefndi byggir á því að stefnandi hafi á því tímabili sem hann hafi verið óvinnufær, eða frá 30. desember 2004 til 4. apríl 2005, fengið greidd full laun í samræmi við ákvæði 36. gr. sjómannalaga. Sýni samanburður við laun þess sem gegndi stöðunni á móti stefnanda að þeir hafi haft svo að segja sömu laun fyrir umrætt tímabil.
Stefndi kveður stefnanda hafa verið í fríi í janúartúrnum og þá fengið 0,625 hlut á móti hinum matsveininum samkvæmt samkomulagi þeirra. Í febrúartúrnum hafi stefnandi verið í veikindaforföllum en fengið full laun eins og hann hefði verið um borð, þó þannig að hlut hans var skipt með hinum matsveininum. Stefndi mótmælir því að veikindalaunaréttur stefnanda hafi átt að hefjast strax 2. janúar 2005. Stefnandi hafi verið skráður í fríi í janúar en ekki veikur og því hafi hann aðeins fengið 0,625 hlut greiddan, en ekki aðrar launatengdar greiðslur. Telur stefndi hér um misskilning stefnanda að ræða sem hann væntir að verði leiðréttur. Ef ekki bendir stefndi á að stefnandi hafi engum athugasemdum hreyft við uppgjörum til sín á þessum forsendum, en sú staðreynd hafi blasað við honum á launaseðlum að laun greidd í janúar hafi aðeins verið helmingur af aflahlutdeild hins matsveinsins en ekki veikindalaun. Telur stefndi of seint fyrir stefnanda að koma fram með athugasemdir að þessu leyti nú, tæpum tveimur árum síðar. Stefndi telur að stefnandi hafi í umræddum marstúr ekki verið í vinnu eða ekki með vinnuskyldu, enda aðeins ráðinn til að fara annan hvern túr með skipinu.
Stefndi telur nauðsynlegt að hafa í huga grundvallarrök að baki reglunum þegar ákvæði 1. mgr. 36. gr. sjómannalaganna séu skýrð. Reglur um að launþegar skuli í ákveðinn tíma njóta fullra launa í forföllum vegna veikinda eða slysa byggi á sjónarmiðum um samhjálp og séu gerðar til að tryggja fjárhagslegt öryggi starfsmanna. Deila megi um hversu háar slíkar bætur skuli vera eða hversu lengi starfsmaður eigi að njóta þeirra og hafi sú niðurstaða fengist að verkamenn og sjómenn skyldu eigi missa neins í af launum sínum í hverju sem þau eru greidd, landverkamenn í einn mánuð en sjómenn í tvo mánuði. Hafi þessi regla verið nefnd staðgengilsreglan og bæturnar staðgengilslaun. Stefndi telur rétt viðkomandi ekki ráðast af launum staðgengils, heldur eigi sjómaðurinn rétt á að fá þau laun sem hann hefði fengið ef veikindi eða slys hefðu ekki komið í veg fyrir að hann gæti gegnt starfi sínu áfram. Stefndi telur koma skýrt fram í greinargerð með frumvarpinu og á umræðum á Alþingi að skýra beri 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga svo að ekki sé beinlínis ætlast til þess að menn græði fjárhagslega á veikindum, heldur að þeir verði ekki fyrir tapi. Stefndi telur það grundvallarreglu í vinnurétti að launþegi eigi ekki að hagnast á slysi eða veikindum á kostnað vinnuveitanda síns. Þá telur stefndi löggjafann ekki hafa heimild til þess að kveða á um skyldu vinnuveitanda til að greiða starfsmanni sínum bætur, sem séu hærri en umsamin laun. Þá verði að skýra ákvæðið með hliðsjón af grunnreglunni og með það í huga að löggjafanum sé óheimilt að mismuna vinnuveitendum með svo grófum hætti að einn afmarkaður og þröngur hópur þeirra, útgerðarmenn skipa, skuli gert að greiða launþegum sínum ekki aðeins bætur fyrir launamissi í tiltekinn tíma, heldur greiðslur umfram sannanlega töpuð laun, þ.e. sérstaka þóknun eða aukagreiðslur vegna veikinda sem séu miklu hærri en þau laun sem launþeginn hefði getað unnið sér inn óforfallaður. Verði að gera kröfu til þess að frávik frá meginreglunni komi fram með skýrum hætti í texta laganna og að færð væru fram gild rök fyrir slíku fráviki í greinargerð. Hvorugu hafi verið fyrir að fara við setningu laganna. Stefndi telur liggja fyrir að stefnandi hafi verið í hálfu starfi. Hann hafi fengið greidd laun í veikindum sínum miðað við þau laun sem hann hefði fengið ef hann hefði ekki veikst. Geti stefnandi að mati stefnda ekki átt rétt á frekari launum og því beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.
Stefndi telur að fullt samkomulag hafi verið með aðilum um uppgjör við stefnanda. Hafi stefnandi talið sig eiga aðrar og frekari kröfur á hendur stefnda hafi honum borið að gera þær strax í upphafi og það sé fyrst með málshöfðun þessari sem stefnandi setji fram kröfur um leiðréttingu. Hafi hann með tómlæti sínu firrt sig rétti til frekari greiðslna, hafi sá réttur yfirhöfuð verið til staðar.
Verði talið að í 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga felist réttur til handa stefnanda til að fá slysa- eða veikindalaun sem séu hærri en þau laun sem hann hefði notið óforfallaður, byggir stefndi á því að sýkna beri með vísan til þess að ákvæðið brjóti gegn 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. 1. gr. laga nr. 62/1994. Þá telur stefndi slíka niðurstöðu brjóta í bága við 65. gr. og 72. gr. stjórnarskrárinnar. Stefndi byggir á því að um sé að ræða inngrip í eignarrétt vinnuveitenda og tilfærslu á peningalegum verðmætum frá þeim til launþega við þær aðstæður. Hafi verið um það almenn sátt að það falli undir heimildir löggjafans að setja almenn lög um bætur fyrir launamissi í veikinda- og slysaforföllum. Við slíka lagasetningu verði löggjafinn að gæta að jafnvægi milli hagsmuna vinnuveitenda og launþega og jafnfram að slík inngrip séu almenn og vinnuveitendum sé ekki mismunað nema fyrir liggi rök sem standist þann mælikvarða að mismununin sé málefnaleg og í þágu almannahagsmuna. Stefndi telur það almenna reglu vinnuréttar að launþegar eigi ekki að hafa fjárhagslegan hag af veikindum sínum og hafnar því að hægt sé að finna því stoð eða réttlætingu að launþegi fái hærri greiðslur fyrir veikindi frá vinnuveitanda en sem svari til launamissis hans, hvað þá tvöföld laun í veikindaforföllum eins og grunnsjónarmið stefnanda byggi á.
Stefndi mótmælir vaxtakröfu stefnanda og telur að vexti ætti í fyrsta falli að dæma frá dómsuppsögudegi. Verði ekki á það fallist krefst stefndi þess að vextir verði ekki dæmdir fyrr en frá 13. október 2006, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.
Stefndi vísar um málskostnað til 130. gr. laga nr. 91/1991.
Niðurstaða.
Stefnandi gegndi frá árinu 2001 stöðu matsveins á skuttogaranum Snorra Sturlusyni VE-28 sem stefndi á og gerir út. Samkvæmt gögnum málsins veiktist hann 30. desember 2004 og var óvinnufær vegna veikinda allt þar til í upphafi aprílmánaðar 2005. Stefndi hefur greitt stefnanda staðgengilslaun í tvo mánuði vegna þessa, með réttum hætti að því er stefnandi taldi við móttöku uppgjörs. Stefnandi segist hafa frétt það hjá skipsfélaga sínum í mars 2006, sem sækja hafi þurft veikindalaun sín hjá stefnda með aðstoð lögmanns, að hann ætti inni veikindalaun hjá stefnda. Hafi verið haft samband við útgerðarstjóra stefnda en beiðni um leiðréttingu hafi verið hafnað.
Stefndi gerði upp laun við stefnanda vegna þessara veikindaforfalla í febrúar, mars og apríl 2005 og heldur stefndi því fram að uppgjörið hafi verið í samræmi við þau ákvæði 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga að skipverji sem verði óvinnufær vegna sjúkdóms eða meiðsla meðan á ráðningartíma stendur, skuli ekki missa neins í af launum sínum í hverju sem þau eru greidd svo lengi sem hann sé óvinnufær, þó ekki lengur en tvo mánuði. Ekki liggur annað fyrir en að stefnandi hafi tekið við uppgjöri veikindalauna án nokkurs fyrirvara eða athugasemda. Það er fyrst með málshöfðun þessari 22. ágúst s.l., eða tæpu einu og hálfu ári eftir athugasemdalausa móttöku launauppgjörs af hálfu stefnanda, sem hann setur fram kröfu um leiðréttingu. Hefur stefnandi með þessu sýnt af sér stórfellt tómlæti um að halda fram ætluðum rétti sínum og verður stefndi þegar af þeirri ástæðu sýknaður af kröfu hans.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Hjörtur O. Aðalsteinsson, dómstjóri kvað upp dóminn. Dómsuppkvaðning hefur dregist vegna embættisanna en lögmenn aðila töldu endurflutning óþarfan.
DÓMSORÐ:
Stefndi, Ísfélag Vestmannaeyja hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Boga Halldórssonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.