Hæstiréttur íslands

Mál nr. 189/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Meðdómsmaður
  • Kröfugerð
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Mánudaginn 30

 

Mánudaginn 30. maí 2005.

Nr. 189/2005.

Húsaklæðning ehf.

(Sigurbjörn Þorbergsson hdl.)

gegn

Tréfagi ehf.

(Gestur Jónsson hrl.)

 

Kærumál. Meðdómendur. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Fallist var á með T að H hefði við tiltekna húsviðgerð framkvæmt umfram það sem um hafði verið samið. Þar sem kröfugerð H var ekki nægilega sundurliðuð varð ekki felldur dómur á það hvaða fjárhæð honum bæri með réttu fyrir viðgerðina og þótti óhjákvæmilegt að vísa málinu frá dómi af sjálfsdáðum vegna þessa. Ekki þóttu rök til að hnekkja því mati héraðsdómara að ekki hafi verið þörf á að kalla til sérfróða meðdómendur í málinu og ekki var heldur fallist á að brotið hafi verið gegn 4. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991 við meðferð málsins í héraði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 22. apríl 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. maí sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. apríl 2005, þar sem vísað var frá dómi máli sóknaraðila á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðili styður kröfu sína fyrir Hæstarétti þeim rökum meðal annars að héraðsdómara hafi borið að kveða til sérfróða meðdómsmenn við afgreiðslu málsins. Eftir 2. mgr. 2. gr. laga nr. 91/1991 gat héraðsdómari kvatt til meðdómsmenn ef hann taldi þurfa sérkunnáttu í dóminum. Hann hefur ekki talið þessa þörf og eru ekki rök til að hnekkja því mati. Ekki verður heldur talið að málsmeðferð fyrir héraðsdómi hafi brotið gegn 1. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 4. mgr. ákvæðisins. Þá verða aðrar málsástæður ekki til þess að hnekkja hinum kærða úrskurði. Að þessu athuguðu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Húsaklæðning ehf., greiði varnaraðila, Tréfagi ehf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 12. apríl 2005.

Mál þetta, sem dómtekið var 1. mars 2005, var höfðað 8. mars 2004. Réttargæslustefna var þingfest 18. maí 2004.

Stefnandi er Húsaklæðning ehf., Ingólfsstræti 3, Reykjavík.

Stefndi er Tréfag ehf., Ísalind 4, Kópavogi.

Réttargæslustefndu eru Thor Ólafsson, Hjördís Ýr Johnson, Ása Hólmars­dóttir, Sigurður Sigurjónsson, Gaukur Eyjólfsson, Birna Jónsdóttir, Júlíus Skúlason, Sigríður Ósk Jónsdóttir og Dýrleif Arna Guðmundsdóttir, öll til heimilis að Kópalind 3 í Kópavogi.

Stefnandi gerir þær dómkröfur, að stefnda verði gert að greiða stefnanda 1.011.340 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 4. apríl 2002 til greiðsludags auk málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi.

Stefndi krefst þess að fjárkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.

Stefndi krefst málskostnaðar samkvæmt málskostnaðaryfirliti.

Af hálfu réttargæslustefndu er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda, en að öðru leyti gera réttargæslustefndu engar kröfur enda engar kröfur hafðar uppi í málinu á hendur þeim.

Í munnlegum málflutningi var því hreyft af hálfu lögmanns stefnda að málið kynni að sæta frávísun ex officio og vék lögmaður stefnanda að því atriði í seinni ræðu sinni.

I.

Samkvæmt stefnanda eru málavextir þeir, að samkvæmt verkbeiðni dagsettri 17. janúar 2002, hafi stefndi óskað eftir því við stefnanda að hann tæki að sér við fyrsta tækifæri viðgerð á leka að Kópalind 3, Kópavogi, 2. hæð til hægri. Eftir að verkið var hafið hafi stefndi farið fram á það munnlega við stefnanda að stefnandi gerði við alla hlið hússins þar sem lekinn var, þannig að um fyrirbyggjandi aðgerðir væri að ræða.

Viðgerð stefnanda hafi einkum falið í sér að 1) skafa með karbítsköfum yfir sprungur og viðkvæma staði, 2) saga ryðpunkta dýpra í svalagólfum, 3) brjóta upp eldri viðgerð auk þess sem brjóta þurfti upp lausar múrhúðir við svalaenda hægra megin, 4) háþrýstiþvo svalirnar, grunnfylla í viðgerðir og ryðpunkta, 5) fylla í viðgerðir og pússa með sterku steypuviðgerðarefni, 6) sprauta MCI-2022 á svalagólf, gafl og viðgerðir, 7) kústa Aquaflex yfir sprungur viðgerðir og aðra álagsfleti, 8) einangra, neta, múrfylla og pússa viðgerðargöt á útveggjum o.fl.

Stefnandi kveðst hafa gefið út reikning vegna verksins þann 4. apríl 2002, að fjárhæð 1.011.240 krónur. Stefndi hefði ekki greitt reikninginn, heldur mótmælt honum með bréfi dagsettu 24. apríl 2002 og með bréfi lögmanns síns dagsettu 8. júlí 2002.

Samkvæmt stefnda, sem er byggingafyrirtæki, segir m.a. um málavexti, að stefnandi hafi séð um byggingu hússins að Kópalind 3 á árunum 1998-1999 og selt allar íbúðir hússins að byggingu lokinni á frjálsum markaði. Fljótlega hafi komið upp staðbundinn leki í húsinu sem stefnda hafi fundist sjálfsagt og rétt að láta gera við á sinn kostnað. Hafi þá verið óskað eftir því við stefnanda að hann gerði við hinn staðbundna leka sem hafi verið á íbúð á 2. hæð til hægri í húsinu. Aðeins hafi verið óskað eftir því að stefnandi gerði við þennan staðbundna leka en ekki við annað í húsinu. Því væri það rangt sem fram kæmi í stefnu, að eftir að verkið var hafið hefði stefndi farið fram á það munnlega við stefnanda að hann gerði við alla hlið hússins. Það hefði hann aldrei gert.

Stefnandi hafi gert við alla hlið hússins og því við fjölmörg atriði sem stefndi bað hann aldrei um. Sem dæmi megi nefna að stefnandi gerði við svalir sem voru alveg hinum megin á húsinu og því augljóst að sú viðgerð stóð ekki í neinu sambandi við lekann á 2. h.h. Einnig sé augljóst að viðgerðir á öðrum stöðum í húsinu en á horninu þar sem lekinn kom upp, standi ekki í neinu sambandi við hinn staðbundna leka sem stefnandi var beðinn um að gera við. Viðgerðin hafi verið komin langt út fyrir þau mörk sem eðlilegt sé að byggingaraðili húss beri ábyrgð á löngu eftir byggingu hússins.

Stefndi hafi leitað til lögmanns eftir að honum barst reikningur stefnanda og í bréfi lögmannsins til stefnanda, dagsettu 8. júlí 2002, þar sem greint hafi verið frá afstöðu stefnda til kröfu stefnanda, hafi stefndi boðist til að ljúka málinu með því að greiða stefnanda 400.000 krónur, sem hann hafi þó talið vera töluvert hærra verð en eðlilegt mætti teljast fyrir það verk er hann bað stefnanda að vinna. Ekkert hafi heyrst í stefnanda í kjölfar þessa boðs fyrr en í byrjun mars 2004 að stefnda var birt stefna máls þessa.

Vegna þess hve viðamikil viðgerð stefnanda var hafi stefndi neyðst til að mála húsið aftur og haft af því nokkurn kostnað. Hafi hann því uppi gagnkröfu á hendur stefnanda til skuldajafnaðar að fjárhæð 80.000 krónur.

Bréf það sem stefndi sendi stefnanda þann 17. janúar 2002, er hann bað um viðgerðina hljóðar svo að meginmáli: „Tréfag ehf., óskar eftir viðgerð á leka að Kópalind 3. 2. h.h. Verkstjóri kom á staðinn og skoðaði það sem á að lagfæra. Gott ef farið væri í verkið eins fljótt og hægt er”.

Matthías Eyjólfsson fyrirsvarsmaður stefnanda kvað Hannes Ingólfsson, fyrirsvarsmann stefnda hafa hringt í sig 15. janúar 2002 og spurt hvort stefnandi gæti tekið að sér að gera við og þétta fasteignina Kópalind 3 í Kópavogi. Það hefði verið samþykkt og hefðu þeir Hannes hist á fasteigninni og farið yfir verkið. Hann hefði haft á orði að erfitt væri að segja fyrir um leka fyrr en búið væri að opna ætlaða lekastaði. Hann hefði beðið um verkbeiðni frá stefnda sem hefði borist 17. janúar s.á. Samið hefði verið um tímavinnu. Í fyrstu hefði verið talað um að lekinn væri á 2. hæð til hægri en síðar hefði komið í ljós að víðar lak. Hann hefði kynnt fyrir Hannesi að verkið yrði umfangsmeira en í fyrstu hefði verið talið og hefði hann fengið munnlegt samþykki Hannesar fyrir því sem gera þurfti og því ekki talið þörf á skriflegu samþykki stefnda. Samkomulagið hefði gengið út á að gera við það sem þurfti. Eftir að mótmæli bárust frá stefnda við reikningi kvaðst Matthías hafa sent stefnda yfirlit yfir verkið, sbr. dskj. nr. 6.

Hannes Ingólfsson, fyrirsvarsmaður stefnda kvaðst hafa verið búinn að reyna að gera við lekann í íbúðinni á 2. hæð til hægri án árangurs áður en hann fékk stefnanda til verksins. Á staðnum hefði stefnanda verið gerð grein fyrir því hvað gera ætti við, þ.e staðbundinn leka í íbúð á 2. hæð til hægri. Hann kvað þær viðgerðir sem greina mátti á öðrum stöðum í húsinu og m.a. koma fram framlögðum ljósmyndum engan veginn geta staðið í sambandi við lekann á 2. hæð til hægri sem samið var um að gert yrði við. Þá kvað hann stefnanda aldrei hafa verið beðinn um að gera við leka í íbúð á 2. hæð til vinstri. Hann kvaðst aldrei hafa rætt við fyrirsvarsmann stefnanda um frekari viðgerðir en í upphafi var samið um. Hann kvaðst ekki hafa komið á staðinn meðan stefnandi vann að viðgerðunum. Hann kvaðst engin viðbrögð hafa fengið frá stefnanda við boði um að ljúka málinu með greiðslu 400.000 króna. Hann kvað engar kvartanir um leka hafa borist eftir viðgerð stefnanda.

Auk framangreindra gáfu skýrslur fyrir dómi, Guðjón Ingólfsson bróðir Hannesar og tveir íbúðareigendur að Kópalind 3.

II.

Af hálfu stefnanda er málssóknin byggð á því að stefndi hafi ekki greitt hina umstefndu skuld þrátt fyrir innheimtutilraunir og sé stefnanda því nauðugur sá kostur að leita atbeina dómstóla við innheimtu skuldarinnar.

Kröfum sínum til stuðnings vísar stefnandi til almennra reglna samningaréttar og kröfuréttar um efndir fjárskuldbindinga og skuldbindingargildi loforða, ennfremur til reglna verktakaréttar um rétt verktaka til greiðslu verkkaups og til reglna samningaréttar, ákvæða samningalaga nr. 7/1936 og laga um lausafjárkaup nr. 50/2000. Um dráttarvaxtakröfu er vísað til laga nr. 38/2000 og um málskostnaðarkröfu er vísað til einkamálalaga nr. 91/1991.

III.

Stefndi byggir kröfu sína á þeirri meginreglu samningaréttar að samninga skuli halda. Samningur stefnda og stefnanda hafi verið um að stefnandi gerði við hinn staðbundna leka að Kópalind 3, sem hafi verið í íbúð á 2. hæð til hægri. Stefndi hafi ekki óskað eftir neinu öðru vinnuframlagi af hálfu stefnanda og því hafi ekki tekist samningar um annað. Stefndi fallist á að greiða stefnanda þá greiðslu sem sanngjörn geti talist fyrir viðgerð á hinum staðbundna leka að frádregnum þeim kostnaði sem stefndi þurfti að greiða vegna málningar hússins. Stefnandi geti ekki upp á sitt eindæmi ákveðið að gera við ýmislegt í húsinu sem hann hafi aldrei verið beðinn um og krefja stefnda um greiðslu vegna þeirrar vinnu.

Hafi stefnandi talið að nauðsynlegt væri að ráðast í frekari viðgerðir á húsinu hafi hann átt að bera þá skoðun sína undir stefnda og reyna að ná samkomulagi um að hann tæki að sér frekari vinnu fyrir stefnda. Engin slík beiðni hafi komið fram af hálfu stefnanda. Þá veki stefndi athygli á, að fjölmörg atriði, sem stefnandi hafi sjálfur tekið upp á að gera við í húsinu, séu komin út fyrir verk sem eðlilegt sé að stefndi, sem byggingaraðili hússins, en ekki eigandi, hefði átt að bera ábyrgð á.

Þá veki stefndi athygli á því að á verktökum hvíli rík skylda til að leggja fram skriflega verkáætlun um verk. Þannig sé í 13. kafla ÍST 30 gerð krafa um að eigi síðar en við undirritun samnings skuli verktaki leggja fram sundurliðaða verkáætlun sem skuli vera háð samþykki verkkaupa. Þessi regla sé orðin að óskráðri meginreglu í verktakarétti. Eina skjalið sem liggi fyrir í þessu máli um til hvaða þátta verkið átti að taka sé skrifleg verkbeiðni stefnda þar sem fram komi að hann óski einungis eftir viðgerð á staðbundnum leka að Kópalind 3, 2. h.h. Það sé því stefnanda að sanna að stefndi hafi óskað eftir því að hann gerði við annað í húsinu og hefði stefnandi þá átt að sjá til þess að skriflegur samningur væri gerður um þau atriði. Ástæða þess að svo var ekki gert sé sú að stefndi óskaði aldrei eftir frekari vinnu af hálfu stefnanda.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að reikningur stefnanda sé ósanngjarn bæði hvað varðar heildarfjárhæð reikningsins, tímagjald og þann tíma sem fór í verkið. Því sé ekki hægt að fallast á kröfu stefnanda um greiðslu á 1.011.340 krónum fyrir verkið, sbr. 45. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50/2000.

Þá telji stefndi stefnanda hafa sýnt af sér óafsakanlegt tómlæti við innheimtu kröfu sinnar. Telji stefndi að þegar af þeirri ástæðu beri að hafna kröfu stefnanda umfram þá upphæð sem stefndi hafi fallist á að borga.

Af hálfu stefnda er alfarið hafnað dráttarvaxtakröfu stefnanda um að miða dráttarvextina við 4.4.2002. Lögmaður stefnda hafi mótmælt kröfu stefnanda með bréfi dagsettu 8. júlí 2002 þar sem stefndi hafi lýst sig reiðubúinn til að greiða 400.000 krónur fyrir vinnu stefnanda. Þessu bréfi hafi ekki verið svarað af hálfu stefnanda. Vegna þeirrar vanrækslu stefnanda að láta málið falla niður í 2 ár hafni stefndi því að stefnanda sé unnt að krefja stefnda um greiðslu dráttarvaxta frá árinu 2002. Vilji svo ólíklega til að að fallist yrði á kröfu stefnanda, krefjist stefndi að dráttarvextir verði miðaðir við 10. mars 2004.

Um málskostnaðarkröfu sína vísar stefndi til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV.

Eins og áður er rakið tók stefnandi að sér samkvæmt skriflegri beiðni stefnda, „viðgerð á leka að Kópalind 3. 2.h.h.” Kom fram í beiðninni að verkstjóri hefði komið á staðinn og skoðað það sem átti að lagfæra. Af hálfu stefnanda er á því byggt að stefndi hafi farið fram á það munnlega eftir að verkið var hafið að stefnandi gerði við alla hlið hússins þar sem lekinn var, þannig að um fyrirbyggjandi aðgerð yrði að ræða. Þessu mótmælir stefndi. Af þeim gögnum sem fyrir dóminn hafa verið lögð svo og með hliðsjón af dómskýrslu fyrirsvarsmanns stefnanda, þykir mega slá því föstu að viðgerð stefnanda hafi verið umfangsmeiri en þurfti til gera við þann leka á 2. hæð til hægri í umræddri fasteign. Gegn mótmælum og neitun stefnda þykir stefnandi hvorki hafa fært á það sönnur að stefndi hafi falið honum að gera við meira en í upphaflegri beiðni var samið um né að hann hafi mátt ætla að slíkt samþykki væri fyrir hendi. Reikningur sá er stefnandi byggir kröfur sínar á er því fyrir meiri vinnu en samið var að hann innti af hendi fyrir stefnda.

Óumdeilt er að stefnanda ber greiðsla fyrir það verk sem stefndi samdi um að hann innti af hendi, enda krefst stefndi þess einungis að dómkröfur stefnanda sæti lækkun. Á hinn bóginn er krafa stefnanda ekki sundurliðuð með þeim hætti að unnt sé fyrir dóminn að dæma stefnda til að greiða þann hluta reiknings stefnanda sem varðar umsamda viðgerð. Er málið því vanreifað og ósundurliðað af hálfu stefnanda að þessu leyti og verður ekki komist hjá því að vísa málinu frá dómi ex officio. Eftir þeim úrslitum verður að dæma stefnanda til að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 150.000 krónur. Þá ber að dæma stefnanda til að greiða réttargæslustefndu sameiginlega 50.000 krónur í málskostnað.

Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kveður úrskurðinn upp.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá dómi ex officio.

Stefnandi, Húsaklæðning ehf., greiði stefnda, Tréfagi ehf., 150.000 krónur í málskostnað og réttargæslustefndu Thor Ólafssyni, Hjördísi Ýr Johnson, Ásu Hólmarsdóttur, Sigurði Sigurjónssyni, Gauki Eyjólfssyni, Birnu Jónsdóttur, Júlíusi Skúlasyni, Sigríði Ósk Jónsdóttur og Dýrleif Örnu Guðmundsdóttur sameiginlega 50.000 krónur í málskostnað.