Hæstiréttur íslands
Mál nr. 185/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Framlagning skjals
- Vitni
|
|
Miðvikudaginn 5. apríl 2006. |
|
Nr. 185/2006. |
Ákæruvaldið(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari) gegn X (Sigurður S. Júlíusson hdl.) |
Kærumál. Framlagning skjala. Vitni.
Talið var heimilt að leggja fram í opinberu máli, vottorð sálfræðings byggð á viðtölum við ætlaða brotaþola og jafnframt að heimilt væri að leiða sálfræðinginn sem vitni til að staðfesta vottorðin.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. mars 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. apríl sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. mars 2006, þar sem fallist var á kröfur sóknaraðila, annars vegar um að honum teldist heimilt að leggja fram í opinberu máli á hendur varnaraðila tvö vottorð Vigdísar Erlendsdóttur, sálfræðings, og hins vegar að heimilt væri að leiða hana sem vitni fyrir dóminn til að staðfesta vottorðin. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að framangreindri kröfu sóknaraðila verði hafnað.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. mars 2006.
Mál þetta höfðaði Ríkissaksóknari með ákæru dagsettri 13. desember 2005 á hendur X fyrir eftirgreind kynferðisbrot framin í Reykjavík:
Gegn stjúpdóttur sinni Y, fæddri 1994, með því að hafa:
- Í júní 2000, í svefnherbergi stúlkunnar á heimili þeirra í [...], snert nakin brjóst hennar, rass og kynfæri með höndum sínum, lagst ofan á hana og strokið getnaðarlim sínum við kynfæri hennar.
- Frá desember 2002 til októberloka 2004 á heimili þeirra í [...], í mörg skipti sett getnaðarlim sinni í kynfæri og endaþarm stúlkunnar og í eitt skipti snert andlit hennar með berum getnaðarlim sínum. Áttu brotin sé stað í svefnherbergi stúlkunnar, holi, baðherbergi, eldhúsi og í geymslu sem tilheyrir íbúðinni.
Gegn stúlkunni Z, fæddri 1994, með því að hafa:
3. Á tímabilinu júlí til september 2004 í svefnherbergi Y á heimili þeirra í [...], lagst nakinn að neðan ofan á Z og strokið getnaðarlim sínum við nakin kynfæri hennar.
4. Á tímabilinu júní til október 2004 í geymslu sem tilheyrir framangreindri íbúð í [...], í að minnsta kosti fimm skipti sett getnaðarlim sinn í kynfæri stúlkunnar.
Háttsemi ákærða samkvæmt 1. og 2. tölulið þykir varða við 1. mgr. 201. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr 9. gr. laga nr. 40/1992 og 3. gr. laga nr. 40/2003, en samkvæmt 3. og 4. tölulið við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992 og 4. gr. laga nr. 40/2003.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Bótakröfur á hendur ákærða:
Af hálfu Y, [kt.], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 2.000.000 auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. nóvember 2004 til 8. nóvember 2005 en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.
Af hálfu Z, [kt.], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 1.500.000 auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. október 2004 til 8. nóvember 2005 en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags.
Í þinghaldi sem háð var 27. mars sl. óskaði sækjandi eftir að leggja fram 2 vottorð Vigdísar Erlendsdóttur sálfræðings í Barnahúsi, dagsett 3. mars sl. Í vottorðunum segir að ríkissaksóknari hafi óskað eftir ,,vottorði um mat á því hvaða afleiðingar ætluð kynferðisbrot X hafi haft fyrir stúlkuna Z“ og ,,vottorði um mat á því hvaða afleiðingar ætluð kynferðisbrot X hafi haft fyrir stúlkuna Y “ .
Verjandi ákærða mótmælti því að vottorð þessi yrðu lögð fram og að Vigdís Erlendsdóttir sálfræðingur kæmi fyrir dóm og staðfesti efni þeirra, eins og ákæruvaldið hefur gert kröfu um.
Sækjandi krafðist þess að kröfum verjanda yrði hafnað og að heimiluð yrði framlagning þessara vottorða og að heimilað yrði að leiða fyrir dóm Vigdísi Erlendsdóttur í því skyni að staðfesta efni vottorðanna.
Niðurstaða.
Framangreind vottorð Vigdísar Erlendsdóttur sálfræðings fjalla um viðtöl sem meintir brotaþolar hafa sótt til sálfræðingsins. Í vottorðunum er greint frá niðurstöðum sjálfsmatskvarða sem telpurnar gengust undir hjá sálfræðingnum og í lokaorðum vottorðanna kemur fram álit sálfræðingsins á því hversu alvarlegar hún telji afleiðingar af meintu kynferðislegu ofbeldi ákærða.
Vottorð frá sérfræðingum Barnahúss, sama efnis og ofangreind vottorð Vigdísar Erlendsdóttur hafa um árabil verið lögð fram í kynferðisbrotamálum og ekki sætt andmælum. Framlagning slíkra vottorða hefur jafnframt verið heimiluð fyrir Hæstarétti, jafnvel þótt þau hafi ekki verið lögð fram í héraðsdómi, sbr. m.a. dóm Hæstaréttar í máli ákæruvaldsins gegn Andrési Má Heiðarssyni, nr. 152/2005. Sálfræðingum sem ritað hafa vottorðin hefur og verið heimilað að staðfesta efni þeirra fyrir héraðsdómi í samræmi við reglur um meðferð opinberra mála nr. 19/1991, um milliliðalausa málsmeðferð. Vottorðum þessum er ætlað að leiða að því líkur hvaða afleiðingar ætluð brot hafa haft í för með sér fyrir meinta brotaþola, en það er meðal annars nauðsynlegt við mat dómara á hæfilegri refsingu, sbr. 2. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga. Sönnunarfærsla af þeim toga sem að ofan greinir er því ekki þarflaus til upplýsingar málsins, sbr. 4. mgr. 128. gr. laga nr. 19/1991.
Þegar allt framangreint er virt, er hafnað kröfu verjanda ákærða um að synjað verði um framlagningu framangreindra vottorða Vigdísar Erlendsdóttur sálfræðings. Þá er og hafnað kröfu hans um að henni verið ekki heimilað að koma fyrir dóm og staðfesta efni vottorðanna.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Sækjanda í máli þessu er heimilt að leggja fram tvö vottorð Vigdísar Erlendsdóttur sálfræðings frá 3. mars 2006 og að leiða Vigdísi fyrir dóminn sem vitni til að staðfesta efni vottorðanna.