Hæstiréttur íslands
Mál nr. 489/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Afhending gagna
- Sjúkraskrá
|
|
Miðvikudaginn 26. ágúst 2015. |
|
Nr. 489/2015. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Einar Laxness aðstoðarsaksóknari) gegn Landspítalanum (Baldvin Hafsteinsson hrl.) |
Kærumál. Afhending gagna. Sjúkraskrá.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem L var gert skylt að afhenda LH sjúkraskrá A í tengslum við rannsókn LH á því hvort andlát A hefði borið að með saknæmum hætti. Með hliðsjón af skyldu LH samkvæmt 54. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að rannsaka og afla allra tiltækra gagna um verknað þann sem um sé að ræða voru hagsmunir LH af því að fá lagt hald á sjúkraskrá hins látna taldir vega þyngra en þeir hagsmunir að trúnaði yrði haldið um þær upplýsingar sem sjúkraskrá hans hefði að geyma.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 23. júlí 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. júlí 2015 þar sem varnaraðila var gert skylt að afhenda sóknaraðila nánar tilgreinda sjúkraskrá. Kæruheimild er í p. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Samkvæmt gögnum málsins rannsakar sóknaraðili hvort andlát A hafi borið að með þeim hætti að varðað geti við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Á sóknaraðila hvílir skylda samkvæmt 54. gr. laga nr. 88/2008 að rannsaka og afla allra tiltækra gagna um verknað þann sem um er að ræða og í því skyni hefur sóknaraðili lagt fram kröfu samkvæmt IX. kafla laga nr. 88/2008 um að sér verði afhent tilgreind sjúkraskrá, en samkvæmt 1. mgr. 68. gr. laganna skal lögregla leggja hald á muni, þar á meðal skjöl, ef ætla má að upplýsingar sem þau hafa að geyma hafi sönnunargildi í sakamáli. Þó er samkvæmt 2. málslið 1. mgr. 68. gr. laganna óheimilt að leggja hald á muni ef þeir hafa að geyma upplýsingar sem 2. mgr. 119. gr. laganna tekur til. Í b. lið 2. mgr. 119. gr. er fjallað um upplýsingar um einkahagi manns sem vitni hefur verið trúað fyrir í starfi sem endurskoðandi, félagsráðgjafi, lögmaður, læknir, prestur, forstöðumaður trúfélags eða sálfræðingur ellegar í öðru starfi sem viðlíka trúnaðarskylda fylgir. Samkvæmt skilgreiningu á orðinu sjúkraskrá í 5. tölulið 3. gr. laga nr. 55/2009 um sjúkraskrár fellur hún undir upplýsingar sem 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008 tekur til, en aðgangur að sjúkraskrá er óheimill nema til standi lagaheimild samkvæmt ákvæðum laga nr. 55/2009 eða öðrum lögum, sbr. 1. mgr. 12. gr. nefndra laga. Helst trúnaðarskylda og þagnarskylda starfsmanna í heilbrigðisþjónustu þótt sjúklingur andist, sbr. 12. gr. laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga.
Í 3. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008 er heimildarákvæði til handa dómara til að víkja frá fyrirmælum 2. mgr. 119. gr., óháð vilja þess sem hlut á að máli, ef hagsmunir af því að vitni svari tilteknum spurningum vega að mati dómara þyngra en þeir hagsmunir að trúnaði sé haldið. Eins og að framan er rakið rannsakar sóknaraðili hvort andlát A hafi borið að með saknæmum hætti og vega hagsmunir sóknaraðila af því að fá lagt hald á sjúkraskrá hins látna þyngra en þeir hagsmunir að trúnaði sé haldið um þær upplýsingar sem sjúkraskrá hans hefur að geyma. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. júlí 2015.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Landspítala (LSH) verði gert skylt að afhenda lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sjúkraskrá A, kt. [...], frá 29. júní 2014 til og með 29. júní 2015.
Í kröfu um haldlagningu er vísað til þess að verið sé að rannsaka ætluð brot er þykja varða við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að að kvöldi [...] júní sl. hafi lögregla verið kölluð að [...] í [...] vegna hugsanlegs sjálfvígs. Þegar lögreglu hafi borið að garði hafi tekið á móti henni maður að nafni B, vinur hins látna, og kvæðist hann hafa verið að athuga með vin sinn til margra ára, A, og þá komið að honum látnum í baðkari íbúðar hins látna. Kvæðist hann hafa hringt í 112 og fengið þau tilmæli að taka hann upp úr baðkarinu og hafi hinn látni því legið á gólfi baðherbergisins. Hinn látni hafi átt sögu um óreglu, andleg veikindi og tilraunir til sjálfsvígs og því hafi allt bent til þess að um sjálfsvíg hafi verið að ræða.
Lögreglustjóri tekur fram að við krufningu hafi komið í ljós blæðingar á baki hins látna sem gætu samræmst því að hann hafi verið beittur þrýstingi af mannavöldum, þ.e. þrýst á bak hans, og því ekki hægt, á þessari stundu, að útiloka að dánarorsök sé til komin af öðrum völdum en sjálfsvígi. Í þágu rannsóknar málsins telji lögreglustjóri því afar brýnt að lögregla fái umbeðnar upplýsingar í þeim tilgangi að varpa frekara ljósi á málsatvik í aðdraganda andláts hins látna og hvort það hafi borið að með saknæmum hætti. Geti upplýsingar úr sjúkraskrá hins látna skipt verulegu máli í ljósi framburðar B um ástand hins látna.
Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið, meðfylgjandi rannsóknargagna og 54. gr., 1. og 2. mgr. 68. gr., sbr. 2. mgr. 69. gr. og 1. mgr. 102. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sé þess beiðst að framangreind krafa verði tekin til greina eins og krafist sé.
Niðurstaða
Við málflutning um fram komna kröfu byggði lögmaður varnaraðila á því að varnaraðili hefði ekki heimild til að fallast á afhendingu umræddrar sjúkraskýrslu og þess utan væri ekki lagaheimild til að fallast á fram komna kröfu. Hann vísaði einkum til laga nr. 77/2000 um persónuvernd, laga nr. 55/2009 um sjúkraskrár og 12. gr. laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga. Þá vísaði lögmaður varnaraðila til þess að ekki væri rökstutt í kröfu sóknaraðila hvað í umræddri sjúkraskrá sóknaraðili teldi að hefði þýðingu vegna rannsóknar málsins.
Fulltrúi sóknaraðila lagði á það áherslu að verið væri að rannsaka brot sem gæti varðað við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og bráðabirgðakrufning hefði leitt í ljós innvortis áverka og blæðingu í baki hins látna, sem samrýmst gætu því að hann hafi verið beittur þrýstingi af mannavöldum, þ.e. þrýst hafi verið á bak hans, og því væri ekki að svo komnu máli hægt að útiloka að dánarorsök hafi verið af öðrum völdum en sjálfsvígi.
Fyrir liggur að verið er að rannsaka orsakir andláts A og í því sambandi brot er gætu varðað við 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Niðurstaða bráðabirgðakrufningar gefur ótvírætt tilefni til þess að frekari rannsókn fari fram. Þó ekki komi skýrt fram í kröfugerð sóknaraðila hvað í sjúkraskýrslu hins látna kunni að hafa þýðingu fyrir rannsóknina telur dómurinn augljóst að fyrir sóknaraðila vaki að kanna hvort í sjúkraskýrslu hins látna séu upplýsingar sem varpað geti ljósi á það hvernig umræddir áverkar og blæðingar innvortis á baki eru til komnir. Telja verður að það hafi ótvírætt mikla þýðingu fyrir rannsókn málsins að fram fari skoðun á sjúkraskýrslu hins látna í þessu skyni.
Með vísan til þess sem rakið er í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, þess sem fram hefur komið fyrir dómi og alvarleika málsins, sbr. 54. gr., 1. og 2. mgr. 68. gr., sbr. 2. mgr. 69. gr. og 1. mgr. 102. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, er á það fallist að upplýsingar, sem ætlunin er að afla með umbeðinni rannsóknaraðgerð, hafi ótvírætt mikilvæga þýðingu fyrir rannsókn málsins og að rétt sé að verða við kröfu sóknaraðila.
Því verður krafa sóknaraðila tekin til greina eins og í úrskurðarorði greinir.
Þórður Clausen héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Landspítala (LSH) er skylt að afhenda lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu sjúkraskrá A, kt. [...], frá 29. júní 2014 til og með 29. júní 2015.