Hæstiréttur íslands
Mál nr. 503/2012
Lykilorð
- Lánssamningur
- Ábyrgð
- Málsástæða
- Lagaskil
|
|
Fimmtudaginn 18. apríl 2013. |
|
Nr. 503/2012.
|
Eignarhaldsfélagið Vor hf. ÁP fjármál ehf. GSP fjármál ehf. og EP fjármál ehf. (Ragnar Baldursson hrl.) gegn Banque de Havilland S.A. (Guðjón Ármann Jónsson hrl. Jón Ármann Guðjónsson hdl.) |
Lánssamningur. Ábyrgð. Málsástæða. Lagaskil.
K, forveri erlenda bankans BH, veitti erlendu félagi, B, lán. Til tryggingar greiðslu lánsins tókst V hf. með sérstakri ábyrgðaryfirlýsingu á hendur ábyrgð að fjárhæð 450.000.000 krónur sem gefin var út til handa K. Tilteknum hlutum í V hf. var síðar ráðstafað til Á ehf., G ehf. og E ehf. Sameiginlega höfðuðu félögin fjögur, mál á hendur BH og kröfðust þess að ábyrgð þeirra samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingunni hefði verið fallin niður þegar BH gekk að eignum þeirra á grundvelli ábyrgðarinnar. Talið var að íslenskir dómstólar ættu lögsögu í málinu á grundvelli ákvæðis í lánssamningi BH og B. Af gögnum málsins varð ekki ráðið að ábyrgðinni hefði verið markaður ákveðinn gildistími, annar en sá að hún skyldi gilda þar til öllum skuldbindingum samkvæmt lánssamningnum væri lokið. Samkvæmt efni samningsins bar að endurgreiða lánsfjárhæðina ári eftir gerð hans, en það gekk ekki eftir heldur var lánið endurnýjað á gjalddaga þess. Málsaðila greindi á um með hvaða hætti það hefði verið gert og hvaða áhrif það hefði haft á ábyrgðarkröfuna. Í dómi héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, var talið upplýst að tilgangur viðskiptanna hefði verið sá að takmarka áhættu V hf. af eignarhaldi á hlutum í BG hf., með því að selja hlutina B. Áhætta af eignarhaldinu færðist við það til B, gegn því að V hf. ábyrgðist lán K til B. Við aðalmeðferð málsins í héraði höfðu V hf. o.fl. uppi þá málsástæðu að lánssamningurinn hefði verið framlengdur án þess að aflað hefði verið samþykkis ábyrgðaraðila og því hefði ábyrgðin fallið niður. Sú málsástæða kom ekki til álita gegn mótmælum BH. Í málinu var talið upplýst að ráðgert hefði verið af hálfu V hf. að veita ábyrgðina til þriggja ára og var veiting greiðslufrests á gjalddaga lánssamningsins ekki talin hagga við gildi ábyrgðarinnar. Þá var vísað til þess að þótt greiðslugeta V hf. o.fl. hefði verið háð því að hlutir B í BG hf. yrðu seldir, sem svo var ekki gert, gæti það ekki leitt til brottfalls ábyrgðarinnar á gjalddaga lánssamningsins, enda hefðu fyrirsvarsmenn V hf. o.fl. haft ákvörðunarvald um slík málefni sem eigendur meirihluta í B. Þá voru önnur atriði ekki talin hafa orðið þess valdandi að ábyrgðin hefði fallið niður áður en BH gekk að eignum V hf. o.fl. á grundvelli hennar. G ehf. og Á ehf. héldu því einnig fram í málinu að BH hefði skort heimild til að ráðstafa fjármunum af reikningum félaganna til B. Talið var að slíkur ágreiningur lyti ekki að lánssamningi BH og B heldur þeim skilmálum sem giltu um lögskipti félaganna tveggja við BH. Samkvæmt samningum BH um reikningsviðskipti við félögin áttu íslenskir dómstólar ekki lögsögu um þetta atriði. BH var því sýknað af kröfum V hf. o.fl.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 16. maí 2012. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 26. júní 2012 og var áfrýjað öðru sinni 19. júlí sama ár. Þeir krefjast að viðurkennt verði að fallin hafi verið niður ábyrgð þeirra að fjárhæð 450.000.000 krónur samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingu dagsettri í desember 2004 og útgefinni af áfrýjandanum Eignarhaldsfélaginu Vori hf. til tryggingar greiðslu á láni Kaupthing Bank Luxembourg S.A. til Bague S.A. 30. desember 2004 að fjárhæð 1.400.000.000 krónur, þegar stefndi gekk að eignum áfrýjenda á grundvelli ábyrgðarinnar á tímabilinu 16. júní 2009 til 6. júlí sama ár. Einnig gera þrír áfrýjenda, hver fyrir sitt leyti, eftirfarandi kröfur á hendur stefnda: Áfrýjandinn Eignarhaldsfélagið Vor hf. krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 100.559.156 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 5.939.483 krónum frá 10. júní 2009 til 22. sama mánaðar, en af fyrstgreindri fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags. Áfrýjandinn ÁP fjármál ehf. krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 173.547.556 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 167.171.204 krónum frá 22. júní 2009 til 2. júlí sama ár, en af fyrstgreindri fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags. Áfrýjandinn GSP fjármál ehf. krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 175.893.288 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 81.799.911 krónum frá 16. júní 2009 til 22. sama mánaðar, en af 106.897.556 krónum frá þeim degi til 30. júní 2009, en af fyrstgreindri fjárhæð frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefjast áfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjendum verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjendur, Eignarhaldsfélagið Vor hf., ÁP fjármál ehf., GSP fjármál ehf. og EP fjármál ehf., greiði stefnda, Banque de Havilland S.A., óskipt 1.500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. febrúar 2012.
I.
Mál þetta, sem var dómtekið föstudaginn 20. janúar 2012, var höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu, dags. 14. september 2010, sem þingfest var 4. nóvember sama ár, af Eignarhaldsfélaginu Vori hf., ÁP fjármálum ehf., EP fjármálum ehf. og GSP fjármálum ehf., sem öll eru til heimilis að Smáratorgi 3 í Kópavogi, gegn Banque de Havilland S.A., Avenue J.F. Kennedy 35a í Lúxemborg.
Stefnendur gera sameiginlega þá kröfu að viðurkennt verði með dómi að ábyrgð að fjárhæð 450.000.000 króna, samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingu dagsettri í desember 2004, er gefin var út af stefnanda, Eignarhaldsfélaginu Vori hf., til handa stefnda til tryggingar greiðslu á láni er stefndi veitti Bague S.A. þann 30. desember 2004, að fjárhæð 1.400.000.000 króna, hafi verið fallin niður þegar stefndi gekk að eignum stefnenda til greiðslu ábyrgðarinnar á tímabilinu 16. júní til 6. júlí 2009. Þá eru gerðar eftirfarandi fjárkröfur á hendur stefnda:
A) Stefnandi, Eignarhaldsfélagið Vor hf., krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 100.559.156 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, ásamt síðari breytingum, af 5.939.483 krónum frá 10. júní 2009 til 22. júní 2009, en af 100.559.156 krónum frá þeim tíma til greiðsludags.
B) Stefnandi, ÁP fjármál ehf., krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 173.547.556 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, ásamt síðari breytingum, af 167.171.204 krónum frá 22. júní 2009 til 2. júlí 2009, en af 173.547.556 krónum frá þeim tíma til greiðsludags.
C) Stefnandi, GSP fjármál ehf., krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 175.893.288 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, ásamt síðari breytingum, af 81.799.911 krónum frá 16. júní 2009 til 22. júní 2009, en af 106.897.556 krónum frá þeim tíma til 30. júní 2009, en af 175.893.288 krónum frá þeim tíma til greiðsludags.
Stefnendur krefjast málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningum eða að mati dómsins. Er þess krafist að tekið verði tillit til þess við ákvörðun málskostnaðar að stefnendur reki ekki virðisaukaskattskylda starfsemi.
Málið var þingfest 4. nóvember 2010 og var sótt þing af hálfu stefnda á grundvelli 18. gr. Lúganósamningsins um dómsvald og fullnustu dóma í einkamálum. Krafðist stefndi frávísunar málsins vegna rangs varnarþings og lagði fram skriflega bókun þess efnis ásamt fylgiskjölum. Þá krafðist stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins. Af hálfu stefnenda var frávísunarkröfunni mótmælt og þess krafist að henni yrði hafnað. Málið var munnlega flutt um þennan ágreining 25. febrúar 2011. Með úrskurði 9. mars 2011 var komist að þeirri niðurstöðu að íslenskir dómstólar ættu lögsögu í málinu samkvæmt 17. gr. Lúganósamningsins og því var frávísunarkröfu stefnda hafnað.
Í þinghaldi 17. maí 2011 lagði stefndi fram greinargerð ásamt ýmsum gögnum. Krefst hann sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst hann þess, hver sem niðurstaða málsins verður, að stefnendur verði dæmdir til að greiða sér málskostnað samkvæmt mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi.
Að lokinni aðalmeðferð 20. janúar sl. var málið dómtekið.
II.
Málsatvik
Stefnandi, Eignarhaldsfélagið Vor hf., (Vor hf.) hefur verið í viðskiptum við Kaupthing Bank Luxembourg S.A. (Kaupthing Bank) síðan 2002, en þá var opnaður reikningur félagsins hjá bankanum nr. 400079. Víða í gögnum málsins er talið að félagið sé einkahlutafélag en samkvæmt fyrirtækjaskrá og öðrum gögnum málsins mun það vera hlutafélag.
Á stjórnarfundi hjá stefnanda, Vori hf., sem haldinn var 8. nóvember 2004, var samþykkt að selja hlut félagsins og dótturfélaga í Baugi Group hf. og Högum hf. félagi, sem yrði að meirihluta í eigu Ástu, Erlu og Guðrúnar Pétursdætra. Mun stefnandi, Vor hf., á þessum tíma hafa verið í eigu föður þeirra, Péturs heitins Björnssonar. Fram kemur í fundargerð stjórnarfundarins að umrætt félag, sem ætlunin var að keypti hlutina, yrði „í umsjón“ Kaupthing Bank í Lúxemborg. Þá er þar vikið að öðrum, væntanlegum eigendum félagsins sem og gengi hlutabréfanna í viðskiptunum. Á stjórnarfundi sama félags 17. sama mánaðar var einnig samþykkt að félagið myndi standa að stofnun nýs félags, Bague S.A., sem yrði vistað hjá Kaupthing Bank. Skyldi nýja félagið kaupa alla hluti stefnanda, Vors hf., í Baugi Group hf. sem og í Högum hf. Fyrir liggur að kaup Bague S.A. á framangreindum hlutum voru meðal annars fjármögnuð með láni frá Kaupthing Bank, eins og vikið verður að síðar. Í fundargerð stjórnarfundarins 17. nóvember 2004 er áréttað að Bague S.A. myndi vera að meiri hluta í eigu dætra Péturs. Í sömu fundargerð segir orðrétt: „Jafnframt er samþykkt að Vor veiti BAGUE ábyrgð sem nemi allt að 450 milljónum ISK vegna kaupanna. Ábyrgðin er veitt til þriggja ára og ákveðin ábyrgðarþóknun sem metin er hæfileg af Kaupthing Bank, 2-3% á ári.“
Af framlögðum gögnum má ráða að gengið hafi verið frá þessum viðskiptum 30. desember 2004. Þann dag var af hálfu stjórnar Bague S.A., og með undirrituðu samþykki eigenda félagsins, stefnanda Vors hf., Austursels ehf. og Stefáns Hilmarssonar, fallist á að ganga til samninga við Kaupthing Bank um fyrrgreint lán og kaupa 63.839.668 hluti í Baugi Group hf. Einnig var samþykkt að leggja eignir félagsins á reikning þess hjá bankanum sem lagður var að veði til tryggingar á efndum lánssamningsins.
Í málinu liggja einnig fyrir tvær fundargerðir stjórnarfundar í Vori hf. sem báðar eru dagsettar 30. desember 2004. Í annarri þeirra, sem er rituð á íslensku, kemur meðal annars fram að þennan dag eða daginn eftir yrði gengið frá sölu á hlutabréfunum í Baugi Group hf. til Bague S.A. Strax eftir áramót yrði gengið frá ábyrgðarskuldbindingu Vors hf. og vísað um það til ákvörðunar síðasta fundar 17. nóvember sama ár. Fundargerðin er undirrituð af Pétri Björnssyni og Gunnari Þór Þórarinssyni hdl. sem skráði hana. Í hinni fundargerðinni, sem er rituð á ensku, kemur fram að samþykkt hafi verið að gefa út ábyrgðaryfirlýsingu til tryggingar á skuld Bague S.A. samkvæmt lánssamningi félagsins við Kaupthing Bank. Ekki er þar vikið að takmörkunum á ábyrgðinni. Þá er þar samþykkt að leggja eignir að fjárhæð 450.000.000 króna, sem væru á reikningi stefnanda, Vors hf., nr. 400079, að veði til tryggingar á ábyrgðinni. Þessi fundargerð er undirrituð af stjórn félagsins, Pétri Björnssyni og eiginkonu hans Sigríði Hrefnu Magnúsdóttur, sem og dætrum þeirra, Ástu, Erlu og Guðrúnu.
Lánssamningur milli Kaupthing Bank sem lánveitanda og Bague S.A. sem lántaka, að fjárhæð allt að 1.400.000.000 króna, er einnig dagsettur 30. desember 2004. Samningurinn er á ensku en einstök ákvæði hans liggja fyrir í þýðingu löggilts skjalaþýðanda. Í lánssamningnum kemur fram að lánveitandi hafi farið fram á tryggingu, „samkvæmt skilgreiningu í samningnum og tryggingarskjölum“ (e. as defined in the agreement and Security Documents) til að tryggja efndir og framkvæmd á öllum samningsskuldbindingum lántaka. Í grein 7 í samningnum kemur fram að endurgreiða skuli lánið á „lokagjalddaga“ (e. Final Maturity Date). Fram kemur í hugtakaskýringum samningsins að með lokagjaldaga væri átt við „lok vaxtatímabils“ (e. end of Interest period). Í grein 6.3 segir að vaxtatímabilið skyldi vera tólf mánuðir frá útgreiðslu (e. drawdown) og að lántaki ætti að greiða vexti við lok vaxtatímabils.
Á forsíðu lánssamningsins kemur fram að hann byggist á skilmálum tveggja veðsamninga og ábyrgðaryfirlýsingar (e. This agreement benefits from terms of two Pledge agreements and a guarantee). Í hugtakaskýringum lánssamningsins kemur fram að ábyrgðaryfirlýsing frá ábyrgðaraðila væri meðal fjármálaskjala (e. Financing Documents) en auk hennar væri lánssamningurinn og tveir veðsamningar meðal fjármálaskjala. Þar kemur einnig fram að með ábyrgðaraðila sé átt við „Eignarhaldsfélagið Vor ehf. sem ábyrgist lánið skilyrðalaust að upphæð ISK 450.000.000“ (e. Eignarhaldsfélagið Vor ehf. who will guarantee the Facility unconditionally up to an amount of ISK 450.000.000). Löggilt afrit allra fjármálaskjala urðu að liggja fyrir áður en lánið yrði greitt út, sbr. fylgiskjal 1 með samningnum og grein 4.1 í honum. Þá var útgreiðsla háð því skilyrði að skrifleg færslubeiðni kæmi frá lántaka, sbr. gr. 5.2. og 5.3 í samningnum.
Í málinu liggur fyrir ábyrgðaryfirlýsing, dagsett í desember 2004, frá stefnanda, Vori hf., til Kaupthing Bank, sem er undirrituð af Pétri heitnum og eiginkonu hans ásamt Ástu, Erlu og Guðrúnu Pétursdætrum fyrir hönd stefnanda, Vors hf. Þessi yfirlýsing er gerð á bréfsefni Kaupthing Bank og efst á skjalinu stendur á íslensku „Sjálfskuldarábyrgð“. Yfirlýsingin er að öðru leyti á ensku og liggur hún fyrir í málinu í þýðingu löggilts skjalaþýðanda. Þar kemur fram að stefnandi, Vor hf., hafi samþykkt að ábyrgjast skuldbindingar Bague S.A. samkvæmt fyrrgreindum lánssamningi að upphæð 1.400.000.000 króna í samræmi við ákvæði ábyrgðaryfirlýsingarinnar. Þar lofar ábyrgðaraðili að ábyrgjast skilyrðislaust að greiða bankanum með reiðufé við fyrstu skriflegu beiðni hverja þá upphæð sem ógreidd væri samkvæmt lánssamningnum. Ábyrgðin var þó takmörkuð við 450.000.000 króna. Fram kemur í yfirlýsingunni að ábyrgðin væri „viðvarandi ábyrgð“ (e. continuing guarantee) og að hún félli ekki niður að hluta eða öllu leyti við það að bankinn tæki við einhverjum fjármunum þá eða síðar. Þar sagði enn fremur að ábyrgðin væri í gildi þar til öllum skuldbindingum Bague S.A. samkvæmt lánssamningnum væri lokið. Mælt var fyrir um það í yfirlýsingunni að um ábyrgðina giltu íslensk lög. Í ábyrgðaryfirlýsingunni var ekki getið um þá tímatakmörkun eða ábyrgðarþóknun sem vikið hafði verið að í fundargerð stjórnarfundar Vors ehf. 17. nóvember 2004.
Fyrir liggur að í desember 2005 arfleiddi Pétur Björnsson dætur sínar að eignarhlutum sínum í stefnanda, Vori hf., og féll þriðjungur hluta í félaginu til hverrar þeirra. Í kjölfarið mun hafa verið hafist handa við að skipta eignum félagsins milli fjögurra félaga, stefnanda, ÁP fjármála ehf., í eigu Ástu Pétursdóttur, stefnanda, GSP fjármála ehf., í eigu Guðrúnar Sylvíu Pétursdóttur, stefnanda, EP fjármála ehf., í eigu Erlu Pétursdóttur og stefnanda, Vors hf., sem systurnar áttu í sameiningu í jöfnum hlutföllum. Hinn 6. september 2006 var skiptingu Vors hf. formlega lokið og hún tilkynnt til fyrirtækjaskrár ríkisskattstjóra.
Í kjölfar skiptingarinnar stofnuðu nýju félögin þrjú öll til viðskipta við Kaupthing Bank, líkt og stefnandi, Vor hf., hafði áður gert, og opnuðu þar hvert sinn reikning. Þá annaðist bankinn m.a. daglega umsýslu félagsins Bague S.A., en félög á vegum bankans sátu í stjórn þess og sátu starfsmenn hans stjórnarfundi í Bague S.A. fyrir hönd þeirra.
Með bréfi, dags. 21. nóvember 2008, til Bague S.A. var tilkynnt um gjaldfellingu lánssamningsins frá 30. desember 2004 og að heimilt væri að leita fullnustu í öllum tryggingum fyrir efndum lánsins. Þar kemur fram að ástæða gjaldfellingarinnar væri að verðgildi þeirra verðmæta, sem sett hefðu verið að veði til tryggingar á efndum samningsins, hefði lækkað niður fyrir umsamið 100% lágmark í tvo daga samfellt og að lántaki hefði ekki lagt fram viðbótartryggingar til að ná tryggingarþekjunni upp í 130%. Krafa samkvæmt samningnum næmi 2.494.365 evrum auk vaxta og kostnaðar. Lántaka var veittur frestur til 25. nóvember 2008 til að greiða skuldina. Ef lántaki yrði ekki við því áskildi bankinn sér rétt til að leita fullnustu í hinum veðsettu eignum. Nægði það ekki til að efna skuldbindingu lántaka eða ef ekki tækist að selja hinar veðsettu eignir var upplýst að bankinn kynni að leita eftir því að ábyrgðaraðili legði fram það sem upp á vantaði. Afrit af þessari tilkynningu var send stefnanda, Vori hf., og athygli vakin á því að bankinn kynni að krefjast efnda af ábyrgðaraðila ef bankanum bærist ekki greiðsla frá lántaka.
Með bréfum, dags. 9. desember 2008, tilkynnti bankinn stefnendum að greiðsla frá lántakanum Bague S.A. hefði ekki borist. Þá hefði ekki verið unnt að selja hinar veðsettu eignir. Krafan næmi á þeirri stundu 43.641,54 breskum pundum, 411.403,69 evrum og 503.165.672 krónum. Enn fremur var athygli vakin á því að eftir skiptingu á stefnanda Vori hf. hefðu þrjú ný félög, stefnendur ÁP fjármál ehf., GSP fjármál ehf. og EP fjármál ehf., tekið yfir eignir og skuldbindingar ábyrgðaraðila. Þar með hefðu félögin tekið yfir hluta af skyldum ábyrgðaraðila samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingunni og um það vísað til 3. mgr. 133. gr. laga nr. 2/1995. Krafa var gerð um að stefnendur greiddu samtals 450.000.000 króna í hlutfalli við þau verðmæti sem kæmu í hlut hvers þeirra við skiptinguna. Í bréfi bankans til stefnanda, Vors hf., var tekið fram að bankinn áskildi sér rétt til að ganga að þeim eignum sem væru inni á reikningi nr. 400079 til að efna skuldbindingu félagsins samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingunni.
Með bréfi lögmanns stefnenda 15. desember 2008 var því hafnað að ábyrgðin væri enn þá í gildi og var innheimtuaðgerðum bankans mótmælt. Af hálfu bankans var þessum mótmælum svarað með bréfi 14. maí 2009. Þar var sjónarmiðum um að ábyrgðin væri ekki lengur í gildi mótmælt og því m.a. haldið fram að lánið hefði verið framlengt árlega að beiðni lántaka, Bague S.A., og eigenda félagsins. Vegna tengsla lántaka og stefnenda gætu félögin ekki borið því við að hafa verið grandlaus um framlengingu lánssamningsins. Enn fremur væri tekið fram í ábyrgðaryfirlýsingunni að ábyrgðin væri viðvarandi og gilti þar til öllum skuldbindingum Bague S.A. samkvæmt lánssamningnum væri lokið. Var krafan samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingunni áréttuð og tekið fram að ef greiðsla bærist ekki innan tíu opnunardaga banka (e. banking days) yrði gengið að eignum á handveðsettum reikningum stefnenda, Vors hf., ÁP fjármála ehf. og GSP fjármála ehf.
Með tveimur færslum 16. júní 2009 voru millifærðar af reikningi stefnanda, Vors hf., nr. 400079 hjá bankanum samtals 5.939.483 krónur í reiðufé og hinn 18. júní seldar eignir á reikningnum fyrir 94.619.673 krónur, samtals 100.559.156 krónur. Hinn 16. og 29. júní 2009 voru enn fremur millifærðar af reikningi GSP fjármála ehf. nr. 401785 samtals 150.795.643 krónur í reiðufé og 19. júní 2009 seldar eignir á reikningnum fyrir 25.097.645 krónur, samtals 175.893.288 krónur. Hinn 18. júní 2009 voru einnig seldar eignir á reikningi ÁP fjármála ehf. nr. 401777 fyrir 167.171.204 krónur og 6. júlí sama ár millifærðar af sama reikningi 6.376.352 krónur, samtals 173.547.556 krónur. Fjármununum var ráðstafað inn á reikning Bague S.A. hjá bankanum. Þessum ráðstöfunum bankans var mótmælt af hálfu stefnenda með bréfi 27. ágúst 2009. Kröfðust stefnendur þess að fjármunirnir yrðu færðir aftur yfir á reikninga þeirra. Þeirri beiðni var hafnað af hálfu bankans með bréfi 8. september 2009.
Hinn 12. júlí 2009 var eignum og skuldum Kaupthing Bank skipt milli stefnda, Banque de Havilland S.A. og Pillar Securitisation S.à r.l. Stefndi mun hafa haldið áfram bankastarfsemi þeirri sem Kaupthing Bank hafði haft með höndum á grundvelli leyfis sem gefið hafði verið út í samræmi við lög frá 5. apríl 1993 sem gilda í Lúxemborg um fjármálastarfsemi. Samkvæmt tölvuskeyti frá yfirlögfræðingi stefnda 4. janúar 2011 er því lýst yfir að samkvæmt skiptingaráætlun félaganna féllu kröfur „vegna uppgjörs/veðsetninga o.s.frv. sem gengið hefur verið frá fyrir 10. júlí 2009“ á stefnda en ekki Pillar Securitisation S.à r.l. Þegar vísað verður til stefnda í eftirfarandi umfjöllun er bæði átt við Kaupthing Bank og Banque de Havilland S.A.
III.
1. Málsástæður og lagarök stefnenda
Stefnendur byggja kröfur sínar á því að þegar stefnandinn, Vor hf., hafi gengist í seljandaábyrgð fyrir láni Bague S.A. hjá stefnda hafi legið fyrir að um tímabundna ábyrgð væri að ræða og að um þetta hafi stefnda mátt vera kunnugt. Um þessa vitneskju stefnda vísa stefnendur til tiltekinna gagna, einkum samþykktar á stjórnarfundi Vors hf. 17. nóvember 2004 og tölvuskeytis milli Hreins Loftssonar hrl. og yfirmanns lögfræðisviðs stefnda, Eggerts J. Hilmarssonar, frá 18. sama mánaðar, þar sem sá síðarnefndi tjáir þá skoðun sína að eðlilegt sé að Bague S.A. greiði Vori 2-3% ábyrgðarþóknun. Í því efni vekja stefnendur athygli á því að stjórn Bague S.A. hafi alfarið verið í höndum starfsmanna stefnda og hafi yfirmaður lögfræðisviðs stefnda verið stjórnarformaður í Bague S.A. og annast greiðslur ábyrgðarþóknunarinnar. Stefnendur telja að þessi tölvusamskipti gefi til kynna að stefndi hafi vitað af því að ábyrgðaryfirlýsingin hafi átt að vera tímabundin. Um þetta atriði vísa stefnendur einnig til tölvuskeytis þáverandi forstjóra stefnda, Magnúsar Guðmundssonar, til Hreins Loftssonar hrl. frá 30. desember 2004, þar sem staðfest er móttaka gagna sem vísi til fyrrgreindrar ákvörðunar stjórnar Vors hf.
Þessu til stuðnings vísa stefnendur enn fremur til tölvuskeytis starfsmanns bankans, Björns Knútssonar, 14. mars 2008, en hann hafi starfað sem sjóðstjóri hjá stefnda og farið með málefni stefnenda. Kveða stefnendur að í tölvuskeytinu komi skýrt fram að starfsmönnum bankans hafi verið kunnugt um inntak skuldbindingar Vors hf., en þar segi meðal annars að lánið hafi verið veitt í lok árs 2004 og að um hafi verið að ræða tveggja til þriggja ára verkefni. Enn fremur að ábyrgðin hafi ekki verið endurnýjuð þegar Vori hf. hafi verið skipt upp.
Stefnendur taka fram að þeir telji að ábyrgðin hafi fallið niður við framlengingu lánssamnings Bague S.A. við stefnda um áramótin 2005/2006. Ef hins vegar verði litið svo á að ábyrgðin hafi haldið gildi sínu eftir það þá geti hún ekki hafa gilt lengur en til 10. nóvember 2007 þar sem hún hafi frá upphafi verið í beinum tengslum við samning aðila um sölurétt Bague S.A. á hlutabréfum í Baugi Group hf. Þar vísa stefnendur til þess að með samningi 24. nóvember 2004 hafi verið samið um sölurétt Bague S.A. á hlutum í Baugi Group hf. fyrir verð sem skilgreint var í samningnum. Samkvæmt samningnum yrði þessi söluréttur virkur 10. nóvember 2007. Hluthafar í Bague S.A. hafi ákveðið að nýta ekki þennan sölurétt heldur halda hlut Bague S.A. í Baugi Group hf. óskertum. Þetta hafi þýtt að lán Bague S.A. samkvæmt endurnýjuðum lánssamningi hafi ekki verið greidd upp. Stefnendur vísa áfram til tölvuskeytis starfsmanns stefnda 14. mars 2008. Þar komi fram að þar sem sölurétturinn hafi ekki verið nýttur væri þörf á áframhaldandi fjármögnun. Væri stefndi tilbúinn að ræða það með því skilyrði að eigendur Bague S.A. myndu veita persónulega ábyrgð fyrir skuldbindingunni. Telja stefnendur þetta vera til marks um að stefndi hafi litið svo á að engar slíkar tryggingar væru til staðar. Samningar um þessa fjármögnun hafi ekki tekist við hluthafa Bague S.A. og engar ábyrgðir því veittar. Sú ábyrgðarskuldbinding sem deilan snúist um hafi aldrei komið til umræðu í samhengi við endurfjármögnun haustið 2007. Byggja stefnendur á því að augljóst sé af gögnum málsins að stefndi jafnt sem stefnendur hafi litið svo á að ábyrgðarskuldbindingarnar væru á því tímamarki niður fallnar.
Stefnendur vísa í þessu sambandi enn fremur til tölvuskeytis forstjóra stefnda frá 19. apríl 2008. Þar komi fram að hin umdeilda ábyrgð hafi verið „tekin út“ án samþykkis stefnda þegar stefnanda, Vori hf., hafi verið skipt upp. Hafi stefndi ekkert aðhafst „enda allt í blóma“, eins og segi í tölvuskeytinu, auk þess sem bankinn hafi með því verið að gæta sanngirnis „þar sem ábyrgðin var ekki frá öllum hluthöfum“ Bague S.A.
Eins og að framan greinir byggja stefnendur á því að ábyrgðarskuldbindingin hafi fallið úr gildi þegar um áramótin 2005/2006 þó að upphaflega hafi ætlunin verið að hún gilti til þriggja ára. Ástæðan sé sú að hún hafi aldrei getað haldið gildi sínu umfram gildistíma lánssamningsins án samþykkis ábyrgðaraðila.
Í þessu sambandi vísa stefnendur til þess að samkvæmt 7. gr. lánssamnings Bague S.A. og stefnda, sbr. gr. 1.1. og gr. 6.3., skyldi endurgreiða lánið tólf mánuðum frá því það var tekið. Þegar kom að gjalddaga lánsins hafi verið ákveðið að framlengja lánssamninginn. Í þessu sambandi telja stefnendur afar mikilvægt að fram komi að starfsmenn stefnda hafi borið alfarið ábyrgð á stjórn Bague S.A. Þeir hafi einir setið í stjórn félagsins og annast framkvæmdastjórn þess. Þannig hafi Eggert J. Hilmarsson, þáverandi yfirlögfræðingur stefnda, undirritað alla gerninga í málinu fyrir hönd Bague S.A. Hann ásamt öðrum starfsmönnum stefnda hafi því setið beggja vegna borðsins og tekið meðal annars árlega ákvarðanir um að framlengja lánsskuldbindingar Bague S.A. við bankann til tólf mánaða í senn allt til áramóta 2007/2008. Í engu þessara tilvika hafi verið aflað samþykkis stefnanda, Vors hf., á nýju samkomulagi, sem ábyrgðaraðila, eða þess farið á leit að hann samþykkti framlengingu ábyrgðarinnar. Ekkert komi fram í nefndri ábyrgðaryfirlýsingu um að ábyrgðin hafi átt að gilda lengur en á lánstímanum, eins og hann hafi verið ákvarðaður í lánssamningnum. Byggja stefnendur á því að yfirlýsingin hafi ekki veitt heimild til að skuldbinda stefnanda, Vor hf., eða þá aðila sem leiddu rétt sinn eða skyldu frá því félagi, lengur en þar kemur fram án þeirra atbeina. Aldrei hafi verið leitað samþykkis stefnenda, ÁP fjármála ehf., EP fjármála ehf. eða GSP fjármála ehf., sem hafi tekið við hluta af eignum og skuldum stefnanda, Vors hf., við skiptingu félagsins á árinu 2006 fyrir framlengingu ábyrgðarskuldbindingarinnar. Því sé ljóst að bankann hafi skort allar heimildir til að ganga að stefnendum á grundvelli ábyrgðaryfirlýsingarinnar.
Stefnendur árétta í þessu sambandi að skjalfest sé að starfsmenn stefnda hafi ekki litið svo á að ábyrgðin væri í gildi. Þá liggi fyrir að starfsmenn stefnda hafi f.h. Bague S.A. greitt ábyrgðarþóknun til Vors hf. árið 2005 en aldrei eftir það. Þetta telja stefnendur að staðfesti að ábyrgðin hafi verið niður fallin eftir að nefndur lánssamningur var endurnýjaður og að aðilar málsins hefðu allir litið svo á. Stefnendur benda einnig á að aldrei í ársreikningum stefnanda, Vors hf., eða félaganna, sem tóku við eignum og skuldum Vors hf. við skiptingu eigna og skulda félagsins, hafi verið getið um framangreinda ábyrgð eftir að lánssamningurinn var endurnýjaður. Ekkert hafi heldur komið fram um ábyrgðina í skiptingaráætlun Vors hf. Starfsmenn stefnda hafi haft aðgang að þessum upplýsingum en ekki hreyft neinum andmælum. Stefnendur hafi enn fremur allir verið í viðskiptum við stefnda. Í reglulegum kynningum á stöðu þeirra gagnvart bankanum hafi hvergi verið getið um nefnda ábyrgðarskuldbindingu.
Af hálfu stefnenda, ÁP fjármála ehf. og GSP fjármála ehf., er enn fremur á því byggt að stefnda hafi skort heimild til að taka fjármuni af reikningum þeirra og færa á reikning Bague S.A. Þrátt fyrir óskir um að stefndi sýndi fram á heimild sína til þess að ganga á innstæður þessara félaga hjá stefnda án samþykkis þeirra hafi hann ekki fært fullnægjandi rök fyrir þeim aðgerðum sínum. Fyrrgreindir stefnendur telja að slíkar heimildir hafi ekki verið til staðar, reikningar þeirra hafi ekki verið veðsettir vegna skulda Bague S.A eða ábyrgðarskuldbindinga þeim tengdum. Af þeim sökum lítur stefnandi svo á að þessar heimildir hafi ekki verið fyrir hendi og því beri stefnda að endurgreiða þessa fjármuni.
Um kröfur sínar vísa stefnendur til meginreglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi loforða og meginreglna kröfuréttarins um lok tímabundinnar kröfuábyrgðar. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styðji stefnendur við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Þá sé krafa þeirra um málskostnað reist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Um aðild og fyrirsvar vísa stefnendur til III. kafla sömu laga Varðandi varnarþing vísa þeir til V. kafla laganna, nánar tiltekið til 3. mgr. 42. gr., eins og nánar er rakið í stefnu.
Um aðild taka stefnendur fram að þeir standi sameiginlega að málsókninni á grundvelli 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991, en kröfur þeirra verða raktar til ágreinings um sama löggerning. Þá sé stefnda stefnt í ljósi yfirlýsingar af hans hálfu frá 4. janúar 2011.
2. Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að ábyrgðaryfirlýsingin hafi verið í fullu gildi og að hún hafi verið til tryggingar á efndum lánssamnings stefnda og Bague S.A. Hafi ábyrgðin aldrei fallið niður, hvorki með einhliða aðgerðum stefnanda, Vors hf., við skiptingu félagsins né hefur stefndi á nokkurn hátt samþykkt slíkt. Ekki verði lögð önnur merking í texta ábyrgðaryfirlýsingarinnar en að ábyrgðin sé gild þar til skuld Bague S.A. sé að fullu greidd. Ábyrgð þessi hafi verið gefin út án nokkurra takmarkana og undirrituð af allri stjórn félagsins í desember 2004. Engin takmörkun sé í ábyrgðaryfirlýsingu um tímalengd ábyrgðar eða tímalengd láns til Bague S.A.
Stefndi vísar til þess að meta verði ábyrgðaryfirlýsingu þessa í því ljósi að meirihlutaeigendur og stjórnarmenn Vors voru einnig meirihlutaeigendur lántakans Bague S.A. og þannig hafi hagsmunir ábyrgðaraðilans legið undir varðandi lánafyrirgreiðsluna. Þá verði að horfa til umfangs þeirra viðskipta sem stefnendur stóðu í og fjárfestinga þeirra. Hafi þessum aðilum átt að vera fullkunnugt út á hvað slíkar ábyrgðaryfirlýsingar gengju.
Stefndi tekur fram að félaginu Vori hafi verið skipt upp einhliða og án innköllunar á árinu 2006. Byggir stefndi á því að ef kröfuhafi í félagi, sem hefur tekið þátt í skiptingu, fær ekki fullnustu kröfu sinnar í því félagi, beri hvert hinna þátttökufélaganna óskipta ábyrgð á skuldbindingum sem stofnast höfðu þegar upplýsingar um skiptingaráætlun var birt, sbr. 3. mgr. 133. gr. laga nr. 2/1995 og 3. mgr. 107. gr. laga nr. 138/1994. Stefndi tekur fram að í kjölfar skiptingarinnar í desember 2006 hafi verið óskað eftir því að ákveðnar eignir yrðu fluttar yfir á nýja reikninga stefnenda, ÁP fjármála ehf., EP fjármála ehf. og GSP fjármála ehf. Þar sem þeir reikningar hafi samkvæmt stofnskjölum og löggjöf í Lúxemborg verið veðsettir stefnda til tryggingar öllum skuldum stefnenda við stefnda hafi verið fallist á flutning eignanna, enda hafi stefndi verið jafnsettur tryggingarlega. Ítrekuðum beiðnum stefnenda um útgreiðslu fjármunanna hafi verið hafnað, enda hefði slíkt rýrt veðstöðu stefnda. Stefndi byggir þannig á því að hann hafi verið í fullum rétti til að ganga að eignum stefnenda til uppgreiðslu á ábyrgð sem stefnendur höfðu gefið út til tryggingar á efndum á lánssamningi.
Stefndi telur óumdeilt í málinu að stefnendur hafi gengist í ábyrgð fyrir skuld Bague S.A. við stefnda án nokkurra takmarkana. Eins telur hann óumdeilt að lán Bague S.A. hafi ekki verið greitt á réttum tíma og áskorunum um greiðslu ekki sinnt. Þá sé óumdeilt að á gjalddaga lánssamnings í desember 2005 hafi stefndi öðlast rétt til að ganga að ábyrgð stefnenda í máli þessu. Einnig sé óumdeilt að ekki hafi verið gerður nýr lánssamningur við Bague S.A. vegna skuldarinnar. Stefndi telur jafnframt óumdeilt að skorað hafi verið á stefnanda Vor að greiða samkvæmt ábyrgðinni sem og á aðra stefnendur að greiða skuldina en að öðrum kosti yrði gengið að eignum þeirra á vörslureikningum hjá stefnda. Þá sé óumdeilt að umræddur lánssamningur hafi verið ógreiddur þegar gengið hafi verið að veðum. Þannig telur stefndi í raun óumdeilt að öll skilyrði hafi verið til staðar sem heimiluðu stefnda, samkvæmt þeim samningum sem hann hafði gert, að innheimta ábyrgð samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingunni og ganga að ábyrgðaraðilum til greiðslu ábyrgðar, m.a. með því að ganga að eignum á vörslureikningum sem veðsettir höfðu verið stefnda.
Stefndi mótmælir því að samið hafi verið um tímabundna ábyrgð. Um það vísar stefndi til ábyrgðaryfirlýsingarinnar eins og hún var afhent stefnda. Stefndi eigi að geta treyst því að efni ábyrgðaryfirlýsingarinnar sé í samræmi við undirritað skjal, sem samþykkt hafi verið af allri stjórn félagsins. Hafi þessi yfirlýsing verið forsenda lánveitingar af hálfu stefnda og á henni byggt. Þá kveðst stefndi alfarið hafna þeim sjónarmiðum stefnenda að það hafi legið fyrir að um tímabundna ábyrgð væri að ræða. Tilvísun í seljandaábyrgð sé einnig hafnað, enda beri skjöl með sér að um hafi verið að ræða sjálfskuldarábyrgð á lánssamning sem einungis var takmörkuð af fjárhæð.
Stefndi kveður það ekki veita sönnur á að ábyrgðin hafi verið tímabundin þó að stefnandi Vor hafi ekki fengið greidda þóknun fyrir hana. Ábyrgðarþóknun hafi verið ákveðin milli Bague S.A. og stefnanda Vors og greidd af Bague S.A. Upplýsingagjöf starfsmanns stefnda um eðlilega þóknun fyrir ábyrgðina breyti því ekki að ábyrgðin hafi ekki verið tímabundin. Þó að Bague S.A. hafi hætt að greiða ábyrgðarþóknun hafi það engin áhrif á gildi ábyrgðar gagnvart þriðja manni sem hefur tekið við ábyrgðarloforði.
Stefndi telur enn fremur að staðfesting fyrrverandi forstjóra stefnda á móttöku gagna í tölvuskeyti veiti ekki sönnur fyrir því að ábyrgðaryfirlýsingin hafi átt að vera tímabundin. Ekkert liggi fyrir um hvaða gögn hann hafi verið að taka á móti og því síður að það skipti máli um gildi ábyrgðaryfirlýsingarinnar.
Stefndi bendir á að stefnendur hafi ekki lagt fram fundargerð stjórnar Vors frá 30. desember 2004 þar sem samþykkt hafi verið án nokkurra skilyrða að veita ábyrgð til handa stefnda vegna láns Bague S.A., en leggi mikið upp úr fundargerð frá 17. nóvember 2004, þar sem bókað sé að félagið veiti ábyrgð til þriggja ára og að þóknun verði 2-3%.
Stefndi byggir enn fremur á því að það sé eðli ábyrgða að ekki sé unnt að takmarka gildistíma þeirra þannig að þær falli niður ef skuldin sem hún eigi að tryggja er í vanskilum. Ef komist verði að þeirri niðurstöðu að ábyrgðin hafi haft takmarkaðan gildistíma verði að líta svo á að heimilt hafi verið að veita ábyrgð í allt að þrjú ár. Lánið sem veitt hafi verið ábyrgð fyrir hafi verið til eins árs eða innan tíma ábyrgðar. Ekkert í ábyrgðinni hafi lagt á stefnda skyldur til að kalla eftir greiðslu ábyrgðar umfram almennar fyrningarreglur. Engin sérákvæði hafi verið í hinni veittu ábyrgð sem hafi leitt til þess að hún félli niður af einhverjum ástæðum öðrum en með greiðslu skuldarinnar eða almennum fyrningarreglum. Hvorugt eigi hér við.
Stefndi mótmælir því enn fremur að ábyrgðaryfirlýsingin hafi fallið niður 10. nóvember 2007 eins og stefnendur haldi fram. Ekki verði séð að nein tenging hafi verið milli lánssamningsins og samnings um sölurétt Bague S.A. í Baugi Group hf. Ekki sé heldur minnst á sölurétt í fundargerð stjórnar Vors 17. nóvember 2004. Þá áréttar stefndi að á stjórnarfundi allra stjórnarmanna 30. desember 2004 samkvæmt undirritaðri fundargerð hafi verið samþykkt að veita ábyrgðina án nokkurra fyrirvara eða tenginga við sölurétt milli Bague S.A. og Baugs Group hf. Þá sé málsástæða þessi óskiljanleg þegar litið sé til þess að söluréttur þessi varð virkur í nóvember 2007 og aftur í nóvember 2010. Þá fari þessi málsástæða ekki saman við að lánssamningur stefnda við Bague S.A. hafi verið til eins árs.
Stefndi telur að tölvupóstur starfsmanns stefnda 14. mars 2008 hafi ekki falið í sér viðurkenningu á niðurfellingu ábyrgðar stefnenda, heldur lögvillu um að við skiptingu stefnanda Vors í fleiri félög hafi ábyrgðin fallið sjálfkrafa niður. Þá tekur stefndi fram að þessi póstur hafi verið sendur í tengslum við samskipti, þar sem Bague S.A. hafi verið að leita leiða til að framlengja lánssamning sinn við stefnda. Sú ákvörðun að nýta ekki sölurétt Bague S.A. hafi verið alfarið ákvörðun eigenda félagsins og í framhaldi af þeirri ákvörðun hafi félagið þurft að leita lengri fjármögnunar þar sem næsti söluréttur hafi ekki orðið virkur fyrr en árið 2010. Þar sem upphaflega lánið hafi verið ógreitt síðan í desember 2005 hafi verið ljóst að stefndi hafi ekki getað framlengt lánssamning til 2010 öðruvísi en að endurnýja ábyrgðir. Þessi tölupóstsamskipti beri með sér að stefndi hafi ekki haft sömu trú á eignum Bague S.A. og eigendur félagsins, sem hafi að mestu verið sömu aðilar og hafi átt stefnanda Vor. Því hafi verið eðlilegt að stefndu settu þetta skilyrði fyrir formlegri framlengingu lánsins, enda hefði nýtt lán til Bague S.A. hugsanlega haft í för með sér að eldri ábyrgð, tengd eldri lánasamningi, félli niður.
Stefndi hafnar enn fremur alfarið þeirri túlkun stefnenda að ábyrgðarskyldan hafi aldrei getað haldið gildi sínu umfram gildistíma lánssamningsins án samþykkis ábyrgðaraðila. Stefnandi Vor hafi tekið ákvörðun um að ábyrgjast hluta af láni Bague S.A. og engar takmarkanir hafi verið á henni um gildistíma. Í ábyrgðaryfirlýsingunni hafi verið tekið fram að ábyrgðin gilti þar til skyldur lántaka samkvæmt lánssamningi Bague S.A. við stefnda væru að fullu efndar. Stefndi mótmælir þeim skilningi stefnenda að ábyrgðaryfirlýsing hafi fallið niður þegar komið hafi að gjalddaga lánasamningsins. Þvert á móti megi líta svo á að þá fyrst hafi ábyrgðin gjaldfallið þannig að unnt væri að krefjast greiðslu samkvæmt henni. Lán Bague S.A. hafi verið í vanskilum samkvæmt efni sínu frá því í desember 2005. Aðilar hafi sammælst um að lánið yrði ekki sett í innheimtu meðan unnið væri að lausn málsins, en skjölum eða skilmálum lánasamnings hafi ekki verið breytt á nokkurn hátt. Því hafi ábyrgðaryfirlýsing stefnenda verið í fullu gildi þegar gengið hafi verið að veðum í júní og júlí 2009. Stefndi hafi því verið í fullum rétti til að ganga að veðum til tryggingar skuldinni. Dráttur á að ganga að þeim hafi alfarið verið til hagsbóta fyrir stefnendur, enda hámarksfjárhæð tryggingar miðuð við ákveðna krónutölu og því hafi krafa stefnda á hendur stefnendum ekki hækkað á þeim tíma.
Af hálfu stefnda er því mótmælt að starfsmenn hans hafi borið ábyrgð á stjórn Bague S.A. eins og haldið sé fram í stefnu. Félagið hafi að mestu verið í eigu sömu aðila og stefnandinn Vor. Allar ákvarðanir sem félagið hafi tekið hafi verið teknar af eigendum. Stjórn félagsins hafi ekki tekið neinar ákvarðanir nema fyrir hafi legið beiðni og samþykki eigenda. Þetta megi glögglega sjá af gögnum málsins auk þess sem stefndi kveður þetta vera viðtekna venju hjá félögum sem hafi verið skráð með þessum hætti í Lúxemborg. Markmið eigenda félaganna hafi verið að girða fyrir að unnt væri að sjá hverjir þeir raunverulega væru.
Stefndi mótmælir því enn fremur að starfsmenn stefnda hafi setið báðum megin borðsins og ákveðið að „framlengja“ lán Bague S.A, eins og stefnendur haldi fram. Á þessum tíma hafi félaginu ekki verið unnt að greiða lánið til baka og því heimilt að ganga að stefnanda Vori um greiðslu ábyrgðar. Heldur stefndi því fram að ákveðið hafi verið að bíða með það í þeirri von að fjárhagur Bague S.A. myndi lagast og greiðslur fást frá félaginu. Í því hafi ekki falist eftirgjöf ábyrgðar, hvorki formlega né óformlega. Í því sambandi bendir stefndi á að eigendur (e. beneficial owners), bæði stefnanda Vors og síðar hinna útskiptu félaga, hafi að mestu leyti verið sömu aðilar og hafi haft hagsmuni af því að innheimtu yrði frestað.
Að mati stefnda hafi engin bindandi yfirlýsing verið fólgin í tölvupósti fyrrverandi forstjóra stefnda til Hreins Loftssonar 19. apríl 2008, enda hafi þar komið fram að hann minnti að málið hefði verið með þeim hætti sem þar var lýst. Þá hafi sá misskilningur sem þar hafi komið fram, um að ábyrgðin hefði fallið niður, verið leiðréttur með tölvuskeyti fimm dögum síðar. Í þeim tölvupósti hafi komið skýrt fram að ábyrgðin væri ennþá til staðar, enda hefði hún verið ótímabundin. Stefndi bendir á að stefnendur hafi því vitað um þessa afstöðu stefnda strax í apríl 2008. Í þeim tölvuskeytum sem fylgdu á eftir hafi komið fram af hálfu Hreins Loftssonar að verðmæti eigna Bague S.A. væri umtalsvert meira en skuldin eða hátt í fimm milljarðar króna. Virðist öll umræða um að losa sjálfskuldarábyrgð stefnanda því hafa fallið niður á þeim forsendum.
Stefndi mótmælir því að ábyrgðin hafi fallið niður þar sem hennar hafi ekki verið getið í ársreikningum stefnanda Vors eða hinna útskiptu félaga. Þá mótmælir stefndi því að hann hafi viðurkennt að ábyrgðin væri fallin niður með því að gera ekki athugasemdir við ársreikninga félaganna. Þá liggi ekkert fyrir sem sanni þessar fullyrðingar stefnenda.
Stefndi kveðst ekki geta áttað sig á þeirri málsástæðu stefnenda, ÁP fjármála og GSP fjármála, að skort hafi veðheimild yfir reikningum félaganna hjá stefnda. Skilja verði umfjöllun stefnenda um þessa málsástæðu á þann veg að krafist sé að fjármunum þessum verði skilað á reikninga þessara stefnenda hjá stefnda. Þessi sjónarmið virðist vera í andstöðu við kröfugerð um að stefnda verði gert að greiða þremur stefnendum skilgreindar fjárhæðir. En hvernig sem skilja megi þessa málsástæðu þá mótmælir stefndi henni. Um það vísar stefndi til þess að þegar stefnanda Vori hafi verið skipt upp í þrjú félög, þá hafi nýju félögin tekið óskipta ábyrgð á skuldbindingum stefnanda Vors. Þau hafi því orðið aðilar að skuldbindingu samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingunni sem gefin hafi verið út í desember 2004. Þetta hafi stefnendur viðurkennt. Við skiptinguna hafi allir aðilar átt að gera sér grein fyrir því að ábyrgðaryfirlýsingin hafi verið til staðar og að skuld Bague S.A. við stefnda hafi verið ógreidd. Nauðsynlegt hafi verið að ganga úr skugga um hver staðan á ábyrgðinni væri áður en gengið var frá skiptingaráætluninni.
Stefndi vísar einnig til þess að hin nýju félög hafi öll skrifað undir viðskiptaskilmála við stefnda þar sem þau hafi samþykkt að allar eignir á reikningum þeirra hjá stefnda væru til tryggingar skuldum þeirra við stefnda. Stefnandi Vor hafi gert hið sama við upphaf viðskipta þess við stefnda. Um þessi atriði gildi lög Lúxemborgar, eins og rakið sé í viðskiptaskilmálunum. Um þessar veðsetningar og fullnustu þeirra verði ekki dæmt að íslenskum rétti. Því verði að líta svo á að stefndi hafi verið í fullum rétti, samkvæmt samningum sínum við alla stefnendur, að ganga að veðsettum eignum og leysa þau til sín.
Stefndi kveðst byggja málatilbúnað sinn á lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Til stuðnings kröfum sínum vísar hann til almennra reglna samninga-, kaupa- og kröfuréttar, sem fái meðal annars stuðning í lögum nr. 7/1936, og til greiðsluskyldu fjárskuldbindinga. Þá sé vísað til meginreglna íslensks réttar um kröfuábyrgðir. Þá vísar stefndi til laga nr. 138/1994, einkum 3. mgr. 107. gr. laganna. Kröfu um málskostnað byggir stefndi á 1. mgr. 130. gr., sbr. 131. gr. laga nr. 91/1991. Þá kveðst stefndi byggja kröfu sína um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, en stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur aðili og því sé nauðsynlegt að fá skattinn dæmdan úr hendi stefnanda.
IV.
Forsendur og niðurstaða
Í máli þessu greinir aðila á um hvort ábyrgðaryfirlýsing, sem stefnandi, Vor hf., gaf út um áramótin 2004/2005 til tryggingar á efndum lánssamnings Bague S.A. við stefnda, dags. 30. desember 2004, hafi verið fallin úr gildi þegar stefndi leitaði fullnustu ábyrgðarkröfunnar í eignum stefnenda, Vors hf., GSP fjármála ehf. og ÁP fjármála ehf., á vörslureikningum þeirra hjá stefnda.
Í kafla II var gerð grein fyrir efni ábyrgðaryfirlýsingarinnar. Með henni samþykkti stefnandi, Vor hf., að ábyrgjast skuldbindingar Bague S.A. samkvæmt lánssamningi félagsins við stefnda þar sem stefndi lofaði veita lántaka lánafyrirgreiðslu að fjárhæð allt að 1.400.000.000 króna. Ábyrgðin var takmörkuð við 450.000.000 króna, en gildistími hennar var ekki afmarkaður að öðru leyti en því að ábyrgðin átti að gilda þar til öllum skuldbindingum samkvæmt lánssamningum væri lokið. Af hálfu stefnenda hefur því ekki verið borið við að loforð það sem fólst í þessari ábyrgðaryfirlýsingu beri að fella úr gildi á grundvelli ákvæða III. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, eða reglna um brostnar forsendur.
Aðilar eru sammála um að samkvæmt efni lánssamnings, sem ábyrgðin átti að tryggja efndir á, hafi verið við það miðað að endurgreiða bæri bæði vexti og höfuðstól um áramótin 2005/2006. Það hafi hins vegar ekki verið gert heldur hafi lánið verið framlengt á gjalddaga. Aðila greinir þó á um með hvaða hætti það hafi verið gert og hvaða áhrif það hafi haft á ábyrgðarkröfuna, eins og síðar verður vikið að.
Fyrir dóminn hafa verið lögð ýmis skjöl sem tengjast upphafi þeirra gerninga sem málið lýtur að. Auk þess hafa vitnin Hreinn Loftsson hrl., sem er eigandi Austursels ehf., en það félag er einn eigenda Bague S.A., framkvæmdastjóri stefnanda, Vors hf., til 2002, lögmaður félagsins og stjórnarformaður Baugs Group hf. til 2007, og Stefán Hilmarsson, einn eigenda Bague S.A. og fyrrum fjármálastjóri Baugs Group hf., gefið skýrslu um þau viðskipti er tengdust útgáfu ábyrgðaryfirlýsingarinnar. Enn fremur gaf Eggert J. Hilmarsson skýrslu fyrir dómi er varðar upphaf þessara viðskipta, en hann var yfirmaður lögfræðisviðs stefnda, sat fundi stjórnar Bague S.A. fyrir hönd félags sem sæti átti í stjórninni og undirritaði meðal annars lánssamninginn 30. desember 2004 fyrir hönd Bague S.A. Hins vegar gáfu fyrrum forstjóri stefnda, Magnús Guðmundsson, og fyrrum sjóðsstjóri hjá stefnda, Björn Knútsson, ekki skýrslu fyrir dómi, en gögn málsins bera með sér að þeir hafi öðrum fremur haft með höndum samskipti við fyrirsvarsmenn stefnenda og eigendur Bague S.A. fyrir hönd stefnda. Mun Björn Knútsson hafa sett það skilyrði fyrir því að gefa skýrslu í málinu að stefndi gæfi yfirlýsingu um að hann væri með því ekki að brjóta gegn þagnarskyldu samkvæmt starfslokasamningi. Þar sem slík yfirlýsing lá ekki fyrir þegar aðalmeðferð fór fram gaf hann ekki skýrslu þrátt fyrir beiðni stefnenda þar að lútandi.
Með framangreindum gögnum og þeim skýrslum sem að ofan greinir er upplýst að tilgangur þeirra viðskipta, sem lágu til grundvallar útgáfu ábyrgðaryfirlýsingarinnar, var að takmarka áhættu stefnanda, Vors hf., af eignarhaldi á hlutum í Baugi Group hf. með því að selja hlutina nýstofnuðu eignarhaldsfélagi sem skráð var í Lúxemborg og fékk heitið Bague S.A. Í skýrslu Hreins Loftssonar kemur fram að hlutur stefnanda, Vors hf., í Baugi Group hf. hafi numið um 80% af eignum félagsins og hafi því verið verulegur hluti af eignasafni þess. Á sama tíma hafi stefnandi, Vor hf., verið skuldlaust. Þá gat hann þess að við sölu á hlutunum til Bague S.A. hafi stefnandi, Vor hf., fengið rúmlega tvo milljarða króna, sem bundnar höfðu verið í þessum hlutum, en þessum fjármunum hafi verið ráðstafað í verðbréf sem álitin voru öruggari eignir. Þá upplýsti hann að starfsemi Bague S.A. hefði einskorðast við eignarhald á hlutbréfum í Baugi Group hf. Eins og gögn málsins bera með sér byggðist fjármögnun Bague S.A. á hlutafjárframlagi, samtals að fjárhæð 500 milljónir króna, auk 500 milljóna króna láni frá Landsbanka Íslands og láni að fjárhæð 1.400.000.000 króna frá stefnda. Stefnandi, Vor hf., lagði fram 300 milljónir króna af hlutafénu, en í kjölfarið var því ráðstafað til Péturs Björnssonar, sem arfleiddi dætur sínar þrjár, Ástu, Erlu og Guðrúnu, að því í jöfnum hlutföllum. Með framangreindum viðskiptum með hluti í Baugi Group hf. færðist áhætta af þeim að umtalsverðum hluta yfir á stefnda vegna fjármögnunar hans á kaupunum. Það skýrir kröfu bankans um að seljandi hlutfjárins, stefnandi, Vor hf., sem var að innleysa verulegan söluhagnað með viðskiptunum, tæki á sig ábyrgð á efndum á hluta af því láni sem stefndi veitti Bague S.A.
Fundargerð stjórnarfundar stefnanda, Vors hf., frá 17. nóvember 2004 bendir til þess að ráðgert hafi verið að veita ábyrgðina í þrjú ár. Þessi samþykkt breytir aftur á móti ekki ótvíræðri skuldbindingu félagsins samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingunni, sem undirrituð var af stjórn félagsins, en eins og að framan greinir var hún ekki afmörkuð í tíma heldur átti að falla niður við efndir aðalkröfu. Framlögð gögn styðja það ekki að í gildi hafi verið munnlegt en skuldbindandi samkomulag milli stefnda og stefnanda, Vors hf., um að ábyrgðin ætti að falla niður að tilteknum tíma liðnum óháð greiðslu aðalkröfu. Samkomulag þess efnis hefði stangast á við fyrirliggjandi ábyrgðaryfirlýsingu og er ósannað að stefndi hafi veitt samþykki sitt fyrir þessu.
Þar sem ráðgert var að veita ábyrgðina til þriggja ára verður að ætla að við það hafi verið miðað að lánveitingin myndi að minnsta kosti standa í jafn langan tíma. Það fær enn fremur stoð í skýrslu Hreins Loftssonar sem gat þess að ábyrgðin hafi ekki átt að vera til langframa og að lánafyrirgreiðslan til Bague S.A. yrði gerð upp við sölu á eignum þess eftir „kannski þrjú ár“. Fær þessi fyrirætlan enn fremur stoð í skýrslu Stefáns H. Hilmarssonar fyrir dómi. Þetta atriði ásamt tölvuskeyti frá Birni Knútssyni frá 14. mars 2008, þar sem fram kemur að um tveggja til þriggja „ára verkefni“ hafi verið að ræða, benda eindregið til þess að allir aðilar hafi reiknað með að lánið yrði ekki endurgreitt á gjalddaga heldur myndi það verða framlengt. Þessi fyrirætlan kann að hafa haldist í hendur við það að Bague S.A. átti rétt á því að selja Baugi Group hf. hluti sína í því 10. nóvember 2007, eða tæpum þremur árum eftir að stefndi hafði lánað fé til hlutabréfakaupanna. Í skýrslu Stefáns H. Hilmarssonar fyrir dómi kom fram að ákveðið hefði verið að láta ábyrgð stefnanda Vors hf. gilda í þrjú ár í ljósi þess að sölurétturinn hafi þá orðið virkur. Þannig hafi verið samhengi milli þessara gerninga. Hafi slík tenging verið milli lánveitingarinnar og söluréttarins verður hins vegar ekki séð að hún hafi sett mark sitt á ábyrgðaryfirlýsinguna. Að mati dómsins getur þessi ætlaða tenging því engin áhrif haft á gildistíma ábyrgðarinnar sem samkvæmt yfirlýsingunni sjálfri var ótímabundin og átti því að falla niður við efndir aðalkröfu eins og fram hefur komið. Því verður að hafna málsástæðum stefnenda sem að þessu lúta.
Stefnendur bera því við í stefnu að þar sem lánið til Bague S.A. hafi verið framlengt um áramótin 2005/2006, án þess að leita samþykkis ábyrgðaraðila, hafi ábyrgðin fallið niður. Við munnlegan málflutning var því haldið fram að lánið hafi í raun verið greitt á gjalddaga um áramótin og nýtt lán verið veitt án þess að nýr ábyrgðarsamningur væri gerður er tryggði endurgreiðslu nýja lánsins. Þessu til stuðnings vísa stefnendur til framlagðs yfirlits yfir reikning Bague S.A. hjá stefnda sem sýnir færslur á honum frá 2004 til 2008.
Á yfirliti þessu kemur fram að teknar voru 1.629.762.884 krónur af reikningnum til að greiða fyrir hluti í Baugi Group hf. 31. desember 2004. Staðan á reikningnum varð við þessa færslu neikvæð um 629.959.068 krónur. Hún var áfram neikvæð allt þar til færðar voru 1.400.000.000 króna inn á reikninginn. Færsludagur (e. Book Date) þeirrar færslu var 27. janúar 2005 en miðað var við að hún væri gild (e. Value Date) frá og með 3. janúar sama ár. Þessi færsla er á yfirlitinu útskýrð með eftirfarandi hætti: „Creation Loan 3032566.“ Hinn 28. desember 2005, eða tæpu ári síðar, var bókuð úttekt af reikningnum að fjárhæð 1.400.000.000 króna og miðað við að færslan tæki gildi 3. janúar 2006. Sé tekið mið af færsludegi virðist staðan á reikningnum hafa við þessa færslu orðið neikvæð um 1.379.719.497 krónur. Færslan er skýrð með orðunum „Repayment Loan 3032566“. Í línu þar fyrir neðan á yfirlitinu er færsla vegna vaxta af þessu sama láni að fjárhæð 160.042.361 króna og lækkar hún stöðuna á reikningnum sem því nemur. Næstu daga virðist tvívegis hafa verið lagðar inn á reikninginn fjárhæðir sem útskýrðar voru sem „Creation loan“ og þeim gefið tiltekið númer, en önnur var endurgreidd sama dag en hin bakfærð. Hinn 10. janúar 2006 voru loks færðar á reikninginn 1.470.000.000 króna og miðað við að færslan væri gild frá og með 3. sama mánaðar. Færslan er útskýrð þannig: „Creation Loan 3046313.“ Ári síðar var sama fjárhæð tekin út af reikningnum ásamt vöxtum að fjárhæð 179.222.604 krónur, en fyrir þessar færslur voru engar krónur inni á reikningnum. Eftirfarandi skýring var gefin á færslunni: „Repayment Loan 3046313“. Færsludagur var 27. desember 2006 en miðað við að færslan væri gild frá og með 3. janúar 2007. Við þessar færslur varð staðan á reikningnum neikvæð um 1.649.222.604 krónur. Engar færslur eru eftir þetta á yfirlitinu sem tengjast stofnun eða endurgreiðslu lána. Lokastaða á reikningnum 3. apríl 2008 var neikvæð um 1.705.701.124 krónur.
Af þessu tilefni skal tekið fram að ekki verður séð að á lánssamningi Bague S.A. og stefnda komi fram númer er svari til þeirra númera sem getið er á yfirlitinu. Þá ber að geta þess að með lánssamningnum lofaði stefndi, sem lánveitandi, að veita Bague S.A., sem lántaka, veðtryggða lánafyrirgreiðslu að hámarki 1.400.000.000 króna og skyldi lántaki ákveða nákvæma lánsfjárhæð, sbr. grein 2.1 í samningnum. Eins og nánar var lýst í kafla II var útgreiðsla lánsins háð tilteknum skilyrðum er lutu að framlagningu undirritaðra skjala af hálfu lántaka og ábyrgðaraðila sem og skriflegri færslubeiðni frá lántaka. Þá ber að taka fram að ekki liggja fyrir í málinu aðrir skriflegir samningar milli Bague S.A. og stefnda um endurfjármögnun eða skilmálabreytingar á samningi þeirra um lánafyrirgreiðsluna. Ekkert í gögnum málsins gefur heldur vísbendingu um að slíkir samningar hafi verið gerðir milli þessara aðila, nema ef vera kynni fyrrgreindar færslur á reikningsyfirliti Bague S.A. Í skýrslum Sölva Sölvasonar hdl. og Eggerts J. Hilmarssonar, sem báðir störfuðu sem lögfræðingar hjá stefnda, en sá síðarnefndi sat einnig stjórnarfundi í Bague S.A. eins og áður er getið, kom fram að þeir hefðu ekki orðið varir við að formlega hefði verið gengið frá breytingum á upphaflegum lánssamningi. Taldi Eggert að allan tímann hafi upphaflegur lánssamningur ráðið lögskiptum aðila, en síðan „rúllaði lánið áfram“ þar til það fór í vanskil.
Við aðalmeðferð málsins taldi stefndi að sú málsástæða stefnenda, að lánið samkvæmt lánssamningnum hefði verið greitt á gjalddaga með nýju láni frá stefnda, væri of seint fram komin og því gæti hún ekki komið til álita við úrlausn málsins. Hefðu varnir stefnda í greinargerð og undirbúningur hans fyrir aðalmeðferð ekki tekið mið af þessari málsástæðu. Efnislega hélt stefndi því þó fram að framangreindar færslur á reikningi aðalskuldara Bague S.A. hefðu allar byggst á upphaflegum samningi um lánafyrirgreiðslu stefnda við félagið. Nauðsynlegt hefði verið að láta fjármunina flæða með þessum hætti tímabundið út af reikningnum og jafnóðum inn á hann aftur undir nýju númeri til að gjaldfæra vexti á kröfuna. Jafnframt liggi fyrir að engin greiðsla hafi borist stefnda í tengslum við þessar færslur og sömu skilmálar gilt um lánið fyrir og eftir þær.
Í stefnu er því haldið fram að umrætt lán hafi verið „framlengt“ um áramótin 2005/2006 án samþykkis ábyrgðarmanns og því fallið úr gildi. Ekki er þar útskýrt hvað átt er við með framlengingu lánsins og því ekki ljóst af lestri stefnunnar hvort stefnendur byggi á því að veittur hafi verið greiðslufrestur eða hvort lánið hafi fallið niður og ný krafa stofnast. Stefnendur byggja á því að sú röksemd, að upphaflegt lán hafi verið greitt upp og aðalskuldara veitt nýtt lán, sé nánari útskýring á þeirri málsástæðu að ábyrgðin hafi fallið niður við framlengingu lánsins um áramótin 2005/2006. Í því sambandi vísa stefnendur til þess að unnt sé að framlengja lán með því að stofna til nýrrar kröfu. Þó að hugsanlega megi finna dæmi um orðasambönd, þar sem leggja megi þessa merkingu í orðið „framlengingu“, telur dómurinn að almennt sé ekki unnt að fallast á þessa skýringu stefnenda. Samkvæmt almennum málskilningi verður að ætla að þegar tiltekinn gerningur, sem er að líða undir lok, er „framlengdur“ haldi hann áfram gildi sínu eftir það og því sé um einn og sama gerning að ræða fyrir og eftir framlenginguna. Það hefur grundvallarþýðingu fyrir varnir stefnda hvort á því er byggt að greiðslufrestur á aðalkröfu hafi verið veittur eða hvort krafa samkvæmt lánssamningnum frá 30. desember 2004 hafi verið gerð upp og stofnað til nýrrar skuldbindingar af hálfu aðalskuldara, enda ábyrgðaryfirlýsingin bundin við fyrrgreindan lánssamning. Að þessu virtu er óhjákvæmilegt að líta svo á að um nýja málsástæðu sé að ræða sem hafi fyrst komið fram við aðalmeðferð málsins. Stefndi veitti ekki samþykki sitt fyrir því að hún kæmist að. Samkvæmt 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 getur þessi málsástæða því ekki komið til álita.
Kemur þá til skoðunar hvort ákvörðun stefnda um að veita aðalskuldara umræddan frest á endurgreiðslu lánsins geti hafa valdið því að ábyrgðin hafi fallið niður um áramótin 2005/2006 eða eftir atvikum síðar. Í því sambandi telur dómurinn óhjákvæmilegt að líta til þess sem áður hefur verið rakið að þrátt fyrir að í lánssamningi Bague S.A. og stefnda hafi verið miðað við að lánið yrði endurgreitt einu ári eftir útgreiðslu þess virðast allir aðilar, þar á meðal ábyrgðarmaður, hafa reiknað með því að ekki kæmi til endurgreiðslu fyrr en eftir þrjú ár. Samkvæmt því getur þessi greiðslufrestur ekki hafa raskað því sem stefnendur máttu ganga út frá um hvenær aðalkrafan yrði greidd.
Þá liggur fyrir að mikil tengsl eru milli aðalskuldara, Bague S.A. og ábyrgðaraðila, stefnenda í máli þessu, en eins og áður hefur verið vikið að eiga eigendur stefnenda sameiginlega meiri hluta í Bague S.A. Eins og rakið var í skýrslum Hreins Loftssonar og Stefáns H. Hilmarssonar fyrir dómi ákváðu eigendur Bague S.A. að nýta ekki sölurétt á hlutum í Baugi Group hf. í nóvember 2007 sem hefði gert félaginu kleift að leysa til sín þann virðisauka sem þá hafði orðið á hlutunum. Þar sem það var ekki gert hlaut enn að verða frestur á því að aðalkrafan yrði greidd, enda upplýst að tekjur Bague S.A., sem fólust í arðgreiðslum frá Baugi Group hf., nægðu ekki til að standa undir vaxtagreiðslum á láninu hvað þá greiðslu á höfuðstól þess. Fyrirsvarsmenn stefnenda stóðu að framangreindri ákvörðun Bague S.A. Eins og ábyrgðaryfirlýsingin var úr garði gerð hlaut þeim að vera ljóst að með þeirri ákvörðun héldi ábyrgðin áfram gildi sínu.
Einnig ber að líta til þess að ábyrgðin var takmörkuð við 450.000.000 króna. Ráðstafanir er leiddu til aukinnar greiðsluskyldu aðalskuldara gátu því ekki leitt til hækkunar á ábyrgðarkröfunni. Enn fremur hafa verið lögð fram gögn sem gefa til kynna að frá því að greiðslufresturinn var veittur hafi verðmæti eignarhlutar aðalskuldara Bague S.A. í Baugi Group hf. vaxið umtalsvert og eiginfjárstaða félagsins verið sterk út árið 2007. Greiðslugeta aðalskuldara var hins vegar háð því að hlutir félagsins yrðu seldir en um það höfðu fyrirsvarsmenn stefnenda ákvörðunarvald sem eigendur meiri hluta í félaginu. Það var því í þeirra valdi að minnka hættuna af því að ábyrgðin yrði virk og valda með því stefnendum tjóni.
Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið verður að hafna þeirri málsástæðu stefnenda að ábyrgð þeirra samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingu stefnanda, Vors hf., frá áramótum 2004/2005 hafi fallið niður ári síðar vegna greiðslufrests sem þá var veittur á láni aðalskuldara.
Í tölvuskeyti frá starfsmanni stefnda, Birni Knútssyni, 14. mars 2008 og í tölvuskeyti frá forstjóra stefnda, Magnúsi Guðmundssyni, 19. apríl 2008 kemur fram sú afstaða að umrædd ábyrgð hafi ekki verið endurnýjuð eða „tekin út“ þegar stefnanda, Vori hf., var skipt upp. Þessi afstaða var þó leiðrétt í tölvuskeyti forstjórans 25. apríl 2008 og því haldið fram að ábyrgðin væri ennþá til staðar. Samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingunni átti hún að falla niður við efndir aðalkröfu eins og fram hefur komið og breytti skipting stefnanda, Vors hf., engu í því sambandi. Telur dómurinn að með þessum tölvuskeytum hafi ábyrgðarmenn ekki verið leystir undan ábyrgð sinni.
Við skiptingu stefnanda, Vors hf., bar að fylgja fyrirmælum 133. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Upplýst er að stefndi vann að útfærslu skiptingarinnar og færslu eigna milli stefnenda með endurskoðanda stefnanda, Vors hf. Þó að stefndi hafi í aðdraganda skiptingarinnar ekki tilkynnt um þá ábyrgð sem hvíldi á félaginu verður ekki séð að það geti haft þau áhrif að lögum að ábyrgðin falli niður. Ekki er ágreiningur um að um ábyrgðarkröfuna fór eftir fyrirmælum 3. mgr. 133. gr. laga nr. 2/1995 eftir að skiptingin var komin til framkvæmda.
Stefnendur telja að fyrrgreind tölvuskeyti starfsmanna stefnda og þögn hans um tilvist ábyrgðarinnar við skiptingu Vors hf. gefi ótvírætt til kynna að stjórnendur og starfsmenn stefnda hafi sjálfir litið svo á að ábyrgðin væri fallin niður. Þessu til frekari stuðnings benda stefnendur á að starfsmenn stefnda, sem hafi annast daglega umsýslu Bague S.A., hafi aðeins greitt stefnanda, Vori hf., árlega ábyrgðarþóknun í eitt ár en ekki lengur. Þá hafi stefndi ekki gert athugasemdir við ársreikninga stefnenda þar sem ábyrgðarskuldbindingarinnar hafi ekki verið getið. Ekki hafi heldur verið vikið að henni í reglulegum kynningum stefnda á stöðu stefnenda gagnvart bankanum.
Þessi atriði gefa að mati dómsins vísbendingu um að starfsmenn stefnda hafi frá árinu 2006 og fram á vorið 2008 af einhverjum ástæðum álitið að ábyrgðin væri ekki lengur í gildi. Þó að slíkt teldist sannað verður í ljósi ótvíræðrar skuldbindingar samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingunni ekki talið að stefnendur geti byggt kröfu um niðurfellingu ábyrgðarinnar á misskilningi starfsmanna stefnda um gildistíma hennar, enda liggur ekkert fyrir um að bindandi yfirlýsing hafi verið gefin um að stefnendur skyldu leystir undan ábyrgðarskuldbindingunni.
Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða dómsins að ábyrgð að fjárhæð 450.000.000 króna samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingu stefnanda, Vors hf., til tryggingar á endurgreiðslu á láni Bague S.A. til stefnda hafi verið í gildi þegar stefndi gekk að eignum stefnenda til greiðslu ábyrgðarkröfunnar. Því er að minnsta kosti ljóst að sýkna beri stefnda af aðalkröfu stefnenda sem og af fjárkröfu stefnanda Vors hf.
Stefnendur, GSP fjármál ehf. og ÁP fjármál ehf., byggja fjárkröfur sínar einnig á því að stefnda hafi skort heimild til að taka fjármuni af reikningum þeirra og færa á reikning Bague S.A. Þessir stefnendur telja að reikningar þeirra hafi ekki verið veðsettir vegna skulda aðalskuldara eða ábyrgðarskuldbindinga þeim tengdum. Þessi ágreiningur lýtur ekki að réttindum og skyldum samkvæmt lánssamningi stefnda og Bague S.A. og þeim fjármálaskjölum sem honum tengjast, heldur þeim almennu skilmálum er varða lögskipti stefnenda og stefnda. Stefndi hefur lagt fram í málinu undirritaða samninga við alla stefnendur um reikningsviðskipti félaganna hjá stefnda. Samningsákvæði um veðheimild bankans í eignum á vörslureikningum stefnenda liggja fyrir í þýðingu löggilts skjalaþýðanda, sem og ákvæði um heimild stefnda til að beita skuldajöfnuði milli gjaldfallinna skulda viðskiptavinarins og eigna hans hjá stefnda. Í samningum þessum er einnig mælt fyrir um að öll samskipti stefnda við viðskiptavininn lúti lögum í Lúxemborg og að allar deilur beri að leggja fyrir dómstól þar í landi nema bankinn ákveði annað. Dómurinn telur að ákvæði 26.2 í lánssamningi Bague S.A. og stefnda, þar sem mælt er fyrir um að íslenskir dómstólar fjalli um öll ágreiningsmál sem rísi í tilefni af eða í tengslum við samninginn eða þeim skjölum sem tengjast framkvæmd hans, taki ekki til ágreinings um rétt stefnda samkvæmt framangreindum almennum skilmálum til að leita fullnustu í þeim eignum stefnenda sem voru í vörslum stefnda. Varnarþingsregla 17. gr. Lúganósamningsins frá 16. september 1988, sbr. lög nr. 68/1995, sbr. nú 23. gr. Lúganósamningsins frá 30. október 2007, sbr. lög nr. 7/2011, veitir því ekki heimild til að höfða mál um þetta sakarefni fyrir íslenskum dómstólum heldur ber að leysa úr því fyrir dómstólum í Lúxemborg. Því kemur framangreind málsástæða stefnendanna, GSP fjármála ehf. og ÁP fjármála ehf., ekki til álita í málinu.
Af framangreindu leiðir að sýkna ber stefnda af öllum kröfum stefnenda. Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verða stefnendur dæmdir til að greiða stefnda málskostnað. Í ljósi umfangs málsins og reksturs þess fyrir dómi þykir hann hæfilega ákveðinn 1.000.000 króna. Hefur þá verið tekið tillit til þess að hafnað var kröfu stefnda um að vísa bæri málinu frá dómi enda félli meginsakarefnið undir grein 26.2 í lánssamningi stefnda og Bague S.A. og því ættu íslenskir dómstólar lögsögu um það.
Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Banque de Havilland S.A., er sýkn af kröfum stefnenda, Eignarhaldsfélagsins Vors hf., ÁP fjármála ehf., EP fjármála ehf. og GSP fjármála ehf.
Stefnendur greiði stefnda sameiginlega 1.000.000 króna í málskostnað.