Hæstiréttur íslands
Mál nr. 272/2008
Lykilorð
- Vinnuslys
- Sönnun
- Sakarskipting
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 5. febrúar 2009. |
|
Nr. 272/2008. |
Pétur Heiðar Egilsson(Ólafur Örn Svansson hrl.) gegn S. Helgasyni ehf. og Sjóvá-Almennum tryggingum hf. til réttargæslu (Kristín Edwald hrl.) |
Vinnuslys. Sönnun. Sakarskipting. Gjafsókn.
P krafðist þess að viðurkennd yrði bótaskylda S á tjóni sem hann varð fyrir í starfi sínu á svokölluðum steinalager á vinnusvæði fyrir utan steinsmiðju S. Óumdeilt var að slysið varð eftir að P hafði komið steini fyrir í grjóthrúgu á lagersvæðinu. Féll P er hann var að fara niður af steininum eftir að hafa leyst krók af keðjum sem slegið hafði verið um steininn. P var einn til frásagnar um slysið. Fallist var á það með héraðsdómi að þar sem engin rannsókn hafði farið fram á af hálfu Vinnueftirlits ríkisins, sökum þess að S lét hjá líða að tilkynna eftirlitinu um slysið, yrði frásögn P af atvikum lögð til grundvallar sem og þær upplýsingar sem lágu fyrir í málinu og yllu ekki ágreiningi. Hins vegar var ekki talið unnt að fallast á allar ályktanir héraðsdóms um vinnulag á vinnusvæði S. Talið var að S hefði ekki sinnt nægilega skyldu sinni til að tryggja öryggi á vinnustað sínum eins og mátti krefjast af honum og að sú vanræksla hans hefði átt þátt í að P varð fyrir umræddu slysi. Bar S því fébótaábyrgð á tjóni P. P var látinn bera 1/3 hluta tjóns síns sjálfur, þar sem hann þekkti aðstæður vel og hafði margsinnis áður tekið á móti stórgrýti. Honum hafði því borið að gæta að sér við vinnu sína eins og sanngjarnt og eðlilegt mætti telja.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. maí 2008. Hann krefst þess að viðurkennd verði bótaskylda stefnda á tjóni, sem áfrýjandi varð fyrir í starfi sínu 20. nóvember 2001. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, án tillits til gjafsóknar sem honum var veitt í héraði.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og greiðslu málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að sök verði skipt og málskostnaður verði felldur niður.
Áfrýjandi hefur stefnt Sjóvá-Almennum tryggingum hf. til réttargæslu.
Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi varð áfrýjandi fyrir slysi á svokölluðum steinalager á vinnusvæði stefnda fyrir utan steinsmiðju hans við Skemmuveg í Kópavogi. Stór og þungur steinn hafði verið fluttur með vörubifreið á vinnusvæðið og átti að flytja hann af palli vörubifreiðarinnar og koma honum fyrir á lagersvæðinu með krana eða hlaupaketti, eftir að brugðið hafði verið keðju undir steininn. Kraninn gekk eftir sérstökum brautum yfir lagersvæðinu og voru stjórntæki hans í snúru tengdri við hann. Aðilar eru sammála um að steinninn hafi verið um 1,8 metrar á kant og um 11 tonn að þyngd. Í hinum áfrýjaða dómi er því lýst að sérstakar tilfæringar hafi þurft til við að koma steininum af vörubifreiðinni vegna þyngdar hans og aflleysis kranans. Óumdeilt er að slys áfrýjanda varð eftir að hann hafði komið steininum fyrir í grjóthrúgu á lagersvæðinu. Féll áfrýjandi er hann var að fara niður af steininum eftir að hafa leyst krók af keðjum sem slegið hafði verið um steininn eins og áður segir.
Áfrýjandi er einn til frásagnar um slysið. Gögn málsins benda til þess að verkstjóri hjá stefnda hafi fengið vitneskju um það strax sama dag en óumdeilt er að hann vissi af slysinu eigi síðar en tveimur dögum seinna. Fallist er á með héraðsdómi að þar sem engin rannsókn fór fram af hálfu Vinnueftirlits ríkisins, sökum þess að stefndi lét hjá líða að tilkynna eftirlitinu um slysið, verði frásögn áfrýjanda af atvikum lögð til grundvallar sem og þær upplýsingar sem fyrir liggja í málinu og ekki valda ágreiningi. Hins vegar er ekki unnt að fallast á allar ályktanir héraðsdóms um vinnulag á vinnusvæði stefnda. Verður þannig, gegn andmælum áfrýjanda, ekki miðað við þann framburð Brynjars Sveinbjörnssonar verkstjóra að það hafi verið sérstaklega í verkahring áfrýjanda að sjá um lagersvæðið og moka snjó eða salta ef svo bar undir. Þá verður ekki talið liggja fyrir að áfrýjandi hafi haft frjálsar hendur um hvar steinar voru settir niður á svæðinu. Í því sambandi verður einnig litið til framburðar Kristjáns Guðmundssonar fyrrum samstarfsmanns áfrýjanda og Jóhanns Þórs Sigurðssonar fyrrverandi framkvæmdastjóra stefnda þess efnis að meðal annars vegna plássleysis hafi oft þurft að stafla upp steinum á lagersvæðinu. Verður við það miðað að svæðið hafi verið yfirfullt af steinum umrætt sinn og gönguleiðir um það ekki fyrir hendi.
Eins og áður greinir er fram komið í málinu að krani sá sem notaður var til þess að færa umræddan stein hafi ekki verið nægilega öflugur til að lyfta steininum upp með góðu móti. Verður miðað við þá frásögn áfrýjanda að þess vegna hafi þurft sérstakar tilfæringar við að koma steinunum fyrir og hafi af þeim sökum ekki verið unnt að setja hann niður á þeim hentugasta stað sem kann að hafa komið til greina. Af sömu ástæðu hafi þurft að setja steininn ofan á annan stein, svo hægara yrði að flytja hann síðar til sögunar í smiðju stefnda. Samkvæmt framansögðu verður einnig miðað við þá frásögn áfrýjanda að vegna plássleysis á svæðinu hafi hann orðið að koma steininum fyrir í töluverðri hæð í steinahrúgunni. Hafi fall áfrýjanda af þessum sökum verið 2-3 metrar. Einnig kom fram hjá áfrýjanda að vegna þess hve snúra frá stjórntæki yfir í krana hafi verið stutt, eða um það bil tveir metrar, hafi hann þurft að klöngrast á eftir krananum inn í grjóthrúguna. Verður helst ráðið af gögnum málsins að áfrýjandi hafi haldið á stjórntækinu er slysið varð og því átt örðugra um vik en ella við að koma sér með öruggum hætti til baka. Þá kom fram hjá áðurnefndum Kristjáni og Jóhanni Þór að starfsmenn stefnda hefðu kvartað yfir því að stjórntæki kranans hefðu ekki verið þráðlaus, en Jóhann sagði að ekki hafi verið fallist á þessar kvartanir þar sem þráðlaus fjarstýring myndi frekar týnast og tefja þannig vinnu.
Ýmis ákvæði laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum leggja skyldur á herðar atvinnurekendum að tryggja öryggi starfsmanna. Vísast hér einkum til 1. mgr. 13. gr., 37. gr. og 42. gr. laganna. Þá er að finna ákvæði í reglum settum á grundvelli laganna sem koma til athugunar þegar metin er sök stefnda og ekki var fylgt með fullnægjandi hætti á vinnusvæði stefnda.
Samkvæmt þeim atriðum sem rakin hafa verið verður lagt til grundvallar að stefndi hafi ekki sinnt nægilega skyldu sinni til að tryggja öryggi á vinnustað sínum eins og mátti krefjast af honum og að sú vanræksla hans hafi átt þátt í að áfrýjandi varð fyrir umræddu slysi. Ber stefndi því fébótaábyrgð á tjóni áfrýjanda. Á hinn bóginn verður að telja áfrýjanda eiga nokkra sök á slysinu. Hann þekkti aðstæður vel og hafði margsinnis áður tekið á móti stórgrýti. Þá er fram komið að hann hafði alla möguleika á að meta sjálfur hvort hann þyrfti aðstoð við verkið. Bar honum eins og vinnandi fólki almennt að gæta að sér við vinnu sína eins og sanngjarnt og eðlilegt verður talið. Verður hann látinn bera 1/3 hluta tjóns síns sjálfur.
Eftir þessum úrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Viðurkennt er að stefndi, S. Helgason ehf., sé skaðabótaskyldur fyrir 2/3 hlutum þess tjóns sem áfrýjandi, Pétur Heiðar Egilsson, varð fyrir í slysi 20. nóvember 2001.
Ákvæði héraðsdóms um gjafsóknarkostnað skal vera óraskað. Stefndi greiði 500.000 krónur í málskostnað í héraði er renni í ríkissjóð. Stefndi greiði áfrýjanda 400.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. febrúar 2008.
Mál þetta, sem dómtekið var 22. janúar 2008, var höfðað 25. ágúst 2006.
Stefnandi er Pétur Heiðar Egilsson, Hellisgötu 33, Hafnarfirði.
Stefndi er S. Helgason ehf. Sjóvá-Almennum tryggingum hf. er stefnt til réttargæslu.
Dómkröfur
Dómkröfur stefnanda eru þær að viðurkennd verði bótaskylda stefnda á tjóni, sem stefnandi varð fyrir 20. nóvember 2001, er hann féll niður af grjóthrúgu á lóð stefnda við Skemmuveg 48 í Kópavogi. Málskostnaðar er krafist að skaðlausu, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál, í samræmi við framlagðan málskostnaðarreikning.
Stefndi krefst þess aðallega að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða samkvæmt mati dómsins. Til vara krefst stefndi þess að stefndi verði aðeins talinn skaðabótaskyldur að hluta á slysi stefnanda og að málskostnaður verði felldur niður.
Af hálfu réttargæslustefnda eru engar kröfur gerðar enda engar kröfur gerðar á hendur félaginu.
Málavextir
Mál þetta á rót að rekja til vinnuslyss sem stefnandi varð fyrir þann 20. nóvember 2001 í starfi hjá stefnda, S. Helgasyni hf. Slysið varð með þeim hætti að stefnandi var sendur af verkstjóra sínum til að taka á móti stórum steini sem komið hafði verið með á vörubifreið. Stefnandi sló keðju um steininn. Þar sem steinninn reyndist of þungur til að unnt væri að lyfta honum með krana steinsmiðjunnar var brugðið á það ráð að pumpa lofti í loftpúða vagns vörubifreiðarinnar þannig að vagninn lyftist. Þegar hann var kominn í efstu stöðu var kraninn látinn taka í eins og unnt var og loftinu dælt úr loftpúðum vagnsins að nýju. Þannig var unnt að aka vörubifreiðinni undan steininum sem var u.þ.b. 11 tonn að þyngd. Í kjölfarið mun stefnandi hafa ekið krananum að safnhaug fyrir steina. Þar varð stefnandi að leggja steininn niður svo unnt væri að ná undan honum keðjunum. Þegar hann hafði komið steininum fyrir ofan á öðru grjóti varð hann að klifra upp á hrúguna til að losa keðjuna úr króknum á krananum. Þegar stefnandi hafði náð keðjunni úr króknum og var á leið niður að nýju rann hann til á steini, sem var í hrúgunni, með þeim afleiðingum að hann féll u.þ.b. 1-1,5 metra niður og lenti á bakinu á grjóti.
Stefnandi lýsir því í stefnu að honum hafi tekist að rísa á fætur en hafi þegar fundið til mikilla verkja frá baki. Kveðst hann hafa leitað til verkstjórans og tilkynnt honum um slysið og sagt honum að hann hefði hug á að leita á slysadeild. Stefndi heldur því fram að stefnandi hafi hvorki látið verkstjóra né þáverandi eiganda stefnda vita af slysinu. Stefnandi hafi farið úr vinnu þennan dag og ekki mætt aftur fyrr en tveimur dögum síðar án þess að gefa nokkrar skýringar á ástæðu fjarverunnar. Hann hafi svo mætt til vinnu út nóvember 2001.
Stefnandi kveðst í kjölfar slyssins hafa farið á slysadeild, sbr. áverkavottorð Theodórs Friðrikssonar læknis á slysadeild, dags. 2. janúar 2002. Þar komi fram að stefnandi hafi komið á slysadeild þann 20. nóvember 2001, kl. 10:00 vegna vinnuslyss. Tildrögum slyssins sé lýst með eftirfarandi hætti „datt ofanaf steini við vinnu. Lenti á baki og vinstri síðu“. Við skoðun hafi stefnandi reynst aumur í hnakkafestum vinstra megin og í vöðvum á brjósti vinstra megin og herðum. Einnig hafi hann verið með sársauka við hreyfingu á hálsi svo og verið með verki í mjóbaki og niður í rasskinn vinstra megin. Var talið að stefnandi hafi tognað á lendarhrygg og hálsi, eins og fram komi í vottorðinu.
Stefnandi kveðst hafi verið alveg óvinnufær í tvo daga eftir slysið. Á þriðja degi hafi hann komið að nýju til starfa hjá stefnda. Reyndist honum starfið erfitt vegna verkja. Kveðst hann hafa látið verkstjóra og eiganda fyrirtækisins vita af ástandinu. Voru fjarvistir nokkrar af þessum sökum m.a. vegna læknisskoðana og mikilla verkja. Stefnandi kveður stefnda hins vegar hafa brugðist við með því að segja honum upp störfum frá og með 1. desember 2001.
Stefndi heldur því fram að þann dag hafi stefnanda verið sagt upp störfum þar sem hann hafi ekki brugðist við ítrekuðum óskum verkstjóra um að haga vinnu sinni betur. Það hafi fyrst verið 4. desember 2001 sem stefnandi hafi tilkynnt stefnda að hann hefði orðið fyrir slysi en þá hafi hann afhent Jóhanni Þór vottorð frá lækni um að hann myndi verða frá vinnu vegna slyss til 21. desember 2001. Þar sem stefnandi hafi ekki látið vinnuveitanda vita af slysinu fyrr en um hálfum mánuði eftir að slysið hafði átt sérstað hafi slysið hvorki verið tilkynnt lögreglu né vinnueftirliti. Hins vegar hafi slysið verið tilkynnt til Tryggingastofnunar ríkisins þann 2. janúar 2002 eins og fram komi á framlagðri tilkynningu sem undirrituð sé af stefnanda en stimpluð af stefnda.
Vegna viðvarandi verkja kveðst stefnandi hafa leitað að nýju á slysadeild auk þess að leita til heimilislæknis. Í apríl 2002 hafi hann verið sendur í röntgenmyndatöku af hálsliðum. Reyndist þá slit milli VI. og VII. hálsliðar. Þá hafi segulómun sýnt breitt brjósklos milli IV. og V. liðar sem gekk út til vinstri. Í vottorði Garðars Guðmundssonar, sérfræðings í heila- og taugalækningum, segi að slysið hafi valdið stefnanda áðurgreindum einkennum. Í sama vottorði segi að stefnandi hafi við skoðun þann 8. janúar 2003 verið miklu verri. Hafi hann þá reynst með stórt brjósklos í baki milli IV. og V. liðar hægra megin. Hafi brjósklosið verið fjarlægt í aðgerð þann 27. janúar 2003.
Eftir að í ljós hafði komið hversu alvarlegar afleiðingar slyssins voru á heilsu stefnanda hafi lögmaður Eflingar óskað eftir afstöðu stefnda, S.Helgasonar hf., til bótaskyldu úr slysatryggingu félagsins. Bréfi þessu var svarað af félaginu með bréfi dags. 29. september 2002. Þar er því lýst yfir að félaginu hafi ekki verið kunnugt um slysið fyrr en eftir að stefnanda var sagt upp störfum. Þá er dregið í efa að stefnandi hafi raunverulega orðið fyrir slysi í starfi hjá félaginu. Stefnandi kveðst hafa undrast mjög þessa afstöðu enda hafi bæði verkstjóra og eiganda fyrirtækisins verið vel kunnugt um slysið þrátt fyrir að vel kunni að vera að þeir hinir sömu hafi ekki orðið vitni að atburðinum sjálfum. Þá hafi þeim jafnframt verið kunnugt um að stefnandi hafi orðið að fara umræddan dag úr vinnu til að leita á slysadeild. Þrátt fyrir ofangreint hafi hvorki verið haft samband við Vinnueftirlit ríkisins né lögreglu, eins og jafnframt sé staðfest í bréfi félagsins, dags. 29. september 2002. Vegna þessarar afstöðu stefnda og réttargæslustefnda hafi stefnandi þurft að höfða dómsmál til að ná fram rétti til greiðslu úr slysatryggingu launþega. Hafi það mál verið þingfest hinn 13. maí 2004, en fellt niður hinn 25. nóvember sama ár þegar stefnandi fékk bæturnar greiddar. Vegna afleiðinga slyssins var þess farið á leit við Jónas Hallgrímsson lækni að hann legði mat á líkamstjón stefnanda með hliðsjón af skaðabótalögum, nr. 50/1993, eins og lögin voru á slysdegi. Af því tilefni fór fram viðtal og skoðun hjá matslækninum þann 2. apríl 2004. Niðurstaða matsmanns er að stefnandi hafi hlotið 20% varanlegan miska og 35% varanlega örorku við slysið.
Málsástæður stefnanda
Á því er byggt að stefndi beri skaðabótaábyrgð gagnvart stefnanda vegna þess líkamstjóns sem hann hlaut í slysinu 20. nóvember 2001. Hafi slysinu verið valdið á bótaskyldan hátt vegna þess að aðstæður á vinnustað hafi ekki verið eins og þær áttu að vera auk þess sem verkstjórn hafi verið ábótavant. Aðstæður á slysstað hafi verið með þeim hætti að þar var fljúgandi hált stórgrýti út um allt, en snjóföl yfir öllu er slysið varð. Stefnanda hafi verið ætlað að klöngrast einum á þessu stórgrýti án þess að hafa neinskonar öryggisbúnað sem hjálpaði honum ef honum kynni að skrika fótur og án þess að hafa stuðning af nokkrum sköpuðum hlut. Slík framkvæmd vinnunnar hafi verið algerlega óforsvaranleg af hálfu stefnda, enda um að ræða stórhættulegar vinnuaðstæður sem kröfðust þess að gerðar væru varúðarráðstafanir og þess a.m.k. gætt að ekki væri einn maður að vinna slíkt verk, en verkstjóri stefnanda hafi sent hann einn til að vinna verkið. Engum manni skyldi ætlað að klöngrast við verkið á þann hátt sem stefnandi var látinn gera. Verkið hefði að sjálfsögðu átt að vinna þannig að öryggi stefnanda væri tryggt við hinar hættulegu aðstæður. Enginn rannsókn hafi farið fram á slysinu í kjölfar þess eins og lögskylt var, hvorki af hálfu Vinnueftirlits ríkisins né lögreglu. Þegar af þeirri ástæðu ber að leggja frásögn stefnanda um slysið og aðdraganda þess til grundvallar nema færðar verði á það sönnur að hún sé röng. Stefnandi gaf skýrslu hjá lögreglunni í Kópavogi hinn 22. október 2002. Þá liggi fyrir lögregluskýrsla, dags. 1. apríl 2003, af sendibílstjóra sem hafi verið í starfi hjá stefnda, sem styðji frásögn stefnanda. Eins og þar komi fram kannast hann við að stefnandi hafi tjáð honum skömmu eftir slysið hvernig það átti sér stað. Í þessu sambandi megi jafnframt vísa til tilkynningar til Tryggingastofnunar ríkisins, undirrituð af stefnda, S. Helgasyni hf., þann 2. janúar 2002. Þar segi að slysið hafi orðið „20.11.2001, kl. 10:10“. Slysinu sé þar lýst með eftirfarandi hætti: „Var að fara ofan af granít blokk í c.a. 3 metra hæð. Þurfti að hoppa niður á stein sem var í c.a. 1.5m hð enn rann af honum. Féll á vinstri hlið baks og féll síðan af þeim steini niður á milli annarra steina með lappir upp í loft ca meter.“ Þá segi að stefnandi hafi leitað samdægurs á slysadeild. Undir þessa tilkynningu riti stefnandi og stefndi, S. Helgason hf.
Stefnandi reisir kröfur sínar á sakarreglunni, en við hinar hættulegu aðstæður sem voru á slysstað beri að beita strangara sakarmati gagnvart stefnda en almennt gerist. Byggir stefnandi á því að aðstæður á vinnustað og verkstjórn hafi verið með þeim hætti að í bága hafi farið við lög nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum sem og stjórnsýslureglur sem m.a. séu á þeim byggðar og gildi í íslenskum rétti. Þá sé vísað til ákvæða XVIII. viðauka við EES samninginn um öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum.
Réttargæsluaðild stefnda, Sjóvár-Almennra trygginga hf., ráðist af því að stefndi, S.Helgason hf., var með gilda ábyrgðartryggingu hjá félaginu á slysdag. Vegna afstöðu stefnda, S. Helgasonar hf., til slysatburðar hefur stefndi, Sjóvá Almennar tryggingar hf., hafnað bótaskyldu, sbr. bréf félagsins, dags. 7. nóvember 2003. Við þessa afstöðu geti stefnandi ekki unað og sé málshöfðun því óumflýjanleg.
Vísað er til laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum sem og stjórnsýslureglna sem m.a. eru á þeim byggðar og gilda í íslenskum rétti. Þá er vísað til ákvæða XVIII. viðauka við EES samninginn um öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum.
Um málskostnaðarkröfu sína vísar stefnandi til laga um meðferð einkamála nr. 90/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. þeirra.
Málsástæður stefnda
Um ábyrgð stefnda fari samkvæmt almennu sakarreglunni. Stefndi byggir á því að ósannað sé að slysið sé að rekja til atvika sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á að lögum. Af gögnum málsins megi ráða að orsök slyssins hafi verið óhappatilviljun og/eða eigin sök stefnanda. Er því mótmælt að beita eigi strangara sakarmati gagnvart stefnda en almennt gerist.
Stefndi mótmælir því harðlega sem röngu og ósönnuðu að aðstæður á vinnustað hafi verið hættulegar eða að vinnustaðurinn hafi verið vanbúinn.
Í fyrsta lagi mótmælir stefndi því að fljúgandi hált stórgrýti hafi verið út um allt eins og stefnandi byggir á. En jafnframt sé tekið fram að stefnandi hafi starfað sem lagermaður hjá stefnda og hluti af starfsskyldum hans sem lagermanns hafi verið að sjá til þess að draga úr hættu á hálkumyndun á vinnusvæðinu og bregðast við hálku ef hennar yrði vart með því að bera sand eða salt á lagersvæðið. Hafi verið hálka á svæðinu hafi það verið í verkhring stefnanda sjálfs að bregðast við því.
Í öðru lagi er því mótmælt að stefnandi hafi þurft að haga verkinu með þeim hætti sem hann gerði, þ.á m. að fara upp á stórgrýti í þriggja metra hæð. Þeir steinar sem stefndi kaupi og séu um 11 tonn að þyngd, eins og stefnandi hafi lýst steininum sem hann var að losa í umrætt sinn, séu um 1,20 til 1,30 metrar á hæð. Stefnanda hefði því verið í lófa lagið að teygja sig upp til að losa keðjurnar eða að fá sér trausta undirstöðu til að standa upp á. Ekkert hafi verið því til fyrirstöðu að setja steininn á lágar undirstöður og losa keðjuna. Stefnandi hafi sjálfur sett steininn í þessa hæð og farið upp á hann algjörlega að þarflausu. Þá er því alfarið mótmælt að stefnanda hafi verið ætlað að klöngrast einum upp á stórgrýtinu sem og að lagt hafi verið fyrir hann að vinna verkið með þessum hætti.
Á því er byggt að slys stefnanda hafi orðið vegna óhappatilviljunar og / eða eigin sakar hans. Stefnandi, sem hafi gjörþekkt aðstæður á vinnustaðnum, hafi staðið ógætilega að verkinu og hafi ekki sýnt tilhlýðilega aðgæslu í umrætt sinn. Þá hefði hann einnig í ljósi reynslu sinnar og þekkingar auðveldlega getað varast þær hættur sem kunna að hafa verið tengdar því að fara ofan af grjótinu.
Telur stefndi af framangreindu ljóst vera að aðstæður á vinnustað hafi alls ekki verið hættulegar eins og stefnandi haldi fram né hafi þeim verið ábótavant á nokkurn hátt.
Því er alfarið mótmælt að slysið megi rekja til saknæmrar háttsemi annarra starfsmanna stefnda, s.s. að verkstjórn hafi verið ábótavant.
Stefnandi hafi unnið hjá stefnda í tæpt ár. Hann hafi margsinnis áður tekið á móti stórgrýti sem komið var með til stefnda. Um einfalt verk sé að ræða sem ekki þarfnast sérstakrar verkstjórnar umfram þá verkstjórn sem felist í að setja nýjan mann inn í starfið. Stefnandi hafi haft alla möguleika á að meta sjálfur hvort hann þyrfti aðstoð við verkið og honum hafi borið að óska aðstoðar ef hann taldi sig ekki ráða við að losa steininn. Ítrekuð eru mótmæli við því að lagt hafi verið fyrir stefnanda að vinna verkið með þeim hætti sem hann gerði.
Að öllu framangreindu virtu telur stefndi einsýnt að slys stefnanda verði ekki rakið til ónógrar verkstjórnar. Þvert á móti verði stefnandi sjálfur að bera fulla ábyrgð á því að slysið varð vegna aðgæsluleysis hans í umrætt sinn.
Í ljósi alls framangreinds telur stefndi fullljóst vera að hvorki aðstæður á vinnustað né verkstjórn hafi verið með þeim hætti að brotið hafi í bága við lög nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum eða reglur settar með stoð í þeim lögum.
Að lokum er því sérstaklega mótmælt að slysið hafi verið orsök uppsagnar stefnanda. Það sé alfarið rangt. Hið rétta sé að ástæða uppsagnarinnar hafi verið sú að stefnandi hafi ekki staðið sig í starfi og ekki brugðist við ítrekuðum óskum um að haga vinnu sinni betur. Hafi ákvörðun um uppsögnina verið tekin áður en slysið átti sér stað. Þá skuli það ítrekað að stefnandi hafi ekki tilkynnt stefnda um slysið fyrr en eftir að honum hafði verið sagt upp.
Til vara byggir stefndi í fyrsta lagi á því að tjón stefnanda sé að mestu leyti að rekja til eigin sakar stefnanda og ef til vill óhappatilviljunar. Stefnanda eigi því að bera mestan hluta tjóns síns sjálfur. Því til stuðnings vísist til sömu málsástæðna og fram koma til rökstuðnings aðalkröfu eftir því sem við á.
Niðurstaða
Af hálfu stefnda er því ekki mótmælt að umrætt slys hafi átt sér stað eða að stefnandi hafi hlotið af því tjón, sbr. framlagða matsgerð. Hins vegar er deilt um hvort stefndi beri bótaábyrgð á slysinu.
Engin vitni voru að slysinu og er stefnandi einn til frásagnar um aðdraganda þess. Slysið varð á svokölluðum steinalager sem var á vinnusvæði stefnda fyrir utan steinsmiðjuna. Stefnandi lýsti aðdraganda slyssins fyrir dómi þannig að hann hefði verið í kaffitíma að morgni dags þegar verkstjóri bað hann að fara út og taka á móti bíl sem var að koma með stein og ganga frá steininum á steinalagernum. Kveðst stefnandi, með aðstoð bílstjórans, hafa slegið keðjum utan um steininn. Var steinninn síðan hífður með krana sem þarna er. Steinninn var þungur og yfir burðargetu kranans. Var því pumpað í loftpúða bílsins og pallinum lyft í efstu stöðu þannig að kraninn gat tekið við. Var loftinu síðan dælt úr loftpúðum bílsins og honum ekið undan krananum. Steinninn var síðan dreginn yfir grjóthrúguna á svonefndum hlaupaketti. Til þess að stjórna krananum var notuð fjarstýring sem var föst við hlaupaköttinn. Stefnandi kveðst hafa fundið steininum stað í grjóthrúgunni. Hann setti spýtukubba þar á og slakaði steininum ofan á. Kvað hann spýturnar settar undir til þess að unnt sé að ná keðjunum af. Þar sem fjarstýring kranans eða stjórntækið er fast við hlaupaköttinn þurfi að ganga á eftir krananum inn á grjóthrúguna. Stefnandi kveðst hafa prílað upp á steininn og húkkað keðjuna úr og síðan slegið hana lausa. Snjóföl var yfir öllu. Þegar hann var að fara ofan af steininum þá kveðst hann hafa stigið niður á steinbrot sem var þarna við hliðina á steininum. Þá rann hann aftur fyrir sig með fæturna upp í loft og brotlenti í hrúgunni. Kvað hann fallið hafa verið tveir til þrír metrar. Hann kveðst síðan hafa klöngrast upp úr grjóthrúgunni. Hann kveðst hafa séð samstarfsmann sinn, rölt til hans og sagt honum frá því að hann hefði dottið. Er hann ætlaði að halda áfram við vinnu sína kveðst hann hafa fundið til sársauka. Hann hafi því farið inn til Brynjars Sveinbjörnssonar verkstjóra og sagt honum frá því að hann hefði dottið og að hann þyrfti að skreppa til læknis.
Stefnandi bar að farið sé með steinana í grjóthrúguna og séu þeir skildir þar eftir. Þegar þurfi að nota þá séu þeir færðir aftur til baka inn í húsnæðið á þar tilgerðar sliskjur þar sem steinarnir eru sagaðir niður. Til þess að unnt sé að ná steininum út úr hrúgunni þá sé reynt að hafa hann eins hátt uppi og hægt sé. Reynt sé að finna fleti þar sem hægt sé að koma honum fyrir. Þegar slysið varð hafi lagerinn verið fullur af grjóti.
Stefnandi bar einnig að hann hefði áður tekið á móti jafn þungum og stórum steinum. Hann var lagermaður og átti hann m.a. að sjá um grjótlagerinn. Fólst það í því að koma grjótinu inn á lagerinn, aðrir hafi séð um að taka grjótið úr hrúgunni.
Slysið var ekki tilkynnt til Vinnueftirlits ríkisins fyrr en nokkru eftir að það gerðist. Í ljósi þess verður í máli þessu byggt á framburði stefnanda um slysið og aðdraganda þess.
Stefnandi hafði unnið í tæpt ár hjá stefnda þegar slysið varð og hafði oft áður unnið sambærilegt verk. Hann var lagermaður og var í hans verkahring að taka á móti steinum sem bárust til fyrirtækisins. Voru steinarnir síðan teknir eftir þörfum inn í steinsmiðjuna. Samkvæmt framburði Brynjars Sveinbjörnssonar verkstjóra var einnig í verkahring stefnanda að sjá um svæðið þar sem lagerinn var og sjá um að moka snjó og salta ef svo bar undir. Stefnandi stóð einn að verkinu sem var venjan samkvæmt því sem fram hefur komið. Liggur ekki annað fyrir en að hann hefði getað fengið aðstoð hefði hann talið þörf á því. Fram hefur komið að stefnandi var í grófbotnuðum skóm með stáltá sem stefndi hafði séð honum fyrir. Stefnandi heldur því fram að reynt hafi verið að hafa steinana eins hátt uppi og mögulegt var til þess að auðveldara væri að ná þeim inn. Hefur ekki verið sýnt fram á að stefnandi hafi fengið fyrirmæli um að haga verkinu með þeim hætti. Samkvæmt framburði Brynjars verkstjóra er það lagermannsins að vega það og meta hvar steinninn er settur niður. Reynt sé að raða steinunum þannig að þeir renni ekki til og séu ekki hættulegir og jafnframt að auðvelt sé að ná þeim. Stefnandi laut engum fyrirmælum um það hvar hann ætti að koma þessum tiltekna steini fyrir. Verkið var á hans ábyrgð og var það hans að ákveða vinnutilhögun og vega og meta hvar öruggast væri að koma steininum fyrir. Stefnandi þekkti vel aðstæður og mátti gera sér grein fyrir að hált gæti verið á svæðinu þar sem snjóföl var yfir. Bar honum því að sýna sérstaka aðgát og taka mið af aðstæðum við framkvæmd verksins. Ekki hefur verið sýnt fram á að aðstæður á vinnustaðnum hafi brotið í bága við ákvæði laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.
Þegar framanritað er virt er það álit dómsins að slysið verði rakið til óhappatilviljunar sem stefndi beri ekki skaðabótaábyrgð á. Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í málinu.
Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.e. þóknun lögmanns hans, Ólafs Arnar Svanssonar hdl., 500.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun málflutningsþóknunar er ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð
Stefndi, S. Helgason ehf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Péturs Heiðars Egilssonar.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.e. þóknun lögmanns hans, Ólafs Arnar Svanssonar hdl., 500.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.