Hæstiréttur íslands

Mál nr. 435/2003


Lykilorð

  • Sjómaður
  • Ráðningarsamningur
  • Vis major


Fimmtudaginn 1

 

Fimmtudaginn 1.apríl 2004.

Nr. 435/2003.

Kristinn Arnar Pálsson

(Jónas Haraldsson hrl.)

gegn

Festi ehf.

(Kristján Þorbergsson hrl.)

 

Sjómenn. Ráðningarsamningur. Vis major.

K var matsveinn á fjölveiðiskipinu G í eigu F þegar skipið fórst við strendur Noregs. Fékk K greidda kauptryggingu í einn mánuð en krafðist í málinu launa sem næmu meðallaunum hans á tilteknu tímabili áður en skipið sökk. Talið var að óviðráðanleg atvik hafi leitt til skipsskaðans og við það hafi gagnkvæm skylda aðila samkvæmt vinnusamningi fallið niður. Þar sem skipsskaðinn hafði átt sér stað erlendis bar í samræmi við þágildandi reglu 3. mgr. 26. gr. laga nr. 35/1985 að greiða K laun í einn mánuð og var fallist á með F að miða ætti fjárhæð launa við kauptryggingu samkvæmt kjarasamningi. Var F því sýknað af kröfu K í málinu. Sjá einnig dóm í máli nr. 434/2003.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. nóvember 2003 og krefst þess að stefndi greiði sér 1.008.630 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 20. júní 2003 til greiðsludags og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti..

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Kristinn Arnar Pálsson, greiði stefnda, Festi ehf., 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 29. október 2003.

                Mál þetta var þingfest 19. mars 2003 og tekið til dóms 2. október sl.  Stefnandi er Kristinn Arnar Pálsson, kt. 051156-3749, Þórustíg 30, Njarðvík en stefndi er Festi ehf., kt. 590371-0769, Flatahrauni 5a, Hafnarfirði.

                Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.008.630 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá 20. júní 2003 til greiðsludags og til greiðslu málskostnaðar.

                Stefndi krefst sýknu og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað.

I.

                Málavextir eru óumdeildir.  Stefnandi vann sem matsveinn á fjölveiðiskipinu Guðrúnu Gísladóttur KE 15 og réði sig til starfa í júlí 2001.  Skipið var þá í smíðum erlendis og sótti stefnandi skipið þangað og sigldi með því til Íslands.  Tímabilið 26. september til 16. nóvember 2001 unnu skipverjar í tímavinnu við að undirbúa skipið til veiða.  Þann 17. nóvember 2001 hóf skipið síldveiðar og var aflinn frystur um borð. Aflanum var aðallega landað í Noregi. 

Á skipinu var svokallað skiptimannakerfi, þannig að hluti skipverja skipsins var um borð, en hluti í fríi, svokölluðum frítúr.  Skipið kom til löndunar í Leksnes í Noregi þann 6. júní 2002 og fór stefnandi þá um borð en hann hafði verið í frítúr í veiðiferðinni á undan.  Þann 18. júní 2002 steytti skipið á skeri við Noregsstrendur er það var á leið til löndunar í Leksnes.  Sat skipið fast á skerinu þann dag en daginn eftir þann 19. júní 2002 rann það af skerinu og sökk.  Þann sama dag flugu flestir úr áhöfn heim til Íslands.

Í kjölfar slyssins greiddi stefndi áhöfn skipsins aflahlut vegna þessarar síðustu veiðiferðar skipsins.  Þá greiddi stefndi einnig þeim sem höfðu verði í áhöfn skipsins lágmarkslaun, þ.e. kauptryggingu, í einn eða tvo mánuði eftir stöðu viðkomandi, sbr. 26. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.  Stefnandi sem var undirmaður fékk greidda kauptryggingu í einn mánuð.

Fyrir liggur í málinu að stefndi hefur ekki fallist á að stefnandi eigi rétt á hærri launum en kauptryggingu og hefur ennfremur hafnað þeirri kröfu stefnanda að greiða meðallaun miðað við afla skipsins mánuðina á undan.

II.

                Stefnandi byggir kröfu sína á því að hann hafi verið ráðinn á skip stefnda sem matsveinn til óákveðins tíma.  Ekki hafi verið gerður skriflegur ráðningarsamningur við hann, sbr. 6. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.  Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. sjómannalaga sé skiprúmssamningi slitið þegar skip ferst.  Af þeim ástæðum hafi ráðningu stefnanda lokið 19. júní 2002 og sé ekki um það deilt.

                Í 3. mgr. 26. gr. sjómannalaga segi að verði skiprúmssamningi slitið erlendis af þeim ástæðum að skip ferst, sbr. 1. mgr., eigi skipverji rétt til launa á meðan hann sé atvinnulaus af þeim sökum, þó ekki lengur en í tvo mánuði frá ráðningarslitum, ef hann sé stýrimaður, vélstjóri, bryti eða loftskeytamaður, en í einn mánuð frá sama tíma, ef hann gegni annarri stöðu á skipi.  Stefnandi hafi verið ráðinn sem matsveinn á skipið og eigi því rétt á launum í einn mánuð.  Hann hafi orðið atvinnulaus í kjölfar skipsskaðans í meira en einn mánuð og ekki fengið annað starf á þessu mánaðartímabili.

                Ágreiningur aðila snúist um það eitt hvort stefnandi eigi að fá lágmarkslaun, þ.e. kauptryggingu, fyrir þennan eina mánuð eða meðallaun miðað við aflareynslu undanfarinna mánuða.

                Stefnandi byggir kröfu sína um meðallaun á því að sú krafa sé í samræmi við  dóma Hæstaréttar.  Samkvæmt fordæmum Hæstaréttar beri að finna út heildarlaun stefnanda síðustu mánuði og deila í með lögskráningardögum hans og þannig finna meðallaun fyrir hvern plássráðningardag.  Krafa stefnanda sé miðuð við tekjur stefnanda tímabilið frá 17. nóvember 2001 er skipið hafi byrjað á síldveiðum til þess tíma er það fórst 19. júní 2002  eða um það bil sjö mánaða tímabil.

Máli sínu til stuðnings vísar stefnandi til eftirfarandi Hæstaréttardóma: Hrd. 1988/518, mál nr. 326/2000, mál nr. 186/2001, mál nr. 197/2001, mál nr. 457/2001, mál nr. 135/2002, mál nr. 292/2002, mál nr. 319/2002 og mál nr. 342/2002.  Í öllum þessum dómum Hæstaréttar komi fram að miða skuli við meðallaun í uppsagnarfresti en ekki eingöngu lágmarkslaun eins og stefndi haldi fram.

Þá bendir stefnandi á að fram hafi komið í Hæstarréttarmáli nr. 292/2002 og máli nr. 319/2002 að miða skuli við lögskráningardaga en ekki ráðningardaga þegar meðallaun séu fundin út.  Í Hæstarréttardómi 1990/1246 komi fram að skipverji eigi rétt á launum óskertan tíma þrátt fyrir frítúrakerfi áhafnar skips.

Stefnandi sundurliðar kröfu sína þannig: Launatekjur stefnanda tímabilið 17. nóvember 2001 til 20. júní 2002 samtals 4.237.436 krónur.  Lögskráningardagar á þessu tímabili voru 125.  Meðaltekjur hvern lögskráningardag voru 33.899 krónur (4.237.436/125=33899) x 30 dagar = 1.016.970 krónur.  Við þessa tölu bætist fæðispeningar 888 krónur x 30 eða 26.640 krónur.  Samtals sé því krafan 1.043.610 krónur. Við það bætist 10,17% orlof eða 106.135 krónur.  Þá bætist einnig við 6% hluti atvinnurekenda í lífeyrissjóði af 1.123.105 krónum eða 67.386 krónur.  Samtals 1.190.491 króna.  Af þessari tölu dragist kauptrygging sem útgerðin hafi greitt stefnanda í einn mánuð eða 181.861 króna.  Samtals nemi því stefnukrafan 1.008.630 krónur.

III.

                Stefndi telur það grundvallarreglu í kröfurétti að aðilar samningssambands verði hvor um sig að bera ábyrgð á því ef ekki reynist unnt að efna samning vegna óviðráðanlegra ytri atvika.  Í slíkum tilfellum falli niður gagnkvæm efndaskylda aðila án réttar til bóta.  Þessi grundvallarregla gildi einnig í vinnurétti og leiði hún til þess að vinnuskylda launþega falli niður og einnig réttur hans til launa ef aðilar vinnusambands geti ekki uppfyllt vinnuskyldu sína vegna óviðráðanlegra atvika eða ,,force majeur.    Í þessu sambandi vísar stefndi til 3. gr. laga nr. 19/1979.

Stefnda hafi ekki lengur verið mögulegt að efna skuldbindingar sínar gagnvart stefnanda þegar skipið hafi sokkið þann 19. júní 2002. Samkvæmt 26. gr. laga nr. 35/1985 falli skiprúmssamningur sjálfkrafa niður ef skip ferst.  Sé skiprúmssamningi slitið erlendis af þessum ástæðum hafi löggjöfin kveðið svo á um í 3. mgr. 26. gr. að skipverji skuli eiga rétt til launa í einn til tvo mánuði eftir því hvaða stöðu hann gegni um borð. Óumdeilt sé að stefnandi hafi verið undirmaður og eigi því rétt til launa í einn mánuð.

                Stefndi mótmælir því að stefnandi eigi rétt til launa miðað við aflareynslu skipsins síðustu mánuði fyrir slysið.  Samkvæmt kjarasamningi á milli Sjómannasambands Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna eigi stefnandi aðeins rétt til launa er nemi kauptryggingu þennan eina mánuð.  Í því sambandi vísar stefndi til gr. 1.04 í kjarasamningi aðila.  Þá sé einnig að finna í gr. 1.05 í kjarasamningi ákvæði um tímakaup.  Það ákvæði fjalli um í hvaða tilfellum greiða skuli tímakaup í þeim tilfellum sem ákvæði um aflahlut eða kauptryggingu eigi ekki við.  Samkvæmt 6. mgr. gr. 1.10 í kjarasamningi aðila hafi stefndi getað greitt stefananda tímakaup en kosið að greiða honum kauptryggingu þar sem hann væri betur settur með henni.

                Réttur til aflahlutar sé hins vegar algjörlega bundinn því skilyrði að afla sé landað, sbr. gr. 1.26 og gr. 1.27 í kjarasamningi aðila.  Ýmis ákvæði séu einnig í kjarasamningi um greiðslu til skipverja vegna tafa eða stöðvunar á útgerð, sbr. gr. 1.13, 1.17, 1.18 og 1.10.  Í þessum ákvæðum sé ávallt gert ráð fyrir að greitt sé annað hvort tímakaup eða kauptrygging vegna tafa eða stöðvunar á úthaldi.  Ekki sé hægt að fallast á með stefnanda að réttur hans sé meiri í því tilviki er skip ferst.  Sérstaklega þegar haft er í huga að vinnuframlag og vinnuskylda sjómannsins falli niður í slíkum tilvikum.

                Stefndi mótmælir túlkun stefnanda á dómum Hæstaréttar varðandi þetta atriði.  Þessir dómar eigi ekki við í því tilviki er skip ferst.

                Ákvæði 26. gr. sjómannalaga um rétt skipverja til launa eftir að skip sekkur feli í sér frávik frá meginreglu kröfu og vinnuréttar um réttaráhrif ,,force majeur“ atvika og leggja á herðar útgerðar íþyngjandi skyldur.  Samkvæmt meginreglum um lögskýringar beri að skýra slíkt ákvæði þröngt og velja þann kost er skemmst gengur og feli í sér minnst útgjöld fyrir stefnda.

                Stefndi mótmælir einnig útreikningum stefnanda á svokölluðum meðallaunum.  Svokallað skiptimannakerfi hafi verið við lýði á skipi stefnda.  Samkvæmt þessu skiptikerfi hafi stefnandi farið í tvær veiðiferðir en verið í fríi þá þriðju.  Stefnandi verði því að deila tekjum sínum á alla daga ársins að teknu tilliti til skiptikerfisins og almennra fría en það hafi hann ekki gert.  Þá mótmælir stefndi kröfu stefnanda um fæðispeninga og orlof þar sem þessir liðir séu tvítaldir hjá stefnanda.  Kröfu stefnanda um 6% aukatillag vegna lífeyrisréttinda sé einnig mótmælt enda hafi stefnandi ekki sýnt fram á að hann hafi glatað lífeyrisréttindum eða sýnt fram á það hvernig hann hafi eignast kröfu lífeyrissjóðs sjómanna.  Þá kveði 26. gr. sjómannalaga aðeins á um rétt til launa en ekki rétt til bóta vegna hugsanlegra tapaðra lífeyrisréttinda. 

IV.

                Sú regla gildir í vinnurétti að óviðráðanleg atvik geta leitt til þess að gagnkvæm skylda aðila, vinnuskylda launþegans og skylda vinnuveitanda til að greiða laun, fellur niður. Eftir að skipið Guðrún Gísladóttir KE-15 sökk var hvorugum aðila unnt að efna skuldbindingar sínar.  Undantekning frá þessari meginreglu er 3. mgr. 26. gr. laga nr. 35/1985 sem mælir svo fyrir að skipverja skuli greidd laun í einn eða tvo mánuði eftir að skip ferst, allt eftir stöðu viðkomandi á skipinu.

                Stefndi greiddi stefnanda laun í einn mánuð, kauptryggingu samkvæmt kjarasamningi aðila.  Stefndi telur hins vegar að honum beri laun sem taki mið af meðallaunum hans mánuðina á undan þar sem aflahlutur kom til greiðslu. Máli sínu til stuðnings vísar stefndi til dóma Hæstaréttar og telur þá hafa fordæmisgildi í þessu máli. 

                Í tilvitnuðum dómum Hæstaréttar var á því byggt að útgerð hefði getað hagað ráðstöfunum sínum þannig að starfslok sjómanns féllu saman við stöðvun á úthaldi skips til veiða.  Var það talið andstætt almennum reglum vinnuréttar að breyta samningsbundnum kjörum launþegans í uppsagnarfresti og greiða honum aðeins kauptryggingu. 

                Í þessu máli eru atvik með öðrum hætti.  Ófyrirsjáanleg ytri atvik leiddu til þess að útgerð skipsins var hætt, atvik er stefndi verður ekki talinn bera ábyrgð á.  Tilvitnaðir dómar Hæstaréttar verða því ekki taldir hafa fordæmisgildi í þessu máli.  Verður því ekki unnt að fallast á með stefnda að hann eigi rétt til meðallauna er taki mið af aflahlut síðustu mánaða.

                Niðurstaða málsins verður því sú að stefndi verður sýknaður af kröfum stefnanda í málinu.  Rétt þykir að málskostnaður falli niður.

                Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

                Stefndi, Festi ehf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Kristins Arnars Pálssonar, í máli þessu.

                Málskostnaður fellur niður.