Print

Mál nr. 340/2011

Lykilorð
  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Réttindaröð
  • Forgangskrafa
  • Innstæða
  • Lánssamningur
  • Stjórnarskrá
  • Eignarréttur
  • Afturvirkni
  • Jafnræði
  • Meðalhóf
  • Mannréttindasáttmáli Evrópu
  • Lagaskil
  • Samningsvextir
  • Dráttarvextir
  • Sératkvæði

                                                                                              

Föstudaginn 28. október 2011.

 

Nr. 340/2011.

Arrowgrass Distressed Opportunities Fund Limited

Arrowgrass Master Fund Ltd.

CIG & Co

Conseq Invest plc

Conseq Investment Management AS

CVI GVF (Lux) Master S.a.r.l.

Fondo Latinoamericano de Reservas (F.L.A.R.)

GLG European Distressed Fund

GLG Market Neutral Fund

ING Life Insurance and Annuity

ING USA Annuity and Life Insurance Co.

LMN Finance Ltd.

Lyxor/Third Point Fund Limited

Monumental Life Insurance Company

National Bank of Egypt (UK) Limited

Ohio National Life Assurance Corporation

PHL Variable Insurance Company

Phoenix Life Insurance Company

Reliastar Life Insurance Company

Security Life of Denver Insurance

Sun Life Assurance Company of Canada

Third Point Partners LP (US)

Third Point Offshore Master Fund LP

Third Point Partners Qualified LP

Third Point Ultra Master Fund LP (Cayman)

Värde Fund LP

Värde Fund V-B LP

Värde Fund VI-A LP

Värde Fund VII-B LP

The Värde Fund VIII LP

The Värde Fund IX LP/The Värde Fund IX-A LP

Värde Investment Partners LP

Värde Investment Partners (Offshore) Master LP

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

Bayerische Landesbank

Bremer Landesbank

Commerzbank AG

Commerzbank International S.A.

Erste Europäische Pfandbrief- und

Kommunalkreditbank AG

Eurohypo AG

DekaBank Deutsche Girozentrale

DekaBank Deutsche Girozentrale Luxembourg S.A.

Deutsche Postbank International S.A.

Düsseldorfer Hypothekenbank AG

DZ BANK AG Deutsche Zentral Genossenschaftsbank

Landesbank Baden-Württemberg

LBBW Luxembourg SA

Deutsche Hypothekenbank AG

Raiffeisenbank International AG

Österreichische Volksbanken AG

Sparkasse Oberhessen

Taunus-Sparkasse

Sparkasse Pforzheim Calw

Sparkasse-Jena-Saale-Holzland

Sparkasse Hannover

Nassauische Sparkasse Anstalt des öffentlichen Rechts

Kreissparkasse Peine

Die Sparkasse Bremen AG

Sparkasse Oder-Spree

(Arnar Þór Jónsson hrl.)

Skiki ehf.

Blomstra ehf.

Íslenska útflutningsmiðstöðin hf.

Óttar Yngvason

Rakel Óttarsdóttir

(Óttar Yngvason hrl.)

Deutsche Bank Trust Company Americas og

(Eyvindur G. Sólnes hrl.)

Landsbanki Guernsey Ltd.

(Gunnar Jónsson hrl.)

gegn

Landsbanka Íslands hf. og

(Herdís Hallmarsdóttir hrl.)

The Financial Services Compensation Scheme Ltd.

(Andri Árnason hrl.

Baldvin Björn Haraldsson hdl.)

og

Landsbanki Íslands hf. og

(Herdís Hallmarsdóttir hrl.)

The Financial Services Compensation Scheme Ltd.

(Andri Árnason hrl.

Baldvin Björn Haraldsson hdl.)

gegn

Arrowgrass Distressed Opportunities Fund Limited

Arrowgrass Master Fund Ltd.

CIG & Co

Conseq Invest plc

Conseq Investment Management AS

CVI GVF (Lux) Master S.a.r.l.

Fondo Latinoamericano de Reservas (F.L.A.R.)

GLG European Distressed Fund

GLG Market Neutral Fund

ING Life Insurance and Annuity

ING USA Annuity and Life Insurance Co.

LMN Finance Ltd.

Lyxor/Third Point Fund Limited

Monumental Life Insurance Company

National Bank of Egypt (UK) Limited

Ohio National Life Assurance Corporation

PHL Variable Insurance Company

Phoenix Life Insurance Company

Reliastar Life Insurance Company

Security Life of Denver Insurance

Sun Life Assurance Company of Canada

Third Point Partners LP (US)

Third Point Offshore Master Fund LP

Third Point Partners Qualified LP

Third Point Ultra Master Fund LP (Cayman)

Värde Fund LP

Värde Fund V-B LP

Värde Fund VI-A LP

Värde Fund VII-B LP

The Värde Fund VIII LP

The Värde Fund IX LP/The Värde Fund IX-A LP

Värde Investment Partners LP

Värde Investment Partners (Offshore) Master LP

(Ragnar Aðalsteinsson)

Bayerische Landesbank

Bremer Landesbank

Commerzbank AG

Commerzbank International S.A.

Erste Europäische Pfandbrief- und

Kommunalkreditbank AG

Eurohypo AG

DekaBank Deutsche Girozentrale

DekaBank Deutsche Girozentrale Luxembourg S.A.

Deutsche Postbank International S.A.

Düsseldorfer Hypothekenbank AG

DZ BANK AG Deutsche Zentral Genossenschaftsbank

Landesbank Baden-Württemberg

LBBW Luxembourg SA

Deutsche Hypothekenbank AG

Raiffeisenbank International AG

Österreichische Volksbanken AG

Sparkasse Oberhessen

Taunus-Sparkasse

Sparkasse Pforzheim Calw

Sparkasse-Jena-Saale-Holzland

Sparkasse Hannover

Nassauische Sparkasse Anstalt des öffentlichen Rechts

Kreissparkasse Peine

Die Sparkasse Bremen AG

Sparkasse Oder-Spree

WGZ Bank Luxembourg S.A.

Landesbank Berlin AG

Deutsche Postbank AG

Caixa Geral de Depositos

The Royal Bank of Scotland plc.

ABN AMRO Bank NV, London Branch

Sparkasse zu Lübeck AG

Vereinigte Sparkassen im Landkreis Weilheim

KfW Bankengruppe

Arrowgrass Special Situations S.a.r.l.

(Arnar Þór Jónsson hrl.)

Skika ehf.

Blomstra ehf.

Íslensku útflutningsmiðstöðinni hf.

Óttari Yngvasyni

Rakel Óttarsdóttur

(Óttar Yngvason hrl.)

Deutsche Bank Trust Company Americas og

(Eyvindur G. Sólnes hrl.)

Landsbanki Guernsey Ltd.

(Gunnar Jónsson hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Réttindaröð. Forgangskrafa Innstæða. Lánssamningur. Stjórnarskrá. Eignarréttur. Afturvirkni. Jafnræði. Meðalhóf. Mannréttindasáttmáli Evrópu. Lagaskil. Samningsvextir. Dráttarvextir. Sératkvæði.

A og fleiri kærðu úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem krafa breska tryggingarsjóðsins FSCS, sem byggði á kröfum eigenda innstæðna svonefndra Icesave-reikninga sem FSCS hafði leyst til sín í framhaldi af falli bankans LÍ hf., var viðurkennd að stærstum hluta og sá hluti hennar talinn forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slit bankans. Ýmsum málsástæðum var teflt fram af hálfu sóknaraðila, þar á meðal að þeir hefðu beðið tjón vegna setningar laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. og að ákvæði í þeim fengju ekki staðist gagnvart stjórnarskránni og nánar tilgreindum fjölþjóðlegum samningum, sem Ísland hefði undirgengist. Í dómi Hæstaréttar sagði að óumdeilt væri að eftir mikinn vöxt íslenska hagkerfisins í nokkur ár, sem tengdist ekki síst útþenslu stærstu viðskiptabanka landsins eftir einkavæðingu þeirra á fyrstu árum þessarar aldar, hefðu orðið umskipti til hins verra á árinu 2007, sem komið hefðu fram snöggt og af fullum þunga í lok septembermánaðar og fyrstu dagana í október 2008. Jafnframt lægi ljóst fyrir að skammur aðdragandi hefði verið að því, eða einungis fáeinir dagar, að meginhluti frumvarps, sem varð að lögum nr. 125/2008, hefði verið saminn. Hæstiréttur gerði grein fyrir lögskýringargögnum að baki lögunum og benti á að það væri á valdi dómstóla að skera úr um hvort tiltekin lagafyrirmæli, sem deilt væri um, færu í bága við ákvæði stjórnarskrár og bæri ekki réttarfarsnauðsyn til að íslenska ríkið væri aðili að málinu. Hæstiréttur rakti þær aðstæður sem ríktu hér á landi haustið 2008 og gáfu tilefni til setningar laga nr. 125/2008. Síðan sagði í dóminum að þegar virtur væri sá mikli og fordæmalausi vandi, sem við hefði verið að etja, og þau skýru markmið sem stefnt hefði verið að, yrði við úrlausn um lögmæti ákvarðana löggjafans að játa honum ríku svigrúmi við mat á því hvaða leiðir skyldu farnar til að bregðast við því flókna og hættulega ástandi sem upp hefði verið komið. Hæstiréttur féllst á með sóknaraðilum að kröfuréttindi þeirra teldust vera eign í merkingu stjórnarskrár og 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu. Hvað varðaði sjónarmið um réttmætar væntingar benti rétturinn þó á að löggjafinn hefði margoft áður gengið út frá því að honum væri heimilt að breyta rétthæð krafna við búskipti án þess að stjórnskipunarlög takmörkuðu svigrúm til þess. Því næst rakti Hæstiréttur dæmi um slíka löggjöf en í dómi réttarins kom fram að þegar þetta væri virt yrði ekki fallist á með sóknaraðilum að þeir hefðu með réttu getað skapað sér væntingar um að löggjafinn myndi ekki aðhafast að þessu leyti þeim til óhags, og ætti það alveg sérstaklega við um þá úr hópi sóknaraðila, sem eignuðust kröfur sínar eftir 6. október 2008, en þeim hefði þá verið fullljós sú áhætta sem þeir tækju. Sóknaraðilar hefðu einnig haldið því fram að með lögum nr. 125/2008 hefðu réttindi þeirra verið skert með afturvirkum hætti, sem ekki fengi staðist í ljósi nánar tilgreindra ákvæða stjórnarskrár og fjölþjóðlegra samninga. Um þetta sagði í dómi Hæstaréttar að getið hefði verið að framan margvíslegra breytinga á lögum um röðun krafna eftir rétthæð sem skyldi gilda við skipti upp frá því. Með lögum nr. 125/2008 hefði verið mælt fyrir um réttindaröð krafna á hendur fjármálafyrirtækjum, sem tekin yrðu til slita eftir gildistöku laganna. Með þeim hefði ekki verið mælt fyrir um nýja skipan við slit sem þegar væru hafin eða lokið. Málsástæðu sóknaraðila, sem að þessu lyti, væri samkvæmt því hafnað. Einnig sagði í dóminum að lög nr. 125/2008 tækju samkvæmt efni sínu til allra fjármálafyrirtækja, en við setningu laganna hefðu verið miklar líkur á greiðsluþroti þriggja stærstu viðskiptabankanna. Fram væri komið í málinu að lýstar kröfur við slit þessara banka væru hátt í 50.000 talsins, þar af um 12.000 við slit varnaraðilans LÍ hf., en ekki lægi nánar fyrir hve stór hluti þeirra allra hefði stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Þá væri fram komið að líkur stæðu til að meira fengist upp í almennar kröfur við slit annarra banka en varnaraðilans LÍ hf. Lögin hefðu ekki verið sett til að gilda tímabundið heldur fælu þau í sér nýja skipan til frambúðar. Yrði samkvæmt þessu að leggja til grundvallar að með lögunum hefði verið ákveðið með almennum hætti hvernig skipað skyldi réttindaröð krafna við slit fjármálafyrirtækja, sem gæti raskað réttindum mjög margra kröfuhafa íslenskra fjármálafyrirtækja en ekki sóknaraðila einna. Rakið var í dóminum að fyrir setningu laga nr. 125/2008 hefði verið hafið áhlaup á bankana vegna vantrausts innstæðueigenda. Nýir bankar hefðu verið stofnaðir hér á landi í beinu framhaldi af gildistöku laganna á grunni þeirra gömlu og innstæður í þeim á Íslandi fluttar í hina nýju. Til að ná markmiði um starfhæft banka- og greiðslukerfi hefði það verið mat löggjafans að veita yrði innstæðum forgang við slit fjármálafyrirtækja og skapa þannig traust innstæðueigenda á nýju bönkunum og stöðva með því þegar hafið bankaáhlaup. FSCS og LÍ hf. hefðu bent á að með þessu hefði bankaáhlaup verið stöðvað og það síðan fjarað út í bönkum hér á landi á næstu tveimur til þremur vikum. Stæði óhrakin sú staðhæfing þeirra að náðst hefðu þau markmið laga nr. 125/2008 að halda uppi bankastarfsemi og greiðslukerfum í landinu og að innstæður í bönkum á Íslandi stæðu öruggar. Fallist væri á með þeim að málefnalegar ástæður hefðu legið að baki þeirri ákvörðun löggjafans að skipa innstæðum í forgangsröð, sbr. 6. gr. laga nr. 125/2008. Þá hafnaði Hæstiréttur því að forgangur innstæðukrafna takmarkaðist við 20.887 evrur. Því næst sagði í dómi réttarins að þegar virt væru nánar tilgreind töluleg gögn, en efni þeirra hefði að því leyti ekki verið dregið í efa undir rekstri málsins, yrði að telja í ljós leitt að til þess að ná markmiðum löggjafans um að afstýra bankaáhlaupi og hruni hefði verið nauðsynlegt að vernda innstæður þeirra innlendu aðila sem átt hefðu innstæður umfram 20.887 evrur, en takmörkun forgangsréttar við þá fjárhæð hefði verið líkleg til að vinna gegn markmiðum löggafans um að skapa stöðugleika og traust á nýju bönkunum á Íslandi. Að þessari niðurstöðu fenginni hefði það verið skylda löggafans að tryggja jafnframt svo sem auðið var að erlendir innstæðueigendur nytu sambærilegrar stöðu. Þegar hið alvarlega efnahagsástand væri haft í huga og skyldur ríkisins gagnvart íslensku samfélagi og fjölþjóðlegum samningum yrði ekki fallist á að brotið hefði verið gegn meðalhófi með setningu laga nr. 125/2008. Í dómi Hæstaréttar sagði að við úrlausn um stjórnskipulegt gildi laganna hefði að framan verið vísað til víðtæks svigrúms löggjafans við mat á nauðsyn þeirra ákvarðana, sem í lögunum fólust, við aðstæður þar sem stórfelld hætta hefði ógnað tilvist alls samfélagsins vegna keðjuverkandi áhrifa falls stærstu viðskiptabankanna, sem hefði getað endað með hruni efnahagslífs í landinu. Löggjafanum hefði við þessar aðstæður ekki aðeins borið réttur heldur fyrst og fremst stjórnskipuleg skylda til að gæta velferðar almennings og fjárhagslegt uppgjör vegna falls bankanna hefði fyrst og fremst hlotið að verða innbyrðis á milli þeirra, sem ættu beinna hagsmuna að gæta gagnvart þeim. Sú staðhæfing LÍ hf. og FSCS væri óhrakin að engin önnur leið hefði verið fær, sem í raun hefði falið í sér líkur á að markmið laganna næðust og komið jafnar niður en sú sem valin hefði verið. Vísan sóknaraðila til þess að með lögum nr. 44/2009 hefði á ný verið brotið gegn þeim væri órökstudd og haldlaus, en með þeim hefði orðalagi 6. gr. laga nr. 125/2008 verið hnikað lítillega til án þess að það hefði áhrif á efni þeirra. Samkvæmt öllu, sem fram væri komið, væri sýnt að löggjafinn hefði með þeim aðgerðum, sem ágreiningur málsaðila stæði um, ekki gengið lengra en heimilt hefði verið að virtum þeim réttarheimildum, sem áður hefði verið getið. Málsástæðum sóknaraðila, sem á þessu væru reistar, væri því hafnað.

FSCS og LÍ hf. kærðu úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti vegna ágreinings sín á milli um vexti og hvort hluti kröfu FSCS, sem átti rætur að rekja til krafna 76 viðskiptamanna LÍ hf., gæti talist til kominn vegna innlána sem þar með nytu forgangs við slitameðferð þess síðarnefnda. Hæstiréttur féllst á að viðurkenna bæri kröfu FSCS sem forgangskröfu vegna 76 viðskiptamanna, sem afhent hefðu LÍ hf. fjármuni til stofnunar innlánsreikninga þegar bankinn féll. Í úrskurði héraðsdóms hafði á hinn bóginn verið hafnað að viðurkenna kröfu vegna umræddra 76 viðskiptamanna LÍ hf. Þá krafðist FSCS dráttarvaxta samkvæmt lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu vegna óbundinna innstæðna frá 8. október 2008 til og með 22. apríl 2009, sem var sá dagur þegar bankinn var tekinn til slita, og vegna bundinna innstæðna með gjalddaga eftir 8. október 2008 frá gjalddaga þeirra til 22. apríl 2009. Slitastjórn LÍ hf. hafði hafnað tilkalli FSCS til þeirra vaxta en viðurkennt samningsvexti á kröfu hans til og með 22. apríl 2009. Í dómi Hæstaréttar sagði að með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar væri staðfest sú úrlausn hans að bresk lög giltu um samningsskuldbindingar Icesave-innstæðueigendanna og útibús LÍ hf. í London. Samkvæmt því og með vísan til c. liðar 3. mgr. 10. gr. laga nr. 43/2000 um lagaskil á sviði samningaréttar væri og staðfest sú úrlausn hins kærða úrskurðar að reglur breskra laga giltu um rétt varnaraðilans FSCS til að krefjast vaxta af hinum framseldu kröfum. Af þessu leiddi að hvorki yrði fallist á aðalkröfu FSCS um íslenska dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 né fyrstu varakröfu hans um vexti samkvæmt grunnvöxtum Englandsbanka að viðbættu vanefndaálagi samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001. Því næst sagði í dómi réttarins að ágreiningslaust væri með FSCS og LÍ hf. að kæmi til beitingar breskra réttarreglna um dráttarvexti í máli þessu ættu þar við ákvæði í gr. 4.93 í breskum reglum um ógjaldfærni frá árinu 1986 (The Insolvency Rules 1986). Ljóst væri af almennum skilmálum og skilyrðum Icesave-reikninga LÍ hf. að innstæður á þeim bæru vexti „fram að síðasta degi fyrir úttekt“ samkvæmt því sem segði í gr. 10j skilmálanna. Bæri því að fallast á það sjónarmið LÍ hf. að fullnægt væri skilyrðum 1. töluliðar gr. 4.93 bresku gjaldþrotareglnanna. Þegar af þeirri ástæðu og þar sem FSCS hefði ekki leitt að því rök að hann ætti á öðrum lagagrundvelli rétt til dráttarvaxta af kröfu sinni yrðu slíkir vextir ekki dæmdir. Af þessu leiddi að hafna bæri annarri varakröfu FSCS og yrði tekin til greina sú krafa LÍ hf. að vextir samkvæmt Icesave-skilmálum skyldu gilda tímabilið 8. október 2008 til 22. apríl 2009, en það væru þeir vextir sem slitastjórn LÍ hefði samþykkt að krafan bæri og nytu forgangsréttar eins og höfuðstóll hennar. Í úrskurði héraðsdóms hafði á hinn bóginn verið fallist á kröfu FSCS um greiðslu 8% dráttarvaxta á nefndu tímabili samkvæmt breskum rétti. Loks hafnaði Hæstiréttur kröfu FSCS um áfallinn kostnað til 22. apríl 2009 með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar. Samkvæmt öllu framangreindu var niðurstaða málsins sú að viðurkennd var krafa FSCS að fjárhæð 852.130.797.089 krónur og var henni skipað í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen, Jón Steinar Gunnlaugsson og Þorgeir Örlygsson og Eggert Óskarsson héraðsdómari og Hjördís Hákonardóttir fyrrverandi hæstaréttardómari.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kærum 10. og 11. maí 2011, sem bárust réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. apríl 2011, þar sem staðfest var afstaða slitastjórnar varnaraðilans Landsbanka Íslands hf. um að viðurkenna skyldi kröfu varnaraðilans The Financial Services Compensation Scheme Ltd., hér eftir nefndur FSCS, að höfuðstól 4.308.422.006,78 sterlingspund, eða 823.253.277.056 krónur. Þá var kveðið á um að bundnar innstæður skyldu bera samningsvexti frá 8. október 2008 til gjalddaga þeirra, en 8% ársvexti frá gjalddaga til 22. apríl 2009 og óbundnar innstæður 8% ársvexti frá 8. október 2008 til 22. apríl 2009. Loks var krafan viðurkennd sem forgangskrafa við slit varnaraðilans Landsbanka Íslands hf. samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. sömu laga.

Sóknaraðilinn Arrowgrass Distressed Opportunities Fund Limited auk þrjátíu og tveggja annarra í sama hópi krefjast þess aðallega að kröfu varnaraðilans FSCS „að lýstri fjárhæð kr. 925.799.952.976“ verði hafnað sem forgangskröfu samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 við slit varnaraðilans Landsbanka Íslands hf. Til vara krefjast sömu sóknaraðilar að verði fallist á að einhver hluti kröfunnar njóti forgangs samkvæmt nefndu lagaákvæði skuli sú fjárhæð vera að hámarki 20.887 evrur fyrir hvern innstæðueiganda, sem varnaraðilinn leiðir rétt sinn frá, og að vextir, sem krafan hafi borið frá 6. október 2008, njóti ekki forgangs samkvæmt sama lagaákvæði. Að því frágengnu krefjast þeir að hafnað verði kröfu varnaraðilans um að vextir frá 6. október 2008 njóti stöðu forgangskröfu samkvæmt lagaákvæðinu. Þá krefjast þeir að hafnað verði öllum kröfum varnaraðilans FSCS sem lúta að viðurkenningu á kröfufjárhæðum umfram þær, sem samþykktar hafi verið af slitastjórn Landsbanka Íslands hf., þar með talið um forgangsrétt slíkra fjárhæða. Þessir sóknaraðilar krefjast jafnframt málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar óskipt úr hendi varnaraðila.

Sóknaraðilinn Bayerische Landesbank og tuttugu og fjórir aðrir í sama hópi gera sömu kröfur og sóknaraðilinn Arrowgrass Distressed Opportunities Fund Limited og fleiri og áður var getið.

Sóknaraðilinn Skiki ehf. auk fjögurra annarra sóknaraðila krefjast þess aðallega að „ógilt verði viðurkenning“ slitastjórnar Landsbanka Íslands hf. á kröfu varnaraðilans FSCS samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, en að hún verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. sömu laga við slit bankans. Til vara krefjast þeir að verði fallist á að einhver hluti kröfunnar njóti forgangs þá verði sú fjárhæð að hámarki 20.887 evrur fyrir hvern reikningseiganda. Þeir krefjast einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðilinn Deutsche Bank Trust Company Americas krefst þess að hrundið verði þeirri niðurstöðu héraðsdóms að krafa varnaraðilans FSCS njóti forgangs samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Sóknaraðilinn Landsbanki Guernsey Ltd. krefst þess aðallega að hinum kærða úrskurði verði breytt á þann veg að krafa varnaraðilans FSCS verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slit varnaraðilans Landsbanka Íslands hf., en til vara að hún verði eingöngu viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laganna að hámarki fyrir 20.887 evrur vegna hverrar innstæðu, sem kröfulýsing fyrrnefnda varnaraðilans taki til. Hann krefst einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilinn Landsbanki Íslands hf. kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 10. maí 2011. Hann krefst þess að úrskurðurinn verði staðfestur að öðru leyti en því að hafnað verði að viðurkenna 8% ársvexti af bundnum innstæðum frá gjalddögum þeirra til 22. apríl 2009 og af óbundnum innstæðum frá 8. október 2008 til 22. apríl 2009, en staðfest sú afstaða slitastjórnar varnaraðilans að viðurkenna samningsvexti til og með 22. apríl 2009 að fjárhæð 149.752.178,76 sterlingspund. Hann krefst þess jafnframt að hafnað verði kröfum um málskostnað á hendur sér á báðum dómstigum.

Varnaraðilinn FSCS kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 11. maí 2011. Hann krefst þess aðallega að viðurkennd verði krafa hans á hendur varnaraðilanum Landsbanka Íslands hf. að fjárhæð 4.775.401.576,97 sterlingspund, til vara 4.532.354.386,42 sterlingspund en til þrautavara 4.494.599.659,53 sterlingspund og að hún njóti stöðu í réttindaröð við slit varnaraðilans Landsbanka Íslands hf. samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Að því frágengnu krefst hann staðfestingar hins kærða úrskurðar um annað en málskostnað. Þá krefst hann í öllum tilvikum að sóknaraðilar verði dæmdir til að greiða sér óskipt málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Varnaraðilarnir WGZ Bank Luxembourg S.A., Landesbank Berlin AG, Deutsche Postbank AG, Caixa Geral de Depositos, The Royal Bank of Scotland plc., ABN AMRO Bank NV, London Branch, Sparkasse zu Lübeck AG, Vereinigte Sparkassen im Landkreis Weilheim, KfW Bankengruppe og Arrowgrass Special Situations S.a.r.l. hafa ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Fyrir héraðsdómi kröfðust sóknaraðilarnir Arrowgrass Distressed Opportunities Fund Limited og fleiri og Bayerische Landesbank og fleiri að kröfum varnaraðilans FSCS yrði vísað frá dómi að öðru leyti „en lýtur að ágreiningi FSCS og slitastjórnar vegna fjárhæða umfram það sem slitastjórn hefur samþykkt sem forgangskröfur.“ Í forsendum héraðsdóms fyrir hinum kærða úrskurði var þeirri kröfu hafnað, en í kærum þessara sóknaraðila til Hæstaréttar var krafan enn höfð uppi. Með bréfum þeirra 25. ágúst 2011 til Hæstaréttar var fallið frá þessari kröfu og kemur niðurstaða héraðsdóms um þetta atriði því ekki til úrlausnar fyrir réttinum.

Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið munnlega flutt 8. september 2011.

I

Samkvæmt heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., tók Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar í varnaraðilanum Landsbanka Íslands hf., vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd. Bankanum var eftir það veitt heimild til greiðslustöðvunar með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 5. desember sama ár. Með lögum nr. 44/2009, þar sem breytt var nokkrum ákvæðum áðurnefndra laga, var bankinn síðan tekinn til slita og skyldi upphaf þeirra miðast við 22. apríl 2009 þegar lögin öðluðust gildi. Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði 29. sama mánaðar slitastjórn sem annast meðal annars meðferð krafna á hendur bankanum. Hún gaf út innköllun til skuldheimtumanna félagsins 30. apríl 2009 og lauk kröfulýsingarfresti 30. október sama ár. Fjölmargir lýstu kröfu sinni af því tilefni, en meðal þeirra voru sóknaraðilar þessa máls eða í einhverjum tilvikum kröfuhafar, sem sóknaraðilar hafa eftir það öðlast rétt sinn frá. Í kröfum nær allra þeirra fólst jafnframt að þær hlytu stöðu í réttindaröð við slit bankans sem almennar kröfur samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Í langflestum tilvikum eru sóknaraðilar alþjóðleg fjármálafyrirtæki sem eiga skuldabréf og önnur verðbréf, sem gefin voru út af varnaraðilanum Landsbanka Íslands hf., en í hópi þeirra eru einnig nokkrir íslenskir kröfuhafar. Breytingar hafa orðið á hópi upphaflegra sóknaraðila málsins, en nokkrir þeirra féllu frá aðild að því undir rekstri þess í héraði og tíu til viðbótar una niðurstöðu héraðsdóms og hafa ekki kært hana til Hæstaréttar fyrir sitt leyti. Vegna kæru varnaraðilanna á úrskurði héraðsdóms eiga þessir tíu kröfuhafar aðild að málinu fyrir Hæstarétti.

Varnaraðilinn FSCS lýsti einnig kröfu sinni sem hann krafðist að hlyti stöðu í réttindaröð sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Aðild þessa varnaraðila að málinu tengist því að á árinu 2006 hóf varnaraðilinn Landsbanki Íslands hf. að taka við fé, sem lagt var á svonefnda Icesave-innlánsreikninga í útibúi bankans í Bretlandi, en þeir munu hafa verið ætlaðir einstaklingum. Samanlagðar fjárhæðir á slíkum innlánsreikningum, eða smásöluinnlánsreikningum sem stundum eru nefndir svo, námu mjög háum fjárhæðum í byrjun október 2008 þegar bankinn komst í greiðsluþrot og reikningunum var lokað án þess að gert væri upp við eigendur þeirra. Varnaraðilinn FSCS eignaðist eftir það kröfur innstæðueigenda fyrir framsal frá hverjum þeirra, þar með taldar kröfur til vaxta. Í hinum kærða úrskurði er nánar greint frá starfsemi varnaraðilans Landsbanka Íslands hf., sem laut að Icesave-reikningunum í Bretlandi, og ákvörðunum þarlendra yfirvalda um að beita valdheimildum gagnvart bankanum í fyrri hluta október 2008 þegar í óefni var komið hjá honum. Þar greinir einnig nánar frá framsali reikningseigenda á kröfum til varnaraðilans FSCS, sannprófun fjárhæða á einstökum reikningum af því tilefni og að innstæður voru ýmist á bundnum eða óbundnum reikningum þegar rafrænum aðgangi að Icesave-reikningum í Bretlandi var lokað 6. október 2008.

Að loknum kröfulýsingarfresti lýsti slitastjórn Landsbanka Íslands hf. afstöðu sinni til einstakra krafna. Fallist var á kröfu varnaraðilans FSCS um annað en vexti, kostnað og fjárhæðir, sem stöfuðu frá 76 viðskiptamönnum bankans. Þá var fallist á að krafan nyti stöðu í réttindaröð sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðilar og fleiri, sem lýst höfðu kröfum sínum, mótmæltu viðurkenningu kröfunnar í réttindaröð samkvæmt áðurnefndu lagaákvæði, en einnig að því er varðar fjárhæð hennar og vexti. Varnaraðilinn FSCS mótmælti afstöðu slitastjórnar varðandi þann hluta kröfunnar sem stafar frá 76 viðskiptamönnum bankans, sem og um vexti og kostnað. Við meðferð málsins fyrir slitastjórn var án árangurs reynt að jafna ágreininginn. Við svo búið beindi hún málinu til Héraðsdóms Reykjavíkur með bréfi 24. mars 2010 með vísan til 2. mgr. 120. gr., sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991.

Ágreiningur málsaðila er margþættur en hann á rót sína að rekja til áðurnefndra laga nr. 125/2008 sem sett voru 6. október 2008, en öðluðust gildi daginn eftir. Með þeim var eldri lögum breytt með þeim hætti, sem sóknaraðilar telja að fái ekki staðist og skaði verulega hagsmuni þeirra við væntanlegar greiðslur til kröfuhafa af eignum varnaraðilans Landsbanka Íslands hf. við slit hans. Þá hefur því verið hreyft af hálfu hluta sóknaraðila að á ný hafi verið brotið á rétti þeirra með setningu áðurnefndra laga nr. 44/2009. Í meginatriðum eru ágreiningsefni málsins milli sóknaraðila og varnaraðila, en varnaraðila greinir einnig innbyrðis á um úrlausn afmarkaðra þátta í kröfu varnaraðilans FSCS. Nánar verður vikið að málsástæðum aðilanna hér á eftir svo sem þörf er á við úrlausn málsins.

Fyrir héraðsdómi tefldu sóknaraðilarnir Arrowgrass Distressed Opportunities Fund Limited og fleiri og Bayerische Landesbank og fleiri meðal annars fram þeim málsástæðum að framsöl eigenda Icesave-reikninganna til varnaraðilans FSCS væru annmörkum háð, sem leiddi til þess að meta bæri þau ógild og án réttaráhrifa, auk þess sem ófullnægjandi grein hefði verið gerð fyrir sannprófun fjárhæða á einstökum reikningum, svo sem nánar greinir í úrskurði héraðsdóms. Fyrir Hæstarétti hafa sóknaraðilarnir fallið frá þessum málsástæðum og koma þær ekki til frekari álita í málinu.

II

Hinn 6. október 2008 lagði forsætisráðherra fyrir Alþingi frumvarp til laga um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. og mælti jafnframt fyrir því. Tilefnið var efnahagslegur vandi, sem upp var kominn, og nánar greinir frá í næsta kafla dómsins. Þingleg meðferð frumvarpsins fór fram strax og var það samþykkt samdægurs sem lög nr. 125/2008 eins og áður var getið um.

Lögin eru í sex köflum, en þau ákvæði þeirra, sem ágreiningur aðilanna er einkum sprottinn af, eru í II. og IV. kafla. Í I. kafla laganna var kveðið á um fjárveitingu úr ríkissjóði þar sem meðal annars var heimilað að veita fé við sérstakar og mjög óvenjulegar aðstæður á fjármálamarkaði til að stofna nýtt fjármálafyrirtæki eða yfirtaka slíkt fyrirtæki eða þrotabú þess í heild eða að hluta. Í II. kafla var breytt nokkrum ákvæðum og bætt við nýjum í lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki þar sem Fjármálaeftirlitinu var meðal annars heimilað að grípa til ráðstafana teldi það þörf á vegna sérstakra aðstæðna eða atvika í því skyni að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði. Með 6. gr. í sama kafla laganna var bætt við nýrri 1. mgr. í 103. gr. laga nr. 161/2002 sem hljóðaði svo: „Við skipti á búi fjármálafyrirtækis njóta kröfur vegna innstæðna, samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, rétthæðar skv. 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.“ Þá var í IV. kafla laga nr. 125/2008 bætt nokkrum nýjum ákvæðum við lög nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta með áorðnum breytingum. Meðal þeirra var ákvæði í 9. gr. fyrrnefndu laganna sem laut að Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta og mælti fyrir um að nýr málsliður bættist við 3. mgr. 10. gr. síðarnefndu laganna, svohljóðandi: „Krafa sjóðsins nýtur rétthæðar í samræmi við 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. við gjaldþrotaskipti, en ella er hún aðfararhæf án undangengins dóms eða sáttar.“ Með lögum nr. 44/2009 var lögum nr. 161/2002 breytt og þar á meðal var með 6. gr. breytingalaganna hnikað lítillega orðalagi 1. mgr. 103. gr., sbr. 6. gr. laga nr. 125/2008. Eftir þá lagabreytingu er kveðið á um stöðu innlána í réttindaröð við slit fjármálafyrirtækja í 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002.

Stjórnvöld nýttu sér heimildir samkvæmt lögum nr. 125/2008 meðal annars með því að Fjármálaeftirlitið yfirtók á þremur næstu dögum eftir gildistöku þeirra vald hluthafafundar í öllum stærstu viðskiptabönkum landsins, sem voru auk Landsbanka Íslands hf., Glitnir banki hf. og Kaupþing banki hf., jafnframt því að víkja stjórnum þeirra frá og skipa skilanefnd í hverjum fyrir sig. Jafnframt voru stofnaðir þrír nýir bankar á grunni hinna föllnu, sem báru nöfn eldri bankanna en með viðbótinni „Nýi“ fremst í nafni hvers um sig. Fjárhagslegur grundvöllur þeirra var einkum lagður með flutningi eigna til þeirra úr eldri bönkunum en einnig með fjárveitingu úr ríkissjóði. Á móti því yfirtóku nýju bankarnir tilteknar skuldbindingar þeirra eldri, sem fyrst og fremst voru innlán í bönkunum hér á landi. Innlán í útibúum þeirra erlendis, sem einkum voru í Bretlandi og Hollandi í tilviki varnaraðilans Landsbanka Íslands hf., voru hins vegar ekki flutt í nýju bankana. Allir eldri bankarnir þrír voru teknir til slita 22. apríl 2009. Eftir setningu laga nr. 125/2008 hefur Fjármálaeftirlitið yfirtekið stjórn fleiri fjármálafyrirtækja vegna bágrar fjárhagsstöðu þeirra, þar á meðal stærstu sparisjóða landsins og annars af tveimur viðskiptabönkum sem eftir voru.

Sóknaraðilar telja sig hafa beðið tjón vegna setningar laga nr. 125/2008 og að ákvæði í þeim fái ekki staðist gagnvart stjórnarskránni og nánar tilgreindum fjölþjóðlegum samningum, sem Ísland hefur undirgengist. Er þar einkum vísað til samnings um verndun mannréttinda og mannfrelsis, sem veitt var lagagildi með lögum nr. 62/1994 um mannréttindasáttmála Evrópu, og EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið. Málsástæðum sóknaraðila er ítarlega lýst í úrskurði héraðsdóms, en í grundvallaratriðum reisa þeir allir málsóknina á sömu ástæðum þótt áherslur á einstök atriði séu ekki að öllu leyti þær sömu. Hinar helstu eru að þeir telja 6. gr. laganna fara í bága við 72. gr. stjórnarskrárinnar um vernd eignarréttar, sbr. einnig 1. gr. 1. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, og 65. gr. stjórnarskrárinnar um jafnræði, sbr. einnig 14. gr. nefnds sáttmála og EES-samninginn. Markmið með setningu laganna hafi verið óljóst og ekki rökrænt samhengi milli tilefnis og úrræða sem gripið var til með þeim. Þannig hafi ekki verið sýnt fram á að nauðsynlegt hafi verið að veita innstæðum forgang í réttindaröð við slit fjármálafyrirtækja sem lið í því að stöðva bankaáhlaup og tryggja virkni bankakerfisins á Íslandi. Til að ná þeim markmiðum hafi hvað sem öðru líður ekki þurft að ganga lengra en að veita innstæðum í bönkum á Íslandi forgang, en áhlaup á innstæður í útibúum varnaraðilans Landsbanka Íslands hf. erlendis hafi ekki komið til þegar af því að rafrænum aðgangi að innstæðum þar hafi verið lokað 6. og 7. október 2008. Yfirlýsingar ráðamanna um ábyrgð ríkisins á innstæðum í bönkum á Íslandi skipti ekki máli, enda engin lagaheimild fyrir slíku. Þá telja þeir 6. gr. laganna hafa haft afturvirk áhrif og farið gegn réttmætum væntingum sóknaraðila með þeim hætti, sem ekki fái staðist. Fyrir setningu laganna hafi langflestir kröfuhafar varnaraðilans Landsbanka Íslands hf. notið réttarstöðu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 og hafi að því leyti enginn munur verið á eigendum innlána og öðrum kröfuhöfum. Sóknaraðilar hafi mátt vænta þess að gæti bankinn ekki staðið við skuldbindingar sínar yrði réttarstaðan að þessu leyti sú sama og var þegar stofnað var til skuldbindinganna þannig að þeir fengju sama hlutfall krafna sinn greitt og aðrir kröfuhafar, þar með taldir innstæðueigendur. Þessu jafnræði hafi verið kollvarpað með lögunum og innstæðueigendur teknir fram fyrir aðra almenna kröfuhafa. Sóknaraðilar halda fram að miðað við eldri lög hefði mátt vænta þess að nálægt þriðjungur krafna þeirra á hendur varnaraðilanum Landsbanka Íslands hf. hefði fengist greiddur af eignum bankans og innstæðueigendur þá verið eins settir. Íhlutun löggjafans leiði á hinn bóginn til þess að sóknaraðilar og aðrir almennir kröfuhafar fái ekkert greitt upp í kröfur sínar. Meðalhófsregla hafi ekki verið virt, en önnur og vægari úrræði hefðu dugað í þeim efnahagslegu þrengingum, sem ríkið stóð frammi fyrir á árinu 2008 og einkum í október það ár. Til að meðalhófs væri gætt hefði ríkissjóður þurft að leggja fram fé sem þurfti til að innstæður fengjust greiddar. Ef talið væri að ríkissjóður gæti ekki staðið undir því hefði þurft að leita annarra úrræða svo meðalhófs teldist vera gætt. Skýringar sóknaraðila á efni laga nr. 125/2008 um að forgangsréttur takmarkaðist við tiltekið hámark, sem sé 20.887 evrur á hverjum reikningi, falli saman við viðurkennd sjónarmið um meðalhóf. Þá telja þeir að eigendur innstæðna í bönkum á Íslandi hafi notið óþarfrar lagaverndar með forgangsrétti krafna um innstæður, enda hafi þeir ekki þurft að sæta slitameðferð með skiptingu gömlu bankanna og endurfjármögnun þeirra nýju. Enginn ávinningur hafi því fylgt þessu fyrir íslenska bankakerfið. Innstæðueigendur hafi þannig ekki aðeins verið teknir fram fyrir almenna kröfuhafa í réttindaröð heldur einnig fengið aðra og betri stöðu en innstæðueigendur í útibúum varnaraðilans Landsbanka Íslands hf. erlendis sem ekki hafi fengið tafarlausan aðgang að fjármunum sínum óháð forgangi sem lögin veittu þeim við úthlutun fjár við slit bankans. Lögin feli einnig í sér óbeina mismunun á grundvelli þjóðernis en kröfuhafar bankans, einkum erlendir, muni bera óhóflega byrði vegna þess að þjóðerni þeirra sé annað en íslenskt. Sóknaraðilar kveðast þó ekki vefengja að ríkinu hafi verið heimilt að grípa til aðgerða í október 2008 til að vernda bankakerfið og koma í veg fyrir hugsanlegt hrun hagkerfisins hér á landi, þar á meðal að koma í veg fyrir áhlaup á bankana. Þeir kveðast heldur ekki halda fram að þeir hefðu átt að vera verndaðir að öllu leyti fyrir því að bíða fyrirsjáanlegt tjón vegna falls Landsbanka Íslands hf. Aðgerðir löggjafans hafi á hinn bóginn gengið lengra en heimilt hafi getað talist og enginn vafi leiki á að með þeim hafi sóknaraðilum verið valdið tjóni. Líta verði til þess að ekkert annað ríki hafi reynt að koma í veg fyrir bankaáhlaup með því að veita innstæðum forgang við slit fjármálafyrirtækja.

Varnaraðilar halda fram að lög nr. 125/2008 og 44/2009 séu stjórnskipulega gild og á því verði að byggja við slit varnaraðilans Landsbanka Íslands hf. Sá efnahagsvandi, sem löggjafinn stóð frammi fyrir í október 2008, hafi verið gríðarlega mikill, en hrun íslenska hagkerfisins hafi blasað við hefði ekki verið gripið inn í með jafn róttækum ráðstöfunum og fólust í lögum nr. 125/2008. Aðstæður hér á landi hafi verið einstakar og hvergi svo alvarlegar annars staðar samkvæmt þeim dómum Mannréttindadómstóls Evrópu sem sóknaraðilar vísi til. Að baki lagasetningunni hafi legið almennar ástæður sem stefndu að því marki að bjarga íslensku fjármála- og greiðslukerfi í neyðarástandi, en raunveruleg hætta hafi verið á gjaldþroti íslenska ríkisins og einangrun Íslands á alþjóðavettvangi. Veiting forgangsréttar til innstæðueigenda hafi verið nauðsynlegur og ómissandi þáttur í aðgerðum ríkisvaldsins, sem miðuðu að því að stöðva áhlaup á bankana, tryggja hag almennings og byggja upp stöðugleika að nýju. Allsherjarhrun íslensks efnahagslífs hafi vofað yfir og löggjafinn haft víðtækt svigrúm til að meta umfang aðgerða sem grípa þyrfti til. Þegar litið sé til stærðar bankakerfisins á þessum tíma og þess að á innlendum bankareikningum hafi verið innstæður að fjárhæð 2.700.000.000.000 krónur hafi verið óhugsandi að ríkissjóður hefði getað gripið inn í og endurfjármagnað bankana. Bankar gegni samfélagslegu hlutverki að því er varði innstæður, sem birtist með ýmsu móti, og þær hafi aðra stöðu en almennar kröfur á hendur bönkum. Nýr banki hafi orðið að ganga inn í þetta samfélagslega hlutverk. Forgangur innstæðna, sem takmarkaðist við 20.887 evrur fyrir hvern bankareikning hefði ekki stöðvað áhlaup á bankann. Þá hafi ekki komið til álita vegna jafnræðis að veita innstæðum í banka á Íslandi aðra og betri stöðu en innstæðum í útibúum hans erlendis. Varnaraðilar mótmæla jafnframt að staða innstæðueigenda og lánveitenda sé hin sama, en vegna eðlis krafna hvors um sig sé margvíslegur munur á aðstöðu þeirra til að tryggja hag sinn gagnvart skuldara þar sem lánveitendur séu mun betur settir. Því hafi ekki verið gert upp á milli jafnsettra kröfuhafa með lögunum. Þá feli lögin ekki í sér skerðingu eignarréttar í merkingu stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu. Þótt almennt sé viðurkennt að samkvæmt þessum heimildum beri að túlka hugtakið eign rúmt eigi sú víðtæka merking, sem sóknaraðilar leggi í það, ekki stoð í dómaframkvæmd. Það, sem þeir kalli rétt kröfuhafa til að njóta jafnrar stöðu við úthlutun fjármuna við slitameðferð sé ekki eign, sem þeir geti vænst með réttu að haldist ætíð óbreytt og að ekki verði hróflað við, en löggjafinn hafi áður gert breytingar á því hvaða kröfur njóti forgangs við búskipti. Þá hafi breyting laga nr. 125/2008 á réttindaröð við slit fjármálafyrirtækja ekki verið afturvirk, heldur framvirk og almenn, en Fjármálaeftirlitið hafi sett skilanefnd yfir Landsbanka Íslands hf. eftir setningu laganna og bankinn ekki verið tekinn til slita fyrr en 22. apríl 2009. Viðurkennt sé að löggjafinn geti takmarkað eignarréttindi með ýmsu móti að öllum skilyrðum uppfylltum. Sé um slíkt að ræða í þessu tilviki hafi takmörkun eignarréttar með lögum nr. 125/2008 verið almenn og snert marga. Lögin hafi ekki falið í sér eignarnám og engin yfirfærsla eignarréttar hafi verið knúin fram. Sumir upphaflegra kröfuhafa eigi enn kröfur sínar en aðrir hafi selt þær á lágu verði og meðal sóknaraðila séu kaupendur slíkra krafna. Myndu þeir augljóslega hagnast mjög ef kröfur þeirra í málinu yrðu teknar til greina. Loks sé ósannað að sóknaraðilar hafi orðið fyrir tjóni og óljóst sé á þessu stigi hverjar verði endurheimtur af eignum varnaraðilans Landsbanka Íslands hf. Málsástæðum varnaraðila er að öðru leyti lýst í forsendum hins kærða úrskurðar.

III

Að framan var þess getið að sóknaraðilar telja að markmið með setningu laga nr. 125/2008 hafi verið óljóst og rökrænt samhengi skort milli tilefnis til setningar þeirra og úrræða, sem í þeim fólust, en lögskýringargögn komi ekki að haldi til að varpa ljósi á það. Gagnstætt þessu telja varnaraðilar tilefni laganna og markmið liggja ljós fyrir, en vandi í íslenska hagkerfinu, sem tengst hafi erfiðum aðstæðum í hagkerfum margra ríkja á Vesturlöndum, hafi verið slíkur að engra annarra kosta hafi verið völ en þeirra sem lögin fólu í sér. Framangreindar málsástæður sóknaraðila, sem og aðrar sem þeir tefla fram, leiða óhjákvæmilega til þess að skýra þarf eins og kostur er umfang og eðli þeirra vandamála sem risið höfðu í íslenska hagkerfinu í byrjun október 2008. Á hinn bóginn er óumdeilt að eftir mikinn vöxt íslenska hagkerfisins í nokkur ár, sem tengdist ekki síst útþenslu stærstu viðskiptabanka landsins eftir einkavæðingu þeirra á fyrstu árum þessarar aldar, hafi orðið umskipti til hins verra á árinu 2007, sem komu fram snöggt og af fullum þunga í lok septembermánaðar og fyrstu dagana í október 2008. Jafnframt liggur ljóst fyrir að skammur aðdragandi var að því eða einungis fáeinir dagar að meginhluti frumvarps, sem varð að lögum nr. 125/2008, var saminn.

Almennar athugasemdir, sem fylgdu frumvarpi til áðurnefndra laga, eru knappar. Þar segir í upphafi að hremmingar hafi að undanförnu dunið yfir fjármálamarkaði, sem einkum lýsi sér í skorti á lánsfé vegna takmarkaðs framboðs á því. Íslensk fjármálafyrirtæki hafi ekki farið varhluta af þessu frekar en slík fyrirtæki í öðrum löndum. Við þessar erfiðu aðstæður hafi stjórnvöld víða um heim neyðst til að grípa til ráðstafana sem miði að því að tryggja virkni fjármálakerfisins og efla traust almennings á því. Lagt sé til með frumvarpinu að lögum verði breytt til að gera stjórnvöldum kleift að bregðast við ríkjandi ástandi á fjármálamörkuðum. Athugasemdir, sem fylgdu einstökum greinum frumvarpsins, eru einnig knappar utan þeirra sem fylgdu 5. gr. þess en hún lýtur að heimild Fjármálaeftirlitsins til að grípa inn í starfsemi fjármálafyrirtækja með margvíslegum hætti. Þannig segir um 1. mgr. 5. gr. að heimildum stofnunarinnar verði aðeins beitt við sérstakar aðstæður og einkum þegar hætta sé á að erfiðleikar fjármálafyrirtækja „kunni að hafa víðtæk áhrif á rekstur og afkomu fjármálafyrirtækja (smitáhrif).“ Auknar kröfur voru gerðar að þessu leyti við endanlega afgreiðslu Alþingis á frumvarpinu. Athugasemdirnar hafa hins vegar hvorki að geyma umfjöllun um 6. gr. né 9. gr. frumvarpsins, sem ágreiningur málsaðila stendur einkum um.

Um efni síðastnefndra greina frumvarpsins sagði forsætisráðherra í framsöguræðu að lagt væri til að innstæður yrðu forgangskröfur við gjaldþrotaskipti sem væri mikilvægt atriði til að ítreka yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um að innstæður í íslenskum bönkum og sparisjóðum væru tryggðar og „ef tryggingasjóður er ekki nægjanlega öflugur til að sinna þeim skyldum mun ríkissjóður gera það.“ Í ræðu viðskiptaráðherra sagði meðal annars að þjóðin stæði nú frammi fyrir því sem lengi hefði verið vitað að „hlutfallsvandi á milli banka og samfélags getur skapað aðstæður sem nú eru upp komnar þó að enginn maður hafi haft hugmyndaflug til að ímynda sér að aðstæður yrðu svo alvarlegar sem þær eru núna.“ Ástandinu lýsti hann svo að „lánalínur lokast og lindir fjármagns þorna upp“. Ekki væri unnt að tefla þjóðinni sjálfri í tvísýnu með þeim aðgerðum, sem gengið væri til, en allir þekktu „að við búum við takmarkaðan forða, við erum lítil og fámenn þjóð og getum ekki þegar á reynir teflt á tæpasta vað með þá hagsmuni og peninga almennings.“ Væntanleg lög nefndi hann neyðarlög, sem fleiri alþingismenn tóku síðan undir í umræðum á Alþingi, en koma yrði í veg fyrir að „bankarnir loki, greiðslukerfið frjósi eða hrynji og verði ekki virkt.“ Auk þess að veita Fjármálaeftirlitinu víðtækar heimildir væri meginmarkmið frumvarpsins að tryggja hagsmuni almennings og endurreisa fjármálalegan stöðugleika. Þá væru allar innstæður í íslenskum bönkum á Íslandi tryggðar að fullu án hámarks.

Meirihluti viðskiptanefndar Alþingis lagði til að gerðar yrðu breytingar á tilteknum greinum frumvarpsins sem voru samþykktar en högguðu þó ekki meginefni þess. Meirihlutinn gat þess að ákvæði frumvarpsins væru hugsuð sem neyðarráðstöfun og að í ljósi sérstakra aðstæðna á fjármálamörkuðum væri heimilt að grípa til svo róttækra aðgerða sem lagt væri til og koma með því í veg fyrir keðjuverkandi áhrif á fjármálamarkaði og í íslensku hagkerfi. Framsögumaður nefndarinnar lýsti þeirri skoðun að hér væri á ferð setning neyðarlaga „til að mæta þeim efnahagslegu hamförum sem nú ríða yfir þjóðina.“ Með því væri verið að tryggja í senn hag almennings, að bankastarfsemi í landinu héldi áfram og greiðslukerfi yrðu virk, að allar innstæður borgaranna yrðu öruggar og að ríkið fengi heimild til að grípa inn í stjórn fjármálafyrirtækja ef stefndi í óefni.

Í lok árs 2008 voru sett lög nr. 142/2008 um rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða, sem tóku gildi 18. desember sama ár. Í upphafi 1. gr. sagði að sérstök rannsóknarnefnd á vegum Alþingis skyldi leita sannleikans um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða og leggja mat á nánar tilgreind atriði. Í þessu skyni skyldi hún meðal annars varpa sem skýrustu ljósi á aðdraganda og orsakir þess vanda íslenska bankakerfisins sem varð Alþingi tilefni til að setja lög nr. 125/2008. Nefndin var skipuð þegar í kjölfarið og skilaði Alþingi ítarlegri skýrslu 12. apríl 2010. Nokkur hluti hennar hefur verið lagður fram í málinu, aðilar hafa vísað til skýrslunnar í málflutningi sínum fyrir Hæstarétti og lýsingar nefndarinnar á staðreyndum ekki verið vefengdar.

Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar var greint frá ástæðum þess að frá árinu 2007 hallaði sífellt meira undan fæti fyrir stærstu viðskiptabönkunum þremur og voru þeir ásamt stjórnvöldum landsins gagnrýndir, stjórnvöldin bæði fyrir aðgerðarleysi gagnvart bönkunum sem stækkuðu mjög hratt og fyrir ýmsar hagstjórnarákvarðanir. Þar komu einnig fram útskýringar á þeim efnahagslega vanda, sem bankarnir þrír og samfélagið allt stóðu frammi fyrir í byrjun október 2008. Meðal annars var greint frá því að heildarskuldbindingar þessara banka hafi á fyrri hluta árs 2004 numið sem svarar rúmlega einni og hálfri þjóðarframleiðslu Íslands það ár, en aukist gríðarlega á einungis fjórum árum og á miðju ári 2008 numið sem svarar rúmlega nífaldri þjóðarframleiðslu landsins. Á því tímabili hafi aðgangur bankanna að lánsfé á alþjóðlegum fjármálamörkuðum lengst af verið greiður og lánshæfismat þeirra hátt. Þetta hafi breyst smám saman, meðal annars vegna vanda margra erlendra fjármálafyrirtækja, sem lentu í fjárhagsvandræðum og mörg í mjög alvarlegum vanda í september 2008. Um líkt leyti hafi Glitnir banki hf. glímt við fjármögnunarerfiðleika, sem leitt hafi til þess að óvissa skapaðist um hvort hann gæti staðið skil á háum afborgunum af lánum í október 2008. Stjórnendur bankans hafi því leitað eftir láni hjá Seðlabanka Íslands 24. september 2008. Niðurstaðan hafi orðið sú mánudaginn 29. sama mánaðar að í stað þess að veita lán hafi verið ákveðið að ríkissjóður tæki yfir 75% hlutafjár í Glitni banka hf. fyrir tiltekið verð. Rás atburða hafi verið hröð þegar þar var komið, en lánshæfismat bankans lækkaði og staða hans gagnvart erlendum lánveitendum versnaði mjög vegna ýmissa aðgerða þeirra, svo sem gjaldfellingar lána. Aðgerð Seðlabanka Íslands mun enn hafa aukið vantraust á bankana þrjá sem stigmagnaðist dag frá degi jafnt innan lands sem utan. Af rannsóknarskýrslunni verður ráðið að stjórnvöld hafi talið fyrirsjáanlegt að Glitnir banki hf. færi í þrot og hætt væri við að Landsbanki Íslands hf. og jafnvel Kaupþing banki hf. færu sömu leið, enda hefði engin tiltrú ríkt á fjármálamarkaði á því að íslenska ríkið hefði fjárhagslegt bolmagn til að koma þeim til aðstoðar. Á þessum tíma neitaði Seðlabanki Íslands beiðni Landsbanka Íslands hf. um lán, en varð við erindi Kaupþings banka hf. um lánafyrirgreiðslu. Auk þess varð ekki af yfirtöku ríkisins á 75% hlutafjár í Glitni banka hf., sem áður var getið. Um þetta leyti var áhlaup á íslensku bankana hafið og greinir í skýrslunni frá því að föstudaginn 3. október 2008 hafi úttektir á peningaseðlum úr bönkum á Íslandi numið 5.500.000.000 krónum, en venjuleg úttekt á föstudegi nemi um 200.000.000 krónum. Áhlaup var einnig hafið á útibú þeirra erlendis og stjórnvöld í Bretlandi gerðu alvarlegar athugasemdir við starfsemi þeirra og dótturfélaga íslensku bankanna þar og beittu valdheimildum gagnvart þeim 6. október 2008. Þessu lyktaði með þeirri niðurstöðu stjórnvalda og Alþingis að ekki yrði komist hjá að grípa til neyðarráðstafana svo sem áður er komið fram.

IV

Í máli þessu og tíu öðrum að auki sem í september 2011 voru flutt fyrir Hæstarétti, ýmist munnlega eða skriflega, reynir á stjórnskipulegt gildi 6. gr. laga nr. 125/2008 en að framan greinir frá álitaefnum sem þar um ræðir. Íslenska ríkið hefur ekki átt aðild að þessum málum. Það er á valdi dómstóla að skera úr um hvort tiltekin lagafyrirmæli, sem deilt er um, fari í bága við ákvæði stjórnarskrár og ber ekki réttarfarsnauðsyn til að íslenska ríkið sé aðili að málinu. Niðurstaða dómstóla á þann veg að lögin teldust vera andstæð stjórnarskrá leiddi við þessar aðstæður til þess að þau yrðu virt að vettugi en gæti ekki falið í sér afstöðu til hugsanlegrar bótaskyldu ríkisins, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 25. nóvember 2010 í máli nr. 274/2010.

Í forsendum úrskurðar héraðsdóms kemur fram að hluti sóknaraðila hafi í málatilbúnaði sínum teflt fram málsástæðum, sem lúti að framsali víðtæks valds til Fjármálaeftirlitsins og ýmsum aðgerðum ríkisvaldsins í kjölfar setningar laga nr. 125/2008 og með heimild í þeim, en tengist ekki þeim álitaefnum sem hér séu til úrlausnar. Var þar talið með öllu ástæðulaust að fjalla sérstaklega um þessi atriði og hugleiðingar sömu sóknaraðila um að íslenska ríkið hafi brugðist ýmsum skyldum sínum í aðdraganda fjármálakreppunnar og bankahrunsins og meðan á því stóð. Fallist er á með héraðsdómi að þessi atriði hafi ekki sérstaka þýðingu við úrlausn málsins.

Vegna málatilbúnaðar aðilanna er nauðsynlegt að greina eins og kostur er hver sá vandi var, sem gaf tilefni til þess að lög nr. 125/2008 voru sett, og virða í því ljósi markmið og aðgerðir sem löggjafinn ákvað að ráðast í. Áður er fram komið að stóru viðskiptabankarnir þrír reyndust ófærir um að verjast áföllum þegar á reyndi. Þeir nutu ekki lengur trausts og aðgangur að lánsfé, sem áður var greiður, var nú lokaður. Vantraust innstæðueigenda gagnvart bönkunum var jafnframt komið á það stig að áhlaup á þá var hafið. Áður var getið stærðar bankanna í samanburði við alla þjóðarframleiðslu landsins og samanlagðra innlána í þeim sem samkvæmt rannsóknarskýrslu Alþingis námu um 3.100.000.000.000 krónum. Ljóst er að stjórnvöld og Alþingi töldu ókleift að endurfjármagna bankana með fé úr ríkissjóði og gera þeim þannig unnt að starfa áfram. Ástandið á fjármálamörkuðum leiddi jafnframt til þess að kostir ríkisins til að taka lán erlendis urðu nánast að engu á stuttum tíma. Samkvæmt framansögðu verður fallist á með varnaraðilum að án skjótra viðbragða löggjafans og stjórnvalda stefndi í hrun á bankastarfsemi og að greiðslukerfi í landinu yrðu óvirk. Engum vafa er heldur undirorpið að slíkt ástand hefði strax eða mjög fljótt leitt til mikils ófarnaðar fyrir almenning og alla efnahagsstarfsemi í landinu. Lög nr. 125/2008 voru því sett við mjög alvarlegar aðstæður fyrir allt íslenska samfélagið þegar ljóst var að bönkunum, og þar með töldum Landsbanka Íslands hf., yrði að öllum líkindum ekki bjargað og mikið tjón ekki umflúið vegna falls þeirra. Þótt lögskýringargögn séu knöpp gefa þau engu að síður mynd af þeim markmiðum, sem stefnt var að með lagasetningunni. Þeirra var sem fyrr segir getið í ræðu viðskiptaráðherra í umræðum á Alþingi og í áliti meirihluta viðskiptanefndar Alþingis var markmiðum lýst svo að verið væri umfram allt „að tryggja hagsmuni hins almenna borgara og skapa skilyrði fyrir stöðugleika í efnahagslífinu.“ Í ræðu framsögumanns meirihlutans sagði nánar um þetta að markmið væru að tryggja hag almennings, að bankastarfsemi í landinu héldi áfram og greiðslukerfi yrðu virk, að allar innstæður borgaranna yrðu öruggar og að ríkið fengi heimild til að grípa inn í stjórn fjármálafyrirtækja ef stefndi í óefni. Auk stóru viðskiptabankanna þriggja stóðu einnig flest af stærri fjármálafyrirtækjum í landinu fjárhagslega tæpt þegar þarna var komið. Að virtum þeim mikla og fordæmalausa vanda, sem við var að etja, og þeim skýru markmiðum sem stefnt var að, verður við úrlausn um lögmæti ákvarðana löggjafans að játa honum ríku svigrúmi við mat á því hvaða leiðir skyldu farnar til að bregðast við því flókna og hættulega ástandi sem upp var komið.

Aðilana greinir bæði á um hvort sóknaraðilar hafi sýnt fram á að þeir muni bíða tjón vegna setningar laga nr. 125/2008 og hversu mikið ef talið yrði sannað að tjón hljótist af. Þannig halda varnaraðilar fram að sóknaraðilar hafi ekki leitt í ljós að þeir verði fyrir tjóni. Hér verður að gæta að því að fyrir setningu laganna var talið að Landsbanki Íslands hf. væri að öllum líkindum ófær um að standa við skuldbindingar sínar en með lögunum voru kröfur innstæðueigenda færðar framar í réttindaröð en áður var en ekki annarra kröfueigenda. Af þeim sökum var óhjákvæmilegt að fyrirsjáanlegt tjón almennra kröfuhafa yrði meira en ella hefði orðið. Að þessu virtu verður hafnað málsástæðu varnaraðila um að ekki sé nægilega sýnt fram á að þeir úr hópi sóknaraðila, sem eignuðust kröfur sínar fyrir setningu laga nr. 125/2008, muni vegna setningar laganna fá minna en ella hefði orðið við greiðslu upp í samþykktar kröfur á hendur varnaraðilanum Landsbanka Íslands hf.

Sóknaraðilar halda fram gegn andmælum varnaraðila að ekkert muni fást upp í kröfur þeirra og tjónið nemi því þeim þriðjungi krafnanna sem að öðrum kosti hefði mátt vænta að fengist greiddur samkvæmt lögum eins og þau voru fyrir 6. október 2008. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti var vísað til yfirlýsingar slitastjórnar varnaraðilans Landsbanka Íslands hf. 19. maí 2011 um fund með kröfuhöfum sama dag þar sem greint var frá mati slitastjórnar um að hvaða marki muni takast að greiða samþykktar kröfur á hendur varnaraðilanum þegar eignum hans hafi verið komið í verð. Þar komi fram að þess megi vænta að 99% af forgangskröfum fáist greiddar en þá sé gengið út frá því að svonefnd heildsöluinnlán séu meðal forgangskrafna. Af hálfu varnaraðilans var einnig tekið fram að varfærni hefði verið gætt við mat eigna þegar þessi áætlun var gerð og einnig að nú væri gengið út frá að hærra hlutfall forgangskrafna myndi fást greitt en talið hafi verið á fyrri stigum slitameðferðarinnar. Þá er fram komið að varnaraðilinn Landsbanki Íslands hf. hefur höfðað nokkur skaðabótamál og riftunarmál sem þó er óvíst um á þessu stigi hvort og þá til hvaða árangurs þau muni leiða. Áður er fram komið að hluti upphaflegra almennra kröfuhafa hefur selt kröfur sínar eftir 6. október 2008 og að þær hafi haft eitthvert fjárgildi í viðskiptum þótt óumdeilt sé að það hafi verið lágt. Um það nýtur ekki við nánari upplýsinga í málinu. Að öllu þessu virtu þykja sóknaraðilar ekki hafa rennt stoðum undir þær staðhæfingar sínar að kröfur þeirra hafi eða muni tapast að öllu leyti vegna setningar laga nr. 125/2008 þótt ókleift sé á þessu stigi að komast að niðurstöðu um hve mikið kunni að fást greitt af þeim þegar upp verður staðið.

Af hálfu sóknaraðila er á því byggt að fjármunir þeirra hafi verið nýttir til að standa undir kostnaði við að forða innstæðueigendum frá tjóni eða draga svo úr því sem kostur væri. Eignarréttindi þeirra fyrrnefndu hafi með því verið skert, sem ekki fái staðist, en þeir hafi með réttu mátt vænta þess að standa jafnfætis innstæðueigendum í réttindaröð, eins og þeir hafi gert fyrir setningu laga nr. 125/2008, kæmi til þess að varnaraðilinn Landsbanki Íslands hf. gæti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Varnaraðilar telja á hinn bóginn að kröfur sóknaraðila á hendur varnaraðilanum Landsbanka Íslands hf. geti ekki talist eign í merkingu stjórnarskrár og fjölþjóðlegra samninga, sem áður var getið, eða notið réttarverndar sem slík. Um sé að ræða skilyrt og óviss kröfuréttindi, sem löggjafinn hafi fulla heimild til að ákveða hvenær sem er hvar skuli skipa í réttindaröð við búskipti. Varðandi þetta er fallist á með sóknaraðilum að kröfuréttindi þeirra teljist vera eign í merkingu stjórnarskrár og 1. viðauka mannréttindasáttmála Evrópu.

Sóknaraðilar styðja málatilbúnað sinn meðal annars við vernd eignarréttar og jafnræði svo sem greinir í kafla II að framan og hinum kærða úrskurði. Áður var komist að þeirri niðurstöðu að kröfur þeirra njóti verndar sem eignarréttindi í merkingu 72. gr. stjórnarskrárinnar og að þeir hafi sýnt fram á tjón, en þó ekki í þeim mæli sem þeir halda sjálfir fram. Að fenginni þeirri niðurstöðu kemur til úrlausnar hvort ákvæði 6. gr. laga nr. 125/2008 feli í sér skerðingu á réttindum sóknaraðila, sem teljist vera eignarnám eða slík takmörkun á eignarrétti að fari í bága við 72. gr. eða 65. gr. stjórnarskrár. Við úrlausn um það verður að líta til margra atriða í senn, svo sem tilefnis þeirra aðgerða sem gripið var til, markmiðs með þeim og afleiðinga, eðlis þessara ráðstafana og hversu almennar og víðtækar þær voru. Hér að framan hefur þegar verið fjallað um tilefni þeirra ákvarðana, sem fólust í lögum nr. 125/2008, og markmiða sem stefnt var að með þeim, en að þeim markmiðum verður jafnframt vikið nánar hér á eftir.

Hvað varðar staðhæfingar sóknaraðila um réttmætar væntingar sínar er þess að gæta að löggjafinn hefur gengið út frá því að honum sé heimilt að breyta rétthæð krafna við búskipti án þess að stjórnskipunarlög takmarki svigrúm til þess. Sú afstaða hans hefur ítrekað komið fram í löggjöf, allt frá árinu 1974, þegar breytt hefur verið ákvæðum laga um skipun krafna í réttindaröð við gjaldþrota- og dánarbúskipti þannig að forgangskröfur hafa ýmist verið rýmkaðar eða þrengdar, sem um leið hefur haft áhrif á stöðu annarra krafna í réttindaröð og þá eigendum þeirra ýmist til hags eða óhags. Þá hefur reglum um stöðu skattkrafna í réttindaröð einnig verið breytt með sambærilegum hætti, en það á meðal annars við um lög nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda þar sem kröfum samkvæmt þeim var á tímabili raðað framar í réttindaröð en almennum kröfum, sem ekki hafði verið áður, með augljósum og jafnvel verulegum áhrifum fyrir aðra kröfuhafa. Þá hefur löggjafinn margoft veitt tilteknum kröfum lögveðrétt eða breytt stöðu slíkra krafna sem með sama hætti var til þess fallið að hafa áhrif á stöðu almennra krafna við búskipti. Löggjafinn hefur samkvæmt þessu ekki litið svo á að reglur á þessu sviði væru óbreytanlegar. Þegar þetta er virt verður ekki fallist á með sóknaraðilum að þeir hafi með réttu getað skapað sér væntingar um að löggjafinn myndi ekki aðhafast að þessu leyti þeim til óhags, og á það alveg sérstaklega við um þá úr hópi sóknaraðila, sem eignuðust kröfur sínar eftir 6. október 2008, en þeim var fullljós sú áhætta sem þeir tóku.

Sóknaraðilar halda einnig fram að með lögum nr. 125/2008 hafi réttindi þeirra verið skert með afturvirkum hætti, sem ekki fái staðist í ljósi áðurnefndra ákvæða stjórnarskrár og fjölþjóðlegra samninga. Að framan var getið margvíslegra breytinga á lögum um röðun krafna eftir rétthæð sem skyldi gilda við skipti upp frá því. Með lögum nr. 125/2008 var mælt fyrir um réttindaröð krafna á hendur fjármálafyrirtækjum, sem tekin yrðu til slita eftir gildistöku laganna. Með þeim var ekki mælt fyrir um nýja skipan við slit sem þegar væru hafin eða lokið. Málsástæðu sóknaraðila, sem að þessu lýtur, er samkvæmt því hafnað.

Lög nr. 125/2008 taka samkvæmt efni sínu til allra fjármálafyrirtækja, en við setningu laganna voru miklar líkur á greiðsluþroti þriggja viðskiptabanka. Fram er komið í málinu að lýstar kröfur við slit þessara banka séu hátt í 50.000 talsins, þar af um 12.000 við slit varnaraðilans Landsbanka Íslands hf., en ekki liggur nánar fyrir hve stór hluti þeirra allra hafi stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Þá er fram komið að líkur standi til að meira fáist upp í almennar kröfur við slit annarra banka en varnaraðilans Landsbanka Íslands hf. Lögin voru ekki sett til að gilda tímabundið heldur fela þau í sér nýja skipan til frambúðar. Verður samkvæmt þessu að leggja til grundvallar að með lögunum hafi verið ákveðið með almennum hætti hvernig skipað skuli réttindaröð krafna við slit fjármálafyrirtækja, sem getur raskað réttindum mjög margra kröfuhafa íslenskra fjármálafyrirtækja en ekki sóknaraðila einna.

Sóknaraðilar halda fram að jafnræði kröfuhafa hafi verið raskað með lögum nr. 125/2008, en 6. gr. þeirra feli í sér beina og óbeina mismunun gagnvart almennum kröfuhöfum sem fyrir lagasetninguna hafi haft sömu stöðu í réttindaröð og innstæðueigendur. Þá hafi löggjöfin mismunað kröfuhöfum á grundvelli þjóðernis eða stöðu þeirra að öðru leyti. Í hinum kærða úrskurði var komist að þeirri niðurstöðu að kröfur innstæðueigenda og almennra kröfuhafa væru ekki sambærilegar af ástæðum, sem þar eru nánar raktar, og að löggjafinn hafi ekki heldur mismunað kröfuhöfum á grundvelli þjóðernis eða stöðu þeirra að öðru leyti. Verður sú niðurstaða staðfest með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar.

Þess var áður getið að yfirlýst markmið með setningu laga nr. 125/2008 var meðal annars að bankastarfsemi í landinu héldi áfram og greiðslukerfi yrðu virk. Varnaraðilar halda fram að það markmið hefði ekki náðst, eins og málum var komið, nema með því að ákveða rétthæð innstæðna við slit fjármálafyrirtækja eins og gert var. Innstæður gegni samfélagslegu hlutverki, en þær séu greiðslueyrir alls almennings og einnig atvinnufyrirtækja að stórum hluta. Innstæðueigendur hafi ekki annað til að reiða sig á en traust á viðskiptabanka sínum og bregðist það hverfi um leið forsendan fyrir því að fela bankanum varðveislu fjármuna þeirra. Málefnalegar ástæður hafi legið að baki því að skapa innstæðum sérstöðu í því óumflýjanlega uppgjöri milli þeirra, sem áttu beinna hagsmuna að gæta gagnvart skuldsettum fjármálafyrirtækjum. Varðandi þetta er áður komið fram að fyrir setningu laganna var hafið áhlaup á bankana vegna vantrausts innstæðueigenda. Nýir bankar voru stofnaðir hér á landi í beinu framhaldi af gildistöku laganna á grunni þeirra gömlu og innstæður í þeim á Íslandi fluttar í hina nýju. Til að ná markmiði um starfhæft banka- og greiðslukerfi var það mat löggjafans að veita yrði innstæðum forgang við slit fjármálafyrirtækja og skapa þannig traust innstæðueigenda á nýju bönkunum og stöðva með því þegar hafið bankaáhlaup. Varnaraðilar benda á að með þessu hafi bankaáhlaup verið stöðvað og það síðan fjarað út í bönkum hér á landi á næstu tveimur til þremur vikum. Stendur óhrakin sú staðhæfing þeirra að náðst hafi þau markmið laga nr. 125/2008 að halda uppi bankastarfsemi og greiðslukerfum í landinu og að innstæður í bönkum á Íslandi stæðu öruggar. Fallist er á með varnaraðilum að málefnalegar ástæður hafi legið að baki þeirri ákvörðun löggjafans að skipa innstæðum í forgangsröð, sbr. 6. gr. laga nr. 125/2008. Það á jafnt við um innstæður í Landsbanka Íslands hf. á Íslandi sem útibúum hans erlendis og er hafnað þeirri viðbáru hluta sóknaraðila að þetta hafi verið óþarft gagnvart innstæðum á Íslandi þar sem þeim hafi verið komið „í skjól“ í nýjum banka.

Sóknaraðilar halda fram að aðrar leiðir hafi verið færar að sama marki og stefnt var að heldur en þær, sem ákveðnar voru. Þannig hefði verið unnt að komast hjá því að hrófla við stöðu krafna í réttindaröð, en velja þess í stað leið, sem hefði dregið úr tjóni sóknaraðila. Til stuðnings þessu hefur af þeirra hálfu verið lögð fram álitsgerð tveggja hagfræðinga, sem þeir leituðu til, þar sem dregin er í efa gagnsemi ákvarðana sem fólust í lögum nr. 125/2008 og gerðum stjórnvalda á grundvelli þeirra. Varnaraðilar hafa einnig lagt fram hagfræðilega álitsgerð, sem felur í sér gagnrýni á þá fyrrnefndu, og þar var einnig komist að þeirri niðurstöðu að gerðir löggjafans og stjórnvalda hafi gagnast eins vel og kostur var. Í báðum þessum sérfræðiálitum var tekið undir að aðstæður hafi verið sérstakar og óvenjulega erfiðar og brýn nauðsyn verið að grípa til aðgerða, meðal annars til að tryggja innstæður. Í þeim segir einnig að ýmis sjónarmið hafi komið fram um það hvaða leiðir væru færar og líklegar til árangurs þegar lög nr. 125/2008 voru sett og ennfremur að ekki sé vitað um neinar hagfræðirannsóknir sem sýni fram á hversu víðtæk innstæðuvernd þurfi að vera til þess að stöðva bankaáhlaup og endurvekja traust á hrundu bankakerfi. Verður ekki fallist á með sóknaraðilum að þeir hafi með þessum málatilbúnaði skotið stoðum undir að betri leiðir hefðu verið færar til að ná lögmætu markmiði löggjafans og stjórnvalda.

Sóknaraðilar bera við að meðalhófs hafi ekki verið gætt og óþarflega langt verið gengið í aðgerðum löggjafans og stjórnvalda þeim til tjóns. Því til stuðnings hefur hluti þeirra meðal annars nefnt að til þess að ná áðurnefndum markmiðum um að stöðva bankaáhlaup og tryggja starfhæft bankakerfi á Íslandi hefði nægt að skipa innstæðum í bönkum hér á landi í réttindaröð sem forgangskröfum en hreyfa ekki við stöðu slíkra krafna í útibúum varnaraðilans Landsbanka Íslands hf. erlendis, enda hafi þeim verið lokað 6. og 7. október 2008 og bankaáhlaupi þar með afstýrt. Þessir sóknaraðilar hafa ennfremur hreyft því að íslenska ríkið hefði sjálft þurft að leggja fram fé til innstæðueigenda ef það vildi að innstæður þeirra fengjust greiddar að fullu, en að öðrum kosti hefði meðalhófs ekki verið gætt gagnvart sóknaraðilum. Hvað varðar hinn fyrri af þessum tveimur kostum, sem sóknaraðilarnir benda á, hefði hann falið í sér að innstæðueigendum væri skipt upp í tvo hópa, sem fengið hefðu gjörólíka réttarstöðu, þar sem búseta og þjóðerni hefðu að verulegu leyti ráðið skiptingunni. Slík aðgerð hefði við þær aðstæður sem uppi voru farið í bága við jafnræði samkvæmt nánast öllum þeim réttarheimildum, sem sóknaraðilar hafa reist málatilbúnað sinn á, og gat augljóslega ekki komið til neinna álita. Breytir þá engu þótt sú leið, sem farin var, hafi leitt til þess að einungis innstæðueigendur í bönkum á Íslandi fengu tafarlausan aðgang að fjármunum sínum, að undanskildum þó reikningum í erlendri mynt sem sætir enn takmörkunum, en innstæðueigendur í útibúum erlendis hafi ekki fengið fjármuni sína fyrr en síðar, sem í flestum tilvikum varð í reynd fáeinar vikur. Hvað varðar síðarnefnda kostinn sem sóknaraðilar benda á hefði hann falið í sér að jafnt innstæðueigendum í bönkum á Íslandi sem útibúum þeirra erlendis yrði bættur úr ríkissjóði mismunur á óskertum innstæðum þeirra og þess sem fengist hefði við slit varnaraðilans Landsbanka Íslands hf. og annarra íslenskra fjármálafyrirtækja að óbreyttri réttindaröð kröfuhafa. Ókleift er á þessu stigi að komast að niðurstöðu um hvaða fjárhæðir þar væri um að ræða að öðru leyti en því að slá má föstu af gögnum málsins að þær væru gríðarlega háar. Áður var getið um þá ógn sem öllu samfélaginu stafaði af falli íslensku bankanna, stærð bankakerfisins og að kostir íslenska ríkisins á því að fá lán erlendis voru að engu orðnir. Þá var áður getið þess mats stjórnvalda og löggjafans að íslenska ríkið hefði engin tök á að endurfjármagna bankana og þess ríka svigrúms til mats sem játa yrði löggjafanum við þær einstöku og hættulegu aðstæður, sem upp voru komnar. Að þessu virtu er hafnað viðbáru sóknaraðila um að brot á reglu um meðalhóf hafi falist í ákvörðun löggjafans, sem birtist í lögum nr. 125/2008, í stað þess að fara þá leið sem þeir vísa til.

Hluti sóknaraðila gerir þá kröfu til vara að verði fallist á að krafa varnaraðilans FSCS njóti forgangs í réttindaröð skuli sú fjárhæð vera að hámarki 20.887 evrur fyrir hvern innstæðueiganda sem varnaraðilinn leiðir rétt sinn frá. Rök fyrir þeirri kröfu eru af tvennum toga. Annars vegar telja þeir að skýra beri ákvæði 6. gr. laga nr. 125/2008 með þeim hætti að í tilvísun hennar til laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta felist að forgangsréttur innstæðukrafna í réttindaröð nái einungis til innstæðna að áðurnefndu hámarki. Sú skýring falli saman við það að með síðarnefndu lögunum hafi innstæður einungis verið tryggðar að þessu sama marki. Hins vegar vísa þeir um þetta til réttmætra væntinga innstæðueigenda og meðalhófs, en markmiðum með lögunum hefði mátt ná án þess að ganga svo langt sem varnaraðilar telji að gert hafi verið og því óþarft að veita innstæðum forgangsrétt umfram 20.887 evrur fyrir hvern innstæðueiganda. Varnaraðilar mótmæla skýringu sóknaraðila á efni 6. gr. laga nr. 125/2008 og sjónarmiðum um væntingar þeirra sjálfra og meðalhóf. Þeir telja að tilvísun 6. gr. laga nr. 125/2008 til laga nr. 98/1999 feli í sér að með hugtakinu innstæða sé átt við skilgreiningu síðarnefndu laganna á því, en í fyrrnefndu lögunum sé forgangur innstæðna í réttindaröð alls ekki takmarkaður við tryggðar lágmarkskröfur, sem lög nr. 98/1999 feli í sér við þær aðstæður að eignir Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta dugi ekki til að greiða heildarfjárhæð tryggðra innstæðna. Túlkun sóknaraðila á efni laga nr. 125/2008 sé jafnframt í andstöðu við skýrar ráðagerðir um forgang innstæðna að fullu, sem sjá megi í lögskýringargögnum. Næði forgangur einungis til lágmarksfjárhæðar samkvæmt lögum nr. 98/1999 hefði ákvæði 6. gr. laga nr. 125/2008 enga raunhæfa merkingu, en innstæðueigendur fengju þá hvort eð er alltaf greidda lágmarksfjárhæð viðkomandi tryggingarsjóðs, enda séu allar innstæður tryggðar nema óháð fjárhæð hjá fyrirtækjum sem séu aðilar að sjóðnum. Það síðastnefnda eigi við um sóknaraðilann Landsbanka Guernsey Ltd., en krafa hans sé innstæðukrafa af þessum toga. Hvað varðar sjónarmið um meðalhóf halda varnaraðilar fram að takmörkun á veitingu forgangsréttar með þessum hætti hefði leitt til þess að markmið með lögum nr. 125/2008 hefði ekki náðst og setning þeirra engu breytt um það bankaáhlaup sem þegar var hafið.

Í hinum kærða úrskurði var hafnað fyrrnefndu ástæðunni, sem sóknaraðilar reisa varakröfu sína á og felst í túlkun á lögum nr. 125/2008. Verður sú niðurstaða staðfest með vísan til forsendna héraðsdóms. Málsástæða sóknaraðila um ætlaðar lögmætar væntingar gagnaðila þeirra eða innstæðueigenda er haldlaus og kemur ekki til frekari álita. Hvað varðar síðarnefndu málsástæðuna um meðalhóf er fram komið í gögnum frá hluta sóknaraðila, sem ekki hefur verið mótmælt að þessu leyti, að um 92% af heildarfjölda innlendra innstæðureikninga í íslenskum fjármálafyrirtækjum hafi á því tímabili, sem þar er miðað við, verið undir áðurnefndri fjárhæð, 20.887 evrum. Á hinn bóginn hafi þessi fjöldi reikninga aðeins haft að geyma lítinn hluta heildarfjárhæðar innlendra innstæðna á reikningum í fjármálafyrirtækjunum. Í sömu gögnum kemur fram að þetta sé byggt á upplýsingum úr töflu 5 í kafla 17.9 í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Af henni verður ráðið að fyrrgreindir reikningar hafi þá haft að geyma tæplega 91.000.000.000 krónur en á sama tíma hafi reikningar innlendra aðila sem innihéldu fjárhæðir umfram 20.887 evrur samanlagt haft að geyma rúmlega 974.000.000.000 krónur, eða rúmlega tífalt hærri fjárhæð en fyrrgreindu reikningarnir. Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar er greint frá því að umrædd tafla byggi á upplýsingum sem nefnd á vegum viðskiptaráðuneytisins hafi aflað miðað við september 2007. Þegar þessi tölulegu gögn eru virt, en efni þeirra hefur að þessu leyti ekki verið dregið í efa undir rekstri málsins, verður að telja í ljós leitt að til þess að ná markmiðum löggjafans um að afstýra bankaáhlaupi og hruni hafi verið nauðsynlegt að vernda innstæður þeirra innlendu aðila sem áttu innstæður umfram 20.887 evrur, en takmörkun forgangsréttar við þá fjárhæð hefði verið líkleg til að vinna gegn markmiðum löggafans um að skapa stöðugleika og traust á nýju bönkunum á Íslandi. Að þessari niðurstöðu fenginni var það skylda löggjafans að tryggja jafnframt svo sem auðið var að erlendir innstæðueigendur nytu sambærilegrar stöðu. Þegar hið alvarlega efnahagsástand er haft í huga og skyldur ríkisins gagnvart íslensku samfélagi og fjölþjóðlegum samningum verður ekki fallist á að brotið hafi verið gegn meðalhófi með setningu laga nr. 125/2008.

Við úrlausn í þessum þætti málsins um stjórnskipulegt gildi laga nr. 125/2008 var að framan vísað til víðtæks svigrúms löggjafans við mat á nauðsyn þeirra ákvarðana, sem í lögunum fólust, við aðstæður þar sem stórfelld hætta ógnaði tilvist alls samfélagsins vegna keðjuverkandi áhrifa falls stærstu viðskiptabankanna, sem gat endað með hruni efnahagslífs í landinu. Löggjafanum bar við þessar aðstæður ekki aðeins réttur heldur fyrst og fremst stjórnskipuleg skylda til að gæta velferðar almennings og fjárhagslegt uppgjör vegna falls bankanna hlaut fyrst og fremst að verða innbyrðis á milli þeirra, sem áttu beinna hagsmuna að gæta gagnvart þeim. Sú staðhæfing varnaraðila er óhrakin að engin önnur leið hefði verið fær, sem í raun hefði falið í sér líkur á að markmið laganna næðust og komið jafnar niður en sú sem valin var. Vísan sóknaraðila til þess að með lögum nr. 44/2009 hafi á ný verið brotið gegn þeim er órökstudd og haldlaus, en með þeim var orðalagi 6. gr. laga nr. 125/2008 hnikað lítillega til án þess að það hefði áhrif á efni þeirra. Samkvæmt öllu, sem fram er komið, er sýnt að löggjafinn gekk með þeim aðgerðum, sem ágreiningur málsaðila stendur um, ekki lengra en heimilt var að virtum þeim réttarheimildum, sem áður var getið. Málsástæðum sóknaraðila, sem á þessu eru reistar, er því hafnað.

V

Varnaraðilinn FSCS hefur kært úrskurð héraðsdóms um þann þátt sem lýtur að 76 tilteknum reikningum sem slitastjórn varnaraðilans Landsbanka Íslands hf. hafnaði að skipa í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, og héraðsdómur staðfesti. Höfuðstóll kröfunnar var hins vegar samþykktur sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laganna. Fyrrnefndi varnaraðilinn kveður kröfuna vera til komna vegna innlána í útibúi þess síðarnefnda í Bretlandi og því sé um að ræða innstæður í merkingu 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999. Hann lýsir ferli við stofnun Icesave-reikninga svo að því hafi verið skipt niður í ellefu þrep en í tilviki þessara 76 reikninga hafi átta þrepum verið lokið, umsókn viðskiptavinanna samþykkt, og bankinn óskað eftir að fá og móttekið fé frá þeim. Umsóknarferli hafi í raun verið lokið á þessu stigi en síðustu þrjú þrepin hafi falið í sér tæknilega framkvæmd af hálfu bankans áður en reikningar yrðu „virkjaðir“. Umsækjendur hafi á þessu stigi þegar samþykkt Icesave-skilmála bankans en í því hafi falist að hann samþykkti móttöku fjármuna óháð því hvort umsækjendur hafi fullnægt að öllu leyti skyldu til að veita ítrustu upplýsingar. Varnaraðilinn Landsbanki Íslands hf. reisir afstöðu sína á því að í þessum 76 tilvikum hafi viðkomandi millifært fé til bankans áður en reikningar voru opnaðir í þeirra nafni. Þar með hafi skilmálum Icesave-reikninga ekki verið fullnægt og því ekki stofnast innstæður í merkingu laga nr. 98/1999. Umsóknarferli hafi enn staðið yfir og bankinn ekki samþykkt þessa umsækjendur, en á meðan hafi hann geymt fé þeirra en þó ekki á reikningum. Í málatilbúnaði varnaraðilans segir jafnframt að umsækjendurnir hafi millifært fé til bankans „af ýmsu tilefni“ áður en innlánsreikningar voru opnaðir í þeirra nafni og í sumum tilvikum hafi millifærsla verið gerð fyrir mistök. Ekki sé sýnt fram á að um sé að ræða innlán eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi sem bankanum hafi borið að endurgreiða samkvæmt skilmálum um þessa reikninga. Sóknaraðilar styðja afstöðu varnaraðilans Landsbanka Íslands hf. í þessum þætti málsins.

Við úrlausn þessa ágreinings verður að líta til þess að umræddir 76 viðskiptamenn Landsbanka Íslands hf. afhentu honum féð á þeim grundvelli að samningar þeirra væru um innlán. Vildi bankinn ekki samþykkja umsækjendurna og stofna Icesave-reikninga bar honum samkvæmt skilmálum um slíka reikninga að endurgreiða féð. Bankinn tók við fénu en skilaði því ekki og eins og atvik eru vaxin eru ekki efni til annars en að líta svo á að um hafi verið að ræða innlán í hefðbundinni almennri bankastarfsemi, sbr. lög nr. 98/1999. Getur því engum úrslitum ráðið hvort bankinn hafi opnað reikning fyrir hvern þessara umsækjenda eða varðveitt fé þeirra með öðrum hætti. Samkvæmt framansögðu verður krafa varnaraðilans FSCS í þessum þætti málsins tekin til greina með vöxtum eins og nánar greinir í kafla VI hér á eftir.

VI

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að krafa sú sem varnaraðilinn FSCS lýsti við slit varnaraðilans Landsbanka Íslands hf. er til komin vegna þeirrar ákvörðunar þess fyrrnefnda að greiða innstæðueigendunum á Icesave-reikningum bankans í Bretlandi út andvirði innstæðna þeirra í samræmi við svokallaðar „COMP“ reglur. Ennfremur er því lýst að greiðslur varnaraðilans FSCS til innstæðueigendanna tóku mið af stöðu reikninga þeirra í lok dags 7. október 2008. Innstæðukröfurnar voru hins vegar framseldar að fullu, þar á meðal með rétti til vaxta frá og með 8. október 2008 til þess dags sem upphaflegur innstæðueigandi móttók greiðsluna frá varnaraðilanum FSCS, auk vaxta sem kynnu að falla til eftir greiðslu til hans. Í kröfulýsingu til slitastjórnar Landsbanka Íslands hf. reiknaði varnaraðilinn samningsvexti á allar tegundir yfirtekinna innstæðna fram til 8. október 2008 en krafðist dráttarvaxta samkvæmt lögum nr. 38/2001 vegna óbundinna innstæðna frá 8. október 2008 til og með 22. apríl 2009, og vegna bundinna innstæðna með gjalddaga eftir 8. október 2008 frá gjalddaga þeirra til 22. apríl 2009. Slitastjórn hafnaði tilkalli varnaraðilans til þeirra vaxta en viðurkenndi samningsvexti á kröfu hans til og með 22. apríl 2009. Samþykkt fjárhæð samningsvaxta miðaðist við vaxtafót í samræmi við skilmála Icesave-innstæðna í útibúi Landsbanka Íslands hf. í London.

Meðal gagna sem varnaraðilinn Landsbanki Íslands hf. lagði fyrir Hæstarétt eru

almennir skilmálar og skilyrði sem giltu „um opnun og starfrækslu allra Icesave-reikninga og mynda grunn að samningi“ milli innstæðueigenda og bankans. Þar segir í gr. 10j í kafla sem ber fyrirsögnina „Ýmis ákvæði“ að reikningurinn „heldur áfram að safna vöxtum fram að síðasta degi fyrir úttekt (en ekki að honum meðtöldum). Almennt má gera ráð fyrir að það taki þrjá virka daga að millifæra fjármuni á annan reikning sem þú tilgreinir.“ Í gr. 14d í kafla sem ber fyrirsögnina „Skilmálar og skilyrði sparnaðarreikninga með föstum vöxtum“ segir að „við munum hafa samband við þig fyrir lok binditímans til að upplýsa þig um þá valkosti sem þér standa til boða. Ef okkur berst ekki svar frá þér fyrir lok binditíma reikningsins munum við leggja þá fjármuni sem þar eru geymdir inn á sparnaðarreikning með greiðum aðgangi. Ef þú átt ekki sparnaðarreikning með greiðum aðgangi munum við stofna slíkan reikning fyrir þína hönd.“

Í hinum kærða úrskurði er komist að þeirri niðurstöðu að réttur varnaraðilans FSCS til vaxta af kröfu hans til og með 22. apríl 2009, sem er viðmiðunardagur slitameðferðar varnaraðilans Landsbanka Íslands hf., ráðist af breskum lagareglum en ekki íslenskum. Með vísan til ákvæða þeirra reglna var í úrskurðinum talið að krafa varnaraðilans FSCS vegna bundinna innstæðna skyldi bera 8% ársvexti frá gjalddögum þeirra til 22. apríl 2009 og krafa vegna óbundinna innstæðna 8% ársvexti frá 8. október 2008 til 22. apríl 2009. Varnaraðilinn FSCS fellst ekki á þessa niðurstöðu, en verði ekki fallist á aðalkröfu hans um íslenska dráttarvexti krefst hann þess til vara fyrir Hæstarétti að niðurstaða úrskurðarins um breska vexti verði staðfest. Fyrir Hæstarétti krefst varnaraðilinn Landsbanki Íslands hf. þess að hinum kærða úrskurði verði breytt þannig að hafnað verði að viðurkenna 8% ársvexti af innleystum fjárhæðum til og með 22. apríl 2009, en þess í stað verði staðfest sú afstaða slitastjórnar að viðurkenna samningsvexti fyrir sama tímabil.

Með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar er staðfest sú úrlausn hans að bresk lög gildi um samningsskuldbindingar Icesave-innstæðueigendanna og útibús Landsbanka Íslands hf. í London. Samkvæmt því og með vísan til c. liðar 3. mgr. 10. gr. laga nr. 43/2000 um lagaskil á sviði samningaréttar er og staðfest sú úrlausn hins kærða úrskurðar að reglur breskra laga gildi um rétt varnaraðilans FSCS til að krefjast vaxta af hinum framseldu kröfum, þótt um meðferð og rétthæð þeirra við slitin og innstæðutryggingarvernd fari að íslenskum lögum. Breytir engu í því sambandi þótt ákvæði breskra laga um vexti teljist vera réttarfarsreglur þar í landi, enda fer um heimfærslu til réttarsviðs eftir íslenskum lögum. Af þessu leiðir eins og í hinum kærða úrskurði greinir að hvorki verður fallist á aðalkröfu varnaraðilans FSCS um íslenska dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 né fyrstu varakröfu hans um vexti samkvæmt grunnvöxtum Englandsbanka að viðbættu vanefndaálagi samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001.

Ágreiningslaust er með varnaraðilum að komi til beitingar breskra réttarreglna um dráttarvexti í máli þessu eigi þar við ákvæði í gr. 4.93 í breskum reglum um ógjaldfærni frá árinu 1986 (The Insolvency Rules 1986), og undir rekstri málsins hafa varnaraðilar eins og í hinum kærða úrskurði greinir lagt fram gögn um þær reglur. Komi til beitingar þeirra í máli þessu greinir varnaraðila ekki á um efni reglnanna heldur einungis hvort fullnægt sé þeim skilyrðum fyrir ákvörðun vaxta sem þar koma fram. Samkvæmt þessu og að virtum gögnum málsins teljast bæði tilvist og efni þeirra reglna nægilega í ljós leidd í skilningi 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Í hinum kærða úrskurði er efni gr. 4.93 bresku gjaldþrotareglnanna rakið. Varnaraðilinn FSCS segir að í annari varakröfu hans felist að niðurstaða úrskurðarins um 8% ársvexti verði staðfest. Af gögnum málsins sé ljóst að ógjaldfallnar innstæðukröfur beri vexti samkvæmt þeim samningsskilmálum sem um þær giltu fram að gjalddaga þeirra eða til upphafsdags slitameðferðar eftir því hvorn daginn ber fyrr upp á, sbr. 1. tölulið gr. 4.93. Hafi innstæðukrafa hins vegar fallið í gjalddaga fyrir upphafsdag slita og hvorki verið gerður áskilnaður né samið um vexti eftir gjalddaga, sé ljóst að varnaraðilinn FSCS eigi rétt á þeim vöxtum sem tilgreindir séu í 6. tölulið gr. 4.93, sbr. 2. og 3. tölulið þeirrar greinar. Það séu þeir vextir sem gildi samkvæmt 17. gr. breskra laga um dóma frá 1838 (Judgments Act), það er 8% ársvextir. Þá hafnar varnaraðilinn FSCS þeim málatilbúnaði varnaraðilans Landsbanka Íslands hf. að hann hafi ekki bent á skjal sem fullnægi því skilyrði að teljast skriflegur gerningur samkvæmt 3. tölulið gr. 4.93 og vísar sá fyrrnefndi til Icesave-skilmálanna í því sambandi.

Af hálfu varnaraðilans Landsbanka Íslands hf. er á því byggt, að réttur til vaxta eftir að krafa varð gjaldkræf og fram til upphafsdags slita geti stofnast með þrennum hætti. Í fyrsta lagi ef vextir á þessu tímabili voru fyrirfram áskildir eða umsamdir, í öðru lagi ef krafa varð gjaldkræf samkvæmt skriflegum gerningi og í þriðja lagi ef kröfuhafi krafði skuldara skriflega um greiðslu skuldar og tilkynnti að vextir myndu falla á kröfuna fram að greiðsludegi. Sé engu þessara skilyrða fullnægt verði vextir frá því krafa varð gjaldkræf og fram að upphafsdegi slita ekki viðurkenndir. Fullnægt sé því skilyrði 1. töluliðar gr. 4.93 að umræddar innstæðukröfur beri vexti samkvæmt þeim samningsskilmálum sem um þær gilda. Er því haldið fram að þeir vextir sem varnaraðilinn Landsbanki Íslands hf. hefur samþykkt séu í samræmi við þann samning, enda sé ekki kveðið á um það í almennum skilmálum og skilyrðum fyrir Icesave-reikningana að innstæðueigendur eigi rétt til annarra vaxta en umsaminna innlánsvaxta eftir að innstæða varð gjaldkræf. Augljóst sé að öðru og þriðja skilyrðinu sé ekki fullnægt, enda hafi varnaraðilinn FSCS hvorki bent á skjal sem geti talist skriflegur gerningur í skilningi 3. töluliðar gr. 4.93 né hafi hann haldið því fram að Landsbanki Íslands hf. hafi skriflega verið krafinn um greiðslu skuldarinnar og tilkynnt að vextir myndu falla á kröfuna fram að greiðsludegi, sbr. ákvæði 4. töluliðar gr. 4.93. Fram komi í 2. tölulið gr. 4.93 að ákvæði 3. til 6. töluliðar komi einungis til álita hafi vextir ekki verið áskildir eða fyrirfram umsamdir. Þegar af þeirri ástæðu að skilyrðum 1. töluliðar sé fullnægt komi ákvæði 3. til 6. töluliðar ekki til álita í málinu. Aðrar reglur bresks réttar um vexti eigi ekki við í því tilviki sem hér sé til úrlausnar.

Ljóst er af almennum skilmálum og skilyrðum Icesave-reikninga Landsbanka Íslands hf. að innstæður á þeim báru vexti „fram að síðasta degi fyrir úttekt“ samkvæmt því sem segir í gr. 10j skilmálanna. Ber því að fallast á það sjónarmið varnaraðilans Landsbanka Íslands hf. að fullnægt sé skilyrðum 1. töluliðar gr. 4.93 bresku gjaldþrotareglnanna. Þegar af þeirri ástæðu og þar sem varnaraðilinn FSCS hefur ekki leitt að því rök að hann eigi á öðrum lagagrundvelli rétt til dráttarvaxta af kröfu sinni verða slíkir vextir ekki dæmdir. Af þessu leiðir að hafna ber annarri varakröfu varnaraðilans FSCS og verður tekin til greina sú krafa varnaraðilans Landsbanka Íslands hf. að vextir samkvæmt Icesave-skilmálum skuli gilda tímabilið 8. október 2008 til 22. apríl 2009, en það voru sem fyrr segir þeir vextir sem slitastjórn samþykkti að krafan bæri og nytu forgangsréttar eins og höfuðstóll hennar.

VII

Varnaraðilinn FSCS hefur ennfremur uppi kröfu um að áfallinn kostnaður hans til og með 22. apríl 2009 verði samþykktur sem forgangskrafa við slit varnaraðilans Landsbanka Íslands hf. Þessum lið kröfugerðar hans var hafnað í hinum kærða úrskurði og verður sú niðurstaða staðfest með vísan til forsendna héraðsdóms.

Samkvæmt öllu sem að framan er rakið verður niðurstaða málsins sú að viðurkennd er krafa varnaraðilans FSCS, sem í heild er að höfuðstól 4.309.797.732,74 sterlingspund og að henni skuli skipað í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, en í þessari fjárhæð er meðtalin krafa vegna 76 reikninga sem áður var fjallað um. Þessi fjárhæð verður færð til íslenskra króna eftir skráðu sölugengi 22. apríl 2009, sbr. 3. mgr. 99. gr. sömu laga, og nemur hún 823.516.150.772 krónum. Þá er fallist á með varnaraðilanum Landsbanka Íslands hf. að krafa varnaraðilans FSCS beri vexti samkvæmt skilmálum Icesave-reikninga af bundnum og óbundnum innstæðum til 22. apríl 2009, sem óumdeilt er að nemi 149.752.178,76 sterlingspundum eða 28.614.646.317 krónum. Þessum lið kröfunnar verður með sama hætti skipað í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Viðurkennd fjárhæð verður dæmd í einu lagi og tiltekin í dómsorði í íslenskum krónum.

Fyrir héraðsdómi var hver málsaðili látinn bera sinn kostnað af málinu með skýringum, sem greinir í forsendum úrskurðar héraðsdóms. Sú niðurstaða verður staðfest með vísan til forsendna héraðsdóms. Í meginatriðum eiga sömu sjónarmið einnig við að því er varðar málskostnað fyrir Hæstarétti. Að því virtu verður hver málsaðili látinn bera sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Krafa varnaraðilans The Financial Services Compensation Scheme Ltd. að fjárhæð 852.130.797.089 krónur á hendur varnaraðilanum Landsbanka Íslands hf. er viðurkennd við slit hans. Kröfunni er skipað í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað er staðfest.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Sératkvæði

Jóns Steinars Gunnlaugssonar

I

Aðalkærendur skiptast annars vegar í þrjá hópa, sem hver um sig hefur innbyrðis samstöðu um kröfugerð og málflutning í málinu, Arrowgrass Master Fund Limited o.fl., Bayerishe Landesbank o.fl. og Skiki ehf. o.fl. Hins vegar eru meðal aðalkærenda Deutsche Bank Trust Company Americas og Landsbanki Guernsey Ltd. Alla framangreinda aðila mun ég í atkvæði þessu nefna sóknaraðila en gagnkærendur, The Financial Services Compensation Scheme Ltd. (hér eftir FSCS) og Landsbanka Íslands hf., varnaraðila.

Í héraði gerðu sóknaraðilarnir Arrowgrass Master Fund Ltd. o.fl. og Bayerishe Landesbank o.fl. kröfu um að dómkröfum varnaraðilans FSCS yrði vísað frá dómi að því leyti sem þær féllu saman við kröfu varnaraðilans Landsbanka Íslands hf. um viðurkenningu á forgangsrétti kröfu FSCS. Byggðu þeir frávísunarkröfu sína á því að varnaraðilinn FSCS hefði ekki mótmælt afstöðu slitastjórnar til kröfu sinnar að þessu leyti og gæti hann því ekki átt aðild að dómsmáli þar sem deilt væri um réttmæti þessarar afstöðu. Svo sem fram kemur í hinum kærða úrskurði var af hálfu sóknaraðila til stuðnings þessari kröfu vísað til dóms Hæstaréttar 24. janúar 2011 í máli nr. 638/2010. Í þeim dómi var talið að kröfuhafi, sem ekki hefði mótmælt afstöðu slitastjórnar til kröfu annars kröfuhafa, heldur þvert á móti samsinnt henni, gæti ekki látið ágreining síðarnefnda kröfuhafans og slitastjórnar til sín taka fyrir dómi. Meirihluti Hæstaréttar komst að sömu niðurstöðu um þetta með dómi 15. apríl 2011 í máli nr. 142/2011. Fyrir Hæstarétti hafa áður greindir sóknaraðilar fallið frá þessari frávísunarkröfu.

Dómstólar aðgæta án kröfu hvort varnaraðilinn FSCS geti látið ágreining um afstöðu slitastjórnar til forgangs kröfu sinnar til sín taka fyrir dómi, þegar þeirri afstöðu er samkvæmt 1. mgr. 120. gr. og 171. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. vísað til dómstóla vegna mótmæla annarra kröfuhafa. Þótt aðili, sem samsinnir afstöðu slitastjórnar, geti ekki samkvæmt nefndum lagaákvæðum sjálfur haft frumkvæði að því að vísa henni til meðferðar fyrir dómi, felst ekki í því að hann megi ekki láta til sín taka ágreining sem annar kröfuhafi gerir um afstöðu slitastjórnar, þegar slíkum ágreiningi er vísað til dómsmeðferðar og sá sem leitar aðildar hefur lögvarða hagsmuni af niðurstöðu dómstóla um ágreininginn. Í því tilviki sem hér um ræðir er augljóst að varnaraðilinn FSCS hefur lögvarða hagsmuni af niðurstöðu dómstóla um forgangsrétt kröfu hans, sem slitastjórnin féllst á. Með því að meirihluti Hæstaréttar telur nú að þessi varnaraðili geti átt aðild að málinu að þessu leyti er í reynd fallið frá þeirri afstöðu réttarins um þetta sem fram kom í fyrrgreindum dómum, sbr. nú einnig dóm réttarins 12. október 2011 í máli nr. 398/2011. Lýsi ég mig sammála því.

II

Aðdraganda að setningu laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. og aðgerðum í tengslum við lagasetninguna er lýst í atkvæði meirihluta dómenda. Lögin höfðu það markmið að bregðast við mjög alvarlegri stöðu sem upp var komin í landinu og þar er lýst. Þessar aðgerðir fólust einkum í að vernda innlán í bönkum. Hér innanlands voru stofnaðir nýir bankar í stað hinna þriggja stóru viðskiptabanka og innlán hjá þeim flutt til hinna nýju. Ákvarðanir um þetta voru studdar við 5. gr. nefndra laga sem bætti nýrri grein, 100. gr. a, við lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Með 6. gr. laganna, þar sem nýrri málsgrein var bætt framan við 103. gr. laga nr. 161/2002, var kveðið svo á að við skipti á búi fjármálafyrirtækis skyldu kröfur vegna innstæðna, samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, njóta rétthæðar samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Í þessu fólst að innlánum var veittur forgangsréttur við slit fjármálafyrirtækis fram yfir almennar kröfur, en innlánskröfur höfðu fram að setningu laganna tilheyrt þeim. Úr gömlu bönkunum voru fluttar eignir til hinna nýju banka á móti þeim skuldbindingum, sem fólust í að taka við innlánunum, sem til þeirra voru flutt. Í aðgerðunum fólst að þessum innlánum var í reynd veittur forgangur fram yfir aðrar kröfur sem á bönkunum höfðu hvílt. Eftir í gömlu bönkunum urðu innlán í erlendum útibúum þeirra, fyrst og fremst í Bretlandi og Hollandi að því er varnaraðilann Landsbanka Íslands hf. varðar. Tók slitastjórnin þá afstöðu að þessi innlán skyldu njóta forgangs við slit bankans, þar með talin krafa varnaraðilans FSCS. Sóknaraðilar eru meðal almennra kröfuhafa við slitin og hafa þeir mótmælt þessari afstöðu. Í málinu er fjallað um ágreining málsaðila sem að þessu lýtur.

Með lögum nr. 44/2009 um breyting á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki voru meðal annars gerðar breytingar á 103. gr. laganna. Var ákvæðinu um forgangsrétt innstæðna nú með 6. gr. laga nr. 44/2009 komið fyrir í 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 og gerðar lítilsháttar breytingar frá orðalagi 6. gr. laga nr. 125/2008 sem geta ekki talist hafa þýðingu fyrir þann ágreining sem hér er til úrlausnar.

Sóknaraðilar byggja meðal annars á því að þörfin á að bregðast við þeirri yfirvofandi ógn sem steðjaði að efnahagslífi og almennu greiðslukerfi á Íslandi hafi ekki tengst skiptum á gömlu bönkunum eftir að innstæðum innanlands hafði verið komið í skjól í hinum nýju bönkum á þann hátt sem lýst var. Í málinu er ekki tekist á um hvort heimilt hafi verið að færa til hinna nýju banka, sem stofnaðir voru hér innanlands, eignir úr gömlu bönkunum til að standa undir innlendum innlánum sem til þessara nýju banka voru flutt. Svo sem mál þetta liggur fyrir þarf einungis að leysa úr því, hvort heimilt hafi verið að veita innlánum forgang fram yfir almennar kröfur, þannig að réði úthlutun til kröfuhafa við skiptameðferð varnaraðilans Landsbanka Íslands hf., en eftir í honum voru innlán í erlendum útibúum hans.

III

Kröfur sóknaraðila á hendur varnaraðilanum Landsbanka Íslands hf. teljast til eignarréttinda sem njóta verndar samkvæmt 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Að mínum dómi er ekki vafi á að þessi eignarréttindi voru skert með fyrrnefndum aðgerðum, þar með talið setningu 6. gr. laga nr. 125/2008 og síðar 3. mgr. 6. gr. laga nr. 44/2009 um forgang innlána. Lagaákvæðið, sem hér er til athugunar, hafði beinlínis það markmið að tryggja að eignir bankanna stæðu innlánskröfum til fullnustu á undan öðrum kröfum og fól þannig í sér skerðingu á þeim síðarnefndu, þar sem ljóst var við setningu laganna að eignir þessar myndu ekki duga til að tryggja fullnustu allra krafna. Er tekist á um í málinu hvort sóknaraðilum verði við slit varnaraðilans Landsbanka Íslands hf. gert að þola þessa skerðingu án bóta.

Fallast verður á að upp hafi verið komið í landinu alvarlegt ástand, þar sem veruleg hætta var á að bæði einstaklingar og atvinnufyrirtæki misstu aðgang að daglegum greiðslueyri sínum með augljósum skaðlegum áhrifum fyrir almenning og viðskiptalífið. Stjórnvöld og Alþingi kusu að bregðast við þessu með aðgerðum sem höfðu það markmið að halda efnahagslífinu gangandi og tryggja að greiðslukerfi virkuðu á markaði hér innanlands. Með aðgerðunum, sem að framan er lýst, var í reynd aflað fjár til að standa straum af kostnaði við þær hjá almennum kröfuhöfum bankanna. Verður vikið nánar að þessu í IV. kafla.

Þó að almenni löggjafinn geti að jafnaði sett lagareglur um forgangsröð krafna við gjaldþrot, sem geta að minnsta kosti að einhverju marki gilt um kröfur sem stofnað hefur verið til fyrir gildistöku slíkra lagareglna, er óhjákvæmilegt að líta hér til þess að lögin voru gagngert sett í tilefni af þeirri alvarlegu stöðu sem komin var upp og snerti starfsemi tiltekinna fyrirtækja, fyrst og fremst hinna þriggja stóru íslensku banka. Fallast má á það sem fram kemur í atkvæði meirihluta dómenda að kröfur vegna innlána í bönkum eru að mörgu leyti annars eðlis en kröfur sem eiga rót að rekja til lánveitinga til banka og annars konar viðskipta. Sjónarmið um þetta eru hins vegar að mínum dómi af þeim toga að geta aðeins haft áhrif þegar löggjafinn tekur afstöðu til þess hvort veita beri innlánum forgang með lögum þannig að gildi hafi til framtíðar. Þau geta hvorki veitt löggjafanum né dómstólum heimild til að forgangsraða kröfum eftir á. Það sem þýðingu hefur fyrir úrlausn þessa máls er að innlánskröfur nutu fyrir gildistöku laga nr. 125/2008 ekki að lögum ríkari réttar til úthlutunar við slit banka en aðrar almennar kröfur. Það er að mínu áliti ekki vafi á að sett lög þarf til að veita tilteknum kröfum forgang fram yfir aðrar. Þar dugir ekki að vísa eftir á til þess að sumar kröfur búi yfir verðleikum til forgangs fram yfir aðrar. Lagasetning sem hefur slík sérgreind markmið sem hér um ræðir, og gerbreytir réttarstöðu þeirra sem í hlut eiga, hefur í reynd afturvirk áhrif til skerðingar á eignarréttindum sem njóta verndar 72. gr. stjórnarskrár. Hún verður að mínum dómi ekki réttlætt með því að almenni löggjafinn geti að jafnaði sett lagareglur um forgangsröð krafna við gjaldþrot sem gilda skuli til framtíðar.

IV

Svo sem fyrr segir er ekki vafi á að eignarréttindi almennra kröfuhafa í hinum gömlu bönkum voru skert í því skyni að tryggja stöðu innlána við slit þeirra með því að veita innlánunum forgang fram yfir kröfur almennra kröfuhafa. Þannig voru eignarréttindi sóknaraðila og annarra í sambærilegri stöðu í reynd beinlínis notuð til að standa straum af kostnaði við þessa aðgerð. Má því segja að með setningu laga nr. 125/2008 hafi einfaldlega verið fluttar eignir frá sóknaraðilum og öðrum almennum kröfuhöfum til innstæðueigenda í því skyni að bregðast við þeirri alvarlegu stöðu sem upp var komin og fyrr var lýst. Ákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar leyfir ekki tilflutning eignarréttinda milli manna nema að uppfylltum ströngum skilyrðum sem meðal annars eru talin upp í ákvæðinu, þar með töldu skilyrði um að fullt verð skuli koma fyrir þá eign sem sætir skerðingu. Að mínu mati verður heldur ekki talið að þær ráðstafanir sem gerðar voru geti talist til almennra takmarkana á eignarréttindum, sem teljast heimilar án bóta, þar sem einungis kröfuréttindi á hendur tilteknum skuldurum voru takmörkuð, en ekki kröfuréttindi eða önnur eignarréttindi almennt.

Varnaraðilar halda því fram að löggjafanum hafi verið lagasetningin sem hér um ræðir heimil vegna yfirvofandi neyðarástands. Vísar varnaraðilinn FSCS þá meðal annars til þess að sóknaraðilar hafi ekki bent á aðrar leiðir sem hefðu gengið skemur gegn hagsmunum þeirra, en dugað til að forðast neyðarástandið. Sóknaraðilar telja sig eiga að njóta verndar eignarréttinda sinna án þess að gert sé að skilyrði að þeir bendi á slíkar leiðir.

Ef löggjafarvaldi er beitt til að bregðast við neyðarástandi, eins og hér er talin reyndin, hlýtur meginregla að vera sú að fjár til að standa undir kostnaði við slíkar aðgerðir sé aflað með almennum hætti. Ég tel að ekki fái staðist að leggja þennan kostnað svo til eingöngu á sóknaraðila og aðra almenna kröfuhafa bankanna, þó að eignir þeirra, sem skertar eru í þessu skyni, tengist bönkunum sérstaklega með því að vera fólgnar í kröfuréttindum á hendur þeim. Með slíkum úrræðum er þessum aðilum mismunað, bæði gagnvart þeim sem áttu innstæður í bönkunum en einnig gagnvart öðrum sem varnaraðilar telja að notið hafi góðs af aðgerðunum, þó að með almennari hætti hafi verið. Dómstólar verða að leggja mat á hvort aðgerðir, af því tagi sem hér er fjallað um, gangi lengra til skerðingar á eignarréttindum en heimilt er. Það getur á hinn bóginn ekki verið skilyrði viðurkenningar á að skerðing gangi of langt, að dómstólar segi til um hvernig afla hefði mátt fjár til að standa straum af kostnaði við aðgerðirnar sem nauðsynlegt var talið að ráðast í til að forðast yfirvofandi neyðarástand.

V

Eignarréttur er verndaður í 72. gr. stjórnarskrár. Til efnisþátta ákvæðisins telst regla um jafnrétti, hliðstæð þeirri sem felst í 65. gr. stjórnarskrár. Með vísan til þess sem að framan greinir er það niðurstaða mín að ekki fái staðist þá vernd eignarréttinda, sem tryggð er með 72. gr. stjórnarskrárinnar, að skerða kröfuréttindi sóknaraðila við slit á varnaraðilans Landsbanka Íslands hf. á þann hátt að veita kröfu varnaraðilans FSCS forgangsrétt samkvæmt 6. gr. laga nr. 125/2008, sbr. nú 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, svo sem fallist var á með hinum kærða úrskurði. Tek ég sérstaklega fram að í þessari afstöðu felst ekki að þetta lagaákvæði standist ekki sem almenn lög í landinu, þannig að innlán í bönkum njóti á grundvelli þess í framtíðinni réttarstöðu samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 við slit fjármálafyrirtækis. Í henni felst aðeins að með setningu ákvæðisins voru skert þau eignarréttindi sóknaraðila sem fólust í kröfum þeirra á hendur varnaraðilanum Landsbanka Íslands hf., þannig að í bága fór við nefnt ákvæði stjórnarskrárinnar. Tel ég samkvæmt þessu að taka beri til greina kröfur sóknaraðila um að hafna viðurkenningu á forgangsrétti kröfu varnaraðilans FSCS við slitin og dæma varnaraðila óskipt til að greiða sóknaraðilum málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. apríl 2011.

Málsmeðferð, aðild og kröfur

1.         Mál þetta var þingfest 14. apríl 2010, en þá var lagt fram bréf slitastjórnar Landsbanka Íslands hf., þar sem óskað var úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur vegna ágreinings um lýsta kröfu The Financial Services Compensation Scheme Ltd. (FSCS) við slitameðferð bankans. Kröfuhafinn, FSCS, er breskur tryggingarsjóður fyrir viðskiptavini viðurkenndra fjármálafyrirtækja. Krafan er merkt nr. 1 á kröfuskrá Landsbanka Íslands hf.

Í bréfi slitastjórnar kemur fram að krafan sé vegna innstæðna sem kröfuhafi leysti til sín í framhaldi af yfirlýsingu breska fjármálaráðherrans um innlausn sjóðsins á smásöluinnlánum, sem útibú Landsbankans í Bretlandi hafði boðið upp á undir vörumerkinu Icesave. Innlánin hafi að fullu verið innleyst af hálfu kröfuhafa, en réttur hvers innstæðueiganda til greiðslu frá kröfuhafa hafi verið háður framsali á kröfu hans á hendur Landsbankanum hf. Aðalkrafan var að fjárhæð 4.844.986.147,04 sterlingspund, en til vara var krafist greiðslu að fjárhæð 4.495.217.969,40 sterlingspund, í báðum tilvikum að meðtöldum áunnum vöxtum og kostnaði. Voru kröfurnar settar fram á grundvelli 1. og 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, eins og þeim hefur verið breytt með lögum nr. 44/2009.

Slitastjórn Landsbanka Íslands hf. samþykkti kröfuna sem forgangskröfu á grundvelli 112. gr. laga nr. 21/1991, samtals að fjárhæð 4.440.625.483,35 sterlingspund, eða 848.514.717.359 umreiknað í íslenskar krónur, að vöxtum meðtöldum. Kröfu um áfallinn kostnað fyrir 22. apríl 2009 var hins vegar hafnað.  Afstaða slitastjórnar til kröfunnar var þannig kynnt í kröfuskrá, sem lögð var fram á kröfuhafafundi 23. nóvember 2009. Á þeim fundi mótmælti kröfuhafi afstöðu slitastjórnar til samþykktrar fjárhæðar. Fjöldi annarra kröfuhafa mótmælti einnig þeirri afstöðu slitastjórnar að krafan nyti forgangs samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991.

Kröfuhafi, FSCS, lagði fram frekari gögn til stuðnings kröfu sinni, og samþykkti slitastjórn í kjölfar sannprófunar á þeim gögnum að hækka samþykkta kröfufjárhæð í 4.450.374.974,74 sterlingspund, eða 850.377.650.173 krónur. Var afstaða slitastjórnar kynnt kröfuhöfum á fundum 10. febrúar og 22. mars 2010. Í millitíðinni hafði slitastjórn staðið fyrir tveimur kynningarfundum í London fyrir kröfuhafa, þar sem kynnt var sú aðferðafræði sem slitastjórn viðhafði við sannprófun á höfuðstólsfjárhæð kröfunnar. Þar sem ekki tókst hins vegar að jafna ágreining um kröfuna, hvorki gagnvart kröfuhafa sjálfum né öðrum kröfuhöfum sem mótmælt höfðu afstöðu slitastjórnar til viðurkenningar kröfunni, ákvað slitastjórn að vísa ágreiningnum til úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur samkvæmt 2. mgr. 120. gr., sbr. 171. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.

2.            Við þingfestingu málsins ákvað dómari að sóknaraðilar skyldu vera þeir sem mótmælt hefðu afstöðu slitastjórnar, bæði viðurkenningu á fjárhæð kröfunnar og rétthæð hennar í skuldaröð, en að varnaraðilar skyldu vera kröfuhafinn sjálfur, FSCS, og Landsbanki Íslands hf. Upphaflega voru sóknaraðilar málsins fleiri en þeir sem nú standa að málinu, en á síðari stigum hafa þeir fallið frá aðild sinni. Eftir standa þeir sóknaraðilar sem taldir eru upp hér að ofan. Að stærstum hluta eru þeir hópur alþjóðlegra fjármálafyrirtækja sem eiga skuldabréf og önnur verðbréf sem gefin voru út af Landsbanka Íslands hf., en allir eiga þeir það sameiginlegt að hafa lýst almennum kröfum samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð Landsbanka Íslands hf. 

Í bréfi lögmanns sóknaraðilanna Arrowgrass Distressed Opportunities Fund Limited o.fl. til dómsins 9. apríl 2010, er tekið fram að sóknaraðilar séu hluti af stærri hópi kröfuhafa, sem allir hafi andmælt afstöðu slitastjórnar til viðurkenningar kröfu FSCS. Því skuli líta svo á að þeir sóknaraðilar séu fulltrúar þeirra allra. Engu að síður verði niðurstaða héraðsdóms bindandi fyrir alla kröfuhafana.

3.            Kröfur sóknaraðila

3.1.         Arrowgrass Distressed Opportunities Fund Limited o.fl. gera aðallega þá kröfu að dómkröfum varnaraðilans, FSCS, verði vísað frá dómi að öðru leyti en sem lýtur að fjárhæðum umfram það sem slitastjórn Landsbankans hefur samþykkt sem forgangskröfu, þ.e. 4.458.174.185 sterlingspund. Verði hins vegar ekki fallist á frávísunarkröfuna gera sóknaraðilar svofelldar efniskröfur:

Aðalkrafa: Að krafa Financial Services Compensation Scheme (hér eftir FSCS) nr. 1 á kröfuskrá, að lýstri fjárhæð 925.779.952.976 krónur, sem slitastjórn Landsbankans hefur samþykkt sem forgangskröfu í búið, verði hafnað í heild sinni.

1. varakrafa: Að fjárhæð hinnar viðurkenndu kröfu FSCS, nr. 1 á kröfuskrá, verði stórlega lækkuð og stöðu hennar sem forgangskröfu, samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, verði hafnað.

2. varakrafa: Að kröfu FSCS, nr. 1 á kröfuskrá, að lýstri fjárhæð 925.779.952.976 krónur, verði hafnað sem forgangskröfu samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, við slitameðferð Landsbanka Íslands.

3. varakrafa: Verði fallist á að einhver hluti kröfu FSCS njóti forgangs samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð Landsbanka Íslands hf., skuli sú fjárhæð vera að hámarki 20.887 evrur fyrir hvern innstæðueiganda sem FSCS leiðir rétt sinn frá, miðað við að vextir sem falla á kröfuna eftir 6. október 2008 njóti ekki stöðu forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991.

4. varakrafa: Að hafnað verði öllum kröfum FSCS um að vextir er fallið hafa á kröfuna eftir 6. október 2008 njóti stöðu forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991.

Í þinghaldi 1. október sl. gerðu sömu sóknaraðilar loks kröfu um að öllum gagnkröfum FSCS um að viðurkenndar yrðu kröfur um tilteknar upphæðir, þ.m.t. um forgang þeirra, umfram það sem samþykkt hefði verið af slitastjórn Landsbankans, yrði hafnað.

Í öllum tilvikum krefjast sóknaraðilar málskostnaðar úr hendi varnaraðila hvors um sig eða in solidum að skaðlausu samkvæmt mati dómsins, í samræmi við hagsmuni, að viðbættu álagi vegna virðisaukaskatts.

3.2.         Bayerische Landesbank o.fl. gera aðallega þá kröfu að dómkröfum varnaraðilans, FSCS, verði vísað frá dómi að öðru leyti en sem lýtur að fjárhæðum umfram það sem slitastjórn Landsbankans hefur samþykkt sem forgangskröfu, þ.e. 4.458.174.185 sterlingspund. Verði hins vegar ekki fallist á frávísunarkröfuna gera sömu sóknaraðilar svofelldar kröfur:

Aðalkrafa: Að krafa FSCS nr. 1 á kröfuskrá, að lýstri fjárhæð 925.779.952.976 krónur, sem slitastjórn Landsbankans hefur samþykkt sem forgangskröfu í búið, verði hafnað í heild sinni.

1. varakrafa: Að fjárhæð hinnar viðurkenndu kröfu FSCS, nr. 1 á kröfuskrá, verði stórlega lækkuð og stöðu hennar sem forgangskröfu, skv. 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, hafnað.

2. varakrafa: Að kröfu FSCS nr. 1 á kröfuskrá, að lýstri fjárhæð 925.779.952.976 krónur, verði hafnað sem forgangskröfu samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð Landsbanka Íslands hf.

3. varakrafa: Verði fallist á að einhver hluti kröfu FSCS njóti forgangs samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð Landsbanka Íslands hf., skuli sú fjárhæð vera að hámarki 20.887 evrur fyrir hvern innstæðueiganda sem FSCS leiðir rétt sinn frá, miðað við að vextir sem falla á kröfuna eftir 6. október 2008 njóti ekki stöðu forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991.

4. varakrafa: hafnað verði öllum kröfum FSCS um að vextir er fallið hafa á kröfuna   eftir 6. október 2008 njóti stöðu forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991.

Í þinghaldi 1. október sl. gerðu sömu sóknaraðilar loks kröfu um að öllum gagnkröfum FSCS um að viðurkenndar yrðu kröfur um tilteknar upphæðir, þ.m.t. um forgang þeirra,  umfram það sem samþykkt hafi verið af slitastjórn Landsbankans, yrði hafnað.

Í öllum tilvikum krefjast sóknaraðilar málskostnaðar úr hendi varnaraðila hvors um sig eða in solidum að skaðlausu samkvæmt mati dómsins, í samræmi við hagsmuni, að viðbættu álagi vegna virðisaukaskatts.

3.3.         Skiki ehf., Blomstri ehf., Íslenska útflutningsmiðstöðin hf., Óttar Yngvason og Rakel Óttarsdóttir krefjast þess að ógilt verði viðurkenning slitastjórnar Landsbanka Íslands hf. á kröfu varnaraðila, FSCS, að fjárhæð 4.450.374.974,74 sterlingspund, eða 850.377.650.173 krónur, sem forgangskröfu á grundvelli 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, eins og þeirri lagagrein var breytt með 6. gr. laga nr. 44/2009, sem tóku gildi 22. apríl 2009, sbr. einnig 6. gr. laga nr. 125/2008. Er þess og krafist að krafa varnaraðilans verði aðeins viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við úthlutun úr búi Landsbanka Íslands hf. Þá er þess krafist að varnaraðilarnir, FSCS og Landsbanki Íslands hf., verði in solidum dæmdir til að greiða sóknaraðilum málskostnað að mati dómsins.

3.4.         Deutsche Bank Trust Company Americas krefst þess að hnekkt verði með dómi þeirri ákvörðun slitastjórnar Landsbanka Íslands hf. að kröfur varnaraðila, FSCS, verði viðurkenndar sem forgangskröfur í skilningi 112. gr. laga nr. 21/1991. Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.

3.5.         Landsbanki Guernsey Ltd. krefst þess aðallega að afstöðu slitastjórnar varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., til kröfu varnaraðila, FSCS, verði hrundið og breytt á þá leið að krafan verði einungis viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. við slitameðferð bankans. Til vara krefst sóknaraðilinn þess að krafa FSCS verði aðeins viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., að hámarki 20.887 evrur fyrir hverja innstæðu sem kröfulýsingin taki til. Þá er þess krafist að varnaraðilum verði gert in solidum að greiða honum málskostnað samkvæmt mati dómsins.

4.            Kröfur varnaraðila

4.1.         Endanlegar kröfur The Financial Services Compensation Scheme Ltd. eru þær að frávísunarkröfu sóknaraðilanna Arrowgrass Distressed Opportunities Fund Limited o.fl. og Bayerische Landesbank o.fl. verði hrundið og að úrskurður verði lagður á efniskröfur hans, sem sundurliðast þannig:

Aðalkrafa: Að viðurkennd verði krafa hans á hendur Landsbanka Íslands hf. að fjárhæð 4.775.401.576,97 sterlingspund, og að krafan njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

1. varakrafa: Að viðurkennd verði krafa hans á hendur Landsbanka Íslands hf. að fjárhæð 4.532.354.386,42 sterlingspund, og að krafan njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

2. varakrafa: Að viðurkennd verði krafa hans á hendur Landsbanka Íslands hf. að fjárhæð 4.494.599.659,53 sterlingspund, og að krafan njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

3. varakrafa: Að viðurkennd verði krafa hans á hendur Landsbanka Íslands hf. að höfuðstólsfjárhæð 4.309.797.732,74 sterlingspund að viðbættum samningsvöxtum að fjárhæð 149.752.178,76 sterlingspund, að viðbættu vanefndaálagi að mati dómsins á tímabilinu 6. október 2008 til 22. apríl 2009, og að krafan njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

4. varakrafa: Að viðurkennd verði krafa hans á hendur Landsbanka Íslands hf. að fjárhæð 4.459.549.911,50 sterlingspund, og að krafan njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

5. - 9. varakrafa: Að viðurkennt verði að aðalkrafa, fyrsta varakrafa, önnur varakrafa, þriðja varakrafa eða fjórða varakrafa njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

Í öllum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila in solidum, að mati dómsins, að viðbættum virðisaukaskatti.

4.2.         Endanleg krafa Landsbanka Íslands  hf. er að staðfest verði afstaða slitastjórnar um að viðurkenna kröfu The Financial Services Compensation Scheme Ltd. sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 að fjárhæð 4.458.174.185,54 sterlingspund, sem umreiknast í kröfuskrá í 851.867.923.373 krónur. Ekki er gerð krafa um málskostnað úr hendi aðila, en þess hins vegar krafist að hafnað verði málskostnaðarkröfum aðila á hendur Landsbanka Íslands hf.

Við munnlegan flutning málsins féll varnaraðili frá þeirri kröfu sinni, sem gerð var í athugasemdum varnaraðilans 1. október 2010, sbr. dskj. nr. 73, að fyrstu og þriðju varakröfu FSCS, um vexti fyrir tímabilið frá 8. október 2008 til og með 22. apríl 2009, yrði vísað frá dómi. Þess í stað krafðist hann þess að þeim kröfum yrði hafnað.

Málið var tekið til úrskurðar 23. mars sl., að loknum munnlegum málflutningi dagana 21.-23. mars. 

Málsatvik

Snemma árs 2005 opnaði Landsbanki Íslands hf. útibú í London. Samkvæmt tilkynningu til Fjármálaeftirlitsins átti starfsemi útibúsins að vera tvíþætt, annars vegar útlánastarfsemi í formi sambankalána og hins vegar fyrirtækjaráðgjöf. Í júní 2005 tilkynnti bankinn Fjármálaeftirlitinu að ákveðið hefði verið að útvíkka starfsemi útibúsins þannig að hún tæki einnig til móttöku innstæðna. Fram kom að um væri að ræða móttöku heildsöluinnlána í nafni útibúsins, sem aflað yrði fyrir milligöngu Heritable Bank Ltd., sem Landsbankinn hafði keypt árið 2002. Í október 2006 hóf útibúið síðan að markaðssetja rafræna innstæðureikninga undir vörumerkinu Icesave, svokallaða „easy access“ og „fixed-term deposit“ hávaxta innlánsreikninga. Voru reikningar þessir eingöngu ætlaðir einstaklingum. Í júlílok 2007 voru innstæður á Icesave reikningunum um það bil 3,6 milljarðar sterlingspunda, en náðu hámarki í janúar 2008, og voru þá um það bil 4,9 milljarðar sterlingspunda.

Útibú Landsbanka Íslands hf. í London mun lítil sem engin afskipti hafa haft af umsjón Icesave reikninganna, en dagleg umsýsla þeirra var hjá dótturfélagi bankans, Heritable Bank Plc. og hjá Newcastle Building Society, sem sá um tölvuvinnslu, bakvinnslu, uppgjör o.fl. samkvæmt þjónustusamningi. Allar fjármagnshreyfingar sem tengdust Icesave reikningum fóru í gegnum sérstakan bankareikning hjá Barclays banka í Bretlandi og var öllum greiðslum stýrt í gegnum Murex sjóðskerfi Landsbanka Íslands hf., sem síðan sendi heildarstöðu á reikningum til bókhaldskerfis bankans. Landsbankinn fékk einnig daglega yfirlit frá Newcastle Building Society, þar á meðal upplýsingar um daglega heildarstöðu og heildarhreyfingar á þessum reikningum sem notaðar voru til þess að stemma af bókhald bankans. Til þess að geta stofnað reikning þurfti umsækjandi að ganga að skilmálum Icesave í Bretlandi. Samkvæmt þeim gat reikningseigandi einungis verið einstaklingur sem náð hafði 18 ára aldri og hafði fasta búsetu í Bretlandi. Millifærslur inn á reikninginn komu af enskum bankareikningi reikningseiganda sem hann hafði tilgreint við stofnun reiknings. Icesave í Bretlandi tók við ávísunum frá viðskiptavinum, en ekki við reiðufé né öðrum formum innstæðna, né millifærslum frá öðrum en tilgreindum bankareikningi.

Á þriðja degi októbermánaðar 2008 tilkynnti breska fjármálaeftirlitið (FSA) um beitingu formlegra valdheimilda sinna gagnvart Landsbanka Íslands hf., en samkvæmt ákvörðun FSA var bankanum m.a. gert að hækka varasjóð sinn í 20% af óbundnum innstæðum og skyldi hann geymdur í Seðlabanka Bretlands. Skyldi þetta vera komið til framkvæmda 6. október 2008. Þann dag ákvað FSA að beita frekari valdheimildum sínum gagnvart bankanum, sem fólust í því að Landsbanka Íslands hf. var ekki heimilt að bera fyrir sig ákvæði í samningum við viðskiptavini, sem ella hefðu heimilað bankanum að seinka útgreiðslu innstæðna tímabundið um allt að 60 daga, nema að fengnu samþykki FSA. Hinn 8. október yfirtóku bresk stjórnvöld Heritable Bank og útibú Landsbanka Íslands hf. í London. Á grundvelli laga um varnir gegn hryðjuverkum, glæpum og um öryggi frá 2001 (Anti-terrorism, Crime and Security Act 2001) voru eignir bankans kyrrsettar, sem og eignir sem tengdust honum, en voru í eigu, vörslu eða undir yfirráðum íslenskra stjórnvalda. Dagana fram að yfirtöku íslenska Fjármálaeftirlitsins á Landsbanka Íslands hf. gátu reikningseigendur skráð sig inn á vef tölvukerfis Icesave og lagt inn færslubeiðnir. Slíkar beiðnir voru venjulega afgreiddar á öðrum virkum degi eftir að færslubeiðnin hafði verið framkvæmd. Viðskiptavinir gátu einnig beðið um flýtimeðferð á útgreiðslu („CHAPS“), sem greiða þurfti þá sérstaklega fyrir. Færslubeiðnir um úttekt á reikningum er gerðar voru frá og með 3. október voru ekki afgreiddar, að undanskildum fáeinum flýtigreiðslum, sem afgreiddar voru 6. október. Að morgni 7. október var heimasíða Icesave í Bretlandi ekki lengur aðgengileg innstæðueigendum til þess að skoða stöðu reikninga eða biðja um millifærslur. Alls munu þá um 220.000 einstaklingar hafa átt tæplega 290.000 slíka reikninga.

Varnaraðili, FSCS, tók ákvörðun 4. nóvember 2008 um að sjá um og greiða Icesave innstæðueigendum út andvirði innstæðna þeirra í samræmi við svokallaðar „COMP“ reglur, en Landsbankinn sá FSCS fyrir gögnum frá Newcastle Building Society um þá innstæðueigendur sem áttu gilda innlánsreikninga. Í kjölfarið tóku eigendur gildra Icesave innlánsreikninga við greiðslu að andvirði innstæðna sinna fyrir tilstuðlan rafræns- eða skriflegs greiðsluferlis Samkvæmt skilmálum greiðsluferlisins þurftu innstæðueigendur að samþykkja með skýrum hætti yfirfærslu og framsal á öllum þeim réttindum og kröfum sem fylgdu innstæðukröfum þeirra til FSCS, hvort sem þær væru á hendur Landsbankanum, Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta eða öðrum aðila, og var það skilyrði fyrir greiðslu frá FSCS. Greiðsla FSCS til innstæðueigenda tók mið af stöðu reikninga þeirra í lok dags 7. október 2008. Innstæðukrafan var hins vegar framseld að fullu, þar á meðal með rétti til vaxta frá og með 8. október 2008 til þess dags sem upphaflegur innstæðueigandi móttók greiðsluna frá FSCS, auk vaxta sem kynnu að falla til eftir greiðslu FSCS til innstæðueigenda. 

Í greinargerð varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., kemur fram að starfsmenn bankans hafi fyrir hönd slitastjórnar framkvæmt sannprófun á öllum útgreiðslum sem framkvæmdar voru af FSCS til innstæðueigenda. Sannprófunin fólst í því að bera saman bókhaldsgögn Landsbankans við greiðslustaðfestingar frá FSCS, þar sem hver einstök útgreiðsla var borin saman við gögn bankans til staðfestingar því að réttum aðila hafi verið borguð rétt upphæð við framsal á kröfum. Jafnframt kemur þar fram að þær innstæðukröfur sem FSCS hafi fengið framseldar hafi verið af tvennum toga; annars vegar bundnar innstæður, sem einungis voru lausar til útborgunar á fyrir fram ákveðnum tíma, en hins vegar óbundnar innstæður, sem voru lausar til útborgunar á hverjum tíma að kröfu eiganda. Í kröfugerð sinni til slitastjórnar reiknaði FSCS samningsvexti á allar tegundir yfirtekinna innstæðna fram til 8. október 2008.

Í tengslum við fundi sem haldnir voru til að leitast við að jafna ágreining um kröfu FSCS var fulltrúum þeirra kröfuhafa sem mótmælt höfðu fjárhæðum boðið til kynningar á því hvernig fjárhæðir voru sannprófaðar, auk þess sem kröfuhöfunum var gefið færi á því að koma með spurningar og fá nánari skýringar á einstökum þáttum. Kynningar þessar fóru fram 26. febrúar og 16. mars 2010. Dómendum og lögmönnum allra aðila málsins var einnig boðið til kynningafundar 16. mars sl., þar sem ítarlega var útskýrt í máli og myndum hvernig staðið var að sannprófunum á höfuðstólsfjárhæðum innstæðna.

Með lögum nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., oft nefnd neyðarlög, voru gerðar breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, með síðari breytingum. Með 5. gr. laganna var nýrri grein, 100. gr. a, bætt við lög nr. 161/2002, og mælti hún fyrir um víðtækar heimildir Fjármálaeftirlitsins til afskipta og inngripa í starfsemi fjármálafyrirtækja. Samkvæmt 5. mgr. 5. gr. laganna var Fjármálaeftirlitinu heimilt, samhliða því að tekin væri ákvörðun um að víkja stjórn fjármálafyrirtækis frá, að skipa því fimm manna skilanefnd sem færi með allar heimildir stjórnar samkvæmt ákvæðum hlutafélagalaga, sem og öll málefni fyrirtækisins, þar á meðal að hafa umsjón með allri meðferð eigna þess, svo og að annast annan rekstur. Með 6. gr. laga nr. 125/2008 var svohljóðandi málsgrein bætt við 103. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002: „Við skipti á búi fjármálafyrirtækis njóta kröfur vegna innstæðna, samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, rétthæðar skv. 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.“ Á grundvelli heimildar 5. gr. laga nr. 125/2008, sbr. 100. gr. a  laga nr. 161/2002, skipaði Fjármálaeftirlitið Landsbanka Íslands hf. fimm manna skilanefnd 7. október 2008. Með lögum nr. 44/2009, um breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum, sem tóku gildi 22. apríl 2009, voru settar nýjar reglur um slitameðferð fjármálafyrirtækja, og svipar þeim reglum nú um margt til reglna um gjaldþrotaskipti samkvæmt lögum nr. 21/1991. Jafnframt var með 6. gr. sömu laga fest í sessi ákvæði um forgang innstæðna við slit fjármálafyrirtækis, sbr. nú 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002. 

Á grundvelli laga nr. 44/2009 var Landsbanki Íslands hf. tekinn til slitameðferðar 22. apríl 2009 og honum skipuð slitastjórn 29. sama mánaðar. Slitastjórnin gaf út innköllun til kröfuhafa, sem birt var fyrst í Lögbirtingablaðinu 30. apríl það ár. Kröfulýsingarfresti lauk 30. október. Varnaraðili, FSCS, lýsti kröfu sinni 23. október 2009. Eins og fyrr greinir samþykkti slitastjórn Landsbanka Íslands hf. kröfuna sem forgangskröfu á grundvelli 1. og 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, upphaflega að fjárhæð 4.440.625.483,35 sterlingspund. Í kjölfar frekari gagna og rökstuðnings FSCS samþykkti slitastjórn að hækka kröfuna, síðast með bókun sem lögð var fram í þinghaldi 3. febrúar sl., og nemur því endanleg fjárhæð samþykktrar kröfu 4.458.174.185,54 sterlingspundum. Í þeirri fjárhæð eru innifaldir samningsvextir frá 8. október 2008 til og með 22. apríl 2009, að fjárhæð 149.752.178,76 sterlingspund. Svarar heildarfjárhæðin til 851.867.923.373 króna. 

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

1.            Arrowgrass Distressed Opportunities Fund Limited o.fl. reisa frávísunarkröfu sína á því að slitastjórn Landsbanka Íslands hf. hafi þegar samþykkt stærstan hluta kröfu FSCS og samsinni FSCS afstöðu slitastjórnar til kröfunnar og taki undir hana. Af þeirri ástæðu telja þessir sóknaraðilar að FSCS geti ekki látið ágreining sóknaraðila við Landsbanka Íslands hf. um fjárhæð kröfunnar og stöðu í skuldaröð til sín taka, a.m.k. ekki að því leyti sem hún hafi þegar verið samþykkt sem forgangskrafa. Kröfunni til stuðnings vísa sóknaraðilar til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 638/2010.

Að því er varðar efnisþátt málsins eru helstu málsástæður sóknaraðila hins vegar þessar:

Byggt er á því að stór hluti framsala fyrrum eigenda Icesave reikninga til FSCS sé ógildur og án réttaráhrifa, þar sem hið rafræna greiðsluferli og framsal innstæðueigenda á kröfum þeirra til FSCS fari í bága við réttarreglur enskra laga. Því beri að hafna kröfu FSCS að því leyti sem framsöl eigenda Icesave reikninga byggist á hinu rafræna greiðsluferli. Þessu til stuðnings byggja sóknaraðilar á því að framsölin séu einkaréttarlegar samningsskuldbindingar í merkingu laga nr. 43/2000, um lagaskil á sviði samningaréttar. Í hinu rafræna greiðsluferli sé að finna skilmála sem vísi berum orðum til þess að um skilmálana og túlkun þeirra skuli gilda ensk lög. Í samræmi við 3. gr. laga nr. 43/2000 telja sóknaraðilar því að beita skuli enskum lögum við mat á gildi og réttaráhrifum framsalanna. 

Samkvæmt enskum rétti hafi framsal á óefnislegum eignarréttindum, svo sem kröfuréttindum, einungis þau réttaráhrif að framselja eignarrétt ef framsalið fullnægir ákveðnum skilyrðum 136. gr. lagabálksins Law of Property Act 1925. Fyrsta skilyrðið sé að framsalið skuli vera skriflegt, með eigin hendi framseljanda („under the hand of the assignor“). Þar sem hið rafræna greiðsluferli uppfyllti ekki það skilyrði að eigendur Icesave reikninganna hafi sjálfir undirritað framsölin með eigin hendi, telja sóknaraðilar þau framsöl ógild og án þeirra réttaráhrifa að flytja eignarrétt til FSCS. Að dómi sóknaraðila, og í samræmi við tilvitnað ákvæði 136. gr. lagabálksins Law of Property Act 1925, hefði FSCS því átt að tryggja að hver og einn eigenda Icesave reikninganna fyllti út og undirritaði með eigin hendi skjallega umsókn.

Þrátt fyrir ofanritað benda sóknaraðilar á að við tilteknar aðstæður samkvæmt enskum rétti sé heimilt að hinn formlegi eignarréttur („legal title“) sé aðskilinn því sem nefna megi eiginlegan eða efnislegan eignarrétt (þ.e. „beneficial title“ eða „equitable title“) hvað varði tiltekna eign. Í slíkum tilvikum hafi hinn formlegi eigandi (þ.e. sá sem fari með „legal title“) umráð eignar fyrir reikning hins eiginlega eiganda („beneficial owner“). Mögulegt sé því að framsöl óefnislegra eigna, sem ekki uppfylli kröfur tilvitnaðrar 136. gr., öðlist þrátt fyrir allt gildi sem svokölluð „equitable assignments“. Í slíkum tilvikum verði hinn formlegi eignarréttur („legal title“) eftir hjá framseljanda en framsalshafi taki yfir hinn eiginlega eignarrétt („beneficial title“). Sóknaraðilar telja þó að í þeim aðstæðum sem eru uppi í þessu máli geti slíkt ekki komið til skoðunar dómstóla, þar sem að enskum rétti sé gerð krafa um að þegar framsalshafi samkvæmt slíku framsali („equitable assignee“) setur fram kröfu sem tengist fullnustu þeirra kröfuréttinda sem um ræði, þá verði framsalshafinn einnig að tryggja að framseljandinn sé aðili máls. Af því leiði að samþykki dómurinn kröfu FSCS á þeim grunni að framsölin séu gild sem svokölluð „equitable assignments“ hefðu eigendur Icesave reikninganna þurft að lýsa kröfum við slitameðferðina á þeim grundvelli að þeir væru enn löglegir eigendur krafnanna. Samkvæmt þessu telja sóknaraðilar að framsölin, sem haldið er fram að eigendur Icesave reikninganna sem gengu í gegnum hið rafræna greiðsluferli hafi undirgengist, hafi ekki þau réttaráhrif í för með sér að formlegur eignarréttur („legal title“) og eiginlegur eignarréttur („beneficial title“) á kröfum þessara reikningseigenda flytjist til FSCS. Jafnframt telja þeir að þar sem eigendur Icesave reikninganna hafi ekki lýst kröfum þá sé FSCS óheimilt að byggja á röksemdum tengdum því að framsölin kunni að hafa gildi sem „equitable assignments“. Enn fremur leggja sóknaraðilar áherslu á að engin gögn liggi fyrir í málinu sem geri þeim kleift að staðreyna eða samþykkja fjárhæð kröfunnar. Þar sem um gríðarlega háa fjárhæð sé að ræða verði að gera þá kröfu að FSCS leggi fram fullnægjandi sönnunargögn um að krafan sé til og að hún sé þeirrar fjárhæðar sem slitastjórn hafi samþykkt. Af þessum ástæðum mótmæla sóknaraðilar bæði fjárhæð kröfunnar og meintu framsali innstæðueigenda til FSCS. Telja þeir að dóminum beri að hafna kröfu FSCS á þeim grundvelli að FSCS eigi enga kröfu í bú Landsbankans.

Fallist dómurinn hins vegar á að framsölin séu gild og hafi réttaráhrif, byggja sóknaraðilar á því að krafa FSCS eigi ekki að njóta stöðu forgangskröfu samkvæmt 112. gr. gjaldþrotaskiptalaga, enda séu ákvæði hinnar nýju löggjafar, þ.m.t. neyðarlaganna nr. 125/2008, í tengslum við forgang innstæðna, uppskiptingu bankanna og endurfjármögnun nýju bankanna, ósamrýmanleg og í andstöðu við grundvallarreglur um friðhelgi eignarréttar og um jafnræði og bann við mismunun, sem njóti verndar stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu. Þar af leiðandi séu þau ógild og óskuldbindandi og beri að líta fram hjá þeim við úrlausn þessa máls. Að auki er á því byggt að með mistökum íslensku ríkisstjórnarinnar og stjórnvalda, sem fólust bæði í aðgerðum og aðgerðaleysi í aðdraganda fjármálakreppunnar og bankahrunsins, svo og á meðan á því stóð, teljist íslenska ríkið hafa brugðist jákvæðum skyldum sínum til þess að vernda eignarrétt samkvæmt mannréttindasáttmálanum.

Sóknaraðilar telja ljóst að kröfur þeirra, auk lögmætra væntinga, njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. fyrsta samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu sem eignir. Í þeim hafi falist verðmæti, en einnig lögbundin réttindi, m.a. til þess að njóta jafnrar stöðu („pari passu“) á við aðra kröfuhafa samkvæmt 113. gr. gjaldþrotaskiptalaga fyrir innleiðingu neyðarlaganna. Hafi verðmæti þeirra réttinda fyrir setningu neyðarlaganna endurspeglast í þeirri fjárhæð sem hefði greiðst á þeim tíma til kröfuhafa samkvæmt stöðu þeirra í skuldaröð, sem almennra kröfuhafa við gjaldþrot bankanna, ef ekki hefði komið til áhrifa af ráðstöfunum ríkisins. Í tilviki Landsbankans hafi þessi réttindi orðið nánast, eða algerlega, verðlaus. Ráðstafanir ríkisins, sem annars vegar fólust í setningu lagaákvæða um forgang innstæðna, en hins vegar skiptingu bankanna og/eða endurfjármögnun þeirra, hafi í raun falið í sér de facto sviptingu eigna sóknaraðila. Þannig hafi afleiðingar þess að forgangur innstæðna var lögfestur verið þær að staða tiltekinna almennra óveðtryggðra kröfuhafa var bætt með því að veita þeim forgang. Með því móti hafi neikvæð áhrif komið fram á lögbundin réttindi annarra kröfuhafa en innstæðueigenda. Hafi sú lagabreyting ein og sér falið í sér sviptingu eignarréttinda annarra kröfuhafa en innstæðueigenda. Hinu sama gegni um skiptingu bankanna og endurfjármögnun nýju bankanna, en einungis innlendar innstæður og eignir tengdar íslenskum umsvifum hafi verið fluttar til nýju bankanna. Á sama tíma og nýju bankarnir hafi verið endurfjármagnaðir í því skyni að gera þeim kleift að halda viðskiptum sínum áfram, og þannig greiða kröfuhöfum sínum, innlendum innstæðueigendum, að fullu og með eðlilegum hætti, hafi gömlu bönkunum ekki verið veitt frekara eigið fé. Hafi það leitt til þess að lögvarin réttindi þeirra kröfuhafa, sem enn áttu kröfur á gömlu bankana, hafi að engu orðið.

Að dómi sóknaraðila eru tengslin milli skiptingar bankanna og þessa dómsmáls augljós. Með því að veita stöðu innlendra innstæðueigenda vernd, á kostnað allra annarra kröfuhafa bankanna, telja þeir að íslenska ríkið hafi brugðist skyldum sínum til þess að vernda eignir síðarnefndu kröfuhafanna, og þar með jákvæðum aðgerðaskyldum sínum. Íslenska ríkið hefði hins vegar átt þess kost að vernda hagsmuni erlendra almennra kröfuhafa, líkt og því var skylt samkvæmt umræddum jákvæðum skyldum. Þess í stað hafi ríkið einungis gert ráðstafanir til þess að vernda þá erlendu kröfuhafa sem voru innstæðueigendur, þ.e. með því að leiða forgangsrétt innstæðna í lög. Þegar litið sé á umræddar ráðstafanir ríkisins sé ljóst að þær hafi haft í för með sér mismunun milli a.m.k. þriggja hópa kröfuhafa: Í fyrsta lagi innlendra innstæðueigenda, sem algerlega hafi verið losaðir úr slitameðferðinni með skiptingu bankanna og endurfjármögnun nýju bankanna, og því í raun notið óþarfrar verndar lagaákvæða hinnar nýju löggjafar um forgang innstæðna. Í öðru lagi erlendra innstæðueigenda, sem settir hafi verið í miklum mun betri stöðu en aðrir almennir kröfuhafar með lagaákvæðum um forgangsrétt innstæðueigenda. Loks séu það erlendir kröfuhafar, aðrir en innstæðueigendur, sem settir hafi verið í þá stöðu að réttindi þeirra hafi að verulegu eða öllu leyti verið svipt verðmæti sínu.

Í ljósi þeirra meginreglna sem sóknaraðilar byggja á að hafa verði í huga við skoðun á því hvort umræddar ráðstafanir ríkisins brjóti í bága við ákvæði um friðhelgi eignarréttinda, telja þeir að forgangur innstæðna samkvæmt lögum nr. 125/2008 sé og hafi verið í andstöðu við meðalhófsreglu. Byggja þeir á því að við takmarkanir á eignarréttindum verði að gæta jafnvægis til þess að standast kröfur meðalhófsreglunnar. Að öðrum kosti verði að greiða bætur vegna eignasviptingar. Telja sóknaraðilar fjarri að þessa hafi verið gætt með umræddum ráðstöfunum ríkisins. Þvert á móti halda þeir því fram að í þeim hafi falist eignasvipting, í andstöðu við meðalhóf, sem einkum hafi beinst að hagsmunum erlendra aðila, á kostnað innlendra. Af þeim sökum séu þær ólögmætar og í andstöðu við 72. gr. stjórnarskrárinnar og/eða 1. gr. fyrsta samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu.

Einnig er á því byggt að umræddar ráðstafanir ríkisins hafi ekki verið vandlega mótaðar til þess að ná hinu lögmæta markmiði sem að var stefnt, hafi slík markmið þá yfirleitt verið fyrir hendi. Þess í stað hafi þær verið byggðar á órökréttum sjónarmiðum, geðþótta og ósanngirni, án rökrænna tengsla við markmiðið. Hafi markmiðið verið að koma í veg fyrir áhlaup á bankana, telja sóknaraðilar að það hafi í öllu falli náðst með afturvirkri tryggingu innlendra innstæðna í gegnum uppskiptingu bankanna og endurfjármögnunina. Engin þörf hafi því verið á löggjöf um forgangsrétt innstæðna. Í ljósi þessa telja sóknaraðilar að ekki hafi verið skýrt nægjanlega hvers vegna kröfuhafar, aðrir en innstæðueigendur, ættu að njóta annarrar stöðu hvað varðar forgangsrétt krafna. Ótækt sé að  halda því fram að forgangur innstæðna við slitameðferð hafi verið þess megnugur að koma á stöðugleika í íslenska bankakerfinu og hérlendum greiðslukerfum vegna neyðarástands, ekki síst þar sem ljóst sé að slitameðferðum verði ekki lokið fyrr en eftir fleiri mánuði eða ár. Með forgangi innstæðna hafi heldur ekki tekist að takmarka tjón á fjármálamörkuðum og/eða að efla traust alþjóðlegra innstæðueigenda. Þá benda sóknaraðilar á að engar neyðaraðstæður hafi verið fyrir hendi þegar lög nr. 44/2009 voru sett.

Sóknaraðilar telja að íslenska ríkið hefði getað beitt vægari aðgerðum en þeim sem gripið var til, og með því móti takmarkað skerðingu réttinda almennra kröfuhafa. Í því sambandi nefna þeir að hægt hefði verið að takmarka forganginn við 20.887 evrur fyrir hvern innstæðueiganda, þar sem væntingar innstæðueigenda um tryggingu hafi ætíð takmarkast við þá fjárhæð. Telji dómurinn hins vegar að ríkinu hafi verið heimilt að veita innstæðueigendum sérstaka vernd, byggja sóknaraðilar á því að ríkið sjálft hefði átt að bera kostnaðinn af slíkri vernd.

Þótt unnt væri að réttlæta áðurnefndar ráðstafanir ríkisins leggja sóknaraðilar áherslu á að í þeim felist engu að síður brot gegn meginreglunum um skýrleika laga og bann við afturvirkni, þar á meðal brot á lögmætum væntingum sóknaraðila um að ný löggjöf sem hefði áhrif á eignarréttindi þeirra myndi samrýmast þessum meginreglum. Þegar af þeirri ástæðu teljist ráðstafanirnar andstæðar meðalhófsreglu. Í þessu tilliti benda sóknaraðilar á að innleiðing lagabreytingarinnar um forgang innstæðna hafi verið afturvirk og ófyrirsjáanleg fyrir kröfuhafa, enda hafi þeir áður en til þess kom haft lögmætar væntingar um að kröfur þeirra nytu sambærilegrar stöðu og kröfur innstæðueigenda, kæmi til greiðsluþrots banka.  Neyðarlögin hafi hins vegar breytt málsmeðferðinni með róttækum hætti. Neyðarlögin feli þó ekki í sér fullnægjandi lagaheimild fyrir eignasviptingu, þar sem ráðstafanirnar fullnægi ekki áskilnaði 72. stjórnarskrárinnar og 1. gr. fyrsta samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu um skýra lagaheimild. Af þessum ástæðum er því haldið fram að neyðarlögin, hvað varðar ákvæði þeirra um forgangsrétt innstæðna, séu í andstöðu við meðalhóf og verði ekki beitt af dómstólum. Enn fremur byggja sóknaraðilar á því að með neyðarlögunum hafi víðtækt vald verið framselt FME og fjármálaráðuneytinu, og brjóti slíkt framsal valds í bága við 72. og 65. gr. stjórnarskrárinnar, auk 1. gr. fyrsta samningsviðauka mannréttindasáttmálans.

Sóknaraðilar byggja á því að áðurnefndar ráðstafanir ríkisins, og þá einkum innleiðing forgangsréttar innstæðna með lögum nr. 125/2008 og 44/2009, hafi falið í sér bæði beina og óbeina mismunun, enda hafi þá einn hópur almennra óveðtryggðra kröfuhafa, þ.e. innstæðueigendur, verið færðir í stöðu forgangskröfuhafa á kostnað annarra kröfuhafa, sem ekki voru innstæðueigendur. Fyrir vikið muni þeir kröfuhafar bankanna, sem ekki voru innstæðueigendur, og þá einkum erlendir aðilar, bera óhóflega byrði samanborðið við aðra kröfuhafa, vegna þeirrar staðreyndar að þjóðerni þeirra er annað en íslenskt. Um leið hafi jafnræði verið raskað með aðilum, sem fólst í því að fyrir lagabreytingarnar hafi kröfur þeirra verið sambærilegar að því leyti að þær hafi allar verið almennar óveðtryggðar kröfur samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Brjóti slíkt í bága við grundvallarreglur um jafnræði og bann við mismunun, sem njóti verndar 65. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. fyrsta samningsviðauka MSE, svo og 6. gr. í samræmi við 14. gr. MSE. Grundvallarreglur þessar gildi einnig að Evrópurétti og hafa því gildi í íslenskum rétti í gegnum EES-samninginn.

Til þess að unnt sé að réttlæta með hlutlægum hætti forgangsrétt innstæðna samkvæmt hinni nýju löggjöf, byggja sóknaraðilar á því að sýna þurfi fram á að skýr rökræn og málefnaleg tengsl hafi annars vegar verið milli þess lögmæta markmiðs að viðhalda virkni bankakerfisins og koma í veg fyrir tafarlaust hrun efnahagskerfisins, og hins vegar þeirra lagaákvæða sem voru innleidd og fólu að þeirra dómi í sér mismunun. Enn fremur þyrfti að sýna fram á að sú mismunun hafi verið nauðsynleg til þess að ná sanngjörnu jafnvægi, í samræmi við kröfur meðalhófsreglunnar, en jafnframt að slíkt úrræði hafi verið hið vægasta sem í boði var. Telja sóknaraðilar að framangreind skilyrði hafi ekki verið uppfyllt og halda því fram að sönnunarbyrði um hið gagnstæða hvíli á þeim sem byggja vilji rétt á ákvæðum hinna nýju laga.

Sóknaraðilar benda á að íslenska ríkið hafi ekki haldið því fram að það hafi byggt á stjórnskipulegum neyðarrétti við setningu laga nr. 125/2008, enda hafi slík sjónarmið hvorki borið á góma í aðdraganda lagasetningarinnar né finnist stoð fyrir þeim í lögskýringargögnum. Engu að síður byggja sóknaraðilar á því að íslenska ríkið hafi ekki rétt til að víkja frá ákvæðum stjórnarskrárinnar. Sá réttur hljóti í það minnsta að takmarkast við aðstæður sem aðeins skapist við stríðsástand. Hins vegar sé með öllu óheimilt að víkja frá mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar. Hvað sem því líði benda þeir á að ekkert neyðarástand hafi verið í apríl 2009 þegar lög nr. 44/2009 hafi verið samþykkt, en með þeim hafi forgangur innstæðna verið festur í sessi, sbr. nú 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Í ljósi þessa telja sóknaraðilar að því verði ekki haldið fram að hin nýja löggjöf og innleiðing hennar hafi átt rétt á sér í skjóli neyðarréttar. Hins vegar halda þeir því fram að þær aðgerðir sem íslenska ríkið stofnaði til hafi farið langt út fyrir þau mörk sem réttlætanleg séu á grundvelli nokkurrar neyðar.

Til stuðnings aðalkröfu sinni um að hafna beri kröfu FSCS sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 byggja sóknaraðilar loks á því að ráðstafanir íslenska ríkisins, sem annars vegar fólust í setningu lagaákvæða um forgang innstæðna, en hins vegar skiptingu bankanna og/eða endurfjármögnun þeirra, séu ógildar, þar sem þær hafi brotið gegn EES-rétti. Í því sambandi vísa þeir sérstaklega til banns 4. og 40. gr. EES-samningsins við hvers kyns mismunun á grundvelli ríkisfangs, sbr. og 16. gr. tilskipunar 2001/24/EB. Jafnframt er því haldið fram að í umræddum ráðstöfunum hafi falist ólögleg ríkisaðstoð samkvæmt 1. mgr. 61. gr. EES-samningsins, sem innleidd hafi verið án samþykkis ESA.

Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að bæði hafi framsölin verið gild og innstæður eigi forgangsrétt í samræmi við ákvæði hinna nýju laga, styðja sóknaraðilar 3. og 4. varakröfu sína þeim rökum að forgangsréttur skuli einungis ná til þess hluta af kröfu FSCS sem byggir á fjárhæð að hámarki 20.887 evrur fyrir hvern eiganda Icesave reikninganna. Í öðru lagi er á því byggt að forgangsrétturinn eigi ekki að ná til krafna um vexti, sem fallið hafi á kröfuna eftir 6. október 2008.

Að því er fyrra atriðið varðar benda sóknaraðilar á að forgangur á grundvelli neyðarlaganna sé veittur „innstæðum samkvæmt lögum nr. 98/1999“. Lög nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, varði einungis innstæður upp að lögvörðu marki sem njóti tryggingar. Fram komi einnig í 1. gr. laganna að markmið þeirra sé að veita innstæðueigendum lágmarksvernd við greiðsluþrot banka. Af þeirri ástæðu er því haldið fram að markmið löggjafans hafi aðeins verið að veita þeirri fjárhæð forgang sem nemi hinni tryggðu fjárhæð, þ.e. 20.887 evrum. Samkvæmt því ættu kröfur umfram þá fjárhæð að hafa stöðu almennra krafna. Telja sóknaraðilar að slík túlkun samrýmist lögmætum væntingum þessara innstæðueigenda, enda væru þannig tryggðar endurheimtur þeirrar fjárhæðar sem innstæðueigendur máttu vænta að fá greidda frá Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta, ef til ógreiðslufærni eins bankanna kæmi. Sá skilningur væri jafnframt í samræmi við þá meginreglu að túlka beri undantekningar þröngt, svo og þá lagaskyldu gjaldþrotaréttar að gæta skuli jafnræðis kröfuhafa.

Til stuðnings þeirri málsástæðu að forgangur nái ekki til vaxta, sem fallið hafi á kröfuna eftir 6. október 2008, vísa sóknaraðilar til þess að samkvæmt lögum nr. 98/1999, sbr. einnig reglugerð nr. 120/2000, um innstæðutryggingar og tryggingarkerfi fyrir fjárfesta, einkum 5. gr., beri að reikna fjárhæð innstæðu miðað við stöðu hennar á þeim degi sem Fjármálaeftirlitið gefi út álit um að fjármálafyrirtæki sé ekki fært að inna af hendi greiðslu á andvirði innstæðu. Fjármálaeftirlitið hafi gefið út það álit 27. október 2008 að 6. október hafi Landsbankanum verið ófært að standa við skuldbindingar vegna innstæðna. Þar sem skyldur Tryggingarsjóðsins hafi orðið virkar þann dag, telja sóknaraðilar að vextir sem síðar hafi fallið til geti ekki talist til tryggðra innstæðna samkvæmt lögum nr. 98/1999.

Sóknaraðilar mótmæla því loks að kostnaður FSCS, sem þeir telja til kominn vegna hlutverks sjóðsins sem innstæðutryggingakerfis á Bretlandi, verði greiddur úr búi Landsbankans, enda sé hann ekki vegna innheimtu krafna í skilningi 114. gr. laga nr. 21/1991. Því síður geti þeir fallist á að sá kostnaður njóti forgangs sem innstæða á grundvelli 112. gr. laga nr. 21/1991. Um leið hafna þeir túlkun FSCS á 114. gr. tilvitnaðra laga og telja hana ekki eiga sér neina stoð.

Til frekari útskýringar á kröfum sínum og málsástæðum leggja sóknaraðilar áherslu á eftirfarandi:

Aðalkrafa þeirra byggir á því að FSCS eigi enga lögvarða kröfu í bú Landsbankans. Afstaða þessi byggist einkum og sér í lagi á því að FSCS sé ekki réttur aðili að hinum samþykktu kröfum, þar sem sjóðurinn hafi ekki aflað sér löglegrar heimildar fyrir kröfunum og geti þar af leiðandi ekki ráðstafað þeim með kröfulýsingu eða á annan hátt. Þá sé fjárhæð kröfunnar umdeild að öðru leyti, enda hafi hvorki FSCS né slitastjórnin lagt fram í málinu nein sönnunargögn um tilvist og fjárhæð hennar.

1. varakrafa þeirra er studd þeim rökum að það hvíli á FSCS og slitastjórn Landsbankans að sanna fjárhæð hinnar lýstu og samþykktu kröfu, en þessir aðilar hafi ekki borið slík sönnunargögn fyrir dóminn. Vera kunni þó að dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að hluti af framsölum innstæðukrafna til FSCS samrýmist enskum lögum og framsölin því gild, en önnur framsöl uppfylli ekki lagaskilyrði um gildi þeirra. Því beri dóminum að lækka kröfu FSCS með hliðsjón af gildi framsalanna. Enn fremur hvíli það á FSCS og Landsbankanum að sýna fram á fjárhæð hverrar einstakrar innstæðu á viðmiðunardegi, enda dóminum óheimilt að fallast á aðrar kröfur en þær sem sannaðar kunni að verða undir rekstri málsins.

2. varakrafa byggist á því að óheimilt hafi verið, m.a. samkvæmt íslenskri stjórnarskrá og alþjóðlegum skuldbindingum Íslands, að gera þá breytingu á rétthæð krafna á hendur fjármálafyrirtækjum í október 2008 sem lýst sé í svokölluðum neyðarlögum. Þá hafi aðrar tengdar ráðstafanir ríkisins vegna bankahrunsins verið ólögmætar og til þeirra verði ekki sótt réttlæting að lögum á hinni breyttu forgangsröðun krafna. Enda þótt íslenska ríkið eigi ekki aðild að máli þessu telja sóknaraðilar það engu breyta þar sem kröfur FSCS og viðurkenning slitastjórnar geti því aðeins hlotið staðfestingu dómsins að þær réttarreglur sem á sé byggt séu gildar að íslenskum stjórnskipunarlögum og samrýmist alþjóðlegum skuldbindingum landsins.

3. varakrafa þeirra byggist á því að komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að krafa FSCS geti að einhverju leyti notið forgangs samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 þá nái sá forgangur einungis til þess hluta kröfunnar sem tryggður er samkvæmt lögum nr. 98/1999, þ.e. 20.887 evra fyrir hvern innstæðueiganda, en ekki fyrir hvern innstæðureikning. Sóknaraðilar taka fram að þeir séu ekki í aðstöðu til þess að reikna út með nákvæmum hætti þá fjárhæð sem samþykkja ætti þá sem forgangskröfu, enda liggi engin gögn fyrir sem útskýri þá fjárhæð, né hversu mörgum innstæðueigendum FSCS telji sig leiða rétt sinn frá. Hins vegar liggi fyrir í „Icesave III samningnum“ að Tryggingarsjóður innstæðueigenda muni endurgreiða FSCS 2.254.417.851,51 sterlingspund vegna greiðslu þess síðarnefnda á tryggingum til innstæðueigenda í Landsbankanum í London. Samkvæmt því telja sóknaraðilar að aðeins sú fjárhæð geti notið forgangs. Um leið árétta sóknaraðilar að óheimilt sé að reikna vexti á kröfuna, sem njóta skuli stöðu forgangskröfu, eftir 6. október 2008.

4. varakrafa byggist á sömu sjónarmiðum og síðast voru rakin, þ.e. að fjárhæð þeirra innstæðna sem hugsanlega njóti stöðu forgangskrafna miðist við innstæðuna eins og hún var 6. október 2008, og að óheimilt sé að reikna vexti á kröfuna eftir þann dag, þannig að vextirnir njóti forgangsréttar.

Um lagarök vísa sóknaraðilar til þeirra laga sem tilgreind eru hér að framan. Krafa þeirra um málskostnað byggir á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Krefjast þeir þess að við ákvörðun málskostnaðar taki dómurinn tillit til þeirra hagsmuna sem hér séu í húfi, vandasemi verksins, tímans sem varið hafi verið í málið og útlagðs kostnaðar, þar á meðal kostnaðar við sérfræðiaðstoð.

2.            Bayerische Landesbank o.fl. byggja kröfu sína um að dómkröfum varnaraðilans, FSCS, verði vísað frá dómi, að öðru leyti en sem lúti að fjárhæðum umfram það sem slitastjórn Landsbankans hafi þegar samþykkt sem forgangskröfu, á sömu rökum og sóknaraðilarnir Arrowgrass Distressed Opportunities Fund Limited o.fl. Efniskröfur þeirra eru einnig að stærstum hluta reistar á sömu málsástæðum og teflt er fram til stuðnings kröfum hinna síðarnefndu sóknaraðila. Þykir ekki ástæða til að endurtaka þær, enda kvaðst lögmaður þessara sóknaraðila taka undir þær í einu og öllu og gera að sínum við munnlegan flutning málsins. Þess í stað verður hér aðeins gerð grein fyrir helstu málsástæðum þessara sóknaraðila, sem telja má að einhverju leyti aðrar eða frábrugðnar þeim sem áður hefur verið fjallað um.

Sóknaraðilar byggja á því að ekki hafi verið færðar sönnur á réttmæti kröfu FSCS í heild, né heldur á fjárhæð kröfunnar. Hvað sem líður niðurstöðu um þann þátt málsins telja þeir að óheimilt sé að samþykkja kröfuna sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. gjaldþrotaskiptalaga, þar sem lagaákvæði um forgang innstæðna fái ekki staðist í ljósi æðri réttarheimilda. Eins og aðrir sóknaraðilar staðhæfa þeir að ríkisvaldið hafi með setningu laga nr. 125/2008, og síðar laga nr. 44/2009, brotið gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar um eignarréttarvernd, jafnræði og bann við mismunun, svo og ýmsum ákvæðum EES-réttar og mannréttindasáttmála Evrópu. Leggja þeir sérstaka áherslu á að sú breyting sem gerð var með lögum nr. 125/2008, um forgang innstæðna, hafi verið ófyrirsjáanleg, en um leið hafi hún falið í sér afturvirkni á kostnað sóknaraðila og annarra almennra kröfuhafa, þar sem þeim sé gert að bera tap sem ella hefði fallið á innstæðueigendur eða Tryggingarsjóð innstæðueigenda. Af sömu ástæðu hafi þeim ekki verið kleift að endurskoða samband sitt við Landsbankann á grundvelli hinna nýju laga. Í raun hafi þeir verið sviptir eignum sínum bótalaust.

Við mat á því hvort ákvæði laga nr. 125/2008 og 44/2009 brjóti í bága við grundvallarregluna um jafnræði og bann við mismunun, benda sóknaraðilar á að meta verði hvort kröfur þeirra og varnaraðila teljist sambærilegar í skilningi jafnræðisreglunnar, og þá fyrst og fremst út frá þeirri stöðu sem kröfurnar höfðu fyrir lagasetninguna. Að því leyti telja þeir kröfurnar algerlega sambærilegar, enda hefðu þær þá í báðum tilvikum verið flokkaðar sem almennar kröfur samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Einnig verði hér að líta til þess hvort mismunun stefni að lögmætu markmiði, sem réttlætt verði með vísan til hlutlægra og málefnalegra sjónarmiða. Telja þeir slík skilyrði ekki hafa verið fyrir hendi og benda á að löggjafinn hafi ekki útskýrt markmið lagabreytinganna, hvorki í texta laganna né í undirbúningsgögnum með þeim. Engu að síður fullyrða sóknaraðilar að tilgangur  forgangs innstæðna hafi fyrst og fremst verið sá að forða ríkinu frá greiðsluskyldu, þar sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda gat ekki staðið undir greiðslu lágmarkstryggingar, og flytja tap af hruni bankanna frá ríkinu yfir á herðar almennra kröfuhafa. Megi ráða þetta af fyrirliggjandi gögnum, einkum skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Sóknaraðilar halda því einnig fram að skipting bankanna hafi falið í sér mismunun kröfuhafa og sé af þeim sökum ólögmæt. Reyndar hafi skipting milli gömlu og nýju bankanna ekki verið nefnd í lögunum, né hin mismunandi meðferð innlendra og erlendra kröfuhafa sem af skiptingunni leiddi. Ekkert komi þar heldur fram hvaða aðferðir skuli nota við mat á eignum. Ljóst sé hins vegar að með því að flytja vissar eignir og skuldir til Nýja Landsbankans hafi Fjármálaeftirlitið handvalið tiltekna kröfuhafa sem njóti áfram eignarréttinda sinna, á kostnað annarra, þar á meðal sóknaraðila. Byggja sóknaraðilar á því að slík aðgreining kröfuhafa á grundvelli þjóðernis geti hvorki talist málefnaleg né nauðsynleg. Um leið fari hún í bága við óskráða meðalhófsreglu stjórnskipunarréttar, sem sé grundvallaratriði við beitingu 72. gr. og 65. gr. stjórnarskrárinnar og 14. gr. og 1. gr. fyrsta samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu. Ofanrituðu til stuðnings vísa sóknaraðilar einnig til 4. mgr. 43. gr. og 45. gr. EES-samningsins, sbr. og 16. gr. tilskipunar nr. 2001/24/EB, en tilskipun þessi hafi að hluta verið innleidd í íslenskan rétt. 

Sóknaraðilar mótmæla sérstaklega kröfum varnaraðila, FSCS, um vexti og dráttarvexti af kröfunni, svo og kröfu hans um greiðslu útlagðs kostnaðar. Benda þeir á að þótt málsmeðferðin lúti hér íslenskum lögum ráðist efnisréttindi kröfunnar af erlendum lögum, enda hafi svo verið um samið í skilmálum fyrir Icesave reikningana. Því stoði ekki FSCS að krefjast dráttarvaxta af kröfunni samkvæmt 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001. Engin lagastoð sé heldur fyrir þeirri kröfu að miða dráttarvexti við vaxtaálag Seðlabanka Englands, eins og varnaraðilinn geri í 1. varakröfu sinni. Þá telja sóknaraðilar að dómurinn geti að öðru leyti ekki lagt mat á vaxtakröfur FSCS, þar sem ekki hafi verið færðar sönnur á tilvist og efni þeirra lagareglna ensks réttar sem varnaraðilinn telur að beita eigi við úrlausn málsins, sbr. 2. gr. 44. gr. laga nr. 91/1991. Sóknaraðilar styðja mótmæli sín við kröfu varnaraðilans um greiðslu útlagðs kostnaðar sömu rökum og sóknaraðilarnir Arrowgrass Distressed Opportunities Fund Limited o.fl.

Um lagarök er vísað til þeirra ákvæða sem að ofan greinir. Málskostnaðarkrafan er reist á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

3.            Kröfur Skika ehf., Blomstra ehf., Íslensku útflutningsmiðstöðvarinnar hf., Óttars Yngvasonar og Rakelar Óttarsdóttur byggjast á því að ákvæði 6. gr. laga nr. 125/2008 frá 7. október 2008 og 6. gr. laga nr. 44/2009 frá 22. apríl 2009 feli í sér stórbrotna eignaupptöku fyrir sóknaraðilana og að þau séu andstæð ákvæðum 72. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttar sem og 1. gr. í fyrsta viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og ákvæði EES-samningsins. Ákvæðin séu einnig andstæð jafnréttisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar sem og 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Viðurkenning svo stórra almennra kröfuhafa bankans,  sem forgangskröfuhafa, feli í sér mismunun kröfuhafa þar sem forgangskröfurnar hirði allar fyrirsjáanlegar eignir búsins. Um leið þurrkist út nánast allar almennar kröfur.  Þá telja sóknaraðilar að framangreind lög feli í sér afturvirka lagasetningu, en með setningu þeirra hafi réttarstöðu almennra kröfuhafa bankans verið breytt eftir á þeim til stórtjóns. Slík lagasetning sé andstæð hinni almennt viðurkenndu óskráðu grundvallarreglu réttarríkisins um bann við afturvirkni laga. Þessi meginregla sé grundvöllur þess að réttaröryggi borgaranna geti talist nægilega tryggt.

Sömu sóknaraðilar byggja einnig á því að meðalhófsregla hafi ekki verið virt með setningu laga nr. 125/2008, og enn síður við setningu laga nr. 44/2009. Að þeirra mati hafi  auðveldlega mátt leysa bankavandann, sem upp hafi komið í byrjun október 2008, með því að beita mun vægari úrræðum en gert hafi verið með lögum nr. 125/2008. Í dæmaskyni nefna þeir yfirlýsingu forsætisráðherra frá 6. október 2008, þar sem ráðherrann hafi lýst því yfir að innstæður í íslenskum bönkum og sparisjóðum væru tryggðar, og ef Tryggingarsjóður innstæðueigenda væri ekki nægilega öflugur til að sinna þeim skyldum myndi ríkissjóður gera það. Telja sóknaraðilar að ekki hafi verið sýnt fram á að vægari ráðstafanir hefðu ekki dugað til að leysa vandann. Benda þeir einnig á að í greinargerð með lögum nr. 125/2008 sé ekkert vikið að grundvelli 6. gr. laganna. Sóknaraðilar fullyrða loks að verði ákvæðum umræddra laga um forgangsrétt ekki vikið til hliðar, sem andstæðum stjórnarskrá, sé réttaröryggi viðskipta og fjármála landsmanna úr sögunni um langa framtíð.

Um lagarök vísa sóknaraðilar til áðurnefndra lagaákvæða, en einnig til laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

4.            Sóknaraðilinn Deutsche Bank Trust Company Americas byggir kröfu sína á því að sá forgangur sem innstæðum hafi verið veittur með lögum nr. 125/2008 og 44/2009 hafi verið ófyrirsjáanlegur og afturvirkur, en fyrir gildistöku laganna hafi innlán verið flokkuð sem ótryggð eða almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Með hinum nýju lögum hafi innstæðueigendum verið veittur forgangur fram yfir aðra ótryggða kröfuhafa. Með því telur sóknaraðili að gróflega hafi verið brotið á réttindum allra ótryggðra kröfuhafa Landsbankans. Í þessu samhengi vísar sóknaraðilinn til framlagðs samnings milli hans og Landsbankans frá 21. júní 2006 um skuldabréfaútgáfu, þar sem fram komi að kröfur samkvæmt skuldabréfunum skuli vera skilyrðislausar, ófrávíkjanlegar og ótryggðar skuldbindingar Landsbankans. Jafnframt sé þar sérstaklega tekið fram að kröfurnar séu jafnsettar innstæðum og öllum öðrum ótryggðum skuldbindingum.

Sóknaraðili telur einnig ljóst að þau ákvæði fyrrnefndra laga, sem mæli fyrir um og breyti forgangsröðun krafna, fari í bága við ákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar og ákvæði 1. gr. fyrsta samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu. Verði kröfur FSCS gerðar að forgangskröfum dragi það verulega úr líkum á því að sóknaraðili fái eitthvað greitt upp í kröfur sínar. Líklegra sé að ekkert fáist greitt upp í kröfur hans. Fyrir liggi því að umrædd lagabreyting muni valda sóknaraðila gríðarlegu tjóni og eignaskerðingu, án þess að bætur komi til, og án þess að séð verði að almenningsþörf eða almannahagsmunir hafi staðið til setningar greindra lagaákvæða. Þá telur sóknaraðilinn ljóst að sú krafa um meðalhóf, sem felist í 72. gr. stjórnarskrárinnar, en komi einnig fram í 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sé ekki uppfyllt. Löggjafinn hafi því gengið mun lengra en nauðsynlegt geti talist með setningu umræddra laga. Loks er það mat sóknaraðila að slík óhófleg meðferð á kröfuhöfum sem hér um ræði, brjóti gegn meginreglu um jafnræði og banni gegn mismunun, sem kveðið sé á um í 65. gr. stjórnarskrárinnar og 14. gr. mannréttindasáttmálans. Í ljósi ofanritaðs áréttar sóknaraðili þá skoðun sína að umrædd lagasetning standist ekki ákvæði stjórnarskrár og sé ógild af þeim sökum. Kröfum varnaraðila eigi því að skipa í kröfuröð á sama hátt og kröfum sóknaraðila, þ.e. sem almennum kröfum samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

Verði umrædd lagasetning að einhverju leyti talin réttlætanleg, og kröfur FSCS þar af leiðandi forgangskrafa, telur sóknaraðili ljóst að forgangur innstæðna geti, hvað sem öðru líði, einungis numið fjárhæð er samsvari 20.887 evrum. Í hinum umdeildu lagaákvæðum um forgangsréttinn sé vísað til laga nr. 98/1999, þar sem fram komi að eingöngu séu verndaðar innstæður upp að framangreindri fjárhæð.

Til stuðnings kröfum sínum kveðst sóknaraðila vísa til þeirra lagaákvæða sem að ofan eru rakin. Málskostnaðarkrafa hans byggist á 129., sbr. og 130. gr. laga nr. 91/1991.

5.            Aðalkrafa Landsbanka Guernsey Ltd. byggist á því að slitastjórn varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., hafi verið óheimilt að veita kröfu varnaraðila, FSCS, stöðu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., þar sem ákvæði þessa efnis í lögum nr. 125/2008 brjóti gegn ákvæðum stjórnarskrár, mannréttindasáttmála Evrópu, samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sem og almennum meginreglum stjórnskipunarréttarins um meðalhóf, réttmætar væntingar, afturvirkni og fyrirsjáanleika laga. Leiði það til þess að hafna beri afstöðu slitastjórnar til kröfunnar. Um leið vekur sóknaraðili athygli á þeirri viðurkenndu lögskýringarreglu að túlka beri lög í samræmi við ákvæði stjórnarskrár og að undantekningar frá mannréttindum beri að skýra þröngt.

Sóknaraðilinn vísar í fyrsta lagi til þess að ákvæði neyðarlaganna um forgangsrétt innstæðueigenda brjóti gegn friðhelgi eignarréttarins samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. fyrsta samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sem lögfestur hafi verið hér á landi, sbr. lög nr. 62/1994. Með orðinu „eign“ í tilvitnuðum ákvæðum sé ekki aðeins átt við áþreifanlega muni, heldur einnig hvers kyns önnur verðmæt réttindi sem til eigna verði talin, t.d. kröfuréttindi. Fyrir setningu laga nr. 125/2008 hafi sóknaraðilar og aðrir innstæðueigendur tilheyrt hópi almennra kröfuhafa. Með lögunum hafi innstæðueigendum hins vegar verið tryggður forgangsréttur við skipti á búi Landsbankans og þar með tryggð betri staða en sóknaraðilum. Hefðu lögin ekki verið sett og kröfur innstæðueigenda áfram notið rétthæðar samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 megi ljóst vera að sóknaraðilar, sem og aðrir almennir kröfuhafar, hefðu fengið greitt að hluta upp í kröfur sínar. Samkvæmt nýjustu upplýsingum slitastjórnar Landsbanka Íslands hf. sé staðan hins vegar sú að einungis verði greitt að hluta upp í forgangskröfur. Ekkert muni því greiðast upp í almennar kröfur. Ljóst sé því að setning laga nr. 125/2008 hafi haft í för með sér að kröfuréttindi annarra almennra kröfuhafa, þ. á m. sóknaraðila, hafi verið gerð að litlu eða engu. Með því telur sóknaraðili sig hafa verið skyldaðan til að láta af hendi öll stjórnarskrárvarin eignarréttindi sín gagnvart varnaraðilanum, Landsbanka Íslands hf., til hagsbóta fyrir innstæðueigendur. Í athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 125/2008 séu engar ástæður eða markmið að baki þessari eignasviptingu tilgreind, auk þess sem þar sé í engu kveðið á um greiðslu bóta til handa þeim sem kunni að verða fyrir eignasviptingunni. Engar bætur hafi því verið greiddar þeim sem þurft hafi að þola eignasviptingu, þ.e.a.s. annarra almennra kröfuhafa en innstæðueigenda. Sóknaraðili telur og að umrædd eignaskerðing verði ekki réttlætt með vísan til almenningsþarfar eða annarra sjónarmiða, auk þess sem lögin hafi gengið mun lengra en nauðsynlegt hafi verið.

Í öðru lagi er á því byggt að umrætt ákvæði neyðarlaganna feli í sér mismunun milli almennra kröfuhafa og brjóti því í bága við jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar og 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Staða þeirra hafi verið eins fram að gildistöku laganna og hafi því sambærileg tilvik verið meðhöndluð með ólíkum hætti. Við mat á því hvort staða aðila sé sambærileg sé eingöngu hægt að líta til þess hvort kröfur þeirra hafi notið sömu rétthæðar fyrir breytinguna. Einungis í algjörum undantekningartilvikum sé heimilt að gera mun á milli manna, enda byggist mismununin þá á málefnalegum sjónarmiðum eða veigamiklu sjónarmiði sem réttlæti nauðsyn hennar. Engin slík sjónarmið séu fyrir hendi í máli þessu. Varnaraðilanum, FSCS, hafi heldur ekki tekist að sýna fram á að slík réttlætingarsjónarmið hafi verið fyrir hendi. Alla vega telur sóknaraðili ljóst að lagabreytingin hafi gengið mun lengra en nauðsynlegt hafi verið. Komist rétturinn að þeirri niðurstöðu að mismununin hafi verið réttlætanleg, hljóti kostnaður vegna hennar að verða borinn af ríkinu, en ekki almennum kröfuhöfum.

Í þriðja lagi kveðst sóknaraðili vísa til þess að ákvæði neyðarlaganna og ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008, um flutning innstæðna frá Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbanka Íslands hf., síðar NBI hf., brjóti gegn 4. og 40. gr. EES-samningsins, 2. mgr. 16. gr. tilskipunar nr. 2001/24/EB og óskráðri meginreglu EES-réttar um jafnræði aðila. Hafi þetta bæði falið í sér beina og óbeina mismunun og hafi engar hlutlægar og málefnalegar ástæður legið þar að baki. Þá hafi ekkert eðlilegt samræmi verið milli þess markmiðs sem mismununin virðist hafa stefnt að, og þeirra aðferða sem notaðar hafi verið til að ná því markmiði. Einnig hafi þessar ráðstafanir brotið gegn meginreglu 40. gr. EES-samningsins um frjálst flæði fjármagns.

Sóknaraðili byggir einnig á því að hér á landi gildi ólögfest meginregla um lögmætar væntingar aðila, sem m.a. njóti verndar samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Regla þessi eigi sér einnig stoð í EES-rétti. Einnig er á því byggt að hér gildi almenn stjórnarskrárvernduð meginregla um bann við afturvirkni. Þegar viðskipti aðila áttu sér stað kveðst sóknaraðili hafa gert ráð fyrir því að litið væri á innstæðueigendur sem almenna kröfuhafa, sem nytu rétthæðar samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Því hafi hann haft lögmætar væntingar til þess að ekki yrðu gerðar grundvallarbreytingar á reglum við slitameðferð fjármálafyrirtækja. Teldust slíkar breytingar heimilar yrðu kröfuhafar að fá tíma til þess að bregðast við og takmarka hugsanlegt tjón sitt. Augljóslega hafi lögunum hins vegar ekki verið ætlað að hafa framvirk áhrif. Þess í stað hafi lögin verið afturvirk og haft áhrif á rétthæð krafna við slitameðferð bankanna. Heldur sóknaraðili því fram að með setningu laganna hafi tilteknum hópi almennra kröfuhafa verið ívilnað með ómálefnalegum hætti. Þegar af þeirri ástæðu hafi afstöðu slitastjórnar um viðurkenningu kröfu FSCS sem forgangskröfu skort fullnægjandi lagastoð.

Af hálfu sóknaraðila er enn fremur á því byggt að engar réttlætingarástæður hafi verið fyrir hendi við setningu laga nr. 125/2008, hvorki almenningsþörf né aðrar hlutlægar og málefnalegar ástæður. Þá verði forgangsrétturinn ekki heldur réttlættur með vísan til stjórnskipulegs neyðarréttar, enda sé það algerlega óskilgreint hugtak. Ekki sé að finna í stjórnarskránni neina heimild fyrir beitingu slíks neyðarréttar og hafi stjórnarskrárgjafinn aldrei séð ástæðu til að lögfesta slíkt ákvæði. Þvert á móti hafi stjórnarskrárgjafinn séð ástæðu til að hafna lögfestingu slíks ákvæðis. Forgangsrétturinn verði heldur ekki réttlættur með vísan til 15. gr. mannréttindasáttmálans, um skerðingu réttinda á hættutímum, enda sé skýrlega kveðið á um það í 3. mgr. 15. gr. að samningsaðili sem neyti þess réttar til undansláttar, skuli tilkynna um það til Evrópuráðsins með tilgreindum hætti. Það hafi íslensk stjórnvöld ekki gert.

Sóknaraðili skírskotar loks til þess að hér á landi gildi óskráð en almenn meðalhófsregla við skýringu stjórnarskrárákvæða, einkum við úrlausn dómstóla um það álitaefni hvort lög samrýmist stjórnarskrá. Í því felist m.a. að takmarkanir á eignarréttindum verði að helgast af lögmætu markmiði, markmiðinu sem að sé stefnt megi ekki ná með öðru og vægara úrræði, auk þess sem gæta verði hófs í beitingu þess. Sönnunarbyrði um að skilyrðin hafi verið uppfyllt hvíli á þeim sem vilji byggja rétt á efni lagaákvæðis, í þessu tilviki varnaraðila, FSCS. Telur sóknaraðili að slík sönnun hafi ekki tekist. Þessu til viðbótar tekur sóknaraðili fram að ótækt sé að íslenska ríkið geti skýlt sér á bak við slæma fjárhagsstöðu ríkissjóðs á þeim tíma sem lög nr. 125/2008 voru sett.

Í umfjöllun um varakröfu sína kveðst sóknaraðili byggja á því að forgangsréttur samkvæmt  6. gr. neyðarlaganna nái einungis til þess að heimilt sé að viðurkenna kröfu FSCS að hámarki 20.887 evrur fyrir hverja innstæðu sem kröfulýsingin taki til, enda ábyrgist Tryggingarsjóður innstæðueigenda að hámarki þá fjárhæð.

Málskostnaðarkrafa sóknaraðila er reist á 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Málsástæður og lagarök varnaraðila

1.            The Financial Services Compensation Scheme Ltd. (FSCS) mótmælir frávísunarkröfu sóknaraðilanna Arrowgrass Distressed Opportunities Fund Ltd. o.fl. og Bayerische Landesbank o.fl. og vísar til þess að héraðsdómur hafi strax í upphafi ákveðið hvernig aðild að málinu skyldi háttað. Því sé krafan of seint fram komin. Þess utan telur varnaraðili að eigandi þeirrar kröfur sem ágreiningur lúti að eigi alltaf rétt til aðildar að slíkum ágreiningi.

Að því er efnisþátt málsins varðar þykir eðlilegt, samhengisins vegna, að gera fyrst grein fyrir málsástæðum þessa varnaraðila að baki þeim kröfum, sem hann krefst að Landsbanki Íslands hf. samþykki sem forgangskröfur við slitameðferð bankans. Að því búnu verður fjallað um þær málsásæður sem lúta að kröfum sóknaraðila um að kröfu varnaraðila verði alfarið hafnað, annars vegar á grundvelli þess að hann eigi enga kröfu á hendur Landsbanka Íslands hf., þar eð framsöl innstæðueigenda Icesave reikninga séu ógild, en hins vegar á þeim grundvelli að lögleiðing ákvæða um forgang innstæðna hafi farið í bága við ákvæði æðri réttarheimilda.

Gagnvart Landsbanka Íslands hf. byggir varnaraðili á því að allar kröfur hans, að undanskildum 5. – 9. varakröfu, njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, eins og henni hafi verið breytt með lögum nr. 44/2009, enda séu kröfurnar tilkomnar vegna innlána til útibús Landsbanka Íslands hf. í London. Kröfurnar séu því innstæður í skilningi 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Landsbanka Íslands hf. beri því, bæði samkvæmt lögum og samningi við Icesave innstæðueigendur, að endurgreiða innlánin í samræmi við skilmála innlánsreikninganna. Hafi varnaraðili eignast kröfurnar þegar hann greiddi hverjum innstæðueiganda andvirði innstæðunnar.  

Varnaraðili tekur fram að allar kröfur hans séu að höfuðstólsfjárhæð 4.309.797.732,74 sterlingspund, og hafi slitastjórn varnaraðila þegar samþykkt höfuðstól kröfunnar að fjárhæð 4.308.422.006,78 sterlingspund. Mismunurinn felist í 76 reikningum, samtals að fjárhæð 1.375.725,96 sterlingspund, sem slitastjórn telji sér ekki fært að samþykkja sem innstæðukröfur. Þá sé ágreiningur milli sömu aðila um vaxtafót og kostnað, en slitastjórn hafi einungis samþykkt að krafan bæri samningsvexti frá 8. október 2008 til 22. apríl 2009, en alfarið hafnað kröfu um greiðslu áfallins kostnaðar. Hins vegar mótmælir varnaraðili 4. varakröfu sóknaraðilanna Arrowgrass Distressed Opportunities o.fl. og Bayerische Landesbank o.fl., þess efnis að hafna beri vöxtum sem fallið hafi á kröfuna eftir 6. október 2008, þar sem þeir teljist ekki til forgangskrafna samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Í því sambandi bendir hann á að forgangur kröfu í þrotabú nái ekki aðeins til höfuðstóls kröfunnar, heldur einnig til vaxta og kostnaðar sem fallið hafi til fyrir uppkvaðningu úrskurðar um gjaldþrotaskipti. Þannig njóti vextir á þær kröfur sem teljist til forgangskrafna samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 sama forgangs og krafan sjálf, að því marki sem þeir hafi fallið til fyrir úrskurðardag. Þessi niðurstaða sé meginregla samkvæmt íslenskum rétti, en verði auk þess ráðin með gagnályktun af 1. tl. 114. gr. laga nr. 21/1991, sem geri ráð fyrir því að vextir og kostnaður á kröfur samkvæmt 112. eða 113. gr., sem fallið hafi til eftir að úrskurður gekk um að búið væri tekið til gjaldþrotaskipta, séu eftirstæðar kröfur.

Vegna höfnunar slitastjórnar á vaxtakröfum varnaraðila tekur hann fram að flokka megi innstæður á Icesave reikningunum í þrjá flokka eftir því hvenær þær féllu í gjalddaga. Í fyrsta lagi sé um að ræða óbundnar innstæður, lausar til útborgunar hvenær sem innstæðueigandi óski greiðslu. Geri varnaraðili kröfu um dráttarvexti á þær kröfur frá 8. október 2008 til og með 22. apríl 2009 með vísan til 6. gr. laga nr. 38/2001. Í öðru lagi sé um að ræða bundnar innstæður með gjalddaga á tímabilinu 8. október til 22. apríl 2009. Í því tilviki geri varnaraðili kröfu um samningsvexti á þær kröfur fram að gjalddaga, en kröfu um dráttarvexti frá gjalddaga til og með 22. apríl 2009. Í þriðja lagi sé svo um að ræða bundnar innstæður, en lausar til útborgunar eftir 22. apríl 2009. Í því tilviki geri varnaraðili kröfu um samningsvexti fram til 22. apríl 2009, og því sé ekki deilt um vexti á þær kröfur.

Í samræmi við ofanritað geri aðalkrafa og 1. varakrafa varnaraðilans ráð fyrir því að dráttarvextir samkvæmt íslenskum lögum leggist við höfuðstólsfjárhæðina, enda sé skuldarinn íslenskt fyrirtæki, í opinberu slitaferli samkvæmt íslenskum lögum, og málið rekið fyrir íslenskum dómstólum. Í þessu samhengi telur varnaraðili það ekki skipta máli þótt óumdeilt sé að ensk lög gildi um efni kröfunnar og bendir á að 6. gr. laga nr. 38/2001 geri engan greinarmun á því hvort krafa sé í íslenskum krónum eða öðrum gjaldmiðli. Verði hins vegar ekki fallist á aðalkröfu hans um dráttarvexti, er það afstaða varnaraðila að 6. gr. verði engu að síður beitt við útreikning dráttarvaxta, en þá þannig að notaður verði grunnur dráttarvaxta eins og hann er reiknaður af Englandsbanka fyrir kröfur í breskum pundum, að viðbættu vanefndaálagi í samræmi við 6. gr. laga nr. 38/2001. Slík túlkun sé í samræmi við 3. gr. tilskipunar Evrópusambandsins nr. 2000/35/EB, um átak gegn greiðsludrætti í verslunarviðskiptum.

Telji dómurinn að 6. gr. laga nr. 38/2001 eigi hér ekki við byggir varnaraðili á því að leggja eigi enska dráttarvexti á kröfuna, og tekur 2. varakrafa hans mið af því. Þeirri kröfu til stuðnings vísar hann til 1. mgr. 17. gr. enskra laga um dómsúrskurði frá 1838 (e. Judgements Act). Þeir vextir séu nú 8% ársvextir.

Til stuðnings 3. varakröfu sinni byggir varnaraðili á því að samkvæmt enskum rétti (þætti 35A of Senior Court Act frá 1981) sé dómstólum veitt heimild til að ákvarða hæfilega vexti, sem komi þá sem vaxtaálag til viðbótar samningsvöxtum. Kveðst varnaraðili reiðubúinn að eftirláta dóminum mat um það hver viðeigandi aukning við samningsvexti eigi að vera.

Vegna ágreinings varnaraðila og slitastjórnar Landsbanka Íslands hf. um kröfu varnaraðila vegna áfallins kostnaðar fyrir 22. apríl 2009, byggir FSCS á því að með gagnályktun frá 1. tl. 114. gr. laga nr. 21/1991 eigi hann bæði rétt til greiðslu þeirrar kröfu og að hún njóti forgangsréttar samkvæmt 112. gr. sömu laga. Er einnig á því byggt að slík regla eigi sér stoð í enskum samningarétti, en þó þannig að þar sé dóminum falið að ákvarða þann kostnað.

Varnaraðili mótmælir alfarið þeim röksemdum sóknaraðilanna Arrowgrass Distressed Opportunities Ltd. o.fl. og Bayerische Landesbank o.fl. að varnaraðili hafi ekki fært sönnur á kröfu sína gagnvart Landsbanka Íslands hf., svo og að greiðslu- og samþættingarferlið sem viðhaft hafi verið í því skyni að staðreyna kröfu varnaraðila sé þeim óskiljanlegt. Bendir hann á að slitastjórn varnaraðila hafi þegar samþykkt 99,9997% af höfuðstól kröfunnar á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga og hljóti að felast í því fullnægjandi sönnun um að varnaraðili sé réttur aðili að kröfunni og eigandi hennar. Hins vegar hafi sóknaraðilar hvorki lagt fram gögn né fært fram nein haldbær rök sem varpað geti rýrð á trúverðugleika eða áreiðanleika kröfunnar, eins og hún hafi verið samþykkt af slitastjórn bankans. Sönnunarbyrðin um að ákvörðun slitastjórnar hafi að þessu leyti verið röng hvíli á sóknaraðilum.

Varnaraðili hafnar einnig staðhæfingum sömu sóknaraðila um að framsal á kröfum Icesave innstæðueigenda til varnaraðila hafi ekki verið gilt að enskum lögum, og telur að sóknaraðilar hafi með engu móti sýnt fram á tilvist og efni þeirra ensku laga sem þeir byggi á, sbr. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Þess í stað kveðst varnaraðili byggja á því að allar kröfur og öll réttindi Icesave innstæðueigenda hafi sjálfkrafa færst yfir til varnaraðila þegar hann greiddi þeim út andvirði Icesave innstæðna þeirra, og að framsalið hafi verið gilt að enskum lögum, óháð gildissviði 136. kafla Law of Property Act 1925. Og jafnvel þótt rétturinn tæki ákvörðun um að beita ákvæðum 136. kafla Law of Property Act 1925, telur varnaraðili að framsalið uppfylli engu að síður öll skilyrði þeirra laga um undirskrift. Framsalið hafi einnig verið gilt á grundvelli sanngirnissjónarmiða. Óháð gildi framsalsins er því loks haldið fram að varnaraðili sé réttur aðili að kröfunni þar sem Icesave innstæðueigendur hafi veitt honum umboð til að fara með öll réttindi krafna þeirra og sækja heimtur þeirra við slitameðferð Landsbankans. Eru málsástæður hans einkum reistar á 11. gr. tilskipunar nr. 94/19/EB, um innstæðutryggingakerfi, sbr. og 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, breskum lögum um fjármálaþjónustu og fjármálamarkaði (Financial Services and Markets Act 2000), sérstaklega 212., 213. og 215. gr. þeirra laga, svo og „COMP“ reglum, sem gefnar séu út af breska fjármálaeftirlitinu og gildi um starfsemi varnaraðila og innleiði tilskipun nr. 94/19/EB í breskan rétt. Telur hann reglur þessar taka af tvímæli um að öll réttindi innstæðueigenda á hendur Landsbanka Íslands hf. og/eða þriðja aðila hafi færst yfir og sjálfkrafa og umsvifalaust verið framseld varnaraðila. Því fari varnaraðili nú með öll réttindi samkvæmt innstæðukröfum eigenda Icesave reikninganna.

Þrátt fyrir ákvæði 136. kafla Law of Property Act 1925, um að framsal skuli vera skriflegt, með eigin hendi framseljanda, telur varnaraðili engu að síður að þau rafrænu framsöl sem hér sé fjallað um séu gild og feli í sér lögmætt framsal í skilningi tilvitnaðs ákvæðis. Í því sambandi vísar hann til þess rafræna greiðsluferlis sem hafi verið viðhaft við viðtöku á andvirði Icesave reikninganna frá varnaraðila, en í því ferli hafi sérhver innstæðueigandi skýrlega þurft að gera grein fyrir sjálfum sér með einstaklingsbundnu auðkenni sínu og margoft samþykkja skilmála þess að halda ferlinu áfram og framselja að lokum kröfu sína til varnaraðila. Bendir varnaraðili hér á að samþykkisferlið hafi verið í fullu samræmi við það ferli sem Icesave innstæðueigendur hafi þurft að fylgja við notkun heimabanka, allt fram að ógjaldfærni Landsbankans.

Auk ofanritaðs bendir varnaraðili á að bæði tilskipun nr. 2001/31/EB, um rafræn viðskipti, og tilskipun nr. 1999/93/EB, um rafrænar undirskriftir, hafi verið innleiddar í enskan rétt og sé þar að finna gildandi lagaramma um rafræna samningsgerð. Síðarnefnda tilskipunin skilgreini rafræna undirskrift með ákveðnum hætti og kveði á um að séu þær formkröfur uppfylltar, sem þar er mælt fyrir um, skuli slík undirskrift jafngild skriflegri undirskrift. Hafi tilskipun þessi verið lögfest með lögum um rafræn samskipti frá árinu 2000 (Electronic Communication Act 2000).  

Yrði niðurstaða dómsins sú að framsölin teldust ekki gild, þar eð þau uppfylltu ekki skilyrði 136. kafla Law of Property Act 1925, byggir varnaraðili einnig á því að engu að síður beri að telja þau gild á grundvelli sanngirnissjónarmiða. Bendir hann á að sóknaraðilar mótmæli ekki þessari málsástæðu, en telji hins vegar að til þess að dómurinn geti tekið afstöðu til slíks þurfi allir Icesave innstæðueigendur að vera samaðilar með varnaraðila í þessu máli. Þessum rökum sóknaraðila mótmælir varnaraðili að öllu leyti sem röngum og án lagagrundvallar, og bendir á að samkvæmt enskum rétti séu viðurkenndar undantekningar frá þessari reglu, til að mynda þegar framseljandi eigi enga lögvarða hagsmuni af kröfunni og framsalið skorti formskilyrði.

Að því er lýtur að kröfum allra sóknaraðila, þess efnis að afstöðu slitastjórnar Landsbanka Íslands hf. um viðurkenningu á kröfu varnaraðila verði hrundið, byggir varnaraðili málatilbúnað sinn á því að lög nr. 125/2008, lög nr. 161/2002 og lög nr. 44/2009 séu stjórnskipulega gild lög sem byggja verði á við slit Landsbanka Íslands hf. Kæmist dómurinn að þeirri niðurstöðu að með setningu laga nr. 125/2008 hafi verið brotið á einhverjum stjórnarskrárvörðum réttindum sóknaraðila yrðu þeir að sækja hugsanlegar kröfur sínar á hendur íslenska ríkinu.

Varnaraðili hafnar því að sú breyting á rétthæð krafna við slit fjármálafyrirtækja, sem 6. gr. laga nr. 125/2008, sbr. nú 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, hafi haft í för með sér, feli í sér brot á eignarrétti sóknaraðila. Vísar hann í því sambandi til 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, eins og það ákvæði verði skýrt með hliðsjón af 1. gr. fyrsta samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá fullyrðir hann að kröfuréttindi sóknaraðila hafi ekki verið skert með neinu móti, né hafi þeir verið þvingaðir til að láta kröfur sínar af hendi. Eign sóknaraðila sé sú krafa sem þeir eigi á hendur Landsbanka Íslands hf., ásamt þeim réttindum sem krafan beri með sér. Setning forgangsákvæðis laga nr. 125/2008 hafi ekki takmarkað rétt sóknaraðila til að eiga kröfuna eða haft áhrif á möguleika þeirra til að hafa uppi kröfur á hendur bankanum. Þá hafi sóknaraðilar ekki verið þvingaðir til að lækka fjárhæð krafnanna og ekki hafi verið ráðist í neinar aðgerðir til að koma í veg fyrir að sóknaraðilar gætu tekið á móti greiðslum frá Landsbanka Íslands hf. Mögulegt sé hins vegar að forgangsákvæði laga nr. 125/2008 hafi áhrif á möguleika þeirra til að fá kröfur sínar greiddar að fullu. Breyting á forgangsröðun krafna sé þó einungis einn af þeim þáttum sem geti haft slík áhrif. Enn sem komið er sé ómögulegt að fullyrða hve mikið almennir kröfuhafar muni fá greitt við úthlutun, þar sem það sé háð ótal utanaðkomandi þáttum. Því sé ómögulegt fyrir sóknaraðila að sýna fram á að þeir hafi orðið fyrir einhverju tjóni. Þá hafi sóknaraðilar ekkert aðhafst til að sýna fram á hvort þeir hafi átt kröfur sínar við fall Landsbanka Íslands hf. og/eða á hvaða verði þeir hafi keypt kröfurnar og með hvaða skilmálum. Ekki hafi þeir heldur sýnt fram á að hvaða marki þeir telji kröfur sínar hafa verið skertar vegna forgangsákvæðis laga nr. 125/2008. Óháð því hverjar endanlegar heimtur sóknaraðila og annarra almennra ótryggðra kröfuhafa verði, byggir varnaraðili á því að hvorki 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar né 1. gr. fyrsta samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu sé ætlað að vernda og viðhalda virði eigna og að ákvæðin komi ekki í veg fyrir að löggjafinn geti sett almenn lög eða dómstólar felli dóma sem kunni að hafa áhrif á virði eigna.

Varnaraðili telur ekki mögulegt að líta svo á að breyting á réttarstöðu kröfuhafa sé „skerðing á eign“ í skilningi 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Í fyrsta lagi sé „réttur kröfuhafa til að njóta jafnrar stöðu“ við úthlutun fjármuna við slitameðferð ekki eign, sem kröfuhafar geti vænst að haldist óbreytt frá einum tíma til annars. Í öðru lagi sé um að ræða almenna og framvirka breytingu á úthlutunarreglum við slitameðferð sem ekki teljist eiginleg skerðing eignarréttar samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Semji kröfuhafi við skuldara um að krafa skuli njóta ,,pari passu“ réttinda geti breyting á forgangsröðun við skipti eða slit leitt til þess að kröfuhafinn öðlist einhvern rétt innan samningsins á hendur skuldaranum. Hins vegar mótmæli varnaraðili fullyrðingu sóknaraðila, Landsbanka Guernsey Ltd., um að innleiðing forgangsréttar innstæðueigenda hafi verið á kostnað almennra kröfuhafa. Þó að breytt löggjöf um réttarstöðu kröfuhafa gagnvart þrotabúi geti í einstökum tilvikum leitt til þess að fullnustumöguleikar tiltekinna kröfuréttinda séu takmarkaðir, séu þau áhrif einungis afleidd og njóti ekki verndar 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu tryggi ekki rétt manna til að öðlast eign. Þótt almennt sé viðurkennt að skilgreina beri hugtakið „eign“ samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar rúmt, eigi eins víðtæk túlkun og sú sem sóknaraðilar vilji beita í málinu, hvorki stoð í dómaframkvæmd Hæstaréttar né Mannréttindadómstóls Evrópu. Almennt sé viðurkennt að 1. mgr. 72. gr. verndi ekki eign, ef réttindi samkvæmt slíkri eign eru háð ákveðnum skilyrðum og/eða ef slík eign er ekki sérgreind eða virði hennar óljóst. Kröfur sóknaraðila séu háðar því að slitastjórn Landsbanka Íslands hf. staðreyni kröfur þeirra og óljóst sé á þessu stigi hverjar endurheimtur verði af eignum bankans. Réttindi sóknaraðila samkvæmt slíkum kröfum séu því skilyrt og virði þeirra óljóst. Af þeim sökum njóti þau ekki verndar 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Hafni dómurinn framangreindum röksemdum varnaraðila byggir hann á því að lög nr. 125/2008 og 44/2009 brjóti engu að síður hvorki í bága við 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar né 1. gr. fyrsta samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, enda hafi einungis verið um almenna takmörkun eignarréttinda að ræða, en ekki eignarnám. Yfirfærsla eignarréttar frá sóknaraðilum til íslenska ríkisins, innstæðueigenda eða annarra, hafi ekki farið fram með því að veita innstæðukröfum rétthæð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Ekki hafi heldur verið um að ræða ,,de facto“ eignarnám. Það eigi einungis við ef eiganda sé með öllu fyrirmunuð venjuleg og eðlileg afnot eigna sinna en nái ekki til tilvika þar sem ráðstafanir kunni að hafa einhver áhrif á virði eigna. Sóknaraðilar eigi enn sínar kröfur að fullu. Þá bendir varnaraðili á að viðurkennt sé að löggjafinn geti á grundvelli 2. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 2. mgr. 1. gr. fyrsta samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, takmarkað eignarrétt með almennum hætti, þannig að gætt sé skilyrða 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Almenn takmörkun á eignarréttindum, sem eigandi verði að þola bótalaust, sé því háð að slík takmörkun byggi á skýrri lagaheimild, að hún sé almenn og takmörkunin miði að lögmætu og hlutlægu markmiði. Óumdeilt sé að forgangur innstæðueigenda samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 byggi á skýru lagaákvæði. Hin meinta takmörkun sé einnig almenn, enda taki hún til allra krafna allra kröfuhafa í öllum íslenskum bönkum, að því marki sem kröfurnar séu ekki innstæður og feli því í sér almenna takmörkun á öllum eignum sem ekki séu af tilteknu tagi. Um þriðja skilyrðið segir varnaraðili að forgangsákvæði laga nr. 125/2008 hafi verið sett við algjört neyðarástand á Íslandi og hafi verið nauðsynlegt til að ekki skapaðist óhófleg óvissa og órói um afdrif innstæðna einstaklinga og fyrirtækja.

Fallist dómurinn á með sóknaraðilum að ákvæði 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, um forgangsrétt innstæðna, sbr. lög nr. 125/2008 og 44/2009, feli í sér skerðingu eignarréttar, telur varnaraðili málsástæður sóknaraðila um eignarnám haldlausar. Kæmist dómurinn að þeirri niðurstöðu að réttaráhrif ákvæða laga nr. 161/2002, um forgangsrétt innstæðukrafna, jafngiltu eignarnámi í skilningi 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar, væri íslenska ríkið bótaskylt gagnvart sóknaraðilum. Sóknaraðilar geti ekki átt bæði bótarétt á hendur íslenska ríkinu og um leið rétt til að njóta jafnrar stöðu í kröfuröð og varnaraðili. Sú niðurstaða að forgangsréttur innstæðna jafngildi eignarnámi leiði ekki til þess að viðkomandi lagaákvæði teljist ógild, sem sé forsenda þess að kröfur sóknaraðila verði teknar til greina. Því sé ekki nauðsynlegt að leysa úr því í þessu máli hvort um eignarnám sé að ræða, og því hafi sóknaraðilar ekki lögvarða hagsmuni af því að dómurinn leysi úr þeirri málsástæðu. Jafnframt skorti samhengi milli kröfugerðar og málsástæðna hvað þetta varðar, sem brjóti gegn d- og e- liðum 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991. Jafnvel þótt talið yrði að forgangsákvæði laga nr. 125/2008 hafi falið í sér eignarnám, byggir varnaraðili engu að síður á því að öll skilyrði lögmæts eignarnáms hafi verið fyrir hendi. Skilyrðin séu í fyrsta lagi að almannahagsmunir krefjist þess og gætt sé meðalhófs, í öðru lagi að lög mæli svo fyrir og í þriðja lagi að fullar bætur komi fyrir. Fyrstu tvö skilyrðin séu uppfyllt. Varðandi skilyrðið um fullar bætur telur varnaraðili að þeir sóknaraðilar sem telji sig hafa orðið fyrir eignarnámi verði að sækja ætlaðan rétt sinn á hendur íslenska ríkinu.

Að dómi varnaraðila felur sú ráðstöfun löggjafans að veita innstæðum forgang ekki í sér mismunun í andstöðu við 65. gr. stjórnarskrárinnar, 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu né 26. gr. alþjóðasamningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Þannig hafi Hæstiréttur Íslands í dómum sínum sett fram þrjú skilyrði sem uppfylla verði til þess að mismunun teljist ekki brjóta gegn jafnræðisreglunni; að mismununin sé lögákveðin, stefni að lögmætu markmiði og að meðalhófs hafi verið gætt. Alþjóðleg dómaframkvæmd á reglum 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 26. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi geti verið 65. gr. stjórnarskrárinnar til skýringar. Sú aðgerð, að veita kröfum innstæðueigenda forgang, hafi ekki falið í sér beina mismunun í skilningi þessara ákvæða, þar sem 6. og 9. gr. laga nr. 125/2008 geri ekki greinarmun á aðilum á grundvelli þjóðernis. Þá sé ekki um óbeina mismunum að ræða þar sem innstæðueigendur séu ekki í sambærilegum aðstæðum og kröfuhafar ótryggðra krafna, þ.m.t. sóknaraðilar. Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að um mismunun hafi verið að ræða sé hún lögmæt með vísan til þess, í fyrsta lagi að hún hafi verið ákveðin með lögum og sé almenn í eðli sínu, í öðru lagi hafi ætluð mismunun verið heimil vegna þess að markmið lagasetningarinnar hafi verið lögmætt og miðað að því að vernda ríka samfélagslega og efnahagslega hagsmuni almennings, og í þriðja lagi hafi ekki verið gengið lengra en nauðsynlegt hafi verið til að ná þeim markmiðum sem stefnt hafi verið að. Í þessu samhengi leggur varnaraðili áherslu á að til að um ólögmæta mismunun sé að ræða verði aðilum innan sama hóps í sams konar kringumstæðum að vera mismunað. Sá skilningur sé í samræmi við jafnræðisreglu 2. mgr. 16. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins um endurskipulagningu og slit lánastofnana nr. 2001/24/EB. Við ákvörðun á því hvort um mismunun sé að ræða verði dómurinn að skipta kröfuhöfum í mismunandi hópa á grundvelli krafna sinna. Sóknaraðilar og varnaraðili séu í ólíkum hópum þar sem skýr greinarmunur sé gerður á kröfu varnaraðila vegna innstæðna annars vegar og krafna sóknaraðila hins vegar. Þótt varnaraðli telji að málsástæður um skiptingu bankanna í gamla og nýja banka komi máli þessu ekki við, kveðst hann engu að síður leggja áherslu á tvennt í tengslum við þá skiptingu. Í fyrsta lagi hafi uppskipting bankanna ekki verið afleiðing laga nr. 125/2008 sem slíkra. Í öðru lagi sé vald það sem falið hafi verið Fjármálaeftirlitinu með lögum nr. 125/2008 eðlilegt og réttmætt, þar sem það samrýmist og sé í raun takmarkaðra en sú framkvæmd sem flest vestræn ríki hafi viðhaft til að takast á við núverandi fjármálakreppu og fjármálastofnanir í erfiðleikum.

Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að um mismunun hafi verið að ræða byggir varnaraðili á því að sú mismunun sé lögmæt. Með 6. gr. laga nr. 125/2008, nú 3. mgr. 102. laga nr. 161/2002, sbr. 6. gr. laga nr. 44/2009, hafi einstökum kröfuhöfum ekki verið ívilnað. Ákvæðið sé almennt og ekki sé minnst á eðli kröfuhafans. Kröfuhöfum sé, eins og algengt sé með reglur um rétthæð krafna við slitameðferð fjármálafyrirtækja og gjaldþrotaskipti fyrirtækja, skipt upp eftir eðli krafna þeirra á hendur viðkomandi aðila. Skýr eðlismunur sé á kröfum innstæðueigenda annars vegar og kröfum sóknaraðila hins vegar. Þá hafi markmið lagasetningarinnar verið lögmætt og ekki gengið lengra en nauðsynlegt hafi verið til að ná því markmiði sem stefnt hafi verið að.

Varnaraðili byggir einnig á því að breyting á rétthæð innstæðukrafna samkvæmt 6. og 9. gr. laga nr. 125/2008 og síðar laga nr. 44/2009 feli ekki í sér afturvirkni sem brjóti í bága við 65. og 72. gr. stjórnarskrárinnar. Breyting rétthæðarinnar gildi einungis frá og með gildistöku laga nr. 125/2008 og nái eingöngu til slitameðferða sem hafi byrjað eftir gildistöku þeirra. Landsbanki Íslands hf. hafi ekki verið í slitameðferð þegar lögin voru sett. Sú staðreynd að gjaldþrot eins eða fleiri banka hafi verið einn möguleiki af nokkrum mögulegum niðurstöðum búi ekki til afturvirkni. Þótt sóknaraðilar byggi á því að til staðar sé ólögmæt afturvirkni, þar sem lög nr. 125/2008 taki til samningssambands sem þegar hafi verið stofnað til, telur varnaraðili þá málsástæðu ekki standast þar sem ekki hafi verið gerðar breytingar á forgangi kröfu sóknaraðila, heldur hafi gerðar breytingar lotið að forgangi innstæðna. Þetta geti að sönnu haft óbeinar afleiðingar á endanlega upphæð sem aðrir kröfuhafar en innstæðueigendur endurheimti úr slitameðferð. Til þess verði þó að líta að um sé að ræða óhjákvæmilega afleiðingu allra breytinga sem gerðar séu á forgangi við úthlutun í slitameðferð, nema breyting á forgangi tæki þá gildi eftir að allir gildir samningar sem máli skiptu rynnu út. Að dómi varnaraðila væri slíkt óframkvæmanlegt. Enn erfiðara sé fyrir sóknaraðila að bera fyrir sig sjónarmið um afturvirkni, þar sem þeir hafi keypt kröfur, vitandi að innstæðueigendur nytu forgangs.

Varnaraðili byggir jafnframt á því að ekki sé viðurkennt að réttmætar væntingar njóti einar sér verndar 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þótt lögmætar væntingar geti notið verndar 1. gr. fyrsta samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu, leiði það ekki sjálfkrafa til þess að 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar verði skýrð með sama hætti. Hugsanlegt brot gegn „lögmætum væntingum“ samkvæmt 1. gr. fyrsta samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu geti ekki leitt til þess að lögum nr. 125/2008 verði vikið til hliðar, enda njóti mannréttindasáttmálinn aðeins stöðu almennra laga. Fallist dómurinn ekki á þetta, byggir varnaraðili á því að ef einstaklingur eða lögaðili geti haft réttmætar væntingar um tiltekna meðferð, í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar, verði þær væntingar að teljast hluti af þeirri eign sem sé grundvöllur réttmætra væntinga. Sama eigi við um 1. gr. fyrsta samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu. Einu réttmætu væntingarnar sem sóknaraðilar hafi getað haft hafi verið að farið yrði með kröfur þeirra við slit Landsbanka Íslands hf., ef til kæmi, í samræmi við íslenskar réttarreglur um gjaldþrotaskipti eins og þær væru á hverjum tíma. Telji dómurinn að almennt séð geti kröfuhafar haft réttmætar væntingar til þess að réttindaröð krafna við gjaldþrotaskipti haldist óbreytt á líftíma krafna, byggir varnaraðili á því að þeir sóknaraðilar sem eignast hafi kröfur sínar eftir gildistöku laga nr. 125/2008 geti þegar af þeirri ástæðu ekki borið fyrir sig réttmætar væntingar og/eða ófyrirsjáanleika. Þá byggir varnaraðili á því að staðhæfingar sóknaraðilanna Arrowgrass Distressed Opportunities Fund o.fl. um að íslenska ríkisstjórnin hafi haft vitneskju, tækifæri og tilefni til að breyta ákvæðum um forgangsröðun á hefðbundinn og fyrirsjáanlegan hátt, hafi ekkert vægi í þessu máli og séu ósannaðar.

Varnaraðili leggur áherslu á að lög nr. 125/2008 hafi haft það lögmæta og hlutlæga markmið að vernda mikilvæga almannahagsmuni með því að reyna að forða algeru hruni íslensks efnahagslífs. Sú aðgerð að veita innstæðukröfum forgang við slit fjármálafyrirtækja hafi verið til þess fallin að stöðva bankaáhlaup og koma á fjárhagslegum stöðugleika. Fjarri lagi sé að helsta eða eina markmiðið hafi verið að takmarka tjón ríkissjóðs. Í ljósi aðstæðna, þar sem raunverulegur möguleiki hafi verið á því að allt bankakerfi og greiðslukerfi myndu hrynja til grunna, hafi verið nauðsynlegt að reyna að bjarga því litla trausti á bankakerfinu sem eftir hafi verið hjá almenningi og koma þannig í veg fyrir allsherjar áhlaup á banka landsins og allsherjar hrun íslensks efnahagslífs. Fullyrðir varnaraðili að dómstólar hafi farið varlega í að endurskoða mat löggjafans á nauðsynlegum aðgerðum, hafi markmið aðgerðanna á annað borð verið lögmætt. Þó að dómurinn telji að leggja beri sjálfstætt mat á aðgerðir löggjafans hafi setning laga nr. 125/2008 verið nauðsynleg og ekki brotið gegn stjórnskipulegri meðalhófsreglu. Nauðsyn laganna felist í því að hefði innstæðum ekki verið veittur forgangur hefði verið raunveruleg hætta á því að traust almennings á hinum nýstofnuðu bönkum hefði ekki verið nægilegt til að varna áhlaupi á þá. Í öðru lagi hefði aðgangur hinna nýju banka og Seðlabankans að alþjóðlegu greiðslumiðlunarkerfi hugsanlega stöðvast með tilheyrandi afleiðingum fyrir vöruinnflutning til landsins. Í þriðja lagi hefði raunveruleg hætta verið á gjaldþroti ríkisins, svo og einangrun Íslands á alþjóðavettvangi, bæði í efnahagslegu og samfélagslegu tilliti. Fyrstu aðgerðir íslenskra stjórnvalda til að halda aftur af byrjuðu bankaáhlaupi og gæta allsherjarreglu hafi verið að lýsa því margsinnis yfir að innstæður væru ríkistryggðar. Hinn 29. september 2008 hafi ríkisstjórn Íslands enn fremur lýst því yfir að ríkissjóður hygðist yfirtaka 75% hlutafjár í Glitni banka hf., með sama markmið að leiðarljósi. Þrátt fyrir þessar aðgerðir hafi ekki dregið úr yfirstandandi bankaáhlaupi.

Þótt sumir sóknaraðilar haldi því fram að ríkinu hafi staðið til boða aðrar vægari leiðir til að leysa það neyðarástand sem uppi hafi verið í íslensku efnahagslífi í október 2008, fær varnaraðili ekki séð að slíkar vangaveltur hafi þýðingu í máli þessu. Staðfest sé í dómaframkvæmd að löggjafinn hafi víðtækt svigrúm til að meta umfang þeirra aðgerða sem grípa þurfi til vegna atburða eins og hruns bankanna og slíkt mat verði ekki endurskoðað eftir á. Ljóst sé hins vegar að þær aðgerðir sem sóknaraðilarnir nefni hafi verið skoðaðar á sínum tíma og að þær aðgerðir hefðu ekki dugað til að ná því markmiði sem að hafi verið stefnt á þeim tíma. Innleiðing forgangs innstæðna hafi ekki komið í veg fyrir hrun flestra banka hér á landi innan nokkurra daga frá samþykki laganna. Þrátt fyrir það sé ekki þar með sagt að ákvæðið hafi ekki náð markmiði sínu. Meginmarkmið laganna hafi verið að koma í veg fyrir að íslenskt efnahagslíf og allt bankakerfið færi á hliðina. Með því að veita innstæðukröfum forgang við slit fjármálafyrirtækja hafi stjórnvöldum tekist að koma á nægjanlegu trausti á íslenska bankakerfinu til að nýju bankarnir gætu starfað. Sú ráðstöfun, að leitast við að vernda innstæðueigendur til þess að varðveita stöðugleika í bankakerfum og koma í veg fyrir að áhlaup séu gerð á banka, sé almenn og vel þekkt. Í þeim aðstæðum sem uppi hafi verið 6. október 2008 hafi forgangs verið þörf til að unnt væri að mæta lágmarksskuldbindingum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta og til að renna stoðum undir yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um að innlendar innstæður væru að fullu tryggðar.

Varnaraðili telur að staðhæfingar sóknaraðilanna Arrowgrass Distressed Opportunities Fund o.fl. og Bayerische Landesbank o.fl., þess efnis að lög nr. 125/2008 hafi falið í sér óhóflegt framsal valds til Fjármálaeftirlitsins og fjármálaráðuneytisins, sem brjóti í bága við ákvæði stjórnarskrárinnar, hafi ekkert vægi í máli þessu. Niðurstaða þar um gæti eingöngu leitt til ógildingar þeirrar stjórnvaldsákvörðunar að bönkunum yrðu skipaðar skilanefndir og skipt upp. Þá hafnar varnaraðili þeirri fullyrðingu sömu sóknaraðila að ekki hafi verið fyrir hendi sérstök þörf á að innleiða forgang innstæðna í lög nr. 161/2002 með lögum nr. 44/2009. Við setningu laga nr. 44/2009 hafi íslenska hagkerfið og bankar þess verið í erfiðleikum og verið mjög brothætt. Loks telur varnaraðili haldlausa þá málsástæðu sóknaraðilans Landsbanka Guernsey Ltd., að ekki hafi verið nauðsynlegt að veita erlendum tryggingarsjóðum forgang, þar sem þeim beri skylda til að greiða út innstæður. Bendir hann á að ekki skipti máli fyrir meint tjón sóknaraðilans hvort varnaraðili eða innstæðueigendur sjálfir lýstu kröfu sinni.

Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að með því að veita innstæðukröfum forgang hafi íslenska ríkið brotið gegn 65. og/eða 72. gr. stjórnarskrárinnar og samsvarandi ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu, byggir varnaraðili á því að aðgerðir íslenska ríkisins hafi samt sem áður verið réttlætanlegar á grundvelli stjórnskipulegs neyðarréttar. Í því efni vísar hann til þess að reglur um neyðarrétt byggi á því að lagareglur, sem að jafnaði gildi við venjulegar aðstæður, geti ekki séð fyrir neyðartilvik og lögin þannig orðið óframkvæmanleg, eða óhjákvæmilegt geti orðið að víkja frá lagaboði til að afstýra stórfelldri röskun eða stórtjóni. Við mat á lögmæti aðgerða á grundvelli stjórnskipulegs neyðarréttar verði að líta til vægis þeirra hagsmuna sem í húfi hafi verið og vægis þeirra réttinda sem hugsanlega hafi verið gengið á. Þrátt fyrir að íslensk stjórnvöld hafi aðeins beitt stjórnskipulegum neyðarrétti í aðstæðum tengdum seinni heimsstyrjöldinni, sé ekki hægt að fallast á með sóknaraðilum að beiting stjórnskipulegs neyðarréttar sé einungis heimil við slíkar aðstæður. Afleiðingar atburðarins hljóti að liggja til grundvallar, fremur en orsök. Þrátt fyrir að fram komi í lögskýringargögnum með stjórnskipunarlögum nr. 97/1995 að ekki hafi verið vilji til að lögfesta sérstakar fráviksreglur, þýði það ekki að reglan um stjórnskipulegan neyðarrétt hafi verið afnumin úr íslenskum rétti. Og þótt berum orðum hafi ekki verið vikið að beitingu stjórnskipulags neyðarréttar í lögum nr. 125/2008, né í athugasemdum með frumvarpinu, telur varnaraðili að í framsöguræðum og nefndarálitum hafi falist vísbendingar í þá veru. Hins vegar hafnar varnaraðili þeim rökum sóknaraðila að þar sem íslensk stjórnvöld hafi ekki með formlegum hætti tilkynnt til viðeigandi stofnana að þau hygðust víkja frá ákveðnum ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu og alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, hafi aðgerðirnar verið ólögmætar. Stjórnskipulegur neyðarréttur hafi löngum verið viðurkenndur sem ein af óskráðum meginreglum þjóðarréttar, og séu fræðimenn, dómar og opinberir túlkunaraðilar samróma um að efnahagslegt neyðarástand falli undir reglur þjóðarréttar um neyðarrétt ríkja.

Varnaraðili telur að fullyrðingar sóknaraðila um meint brot á EES-samningnum og að niðurstöður bráðabirgðaálits ESA séu rangar, eigi ekki við í þessu máli. Ekki hafi verið um neina mismunun á grundvelli ríkisfangs að ræða, hvorki í aðgerðum ríkisstjórnarinnar né með forgangsveitingu innstæðukrafna, í skilningi 4. og 40. gr. EES-samningsins. Til að sanna brot gegn 40. gr. EES-samningsins verði að sýna fram á hömlur á frjálst flæði fjármagns, eða mismunun á grundvelli þjóðernis. Forgangsveiting innstæðna feli ekki í sér neinar slíkar hömlur. Hömlur á frjálst flæði fjármagns séu þó réttlætanlegar að uppfylltum þremur skilyrðum; að stefnt sé að lögmætu markmiði, að það sé gert innan ramma meðalhófsreglunnar, og að vernda eigi raunverulega og alvarlega almannahagsmuni. Þetta séu sömu skilyrði og fyrir almennri mismunun í skilningi 65. gr. stjórnarskrárinnar, og almennri takmörkun eignarréttarins í skilningi 72. gr. stjórnarskrárinnar, og eigi sömu rök við í öllum tilvikum.

Varnaraðili heldur því fram að álitaefni þessa máls hafi ekkert með uppskiptingu bankanna og meinta ólögmæta ríkisaðstoð íslenskra stjórnvalda að gera. Telji dómurinn hins vegar að skoða þurfi þau mál byggir varnaraðili á því að ráðstafanir ríkisins í október og nóvember 2008 hafi ekki falið í sér ólögmæta ríkisaðstoð í skilningi 1. mgr. 61. gr. EES-samningsins. Komist dómurinn hins vegar að öndverðri niðurstöðu, byggir varnaraðili á því að b-liður 3. mgr. 61. gr. EES-samningsins eigi hér við. Þá vakni annars vegar sú spurning hvort umræddar aðgerðir íslenskra stjórnvalda falli undir þessa reglu og hins vegar hvort stjórnvöld þurfi, þátt fyrir ákvæðið, að tilkynna ESA um aðstoðina og bíða ákvörðunar stofnunarinnar um lögmæti aðgerðanna. Að dómi varnaraðila geti röskun á efnahagslífi vart verið alvarlegri en þegar algjört efnahagshrun blasi við. Því eigi undantekningin við. Ekki verði séð hvernig hægt sé að beita ákvæði b-liðar 3. mgr. 61. gr. EES-samningsins þannig að það nái tilgangi sínum ef einnig þyrfti að bíða niðurstöðu ESA um hvort ríkisaðstoð sé heimil. Horfa verði til þess að ákvæðið hafi lagagildi hér á landi, ólíkt bókun 3 við samning milli EFTA-ríkjanna, um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls. Þá hafi heimildin sjálfstæða þýðingu gagnvart 30. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005.

Varnaraðili hafnar þeim röksemdum sóknaraðila að forgangur innstæðna sé takmarkaður við 20.887 evrur. Þótt draga megi þá ályktun af forsendum dóms Hæstaréttar í máli nr. 184/2010 að forgangsréttur samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 sé ekki svo víðtækur að hann nái til „innstæðna“ eins og hugtakið sé skilgreint í 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999, heldur einungis til þeirra innstæðna sem njóti tryggingarverndar samkvæmt þeim lögum, þ.e.a.s. falli ekki undir undantekningarákvæði 6. mgr. 9. gr. laganna, sé þó hvergi í forsendum dómsins vísað til þess að forgangsrétturinn sé bundinn við ákveðin efri mörk. Varnaraðili byggir á því að hafi verið sannað að um sé að ræða innstæðu sem njóta beri forgangsréttar eigi sá réttur að ná til allrar upphæðar innstæðunnar. Virðist varnaraðila sem lagatúlkun sóknaraðila byggi á því að íslenska innstæðutryggingakerfið sé nátengt fjárhagslegum styrk Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, sem hafi í för með sér að í tilviki slitameðferðar Landsbanka Íslands hf. séu aðeins tilteknar innstæðukröfur tryggðar og eigi því rétt á forgangsrétti upp að 20.887 evrum, þ.e. þeirri fjárhæð sem sjóðurinn sé fær um að tryggja. Að dómi varnaraðila gefi þær réttarreglur sem unnt sé að beita að þessu tilliti ekkert tilefni til slíkrar túlkunar. Markmið 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 hafi verið að tryggja hagsmuni innstæðueigenda að fullu, en túlkun sóknaraðila á ákvæðinu fari á svig við þetta markmið. Tilgangur laga nr. 98/1999 sé að veita innstæðueigendum „lágmarks tryggingarvernd“. Ekki sé hægt að skilja ákvæði þeirra laga á gagnstæðan máta, þ.e. að þegar sjóðurinn sé ekki greiðsluhæfur veiti hann lágmarkstryggingu, annars tryggi hann heildarupphæð innstæðunnar. Næði forgangur einungis til lágmarksfjárhæðar laga nr. 98/1999, hefði ákvæði 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 enga raunhæfa merkingu. Fengju innstæðueigendur þá hvort sem er alltaf greidda lágmarksfjárhæð viðkomandi tryggingarsjóðs, og ættu því einungis almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 á hendur þrotabúinu. Markmið lagaákvæðisins sé að sjá til þess að krafa innstæðueigenda, umfram það sem þeir hafi fengið greitt frá viðkomandi tryggingarsjóði, sé forgangskrafa við skipti fjármálafyrirtækja. Forgangur innstæðna nái til allra tryggðra innstæðna. Allar innstæður séu tryggðar, nema frá fyrirtækjum sem séu aðilar að sjóðnum, óháð fjárhæð. Lágmarksfjárhæð 1. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999 komi einungis til kastanna ef eignir sjóðsins dugi ekki til greiðslu á öllum innstæðum. Forgangsákvæði 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 vísi til innstæðu í skilningi laga nr. 98/1999, en ekki meðferðar hennar er til útgreiðslu komi úr sjóðnum.

Um lagarök vísar varnaraðili til ákvæða þeirra laga sem að framan greinir, svo og til grundvallarreglna kröfu- og samningaréttar. Málskostnaðarkrafa hans er reist á 130. gr. laga nr. 91/1991.

2.            Landsbanki Íslands hf. tekur í upphafi fram að ekki sé ágreiningur milli hans og FSCS um langstærstan hluta höfuðstóls þeirra innstæðukrafna sem FSCS hafi leyst til sín og/eða fengið framseldar frá upphaflegum innstæðueigendum, né um eignarrétt FSCS að þeim kröfum. Hins vegar sé í málinu ágreiningur milli FSCS og sóknaraðila um fjárhæð þeirrar kröfu sem slitastjórnin hafi samþykkt, svo og um tilvist kröfunnar og gildi framsala innstæðueigenda til FSCS. Aðild slitastjórnar varnaraðila að málinu lúti að því að skýra fyrir dóminum nánar en fram komi í framlögðum gögnum hvernig réttmæti kröfunnar hafi verið sannreynt. Eins og málið sé vaxið, og að teknu tilliti til þeirrar sannprófunar á réttmæti kröfu FSCS sem átt hafi sér stað, telur varnaraðili að á sóknaraðilum hvíli sönnunarbyrði um að sýna fram á að afstaða slitastjórnar hafi verið röng. Varnaraðilinn tekur einnig fram að afstaða slitastjórnar til viðurkenningar krafna hafi lagalega þýðingu við rekstur ágreiningsmáls um þær fyrir dómi, enda þurfi sá sem ekki felli sig við þá afstöðu að fá henni hnekkt þar. Af lögbundnu valdi slitastjórnar leiði einnig að þeir aðilar sem mótmæli afstöðu hennar, hvort sem um er að ræða viðurkenningu  kröfu eða höfnun, þurfi að sýna fram á þau atvik og lagaatriði sem leiða eigi til þess að dómur eigi að fallast á að breyta þeirri afstöðu. Því telur varnaraðili að málsástæður umræddra sóknaraðila, þess efnis að niðurstaða slitastjórnar um réttmæti krafna FSCS hafi ekkert gildi við meðferð ágreinings um þær fyrir dómi, eigi sér ekki lagastoð.

Krafa slitastjórnar Landsbanka Íslands hf. um að staðfest verði afstaða hennar um viðurkenningu á kröfu FSCS byggist á því að um innstæðukröfur sé að ræða, sem lagðar hafi verið inn í útibúi Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi. Þar sem bankinn sé í slitameðferð gildi um þá meðferð íslensk lög samkvæmt 2. mgr. 99. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, sbr. 9. gr. laga nr. 130/2004, en með þeim lögum hafi verið innleidd tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2001/24/EB frá 4. apríl 2001, um fjárhagslega endurskipulagningu og slit lánastofnana. Ákvæðið sé í samræmi við 10. gr. tilskipunarinnar. Þegar slitastjórn tók afstöðu til kröfu FSCS hafi hins vegar verið gengið út frá því að ensk lög giltu um kröfuna að efni til, enda sé um einkaréttarlega samningsskuldbindingu að ræða í skilningi laga nr. 43/2000, um lagaskil á sviði samningaréttar. Í skilmálum Landsbankans, er gildi um innstæðurnar, segi að ensk lög skuli gilda um samningsskuldbindinguna. Upphaflegir samningsaðilar hafi því samið um að sú löggjöf skyldi gilda í skilningi 3. gr. laga nr. 43/2000. Verði talið að skilmálarnir hafi ekki falið í sér samning um lagaval, leggur varnaraðili áherslu á að innstæður í útibúi bankans í Bretlandi hafi sterkustu tengslin við það land, og því skuli allt að einu beita enskum lögum um kröfuna, sbr. 1. mgr. 4. gr. lagaskilalaga. Almennt sé einnig talið að samningar við banka hafi sterkustu tengslin við þann stað þar sem bankinn starfræki starfsemi sína. Í þessu tilviki hafi innstæðurnar verið hluti af rekstri útibús Landsbanka Íslands hf. í London. Þar fyrir utan hafi samningurinn verið gerður þar og þar skyldi einnig efna skuldbindinguna. Samkvæmt þessu gildi íslensk lög um kröfulýsinguna, sem og stöðu kröfunnar í réttindaröð, en um tilvist kröfunnar gildi ensk lög, sbr. 8. og 9. gr. laga nr. 43/2000. Þar sem FSCS hafi fengið kröfuna framselda til sín frá innstæðueigendum gildi ensk lög einnig um heimild til framsalsins, skilyrði þess að á því verði byggt gagnvart Landsbanka Íslands hf., sem og um öll álitaefni um hvort skyldur bankans séu enn til staðar, enda gildi um slík framsöl þau lög sem hafi gilt um réttindin sem framseld hafi verið, sbr. 2. mgr. 12. gr. sömu laga. Í þessu sambandi breyti engu þótt litið yrði svo á að FSCS hefði leyst til sín kröfuna að hluta á grundvelli viðbótartryggingarverndar sem Landsbanki Íslands hf. hafði hjá FSCS, enda hafi sú viðbótartrygging verið keypt á grundvelli enskra laga. Niðurstaðan sé því enn sú að ensk lög gildi um þann hluta kröfunnar samkvæmt 13. gr. lagaskilalaga.

Með vísan til ofanritaðs byggir slitastjórn varnaraðila jafnframt á því að ensk lög gildi um rétt FSCS til að heimta vexti á kröfu sína og kostnað. Samkvæmt íslenskum rétti teljist réttur til vaxta og kostnaðar hluti af hinni samningsbundnu kröfu. Í Bretlandi séu ákvæði um vexti og kostnað aftur á móti hluti af réttarfarsreglum. Íslenskar lagaskilareglur, sem hluti landsréttar,  séu engu að síður ákvarðandi um heimfærslu til réttarsviðs. Því telur varnaraðili að íslensk lög ákvarði hvaða erlendu lög og reglur komi til álita og á hvaða sviði. Með hliðsjón af því, og að teknu tilliti til þess hversu samofin úrlausn um gildi kröfunnar og úrlausn um hvort stofnast hafi réttur til vaxta og kostnaðar af kröfunni, telur varnaraðili að enskar reglur skuli vera ákvarðandi, óháð því að í Bretlandi séu reglurnar flokkaðar sem réttarfarsúrræði.  

Að dómi varnaraðila hafa sóknaraðilar ekki á neinn hátt hnekkt þeirri niðurstöðu slitastjórnar að FSCS hafi eignast með gildum og bindandi hætti þær innstæðukröfur sem mynda samþykkta höfuðstóls­fjárhæð. Því til stuðnings vísar varnaraðili sérstaklega til minnisblaðs lögmannsstofunnar Morrison & Foerster, sem er meðal gagna málsins, en einnig til þess að slitastjórn hafi staðreynt allar greiðslur FSCS til innstæðueigenda. Þá er og vísað til þess að slitastjórn hafi haldið kynningarfundi fyrir fulltrúa þeirra kröfuhafa sem mótmælt höfðu kröfufjárhæðinni, þar sem ítarlega hafi verið útskýrt hvernig staðið hefði verið að sannprófun fjárhæðarinnar. Loks er á það bent að enginn þeirra, sem átt hafi innstæðu á Icesave reikningi í London, hafi lýst kröfu á hendur bankanum.

Varnaraðili, Landsbanki Íslands hf., mótmælir kröfu FSCS um hærri höfuðstólsfjárhæð en samþykkt hefur verið og krefst þess að henni verði hafnað. Lítur slitastjórn svo á að í þeim 76 tilfellum sem einstaklingar hafi millifært fé inn á reikninga bankans, áður en búið hafi verið að opna reikninga í þeirra nafni, hafi skilmálum Icesave reikninganna ekki verið fullnægt og því ekki stofnast innstæða í skilningi laga nr. 98/1999. Enn fremur er því mótmælt að krafa FSCS beri íslenska dráttarvexti samkvæmt lögum nr. 38/2001, eins og krafist sé í aðalkröfu FSCS. Því til stuðnings er vísað til ofangreindra sjónarmiða um að beita beri enskum lögum að efni til um kröfuna. 

Að því er snertir 1. varakröfu FSCS, þar sem krafist er vaxta samkvæmt stýrivöxtum Seðlabanka Englands, að viðbættu vanefndaálagi samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 (11% frá október 2008 til og með 31. desember 2008 og 7% frá 1. janúar 2009 til og með 22. apríl 2009), telur varnaraðili að krafan eigi sér enga lagastoð, og því beri að hafna henni. FSCS byggi á því að krafan sé í samræmi við 3. gr. tilskipunar Evrópusambandsins nr. 2000/35/EB, um átak gegn greiðsludrætti í verslunarviðskiptum, og að sú tilskipun hafi verið innleidd í lög nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu. Þessum rökstuðningi mótmælir varnaraðili og bendir á að aðeins einstaklingum hafi staðið til boða að leggja fé sitt á Icesave reikninga. Umrædd tilskipun hafi verið innleidd árið 2002 í Bretlandi með breytingum á lögum um greiðsludrátt viðskiptaskulda frá 1998. Þau lög taki aðeins til samninga um sölu vöru eða þjónustu þar sem báðir aðilar, kaupandi og seljandi, komi fram í atvinnuskyni og endurgjald komi fyrir. Því fái krafan heldur ekki stoð í þeim lögum.

Slitastjórn varnaraðila hafnar einnig 2. varakröfu FSCS, en samkvæmt henni er krafist 8% ársvaxta af kröfufjárhæð samkvæmt 17. kafla enskra réttarfarslaga (e. English Judgments Act 1838). Byggist sú afstaða annars vegar á því að þær ensku lagareglur sem FSCS miði kröfu sína við eigi ekki við um erlent útibú á Bretlandi sem lúti íslenskum reglum um slitameðferð. Í öllu falli hafi ekki verið leitt í ljós efni og tilvist þeirra reglna sem FSCS vísi til. Með vísan til 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, beri því að hafna kröfunni. Einnig er á því byggt að ekki hafi gengið dómur í Englandi um kröfu FSCS á hendur Landsbanka Íslands hf. um 8% vexti samkvæmt áðurnefndum 17. kafla enskra réttarfarslaga, eins og áskilið sé. Telur varnaraðili þannig að hin ensku réttarfarslög eigi einungis við í þeim tilvikum þegar dómur hafi gengið um sakarefnið og geti kröfuhafi ekki fyrr byggt á lögunum til stuðnings vaxtakröfu sinni. Ekki sé unnt að jafna afstöðu slitastjórnar Landsbanka Íslands hf. til viðurkenningar kröfunnar við dóm ensks dómstóls um kröfuna, auk þess sem slitastjórn hafi tekið afstöðu til kröfunnar eftir 22. apríl 2009.

Varnaraðili, Landsbanki Íslands hf., mótmælir 3. varakröfu FSCS og telur enga lagastoð fyrir þeim vöxtum sem þar sé krafist. Geri krafan ráð fyrir dráttarvöxtum frá 8. október 2008 til 22. apríl 2009, sem reiknist sem samningsvextir, að viðbættu vanefndaálagi að mati dómsins. Heldur varnaraðili því fram að FSCS hafi ekki leitt nægilega í ljós tilvist og efni þeirra ensku reglna sem hann byggi kröfuna á, og vísar í því efni til 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Þá bendir hann á að þrátt fyrir heimild enskra dómstóla til að ákvarða vexti að álitum, á grundvelli meints tjóns vegna missis vaxta, verði að telja ólíklegt að vaxtaprósenta í tilvikum sem þessum yrði hærri en þeir vextir sem kveðið sé á um í skilmálum um Icesave reikninga í Bretlandi. Slitastjórn varnaraðila hafi þegar samþykkt kröfu FSCS um samningsvexti í samræmi við umrædda skilmála, og verði að telja þá vexti endurspegla tjón innstæðueigenda. Með hliðsjón af því geti raunverulegt tjón kröfuhafa á engan hátt talist hærra en samningsvextir samkvæmt gildandi skilmálum.

Í ljósi framanritaðs mótmælir varnaraðili því að FSCS eigi rétt á hærri vöxtum en samningsvöxtum á grundvelli enskra laga.

Varnaraðili hafnar einnig 4. varakröfu FSCS, en samkvæmt henni krefst FSCS dráttarvaxta á gjaldfallnar innstæður frá gjalddaga þeirra til 22. apríl 2009, og skuli þeir reiknast sem samningsvextir. Mótmælir varnaraðili kröfu FSCS um hærri fjárhæð samningsvaxta en þegar hefur verið samþykkt.

Varnaraðili hafnar loks kröfu FSCS um greiðslu áfallins kostnaðar að fjárhæð 6.852.380,20 sterlingspund, og byggir á því að ekki hafi verið sýnt fram á réttmæti og lögmæti þess að láta Landsbanka Íslands hf. bera kostnað sem FSCS hafi stofnað til upp á sitt eindæmi í því skyni að gæta hagsmuna sinna og/eða til að sinna lögboðnum verkefnum og skyldum sínum. Um leið er bent á að hvorki verði séð af fyrirliggjandi gögnum að FSCS hafi hafið innheimtu kröfu sinnar á hendur Landsbanka Íslands hf. fyrir 22. apríl 2009, né að umkrafinn kostnaður tengist innheimtu kröfunnar eða málshöfðun um hana fyrir þann tíma.  

Að dómi varnaraðila gilda ensk lög um rétt FSCS til að heimta áfallinn kostnað af Landsbanka Íslands hf. Samkvæmt meginreglu breskra gjaldþrotareglna frá 1986 (e. UK Insolvency Rules 1986) þurfi kröfuhafar sjálfir að bera kostnað af því að sanna kröfur sínar, þ. á m. kostnað við að útvega skjöl og afla sönnunargagna til stuðnings kröfunni. Með hliðsjón af þeirri meginreglu telur varnaraðili að krafa FSCS um greiðslu kostnaðar eigi sér ekki stoð í enskum rétti. Því beri að hafna kröfunni að öllu leyti.

Varnaraðili leggur á það áherslu að slitastjórn hafi farið að settum lögum þegar hún tók afstöðu til kröfu FSCS og féllst á að krafan væri um innstæður samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fjárfesta, sem FSCS hefði innleyst og fengið framseldar. Krafan hafi því verið viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 í samræmi við 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, sbr. og lög nr. 44/2009, sem tóku gildi 22. apríl 2009. Með gildistöku ákvæðis V til bráðabirgða við lög nr. 161/2002, sbr. lög nr. 44/2009, hafi slitameðferð Landsbanka Íslands hf. hafist sama dag. Telur varnaraðili að hvorki slitastjórn né dómstólar séu bærir um að víkja til hliðar skýru ákvæði 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, sem veiti kröfu FSCS um innstæður forgang samkvæmt 1. og 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð Landsbanka Íslands hf. Ákvæðið sé sett með stjórnskipulega gildum hætti og hafi því verið ætlað að gilda við slitameðferð fjármálafyrirtækja frá og með gildistöku þess. Verði ekki annað séð en löggjafinn hafi á hverjum tíma vald og heimildir til að ákvarða með lagasetningu hvernig háttað skuli skuldaröð við sameiginlega fullnustugerð kröfuhafa, í því tilviki að skuldari geti ekki efnt skuldbindingar sínar við þá alla að fullu. Í þessu samhengi tekur varnaraðili fram að skuldbinding, sem stofnað hefur verið til fyrir lagasetningu um breytingar á skuldaröð, en ekki efnd á því tímamarki, geti óhjákvæmilega orðið fyrir áhrifum af hinni nýju lagasetningu, ef skuldarinn fer í slit eða verður gjaldþrota eftir gildistöku slíkra laga. Geti þetta þó verkað á báða vegu, þannig kunni sumir kröfuhafar að verða betur settir en samkvæmt fyrri löggjöf, en aðrir verr. Liggi það raunar í hlutarins eðli þegar lögum um rétthæð sé breytt. Hins vegar verði ekki séð að í þessum afleiðingum af breyttri löggjöf  felist í eðli sínu afturvirkni eða brot gegn lögvörðum eignarrétti kröfuhafa. Jafnframt er það mat hans að sú lagabreyting sem hér um ræðir, og fólst í því að innstæðum var veittur forgangur við slit fjármálafyrirtækis, hafi verið gerð á almennum grundvelli og miði að því að gæta jafnræðis með kröfuhöfum.

Niðurstaða

1.            Frávísunarkrafa sóknaraðilanna Arrowgrass Distressed Opportunities Fund Limited o.fl. og Bayerische Landesbank o.fl.

Í þinghaldi í máli þessu 10. febrúar sl. lagði lögmaður Arrowgrass Distressed Opportunities Fund Limited o.fl. fram bókun, þar sem krafist var að dómkröfum The Financial Services Compensation Scheme Ltd. (FSCS) yrði vísað frá dómi að öðru leyti en því sem lyti að fjárhæðum umfram það sem slitastjórn Landsbanka Íslands hf. hefði samþykkt sem forgangskröfu, þ.e. 4.458.174.185 sterlingspund. Sem rökstuðning fyrir kröfunni vísuðu sóknaraðilar til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 638/2010, og töldu að niðurstaða réttarins í því máli gæfi héraðsdómi fullt tilefni til að taka til skoðunar réttmæti aðildar annarra varnaraðila að málinu en slitastjórnar Landsbankans. Óskuðu þeir eftir því að dómurinn hlýddi á málflutning um þessa kröfu og tæki málið til úrskurðar um þann þátt málsins. Sóknaraðilarnir Bayerische Landesbank o.fl. lýstu því yfir að þeir tækju undir bókunina og gerðu að sinni. Varnaraðilinn FSCS mótmælti hins vegar kröfunni og krafðist þess að henni yrði þegar vísað frá dómi. Bókað var í þingbók að dómari tæki sér frest til næsta þinghalds til þess að kynna sér rök málsaðila til framkominnar kröfu.

Við fyrirtöku málsins 24. febrúar sl. kynnti dómari þá ákvörðun sína að hafna því að fram færi sérstakur málflutningur um þennan þátt málsins, en gæfi aðilum þess í stað færi á að tjá sig um ágreiningsefnið við aðalmeðferð málsins, sem kæmi þá til úrlausnar í úrskurði dómsins.

Við aðalmeðferð málsins ítrekuðu sóknaraðilar fyrri kröfu sína og röksemdir henni til stuðnings. Bentu þeir sérstaklega á að FSCS tæki undir og samsinnti þeirri ákvörðun slitastjórnar að kröfurnar teldust forgangskröfur samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Kröfur þessa varnaraðila væru því algerlega samhljóða afstöðu slitastjórnar Landsbanka Íslands hf., a.m.k. um hluta fjárhæðar höfuðstóls kröfunnar og samningsvexti. Af þeirri ástæðu gæti FSCS ekki látið ágreining sóknaraðila við slitastjórn Landsbanka Íslands hf. um ætlaðan forgangsrétt krafnanna til sín taka. FSCS áréttaði kröfu sína um að hafna bæri frávísunarkröfunni. Annars vegar byggði hann á því að krafan væri of seint fram komin, en hins vegar á því að kröfuhafi í þrotabú ætti ætíð rétt til aðildar að ágreiningi um eigin kröfu. Þá taldi hann að málsatvik og ágreiningsefni í áðurnefndum dómi Hæstaréttar í málinu nr. 638/2010 væru á engan hátt sambærileg við aðild sína í þessu máli.

Samkvæmt 3. mgr. 177. gr. og 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 gilda almennar reglur um meðferð einkamála nr. 91/1991 um meðferð ágreiningsmála samkvæmt XXIV. kafla laga nr. 21/1991, að því leyti sem annað leiðir ekki af ákvæðum síðastnefndra laga. Í 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991 segir að málsástæður og mótmæli skuli koma fram jafnskjótt og tilefni verður til. Áðurnefndur dómur Hæstaréttar í málinu nr. 638/2010 var kveðinn upp 7. janúar 2011. Eftir uppkvaðningu þess dóms var mál þetta tekið fyrir 26. janúar, 3. febrúar og loks 10. febrúar, en í þinghaldi þann dag lagði lögmaður Arrowgrass Distressed Opportunities Fund Limited o.fl. fram ofangreinda bókun, með kröfu um frávísun á dómkröfum FSCS. Þrátt fyrir að taka megi undir það með FSCS að sóknaraðilinn hafi átt þess kost að leggja fram bókun sína fyrr en í þinghaldi 10. febrúar sl. verður ekki fallist á að sá dráttur sé þess eðlis að vísa beri frávísunarkröfunni frá dómi þegar af þeirri ástæðu. Hins vegar fellst dómurinn ekki á að málsatvik og ágreiningsefni í oftnefndum dómi Hæstaréttar séu sambærileg í því máli sem hér er til úrlausnar. 

Samkvæmt 4. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 gilda ákvæði XVIII. kafla og 5. þáttar laga nr. 21/1991 um meðferð krafna á hendur fjármálafyrirtæki við slit þess. Samkvæmt 119. gr. laga nr. 21/1991 skal slitastjórn gera skrá um lýstar kröfur að loknum kröfulýsingarfresti og taka þar afstöðu til þess hvernig viðurkenna skuli hverja kröfu um sig. Í 1. mgr. 120. gr. laganna segir að kröfuhafa, sem ekki vill una afstöðu slitastjórnar til viðurkenningar kröfu sinnar, sé heimilt að bera fram mótmæli gegn afstöðu slitastjórnarinnar á skiptafundi sem haldinn er til að fjalla um lýstar kröfur.  Með sama hætti er kröfuhafa rétt að mótmæla afstöðu slitastjórnar til viðurkenningar kröfu sem annar kröfuhafi hefur gert, hafi niðurstaða um hana áhrif við skiptin á hagsmuni þess sem hefur uppi mótmælin. Í 4. tölulið 1. mgr. 171. gr. laga nr. 21/1991 segir að í beiðni um úrlausn héraðsdóms vegna ágreinings við gjaldþrotaskipti skuli koma fram hvort skiptastjóri telji hlutaðeigandi þrotabú þurfa að eiga aðild að ágreiningsmálinu. Þá segir í 3. mgr. ákvæðisins að ef ágreiningsmálið varði hvort krafa á hendur þrotabúi verði viðurkennd skuli sá sem hefur kröfuna uppi að öðru jöfnu verða sóknaraðili málsins, en búið eða sá sem andmælir kröfunni, varnaraðili.

Ljóst þykir að niðurstaða um kröfu varnaraðilans FSCS hefur við skiptin áhrif á hagsmuni kröfuhafanna Arrowgrass Distressed Opportunities Fund Limited o.fl. og Bayerische Landesbank o.fl., og var þeim því rétt að mótmæla afstöðu slitastjórnar Landsbanka Íslands hf. til viðurkenningar á kröfunni og gerast þannig aðilar að ágreiningsmáli um hana. Aðild slitastjórnar að málinu lýtur að því að skýra fyrir dóminum nánar en fram kemur í framlögðum gögnum hvernig réttmæti kröfunnar var sannreynt, en einnig til þess að bregðast við þeim kröfum FSCS sem slitastjórn hefur hafnað. Hins vegar ber málatilbúnaður slitastjórnar þess vitni að ákveðið hafi verið að hafa takmörkuð afskipti af ágreiningi allra sóknaraðila og varnaraðilans FSCS um stöðu krafnanna í skuldaröð. Stendur 4. tl. 1. mgr. 171. gr. laga nr. 21/1991 því ekki í vegi. Fyrir vikið er óhjákvæmilegt að kröfuhafinn FSCS eigi aðild að málinu, bæði í því skyni að halda fram kröfum sínum gagnvart slitastjórn Landsbankans, en ekki síður til þess að taka til varna gagnvart kröfum allra sóknaraðila um að hafnað verði afstöðu slitastjórnar um viðurkenningu krafna hans sem forgangskröfu. Að öðrum kosti væru hagsmunir hans gróflega fyrir borð bornir, enda hefði hann þá engin tök á að koma að sjónarmiðum sínum vegna þessa ágreinings. Verður raunar ekki séð að lög nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., geri ráð fyrir öðru en að eigandi kröfu, sem ágreiningur stendur um, verði ávallt að eiga aðild að slíku ágreiningsmáli. Þegar af þeirri ástæðu verður hafnað kröfum sóknaraðilanna Arrowgrass Distressed Opportunities Fund Limited o.fl. og Bayerische Landesbank o.fl. um að vísa frá dómi aðild FSCS að ágreiningi um þær kröfur sem slitastjórn Landsbanka Íslands hf. hefur þegar samþykkt.

2.            Fjárhæð innstæðna á Icesave reikningum, innlausn og framsal krafna til FSCS og sannprófun lýstrar kröfu.

Sóknaraðilarnir Arrowgrass Distressed Opportunities Fund Limited o.fl. og Bayerische Landesbank o.fl. byggja á því að varnaraðilinn FSCS hafi ekki sýnt fram á að hann hafi með gildum hætti fengið framseldar kröfur innstæðueiganda á hendur Landsbanka Íslands hf. eða eignast þær með öðrum hætti. Telja þeir að innlausn og framsöl krafna lúti enskum lögum og hafi rafrænt greiðsluferli og framsal innstæðueigenda á kröfum þeirra til varnaraðilans FSCS farið í bága við réttarreglur enskra laga. Loks telja þeir fjárhæð kröfunnar ósannaða. 

Þeir aðilar, er láta sig þetta efni varða, miða við að ensk lög hafi gilt um innlausn þeirra krafna sem deilt er um og framsal til varnaraðilans FSCS. Með hliðsjón af því og ákvæðum 3. gr. laga nr. 43/2000, um lagaskil á sviði samningaréttar, verður lagt til grundvallar niðurstöðu um álitaefnið að um innlausn og framsal krafna fari samkvæmt enskum lögum, enda um einkaréttarlega samningsskuldbindingu að ræða. Fyrir liggur einnig að ekki er ágreiningur milli varnaraðilanna um fjárhæð krafna sem slitastjórn hefur samþykkt, tilvist þeirra og gildi framsala innstæðueigenda til varnaraðilans FSCS.

Í máli þessu hafa varnaraðilar gert grein fyrir því hvernig fjárhæð krafna var sannreynd og hvernig framsal einstakra krafna bar að. Fram hefur komið að útibú Landsbanka Íslands hf. í London hafi lítil sem engin afskipti haft af umsjón Icesave reikninganna, en dagleg umsýsla þeirra verið hjá dótturfélagi bankans, Heritable Bank Plc., og hjá Newcastle Building Society, sem samkvæmt þjónustusamningi hafi séð um tölvuvinnslu, bakvinnslu, uppgjör o.fl. Allar fjármagnshreyfingar sem tengst hafi Icesave reikningum hafi farið í gegnum sérstakan bankareikning hjá Barclays banka í Bretlandi og öllum greiðslum verið stýrt í gegnum Murex sjóðskerfi Landsbanka Íslands hf., sem síðan hafi sent heildarstöðu á reikningum til bókhaldskerfis bankans. Landsbankinn hafi einnig daglega fengið yfirlit frá Newcastle Building Society, þar á meðal upplýsingar um daglega heildarstöðu og heildarhreyfingar á þessum reikningum, sem notaðar hafi verið til þess að stemma af bókhald bankans. Bresk stjórnvöld hafi 8. október 2008 yfirtekið Heritable Bank og útibú Landsbanka Íslands hf. í London. Á grundvelli laga um varnir gegn hryðjuverkum, glæpum og um öryggi frá 2001 hafi eignir bankans verið kyrrsettar, sem og eignir sem tengst hafi honum. Að morgni 7. október 2008 hafi heimasíða Icesave í Bretlandi ekki lengur verið aðgengileg innstæðueigendum til þess að skoða stöðu reikninga eða biðja um millifærslur. Alls hafi þá um 220.000 einstaklingar átt tæplega 290.000 slíka reikninga.

Varnaraðilinn FSCS hafi tekið ákvörðun 4. nóvember 2008 um að sjá um og greiða Icesave innstæðueigendum út andvirði innstæðna þeirra í samræmi við svokallaðar „COMP“ reglur, en varnaraðilinn Landsbankinn hafi séð FSCS fyrir gögnum frá Newcastle Building Society um þá innstæðueigendur sem átt hafi gilda innlánsreikninga. Í kjölfarið hafi eigendur gildra Icesave innlánsreikninga tekið við greiðslu að andvirði innstæðna sinna fyrir tilstuðlan rafræns- eða skriflegs greiðsluferlis. Samkvæmt skilmálum greiðsluferlisins hafi innstæðueigendur þurft að samþykkja með skýrum hætti yfirfærslu og framsal á öllum þeim réttindum og kröfum sem fylgt hafi innstæðukröfum þeirra til varnaraðilans FSCS, hvort sem þær hafi verið á hendur Landsbankanum, Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta eða öðrum aðila, og hafi það verið skilyrði fyrir greiðslu frá varnaraðilanum FSCS. Greiðsla til innstæðueigenda hafi tekið mið af stöðu reikninga þeirra í lok dags 7. október 2008. Innstæðukrafan hafi hins vegar verið framseld að fullu, þar á meðal með rétti til vaxta frá og með 8. október 2008 til þess dags sem upphaflegur innstæðueigandi hafi móttekið greiðsluna frá FSCS, auk vaxta sem kynnu að falla til eftir greiðslu til innstæðueigenda. Starfsmenn Landsbanka Íslands hf. hafi framkvæmt sannprófun á öllum útgreiðslum sem framkvæmdar hafi verið af varnaraðilanum FSCS til innstæðueigenda. Sannprófunin hafi falist í því að bera saman bókhaldsgögn Landsbankans við greiðslustaðfestingar frá FSCS, þar sem hver einstök útgreiðsla hafi verið borin saman við gögn bankans til staðfestingar því að réttum aðila hafi verið borguð rétt upphæð við framsal á kröfum. Fyrir liggur einnig að í tengslum við fundi, sem haldnir hafi verið til að leitast við að jafna ágreining um kröfu varnaraðilans FSCS, hafi fulltrúum þeirra kröfuhafa sem mótmælt hefðu fjárhæðum verið boðið til kynningar á því hvernig fjárhæðir hafi verið sannprófaðar, auk þess sem kröfuhöfunum hafi verið gefið færi á því að koma með spurningar og fá nánari skýringar á einstökum þáttum. Þessar kynningar hafi farið fram 26. febrúar og 16. mars 2010. Dómendur og lögmenn aðila hafi jafnframt fengið sams konar kynningu á sannprófunarferlinu 16. mars sl. Loks hefur það komið fram að sóknaraðilar samþykktu að taka þátt í prófun þessa fyrirkomulags með því að velja sjálfir af handahófi númer innstæðueiganda og láta fara yfir útreikning á kröfu hans. Það hafi verið gert og hafi sú yfirferð staðfest að krafa þess innstæðueiganda hafi verið rétt reiknuð. 

Þrátt fyrir ofangreindar skýringar á sannprófunarferli krafna og það úrtak sem sóknaraðilar fengu sjálfir að velja af handahófi til að láta sannreyna útreikning kröfu, halda sóknaraðilarnir Arrowgrass Distressed Opportunities Fund Limited o.fl. og Bayerische Landesbank o.fl. við mótmæli sín gagnvart fjárhæðum í málinu. Í ljósi þess að sóknaraðilarnir hafa ekki getað sýnt fram á með neinum gögnum að útreikningar séu rangir, að dómendur hafa sjálfir verið viðstaddir yfirferð á því hvernig kröfur voru sannreyndar, án þess að verða varir við neinar misfellur í yfirferð, að ekki er ágreiningur á meðal varnaraðilanna um útreikning þessara krafna og loks með hliðsjón af þeirri staðreynd að ekki hefur einn einasti innstæðueigandi lýst samsvarandi kröfu og hér er til meðferðar við slit varnaraðilans Landsbanka Íslands hf., verður mótmælum sóknaraðilanna hafnað. Þess í stað verður lagt til grundvallar að fjárhæð lýstrar kröfu sé rétt.   

Í málinu er einnig ágreiningur um innlausn og framsal krafna. Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, yfirtekur tryggingarsjóður kröfu kröfuhafa á hendur hlutaðeigandi aðildarfyrirtæki eða þrotabúi. Frumvarp það sem varð að lögum nr. 98/1999 var samið í tengslum við tilskipun Evrópusambandsins um tryggingakerfi fyrir fjárfesta, nr. 97/9/EB, en tilskipunin kveður á um samræmdar reglur um lágmarksvernd fyrir fjárfesta sem eiga kröfu á hendur fyrirtæki í verðbréfaþjónustu og lánastofnanir í tengslum við viðskipti með verðbréf gegn greiðsluerfiðleikum viðkomandi fyrirtækis. Tilskipunin kemur í framhaldi af tilskipun um innstæðutryggingar, nr. 94/19/EB, sem sett var árið 1994. Sú tilskipun tryggir innstæðueigendur upp að vissu marki gegn greiðsluerfiðleikum viðskiptabanka og sparisjóða. Samkvæmt 11. gr. þeirrar tilskipunar hefur tryggingakerfi rétt til að ganga inn í kröfuréttindi innstæðueigenda við skiptameðferð sem svarar til fjárhæðarinnar sem greidd er, án þess að það hafi að öðru leyti áhrif á þau réttindi sem kerfið kann að eiga samkvæmt landslögum.

Samkvæmt breskum lögum um fjármálaþjónustu, Financial Services and Markets Act 2000, ber breskum yfirvöldum að koma á fót eftirlitskerfi með breskum fjármálamarkaði. Á þeim grundvelli gefur breska fjármálaeftirlitið út reglur á réttarsviðinu. Á meðal þeirra reglna eru svonefndar ,,COMP 15“ reglur, sem kveða á um greiðslu innstæðutrygginga, en af efni reglnanna verður ráðið að með því hafi tilskipun nr. 94/19/EB, um innistæðutryggingar, verið innleidd í breskan rétt. Með yfirlýsingu breska fjármálaeftirlitsins 4. nóvember 2008, sem gefin var út á grundvelli nefndra ,,COMP 15“ reglna, ákvað breska fjármálaeftirlitið að innleysa kröfur breskra innstæðueigenda vegna Icesave innlánsreikninganna. Að mati dómsins hefur efni hinna erlendu réttarreglna nægjanlega verið leitt í ljós, sbr. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991, en efni þetta er í samræmi við ákvæði laga nr. 98/1999. Hefur innlausn krafna innstæðueigenda farið fram á lögmæltum grundvelli og í samræmi við 11. gr. tilskipunar 94/19/EB.  

Áður hefur verið að því vikið að um efnislegt innihald þeirrar kröfu sem um er deilt í þessu máli fari samkvæmt enskum lögum. Sóknaraðilar miða við að um framsalið gildi ákvæði enskra laga um eignarrétt, eða Law of Property Act 1925, en 136. gr. þeirra laga mæli m.a. fyrir um að framsal sé því einungis gilt að það sé ritað eigin hendi. Framsal þeirra krafna sem um ræði í þessu máli hafi borið að með þeim hætti að meirihluti innistæðueigenda hafi framselt kröfur sínar rafrænt. Varnaraðilar miða hins vegar við að framsalið sé gilt eftir öðrum réttarheimildum. 

Í málsskjölum er að finna enska útgáfu af umræddri 136. gr. laganna frá 1925, en íslensk þýðing fylgir skjalinu. Samkvæmt þýðingunni þarf framsal m.a. að vera skriflegt af hendi framseljanda, en í frumtexta er miðað við að framsalið skuli vera skriflegt og ,,… under the hand of the assignor ...“ Í málinu er óumdeilt að stærstur hluti innstæðueigenda framseldu varnaraðilanum FSCS kröfur sínar rafrænt, en öll meðferð Icesave innstæðureikninga var rafræn, svo sem áður var lýst. Meðal gagna málsins er einnig minnisblað lögmannsstofunnar Morrison & Foerster frá 2. september 2010. Skjal þetta er á ensku, en var lagt fyrir dóminn í íslenskri þýðingu við flutning málsins fyrir dómi. Kemur þar fram að á réttarsviðinu gildi lög um rafræn samskipti eða Electronic Communications Act 2000. Er þar og gerð grein fyrir samspili nefndrar 136. gr. laganna frá 1925 og 7. gr. laga um rafræn samskipti frá 2000 og komist að þeirri niðurstöðu að þrátt fyrir 136. gr. laganna frá 1925 sé unnt að framselja kröfur rafrænt með stoð í 7. gr. laga um rafrænu samskiptin. 

Við úrlausn um það álitaefni hvort framsal krafna hafi verið gilt að enskum rétti hefur dómurinn einvörðungu við að styðjast og er bundinn af málatilbúnaði aðila. Að því er varðar hin rafrænu framsöl liggur fyrir í gögnum málsins að áður en innstæðueigendur framseldu kröfur sínar þurftu þeir að skrá inn persónuauðkenni sín í formi notendanafns og leyniorðs áður en þeir komust inn á vefsvæði Icesave innlánsreikninga sinna. Eftir það þurftu þeir að staðfesta lestur leiðbeininga og samninga á mismunandi skjásvæðum, en með þeim hætti voru þeir leiddir í gegnum ákveðið samþykkisferli. Fram kemur að öll réttindi og allar kröfur sem innstæðueigendur kynnu að eiga á hendur Landsbankanum og þriðja aðila myndu færast yfir og væru framseldar varnaraðilanum FSCS. Ítrekað er tekið fram hverju samþykki varði og áframhaldandi ferli á vefsvæðinu. Að mati dómsins felst í þessu ferli tvennt sem mestu skiptir um það hvort til álita komi að um framsal sé að ræða í samræmi við 7. gr. laganna um rafrænu samskiptin frá 2000. Annað atriðið er að innstæðueigandi gat ekki komist inn á vefsvæði sitt nema með því að skrá inn nákvæmar auðkennisupplýsingar sem hann einn átti að hafa í fórum sínum. Hitt atriðið er að innstæðueigandinn var skýrlega aðvaraður um að samþykki fæli í sér framsal á innstæðukröfunni til varnaraðilans FSCS, en það samþykki varð hann að veita með virkri athöfn sem fólst í því að slá á „enter“ takka á þeirri tölvu er hann vann við. 

Þegar framangreind atriði eru virt og til þess litið að enginn innstæðueigandi hefur lýst samsvarandi kröfu og varnaraðilinn FSCS, er það mat dómsins að FSCS hafi tekist sönnun þess að kröfur þær sem hann hefur lýst í málinu hafi réttilega verið framseldar honum. Að þeirri niðurstöðu fenginni þykir ekki þörf á að fjalla um þá málsástæðu sóknaraðila er lýtur að framsali á grundvelli sanngirnisréttar.  

3.            Stjórnskipulegt gildi laga nr. 125/2008 og 44/2009.

Sóknaraðilar byggja á því að jafnvel þótt dómurinn kæmist að þeirri niðurstöðu að framsöl fyrrum eigenda Icesave reikninga í Bretlandi til FSCS séu gild og hafi réttaráhrif, hafi slitastjórn Landsbanka Íslands hf. engu að síður verið óheimilt að viðurkenna kröfu varnaraðilans sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., þar sem ákvæði þessa efnis í lögum nr. 125/2008 brjóti gegn ákvæðum stjórnarskrár, mannréttindasáttmála Evrópu, samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sem og almennum meginreglum stjórnskipunarréttarins um meðalhóf, réttmætar væntingar, afturvirkni og fyrirsjáanleika laga. Sóknaraðilarnir Arrowgrass Distressed Opportunities Fund Limited o.fl. og Bayerische Landesbank o.fl. byggja að auki á því að uppskipting bankanna og endurfjármögnun nýju bankanna hafi verið sömu annmörkum háð og eigi einnig að leiða til þess að hafnað verði forgangsrétti kröfu FSCS. Varnaraðilinn FSCS mótmælir öllum staðhæfingum sóknaraðila og bendir á að lög nr. 125/2008 séu stjórnskipulega gild lög sem byggja verði á við ákvörðun um stöðu kröfu hans í réttindaröð. Þá byggir hann á því að kæmist dómurinn að þeirri niðurstöðu að með setningu umræddra laga hafi verið brotið gegn stjórnarskrárvörðum réttindum sóknaraðila, yrðu þeir að sækja hugsanlegar kröfur sínar á hendur íslenska ríkinu.

Í máli þessu, sem að stærstum hluta snýst um það álitaefni hvort krafa varnaraðila njóti forgangs við slitameðferð Landsbanka Íslands á grundvelli 6. gr. laga nr. 125/2008, sbr. nú 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, getur ekki komið til neinnar skoðunar hvort önnur ákvæði þeirra laga, eða nátengdrar löggjafar, er ekki lúta að forgangi innstæðna, fari gegn ákvæðum stjórnarskrár eða mannréttindasáttmála Evrópu. Er þannig með öllu ástæðulaust að fjalla hér um málsástæður Arrowgrass Distressed Opportunities Fund Limited o.fl. og Bayerische Landesbank o.fl. sem lúta að öðrum aðgerðum ríkisvaldsins í kjölfar setningar laga nr. 125/2008, svo sem uppskiptingu bankanna, framsali víðtæks valds til Fjármálaeftirlitsins, fjárveitingar til nýju bankanna og meinta ólögmæta ríkisaðstoð, enda tengjast þær aðgerðir ekki því álitaefni sem hér er til úrlausnar. Af sömu ástæðu þykir heldur ekki tilefni til að fjalla sérstaklega um hugleiðingar sömu aðila um aðgerðir eða aðgerðaleysi íslensku ríkisstjórnarinnar og stjórnvalda í aðdraganda fjármálakreppunnar og bankahrunsins, svo og meðan á því stóð, og ályktanir þeirra um að íslenska ríkið hafi með því brugðist jákvæðum aðgerðaskyldum sínum samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu til þess að vernda eignarrétt þeirra.

Samkvæmt 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944 er eignarrétturinn friðhelgur og má engan skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir. Efni 1. gr. fyrsta samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu er í megindráttum hið sama. Umfjöllunarefnið í þessum þætti málsins snýr í raun einungis að því hvort umrætt ákvæði 6. gr. laga nr. 125/2008 kunni að fara í bága við 72. gr. stjórnarskrárinnar, með þeim afleiðingum að henni verði ekki beitt svo gilt sé, en lýtur hins vegar ekki að því hvort íslenska ríkið kunni að hafa bakað sér bótaskyldu vegna lagasetningarinnar. Verður því einungis úr því leyst með tilliti til ákvæðis 72. gr. stjórnarskrárinnar, og þá með hliðsjón af túlkun á ákvæðum mannréttindasáttmála Evrópu og meginreglum EES-samningsins.

Með 6. gr. laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði, sem tóku gildi 7. október 2008, oft kölluð neyðarlög, var svohljóðandi ákvæði bætt við 103. gr. laga nr. 161/2002, um fjármála­fyrirtæki: „Við skipti á búi fjármálafyrirtækis njóta kröfur vegna innstæðna, samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, rétthæðar skv. 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl.“ Orðalagi ákvæðisins var lítillega breytt með 6. gr. laga nr. 44/2009 og ákvæðið þá fellt undir 3. mgr. 102 gr. laga nr. 161/2002. Með 9. gr. laga nr. 125/2008 var einnig breytt 3. mgr. 10. gr. laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta nr. 98/1999, og bættist þá við nýr málsliður, svohljóðandi: „Krafa sjóðsins nýtur rétthæðar í samræmi við 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. við gjaldþrotaskipti, en ella er hún aðfararhæf án undangengins dóms eða sáttar.“ Telja sóknaraðilar, sem allir eru eigendur krafna sem hafa stöðu almennra krafna við slitameðferð Landsbanka Íslands hf., að þessar aðgerðir ríkisins hafi falið í sér óheimila skerðingu á verðmæti kröfuréttinda þeirra og valdið þeim umtalsverðu tjóni. Hafi stöðu þessara krafna og verðmæti verið breytt eftir á með setningu laganna og fái slík lagasetning ekki staðist. Þá hafi þeir haft lögmætar væntingar, sem varðar séu af 72. gr. stjórnarskrárinnar, um að kröfur þeirra nytu sambærilegrar stöðu og kröfur innstæðueigenda, kæmi til greiðsluþrots banka.

Fallist er á það með sóknaraðilum að kröfur þeirra teljist eignarréttindi í víðtækri merkingu þess orðs og njóti því verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þegar hins vegar er leyst úr því hvort ákvæði 6. gr. laga nr. 125/2008 hafi haft í för með sér slíka skerðingu á réttindum sóknaraðilanna að samsvari eignarnámi eða feli í sér svo almenna takmörkun á eignarrétti þeirra að fari í bága við 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrárinnar verður meðal annars að líta til eðlis þeirra ráðstafana sem hér um ræðir, hversu víðtækar og almennar þær voru, markmiðs þeirra og afleiðinga, en einnig til þess hvaða aðstæður voru uppi í þjóðfélaginu þegar gripið var til þeirra. Jafnframt ber að hafa í huga að löggjafinn getur á grundvelli 2. gr. stjórnarskrárinnar sett eignarrétti manna margvíslegar takmarkanir og hefur almennt verið gengið út frá því að hann hafi nokkurt svigrúm til að meta umfang þeirra.

Þótt ljóst sé að setningu laga nr. 125/2008 hafi borið brátt að, og lögskýringargögn af þeim sökum fremur fábrotin, fer ekki á milli mála að lögin voru sett með stjórnskipulega réttum hætti, í því skyni að bregðast við sérstökum aðstæðum á fjármálamarkaði, eins og heiti laganna gefur skýrlega til kynna. Í athugsemdum sem fylgdu frumvarpinu kemur fram að hremmingar hafi dunið yfir fjármálamarkaði, bæði hér heima og erlendis, sem einkum lýsi sér í skorti á lausafé vegna takmarkaðs lánsframboðs. Hafi íslensk fjármálafyrirtæki ekki farið varhluta af þessu ástandi fremur en fjármálafyrirtæki í öðrum löndum. Við þessar erfiðu aðstæður hafi stjórnvöld víða um heim neyðst til að grípa til ráðstafana er miði að því að tryggja virkni fjármálakerfisins og efla traust almennings á því. Fram kemur þar einnig að fyrirhugaðar breytingar eru lagðar til í því skyni að gera stjórnvöldum kleift að bregðast við því ástandi sem ríkir á fjármálamörkuðum. Af umræðum við meðferð frumvarpsins, svo og áliti viðskiptanefndar Alþingis, verður séð að brýn nauðsyn var talin á að bregðast skjótt við þeim sérstöku og óvenjulegu aðstæðum sem upp voru komnar, og jafnað var við neyðarástand, en ella væri hætta á hruni allrar bankastarfsemi og greiðslukerfa í landinu, og þar með alls efnahagslífs. Í framsöguræðu forsætisráðherra um frumvarpið sagði hann svo um fyrirhugaðar breytingar á lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta: „Þær felast m.a. í því að lagt er til að innstæður séu forgangskröfur við gjaldþrotaskipti. Það er mikilvægt atriði sem ekki hefur verið lögfest áður en er til að ítreka yfirlýsingar mínar og ríkisstjórnarinnar um að innstæður í íslenskum bönkum og sparisjóðum eru tryggðar og ef tryggingarsjóður er ekki nægjanlega öflugur til að sinna þeim skyldum mun ríkissjóður gera það.“ Að öðru leyti kemur ekki fram í skýringum við 6. og 9. gr. frumvarpsins frekari útskýring á markmiði þeirra ráðstafana að breyta kröfum vegna innstæðna í forgangskröfur.

Eins og fyrr greinir var með 6. gr. laga nr. 125/2008 gerð breyting á þeirri skipan sem fyrir var um réttindaröð krafna við slitameðferð fjármálastofnana. Tóku lögin þegar gildi og gilti ákvæðið því við slitameðferðir þeirra fjármálafyrirtækja sem tekin voru til slitameðferðar eftir þann tíma. Ekki er á það fallist með sóknaraðilum að með lögfestingu ákvæðisins hafi þeir verið sviptir eignum sínum, þannig að jafna megi til eignarnáms samkvæmt 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár. Er þá sérstaklega til þess horft að umrætt ákvæði beinist hvorki að tilgreindum eignum sóknaraðila, né skyldar það þá til afhendingar þeirra eigna öðrum til handa. Hins vegar veitir ákvæðið kröfum af sama tagi, þ.e. innstæðukröfum, betri rétt en þær höfðu áður, og beinist þannig að ótilgreindum hópi kröfuhafa, innstæðueigendum. Þótt fyrirsjáanlegt væri að umrædd breyting á skipan krafna í réttindaröð kynni hugsanlega að valda því að almennir kröfuhafar fengju fyrir bragðið minna til úthlutunar upp í sínar kröfur við slitameðferð, og sumir jafnvel ekki neitt, verður ekki talið að slík breyting sé í eðli sínu eignarnám, enda eiga kröfuhafar ekki heimtingu á greiðslu krafna sinna, sem jafna megi til eignar, komi til greiðsluþrots. Þeir eiga hins vegar rétt til að lýsa kröfum sínum, en endurheimt krafnanna ræðst af stöðu þeirra í réttindaröð og þeim eignum sem til skipta koma. Í þessu sambandi er minnt á að þótt ekki séu á þessari stundu líkur á að mikið komi til úthlutunar upp í almennar kröfur við slitameðferð Landsbanka Íslands hf., er því alls ekki svo farið hjá öðrum fjármálafyrirtækjum sem eins háttar til um.

Ljóst er að oftnefndar breytingar á réttindaröð krafna voru lögfestar án fyrirvara, sem skýrist af  þeirri brýnu nauðsyn sem talin var á að bregðast skjótt við aðsteðjandi vanda. Sú aðgerð ein og sér leiðir þó ekki til þess að unnt sé að slá því föstu að um afturvirka lagasetningu sé að ræða. Vegur þar þyngst að slitameðferð Landsbanka Íslands hf. var ekki hafin þegar lögin tóku gildi, og hófst raunar ekki fyrr en 22. apríl 2009. Ekkert liggur heldur fyrir um að kröfur sóknaraðila hafi verið gjaldfallnar við gildistöku laganna. Þótt sóknaraðilar kunni e.t.v. að hafa haft lögmætar væntingar um að kröfur þeirra nytu sambærilegrar stöðu og kröfur innstæðueigenda, ef til greiðsluþrots kæmi, geta slíkar væntingar ekki bundið hendur löggjafans til að ákvarða með almennum og málefnalegum hætti hvernig háttað skuli skuldaröð við sameiginlega fullnustugerð skuldara, jafnvel þótt einhverjir kunni að verða fyrir áhrifum af slíkri lagasetningu. Því síður verður talið að slík sjónarmið eigi við í því óvenjulega ástandi sem hér ríkti á umræddum tíma. Eru þess og ótal dæmi að löggjafinn hafi sett reglur um takmarkanir á eignarréttindum eftir að til þeirra er stofnað, án þess að talið hafi verið að slíkt færi í bága við 72. gr. stjórnarskrárinnar. Verður því ekki fallist á þau rök sóknaraðila að þeir eigi stjórnarskrárvarinn rétt til þess að verða meðhöndlaðir í samræmi við þær forgangsreglur gjaldþrotaskiptalaga, sem giltu þegar samningar þeirra við Landsbanka Íslands hf. komust á. Þá hefur ekkert komið fram um að stjórnvöld hafi, á þeim tíma sem sóknaraðilar eignuðust kröfur sínar, aðhafst eitthvað það sem gefið hafi sóknaraðilum ástæðu til að ætla að breytingar yrðu ekki gerðar á réttindaröð við gjaldþrotaskipti á fjármálastofnunum, jafnvel í neyðarástandi. Loks ber að árétta að enda þótt eigendum innstæðna hafi með hinni umdeildu lagasetningu verið veittur forgangur í kröfuröð umfram aðra almenna kröfuhafa liggur ekki fyrir í hve ríkum mæli sú breyting hefur haft áhrif á kröfur sóknaraðila eða almennra kröfuhafa við skipti annarra fjármálafyrirtækja sem einnig sæta slitameðferð. Nægir því ekki að einblína á stöðu sóknaraðila í þessu máli, þar sem umrædd lagabreyting hafði sömu áhrif á stöðu allra þeirra kröfuhafa sem eins var ástatt um og lýstu kröfum við slitameðferð hinna föllnu banka.

Hér að framan er stuttlega fjallað um aðdraganda að setningu laga nr. 125/2008. Af lögskýringargögnum verður ráðið að lögin voru sett með það að markmiði að tryggja almannahagsmuni og í því skyni að endurreisa fjármálalegan stöðugleika. Nægir í því sambandi að vísa til framsöguræðu forsætisráðherra og ræðu viðskiptaráðherra við 1. umræðu frumvarpsins á Alþingi. Um leið var ætlunin að viðhalda trausti einstaklinga og fyrirtækja á því að innstæður þeirra yrðu tryggðar og að bankastarfsemi yrði áfram haldið gangandi. Með því var komið í veg fyrir áhlaup á bankana og samhliða tryggð virkni bankakerfisins, sem var nauðsynleg forsenda þess að ekki yrði hér efnahagslegt hrun. Þá verður og að telja að forgangsákvæðið hafi verið óhjákvæmilegt til að tryggja að ríkið gæti staðið undir þeirri ábyrgð á innstæðum sem bæði forsætisráðherra og ríkisstjórn hafði áður lýst yfir að gilti um innstæður, jafnt innlendra sem erlendra aðila. Samkvæmt því verður á það fallist með varnaraðilum að brýna nauðsyn hafi borið til að velja þessa leið til að forða ríkinu frá yfirvofandi greiðsluþroti og samfélaginu frá efnahagshruni. Helguðust aðgerðir ríkisvaldsins þannig augljóslega af ríkum almannahagsmunum, til verndar ótilgreindum hópi innstæðueigenda, þótt jafnframt hafi þær um leið beinst að öllum eignum af tilteknu tagi, þ.e. almennum kröfum. Í þessu ljósi verður að telja að með setningu neyðarlaganna hafi verið stefnt að lögmætu markmiði. Þá verður og að telja, með hliðsjón af þeim aðstæðum sem uppi voru við umrædda lagasetningu, að sóknaraðilar hafi ekki sýnt fram á að aðgerðir þessar hafi gengið lengra en brýna nauðsyn bar til í því skyni að ná því markmiði að forða þjóðinni frá efnahagslegu hruni og tryggja þar með hag hins almenna borgara. 

Þegar til alls framangreinds er litið er það niðurstaða dómsins að sóknaraðilar hafi hvorki sýnt fram á að umdeilt ákvæði um forgangsrétt innstæðna í 6. gr. laga nr. 125/2008 hafi skert eignarréttindi þeirra með afturvirkum hætti, þannig að færi í bága við 72. gr. stjórnarskrárinnar, né að fulls meðalhófs hafi ekki verið gætt við setningu þess. Sú niðurstaða leiðir einnig til þess að ekki er fallist á þau rök sóknaraðila að umrædd lagabreyting sé í andstöðu við 1. gr. fyrsta samningsviðauka mannréttindasáttmála Evrópu.

Sóknaraðilar byggja einnig á því að ákvæði 6. gr. laga nr. 125/2008 og síðar 6. gr. laga nr. 44/2009 fari í bága við 65. gr. stjórnarskrárinnar, 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 26. gr. samningsins um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, með þeim afleiðingum að ákvæðinu verði ekki beitt svo gilt sé. Telja þeir að ákvæðið feli í sér beina og óbeina mismunun gagnvart kröfuhöfum, sem allir hafi áður verið í sömu stöðu, og að með lögfestingu þess hafi jafnræði aðila verið raskað þar sem kröfur þeirra hafi verið sambærilegar fyrir lagabreytinguna.

Dómurinn hafnar þessum röksemdum, enda verður á engan hátt séð að með lögfestingu tilvitnaðra ákvæða hafi löggjafinn mismunað kröfuhöfum á grundvelli þjóðernis eða stöðu þeirra að öðru leyti. Þvert á móti liggur fyrir að ákvæðin gilda jafnt um innstæður innlendra sem erlendra ríkisborgara, án tillits til stéttar eða stöðu. Einnig er hafnað því sjónarmiði að kröfuhafar hafi fyrir setningu laga nr. 125/2008 verið í sambærilegri stöðu þar sem kröfur þeirra hafi verið sambærilegar. Hið rétta er að kröfur innstæðueigenda eru ekki sambærilegar kröfum sóknaraðila. Er þá jöfnum höndum litið til eðlis krafnanna, úrræða kröfueigenda til greiðslu þeirra, ólíkra möguleika kröfuhafa til að tryggja hagsmuni sína og síðast en ekki síst til nauðsynjar þess fyrir banka- og fjármálakerfi að innstæðueigendur geti treyst því að sparnaður þeirra sé í öruggum höndum. Alkunna er að skortur á slíku trausti getur leitt til áhlaups á banka með alvarlegum afleiðingum fyrir stöðugleika fjármálakerfisins og jafnvel efnahagshruns. Með sömu rökum stoðar ekki sóknaraðila að vísa til ákvæða 4. og 40. gr. EES-samningsins.

Samkvæmt framanrituðu er það niðurstaða dómsins að ákvæði laga um forgang innstæðna, sbr. nú 3. mgr. 102 gr. laga nr. 161/2002, brjóti hvorki gegn ákvæðum 72. gr. eða 65. gr. stjórnarskrárinnar né mannréttindasáttmála Evrópu eða samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Að þeirri niðurstöðu fenginni er ekki ástæða til að fjalla um málsástæður sóknaraðila sem lúta að stjórnskipulegum neyðarrétti.

4.  Lágmarkstrygging samkvæmt lögum nr. 98/1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, 20.887 evrur.

Hluti sóknaraðila gerir þá varakröfu, verði ekki fallist á aðalkröfu þeirra um að hafna alfarið ákvörðun slitastjórnar um að viðurkenna kröfu FSCS sem forgangskröfu, að forgangsrétturinn taki að hámarki til 20.887 evra fyrir hvern innstæðueiganda. Byggist krafa þeirra á því að í 6. gr. laga nr. 125/2008 sé vísað til innstæðna samkvæmt lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta nr. 98/1999, en samkvæmt þeim lögum ábyrgist Tryggingarsjóður innstæðueigenda aðeins innstæður að hámarki 20.887 evrur.

Málsástæða sóknaraðila á sér hvorki stoð í texta margnefndrar 6. gr. laga nr. 125/2008, almennum athugasemdum með lögunum né öðrum lögskýringargögnum. Ekki verður heldur séð að hún styðjist við ákvæði laga nr. 98/1999. Í 1. mgr. 9. gr. þeirra laga kemur fram að sé aðildarfyrirtæki að áliti Fjármálaeftirlitsins ekki fært um að inna af hendi greiðslu á andvirði innstæðu skuli Tryggingarsjóður innstæðueigenda greiða viðskiptavini aðildarfyrirtækisins andvirði hennar. Samkvæmt 3. mgr. sömu greinar er innstæða samkvæmt 1. mgr. skilgreind þannig að átt sé við „innstæðu sem tilkomin er vegna innláns eða millifærslu í hefðbundinni almennri bankastarfsemi og viðskiptabanka eða sparisjóði ber að endurgreiða samkvæmt skilmálum er gilda samkvæmt lögum eða samningum“. Þá segir í 1. mgr. 10. gr. sömu laga að hrökkvi eignir sjóðsins ekki til þess að greiða heildarfjárhæð tryggðra innstæðna skuli greiðslu skipt þannig milli kröfuhafa að krafa hvers þeirra, allt að fjárhæð 1,7 milljónum króna, bundið kaupgengi evru 5. janúar 1999, skuli greidd að fullu, en allt sem umfram er þá fjárhæð skuli bætt hlutfallslega jafnt eftir því sem eignir hrökkvi til.

Tilvísun 6. gr. laga nr. 125/2008 til laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta nr. 98/1999 er augljóslega til þess að undirstrika að með innstæðuhugtakinu í fyrrnefndu lögunum sé átt við skilgreiningu þess í síðarnefndu lögunum, og segir þar ekkert um að forgangur innstæðna skuli takmarkast við þær lágmarksbætur sem kveðið er á um í lögum nr. 98/1999. Þá er sú staðhæfing sóknaraðila að Tryggingarsjóður innstæðueigenda ábyrgist aðeins innstæður að hámarki 20.887 evrur í hæsta máta ónákvæm, að því leyti að slíkt á aðeins við í þeim tilvikum er eignir sjóðsins hrökkva ekki til að greiða heildarfjárhæð tryggðrar innstæðu, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1999. Hrökkvi eignir til ber hins vegar Tryggingarsjóðnum að annast greiðslu á heildarfjárhæð innstæðunnar. Samkvæmt þessu verður ekki fallist á þau rök sóknaraðila að forgangur innstæðna takmarkist við lágmarkstryggingu samkvæmt lögum nr. 98/1999 að fjárhæð 20.887 evrur. Sú niðurstaða hefur þó engin áhrif á rétt varnaraðilans FSCS til þess að krefjast forgangsréttar fyrir heildarfjárhæð kröfu sinnar við slit Landsbanka Íslands hf.

Í máli þessu hefur ekkert komið fram sem hnekkt getur þeirri niðurstöðu slitastjórnar Landsbanka Íslands hf. að FSCS hafi með gildum og bindandi hætti eignast þær innstæðukröfur sem mynda samþykktan höfuðstól kröfunnar. Því síður hafa sönnur verið færðar á að fjárhæð kröfunnar sé röng. Er því engin ástæða til að verða við kröfu sóknaraðilanna Arrowgrass Distressed Opportunities Fund Ltd o.fl. og Bayerische Landesbank o.fl. um að lækka fjárhæð kröfunnar. Slitastjórn taldi sér hins vegar ekki fært að fallast á kröfu FSCS að fjárhæð 1.375.725,96 sterlingspund, sem til er komin vegna millifærslu 76 einstaklinga á fjárhæðum inn á reikninga bankans, áður en búið var að opna reikninga í þeirra nafni. Skilmálum Icesave reikninga hafi þannig ekki verið fullnægt og geti því umræddar fjárhæðir ekki talist innstæður í skilningi laga nr. 98/1999. Breyti engu í því efni þótt FSCS hafi endurgreitt eigendum fjárhæðir þeirra. Þar sem FSCS hefur ekki sýnt fram á að Landsbankinn hafi stofnað innlánsreikninga vegna millifærslna umræddra einstaklinga á fjármunum til bankans verður að fallast á þau rök slitastjórnar að krafa þessi njóti ekki forgangsréttar sem innstæða í skilningi laga nr. 98/1999. Samkvæmt því verður staðfest sú afstaða slitastjórnar að viðurkenna beri höfuðstól kröfu FSCS, samtals 4.308.422.006,78 sterlingspund, sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, við slit Landsbanka Íslands hf. Svarar sú fjárhæð til 823.253.277.056 íslenskra króna. Koma þá til skoðunar kröfur FSCS um vexti og áfallinn kostnað til 22. apríl 2009.

5.            Vextir. 

Samkvæmt endanlegri kröfugerð FSCS gerir hann í málinu aðallega kröfu um dráttarvexti samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, á gjaldfallnar innstæður frá gjalddaga þeirra til 22. apríl 2009. Samkvæmt 1. varakröfu er krafist dráttarvaxta á gjaldfallnar innstæður frá gjalddaga þeirra til 22. apríl 2009, sem reiknast sem grunnvextir Englandsbanka, að viðbættu vanefndaálagi samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001. Í 2. varakröfu er krafist dráttarvaxta á gjaldfallnar innstæður frá gjalddaga þeirra til 22. apríl 2009, sem reiknast samkvæmt enskum vaxtalögum, 8% á ársgrundvelli. Samkvæmt 3. varakröfu gerir hann kröfu um dráttarvexti á gjaldfallnar innstæður frá gjalddaga þeirra til 22. apríl 2009, sem reiknast sem samningsvextir að viðbættu vanefndaálagi að mati dómsins. Loks krefst hann í 4. varakröfu dráttarvaxta á gjaldfallnar innstæður frá gjalddaga þeirra til 22. apríl 2009, sem reiknast sem samningsvextir að fjárhæð 100.853.935,24 sterlingspund. Í öllum tilvikum er tekið fram að til gjaldfallinna innstæðna teljist óbundnar innstæður frá 8. október 2008.     

Varnaraðili, Landsbanki Íslands hf., hefur í öllum tilvikum hafnað framangreindum vaxtakröfum og einungis viðurkennt samningsvexti af samþykktri höfuðstólsfjárhæð. Hluti sóknaraðila, þ.e. Arrowgrass Distressed Opportunities Fund Ltd. o.fl., og Bayerische Landesbank o.fl., telur að ef komist verði að því að höfuðstóll kröfu FSCS skuli njóta forgangs, njóti kröfur um vexti eftir 6. október 2008 ekki forgangsréttar við úthlutun.

Í 1. tl. 114. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., er mælt fyrir um að kröfur um vexti, verðbætur, gengismun og kostnað af innheimtu kröfu samkvæmt 112. eða 113. gr. laganna, sem hafa fallið til eftir að úrskurður gekk um að búið sé tekið til gjaldþrotaskipta, séu eftirstæðar kröfur. Með gagnályktun verður vaxtakrafa varnaraðilans FSCS fram til 22. apríl 2009 því viðurkennd með kröfunni sem forgangskrafa.

Í lögum nr. 43/2000, um lagaskil á sviði samningaréttar, segir í 1. mgr. 3. gr. að um samninga skuli beita þeim lögum sem samningsaðilar hafa valið berum orðum eða þeim lögum sem með vissu verða talin leiða af samningnum sjálfum eða öðrum atvikum. Síðan segir að samningsaðilar geti samið svo um að þau lög sem vísað er til skuli gilda um samninginn í heild eða aðeins um tiltekinn hluta hans. Óumdeilt er að í skilmálum Landsbankans um innstæðurnar, kemur fram að ensk lög skuli gilda um þá samningsskuldbindingu. Samkvæmt því verður ákvæðum enskra laga beitt um rétt FSCS til að krefjast vaxta af kröfu sinni. Af því leiðir að hvorki verður fallist á aðalkröfu varnaraðilans um íslenska dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, né 1. varakröfu hans um vexti samkvæmt grunnvöxtum Englandsbanka, að viðbættu vanefndaálagi samkvæmt 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001.

Verður þá vikið að 2. varakröfu FSCS, um 8% vexti á ársgrundvelli samkvæmt enskum lögum. Byggist krafan á ákvæðum 1. mgr. 17. gr. enskra laga um dómsúrskurði frá 1838 (Judgements Act). Slitastjórn Landsbanka Íslands hf. hefur hafnað kröfunni með vísan til þess að þær ensku lagareglur sem FSCS byggi á geti ekki átt við um erlent útibú á Bretlandi, auk  þess sem ekki hafi verið sýnt fram á efni hinna ensku réttarreglna sem hér verði lagðar til grundvallar.

Í málinu liggur frammi samantekt ensku lögmannsstofunnar Morrison & Foerster, sem varnaraðili, Landsbanki Íslands hf., aflaði og lagði fram í íslenskri þýðingu. Samkvæmt samantektinni, sem hefur að geyma yfirlit um ákvæði evrópskra laga um vexti og kostnað, eru meðal annars rakin ákvæði um vexti samkvæmt breskri reglugerð um greiðsluþrot frá 1986 (Insolvency Rules 1986). Í 93. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um á hvaða grunni kröfuhafi við gjald­þrota­skipti geti krafist vaxta af skuld. Þar segir í 1. tölulið ákvæðisins að þegar samþykkt krafa beri vexti verði þeir samþykktir sem hluti skuldarinnar, að undan­skild­um þeim hluta vaxtanna sem falla í gjalddaga eftir upphafsdag skipta. Í 2. tölulið segir að við eftirfarandi aðstæður geti kröfur tekið til vaxta á skuld vegna tímabils fyrir upphafsdag skipta enda þótt þeir hafi ekki verið áskildir eða fyrir fram umsamdir. Í 3. tölulið segir að ef skuldin byggir á skriflegu skjali og er gjaldkræf á tilteknum tíma verði krafist vaxta fyrir tímabilið frá þeim degi til viðkomandi dags. Samkvæmt sömu málsgrein merkir „viðkomandi dagur“ hér þann dag sem félag varð gjaldþrota eða tekið til skilameðferðar. Þá segir í 6. tölulið að vextir sem krafist verði samkvæmt 3. tölulið séu þeir vextir sem gildi sam­kvæmt 17. gr. breskra laga um dóma frá 1838 á upphafsdegi skipta. Óumdeilt er að þeir vextir voru 8% ársvextir. Þar sem hver innstæðueigandi framseldi FSCS kröfu sína að fullu, þar á meðal með rétti til vaxta frá og með 8. október 2008 til þess dags sem FSCS greiddi eiganda andvirði innstæðunnar, verður að fallast á það með FSCS að hann eigi rétt til vaxta frá þeim degi samkvæmt tilvitnuðu ákvæði 93. mgr. 4. gr. reglugerðar um greiðsluþrot frá 1986. Reiknast vextirnir af hverri gjaldkræfri skuld, en ekki er um það deilt að óbundnar innstæður Icesave reikningseigenda voru gjaldkræfar hvenær sem krafist var. Að þessu leyti þykir því ekki skipta máli þótt ekki hafi gengið dómur í Englandi um kröfu FSCS á hendur Landsbanka Íslands hf. Jafnframt er það mat dómsins að með fullnægjandi hætti hafi verið sýnt fram á efni og tilvist þeirra ensku réttarreglna sem beitt verður við úrlausn á ágreiningi aðila um vexti af  höfuðstólsfjárhæð kröfu FSCS, sbr. 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Ekki er ágreiningur milli varnaraðilanna um vaxtafót samningsvaxta eða á hvaða tímabili skuli reikna vexti eða eftir atvikum dráttarvexti. Verður því fallist á kröfu FSCS um að greiða beri 8% dráttarvexti af kröfum vegna óbundinna innstæðna frá 8. október 2008 til upphafsdags slitameðferðar Landsbanka Íslands hf., 22. apríl 2009, og sömu vexti frá gjalddaga bundinna innstæðna til sama tíma. Aðrar vaxtakröfur FSCS koma þar af leiðandi ekki til skoðunar dómsins.

6.   Áfallinn kostnaður.

Varnaraðilinn FSCS krefst þess að áfallinn kostnaður til og með 22. apríl 2009, alls að fjárhæð 6.852.380,20 sterlingspund, verði samþykktur sem forgangskrafa við slitameðferð Landsbanka Íslands hf. Kröfunni til stuðnings byggir hann einkum á því að með gagnályktun frá 1. tl. 114. gr. gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991 verði ráðið að bæði eigi hann rétt til greiðslu kröfunnar og að hún njóti forgangsréttar samkvæmt 112. gr. sömu laga.  Slík regla eigi sér einnig stoð í enskum samningarétti, en þó þannig að þar sé dóminum falið að ákveða kostnaðinn. Slitastjórn Landsbanka Íslands hafnar kröfunni alfarið, þar sem hvorki verði séð að innheimta kröfunnar hafi hafist fyrir 22. apríl 2009 né að kostnaðurinn tengist innheimtu kröfunnar eða málshöfðun vegna hennar fyrir þann tíma. Þá telur slitastjórn að krafan eigi sér hvorki stoð í íslenskum né enskum lögum.

Samkvæmt lögum nr. 43/2000, um lagaskil á sviði samningaréttar, gilda íslensk lög um stöðu þessarar kröfu í réttindaröð, en um efni kröfunnar og rétt FSCS til að krefjast greiðslu kostnaðar gilda ensk lög. Ekki er um það ágreiningur að það ákvæði enskra laga sem hér á við er að finna í 78. mgr. 4. gr. reglugerðar um greiðsluþrot frá 1986 (e. UK Insolvency Rules 1986). Hefur texti ákvæðisins verið lagður fram í íslenskri þýðingu, en einnig liggur frammi samantekt frá lögmannsstofunni Morrison & Foerster, þar sem gerð er grein fyrir efni ákvæðisins. Samkvæmt því er almenna reglan sú að sérhver kröfuhafi skuli bera kostnað af því að sanna kröfu sína, þ.m.t. kostnað við að útvega skjöl og aðrar sannanir fyrir kröfu sinni. Þó hafi dómstólar heimild til að úrskurða að kröfuhafi geti fengið kostnaðarkröfu samþykkta. Tekið er fram í áðurnefndu minnisblaði lögmannsstofunnar að svo virðist þó sem engu slíku fordæmi sé til að dreifa.

Dómurinn fellst ekki á að stærstur hluti umkrafins kostnaðar tengist með beinum hætti sönnun á kröfu FSCS. Þvert á móti virðist hann til kominn vegna ýmissa annarra atriða, svo sem áreiðanleikakönnunar í tengslum við mat á eignum sem fluttust frá Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbankans og samningaviðræðum kröfuhafa við íslensk stjórnvöld, annars vegar í tengslum við greiðslu frá Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta, en hins vegar vegna ábyrgðar íslenska ríkisins á skuldbindingum sjóðsins. Í ljósi þessa, en einnig með vísan til áðurnefndrar reglu ensks réttar um að kröfuhafi skuli að jafnaði sjálfur bera kostnað af sönnun kröfu sinnar, þykir FSCS ekki hafa sýnt fram á að hann eigi rétt til þess að krafan verði viðurkennd sem forgangskrafa við slit Landsbanka Íslands hf. Verður kröfunni því hafnað.

…………………………………………………

Með vísan til alls framanritaðs er það niðurstaða dómsins að staðfesta beri afstöðu slitastjórnar Landsbanka Íslands hf. um að viðurkenna kröfu FSCS að höfuðstólsfjárhæð 4.308.422.006,78 sterlingspund, eða 823.253.277.056 krónur. Þá verður fallist á kröfu FSCS um að bundnar innstæður beri samningsvexti frá 8. október 2008 til gjalddaga þeirra, en 8% ársvexti frá gjalddaga til 22. apríl 2009, og að óbundnar innstæður beri 8% ársvexti frá 8. október 2008 til 22. apríl 2009. Er krafan viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð Landsbanka Íslands hf.

Mál þetta er mjög umfangsmikið, en þó meira en efni standa til. Veldur þar mestu að í málatilbúnaði sóknaraðilanna Arrowgrass Distressed Opportunities Fund Limited o.fl. og Bayerische Landesbank o.fl. er í löngu máli rakinn aðdragandi efnahagskreppunnar sem hér varð í október 2008 og leiddi til falls allra stærstu bankanna, ásamt því að lagðar eru fram ýmsar skýrslur og álitsgerðir innlendra og erlendra aðila, sem ekki verður séð að hafi beina þýðingu fyrir úrlausn málsins. Af þeim gögnum eru síðan dregnar ályktanir og teflt fram málsástæðum sem ekki eiga heima í máli þessu. Í málinu er engu að síður tekist á um gífurlega háar fjárhæðir og eru hagsmunir málsaðila augljósir, ekki einasta hagmunir varnaraðila, heldur einnig sóknaraðila. Því verður í öllu tilliti að telja réttmætt og eðlilegt að þau álitaefni sem hér að framan eru rakin og ágreiningur stendur að sönnu um séu leidd til lykta fyrir dómstólum. Af þeirri ástæðu, en einnig með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, þykir rétt að hver aðili beri sinn kostnað af málinu.

Úrskurð þennan kváðu upp héraðsdómararnir Ingimundur Einarsson, sem dómsformaður, Arnfríður Einarsdóttir og Símon Sigvaldason. Vegna umfangs málsins og anna dómsformanns hefur uppkvaðning úrskurðarins lítillega dregist fram yfir lögmæltan tíma samkvæmt 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991. Hvorki dómarar né aðilar töldu þó þörf á endurflutningi málsins.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Staðfest er afstaða varnaraðila, slitastjórnar Landsbanka Íslands hf., um að viðurkenna skuli kröfu varnaraðilans The Financial Services Compensation Scheme Ltd. að höfuðstólsfjárhæð 4.308.422.006,78 sterlingspund, eða 823.253.277.056 krónur. Bundnar innstæður bera samningsvexti frá 8. október 2008 til gjalddaga þeirra, en 8% ársvexti frá gjalddaga til 22. apríl 2009. Óbundnar innstæður beri 8% ársvexti frá 8. október 2008 til 22. apríl 2009.

Krafan er viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð Landsbanka Íslands hf.

Málskostnaður fellur niður.