Hæstiréttur íslands

Mál nr. 352/2017

Sæsteinn ehf. (Magnús Pálmi Skúlason hdl.)
gegn
Reykjavíkurborg (Ebba Schram hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Kröfugerð
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Frávísunarúrskurður staðfestur

Reifun

S ehf. krafðist viðurkenningar á rétti til skaðabóta úr hendi R vegna missis hagnaðar sem félagið hefði notið hefði ekki komið til ákvörðunar R um að hafna tilboði þess í útboði tiltekins rammasamnings. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna, kom meðal annars fram að S ehf. hefði ekki leitt nægar líkur að því að gengið hefði verið til samninga við hann um tiltekna þjónustu, þótt við hann hefði verið gerður rammasamningur á grundvelli útboðsins og að hann hefði þannig orðið fyrir tjóni vegna missis hagnaðar. Hefði S ehf. þannig ekki tekist að leiða nægar líkur að því að hann hefði orðið fyrir tjóni í skilningi 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hefði S ehf. því ekki lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr viðurkenningarkröfu sinni fyrir dómi á grundvelli þess ákvæðis. Var málinu því vísað frá dómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. júní 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. maí 2017, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Sæsteinn ehf., greiði varnaraðila, Reykjavíkurborg, 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. maí 2017.

I

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda 30. mars sl., er höfðað af Sæsteini ehf., Melabraut 17, Hafnarfirði, á hendur Reykjavíkurborg, Tjarnargötu 11, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 31. ágúst 2016.

Stefnandi krefst þess að viðurkenndur verði réttur hans til skaðabóta úr hendi stefnda vegna missis hagnaðar sem hann hefði notið hefði ekki komið til ákvörðunar stefnda um að hafna tilboði hans í útboði nr. 13456 „Rammasamningur um sjávarfang“. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að mati réttarins.

Stefndi gerir þær dómkröfur aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi en til vara að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Í báðum tilvikum er þess krafist að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.

                Af hálfu stefnanda er mótmælt kröfu stefndu um frávísun málsins frá dómi og þess krafist að henni verði hafnað.

                Í þessum þætti málsins verður einungis fjallað um kröfur málsaðila sem lúta að frávísun.

II

Helstu málavextir eru þeir að hinn 4. júní 2015 birti stefndi auglýsingu vegna útboðs nr. 13456 „Rammasamningur um sjávarfang“  sbr. dskj. nr. 3.   Stefnandi var einn þátttakenda í útboðinu. Samkvæmt grein 1.2.4 í útboðsskilmálum skyldi samið við þrjá aðila í hluta 1 í útboðinu um kaup á ferskum fiski og þrjá í hluta 2 um kaup á frosnum fiski. Yrði miðað við lægsta vegið meðalverð samkvæmt tilboðsskrá. Þá kom fram að þeir bjóðendur, sem samið yrði við í hluta 1 og hluta 2, fengju sjálfkrafa samning í hluta 3.

Í B-lið greinar 1.1.8 í útboðsgögnum kom fram að starfsleyfi bjóðanda skyldi fylgja með tilboði og í grein 1.2.2 sagði að seljandi skyldi hafa starfsleyfi útgefið af þar til bærri stofnun í samræmi við ákvæði laga nr. 93/1995, um matvæli. Á útboðstíma barst fyrirspurn til stefnda um það, hvort fyrirtæki yrðu að vera með vinnsluleyfi frá Matvælastofnun til þess að geta tekið þátt í útboðinu. Þeirri fyrirspurn svaraði stefndi með vísan til greinar 1.2.2 í útboðsgögnum. 

Útboðinu var skipt þannig að tilboð átti að gera í tvo aðgreinda hluta, hluti 1 var um kaup á ferskum fiski, en hluti 2 um kaup á frosnum fiski. Heimilt var að bjóða í einstaka hluta og tekið fram að samið yrði við þrjá bjóðendur í hluta 1 og þrjá bjóðendur í hluta 2. Samið yrði við þá bjóðendur sem byðu lægsta vegna meðalverð samkvæmt tilboðsskrá. Þá kom fram að þeir bjóðendur sem samið yrði við í hluta 1 og hluta 2 fengju sjálfkrafa samning í hluta 3 um kaup á öðrum sjávarafurðum. Hinn 23. júlí 2015 voru tilboð opnuð en tilboð bárust frá fimm bjóðendum og gerði stefnandi tilboð bæði í hluta 1 og hluta 2. Hinn 21. ágúst sama ár samþykkti Innkauparáð stefnda á fundi sínum að semja við Fiskbúðina Sæbjörgu ehf., Sjófisk-Sjávarfisk ehf. og Hafið fiskverslun ehf. í hluta 1 og Fiskbúðina Sæbjörgu ehf., Sjófisk-Sjávarfisk ehf. og Norðanfisk ehf. í hluta 2. Að áliti stefnda var framangreind niðurstaða í samræmi við skilmála útboðsgagna með vísan til þess að umræddir bjóðendur áttu þrjú lægstu tilboðin samkvæmt útboðsskilmálum. Tilboði stefnanda var hvorki tekið í hluta 1 né hluta 2. Óumdeilt er að tilboð stefnanda í hluta 1 var fjórða lægsta tilboðið í þeim hluta en Hafið fiskverslun ehf. átti lægsta tilboðið.

Með tölvupósti 26. ágúst 2015 óskaði stefnandi eftir því að stefndi upplýsti hvort Hafið fiskverslun ehf. hefði starfsleyfi frá Matvælastofnun eins og áskilið væri í grein 1.2.2 í útboðsgögnum. Fyrir liggur í málinu að stefndi sendi fyrirspurn í tölvupósti til Hafsins fiskverslunar ehf. 2. september 2015 um það, hvort fyrirtækið væri með starfs- eða vinnsluleyfi frá Matvælastofnun, sbr. grein 1.2.2 í útboðsgögnum. Þá var þess óskað að slíku starfsleyfi yrði skilað til stefnanda eigi síðar en kl. 13.00 daginn eftir, annars yrði tilboði fyrirtækisins hafnað þar sem það uppfyllti ekki lágmarkskröfur útboðsgagna. Í greinargerð stefnda kemur fram að í bréfinu hafi fyrir misgáning verið gefið til kynna að um lágmarkskröfu útboðsgagna hefði verið að ræða en hið rétta sé að tilboð fyrirtækisins hafi verið gilt. Hefði stefndi á þessum tímapunkti aðeins verið að kanna hvort allar samningsskyldur væru uppfylltar til þess að hægt væri að gera athugasemdir við það ef einhverjir hnökrar kæmu upp við framkvæmd samningsins.

Hafið fiskverslun ehf. sendi stefnda umbeðið starfsleyfi 3. september 2015, sem útgefið var sama dag, en það ber með sér að vera til þriggja mánaða. Stefndi  svaraði fyrirspurn stefnanda með tölvupósti 4. september 2015 á þá leið að Hafið fiskverslun ehf. hefði aflað sér starfsleyfis. Þann dag var tilkynnt að fyrrgreind tilboð væru endanlega samþykkt og að kominn væri á bindandi rammasamningur á grundvelli útboðsgagna og umræddra tilboða.

Stefnandi kærði ákvörðun stefnda til kærunefndar útboðsmála 10. september 2015 og krafðist þess aðallega að kærunefndin felldi úr gildi ákvörðun stefnda en til vara að nefndin léti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu stefnda gagnvart stefnanda. Stefndi skilaði greinargerð til kærunefndarinnar 8. október 2015 og krafðist þess aðallega að kærunni yrði vísað frá nefndinni en til vara að öllum kröfum kæranda yrði hafnað. Af hálfu stefnda er þess getið í greinargerð hér fyrir dóminum, að fullyrðing hans í greinargerð til kærunefndar útboðsmála um að öll tilboð hefðu staðist lágmarkskröfur útboðsgagna hafi verið röng, enda hafi seinni tíma skoðun leitt í ljós að tilboð stefnanda hefði ekki staðist lágmarkskröfur með tilliti til varakröfu hans fyrir kærunefndinni. Stefnandi sendi athugasemdir vegna greinargerðar stefnda til kærunefndar 20. október 2015. 

Kærunefnd útboðsmála kvað upp úrskurð í máli nefndarinnar nr. 17/2015 vegna ágreinings aðila 10. febrúar 2016 og hafnaði aðalkröfu stefnanda um ógildingu ákvörðunar stefnda. Hins vegar taldi kærunefndin að fyrir lægi að tilskilið starfsleyfi hefði ekki fylgt tilboði Hafsins fiskverslunar ehf. og því hefði stefnda verið óheimilt að taka tilboði fyrirtækisins. Stefnandi hefði átt fjórða hagkvæmasta tilboðið í hluta 1 í útboðinu en samkvæmt útboðsskilmálum hefði verið stefnt að því að semja við þrjá bjóðendur. Stefnandi hefði þannig átt raunhæfa möguleika á að verða valinn og möguleikar hans hafi því skerst við brot stefnda. Með vísan til 1. mgr. 101. gr. laga um opinber innkaup væri það því álit kærunefndar útboðsmála að stefndi væri skaðabótaskyldur gagnvart stefnanda vegna þeirrar ákvörðunar að velja tilboð Hafsins fiskverslunar ehf. í útboðinu.

Í kjölfar úrskurðar kærunefndar hafði stefnandi samband við ráðgjafafyrirtækið Advance ehf. og óskaði eftir því að það reiknaði út tjón stefnanda af því að ekki hafi verið við hann samið í framangreindu útboði. Advance ehf. reiknaði tjón stefnanda út frá hagnaðarmissi hans af því að fá ekki samninginn út frá ársreikningum áranna 2013, 2014 og 2015 og viðskiptamannayfirliti sem tilgreina veltu stefnanda af viðskiptum stefnda á þeim árum. Í stefnu er því lýst að samkvæmt viðskiptamannabókhaldi stefnanda hafi heildarvelta hans tengd stefnda árin 2013-2015 verið 218.010.303 krónur. Að meðaltali sé velta á mánuði því 6.055.842 krónur en að teknu tilliti til verðhækkunar um 6,5% í tilboð stefnanda til stefnda, og nýr samningur hefði tekið mið af, yrði hún 6.449.471 króna. Að gefnum upplýsingum úr framlögðum ársreikningum stefnanda hafi Advance ehf. reiknað vegið meðaltal framlegðarprósentu (2012 til 2014) 15,2% eða 982.186 krónur á mánuði. Gildistími samningsins hafi verið 48 mánuðir og tjón stefnanda hafi því numið 47.144.930 krónum (48 x 982.186).

Á grundvelli útreikninga Advance ehf. sendi stefnandi stefnda kröfubréf, dagsett 18. maí 2016, og krafðist þess að stefndi gengi til samninga við hann um greiðslu skaðabóta á grundvelli framangreindra útreikninga og greiddi jafnframt úrskurðaðan málskostnað vegna reksturs málsins fyrir kærunefnd útboðsmála. Þá vísaði stefnandi í niðurstöðu kærunefndar um bótaskyldu stefnda.

Svarbréf stefnda var dagsett 3. júní 2016 og var skaðabótakröfu stefnanda hafnað. Stefndi vísaði til þess að í útboðsgögnum hefðu verið gerðar ófrávíkjanlegar kröfur um fjárhagslegt hæfi bjóðenda í grein 1.1.3. Bjóðendum hafi m.a. borið að skila með tilboðum sínum ársreikningi eða árshlutauppgjöri, endurskoðuðu og árituðu af löggiltum endurskoðanda, án athugasemda um rekstrarhæfi bjóðenda. Bjóðendum hafi einnig staðið til boða að leggja fram yfirlýsingu, án fyrirvara, um jákvæða eiginfjárstöðu frá löggiltum endurskoðanda sem skyldi taka mið af stöðu bjóðanda eigi fyrr en viku fyrir opnunardagsetningu tilboða. Skýrt hafi verið tekið fram að gæti bjóðandi ekki sýnt fram á jákvæða eiginfjárstöðu, væri óheimilt að gera við hann samning. Í bréfinu er jafnframt rakið að með tilboði stefnanda hafi fylgt óendurskoðaður ársreikningur fyrir árið 2014, auk yfirlýsingar endurskoðanda en í yfirlýsingunni hafi komið fram að hún byggði á drögum að ársreikningi fyrir árið 2014 og yfirferð á bókhaldi félagsins fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2015. Loks er gerð grein fyrir þeirri afstöðu stefnda, að þar sem hvorki ársreikningur stefnanda né yfirlýsing endurskoðanda væru í samræmi við ófrávíkjanlega kröfur greinar 1.1.3 í útboðsgögnum, hefði stefnda verið óheimilt að gera samning við stefnanda. Hefði stefnandi því ekki átt raunhæfa möguleika á að vera valinn til samnings og hafi ætlað brot stefnda því ekki skert möguleika stefnanda í umræddu tilviki. Þrátt fyrir að skaðabótakröfu stefnanda væri hafnað, féllst stefndi á að greiða málskostnað fyrir kærunefnd útboðsmála, án dráttarvaxta.  

Með bréfi, dagsettu, 7. júní 2016, mótmælti stefnandi sjónarmiðum stefnda og benti á að yfirlýsing endurskoðanda um jákvæða eiginfjárstöðu hefði legið fyrir á tilskildum tíma, tveimur dögum fyrir opnun tilboða, í samræmi við ákvæði 1.1.13 í útboðsskilmálum. Þá benti stefnandi á að hann hefði skilað samhljóða yfirlýsingu í útboði á árinu 2013 vegna sambærilegs rammasamnings um sjávarfang og að þá hefði verið  gengið til samninga við hann, m.a. á grundvelli hennar. Loks tók stefnandi fram að þótt yfirlýsingin væri ófullnægjandi, myndi það engu breyta, enda hefði stefndi þegar tilkynnt stefnanda ástæðu þess að tilboði hans hefði ekki verið tekið í tölvupósti þann 25. ágúst 2015 sem væri að tilboð stefnanda hefði verið hærra en þeirra sem samið hefði verið við. Því hefði stefnandi talið vafalaust að stefnda hefði verið heimilt að semja við stefnanda.  Í bréfinu var ítrekað að stefnandi óskaði eftir því að gengið yrði til samninga við hann á grundvelli áðurnefndra útreikninga Advance ehf. 

Með bréfi, dagsettu 28. júní 2016, ítrekaði stefndi fyrri afstöðu sína til skaðabótakröfu stefnanda. Svo sem áður greinir höfðaði stefnandi mál þetta til viðurkenningar á skaðabótaskyldu stefnda hinn 31. ágúst 2016.

III

Stefnandi byggir dómkröfur sínar á því að höfnun verkkaupa, stefnda Reykjavíkurborgar, á tilboði hans í hluta 1 í fyrrgreindu útboði hafi verið ólögmæt.  Samkvæmt skilmálum hafi átt að semja við þá þrjá aðila sem hefðu þrjú lægstu boðin og sem uppfylltu skilyrði útboðsins. Fyrir liggi í málinu og sé óumdeilt að Hafið fiskverslun ehf., sem stefndi hafi samið við, hafi ekki uppfyllt skilyrði útboðsins um að hafa útgefið starfsleyfi til matvælavinnslu og því hafi stefnda verið óheimilt að semja við fyrirtækið í útboðinu. Þar sem stefndi hafi eftir sem áður samið við Hafið fiskverslun ehf., hafi stefnandi orðið fyrir tjóni sem felist í missi hagnaðar af því að fá ekki samninginn. Á því tjóni beri stefndi ábyrgð.

Stefnandi telur að ólögmætt hafi verið af hálfu stefnda að taka tilboði Hafsins fiskverslunar ehf. en tilboðið hafi verið ógilt þar sem það hafi ekki uppfyllt skilmála útboðsins. Með þessu hafi stefndi brotið gegn 71. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, og beri hann skaðabótaskyldu gagnvart stefnanda vegna þess samkvæmt 101. gr. sömu laga. Stefnandi krefst þess að skaðabótaskyldan verði viðurkennd með dómi vegna missis hagnaðar sem stefnandi telur sig hafa orðið fyrir vegna lögbrots stefnda er hann tók tilboði Hafsins fiskverslunar ehf. í hluta 1 í útboðinu.

Stefnandi vísar til VII. kafla laga nr. 84/2007 og einkum til 2. mgr. 48. gr. en í lagagreininni komi fram að í þeim tilvikum þegar þátttakendur þurfi sérstakt leyfi til að mega veita hlutaðeigandi þjónustu í heimaríki sínu sé heimilt að krefjast þess að þeir sýni fram á að þeir hafi viðeigandi leyfi. Stefnandi byggir á því að samkvæmt útboðsskilmálum í útboði nr. 13456, „Rammasamningur um sjávarfang“, hafi komið fram í grein 1.1.8, lið B, að afrit af starfsleyfi bjóðanda skyldi fylgja með tilboði. Í grein 1.2.2 í útboðsgögnum segi að seljandi skuli hafa starfsleyfi útgefið af þar til bærri stofnun í samræmi við ákvæði laga nr. 93/1995, um matvæli. Það hafi jafnframt verið staðfest í svari stefnda við fyrirspurn, sem hafi borist á útboðstíma, um hvort fyrirtæki yrðu að vera með vinnsluleyfi frá Matvælastofnun til þess að geta tekið þátt í útboðinu. Af hálfu stefnda hafi fyrirspurninni verið svarað með vísan til greinar 1.2.2 í útboðsgögnum. Stefnandi byggir á því að sannað sé og óumdeilt í málinu að Hafið fiskverslun ehf. hafi ekki haft starfsleyfi frá Matvælastofnun til fiskvinnslu en stofnunin veiti starfsleyfi til slíkrar vinnslu, sbr. 6. gr., sbr. 20. gr. laga nr. 93/1995. Matvælastofnun hafi í tölvupósti 16. september 2015 staðfest að Hafið fiskverslun ehf. hefði ekki haft starfsleyfi í lok ágúst 2015. 

Stefnandi bendir á að megintilgangur laga nr. 84/2007 sé að tryggja jafnræði bjóðenda við opinber innkaup og að stuðla að hagkvæmni í opinberum rekstri með virkri samkeppni. Þá segi í 14. gr. laganna að við opinber innkaup skuli kaupandi gæta jafnræðis bjóðenda. Stefnandi telur að slíku jafnræði væri stórkostlega raskað ef aðilar, sem ekki uppfylli skilyrði útboðs, geti bætt úr slíku að útboði loknu. VII. kafli laga nr. 84/2007 byggist á því að í þeim tilfellum, sem bjóðandi uppfylli ekki lágmarksskilyrði kaflans, beri kaupanda að vísa bjóðandanum frá, sbr. og 71. gr. sömu laga. 

Stefnandi kveðst hafa átt raunhæfa möguleika á því að fá samninginn ef ekki hefði komið til hin ólögmæta ákvörðun stefnda. Hann hafi átt þriðja lægsta tilboðið í hluta 1 í útboðinu og þá hafi hann uppfyllt öll skilyrði útboðsins. Eina ástæða þess að honum hafi verið hafnað, hafi verið sú að gerður hefði verið samningur við aðila, sem ekki hafi uppfyllt skilyrði útboðsins. Að þessu leyti vísar stefnandi til rökstuðnings stefnda í tölvupósti hans til stefnanda 25. ágúst 2015 þar sem rökstuðningur stefnda fyrir höfnun á tilboði stefnanda er tilgreindur. Þar segi: „Þar sem tilboð Sæsteins ehf. er hærra en tilboð þeirra sem samið var við og alveg skýrt kveðið á um í útboðsgögnum að samið verði eingöngu við þrjá í hvorum hluta, þá var ekki hægt að taka tilboði Sæsteins ehf. í útboði nr. 13456, það hefði verið brot á lögum um opinber innkaup að fara á skjön við það sem stendur í viðkomandi útboðsgögnum.“

Stefnandi vísar til sjónarmiða stefnda í greinargerð hans til kærunefndar útboðsmála um að öll þau tilboð, sem borist hafi í útboðinu, hafi uppfyllt lágmarkskröfur, þ.m.t. tilboð stefnanda. Stefndi hafi hins vegar einungis byggt kröfu sína um að kröfu stefnanda um skaðabætur væri hafnað á því að leyfi til matvælavinnslu hafi verið samningskrafa en ekki lágmarkskrafa og því hafi stefnda verið heimilt að líta fram hjá því að Hafið fiskverslun ehf. hefði ekki haft leyfi til fiskvinnslu frá Matvælastofnun. Bæði stefnandi og kærunefnd útboðsmála séu ósammála stefnda að þessu leyti.

Stefnandi byggir á því að hafið sé yfir vafa að áskilnaður útboðsgagna hafi gert kröfu um starfsleyfi til matvælavinnslu í samræmi við ákvæði laga um matvæli og fyrir liggi að Hafið fiskverslun ehf. hafi ekki haft slíkt leyfi. Stefnandi byggir á sjónarmiðum kærunefndar útboðsmála hvað þetta varðar en þar komi fram eftirfarandi: „Fyrir liggur að fyrrgreint leyfi fylgdi ekki tilboði Hafsins fiskverslunar ehf. og var varnaraðila var því óheimilt að taka tilboði fyrirtækisins. Kærandi átti fjórða hagkvæmasta tilboðið í hluta 1 í útboðinu, en samkvæmt útboðsskilmálunum var stefnt að því að semja við þrjá bjóðendur. Kærandi átti þannig raunhæfa möguleika á að verða valinn af varnaraðila og möguleikar kæranda skertust því við brot hans. Með vísan til 1. mgr. 101. gr. laga um opinber innkaup það þar af leiðandi álit kærunefndar útboðsmála að varnaraðili sé skaðabótaskyldur gagnvart kæranda vegna þeirrar ákvörðunar að velja tilboð Hafsins fiskverslunar ehf. í hinu kærða útboði“.

Svo virðist sem stefndi hafi, eftir úrskurð kærunefndar, fallið frá þeirri vörn sinni að krafa um starfsleyfi frá Matvælastofnun hafi ekki verið lágmarkskrafa. Í svari sínu frá 3. júní 2016 við kröfubréfi stefnanda frá 18. maí sama ár hafi stefndi byggt á því, þrátt fyrir að hafa staðfest í tvígang að tilboð stefnanda hafi uppfyllt lágmarkskröfur, að gögn þau, sem stefnandi hafi lagt fram um fjárhagsstöðu félagsins, hafi ekki verið fullnægjandi. Í bréfinu hafi því fyrst verið haldið fram að fjárhagsupplýsingar stefnanda hafi ekki uppfyllt lágmarkskröfur í útboðsgögnum og því hefði stefnda verið óheimilt að samþykkja tilboð stefnanda sem leiði til þess að stefnandi hefði ekki haft raunhæfa möguleika á að hljóta verkið. Nú telji stefndi að yfirlýsing sú, sem löggiltur endurskoðandi stefnanda hafi sent, hafi ekki verið í samræmi við útboðsskilmála.

Stefnandi mótmælir þessum fullyrðingum stefnda og vísar í fyrsta lagi til þess að fjárhagsstaða stefnanda hafi uppfyllt kröfur um fjárhagslega stöðu. Því til staðfestingar hafi legið til grundvallar yfirlýsing endurskoðanda félagsins og ársreikningur ársins 2014. Þá hafi einnig legið fyrir staðfestingar annars vegar á því að stefnandi hafi verið í skilum með lífeyrissjóðsiðgjöld og hins vegar með opinber gjöld. Samkvæmt ákvæði 1.1.13 í útboðsskilmálum skyldi bjóðandi skila afriti af ársreikningi og/eða árshlutareikningi sem skyldi vera endurskoðað eða áritað af löggiltum endurskoðanda án athugasemda um rekstrarhæfi bjóðanda. Þá hafi komið fram að væri ársreikningur ekki endurskoðaður, væri heimilt að leggja fram yfirlýsingu um jákvæða eiginfjárstöðu, án fyrirvara, frá löggiltum endurskoðanda, og skyldi hún miða við stöðu eigi fyrr en viku fyrir opnunardagsetningu tilboða. Slíkri yfirlýsingu hafi stefnandi skilað þann 21. júlí 2015, þ.e. tveimur dögum fyrir opnun tilboða. Yfirlýsingin sé afdráttarlaus og staðfesti að eigið fé félagsins hafi verið jákvætt á árinu 2015, hún hafi verið fyrirvaralaus og undirrituð af Halldóri Arnarsyni, löggiltum endurskoðanda. Stefnandi bendir jafnframt á að ársreikningur félagsins fyrir árið 2015  staðfesti hið sama. 

Þessu til viðbótar bendir stefnandi á að í útboði á árinu 2013 vegna sambærilegs rammasamnings um sjávarfang, þar sem stefndi hafi verið kaupandi, hafi stefnandi skilað samhljóða yfirlýsingu og þá hafi verið gengið til samninga við hann, m.a. á grundvelli hennar. Fyrir það útboð hefði Guðbjörg Eggertsdóttir, starfsmaður stefnda, gert athugasemdir við áðursenda yfirlýsingu og því hafi yfirlýsingin verið leiðrétt í samræmi við tilmæli hennar. Fyrir liggi því að sjónarmið stefnda nú séu haldlausar eftiráskýringar og fyrirsláttur sem sé einungis til þess fallinn að valda stefnanda tjóni.  

Þá bendir stefnandi á að í IX. kafla laga um opinber innkaup séu fyrirmæli um hvenær megi vísa bjóðendum frá vegna hæfisskorts og séu þessi ákvæði tæmandi. Það sem við eigi séu ákvæði í 49. gr. í lögum um opinber innkaup um fjárhagslega getu og 50. gr. laganna um tæknilega getu. Í 2. mgr. 49. gr. annars vegar og 3. mgr. 50. gr. hins vegar sé því lýst að fram skuli koma í útboðsgögnum hvaða gagna sé krafist og hvernig skuli brugðist við ef talin er þörf á frekari upplýsingum. Hefði stefndi talið að þau gögn, sem stefnandi lagði fram, væru ófullnægjandi hafi stefnda verið skylt að gefa stefnanda færi á að sýna fram á með öðrum hætti að hann hefði fjárhagslega getu. Þessu til staðfestingar vísar stefnandi til sjónarmiða í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 450/2007.

Stefnandi vísar til 75. gr. laga nr. 84/2007 um tilkynningu og rökstuðning höfnunar boðs. Fyrir liggi að eina ástæða synjunar stefnda á boði stefnanda í tölvupósti 21. ágúst 2015 laut að því að stefnandi hefði átt fjórða lægsta boð en að taka hafi átt þremur lægstu tilboðum. Ekkert í lögunum bendi til þess að kaupanda sé heimilt að breyta rökstuðningi fyrir höfnun boðs, enda myndi slík framkvæmd raska réttaröryggi á þann hátt að stjórnvöld væru ekki bundin af fyrri rökstuðningi en gætu breytt honum að geðþótta og þannig raskað því jafnræði sem mælt sé fyrir um í 14. gr. laganna. Stefndi hafi ítrekað þennan rökstuðning sinn fyrir kærunefnd útboðsmála þar sem hann hafi staðfest að öll boð, þ.m.t. boð stefnanda, hafi uppfyllt lágmarkskröfur. Stefnandi telur af og frá að stefndi geti breytt málatilbúnaði sínum með þessum hætti, enda liggi fyrir að hefðu þessi rök stefnda komið fram fyrr, hefði reynt á þessar málsástæður fyrir kærunefnd útboðsmála. Að þessu leyti vísar stefnandi til 75. gr. laga nr. 84/2007 sem og  23. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem kveðið sé á um að stjórnvald geti breytt ákvörðun sinni þar til hún hafi verið tilkynnt aðila máls. 

Stefnandi byggir á því að af öllu framangreindu virtu sé ekkert fram komið um að stefnandi hafi ekki uppfyllt þau skilyrði um fjárhagslegt hæfi sem fólust í útboðsgögnunum. Ætli stefndi nú að halda því fram að stefnandi hafi ekki uppfyllt kröfur um fjárhagslegt hæfi, eftir að hann hefur í tvígang staðfest að stefnandi hafi uppfyllt lágmarkskröfur, feli það í sér að stefndi hafi sönnunarbyrðina fyrir þeirri fullyrðingu sinni. 

Þá bendir stefnandi á að fyrir liggi og sé óumdeilt í málinu að Hafið fiskverslun hf. hafi ekki haft útgefið tilskilið starfsleyfi þegar framangreint útboð átti sér stað og hafi ekki aflað þess fyrr en að útboði loknu. Stefnda hafi því verið óheimilt að semja við fyrirtækið og stefnandi hafi því í raun verið með þriðja hagstæðasta tilboðið. Að mati stefnanda sé hafið yfir vafa að ákvörðun stefnda um að semja ekki við stefnanda en semja þess í stað við Hafið fiskverslun ehf. hafi brotið gegn ákvæðum laga nr. 84/2007.

Stefnandi krefst viðurkenningar á skaðabótaskyldu. Samkvæmt meginreglum á því sviði beri að gera tjónþola eins settan og hin bótaskylda athöfn hefði ekki átt sér stað. Tjónið felist í því að vænlegur samningur hafi ekki fengist og því hafi stefnandi orðið af hagnaði. Um nánari skilyrði efndabóta vísar stefnandi til almennra reglna skaðabóta- og fjármunaréttar um bætur fyrir fjártjón sem feli það í sér að stefnandi skuli verða jafnsettur fjárhagslega og ef réttarbrot stefnda hefði ekki orðið. Eftir að niðurstaða útboðsins hafi legið fyrir, hafi skapast skylda verkkaupa til að taka boði stefnanda og gera við hann verksamning. Stefnandi telur að bæði megi rökstyðja að um sé að ræða skaðabótaskyldu innan og utan samninga og byggir hann á reglum um hvort tveggja. Viðurkennt sé í dómaframkvæmd að hvorki 20. gr. laga nr. 65/1993, um útboð, né 1. mgr. 101. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, um vangildisbætur, takmarki rétt til að krefjast efndabóta vegna réttarbrota við framkvæmd útboða hins opinbera. Vísun 2. mgr. 101. gr. til almennra skaðabótareglna hafi verið skýrð þannig að réttur til efndabóta geti stofnast, hafi almennum sönnunarkröfum verið fullnægt.

Stefnandi byggir á því að samið hefði verið um verkið við hann ef hinar ólögmætu ákvarðanir hefðu ekki komið til. Stefnandi hafi átt þriðja lægsta boð í verkið og engir annmarkar hafi verið á tilboðinu sem hafi gert það ógilt. Öll skilyrði hinna almennu skaðabótareglna um huglæga afstöðu, orsakatengsl og sennilega afleiðingu blasi við og hafi mátt vera öllum ljós sem tekið hafi hinar umdeildu ákvarðanir. Stefndi hafi tekið saknæma og ólögmæta ákvörðun sem hafi orðið stefnanda til fjártjóns og séu öll skilyrði efndabóta uppfyllt.

Stefnandi gerir þær kröfur á hendur stefnda að hann verði eins settur fjárhagslega og ef tilboði hans í framangreindu útboði hefði verið tekið. Hann geri því kröfu um viðurkenningu á rétti sínum til skaðabóta vegna þess hagnaðar sem hann hefði haft af samningi við stefnda vegna rammasamnings um sjávarfang. Krafa um viðurkenningu á bótarétti vegna tapaðs hagnaðar af ákvörðun stefnda byggist á 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, en verði fallist á þessa kröfu stefnanda megi búast við að leitast verði við að ná samkomulagi um greiðslu bóta og eftir atvikum að óskað verði eftir mati dómkvaddra matsmanna á ætluðum hagnaði af verkinu. Stefnandi telji að hugtakið missir hagnaðar sé nægjanlega afmarkað að íslenskum rétti svo leggja megi dóm á viðurkenningarkröfu um rétt til slíkra bóta og vísar að því leyti til sjónarmiða í dómi Hæstaréttar Íslands í máli réttarins nr. 450/2007.

Stefnandi hafi lagt fram útreikning fagaðila, ráðgjafafyrirtækisins Advance ehf., yfir áætlaðan hagnaðarmissi, auk þess sem það felist í eðli máls að verktakar áætli sér alltaf eðlilegan hagnað í tilboðum sínum. Því sé nægilega sýnt fram á það í þessu viðurkenningarmáli að tilboð hans hafi innifalið hagnað af verkinu og að hann hafi orðið fyrir tjóni þar sem ekki hafi verið samið við hann. Enn fremur vísar stefnandi til þess að hann hafi haft hagnað af sambærilegum samningi við stefnda vegna áranna 2012–2014. Um nánari skilyrði efndabóta vísar stefnandi til almennra reglna skaðbóta- og fjármunaréttar um bætur fyrir fjártjón sem feli það í sér að stefnandi eigi kröfu til þess að verða jafnsettur fjárhagslega og ef réttarbrot stefnda hefði ekki orðið. Jafnframt byggir stefnandi á því að af dómaframkvæmd megi draga þá ályktun að réttur til bóta fyrir tapaðan hagnað sé fyrir hendi þegar sannað sé að samið hefði verið við bjóðanda, ef ekki hefði komið til saknæmt réttarbrot af hálfu verkkaupa.

Stefnandi kveður efniskröfu sína í málinu byggjast á meginreglum útboðs- og verktakaréttar eins og þær birtist í réttarframkvæmd og lögum nr. 84/2007. Um vanefnda- og skaðabótaúrræðið efndabætur vísist til almennra reglna fjármunaréttar svo og túlkunar dómstóla á inntaki 2. mgr. 101. gr. laga nr. 84/2007 sem og efnislega sambærilegri reglu í áður gildandi lögum 2. mgr. 84. gr. laga nr. 94/2001. Nægar líkur hafi verið leiddar að því að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni og sé því fullnægt skilyrðum fyrir skaðabótaskyldu stefnda samkvæmt 2. mgr. 101. gr. laga nr. 84/2007.

Um lagarök vísar stefnandi sérstaklega til ákvæða 14., 48., 49., 50., 71., 75. og 101. gr. laga nr. 84/2007 sem og til meginreglna útboðs- og verktakaréttar, og 20. gr. laga nr. 93/1995, um matvæli, og 20. gr. laga nr. 65/1993, um útboð. Þá vísar stefnandi til 23. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem og meginreglna stjórnsýsluréttar um góða stjórnsýsluhætti. Vegna viðurkenningarkröfu sinnar vísar stefnandi til 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Um skilyrði skaðabóta vísar stefnandi til sakarreglu skaðabótaréttar og um vanefnda- og skaðabótaúrræðið efndabætur vísar hann til almennra reglna fjármunaréttar. Málskostnaðarkrafa stefnanda byggist á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

IV

Stefndi byggir aðalkröfu sína um frávísun málsins á því að stefnandi hafi ekki leitt líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni af völdum ætlaðrar ólögmætrar ákvörðunar stefnda um val á tilboði í umræddu útboði. Því hafi stefnandi ekki sýnt fram á lögvarða hagsmuni af því að fá viðurkenningardóm fyrir dómkröfum sínum, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991.

Stefndi bendir á að markmið útboðsins hafi verið að koma á svokölluðum rammasamningi um vörur en um slíkt ferli gildi ákvæði 34. gr. laga nr. 84/2007, um opinber innkaup. Í útboðsgögnum hafi ekki verið settar fram bindandi magntölur um vörur sem þýði að með samningsgerðinni hafi ekki komist á samningur um að keypt yrði tiltekið magn. Í gr. 1.1.1 í útboðsgögnum sé skýrt tekið fram að ekki sé ljóst hvaða magn verði keypt á grundvelli útboðsins. Stefndi telur einsýnt að þar sem um rammasamning sé að ræða, sé eðli málsins samkvæmt ekki hægt að gera ráð fyrir stöðugu fjármagnsflæði í slíkum samningum, enda sé engu vörumagni lofað og engar bindandi magntölur tilgreindar í útboðsgögnum. Sökum þess hafi stefnandi ekki leitt líkur að því að hann hefði orðið fyrir tjóni við ætlað brot stefnda á lögum nr. 84/2007.

Þá vísar stefndi til þess að við upphaf rammasamnings sé enginn væntur hagnaður hjá  rammasamningsaðilum þar sem ekkert loforð liggi fyrir um væntanleg viðskipti innan rammasamnings. Einstök kaup innan rammasamnings séu gerð á grundvelli sjálfstæðra samninga. Stefnda beri í þeim efnum að velja á milli tilboða rammasamningsaðila á grundvelli valforsendna sem fram hafi komið í skilmálum rammasamnings, sbr. 6. mgr. 34. gr. laga nr. 84/2007. Í útboðsgögnum komi fram að samið verði við lægstbjóðendur og því hafi verið ljóst að einungis yrði litið til verðs við mat á tilboðum sem myndu berast innan rammasamningsins. Stefnda hafi því borið að beina viðskiptum sínum að lægstbjóðanda rammasamningsins eða viðhafa örútboð meðal rammasamningsaðila, sbr. grein 1.2.3 í útboðsgögnum. Tilboð stefnanda hafi verið fjórða lægsta tilboðið sem borist hafi. Stefnandi hafi því ekki getað gert ráð fyrir viðskiptum innan rammasamningsins, nema til kæmi vöruskortur hjá ódýrari rammasamningsaðilum eða á grundvelli örútboða. Ákvörðun um að framkvæma örútboð liggi ekki fyrir við upphaf rammasamnings og sé því með engu móti hægt að leggja mat á eða gera ráð fyrir væntum hagnaði rammasamningsaðila vegna þátttöku í örútboðum. Stefndi hafnar því málsástæðu stefnanda um að útreikningur, sem hann hafi aflað einhliða, sýni yfirlit yfir áætlaðan hagnað stefnanda vegna útboðsins.

Stefndi bendir á að framlagt viðskiptamannayfirlit sýni að stefndi hafi verið í viðskiptum við stefnanda eftir gildistöku umþrætts rammasamnings en í útboðslýsingu í grein 1.1.1 hafi stefndi áskilið sér rétt til að kaupa vörur utan rammasamnings fyrir allt að 10% af veltu samningsins. Stefndi telur einsýnt að stefnandi hefði ekki mátt vænta frekari viðskipta við stefnda en þeirra sem tilgreind séu á viðskiptamannayfirlitinu, enda hafi tilboð stefnanda verið hærra en þrjú önnur tilboð. 

Stefndi telur að framangreint leiði til frávísunar málsins frá héraðsdómi, enda hafi stefnandi ekki sýnt fram á að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að fá viðurkenningardóm fyrir dómkröfum sínum í skilningi 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Þá telur stefndi að stefna fullnægi ekki skilyrðum 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 þar sem hún beri augljós merki skriflegs málflutnings.

V

Stefnandi krefst í máli þessu viðurkenningar á rétti sínum til skaðabóta úr hendi stefnda vegna missis hagnaðar sem hann hefði notið hefði ekki komið til ákvörðunar stefnda um að hafna tilboði stefnanda í útboði nr. 13456 „Rammasamningur um sjávarfang“. Stefnandi byggir viðurkenningarkröfuna að þessu leyti á ákvæðum 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Samkvæmt því lagaákvæði þarf sá sem gerir kröfu um viðurkenningu á skaðabótaskyldu að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni og gera grein fyrir því, í hverju tjón hans felist og hver tengsl þess séu við ætlaðan skaðaverknað. Stefnandi telur sig hafa orðið af hagnaði af umræddum viðskiptum og gengur því út frá því að hann hafi átt tilkall til þess að vera valinn til að eiga umrædd viðskipti við stefnda. Stefndi mótmælir kröfum stefnanda og krefst þess aðallega að þeim verði vísað frá dómi en til vara að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda.

Af framlögðum útboðsgögnum er ljóst að stefndi hugðist semja við þá þrjá bjóðendur í hvorum útboðshluta sem buðu lægsta vegið meðalverð samkvæmt tilboðsskrá og uppfylltu skilyrði útboðsskilmálanna en áskildi sér jafnframt rétt til að hafna öllum tilboðum. Óumdeilt er að stefnandi átti fjórða lægsta tilboðið, bæði í hluta 1 og 2, og að Hafið fiskverslun ehf. hafi átt þriðja lægsta tilboðið í hluta 1 samkvæmt útboðsgögnum. Stefnandi byggir m.a. á því að stefndi hafi ranglega samið við Hafið fiskverslun hf. í hluta 1 þar sem fyrirtækið hafi við tilboðsgerðina ekki uppfyllt skilyrði B-liðar greinar 1.1.8 í útboðsskilmálum um að starfsleyfi skyldi fylgja með tilboði bjóðanda. Því hafi stefnandi í raun átt þriðja lægsta tilboðið í hluta 1 og af þeim sökum hafi stefnda borið að semja við stefnanda. Stefnandi vísar til þess að fyrir liggi niðurstaða kærunefndar útboðsmála um að stefnda hafi verið óheimilt að taka tilboði Hafsins fiskverslunar ehf. Því hafi stefnandi, sem átti fjórða lægsta tilboð í hluta 1, átt raunhæfa möguleika á að verða valinn af stefnda en möguleikar hans hafi skerst vegna brota stefnda.

Í greinargerð sinni byggir stefndi frávísunarkröfu sína á því að einsýnt sé að þar sem um rammasamning sé að ræða, sé eðli málsins samkvæmt ekki hægt að gera ráð fyrir stöðugu fjármagnsflæði í samningnum, enda sé engu vörumagni lofað og engar bindandi magntölur tilgreindar í útboðsgögnum. Því hafi stefnandi ekki leitt líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni við ætlað brot stefnda á lögum nr. 84/2007. Þá vísar stefndi til þess að við upphaf rammasamnings sé enginn væntur hagnaður hjá rammasamningsaðilum þar sem þá liggi ekkert loforð fyrir um væntanleg viðskipti innan rammasamningsins. Einstök kaup innan rammasamninga séu gerð á grundvelli sjálfstæðra samninga og beri stefnda þá að velja á milli tilboða rammasamningsaðila. Jafnframt hafnar stefndi einhliða útreikningum stefnanda á áætluðum hagnaði hans vegna útboðsins. Þessu til viðbótar bendir stefndi á að í útboðslýsingu komi fram áskilnaður stefnda um að hann eigi rétt á að kaupa vörur utan rammasamnings fyrir allt að 10% af veltu samningsins. Loks byggist frávísunarkrafa stefnda á því að framlögð stefna uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 þar sem hún beri augljós merki skriflegs málflutnings.

Við munnlegan málflutning um ágreining aðila um frávísunarkröfu stefnda, tefldi stefndi jafnframt fram þeirri málsástæðu fyrir frávísunarkröfunni að stefnandi hefði ekki uppfyllt ófrávíkjanlegar hæfiskröfur útboðsgagna nr. 13456. Að því leyti vísaði stefndi til þess að tilboð stefnanda hefði ekki uppfyllt ófrávíkjanlegar hæfniskröfur útboðsskilmálanna með framlagningu gagna samkvæmt grein 1.1.13 í útboðsskilmálum. Stefnandi hafi því ekki fært sönnur á að hann hefði átt raunhæfan möguleika á að verða valinn af stefnda til verksins og að sá möguleiki hafi skerst við ætlað brot stefnda. Þá benti stefndi á að stefnandi hefði heldur ekki uppfyllt skilyrði greinar 1.1.12.1 og greinar 1.1.12.2 í útboðsgögnum, sem lúta að sjálfbærum veiðum og umbúðum.

Svo sem rakið hefur verið, leitar stefnandi í máli þessu dóms um viðurkenningu á skaðabótaskyldu stefnda á grundvelli 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Stefnandi hefur lagt fram gögn til stuðnings því hver hefði orðið hagnaður hans ef tilboði hans í umrætt verk hefði verið tekið. Þá hefur stefnandi lagt fram gögn til stuðnings þeirri málsástæðu sinni að ranglega hafi verið samið við Hafið fiskverslun ehf. og að í því felist hin ólögmæta háttsemi stefnda sem hafi valdið því að stefnandi varð af hagnaði vegna verksins. Jafnframt hefur stefnandi lagt fram úrskurð kærunefndar útboðsmála þar sem kemur fram sú niðurstaða nefndarinnar að stefndi hafi við umrætt útboð ranglega samið við Hafið fiskverslun ehf. og þar með valdið stefnanda tjóni sem sé skaðabótaskylt samkvæmt 1. mgr. 101. gr. þágildandi laga um opinber innkaup.

Við mat á því hvort stefnandi hafi leitt nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni verður að líta til grundvallar málatilbúnaðar stefnanda í stefnu. Stefnandi reisir viðurkenningarkröfu sína á því að eftir útboðið og gerð rammasamningsins, hefði hann réttilega verið gerður við stefnanda, hafi í raun hvílt skylda á stefnda til að eiga viðskipti við stefnanda. Þá skyldu hafi stefndi vanefnt og með því valdið stefnanda tjóni sem sé bótaskylt. Tjón stefnanda felist í því að vænlegur samningur hafi ekki fengist og því hafi stefnandi orðið af hagnaði. Stefnandi krefst því viðurkenningar á því að hann eigi rétt á efndabótum með vísan til ákvæða 2. mgr. 101. gr. þágildandi laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, svo sem tekið er fram í stefnu. Hins vegar byggir stefnandi málatilbúnað sinn ekki á ákvæðum 1. mgr. 101. gr. laganna um bætur sem miðast við kostnað við að undirbúa tilboð og taka þátt í útboði. Samkvæmt ákvæði 2. mgr. 101. gr. fer um skaðabætur vegna brota á lögunum eftir almennum reglum, m.a. um sönnun tjóns, og því eiga hér ekki við ákvæði 1. mgr. lagagreinarinnar um að fyrirtæki þurfi einungis að sanna að það hafi átt raunhæfa möguleika á að verða valið af kaupanda og að möguleikar þess hafi skerst við brotið.

Því næst er til þess að líta að mál þetta lýtur að rammasamningi. Í grein 1.1.1 í útboðslýsingu vegna þess rammasamningsútboðs, sem mál þetta lýtur að, segir að ekki sé ljóst hvaða magn verði keypt á grundvelli útboðsins þar sem rammasamningar séu gerðir um tiltekna vöru eða þjónustu í tiltekinn tíma, án þess að magntölur séu þekktar. Þá er þar tekið fram að undanskilin frá þessum samningi séu kaup á vörum fyrir Reykjavíkurborg til að uppfylla sértækar þarfir fyrir allt að 10% af veltu samnings. Einnig er vísað til kafla 2 í útboðslýsingunni um nánari upplýsingar um þá vöru og þjónustu, sem heyrir undir samninginn, en þar segir að samið verði við þrjá bjóðendur í hluta 1 og þrjá bjóðendur í hluta 2 og að samið verði við þá bjóðendur, sem bjóði lægsta vegið meðalverð samkvæmt tilboðsskrá, en að innkaupadeild stefnda áskilji sér rétt til að hafna öllum tilboðum. Samkvæmt 16. tölulið 2. gr. þágildandi laga nr. 84/2007, um opinber innkaup, telst rammasamningur vera samningur sem einn eða fleiri kaupendur skuldbinda sig til að gera við eitt eða fleiri fyrirtæki í þeim tilgangi að slá föstum skilmálum einstakra samninga sem gerðir verða á tilteknu tímabili, einkum að því er varðar verð og fyrirhugað magn, ef við á. Felst því ekki í rammasamningi óskilyrt loforð um að gera tiltekinn samning við þann samningsaðila sem, ásamt öðrum, er valinn sem gagnaðili að slíkum rammasamningi á grundvelli rammasamningsútboðs.

Efndabætur verða sóttar á grundvelli reglna kröfuréttar og hafa það markmið að gera kröfuhafa eins settan fjárhagslega og ef réttar efndir samnings hefðu farið fram. Í því ljósi og með vísan til alls framangreinds verður ekki talið að stefnandi hafi með málatilbúnaði sínum sýnt fram á að hann hafi leitt nægar líkur að því að gengið hefði verið til samninga við hann um tiltekna þjónustu, þótt við hann hefði verið gerður rammasamningur á grundvelli margnefnds rammasamningsútboðs og að hann hafi þannig orðið fyrir tjóni vegna missis hagnaðar af þeim viðskiptum. Verður því, þegar af þessum ástæðum, að fallast á það með stefnda að stefnanda hafi með málatilbúnaði sínum ekki tekist að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni í skilningi 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Því verður ekki fallist á það með stefnanda að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr viðurkenningarkröfu sinni fyrir dómi á grundvelli ákvæðisins. Því ber, þegar af þeirri ástæðu, að vísa máli hans frá dómi.

Með vísan til ákvæða 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 350.000 krónur.

Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Uppkvaðning úrskurðarins hefur dregist vegna embættisanna dómarans.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi, Sæsteinn ehf., greiði stefnda, Reykjavíkurborg, 350.000 krónur í málskostnað.