Hæstiréttur íslands
Mál nr. 653/2011
Lykilorð
- Virðisaukaskattur
- Tekjuskattur
- Bókhaldsbrot
- Sekt
- Vararefsing
|
|
Miðvikudaginn 19. desember 2012. |
|
Nr. 653/2011.
|
Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari) gegn Ásmundi Gunnari Stefánssyni og (Jóhannes Ásgeirsson hrl.) Stefáni Gunnari Þengilssyni (Kristján Stefánsson hrl.) |
Virðisaukaskattur. Tekjuskattur. Bókhaldsbrot. Sekt. Vararefsing.
Á og S voru sakfelldir fyrir stórfelld brot gegn lögum um virðisaukaskatt og lögum um bókhald sem framin voru í rekstri I ehf., en Á var skráður stjórnarmaður og framkvæmdastjóri félagsins og S starfandi framkvæmdastjóri þess. Þá voru þeir einnig sakfelldir fyrir stórfelld brot gegn lögum um tekjuskatt og lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Á var gert að sæta fangelsi í 5 mánuði, en fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðsbundið í þrjú ár. Honum var einnig gert að greiða ríkissjóði 19.300.000 krónur í sekt, en sæta ella fangelsi í 9 mánuði. S var dæmdur í 8 mánaða fangelsi, en fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðsbundið í þrjú ár. Þá var honum gert að greiða ríkissjóði 16.500.000 krónur í sekt, en sæta ella fangelsi í 8 mánuði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Skarphéðinn Þórisson hæstaréttarlögmaður.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 5. desember 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu ákærðu verði staðfest, en að refsing þeirra verði þyngd.
Ákærðu krefjast þess hvor um sig að ákæru á hendur þeim verði vísað frá héraðsdómi en ella að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim til nýrrar meðferðar. Til vara krefjast þeir sýknu af kröfu ákæruvaldsins. Að því frágengnu krefjast þeir þess að refsing þeirra verði milduð og hún bundin skilorði að öllu leyti. Þá krefst ákærði Ásmundur Gunnar Stefánsson þess að auki og að sekt sú sem honum var gert að greiða með héraðsdómi verði lækkuð.
I
Ákæra í máli þessu var gefin út 15. júlí 2008 á hendur ákærðu, Ásmundi Gunnari og Stefáni Gunnari, og á hendur einkahlutafélaginu Icefox á Íslandi. Málinu var ekki áfrýjað hvað félagið varðar. Við flutning málsins hér fyrir dómi var því haldið fram af hálfu ákærða Stefáns Gunnars að áfrýja hefði átt málinu líka fyrir félagið, enda hefði það ekki verið undanskilið í áfrýjunaryfirlýsingu. Það sé því rangt að félagið hafi unað héraðsdómi og mistök orðið af hálfu ákæruvaldsins við gerð áfrýjunarstefnu.
Í yfirlýsingu um áfrýjun, sem er undirrituð af báðum ákærðu segir meðal annars svo: ,,Með fjölskipuðum dómi ... vorum við ákærðu, Ásmundur Gunnar Stefánsson ... og Stefán Gunnar Þengilsson, ... sakfelldir persónulega og vegna Icefox á Íslandi ehf., ... dæmdir fyrir brot á skatttalögum ... Við unum ekki sakfellingu og áfrýjum í því skyni, ... Við munum tilkynna Hæstarétti síðar hverjir verða lögmenn okkar fyrir Hæstarétti Íslands.“
Yfirlýsingin tilgreinir samkvæmt framansögðu aðeins ákærðu tvo sem áfrýjendur. Áfrýjunarstefna er í samræmi við þetta. Verður því litið svo á að Icefox á Íslandi ehf. uni héraðsdómi.
II
Ákærði Ásmundur Gunnar reisir aðalkröfu sína um að ákæru á hendur honum verði vísað frá héraðsdómi og kröfuna um heimvísun málsins á því að hann hafi hvorki komið nálægt bókhaldi Icefox á Íslandi ehf. né öðru er laut að stjórn félagsins. Hann hafi aldrei komið nálægt skjalagerð er leiddi til rangra virðisaukaskattsskila. Þá heldur hann því fram að því er varðar B lið ákæru að álitamál sé, hvernig færa eigi í bókhaldi úttektir hluthafa í einkahlutafélagi. Þá kveðst hann ekki geta greitt hina ætluðu ólögmætu úttekt þar sem skattyfirvöld hafi þegar ákveðið að skattleggja hann. Loks teflir hann fram þeim röksemdum að hvergi komi fram hvernig Icefox á Íslandi ehf. hafi fært í bókhaldi sínu fjármálaviðskipti ákærða. Það hafi ekki verið fyrr en 18. ágúst 2008 sem fram hafi komið að endurskoðandi félagins telji að um lán frá félaginu til þessa ákærða hafi verið að ræða.
Framangreindar röksemdir lúta allar að efnisþætti málsins og eru því hvorki grundvöllur þess að vísa málinu frá héraðsdómi né heimvísunar þess.
Ákærði Stefán Gunnar reisir kröfu sína um að ákæru á hendur honum verði vísað frá héraðsdómi og kröfu um heimvísun málsins á því að hann verði ekki saksóttur samkvæmt A lið ákæru sem starfandi framkvæmdastjóri Icefox á Íslandi ehf. og að færður viðskiptareikningur hans hjá félaginu sé ekki viðhlítandi grundvöllur fyrir vantöldum skattstofnum og þar með saksókn samkvæmt C lið ákæru.
Röksemdir þessar lúta einnig að efnisþætti málsins og verða því ekki grundvöllur síðastgreindra krafna þessa ákærða.
Þá reisir ákærði þessar kröfur einnig á því að honum hafi þegar verið gerð refsing við skattalega meðferð málsins þar sem 25% álagi var bætt við gjaldstofna. Með úrskurðum héraðsdóms 12. nóvember 2009 og 10. september 2010 var frávísunarkröfum ákærðu, sem reistar voru á sömu röksemdum, hafnað. Með vísan til forsendna framangreindra úrskurða verður þessum röksemdum ákærða Stefáns Gunnars fyrir frávísun málsins hafnað, sbr. einnig dóm Hæstaréttar 22. september 2010 í málinu nr. 371/2010.
III
Ákærði Ásmundur Gunnar ritaði undir virðisaukaskattskýrslur vegna tveggja tímabila, sem ákært er fyrir í A lið ákæru og ákærði Stefán Gunnar undir skýrslu vegna eins tímabils. Þá liggur fyrir að þegar skattrannsóknarstjóri ríkisins hafði lokið rannsókn sinni á skattskilum Icefox á Íslandi ehf. sendi embættið skýrslu sem dagsett var 6. júlí 2006 um niðurstöður rannsóknarinnar til félagins svo að það mætti neyta andmælaréttar. Af hálfu félagsins var sent andmælabréf 23. ágúst sama ár og var það undirritað fyrir hönd félagsins af ákærða Stefáni Gunnari. Í andmælabréfinu kemur fram að viðurkennt hafi verið í skýrslutöku að reikningar frá A ehf. væru tilhæfulausir og að ekki séu gerðar ,,mótbárur við niðurstöðu skýrslunnar hvað þennan þátt varðar.“ Þá eru ekki í andmælabréfinu gerðar athugasemdir við fjárhæð vantalinna launa, en tekið fram að um sé að ræða skuld á viðskiptareikningi ákærðu og hafnað að færa eigi hana sem laun. Þá hafi verið greitt inn til félagsins síðar, sem leiði til þess að skuldin sé mun lægri en í skýrslunni greini.
Rannsókn máls þessa hófst af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins á skattskilum Icefox á Íslandi ehf. 2. febrúar 2006, en á skattskilum ákærðu 16. október sama ár. Fyrstnefndu rannsókninni lauk 6. júlí sama ár, en á skattskilum ákærða Stefáns Gunnars 19. desember 2006 og ákærða Ásmundar Gunnars 17. apríl 2007. Skattrannsóknarstjóri sendi kærur, sem reistar voru á niðurstöðum rannsóknanna, til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra í mars og maí 2007 og mun það embætti hafa lokið ítarlegri rannsókn sinni síðla árs 2007. Ákæra var gefin út 15. júlí 2008. Málið var þingfest í héraðsdómi 30. september það ár. Á meðan málið var til meðferðar fyrir héraðsdómi var þess þrívegis krafist af hálfu eins eða fleiri ákærðu að málinu skyldi vísað frá héraðsdómi og voru kveðnir upp jafnmargir úrskurðir þar sem þeim kröfum var hafnað. Þá óskuðu ákærðu ítrekað eftir því að málinu yrði frestað af ýmsum ástæðum. Loks þurfti að kveða upp úrskurð til að leysa verjanda ákærðu undan verjandastarfanum, sbr. 5. mgr. 33. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Héraðsdómur var kveðinn upp 14. september 2011. Þótt fallast megi á að dráttur hafi orðið á málinu, einkum fyrir dómi, er sá dráttur að mestu á ábyrgð ákærðu og ekki tilefni til þess að láta hann hafa áhrif til mildunar þeirrar refsingar sem þeim var gerð í héraðsdómi.
Með þessum athugasemdum, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en vararefsingu ákærðu.
Ákærðu greiði óskipt allan áfrýjunarkostnað málsins þar með talin málsvarnarlaun verjenda sinna fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en vararefsingu ákærðu, Ásmundar Gunnars Stefánssonar og Stefáns Gunnars Þengilssonar, sem ákveðst þannig að vararefsing ákærða Ásmundar Gunnars, greiði hann ekki sektina innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa, skal vera fangelsi í níu mánuði og vararefsing ákærða Stefáns Gunnars, greiði hann ekki sektina innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms þessa, skal vera átta mánaða fangelsi.
Ákærðu greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, sem samtals er 1.353.157 krónur, þar af óskipt 98.157 krónur, en hvor fyrir sig 627.500 krónur í málsvarnarlaun til verjanda síns fyrir Hæstarétti, ákærði Ásmundur Gunnar til Jóhannesar Ásgeirssonar hæstaréttarlögmanns og ákærði Stefán Gunnar til Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra miðvikudaginn 14. september 2011.
Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð þriðjudaginn 26. júlí, er höfðað með ákæru ríkislögreglustjórans, útgefinni 15. júlí 2008, á hendur „Ásmundi Gunnari Stefánssyni, kt. [...], [...], [...], Stefáni Gunnari Þengilssyni, kt. [...], [...], [...] og einkahlutafélaginu Icefox á Íslandi, kt. [...], [...], [...], en fyrirsvarsmaður þess er ákærði Ásmundur Gunnar. Ákæran er, „Á hendur Ásmundi Gunnari Stefánssyni, Stefáni Gunnari Þengilssyni og Icefox á Íslandi ehf.
Á hendur ákærða Ásmundi Gunnari sem framkvæmdastjóra og stjórnarmanni og ákærða Stefáni sem starfandi framkvæmdastjóra, vegna brota sem framin voru í rekstri einkahlutafélagsins Icefox á Íslandi:
1. Fyrir meiriháttar brot gegn skattalögum með því að hafa staðið skil á röngum virðisaukaskattsskýrslum fyrir hönd einkahlutafélagsins vegna tímabilanna frá mars 2004 til og með febrúar 2005, með því að færa til gjalda og innskatts í bókhaldi félagsins 10 tilhæfulausa sölureikninga frá A ehf. og B ehf., og hafa með því komið sér undan greiðslu virðisaukaskatts sem standa bar skil á í samræmi við IX. kafla laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988, alls kr. 4.465.676, sem sundurliðast sem hér greinir:
|
Uppgjörstímabil |
Oftalinn innskattur |
|
|
Árið 2004 |
|
|
|
mars-apríl |
kr. 507.150 |
|
|
maí-júní |
kr. 987.166 |
|
|
júlí-ágúst |
kr. 490.000 |
|
|
september-október |
kr. 546.350 |
|
|
nóvember-desember |
kr. 1.495.010 |
kr. 4.025.676 |
|
Árið 2005 |
|
|
|
janúar-febrúar |
kr. 440.000 |
kr. 440.000 |
|
Samtals |
|
kr. 4.465.676 |
2. Fyrir meiriháttar bókhaldsbrot með því að hafa rangfært bókhald félagsins tekjuárið 2004 með því að færa til gjalda 6 tilhæfulausa sölureikninga, útgefna af A ehf., 3 tilhæfulausa sölureikninga útgefna af B ehf. og 1 tilhæfulausan kreditreikning útgefinn af B ehf., sem eru eftirfarandi:
|
Dags. |
Nr. reikn. |
Skráður útgefandi |
Efni: |
Heildarfjárhæð (kr.) |
|
01.03.2004 |
52 |
A ehf. |
Dekk og felgur |
1.979.550 |
|
15.03.2004 |
53 |
A ehf. |
Verkfæri |
597.600 |
|
01.05.2004 |
54 |
A ehf. |
Skóflur |
1.494.000 |
|
15.08.2004 |
55 |
A ehf. |
Vörubíll [...] |
2.490.000 |
|
15.09.2004 |
56 |
A ehf. |
Pallur á vörubíl |
1.967.100 |
|
20.10.2004 |
57 |
A ehf. |
Vagn - malarvagn |
809.250 |
|
06.05.2004 |
43 |
B ehf. |
Akstur |
3.522.416 |
|
02.09.2004 |
56 |
B ehf. |
Áhöld og tæki skv. tilboði |
9.833.010 |
|
30.11.2004 |
6 |
B ehf. |
Afsláttur - kreditreikningur |
-2.235.918 |
|
10.01.2005 |
56 |
B ehf. |
Áhöld og tæki |
2.235.918 |
Heildarfjárhæð tilhæfulausra sölureikninga á árunum 2004 og 2005: kr. 22.692.926
Framangreind brot ákærðu Ásmundar Gunnars og Stefáns samkvæmt 1. tölulið ákæru teljast varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005.
Framangreind brot ákærðu Ásmundar Gunnars og Stefáns samkvæmt 2. tölulið ákæru teljast varða við 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig 3. tölulið 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1995.
Framangreind brot ákærða Icefox á Íslandi ehf. samkvæmt 1. tölulið ákæru teljast varða við 8. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995 og 3. gr. laga nr. 134/2005.
Framangreind brot ákærða Icefox á Íslandi ehf. samkvæmt 2. tölulið ákæru teljast varða við 40. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald, sbr. 3. tölulið 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994, um bókhald, sbr. 1. gr. laga nr. 37/1995.
B.
Á hendur ákærða Ásmundi
Fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum, með því að hafa látið undir höfuð leggjast að telja fram á skattframtali sínu gjaldárin 2005 og 2006 vegna tekjuáranna 2004 og 2005, fjármuni sem skattskyldir eru samkvæmt 1. tölulið A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003, sbr. einnig 19. og 21. gr. laga nr. 41/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, og hann hafði fengið greidda úr rekstri Icefox á Íslandi ehf. í formi úttekta, en með þessu vantaldi hann tekjuskatts- og útsvarsstofn sinn um samtals kr. 11.425.529, sem honum bar að greiða af tekjuskatt og útsvar samtals að fjárhæð kr. 4.541.351, sem sundurliðast sem hér greinir:
|
Tekjuárið 2004 |
|
|
Vangreiddur tekjuskattur og útsvar gjaldárið 2005: |
|
|
Framtalinn tekju- og útsvarsstofn 2005 |
kr. 1.443.360 |
|
Vanframtaldar tekjur - Vantalinn tekjuskatts- og útsvarsstofn: |
kr. 5.278.761 |
|
Vangreiddur tekjuskattur, tekjuskattsprósenta 25,75% |
kr. 1.359.281 |
|
Sérstakur tekjuskattur á stofn yfir kr. 4.191.686, gjaldstig 4% |
kr. 101.217 |
|
Vangreitt útsvar, útsvarsprósenta 13,03% |
kr. 687.823 |
|
Vangreiddur tekjuskattur og útsvar samtals: |
kr. 2.148.321 |
|
Tekjuárið 2005 |
|
|
Vangreiddur tekjuskattur og útsvar gjaldárið 2006: |
|
|
Framtalinn tekju- og útsvarsstofn 2006 |
kr. 1.584.000 |
|
Vanframtaldar tekjur - Vantalinn tekjuskatts- og útsvarsstofn: |
kr. 6.146.768 |
|
Vangreiddur tekjuskattur, tekjuskattsprósenta 24,75% |
kr. 1.521.325 |
|
Sérstakur tekjuskattur á stofn yfir kr. 4.191.686, gjaldstig 2% |
kr. 70.782 |
|
Vangreitt útsvar, útsvarsprósenta 13,03% |
kr. 800.923 |
|
Vangreiddur tekjuskattur og útsvar samtals: |
kr. 2.393.030 |
|
Samtals: |
kr. 4.541.351 |
Telst þetta varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig 1. mgr. 109. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003, og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.
C.
Á hendur ákærða Stefáni
Fyrir meiri háttar brot gegn skattalögum, með því að hafa látið undir höfuð leggjast að telja fram á skattframtali sínu gjaldárin 2004, 2005 og 2006 vegna tekjuáranna 2003, 2004 og 2005, fjármuni sem skattskyldir eru samkvæmt 1. tölulið A-liðar 7. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003, sbr. einnig 19. og 21. gr. laga nr. 41/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, og hann hafði fengið greidda úr rekstri Icefox á Íslandi ehf. í formi úttekta, en með þessu vantaldi hann tekjuskatts- og útsvarsstofn sinn um samtals kr. 9.298.090, sem honum bar að greiða af tekjuskatt og útsvar samtals að fjárhæð kr. 3.597.993, sem sundurliðast sem hér greinir:
|
Tekjuárið 2003 |
|
|
Vangreiddur tekjuskattur og útsvar gjaldárið 2004: |
|
|
Framtaldar tekjur skv. skattframtali 2004 |
kr. 877.440 |
|
Vangreiddur tekjuskattur, tekjuskattsprósenta 25,75% |
kr. 1.003.783 |
|
Vangreitt útsvar, útsvarsprósenta 13,03% |
kr. 507.934 |
|
Vangreiddur tekjuskattur og útsvar samtals: |
kr. 1.511.717 |
|
Tekjuárið 2004 |
|
|
Vangreiddur tekjuskattur og útsvar gjaldárið 2005: |
|
|
Vanframtaldar tekjur - Vantalinn tekjuskatts- og útsvarsstofn: |
kr. 4.619.404 |
|
Vangreiddur tekjuskattur, tekjuskattsprósenta 25,75% |
kr. 1.189.496 |
|
Vangreitt útsvar, útsvarsprósenta 13,03% |
kr. 601.908 |
|
Vangreiddur tekjuskattur og útsvar samtals: |
kr. 1.791.404 |
|
Tekjuárið 2005 |
|
|
Vangreiddur tekjuskattur og útsvar gjaldárið 2006: |
|
|
Vanframtaldar tekjur - Vantalinn tekjuskatts- og útsvarsstofn: |
kr. 780.498 |
|
Vangreiddur tekjuskattur, tekjuskattsprósenta 24,75% |
kr. 193.173 |
|
Vangreitt útsvar, útsvarsprósenta 13,03% |
kr. 101.699 |
|
Vangreiddur tekjuskattur og útsvar samtals: |
kr. 294.872 |
|
Samtals: |
kr. 3.597.993 |
Telst þetta varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig 1. mgr. 109. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003, og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.
Fyrir hönd þrotabús A ehf. er krafa um að Stefáni Gunnari Þengilssyni og Icefox á Íslandi ehf. verði gert að greiða þrotabúi A ehf. in solidum kr. 5.771.580 í skaðabætur ásamt dráttarvöxtum af þeirri fjárhæð frá 20. október 2004, sem er síðasti útgáfudagur reiknings í nafni A ehf., að frádregnum kr. 150.000 sem greiddar voru í bætur 1. júní 2005.
Þess er krafist að ákærðu verði dæmd til refsingar.“
Bótakrafa málsins var afturkölluð.
Þrívegis var krafist frávísunar málsins, tvisvar af hálfu allra ákærðu en einu sinni af hálfu ákærða Stefáns eins. Þeim kröfum var hafnað með úrskurðum 12. nóvember 2009, 10. september 2010 og 21. júlí 2011.
Málavextir
Samkvæmt gögnum málsins er upphaf þess það, að með bréfi skattstjórans á Akureyri, dagsettu 10. mars 2005, var athygli skattrannsóknarstjóra vakin á sölureikningum fyrirtækisins B ehf. til ákærðs Icefox á Íslandi ehf., hér eftir nefnt Icefox, útgefnum á árinu 2004. Væri ósamræmi í númeraröð reikninganna, ýmislegt benti til að þeir væru „gerðir í Excel en ekki prentaðir í prentsmiðju“ auk fleiri atriða. Jafnframt var athygli vakin á því, að B ehf. hefði ekki skilað virðisaukaskatti eða virðisaukaskattskýrslum árið 2004. Í framhaldi af þessu hófst rannsókn á bókhaldi og skattskilum Icefox.
Icefox var stofnað 27. ágúst 2003 og samkvæmt stofnsamningi var hlutafé þess þá 500.000 krónur, stærsti hluthafi ákærði Ásmundur var skráður fyrir 250.000 krónum, [...] C 100.000 krónum en þrír aðrir menn fyrir 50.000 krónum hver. Ákærði Stefán var ekki skráður hluthafi. C er skráður formaður stjórnar en ákærði Ásmundur framkvæmdastjóri. Þeir [...] prókúruhafar. Hinn 6. október sama ár er bókaður hluthafafundur og segir að þar hafi verið ákveðið að hækka hlutafé félagsins í 6.500.000 krónur. Fyrir aukningunni hafi skráð sig [...] D, með 4.000.000 króna, og ákærði Ásmundur og C [...] með eina milljón króna hvor. Samhliða þessu kom D inn í stjórn félagsins. Fundargerð hluthafafundarins er móttekin hjá fyrirtækjaskrá hinn 22. júlí 2005.
Í málinu liggja fyrir reikningar sem sagðir eru gefnir út af B ehf. til Icefox. Ekki er tekið fram á reikningnum í hvaða gjaldmiðli þeir séu gerðir. Hinn fyrsti er dagsettur 6. maí 2004 og er fyrir „Akstur“, einingaverð hans er sagt 250, magn 11.317 og alls því 2.829.250. Við er bætt 693.166 vegna virðisaukaskatts svo alls er reikningurinn að fjárhæð 3.522.416. Næsti reikningur er dagsettur 2. september 2004 og er fyrir „Áhöld og tæki samkv. Tilboði“, að fjárhæð 7.898.000 en með 1.935.010 vegna virðisaukaskatts er heildarfjárhæð reikningsins 9.833.010. Með þessum reikningi er fylgiskjal þar sem talin eru upp ýmis tæki. Ekki er gerð nein sérstök grein fyrir tækjunum, svo sem tegundaheiti, verksmiðjunúmer né annað slíkt. Lokaliður upptalningarinnar er liðurinn „Ýmis handverkfæri“ sem sögð eru vera 69 talsins, án frekari greiningar. Þá skal getið tveggja reikninga sem sagðir eru milli sömu aðila. Dagsettur 30. nóvember 2004 er kreditreikningur, skýrður sem afsláttur, að fjárhæð 1.795.918 og við hann er bætt 440.000 vegna virðisaukaskatts svo alls er reikningurinn að fjárhæð 2.235.918. Hinn 10. janúar 2005 er dagsettur reikningur sem sagður er vera vegna áhalda og tækja, sem ekki er gerð nánari grein fyrir, að sömu fjárhæðum og kreditreikningurinn.
Í málinu liggur fyrir skjal sem ber yfirskriftina greiðslukvittun og er dagsett 27. september 2004. Segir þar, að þann dag hafi Stefán Þengilsson, kt. [...], greitt B ehf. 9.833.010 krónur. Undir þetta er handritað nafnið E. Neðst á skjalinu er hakað við að greitt hafi verið með peningum.
Samkvæmt tilkynningu til hlutafélagaskrár, dagsettri og móttekinni [...] 2002, keypti ákærði Stefán allt hlutafé fyrirtækisins A ehf. og var hann frá og með þeim degi stjórnarformaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi félagsins. Hinn [...] 2004 var bú A ehf. tekið til gjaldþrotaskipta og Ólafur R. Ólafsson héraðsdómslögmaður skipaður skiptastjóri þess. Skiptastjóri tilkynnti ákærða Stefáni um úrskurð og þýðingu hans með bréfi. Í málinu liggur afrit símbréfs til skiptastjóra, sem geymir texta bréfs skiptastjóra til ákærða en neðan textans er handskrifaður textinn „ég kem við hjá þér í næstu viku“ og undirritað Stefán. Bréfið ber með sér að hafa verið sent úr símbréftæki F, tímasetning sendingar er skráð „8.03. ´04 12:27“, en ekki verður séð hvort og þá hvaða stafur hefur staðið fyrir framan töluna 8. Í bréfi lögmannsins til lögreglu, dagsettu 8. júní 2007, segir að símbréfið hafi komið hinn 18. mars 2004.
Skiptum á búi A ehf. lauk á skiptafundi hinn [...] 2004. Í endurriti gerðabókar skiptastjóra segir um skiptafundinn: „Skiptastjóri upplýsti á fundinum að hann hefði náð lauslegu samtali við forsvarsmann félagsins, Stefán Þengilsson og upplýsti Stefán að engar eignir væru til í búinu og staðfestir skiptastjóri það með hliðsjón af gögnum málsins.“
Í málinu liggur endurrit skýrslu um yfirheyrslu ákærða Stefáns hjá skiptastjóra A ehf. Skjalið er ekki dagsett en í bréfi lögmannsins til lögreglu segir að skýrslutakan hafi farið fram 1. júní 2005. Er ákærði þar spurður hvaða verðmæti hafi verið í félaginu þegar hann hafi keypt það. Skráir svo skiptastjóri: „kaupa átti kröfur og vörubíla og eitthvað dót. Skóflur og gröfur var um að ræða. Glitnir hirti gröfuna sem raunar var á öðru nafni. Skóflurnar fylgdu gröfunni. Til var einn gamall vörubíll sem kom norður. Það var Bens ´88 módel sem var keyrður hér í nokkra daga þar til fór í honum mótorinn. Í ljós kom að þessi bíll var bara gamalt hræ. Þannig varð aldrei neitt úr neinum rekstri eða kaupum í raun í nafni Stefáns Þengilssonar. Aldrei var gengið frá neinum viðskiptum til að [klára] þetta mál. [Stefán] segist aldrei hafa rekið þetta fyrirtæki neitt.“ Þá spyr skiptastjóri um bifreiðina [...], hvar sú bifreið, eða „hræið“ af henni sé, og bókar: „Mótorinn var rifinn úr og svo hafi verið geymd einhvern tíma en verið rifin í lokin [svo].“ Þá er spurt um malarvagn sem borið hafi númerið [...] og bókað að sá vagn „hafi verið vörslusviptur á hlaðinu í [...]“ og færður suður. Hús hans muni þó vera í [...]. Skiptastjóri segist hafa fengið tilboð í grindina og er í framhaldi af því bókað: „Stefán býður að klára málið með greiðslu kr. 150.000,- og grindin falli til hans og afgangurinn af þessu húsi. Þannig vilji hann losna frá þessu leiðindafyrirtæki sem hann hafi látið blekkja inn á sig og ekki haft neitt nema kostnað af þessu.“ Í tölvubréfi lögmannsins til lögreglu, sendu 7. júní 2007, segir: „Þann 1. júní 2005 greiddi Icefox inn á fjárvörslureikning skiptastjóra nr. [...] kr. 150.000,- sem var greiðsla fyrir vörubílsgrind þá sem í ljós kom að sagt hafði verið ósatt um að ekki hefði verið til, en síðar borið við að hefði verið hræ. Kauptilboð hafði borist frá 3. aðila í grindina og þannig komst skiptastjóri á snoðir um tilvist þessarar vörubílsgrindar. Af því tilefni kom Stefán í skýrslutöku til skiptastjóra 1. júní 2005, sbr. afrit áður sent af ódags. skýrslu.“
Í málinu liggja fyrir sex reikningar, sem sagðir eru gefnir út af fyrirtækinu A ehf. til Icefox.
Hinn fyrsti er dagsettur 1. marz 2004, er sagður fyrir „Dekk og felgur“ og er að fjárhæð 1.590.000. Við er bætt 389.550 vegna virðisaukaskatts og alls er reikningurinn að fjárhæð 1.979.550.
Annar reikningur er dagsettur 15. marz 2004, er sagður fyrir „Verkfæri“ og er að fjárhæð 480.000. Við er bætt 117.600 vegna virðisaukaskatts og alls er reikningurinn að fjárhæð 597.600.
Þriðji reikningur er dagsettur 1. maí 2004 og er sagður fyrir „skóflur“ og er að fjárhæð 1.200.000. Við er bætt 294.000 vegna virðisaukaskatts og alls er reikningurinn að fjárhæð 1.494.000.
Fjórði reikningur er dagsettur 15. ágúst 2004 og er sagður fyrir „vörubíll [...]“ og er að fjárhæð tvær milljónir. Við er bætt 490.000 vegna virðisaukaskatts og alls er reikningurinn 2.490.000.
Fimmti reikningur er dagsettur 15. september 2004 og er sagður fyrir „Pallur á vörubíl“ að fjárhæð 1.580.000. Við er bætt 387.100 vegna virðisaukaskatts og alls er reikningurinn 1.967.100.
Sjötti reikningur er dagsettur 20. október 2004 og sagður fyrir „Vagn Malarvagn“ að fjárhæð 650.000. Við er bætt 159.250 vegna virðisaukaskatts og alls er reikningurinn að fjárhæð 809.250.
Á alla reikningana er handskrifað „Stefán“, til staðfestingar því að þeir séu greiddir. Dagsetningar þeirra allra eru handskrifaðar. Á fjórum síðastgreindu reikningunum hefur upphaflega verið handskrifað ártalið “05 en tölustafurinn 4 síðan verið skrifaður yfir tölustafinn 5.
Samkvæmt útprentun úr ökutækjaskrá var vörubifreiðin [...] afskráð sem ónýt hinn 24. október 2002. Skráður eigandi A ehf.
Samkvæmt gögnum málsins lagði skattstjóri 25% álag á vantalda stofna til greiðslu tekjuskatts og útsvars, sbr. heimild í 108. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt og 10% álag á of talinn innskatt, sbr. 27. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, svo sem hér greinir:
|
Álag á oftalinn innskatt: |
||
|
Árið 2004: |
||
|
mars-apríl |
kr. |
50.715 |
|
maí-júní |
kr. |
98.717 |
|
júlí-ágúst |
kr. |
49.000 |
|
september-október |
kr. |
54.635 |
|
nóvember-desember |
kr. |
149.501 |
|
Árið 2005: |
||
|
janúar-febrúar |
kr. |
44.000 |
|
Samtals |
kr. |
446.568 |
|
Álag á vangreiddan |
||
|
tekjuskatt og útsvar: |
||
|
Á hendur ákærða Ásmundi: |
||
|
Tekjuárið 2004 |
kr. |
552.686 |
|
Tekjuárið 2005 |
kr. |
598.258 |
|
Samtals |
kr. |
1.150.944 |
|
Á hendur ákærða Stefáni: |
||
|
Tekjuárið 2003 |
kr. |
377.929 |
|
Tekjuárið 2004 |
kr. |
447.851 |
|
Tekjuárið 2005 |
kr. |
73.718 |
|
Samtals |
kr. |
899.498 |
Í málinu liggur fyrir skjal sem dagsett er 14. nóvember 2005. Segir þar að G og ákærði Stefán Þengilsson geri með sér þá viljayfirlýsingu, að G stefni „að því að kaupa af Stefáni og [...]“ ákærða Ásmundi, C og D, „tvo sumarbústaði sem geymdir eru á athafnasvæði Stefáns [...] á kr. 26.300.000“ og sé þá miðað við að bústaðirnir séu fullgerðir og komnir á nánar tilteknar lóðir. Segir svo: „Stefán og [...] munu fyrir hönd sína gefa út skuldajöfnunarheimild til handa Icefox þannig að G jafni út skuld Icefox við félagið og Icefox eignist inneign á móti komandi úttektum olíu og annarra vara. Aðilar munu á næstu vikum vinna að því að gera með sér kaupsamning og útfæra nánar þar í hvernig skuldfærslu verði háttað eftir framvindu verksins og hvernig vaxtakjörum Icefox verði háttað á byggingartímanum.“ Undir yfirlýsinguna ritar ákærði Stefán auk fulltrúa G.
Í málinu liggja fyrir tvö skjöl, bæði nefnt kaupsamningur og afsal, annað dagsett 22. júní 2006 og hitt 16. maí 2007. Eru samningarnir báðir milli G sem kaupanda og ákærða Stefáns sem seljanda, og snúast báðir um sölu sumarhúss, sem standa skuli við afhendingu á tiltekinni lóð í landi [...] í [...]. Fyrir hús samkvæmt fyrri samningi skuli greiddar ellefu milljónir króna en 15.300.000 krónur fyrir hús samkvæmt hinum síðari. Í báðum skjölunum segir að kaupandi hafi staðið við samningsskyldu sína og sé húsið afsalað honum.
Samkvæmt gögnum málsins lagði ákærði Stefán ellefu milljónir króna inn á reikning Icefox hinn 28. júní 2006.
Í ljósi skýrslna ákærðu fyrir dómi þykir rétt að rekja hér nokkur atriði úr skýrslum þeirra hjá skattrannsóknarstjóra og lögreglu á meðan á rannsókn málsins stóð.
Í skýrslu hjá skattrannsóknarstjóra, sem tekin var 15. mars 2006, segir ákærði Stefán að hann sjálfur og meðákærði Ásmundur stjórni Icefox að mestu leyti, en ákvarðanir séu bornar undir fleiri, svo sem ef bjóða eigi í stærri verk. C [...] hafi hins vegar ekki komið að stjórn félagsins vegna veikinda sinna. Spurður hvort hann sjálfur eigi eitthvað í félaginu segir hann að [...], D, sé skráður fyrir eignarhlut sínum. Ákærði er spurður um reikninga A ehf. til Icefox og segist hafa gert þá sjálfur. Fyrrum eigandi A ehf. hafi átt við [...] að stríða og hafi ákærði reynt að hjálpa honum með því að greiða fyrir hann ýmsa reikninga og lána honum fé. Peninga til þessa hafi ákærði tekið úr rekstri Icefox. Segir svo: „[Ákærði] segir að þessir reikningar hafi síðan verið gerðir til að hann gæti náð peningum til baka. [Ákærði] segir að þessi reikningar eigi ekki við rök að styðjast og muni hann hlutast við að þeir verði bakfærðir í samvinnu við endurskoðanda sinn.“ Ákærði er spurður um úttektir stjórnenda, starfsmanna og hluthafa úr rekstri Icefox og kveðst hann vera með kort frá félaginu, greiða allt með því og „ef hann geti ekki útvegað nótur á bak við úttektir þá sé það viðskiptamannafært á hann.“ Séu þeir meðákærði Ásmundur báðir með slík kort.
Í skýrslu ákærða Stefáns hjá skattrannsóknarstjóra 7. nóvember 2006 er haft eftir honum að hann sjálfur og meðákærði Ásmundur hafi séð um daglegan rekstur og ákvarðanatöku í fyrirtækinu. Eignarhlutur D í félaginu hafi verið í sameiginlegri eigu ákærða og D.
Ákærði Stefán var yfirheyrður af lögreglu hinn 5. júní 2007. Fyrr sama dag hafði meðákærði Ásmundur verið yfirheyrður af lögreglu og var meðal annars borið undir ákærða Stefán það sem eftir meðákærða Ásmundi hafði þar verið haft, svohljóðandi: „Ásmundur segir að hann hafi aldrei verið raunverulegur framkvæmdastjóri, heldur hafi faðir hans verið sá sem í raun gegndi starfi framkvæmdastjóra. Ásmundur kveðst hafa verið í mikilli óreglu öll þau ár sem hér er spurt um og hafi því ekkert komið nærri rekstrinum eða neinum ákvörðunum um fjármál, skattskil eða neitt í þá veru. Hann segir að hinn raunverulegi framkvæmdastjóri öll þessi ár hafi verið faðir hans, Stefán Gunnar Þengilsson.“ Þá hafi verið haft eftir meðákærða Ásmundi: „Ásmundur kveðst einungis hafa unnið eitthvað smávegis á gröfum og slíku, í stuttan tíma hverju sinni, en hafi hvergi komið nærri neinni stjórnun eða ákvörðunum í rekstri. Hann hafi verið lengi fjarverandi frá [...] og verið í óreglu, sem fyrr segir.“ Í skýrslunni af ákærða Stefáni er haft eftir honum að hann staðfesti í einu og öllu þennan framburð meðákærða Ásmundar. Er jafnframt haft eftir honum að meðákærði „Ásmundur hafi aldrei komið að neinum ákvörðunum, hvorki sem meðstjórnandi eða skráður framkvæmdastjóri, varðandi bókhald eða skattskil félagsins.“ Sama er haft eftir honum um aðra stjórnar- og varastjórnarmenn félagsins. Ákærði er í skýrslunni spurður um áðurrakinn framburð sinn hjá skattrannsóknarstjóra hinn 15. mars 2006 um reikninga A ehf. til Icefox. Er haft eftir honum hjá lögreglu að þar hafi ekki verið rétt bókað en þeir, sem skýrsluna hafi tekið, hafi lagt honum þessi orð í munn. Allir þeir hlutir, sem reikningarnir tilgreini, hafi í raun farið frá A ehf. til Icefox og hafi verðlagning, sem hann hafi sjálfur séð um verið eðlileg. Ákærði er í skýrslunni spurður hver sé „munurinn á honum sjálfum og Icefox fjárhagslega“ og er haft eftir honum að sá munur „sé óljós, enda skilji hann ekki að það þurfi að halda öllu svona nákvæmlega aðskildu.“ Í lok skýrslunnar ritar ákærði undir þá yfirlýsingu að hann staðfesti framburð sinn, „sem hér er lesinn upp, rétt eftir hafðan.“
Ákærði Stefán var yfirheyrður af lögreglu að nýju 5. september 2007. Var hann þar meðal annars spurður hvort vörubifreiðin [...], sem hann hefði fyrir skiptastjóra A ehf. sagt vera „gamalt hræ“ með ónýta vél, og verið afskráður sem ónýtur hinn 24. október 2002, hefði hinn 15. ágúst 2004, verið 2.490.000 króna virði. Er bókað að ákærði hafi ekki viljað svara þessu.
Í skýrslu ákærða Ásmundar hjá skattrannsóknarstjóra 15. mars 2006 er haft eftir honum að þeir meðákærði Stefán komi að stjórnun og ákvarðanatöku í félaginu en C [...] hafi verið frá vegna veikinda sinna. Stærstu hluthafar séu þeir [...], en tveir til þrír aðrir menn eigi litla hluti í félaginu. Borin eru undir ákærða viðskipti Icefox og A ehf. og er haft eftir honum að um þau viti hann ekki neitt en vísi á meðákærða Stefán. Ákærði er spurður um úttektir stjórnenda, starfsmanna og hluthafa úr rekstri Icefox og kveðst hann vera með kort frá félaginu og greiða kostnað þess með því. Hafi hann ekki nótur fyrir viðskiptum sé skrifað á hann. Hafi þannig ýmislegt verið skrifað á ákærða sem hefði átt að færast á Icefox, en hann hafi „trassað að færa þetta á nafn Icefox.“
Ákærði Ásmundur var yfirheyrður hjá lögreglu hinn 5. júní 2007. Í skýrslu um yfirheyrsluna er meðal annars haft eftir honum: „Ásmundur segir að hann hafi aldrei verið raunverulegur framkvæmdastjóri, heldur hafi faðir hans verið sá sem í raun gegndi starfi framkvæmdastjóra. Ásmundur kveðst hafa verið í mikilli óreglu öll þau ár sem hér er spurt um og hafi því ekkert komið nærri rekstrinum eða neinum ákvörðunum um fjármál, skattskil eða neitt í þá veru. Hann segir að hinn raunverulegi framkvæmdastjóri öll þessi ár hafi verið faðir hans, Stefán Gunnar Þengilsson.“ Ákærði er spurður hvernig daglegri stjórn félagsins, fjármálastjórn og einnig ábyrgð og umsjón stjórnenda á færslu bókhalds og hverskyns skattskilum vegna áranna 2003, 2004 og 2005, og er haft eftir honum að meðákærði Stefán hafi séð um þessi mál allan þennan tíma. Sjálfur hafi ákærði aðeins unnið ofurlítið á gröfum og slíku, stuttan tíma í senn, en hvergi komið nálægt stjórnun eða ákvörðunum í rekstri. Hafi ákærði verið lengi fjarverandi og í óreglu. Ákærði er spurður um skattframtöl félagsins rekstrarárin 2003 og 2004 og er haft eftir honum að hann geti ekkert tjáð sig um þau en vísi á meðákærða Stefán.
Nú verða rakin skýrslur ákærðu og framburður vitna fyrir dómi, eftir því sem ástæða þykir til.
Ákærði Stefán Gunnar kvað aðkomu sína að rekstri Icefox vera þá, að hann sé [...]. Sjálfur hefði hann aldrei átt neitt í fyrirtækinu og aldrei hafa komið að bókhaldi þess, þó að komið hefði fyrir að hann hefði farið með gögn fyrir það í poka til H. Lýsti hann sér í því hlutverki sem bréfbera. Ákærði kvaðst ekkert kunna í bókhaldi og „þess vegna réði ég H“. Aðspurður taldi hann rangt sagt í ársskýrslu félagsins, með ársreikningum árið 2003, þar sem ákærði er sagður eiga fjórar milljónir króna í félaginu, sem séu 61,54% hlutafjár. Þetta hefði hugsanlega staðið til, en aldrei verið gert. Meðal stjórnarmanna sem skrifa undir skýrsluna eru [...], meðákærði Ásmundur og C, en ákærði sagði um undirskrift meðákærða Ásmundar, að það væri „örugglega eitthvað sem að bókhaldsskrifstofan hefur verið að brasa í og láta hann skrifa á“, og hefði meðákærði Ásmundur „náttúrulega bara skrifað það þegar hann hefur mætt og verið beðinn um að skrifa sko, ég er ekki viss um að hann viti hvað hann hefur verið að skrifa á.“ Þegar ákærði var spurður hvort bókhaldsskrifstofan hefði tekið upp hjá sjálfri sér að skrá ákærða fyrir 4 milljónum króna og meðákærða Ásmund fyrir 2,2 milljónum króna, kvað hann já við því.
Ákærði kvaðst vera verkstjóri hjá Icefox og sjá um daglegan rekstur á vinnunni sem unnin væri hér og þar, en í því lægi reynsla sín. Hann hefði hins vegar aldrei verið framkvæmdastjóri félagsins, hvorki skráður né óskráður. Hann kvaðst hins vegar fylgjast með öllu í fyrirtækinu, hjálpa til og vita um allt sem þar gerðist. Gefið hefði á bátinn hjá [...], C glímt við [...] en meðákærði Ásmundur verið óvinnufær af öðrum ástæðum, verið „mjög óstapíll í vinnu og hvarf og týndist.“ Kvað ákærði ekki gott að segja hversu lengi þetta hefði staðið, ekki væri „langt síðan þetta fór að lagast“. Á meðan meðákærði Ásmundur hefði verið frá mætti segja að félagið hefði verið stjórnlaust, án hans hefðu engar ákvarðanir verið teknar. Þetta ástand hefði engu að síður knúið ákærða til að koma til aðstoðar, en hann hefði, á meðan allt hefði verið í góðu gengi, veðsett eigur sínar fyrir félagið. Þegar hallað hefði undan fæti hjá sonum hans hefði hann farið „náttúrlega einhvern veginn að reyna að passa eitthvað upp á þetta og reyna að hjálpa eitthvað til þegar ég sé að þetta er að fara í vitleysu og peningunum er bara eytt í annað, þá fer ég náttúrlega að reyna að hjálpa eitthvað til, til þess að passa upp á mínar eigur, að þær verði ekki bara boðnar upp einhvern daginn.“
Ákærði var spurður út í þau orð sín í lögregluskýrslu að hann eigi sjálfur þann hlut í félaginu sem [...], D, væri skráður fyrir. Svaraði ákærði því fyrst með orðunum: „Ég á hann þangað til hann er búinn að borga mér hann“, en þegar hann var nánar spurður þá svaraði hann: „Nei, ég er ekki eigandi að honum, en hann skuldar mér hann náttúrulega þangað til hann borgar mér hann og það má kannski túlka það þannig að ég eigi það kannski hjá honum, eða hvernig þið viljið túlka það.“ Ákærði var spurður hvort hann hefði lánað D fjórar milljónir króna til að kaupa hlutafé, og kvað ákærði það hafa staðið til, en hann vissi ekki hvort frá því hefði verið gengið. Hann myndi ekki hvort hann hefði lánað D þetta fé.
Ákærði var spurður um viðskipti Icefox við fyrirtækið B ehf. Ákærði kvað menn, sem hann kynni ekki að nafngreina en hann hefði talið vera starfsmenn B án þess að kanna það nánar, hafa komið til starfa fyrir Icefox. Þeir hafi selt Icefox „þarna einhverja vissa hluti“, sem Icefox hefði reyndar ekki fengið alla afhenta og því fengið kredit-reikning fyrir. Þessir menn hefðu starfað skamman tíma sem undirverktakar fyrir Icefox. Ákærði var spurður um greiðsluviðurkenningu er segir að ákærði hafi greitt B 9.833.010 krónur og undir stefndur nafnið E. Ákærði kvaðst telja sig vera að sjá greiðsluviðurkenninguna í fyrsta sinn fyrir dóminum. Alveg væri af og frá að hann hefði skrifað hana sjálfur. Ákærði kvaðst ekki muna hvort hann hefði greitt B þessa fjárhæð eða aðra, og en taldi að einhver hjá Icefox hefði gert það, úr því B hefði sent þessa greiðsluviðurkenningu. Kvaðst ákærði telja allar líkur á að þetta hefði verið greitt í reiðu fé, en hugsanlega að einhverju leyti með vörum.
Ákærði var spurður um viðskipti Icefox og fyrirtækisins A ehf. og kvaðst hann hafa, sem fyrirsvarsmaður A, samið við [...], sem fyrirsvarsmenn Icefox, um þau viðskipti. Hefðu þeir þá verið [...]. A hefði afhent umsamdar vörur en ákærði kvaðst halda að fyrirtækið hefði „aldrei fengið peningana hjá Icefox.“ Þegar hann var nánar spurður hvort Icefox hefði aldrei greitt fyrir vörurnar kvaðst ákærði ekki vera viss. Þegar hann var spurður hvers vegna reikningarnir hefðu verið áritaðir um greiðslu, ef greiðsla hefði aldrei komið, kvað hann vel geta verið að þeir hefðu verið greiddir. Reikningarnir ættu við rök að styðjast „og fyrirtækið fékk allar þessar vörur, fékk fullt af varahlutum og fékk allt þetta dót“.
Ákærði kvaðst hafa gefið út reikninga A vegna viðskiptanna. Það hefði hann gert áður en fyrirtækið hefði verið úrskurðað gjaldþrota og hefði hann sennilega skrifað vitlausar dagsetningar á reikningana, „ekki áttað mig á tímanum eða hvaða tímanum leið eða eitthvað, ég er ekki viss um hvernig þetta var.“
Ákærði var spurður um viðskipti með vörubifreiðina [...]. Ákærði sagði bifreiðina hafa verið afskráða sem ónýta, vél hennar hafi verið ónýt en verðmæti bifreiðarinnar hafi legið í öðru, gírkassa, hásingu, fjöðrum, húsi, rafkerfi, túrbínu, startara, alternatori og vatnskassa og allt hefði þetta verið notað, væri ekkert eftir af bifreiðinni nema húsið. Hefði Icefox í raun fengið bifreiðina fyrir lítið verð. Borin var undir ákærða skýrsla sem hann hafði gefið skiptastjóra A ehf. hinn 1. júní 2005, þar sem hann segir búið eiga eina gamla vörubifreið, en samkvæmt reikningi hefði A ehf. selt Icefox þessa bifreið hinn 5. ágúst 2004. Ákærði kvað þetta ekki rétta „túlkun“, varahlutir úr bifreiðinni hefðu verið seldir, en A ætti „kannski afganginn“ af henni, og hefði ákærði greitt búinu 200.000 krónur fyrir hann.
Borinn var undir ákærða framburður hans í skýrslugjöf hjá skattrannsóknarstjóra þess efnis að reikningar A ehf. ættu ekki við rök að styðjast og að ákærði myndi í samvinnu við endurskoðanda hlutast til um bakfærslu þeirra. Gaf ákærði þá skýringu, að rannsóknarmenn hefðu sagt sér að hann væri „of tengdur þessu fyrirtæki til að þessir reikningar geti verið þarna inni. Og hinir reikningarnir séu ekki, að þeir telji hina reikningana ekki nógu góða til þess að geta verið inni í bókhaldinu þannig að þeir ráðleggja mér að það sé best að taka þessa reikninga út úr þessu bókhaldi, bókhaldið sé mjög gott að öðru leyti og þeir ráðleggja mér að taka þetta út úr bókhaldinu og það er samþykkt að það sé tekið út úr bókhaldinu og þeir sjái um að gera það með I hjá H. Og við borgum það sem þetta, til baka þessa tölu sem breyttist við að taka þetta út og þeir töldu mér trú um það að ef þetta væri gert þá væri þetta ekkert mál. Þá yrði ekkert meira úr því, sem virtist svo ekki vera satt.“
Ákærði var spurður um notkun hans og meðákærða Ásmundar á bankakortum Icefox og úttektir þeirra á viðskiptamannareikning félagsins. Ákærði kvaðst vilja nefna bifreiðina [...]. Icefox hefði keypt bifreiðina, meðákærði Ásmundur hefði verið „greiðandi að láninu og á bílinn“ en Icefox hefði svo tekið við að greiða bifreiðina. Þá hefði komið upp úr dúrnum að félagið væri það nýtt að það hefði ekki fengið að yfirtaka lán sem væri á bifreiðinni, svo meðákærði Ásmundur hefði greitt af því allan tímann. Hluti af úttektum hans væru til þess að borga af umræddu láni. Þá sjáist á yfirliti að fjöldi úttekta hans sé hjá fyrirtækjum eins og G og J, en sjálfur eigi meðákærði Ásmundur ekki bifreið. Matur sem meðákærði hafi keypt, hafi verið fyrir starfsmenn fyrirtækisins. Kvaðst ákærði telja að ofskráð hefði verið á viðskiptamannareikning sinn og meðákærða Ásmundar, bókhaldsskrifstofan myndi hafa talið það auðveldast ef hún fyndi ekki viðeigandi greiðsluviðurkenningu „í hvelli“, þá skráði hún „annað hvort á mig eða Ásmund, bara eftir behag.“
Þá kvaðst ákærði gefa þá skýringu á viðskiptamannareikningi sínum að hann hefði selt G tvo sumarbústaði, annan fyrir 16,3 milljónir króna og hinn 11,3 milljónir, ef hann myndi rétt. Um þetta hefði fyrst verið samið símleiðis en fulltrúi G hafi einlægt verið væntanlegur norður til að ganga frá samningnum. Þegar hann hafi loks komið hafi verið gefin viljayfirlýsing um kaupin, en áður hefði hann leyft ákærða að taka olíu, út á væntanlegt kaupverð. Svo hefði G greitt ákærða 11,3 milljónir króna, ákærði hefði greitt Icefox þessa fjárhæð sem aftur hefði greitt hana til G. Hinn bústaðurinn hafi verið dýrari og verið „lagður beint inn á viðskiptareikninginn hjá Icefox“. Margt af því sem hann hefði tekið út og skráð hefði verið á viðskiptamannareikning hans hafi verið keypt til þess að „borga niður þessa sumarbústaði“. Salan á bústöðunum hefði ekki verið færð Icefox til tekna heldur hefði hann „sett bara þessa sumarbústaði þarna beint inn, til G, sem ég er löngu búinn að gera áður en viljayfirlýsingin er loksins gerð.“ Icefox hefði vegna samkomulagsins við G getað tekið út olíu „en bústaðirnir voru bara hálfsmíðaðir þannig að það þurfti einhvern veginn að klára bústaðina og ég gat ekki klárað þá nema að fá peninga hjá Icefox til þess að klára bústaðina og Ásmundur tekur út og fer og kaupir vörur til þess að nota í sumarbústaðina og ég fer og kaupi vörur í sumarbústaðina, reikningarnir eru allir annað hvort á mínu nafni eða Ásmundar sem eru teknir fyrir efninu sem fara í sumarbústaðina og þá náttúrulega fara þeir bara hérna inn og af því að sumarbústaðirnir fóru ekki inn á undan“ þá væri ekkert til í bókhaldinu „til þess að reikningurinn geti bara dregist frá, sem hann hefði átt að gerast ef þetta hefði verið fært á réttum stað í bókhaldi“ frá upphafi. Ákærði var spurður hvort hann hefði lagt sumarbústaði að virði 20 til 30 milljónir króna inn í félagið, án þess að eiga í því og án þess að stýra því og án þess að fá nokkurn samning í hendur. Kvaðst ákærði hafa með þessu reynt að hjálpa [...], „kannski“ hefði hann „bara ætlað að gefa þeim þetta“.
Ákærði var spurður um skýrslutöku af honum fyrir lögreglu. Hann kvaðst hafa treyst þeim sem tekið hefðu af sér skýrslu, „þetta yrði ekki neitt meira mál“ ef ákærði „myndi laga þessa hluti“. Spurður hvort rétt væri eftir honum haft í skýrslunum kvað hann ekki vita það, hann hefði verið skelkaður og ringlaður og kannski hefði hann samþykkt „bara að hluta til það sem þessir menn segja“. Hann kvaðst ekki muna hvort framburður hans hefði verið lesinn upp fyrir sér í lok skýrslutökunnar, eins og segir aftast í skýrslunni að hafi verið gert. Nánar spurður svaraði ákærði: „Eina sem ég ætla að segja um þetta í sambandi við þessa skýrslu að maður hafði það svona á tilfinningunni þegar verið var að gera þessa skýrslu, að þessir menn væru að gera þetta þannig að þessi skýrsla væri þannig að þessir hlutir yrðu bara lagaðir og þetta yrði ekkert mál og allt yrði lagað, bókhaldið væri bara nokkuð gott, ég hafði ekki neinar áhyggjur af þessari skýrslu og skrifaði bara undir hana.“ Sérstaklega var borið undir ákærða það svar hans í skýrslu að hann hafi séð um daglega fjármálastjórn Icefox og hafi einnig borið ábyrgð á færslu bókhalds og hvers kyns skattskilum vegna áranna 2003, 2004 og 2005. Er í skýrslunni haft eftir ákærða að hann hafi í raun starfað sem framkvæmdastjóri félagsins. Kvað ákærði þetta vera túlkun þeirra sem skýrsluna hefðu skráð, en ekki sína. Þetta hefði hann ekki sagt í yfirheyrslunni.
Þá var borinn undir ákærða sá hluti skýrslunnar þar sem ákærði hafði verið spurður um þau orð meðákærða Ásmundar að ákærði hafi í raun verið framkvæmdastjóri félagsins en ekki Ásmundur, en í skýrslunni er haft eftir ákærða að hann staðfesti þessi orð meðákærða Ásmundar að öllu leyti. Fyrir dómi gaf ákærði við þessu það svar að hann héldi að rannsóknarmaðurinn „túlki þetta bara svona sko“. Þegar hann var nánar spurður svaraði hann: „Já, ég held að þetta sé ekki rétt.“
Ákærði Ásmundur kvaðst hafa verið framkvæmdastjóri Icefox frá 2003 til 2005 og séð um daglegan rekstur félagsins. H hafi séð um bókhald þess en ákærði hefði séð um að gefa út reikninga og koma bókhaldsgögnum til H. Það fyrirtæki hafi bæði séð um skattframtöl Icefox og ákærða persónulega. Væri ákærði ekki bókhaldsfróður maður.
Ákærði var spurður um viðskipti Icefox og B ehf. Kvað hann Icefox hafa fengið „eitthvað dót hjá á þeim á sínum tíma“ og teldi hann drjúgan hluta þess enn þá til og væri hægt að sýna hann. Kvaðst ákærði ekki sjálfur hafa séð um samskipti við fulltrúa B ehf. en þegar hann var spurður hver hefði gert það fyrir hönd Icefox kvaðst hann fyrst vera „bara ekki klár á því“, en nánar spurður bætti hann því fyrst við að meðákærði Stefán hafi verið „líka farinn að aðstoða okkur eitthvað aðeins hérna“, en vildi svo fá að svara spurningunni „á eftir“, því hann væri ekki alveg viss um þetta. Ákærði var spurður út í greiðsluviðurkenninguna þar sem segir að ákærði Stefán hafi greitt B ehf. 9.833.010 krónur og óskaði hann þá eftir hléi á þinghaldi til að ráðgast við verjanda sinn. Að hléi loknu kvaðst hann ekki hafa verið í samskiptum við B og ekkert vita um þessa greiðsluviðurkenningu. Kvaðst hann ekki vita hver hefði verið í þeim samskiptum. Þá kvaðst hann ekki hafa tekið þá ákvörðun að keyptar yrðu af þeim vörur fyrir tæpar tíu milljónir króna og ekki vita hver hefði gert það. Hefði sér ekki verið gert tilboð um þau viðskipti og hann ekki séð „um neitt í sambandi við B, bara ekki neitt.“ Þegar ákærði var spurður hvernig á því stæði að hann, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, þekkti ekki til viðskipta sem næmu um 15 milljónum króna og bakfærslureiknings sem næmi 2,2 milljónum króna, svaraði hann: „Ja þetta bara er ekki mín deild, ég er bara inni í gröfu allan daginn og ég, þetta svona blaðadót er ekki mitt svið sko.“ Hann hefði til dæmis falið H að sinna skattskilum og bókhaldi, enda kynni hann ekki á slíka hluti.
Ákærði var spurður um ákvarðanatöku í fyrirtækinu og kvað hann þá bræður hafa séð „um þetta allt saman“. Nánar spurður svaraði hann: „Við sáum um til að byrja með, svo aðstoðaði [meðákærði Stefán] okkur í framhaldi.“ Ákærði neitaði því hins vegar aðspurður að meðákærði Stefán hefði nokkuð verið í því að stjórna fyrirtækinu. Þegar ákærði var spurður hvort meðákærði Stefán hefði verið starfsmaður fyrirtækisins óskaði hann eftir hléi á þinghaldi til að ráðgast við verjanda sinn. Að hléi loknu kvað ákærði meðákærða Stefán hafa aðstoðað [...] við daglegan rekstur á meðan þeir hafi átt í [...]. Hefði meðákærði Stefán séð um „daglegan rekstur á fyrirtækinu á meðan“ þeir [...] hafi ekki haft tök á því. Spurður um hvaða tímabil þetta hefði verið kvað ákærði það hafa verið frá 2003 til 2008. Þegar ákærði var spurður nánar hvort meðákærði Stefán hefði stýrt félaginu þennan tíma, sagði ákærði hann hafi séð „alla vega svona um að halda mönnunum bara við efnið í vinnunni, hann sá bara [um] verkstjórn, að halda mönnunum við efnið við sína vinnu.“ Þegar ákærði var spurður sérstaklega um „daglegan rekstur“ kvaðst hann ekki muna þetta vel og neitaði að lokum að svara spurningunni frekar.
Ákærði var spurður um viðskipti Icefox og A ehf. og lagði hann áherslu á að allar vörur, sem þar hefðu verið keyptar, væru til og mætti skoða ef einhver vildi. Ákveðið hefði verið að kaupa þessar vörur því Icefox hefði vantað þær í varahluti, en fyrirtækin hefðu átt sams konar bifreið. Ákærði kvaðst ekki muna hvenær viðskiptin hefðu farið fram og ekki vita hvort kaupverðið hefði verið greitt með reiðu fé eða öðrum hætti.
Ákærði var spurður um notkun sína á bankakorti Icefox. Ákærði hefði átt mikið inni hjá fyrirtækinu, en peningar hefðu verið lagðir til félagsins með sölu sumarbústaðar sem ákærði hefði verið einn eigenda að. Söluverðið hefði verið nálægt þrjátíu milljónum króna. Ákærði hefði haft kort frá félaginu og notað til þarfa þess en einnig svolítið til eigin þarfa en hann hefði gert ráð fyrir að hann „ætti fyrir, yrði bara fært rétt á móti, [hann] náttúrulega vissi ekkert betur, það var ekkert sett út á það hjá H, [hann] bara vissi ekkert betur með það.“ Kvaðst hann aðspurður ekki hafa vitað að úttektir sínar yrðu skuldfærðar á sig, hann hefði haldið „að það yrði fært inn eins og á móti sumarbústöðunum“.
Ákærði sagði að sér hefði ekki verið ljóst að hann safnaði skuld á viðskiptareikning sinn. Hann hefði haldið að úttektirnar gengju á móti sumarbústaðarinneigninni. Hann var spurður hvort hann hefði gert Icefox reikning vegna sumarbústaðarins og kvaðst hann ekki muna það en telja þó að „eitthvað“ væri til. Þegar hann var nánar spurður um eignarhaldið á sumarbústöðunum kvað hann þá meðákærða Stefán hafa átt þá saman, en þeir ættu „náttúrulega mestallt saman [...] en það er spurning hvernig það hefur verið skráð.“ Þegar hann var spurður um eignarhlutföll kvaðst ákærði „ekkert“ vita um það „hvernig þetta hefur verið skráð“. Þegar þetta atriði var rætt enn frekar, og þá hvort [...] hefðu einnig átt í bústöðunum, þá sagði ákærði „þetta“ vera „til á pappírum einhvers staðar, ég man ekki hvernig því var háttað nákvæmlega hver ætti hvað sko, við höfum ekkert pælt kannski of mikið í því“. Það gæti því verið að [...] C og D ættu sömu inneign hjá félaginu og ákærði hefði talið sig eiga.
Ákærði sagði að þó að kaupsamningur um sumarbústaði væri frá árinu 2007 þá hefði verið búið að ákveða viðskiptin mun fyrr, og Icefox tekið olíu út á þau frá árinu 2003.
Ákærði kvaðst ekki vita hvernig stæði á því að meðákærði Stefán hefði einnig haft kort frá fyrirtækinu.
Ákærði var spurður hvers vegna hans væri ekki getið í samningum um sölu sumarbústaðanna og kvaðst hann ekki hafa svar við því.
Vitnið D, [...], sagði að það „gæti passað“ að hann hefði verið einn af eigendum Icefox, skráður fyrir fjögurra milljóna króna hlutafé. Það gæti verið rétt „á pappírnum“ að vitnið hefði verið stjórnarmaður og prókúruhafi, en það hefði verið ungt „og ég var ekkert að stjórna neitt í þessu sko“. Þegar vitnið var spurt hver hefði stjórnað fyrirtækinu kvaðst það ekki hafa minnstu hugmynd um það, [...]. Spurt hvernig á því hefði staðið að það hefði skráð sig fyrir tveimur þriðju hlutum hlutafjár í félaginu kvaðst vitnið hafa „bara skrifað á þetta blað einhvern tímann eða eitthvað.“ Kvað vitnið af og frá að það myndi hver hefði beðið sig um slíka undirskrift. Vitnið hefði aldrei litið svo á að það væri sjálft meirihlutaeigandi félagsins.
Vitnið var spurt um skýrslugjöf sína hjá lögreglu hinn 5. september 2007. Kvaðst það muna eftir skýrslugjöfinni og telja sig hafa sagt þar satt frá. Vitnið var sérstaklega spurt um þau orð sín í skýrslunni, að ákærðu Ásmundur og Stefán hefðu stjórnað félaginu, en þegar ákærði Ásmundur hefði verið frá vegna óreglu hefði ákærði Stefán stjórnað. Vitnið kvað þetta „örugglega“ vera rétt eftir sér haft, en bætti við að það myndi „kannski ekki segja endilega að Stefán sé samt stjórnarinn, það er bara á milli þeirra sko“.
Vitnið E kvaðst hafa verið fyrirsvarsmaður B ehf. frá árinu 2000 og þar til bú félagsins hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta árið 2009 eða 2010. Vitnið kvaðst ekki vita til nokkurra viðskipta þess við Icefox og ekki þekkja til forsvarsmanna Icefox. Reikningar til Icefox, sem sagðir væru frá B ehf., stöfuðu ekki frá fyrirtækinu. Kvaðst vitnið telja að nafn fyrirtækisins hefði verið notað í þessu skyni. Hefði félagið litlar eignir átt og alls ekki svo numið hefðu níu eða tíu milljónum króna. Starfsemi þess hefði fyrst og fremst verið í [...] en engin [...]. Kvaðst vitnið minna að starfsemi félagsins hefði í raun verið lokið árin 2003 og 2004.
Vitnið K viðskiptafræðingur hjá H kvað fyrirtækið hafa unnið bókhald og ársreikninga fyrir Icefox. Vitnið kvaðst muna eftir sumarbústöðum sem byggðir hefðu verið á starfsstöð Icefox og kvað G hafa tekið þá upp í skuld, ef vitnið myndi rétt.
Vitnið sagði að ákærði Stefán hefði komið fram fyrir hönd Icefox gagnvart H, „algjörlega alltaf.“ Hann hafi komið með bókhaldsgögn til fyrirtækisins og verið í sambandi við þann bókara sem hafi séð um bókhaldið hverju sinni. Einhvern tíma hefði ákærði Ásmundur þó komið.
Vitnið var spurt um viðskipti Icefox og A ehf. Vitnið kvaðst muna eftir því að ákærði Stefán hefði sagt að við þau viðskipti hefðu komið verðmæti inn í Icefox, einhverjir hlutir. Vitnið kvaðst minna að eitthvað af slíku hefði verið eignfært „en það var allt fært ábyggilega til baka“. Vitnið kvaðst ekki halda neinu fram um þessi viðskipti sjálft, það „hefði heyrt þetta áður [...] en það var ekkert annað sem staðfesti þessi viðskipti, bankayfirlit eða annað sko, en [vitnið hefði] heyrt þetta.“ Sérstaklega spurt sagði vitnið að eini grunnurinn til þess að bakfæra reikninga eins og þessa, væri sá að reikningarnir hefðu verið tilhæfulausir. Bætti þó við að „það kunna að vera einhver tilvik þess eðlis að [...] það sé hægt að bakfæra reikning án þess að þeir séu tilhæfulausir, ég þori ekkert alveg að fullyrða í því“. Vitnið kvað þó sérkennilegt að bakfæra reikninga ef þeir í raun grundvölluðust á að verðmæti hefðu farið milli félaganna. Vitnið sagði að „það var ekkert sem að studdi þessi viðskipti annað en þessir reikningar og svo þegar var farið að grennslast fyrir um þessi félög þá voru þetta bara einhver draugafélög sko. Þannig að sko ástæðan fyrir því að þeir voru bakfærðir ef að ég man þetta rétt, var það að það var ekki talið að það hafi farið nein viðskipti þarna fram sko, það var svona niðurstaðan.“
Vitnið L var starfsmaður H og sá um málefni Icefox þar um tíma. [...] Hún kvað ýmist þá ákærðu Stefán og Ásmund hafa komið með bókhaldsgögnin til sín, hvorugan hinum fremur.
Vitnið var spurt um viðskiptamannareikninga ákærðu Stefáns og Ásmundar. Kvaðst vitnið hafa vitað hvor þeirra hafði hvort kortanúmer, og hefði fært eftir því. Hefðu ekki legið fyrir skjöl til bókunar hjá fyrirtækinu, vegna einstakra greiðslna, hefði verið fært beint á reikning þeirra. Væri þetta viðtekin regla og hlyti þeim að hafa verið hún ljós, en þeir „fóru yfir bókhaldið bara alveg eins og [vitnið].“ Bætti vitnið við síðar að þeir hefðu vitað „nákvæmlega að ef ekki eru fylgiskjöl, það er alveg sama hvort það væru 100 krónur eða milljón eða hvað, ef það voru ekki fyrir þessu fylgiskjöl þá fór það bara beint á þá.“ Sérstaklega spurt kvað vitnið sér hafa fundist þeir ganga léttúðlega með kortin.
Vitnið I, endurskoðandi hjá H, kvaðst hafa komið að hlutafjárhækkun Icefox árið 2005 en ekki að öðrum málum félagsins. Kvaðst það telja sig fyrst hafa verið í samskiptum við Icefox árið 2004 og þá við ákærða Stefán og eitthvað við ákærða Ásmund. Ekki þykir ástæða til að rekja framburð hans sérstaklega að öðru leyti.
Vitnið M, fyrrverandi rannsóknarmaður hjá skattrannsóknarstjóra, var spurður um rannsókn á viðskiptum Icefox og A ehf. Kvaðst vitnið minna að hún hafi snúist um reikninga sem hugsanlega væru tilhæfulausir. Reikningunum hefði ekki verið hafnað vegna þess eins að ákærði Stefán tengdist báðum fyrirtækjunum heldur myndi slíkt vera vegna annars hvors, að það sem komi fram á reikningunum hefði ekki átt við rök að styðjast eða að „vörurnar hafi hreinlega ekki verið til staðar.“
Vitnið N endurskoðandi kvaðst hafa verið [...] endurskoðunarskrifstofu H á [...] fram á sumar 2004. Vitnið kvaðst muna til þess að Icefox hefði komið í viðskipti haustið áður. Hefði ákærði Stefán komið til vitnisins í upphafi sem fyrirsvarsmaður Icefox og leitað eftir viðskiptunum. Aldrei hefði verið vafi í huga vitnisins um að ákærði Stefán hefði verið fyrirsvarsmaður félagsins og kvaðst vitnið ekki muna eftir að aðrir kæmu fram fyrir hönd þess. Á tíma vitnisins hjá H hefði aðeins verið séð um bókhald fyrir Icefox, ársreikningaþjónusta hefði komið síðar.
Vitnið sagðist hafa kynnt sér opinber gögn, í tilefni af því að vera kvaddur fyrir dóminn, og hafa þá tekið eftir að fyrsti ársreikningur sem gerður væri fyrir félagið, fyrir árið 2003, hefði verið gerður af H og virtist vera gerður og dagsettur á árinu 2005. Kvaðst vitnið vilja taka fram, að það hefði rekið augun í að í ársreikningnum 2003 hefði hlutafé verið skráð sex og hálf milljón króna. Hlutafjáraukningin hefði hins vegar verið borguð inn hinn 7. apríl 2005, en þar sem sú aukning hefði verið byggð á hluthafafundi sem haldinn hefði verið árið 2003 hefði átt að hafna hlutafjáraukningunni sem of seint fram komna, auk þess sem ekki sé hægt að skrá hlutafé í einkahlutafélagi nema það sé innborgað. Kvað vitnið þetta hafa þau áhrif „á ársreikning ársins 2003, þar sem búið er að færa upp hlutafé félagsins, að einhver færsla hefur átt sér stað á móti. Hvar sú færsla hefur lent veit ég ekki, en mér þykir líklegast að sú færsla hafi lent inni á viðskiptareikninga viðkomandi aðila sem stóðu að hlutafjáraukningunni og þannig haft áhrif á stöðu þeirra, sem í raun og veru tilhæfulaus færsla þar sem hlutafjárhækkunin hafði ekki átt sér stað samkvæmt hlutafélagalögum.“
Vitnið O, fyrrverandi starfsmaður skattrannsóknarstjóra ríkisins, kvað grunsemdir hafa verið um að reikningar væru tilhæfulausir eða vafasamir, og hefði það verið rannsakað. Kvaðst vitnið ekki muna til þess, að við skýrslutöku hefði ákærða Stefáni verið sagt að ef reikningar yrðu leiðréttir þá yrði ekki meira úr málinu.
P viðskiptafræðingur bar vitni fyrir dóminum en ekki þykir ástæða til að rekja framburð hans.
Niðurstaða
Ákærðu Stefán og Ásmundur gáfu báðir skýrslu fyrir dómi. Að mati dómsins er töluverður munur á hvernig þeir feðgar svöruðu spurningum um málefni Icefox. Ákærði Ásmundur virtist lítt heima í þeim en ákærði Stefán gaf til muna ýtarlegri svör, svo sem um viðskipti sem hann kvað hafa farið fram milli Icefox og fyrirtækjanna A ehf. og B ehf. Er þetta í samræmi við þá mynd sem fæst af skýrslugjöf þeirra feðga við rannsókn málsins, bæði hjá skattrannsóknarstjóra og lögreglu. Þá kom fram hjá ákærða Ásmundi fyrir dómi að á þeim tíma sem hann og [...] C hefðu verið óvinnufærir hefði ákærði Stefán séð um daglega stjórn fyrirtækisins. Kvað Ásmundur þetta hafa verið frá 2003 til 2008. Vitnið D, [...], kvað hjá lögreglu þá ákærðu Stefán og Ásmund hafa stjórnað fyrirtækinu saman en þegar ákærði Ásmundur hefði verið frá vegna óreglu hefði ákærði Stefán stjórnað. Fyrir dómi kvað vitnið rétt vera eftir sér haft hjá lögreglu og hafa sagt satt og rétt frá í yfirheyrslunni. Vitnin K og N kváðu ákærða Stefán hafa komið fram fyrir hönd Icefox gagnvart H. Þegar á framanritað er horft telur dómurinn ljóst, að á þeim tíma sem mál þetta varðar hafi ákærði Stefán í raun farið með stjórn félagsins að meira eða minna leyti og verði, gegn neitun sinni, talinn hafa verið starfandi framkvæmdastjóri þess á þeim tíma, hvað sem formlegri skráningu þess starfa líður.
Í ákæru er byggt á því, að þeir reikningar sem raktir hafa verið og sagðir eru frá fyrirtækjunum A ehf. og B ehf. séu tilhæfulausir. Ákærði Stefán staðhæfir að þeir séu réttir og greini frá raunverulegum viðskiptum. Um þá alla gildir að engar bankafærslur hafa verið lagðar fram sem gefa til kynna að fjármunir hafi farið frá Icefox til umræddra fyrirtækja. Þegar litið er til þess hverjar fjárhæðir um er að tefla, og þær settar í samhengi við umfang Icefox, þykir sú staðreynd draga verulega úr líkum þess að félagið hafi í raun greitt samkvæmt reikningunum. Við vettvangsgöngu benti ákærði Stefán á tæki og tól á ýmsu tilverustigi sem hann kvað hafa fengist úr þessum viðskiptum. Engin gögn voru lögð fram sem hefðu getað varpað ljósi á sögu, eignarhald, uppruna, vörunúmer eða nokkuð annað, en allt voru þetta tól sem búast má við á starfstöð verktakafyrirtækis. Álítur dómurinn að ábendingar ákærða við vettvangsgönguna ekki veita sérstakar líkur fyrir viðskiptunum. Þegar horft er til útgáfudaga reikninga A ehf., en meirihluti reikninganna er skráður út gefinn eftir að fyrirtækið hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta, þykir enn ólíklegra að reikningarnir greini frá raunverulegum viðskiptum. Þá vekur athygli, svo sem rakið var, að á fjórum reikninganna er gerð samsvarandi villa við útfyllingu þeirra, sem eykur ekki á trúverðugleika þeirra. Þegar á allt þetta er horft verður að telja ljóst að reikningarnir séu tilhæfulausir.
Ákærði kveður reikninga B ehf. vera rétta og greina frá raunverulegum viðskiptum. Áður var rakið hvaða þýðingu sú staðreynd, að engin bankagögn eru til um greiðslur samkvæmt reikningunum, þykir hafa. Ákærði Stefán bar að menn, sem hann kynni ekki að nafngreina, en hefðu unnið hjá Icefox sem undirverktakar, hefðu selt fyrirtækinu vörur, í nafni B ehf., og fengið greitt samkvæmt reikningunum. Sú frásögn, að efnt hafi verið til slíkra viðskipta, um verðmæti sem telja verður veruleg fyrir fyrirtæki af stærð Icefox, við menn, sem engin önnur deili hefðu verið kunn á, þykir verulega ótrúverðug. Þegar horft er til þess að engin bankagögn eru til um viðskiptin, engin óháð gögn er sýna að verðmæti hafi í raun farið milli félaganna og sá maður sem sannanlega var fyrirsvarsmaður B ehf. kveðst fyrir dómi engin viðskipti hafa átt við Icefox, þá þykir fjarstæðukennt að viðskipti hafi í raun farið fram samkvæmt reikningunum. Verður að telja ljóst að reikningarnir hafi verið tilhæfulausir.
Eins og áður var rakið verður að álíta að ákærði Stefán hafi í raun verið stjórnandi Icefox á þeim tíma sem mál þetta varðar. Þykir sem hinum tilhæfulausu reikningum hafi verið skilað á hans ábyrgð sem starfandi framkvæmdastjóra. Þá ber ákærði Ásmundur einnig á því ábyrgð sem skráður framkvæmdastjóri félagsins. Eru þeir báðir með þessu sannir að sök samkvæmt ákærulið A, en háttsemi þeirra er í ákæru rétt færð til refsiheimildar, og hafa unnið sér til refsingar. Sama á við um ákært Icefox.
Í ákærulið C er ekki sérstaklega tekið fram í ákæru hver vantalinn tekjuskatts- og útsvarsstofn ákærða Stefáns sé talinn hafi verið tekjuárið 2003. Þar er hins vegar tekið fram hver vangreiddur tekjuskattur og vangreitt útsvar séu talin vera, og hvert tekjuskattshlutfall og útsvarshlutfall hafi verið. Var þetta reifað við munnlegan málflutning og þykir vörn ákærðu ekki hafa spillst af þessu.
Gögn málsins styðja tölulega við ákæruliði B og C. Vitnið L bar að ákærðu hefði verið ljóst að úttektir þeirra úr fyrirtækinu yrðu bókfærðar á þá, ef þeir framvísuðu ekki greiðsluviðurkenningum vegna fyrirtækisins sjálfs. Ákærðu byggja hins vegar á því, að þeir hafi, á móti þeim færslum sem færðar eru á viðskiptareikning þeirra hjá Icefox, átt inneign vegna sumarbústaðasölu til G. Í málinu liggja fyrir viljayfirlýsing og kaupsamningur vegna þeirra viðskipta, svo sem rakið hefur verið. Af hálfu ákærðu hefur verið byggt á því, að viðskiptin hafi í raun verið ákveðin fyrr, en dregist hafi að skrifa undir skjölin, og hafi Icefox tekið olíu hjá G út á þessi viðskipti frá árinu 2003. Hafi ákærðu þannig lagt bústaðina inn í Icefox og átt þar inneign sem kæmi á móti úttektum þeirra.
Engin gögn styðja það að viðskipti Icefox og G hafi í raun verið ákveðin fyrr en ráða má af þeim skriflegu gögnum sem rakin hafa verið. Verður að miða við þau hafi í raun farið fram á þeim tíma, en ekki fyrr svo sem þeir ákærðu halda fram. Ljóst er að fjármunir fóru, svo sem áður er rakið, frá G til ákærða Stefáns, þaðan til Icefox og þaðan til G. Verður að skilja þann hring svo, að ákærði Stefán hafi með greiðslu sinni til Icefox lagt þá fjárhæð til félagsins hinn 28. júní 2006. Engin gögn eru hins vegar til um að ákærði Ásmundur hafi lagt verðmæti inn í félagið, þrátt fyrir framburð þeirra ákærða Stefáns um að ákærði Ásmundur hafi átt í bústöðunum sem seldir hafi verið G. Framburður ákærða Ásmundar var að mati dómsins óljós um það atriði, engin gögn eru um að greiðsla hafi runnið frá G til ákærða Ásmundar eða frá honum til Icefox, og í bókhaldi Icefox er ekki greint frá slíkri innborgun verðmæta af hans hálfu til félagsins. Er ekki unnt að byggja á því að ákærði Ásmundur hafi lagt verðmæti inn í félagið í formi sumarbústaðar eða söluverðs hans.
Vitnið K taldi sig muna að G hefði fengið sumarbústaðina upp í skuld Icefox við félagið.
Samkvæmt 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög er einkahlutafélagi óheimilt að lána hluthöfum, stjórnarmönnum eða framkvæmdastjórum félagsins fé, með öðrum hætti en venjulegum viðskiptalánum. Einnig er því óheimilt að veita þeim manni lán sem skyldur er þessum aðilum að feðgatali. Icefox hefði því verið óheimilt að lána ákærðu Ásmundi og Stefáni fé, og vegna skyldleika þeirra skiptir þar staða ákærða Stefáns innan félagsins ekki máli. Ljóst verður því að telja, að framlag til félagsins, sem nemur söluverði sumarbústaða, hefur ekki verið endurgreiðsla á láni frá félaginu.
Eins og áður segir verður ekki byggt á því, að samið hafi verið við G fyrr en skrifleg gögn um það gefa til kynna. Viljayfirlýsing, þar sem G kveðst stefna að því að kaupa sumarhús af [...] Stefáni, Ásmundi, C og D, skapar ein og sér engum þeirra inneign hjá Icefox, jafnvel þótt gert sé ráð fyrir því að söluverði húsanna verði varið til greiðslu á skuld Icefox við G. Kaupsamningar um húsin eru dagsettir 22. júní 2006 og 16. maí 2007 og geta því þegar af þeirri ástæðu ekki veitt inneign hjá Icefox á árinu 2005 eða fyrr. Innborgun ákærða Stefáns til Icefox, sem þegar rann til G, var innt af hendi hinn 26. júní 2006, en í ákærulið C er honum gefið að sök að hafa ekki talið fram þá fjármuni, sem hann hefði fengið greidda úr rekstri Icefox á tekjuárunum 2003, 2004 og 2005. Þó fallast megi á að ákærði hafi með umræddri greiðslu sinni lagt félaginu til verðmæti úr sinni eigu, þá þykir sú greiðsla ekki létta af honum þeirri skyldu að telja fram á gjaldárunum 2004, 2005 og 2006 þær tekjur sem hann hafði haft árin á undan.
Samkvæmt gögnum málsins var hlutafé Icefox hækkað. Var hækkunin færð í bækur félagsins á árinu 2003 en tilkynnt til hlutafélagaskrár hinn 7. apríl 2005. Ekki eru efni til að taka afstöðu til lögmætis þeirrar hlutafjáraukningar í máli þessu, en líta verður svo á, að ef aukningin hefði verið skráð í bækur félagsins, þegar hún var í raun tilkynnt árið 2005, hefðu vantaldir skattstofnar ákærðu Stefáns og Ásmundar færst milli tekjuáranna 2003 og 2005, en ekki horfið.
Í ljósi framanritaðs verður að telja að sönnuð sé sök ákærða Ásmundar samkvæmt ákærulið B og ákærða Stefáns samkvæmt ákærulið C og hafi þeir unnið sér til refsingar, en háttsemi þeirra er í ákæru rétt færð til refsiheimilda.
Við ákvörðun refsingar ákærðu verður horft til þess að þeir hafa meðal annars gerst sekir um að framvísa alls tíu reikningum, frá tveimur einkahlutafélögum, sem voru tilhæfulausir, en ákærði Stefán kvaðst sjálfur hafa útbúið reikningana frá fyrirtækinu A ehf. sem var í hans eigu þegar bú þess var tekið til gjaldþrotaskipta. Þá verður að horfa til þess að brotin eru framin í áföngum og ýmsum aðferðum en eru ekki stundaryfirsjón.
Sakaferill ákærða Ásmundar tengist ekki fjármunabrotum. Honum hefur hins vegar fimm sinnum verið gerð refsing á árunum 2007 til 2010. Í maí 2007 var hann dæmdur til greiðslu 75.000 króna sektar fyrir umferðarlagabrot. Í september sama ár var hann dæmdur til greiðslu 280.000 króna sektar fyrir umferðarlagabrot og fíkniefnalagabrot og var um hegningarauka að ræða. Í júní 2008 var hann dæmdur til greiðslu 160.000 króna sektar fyrir umferðarlagabrot og var um hegningarauka að ræða. Í ágúst 2009 var ákærði dæmdur til greiðslu 135.000 króna sektar fyrir umferðarlagabrot en í september 2010 var ákærði dæmdur í tveggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára fyrir fíkniefnalagabrot. Þau brot sem hann er nú sakfelldur fyrir framdi hann fyrir uppsögu framangreindra dóma og verður honum því ákveðinn hegningarauki nú. Verður fangelsisdómur hans frá september 2010 nú tekinn upp og honum dæmd refsing í einu lagi.
Ákærði Stefán hefur ekki sakaferil sem hér skiptir máli og verður horft til þess, sem og þess að hann er kominn undir sextugt. Þá verður að telja að hann hafi verið undir verulegu álagi, [...]. Eins og áður segir þykir ákærði Stefán hafa í raun stýrt félaginu á umræddum tíma en völd og ábyrgð ákærða Ásmundar þar fyrst og fremst að formi til. Ákærði Ásmundur fól viðurkenndu endurskoðunarfyrirtæki að annast persónuleg skattskil sín og þykir það lýsa viðleitni til að hafa þau mál í samræmi við lög, þótt hann beri eftir sem áður formlega ábyrgð á framtali sínu. Þá tók rekstur málsins töluverðan tíma, meðal annars af ástæðum sem ákærðu verður ekki um kennt. Þegar á allt er horft verður refsing ákærða Stefáns ákveðin fangelsi í átta mánuði en ákærða Ásmundar í fimm. Dóminum þykir sem fresta megi fullnustu þeirrar refsingar beggja og falli hún niður, haldi þeir almennt skilorð svo sem nánar greinir í dómsorði. Þá verður að gera þeim að greiða sekt vegna brots síns. Það er alvarlegt að hluti brotanna var framinn með því að framvísa reikningum sem telja verður tilhæfulausa. Þykir ekki unnt að takmarka sektarfjárhæðir við lágmark viðeigandi laga. Áður hefur verið rakið hvert álag ákærðu hefur verið gert að greiða og verður litið til þess, sektinni til lækkunar svo sem álaginu nemur, og má um það vísa til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 27/2003. Verður ákærða Stefáni gert að greiða 16.500.000 krónur í sekt, þar af 6.400.000 krónur in solidum með ákærðu Icefox en ákærða Ásmundi 19.300.000 krónur, þar af 6.400.000 krónur in solidum með ákærðu Icefox. Komi sex mánaða fangelsi í stað sektar hvors um sig, ákærða Stefáns og Ásmundar, verði sekt þeirra ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.
Ákærðu verða dæmd til að greiða 40.000 króna kostnað vegna vitnaleiðslu. Framan af gætti Kristján Stefánsson hæstaréttarlögmaður hagsmuna allra ákærðu, og krafðist meðal annars tvívegis frávísunar málsins fyrir hönd þeirra allra, en á lokastigum málsins tók Stefán Karl Kristjánsson héraðsdómslögmaður við hlutverki verjanda ákærða Ásmundar og ákærðs Icefox. Var sú breyting gerð, eftir að upphaflegur verjandi hafði verið leystur frá verjandastarfanum með úrskurði hinn 4. apríl 2011 að kröfu ákæruvaldsins, en talið var að hagsmunir ákærðu færu ekki svo saman að sami verjandi gæti gætt hagsmuna þeirra allra fyrir dómi. Þykir þessi ferill ekki verða til þess að greiðsluskylda málsvarnarlauna, fram að úrskurði þessum, falli á ríkissjóð, en Kristján Stefánsson hæstaréttarlögmaður var að nýju skipaður verjandi ákærða Stefáns, að ósk ákærða. Verða ákærðu dæmdir til greiðslu málsvarnarlauna verjenda svo sem í dómsorði greinir og er virðisaukaskattur innifalinn. Gætt var ákvæða 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008.
Af hálfu ákæruvaldsins fór með málið Eyjólfur Ármannsson saksóknarfulltrúi. Mál þetta dæma héraðsdómararnir Þorsteinn Davíðsson sem dómsformaður og Erlingur Sigtryggsson og Ragnar Jóhann Jónsson endurskoðandi.
D Ó M S O R Ð :
Ákærði Stefán Gunnar Þengilsson sæti fangelsi í átta mánuði. Fullnustu fangelsisrefsingarinnar skal frestað og niður skal hún falla að liðnum þremur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði Ásmundur Gunnar Stefánsson sæti fangelsi í fimm mánuði. Fullnustu fangelsisrefsingarinnar skal frestað og niður skal hún falla að liðnum þremur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði Stefán Gunnar greiði 16.500.000 króna sekt í ríkissjóð, þar af 6.400.000 krónur að óskiptu með ákærðu Icefox á Íslandi ehf., en ákærði Stefán Gunnar sæti sex mánaða fangelsi verði sektin ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.
Ákærði Ásmundur Gunnar greiði 19.300.000 króna sekt í ríkissjóð, þar af 6.400.000 krónur að óskiptu með ákærðu Icefox á Íslandi ehf., en ákærði Ásmundur Gunnar sæti sex mánaða fangelsi verði sektin ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.
Ákærðu Stefán Gunnar, Ásmundur Gunnar og Icefox á Íslandi greiði in solidum 40.000 krónur í sakarkostnað til ríkissjóðs.
Ákærðu Stefán Gunnar, Ásmundur Gunnar og Icefox á Íslandi greiði in solidum 1.506.000 króna málsvarnarþóknun Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns og 293.400 króna útlagðan kostnað lögmannsins.
Ákærði Stefán Gunnar greiði 502.000 króna málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns og 111.600 króna útlagðan kostnað lögmannsins.
Ákærðu Ásmundur Gunnar og Icefox á Íslandi ehf. greiði in solidum 627.500 króna málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar héraðsdómslögmanns og 77.850 króna útlagðan kostnað lögmannsins.