Hæstiréttur íslands

Mál nr. 266/2005


Lykilorð

  • Kærumál
  • Útburðargerð
  • Húsaleigusamningur
  • Riftun
  • Gjafsókn


Mánudaginn 29

 

Mánudaginn 29. ágúst 2005.

Nr. 266/2005.

Félagsbústaðir hf.

(Sigurður H. Guðjónsson hrl.)

gegn

Ingileifu Ögmundsdóttur

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

 

Kærumál. Útburðargerð. Húsaleigusamningur. Riftun. Gjafsókn.

Kröfu F um útburð I úr leiguhúsnæði var hafnað þar sem félaginu hefði ekki tekist að sýna fram á að skilyrði hefðu verið fyrir riftun húsaleigusamnings aðila.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 8. júní 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. maí 2005 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að heimila að varnaraðili yrði með beinni aðfarargerð borin út úr húsnæði sóknaraðila að Réttarholtsvegi 59 í Reykjavík. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess, að fallist verði á kröfu hans um, að varnaraðili verði með beinni aðfarargerð borin út úr húsnæði sóknaraðila. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi varnaraðila í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili skaut málinu af sinni hálfu til Hæstaréttar 15. júní 2005 og krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar um annað en málskostnað. Krefst hún málskostnaðar úr hendi sóknaraðila. Þá krefst hún kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar, sem henni var veitt vegna kærumáls þessa.

Gegn andmælum varnaraðila hefur sóknaraðili ekki sýnt fram á, að skilyrði hafi verið fyrir riftun húsaleigusamnings aðila frá 15. júlí 1998. Verður niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest um annað en málskostnað.

Sóknaraðili greiði málskostnað í héraði og kærumálskostnað, svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.

Sóknaraðili, Félagsbústaðir hf., greiði varnaraðila, Ingileifu Ögmundsdóttur, 100.000 krónur í málskostnað í héraði.

Sóknaraðili greiði 100.000 krónur í kærumálskostnað, sem renni í ríkissjóð.

Allur gjafsóknarkostnaður varnaraðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hennar, 100.000 krónur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. maí 2005.

Gerðarbeiðandi er Félagsbústaðir hf., kt. 510497-2799, Hallveigarstíg 1, Reykjavík, en gerðarþoli er Ingileif Ögmundsdóttir, kt. 221147-7669, Réttarholtsvegi 59, Reykjavík.

Málið barst héraðsdómi 10. desember sl. með bréfi lögmanns gerðarbeiðanda, sem dagsett er 9. sama mánaðar. Það var fyrst tekið fyrir hér í dómi hinn 14. janúar sl. en frestað nokkrum sinnum til gagnaöflunar og sátta að ósk lögmanna málsaðila. Aðal­meðferð var síðan ákveðin 7. mars sl. Þegar að þeim degi dró, óskuðu lögmenn máls­aðila eftir því, að málinu yrði frestað óákveðið til sáttaumleitunar og sú varð raunin. Fullreynt þótti í byrjun þessa mánaðar, að sættir næðust ekki og var aðal­meðferð ákveðin að nýju hinn 12. maí sl. Málið var þá munnlega flutt og tekið til úrskurðar.

Dómkröfur:

Gerðarbeiðandi krefst dómsúrskurðar um að gerðarþoli, Ingileif Ögmundsdóttir, verði með beinni aðfarargerð borin út úr húsnæði gerðarbeiðanda að Réttarholtsvegi 59 í Reykjavík, ásamt öllu, sem henni tilheyrir.  Einnig krefst gerðarbeiðandi máls­kostnaðar úr hendi gerðarþola samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Gerðarþoli krefst þess aðallega, að synjað verði um hina umbeðnu gerð og að sóknar­aðila verði gert að greiða varnaraðila málskostnað að skaðlausu. Til vara krefst gerðar­þoli þess, að kæra til Hæstaréttar fresti framkvæmd gerðarinnar.

Málavextir, málsástæður og lagarök málsaðila.

Gerðarbeiðandi er eigandi raðhúss nr. 59 við Réttarholtsveg í Reykjavík. Húsið til­heyrir raðhúsalengju níu húsa, sem bera númerin 45 til og með 61. Húsið nr. 59 var leigt gerðarþola með ótímabundnum leigusamningi, dagsettum 15. júlí 1998. Í lok ársins 2003 keyptu hjónin Ingólfur Kristján Guðmundsson og Sigríður Þóra Valsdóttir að­liggjandi hús nr. 61.  Ingólfur Kristján og Sigríður Þóra lýsa aðstæðum svo, að þau hafi strax orðið vör við mikinn hávaða frá húsi gerðarþola. Um hafi verið að ræða sterkan bassahljóm og trommutakt svo mikinn að nærliggjandi hús hafi nötrað. Hávað­inn hafi borist frá kjallara hússins Réttarholtsvegar 59 og stafaði frá sonum gerð­ar­þola, sem noti húsnæðið til að semja tónlist. Þau hafi margítrekað talað við gerðarþola og syni hennar og reynt að fá þau til að lækka hávaðann og sinna tónlistariðkun sinni á þeim tímum sólarhrings, sem minnstri truflun ylli. Viðleitni þeirra hafi engan árangur borið og því hafi þau leitað til gerðarbeiðanda um úrbætur.

Gerðarbeiðandi sendi gerðarþola formlega aðvörun í símskeyti, dags. 22. janúar 2004. Í upphafi símskeytisins segir, að kvartanir hafi borist Félagsbústöðum hf. vegna hús­reglnabrota sem felist í ónæði af háværri tónlist. Gerðarþola var bent á, að henni verði send lokaaðvörun um rýmingu íbúðarinnar, skv. 2. mgr. 13 gr. í húsaleigu­samn­ingi málsaðila, verði ekki látið af því ónæði, sem kvartað hafi verið yfir. Með yfir­lýs­ingu, dags. 26. janúar s.á., lýsa íbúar í húsunum nr. 45, 47, 53, 55 og 57 við Réttar­holts­veg yfir því, að hvorki gerðarþoli né synir hennar hafi nokkru sinni valdið þeim óþarfa ónæði eða óþægindum á nokkurn hátt.   Ástandið mun hafa lagast um skeið eftir að aðvörunin var send.  Meðal málskjala er yfirlýsing Daníels Sigurðssonar, sem dag­sett er 12. mars s.á. Daníel segist þar hafa verið við framkvæmdir í húsunum nr. 57, 59 og 61 við Réttarholtsveg um fjögurra vikna skeið. Einnig segir þar svo: Þegar ég var við framkvæmdir í nr. 59, að þá (þannig) heyrði ég varla í borvélinni fyrir tónlist. Þegar ég vann í nr. 61 kvaddi húsráðandi til fulltrúa frá Umhverfis- og heil­brigðis­stofu Reykjavíkur til að staðfesta þann hávaða sem barst frá 59 en tónlistin hætti þá stuttu áður en fulltrúinn komst á staðinn. Gerðarþola var í kjölfarið send loka­aðvörun í símskeyti, dags. 17. mars s.á., þar sem segir m.a.  Þar sem ofangreind atriði hafa ekki verið bætt er þér hér með gefin lokaaðvörun til þess að bæta um­gengni og fara eftir húsreglum. Að öðrum kosti verður húsaleigusamningi rift og málið sent lögfræðingi til rýmingar á íbúðinni með aðstoð dómstóla.  Lögregluskýrsla, dags. 19. mars s.á., liggur frammi í málinu. Í henni kemur fram, að Sigríður Þóra Vals­dóttir hafi að kvöldi þess dags tilkynnt lögreglu um mikinn hávaða frá Réttarholtsvegi 59. Hávaða hafi ekki gætt frá Réttarholtsvegi 59, þegar lögreglumenn komu á vett­vang. Þar er haft eftir Sigríði Þóru, að íbúarnir lækki ávallt þegar yfirvöld komi á staðinn. Síðar segir í skýrslunni, að fljótlega eftir að lögreglumennirnir komu á vett­vang hafi upphafist tónlist úr kjallara hússins nr. 59, en orðrétt segir svo:  Þetta var tölu­verður hávaði og þá aðallega bassinn úr tónlistinni. Hávaðinn var ekki mældur með desibilmæli á vettvangi. Ekki var rætt við íbúa í húsi númer 59 vegna þess að Sigríður vildi það ekki. Þá liggur fyrir svonefnt minnisblað vegna Réttarholtsvegar 59.  Skjalið er dags. 31. mars og er  undirritað af Sveini Gunnarssyni, starfsmanni gerðar­beiðanda. Það hljóðar svo: Undirritaður eftirlitsmaður Félagsbústaða var sendur að Rétt­arholtsvegi 59, þann 29. mars sl. til þess að votta kvartanir vegna hávaða frá ofan­greindri íbúð. Þegar ég kom á staðinn var kona úr íbúð við hliðina, nr. 57 að banka á hurð íbúðar nr. 59 en ekkert heyrðist til hennar vegna hávaða. Kona þessi er heyrn­arskert og geri ég ráð fyrir að hún hafi bara fundið víbring. Síðar fór ég inn í íbúð á nr. 61 og hlustaði á eftir hávaða og var hann yfirþyrmandi á meðan á honum stóð. Einnig reyndi ég að banka á hurðina á nr. 59 en fékk ekkert svar. Síðar kom strákur út úr íbúðinni og reyndi ég að útskýra fyrir honum að svona hávaði gæti ekki gengið en hann svaraði með skætingi og sagði að fólkið á nr. 61 væri klikkað.

Hjónin, Sigríður Þóra og Ingólfur Kristján, rituðu forsvarsmanni Húseigenda­fél­ags­ins bréf, dags. 27. apríl s.á., og lýstu í löngu máli samskiptum sínum við gerðar­þola en einkum syni hennar.  Bréfið endar þessum orðum:  Eins og sjá má hér að framan höfum við orðið fyrir verulegu ónæði frá íbúum að Réttarholtsvegi 59 frá því við flut­tum inn 21. desember síðastliðinn. Höfum við þurft að þola þunga bassatónlist allt frá 20 mínútum upp í margar klukkustundir á dag frá morgni til kvölds, allt að sjö daga vik­unnar. Þar sem hver og ein fjölskylda vonast til þess að geta komið heim á grið­ar­stað sinn og tekið út hvíld sína frá amstri dagsins, þá eru það gæði sem við höfum ekki notið frá því við fluttum að Réttarholtsvegi 61. Hefur þetta tekið umtalsverðan tíma frá okkur í daglegu amstri og hvíld, haft veruleg áhrif á afkastagetu okkar í námi, vinnu og fjölskyldulífi.  Hér með ítrekum við fyrri áskoranir okkar til Félagsbústaða hf., um að fjarlægja svo fljótt sem verða má þá sífelldu hljóðmengun sem berst frá Réttar­holtsvegi 59 og gerir húseign okkar því sem næst ónothæfa til íbúðar.

Þá liggur fyrir lögregluskýrsla, dags. 21. maí kl. 03:48. Þar kemur m.a. fram, að til­kynnt hafi verið um tónlistarhávaða frá Réttarholtsvegi 59, sem hafi verið svo mikill, að trufli svefnró íbúa að Réttarholtsvegi 61.  Gerðarbeiðandi óskaði eftir því við lögreglustjórann í Reykjavík að fá afrit af lögregluskýrslum og dagbókarfærslum vegna kvartana um hávaða frá íbúum að Réttaholtsvegi 59 á tímabilinu 27. apríl 2004 til 7. júní s.á., en þann dag var bréf gerðarbeiðanda sent. Lögreglustjóri hafnaði þessum tilmælum og vísaði til reglna um meðferð persónuupplýsinga. Þó var talið fært að veita gerðarbeiðanda upplýsingar úr dagbók lögreglu vegna kvartana um mikinn hávaða frá íbúum Réttarholtsvegar 59. Þar kemur fram, að kvartað hafi verið í þrjú skipti frá og með 26. maí til og með 31. sama mánaðar. Auk þess eru tilgreind þau tvö tilvik, sem áður er lýst.  Hjónin, Sigríður Þór og Ingólfur Kristján, óskuðu eftir sömu upp­lýsingum lögreglu með bréfi, dags. 8. október s.á., yfir tímabilið frá desember 2003 til október 2004.  Þau fengu sömu svör og gerðarbeiðandi, að því er varðaði meðferð persónuupplýsinga. Upplýst var um 13 færslur í dagbók lögreglu á tímabilinu frá 22. maí 2004 til og með 3. október s.á. um kvartanir vegna tónlistarhávaða frá íbúum Réttarholtsvegar 59.  Þar má sjá, að kvartanir hafa borist á öllum tímum sólar­hrings. Síðasta kvörtun er skráð 3. október kl. 01:32 , en þar á undan 13. september kl. 23.09. Frekari gagna er ekki til að dreifa um ónæði og hávaða frá húsi gerðarþola, ef undan er skilið bréf hjónanna, Sigríðar Þóru og Ingólfs Kristjáns, til gerðarbeiðanda,  sem dagsett er desember sl.

Lögmaður gerðarbeiðanda sendi gerðarþola yfirlýsingu um riftun með bréfi dag­settu 15. nóvember 2004. Þar segir, að riftunin sé á því reist, að þú og synir þínir hafið ítrekað þrátt fyrir aðvaranir af hálfu Félagsbústaða valdið nábýlisfólki ykkar óþægindum og ónæði með tónlistarhávaða í tíma og ótíma. Vísað var til 3. tl., 8. tl. og 10. tl. 61. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994. Lagt var fyrir gerðarþola að rýma húsið hið fyrsta og eigi síðan en 1. desember. Gerðarþoli sinnti ekki kröfu gerðarbeiðanda en sendi þess í stað kvörtun til umboðsmanns Alþingis í byrjun desembermánaðar sl.  Taldi hún sig hafa sætt einelti af hálfu gerðarbeiðanda og ekki notið andmælaréttar, þar sem aldrei hafi verið rætt við hana og viðhorf hennar og afstaða könnuð.  Um­boðs­maður óskaði eftir upplýsingum um samskipti málsaðila í bréfi til gerðarbeiðanda, dags. 17. desember. Veittur var frestur til 31. desember til að svara fyrirspurninni.  Svar­bréf fyrirsvarsmanns gerðarbeiðanda er dags. 7. janúar sl. Þar dregur fyrir­svars­mað­urinn í efa, að málið heyri undir valdsvið umboðsmanns, þar sem gerðarbeiðandi sé sjálfstætt hlutafélag að mestu í eigu Reykjavíkurborgar. Frekari bréfaskipti hafa átt sér stað milli gerðarbeiðanda og umboðsmanns, sem ástæðulaust er að rekja hér frekar.

Gerðarbeiðandi krafðist þess með beiðni til dómsins, dags. 9. desember 2004, að honum yrði veitt heimild til að fá gerðarþola borna út úr umræddu húsnæði með beinni aðfarargerð, eins og áður er lýst.

Fyrir liggur í málinu yfirlýsing íbúa í raðhúsunum nr. 45 til 57 við Réttar­holts­veg að undanskildum íbúum húsanna nr. 49 og 51 við sömu götu. Yfirlýsingin er dags. 24. janúar 2005 og hljóðar svo: Við undirrituð, íbúar í raðhúsalengjunni Réttar­holts­veg 45-6, viljum lýsa yfir stuðningi okkar við það að Ingileif G. Ögmundsdóttir Rétt­ar­holtsvegi 59 fái að búa áfram í húsinu þar sem hún hefur reynst góður nágranni. Virð­ing­arfyllst....  Undir skjalið rita 9 íbúar þessara húsa þar af tveir búsettir í nr. 55 og 57, þrír búsettir í nr. 53 og einn frá nr. 45 og 47. Velflestir sömu íbúa undirrita framhald yfir­lýsingar á sama blaði, sem er þannig: Einnig viljum við undirrituð sem erum nefnd  (eða húsnúmer okkar) í málsgögnum fyrir dómi koma þessu á framfæri. Í þessum máls­gögnum er haft eftir okkur eitt og annað er við frábiðjum okkur. Við erum tilbúin að gefa sjálf okkar vitnisburð fyrir dómi ef óskað er og þörf þykir. Virðingarfyllst ....

Málsástæður og lagarök gerðarbeiðanda.

Gerðarbeiðandi byggir á því, að hávaði frá íbúð gerðarþola sé slíkur, að ekki verði við það unað. Hjónin, Ingólfur Kristján Guðmundsson og Sigríður Þóra Vals­dóttir, hafi flutt í húsið nr. 61 við Réttarholtsveg í desember 2003. Þau hafi strax orðið fyrir miklu ónæði af tónlistarflutningi, sem synir gerðarþola voru valdir að. Hvorki þeir né gerðarþoli hafi sinnt ítrekuðum tilmælum um að sýna nágrönnum sínum þá tillits­semi að lækka í hljómflutningstækjum þeim, sem hávaðanum ullu, eða láta af tón­listarflutningi sínum í tíma og ótíma. Því hafi þau leitað til gerðarbeiðanda sem eiganda hússins nr. 59 við Réttarholtsveg og óskað aðstoðar hans við að koma málum í viðunandi horf. Gerðarbeiðandi hafi sent gerðarþola formlega aðvörun í símskeyti, dags. 22. janúar 2004, í samræmi við ákvæði í húsaleigusamningi málsaðila.  Í sím­skeytinu hafi verið tekið fram, að lokaaðvörun um rýmingu íbúðarinnar yrði send, ef leigu­taki bætti ekki ráð sitt. Ástandið hafi batnað fyrst á eftir, en fljótlega færst til fyrra horfs. Í kjölfar fundar með eigendum Réttarholtsvegar 61, þar sem þau lögðu fram yfirlýsingu Daníels Sigurðssonar frá 12. mars s.á., hafi gerðarþola verið send loka­aðvörun í símskeyti, dags. 17. mars. s.á., og henni gert ljóst, að leigusamningnum yrði rift og útburðar krafist, ef ekki yrði látið af því ónæði, sem hún og synir hennar yllu nágrönnum sínum.  Gerðarbeiðandi vísar einnig til lögregluskýrslu, dags. 19. mars og til yfirlýsingar Sveins Gunnarssonar eftirlitsmanns, dags. 31. sama mánaðar. Þá vísar gerðarbeiðandi til ótal lögregluskýrslna og dagbókarfærslna um kvartanir yfir tón­listarflutningi og hávaða frá húsi gerðarþola. Gerðarbeiðandi telur framlögð skjöl sýna og sanna að fullreynt hafi verið að fá gerðarþola og syni hennar til að sýna ná­búum sínum tillitssemi og draga úr hávaða af tónlistariðkun sonanna. Ljóst sé, að gerð­arbeiðandi geti ekki látið það viðgangast, að leigjendur hans valdi nágrönnum sínum stöðugu ónæði og komi í veg fyrir, að þeir geti notið eðlilegrar hvíldar og svefn­friðar, hvort heldur það stafi af háværri tónlist eða öðrum ástæðum.  Því hafi ekki verið um annað að ræða en rifta húsaleigusamningnum við gerðarþola hinn 15. nóvember sl. og krefjast útburðar, þar sem gerðarþoli hafi ekki sinnt tilmælum um að rýma húseignina. Gerðarbeiðandi leggur áherslu á það, að hann hafi farið að lögum og full­nægt samningsskyldum sínum að öllu leyti í skiptum sínum við gerðarþola. Fram­lögð gögn sýni að lagaskilyrði séu fyrir hendi um að verða við kröfum hans um beina að­farargerð  samkvæmt 12. og 13. kafla aðfararlaga nr. 90/1989 (afl.). Líta verði til þess við mat á sönnunarstöðu gerðarbeiðanda, hversu viðvarandi ónæði og áreiti ná­grannar gerðarþola hafi þurft að þola og hversu lengi það ástand muni vara, verði kröfum um útburð hafnað. Gerðarbeiðandi bendir á, að sönnunarstaða hans og allra annarra, sem leita þurfi til lögreglu vegna ólögmætrar háttsemi, sem að þeim hefur beinst, hafi versnað til muna, eftir að lögregluyfirvöld tóku þá afstöðu að neita að láta í té upplýsingar um aðgerðir hennar á grundvelli persónuverndar. Hér sé tillitið til hins brotlega talið mikilvægara en hagsmunir brotaþola. Torsótt geti reynst að sanna brot á hús­friði eða aðra ósæmilega og óásættanlega háttsemi í fjölbýli, ef tillitið til hins brot­lega vegi ávallt þyngra en hagsmunir allra annarra, m.a. brotaþola. Slík röskun á hús­friði verði ekki sönnuð með skýrslum fyrir dómi, sbr. niðurlagsákvæði 1. mgr. 83. gr. afl. og réttarframkvæmd. Því sé augljóst, að þolendum séu allar bjargir bannaðar verði nið­urstaða málsins sú, að útburðarkröfu gerðarbeiðanda verði hafnað.  Gerðarbeiðandi vísar til 8. og 10. tl. 61. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 og til 78. gr. afl. til stuðnings kröf­um sínum. Gerðarbeiðandi upplýsir, að gerðarþola hafi verið boðnar íbúðir af ýms­um stærðum og gerðum og að mikil áhersla hafi verið lögð á það að leysa málið á þann hátt að báðir aðilar gætu vel við unað. Haldnir hafi verið fundir með gerðarþola og lögmanni hennar á öllum stigum málins en öllum tillögum gerðarbeiðanda hafi ávallt verið hafnað. Því hafi ekki verið um annað að ræða en láta málið ganga til úr­skurðar og fá niðurstöðu héraðsdóms um réttarstöðu málsaðila.

Málsástæður og lagarök gerðarþola:

Gerðarþoli telur málarekstur gerðarbeiðanda eiga rætur að rekja til húseigenda hússins Réttarholtsvegar 61. Þetta fólk hafi lagt hana og syni hennar í einelti allt frá því þau fluttu í húsið í desember 2003. Engir aðrir nágrannar gerðarþola hafi kvartað yfir umgengni hennar og/eða sona hennar. Ljóst sé, að aðeins sé tveimur sönn­un­ar­gögn­um til að dreifa í málinu, sem gerðarbeiðandi gæti e.t.v. byggt á. Um sé að ræða lög­reglu­skýrslur, aðra dags. 19. mars 2004, en hina dags. 21. maí s.á.  Gerðarþoli mót­mælir því, að nokkurt tilefni hafi verið til að senda henni aðvörun 22. janúar 2004. Þá hafi ekkert legið fyrir, sem réttlætt geti þá aðgerð gerðarbeiðanda. Í símskeytinu segi aðeins að kvartanir hafi borist gerðarbeiðanda.  Hér sé um fyrstu eineltisaðgerð Sigríðar Þóru og Ingólfs Kristjáns að ræða. Sama eigi við um símskeyti gerðar­beið­anda frá 17. mars s.á., svonefnda lokaaðvörun. Ekkert tilefni hafi verið til að senda skeytið og engar sannanir liggi fyrir um nokkrar ávirðingar gerðarþola, sem réttlætt geti sendingu símskeytisins fremur en það fyrra.  Utanréttarvottorð Daníels Sigurðs­sonar sé að engu hafandi og mótmælir gerðarþoli því sem röngu og óstaðfestu og sér­staklega staðhæfingu hans um mikinn hávaða. Í lögregluskýrslunni frá 19. mars segi aðeins, að töluverður hávaði hafi heyrst frá húsi gerðarþola. Engar mælingar hafi átt sér stað og ljóst sé, að þessi lýsing lögreglu á hávaða sé í meira lagi óljós, enda sé ein­stakl­ingsbundið, hvernig menn skynji hávaða. Þetta atvik hafi átt sér stað kl. 20.26. Gerð­arþoli mótmælir einnig utanréttarvottorði Sveins Gunnarssonar, starfsmanns gerðar­beiðanda, sem röngu og óstaðfestu. Í lögregluskýrslu frá 21. maí segi, að lög­reglu­menn hafi heyrt nokkurn tónlistarhávaða, en samt hafi þeir ekki getað sagt með vissu hvaðan hávaðinn kæmi. Skýrslan sé svo óljós, að hún sanni ekki neitt. Önnur gögn frá lögreglu sanni ekkert annað en það, að íbúar Réttarholtsvegar 61 hafi stöðugt áreitt lögreglu með tilefnislausum kvörtunum um tónlistarflutning, sem að mestu hafi átt sér stað um miðjan dag. Þetta hafi verið liður í einelti Sigríðar Völu og Ingólfs Kristjáns og tilraunum þeirra að fá gerðarþola borna út fyrir engar sakir. Öllum frá­sögnum þessa fólks sé mótmælt sem röngum og óstaðfestum.

Gerðarþoli telur hvorki sig eða aðra á hennar vegum hafa gerst brotlega við húsa­leigusamning málsaðila, né heldur hafi hún aðhafst nokkuð, sem fari í bága við húsa­leigulög. Hún kveðst hafa kappkostað að ganga hljóðlega um og séð til þess að synir hennar gerðu slíkt hið sama og því hafi ekkert kallað á þá aðgerð að hrekja þau burt af heimilinu, eins og gerðarbeiðandi virðist stefna að.

Niðurstaða.

Gerðarbeiðandi ber sönnunarbyrðina fyrir því, að gerðarþoli hafi vanefnt húsa­leigu­samning málsaðila með svo grófum hætti að varði riftun hans. Gerðarbeiðandi vísar í þessu sambandi til 2. tl. 13. gr. húsaleigusamnings málsaðila. Þar sé það skil­yrði sett, að gerðarbeiðandi skuli senda leigutaka skriflega aðvörun, sem gerst hafi brot­legur við húsaleigulög s.s. vegna vanskila á húsaleigu eða ítrekaðra hús­reglna­brota. Sé aðvörun ekki tekin til greina skuli senda leigutaka lokaaðvörun um rýmingu íbúð­arinnar. Eins og gerðarþoli bendir réttilega á lágu engar áþreifanlegar sannanir fyrir um meint brot gerðarþola á húsreglum, þegar fyrri aðvörunin var send né heldur að viðkomandi starfsfólk gerðarbeiðanda hafi haft samband við gerðarþola, áður en gripið var til þessa úrræðis, sem er undanfari harðari aðgerða. Í aðvöruninni segir aðeins að kvartanir hafi borist gerðarbeiðanda að undanförnu vegna húsreglna­brota þinna. Um er að ræða háværa tónlist sem veldur nágrönnum ónæði. Síðan er bent á það, að lokaaðvörun um rýmingu íbúðarinnar verði send, láti gerðarþoli ekki segjast.  Undan­fari lokaaðvörunar gerðarbeiðanda hinn 17. mars 2004 virðist vera fundur fyrir­svarsmanna gerðarbeiðanda og Sigríðar Þóru og Ingólfs Kristjáns, en þá lá fyrir yfir­lýsing Daníels Sigurðssonar frá 12. sama mánaðar. Þeirri yfirlýsingu hefur gerðarþoli mót­mælt sem rangri og óstaðfestri. Verður hún því ekki lögð til grundvallar ein og sér með vísan til reglna um sönnunarfærslu í málum, sem rekin eru samkvæmt 12. kafla afl. Lögregla er kvödd á vettvang 19. mars, sbr. lögregluskýrslu. Yfirlýsing Sveins Gunnars­sonar vísar til sömu áttar um ónæði af völdum gerðarþola eða sona hennar. Þeirri skýrslu hefur gerðarþoli mótmælt af sömu ástæðum og skýrslu Daníels Sigurðs­sonar. Þá liggja fyrir lögregluskýrslur í maí s.á. og dagbókarfærslur lögreglu um kvartanir vegna tónlistarhávaða frá maí 2004 til og með október s.á., eins og að framan er lýst. 

Fokið sýnist í flest skjól þeirra, sem sæta brotum á húsfriði. Lögregla neitar þeim um skýrslur, sem lýsa tilefni útkalls, á grundvelli persónuverndar hins brotlega en lögregluskýrslur hafa fram til þessa reynst sterkasta haldreipi þeirra, sem brot á hús­friði þurfa að þola. Þeim er einnig fyrirmunað að sanna sitt mál með milliliðalausri sönn­unarfærslu fyrir dómi eftir þeirri réttarframkvæmd, sem ríkt hefur. 

Tillitið til þeirra, sem þurft hafa að þola brot á húsfriði, sem telja verður stjórn­ar­skrárvarin grundvallarmannréttindi, knýr á um breytingar um sönnunarfærslu í málum af því tagi.

Með vísan til þessara sjónarmiða sýnist dóminum rétt að telja, þegar öll gögn málsins eru virt, að gerðarþoli og synir hennar hafi valdið nágrönnum sínum miklu og óbæri­legu ónæði með tónlistarflutningi á öllum tímum sólarhringsins.

Gerðarbeiðandi byggir málsókn sína á 3., 8. og 10. tl. 61. gr. húsaleigulaga. Í 2. mgr. 61. gr. segir, að leigusali verði að nýta rétt sinn til riftunar innan tveggja mánaða frá því að honum varð kunnugt um vanefndir leigjanda.

Dómurinn lítur svo á, að þetta ákvæði verði að túlka svo, að gerðarbeiðanda hafi borið að rifta leigusamningi málsaðila í síðasta lagi innan tveggja mánaða frá dag­setningu lokaaðvörunar, sem gerðarþola var send í símskeyti, dags. 17. mars 2004, ella að gefa verði gerðarþola kost á að bæta ráð sitt með nýjum og endurteknum aðvörunum.

Með vísan til þessa þykir verða að hafna kröfu gerðarbeiðanda um að honum verði veitt heimild til að láta bera gerðaþola út úr húseigninni Réttarholtsvegi 59 í Reykjavík, ásamt öllu sem henni tilheyrir.

Rétt þykir að hvor málsaðila um sig beri sinn kostnað af málinu.

Skúli J. Pálmason héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu gerðarbeiðanda, Félagsbústaða hf., um að heimilað verði að gerðar­þoli, Ingileif Ögmundsdóttir, verði með beinni aðfarargerð borin út úr húsnæði gerðar­beiðanda að Réttarholtsvegi 59 í Reykjavík, ásamt öllu, sem henni tilheyrir. 

Málskostnaður fellur niður.