Hæstiréttur íslands

Mál nr. 335/2004


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Ákæra
  • Rannsókn
  • Frávísun frá héraðsdómi


Fimmtudaginn 3

 

Fimmtudaginn 10. mars 2005.

Nr. 335/2004.

Ákæruvaldið

(Sigríður Jósefsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Örn Höskuldsson hrl.

 Steinunn Guðbjartsdóttir hdl.)

 

Kynferðisbrot. Börn. Ákæra. Rannsókn. Frávísun máls frá héraðsdómi.

Í málinu var X ákærður fyrir að hafa haft samræði við Y að minnsta kosti fjórum sinnum þegar Y var þrettán ára en X 15 ára. Málatilbúnaður ákæruvaldsins þótti með þeim hætti að óhjákvæmilegt væri að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi. Hafði þess ekki verið gætt að leita skýringa Y á ýmiss konar misræmi sem fram kom í framburði hennar og dagbókum hennar sem fyrir lágu í málinu og ekki hafði hún heldur verið spurð nánar vegna atriða sem fram komu í framburði X og hefðu átt að gefa fullt tilefni til nánari eftirgrennslunar, enda neitaði X því ætíð að hafa átt í kynferðissambandi við Y. Í málinu lá ekki fyrir greinargerð sérfræðings á sviði sálfræði eða læknisfræði um þroska og andlegt ástand Y. Þá hafði ekki verið aflað sérfræðilegrar álitsgerðar um andlegan og líkamlegan þroska X á þeim tíma sem skipti máli, en hann var nýlega orðinn 15 ára þegar ætluð brot hans áttu að hafa verið framin.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Gunnlaugur Claessen og Hrafn Bragason.

 Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 4. ágúst 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd og fjárhæð skaðabóta til Y hækkuð í 1.000.000 krónur.

Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, en að því frágengnu að refsing verði milduð. Í öllum tilvikum krefst hann að skaðabótakröfu verði vísað frá héraðsdómi.

I.

Með bréfi 15. ágúst 2003 sendi félagsþjónusta A til lögreglu tilkynningu, sem þar hafði verið tekið við sama dag. Í henni kom fram að Y, fædd í mars 1990, hafi ásamt móður sinni komið til viðtals við nafngreindan sálfræðing hjá félagsþjónustunni. Hafi þar verið greint frá því að Y hafi hitt dreng, sem heiti X, í fermingarveislu vinkonu sinnar. Hún hafi orðið hrifin af honum og þau hist í framhaldi af þessu. Hafi þau 3. júlí 2003 farið saman í skýli við hús á [...] í A og atlot hafist milli þeirra. Hafi drengurinn viljað fá að fara með fingur að kynfærum hennar og inn í leggöng, sem hún hafi leyft með semingi. Því næst hafi hann viljað hafa við hana samfarir, sem hún hafi margsinnis neitað, en hann ekki látið það neinu breyta. Hafi þau haft samfarir standandi upp við vegg, sem hún hafi snúið að, en drengurinn verið fyrir aftan hana. Var haft eftir mæðgunum að þær óskuðu eftir að kæra þetta til lögreglu.

Móðir Y mætti síðar um daginn 15. ágúst 2003 til skýrslugjafar hjá lögreglu. Skýrði hún frá því að 13. sama mánaðar hafi hún fundið á skrifborði Y bréf, sem stúlkan hafi ritað og ætlað að senda til svokallaðrar neyðarlínu í unglingatímariti, sem heiti Smellur. Í bréfinu, sem móðirin afhenti lögreglu, sagði meðal annars: „Ég er 13 ára stelpa sem að er í vandræðum. Málið er að ég átti kærasta sem að var 15 ára. Þegar við vorum búin að vera saman í viku þá vorum við niðrí kjallara að kela og þá fór hann að reyna að fá mig til að sofa hjá sér en ég vildi það ekki. Eftir smá tíma þá var hann farinn að þrengja svo að mér að ég lét undan. Svo viku seinna þá vorum við aftur niðrí kjallara og þá sagði hann „ég veit þú vilt þetta ekki en ég ætla samt“ og þá eiginlega nauðgaði hann mér. Samt á meðan hann var með mér var hann með annari stelpu líka. Hvað sem hann hefur gert get ég ekki verið reið við hann og ég sakna hans. Hvað á ég að gera?“ Kvaðst móðirin hafa rætt þetta við Y og hún staðfest að það væri rétt, sem sagði í bréfinu, en þetta hafi gerst í kjallara húss við [...], sem móðirin greindi nánar frá. Drengurinn, sem um ræddi í bréfinu, væri ákærði. Hafi Y sagt að hann hafi notað verju við samfarirnar, en í samtali hennar við móður sína hafi hún ekki greint nánar frá atvikum.

Ákærði, sem fæddur er í apríl 1988, gaf skýrslu hjá lögreglu 22. ágúst 2003. Í henni staðfesti hann það, sem haft var eftir Y í áðurnefndri tilkynningu, um að þau hafi kynnst þá um vorið í fermingarveislu. Hann hafi á þeim tíma verið með annarri stelpu og íhugað að hætta með henni til að vera með Y, en síðan ákveðið að gera það ekki og greint Y frá því. Hafi þetta verið í apríl eða maí 2003. Y hafi oft hringt til hans og yfirleitt verið leið eða „í hálfgerðu þunglyndi“, en hann þá talið sig vera að hjálpa henni. Í lok skólaárs hafi hann farið með Y í veislu og vinir hennar þar spurt hann hvort þau væru saman. Þessu hafi hann svarað með því að þau væru bara vinir. Hann hafi ekki hitt Y eftir að skóla var slitið hjá honum í byrjun sumars, sem hann minnti að hafi verið 4. júní 2003. Hann kvað það vera rangt, sem sagði í tilkynningu félagsþjónustunnar, að þau Y hefðu verið saman kynferðislega. Hafi hann ekki sett fingur í leggöng hennar og aldrei þuklað á henni innan klæða eða haft við hana samfarir. Ítrekaði hann þetta eftir að honum var kynnt fyrrgreint bréf Y. Aðspurður um hvort hann kannaðist við aðstæður við húsið á [...], sem móðir Y hafði getið um í lögregluskýrslu, sagðist ákærði hafa tvisvar, þrisvar eða jafnvel oftar farið með strætisvagni í heimsókn til Y, farið út á tilteknum stað og gengið þaðan heim til hennar. Aðeins í eitt skipti hafi þau verið þar ein og þá í um fimm mínútur. Sagðist hann ekki þekkja staðhætti í A, en eftir að hafa litið á kort við skýrslugjöfina kvaðst hann telja sig aldrei hafa komið að umræddu húsi við [...].

Y gaf skýrslu fyrir dómi 10. september 2003, sem tekin var í Barnahúsi með aðstoð félagsráðgjafa. Í upphafi skýrslunnar kvaðst hún hafa farið í sund með ákærða og vinkonu sinni og hann þá spurt hvort Y vildi byrja með honum. Hún hafi svarað því játandi og þau síðan hist að ósk hans næsta dag við heimili hennar. Hafi þá verið rigning og þau leitað skjóls í eins konar skýli eða skoti á neðstu hæð húss í nágrenninu. Þar hafi þau farið að kyssast og ákærði viljað fá að setja fingur inn í leggöng hennar. Hún hafi neitað því, en hann suðað svo mikið að hann hafi að endingu fengið að gera það. Hann hafi svo viljað „gera meira“, sem hún hafi neitað. Hann hafi ekki tekið því sem svari, farið og náð sér í verju og haft við hana samfarir, sem hún hafi aldrei samþykkt. Eftir þetta hafi þau kvaðst með kossi og ekki hist síðan. Aðspurð sagði Y þetta hafa gerst „einhvern tímann í júlí“. Síðar í skýrslunni var hún spurð hvort hún hafi áður haft kynmök og kvaðst hún þá fyrr hafa verið með ákærða, sem hafi í þau skipti „líka í rauninni neytt“ hana til samræðis, en einnig gert það í annað sinn með fullu samþykki hennar. Tilvikið, sem hún hafði greint frá fyrr í skýrslunni, hafi verið það síðasta og það gerst 3. júní, en það hafi hún vitað vegna þess að hún skrifaði í dagbók sína. Hún hafi upphaflega byrjað að vera með ákærða í lok apríl og haft við hann kynmök í fyrsta sinn viku síðar, en áður hafi hún aldrei gert slíkt. Þetta hafi gerst í kjallara heima hjá henni. Síðan hafi þau daginn eftir tvívegis haft samfarir heima hjá ákærða og nokkru eftir það aftur í kjallara heima hjá henni í einhver skipti. Loks hafi svo verið tilvikið, sem fyrst var getið. Nánar aðspurð um hvernig ákærði hafi þröngvað henni eða þvingað hana til að samþykkja kynmök sagði Y hann hafa suðað í sér, alltaf spurt aftur og aftur þangað til hún hafi í raun gefist upp og látið undan. Ákærði var kvaddur á ný fyrir lögreglu 9. október 2003 og honum meðal annars kynnt endurrit af þessum framburði Y. Kvaðst ákærði ekki vilja tjá sig um framburð hennar.

Í framangreindri skýrslu lét Y þess getið að hún hefði sagt þremur vinum sínum, tveimur stúlkum og einum pilti, frá því, sem gerst hafi milli hennar og ákærða. Stúlkurnar tvær gáfu skýrslur fyrir dómi í Barnahúsi 12. nóvember 2003. Skýrði önnur þeirra frá því að Y hafi sagt sér að ákærði hafi nauðgað henni, en þær væru nánar vinkonur og segði Y henni frá flestu. Aðspurð um hvað Y hefði nánar sagt svaraði stúlkan því til að hún hafi sagst hafa haft samfarir við ákærða daginn áður, en eiginlega hafi ekkert meira komið fram í samtali þeirra. Sagðist hún halda að þetta hafi gerst í „annaðhvort mars eða apríl, ég veit það ekki, nei, það var áreiðanlega febrúar eða mars.“ Komið hafi fram hjá Y að hún hafi haft samfarir við ákærða nokkrum sinnum. Oftast hafi þetta gerst í kjallara heima hjá henni, en einnig einhverju sinni í húsi, sem verið var að endurbyggja. Nánar aðspurð um hvort Y hafi tekið svo til orða að sér hafi verið nauðgað sagði stúlkan að það hafi hún gert um fyrsta skiptið, en hún hafi þá sagt nei við ákærða og hann þá spurt aftur og aftur þar til hún hafi gefist upp. Hin vinkonan kvað Y hafa sagt sér að ákærði hafi nauðgað henni í maí eða júní. Hafi Y haft samfarir við ákærða fjögur eða fimm skipti og hafi verið um nauðgun að ræða í öðrum tilvikum en einu eða tveimur. Kvað vinkonan Y hafa sagt sér frá nauðgun, sem hafi gerst 3. júní, en hún hafi þá verið stödd með ákærða rétt hjá heimili sínu í húsi, sem verið var að byggja við. Að auki hafi Y sagt þau hafa haft samfarir í kjallara heima hjá henni og á heimili ákærða. Pilturinn, sem Y kvaðst hafa skýrt frá samskiptum sínum við ákærða, gaf skýrslu hjá lögreglu 26. janúar 2004. Hann kvað Y hafa sagt sér frá tveimur tilvikum, þar sem hún hafi haft samfarir við ákærða, en það hafi annars vegar gerst í kjallara heima hjá henni og hins vegar í bílskúr eða skýli. Á síðarnefnda staðinn hafi hann farið með Y og hún þá fundið umbúðir af verju, sem hún kvað ákærða hafa notað við samfarirnar. Hann kvaðst telja þetta hafa gerst fyrir 1. júní 2003, en þann dag hafi hann farið í ferð til útlanda og verið fjarverandi um tíma.

Y afhenti lögreglu 27. janúar 2004 dagbækur sínar, en í tveimur þeirra er að finna færslur, sem dagsettar eru á tímabilinu frá lokum apríl og fram í byrjun júní 2003. Er þar meðal annars ritað 30. apríl að hún sé byrjuð að vera með ákærða og síðan 1. og 4. maí að hann hafi sett fingur inn í kynfæri hennar, en í fyrra skiptið hafi þau legið í rúmi hennar og það síðari verið úti. Hinn 8. maí kemur fram að þau hafi haft samfarir í kjallaranum heima hjá Y. Fært er 14. maí að hún hafi á þeim hálfa mánuði, sem hún sé búin að vera með ákærða, haft samfarir við hann fjórum sinnum og 22. sama mánaðar að hann hafi reynt að hafa við hana mök í endaþarm, en látið af því vegna þess hve vont henni hafi þótt það. Loks er fært þar 6. júní að hún sé aftur nýbyrjuð að vera með ákærða og hafi þegar haft samfarir við hann einu sinni, en næsta færsla þar á undan er dagsett 2. sama mánaðar. Ekki er að sjá að vikið sé að samförum þeirra annars staðar í dagbókunum.

Ákæra var gefin út í máli þessu 12. mars 2004. Er ákærða gefið að sök að hafa að minnsta kosti fjórum sinnum haft samræði við Y, tvívegis á heimili hennar, eitt skipti á heimili sínu og einu sinni í opnu skýli á neðri hæð húss að [...] í A. Með þessu hafi ákærði brotið gegn 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum. Við meðferð málsins fyrir héraðsdómi var meðal annars lagt fram vottorð tveggja lækna 10. október 2003 um skoðun á Y, þar sem fram kom að meyjarhaft væri „farið á þann hátt sem sést hjá konum sem hafa haft samfarir“, og greinargerð Barnahúss 13. apríl 2004 um greiningu og meðferð Y. Þá gaf ákærði skýrslu fyrir dómi við aðalmeðferð málsins, báðir foreldrar hans, móðir Y og vinur hennar, sem fyrrnefnd lögregluskýrsla var tekin af 26. janúar 2004. Þá komu einnig til skýrslugjafar sálfræðingurinn, sem tók við tilkynningu 15. ágúst 2003 hjá félagsþjónusta A, og starfsmaður Barnahúss, sem sinnt hafði meðferð Y.

II.

Þegar áðurnefnd skýrsla var tekin af Y fyrir dómi 10. september 2003 hafði ákærði þegar gefið skýrslu hjá lögreglu, þar sem hann neitaði með öllu að hafa átt kynferðisleg samskipti við hana. Í skýrslu hennar var lýst af nokkurri nákvæmni atriðum varðandi ætlað samræði þeirra að [...] í A, en á hinn bóginn skortir mjög á að leitað hafi verið viðhlítandi svara hennar um önnur tilvik, sem ákæra tekur til. Var þó þeim mun ríkari ástæða til þess vegna afstöðu ákærða, sem þegar lá fyrir. Í framburði Y gætti nokkurrar misvísunar og ósamræmis, meðal annars um tímasetningar, en að auki var í ýmsu greint frá atvikum með öðrum hætti en gert var í bréfi hennar, sem áður er rakið og lögregla hafði þá þegar undir höndum. Auk þessa hafði hún vísað í framburði sínum til atriðis, sem hún kvaðst geta stutt við dagbækur sínar, en ekki verður séð að leitað hafi verið eftir því að hún léti þær í té. Þegar hún hafði síðan afhent þær í janúar 2004, að því er virðist ótilkvödd, mátti sjá nokkuð aðra mynd af atvikum en fram kom í skýrslu hennar fyrir dómi, þar á meðal um afstöðu hennar sjálfrar til þess, sem hún kvað hafa gerst milli sín og ákærða. Á hinn bóginn var þar ekki að sjá stoð fyrir því að unnt væri að tímasetja ætlað atvik að [...] á þann hátt, sem hún hafði borið um fyrir dómi. Hefði vegna alls þessa að réttu lagi þurft að taka nánari skýrslu af Y áður en ákvörðun var tekin um saksókn í málinu eða að minnsta kosti við meðferð málsins fyrir dómi.

Við skýrslugjöf fyrir dómi hélt ákærði því fram í tengslum við sakargiftir um að hann hafi haft samfarir við Y á heimili sínu að þangað hefði hún aldrei komið, en ekki verður séð að hann hafi fyrr verið inntur eftir svari við því. Við rannsókn málsins var ekki leitað lýsingar af hendi Y á staðháttum þar, til þess að staðreyna hvort frásögn ákærða gæti að þessu leyti verið rétt. Liggur heldur ekkert fyrir að öðru leyti um vettvang ætlaðra brota annað en fjórar ljósmyndir á einu blaði af húsinu að [...].

Eftir að ákæra var gefin út í málinu aflaði ríkissaksóknari áðurnefndrar greinargerðar starfsmanns Barnahúss um greiningu og meðferð, sem Y hafði gengist þar undir á tímabilinu frá 17. september 2003. Í skýrslu þessa starfsmanns fyrir dómi kom fram að hann hafi háskólapróf í uppeldisfræði og afbrotafræði. Ekki liggur fyrir í málinu álitsgerð sérfræðings á sviði sálfræði eða læknisfræði um þroska og andlegt ástand Y. Ákærði var nýlega orðinn 15 ára þegar atvikin, sem um ræðir í ákæru, eiga að hafa gerst. Þrátt fyrir það var ekki leitað sérfræðilegrar álitsgerðar eins og áður er getið að því er hann varðar og liggja engin gögn að öðru leyti fyrir um andlegan og líkamlegan þroska hans á þeim tíma, sem hér skiptir máli. Eins og atvikum er háttað í máli þessu var full ástæða til að álitsgerða um þessi efni yrði aflað áður en ákvörðun var tekin um saksókn í því, sbr. d. lið 1. mgr. 71. gr. og 112. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Vegna þeirra atriða, sem að framan getur, er málatilbúnaður af hálfu ákæruvaldsins með þeim hætti að óumflýjanlegt er að vísa málinu frá héraðsdómi. Skal allur sakarkostnaður greiddur úr ríkissjóði eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í héraði og fyrir Hæstarétti, Arnar Höskuldssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 400.000 krónur, þóknun réttargæslumanns brotaþola fyrir héraðsdómi, Sigríðar Elsu Kjartansdóttur héraðsdómslögmanns, 80.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola fyrir Hæstarétti, Guðjóns Ármanns Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 60.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 24. júní 2004.

             Mál þetta, sem dómtekið var 3. júní sl., er höfðað með ákæru útgefinni 12. mars 2004 gegn X, [kt. og heimilisfang], „fyrir kynferðisbrot, með því að hafa á tímabilinu 8. maí til og með 3. júní 2003, haft að minnsta kosti fjórum sinnum samræði við Y, fædda árið 1990, á þeim stöðum sem hér greinir:

1.          Kjallara á heimili hennar að [ ].

2.          heimili ákærða.

3.          kjallara á heimili hennar og

4.          opnu skýli neðri hæðar hússins við [...] , A.           

             Telst þetta varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1991 (svo í ákæru), sbr. 10. gr. laga nr. 40, 1992 og 4. gr. laga nr. 40,2003.

             Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

             Bótakrafa:

             E [kt] og F, [kt. og heimilisfang], krefjast þess f.h. ólögráða dóttur sinnar, Y, að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 1.000.000 auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. júní 2003 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að bótakrafan er kynnt honum, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.  Auk þess er krafist þóknunar vegna lögmannsaðstoðar ásamt virðisaukaskatti.”

             Ákærði krefst aðallega frávísunar málsins, til vara sýknu en að því gengnu vægustu refsingar. Hann krefst þess að skaðabótakröfu verið vísað frá dómi.  Málsvarnarlauna er einnig krafist.

I.

             Þann 15. ágúst 2003 kom E, ásamt dóttur sinni Y, á skrifstofu Félagsþjónustu A.  Í viðtali við sálfræðing félagsþjónustunnar kom fram að kærandi hafði kynnst dreng að nafni X sem væri búsettur í vesturbæ B.  Hún hafi hitt hann í fermingarveislu vinkonu sinnar sem heiti G.  Kærandi sagðist hafa orðið hrifin af þessum dreng og þau hist og ákveðið að byrja saman.  Þann 3. júlí hafi þau hist og farið saman í skýli við hús við [...] í A.  Þar hafi hann, ákærði í þessu máli, óskað eftir að fara með fingur að kynfærum hennar og inn í leggöng og hafi hún leyft það með semingi.  Því næst hafi hann viljað „fara alla leið” en hún ekki viljað leyfa honum það.  Þrátt fyrir að hún hafi margsinnis neitað hafi hann samt haft við hana samfarir.  Hafi þau staðið upp við vegg og hún snúið baki í ákærða.  Sagði kærandi að þetta atavik hafi legið þungt á henni og sé henni mikill léttir að opinbera það. 

             Sama dag kærði E hjá lögreglu nauðgun gagnvart dóttur sinni.  Hjá lögreglu sagði E að upphaf þessa máls væri að hún hafi fundið bréf á skrifborði dóttur sinnar fyrir tveimur dögum.  Bréfið hefur verið lagt fram í málinu og hefur kærandi sagt að hún hafi ætlað að senda bréfið til unglingablaðs.  Í bréfinu spyr kærandi hvað hún eigi að taka til ráðs en hún hafi átt 15 ára gamlan kærasta.  Hann hafi reynt að fá hana til að sofa hjá sér eftir viku kynni en hún hafi ekki viljað það.  Hún hafi þó látið undan þar sem hann hafi sótt það stíft.  Viku síðar hafi hann „eiginlega nauðgað” henni. 

             Dómskýrsla var tekin af kæranda 10. september 2003.  Þar greinir hún frá því að hún hafi hitt ákærða í fermingarveislu hjá sameiginlegri vinkonu þeirra, G.  Þau hafi síðan ákveðið að byrja saman, líklegast um 1. maí 2003.  Um viku síðar hafi þau haft samfarir í kjallaranum á heimili hennar. Það hafi gerst einu sinni aftur þar en einnig heima hjá ákærða í að minnsta kosti tvö skipti.  Þau hafi einnig stundað aðrar kynlífsathafnir, hún hafi til dæmis sogið lim hans og hann hafi reynt að hafa samfarir við hana í endaþarm en hætt við það þar sem það hafi verið of sárt fyrir hana. 

             Í síðasta skiptið hafi þau haft samfarir í skýli neðri hæðar húss við [...] í A.  Það hafi verið um kvöldmatarleytið og hafi þau farið inn í skýlið og farið að kyssast.  Hann hafi beðið hana um að hafa samfarir við sig en hún neitað.  Hann hafi þá suðað svo mikið í henni að hún hafi að lokum gefist upp og leyft honum það. 

Ákærði hefur staðfastlega neitað öllum sakargiftum.  Hann segir það rétt að hann hafi kynnst kæranda í fermingarveislu hjá vinkonu þeirra beggja 15. apríl 2003.  Kærandi hafi sótt í hann og hann hafi í byrjun verið hrifinn af henni.  Hann hafi verið með annarri stúlku á þessum tíma og hafi hann sagt þeirri stúlku að hann vildi fá smá pásu.  Hafi hann íhugað að byrja með kæranda og hætta með kærustunni en síðan ákveðið að gera það ekki.  Hann hafi sagt kæranda þá ákvörðun sína í apríl eða maí 2003.  Ákærði kvaðst hafa farið í afmælisboð hjá vinkonu kæranda [ ].  Þegar hann hafi komið í veisluna hafi kærandi verið búin að segja öllum krökkunum að þau væru saman.  Kærandi hafi hangið mikið utan í honum í veislunni og krakkarnir spurt hvort þau væru saman. Þau hafi svarað því til að þau væru bara vinir. Ákærði sagðist hafa farið nokkrum sinnum í heimsókn til kæranda og einu sinni hitt móður hennar. Oftast hafi hann þó beðið fyrir utan vegna þess að kærandi hafi sagt að móðir hennar vildi ekki að þau væru að hittast. Kærandi hafi hins vegar aldrei komið í heimsókn til hans. Ákærði kvaðst hafa átt við þunglyndi að stríða og verið að ná áttum um það leyti er hann kynntist kæranda. Hún hafi sagt honum að hún ætti við sama vandamál að stríða og að hún hafi reynt sjáfsvíg. Einu sinni hafi hún sýnt honum ummerki um skurð á úlnliði. Hann hafi boðist til að hjálpa henni og vera vinur hennar.

Ákærði sagði að þau hafi hvorki átt í ástar- né kynferðislegu sambandi.  Hún hafi að vísu stundum daðrað við hann og gefið til kynna án orða að hún vildi kynferðislegt samband en ekkert slíkt hafi þó komið til. Kærandi hafi oft hringt í hann. Síðast hafi þau hist í byrjun ágúst við [...] í A. Hann hafi komið með strætó og þau hist í strætisvagnskýlinu þar. Það hafi verið þeirra síðasti fundur og hafi honum lokið án alls rifrildis eða ásakana. Hann geri sér því ekki grein fyrir af hverju kærandi beri hann þessum sökum.

  Ákærði kvaðst hafa vitað að kærandi væri 13 ára gömul. 

II.

             Í málinu hafa verið lagðar fram dagbækur kæranda.  Í þeim kemur meðal annars eftirfarandi fram: 

„[...]”                                                  

III.

             Vitnið H er vinkona kæranda.  Skýrsla var tekin af henni í Barnahúsi 12. nóvember 2003.  Hún sagði kæranda hafa sagt sér frá því að hún hafi hitt strák í fermingarveislu hjá vinkonu sinni.  Stuttu síðar hafi þau byrjað að vera saman og haft nokkrum sinnum samfarir.  Í eitt skiptið hafi kærandi talið að ákærði hafi eiginlega nauðgað henni, það er að segja að hún hafi ekki viljað hafa samfarir við hann en hann orðið ágengur og haft sitt fram.  Þetta hafi gerst við eitthvað hús ekki fjarri heimili kæranda.  Þá hafi kærandi einnig sagt henni frá því að þau hafi haft samfarir niður í kjallara heima hjá kæranda. 

             Vitnið I, vinkona kæranda, kom fyrir dóm í Barnahúsi 12. nóvember 2003.  Hún sagði að kærandi hafi sagt sér allt þar sem þær væru svo nánar vinkonur.  Kærandi hafi sagt henni að hún hafi haft nokkrum sinnum samfarir við ákærða.  Hafi það gerst heima hjá kæranda niður í kjallara og einnig við eitthvað hús sem hafi verið að endurbyggja ekki langt frá heimili kæranda.  Hún hafi einnig sagt henni að hún hafi tottað ákærða einu sinni. 

             Vitnið J er vinur kæranda.  Fyrir dómi og hjá lögreglu skýrði hann svo frá að kærandi hafi sagt honum frá tveimur tilvikum þar sem hún og ákærði hefðu haft samræði, annars vegar í kjallaranum heima hjá kæranda og hins vegar í skýli í vesturbæ A.  J sagðist hafa farið með kæranda í þetta skýli og þar hafi verið raðað upp einangrunarplötum.  Við þennan stafla hafi kærandi tekið upp bréf sem hafi verið umbúðir utan af smokk og hafi kærandi sagt honum að þetta væri sönnunargagn.  Að því búnu hafi hún sett bréfið utan af smokknum aftur á sinn stað.  Við rannsókn lögreglu fundust ekki umræddar umbúðir.  Ekki mundi J tímasetningar í þessu sambandi en mundi þó að hann hafi farið til [...] 1. júní 2003 og hafi kærandi verið búin að segja honum þetta fyrir þann tíma. J sagðist hafa verið eins konar sálfræðingur kæranda. Hún hafi létt á sér við hann og hann hlustað. Sér hafi virst sem henni hafi í fyrstu fundist allt í lagi að hafa samfarir við ákærða en séð síðar að það hefði verið rangt. Þá hafi hún farið að upplifa reynslu sína sem eins konar nauðgun. Hún hafi verið í ástarsorg eftir að upp úr slitnaði milli hennar og ákærða og einu sinni hringt í sig grátandi og sagst ætla að drepa sig. Nokkrum sinnum hafi hún sýnt sér far á úlnliði eftir hníf en það hafi frekar verið rispur en sár.

             Ólöf Ásta Farestveit, uppeldis- og afbrotafræðingur, kom fyrir dóm, en einnig hefur verið lögð fram í málinu greinargerð hennar varðandi greiningu og meðferð kæranda.  Í greinargerð hennar og vitnisburði hennar fyrir dómi kom meðal annars fram að Barnaverndarnefnd A hafi óskað eftir meðferð fyrir kæranda 11. september 2003 í Barnahúsi þar sem ætlað var að ákærði hefði haft samfarir við kæranda í nokkur skipti án hennar samþykkis.  Ólöf hitti kæranda 14 sinnum frá 17. september 2003 til 5. apríl sl. og aftur í tvö skipti síðar.  Ólöf sagði að meðferðarviðtölin hafi byggst fyrst og fremst á því að hjálpa stúlkunni til þess að takast á við þá erfiðleika sem upp höfðu komið eftir þá reynslu sem hún hefði haft af samskiptum sínum við ákærða og aðstoða hana við að ná áttum með líf sitt eftir þá reynslu.  Komið hafi í ljós að kærandi hafi haft nokkur einkenni áfallasteitu eins og truflandi minningar um atburðinn og endurteknar upplifanir í draumum um það sem gerst hafði.  Fyrstu vikurnar hafi hún átt erfitt með svefn og lagst seint til hvílu af ótta við drauma.  Fram hafi komið hjá kæranda að eftir að hún hafi hafið nám í 8. bekk hafi hún fundið fyrir miklum einbeitingar­örðugleikum og pirringi og fengið reiðiköst.  Þá kom einnig fram að kærandi hefði haft sjálfsvígshugsanir.  Ólöf sagði að í janúar 2004 hafi kæranda verið farið að líða betur en samt hafi hún enn verið dul, skort orku og stundum verið mjög leið.  Þá hafi hún kvartað um ýmsa verki án læknisfræðilegra skýringa.  Það er álit Ólafar að kæranda hafi liðið mjög illa eftir meinta kynferðismisnotkun en sé á góðri leið með að lifa með þessa reynslu á bakinu.  Sökum ungs aldur sinnar hafi komið upp margvísleg vanda­mál tengd reynslu hennar og hafi þessi reynsla sært blygðunarsemi hennar.  Hún sé enn mjög reið yfir að hafa þessa reynslu á bakinu og hafi meðferðin miðað við að aðstoða hana við að horfa fram á veginn.  Hún beri samt mörg einkenni barna sem orðið hafi fyrir kynferðislegri misnotkun.

             E, móðir kæranda, kom fyrir dóm. Hún sagði m.a. að einu sinni hafi hún ekið kæranda heim til ákærða og hafi kærandi sagt að hún og ákærði ætluðu að horfa á myndband ásamt fleiri krökkum. Þá kom einnig fyrir dóm L sálfræðingur en hún tók á móti kæranda hjá Félagsþjónustu A í upphafi máls.

 Foreldrar ákærða komu fyrir dóm. Í máli þeirra kom m.a. fram að móðir ákærða hafi átt við veikindi að stríða á þessum tíma og vart farið úr húsi. Hún sagði að kærandi hafi aldrei komið í heimsókn á heimili þeirra á þessum tíma og taldi að hún hefði orðið vör við það. Hins vegar hafi kærandi oft hringt. Einu sinni hafi þau hjónin farið út að borða um kvöldmatarleytið og þá hafi einhverjir krakkar komið í heimsókn til ákærða. Þau hafi öll verið farin er þau hjónin hafi komið heim um kl. 20:30-21:00.

Í málinu liggur fyrir læknisvottorð frá 10. október 2003 þar sem fram kemur að meyjarhaft kæranda sé farið á þann hátt sem sést hjá konum sem hafi haft samfarir eins og það er orðað í vottorðinu.

IV.

             Krafa ákærða um frávísun málsins var fyrst sett fram við flutning þess. Er hún á því byggð að rannsókn málsins sé áfátt og ekki hafi verið efni til að gefa út ákæru í því á grundvelli þeirrar rannsóknar sem fram hefur farið. Engin efni eru til þess að verða við þessari kröfu.

Ákærða er gefið að sök að hafa að minnsta kosti fjórum sinnum haft samræði við kæranda, tvisvar í kjallara á heimili hennar, á heimili ákærða og í opnu skýli við hús í A.  Ákærði hefur staðfastlega neitað þessum sakaragiftum við rannsókn og meðferð málins.  Hann sagðist aðeins hafa verið vinur kæranda og hitt hana nokkrum sinnum, þó aldrei heima hjá honum.  Hann getur enga skýringu gefið á því hvers vegna kærandi ber hann þessum sökum. 

             Kærandi kom fyrir dóm í Barnahúsi.  Vitnisburður hennar var tekinn upp á myndband og horfði dómurinn á upptökuna við aðalmeðferð málsins.  Framburður stúlkunnar var trúverðugur og kom heim og saman við dagbækur hennar og frásögn vina hennar fyrir dómi, vitnanna H, I og J.  Framburður kæranda fær einnig stoð í vætti Ólafar Ástu Farestveit, uppeldis- og afbrotafræðings, en stúlkan var í meðferð hjá henni og gekk til hennar í 16 skipti.  Í dagbók sinni skrifar kærandi um samband sitt við ákærða.  Lýsir hún fyrst hrifningu sinni á ákærða, síðan kynferðislegum samskiptum þeirra og loks vonbrigðum hennar er sambandinu lauk.  Þessi dagbók er því til styrktar að kærandi hafi greint satt og rétt frá um samskipti sín við ákærða og að samband þeirra hafi verið meira en vinasamband. Engin ástæða er til að ætla annað en að dagbókin sé samtímaskrif en í henni er einnig greint frá öðrum atvikum en samskiptum ákærða og kæranda.

 Ekkert hefur komið fram í málinu sem gefur tilefni til þess að ætla að frásögn kæranda sé röng  svo einhverju skipti varðandi úrlausn málsins.

             Þegar framangreint er metið í heild þykir sannað, þrátt fyrir eindregna neitun ákærða, að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru         

Með greindri háttsemi hefur ákærði gerst brotlegur við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/2003, sbr. 4. gr. sömu laga. Í ákæru er ranglega vísað til laga nr. 19/1991 í stað laga nr. 19/1940 en málið var flutt og varið með tilliti til 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

             Ákærði hefur ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi.  Við ákvörðun refsingar verður að líta til þess að ákærði var aðeins 15 ára er brotin voru framin og samræði hans og stúlkunnar var ekki að óvilja hennar.  Hins vegar ber að taka tillit til þess að brotin beindust að mikilsverðum hagsmunum 13 ára gamallar stúlku sem ekki hafði þroska til að meta hvort hún væri reiðubúin til þess að stunda kynlíf.  Að öllu þessu virtu og með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tvo mánuði.  Í ljósi aldurs ákærða, sakaferils og atvika málsins þykir mega ákveða að fresta fullnustu refsingarinnar þannig að hún falli niður að liðnum tveimur árum frá dómsuppsögu haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

             Af hálfu kæranda er sett fram skaðabótakrafa sem reist er á 26. gr. laga nr. 50/1993.  Af gögnum málsins má ráða að stúlkan hefur orðið fyrir áfalli og ljóst er að brot þau sem sakfellt er fyrir í máli þessu eru almennt til þess fallin að valda þeim sem fyrir verður margvíslegum sálrænum erfiðleikum.  Verður talið að kærandi hafi orðið fyrir miska og þykja bætur til hennar hæfilega ákveðnar 150.000 krónur.  Ákærða var birt skaðabótakrafa 30. mars 2004.  Þykir því rétt að hún beri dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 30. apríl 2004 til greiðsludags.

             Samkvæmt framangreindum málsatvikum greiði  ákærði allan sakarkostnað, þar með talin réttargæslu- og málsvarnarlaun, sbr. 1. mgr. 164. gr. og 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991.  Ákærði greiði skipuðum verjanda sínum, Erni Höskuldssyni hrl., 250.000 krónur og þóknun réttargæslumanns kæranda, Sigríði Elsu Kjartansdóttur hdl., 80.000 krónur.

             Af hálfu ákæruvalds flutti málið Sigríður Jósefsdóttir saksóknari.

             Dóminn kveða upp héraðsdómararnir Gunnar Aðalsteinsson, sem dóms­formaður, Guðmundur L. Jóhannesson og Þorgeir Ingi Njálsson.

DÓMSORÐ:

             Ákærði, X, sæti fangelsi í tvo mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún niður falla að liðnum tveimur árum frá dómsuppsögu haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

          Ákærði greiði allan kostnað sakarinnar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Arnar Höskuldssonar hrl., 250.000 krónur svo og þóknun réttar­gæslumanns, Sigríður Elsu Kjartansdóttur hdl., 80.000 krónur.

Ákærði greiði E og F fyrir hönd ólögráða dóttur þeirra, Y, 150.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 30. apríl 2004 til greiðsludags.