Hæstiréttur íslands
Mál nr. 667/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Haldlagning
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. október 2017 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 24. október 2017 þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að aflétt yrði haldi sóknaraðila á fjármunum sem sóknaraðili hafði lagt hald á vegna rannsóknar á nánar tilgreindu máli. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að framangreind krafa verði tekin til greina.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 24. október 2017.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 17. október síðastliðinn, barst dóminum með bréfi 20. september síðastliðinn.
Sóknaraðili er X, kennitala [...], [...], Hafnarfirði.
Varnaraðili er lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, Hverfisgötu 113, Reykjavík.
Í málinu kefst sóknaraðili þess að varnaraðila verði með úrskurði gert að aflétta haldi á 609.500 krónum, sem lögregla lagði hald á við rannsókn á máli með lögreglunúmerið [...]. Þá krefst sóknaraðili þóknunar.
Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað.
Í greinargerð með kröfu sóknaraðila segir að lögregla hafi þann 31. maí 2017 lagt hald á fjármuni í eigu sóknaraðila, alls 609.500 krónur, vegna gruns um sölu á fíkniefnum. Sóknaraðili hafnar þeim ásökunum og bendir á að fjármunirnir hafi verið framfærslufé hans sem hafi verið hluti af eingreiðslu bóta fyrir varnalega örorku hans, sem greitt hafi verið út af Sjóvá-Almennum tryggingum hf. [...]. Í þeim efnum telji sóknaraðili rétt að benda á að slíkir fjármunir njóti aukinnar réttarverndar og verði til að mynda ekki andlag aðfarar, sbr. 2. tölulið 1. mgr. 41. gr. laga um aðför nr. 90/1989. Bendi ekkert í rannsóknargögnum lögreglu til þess að þessara fjármuna hafi verið aflað á refsiverðan hátt sem sé skilyrði fyrir haldlagningu, sbr. 1. mgr. 68. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Krafa sóknaraðila er byggð á 3. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008. Kveðst sóknaraðili telja að lögregla hafi ekki sýnt fram á þörf þess að haldleggja fjármunina og beri því að aflétta haldi á 609.500 krónum og skila þeim til sóknaraðila.
Varnaraðili hafnar kröfu sóknaraðila. Bendir varnaraðili á að um fimm mánuðir séu liðnir frá því að rannsókn á málinu númer [...] hafi hafist, en sóknaraðili sé í málinu grunaður um sölu fíkniefna. Rannsókn málsins hafi lokið 16. október síðastliðinn, en ákvörðun um saksókn liggi ekki fyrir. Varnaraðili mótmælir því að þeim peningum sem lögregla hafi tekið úr vörslum sóknaraðila og lagt hald á við rannsókn málsins hafi ekki verið aflað á ólögmætan hátt. Um heimild til haldlagningar á peningunum kveðst varnaraðili vísa til 1. mgr. 68. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt ákvæðinu sé skylt að leggja hald á hluti sem aflað hafi verið á refsiverðan hátt eða sem kunni að verða gerðir upptækir. Einnig vísar varnaraðili til 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 um heimild til upptöku á slíkum peningum.
Niðurstaða:
Í 3. mgr. 69. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála segir að vilji eigandi eða vörsluhafi munar, sem hald er lagt á, ekki hlíta þeirri ákvörðun geti hann borðið ágreiningsefnið undir dómara.
Sóknaraðili krefst þess að varnaraðila verði með úrskurði gert að aflétta haldi á 609.500 krónum sem lögregla lagði hald á við rannsókn á máli með lögreglunúmerið [...]. Tilefni haldlagningarinnar mun hafa verið grunur lögreglu um peninganna hafi verið aflað með refsiverðum hætti. Í 1. mgr. 72. gr. laga nr. 88/2008 segir að lögregla skuli aflétta haldi þegar þess er ekki lengur þörf og í síðasta lagi þegar máli er endanlega lokið nema um sé að ræða muni sem gerðir hafa verið upptækir með dómi, muni sem aflað hefur verið með refsiverðum hætti og afhentir hafa verið þeim sem eiga tilkall til þeirra. Sé haldi aflétt skal lögregla hlutast til um að skila munum til þeirra sem rétt eiga til þeirra, sbr. 2. mgr. 72. gr. laganna.
Varnaraðili hafnar kröfu sóknaraðila. Við munnlegan flutning málsins kom fram að rannsókn lögreglu á málinu hefði lokið daginn áður og fyrir lægi að taka ákvörðun um saksókn.
Samkvæmt 1. mgr. 68. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skal leggja hald á muni, þar á meðal skjöl, ef ætla má að þeir eða upplýsingar sem þeir hafa að geyma hafi sönnunargildi í sakamáli, að þeirra hafi verið aflað á refsiverðan hátt eða að þeir kunni að verða gerðir upptækir. Fallist er á að fyrrgreindum skilyrðum 1. mgr. 68. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt í málinu, en upplýst er að lögregla rannsakaði ætlað brot sóknaraðila gegn lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, mál lögreglu númer [...], og er rannsókn málsins nýlokið. Að þessu gættu verður því ekki slegið föstu nú að ekki sé lengur þörf á haldi á þeim peningum sem um ræðir. Verður því hafnað kröfu sóknaraðila um að varnaraðila verði með úrskurði gert að aflétta haldi á 609.500 krónum sem haldlagðar voru 31. maí 2017. Þóknun úrskurðast ekki í málinu.
Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kröfu sóknaraðila, X, um að varnaraðila, lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, verði með úrskurði gert að aflétta haldi á 609.500 krónum, sem lögregla lagði hald á við rannsókn á málinu númer [...], er hafnað.
Þóknun úrskurðast ekki.