Hæstiréttur íslands
Mál nr. 845/2016
Lykilorð
- Ölvunarakstur
- Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna
- Akstur án ökuréttar
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Karl Axelsson og Viðar Már Matthíasson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 14. desember 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess að refsing verði milduð.
Í máli þessu er ákærði sakfelldur fyrir að hafa 9. febrúar 2016 ekið bifreið sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna, auk hraðaksturs, og 11. júní sama ár sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna. Brot ákærða vegna aksturs undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna er ítrekað sjötta sinni og fimmta sinni vegna aksturs hans sviptur ökurétti. Samkvæmt því og með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 10 mánuði.
Ákvæði héraðsdóms um ökuréttarsviptingu og sakarkostnað eru staðfest.
Samkvæmt 1. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála verður ákærði dæmdur til að greiða helming alls áfrýjunarkostnaðar málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærði, Guðmundur Friðrik Stefánsson, sæti fangelsi í 10 mánuði, en að öðru leyti skal héraðsdómur vera óraskaður.
Ákærði greiði helming alls áfrýjunarkostnaðar, sem nemur í heild 383.273 krónum, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða, Stefáns Karls Kristjánssonar hæstaréttarlögmanns, 372.000 krónur. Að öðru leyti greiðist áfrýjunarkostnaður úr ríkissjóði.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. nóvember 2016
Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 9. ágúst 2016, á hendur Guðmundi Friðriki Stefánssyni, kennitala [...], Hraunbæ 156, Reykjavík, fyrir eftirtalin umferðarlagabrot með því að hafa:
1. Þriðjudaginn 9. febrúar 2016, ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti, undir áhrifum áfengis og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist vínandamagn 1,25 ‰ og amfetamín 135 ng/ml), með 117 km hraða á klukkustund um Reykjanesbraut í Vatnsleysustrandarhreppi, vestan við Voga, þar sem leyfður hámarkshraði var 90 km á klukkustund.
Teljast brot þessi varða við 2. mgr. 37. gr., 1., sbr. 3. mgr. 45. gr., 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum.
2. Laugardaginn 11. júní 2016, ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti og óhæfur til að stjórna henni örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna (í blóði mældist amfetamín 265 ng/ml) vestur Hvaleyrarbraut í Hafnarfirði, við Fornubúðir, þar sem lögregla stöðvaði aksturinn.
Teljast brot þessi varða við 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. og 1. mgr. 48. gr., allt sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með áorðnum breytingum.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til greiðslu alls sakarkostnaðar og til að sæta sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. laga nr. 50/1987, sbr. 25. og 26. gr. laga nr. 44/1993, sbr. 18. gr. laga nr. 66/2006.
Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar sem lög leyfa og hæfilegrar þóknunar sér til handa.
Farið var með mál þetta samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu þegar sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.
Ákærði hefur skýlaust játað brot sín. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og eru brot hans rétt heimfærð til refsiákvæða í ákæru.
Ákærði er fæddur í ágúst 1980. Samkvæmt framlögðu sakavottorði, dagsettu 3. ágúst 2016, á ákærði að baki nokkurn sakaferil og hefur margítrekað verið fundinn sekur um að aka sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis og óhæfur til að stjórna bifreið örugglega vegna áhrifa vegna ávana- og fíkniefna. Við ákvörðun refsingar er miðað við að ákærði sé nú í áttunda sinn fundinn sekur um að aka undir áhrifum áfengis eða óhæfur til að stjórna bifreið örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna en í sjötta sinn fundinn sekur um að aka sviptur ökurétti. Með hliðsjón af sakarefni þessa máls og ákvæðum 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og í samræmi við dómvenju þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í þrettán mánuði.
Með vísan til lagaákvæða í ákæru er áréttuð ævilöng svipting ökuréttar ákærða, frá uppkvaðningu dóms þessa að telja.
Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hrl., 145.080 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, og 175.608 krónur í annan sakarkostnað.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Elín Hrafnsdóttir fulltrúi.
Valborg Steingrímsdóttir, aðstoðarmaður dómara, kveður upp dóminn.
D Ó M S O R Ð:
Ákærði, Guðmundur Friðrik Stefánsson, sæti fangelsi í þrettán mánuði.
Ákærði er sviptur ökurétti ævilangt frá uppkvaðningu dóms þessa að telja.
Ákærði greiði málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hrl., 145.080 krónur og 175.608 krónur í annan sakarkostnað.