Hæstiréttur íslands

Mál nr. 367/2002


Lykilorð

  • Skipulag
  • Byggingarleyfi
  • Grennd
  • Stjórnsýsla
  • Stjórnvaldsúrskurður
  • Vanhæfi
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 27

 

Fimmtudaginn 27. mars 2003.

Nr. 367/2002.

Kári Stefánsson

(Othar Örn Petersen hrl.)

gegn

Gísla Helgasyni

Herdísi Hallvarðsdóttur og

Guðmundi Jónssyni

(Helgi Birgisson hrl.)

og gagnsök

 

Skipulag. Byggingarleyfi. Grennd. Stjórnsýsla. Stjórnvaldsúrskurður. Vanhæfi. Gjafsókn.

Deilt var um gildi byggingaleyfis sem K fékk til að reisa hús með tvöfaldri bílageymslu á lóð sinni nr. 9 við Skeljatanga í Reykjavík. Höfðu G o.fl. kært veitingu leyfisins til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála sem felldi það úr gildi. K krafðist því að úrskurður nefndarinnar yrði felldur úr gildi. Tekið var fram að niðurstaða málsins færi eftir skýringu á byggingar- og skipulagsskilmálum umrædds hverfis frá 1990 og ákvæðum skipulags- og byggingarlaga og reglugerðar sem sett væri með heimild í þeim lögum. Fallist var á að skilmálarnir væru torskildir og til þess fallnir að skapa óeiningu. Samkvæmt þeim væri um sum atriði vísað til mats stjórnvalda en um önnur færi eftir hlutlægri skýringu á viðkomandi ákvæðum. Fyrir lá að sótt var um að byggingin yrði einnar og hálfrar hæðar. Samkvæmt skýrum ákvæðum 3. gr. skilmálanna mætti stalla hús einungis á þeim helmingi grunnflatar þess, sem væri fjær götu, og mætti nýta slíka stöllun á tveimur hæðum. Mun meira en helmingur af gólfplötu hússins væri stallaður niður fyrir þá hæð, sem aðalgólfplatan hefði næst götu. Fyrirhugað hús K fullnægði því ekki ákvæði 3. gr. skilmálanna og yrði ekki fallist á að stöllun í merkingu skilmálanna tæki eingöngu til þess hluta hússins, sem fyrirhugað væri að yrði á tveimur hæðum. Þá yrði að skilja skilmálana svo að hæð húss sem væri stallað á þeim helmingi gólfflatar, sem væri fjær götu, mætti vera hæst 5,7 m miðað við götukóta á þessum hluta, en nær götu skyldi það vera hæst 4,4 m. Glerhýsi K eftir miðju þaksins mætti því ekki allt ná 5,7 m mænishæð. Sú mænishæð skæri sig einnig frá hæð annarra hús við Skeljatanga. Var kröfu K því hafnað.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Hrafn Bragason.

Aðaláfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 9. ágúst 2002. Fyrir Hæstarétti krefst hann þess að úrskurður úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í málinu nr. 34/2001 frá 14. desember 2001 verði felldur úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjendur áfrýjuðu málinu 22. október 2002. Þeir krefjast staðfestingar héraðsdóms og málkostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Þeir hafa gjafsókn fyrir Hæstarétti.

I.

Aðila greinir á um gildi byggingaleyfis, sem aðaláfrýjandi mun hafa fengið með staðfestingu borgarráðs 24. júlí 2001 til að reisa hús með tvöfaldri bílageymslu á lóð sinni nr. 9 við Skeljatanga í Reykjavík. Áður hafði hann óskað þess að heimiluð yrði breyting á deiliskipulagi lóðarinnar í þá veru að byggingarreiturinn yrði stækkaður til suðurs og heimilað að reisa einnar og hálfrar hæðar hús á lóðinni með mænishæð 5,7 metrar miðað við götukóta. Í umsögn borgarskipulags kemur fram að það hefur talið hæð hússins í samræmi við ákvæði í skipulagsskilmálum fyrir svæðið, en þeir eru frá 17. október 1990. Borgaryfirvöld mátu fyrirhugaða breytingu óverulega og sendu erindi aðaláfrýjanda til grenndarkynningar samkvæmt undantekningarákvæði 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Við breytinguna bárust athugasemdir meðal annars frá gagnáfrýjendum, en skipulags- og byggingarnefnd borgarinnar samþykkti allt að einu breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar og hlaut sú ákvörðun staðfestingu borgarráðs 3. apríl 2001. Gagnáfrýjendur ásamt fleirum undu ekki þessari breytingu á deiliskipulagi og kærðu til úrskurðarnefndar um skipulags- og byggingamál, sem starfar samkvæmt 8. gr. laga nr. 73/1997. Nefndin hafnaði erindi þeirra með úrskurði 6. desember 2001. Féllst nefndin á að breytingin, sem gerð var á byggingarreitnum, væri minni háttar og að fara hafi mátt með erindi aðaláfrýjanda eftir undanþáguákvæði 2. mgr. 26. gr. laga nr. 73/1997. Framangreind umfjöllun borgaryfirvalda og úrskurðarnefndar um skipulags- og byggingarmál verður ekki skilin öðru vísi en svo að ákvörðunin og úrskurðurinn varðandi hana taki einungis til byggingarreitsins en ekki til hæðar hússins. Gilda því áðurgreindir skipulagsskilmálar svæðisins um byggingu aðaláfrýjanda með þeirri breytingu, sem af stækkun reitsins hlýst, þar á meðal um hæð húss aðaláfrýjanda, sbr. 73. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Hefur þessum úrskurði ekki verið skotið til dómstóla.

II.

Að fenginni ákvörðun borgaryfirvalda um breytt deiliskipulag lóðarinnar sótti aðaláfrýjandi um byggingarleyfi, svo sem áður segir. Skipulags- og byggingarnefnd gerði ekki athugasemd við að byggingarleyfi yrði veitt og var málinu vísað til byggingarfulltrúa sem samþykkti umsóknina 17. júlí 2001 með þeim rökstuðningi að hún samrýmdist ákvæðum skipulags- og byggingarlaga. Mun þessi ákvörðun hafa verið staðfest af borgarráði, svo sem áður greinir.

Gagnáfrýjendur kærðu veitingu byggingarleyfisins til úrskurðarnefndar skipulags- og  byggingarmála sem tók til greina kröfu þeirra um að stöðva framkvæmdir til bráðabirgða 8. ágúst 2001 og felldi síðan byggingarleyfið úr gildi með úrskurði 14. desember sama ár. Samkvæmt deiliskipulagsuppdrætti á hús aðaláfrýjanda að standa innst við Skeljatanga, sem þar skarast á við Skildingatanga. Nú eru báðar göturnar lokaðar, en opna á milli þeirra samkvæmt uppdrætti.  Gagnáfrýjendur Gísli og Herdís eiga hús innst við Skildingatanga og mun það hús því verða við hliðina á fyrirhugaðri byggingu aðaláfrýjanda, en þó standa að hluta nokkru framar. Gagnáfrýjandi Guðmundur á hins vegar hús á lóð, sem er á milli Fáfnisness og Skildingatanga, að hluta við endann á Skeljatanga. Telja gagnáfrýjendur, sem nágrannar fyrirhugaðrar byggingar, sig hafa almenna hagsmuni af  því að skipulagi sé fylgt. Þá telja þeir að hún skyggi á lóðir þeirra og við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti var nefnt að gagnáfrýjendur Gísli og Herdís teldu að byggingin myndi draga úr verðgildi húss síns. Engin gögn hafa þó verið lögð fram um skuggamyndun frá henni á lóðir gagnáfrýjenda eða um rýrnun á verðgildi húss Gísla og Herdísar. Grenndarhagsmunir gagnáfrýjenda verða þó taldir nægilega ríkir til þess að þeir hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn máls þessa. Aðaláfrýjandi hefur heldur ekki fyrir Hæstarétti borið brigður á þetta, en hann telur hagsmuni sína af því að fá að reisa húsið mikla.

III.

Aðaláfrýjandi reisir málatilbúnað sinn á því að hann hafi fengið byggingarleyfi sem gefið hafi verið út í samræmi við skipulagsskilmála 17. október 1990 og að öðru leyti í samræmi við reglur skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en skýra verði skipulagsskilmálana rúmt og með tilliti til jafnræðisreglu til samræmis við það sem annars staðar hafi verið leyft á þessu byggingarsvæði. Þá heldur hann því fram að nefndarmenn í úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála hafi með bráðabirgðaúrskurðinum, sem áður er greindur, tekið efnislega afstöðu til deiluefnisins og þannig gert sig vanhæfa til þess að skera úr um málið endanlega. Jafnframt hafi nefndin tekið sér of langan tíma til þess að afgreiða kæru gagnáfrýjenda.    Gagnáfrýjendur vísa hins vegar til rökstuðnings og niðurstöðu úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, en nefndin hafi komist að því að umdeilt byggingarleyfi samræmist ekki gildandi skipulagsskilmálum og að ekki sé heimild til þeirrar rúmu túlkunar á skilmálunum sem byggingaryfirvöld hafi viljað leggja til grundvallar í málinu. Þótt vera kynni að skilmálunum hafi ekki verið vel fylgt eftir í einhverjum tilvikum verði það ekki til þess að víkja verði frá þeim eftir það út frá jafnræðissjónarmiðum.

Með vísan til raka héraðsdóms verður ekki á það fallist að úrskurðarnefndin hafi með uppkvaðningu bráðabirgðaúrskurðarins orðið vanhæf til að afgreiða erindi gagnáfrýjenda endanlega. Þá ber að taka undir það með héraðsdómi að þótt afgreiðsla nefndarinnar hafi dregist nokkuð geti það eitt og sér ekki leitt til þess að úrskurðurinn verði felldur úr gildi.

Niðurstaða málsins fer því eftir skýringu á byggingar- og skipulagsskilmálum hverfisins frá 17. október 1990 og ákvæðum skipulags- og byggingarlaga og reglugerðar, sem sett er með heimild í þeim lögum. Í skilmálunum segir í 1. gr. að á óbyggðum lóðum á svæðinu skuli rísa einnar hæðar íbúðarhús og í 2. gr. að auk aðalíbúðar sé leyfilegt að hafa allt að 70 m² aukaíbúð eða af stærð sem nemur allt að ¼ af heildarstærð húss. Í 3. gr. er mælt fyrir um stæðir húsa og segir þar að staðsetja skuli hús innan marka sem mæliblað sýni. Þar sem aðstæður leyfi megi stalla hús á helmingi grunnflatar þess, fjær götu, þó þannig að mænishæð húss nær götu sé í samræmi við 5. gr. Stöllun megi nýta á tveimur hæðum innan leyfilegrar mænishæðar, sbr. 2. mgr. 5. gr. á helmingi grunnflatar húss, fjær götu. Tilvitnuð ákvæði 5. gr., sem hér skipta máli, mæla fyrir um að mesta hæð mænis þess hluta húss, sem liggur að götu, megi vera 4,4 m á einnar hæðar húsum en 5,7 m á einnar og hálfrar hæðar húsum. Í 2. mgr. segir að mesta hæð mænis þess hluta húss, sem er stallaður, megi vera 5,7 m miðað við götukóta. Í 4. gr. segir svo að hæðarafsetning aðalgólfplötu sé sýnd á hæðarblaði og skuli hún að öllu jöfnu gilda um þann hluta húss, sem næstur sé götu +/- 15 cm. Afsetningu þessari megi breyta að því er varðar bakhluta húss, til hækkunar eða lækkunar eftir því sem jarðhalli gefi tilefni til.

Í byggingu aðaláfrýjanda eiga 137 m² af gólfplötu að verða  0,40 m yfir götu næst henni, síðan á að verða 1 m niður á  223 m² gólfplötu, sem er þannig 0,60 m undir götukóta, kjallari 91 m² á síðan að verða þar til hliðar, 2.00 m undir og við fremri gólfplötu eða 1,60 m undir götukóta, og yfir kjallara á að verða 84 m² hæð, 0,73 m yfir fremri gólfplötu en 1,13 m. yfir götukóta. Fremri hluti eða 147 m² lóðar á að verða 0,15 m yfir götukóta, en lækkaður hluti, eða 667 m² af lóðinni, á að verða 0,90 m undir götukóta og þannig 1,05 m undir fremri hluta lóðar. Til þess að ná þessari lækkun lóðarinnar verður að grafa frá byggingunni svo að lóðin fær ekki að halda núverandi halla hennar eða næstu lóða. Hæð byggingarinnar á að verða að megin hluta 4,20 m yfir götu en yfir miðju húsi á að verða glerþak, sem nær næstum eftir endilangri byggingunni, og á mænishæð þess að verða 5,70 m.

Úrskurðarnefndin leitaði álits Skipulagsstofnunar ríkisins um kæruefni gagnáfrýjenda. Í umsögn hennar er minnt á það að borgarráð Reykjavíkur hafi 3. apríl 2001 samþykkt breytingu á deiliskipulagi Skeljatanga og stækkað byggingarreitinn á lóðinni. Síðan segir að skipulagsskilmálarnir á svæðinu séu upphaflega frá árinu 1966 en þeim hafi síðast verið breytt 1990. Samkvæmt þeim sé heimilt, þar sem aðstæður leyfa, að stalla hús á þeim helmingi grunnflatar sem er fjær götu með því skilyrði að mænishæð þess hluta hússins, sem liggi að götu fari ekki yfir 5,7 m miðað við götukóta. Eftir að tillaga að deiliskipulagi hafi verið kynnt nágrönnum hefði þeim átt að vera kunnugt um það mat borgaryfirvalda að aðstæður á lóðinni nr. 9 við Skeljatanga leyfðu stallað hús. Það mat hafi síðan verið staðfest með samþykkt byggingarfulltrúa á byggingarleyfisumsókn 17. júlí 2001. Að þessu athuguðu gaf Skipulagsstofnun það álit að eiginleg stöllun taki einungis til þess hluta hússins sem sé á tveimur hæðum og sé sá hluti vel innan þess að vera helmingur grunnflatar hússins. Meginhluti þaks hússins, sem sótt var um leyfi fyrir á lóðinni, sé 4,2 m miðað við götukóta. Aðeins mænir glerþaks fyrir miðju hússins sé í  5,7 m hæð. Það sé því mat stofnunarinnar að samþykkt byggingarfulltrúa á byggingarleyfisumsókn fyrir nýbyggingu á umræddri lóð hafi verið í samræmi við byggingarskilmála.

IV.

Að framan er því lýst að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála féllst á að stækkun byggingarreitsins að Skeljatanga 9 hefði réttilega farið að 2. mgr. 26. gr. laga nr. 73/1997 og að þeirri niðurstöðu hafi ekki verið skotið til dómstóla. Rétt byggingaryfirvöld Reykjavíkurborgar hafa farið með byggingarleyfisumsókn aðaláfrýjanda og hefur ekki annað komið fram en að formlega hafi það réttilega verið gert. Þau hafa metið það svo að nægur halli sé á lóðinni svo að þar megi reisa stallað hús og nýta stöllunina að hluta á tveimur hæðum samkvæmt skipulagsskilmálum. Þá hafa þau skýrt skilmálana svo að hæð þaks hússins fari að skilmálunum. Þakið er að mestum hluta í 4,2 m hæð miðað við götukóta en þó með 5,7 m mænishæð á glerþaki eftir því miðju, svo sem áður greinir. Skipulagsstofnun ríkisins hefur fallist á skýringu borgaryfirvalda á skipulagsskilmálum.

Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála segir í úrskurði sínum að óvissa sé um skilning á skipulagsskilmálunum og beitingu þeirra og komi það fram með ýmsum hætti í þessu máli. Leiki þannig vafi á því hvort aðstæður leyfi stöllun húss á lóðinni, hvort skilmálar heimili þar byggingu einnar og hálfrar hæðar húss og sé svo hvað í því felist. Jafnframt sé óljóst hver sé aðalgólfplata þessarar byggingar og hvort vegghæðir samræmist skilmálum. Aðilar hafa tekið undir að óvissa sé um skilning á skilmálunum.  Fallast verður á það að skilmálarnir séu torskildir og til þess fallnir að skapa óeiningu.  Samkvæmt þeim er um sum atriði vísað til mats stjórnvalda, svo sem í 3. gr. þar sem segir að stalla megi hús á helmingi grunnflatar fjær götu „þar sem aðstæður leyfa“. Hið sama á við í 4. gr. þar sem fjallað er um hæðarafsetningu aðalgólfplötu og að henni megi breyta að því er varðar bakhluta húss til lækkunar eða hækkunar „eftir því sem jarðhalli gefur tilefni til“. Um önnur atriði skilmálanna fer eftir hlutlægri skýringu á viðkomandi ákvæðum. Veita þau stjórnvöldum ekki svigrúm til matskenndra ákvarðana.

Glerþakið eftir byggingunni endilangri nær í 5,7 m hæð og myndi því verða hærra en önnur hús við götuna sjálfa. Samkvæmt 4. gr. skilmálanna má hæðarafsetning hússins breytast eftir því sem jarðhalli gefur tilefni til. Hafa byggingaryfirvöld metið það svo að jarðhalli gefi tilefni til þess. Úrskurðarnefndin taldi það orka tvímælis að stöllun hússins fylgdi jarðhalla.

Sótt var um að byggingin yrði einnar og hálfrar hæðar. Samkvæmt skýrum ákvæðum 3. gr. skilmálanna má stalla hús einungis á þeim helmingi grunnflatar þess, sem er fjær götu, og má nýta slíka stöllun á tveimur hæðum. Samkvæmt því, sem að framan er rakið, er mun meira en helmingur af gólfplötu hússins stallaður niður fyrir þá hæð, sem aðalgólfplatan hefur næst götu. Fyrirhugað hús aðaláfrýjanda fullnægir því ekki þessu ákvæði og verður ekki fallist á að stöllun í merkingu skilmálanna taki eingöngu til þess hluta hússins, sem fyrirhugað er að verði á tveimur hæðum.

Skilmálarnir eru torskildir að því er varðar hæð húsa. Þó verður að skilja það svo þegar litið er til 5. gr. þeirra og hún borin saman við 3. gr., að  hæð húss sem er stallað á þeim helmingi gólfflatar, sem er fjær götu, megi vera hæst 5,7 m miðað við götukóta á þessum hluta, en nær götu skuli það vera hæst 4,4 m.  Glerhýsi aðaláfrýjanda eftir miðju þaksins má því ekki allt ná 5,7 m mænishæð. Sú mænishæð sker sig einnig frá hæð annarra húsa við Skeljatanga.

Þegar allt framanskráð er virt ber að staðfesta niðurstöðu héraðsdóms og hafna kröfu aðaláfrýjanda.

Rétt þykir að hver aðili beri sinn kostnað af máli þessu í héraði og fyrir Hæstarétti. Um gjafsóknarkostnað gagnáfrýjenda fer eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hafnað er kröfu aðaláfrýjanda, Kára Stefánssonar, um að felldur verði úr gildi úrskurður skipulags- og byggingarmála  frá 14. desember 2001 í málinu nr. 34/2001.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjenda, Gísla Helgasonar, Herdísar Hallvarðsdóttur og Guðmundar Jónssonar, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar á meðal málflutningslaun lögmanns þeirra fyrir réttinum, 400.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júlí 2002.

I

          Mál þetta er höfðað 6. og 8. febrúar sl. og tekið til dóms 25. júní sl.

          Stefnandi er Kári Stefánsson, Víðihlíð 6, Reykjavík.

          Stefndu eru Gísli Helgason og Herdís Hallvarðsdóttir, Skildingatanga 6, og Guðmundur Jónsson, Fáfnisnesi 4, öll í Reykjavík.

          Stefnandi krefst þess að felldur verði úr gildi úrskurður úrskurðarnefndar skipu­lags- og byggingarmála í máli nr. 34/2001, sem kveðinn var upp 14. desember 2001.  Einnig að viðurkennt verði með dómi að ákvörðun borgarráðs frá 24. júlí 2001 um að veita stefnanda byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi með tvöfaldri bílageymslu á lóðinni nr. 9 við Skeljatanga í Reykjavík sé í gildi.  Þá er krafist málskostnaðar.

          Stefndu krefjast sýknu og að framangreindur úrskurður verði staðfestur.  Þá krefjast þeir málskostnaðar.

II

          Málavextir eru þeir að stefnandi hefur í hyggju að byggja hús með tvöfaldri bíla­geymslu á lóð sinni nr. 9 við Skeljatanga hér í borg.  Sótti hann um leyfi til þessara fram­kvæmda til borgaryfirvalda 29. maí 2001.  Honum var veitt byggingarleyfi og það staðfest af borgarráði 24. júlí sama ár.  Af þessu tilefni hafði þess verið óskað með bréfi 6. júlí 2000 að heimiluð yrði breyting á deili­skipulagi lóðarinnar.  Í bréfinu segir að breytingin sé í því fólgin að byggingar­reit­ur­inn verði stækkaður til suðurs og heim­ilað verði að reisa einnar og hálfrar hæðar hús á lóðinni með mænishæð 5,7 metra miðað við götukóta.  Í umsögn borgarskipulags kemur fram að ósk stefnanda varð­andi hæð hússins sé í samræmi við ákvæði skipu­lags­skilmála, en fyrir svæðið gilda skipulagsskilmálar frá 17. október 1990.  Þetta erindi stefnanda var sent í grennd­arkynningu sem lauk í mars 2001.  Bárust þar m.a. at­­hugasemdir frá stefndu.  Skipu­lags- og byggingarnefnd Reykjavíkur samþykkti breyt­ingu á deiliskipulagi lóð­ar­innar 28. mars 2001 og var sú ákvörðun staðfest af borg­­arráði 3. apríl sama ár.  Stefndu, ásamt fleirum, kærðu þessa breytingu á deiliskipulagi til úrskurðarnefndar skipu­lags- og byggingarmála sem hafnaði kröfum kærenda 6. desember 2001.  Í niður­lagi úrskurðar nefndarinnar segir að hún fallist á að sú breyt­ing sem gerð hafi verið á byggingarreit lóðarinnar geti talist minni háttar breyting á deiliskipulagi og því hafi verið heimilt að fara með málið eftir undanþáguheimild 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

          Eins og áður sagði sótti stefnandi um leyfi til að byggja einbýlishús með tvöfaldri bíla­geymslu á lóðinni.  Skipulags- og byggingarnefnd Reykjavíkur samþykkti 15. júní sama ár að gera ekki athugasemd við að byggingarleyfið yrði veitt eftir smá­vægi­legar lag­fær­ingar.  Var málinu vísað til afgreiðslu byggingarfulltrúa sem samþykkti um­sókn stefn­anda 17. júlí 2001 með þeim rökstuðningi að umsókn hans samrýmdist ákvæð­um skipu­lags- og byggingarlaga.  Borgarráð staðfesti þessa ákvörðun bygg­ing­ar­fulltrúa 24. sama mánaðar. 

          Stefndu kærðu veitingu byggingarleyfisins til úrskurðarnefndar skipulags- og bygg­ingarmála og kröfðust þess að það yrði fellt úr gildi.  Einnig var þess krafist að nefndin úrskurðaði að framkvæmdir við hús stefnanda yrðu stöðvaðar og féllst nefndin á þá kröfu með úrskurði 8. ágúst 2001.  Nefndin kvað síðan upp endanlegan úr­skurð í málinu 14. desember 2001 og var það niðurstaða hennar að fella úr gildi fram­an­greint byggingarleyfi til stefnanda. 

          Í úrskurði sínum segir nefndin að hin umdeilda nýbygging samræmist ekki skipu­lags­skilmálum svæðisins ef beitt sé eðlilegri túlkun þeirra, byggðri á orðskýringum og með hliðsjón af tilgangi deiliskipulags, markmiðum skipulags- og byggingarlaga og öðrum réttarheimildum.  Segir í úrskurðinum að óvissa um skilning skipulags­skil­mál­anna og beitingu þeirra komi fram á ýmsan hátt.  Vafi leiki á um hvort aðstæður leyfi stöllun húss á lóðinni, hvort skipulagsskilmálarnir heimili byggingu einnar og hálfrar hæðar húss og, ef svo sé, hvað felist í því og hver sé aðalgólfplata hússins og hvort vegghæðir samrýmist skilmálunum.  Nefndin hafnar þeim málsástæðum stefn­anda að stjórn­sýslu­fram­kvæmd leiði til þess að túlka bera skipulagsskilmálana rúmt þannig að nánast sé hægt að leggja í þá þann skilning sem henta þyki hverju sinni.  Þvert á móti telur nefndin að líta verði svo á að um þau atriði, sem ekki kveði á um með skýrum hætti í skipu­lagsskilmálum, skorti viðhlítandi skipulagsákvarðanir.  Þegar svo standi á verði að fara með málið eins og ekki væri í gildi deiliskipulag um þau atriði sem skipulagið láti ósvarað.  Í lok úrskurðarins segir að ekki verði séð að þörf sé víðtækra heimilda til túlk­unar ófullnægjandi skipulagsskilmála þar sem það sé á færi þeirra sömu stjórn­valda, sem beita skipulagsskilmálum, að lagfæra þá ef þörf krefji hverju sinni. 

          Stefnandi freistar þess með málsókn þessari að fá úrskurð úrskurðarnefndar skipu­lags- og byggingarmála felldan úr gildi og hefur hann stefnt stefndu til varnar en það voru þeir sem kærðu veitingu byggingarleyfisins til stefnanda á sínum tíma.

III

          Stefnandi byggir á því í fyrsta lagi að byggingarleyfið, sem gefið var út til hans og staðfest af borgarráði 24. júlí 2001, hafi verið í fullu samræmi við skipulags- og bygg­ingarlög og skipulagsskilmála svæðisins.  Því beri að fella úrskurð úrskurðar­nefndar skipulags- og byggingarmála úr gildi.  Bendir stefnandi á að í skipu­lags­skil­málum þeim, sem gildi um svæðið þar sem lóð stefnanda er, segi í 1. gr. að á óbyggð­um lóðum skuli reisa einnar hæðar íbúðarhús.  Undantekning frá reglu 1. gr. sé að finna í 3. gr. en þar segi að staðsetja skuli hús innan marka sem mæliblað sýni.  Þar sem aðstæður leyfi megi stalla hús á helmingi grunnflatar þess, fjær götu, þó þannig að mænishæð húss nær götu sé í samræmi við 5. gr.  Stöllun megi nýta á tveimur hæð­um innan leyfilegrar mænishæðar, sbr. 2. mgr. 5. gr., á helmingi grunnflatar húss, fjær götu.  Stefnandi kveður væntanlegt hús sitt verða stallað og telur hann engan vafa leika á því að aðstæður leyfi slíkt, enda sé byggingarreitur á lóðinni með þeim stærri á svæðinu.  Heildargrunnflötur hússins sé um 375 m² en sá hluti þess, sem er stallaður, sé einungis 75 m² að grunnfleti, sem rúmist vel innan þeirra marka að stöllun megi nýta á helmingi grunnflatar hússins.  Af hálfu stefnanda er tekið fram að hann telji engan vafa leika á því að heimilt sé að nýta stöllun á einni og hálfri hæð þar sem hún sé leyfð á tveimur hæðum samkvæmt skilmálunum.  Byggi þetta á viðteknum lög­skýr­ing­arviðhorfum í stjórnsýslurétti um að sé ákveðin athöfn heimiluð megi al­mennt ganga út frá því að sú athöfn, sem skemmra gengur, sé þar með einnig heimil.  Stefn­andi bendir á 4. gr. skipulagsskilmálanna þar sem segi að hæðarafsetning aðal­gólf­plötu sé sýnd á hæðarblaði og skal hún að öllu jöfnu gilda um þann hluta hússins sem næstur sé götu plús/mínus 15 sm.  Afsetningu þessari megi breyta að því er varðar bak­hluta húss til hækkunar eða lækkunar, eftir því sem jarðhalli gefi tilefni til.  Við veit­ingu byggingarleyfisins var tilvitnuðu ákvæði skipulagsskilmálanna beitt þar sem á húsi stefnanda sé afsetningu aðalgólfplötu breytt þannig að sá hluti hennar, sem fjær sé götu, er nokkuð lægri í samræmi við það sem jarðhalli gefi tilefni til. 

          Þá bendir stefnandi á að í úrskurði nefndarinnar segi að samkvæmt fyrirliggjandi bygg­ingarnefndarteikningum sé sá hluti gólfplötu hússins, sem næstur sé götu, hæð­ar­settur í samræmi við hæðarblað.  Þessi hluti sé hins vegar mikill minni hluti af heild­ar­flat­armáli hússins en stærstur hluti þess sé stallaður niður um 60 sm miðað við gólf­hæð fremsta hluta hússins.  Stefnandi telur að þarna líti úrskurðarnefndin fram­hjá þeirri heimild sem sé í 4. gr. skipulagsskilmálanna að aðalgólf megi fylgja land­halla.  Þessi niðurstaða nefndarinnar sé órökstudd og taki ekkert tillit til þeirra athuga­semda sem settar höfðu verið fram af hálfu stefnanda og skipulagsyfirvalda.  Nefndin segi einungis um ákvæði 4. gr. að það verði að skýra með hliðsjón af ákvæði 3. gr. þannig að heimild til stöllunar sé bundin að hámarki við helming grunnflatar húss­ins.  Af þessari túlkun nefndarinnar telur stefnandi leiða að hún komist að rangri niður­stöðu að því er varði vegghæð hússins.  Í úrskurðinum sé vitnað til þess að nefndin telji það orka tvímælis að lóðaryfirborð fylgdi stöllun hússins og sýnileg vegg­hæð því 60 sm hærri að hluta en ella væri.  Að mati stefnanda sé nefndin þarna að fjalla um þann hluta hússins sem ekki sé stallaður samkvæmt 3. gr. skipulags­skil­mál­anna.  Í raun réttri sé á þessum hluta hússins beitt heimild 5. gr. skilmálanna til að láta aðalgólfplötu húss fylgja halla lóðarinnar.  Við vesturhluta hússins, þar sem það er stallað, er lóðin ekki látin fylgja stölluninni. 

          Stefnandi telur að hæð húss hans sé í fullu samræmi við ákvæði 5. gr. skipu­lags­skil­málanna, enda fari mænishæð þess hvergi yfir 5,7 metra.  Telur hann að sú stað­hæfing nefndarinnar fái ekki staðist að séu á annað borð talin skilyrði til stöllunar húss á lóð­inni gæti mænishæð þess hluta, sem stallaður væri, verið 5,7 metrar en sú heimild tak­mark­aðist við helming grunnflatar.  Og að á fremri hluta hússins, nær götu, gildi eftir sem áður ákvæði 1. mgr. 5. gr. skilmálanna þar sem segi að á þeim hluta húss sem liggi að götu sé mænishæð 4,4 metrar á einnar hæðar húsum.  Af hálfu stefnanda er því haldið fram að í 5. gr. skipulagsskilmálanna segi að mesta hæð einnar og hálfrar hæðar húsa sé 5,7 metrar og byggi stefnandi á því að með þeirri tilvísun hljóti að vera vísað til stallaðra húsa, enda ljóst að annars hefði ekki verið notuð fleir­tölu­mynd orðsins því þá væri einungis verið að vísa til eins tiltekins húss sem heimilt sé að reisa þarna á svæðinu.  Telur stefn­andi að 2. mgr. 5. gr. skilmálanna verði að skýra til samræmis við ákvæði 1. máls­greinarinnar og þar með sé hæð fyrirhugaðrar bygg­ingar að fullu í samræmi við ákvæði skipulagsskilmálanna.  Vitnar stefnandi einnig til þess sem að framan greinir um heimild til að stalla hús á einni og hálfri hæð. 

          Í öðru lagi byggir stefnandi á því að framkvæmd skipulagsmála hafi verið mjög mis­vísandi og erfitt sé að greina heildarstefnu í henni.  Leggur hann áherslu á að skipu­lagsskilmálar hafi verið túlkaðir mjög vítt, enda gefi orðalag þeirra víða tilefni til slíks.  Byggir stefnandi á því að á grundvelli jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins sé óheim­ilt að taka hann út úr og halda honum til þröngrar túlkunar á skilmálunum þegar fyrir liggi hvernig framkvæmdin hafi verið.  Þá leggur stefnandi áherslu á að sú stað­reynd hvernig stjórnsýsluframkvæmdin varð hafi vitaskuld áhrif þegar metnir séu hags­munir nágranna hans af því að byggingarleyfið verði fellt úr gildi og hljóti fram­kvæmdin að draga úr vægi þeirra.  Bendir stefnandi í því sambandi á að þeir hafi mátt gera ráð fyrir því að án breytinga á skilmálum myndi framkvæmdin verða svipuð og verið hefur.  Einnig vill stefnandi sérstaklega taka fram að stefndu, Gísli og Herdís, hafi sjálf fengið heimild til að reisa tvílyft hús.  Ber því á grundvelli jafn­ræð­is­sjón­ar­miða að leysa úr máli hans á sömu forsendum.  Bendir stefnandi sérstaklega á, að eins og atvikum sé háttað í þessu máli, mæli önnur lagasjónarmið ekki gegn því að við ákvarð­anatöku sé tekið fullt tillit til réttmætra væntinga hans.  Stefnandi vísar einnig til þeirrar meginreglu stjórnsýsluréttar að stjórnarathafnir skuli vera ákveðnar og skýrar að efni til.  Sé einhver brestur á skýrleika þeirra beri að meta vafa í þeim efnum þannig að ekki bitni á hagsmunum borgarans, í þessu tilviki hans.  Telur stefnandi að þau túlkunarsjónarmið sem úrskurðarnefndin hafi beitt í máli hans séu ekki í samræmi við þessa grundvallarvenju. 

          Í þriðja lagi byggir stefnandi á því að nefndarmenn í úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála hafi verið vanhæfir til áframhaldandi meðferðar málsins eftir að hafa kveðið upp úrskurðinn 8. ágúst 2001.  Í þessum úrskurði var kveðið á um stöðvun fram­kvæmda við lóð stefnanda og í honum lýsir nefndin þeirri afstöðu sinni að hæð­ar­af­setning aðalgólfplötu samrýmist ekki skilmálum og eins að stöllun taki til meira en helm­ings grunnflatar.  Segir að lokum í úrskurðinum að hið umdeilda bygg­ing­ar­leyfi virðist ekki fullnægja skilyrðum skipulags- og byggingarlaga.  Stefnandi byggir á því að með þessum úrskurði hafi nefndarmenn tekið svo afdráttarlausa afstöðu til ágrein­ings­efnis þess er uppi var vegna kæru stefndu að þeir hafi verið vanhæfir til áfram­hald­andi meðferðar málsins, sbr. 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Telur stefn­andi að þessi annmarki á meðferð málsins eigi að leiða til ógild­ing­ar úrskurðar nefnd­arinnar frá 14. desember 2001. 

          Loks byggir stefnandi á því að málsmeðferð nefndarinnar hafi ekki verið í sam­ræmi við ákvæði 4. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Samkvæmt þeirri laga­grein skuli nefndin úrskurða í máli innan tveggja mánaða frá því að henni berst það til með­ferðar.  Nefndinni sé heimilt að lengja þennan frest í þrjá mánuði sé mál viða­mikið og fyrirsjáanlegt að afgreiðsla þess taki lengri tíma en sá frestur skuli þó aldrei vera lengri en 3 mánuðir. 

          Samkvæmt þessu hefði meðferð þessa máls átt að vera lokið í síðasta lagi 20. október 2001 en því lauk ekki fyrr en 14. desember s.á.   Byggir stefnandi á því að þetta eigi að leiða til ógildingar úrskurðarins.

          Stefndu byggja á því að byggingarleyfið til stefnanda hafi brotið í bága við gild­andi skipulagsskilmála svæðisins, skipulags- og byggingarlög,  byggingar­reglugerð nr. 441/1998, skipulagsreglugerð nr. 400/1998 og aðalskipulag Reykjavíkur 1996-2016.  Þá er byggt á því að stjórnsýsluframkvæmd skipulagsmála hafi í grund­vall­ar­atriðum verið skýr og stefnuföst.  Loks byggja stefndu á því að starfsmenn borgar­skipu­lags Reykja­víkur hafi sýnt vanhæfi og brotið 11. gr. stjórnsýslulaga gagnvart sér við af­greiðslu málsins. 

          Stefndu telja í fyrsta lagi að hæð væntanlegrar byggingar stefnanda brjóti í bága við 1. ml. 1. gr. skipulagsskilmála svæðisins.  Óumdeilanlegt sé að landhalli lóðar hans gefi ekki tilefni til stöllunar húss á einni og hálfri hæð.  Þá brjóti nýt­ing­ar­hlut­fallið í bága við skýrt ákvæði 3. gr.  Óumdeilanlegt sé að áður staðfestir bygg­ing­ar­reitir skipulagsuppdráttarins feli í sér nákvæma skilgreiningu á nýtingarhlutfalli við­kom­andi lóðar, hverrar fyrir sig.  Nýtingarhlutfall reita við Skeljatanga sé frá 0,276 til 0,335, sem sé langt undir hlutfallinu 0,425 á lóð stefnanda.  Nýtingarhlutfallið sé því skýrt brot á viðmiðunarreglum aðalskipulags Reykjavíkur en þar segi að á reitum í eldri fastmótuðum hverfum skuli taka mið af lóðum í næsta nágrenni.  Þá sé samþykkt breyting á byggingarreitnum auk þess ólögleg í ljósi þess að heildarstækkun hans hafi aldrei verið grenndarkynnt.  Byggingarreitur við norð-vesturhorn að bílastæði hafi verið færður út um 1,5 metra án þess að það hafi verið tilgreint í kynningunni.  Þá telja stefndu að hlutfall og eðli stöllunar húss stefnanda brjóti í bága við ákvæði 3. og 4. gr. skipu­lagsskilmálanna en óumdeilanlegt sé að aðeins sé heimilt að hækka eða lækka (stalla) hús á helmingi grunnflatar þess, fjær götu.  Aðalgólfplatan sé sá hluti grunn­flatar er liggi að götu og megi hækka eða lækka um plús/mínus 15 sm miðað við götu­kóta.  Samkvæmt samþykktum teikningum liggi aðalgólfplatan plús 40 sm yfir götu­kóta sem sé brot á 4. gr.  Þá skuli aðalgólfplata að lágmarki vera helmingur grunn­flatar hússins, sbr. 3. gr.  Í þessu tilfelli sé aðalgólfplatan aðeins 30,8% grunnflatar húss­ins og brjóti þar af leiðandi í bága við skilmálana.  Jarðhalli lóðar stefnanda gefi ekki tilefni til fyrirhugaðrar stöllunar, sbr. 4. gr.  Þá brjóti hæð hússins í bága við 5. gr. skipu­lagsskilmálanna en óumdeilanlegt sé að mænishæð sé ekki sama hugtak og vegg­hæð, enda komi fram í 5. gr. skilmálanna að átt sé við hámarksmænishæð en ekki vegg­hæð.  Benda stefndu á að eiginlegur mænir húss stefnanda í 5,7 metra hæð gangi út að götuhlið og brjóti í bága við 3. og 5. gr. skilmálanna.  Þar fyrir utan verði að gera ráð fyrir að samþykktur runnagróður á þaki hússins feli í sér aukna sjónræna skerð­ingu og skuggamyndun gagnvart nágrönnum. 

          Þá benda stefndu á að vegghæð þess hluta hússins sem falli undir bílageymslu sé of há, byggingarreitur geymslunnar sé ólöglegur og brjóti í bága við 6. gr. skil­mál­anna.  Bílastæði á lóð brjóti í bága við ákvæði 7. gr. en stækkun byggingarreits við norð-vesturhorn feli í sér að bílastæði á lóðinni styttist um 1,5 metra og séu þar af leið­andi ekki fullgild sem bílastæði samanborið við öll önnur bílastæði á skipu­lags­svæð­inu.  Stein­steyptur veggur á lóð og götu gangi 2,3 metra út á götuna Skildinganes samkvæmt útlits­teikn­ingu austurhliðar á byggingarnefndaruppdrætti.  Telja stefndu að umræddur veggur á þessum staðfesta uppdrætti brjóti í bága við ákvæði 8. gr. 

          Stefndu byggja á því að alvarlegir og víðtækir ágallar séu á samþykktum bygg­ing­ar­nefndaruppdráttum frá apríl 2001, sem samþykktir hafi verið af bygg­ing­ar­fulltrúa 17. júlí 2001.  Þessir ágallar varði brot á þeim vinnureglum og kröfum sem bygg­ing­ar­fulltrúi geri að öllu jöfnu til þeirra sem beri mál undir hann til meðferðar.  Ágallar þessir varði brot á skipulags- og byggingarlögum svo og reglugerðum og aðal­skipu­lagi Reykjavíkur.

          Varðandi ætluð brot gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga benda stefndu á að al­kunna sé að skipulagsyfirvöld hafi á undanförnum árum gengið hart fram í því að fram­fylgja ákvæðum skipulagsskilmála.  Um það beri vitni ótal mótmælabréf íbúa í ná­grenni stefndu, sem hafi þurft skilyrðislaust að hlíta ákvæðum skilmálanna.  Þessir íbúar hafi síðan risið upp til andmæla þegar upp hefur komið sú staða á síðustu miss­erum að tilraunir hafi verið gerðar til að sniðaganga skilmálana og þá oft á kostnað þeirra, er áður hafi þurft að sæta ýtrustu skilyrðum af hálfu yfirvalda.  Varðandi fram­kvæmd­ina benda stefndu á götuna Skeljatanga sem sé gott dæmi um velheppnaðar skipu­lagsforsendur.  Alkunna sé að þar sem landhalli hafi gefið til­efni til stöllunar á svæðinu þá hafi það verið almenn regla hjá borgaryfirvöldum að vegg­hæð stallaðs hluta húss (hærri hlutans) fari ekki upp fyrir 4,4 metra.  Um lægri hlut­ann hafi við­miðun vegghæðar verið 3,00 til 3,60 metra.  Það sé augljóst að þessar vegg­hæðir séu af­leiddar af ákvæðum skipulagsskilmálanna um mænishæð. 

Þá benda stefndu á að í máli þessu vegist annars vegar á ætlaðar réttmætar væntingar stefn­anda varðandi nýbyggingu hans og hins vegar hagsmunir stefndu af því að verja áþreif­anleg verðmæti sín frá því að rýrna vegna skerðingar huglægra gæða eins og útsýnis og birtu.

IV

          Skipulagsskilmálar þeir, sem gilda um lóð stefnanda, eru frá 17. október 1990.  Í 1. gr. þeirra er kveðið á um að á lóðinni skuli rísa einnar hæðar hús.  Samkvæmt 3. gr. skal staðsetja "hús innan marka sem mæliblað sýnir.  Þar sem aðstæður leyfa má stalla hús á helmingi grunnflatar þess, fjær götu, þó þannig að mænishæð húss nær götu sé í samræmi við 5. gr.  Stöllun má nýta á tveimur hæðum innan leyfilegrar mænishæðar sbr. 2. mgr. 5. gr., og á helmingi grunnflatar hússins, fjær götu."    Í 4. gr. segir að hæðar­afsetning aðalgólfplötu sé "sýnd á hæðarblaði og skal hún að öllu jöfnu, gilda um þann hluta húss sem næstur er götu +/- 15 cm."  Þá segir að afsetningunni megi breyta, að því er varðar bakhluta húss, til hækkunar eða lækkunar eftir því sem jarð­halli gefi tilefni til.  Um hæð húsa segir í 1. mgr. 5. gr. að mesta hæð mænis þess hluta húss, sem liggur að götu, sé 4,4 metrar á einnar hæðar húsum, 5,7 metrar á einnar og hálfrar hæðar húsum og 6,8 metrar á tveggja hæða húsum.  2. mgr. 5. gr. hljóðar svo:  "Mesta hæð mænis þessa hluta húss sem er stallaður er 5,7 m miðað við götukóta."

          Í úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála er vitnað til 11. gr. skipu­lagslaga nr. 19/1964, er í gildi voru þegar framangreindir skilmálar voru settir, svo og til þágildandi skipulagsreglugerðar nr. 318/1985.  Var það niðurstaða nefnd­ar­innar að verulega skorti á að skilmálarnir fullnægðu ákvæðum tilvitnaðra rétt­ar­heim­ilda um skýrleika.  "Var þó ástæða til að gera alveg sérstakar kröfur um skýrleika þeirra þegar þess er gætt að þeim var einungis ætlað að taka til óbyggðra lóða á svæði sem að mestu leyti var fullbyggt."

          Enn fremur segir í úrskurðinum að samkvæmt "fyrirliggjandi byggingar­nefnd­ar­teikn­ingu er sá hluti gólfplötu hússins, sem næstur er götu hæðarsettur í samræmi við hæð­arblað.  Þessi hluti er hins vegar mikill minni hluti af heildarflatarmáli hússins en stærstur hluti þess er stallaður niður um 60 cm miðað við gólfhæð fremsta hluta hússins.  Telur úrskurðarnefndin að skýra verði ákvæði 4. gr. skipulagsskilmálanna um hæðarafsetningu aðalgólfplötu með hliðsjón af ákvæði 3. gr. þannig að heimild til stöllunar sé bundin að hámarki við helming grunnflatar húss.  Telur úrskurðarnefndin því að hæðarsetning á gólfplötum hússins samræmist ekki skipulagsskilmálum.  Þá verður ekki séð að það eigi sér stoð í skilmálunum að byggja megi á lóðinni einnar og hálfrar hæðar hús ef í því er talið felast að mænishæð hússins alls megi nema 5,7 m.  Á lóðinni er heimilt að reisa einnar hæðar hús með mænishæð 4,4 m, sbr. 1. og 5. gr. skil­málanna. Séu á annað borð talin skilyrði til stöllunar húss á lóðinni gæti mænis­hæð þess hluta hússins sem væri stallaður verið 5,7 m, sbr. 2. mgr. 5. gr., en sú heimild takmarkast við helming grunnflatar.  Á fremri hluta hússins, nær götu gildir eftir sem áður ákvæði 1. mgr. 5. gr. þar sem segir að á þeim hluta húss sem liggi að götu sé mænishæð 4,4 m á einnar hæðar húsum."

          Þá taldi nefndin orka tvímælis að lóðaryfirborð fylgdi stöllun hússins og sýnileg vegg­hæð því 60 sm hærri að hluta en ella væri, en ekki séu í skipulagsskilmálunum ákvæði um vegghæð.

          Loks segir í úrskurðinum "að hin umdeilda nýbygging samræmist ekki skipu­lags­skilmálum svæðisins ef beitt er eðlilegri túlkun þeirra, byggðri á orðskýringum og með hliðsjón af  tilgangi deiliskipulags, markmiðum skipulags- og byggingarlaga og öðrum réttarheimildum."  Það var því niðurstaða nefndarinnar að byggingarleyfið til stefnanda samræmdist ekki skipulagsskilmálunum og að byggingaryfirvöld hafi túlkað ákvæði þeirra of rúmt og var það fellt úr gildi.

          Við úrlausn málsins verður að leggja til grundvallar að stefnanda beri að sanna að fram­angreind niðurstaða úrskurðarnefndarinnar sé ekki í samræmi við lög og að bygg­ingarleyfið, sem gefið var út vegna væntanlegrar húsbyggingar hans, sé í sam­ræmi við skipulagsskilmála og skipulags- og byggingarlög. Voru sjónarmið hans reif­uð í III. kafla hér að framan og var þar einnig gerð grein fyrir sjónarmiðum stefndu.  

          Samkvæmt 11. gr. skipulagslaga nr. 19/1964, er í gildi voru þegar skipulags­skil­málar þeir, sem hér um ræðir, tóku gildi, er kveðið á um að á séruppdrætti skuli gerð nánari grein fyrir skipulagi einstakra bæjarhverfa, staðsetningu bygginga, stærð þeirra og hæð.  Í 2. mgr. 43. gr. núgildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kveðið á um að byggingaframkvæmdir skuli vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.  Það er niðurstaða dómsins, á sama hátt og úrskurðar­nefnd­arinnar, að framangreind lagaákvæði leyfi ekki hina rúmu túlkun skipulags­skil­mál­anna, sem byggingaryfirvöld byggðu á við veitingu byggingarleyfisins og grein hefur verið gerð fyrir.  Þá er það og mat dómsins að stefnanda hafi ekki tekist, með þeim gögnum er hann hefur lagt fyrir dóminn og grein var gerð fyrir hér að framan, að hnekkja niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar. Við þetta mat er sérstaklega haft í huga að gögn málsins bera ekki annað með sér en að mikill meiri hluti hússins sé stallaður niður um 60 sm eins og fram kemur í úrskurðinum.  Þá bera gögnin og með sér að hæð mænis sé 5,7 metrar og er hann eftir húsinu nánast endilöngu.   Þá má ráða af gögn­unum að lóðaryfirborð fylgi stöllun hússins og sýnileg vegghæð því 60 sm hærri að hluta til.  Samkvæmt framanrituðu verður ekki orðið við kröfu stefnanda á grund­velli þeirrar málsástæðu hans að væntanleg húsbygging sé í samræmi við skipu­lags­skilmálana.

          Í öðru lagi byggir stefnandi kröfu sína á því að það væri brot á jafnræðisreglu stjórn­sýsluréttarins fengi hann ekki að byggja hús sitt samkvæmt byggingarleyfinu.  Hér að framan var þess getið að stefnandi hyggst reisa húsið í hverfi, sem er nánast full­byggt.  Hann hefur ekki lagt fram gögn, er sýna að byggð á þessu svæði sé í ósam­ræmi við skilmálana.  Þá var og komist að þeirri niðurstöðu að bygg­ing­ar­yfirvöld hefðu túlkað skipulagsskilmálana of rúmt, miðað við gildandi lagaákvæði, þegar stefnanda var veitt byggingarleyfið.  Samkvæmt þessum lagaákvæðum er það megin­regla að byggt skuli í samræmi við skipulagsskilmála.  Það er því ekki brot gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins að halda mönnum við þá reglu.

          Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga skal úrskurðarnefndin kveða upp úrskurð um stöðvun framkvæmda, komi fram krafa um það í ágreinings­máli.  Svo stóð á í þessu máli og stöðvaði nefndin framkvæmdir stefnanda með úr­skurði 8. ágúst 2001.  Eðli málsins samkvæmt er hér um að ræða bráðabirgðaúrskurð, sem á að tryggja að ekki verði haldið áfram umdeildum framkvæmdum fyrr en nefndin hefur lokið umfjöllun sinni um þær.  Stefnandi vísar máli sínu til stuðnings varðandi þessa málsástæðu sína til 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og telur nefndarmenn hafa tekið efnislega afstöðu til málsins í bráðabirgðaúrskurðinum.  Í 3. gr. stjórnsýslulaganna, þar sem tilgreindar eru vanhæfisástæður, er ekki getið um það sem vanhæfisástæðu að nefndarmaður eða starfsmaður hafi úrskurðað eða tekið ákvörðun í tilteknu máli til bráðabirgða.  Af þessu verður dregin sú ályktun að upp­kvaðn­ing bráðabirgðaúrskurðarins valdi ekki vanhæfi nefndarmanna úrskurðar­nefndar skipulags- og byggingarmála og er kröfu stefnanda um ógildingu úrskurðarins á grundvelli þeirrar málsástæðu hafnað.

          Óumdeilt er að afgreiðsla úrskurðarnefndarinnar dróst nokkuð fram yfir það, sem boðið er í 4. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Það eitt og sér getur þó ekki leitt til þess að úrskurðurinn verði felldur úr gildi.

          Samkvæmt öllu framanrituðu þá verða stefndu sýknaðir af kröfu stefnanda og skal úrskurður úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála halda gildi sínu.

          Stefndu, sem allir eru ólöglærðir, kusu að reka mál sitt sjálfir.  Skiluðu þeir tveim­ur nánast samhljóða greinargerðum.  Skortir nokkuð á að í þeim sé gerð grein fyrir málavöxtum og málsástæðum í þeirri skipulegu samfellu sem ætlast er til, sbr. 2. mgr. 99. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.  Málflutningur stefndu var auk þess ekki til þess fallinn að skýra málstað þeirra á þann hátt sem nauðsynlegt er í máli sem þessu.  Að þessu athuguðu þykir ekki rétt að dæma stefnanda til að greiða stefndu málskostnað.

          Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn.

Dómsorð

                Stefndu, Gísli Helgason, Guðmundur Jónsson og Herdís Hallvarðsdóttir, eru sýkn­aðir af kröfu stefnanda, Kára Stefánssonar, og skal úrskurður úrskurðarnefndar skipu­lags- og byggingarmála í málinu nr. 34/2001, sem kveðinn var upp 14. desember 2001 halda gildi sínu.

          Málskostnaður fellur niður.