Hæstiréttur íslands

Mál nr. 189/2014


Lykilorð

  • Lausafjárkaup
  • Galli
  • Tómlæti


Fimmtudaginn 9. október 2014.

Nr. 189/2014.

 

Sigurður Jensson og

Eyrún Eggertsdóttir

(Eva Dís Pálmadóttir hrl.)

gegn

Þorgeiri Sæberg Sigurðssyni

Hrafnhildi Grímsdóttur og

Eyjólfi Unnari Eyjólfssyni

(Björn Þorri Viktorsson hrl.)

 

Lausafjárkaup. Galli. Tómlæti.

S og E, sem keypt höfðu alla eignarhluti í félaginu S ehf. af Þ, H og EE, höfðuðu mál gegn þeim síðarnefndu og kröfðust greiðslu nánar tilgreindra fjárhæða vegna ætlaðra vanefnda í tengslum við kaupin. Byggðu S og E nánar tiltekið á því að komið hefðu í ljós skuldir við félögin V ehf. og M ehf. sem þau hefðu ekki verið upplýst um við kaupin og leitt hefðu til þess að hið selda félag varð verðlaust og síðan gjaldþrota. Í dómi Hæstaréttar kom fram að lögmaður S og E hefði sent Þ, H og EE bréf 8. september 2011 þar sem fram hefði komið að þau síðarnefndu hefðu vanefnt skyldur sínar samkvæmt kaupsamningnum og leynt upplýsingum um félagið. Fyrir lægi að aðilar hefðu undirritað kaupsamning vegna kaupanna 16. október 2009 og fengið félagið afhent 1. október sama ár. Stefna V ehf. á hendur félaginu hefði verið árituð 16. október 2010 og félagið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 15. febrúar 2011. Samkvæmt því hefðu liðið tæp tvö ár frá kaupunum þar til S og E tilkynntu með sannanlegum hætti um ætlaðar vanefndir. Var því talið með vísan til 1. mgr. 32. gr. laga nr. 50/2002 um lausafjárkaup að S og E hefðu glatað rétti sínum til að bera fyrir sig þær vanefndir sem þau reistu málatilbúnað sinn á.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 18. mars 2014. Þau krefjast þess aðallega að stefndu verði í sameiningu dæmd til að greiða sér 10.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 4.314.099 krónum frá 1. október 2009 til 16. febrúar 2011, en af 10.000.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefjast áfrýjendur þess að stefndu verði hverju fyrir sig gert að greiða sér, hvoru fyrir sig, 1.666.666 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 719.016,50 krónum frá 1. október 2009 til 16. febrúar 2011, en 1.666.666 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Að því frágengnu krefjast áfrýjendur þess að stefndu verði sameiginlega dæmd til að greiða sér óskipt 4.314.099 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. október 2009 til greiðsludags. Að öllu þessu frágengnu er þess krafist að stefndu verði hverju fyrir sig gert að greiða áfrýjendum, hvoru fyrir sig, 719.016,50 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. október 2009 til greiðsludags. Loks krefjast áfrýjendur málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti óskipt úr hendi stefndu.

Stefndu krefjast staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Áfrýjendur hafa lagt fyrir Hæstarétt ábyrgðarbréf nafngreinds lögmanns 8. september 2011 til stefndu Þorgeirs og Hrafnhildar, en bréf sama efnis mun hafa verið ritað stefnda Eyjólfi.  Í bréfunum var komið á framfæri þeirri afstöðu áfrýjenda að stefndu hefðu ekki staðið rétt að málum við sölu Heildverslunarinnar Stjörnu ehf., en þau hefðu vanefnt skyldur sínar með nánar tilgreindum hætti og leynt upplýsingum um félagið. Af þeim sökum krefðust áfrýjendur að „fá þetta bætt“ með endurgreiðslu kaupverðsins.  

Eins og greinir í héraðsdómi gerðu aðilar 16. október 2009 samning um kaup áfrýjenda á fyrrgreindu einkahlutafélagi, sem var í eigu stefndu. Ágreiningslaust er að áfrýjendur fengu félagið afhent 1. október sama ár, stefna Vogabæjar ehf. á hendur því var árituð 6. október 2010 og að félagið var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði 15. febrúar 2011. Samkvæmt því liðu tæp tvö ár frá því kaupin gerðust þar til áfrýjendur tilkynntu stefndu með sannanlegum hætti um ætlaðar vanefndir. Að því virtu og að öðru leyti með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður staðfest sú niðurstaða hans að áfrýjendur hafi á grundvelli 1. mgr. 32. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup glatað rétti sínum til að bera fyrir sig þær vanefndir stefndu, sem þau reisa málatilbúnað sinn á. Þegar af þeirri ástæðu verða stefndu sýknuð af kröfum áfrýjenda í máli þessu.

Málskostnaðarákvæði hins áfrýjaða dóms verður staðfest.

Áfrýjendur verða dæmd óskipt til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjendur, Sigurður Jensson og Eyrún Eggertsdóttir, greiði stefndu, Þorgeiri Sæberg Sigurðssyni, Hrafnhildi Grímsdóttur og Eyjólfi Unnari Eyjólfssyni, óskipt hverju fyrir sig 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2013.

I

                Mál þetta, sem dómtekið var 28. nóvember sl., er höfðað af Sigurði Jenssyni og Eyrúnu Eggertsdóttur, báðum til heimilis að Kvíabólsstíg 4, 740 Fjarðarbyggð, með stefnu birtri 18. janúar 2013, á hendur Þorgeiri Sæberg og Hrafnhildi Grímsdóttur, báðum til heimilis að Sporðagrunni 4, 104 Reykjavík og Eyjólfi Unnari Eyjólfssyni, Þúfuseli 6, 109 Reykjavík.

Af hálfu stefnenda eru eftirfarandi kröfur gerðar í málinu:

Aðallega að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða stefnendum að óskiptu 10.000.000 kr. auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 4.314.099 kr. frá 1. október 2009 til 16. febrúar 2011, en af 10.000.000 kr. frá þeim degi til greiðsludags.

Til vara að stefndi Þorgeir Sæberg verði dæmdur til að greiða stefnanda Sigurði Jenssyni 1.666.666 kr. auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 719.016,50 kr. frá 1. október 2009 til 16. febrúar 2011, en af 1.666.666 kr. frá þeim degi til greiðsludags og stefnanda Eyrúnu Eggertsdóttur 1.666.666 kr. auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 719.016,50 kr. frá 1. október 2009 til 16. febrúar 2011, en af 1.666.666 kr. frá þeim degi til greiðsludags. Að stefnda Hrafnhildur Gímsdóttir verði dæmd til að greiða stefnanda Sigurði Jenssyni 1.666.666 kr. auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af kr. 719.016,50 frá 1. október 2009 til 16. febrúar 2011, en af 1.666.666 kr. frá þeim degi til greiðsludags og stefnanda Eyrúnu Eggertsdóttur 1.666.666 kr. auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 719.016,50 kr. frá 1. október 2009 til 16. febrúar 2011, en af 1.666.666 kr. frá þeim degi til greiðsludags. Að stefndi Eyjólfur Unnar Eyjólfsson verði dæmdur til að greiða stefnanda Sigurði  Jenssyni 1.666.666 kr. auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 719.016,50 kr. frá 1. október 2009 til 16. febrúar 2011, en af 1.666.666 kr. frá þeim degi til greiðsludags og stefnanda Eyrúnu Eggertsdóttur 1.666.666 kr. auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 719.016,50 kr. frá 1. október 2009 til 16. febrúar 2011, en af 1.666.666 kr. frá þeim degi til greiðsludags.

Til þrautavara stefndu verði óskipt (in solidum) dæmd til að greiða stefnendum 4.314.099 kr. auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 1. október 2009 til greiðsludags.

Til þrautaþrautavara að stefndi Þorgeir Sæberg verði dæmdur til að greiða stefnanda Sigurði  Jenssyni 719.016,50 kr. auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 1. október 2009 til 16. febrúar 2011 til greiðsludags og stefnanda Eyrúnu Eggertsdóttur 719.016,50 kr. auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 1. október 2009 til greiðsludags. Að stefnda Hrafnhildur Gímsdóttir verði dæmd til að greiða stefnanda Sigurði  Jenssyni 719.016,50 kr. auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 1. október 2009 til 16. febrúar 2011 til greiðsludags og stefnanda Eyrúnu Eggertsdóttur 719.016,50 kr. auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 1. október 2009 til greiðsludags. Að stefndi Eyjólfur Unnar Eyjólfsson verði dæmdur til að greiða stefnanda Sigurði Jenssyni 719.016,50 kr. auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 1. október 2009 til 16. febrúar 2011 og stefnanda Eyrúnu Eggertsdóttur 719.016,50 kr. auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af þeirri fjárhæð frá 1. október 2009 til greiðsludags.

                Í öllum tilvikum er þess krafist að stefndu verði dæmd til að greiða stefnendum óskipt (in solidum) málskostnað.

Af hálfu stefndu er þess krafist aðallega að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnenda en til vara að kröfur stefnenda í öllum kröfuliðum verði lækkaðar verulega. Verði aðal- eða varakrafa stefndu tekin til greina þá krefjast stefndu þess að stefnendur verði dæmd óskipt til greiðslu málskostnaðar. Þá er þess krafist að dráttarvextir leggist á málskostnaðarkröfu í samræmi við ákvæði laga nr. 19/1991 og leggist við höfuðstól hennar á tólf mánaða fresti.

II

Málavextir

                Mál þetta á rætur að rekja til kaupa stefnenda á einkahlutafélaginu Heildverslunin Stjarna af stefndu í október 2009. Gerður var skriflegur kaupsamningur um kaupin 16. október 2009 en stefnendur höfðu tekið við rekstri félagsins fyrsta sama mánaðar. Vann einn stefndu, Þorgeir Sæberg, með stefnendum í fyrirtækinu í nokkrar vikur frá afhendingunni í því skyni að setja þau inn í reksturinn. Kaupverðið var 10.000.0000 kr. sem greitt var með afsölum af tveimur sumarbústaðalóðum, hvor að andvirði 3.200.000 kr. og peningagreiðslu að fjárhæð 3.600.000 kr. sem greiðast átti 19. október 2009. Í kaupsamningi er hlutdeild hvors stefnenda um sig tilgreind 50% og hlutdeild hvers stefndu um sig tilgreind 1/3. Fram kemur að hinu selda fylgi allar eignir og skuldir þess að frátöldum þar tilgreindum tveimur fasteignum, bifreið og lánum sem hvíldu á fasteignunum. Allar aðrar eignir og skuldir hins selda félags fylgdu með í kaupunum og voru helstu eignir taldar upp en þar á meðal var bifreið, lyftari, skrifstofubúnaður, tölvubúnaður og bókhaldsgögn. Óumdeilt er að innistæða félagsins á bankareikningi í Sparisjóði Norðfjarðar fylgdi með í kaupunum þó þess sé ekki getið sérstaklega í kaupsamningnum, hvorki reikningsnúmers né stöðu reiknings. Samkvæmt fram lögðu yfirliti nam innistæðan á afhendingardegi 3.581.184 kr. Stefnendur telja hins vegar að eftir þann dag hafi reikningurinn verið notaður til að greiða umtalsverðar skuldir félagsins sem hafi ekki átt að fylgja með í kaupunum. Fyrir vörulager hins selda félags greiddu stefnendur sérstaklega 2.636.044 kr. Í kaupsamningnum er vísað til þess að stefnendur hafi kynnt sér rækilega allt bókhald félagsins, ársreikninga 2008, bókhald fyrir 2009, lista yfir útistandi kröfur, svo og skuldir og skuldbindingar félagsins og sætt sig við. Stefndu ábyrgist að ekki séu aðrar skuldir á félaginu en óeindagaðir reikningar frá birgjum en auk birgja í þrengsta skilningi þess orðs væri átt við Símann, veitustofnanir, Þvottabjörn ehf., Tryggingamiðstöðina hf., Íslandspóst, BYKO og Ernst & Young. Í lok samningsins kemur fram að við kaupsamningsgerðina hafi aðilar kynnt sér eftirtalin gögn og ekki gert neinar athugasemdir við þau: „Reikning vegna sölu á bifreið, afsöl vegna Sólheima 14, Nesbrautar 10, Laugarima 11 og Laugarima 13, þinglýsingavottorð þessara eigna, skuldalista, lista yfir útistandandi kröfur, lista yfir lager, upplýsingar um áfallna vsk.-skuldbindingu.“ 

Stefnendur telja stefndu hafa vanefnt samninginn þar sem á fyrirtækinu hafi hvílt eindagaðar skuldir, samtals að fjárhæð 4.314.099 kr., þrátt fyrir fullyrðingar um annað í kaupsamningi. Annars vegar 4.082.087 kr. skuld við Vogabæ ehf. og hins vegar 232.012 kr. skuld við Mjólku ehf. Stefnendur segjast strax hafi sett sig í samband við Gísla M. Auðbergsson, lögmann og löggiltan fasteigna-, fyrirtækja- og skipasala, sem hafi séð um gerð kaupsamningsins, og farið fram á að hann hefði milligöngu um að fá kaupunum rift og að stefnendur fengju endurgreiðslu frá stefndu. Lögmaðurinn hafi sagst hafa haft samband við stefndu og að sögn stefnenda haldið þeim lengi í þeirri trú að hann væri að vinna í málinu. Það hafi verið eftir mikla eftirgangsmuni að í ljós hafi komið sumarið 2012 að stefndu höfnuðu alfarið öllum kröfum stefnenda. Hafi stefnendur þá leitað til annars lögmanns sem hafi ritað stefndu bréf 30. ágúst 2012 með kröfu um úrbætur. Ekki hafi verið vilji hjá stefndu til að koma til móts við stefnendur. Stefndu hafi hafnað því að hafa vanefnt samninginn.

Skýrslur fyrir dómi gáfu stefnendur og stefndu, Guðmundur Sigurðsson, Valdimar Hafsteinsson, Hrafnhildur Grímsdóttir, Eyjólfur Unnar Eyjólfsson, Gísli M. Auðbergsson hrl., Jóna Árný Þórðardóttir, Ingimar Guðmundsson Michelsen og Sigurjón Örn Arnarson.

III

Málsástæður stefnenda

                Af hálfu stefnenda er vísað til þess að við kynningu á hinu selda félagi hafi því verið haldið fram að reksturinn væri góður og að hann stæði traustum fótum, en fljótlega hafi komið í ljós að hann hefði staðið á brauðfótum. Í kaupsamningi aðila komi skýrt fram að stefndu ábyrgist að ekki væru aðrar skuldir til staðar hjá hinu selda einkahlutafélagi en óeindagaðir reikningar frá birgjum. Þrátt fyrir skuldbindingar um það hafi eindagaðar skuldir verið 4.314.099 kr. Vísa stefnendur til yfirlýsingar endurskoðunarfyrirtækisins KPMG frá 9. maí 2012 þessu til stuðnings. Þar komi fram að heildarskuldir við Vogabæ hf. þann 1. október 2009 hafi verið 4.720.956 kr., þar af hafi 4.082.087 kr. verið fallnar í eindaga. Eindagaðar skuldir við Mjólku ehf. hafi sama dag numið 232.012 kr. Samtals nemi þessar tvær eindöguðu skuldir 4.314.099 kr., sem sé stefnufjárhæð málsins í þrautavarakröfum. Vogabær ehf. og Mjólka ehf. hafi verið nátengd fyrirtæki á þessum tíma. Skömmu eftir kaupin hafi fjármálastjóri þess fyrrnefnda hafið innheimtuaðgerðir og innheimtubréf komið strax veturinn 2009-2010, þrátt fyrir að stefnendur hafi haldið skuld við fyrirtækið svipaðri eða lægri en hún hafi verið í aðdraganda kaupanna. Hafi Vogabær ehf. gengið mjög hart fram í innheimtuaðgerðum, fengið áritaða stefnu haustið 2010 og krafist gjaldþrotaskipta á Heildversluninni Stjörnunni hf. í febrúar 2011. Hafi vanefndir stefndu þannig beinlínis leitt til þess að hið selda félag hafi orðið verðlaust. Skiptum hafi lokið á búi félagsins (sem þá hafði fengið nafnið Vörudreifing Austurlands ehf.), sbr. tilkynning um skiptalok dags. 5. janúar 2012. Af kröfulýsingarskrá skiptastjóra megi ráða að kröfur Vogabæjar ehf. og sýslumannsins á Eskifirði hafi numið 97% af þeim kröfum sem ekki hafi verið greiddar við skiptin. Krafa sýslumannsins hafi verið byggð á áætlun og hafi því í raun verið mun lægri.

Hvað aðild málsins varðar byggja stefnendur aðallega á því að stefndu hafi gagnvart þeim tekið á sig óskipta ábyrgð á efndum kaupsamningsins, þ.e. að um samaðild sé að ræða. Séu aðalkrafa og þrautavarakrafa því byggðar á því að ákvæði 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála eigi við um aðild málsins bæði sóknar og varnar megin. Í varakröfu og þrautaþrautavarakröfu er á því byggt að um samlagsaðild sé að ræða, þ.e. að sækja megi kröfur stefnenda á hendur öllum stefndu í einu máli með vísan til 19. gr. laga 91/1991, en kröfur hvors stefnanda um sig séu aðskildar sem og kröfur á hvern stefnda um sig.

Um aðal- og varakröfu

Stefnendur vísa til þess að aðal- og varakrafa séu, um annað en aðild, sambærilegar og byggist á sömu málsástæðum og lagarökum. Af hálfu stefnenda er byggt á meginreglum kröfu-, samninga- og kauparéttar um skuldbindingargildi samninga, lagalega þýðingu loforða og ábyrgðaryfirlýsinga. Þá byggja þeir á lögfestum og ólögfestum reglum kauparéttar um vanefndaúrræði vegna galla á ábyrgð seljanda og reglum skaðabótaréttarins innan og utan samninga. Með vísan til 1. ml. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup verði að mati stefnenda byggt á þeim lögum, þó einnig sé byggt á því að unnt sé að beita ákvæðum laga um fasteignakaup með lögjöfnun um tilvik þessa máls, einkum ákvæðum um afhendingu og vanefndaúrræði kaupenda, eða til vara að sambærilegar ólögfestar reglur séu í gildi þegar um fyrirtækjasölu er að ræða.

Byggja stefnendur á því að samanlagt tjón þeirra hafi a.m.k. numið kaupverði félagsins, tíu milljónum kr. Um hafi verið að ræða tjón samkvæmt skýru ákvæði kaupsamnings aðila og tjón sem skynsamur maður hefði getað séð fyrir að væri sennileg afleiðing vanefnda stefndu. Í kaupsamningnum hafi stefndu skuldbundið sig til að tryggja að allar eindagaðar skuldir yrðu í skilum eða greiddar af þeim við afhendingu félagsins. Byggt sé á því að vanefnd stefndu hafi haft í för með sér fyrirsjáanleg og sennileg snjóboltaáhrif, þ.e. að umrædd krafa, sem stefndu hafi borið ábyrgð á, hafi bætt á sig kostnaði og leitt til þess að stefnendur gátu ekki staðið við aðrar skuldbindingar sínar. Þá hafi innheimtuharka Vogabæjar hf. beinlínis leitt til þess að félagið hafi verið úrskurðað gjaldþrota, en aðrar skuldir hafi verið óverulegar.

Stefnendur vísa til þess í fyrsta lagi, að þau hafi átt rétt á afslætti að fjárhæð 4.314.099 kr., sbr. 38. gr. nr. 50/2000 og að sú vanefnd stefndu að afhenda félagið ekki með lægri viðskiptaskuldir sem þeirri fjárhæð nemi hafi leitt til frekara tjóns stefnenda, tjóns sem numið hafi kaupverði félagsins þar sem rekja megi gjaldþrot þess beint til umræddrar vanefndar. Því sé um greiðsludrátt að ræða af hálfu seljenda sem hafi leitt til umrædds tjóns, sbr. 1. ml. 1. mgr. 27. gr. nr. 50/2000, sbr. 40. gr. laganna, enda hafi verið um vanrækslu stefndu að ræða, sbr. sérstaklega 5. mgr. 27. gr. laganna. Á því er byggt, að sennilegar afleiðingar vanefndar stefndu hafi verið gjaldþrot félagsins og þannig verðleysi hins selda félags. Því hafi skaðabótaskyld afleiðing á vanefnd stefndu leitt til tjóns sem nemi mismun kaupverðsins og afsláttarkröfunnar, eða 5.685.901 kr.

Í öðru lagi byggja stefnendur á því að öll krafan sé skaðabótakrafa vegna vanefnda stefndu. Stefndu hafi, hvert um sig, með saknæmum hætti vanrækt að greiða eindagaðar kröfur birgjanna Vogabæjar ehf. og Mjólku ehf., með þeim afleiðingum að eigendur þessara tengdu félaga hafi nánast strax hafið innheimtuaðgerðir með miklum kostnaði og krafist gjaldþrotaskipta. Þar með hafi tjón stefnenda orðið algert, en krafa þeirra sé hér takmörkuð við kaupverð eignarinnar, þó áhrifin hafi orðið miklu meiri fyrir stefnendur, bæði viðskiptalega og persónulega. Fyrir liggi álit KPMG sem styðjist við upplýsingar frá umræddum birgjum Heildverslunarinnar Stjörnu ehf., að á afhendingardegi hafi skuldir fallnar í eindaga ekki verið lægri en 4.314.099 kr., sem sé stefnufjárhæð málsins. Með því að stefndu hafi ekki afhent hið selda félag í umsömdu ástandi hafi  stefnendur öðlast rétt til afsláttar eða skaðabóta, sbr. til hliðsjónar meginreglur kauparéttar um vanefndaúrræði kaupanda. Vísa stefnendur sérstaklega til ákvæða laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup en einnig II. kafla laga nr. 40/2002 um fasteignakaup. Hið selda félag hafi þannig ekki haft þá eiginleika sem samið hafi verið um og þar sem stefndu hafi gefið út ábyrgðaryfirlýsingu um eindagaðar kröfur, sé ábyrgð þeirra ótvíræð, sbr. IV. kafla laga nr. 50/2000. Í aðal- og varakröfum sé krafist dráttarvaxta af 4.314.099 kr. frá 1. október 2009, enda hafi stefndu átt að afhenda hið selda félag á þeim degi án skulda að þeirri fjárhæð, en dráttarvaxta sé krafist af öllu tjóni stefnenda frá þeim degi sem hið keypta félag hafi verið úrskurðað gjaldþrota, þann 16. febrúar 2011. Þann dag hafi kaupverðið í síðasta lagi verið einskis virði og afleiðingar hinnar bótaskyldu háttsemi þá komið endanlega fram.

Um þrautavara- og þrautaþrautavarakröfur

Stefndu vísa til þess að í þessum kröfum sé farið fram á greiðslu af hálfu stefnenda úr hendi stefndu sem nemi samtals 4.314.099 kr., þ.e. fjárhæð þeirra skulda hins keypta félags við birgja sem fallnar hafi verið í eindaga þann 1. október 2009. Stefndu hafi ábyrgst greiðslu umræddra krafna. Sérstaklega hafi verið samið um þær og öllum hafi verið ljóst að þegar ritað hafi verið undir samninginn hafi þessar kröfur hvílt á hinu selda félagi. Því hafi verið full ástæða til að semja sérstaklega um að stefndu skyldu annast greiðslu þeirra. Óumdeilt sé að stefndu inntu þessa greiðslu ekki af hendi og að innheimtuaðgerðum hafi því verið beint að hinu selda félagi. Ef stefnendur hefðu ekki greitt allt kaupverðið þegar við undirritun kaupsamnings í trausti þess að stefndu stæðu við skuldbindingar sínar, hefðu stefnendur getað haldið eftir greiðslu sem þessari fjárhæð næmi og greitt hana beint til Vogabæjar ehf. og Mjólku ehf. Þau hefðu þannig getað krafist afsláttar sem þessari fjárhæð næmi og dráttarvaxta. Því sé krafist dráttarvaxta frá 1. október 2009 því stefndu hafi átt að afhenda félagið án þessarar kröfu á þeim degi. Sé þannig í fyrsta lagi byggt á því að hver stefndi um sig hafi tekið á sig óskipta (solidaríska) ábyrgð á öllum skuldum sem fallnar hafi verið í eindaga. Til vara að þau hafi hvert um sig tekið á sig hlutfallslega (pro rata) ábyrgð á þessum skuldum. Til þrautavara að stefnendur geti krafist afsláttar sem þessari fjárhæð nemur, eða skaðabóta, þar sem þau höfðu greitt allt kaupverðið.

Að öðru leyti er vísað til umfjöllunar í aðal- og varakröfu að því leyti sem hún eigi við.

                Um lagarök fyrir málskostnaðarkröfu vísa stefndu til 130. gr. og annarra ákvæða XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Málsástæður stefndu

                Stefndu byggja sýknukröfu sína á því að stefnendur hafi mátt vita af umræddum skuldum félagsins, þeim hafi borið að rannsaka þær og gera athugasemdir væri tilefni til þess. Hafi stefnendur verið grandsöm um að umræddar skuldir ættu að fylgja með í kaupunum. Þá byggja stefnendur á ákvæðum laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup um lögbundna tilkynningarskyldu stefnenda sem og á almennum sjónarmiðum um tómlæti og tjónstakmörkun.

                Stefndu vísa enn fremur til þess að stefnendum hafi verið kynnt tiltekin venja sem hafi verið við lýði milli Vogabæjar ehf. og Heildverslunarinnar Stjörnunar ehf. um uppgjör viðskipta þeirra á milli. Hafi hún verið þess efnis að heildverslunin hafi keypt af Vogabæ ehf. vörur til dreifingar á Austurlandi gegn reikningi. Þar sem stærri fyrirtæki hafi haft meiri afslátt við Vogabæ ehf. heldur en heildverslunin hafi hún sent Vogabæ ehf. skjöl mánaðarlega vegna sölu á vörum til umræddrar fyrirtækja sem og upplýsingar um gallaðar eða ónýtar vörur. Hafi Vogabær ehf. þá gefið út kreditnótu og heildverslunin þá haft 45 daga til þess að greiða mismun upphaflegs reiknings og kreditreikningsins. Hafi því aldrei verið stuðst við gjalddaga eða eindaga á reikningunum.

Stefndu vísa til þess að stefnendur hafi ekki tilkynnt stefndu um ætlaðan galla án ástæðulauss dráttar og því glatað rétti sínum fyrir tómlæti, sbr. 32. gr. laga nr. 50/2000. Nægur tími og fjöldi tækifæra hafi gefist til þess að gera stefndu viðvart. Það hafi hins vegar ekki verið fyrr en eftir lok gjaldþrotaskipta, sumarið 2012 eða tæpum þremur árum eftir umþrætt viðskipti, sem stefnendur hafi gert athugasemdir vegna skulda félagsins við Vogabæ ehf. og Mjólku ehf. Stefnendum hafi verið fullljós sú viðskiptavenja sem hafði myndast, að ekki væri miðað við eindaga í viðskiptum félagsins við fyrirtækin. Jafnframt hafi stefnendum verið kunnugt um að þau hefðu yfirtekið umræddar skuldir.

                Stefndu benda enn fremur á að við afhendingu félagsins hafi það átt 3.793.000 kr. á bankareikningi félagsins en augljóst sé að sú fjárhæð hefði verið nýtt til greiðslu þessara skulda ef stefndu ættu að bera ábyrgð á þeim. Að auki hafi kröfur á hendur viðskiptamönnum numið 4.922.855 kr. Þá hafi stefndur greitt inn á kröfu Vogabæjar ehf. inn á kröfuna og haldið áfram úttektum.

                Stefndu vísa til þess að enn fremur verði að horfa til allra þeirra rangfærslna og þeirra málsástæðna sem fram komi í stefnu stefnenda. Þar beri fyrst að nefna að stefnendur hafi ekki með nokkru móti rökstutt af hverju þau telji að ábyrgð stefndu eigi að vera óskipt (in solidum) vegna vanefnda eða galla og þau hafi heldur ekki rökstutt þær skaðabætur sem þau telji sig eiga inni hjá stefndu í aðal- og þrautavarakröfu. Þvert á móti mætti heldur telja að slík ábyrgð væri skipt þar sem einkahlutafélag með takmarkaðri ábyrgð hafi verið selt. Hvað varði varakröfu stefnenda um að um sé að ræða samlagsaðild þá hafi stefnendur hvorki rökstutt né sannað þátt hvers stefnda um sig. Það sé meginregla skaðabótaréttar að tjónþolar þurfi að sanna skaðaverk aðila til þess að geta krafið þá aðila um bætur vegna skaðaverksins. Þá virðist aðal- og varakrafa stefnenda á því byggð að vanefnd stefndu hafi haft í för með sér fyrirsjáanleg og sennileg snjóboltaáhrif og þess vegna sé krafist 10.000.000 kr. auk dráttarvaxta. Slík krafa sé fráleit enda ekki sýnt fram á orsakatengsl og sennilega afleiðingu á gjaldþroti félagsins.

Stefndu mótmæla dráttarvaxtakröfu stefnenda í heild sinni.

                Um lagarök vísa stefndu til laga um lausafjárkaup nr. 50/2000, meginreglna kröfu- og samningaréttar og laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001. Krafa stefndu um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Að auki er krafist álags á málskostnað skv. 2. mgr. 131. gr. laga nr. 91/1991 enda hafi stefnendur höfðað mál á hendur stefndu að þarflausu og haft uppi kröfur og staðhæfingar sem stefnendur hafi mátt vita að væru rangar.  

IV

Niðurstaða

                Í máli þessu deila aðilar um hvort stefndu hafi vanefnt kaupsamning sem málsaðilar gerðu 16. október 2009 um kaup stefnenda á öllum eignarhlutum stefndu í einkahlutafélaginu Heildverslunin Stjarnan. Vísa stefnendur til þess að samkvæmt ákvæðum samningsins hafi stefndu ábyrgst að ekki hvíldu aðrar skuldir á félaginu en óeindagaðir reikningar frá birgjum. Annað hafi komið í ljós þar sem eindagaðar skuldir félagsins við Vogabæ ehf. og Mjólku ehf. hafi numið samtals 4.314.099 kr. Stefndu vísa hins vegar til þess að stefnendum hafi verið kunnugt um að umræddar skuldir hvíldu á félaginu og kunnugt um þá venju sem skapast hefði í viðskiptum félagsins og Vogabæjar ehf. um uppgjör reikninga. Þá byggja stefndu á að stefnendur hafi með tómlæti glatað rétti sínum til að bera fyrir sig vanefndir hafi sá réttur á annað borð verið til staðar.

                Fyrir liggur að afhending á hinu selda félagi fór fram 1. október 2009 en ekki var gengið formlega frá kaupsamningi fyrr en 16. sama mánaðar. Starfaði stefndi Þorgeir við hlið stefnenda í fyrirtækinu fyrstu vikurnar í því skyni að koma þeim inn í rekstur þess. Kaupsamningsgerðina annaðist Gísli M. Auðbergsson, lögmaður og löggiltur fasteignasali, en hann kom að málinu eftir að málsaðilar höfðu samið munnlega um kaupin. Mun stefndi Þorgeir hafa beðið hann um að færa samninginn í letur.

                Í málavaxtalýsingu er gerð grein fyrir efni kaupsamningsins. Eins og þar er rakið kemur fram í samningnum að hinu selda fylgi allar eignir og skuldir þess að frátöldum þar tilgreindum tveimur fasteignum, bifreið og lánum sem hvíldu á fasteignunum. Allar aðrar eignir og skuldir hins selda félags fylgi með í kaupunum og eru helstu eignir taldar upp en þar á meðal er bifreið, lyftari, skrifstofubúnaður, tölvubúnaður og bókhaldsgögn. Þá kemur fram að stefnendur hafi kynnt sér rækilega allt bókhald félagsins, ársreikninga 2008, bókhald fyrir 2009, lista yfir útistandi kröfur, svo og skuldir og skuldbindingar félagsins og sætt sig við. Stefndu ábyrgðust að ekki væru aðrar skuldir á félaginu en óeindagaðir reikningar frá birgjum en auk birgja í þrengsta skilningi þess orðs væri átt við Símann, veitustofnanir, Þvottabjörn ehf., Tryggingamiðstöðina hf., Íslandspóst, BYKO og Ernst & Young. Í lok samningsins kemur fram að við kaupsamningsgerðina hafi aðilar kynnt sér eftirtalin gögn og ekki gert neinar athugasemdir við þau: „Reikning vegna sölu á bifreið, afsöl vegna Sólheima 14, Nesbrautar 10, Laugarima 11 og Laugarima 13, þinglýsingavottorð þessara eigna, skuldalista, lista yfir útistandandi kröfur, lista yfir lager, upplýsingar um áfallna vsk.-skuldbindingu.“ Á framangreindum skuldalista, sem dagsettur er 15. október 2009, kemur fram að heildarskuldir séu samtals 9.830.175 kr. Hæst er þar skuld við Vogabæ ehf. að fjárhæð 4.720.832. kr. Skuld við Mjólku ehf. er 232.012 kr. Verður því ekki annað ráðið en að stefndu hafi, er samningurinn var undirritaður, verið kunnugt um þessar kröfur á hendur hinu selda félagi. Þá höfðu þau unnið um tveggja vikna skeið í fyrirtækinu og því haft aðstöðu til að kynna sér bókhald þess. Af málatilbúnaði stefnenda má hins vegar ráða að þau hafi talið að þar sem skuldirnar hafi verið eindagaðar hafi þær ekki fylgt með í kaupunum og séu á ábyrgð stefndu, sbr. yfirlýsing stefndu þar að lútandi í kaupsamningnum. Eru í málsástæðukafla rekin sjónarmið aðila hvað þessu viðkemur.

                Um kaup stefnenda á umræddu félagi gilda ákvæði laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Í 32. gr. laganna er að finna reglur um fresti sem kaupandi hefur til að bera fyrir sig vanefndir samnings. Þannig er í 1. mgr. ákvæðisins kveðið á um að kaupandi glati rétti sínum til að bera fyrir sig galla ef hann tilkynnir ekki seljanda innan ástæðulauss dráttar frá því að hann varð galla var eða mátti verða hans var í hverju gallinn var fólginn. Í 2. mgr. ákvæðisins er að finna hámarkstilkynningarfrest en þar er kveðið á um að leggi kaupandi ekki fram kvörtun innan tveggja ára frá þeim degi sem hann veitti söluhlut viðtöku geti hann ekki borið gallann fyrir sig.

                Fyrir liggur að stefnendum var skömmu eftir kaupin kunnugt um að stefndu hefðu ekki gert upp þær skuldir sem stefnendur töldu stefndu hafa ábyrgst greiðslu á samkvæmt kaupsamningnum. Er þannig lýst í stefnu að Vogabær ehf. hafi fljótlega eftir kaupin hafið innheimtuaðgerðir vegna skulda hins selda félags við fyrirtækið. Hafi Vogabær ehf. fengið áritaða stefnu á hendur félaginu haustið 2011 og krafist í kjölfarið gjaldþrotaskipta á því í febrúar 2012. Í framburði stefnenda fyrir dómi kom fram að þau höfðu komið kvörtunum vegna kaupanna á framfæri við stefnda Þorgeir fyrir lok árs 2009. Þorgeir kannaðist í framburði sínum hins vegar ekki við það en sagðist hafa, að beiðni stefnenda, aðstoðað þau með bókhald félagsins og uppgjör virðisaukaskatts í desember 2009. Standa hér því orð stefnenda gegn orðum stefnda Þorgeirs um þetta atriði. Að auki var ekki annað að ráða af framburði stefnenda en að kvörtun þeirra hefði verið almenns eðlis, þ.e. að halli væri á rekstri félagsins. Stefnendur segjast fljótlega hafa haft samband við lögmann þann sem annaðist kaupsamningsgerðina, og komið á framfæri við hann kvörtunum sínum. Í framburði sínum fyrir dómi staðfesti lögmaðurinn að stefndu hefðu leitað til hans, að því er hann taldi í ársbyrjun 2010, vegna óánægju með kaupin. Hann hefði hins vegar ekki aðhafst strax í málinu þar sem hann taldi sig ekki vera með fullnægjandi gögn í höndum. Hafi það staðið upp á stefnendur að afla umræddra gagna sem hafi verið bókhaldslegs eðlis. Stefnendur hefðu þó verið í miklu sambandi við hann. Lögmaðurinn staðfesti jafnframt að hann hefði hitt stefnda Þorgeir á fundi í júní 2012, þar sem öllum kröfum stefnenda hafi verið hafnað. Þá kom fram í framburði lögmannsins að hann hefði, samkvæmt ábyrgðarbréfabók sinni, sent stefndu öllum bréf 9. september 2011. Gat hann þó ekki greint frá því hvers eðlis bréfin hefðu verið. Hafa bréf þessi ekki verið lögð fram í  málinu. Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að stefnendur hafi ekki tilkynnt stefndu um vanefndir þær sem stefnendur byggja mál sitt á án ástæðulaus dráttar í skilningi 1. mgr. 32. gr. laga nr. 50/2000. Ljóst er að stefndu höfðu þannig engin tök á að bregðast við ætluðum vanefndum áður en í óefni var komið með rekstur hins selda félags. Þá verður ekki annað ráðið en að hinn fortakslausi frestur sem kveðið er á um í 2. mgr. 32. gr. laganna hafi jafnframt verið liðinn er stefndu var sannanlega, í júní 2012, tilkynnt um ætlaðar vanefndir og í hverju þær áttu að felast. Hafa stefnendur því glatað þeim rétti sem þau kunna að hafa haft gagnvart stefndu. Í því samhengi er rétt að taka fram að það leysir stefnendur ekki undan tilkynningaskyldu til stefndu að þau hafi haft samband við lögmann þann sem annaðist kaupsamingsgerðina og kvartað undan kaupunum þar sem ósannað er að þeim kvörtunum hafi verið komið á framfæri við stefndu innan tilskilins frests.

                Með hliðsjón af ofangreindri niðurstöðu ber að dæma stefnendur til að greiða stefndu málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 800.000 kr., þ.m.t. virðisaukaskattur. Ekki eru forsendur fyrir því að dæma álag á málskostnað eins og stefndu krefjast. Þá krefjast stefndu þess að dráttarvextir leggist á málskostnaðarkröfu og leggist við höfuðstól hennar á tólf mánaða fresti. Með hliðsjón af 4. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og ákvæðum laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu er ekki þörf á að kveða sérstaklega á um þessi atriði.

                Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð

Stefndu, Þorgeir Sæberg, Hrafnhildur Grímsdóttir og Eyjólfur Unnar Eyjólfsson, eru sýknuð af kröfum stefnenda, Sigurðar Jenssonar og Eyrúnar Eggertsdóttur, í máli þessu.

Stefnendur greiði stefndu 800.000 kr. í málskostnað.