Hæstiréttur íslands

Mál nr. 149/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Varnarþing
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


                                                        

Miðvikudaginn 24. mars 2010.

Nr. 149/2010.

Yngvi Harðarson og

Sverrir Sverrisson

(Hildur Sólveig Pétursdóttir hrl.)

gegn

Moderna Finance AB

(Eiríkur Elís Þorláksson hrl.)

Kærumál. Varnarþing. Gerðardómur. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli Y og S gegn M var vísað frá dómi. Í málinu kröfðust Y og S greiðslu úr hendi M á grundvelli hluthafasamnings. Í samningnum var ákvæði um úrlausn ágreinings þar sem m.a. kom fram að tækist ekki að leysa hann með samkomulagi væru aðilarnir sammála um að leggja hann fyrir gerðardóm. Í dómi Hæstaréttar var talið að þótt fallast mætti á að Y og S væri á grundvelli 1. mgr. 35. gr. laga nr. 91/1991 heimilt að reka málið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur yrði ekki fram hjá því horft að málsókn þeirra væri reist á hluthafasamningnum sem legði á þá skyldu til að leggja ágreining við aðra samningsaðila fyrir gerðardóm. Y og S gætu ekki vikist undan þeirri skyldu þótt M hafi ekki ljáð atbeina sinn að því að gerðardómur geti tekið til starfa, enda ættu þeir kost á að bregðast við því á þann hátt sem greini í 4. gr. laga nr. 53/1989. Var niðurstaða hins kærða úrskurðar um frávísun málsins því staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. mars 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. febrúar 2010, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og greinir í úrskurði héraðsdóms gerðu sóknaraðilar skriflegt samkomulag 23. nóvember 2006 við þrjá menn aðra og tvö félög um stofnun fjárfestingarbanka, sem síðar fékk heitið Askar Capital hf., og gerðu í framhaldi af því hluthafasamning 15. desember 2006, þar sem meðal annars var kveðið á um að félögunum tveimur, sem voru stærstu hluthafarnir, væri óheimilt að selja hluti sína nema kaupandinn gerði öðrum hluthöfum tilboð um kaup á hlutum þeirra fyrir sama verð og gegn sömu skilmálum. Sóknaraðilar kveða varnaraðila hafa keypt hluti í Askar Capital ehf. með þeim hætti að honum hefði borið að gera þeim tilboð í hluti þeirra samkvæmt þessu samningsákvæði, en með kaupunum hafi varnaraðili tekið yfir réttindi og skyldur seljandans samkvæmt hluthafasamningnum. Í málinu krefja þeir varnaraðila um greiðslu kaupverðs hluta þeirra á þessum grundvelli.

Í hluthafasamningnum eru ákvæði um úrlausn ágreinings milli aðila hans, þar sem segir meðal annars að takist ekki að leysa hann með samkomulagi séu aðilarnir sammála um að leggja hann fyrir gerðardóm, sem skipaður skyldi einum manni sem aðilarnir kæmu sér saman um. Þótt fallast megi á með sóknaraðilum að þeim væri á grundvelli 1. mgr. 35. gr. laga nr. 91/1991 heimilt að reka mál á hendur varnaraðila um þetta sakarefni fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur verður ekki fram hjá því horft að málsókn þeirra er reist á hluthafasamningnum, sem leggur á þá skyldu til að leggja ágreining við aðra samningsaðila fyrir gerðardóm. Undan þeirri skyldu geta sóknaraðilar ekki vikist þótt varnaraðili hafi ekki ljáð atbeina sinn til að gerðardómur geti tekið til starfa, enda eiga þeir kost á að bregðast við því á þann hátt, sem greinir í 4. gr. laga nr. 53/1989 um samningsbundna gerðardóma. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest um annað en málskostnað.

Rétt er að hver aðili beri sinn málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. febrúar 2010.

Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 29. janúar sl., var höfðað 21. september 2009. Stefnendur eru Yngvi Harðarson, kt. 190960-2859, Háaleitisbraut 133, Reykjavík og Sverrir Sverrisson, kt. 030454-5379, Ásakór 14, Kópavogi. Stefndi er Moderna Finance AB, kt. 440308-9960, Engelbrektsplan 1, Stokkhólmi.

Dómkröfur stefnenda eru þær aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða þeim í jöfnum hlutföllum samtals 948.026.471 krónu með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 ásamt síðari breytingum frá þingfestingardegi til greiðsludags. Til vara krefjast stefnendur þess að stefndi verði dæmdur til að greiða þeim 383.670.338 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 ásamt síðari breytingum, frá 13. nóvember 2008 til greiðsludags. Einnig krefjast stefnendur þess að stefndi verði dæmdur til að greiða þeim málskostnað í samræmi við málskostnaðarreikning, sem lagður verður fram við aðalmeðferð málsins.

Stefndi krefst þess aðallega að kröfum stefnenda verði vísað frá dómi, en til vara að hann verði sýknaður af kröfum stefnenda. Til þrautavara er þess krafist að kröfur stefnenda verði lækkaðar verulega. Í öllum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnenda að skaðlausu.

Munnlegur málflutningur fór fram um frávísunarkröfu stefnda þann 28. janúar sl. Í þessum þætti málsins krefjast stefnendur þess að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað og að þeim verði gert að greiða stefnda málskostnað vegna þessa þáttar málsins. Stefndi krafðist einnig málskostnaðar vegna þessa þáttar.

I

Stefnendur segja að árið 2006 hafi þeir ákveðið ásamt fleiri aðilum að stofna fjárfestingarbanka. Þeir hafi árið 1993 stofnað Ráðgjöf og efnahagsspár ehf. sem hafi verið sameinað Aquila Venture Partners, og AB 54 hf., síðar Askar Capital hf. Milestone ehf. hafi lagt fram nýtt hlutafé að fjárhæð 7.000.000.000 króna til Askar Capital hf. Þann 23. nóvember 2006 hafi aðilar undirritað samkomulag um meginatriði um stofnun fjárfestingarbanka og hafi verið unnið eftir því þar til ítarlegur hluthafasamningur hafi verið gerður 15. desember 2006. Aðilar að hluthafasamningnum hafi verið stefnendur, aðaleigendur Aquila Venture Partners sem séu Arnarbæli ehf., Bákn ehf., Sigurður Kiernan og Elkington Overseas Limited auk Milestone ehf. og Sjóvá-Almennra trygginga hf. Í samningnum sé mælt fyrir um réttindi og skyldur framangreindra aðila vegna hlutafjáreignar þeirra. Askar Capital hf. hafi tekið til starfa í ársbyrjun 2007.

Stefnendur segja að 1. janúar 2008 hafi Milestone ehf. selt stefnda allan eignarhlut sinn (82%) í Askar Capital hf., sem þá hafi borið nafnið Invik & Co AB, sem þar með hafi tekið við réttindum og skyldum Milestone ehf. samkvæmt hluthafasamningnum. Stefndi segir að hið rétta sé að Milestone ehf. hafi selt íslenska félaginu, Þætti eignarhaldsfélagi ehf., hlutafé sitt í Askar Capital hf. 1. janúar 2008. Með fjórum samningum, sem allir séu frá 1. janúar 2008, hafi eignarhaldið á umræddu hlutafé í Askar Capital hf. færst á milli fjögurra lögaðila og þannig frá Milestone ehf. til stefnda. Stefndi hafi keypt hlutféð af sænska félaginu Racon Holdings AB II.

Stefnendur segja að kaupverðið sem Invik hafi greitt Milestone ehf. fyrir 82% hlutafjár hafi verið SEK 1.698.000.000. Allar íslenskar eignir Milestone ehf. hafi þannig verið færðar undir sænsku fjármálasamstæðuna Invik sem áfram hafi verið dótturfélag Milestone ehf. Þessi breyting á eignarhaldi hafi verið skráð í hlutaskrá Askar Capital hf. í mars 2008.  Eftir þessa eignafærslu hafi öll fyrirtæki Milestone ehf. verið dótturfélög Invik, þar með talin íslensku fjármálafyrirtækin Sjóvá og Askar Capital hf. Til að undirstrika þessa breytingu á samstæðustrúktúrnum hafi nafni Invik & Co AB verið breytt í Moderna Finance AB þann 27. maí 2008.

Þá segir í stefnu að samkvæmt 9. gr. hluthafasamningsins hafi Milestone ehf. og Sjóvá-Almennum tryggingum hf. verið óheimilt að selja hlut sinn í félaginu, að hluta eða í heilu lagi, nema fyrir lægi tilboð sama kaupanda til annarra samningsaðila um kaup á þeirra hlut í Askar Capital hf. fyrir sama verð og með sömu skilmálum. Stefnendur hafi bent stefnda á þetta ákvæði munnlega en einnig bréflega þann 13. október 2008 þar sem auk þess hafi verið gerð krafa um innlausn á grundvelli 6. gr. hluthafasamningsins en stefndi hafi í engu svarað þeirri kröfu.

Þann 16. mars 2009 hafi skilanefnd Glitnis gengið að veðum í öllu hlutafé Milestone ehf. í Moderna Finance AB og yfirráð yfir íslenskum dótturfélögum Moderna Finance AB, m.a. Askar Capital hf., færst yfir til skilanefndar Glitnis. Í maí og júní 2009 hafi eignarhald Sjóvá-Almennra trygginga hf. og Askar Capital hf. verið fært yfir til Glitnis og annarra kröfuhafa sem hluti af fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins. Þá hafi stefnendur sett kröfur sínar fram gagnvart stefnda, með skýrum og sannanlegum hætti, með bréfi 13. október 2008. Síðan hafi stefnendur ritað skilanefnd Glitnis bréf 8. maí sl. og krafist greiðslna í samræmi við stefnukröfur málsins þann 8. maí og rætt efni bréfsins á fundi með skilanefnd. Engin viðbrögð hafi borist. Þá hafi stefnendur ítrekað kröfur sínar 13. maí 2009 þar sem tilkynnt hafi verið að þar sem hluthafasamningurinn væri skýr varðandi réttindi stefnenda. Enn fremur að stefnendur litu þeir svo á að þeir hefðu ekki lengur atkvæðisrétt á hluthafafundum Askar Capital hf. þar sem þeir ættu fjárkröfu á stefnda á grundvelli 9. gr. hluthafasamningsins og með því að stefndi hefði yfirtekið réttindi stefnenda sem hluthafa. Engar athugasemdir hafi borist frá stefnda við þessa afstöðu stefnenda og því verið bókað á hluthafafundi þann 8. júní 2009 að stefnendur teldu að stefnda hefði borið skylda til að kaupa öll hlutabréf þeirra í samræmi við 9. gr. hluthafasamningsins. Þar sem þeirri kröfu hefði sannanlega verið komið á framfæri við stefnda og skilanefnd Glitnis og ekki verið mótmælt af þeirra hálfu hafi stefnendur talið að þeir ættu formlega ekki hlutabréfin í félaginu heldur fjárkröfu á stefnda. Stefnendur hafi tilkynnt stjórn Askar Capital hf. þessa afstöðu sína formlega með bréfi, dagsettu 26. maí 2009. Sú afstaða stefnda, sem fyrst hafi borist tæpum þremur mánuðum eftir að stefnandi hafi ritað stefnda kröfubréf, þar sem því hafi verið borið við að stefndi sé ekki bundinn af hluthafasamningnum, hafi því komið stefnendum verulega á óvart og ljóst sé að ekki verði unnt að fá greiðslu án atbeina dómstóla.  Stefndi hafi heldur ekki fallist á að málið fari fyrir gerðardóm eins og fram komi í bréfi stefnda 19. ágúst sl. Því beri stefnendum nauðsyn til að fá leyst úr málinu fyrir dómi.

Stefndi segir að stefnendum hafi verið kunnugt um eignatilfærslu á bréfum Milestone ehf. í Askar Capital hf. strax í desember 2007 en ekki hreyft mótmælum eða byggt á því að stefndi væri bundinn af umræddu hluthafasamkomulagi fyrr en eftir hrun íslenskra fjármálafyrirtækja í október 2008. Bréfið frá 13. október 2008 til stefnda og Milestone ehf., dags. 13. október 2008, þar sem stefnendur hafi hvor í sínu lagi krafist innlausnar á hlutum sínum í Askar Capital hf. hafi verið móttekið af forstjóra Milestone ehf. Hins vegar beri gögn málsins ekki með sér að bréfið hafi verið móttekið af hálfu stefnda og félagið kannist ekki við það. Þetta hafi verið í fyrsta sinn sem því sé haldið fram að krafa byggð á hluthafasamkomulaginu hafi verið sett fram á hendur stefnda, en á þessu tímamarki hafi verið liðið tæpt ár frá því að hlutabréf Milestone ehf. í Askar Capital hf. skiptu um hendur. Í bréfunum sé farið fram á innlausn á hlutum stefnenda í Askar Capital hf. en engar kröfur gerðar vegna ákvæðis í grein 9 í hluthafasamkomulaginu. Því er mótmælt að stefnendur hafi sett fram kröfur sínar gagnvart stefnda með skýrum og sannanlegum hætti eins og segi í stefnu. Þá segir stefndi að með bréfi aðstoðarforstjóra stefnda frá 17. október 2008 hafi kröfu stefnenda verið hafnað. Með bréfi stefnenda, dags. 13. maí 2009, hafi verið settar fram tvær kröfur á hendur stefnda á grundvelli hluthafasamkomulagsins. Annars vegar krafa um að stefndi keypti hlut stefnenda í Askar Capital hf. og hins vegar um innlausn á hlutum stefnenda. Þetta hafi verið í fyrsta sinn sem bein krafa á grundvelli greinar 9 í samkomulaginu hafi verið var sett fram. Stefndi hafi mótmælt þessum kröfum með bréfi 28. júlí 2009. Þar sem stefndi ætti ekki aðild að hluthafasamkomulaginu væri félagið ekki bundið af ákvæðum þess. Þá hafi kröfu stefnenda, um að ágreiningur aðila yrði lagður fyrir gerðardóm, verið hafnað þar sem sú krafa hafi verið byggð á hluthafasamkomulaginu sem stefndi telji sig óbundinn af.

II

Aðalkrafa stefnenda er byggð á því að stefndi sé bundinn af hluthafasamningnum frá 15. desember 2008 þar sem Milestone ehf. hafi verið óheimilt samkvæmt 9. gr. samningsins að selja hlut sinn í Askar Capital hf. að hluta eða í heilu lagi, nema því aðeins að kaupandinn, þ.e. stefndi, legði fram tilboð til annarra samningsaðila, þ.m.t. stefnenda, um kaup á þeirra hlut í Askar Capital hf. fyrir sama verð og með sömu skilmálum.

Stefnendur byggja á því að stefndi sé bundinn af ákvæðum hluthafasamningsins enda sé hluthafasamningur samningur milli hluthafa þar sem þeir semja m.a. um aðra réttarstöðu eða önnur atriði en sett eru inn í samþykktir félagsins. Samþykktir Askar Capital hf. hafi verið mjög hefðbundnar og við stofnun fjárfestingarbankans hafi verið valin sú leið að setja ítarlegar reglur um samstarf í hluthafasamninginn í stað samþykktanna. Slík aðferð sé fullkomlega heimil og eðlileg með vísan til meginreglunnar um samningsfrelsi aðila enda hafi samningsaðilar talið mikilvægt að ýmis ákvæði yrðu ekki opinber sem gerist þegar samþykktir séu sendar til fyrirtækjaskrár. Efni hluthafasamnings sé trúnaðarmál og hann gangi framar samþykktum félagsins í innbyrðis samskiptum aðila.

Stefnendur telja að sala Milestone ehf. á öllum hlutum sínum í Askar Capital hf. til Invik (síðar Moderna Finance AB) geti ekki leitt til þess að það félag sé ekki bundið við hluthafasamninginn. Stefnendur telja það algjörlega skýrt samkvæmt orðalagi hluthafasamningsins, grein 7.2, að heimilt sé að framselja hluti til félaga í 100% eigu samningsaðila en þá skuli þau félög taka við réttindum og skyldum viðkomandi aðila samkvæmt hluthafasamningnum. Eins og fram kemur í ársreikningi stefnda sé greinilegt að um sölu hafi verið að ræða á bréfum Milestone ehf. til stefnda. Því sé stefndi bundinn af hluthafasamningnum með sama hætti og Milestone ehf. og því hvíli sú skylda á stefnda að kaupa 2,5491% hlut stefnenda í félaginu á sama verði og stefndi greiddi Milestone ehf. fyrir hlutinn. Fjárhæð kaupverðsins sé aðalkrafa málsins. Þessi skilningur sé áréttaður enn frekar í lið 7.1 þar sem framsal hluta sé óheimilt fyrstu sex mánuði frá undirritun samningsins en eftir það tímamark, þ.e. 15. júní 2007, sé slíkt framsal því aðeins heimilt að sá sem fái hlutina sér framselda taki á sig allar sömu skyldur tengdar hinum framseldu hlutum og hvíldu á framseljandanum, þ.á m. aðild að hluthafasamningnum. Minni hluthöfum er í hluthafasamningnum veitt mikilvæg vernd sem stefndi neitar að viðurkenna. Stjórnarmenn stefnda hafi flestir verið hinir sömu og stjórnendur Milestone ehf. og því grandsamir um skuldbindingar hluthafasamningsins.

Stefnendur telja engan vafa leika á því að Milestone ehf. hafi ekki getað selt stefnda alla hluti sína í því félagi, nema því aðeins að stefndi yrði bundinn af skyldum hluthafasamningsins, m.a. Tag-along ákvæði 9. gr. Því beri stefnda að gera stefnendum tilboð um kaup á 2,5491% hlut þeirra í Askar Capital fyrir sama verð og stefndi hafi keypt þá af Milestone ehf.

Stefnendur byggja á því að stefndi geti ekki borið því við að vera ekki bundinn af hluthafasamningnum þar sem hann hafi ekki verið samningsaðili í upphafi. Sérstaklega sé tekið á því í grein 7.2 að þó samningsaðili framselji hluti til félags í 100% eigu samningsaðila þá taki þau félög við réttindum og skyldum viðkomandi aðila samkvæmt hluthafasamningnum. Invik, síðar stefndi, sé 100% í eigu Milestone ehf. sem sé aðili hluthafasamningsins. Stefndi sé þannig aðili að hluthafasamningnum með sama hætti og Milestone ehf. Það sé fráleitt ef stærsti hluthafi félagsins telji sig ekki bundinn af hluthafasamningnum þegar svo skýr ákvæði séu um að nýir eigendur verði að taka á sig réttindi og skyldur samningsins. Sömu lykilstjórnendur hafi verið í stjórn stefnda og Milestone ehf. Þeim hafi því verið mæta vel kunnugt um að stefndi yrði bundinn af samningnum og að skylt væri að bjóða öðrum hluthöfum að kaupa þeirra hlutabréf á sama verði og stefndi keypti þau á af Milestone ehf.

Stefnendur byggja á því að stefndi hafi verið skráður í hlutaskrá Askar Capital hf. eftir kaupin á bréfum Milestone ehf.  A.m.k. eigi síðar en á því tímamarki hafi stefnda mátt vera ljóst að hann væri bundinn af efni hluthafasamningsins og honum borið að gera stefnendum kauptilboð. Stefnda hafi borið að virða og efna hluthafasamninginn enda sérstaklega rík skylda á stefnda, þar sem Milestone ehf. hafi verið ráðandi hluthafi í Askar Capital hf., og stefndi við kaupin tekið við réttindum og skyldum Milestone ehf. samkvæmt samningnum. Vegna þeirrar staðreyndar hafi verið settar sérstakar hömlur á sölu þeirra bréfa í félaginu, sbr. ákvæði 9. gr. um samhliða sölu (Tag-along) þar sem beinlínis sagði að Milestone ehf. og Sjóvá-Almennum hf. væri óheimilt að selja hlut sinn í félaginu, nema fyrir lægi tilboð sama kaupanda til annarra samningsaðila. Skýrlega segi í 9. gr. að slík sala hlutafjár sé Milestone ehf. beinlínis óheimil, nema að þessum skilyrðum uppfylltum, sem stefnendur telja að staðfesti þá áherslu og þann eindregna vilja samningsaðila um að Milestone ehf. gæti ekki vikið frá upphaflegum samningsmarkmiðum hluthafasamningsins og stefnu án þess að minni hluthöfum bæri þá að fá kauptilboð í sína hluti í félaginu til að geta samhliða selt þá. Slíkt kauptilboð í hluti stefnenda hafi aldrei borist frá stefnda þrátt fyrir að stefnendur hafi nefnt það ítrekað munnlega við stjórnarmenn stefnda og bent á það skriflega með bréfi 13. október 2008.

Varakrafa stefnenda byggir á því að stefnda beri að greiða stefnendum 383.670.338 krónur eða hvorum um sig 191.835.169 krónur með dráttarvöxtum, samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, frá 13. nóvember 2008 til greiðsludags. Þann 13. nóvember 2008 hafi stefnendur ritað bréf til stefnda og Milestone, sem hafi verið móttekið af fyrirsvarsmönnum beggja félaga, þar sem stefnendur hafi krafist innlausnar á grundvelli greinar 6.2 í hluthafasamningnum. Stefnendur byggja á því að það hafi verið algjör ákvörðunarástæða fyrir því að þeir gerðu hluthafasamninginn og tækju þátt í stofnun fjárfestingarbankans Askar Capital hf. að stefnt yrði að því að skrá félagið á íslenskan eða erlenda verðbréfamarkað innan þriggja ára frá dagsetningu hluthafasamningsins, þ.e. fyrir 15. desember 2009. Þegar stefnendur hafi ritað bréfið hafi þeir talið ljóst að allar forsendur fyrir slíkri þróun í rekstri félagsins væru brostnar og því sett fram innlausnarkröfu eins og hluthafasamningur veiti þeim rétt á. Því bréfi hafi eingöngu verið svarað af Milestone ehf. og því hafi innlausnarkröfunni ekki verið hafnað af stefnda. 

Stefnendur segjast höfða málið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur þar sem stefndi hafi ekki fallist á það að reka málið fyrir gerðardómi, eins og fram komi í bréfi stefnda til stefnanda 13. maí 2009. Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála megi sækja mál til efnda á eða lausnar undan löggerningi eða vegna vanefnda eða rofa á löggerningi í þeirri þinghá þar sem átti að efna hann. Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. sömu laga verði framangreindu ákvæði beitt um félag sem búsett sé erlendis auk þess sem stefndi sé með íslenska kennitölu og stjórnarformaður og stjórnarmaður búsettir á Íslandi. Í 14. gr. hluthafasamningsins segi að um samninginn skuli fara að íslenskum lögum og gildir það hvort sem aðilar samningsins eru skráðir erlendis eða ekki, sbr. að félagið Elkington Overseas Limited, sem skráð sé á Tortola sé aðili samningsins allt frá upphafi og því feli samningurinn í sér samkomulag um íslenskt varnarþing.

Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna samninga- og kröfuréttarins um að samninga beri að efna og halda. Hluthafasamningurinn, sem byggt sé á í málinu, sé ítarlegur og skýr og stefndi bundinn af honum, enda skýrlega tiltekið að framsalshafi hlutabréfa í Askar Capital hf. taki yfir réttindi og skyldur fyrri hluthafa m.a. skv. hluthafasamningnum. Dráttarvaxtakrafa er byggð á 3. og 4. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Um aðild er vísað til 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991, þar sem kröfur stefnenda eiga rót í sama löggerningi. Um varnarþing vísa stefnendur til 1. mgr. 35. gr. sbr. 1. mgr. 43. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málskostnaðarkrafan er reist á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

III

Frávísunarkrafa stefnanda er í fyrsta lagi reist á því að íslenskir dómstólar hafi ekki lögsögu í málinu, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Það liggi fyrir að stefndi sé sænskt félag, til heimilis í Svíþjóð og skráð þar í landi. Samkvæmt meginreglum réttarfars sé ekki hægt að höfða mál hér á landi gegn lögaðila sem eigi heimili í öðru landi. Gert sé ráð fyrir því að mál sem beinist að slíkum aðila séu höfðuð í heimaríki hans. Frá þessari meginreglu séu ákveðnar undanþágur og stefnendur hafi vísað til 1. mgr. 35. gr. laga nr. 91/1991 þar sem fram komi að mál til efnda á eða lausnar undan löggerningi eða vegna vanefnda eða rofa á löggerningi megi sækja í þeirri þinghá þar sem hafi átt að efna hann eftir hljóðan hans, tilætlun aðila eða réttarreglum.

Stefndi telur ljóst að 1. mgr. 35. gr. laga nr. 91/1991 eigi eingöngu við þegar um er að ræða löggerning sem sá sem málshöfðun beinist að eigi aðild að. Því sé hins vegar ekki til að dreifa í máli þessu þar sem stefndi eigi ekki aðild að fyrrgreindu hluthafasamkomulagi og hafi ekki á neinu tímamarki skuldbundið sig til að efna ákvæði þess. Þegar af þeirri ástæðu telur stefndi að varnarþing hans hér á landi verði ekki byggt á 1. mgr. 35. gr. laga nr. 91/1991. Þá byggir stefndi jafnframt á því að ekki sé ljóst að efna eigi umrætt hluthafasamkomulag í þinghá Héraðsdóms Reykjavíkur, en samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laga nr. 91/1991 má sækja mál í þeirri þinghá þar sem á að efna löggerning. Það séu stefnendur sem beri sönnunarbyrði fyrir slíku. Stefndi telji þvert á móti líkur á því að efna beri samkomulagið í annarri þinghá að því er varðar stefnandann Sverri Sverrisson þar sem hann sé til heimilis að Ásakór 14, Kópavogi. Samkvæmt framangreindu telur stefndi ljóst að hann eigi ekki varnarþing hér á landi og að vísa beri málinu frá dómi á þeim grundvelli.

Krafa stefnda um frávísun er í öðru lagi reist á því að almennir íslenskir dómstólar hafi ekki lögsögu til að leysa úr þeim ágreiningi sem hér er til úrlausnar þar sem stefnendur hafi með bindandi hætti samið sig undan lögsögu almennra dómstóla. Í þessu sambandi vísar stefndi til 14. gr. umrædds hluthafasamkomulags þar sem fjallað er um lögsögu og úrlausn ágreiningsefna. Nánar tiltekið komi fram í grein 14.2 að rísi ágreiningur um efni samningsins, efndir hans eða annað, sem samningurinn tekur til, skuli aðilar leitast við að leysa ágreininginn með samkomulagi í góðri trú. Þá segi orðrétt í grein 14.3: ,,Takist ekki að leysa ágreininginn með samkomulagi eru aðilar sammála um að leggja þann ágreining fyrir gerðardóm til úrlausnar.“ Með þessu ákvæði hafi aðilar að hluthafasamkomulaginu, þar á meðal stefnendur, samið um að gerðardómur hefði úrskurðarvald um hvers konar ágreining sem tengist samkomulaginu. Þannig hafi stefnendur samið um að úrlausn slíkra ágreiningsmála eigi undir gerðardóm og falli þar með utan lögsögu almennra dómstóla að dæma um sakarefnið, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991.

Þar eð allur málatilbúnaður og kröfur stefnenda byggi á því að hluthafasamkomulagið sé bindandi fyrir stefnda komist stefnendur ekki hjá því að reka mál sitt fyrir gerðardómi í samræmi við ákvæði hluthafasamkomulagsins. Hér sé allur málatilbúnaður stefnenda í innbyrðis ósamræmi þar sem flestar málsástæður ganga út frá því að hluthafasamkomulagið sé bindandi fyrir aðila og jafnframt fyrir stefnda, en aðrar málsástæður, svo sem um lögsögu og úrlausn ágreiningsmála, gera ráð fyrir að ákvæðum hluthafasamkomulags sé rutt til hliðar. Breyti engu varðandi þessa málsástæðu stefnda þó félagið hafi mótmælt því að leggja málið fyrir gerðardóm á þeim grundvelli að hluthafasamkomulagið væri ekki bindandi fyrir stefnda. Ef hluthafasamkomulagið skuldbindi stefnda, eins og stefnendur halda fram og reisa kröfur sínar á, þá verði málið ekki útkljáð fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Það sé ótvírætt að málið sé sprottið af ágreiningi sem tengist hluthafasamkomulaginu og að ákvæði greinar 14.3 eigi því við eins og atvikum sé háttað. Stefndu telja engin rök til að stefnendur geti vikist undan samningsbundinni skyldu til að leita úrlausnar gerðardóms. Því verði að vísa málinu frá dómi, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991. 

Stefndi byggir enn fremur á því sem sjálfstæðri málsástæðu, hvað sem öllu framangreindu líður, að vísa verði frá dráttarvaxtakröfu stefnenda þar sem hvorki sé tilgreindur vaxtafótur hennar né vísað til sérstaks ákvæðis laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Hér sé vísað til meginreglna réttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað, sbr. einnig d-lið 1. mgr. 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

Við munnlegan flutning um frávísunarkröfu stefnda var á því byggt af hálfu stefnenda að lög um meðferð einkamála geri ráð fyrir að hægt sé að sækja mál í þeirri þinghá þar sem efna eigi löggerning enda þótt aðilinn að viðkomandi samningi sé erlendur. Ótvírætt sé að stefndi sé aðili að hluthafasamkomulaginu sem málið sé byggt á og fullkomin grandsemi hafi verið um skyldurnar samkvæmt samkomulaginu enda hafi meiri hluti stjórnarmanna verið bæði stjórnarmenn í stefnda og Milestone ehf. Eðlilegt sé að miða við að efna beri samninginn á starfstöð Askar Capital hf. í Reykjavík og því eðlilegt og rétt að höfða málið í þeirri þinghá, þ.e fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Varðandi þá málsástæðu stefnda að almennir dómstólar eigi ekki lögsögu þá telja stefnendur að samkvæmt 14.3 verði aðilar að vera sammála um að leggja ágreininginn fyrir gerðardóm til úrlausnar. Þá sé dráttarvaxtakrafan skýr þar sem vísað sé til III. kafla vaxtalaga og tekinn upphafstími vaxta, auk þess sem krafan sé rökstudd undir liðnum lagarök í stefnu. 

IV

Stefnendur byggja málsóknina og heimildina til að höfða málið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hluthafasamkomulagi frá 15. desember 2006 milli þáverandi hluthafa í Askar Capital hf. Stefndi hafi fengið hluti í félaginu framselda og sé þar með bundinn af samkomulaginu þar sem í því sé kveðið á um að sá er fái hluti í félaginu framselda taki á sig skyldur framseljanda. Málið sé sótt til efnda á hluthafasamkomulaginu og því heimilt að reka málið á hendur stefnda fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur samkvæmt 1. mgr. 35. gr., sbr. 1. mgr. 43. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Ákvæði 1. mgr. 35. gr. laga nr. 91/1991 er undantekningarregla frá meginreglu 33. gr. sömu laga, um að mál verði höfðuð á heimilisvarnarþingi lögaðila. Hún felur ekki í sér heimild til að höfða mál á hendur aðila til efnda á löggerningi sem hann hefur ekki gengist undir með beinum hætti og ágreiningur stendur um hvort hann yfir höfuð hafi gerst aðili að. Engu breytir um þá niðurstöðu hvort stefndi, sem er sænskt hlutafélag og leggja verður til grundvallar að sé sjálfstæður samningsaðili að lögum, sé í 100% eigu Milestone ehf., sem var aðili að hluthafsamkomulaginu, eða hvort sömu menn hafi að hluta skipað stjórnir beggja félaganna. Samkvæmt þessu verður ekki fallist á að heimild sé til að höfða mál þetta á hendur stefnda fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á grundvelli 1. mgr. 35. gr., sbr. 1. mgr. 43. gr., laga nr. 91/1991. Málinu er því vísað frá dómi.

Í samræmi við niðurstöðu málsins, sbr. 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, verða stefnendur dæmdir til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur.

Áslaug Björgvinsdóttir kveður upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ

Máli þessu er vísað frá dómi. Stefnendur, Yngvi Harðarson og Sverrir Sverrisson, greiði stefnda, Moderna Finance ehf., 250.000 krónur í málskostnað.