Hæstiréttur íslands

Mál nr. 321/2017

Arnór Stefánsson (Jón Ögmundsson lögmaður)
gegn
Ísfelli ehf. (Jóhannes Bjarni Björnsson lögmaður) og Ísfell ehf. gegn þrotabúi Dofra ehf. (Jón Ögmundsson lögmaður)

Lykilorð

  • Lausafjárkaup
  • Samkeppni
  • Skaðabætur
  • Beint tjón
  • Óbeint tjón

Reifun

Í ehf. og DL ehf., síðar D ehf., gerðu með sér samning um kaup þess fyrrnefnda á öllum rekstri þess síðarnefnda, en félagið annaðist einkum innflutning á fiskilínum og krókum til sölu til útgerða á Íslandi. Í 12. grein kaupsamningsins var að finna ákvæði um samkeppnishömlur þar sem DL ehf. og fyrirsvarsmaður þess, A, skuldbundu sig í þrjú ár frá afhendingu að stunda ekki starfsemi sem teldist geta verið í samkeppni við þann rekstur sem yfirtekinn var samkvæmt samningnum. Í ehf. taldi að A hefði brotið gegn 12. grein samningsins og höfðaði mál gegn A og D ehf., en bú þess félags var síðar tekið til gjaldþrotaskipta, þar sem krafist var skaðabóta óskipt úr hendi þeirra vegna þess tjóns sem það taldi sig hafa orðið fyrir, m.a. vegna tapaðrar viðskiptavildar. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um að A hefði brotið gegn þeirri skuldbindingu sem hann gekkst undir samkvæmt 12. grein kaupsamningsins með atbeina sínu að innflutningi á tveimur gámum með fiskilínu og fleiri vörum sem og vegna samskipta hans í óþökk Í ehf. við framleiðanda fiskilínunnar í Suður-Kóreu. Þá taldi Hæstiréttur að A hefði ljáð atbeina sinn, í gegnum einkahlutafélag sem hann hefði að minnsta kosti óbein tengsl við, til þess að Í ehf. hefði ekki átt þess kost að flytja inn og selja í heildsölu króka frá tiltekinni verksmiðju í Indlandi, en þá hafði DL ehf. áður selt. Hefði hann þannig vanrækt þær skyldur sem hann undirgekkst með samningnum og komið í veg fyrir að Í fengi afhent það sem félagið hafði keypt. Hefði A með háttsemi sinni rýrt af ásettu ráði verðmæti hins selda og valdið Í tjóni. Bæri hann á því skaðabótaábyrgð og þar sem háttsemin hefði verið saknæm tæki ábyrgðin bæði til beins og óbeins tjóns Í. Var A gert að greiða Í 25.000.000 krónur í skaðabætur sem ákveðnar voru að álitum. Þrotabú D ehf. var á hinn bóginn sýknað með vísan til þess að hvorki hefði verið sýnt fram á að félagið hefði átt þátt í innflutningi á umræddum tveimur gámum með fiskilínu né að það hefði á annan hátt brotið gegn 12. grein kaupsamningsins, en félagið yrði ekki talið samábyrgt vegna vanefnda A.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Benedikt Bogason og Ingibjörg Benediktsdóttir fyrrverandi hæstaréttardómari.

Áfrýjandinn Arnór Stefánsson skaut málinu til Hæstaréttar 23. maí 2017. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu áfrýjandans Ísfells ehf., en til vara að krafan verði verulega lækkuð. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Ísfell ehf. áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 29. júní 2017. Krefst félagið þess að stefnda verði gert greiða sér, óskipt með áfrýjandanum Arnóri Stefánssyni, 40.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. mars 2017 til greiðsludags. Þá krefst félagið málskostnaðar úr hendi stefnda í héraði og fyrir Hæstarétti. Gagnvart áfrýjandanum Arnóri Stefánssyni krefst áfrýjandinn Ísfell ehf. staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Ágreiningur málsaðila á rót sína að rekja til sölu Dímon línu ehf., sem síðar fékk nafnið Dofri ehf., á öllum rekstri félagsins, tólum og tækjum og heilum og seljanlegum vörubirgðum þess til áfrýjandans Ísfells ehf. Nánar tiltekið var það sem talið var felast í öllum rekstri tilgreint sem yfirtaka á daglegum rekstri, nafni, vörumerki, viðskiptavild og öllum viðskiptasamböndum seljanda hér á landi og erlendis, hvort sem um var að ræða birgja eða aðra viðskiptavini. Kaupsamningurinn var gerður 5. mars 2013 sem einnig var afhendingardagur. Í 12. grein kaupsamningsins var ákvæði um samkeppnishömlur, sem tekið er í heild upp í hinum áfrýjaða dómi. Samkvæmt því skuldbundu seljandi og fyrirsvarsmaður félagsins, áfrýjandinn Arnór, sig til þess í þrjú ár frá afhendingu að stunda ekki með nokkrum hætti, hvorki beint né óbeint, starfsemi er teldist geta verið í samkeppni við þann rekstur sem yfirtekinn var samkvæmt samningnum. Einnig skuldbundu þeir sig til þess að hefja ekki starfsemi sem seldi sömu vörur og seljandi gerði á þeim tíma sem salan fór fram, að eiga ekki beint eða óbeint í slíku félagi eða eiga fulltrúa í stjórn þess, eða sækjast eftir viðskiptasamböndum, umboðum og vörumerkjum sem tilheyrðu seljanda við undirritun kaupsamningsins. Undanskilið var þó, samkvæmt grein 12.4 í kaupsamningi, ,,eignarhald seljanda og Arnórs á krókaverksmiðju erlendis.“  Kaupverð hins selda var samtals 220.945.199 krónur, sem skiptist þannig að 90.945.199 krónur voru greiddar fyrir vörubirgðirnar, 12.569.000 krónur fyrir það sem nefnt var tól og tæki og 117.431.000 krónur fyrir daglegan rekstur, nafn, vörumerki, viðskiptavild og öll viðskiptasambönd.

II

Staðfest verður sú niðurstaða héraðsdóms að áfrýjandinn Arnór hafi brotið gegn þeirri skuldbindingu sem hann gekkst undir samkvæmt 12. grein kaupsamningsins með atbeina sínum að innflutningi á þeim tveimur gámum með fiskilínu og fleiri vörum, sem gerð er grein fyrir í dóminum. Hið sama á við um önnur samskipti hans í óþökk kaupanda við framleiðanda fiskilínunnar í Suður-Kóreu, sem verið hafði í viðskiptasambandi við Dímon línu ehf. og selt því félagi vörur sínar en áfrýjandinn Ísfell ehf. hafði yfirtekið viðskipti við þennan framleiðanda með kaupsamningnum.

Þegar kaupsamningurinn var gerður seldi Dímon lína ehf. línukróka, er framleiddir voru í verksmiðju á Indlandi sem mun hafa borið heitið Beko-Dimon fishing co. Með samningnum seldi Dímon lína ehf. allan sinn rekstur og viðskiptasambönd til Ísfells ehf. og skuldbatt félagið og fyrirsvarsmaður þess sig til að stunda ekki í þrjú ár rekstur sem með nokkrum hætti gæti talist í samkeppni við þann rekstur sem seldur var. Samkvæmt gögnum málsins tók einkahlutafélagið Puffin, sem var í eigu áfrýjandans Arnórs, þegar eftir söluna til við að selja línukróka framleidda í verksmiðjunni á Indlandi sem Dímon lína ehf. hafði áður selt. Þá liggur fyrir tölvupóstur 19. janúar 2015 frá fulltrúa Beko-Dimon fishing co. til áfrýjandans Ísfells ehf. þar sem tilkynnt var að í samráði við áfrýjandann Arnór hefði verið ákveðið að selja einungis króka framleidda í verksmiðju félagsins til einkahlutafélagsins Icepuffin fishing gear á Íslandi. Það félag var stofnað í apríl 2014 af bróður áfrýjandans Arnórs og Ársæli Inga Ingasyni fyrrum starfsmanni Dímon línu ehf., en áfrýjandinn Ísfell ehf. hafði yfirtekið ráðningarsamning hans. Ársæll Ingi sleit svo þeim ráðningarsamningi með uppsögn 20. mars 2014. Jafnframt hefur verið lagður fram í málinu samningur áfrýjandans Arnórs og Icepuffin fishing gear ehf. 2. janúar 2017 um lán hins fyrrnefnda til félagsins að fjárhæð 19.251.000 krónur. Samkvæmt framansögðu er sannað að áfrýjandinn Arnór hefur að minnsta kosti óbein tengsl við Icepuffin fishing gear ehf. og hefur ljáð atbeina sinn til þess að áfrýjandinn Ísfell ehf. átti þess ekki kost að flytja inn og selja í heildsölu króka  frá verksmiðju Beko-Dimon fishing co. á Indlandi. Áfrýjandinn Arnór, sem ábyrgðist réttar efndir kaupsamningsins að því er viðskiptasambönd og viðskiptavildina varðaði, hefur með þessu einnig vanefnt þær skyldur sem hann gekkst undir samkvæmt 12. grein kaupsamningsins og þannig komið í veg fyrir að áfrýjandinn Ísfell ehf. fengi afhent það sem félagið keypti með samningnum. Verður ekki talið að félagið hafi fyrirgert rétti sínum til þess að krefjast skaðabóta vegna vanefnda á kaupsamningi þótt það hafi keypt línukróka í tvígang af Puffin ehf. og leitast við með samningsdrögum að tryggja frekar þann rétt sem félagið taldi sig eiga samkvæmt kaupsamningnum.

Með framangreindri háttsemi sinni rýrði áfrýjandinn Arnór af ásettu ráði verðmæti hins selda og olli með því áfrýjandanum Ísfelli ehf. tjóni. Á því ber hann skaðabótaábyrgð og þar sem háttsemi hans var saknæm tekur ábyrgðin bæði til beins og óbeins tjóns áfrýjandans Ísfells ehf., sbr. 3. mgr. 40. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup.

III

Við mat á tjóni áfrýjandans Ísfells ehf. verður fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að hluti af tjóni vegna tapaðrar viðskiptavildar sé ætlað tjón vegna innflutnings Puffin ehf. á þeim tveimur gámum, sem greinir í dóminum. Áfrýjandinn Ísfell ehf. hefur sönnunarbyrði fyrir því hvert tjón félagsins var vegna háttsemi áfrýjandans Arnórs. Félagið hefur aflað mats dómkvadds manns um hvert tjón þess hafi orðið vegna missis hagnaðar við það að Puffin ehf. flutti inn til sölu á markaði gám með fiskilínu og fleiri vörum. Niðurstaða matsmannsins var sú að tjón áfrýjandans Ísfells ehf. vegna þessa hafi numið 6.896.443 krónum en eins og fram er komið voru fluttir til landsins tveir gámar með slíkum vörum. Félagið hefur ekki freistað þess að afla mats um tjón sitt að öðru leyti, en gerir kröfu um að skaðabætur verði ákveðnar að álitum, ef ekki verður fallist á útreikning þess sjálfs, sem gerð er grein fyrir í hinum áfrýjaða dómi. Í dóminum, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, kemur fram sú afstaða að það sé erfiðleikum bundið að leggja fram nákvæma útreikninga um rýrnun viðskiptavildar og að ekki sé unnt að ætlast til að áfrýjandinn Ísfell ehf. geti lagt fram nákvæm gögn um fjárhæð tjónsins. Til þess að skaðabætur verði dæmdar að álitum þarf að sýna fram á, auk skaðabótaábyrgðar, að tjón hafi orðið. Svo sem fram er komið hefur áfrýjandinn Ísfell ehf. sannað að félagið hafi orðið fyrir tjóni vegna háttsemi áfrýjandans Arnórs. Með vísan til niðurstöðu héraðsdóms verður fallist á að ekki sé líklegt að öflun matsgerðar dómkvadds manns sé, eins og atvikum málsins og eðli skaðabótakröfunnar í málinu er háttað, líkleg til þess að færa mætti málið að þessu leyti í þann búning að komist yrði hjá að ákveða bætur að álitum. Verður því staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að skilyrði séu til þess. Við mat á fjárhæð skaðabóta verður fyrst og fremst litið til þess að samkvæmt kaupsamningi voru greiddar 117.431.000 krónur fyrir viðskiptavild og önnur óefnisleg verðmæti og að ekki sé ágreiningur í málinu um að veigamesti þáttur þess hafi verið viðskiptasambandið við framleiðanda fiskilínu í Suður-Kóreu, sem áður hafði selt vörur sínar til Dímon línu ehf. Þá hefur sala á línukrókum einnig nokkra þýðingu. Samkeppnishömlur þær sem mælt var fyrir um í kaupsamningi áttu að standa í þrjú ár. Á hinn bóginn liggur fyrir að áfrýjandinn Ísfell ehf. hefur haldið þeim viðskiptum við línuframleiðandann, sem áður er nefndur. Samkvæmt gögnum málsins nam andvirði innflutnings Dímon línu ehf. frá þessum viðskiptavini 704.630 bandaríkjadölum á árinu 2012. Fullyrðingum áfrýjandans Arnórs um að andvirði innflutnings áfrýjandans Ísfells ehf. á vörum frá sama framleiðanda hafi á árunum 2013 til 2016 numið rúmlega 600.000 bandaríkjadölum á ári, hefur ekki verið andmælt. Lækkun frá árinu 2012 er því tæplega 100.000 bandaríkjadalir eða 300.000 bandaríkjadalir á því þriggja ára tímabili, sem samkeppnishömlur skyldu standa. Þá er ekki unnt að útiloka að frekari samkeppni hafi komið til frá öðrum innflytjendum. Að öðru leyti en varðar þessa tvo vöruflokka er ekki annað upplýst í málinu en að áfrýjandinn Ísfell ehf. hafi haldið að mestu þeim viðskiptum sem félagið yfirtók með kaupsamningnum.

Við ákvörðun skaðabóta að álitum verður að gæta hófs enda á ekki að geta falist ávinningur í því að ekki liggi fyrir sannanir um fjárhæð tjóns. Þá er þess að gæta að samningsaðilar þar sem settar eru samkeppnishömlur á annan aðilann geta ákveðið með samningi févíti eða annars konar skaðabætur og fjárhæð þeirra ef samningsaðili, eða annar sá sem skuldbindur sig samkvæmt samningum, efnir ekki skyldur sínar. Með vísan til alls framangreinds verður áfrýjandinn Arnór dæmdur til að greiða áfrýjandanum Ísfelli ehf. skaðabætur að fjárhæð 25.000.000 krónur með dráttarvöxtum eins og greinir í dómsorði.

Staðfest verður með vísan til forsendna niðurstaða héraðsdóms um sýknu stefnda.

Áfrýjandinn Arnór greiði áfrýjandanum Ísfelli ehf. málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Áfrýjandinn Ísfell ehf. greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Áfrýjandinn, Arnór Stefánsson, greiði áfrýjandanum, Ísfelli ehf., 25.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 30. mars 2017 til greiðsludags og 4.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Ákvæði héraðsdóms um sýknu stefnda, þrotabús Dofra ehf., skal vera óraskað.

Áfrýjandinn, Ísfell ehf., greiði stefnda 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti, en ákvæði héraðsdóms um málskostnað þeirra í milli þar fyrir dómi skal vera óraskað.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. mars 20107.

Mál þetta, sem dómtekið var 2. mars sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu þingfestri þann 26. febrúar 2015 af Ísfelli ehf., Óseyrarbraut 28, 220 Hafnarfirði, á hendur Arnóri Stefánssyni og Dofra ehf., báðum til heimilis að Þverási 47, Reykjavík.

I.

Stefnandi krefst þess að stefndu verði dæmdir til að greiða stefnanda sameiginlega (in solidum) 52.884.760 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 26. mars 2015 til greiðsludags.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu sameiginlega (in solidum) að mati réttarins.

Stefndu krefjast þess aðallega að þeir verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda.

Til vara krefjast stefndu þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.

Í báðum tilvikum krefjast stefndu þess að stefnanda verði gert að greiða stefndu málskostnað.

II.

Málsatvik

           Um árabil annaðist stefndi Dofri ehf. innflutning á krókum og línum frá aðila í Suður-Kóreu til sölu á markaði innanlands undir nafninu Dímon lína ehf. Eigandi Dofra ehf. og fyrirsvarsmaður er stefndi Arnór Stefánsson. Upplýsingar um framleiðanda línunnar var mjög vel geymt viðskiptaleyndarmál hjá stefndu. Eftir að rekstur félagsins var seldur stefnanda var skipt um nafn á félaginu og heitir það nú Dofri ehf. Viðskiptavinir Dímon línu ehf. voru nær eingöngu útgerðir sem veiða á línu. Dímon lína ehf. seldi jafnframt línukróka frá indversku félagi, sem m.a. er í eigu stefnda Arnórs, Beko-Dimon.

        Stefnandi gerði kaupsamning við stefnda Dímon línu ehf., dags. 5. mars 2013. Í samningnum var svokallað samkeppnisákvæði sem ætlað var að takmarka samkeppni stefndu við stefnanda í kjölfar kaupanna. Með kaupsamningi þessum keypti stefnandi rekstur og vörubirgðir Dímon línu ehf. Kaupverð var samtals 220.945.199 kr., annars vegar 90.945.199 kr. greiðsla fyrir vörubirgðir og hins vegar 130.000.000 kr. greiðsla fyrir yfirtöku á daglegum rekstri, nafni, vörumerki, viðskiptavild og öllum viðskiptasamböndum Dímon línu ehf. erlendis og hér á landi, hvort sem um er að ræða birgja eða viðskiptavini“. Jafnframt fylgdi með í kaupunum símanúmer, internettengingar, auglýsingar- og kynningarefni auk tóla og tækja sem fylgja og fylgja ber skv. fylgiskjali við kaupsamninginn. Í kjölfar samþykkis á kauptilboði var samruninn tilkynntur Samkeppniseftirlitinu og með ákvörðun frá 18. febrúar 2013 taldi Samkeppniseftirlitið ekki ástæðu til að aðhafast frekar vegna hans. Þegar fyrir lá að Samkeppniseftirlitið gerði ekki athugasemdir við yfirtöku stefnanda á rekstri stefnda Dofra ehf. var gengið frá kaupsamningi og afhendingu þann 5. mars 2013.

        Í 12. gr. kaupsamnings segir að seljandi og fyrirsvarsmaður hans, Arnór Stefánsson, skuldbindi sig til þess að stunda ekki með nokkrum hætti hvorki beint eða óbeint, að hluta til né að öðru leyti, starfsemi sem teljist í samkeppni við þann rekstur, sem yfirtekinn var samkvæmt samningnum, í þrjú ár frá afhendingardegi en í 12. gr. kaupsamnings segir að það felist í því að:

“12.1 Að vinna ekki fyrir beina samkeppnisaðila félagsins eins og starfsemin er í dag.

12.2 Að hefja ekki starfsemi sem selur sömu vörur og félagið geri nú, eiga ekki beint eða óbeint í slíku félagi eða eiga fulltrúa í stjórn þess. Sama gildir um stofnun, eignaraðild og stjórnarsetu í slíkum félögum (hlutafélögum, sameignarfélögum).

12.3 Að sækjast ekki eftir viðskiptasamböndum, umboðum og vörumerkjum, sem tilheyra félaginu við undirritun kaupsamnings þessa.

12.4. Undanskilið ákvæði þessu er eignarhald seljanda og Arnórs á krókaverksmiðju erlendis.”

        Hinn 20. nóvember 2013 tilkynnti stefndi Arnór fyrirtækjaskrá um nýtt nafn, heimilisfang og tilgang félagsins Geirsá ehf., sem hefur upp frá því heitið Puffin ehf. Tilgangur félagsins samkvæmt skráningu er tilgreindur alhliða rekstur í sjávarútvegi og eignarhald um hluti í félögum í sjávarútvegi, lánastarfsemi, innflutningur, útflutningur og skyld starfsemi. Samkvæmt ÍSAT-flokkun fyrirtækjaskrár lýtur starfsemi félagsins þó að heildverslun með skipsbúnað, veiðarfæri og fiskvinnsluvélar. Lögheimili félagsins var að Þverási 47, 110 Reykjavík, en var fært að Köllunarklettsvegi 4, 104 Reykjavík, með tilkynningu til fyrirtækjaskrár hinn 18. mars 2014. 

        Hinn 20. mars 2014 hætti Ársæll Ingi Ingason, fyrrverandi sölumaður hjá stefnda, hjá stefnanda, en stefnandi hafði yfirtekið starfssamning hans. Tveimur dögum áður var tilkynnt til fyrirtækjaskrár að Ársæll Ingi gerðist stjórnarformaður félagsins Puffin ehf. en stefndi Arnór meðstjórnandi og framkvæmdastjóri og bróðir Arnórs, Ragnar Stefánsson, gerðist meðstjórnandi.

         Hinn 8. apríl 2014 sendu Ársæll Ingi og Ragnar tilkynningu til fyrirtækjaskrár um stofnun einkahlutafélagsins Icepuffin Fishing Gear ehf. og að tilgangur félagsins væri innflutningur, sala og útflutningur á vörum tengdum sjávarútvegi og önnur skyld starfsemi.

        Um mitt ár 2014 lagði stefnandi til að gerður yrði einkakaupasamningur um kaup stefnanda á krókum af stefnda og samkvæmt samningsdrögum var gert ráð fyrir því að stefndi myndi selja stefnanda alla króka í gegnum félagið Geirsá ehf. (nú Puffin ehf.). Gert var ráð fyrir dagsektum að fjárhæð 20.000 krónur yrði brotið gegn rétti stefnanda til einkasölu. Þá óskaði stefnandi eftir því að gera viðauka við kaupsamning aðila sem gerði ráð fyrir að hert væri á samkeppnisákvæðum kaupsamningsins frá 5. mars 2013. Skyldi stefndi Arnór skrifa undir samninginn persónulega og var honum ætlaður mun lengri gildistími en þau samkeppnisákvæði sem gilda samkvæmt kaupsamningnum en stefndu féllust ekki á að undirgangast þá skilmála.       

         Um miðjan ágúst 2014 höfðu starfsmenn Samskipa hf. samband við stefnanda þar sem starfsmennirnir höfðu undir höndum farmbréf vegna innflutnings á línum og sigurnöglum/stoppurum frá Suður-Kóreu, en móttakandi sendingarinnar var sagður vera Samskip hf. á Íslandi. Töldu starfsmenn Samskipa hf. stefnanda líklegan viðtakanda gámsins þar sem á farmbréfinu kom fram að gámurinn innihéldi línuveiðarfæri frá Suður-Kóreu. Farmbréfið var gefið út hinn 4. júlí 2014 og samkvæmt því var um að ræða sendingu sem innihélt línur ásamt stoppurum. Stefnandi hafði ekki pantað þessar vörur.

         Í kjölfarið af vitneskju stefnanda um fyrrnefndan innflutning fóru fyrirsvarsmenn og starfsmenn stefnanda út til framleiðandans í Suður-Kóreu, nánar tiltekið í september 2014, og lögðu m.a. fram þýðingu á kaupsamningi aðila þannig að framleiðandanum mætti vera fullljóst um hvað stefndu hefðu samið við stefnanda. Í kjölfar heimsóknarinnar áttu aðilar með sér tölvupóstsamskipti, m.a. um viðskipti stefnda Arnórs við framleiðandann. Í tölvupósti hinn 13. október 2014 frá fyrirsvarsmanni línuframleiðandans kom fram að hann hafði þegar sent tvo gáma af línu til Beko-Dimon að beiðni stefnda Arnórs í tveimur aðskildum sendingum og var önnur sendingin sú sem stefnandi fékk fyrirspurn um frá Samskipum. Einnig upplýsti framleiðandinn að Arnór væri búinn að leggja fram pöntun fyrir þriðja gámnum en hann hafði ekki verið sendur af stað. Línuframleiðandinn gaf stefnanda loks loforð um að eiga eingöngu viðskipti við stefnanda hér á landi og samþykkti að stefnandi tæki yfir þriðja gáminn sem hafði ekki verið sendur af stað.

        Mál þetta var síðan höfðað með stefnu sem var þingfest þann 26. febrúar 2015. Í þinghaldi þann 30. október 2015 lagði stefnandi fram beiðni um dómkvaðningu matsmanns til að meta hver framlegð matsbeiðanda hefði orðið vegna sölu á línum sem fluttar voru inn um mitt ár 2014.

        Í þinghaldi þann 23. nóvember 2015 lögðu stefndu fram mótmæli við framkominni matsbeiðni og kröfðust þess að henni yrði hafnað og fór málflutningur fram um kröfuna þann 1. desember 2015. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 18. desember 2015 var fallist á kröfu stefnanda um dómkvaðningu matsmanns til að framkvæma hið umbeðna mat. Í þinghaldi þann 12. janúar 2016 var Sturla Jónsson, löggiltur endurskoðandi hjá Grant Thornton, dómkvaddur til að framkvæma hið umbeðna mat.

       Matsspurning í matsbeiðni hljóðaði svo:

       „Hver hefði hagnaður matsbeiðanda orðið af sölu á þeim línum sem fluttar voru inn með gámi sem kom til landsins í ágúst 2014 og eru nánar tilgreindar á dómskjali nr. 19. Með hagnaði er átt við söluandvirði að frádregnum beinum kostnaði af öflun vörunnar og sölu hennar. Ekki skal tekið tillit til kostnaðar sem tengist almennum rekstri matsbeiðanda, afskriftum eða skattgreiðslum nema matsmaður telji að slíkur kostnaður hefði aukist sérstaklega við innflutning og sölu á matsandlaginu.“

        Óskað var eftir því að útreikningar yrðu sundurliðaðir.

        Stefndi Dofri ehf. var úrskurðaður gjaldþrota 24. febrúar 2016 og Guðjón Ármannsson var skipaður skiptastjóri.

        Niðurstaða matsgerðar, dags. 14. mars 2016, var á þá leið að matsmaður taldi beinan kostnað við öflun og sölu varanna nema 16.237.950 kr. og er fjárhæðin sundurliðuð í matsgerð. Vænt söluverð mat hann 23.134.394 kr. Hagnaður matsbeiðanda væri þannig 6.896.443 krónur.

        Þann 16. mars 2016 lagði stefnandi fram beiðni um að embætti Tollstjóra yrði skyldað með úrskurði til að afhenda fyrir dómi aðflutningsskýrslu vegna innflutnings á farmbréfi á dskj. nr. 19, auk gagna sem upplýstu fjölda tollafgreiddra gáma til viðeigandi innflutningsaðila með sams konar innihaldi tímabilið frá 1. janúar 2014 til 15 október 2014. Tollstjóri hafnaði með rökstuðningi að afhenda umbeðin gögn. Stefnandi lagði að nýju fram beiðni þann 23. maí 2016 um að embætti Tollstjóra yrði skyldað til að afhenda upplýsingar úr tollkerfi innflutningsaðila á innihaldi gáms á umræddu farmbréfi auk upplýsinga um fjölda tollafgreiddra gáma til sama innflutningsaðila tímabilið 1. janúar til 15. október 2014. Málflutningur um kröfuna fór fram 27. júní 2016 og með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur þann 19. júlí 20916 var kröfu stefnanda hafnað. Niðurstaða héraðsdóms var kærð til Hæstaréttar Íslands og með dómi  hans nr. 558/2016 þann 18. október 2016 var fallist á kröfu stefnanda um að Tollstjóra yrði gert að afhenda Ísfelli ehf. skjal sem geymir upplýsingar úr tollkerfi um innflutningsaðila á innihaldi gáms á frambréfi, sem gefið var út 4. júlí 2014, og skjal úr tollkerfi sem geymir upplýsingar um fjölda afgreiddra gáma til sama innflutningsaðila með sams konar innihaldi á tímabilinu 1. janúar til 15. október 2014.

        Í upplýsingum frá Tollstjóra, dags. 25. október 2016, komu fram upplýsingar um innihald gámsins á dómskjali nr. 19 og upplýsingar um fjölda afgreiddra gáma með sams konar innihaldi til sama innflutningsaðila á tímabilinu 1. janúar til 15. október 2014. Um tvö tilvik væri að ræða og innflytjandi í bæði skiptin Puffin ehf., Hamarshöfða 1 í Reykjavík.

III.

Málsástæður og lagarök stefnanda

        Stefnandi vísar til þess að hann hafi keypt bæði rekstur og vörubirgðir Dímon línu ehf. af félaginu (nú stefndi Dofri ehf.) með kaupsamningi, dags. 5. mars 2013, og stefndi Arnór hafi verið eini eigandi félagsins. Samkvæmt grein 1 a kaupsamningsins yfirtók stefnandi við kaupin daglegan rekstur, nafn, vörumerki, viðskiptavild og öll viðskiptasambönd stefnda Dofra erlendis og hér á landi, hvort sem um var að ræða við birgja eða viðskiptavini, auk símanúmers, internettengingar og annarra auðkenna, svo og alls auglýsinga- og kynningarefnis og tóla og tækja sem fylgja og fylgja ber. Til vörubirgða töldust allar heilar og seljanlegar vörubirgðir, sbr. gr. 1 b kaupsamningsins.

        Með 12. gr. kaupsamningsins hafi stefndu undirgengist sameiginlega skuldbindingar sem ætlað var að tryggja yfirtöku stefnanda á hinu keypta, en þar segi:

„Seljandi og fyrirsvarsmaður hans Arnór Stefánsson skuldbinda sig til þess að stunda ekki með nokkrum hætti, hvorki beint né óbeint, að hluta til né að öðru leyti, starfsemi sem teljist getur í samkeppni við þann rekstur sem yfirtekinn er samkvæmt þessum samningi, í 3 ár frá afhendingardegi, (sjá 10. gr.) en í því felst m.a.:

  12.1      Að vinna ekki fyrir beina samkeppnisaðila félagsins, eins og starfsemi félagsins er í dag.

  12.2      Að hefja ekki starfsemi sem selur sömu vörur og félagið gerir nú, eiga ekki beint eða óbeint í slíku félagi eða eiga fulltrúa í stjórn þess. Sama gildir um stofnun, eignaraðild og stjórnarsetu í slíkum félögum (hlutafélögum, sameignarfélögum).

  12.3      Að sækjast ekki eftir viðskiptasamböndum, umboðum og vörumerkjum sem tilheyra félaginu við undirritun kaupsamnings þessa.

12.4     Undanskilið ákvæði þessu er eignarhald Seljanda og Arnórs á krókaverksmiðjum erlendis.“

         Stefnandi byggir á því að stefndi Arnór hafi með athöfnum sínum brotið gegn ákvæðum kaupsamningsins í kjölfar kaupa stefnanda á rekstri og vörubirgðum félagsins. Stefndi Arnór hafi verið eini eigandi og framkvæmdastjóri seljanda og komið einn fram fyrir það félag. Stefnandi lýsi því háttsemi stefnda Arnórs í kjölfar kaupsamningsins sem háttsemi stefndu óskipt, enda hafi stefnda Arnóri sem fyrirsvarsmanni seljanda borið að tryggja réttar efndir samningsins.

        Stefnandi telur ljóst af málsatvikum og þeim gögnum sem liggi fyrir í málinu að stefndi Arnór hafi staðið að baki því að fluttar voru inn línur frá framleiðandanum í Suður-Kóreu til sölu hér á landi í félagi, sem hann hefur augljós tengsl við. Með því hafi verið brotið gegn framangreindu ákvæði, sem bæði leggi bann við því að hefja starfsemi sem selur sömu vörur og Dímon lína ehf. gerði á þeim tíma sem kaupsamningurinn var undirritaður og bann við að sækjast eftir viðskiptasamböndum, umboðum og vörumerkjum, sem tilheyrðu félaginu við undirritun kaupsamningsins.

        Stefnandi telur jafnframt ljóst að stefndi Arnór hafi beint eða óbeint boðið línurnar, sem hann flutti inn, til sölu í trássi við 12. gr. kaupsamningsins og grein 12.1 og 12.2. Þá telur stefnandi ljóst að sala línanna hafi farið fram undir formerkjum Dímons línu, eða með tilvísun til þess að um væri að ræða sömu vörur. Þannig hafi um leið verið brotið gegn banni í 5. gr. kaupsamningsins að nota tilvísun til nafns Dímons línu ehf. Enn fremur telur stefnandi ljóst, að auk línanna frá suður-kóreska birgjanum, hafi stefndi Arnór staðið fyrir því að flytja inn og selja, beint eða óbeint, króka og tauma (ábót). Slíkt hafi verið óheimilt samkvæmt ákvæðum kaupsamningsins. Þó svo að samkvæmt undirgrein 12.4 sé eignarhald stefnda á krókaverksmiðjum erlendis undanskilið samkeppnisákvæðinu, hafi stefndu samt sem áður verið óheimilt að selja slíka króka hér á landi í smásölu, beint eða óbeint, og stunda þannig samkeppnisrekstur við stefnanda. Stefnandi telur að með framangreindri háttsemi hafi með ólögmætum og saknæmum hætti verið brotið gegn skýrum samningsákvæðum í kaupsamningi aðila. Í því sambandi skipti ekki máli hvort innflutningur og sala varanna hafi verið í nafni stefndu, félagsins Puffins ehf. eða Icepuffin Fishing Gear ehf., enda telur stefnandi ljóst af fyrirliggjandi gögnum að stefndu standi að baki innflutningi og sölu þessara félaga á línu og krókum.

        Stefnandi byggir á því að stefndu beri í sameiningu óskipta ábyrgð á þessum athöfnum stefnda Arnórs enda hafi stefndu skuldbundið sig í sameiningu til þess að stunda ekki samkeppnisrekstur við stefnanda, hvorki beint né óbeint. Auk þess hafi stefndi Arnór verið eini eigandi, stjórnarmaður og framkvæmdastjóri stefnda Dofra ehf. og tengsl þeirra því verið svo náin að ótækt sé að greina hvaða athafnir voru framkvæmdar af stefnda Arnóri persónulega eða í störfum hans sem framkvæmdastjóra og stjórnarmanns félagsins.

        Stefnandi telur ljóst að hann hafi orðið fyrir töluverðu tjóni af framangreindum athöfnum, sem stefndu beri ábyrgð á. Tjón stefnanda felist annars vegar í því að verðmæti þeirrar viðskiptavildar, sem hann keypti, hafi verið stórlega skaðað og hún ekki afhent að fullu, en hins vegar í beinu tjóni og útgjöldum þar sem stefnandi varð af viðskiptum með innfluttu línurnar og vegna kostnaðar hans af því að verja viðskiptasamband sitt við hinn suður-kóreska framleiðanda. Stefnandi sundurliðar kröfur sínar bætur vegna verðminni viðskiptavildar, tapaðrar framlegðar og aukins kostnaðar.

        Stefnandi byggir í fyrsta lagi á því að eigi hann rétt á bótum úr hendi stefndu vegna þess að háttsemi stefndu hafa leitt til þess að verðmæti hinnar keyptu viðskiptavildar hafi skaðast og hann ekki fengið hana afhenta að fullu eða með réttum hætti, en kaup á viðskiptavild hafi verið stærsti hluti kaupverðsins. Hin keypta viðskiptavild sé endurgjald fyrir yfirtöku á viðskiptum Dímons línu ehf., hvort tveggja við birgja félagsins og viðskiptamenn. Til þess að tryggja að stefnandi fengi tækifæri til að taka þessi viðskiptasambönd yfir og festa í sessi hafi stefndu lofað að taka ekki upp starfsemi sem væri í samkeppni við stefnanda eða leita eftir því að komast yfir þau viðskiptasambönd eða umboð, sem stefnandi var að greiða fyrir að taka yfir. Viðskiptasambönd séu ekki afhent eins og lausafé, heldur með því að seljandi kynnir kaupanda fyrir viðskiptamanni og veitir síðan kaupandanum frið og aðstoð til að koma í hans stað í viðskiptunum. Yfirtaka og afhending á viðskiptasamböndum taki því ávallt nokkurn tíma og í samningi aðila sé við það miðað að þrjú ár taki að ná þeim árangri að kaupandi hafi tekið yfir viðskiptasambönd og hafi öðlast traust viðskiptamanna. Yfirfærsla viðskiptasambanda sé viðkvæmt ferli og framkoma seljanda viðskiptavildar ráði mestu um það hvort kaupanda er mögulegt að ná að festa viðskiptasambönd í sessi. Til að verja hina keyptu viðskiptavild og tryggja flutning hennar til kaupanda sé undantekningarlaust samið um að seljandi lofi í tiltekinn tíma að leita ekki eftir að ná sömu viðskiptasamböndum til baka til sín eftir að sala hefur átt sér stað. Þrátt fyrir að það tíðkist að hafa slíka tímabundna takmörkun á heimildum seljanda, eru viðskiptavildin og viðskiptasamböndin eftir sem áður seld varanlega og verðlagning taki mið af því.

        Stefnandi telur sannað að ári eftir að stefndu seldu stefnanda viðskiptavild sína vegna Dímon-línunnar og annarra vara hafi stefndu ákveðið að nýta sér hina sömu viðskiptavild til tekjuöflunar fyrir sig og samstarfsaðila sína á kostnað stefnanda. Stefndu hafi með þeim hætti stöðvað afhendingu eða flutning viðskiptavildarinnar til stefnanda og farið að vinna í því að endurheimta að nýju hina seldu viðskiptavild. Með því hafi stefndu brotið gróflega samning aðila. Þar sem viðskiptavild sé óefnisleg verðmæti, en verðmæti hennar taki mið af ætluðum hagnaði til framtíðar af viðskiptasamböndum, verði tjón stefnanda vegna brota stefnda ávallt matskennt. Þá sé ljóst að innkoma stefndu á markaðinn að nýju með undirboðum hafa varanlega skaðað möguleika stefnanda til álagningar á línuna en hafa verði í huga að endurgjaldið fyrir viðskiptavildina taki almennt mið af væntum hagnaði af viðskiptunum.

        Stefnandi telur að taka megi mið af forsendum í kauptilboði hans í rekstur Dímons línu ehf. við mat á tjóninu. Samkvæmt forsendum tilboðsins voru árlegar tekjur árið 2012 Dímons línu ehf. 326.400.000 kr. Tekið var mið af því að væntanlegar tekjur stefnanda af kaupunum myndu nema 80% af þessari fjárhæð. Stefnandi hafði áætlað að 20% af tekjunum hafi verið vegna beitu- og netasölu en litið var til áranna 2010-2012 við þá áætlun. Stefnandi mat það sem svo að félagið myndi ekki auka tekjur sínar vegna þeirra vara við kaupin á rekstri stefndu. Verðmæti hinnar keyptu viðskiptavildar hafi þannig falist í metnum ávinningi af yfirtöku á viðskiptum með Dímon-línuna og króka, sem var áætlaður 80% af sölu félagsins fyrir kaup stefnanda. Söluspá, sem stefnandi lagði til grundvallar, var að árleg sala yrði 261.120.000 kr. (326.400.000 kr. x 80%). Til að finna út áætlaðan árlegan hagnað komi kostnaðarliðir til frádráttar. Kostnaðarverð seldra vara var áætlað 71,5% af þessari fjárhæð, nánar tiltekið 186.700.800 kr. Laun og launatengdur kostnaður var áætlaður 24 m.kr. árlega. Fastakostnaður var metinn 20.889.600 kr. Árlegur hagnaður var því metinn 29.529.600 kr. og var gert ráð fyrir 5% hækkun allra liða árlega næstu 10 árin. Út frá þessum forsendum hafi stefnandi gert tilboð sitt í rekstur, þ.e. 130 m.kr. en jafnframt hafi verið tekið tillit til tækjabúnaðar, sem var metinn á um 12.569 þús. kr. Greiðsla stefnanda fyrir yfirtöku á viðskiptasamböndum stefndu hér á landi og erlendis vegna sölu á línu og krókum hafi því verið 117.431 þús. kr.

        Með því að stefndu hófu sjálfir viðskipti við línuframleiðandann og buðu sömu vöru og stefnandi til sölu hér á landi, þ.e. línu og króka og tauma (ábót), verði að líta svo á að sú viðskiptavild, sem stefnandi greiddi stefndu fyrir, hafi ekki verið með réttum hætti eða að fullu afhent. Stefnandi telur réttmætt að líta svo á að stefndu hafi stöðvað eða hætt afhendingu á viðskiptavild er þeir hófu að vinna í að ná viðskiptasamböndunum til baka til sín. Hin keypta viðskiptavild hafi því ekki verið að fullu afhent í samræmi við samning aðila. Afhending á viðskiptavildinni hafi falist í því að stefndi fengi að njóta friðar í 3 ár til að byggja upp viðskiptasambönd við fyrrum viðskiptamenn stefndu hér á landi og erlendis.   

        Með því að hefja sölu á sömu línu og stefnandi á lægra verði en hann hafi stefndu einnig varanlega skaðað möguleika til álagningar við sölu á línunni og dregið úr sölu stefnanda. Hvort tveggja skaði verðmæti viðskiptavildar. Tjón vegna þessa eigi eftir að koma fram á löngum tíma en hafi þegar komið fram að hluta sem töpuð sala stefnanda. Sjálfstæð bótakrafa sé gerð vegna þess tjóns. Stefnandi byggi á því að hann eigi rétt á bótum vegna skerðingarinnar á hinni keyptu viðskiptavild sem nemur 39.143.667 kr. og sú fjárhæð sé varlega áætluð og áskilur stefnandi sér rétt til að hækka hana ef kemur til þess að lagt verði mat á hana af matsmönnum. Fjárhæðin sé þannig metin að um helmingi af verðmæti viðskiptavildarinnar, 117.431.000 kr., er deilt niður á þau 3 ár, sem stefnandi átti að njóta til að yfirtaka viðskiptavild stefndu, eða 19.571.833 kr. á ári (39.143.667 vegna tveggja ára). Þá sé við það miðað að stefnandi hafi aðeins notið eins árs af þeim þremur, sem samningurinn gerði ráð fyrir að hann hefði til yfirtöku á viðskiptasamböndum stefndu og friðar frá mögulegri samkeppni við þá. Með því að draga helming af verðmæti viðskiptavildar frá kröfum sínum á hendur stefndu sé stefnandi að gæta sanngirnis í kröfum sínum og horfa til þess að stefndu komu honum í samband við viðskiptamenn hans, m.a. hinn suður-kóreska framleiðanda. Það mat byggist á því að stefnanda tókst með eigin vinnu og kostnaði að halda í viðskiptasamband við framleiðanda línunnar í Suður-Kóreu, a.m.k. í bili en óvíst sé hvað framtíðin ber í skauti sér, enda liggi fyrir að stefndi Arnór sé leynt og ljóst að vinna í því að ná aftur til sín umræddu viðskiptasambandi. Stefnandi krefjist hins vegar bóta fyrir útlagðan kostnað við að halda í umrætt viðskiptasamband. Stefnandi byggir þannig á því að stefndu haldi stærstum hluta söluverðs viðskiptavildarinnar eða rúmum 78 m.kr., þrátt fyrir alvarleg brot þeirra gagnvart stefnanda. 

        Fallist dómurinn ekki á forsendur stefnanda fyrir bótum vegna brota gegn samningnum og skerðingar á viðskiptavild er krafist skaðabóta að álitum dómsins, enda eigi hér við sambærileg sjónarmið og er ákveða þarf bætur fyrir missi hagnaðar, og greiðsla fyrir viðskiptavild sé greiðsla fyrir að njóta framtíðarhagnaðar.

        Stefnandi krefst í öðru lagi bóta vegna tapaðrar framlegðar vegna sölu á línum hér á landi, vegna innflutnings á árinu 2014, í trássi við framangreint ákvæði 12. gr. kaupsamningsins. Stefnandi telur ljóst að stefndi Arnór hafi staðið að baki innflutningi gámanna tveggja og komið þeim í sölu, sbr. staðfestingu framleiðandans í Suður-Kóreu og nú upplýsingar frá Tollstjóra, dskj. 47. Stefnandi hafi í lok mars haft spurnir af því að stefndu og Ársæll Ingi væru að kynna viðskiptavinum það að þeir myndu hefja sölu línu fljótlega en flutningur gáms hingað til lands frá Suður-Kóreu tekur um 2 mánuði. Síðari gámurinn hafi farið af stað frá Seoul 4. júlí 2014, sbr. farmbréf þess efnis og komið hingað til lands um tveimur mánuðum síðar.

          Þar sem stefnandi sé eini aðilinn utan stefnda, sem hafi selt þessar línur hér á landi, telur stefnandi ljóst að sú framlegð sem reikna má af vörunum, sem voru fluttar inn og seldar, sé lágmarkstjón stefnanda af hinum óheimila innflutningi stefndu.

Tímabil

Innkaupsverð (USD)

Töpuð sala/útsöluverð (USD)

Þar af töpuð framlegð (USD)

Töpuð framlegð (ISK)

 

júní/júlí 2014

110.000

161.765

51.765

6.058.058

 

 ágúst 2014

110.000

161.765

51.765

6.058.058

Samtals

220.000

323.530

103.530

12.116.116

„Útreikningurinn byggir á því að stefndu hafi flutt inn og selt „Dímon-línur“ úr tveimur gámum. Áætla má að í hverjum gámi hafi verið á bilinu 800-1000 línur og meðalinnkaupsverð miðað við 900 línur sé um 110.000 bandaríkjadölum [svo] (USD). Áætlað útsöluverð miðað [svo] við þá álagningu sem stefndu og stefnandi hafa notast við á þessa línu. Töpuð framlegð af hvorum gámi fyrir sig nemur mismuninum á áætluðu innkaupsverði og útsöluverði, þ.e. 51.765 bandaríkjadalir vegna hvors gáms um sig eða samtals 103.530 bandaríkjadalir. Þar sem ekki er vitað nákvæmlega hvenær ársins sala á línunum fór fram tekur stefnandi mið af meðaltals sölugengi bandaríkjadals árið 2014 skv. Seðlabanka Íslands, þ.e. 117,03. Krónutalan er fundin með margfeldi af 103.530 og 117,03, samtals 12.116.116 kr. Sjá einnig á dskj. nr. 25. Að sjálfsögðu er um að ræða áætlun stefnanda.“

        Stefnandi krefst í þriðja lagi bóta vegna þess kostnaðar sem hann þurfti að ráðast í til að takmarka tjón sitt og fara ítrekað á fund með framleiðanda línanna í Suður-Kóreu til að reyna að halda í viðskiptasamband það, sem stefndu seldu honum. Stefnandi krefst beins kostnaðar hans af síðari tveimur ferðum fyrirsvarsmanna stefnanda til suður-kóreska birgisins í maí og september 2014 í kjölfarið af upplýsingum um meint brot stefndu. Stefnandi metur það sem svo að fyrsta heimsóknin til birgisins  2013 hafi verið eðlilegt framhald af kaupum stefnanda á viðskiptasamböndum við birginn en telur ljóst að síðari ferðirnar tvær hafi verið bein afleiðing brota stefndu á samkeppnisákvæði kaupsamnings aðila. Beinn kostnaður af ferðunum tveimur hafi numið 1.624.978 kr., sem sundurliðast með eftirfarandi hætti:

Ferð

maí.14

sep.14

Ferðakostnaður

470.326

573.317

Gistikostnaður

95.459

149.872

Dagpeningar erlendis

201.670

134.334

Samtals

767.455

857.523

Krafa stefnanda um skaðabætur byggir á sjónarmiðum um skaðabætur innan samninga en stefnandi telur að stefndu beri hvor um sig fulla ábyrgð á því að brotið hafi verið gegn skilmálum kaupsamningsins um samkeppnisbann. Stefnandi byggir á því að ekki sé hægt að greina háttsemi stefndu í sundur og því beri þeir óskipta ábyrgð á öllu tjóni stefnanda vegna brota gegn kaupsamningi aðila.

       Verði ekki fallist að fullu á framangreint byggir stefnandi sjálfstætt á því gagnvart stefnda Dofra ehf. að hann eigi kröfu um afslátt af kaupverði viðskiptavildarinnar þar sem ekki hafi verið staðið við að hann fengi 3 ár til að yfirtaka hana gagnvart viðskiptamönnum stefndu sem svari til þess að sú viðskiptavild, sem hann keypti, hafi ekki verið að fullu afhent.

        Stefnandi byggir á því að í óskiptri kröfu hans á hendur stefndu felist jafnframt sá möguleiki að þeir beri skipta ábyrgð eða aðeins óskipta ábyrgð að hluta. Þannig byggir stefnandi á því að fái hann ekki fullar bætur úr hendi stefndu sameiginlega eigi hann rétt á því að fá afslátt af kaupverði sem þessu nemur.

        Samtals nemur krafa stefnanda á hendur stefndu 12.116.116 kr.+ 1.624.978 kr. + 39.143.666 kr. = 52.884.760 kr. Fallist dómurinn ekki á kröfu stefnanda er krafist bóta að álitum dómsins.

       Stefnandi byggir á því að hann eigi rétt á dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá því að mánuður er liðinn frá þingfestingu stefnu til greiðsludags, sbr. 3. mgr. 5. gr. laganna.

        Kröfur stefnanda eru byggðar á meginreglum kröfu- og samningaréttarins um efndir og skuldbindingargildi samninga og um bætur innan samninga. Um aðild vísar stefnandi til 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

        Málskostnaðarkröfur styðjast við 1. mgr. 129. gr. og 1. og 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. 

         Um varnarþing vísast til 1. mgr. 32. gr., 1. mgr. 33. gr. og 1. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

IV.

Málsástæður og lagarök stefndu

        Stefndu byggja á því að þeir hafi í engu brotið gegn ákvæðum samnings síns við stefnanda og að þeir beri enga skaðabótaábyrgð á tjóni, sem stefnandi kann að hafa orðið fyrir. Þá hafna stefndu því enn fremur að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni. Þá er útreikningum stefnanda á meintu tjóni mótmælt. Stefnandi krefjist bóta frá Dofra ehf. og Arnóri óskipt vegna brota á samkeppnisákvæði kaupsamnings og vegna viðskiptavildar, sem ekki hafi verið afhent stefnanda að fullu. Engin rök séu færð fyrir því að Dofri ehf. og Arnór eigi að bera sameiginlega og óskipta ábyrgð á meintu tjóni stefnanda. Ekki verði talið að Arnór geti borið ábyrgð á því að Dofri ehf. hafi ekki afhent hið selda líkt og haldið sé fram í stefnu en stefnandi vísi um þann þátt málsins til reglna um skaðabætur innan samninga. Þá hafi Dofri ehf. ekki haft neina starfsemi með höndum og því vandséð hvernig félagið geti borið ábyrgð á brotum gegn samkeppnisákvæði kaupsamnings. Af þessum sökum sé kröfugerð stefnanda ótæk í því formi sem hún er.

        Stefndi Dofri ehf. hafi hvorki tekið þátt í viðskiptum með króka né línur á Íslandi. Því sé ekki haldið fram í stefnu að svo hafi verið og engin gögn verið lögð fram því til stuðnings. Því sé ljóst að stefndi Dofri ehf. hafi ekki brotið gegn ákvæðum kaupsamningsins frá 5. mars 2013 með þeim hætti sem tilgreindur er í stefnu.

        Í 5. gr. kaupsamnings aðila segi að seljandi lofi því að „viðskiptasambönd rekstrarins og viðskiptavild hafi ekki beðið hnekki og muni ekki bíða hnekki fram að afhendingu“. Ákvæðið verði ekki skilið á annan veg en þann að áhættan af verðmæti viðskiptavildarinnar sé alfarið kaupanda eftir afhendingu. Samkvæmt 9. gr. samningsins afhendist allar eignir stefnda Dofra í einu lagi þann 5. mars 2013. Samningurinn verði ekki skilinn á annan veg en þann að í kjölfar afhendingarinnar beri stefnandi alla áhættu af rekstrinum. Stefndu geti því ekki borið ábyrgð á því ef til verri vegar horfi í rekstri stefnanda eftir afhendingu hins selda. Þá segi beinlínis í ákvæði 14.3 í kaupsamningi aðila að það sé á ábyrgð kaupanda að ávinna sér þá viðskiptavild sem tilheyrir hinum keypta rekstri. Annað verði ekki ráðið af þessari yfirlýsingu kaupanda en að seljandi beri enga ábyrgð á því hvernig til takist með rekstur stefnanda eftir að hið selda hefur verið afhent. Stefnandi byggi kröfur sínar um bótaábyrgð á reglum um bótaábyrgð innan samninga. Stefndu hafna því að þær reglur leiði til þess að stefnandi eigi nokkurn bótarétt á hendur stefndu. Hvorugur stefndu hafi tekist á hendur skuldbindingar varðandi breytingar á verðmæti hins selda eftir afhendingu. Rétt sé að taka það fram varðandi samkeppnisákvæði kaupsamnings aðila að ákvæði samningalaga eiga við um stefnda Arnór en samkvæmt 37. gr. þeirra verði loforð sem takmarkar atvinnufrelsi ekki skuldbindandi takmarki það atvinnufrelsi viðkomandi með ósanngjörnum hætti og atvinnufrelsi sé verndað af stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Túlka verði hömlur á atvinnufrelsi þröngt með hliðsjón af því. Að því leyti sem vafi sé uppi um túlkun ákvæðisins verði að túlka hann Arnóri í hag.

        Stefndu telja að hagsmunir stefnanda af samkeppnisákvæðinu séu takmarkaðir. Svo sem fram komi í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins sé töluverð samkeppni fyrir á markaðnum og hafi því verið haldið fram í samrunaskrá stefnanda til Samkeppniseftirlitsins og sé því ekki umdeilt. Stefnandi hafi því alltaf mátt búast við samkeppni á markaðnum sem kynni að hafa neikvæð áhrif á sölu hans. Meint óheimil samkeppni frá stefndu hefði varla ráðið úrslitum um velgengni stefnanda í sölu á krókum og línum og enda hafi ekki verið sýnt fram á að svo sé.

        Í samkeppnisákvæði kaupsamnings aðila sé sérstaklega tilgreint að stefndi skuli ekki vinna fyrir „samkeppnisaðila félagsins, eins og starfsemi félagsins er skilgreind í dag“ skv. 1. tölulið 12. gr. samningsins. Ekki sé ljóst til hvers orðið félagið vísar í tilvitnuðu ákvæði kaupsamningsins. Félagið Puffin ehf. geti ekki talist keppinautur hins selda rekstrar þar sem félagið hafi aðeins milligöngu um sölu króka sem undanskildir eru samkeppnisákvæði kaupsamnings aðila. Þá sé stefndi Arnór ekki aðili að kaupsamningnum, dags. 5. mars 2013, heldur aðeins stefndi Dofri. Stefndi Arnór riti ekki undir samninginn fyrir eigin hönd heldur aðeins fyrir hönd stefnda Dofra ehf. svo sem skýrlega er tilgreint í samningnum. Stefndu hafna því að tölvupóstsamskipti á dómskjölum nr. 20-22 sýni fram á að stefndu hafi brotið gegn ákvæðum samnings aðila. Efni tölvupóstanna sé óljóst og engin leið að staðreyna eða hrekja þær fullyrðingar sem settar eru fram í þeim sökum þess hversu ónákvæmar og óskýrar þær eru. Hvergi komi skýrlega fram í þessum gögnum að stefndu hafi brotið gegn ákvæðum kaupsamningsins. Í tölvupóstum á milli Arnórs og hinna suður-kóresku framleiðenda komi skýrlega fram að Arnór hafi heimsótt þá til þess að tryggja yfirfærslu viðskiptasambandsins við þá til stefnanda og hann því fullnægt skyldum sínum gagnvart stefnanda samkvæmt kaupsamningi aðilanna. Þá sé áskilið í kaupsamningi aðila að leitast skuli við að jafna ágreining á milli þeirra áður en mál er höfðað. Það hafi ekki verið gert og stefnandi með því brotið gegn kaupsamningi aðila.

         Stefndu telja ekkert hafa komið fram sem bendi til þess að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni sem stefndu geta borið ábyrgð á. Stefndu geti ekki borið ábyrgð á því ef viðskipti stefnanda reynast ekki jafn ábatasöm og hann hefði viljað og tóku ekki á sig neina ábyrgð á því að hinn seldi rekstur yrði áfram jafn arðbær. Alkunna sé að viðskipti ganga misvel. Stefnandi hafi ekki lagt fram nema mjög takmarkaðar upplýsingar úr rekstri sínum sem benda til þess að hann sé síður arðsamur en áður eða að arðsemi hins keypta rekstrar sé minni en áður. Þar sem engum fullnægjandi gögnum sé til að dreifa um það að dregið hafi úr arðseminni sé eðlilegast að líta svo á að ekkert tjón hafi orðið. Rétt sé að taka fram að félagið VOOT BEITA ehf. hóf að selja fiskilínur í samkeppni við stefnanda í kjölfar þess að stefnandi keypti rekstur stefndu. Á dómskjali 24, sem stefnandi hefur lagt fram, komi í ljós að tekjur hans af sölu fiskilínu hafi dregist saman um rúmar þrjátíu milljónir. Það gerðist á sama tíma og VOOT BEITA ehf. hóf að selja fiskilínur. Félagið sé staðsett í Grindavík og var stofnað af útgerðarfélaginu Vísi hf., sem sé stærsti útgerðaraðili línubáta á landinu. Þeir séu á meðal helstu kaupenda veiðarfæra og beitu. Kostnaður við línu sé að jafnaði tæpar tíu milljónir á bát en Vísir gerir út nokkra línubáta. Nærtækt sé að ætla að samdrátt í sölu stefnanda megi rekja til þessara breytinga, sem eru óháðar stefndu. Mikið hafi borið á VOOT BEITU ehf. á innlendum markaði að undanförnu og félagið virðist í mikilli sókn. Engin fordæmi séu fyrir jafn háum bótum og stefnandi geri kröfu um í málum sem varði brot gegn samkeppnisákvæðum, sambærilegum því sem hér er um að ræða. Það væri mjög ósanngjarnt og íþyngjandi fyrir stefndu ef þeim yrði gert að greiða svo háar bætur sem gerð er krafa um. Þá sé ekki enn liðinn sá tími sem samkeppnistakmarkanir skulu gilda en dómur geti ekki skírskotað til atvika sem síðar kunna að koma fram skv. 114. gr. laga um meðferð einkamála. Það tjón sem stefndi telur sig hafa orðið fyrir geti ekki legið fyrir nú þegar. Ekki sé útilokað að hagnaður stefnanda af hinum keypta rekstri verði umtalsverður á yfirstandandi ári. Það hlyti að leiða til lækkunar á kröfum stefnanda en slíkt væri ómögulegt hefði dómur þegar gengið.

        Stefnandi reikni tapaða viðskiptavild út frá skjali nr. 3 á skjalalista stefnanda, sem er nefnt „Tilboð Ísfells í rekstur Dímon línu ehf.“. Þar sé hins vegar ekki um eiginlegt tilboð að ræða heldur útreikning stefnanda á verðmæti hins keypta rekstrar. Þessi útreikningur hafi aldrei verið afhentur stefndu og er því mótmælt að hann hafi nokkra þýðingu fyrir mál þetta. Þá verði því engan veginn haldið fram að núvirt framtíðarvirði hins keypta rekstrar, byggt á forsendum stefnanda, geti orðið grundvöllur mats á tjóni. Stefnandi geti augljóslega gefið sér hvaða forsendur sem er við slíka útreikninga. Þá verði ekki annað ráðið en að útreikningurinn nái til allrar framtíðar en ekki aðeins þeirra ára, sem liðin eru frá gerð kaupsamningsins og stefnandi vísar sérstaklega til. Þá sé ljóst að stefnandi hafi enn umráð yfir hinum selda rekstri og verði því meint heildarvirði hans ekki lagt til grundvallar mati á hugsanlegu tjóni stefnanda. Stefndu mótmæla því að viðskiptavild hafi ekki verið afhent að fullu og er útreikningi á viðskiptavild mótmælt. Skýrlega komi fram í stefnu að stefndi hafi kynnt stefnanda fyrir erlendum birgjum Dímons línu ehf. og að viðskiptasamband stefnanda og erlendra birgja hafi hafist í kjölfarið. Stefnandi flytji nú inn vörur frá þessum birgjum eftir því sem fram komi í stefnu. Stefndu hafi því fullnægt skuldbindingum sínum að þessu leyti.

       Stefndu taka fram að viðskiptavild, að því leyti sem hún er skilgreind í lögum, feli í sér mismun á hreinni eign keypts félags og kaupverði þess. Viðskiptavildin endurspegli þannig áætlaða framtíðartekjumöguleika keypts félags eða rekstrar. Gert sé ráð fyrir því í lögum að viðskiptavild geti verið hvort heldur sem er jákvæð eða neikvæð. Viðskiptavild sé ýmist endurmetin með virðisrýrnunarprófi eða afskrifuð í bókhaldi. Því megi ætla að hún sé á meðal eignaliða í efnahagsreikningi stefnanda en hann sé ekki lagður fram í máli þessu. Viðskiptavild sé ekki eitthvert fyrirbæri sem verði afhent í eiginlegum skilningi enda sé fyrst og fremst um að ræða getu keypts rekstrar til þess að skila hagnaði. Það sé ávallt kaupandans að gera sitt besta til þess að raungera þá viðskiptavild sem hann hafi keypt. Viðurkennt sé að keypt viðskiptavild skili sér mögulega ekki nema á mjög löngum tíma, samanber heimilan afskriftartíma viðskiptavildar og útreikninga stefnanda sjálfs. Því verði ekki haldið fram að viðskiptavild eigi að skila sér á einhverjum tilteknum tíma og útreikningar stefnanda á dómskjali nr. 3 sýni það. Ekki verði dregin sú ályktun af kaupsamningi aðila að lofað hafi verið einhverri tiltekinni viðskiptavild. Kaupandi hafi haft sjálfdæmi um það við tilboðsgerð sína hversu hátt tilboð hann gerði og þar með hversu hárri viðskiptavild hann reiknaði með. Þegar félög eða rekstur ganga kaupum og sölum komist aðilar jafnan að niðurstöðu um verð byggt á afstöðu þeirra til verðmætis þeirra eigna og þess rekstrar sem fyrir hendi er. Niðurstaða þeirra um verðmætið ráðist óhjákvæmilega að nokkru leyti af þeim hugmyndum sem þeir gera sér um þróun og horfur á þeim mörkuðum sem um ræðir. Mismunurinn á verðmæti eigna og kaupverði, sem færður er sem viðskiptavild, ráðist þannig af huglægri afstöðu stefnanda og bókfærðu virði eigna. Sá útreikningur verði ekki notaður sem grundvöllur að bótum vegna tapaðrar viðskiptavildar. Verðmæti hins keypta rekstrar geti breyst af ýmsum sökum og þar með viðskiptavildin. Stefnandi geti ekki hafa haft réttmætar væntingar til þess að enginn myndi hefja innflutning á sams konar vörum og um var að ræða og hefja samkeppni við hann. Í innflutningsviðskiptum tíðkist ekki að gera einkakaupasamninga enda kynni það að vera ólögmætt vegna ákvæða samkeppnislaga. Engin loforð hafi verið gefin um það að erlendir birgjar stefnda Dofra ehf. myndu ekki selja öðrum félögum á Íslandi enda væri það ekki á forræði stefndu að lofa slíku. Stefnandi krefjist viðskiptavildar fyrir tvö ár þrátt fyrir að ekkert liggi fyrir um það hvernig viðskipti stefnanda muni ganga það sem eftir lifir tímabilið sem um ræðir. Því er mótmælt að krefjast megi bóta vegna óorðinna atburða.

        Stefnandi krefst einnig bóta vegna tapaðrar framlegðar. Stefnandi telji ljóst að hann hefði selt þær línur sem fluttar voru inn í tveimur gámum hefðu gámarnir ekki verið fluttir inn af einhverjum öðrum. Útreikningur stefnanda hvað þennan lið varðar byggir á mjög veikum grunni en ekki hefur verið sýnt fram á það að umræddar línur hafi verið seldar, hvað þá að þær hafi verið ætlaðar stefndu. Framlögð farmbréf beri enn fremur ekki með sér að um hafi verið að ræða nema einn gám. Stefndi hafnar því öllum forsendum þessa útreiknings. Þá verði að ætla að hér sé tvítalið meint tjón í kröfugerð þar sem lögð er saman töpuð framlegð og töpuð viðskiptavild en enginn munur ætti að vera á minni viðskiptum vegna viðskiptavildar sem raungerist ekki og tapaðrar framlegðar. Af þeirri ástæðu beri einnig að hafna þessum lið kröfunnar.

          Loks er mikil samkeppni á þeim markaði sem um ræðir líkt og stefnandi hélt fram í samrunaskrá sinni til Samkeppniseftirlitsins. Því sé útilokað að ætla að stefnandi hefði selt allt það magn af vörum sem var í gámunum hefði ekki komið til innflutnings þeirra, en áætluð markaðshlutdeild stefnanda eftir kaupin á rekstri stefndu var 41,1% samkvæmt samrunaskrá, sem stefnandi sendi Samkeppniseftirlitinu. Þá verði ekkert ráðið um framlegð stefnanda út frá þeim upplýsingum sem hann leggur fram. Sá útreikningur framlegðartaps, sem lagður hefur verið fram, sé án allra skýringa. Á skjalinu komi fram að framlegðarhlutfall vegna sölu á línum hafi verið rúm 30% á árunum 2013 og 2014 en ekkert segi um það hvaða kostnaðarliðir hafi þá verið dregnir frá. Einfaldasta leiðin við að reikna út framlegð sé að draga innkaupsverð frá söluverðmæti. Þá sé hins vegar eftir að taka tillit til ótal kostnaðarliða sem til falla svo sem launakostnaðar, fjármagnskostnaðar, hlutdeildar í stjórnunarkostnaði og dreifingarkostnaðar. Því er mótmælt að tilvitnað framlegðarhlutfall verði lagt til grundvallar. Lína, eins og sú sem var í gámunum, sé aukinheldur ekki tilbúin söluvara þar sem setja þarf á hana króka og tauma áður en hún er seld. Ekki sé tekið tillit til slíks kostnaðar í kröfugerð stefnanda en ætla má að hann sé um 15% af söluverðmæti línunnar.

        Stefnandi geri kröfu um bætur vegna kostnaðar við að verja viðskiptasamband. Ekki verði séð að um sé að ræða tjón, sem stefnandi geti borið ábyrgð á. Viðskiptasamband stefnanda við umrætt félag sé enn fyrir hendi. Stefndu hafi ekki gert neina tilraun til þess að skaða þetta viðskiptasamband en þvert á móti gert sér sérstaka ferð til viðkomandi birgja til þess að tala máli stefnanda og það hafi verið staðfest af Se-Hyun Jang. Samkeppnisákvæði kaupsamnings stefnda og stefnanda sé enn fremur takmarkað við samkeppni á Íslandi. Stefndu væri því fullkomlega heimilt að eiga viðskipti við birginn vegna annarra umsvifa sinna. Þar fyrir utan sé ekki óalgengt að fyrirtæki í innflutningi hitti erlenda birgja sína einu sinni til tvisvar á ári.

        Í kröfugerð sinni krefjist stefnandi aðeins tilgreindra bóta en geri ekki kröfu um bætur vegna tjóns að álitum. Það sé allt að einu gert síðar í stefnunni sem hluti af málsástæðum stefnanda. Þar sem ekki sé um að ræða hluta af kröfugerð stefnanda er því mótmælt að krafa um bætur að álitum komist að í málinu. Í stefnu geri stefnandi áskilnað um að kröfugerð kunni að vera hækkuð umfram stefnufjárhæð. Því er sérstaklega mótmælt að kröfugerð verði hækkuð með þeim hætti. Loks geri stefnandi kröfu um afslátt í stefnu þrátt fyrir að það sé ekki á meðal dómkrafna hans. Því er enn fremur mótmælt að sú krafa komist að í málinu enda ekki hluti af kröfugerð stefnanda.

        Kröfu um sýknu byggja stefndu á meginreglum kröfu- og samningaréttar og reglum um efndir og skuldbindingargildi samninga og um bætur innan samninga. Þá er byggt á ákvæði 37. gr. laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, nr. 7/1936 og 75. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944. Vísað er til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 varðandi réttarfarsatriði.

        Krafa stefndu um málskostnað grundvallast á 129. gr., sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

V.

Niðurstaða

        Við aðalmeðferð gaf skýrslu Gunnar Skúlason, framkvæmdastjóri stefnanda, og vitnið Jón Sturla Jónsson, löggiltur endurskoðandi, sem staðfesti matsgerð sína, dags. 14. mars 2016.

        Eins og rakið hefur verið koma fram í upplýsingum frá Tollstjóra, dags. 25. október 2016, upplýsingar um innihald gámsins á dómskjali nr. 19 og upplýsingar um fjölda afgreiddra gáma með sams konar innihaldi til sama innflutningsaðila á tímabilinu 1. janúar til 15. október 2014. Um tvö tilvik var að ræða og innflytjandi í bæði skiptin Puffin ehf., Hamarshöfða 1 í Reykjavík. Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir að stefndi Arnór var á umræddum tíma bæði framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Puffins ehf. Stefndi Arnór hafði átt einkahlutafélagið Geirsá ásamt því að eiga Dofra ehf. og var hann eini eigandi og stjórnarmaður félagsins. Þann 20. nóvember hafði Arnór tilkynnt nýtt nafn og tilgang félagsins, nýja nafnið var Puffin ehf. og tilgangur þess alhliða rekstur í sjávarútvegi og eignarhald hluta í félögum í sjávarútvegi, inn- og útflutningur. Lögheimili, sem verið hafði að Þverási 47 í Reykjavík var með tilkynningu til fyrirtækjaskrár  18. mars 2014 fært að Köllunarklettsvegi 4 í Reykjavík og að Ársæll Ingi Ingason, sem var starfsmaður stefnanda, en stefnandi hafði yfirtekið samning hans við kaupin á rekstri Dímons línu, hefði tekið sæti sem stjórnarformaður og stefndi Arnór yrði meðstjórnandi og framkvæmdastjóri. Ársæll Ingi sagði upp starfi sínu hjá stefnanda 20. mars sama ár.       

        Í 12. gr. kaupsamnings aðila var kveðið á um að seljandi og fyrirsvarsmaður hans, Arnór Stefánsson, skuldbindi sig til þess að stunda ekki með nokkrum hætti hvorki beint eða óbeint, að hluta til né að öðru leyti, starfsemi sem teljist í samkeppni við þann rekstur, sem yfirtekinn var samkvæmt samningnum, í þrjú ár frá afhendingardegi, og nánar gerð grein fyrir því hvað í því fælist í liðum 12.1 til 12.4. Telja verður að með innflutningi á þeim tveimur gámum, sem tilgreindir eru í upplýsingum frá Tollstjóra, dags. 25. október 2016, en þar komu fram upplýsingar um innihald gámsins á dómskjali nr. 19 og upplýsingar um fjölda afgreiddra gáma með samskonar innihaldi til sama innflutningsaðila á tímabilinu 1. janúar til 15. október 2014, hafi stefndi Arnór brotið gegn ákvæðum 12. gr. kaupsamnings aðila. Í því sambandi verður ekki talið skipta máli þó hann riti einungis undir kaupsamninginn fyrir hönd Dímons línu ehf., en tekið er fram í 12. gr. samningsins að bæði seljandi og fyrirsvarsmaður hans, Arnór Stefánsson skuldbindi sig samkvæmt samningnum. Stefndi Arnór neitaði í upphafi að hafa flutt inn umræddan gám, sbr. dómskjal nr. 19 og reyndi að leyna aðild sinni. Ekki liggur fyrir að stefndi þb. Dofra ehf. hafi komið að þessum innflutningi.

        Í tl. 12.4 í kaupsamningi segir að undanskilið ákvæði 12. gr. sé eignarhald seljanda og Arnórs á krókaverksmiðju erlendis. Varðandi túlkun á þessu ákvæði verður að líta til þess stefndi Arnór stundaði innflutning á krókum frá krókaverksmiðju sinni í gegnum félagið Geirsá ehf., nú Puffin ehf., þegar kaupsamningurinn var gerður og seldi m.a. stefnanda króka í heildsölu. Um mitt ár 2014 lagði stefnandi til að gerður yrði einkakaupasamningur um kaup stefnanda á krókum af stefndu og samkvæmt samningsdrögum var gert ráð fyrir því að stefndi myndi selja stefnanda alla króka í gegnum Geirsá ehf. Gert var ráð fyrir dagsektum yrði brotið gegn rétti stefnanda til einkasölu. Þá óskaði stefnandi eftir því að gera viðauka við kaupsamning aðila sem gerði ráð fyrir að hert væri á samkeppnisákvæðum kaupsamningsins frá 5. mars 2013 og skyldi stefndi Arnór skrifa undir samninginn persónulega. Stefndu féllust ekki á að undirgangast þá skilmála þannig að ekki virðist hafa verið litið svo á að grein 12.4 í kaupsamningi tæki á þessu.  Telja verður að innflutningur og heildsala á krókum sé eðlilegur hluti af því að eiga krókaverksmiðju og ekki er sannað að stefndi Arnór hafi komið að smásölu á krókum og hefur hann því ekki brotið gegn 12. gr. samningsins hvað varðar sölu á krókum.  

      Heildargreiðsla stefnanda fyrir hinn keypta rekstur og eignir honum tengdum nam kr.  220.945.199 sem skiptist í kr. 90.945.199 fyrir vörubirgðir og kr. 130.000.000 fyrir aðrar eignir. Ýmis tækjabúnaður sem fylgdi með í kaupunum var metinn að verðmæti kr. 12.569.000 og því nam greiðsla stefnanda umfram verðmæti efnislegra eigna kr. 117.431.000. Sú fjárhæð endurspeglar mat samningsaðila á verðmæti viðskiptavildar rekstrarins. Viðskiptavildin byggir einkum á viðskiptatengslum, annars vegar við birgja og hins vegar við kaupendur. Verðmæti viðskiptavildarinnar var því háð þeirri skuldbindingu stefndu, sem fram kemur í 12. gr. kaupsamningsins, að stunda ekki starfsemi í samkeppni við hinn selda rekstur. Án þessara skuldbindinga stefndu hefði mat stefnanda á verðmæti viðskiptavildarinnar verið minna. Með athöfnum sínum rýrði stefndi Arnór því verðmæti hins keypta reksturs og olli stefnanda með því tjóni sem nemur verðmætarýrnuninni.

       Það er því niðurstaða dómsins að bótagrundvöllur sé fyrir hendi og stefnandi hafi orðið fyrir tjóni. Þrátt fyrir að stefnandi hafi aflað matsgerðar til þess meta tapaða framlegð vegna sölu ætlaðrar sölu stefnda Arnórs vegna innflutnings á árinu 2014 á vegum Puffin ehf. er um það deilt hvort vörur í umræddum gámum hafi verið seldar. Erfiðleikum er bundið að leggja fram nákvæm gögn eða útreikninga um rýrnun viðskiptavildarinnar og verður ekki ætlast til að stefnandi geti lagt fram nákvæm gögn varðandi fjárhæð tjónsins. Þó er ljóst að stefnandi nýtur ekki til fulls, vegna aðgerða stefnda Arnórs, þeirra verðmæta sem hann keypti og fólust í umræddri viðskiptavild.

        Að mati stefnanda nemur tjón hans vegna rýrnunar á verðmæti viðskiptavildar 39.143.666 kr. sem er þriðjungur af heildargreiðslu hans fyrir viðskiptavildina. Mat stefnanda byggir á því að helmingur af verðmæti viðskiptavildarinnar hafi verið fólgið í samkeppnisákvæðinu, sem var til þriggja ára, og að stefnandi hafi einungis notið þess ákvæðis í eitt ár af þremur og því nemi tjón hans tveimur þriðju af helmingi verðmætis viðskiptavildarinnar.

        Verðmætarýrnun rekstrarins kemur fram í lægri tekjum og þar með minni hagnaði af rekstrinum. Því verður að fallast á það með stefndu að tjón stefnanda sé tvítalið í kröfugerð þar sem meint tjón í kröfugerð er samanlögð tapaður hagnaður og viðskiptavild. 

        Með ferðum sínum á fund framleiðanda línunnar í Suður-Kóreu tókst stefnanda að koma í veg fyrir frekari innflutning stefnda Arnórs á línum frá framleiðandanum og þar með takmarka tjón sitt. Stefnandi hefur lagt fram reikninga vegna ferðakostnaðar og kveður kostnað sinn við ferðirnar nema 1.624.978 kr. sem sé kostnaður sinn við takmarka frekara tjón af aðgerðum stefnda Arnórs. Það er þó vandkvæðum bundið að tilgreina hvaða kostnaður stefnanda vegna funda við suður-kóreska framleiðandann er bein afleiðingum af vanefndum stefnda Arnórs.

        Stefndu byggja á því að bætur verði ekki dæmdar að álitum þar sem ekki var gerð krafa um það í stefnu. Á þessa málsástæðu er ekki fallist. Í stefnu er gerð sú krafa að fallist dómurinn ekki á forsendur stefnanda fyrir bótum vegna brota gegn samningnum og skerðingar á viðskiptavild sé krafist skaðabóta að álitum dómsins. Samkvæmt framangreindu verða stefnanda dæmdar bætur úr hendi stefnda Arnórs að álitum vegna tjóns sem leitt hefur af vanefndum hans og þykja þær hæfilega ákveðnar 40.000.000 kr. með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu frá dómsuppkvaðningu. Að fenginni þessari niðurstöðu ber að dæma stefnda Arnór til að greiða stefnanda málskostnað sem telst hæfilega ákveðinn eins og nánar er kveðið á um í dómsorði.

        Ekki hefur verið sýnt fram á það að stefndi þb. Dofra ehf. hafi komið að umræddum innflutningi árið 2014 eða hann hafi brotið með öðrum hætti gegn samkeppnisákvæði 12. gr. kaupsamningsaðila. Þá verður ekki fallist á þá málsástæðu stefnanda að hann verði talinn samábyrgur vegna vanefnda stefnda Arnórs. Ber því að sýkna hann af öllum kröfum stefnanda. Undir rekstri málsins var því ítrekað lýst yfir af hálfu stefndu að þeir hefðu ekki flutt umræddan gám hingað til lands og málaferlin verða rakin til vanefnda stefnda Arnórs fyrirsvarsmanns og eina eiganda stefnda Dofra ehf. Með vísan til þessa þykir rétt að málskostnaður milli stefnanda og þb. stefnda Dofra ehf. falli niður.

        Dóminn kveður upp Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari ásamt sérfróðu meðdómendum Gylfa Magnússyni dósent og Hersi Sigurgeirssyni dósent.

Dómsorð:

        Stefndi, Arnór Stefánsson, greiði stefnanda, Ísfelli ehf., 40.000.000 kr. með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu frá dómsuppkvaðningu.

        Stefndi Arnór Stefánsson greiði stefnanda 4.000.000 kr. í málskostnað

        Stefndi, þb. Dofra ehf., er sýkn af kröfum stefnanda .

        Málskostnaður milli þb. Dofra ehf. og stefnanda fellur niður.