Hæstiréttur íslands
Mál nr. 240/2002
Lykilorð
- Opinberir starfsmenn
- Ráðningarsamningur
- Fæðingarorlof
- Laun
- Dráttarvextir
- Aðfinnslur
|
|
Fimmtudaginn 7. nóvember 2002. |
|
Nr. 240/2002. |
Íslenska ríkið(Einar Karl Hallvarðsson hrl.) gegn Friðriku Hörpu Ævarrsdóttur (Jónas Haraldsson hrl.) |
Opinberir starfsmenn. Ráðningarsamningur. Barnsburðarleyfi. Laun. Dráttarvextir. Aðfinnslur.
F, sem er lögfræðingur að mennt, réðist til starfa sem fulltrúi sýslumannsins á Akureyri árið 1994. Í nóvember 1996 fór F í barnsburðarleyfi og um rétt hennar til launa í slíku leyfi fór samkvæmt þágildandi reglugerð um barnsburðarleyfi starfsmanna ríkisins. F taldi umsamda 30 klukkustunda fasta yfirvinnu á mánuði hafa verið kaupauka við grunnlaun samkvæmt kjarasamningi, sem aukið vinnuframlag hafi ekki komið fyrir, og þannig hluti þeirra dagvinnulauna sem hún ætti rétt á í barnsburðarleyfi. Talið var sannað að vinnuframlag umfram dagvinnu skyldi ekki koma fyrir greiðslu fyrrgreindra 30 yfirvinnustunda á mánuði. Var lagt til grundvallar niðurstöðu í málinu að umsamið endurgjald F fyrir átta stunda vinnudag skyldi vera laun samkvæmt viðeigandi launaflokki og andvirði 30 yfirvinnustunda. Var talið fullt tilefni til að taka fram í umræddri reglugerð að um dagvinnulaun samkvæmt kjarasamningi væri að ræða, hafi önnur laun fyrir dagvinnu ekki átt að koma til greiðslu í barnsburðarleyfi starfsmanna. Fallist var á kröfu F en enginn tölulegur ágreiningur var í málinu. Þá var miðað við að vanefnd hafi orðið af hálfu Í 1. desember 1998, eða mánuði eftir að F gerði athugasemdir við greiðslu launa í barnsburðarleyfinu, og var krafan látin bera dráttarvexti frá þeim tíma. Aðfinnsluvert þótti hvernig héraðsdómsstefna og héraðsdómur voru úr garði gerð.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. maí 2002 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafan verði lækkuð og málskostnaður felldur niður á báðum dómstigum.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Stefnda, sem er lögfræðingur að mennt, réðist til starfa sem fulltrúi sýslumannsins á Akureyri og var samningur þeirra dagsettur 2. júní 1994. Var hann staðfestur af dómsmálaráðuneytinu 21. sama mánaðar og fjármálaráðuneytinu 7. júlí 1994. Í þar til gerða reiti á ráðningarsamningnum var fært að starfshlutfall væri 100%, vikuleg vinnuskylda 40 stundir, daglegur vinnutími frá kl. 8 til 16 og að Stéttarfélag lögfræðinga í ríkisþjónustu væri stéttarfélag stefndu. Þá kom fram í stöðluðum texta samningsins að um launagreiðslur og fleira færi eftir kjarasamningi stéttarfélags starfsmannsins og að um rétt hans til launagreiðslu í veikindum og barnsburðarleyfi færi eftir gildandi reglugerðum hverju sinni um starfsmenn ríkisins. Í málatilbúnaði stefndu segir að um haustið 1994 hafi hún fengið fastráðningu í starfið og þá verið samið um að hún fengi greitt fyrir 20 klukkustunda fasta yfirvinnu á mánuði án þess að vinnuframlag umfram dagvinnuna kæmi á móti. Stundafjöldinn hafi síðan verið hækkaður í 30 á mánuði 15. júní 1996.
Stefnda fór í barnsburðarleyfi 16. nóvember 1996 og kom aftur til starfa 16. ágúst 1997. Um rétt hennar til launa í slíku leyfi fór samkvæmt reglugerð nr. 410/1989 um barnsburðarleyfi starfsmanna ríkisins, sem sett var með stoð í 17. gr. þágildandi laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Ný lög um sama efni nr. 70/1996 tóku gildi 1. júlí 1996, en samkvæmt 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í þeim skyldi reglugerðin gilda áfram um þá, sem voru starfsmenn ríkisins við gildistöku laganna, uns laun í fæðingarorlofi hafi verið ákveðin eða um þau samið, sbr. 1. mgr. 9. gr. laganna. Reglugerðin hefur nú verið felld úr gildi, sbr. auglýsingu frá fjármálaráðuneytinu nr. 122/2002.
Samkvæmt 1. gr. áðurnefndrar reglugerðar átti stefnda rétt á barnsburðarleyfi í sex mánuði „með þeim dagvinnulaunum, sem stöðu hennar fylgja ...“. Í 4. gr. reglugerðarinnar var kveðið á um yfirvinnu- og álagsgreiðslur í barnsburðarleyfi, þar sem sagði að fyrstu þrjá mánuðina skyldi „auk dagvinnulauna greiða meðaltal þeirra yfirvinnu-, vakta-, gæsluvakta- og óþægindaálagsstunda, sem konan fékk greiddar síðustu 12 mánaða uppgjörstímabil yfirvinnu, áður en barnsburðarleyfi hófst.“ Áfrýjandi hagaði greiðslu til stefndu í leyfi hennar þannig að hún fékk samtals sex mánaðarlaun samkvæmt kjarasamningi og auk þess yfirvinnukaup í þrjá mánuði, sem tók mið af meðaltali af samanlagðri fastri yfirvinnu og yfirvinnustundafjölda á mánuði, sem hún hafði unnið samkvæmt stimpilklukku næstu tólf mánuðina fyrir leyfið. Hún fékk hins vegar ekki umfram þetta greiddar í barnsburðarleyfinu þær 30 klukkustundir, sem hún fékk á hverjum mánuði fyrir leyfið og hún kveður aukið vinnuframlag ekki hafa komið fyrir. Deila aðilarnir um það hvort áfrýjandi hafi staðið stefndu að fullu skil á þeim launum, sem hún átti rétt á samkvæmt reglugerðinni, eða hvort enn vanti greiðslu fyrir 90 yfirvinnustundir til þess að rétt uppgjör teljist hafa farið fram.
Stefnda styður kröfu sína við það að samkvæmt samningi sínum við sýslumanninn á Akureyri skyldi ekkert vinnuframlag umfram dagvinnuna koma fyrir umrædda greiðslu fyrir 30 yfirvinnustundir. Um hafi verið að ræða kaupauka við grunnlaun samkvæmt kjarasamningi, sem alvanalegt hafi verið að forstöðumenn stofnana ríkisins gerðu við starfsmenn sína og hafi miðað að því að fá hæfa menn til starfa hjá ríkinu í samkeppni við aðra. Kaupaukinn hafi þannig verið hluti þeirra heildarlauna, sem skyldu koma fyrir dagvinnuna eina, og hafi í raun ekkert haft með yfirvinnu að gera þótt hún hafi verið notuð sem viðmiðun fyrir fjárhæð hinnar umsömdu yfirborgunar. Auk þessa kveðst stefnda hafa að jafnaði unnið mikla yfirvinnu, sem hafi skilað sér réttilega í barnsburðarleyfinu. Telur hún að orðalag 1. gr. áðurnefndrar reglugerðar um að hún hafi átt rétt á „dagvinnulaunum“ í sex mánuði verði samkvæmt þessu ekki skýrt á annan hátt en þann að kaupaukinn teljist hluti þeirra dagvinnulauna, sem hún eigi rétt á í barnsburðarleyfi.
Áfrýjandi telur ósannað að ekki skyldi koma vinnuframlag umfram dagvinnu fyrir þær 30 yfirvinnustundir á mánuði, sem aðilarnir deila um. Þá verði hugtakið dagvinnulaun ekki skýrt á annan veg en þann að þar sé átt við dagvinnulaun samkvæmt kjarasamningi. Almennt sé þetta hugtak notað um laun, sem koma fyrir 8 stunda vinnutíma, og dagvinnulaun þurfi ekki að vera hið sama og föst laun. Yfirvinna falli utan við 1. gr. reglugerðarinnar, en í 4. gr. hennar sé fjallað um laun fyrir annað en dagvinnu, hverju nafni sem nefnist. Þar sé meðal annars sérstaklega kveðið á um yfirvinnu og standi engin rök til þess að laun fyrir umræddar 30 yfirvinnustundir á mánuði falli þar fyrir utan. Þá tengist launataxti hinnar umdeildu yfirvinnu annarri yfirvinnu þannig að hann sé 1,0385% af mánaðarlaunum stefndu í samræmi við ákvæði í kjarasamningi rétt eins og önnur yfirvinna hennar. Ennfremur hafi sýslumaðurinn sett 60 klukkustunda yfirvinnuhámark í hverjum mánuði á starfsmenn sína og hafi margnefndar 30 stundir verið taldar með hverju sinni við ákvörðun um það hvort hámarkinu væri náð. Hafi vinna umfram það ekki verið greidd. Loks bendir áfrýjandi á að framkvæmd reglugerðarinnar hafi frá upphafi verið í samræmi við framanrakta skýringu hans á henni og hafi það ekki sætt andmælum stéttarfélaga opinberra starfsmanna, sem hljóti að skipta hér máli.
II.
Björn Jósef Arnviðarson, sýslumaður á Akureyri, gaf skýrslu fyrir dómi. Skýrði hann svo frá að stefnda hafi verið ráðin til starfa áður en hann tók við embætti sýslumanns, en hann hafi sjálfur ákveðið að hækka fasta yfirvinnu hennar úr 20 stundum í 30. Skriflegur ráðningarsamningur hafi ekki tekið til hinnar föstu yfirvinnu, en hann hafi tjáð stefndu að sú greiðsla kæmi til viðbótar mánaðarlaunum samkvæmt ráðningarsamningi auk þess sem stefndu væri heimilt að vinna allt að 30 stundir í yfirvinnu á mánuði. Stefnda og aðrir starfsmenn, sem nutu sömu kjara, hafi þurft að skila fullri dagvinnu til að fá kaupaukann. Aðspurður um hvað réttlætti að slík greiðsla væri innt af hendi svaraði hann því til að í þessu hafi falist ákvörðun um að hækka þau föstu laun, sem greidd væru. Ekki hafi verið gerð nein krafa á móti önnur en sú að menn sættu sig við að greiðsla kæmi þá ekki fyrir vinnu umfram heimilaða yfirvinnu, en ekki hafi þó verið ætlast til að menn ynnu umfram það, sem heimilað var.
Samkvæmt þessu er áðurgreind viðbára áfrýjanda haldlaus, enda er sannað að vinnuframlag umfram dagvinnu skyldi ekki koma fyrir greiðslu 30 yfirvinnustunda á mánuði. Verður lagt til grundvallar niðurstöðu í málinu að umsamið endurgjald stefndu fyrir átta stunda vinnudag skyldi vera laun samkvæmt viðeigandi launaflokki og andvirði 30 yfirvinnustunda. Ekki er heldur fallist á með áfrýjanda að hugtakið dagvinnulaun í 1. gr. reglugerðar nr. 410/1989 hljóti að merkja dagvinnulaun samkvæmt kjarasamningi. Verður í því sambandi ekki komist hjá að líta til þess að þegar reglugerðin var sett var löngu þekkt hjá ríkinu að forstöðumenn stofnana sömdu við starfsmenn um yfirborganir fyrir dagvinnu og þá gjarnan í formi tiltekins fjölda yfirvinnustunda til viðbótar viðeigandi launaflokki samkvæmt kjarasamningi. Var fullt tilefni til að taka fram í reglugerðinni að um dagvinnulaun samkvæmt kjarasamningi væri að ræða, hafi önnur laun fyrir dagvinnu ekki átt að koma til greiðslu í barnsburðarleyfi starfsmanna. Kemur 4. gr. reglugerðarinnar ekki til neinna álita við úrlausn ágreinings aðilanna. Verður samkvæmt öllu framanröktu fallist á kröfu stefndu, en enginn tölulegur ágreiningur er í málinu.
Áfrýjandi vísar til stuðnings varakröfu sinni til þess að ekki fái staðist að greiða stefndu dráttarvexti eins og hún krefst, heldur beri að miða við síðari upphafstíma þeirra. Meðal málsgagna er tilkynning til fjármálaráðuneytis á þar til gerðu eyðublaði um barnsburðarleyfi stefndu, sem skyldi standa frá 16. nóvember 1996 til 16. ágúst 1997. Felur tilkynningin meðal annars í sér tilmæli um að ráðuneytið sjái um útreikning yfirvinnu til stefndu í leyfinu og er hún undirrituð af stefndu og sýslumanni síðla árs 1996. Ekki er fram komið að stefnda hafi gert athugasemdir við greiðslu launa í barnsburðarleyfinu fyrr en með bréfi til ríkisbókhalds 31. október 1998, þar sem gerð var grein fyrir fastri, umsaminni yfirvinnu hennar, sem væri í raun hluti launa fyrir dagvinnu, jafnframt því sem óskað var leiðréttingar. Þessu hafnaði ríkisbókhald með vísan til 4. gr. áðurnefndrar reglugerðar og þess að stefnda hafi í leyfinu fengið meðaltal greiðslna fyrir yfirvinnu síðustu 12 mánaða áður en barnsburðarleyfið hófst. Fram er komið að reglulegar skýrslur sýslumannsembættisins til ríkisbókhalds um yfirvinnu starfsmanna höfðu jafnan verið í því formi að tímafjöldinn var tiltekinn í einu lagi án þess að greint væri á milli föstu yfirvinnunnar og þeirrar, sem mæld var eftir stimpilklukku. Liggur því ekki fyrir að ríkisbókhaldi hafi fyrr en með áðurnefndu bréfi stefndu verið gerð grein fyrir kaupaukanum, sem um ræðir í málinu. Verður samkvæmt því miðað við að vanefnd hafi orðið af hálfu áfrýjanda 1. desember 1998, sbr. meginreglu 3. mgr. 9. gr. þágildandi vaxtalaga nr. 25/1987. Verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefndu dráttarvexti af kröfufjárhæðinni frá þeim degi til greiðsludags, eins og nánar segir í dómsorði.
Stefnda kvaðst fyrir dómi ekki bera kostnað af málinu, en fram er komið að það er rekið til að fá úrlausn ágreinings milli stéttarfélags hennar og áfrýjanda. Er rétt að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af málinu í héraði, en áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Stefnu í málinu til héraðsdóms var verulega áfátt eins og hún var úr garði gerð af lögmanni, sem þar fór með það af hálfu stefndu. Skortir mjög á að málatilbúnaður hans væri skýr og gagnorður og að öðru leyti í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en jafnframt gætti þar mjög skriflegs málflutnings. Í héraðsdómi hafa með öllu óþarfar málalengingar verið teknar upp í heild sinni úr stefnu í stað þess að samin væri stutt og glögg frásögn um atvik málsins og helstu röksemdir aðilanna í samræmi við 3. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991. Er þannig meðal annars tekin upp í löngu máli umfjöllun um tölulegar forsendur kröfunnar þótt enginn ágreiningur hafi verið milli aðilanna um það efni. Er aðfinnsluvert hvernig héraðsdómsstefna og héraðsdómur eru úr garði gerð.
Dómsorð:
Áfrýjandi, íslenska ríkið, greiði stefndu, Friðriku Hörpu Ævarrsdóttur, 108.878 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. desember 1998 til 1. júlí 2001, en 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Málskostnaður í héraði fellur niður.
Áfrýjandi greiði stefndu 350.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. mars 2002.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var miðvikudaginn 20. febrúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Friðriku Hörpu Ævarrsdóttur kt. 160667-4279, Vanabyggð 13, Akureyri, með stefnu birtri 31. október 2000 á hendur íslenzka ríkinu, kt. 550169-2989.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefnda verði gert að greiða stefnanda vangoldin laun í barnsburðarleyfi, að fjárhæð kr. 108.878, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 10. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, sbr. l. gr. l. nr. 90/1992, frá og með l. september 1997 til 1. júlí 2001, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla l. nr. 38/2001 til greiðsludags, auk vaxtavaxta samkvæmt l. ml. 12. gr. vaxtalaga, í fyrsta sinn 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxta. Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu að mati dómsins.
Endanlegar dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda, og stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað að mati dómsins. Til vara gerir stefndi þær kröfur, að fjárkröfur stefnanda verði lækkaðar, og málskostnaður verði látinn niður falla.
II.
Málavextir:
Stefnandi réðst til starfa sem fulltrúi Sýslumannsins á Akureyri í júní 1994. Haustið 1994 var hún fastráðin og var þá samið um, að hún fengi greitt fyrir 20 tíma fasta yfirvinnu á mánuði, án þess að vinnuframlag kæmi á móti. Eftir tveggja ára starf, frá og með 15. júní 1996, var samið um, að greitt skyldi fyrir 30 tíma í fasta, óunna yfirvinnu á mánuði, og var sá fasti yfirvinnutímafjöldi í gildi, þegar stefnandi hóf töku barnsburðarleyfis þann 16. nóvember 1996. Á þeim tíma var jafnframt heimilt að greiða fyrir allt að 30 unnar yfirvinnustundir á mánuði. Barnsburðarleyfi stefnanda stóð til 16. ágúst 1997, eða í 9 mánuði, sbr. 5. gr. reglugerðar nr. 410/1989 um barnsburðarleyfi starfsmanna ríkisins, þar sem heimild er til allt að tvöfaldrar lengingar 6 mánaða barnsburðarleyfis "gegn tilsvarandi skerðingu launa sbr. 1., 3., og 4. gr." Samkvæmt því fékk stefnandi 2/3 hluta launa í 9 mánuði. Það hlutfaIl var reiknað af föstum grunnlaunum stefnanda. Þá fékk hún greidda meðaltalsyfirvinnu í 3 mánuði.
Stefnandi krefst þess í máli þessu, að föst, óunnin yfirvinna verði með sama hætti og önnur dagvinnulaun greidd allan tímann, sem hún var í barnsburðarleyfi.
Með bréfi til Ríkisbókhalds, dags. 31. október 1998, fór stefnandi fram á leiðréttingu á greiðslum í barnsburðarleyfi, sem nemur 90 yfirvinnustundum, auk orlofs, þ.e. samsvarandi óunninni yfirvinnu í þrjá mánuði. Samrit bréfsins var afhent Sýslumanninum á Akureyri. Hinn 26. apríl 1999 barst stefnanda svarbréf Ríkisbókhalds, dags. 21. apríl 1999. Þar er vísað til erindis stefnanda og rökstuðnings, en síðan er erindinu synjað með tilvitnun í 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 410/1989 um barnsburðarleyfi starfsmanna ríkisins og með vísan til þess, að samkvæmt gögnum launaafgreiðslu Ríkisbókhalds hafi meðaltal yfirvinnu verið greitt fyrstu 3 mánuðina í barnsburðarleyfi. Frekari rökstuðningur fylgir ekki synjuninni.
Hinn 18. júlí 1999 kærði stefnandi synjun Ríkisbókhalds frá 21. apríl 1999 til fjármálaráðherra með vísan til 1. mgr. 26. gr. l. nr. 37/1993. Hinn 16. september 1999 áréttaði framkvæmdarstjóri BHM kæruna og gaf fjármálaráðherra kost á að greiða kröfuna innan tiltekins frests. Því bréfi var svarað hinn 22. september 1999, en sama dag var stjórnsýslukæru stefnanda vísað frá á þeirri forsendu, að kæruheimild væri ekki fyrir hendi.
Í millitíðinni hafði stefnandi leitað til laganefndar Bandalags háskólamanna, sem skilaði áliti í málinu hinn 4. maí 1999. Í kjölfar niðurstöðu laganefndar í málinu nr. LN 99-4 fól stefnandi málið í hendur lögmanni sínum, sem jafnframt er framkvæmdarstjóri BHM, en stéttarfélag stefnanda, Stéttarfélag lögfræðinga, á aðild að bandalaginu.
Stefnandi gerði upphaflega kröfu, auk framangreindra krafna, að viðurkennt yrði með dómi, að frávísun stjórnsýslukæru með bréfi fjármálaráðuneytis, dags. 22. september 1999, hefði verið ólögmæt. Þeirri kröfu var vísað frá dómi að kröfu stefnda með úrskurði uppkveðnum 7. júní 2001.
III.
Málsástæður stefnanda:
Stefnandi kveðst í starfi sínu hafa um árabil fengið greiddar fastar yfirvinnustundir mánaðarlega, án þess að þurfa að gera sérstaka grein fyrir þeirri vinnu. Einnig hafi henni verið greitt fyrir yfirvinnu samkvæmt vinnuskýrslum. Samanburður á unnum yfirvinnustundum samkvæmt vinnuyfirliti úr stimpilklukku annars vegar og greiddri yfirvinnu samkvæmt launaseðlum hins vegar á tímabilinu 15. janúar til 14. nóvember 1996 leiði í ljós, að um sé að ræða greiðslu fyrir óunnar yfirvinnustundir, þ.e. greiðslu, án þess að sérstakt vinnuframlag umfram 8 stunda dagvinnu komi á móti. Á tímabilinu 15. janúar til 14. nóvember 1996 sýni þessi samanburður mun, sem nemi fyrst um 20, og síðar um 30 yfirvinnustundum á mánuði. Hafi þá verið tekið tillit til bakvakta um helgar og á aukafrídögum og útkalla, sem ekki séu skráð í stimpilklukku við embætti sýslumanns. Hvert tímabil yfirvinnu sé reiknað frá 15. hvers mánaðar til 14. næsta mánaðar, eins og stimpilklukka og launaseðlar geri ráð fyrir, sbr. og kjarasamningsákvæði 2.3.7.
Ef bætt sé við 20 yfirvinnustundum á hverju tímabili frá og með janúar/febrúar 1996 til og með maí/júní 1996 og 30 yfirvinnustundum á hverju tímabili frá og með júní/júlí 1996 til og með október/nóvember 1996, sbr. framangreinda atvikalýsingu um hækkun fastrar yfirvinnu 15. júní 1996, komi í ljós, að samanlagðar yfirvinnustundir, unnar og óunnar, stemmi nánast við greiddar yfirvinnustundir fyrsta næsta mánaðar, samkvæmt launaseðlum fyrir sömu tímabil.
Meðalskekkja á þessum samanburði fyrir 10 yfirvinnutímabil sé u.þ.b. ein klukkustund. Aðeins þrisvar sinnum hafi þó munað meiru en einni klukkustund. Mestur hafi mismunurinn orðið fjórar klukkustundir, og hafi það verið á síðasta tímabilinu, síðari hluta október 1996, áður en stefnandi fór í veikindaleyfi á undan barnsburðarleyfi. Sá mismunur feli í raun ekki í sér skekkju, heldur sé ástæðan framangreind fyrirmæli sýslumanns um yfirvinnuþak, sem nemi 60 yfirvinnustundum, þannig að ekki yrði greitt fyrir fleiri unnar yfirvinnustundir en 30 á mánuði, þótt unnar hafi verið 34 yfirvinnustundir á þeim 12 dögum, áður en veikindaleyfi hófst. Í því skyni að ljúka brýnum verkefnum hafi, af þessum sökum, aðeins verið greitt sérstaklega fyrir 30 unnar yfirvinnustundir. Styðjist slík fyrirmæli forstöðumanns um yfirvinnuþak við l. mgr. 17. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. áður 31. gr. laga nr. 38/1954 um sama efni. Að þessu tímabili frátöldu sé meðalskekkja í samanburði 9 mánaða langra yfirvinnutímabila aðeins 0,7 klukkustundir til eða frá. Sú skekkja geti m.a. stafað af því, að ekki hafi verið dregið frá í útreikningum í samanburði á dskj. nr. 17, þar sem dagvinna hafi ekki náð 8 stundum, en hver mínúta í yfirvinnu hafi verið reiknuð með. Ekki sé vitað, hvort umrædd stimpilklukka sé stillt þannig, að einhverra mínútna lágmark þurfi til að yfirvinna reiknist eða dragist frá. Hluti skekkjunnar kunni að stafa af því, að fyrri hluta árs 1996 hafi stimpilklukka við embætti sýslumanns skráð yfirvinnu að afloknum 7 klukkustundum og 55 mínútum vegna afsals kaffitíma, þar til sýslumaður lét breyta þeirri skráningu.
Samkvæmt framangreindum samanburði verði að telja, að umrædd gögn, dskj. nr. 15-17, feli í sér sönnun fyrir þeirri staðhæfingu stefnanda, að um sé að ræða greiðslu fyrir óunnar yfirvinnustundir, þ.e. greiðslu, án þess að sérstakt vinnuframlag umfram 8 stunda dagvinnu (40 stundir á viku) komi á móti, og muni það óumdeilt meðal stefnanda, annarra starfsmanna og Sýslumannsins á Akureyri.
Hvað sem framangreindum sönnunargögnum líði, megi með hliðsjón af eftirgreindu tilvitnuðu orðalagi í dómi Hæstaréttar í máli, er varðaði inntak biðlaunaréttar starfsmanns Orkustofnunar, H1992:682 (683), enn fremur gera ráð fyrir, að vægari sönnunarkröfur beri að gera í máli sem þessu, þannig að ekki verði deilt um, að stefnandi hafi í starf sínu "um árabil fengið greiddar fastar yfirvinnustundir mánaðarlega, án þess að þurfa að gera sérstaka grein fyrir þeirri vinnu. Einnig er upplýst, að greitt var auk þess fyrir yfirvinnu samkvæmt vinnuskýrslum."
A. Fjárkrafa
Aðalmálsástæða:
Stefnandi kveður dómkröfu sína styðjast aðallega við nærtækustu lögskýringu á ákvæði 1. mgr. l. gr. reglugerðar nr. 410/1989 um barnsburðarleyfi starfsmanna ríkisins.
Í l. ml. 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins komi fram, að þrátt fyrir ákvæði 12. gr. laganna, skuli reglugerð nr. 410/1989 um barnsburðarleyfi starfsmanna ríkisins gilda um starfsmenn, sem ráðnir hafi verið í þjónustu ríkisins fyrir gildistöku laganna og fallið hafi undir lög nr. 38/1954, unz samið hafi verið um laun í fæðingarorlofi, sbr. l. mgr. 9. gr., þ.e. með kjarasamningi. Í 17. gr. laga nr. 38/1954 segi, að ákveða skuli með reglugerð, hvernig fari um launagreiðslur til kvenna í fjarvistum vegna barnsburðar. Um þetta gildi nú reglugerð nr. 410/1989. Í 1. mgr. l. gr. reglugerðarinnar segi:
“Vegna barnsburðar skal fastráðin kona, sem starfað hefur í þjónustu ríkisins samfellt í 6 mánuði fyrir barnsburð, eiga rétt á leyfi í 5 mánuði [6 mánuði frá 1.1. 1990] með þeim dagvinnulaunum, sem stöðu hennar fylgja, enda sé ráðningu ætlað að standa a.m.k. þann tíma.”
Ákvæðið tilskilji ekki, að um sé að ræða dagvinnulaun "samkvæmt kjarasamningum", eins og stefndi virðist hafa skilið ákvæðið og framkvæmt það í andstöðu við a.m.k. BHM og aðildarfélög þess. Ef tilskilið væri, að um væri að ræða dagvinnulaun eða mánaðarlaun samkvæmt kjarasamningum, hefði staðið stefnda nærri að fá reglugerðinni breytt til samræmis við þann skilning sinn. Það hafi verið gert í öðrum sambærilegum tilvikum, bæði fyrr og síðar. Um hið fyrrnefnda megi sem dæmi nefna lög nr. 1/1997 um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, sbr. nánar um það dóm Hæstaréttar frá 30. marz 2000 í máli nr. 435/1999, en samkvæmt 2. mgr. 24. gr. laganna sé upphæð ellilífeyris miðuð við föst laun "fyrir dagvinnu, [... ] samkvæmt kjarasamningum sem við starfslok fylgja stöðu þeirri fyrir fullt starf er sjóðfélagi gegndi síðast." Um hið síðarnefnda megi nefna "samkomulag Bandalags háskólamanna, BSRB og Kennarasambands Íslands annars vegar og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, Reykjavíkurborgar og Launanefndar sveitarfélaga hins vegar um tiltekin atriði er varða réttindi starfsmanna í ofangreindum samtökum" frá 24. október sl., sbr. dskj. nr. 18. Þar sé t.a.m. í ákvæði 2.2.1 og ákvæði 2.2.6 fjallað um rétt til "mánaðarlauna samkvæmt gr. 1.1.1 í kjarasamningi", sem augljóslega sé þrengra hugtak en hugtakið föst laun í ákvæði 2.5.1 í sama samkomulagi og þrengra en hugtakið "dagvinnulaun [], sem stöðu [... ] fylgja" í skilningi l. gr. reglugerðar nr. 410/1989.
Þannig hafi bæði löggjafinn og aðilar á vinnumarkaði í gegnum tíðina greint á milli dagvinnulauna "samkvæmt kjarasamningum" eða mánaðarlauna "samkvæmt kjarasamningi" annars vegar og annarra launa hins vegar, þótt fyrir dagvinnu sé. Það, að þessi skilsmunur komi ekki fram berum orðum í reglugerðinni, hljóti að skýrast stefnda í óhag og styðja kröfu stefnanda, einkum í ljósi neðangreindrar dómaframkvæmdar og afstöðu umboðsmanns Alþingis til málamyndagerninga.
Samkvæmt framangreindu verði að telja, að bein orðskýring komi helzt til greina, sbr. dóm Hæstaréttar, H 1995:1542 (1544), þar sem Hæstiréttur hafni því, að afstaða ráðherra skipti máli við skýringu reglugerðar um sambærilegt efni (þ.e. nr. 411/1989 um veikindaforföll starfsmanna ríkisins), ef sú afstaða endurspeglist ekki í gjörðum hans sem handhafa reglugerðarvalds að höfðu lögskyldu samráði (og eftirfarandi birtingu). Sama gildi því um skýringu reglugerða og lagatúlkun, sbr. dóm meirihluta Hæstaréttar, H 1994:79 (83), að slíkar allsherjarréttarlegar reglur beri að túlka samkvæmt orðanna hljóðan, en ekki samkvæmt því sem handhafi reglusetningarvalds kunni að hafa meint (lex animata), sé það annað en það, sem ákvæðin sjálf kveði á um.
Stefnandi telji, að bein skýring á orðunum "dagvinnulaunum, sem stöðu hennar fylgja" leiði til þess, að fastar, óunnar yfirvinnugreiðslur, eins og stefnanda hafi verið greiddar samkvæmt því, sem fram komi í málsatvikalýsingu, teljist til dagvinnulauna, enda sé vinnuvikan 40 stundir samkvæmt gildandi kjarasamningi og lögum frá 1971.
Stefnandi telji, að tilgangsskýring hins umdeilda ákvæðis l. gr. reglugerðar nr. 410/1989 leiði til sömu niðurstöðu, enda hafi tilgangurinn verið að tryggja regluleg laun, en undanskilja einungis óreglulegar tekjur í síðari hluta barnsburðarleyfis. Hvað sem öðru líði, telji stefnandi, að umstefndar fastar greiðslur hafi óumdeilanlega verið reglulegar greiðslur, öfugt við tilfallandi, unna yfirvinnu. Jafnframt haldi stefnandi því fram, að stefndi beri sönnunarbyrði fyrir öðrum tilgangi en þeim, sem að framan greini, enda beri stefndi hallann af því, að engum lögformlegum og aðgengilegum (birtum) skýringargögnum sé til að dreifa með reglugerðum.
Loks verði að telja, að álit umboðsmanns Alþingis í sambærilegu máli frá 1997, SUA 1997:190 (191), feli í sér, að stefndi geti ekki borið fyrir sig þann málamyndagernig, að laun hafi verið nefnd annað en föst laun fyrir dagvinnu, þó að í reynd sé verið að greiða fyrir vinnu, unna í dagvinnu, sbr. málsatvikalýsingu og dskj. nr. 15-17. Enn fremur verði að telja, að lögskýring í dómi Hæstaréttar, H 1992:682 (683), á 14. gr. laga nr. 38/1954, er kveðið hafi á um "föst laun, er starfanum fylgdu" og rökstuðningur í dómi Hæstaréttar frá 25. febrúar 1999 í máli nr. 247/998 varðandi "hluta af föstum launum", feli í sér bein fordæmi í máli þessu. Loks styðjist niðurstaðan við þá framkvæmd, að fastar yfirvinnugreiðslur séu inntar af hendi, bæði í orlofi og í veikindaforföllum. Afstaða stefnda varðandi barnsburðarleyfi feli í sér ósamræmi, sem komi sérstaklega hart niður á konum, sbr. nánar um það í málsástæðu til þrautavara.
Föst, óunnin yfirvinna, sem stefnandi hafi notið og geri í máli þessu kröfu um, að greidd verði eins og hver önnur dagvinnulaun í skilningi 1. gr. reglugerðar nr. 410/1989, sé ekki sambærileg við umsamda, fasta, ómælda yfirvinnu, sem fjallað sé um í dómi Hæstaréttar frá 30. marz 2000 í máli nr. 435/1999. Þótt óumdeilt hafi verið í því máli, að um væri að ræða reglubundinn lið í launum, hafi atvik þess máls verið frábrugðin atvikum í máli stefnanda. Í forsendum Hæstaréttar komi fram, að lög um LSR hefðu verið skilin svo, að hugtakið föst laun fyrir dagvinnu í lögunum tæki ekki til yfirvinnulauna; þar sé um að ræða lögskýringu Hæstaréttar á þeim lögum, sem m.a. byggist á því, að hugtakið dagvinnulaun vísi berum orðum til kjarasamninga, sbr. nú 2. mgr. 24. gr. laga nr. 1/1997 um LSR.
Varðandi atvik málsins hafi Hæstiréttur hins vegar tekið fram, að ljóst væri, að hinar reglubundnu greiðslur fyrir yfirvinnu til lífeyrisþegans á sínum tíma hefðu verið ákveðnar með hliðsjón af því, að í starfinu hafi verið fólgnar óhjákvæmilegar kröfur um vinnu umfram venjulegan dagvinnutíma, og eigi þær þannig samstöðu með öðrum yfirvinnugreiðslum. Verði ekki á það fallizt, að greiðslurnar hafi eðlis síns vegna verið tengdar hinum föstu embættislaunum með þeim hætti, að skylt sé að líta á þær sem hluta af launum fyrir dagvinnu, er veitt hafi rétt til eftirlauna á grundvelli umræddrar lagagreinar. Þetta megi nefna fastar greiðslur fyrir ómælda yfirvinnu. Af þessari atvikalýsingu, sem Hæstiréttur leggi til grundvallar í því máli, sé ljóst, að engin afstaða sé tekin til þess í dóminum, hvort greiðslur fyrir fasta, óunna yfirvinnu (eða aðrar greiðslur fyrir dagvinnu), eins og í tilviki stefnanda, teljist hluti dagvinnulauna í skilningi laga nr. 1/1997 um LSR, og enn síður samkvæmt öðrum reglum, svo sem 1. gr. reglugerðar nr. 410/1989, sem hér sé deilt um túlkun á. Þvert á móti megi gagnálykta frá hinum tilvitnuðu orðum í forsendum hæstaréttardómsins, þannig að fastar greiðslur sem þær, sem stefnandi hafi notið, hafi einmitt "eðlis síns vegna verið tengdar hinum föstu [...] launum með þeim hætti, að skylt sé að líta á þær sem hluta af launum fyrir dagvinnu", enda sé ljóst af málsatvikalýsingu og dskj. nr. 15-17, að stefnandi hafi ekki unnið og ekki haft vinnuskyldu vegna þeirra föstu greiðslna, sem fyrir barnsburðarleyfið hafi numið 30 yfirvinnustundum á mánuði.
Hugsanleg tilvísun stefnda til hefðar eða almenns tómlætis standist ekki, þar sem um einhliða framkvæmd sé að ræða, og þar sem stefnandi, stéttarfélag stefnanda SL, og heildarsamtök BHM, eigi enga aðild að framkvæmdinni, enda þótt almennt sé viðurkennt, að reglugerð nr. 410/1989 hafi haft kjarasamningsígildi.
Stefnda stoði engu síður að vísa til venjuréttar eða venjubundinnar lögskýringar, þar eð það lágmarkshugtaksskilyrði réttarvenju, að sátt sé um venjuframkvæmd, sé ekki uppfyllt, að því er varði inntak greiðsluskyldu samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 410/1989. Í því sambandi sé þess getið, að laganefndarmál stefnanda, sbr. dskj. nr. 8, hafi verið hið þriðja á fjórum árum, sem laganefnd BHM hafi haft til meðferðar. Hafi í öllum tilvikum verið komizt að þeirri niðurstöðu, að greiðslur fyrir fasta, óunna yfirvinnu teljist til dagvinnulauna í skilningi l. gr. reglugerðar nr. 410/1989 um barnsburðarleyfi starfsmanna ríkisins, sbr. dskj. nr. 11 og 12, en þau laganefndarmál, nr. LN 97-13 og LN 95-27, séu frá 19. september 1997 og 12. desember 1995. Atvik þess fyrrnefnda séu nú rúmlega fjögurra ára gömul og atvik þess síðarnefnda séu rúmlega fimm ára gömul, eða frá haustinu 1995. Fyrir þann tíma hafi ekki heldur verið sátt um einhliða framkvæmd samkvæmt túlkun stefnda á inntaki greiðsluskyldu samkvæmt l. gr. reglugerðar nr. 410/1989, eins og sjá megi af dskj. nr. 13, þar sem fjármálaráðuneyti synji í apríl 1992 sambærilegri kröfu og stefnandi fór fram á og geri dómkröfu um í máli þessu. Atvik þess máls hafi gerzt haustið 1991. Af framangreindu megi leiða, að frá upphafi reglugerðar nr. 410/1989 hafi verið deilt um framkvæmd stefnda samkvæmt túlkun hans á 1. gr. reglugerðarinnar.
Varamálsástæða:
Til vara styður stefnandi kröfu sína við þá málsástæðu, að jafnvel þótt skilningur stefnda á l. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 410/1989 um barnsburðarleyfi starfsmanna ríkisins hefði átt rétt á sér, stangist skýringin nú á við jafnræðisákvæði 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar, og beri nú að skýra ákvæðið til samræmis við þróun á sviði löggjafar, í kjarasamningum og ákvörðunum stjórnvalda, sem fari með kjaramál.
Í fyrsta lagi komi fram í l. ml. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 88/1995 um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað, að alþingismaður eigi rétt á fæðingarorlofi þann tíma, sem lög eða kjarasamningar opinberra starfsmanna ákveði. Í 2. ml. 1. mgr. 12. gr. segi svo:
“Tekur varamaður þá sæti á meðan en þingmaðurinn skal einskis í missa af launum og föstum greiðslum samkvæmt lögum þessum meðan á fæðingarorlofi stendur.”
Lög frá 1995 hljóti að ganga framar reglugerð frá 1989, þar sem lögin vísi að öðru leyti til kjarasamninga (stéttarfélaga) opinberra starfsmanna, enda þótt um sé að ræða annan "starfshóp", sem ekki hafi samningsrétt, en á hinn bóginn löggjafarvald. Önnur túlkun en samræmisskýring mismuni hópum berlega og freklega og samrýmist því ekki jafnræðisákvæði l. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar.
Í öðru lagi séu framangreindar málsástæður og lagaröksemdir stefnanda í samræmi við bæði yfirlýst markmið aðila kjarasamninga með nýju launakerfi opinberra starfsmanna um að auka vægi dagvinnulauna og raunveruleg áhrif nýja launakerfisins, þar sem föst, ómæld eða óunnin yfirvinna hafi í ríkum mæli verið tekin inn í taxtalaun, sbr. um ákvarðanir Kjaradóms og kjaranefndar hér að neðan.
Í þriðja lagi hafi stjórnvöld, sem taki ákvarðanir um kjör embættismanna og annarra starfsmanna, einkum Kjaradómur og kjaranefnd, á undanförnum árum fylgt þeirri eindregnu stefnu í samræmi við þróun í kjarasamningum að taka greiðslur fyrir fasta (óunna sem ómælda) yfirvinnu inn í föst mánaðarlaun.
Þrautavaramálsástæða
Til þrautavara sé vísað til þess, að afstaða stefnda feli í sér óbeina mismunun gagnvart þeim, sem nýti sér rétt til barnsburðarleyfis. Við þær félagslegu aðstæður, sem ríki á Íslandi, stangist slík lögskýring á við 2. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar um jafnrétti kynjanna, enda sé skýringin til þess fallin að koma mun harkalegar niður á konum en körlum í ríkisþjónustu. Þá stangist afstaða stefnda á við 69. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, þar sem kveðið sé á um þá "meginreglu, að karlar og konur hljóti jöfn laun fyrir jafna vinnu", og síðan segi:
“Með "launum" er í þessari grein átt við venjulegt grunn- eða lágmarkskaup ásamt öllum öðrum greiðslum, hvort heldur er í fé eða fríðu, sem launþegi fær beint eða óbeint frá vinnuveitanda sínum vegna starfs síns.”
Fastar yfirvinnugreiðslur séu inntar af hendi bæði í sumarorlofi og í veikindaforföllum, en það séu kynhlutlausar fjarvistir, öfugt við barnsburðarleyfi samkvæmt reglugerð nr. 410/1989 um barnsburðarleyfi "starfsmanna" ríkisins, sem aðeins hafi gilt um konur í ríkisþjónustu.
Höfuðstóll:
Gert sé ráð fyrir því, að greiðslur fyrir fasta, óunna yfirvinnu, sem nemi alls 107,1 yfirvinnustundum, séu vanreiknaðar, eða sem nemi kr. 108.878, sbr. nánari útreikning á dskj. nr. 14.
Almennt yfirvinnuhlutfall sé 1,0385%, sbr. ákvæði 1.5.1 í uppfærðum kjarasamningi stefnda við stéttarfélag stefnanda. Stefnanda í óhag sé litið fram hjá því, að greiðslur fyrir unna yfirvinnu séu inntar af hendi eftir á og síðar en grunnlaun.
Stefndi, eða Ríkisbókhald sem undirstofnun fjármálaráðuneytis, að því er virðist f.h. stefnda, hafi samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 410/1989 reiknað út, að stefnandi hafi fengið alls 643 yfirvinnustundir "greiddar síðustu 12 mánaða uppgjörstímabil yfirvinnu, áður en barnsburðarleyfi hófst." Samkvæmt skilningi stefnda á l. gr. reglugerðarinnar sé ekki gerður greinarmunur á greiðslum fyrir unna yfirvinnu annars vegar og greiðslum fyrir fasta, óunna yfirvinnu hins vegar. Samkvæmt því sé mánaðarlegt meðaltal þessara 643 greiddu yfirvinnustunda fundið þannig, að í það sé deilt með 12, þ.e. 53,58, til þess að finna það mánaðarlega meðaltal, sem samkvæmt túlkun stefnda beri að greiða fyrstu þrjá mánuðina í barnsburðarleyfi, sbr. 4. gr. reglugerðarinnar, eða skert hlutfall í lengri tíma, sé barnsburðarleyfi lengt samkvæmt 5. gr. reglugerðarinnar og annars ekki óskað, sbr. dskj. nr. 19. Þar sem stefnandi hafi fengið barnsburðarleyfi sitt lengt úr sex mánuðum í níu, megi, samkvæmt dskj. nr. 19, gera ráð fyrir, að stefndi hafi talið, að dreifa mætti þessum greiðslum á helmingi lengri tíma, þ.e. í stað þrisvar sinnum 53,58 að dreifa greiðslunum í sex sinnum 26,79. Hvor leiðin, sem farin hefði verið, geri heildarfjölda tímanna (3x53,58 eða 6x26,79=) samkvæmt túlkun stefnda: 160,74.
Hvað sem því líði, hafi framkvæmdin af hálfu stefnda (eða Ríkisbókhalds) ekki verið nákvæmlega á þessa leið, heldur hafi verið greitt sem hér segi samkvæmt launaseðlum frá desember 1996 til júní 1997, sbr. dskj. nr. 15.
|
31.12.96 |
40,2 |
|
01.01.97 |
0 |
|
01.12.97 |
26, 9 |
|
01.03.97 |
26,9 |
|
01.04.97 |
26,9 |
|
01.05.97 |
26,9 |
|
01.06.97 |
-26,9 |
|
01.06.97 |
40,2 |
|
Alls |
161,1 |
Reyndar sé upp gefinn tímafjöldi örlítið lægri en raunveruleg heildargreiðsla samkvæmt launaseðlum bendi til, sbr. dskj. nr. 15, en sú heildargreiðsla leiði til þess, að reiknaður tímafjöldi sé 161,16. Hvað sem ráðið hafi þessari greiðslutilhögun, sem skipti þó ekki máli hér, sé ljóst, að hinn reiknaði heildarfjöldi yfirvinnustunda, 161,1, samsvari nánast því, sem túlkun stefnda á 1. gr. reglugerðar nr. 410/1989, leiði til samkvæmt framansögðu, 160,74. Skekkjan sé um 0,4 yfirvinnustundir, hvort sem miðað sé við upp gefinn tímafjölda eða raunverulega reiknaðan tímafjölda samkvæmt launaseðlum, sbr. nánari útreikning á dskj. nr. 14.
Stefnandi telji á hinn bóginn, að frá heildarfjölda greiddra yfirvinnustunda síðustu 12 mánuði fyrir barnsburðarleyfi, 643, eigi að draga fasta, óunna yfirvinnu, sem nemi á sjö mánuðum 20 yfirvinnustundum á mánuði, eða samtals 140, og á fimm mánuðum 30 yfirvinnustundir á mánuði, sem nemi samtals 150, eða alls 290 yfirvinnustundir á 12 mánuðum. Mismunurinn, 643-290, þ.e. 353, myndi stofn fyrir meðaltalsútreikning unninnar yfirvinnu samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 410/1989, þ.e. 353/12 = 29,42. Miðað við hámarksdreifingu mánaðarlegs meðaltals tilfallandi yfirvinnustunda barnsburðarleyfis, sem stefnandi hafi samkvæmt dskj. nr. 19 átt rétt á, dreifist helmingur þeirrar fjárhæðar, 29,42/2=14,71, á sex mánuði í stað þriggja.
Stefnandi telji hins vegar ekki, að fasta yfirvinnan undanfarna 12 mánuði, alls 290 yfirvinnustundir, eigi að mynda stofn til meðaltalsútreiknings samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 410/1989, eins og stefndi telji, og Ríkisbókhald hafi gert ráð fyrir, heldur að umsamin, föst, óunnin yfirvinna bætist við grunndagvinnulaun stefnanda samkvæmt kjarasamningi (svonefnd mánaðarlaun), en á þeim tíma, sem stefnandi hóf barnsburðarleyfi, hafi umsaminn tímafjöldi verið 30. Hafi stefnanda því borið 20 yfirvinnustundir á mánuði í 9 mánuði, sbr. dskj. nr. 14.
Þannig sé fundið út, að fyrstu sex mánuðina í barnsburðarleyfi stefnanda hafi átt að greiða 20+14,71=34,71 yfirvinnustundir til viðbótar við grunndagvinnulaun stefnanda samkvæmt kjarasamningi (svonefnd mánaðarlaun), en síðustu þrjá mánuðina hafi átt að greiða 20 yfirvinnustundir til viðbótar við sama grunn.
Fjárkrafa stefnanda fyrir dómi, kr. 108.878, sé þannig reiknuð, að mismunurinn á framangreindum reiknuðum og greiddum yfirvinnutímafjölda samkvæmt launaseðlum, sbr. dskj. nr. 15, og þeim tímafjölda, sem stefnandi telji samkvæmt framansögðu, að hafi átt að greiða (34,71 yfirvinnustundir í sex mánuði og síðan 20 yfirvinnustundir í þrjá mánuði), sé margfaldaður með einingarverði yfirvinnukaups stefnanda í hverjum mánuði, sem um sé að ræða.
Útreikningur mismunar og vangreiðslu sé með eftirfarandi hætti, sbr. nánar útreikninga á dskj. nr. 14:
|
ei.verð(E) |
Vanreiknað |
Vangreitt |
|
kr. 986,67 |
-5,49 |
-5.406,75 |
|
kr. 984,67 |
34,7 |
34.176,25 |
|
kr. 984,67 |
7,79 |
7.669,25 |
|
kr. 984,67 |
7,79 |
7.669,25 |
|
kr. 984,67 |
7,79 |
7.669,25 |
|
kr. 984,67 |
34,7 |
34.176,25 |
|
kr. 984,67 |
|
|
|
kr. 1.030,95 |
-20,2 |
-20.825,00 |
|
kr. 1.093,74 |
20 |
21.874,80 |
|
|
107,1 |
|
|
kr. |
|
108.878,13 |
Sé litið til þess, að l. júní 1997 sé dregin frá sama fjárhæð og greidd var l. maí 1997, sbr. fyrri töfluna og launaseðla á dskj. nr. 15, sé heildartímafjöldanum og heildargreiðslunni af hálfu Ríkisbókhalds í raun skipt á 5 greiðslur, þ.e. tvívegis 40,2 (alls 80,4) og þrívegis 26,9 (alls 80,7), eða samtals 161,1. Á síðari töflunni sé mismunurinn í tímafjölda feitletraður til skýringar.
Þannig sé dómkrafa stefnanda í máli þessu fundin, sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá 5. júlí 2000 í máli nr. E-120/2000, þ.e.a.s. fyrra máli stefnanda um sama ágreiningsefni, sem var vísað frá dómi með úrskurðinum.
Til nánari áréttingar launaseðlum stefnanda, sbr. dskj. nr. 15, sé miðað við, að yfirvinnukaup stefnanda fyrir desember 1996 til maí 1997, sé fundið með því að margfalda grunnlaun stefnanda þá mánuði, kr. 94.817,00, með 1,0385%; út úr því komi yfirvinnukaup að fjárhæð kr. 984,67.
Þegar síðasta greiðsla "yfirv í bbl" af hálfu Ríkisbókhalds hafi verið innt af hendi 1. júní 1997, höfðu grunnlaun stefnanda samkvæmt kjarasamningi hækkað um 4,7%, þ.e. úr kr. 94.817,00 í kr. 99.273,00, sbr. dskj. nr. 15. Yfirvinnukaup stefnanda fyrir júní 1997 sé fundið með sama hætti (1,0385%) og reiknist það kr. 1.030,95.
Hinn 16. júní 1997 hafi stefnandi orðið þrjátíu ára og hafi grunnlaun hennar þá hækkað um tvo launaflokka og orðið kr. 105.319,00. Yfirvinnukaup hennar fyrir júlí 1997 og ágúst 1997 sé loks fundið með sama hætti (1,0385%) kr. 1.093,74, og vangreidd, föst, óunnin yfirvinna samkvæmt skilningi stefnanda reiknuð á þeim grunni samkvæmt síðara skemanu hér að ofan, sbr. nánar útreikning á dskj. nr. 14.
Almennt:
Stefndi hafi, þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir fyrr og síðar, enn ekki greitt ofangreinda kröfu, og sé stefnanda því nauðsyn á að höfða mál þetta til innheimtu kröfunnar. Eins og fram komi í málsatvikalýsingu og tilvísuðum dómskjölum, hafi stefnandi og framkvæmdarstjóri BHM ítrekað krafið stefnda um greiðslu kröfunnar með tilvitnuðum lagaröksemdum og með vísan til þess skilnings á staðreyndum, að um sé að ræða fastar yfirvinnugreiðslur, eins og fram komi í lýsingu málsatvika. Stefnandi hafi á engan hátt afsalað sér eða firrt sig rétti samkvæmt rétt skýrðri reglugerð nr. 410/1989 um barnsburðarleyfi starfsmanna ríkisins.
Stefndi hafi á hinn bóginn ekki mótmælt kröfu stefnanda efnislega eða þeim skilningi stefnanda á staðreyndum, að um sé að ræða fastar yfirvinnugreiðslur. Verði nú vart talið, að ágreiningur sé um fjárhæð kröfunnar samkvæmt nánari útreikningi á dskj. nr. 14, enda byggist fjárhæðin á greiddum yfirvinnustundum samkvæmt launaseðlum, sbr. dskj. nr. 15, svo og á þágildandi kjarasamningi við stefnda. Greiðsluskyldu stefnda hafi í dskj. nr. 9 einungis verið mótmælt á þeim grundvelli, að skýra beri reglugerð nr. 410/1989 um barnsburðarleyfi starfsmanna ríkisins á annan hátt en stefnandi geri og málið snúist um.
Dráttarvextir:
Krafa um dráttarvexti sé byggð á því, að stefndi hafi vanefnt skyldu sína við stefnanda, samkvæmt rétt skýrðri reglugerð og ígildi gildandi kjarasamnings og samkvæmt munnlegum ráðningarsamningi forstöðumanns stofnunar við stefnanda, til þess að greiða kröfu stefnanda á fyrir fram ákveðnum gjalddaga.
Dráttarvaxtakrafan sé miðuð við höfuðstól vangreiddrar launakröfu, eins og stefnandi telji kröfuna hafa verið í kjölfar lengds barnsburðarleyfis, en taka beri tillit til höfuðstólsfærslu dráttarvaxta samkvæmt 1. ml. 12. gr. vaxtalaga, sem krafizt sé. Stefnanda í óhag sé þannig til einföldunar farin sú leið að krefjast aðeins dráttarvaxta af heildarfjárhæðinni, sem talin sé vangreidd frá þeim tíma sem öll hin vangreidda launafjárhæð var gjaldfallin, 1. september 1997.
Greiðslur fyrir fasta, óunna yfirvinna muni ekki hafa verið inntar af hendi fyrir fram frekar en greiðslur fyrir unna yfirvinnu. Ekki sé í málinu krafizt fyrirframgreiðslu fastrar yfirvinnu til handa stefnanda til þess að fækka ágreiningsatriðum í málinu, enda þótt sú ítrasta krafa stefnanda myndi samrýmast skilningi stefnanda á 1. gr. reglugerðar 410/1989, og sé þessi málatilbúnaður byggður á meginreglu réttarfarslaga um málsforræði aðila.
Þess sé krafizt, að dráttarvextir verði höfuðstólsfærðir árlega.
Málskostnaðarkrafa:
Krafa stefnanda um málskostnað styðjist við eml. að því er fjárhæð varði.
Að því er varði skyldu stefnda til greiðslu málskostnaðar styðjist krafa stefnanda aðallega við það, að stefndi tapi máli í öllu verulegu. Að öðrum kosti styðjist krafa stefnanda um málskostnað til vara við þá staðreynd, að stefndi hafi, sem opinber vinnuveitandi, ekki aðeins yfirburðastöðu gagnvart einstökum launamönnum, heldur einnig eins konar forgangsstöðu til túlkunar, bæði á lögum og reglugerðum, er varði starfsmannarétt, kjarasamningum og ráðningarsamningum, þótt tvíhliða séu.
Þá megi hafa hliðsjón af 4. mgr. 130. gr. eml., en með því að mál þetta sé eins konar prófmál, sem eitt af mörgum sem hafi komið til meðferðar hjá BHM, komist stefndi, íslenzka ríkið, hjá því, að gegn því séu höfðuð mörg mál um sama álitaefni.
Réttarreglur:
A Fjárkrafa
Vísað sé til 1. gr. reglugerðar nr. 410/1989 um barnsburðarleyfi starfsmanna ríkisins og l. ml. 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Þá sé vísað til ákvæðis 2.1.1 í kjarasamningi Stéttarfélags lögfræðinga við stefnda og 2. gr. laga nr. 88/1971 um 40 stunda vinnuviku. Þá sé vísað til álits umboðsmanns Alþingis í SUA 1997:190 (191), hæstaréttardóma í H 1992:682 (683), H 1995:1542 (1544) og dóms Hæstaréttar í máli nr. 247/1998, sem kveðinn var upp hinn 25. febrúar 1999. Einnig sé vísað til 1. og 2. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar, svo og 3. og 4. gr. laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, og 69. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið.
Höfuðstóll
Greiðsluskuldbinding stefnda að því er höfuðstól varði styðjist við skráðar og óskráðar reglur íslenzks kröfuréttar, starfsmannaréttar og allsherjarréttar, um að samninga beri að halda og kaupgjald að gjalda, þegar um sé samið eða krafizt sé, og að lög, reglugerðir, kjarasamninga og ráðningarsamninga, skriflega og munnlega, beri að túlka í samræmi við stjórnarskrá, lagaþróun og launaþróun, svo og af jafnræði og sanngirni.
Vaxtakröfur
Um upphafstíma dráttarvaxta sé vísað til 1. mgr. 9. gr. vaxtalaga, sbr. 4. gr. l. nr. 67/1989, en samkvæmt því ákvæði skulu dráttarvextir reiknast af peningakröfu frá og með gjalddaga fram að greiðsludegi, ef eigi sé greitt á gjalddaga, hafi gjalddagi verið fyrir fram ákveðinn. Í því sambandi sé vísað til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, en samkvæmt því sé aðalreglan, að föst laun skuli greidd eftir á, fyrsta virkan dag hvers mánaðar, sbr. þó 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í sömu lögum. Að því er vaxtafót varði miðist dráttarvaxtakrafa stefnanda við 10. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, sbr. 1. gr. l. nr. 90/1992.
Um rétt til þess að höfuðstólsfæra dráttarvexti árlega er vísað til 12. gr. vaxtalaga.
Málskostnaðarkrafa
Málskostnaðarkrafa stefnanda styðjist við XXI. kafla eml. Fjárhæð málskostnaðar styðjist við 129. gr. eml. Krafa um greiðslu málskostnaðar styðjist aðallega við 1. mgr. 130. gr. eml., en til vara við 2. ml. 3. mgr. 130. gr. eml.
Málsástæður stefnda:
Stefndi mótmælir því, að fyrir liggi samkomulag við stefnanda um "fasta, óunna yfirvinnu", eða yfirvinnu án vinnuframlags. Hafi stefnandi engin gögn lagt fram um efni slíks samkomulags. Sé slíkt samkomulag ekki að finna í ráðningarsamningi hennar.
Mótmælt sé þeirri staðhæfingu stefnanda á bls. 11 í stefnu, að stefndi hafi ekki mótmælt kröfu hennar eða skilningi hennar á staðreyndum, eða að um sé að ræða fastar yfirvinnugreiðslur. Samkvæmt launavinnslukerfi ríkisins sé ljóst, að stefnandi hafi fengið greidd laun fyrir yfirvinnu á þeim tíma, sem máli skipti og liggi ekkert annað fyrir, en að baki þeim launagreiðslum búi vinnuframlag. Sýni framlögð ljósrit af launaseðlum og vinnuyfirliti úr stimpilklukku, sbr. dskj. nr. 15, ekki fram á annað. Leggi stefndi áherzlu á, að það hafi verið í verkahring forstöðumanns að fylgjast með vinnuframlagi stefnanda og skipuleggja vinnu hennar.
Stefnandi einangri þann hluta yfirvinnu, sem hún telji hafa verið fasta yfirvinnu og megi ráða af stefnu, að nú telji hún, að það hafi ekki átt að greiða henni sem meðaltal yfirvinnu, heldur sem dagvinnulaun. Í launavinnslukerfi ríkisins hafi verið tekið meðaltal yfirvinnu, ótilgreint, síðustu 12 mánuði fyrir töku barnsburðarleyfis til að reikna mætti út og greiða það meðaltal, sem réttur hafi staðið til miðað við fyrstu þrjá mánuði leyfisins. Sé ljóst, að miðað við skilning stefnda á ákvæðum 1. og 4. gr. reglugerðar nr. 410/1989 sé engri vanefnd til að dreifa á greiðslum til stefnanda, meðan á barnsburðarleyfi stóð.
Af hálfu stefnda sé því mótmælt, að í tilvitnuðum dómum í stefnu eða álitum umboðsmanns Alþingis frá 1997 felist að líta verði á fastar eða ómældar yfirvinnugreiðslur sem hluta af dagvinnulaunum í barnsburðarleyfi. Telji stefndi framsetningu þessa af hálfu stefnanda ranga og sé henni mótmælt, þar sem í 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 410/1989 sé ekki kveðið á um "föst laun", heldur "dagvinnulaun". Tilvitnaðir dómar geti ekki talizt vera fordæmi fyrir fjárkröfu stefnanda. Taki dómar, sem stefnandi vísi til, meðal annars til þess hvað teljist til "fastra launa" í skilningi annarra réttarreglna, og í öðru lagi séu atvik máls þessa annars konar. Reyni hér á hugtakið "dagvinnulaun". Eðlileg orðskýring leiði ekki til þess að telja beri, að dagvinnulaun hafi sömu merkingu og föst laun í skilningi stefnanda, þ.e. með yfirvinnugreiðslum af einhverju tagi. Í tilvitnuðum dómum sé fjallað um starfslok ríkisstarfsmanna, annars vegar vegna niðurlagningar, þar sem reynt hafi á skýringu 14. gr. laga nr. 38/1954, og hins vegar ákvörðun bóta vegna uppsagnar. Þá verði fremur ráðið af hrd. 30. marz 2000 í málinu nr. 435/1999, að yfirvinnu í tilviki stefnanda hafi ekki mátt telja til dagvinnulauna í skilningi reglugerðar nr. 410/1989, og aðeins hafi verið fyrir hendi réttur til yfirvinnugreiðslna, sem samsvaraði meðaltali síðustu 12 mánaða fyrir töku barsburðarleyfis í þrjá mánuði, meðan barnsburðarleyfið varði, hvernig svo sem þeim rétti hafi verið deilt niður. Þá telji stefndi, að tilvísun stefnanda til Samkomulags Bandalags háskólamanna, BSRB og Kennarasambands Íslands annars vegar og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs, Reykjavíkurborgar og Launanefndar sveitarfélaga hins vegar um tiltekin atriði, er varði réttindi starfsmanna í ofangreinum samningum frá 24. október 2000, geti ekki átti við í málinu.
Málatilbúnaði stefnanda og kröfum á honum reistum sé mótmælt. Í málinu reyni á, hvernig skýra beri orð l. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 410/1989, um að fastráðin kona eigi rétt á barnsburðarleyfi í 6 mánuði með þeim dagvinnulaunum, sem stöðu hennar fylgi, og jafnframt þau fyrirmæli 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar, að auk dagvinnulauna skuli fyrstu þrjá mánuðina greiða meðaltal þeirra yfirvinnustunda, sem viðkomandi fékk greiddar síðustu 12 mánaða uppgjörstímabil yfirvinnu, áður en barnsburðarleyfi hófst.
Svo sem byggt sé á af hálfu stefnanda, hafi farið um rétt hennar til launa í barnsburðarleyfi eftir ákvæðum reglugerðar nr. 410/1989 um barnsburðarleyfi starfsmanna ríkisins. Lög nr. 38/1954 hafi fallið úr gildi þann 1. júlí 1996, en ný lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, hafi tekið gildi, sbr. 54. og 55. gr. þeirra laga. Réttilega sé á það bent í stefnu, að með 2. mgr. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 70/1996 sé kveðið á um, að reglugerð nr. 410/1989 skuli gilda þrátt fyrir ákvæði 12. gr. unz laun í fæðingarorlofi hafi verið ákveðin, eða um þau samið, sbr. 1. mgr. 9. gr. laganna.
Reglugerðin hafi verið sett með stoð í 17. gr. laga nr. 38/1954 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, þar sem hafi sagt að ákveða skyldi með reglugerð, hvernig færi um launagreiðslur til starfsmanna í veikindaforföllum, svo og til kvenna í fjarvistum vegna barnsburðar. Á grundvelli sama lagaákvæðis hefði gilt um þetta efni 11. gr. reglugerðar nr. 87/1954 um orlof og veikindaforföll starfmanna ríkisins. Hafi þar sagt, að vegna barnsburðar skyldi kona eiga rétt á að vera fjarverandi með "fullum launum" í samtals 90 daga. Reglugerðinni hafi verið breytt með reglugerð nr. 295/1981, en áfram miðað við full laun í 90 daga í barnsburðarleyfi. Ný reglugerð nr. 86/1983 hafi komið í stað reglugerðar nr. 87/1954. Í 7. gr. þeirrar reglugerðar hafi sagt, að vegna barnsburðar skyldi kona, sem starfað hefði í þjónustu ríkisins samfellt í sex mánuði, eiga rétt á að vera fjarverandi með "fullum launum" í samtals 90 daga, og skyldi "um uppgjör fyrir yfirvinnu farið eftir ákvæðum 2. gr." Í 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar hafi verið nánar skilgreint, hvað skyldi teljast til fullra launa, en þar á meðal hafi verið greiðslur fyrir yfirvinnu. Hafi síðan í 3. mgr. 2. gr. verið skýrt nánar, hvernig greiðslur vegna yfirvinnu skyldu ákveðnar.
Með reglugerð nr. 633/1987 um barnsburðarleyfi starfsmanna ríkisins hafi verið settar heildarreglur um barnsburðarleyfi ríkisstarfsmanna. Reglugerðin hafi verið sett í kjölfar breytinga, sem urðu með lögum nr. 57/1987, um fæðingarorlof, þar sem fæðingarorlof hafi verið lengt í 6 mánuði í áföngum, og laga nr. 59/1987, er mælt hafi fyrir um greiðslu fæðingardagpeninga og fæðingarstyrks í 16. gr. og 26. gr. laga nr. 67/1971 um almannatryggingar. Til að bregðast við þessu hafi réttur fastráðinnar konu til barnsburðarleyfis einnig verið lengdur í 6 mánuði í áföngum, en "með þeim dagvinnulaunum, sem stöðu hennar fylgja", svo sem þar hafi sagt, í stað fullra launa áður. Hafi síðan verið tekið fram í 4. gr. reglugerðarinnar, að fyrstu þrjá mánuði í barnsburðarleyfi skyldi "auk dagvinnulauna greiða meðaltal þeirra yfirvinnustunda ... sem kona fékk greiddar síðustu 6 mánaða uppgjörstímabil yfirvinnu, áður en barnsburðarleyfi hófst". Hafi þetta verið talið rétt, þar sem dagvinnulaun ríkisstarfsmanna hafi almennt verið talin hærri en fæðingardagpeningar og fæðingarstyrkur, sbr. þau sjónarmið, sem fram komi í 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar.
Núgildandi reglugerð nr. 410/1989 hafi leyst af hólmi reglugerð nr. 633/1987. Hafi áfram verið miðað við 6 mánaða barnsburðarleyfi með þeim dagvinnulaunum, sem stöðu fylgdu. Auk "dagvinnulauna" skuli greiða í þrjá mánuði meðaltal yfirvinnustunda, sem kona fékk greiddar síðustu 12 mánaða uppgjörstímabil yfirvinnu, áður en barnsburðarleyfi hófst, sbr. 4. gr. Í eldri reglugerð hafi verið miðað við 6 mánaða uppgjörstímabil.
Með vísan til forsögu reglugerðarinnar hafi verið mælt fyrir um greiðslur í fæðingarorlofi og þar greint á milli fullra launa, sem merki í raun heildarlaun, og síðan dagvinnulauna samkvæmt kjarasamningi eftir 1987. Þegar tekin hafi verið ákvörðun um að lengja barnsburðarleyfi í 6 mánuði 1987, hafi það verið gert með þeim hætti að greiða skyldi dagvinnulaun samkvæmt kjarasamningi í sex mánuði. Þrjá fyrstu mánuðina skyldi auk dagvinnulauna reiknað kaup samkvæmt meðaltali greiddrar yfirvinnu í 12 mánuði fyrir barnsburðarleyfið. Eftir þann tíma sé greitt dagvinnukaup í þrjá mánuði. Sé ljóst af þessu, að í síðari reglugerðum um barnsburðarleyfi starfsmanna ríkisins sé skýrlega greint á milli dagvinnulauna samkvæmt kjarasamningi og annarra launa, þ.á m. yfirvinnu í hvaða mynd sem sé, eða af hvaða ástæðum. Full laun, eins og þau hafi verið skýrð hér að framan, séu í raun áfram greidd fyrstu þrjá mánuðina, en dagvinnulaun eftir það. Lengingin, sem kom til á árinu 1987, hafi því í raun verið bundin við dagvinnulaun. Sé það ljóst, þegar borin séu saman ákvæði l. mgr. l. gr. og l. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 410/1989. Framkvæmd stefnda á reglugerðinni um greiðslur í barnsburðarleyfi hafi alla tíð legið ljós fyrir, og sé bréf ráðuneytisins frá 28. apríl 1992 (dskj. nr. 13) til staðfestingar á því.
Í kjarasamningum aðildarfélaga BSRB og BHMR hafi verið gerðar bókanir um þetta og vísað til þágildandi reglugerðar, sem sett hafði verið. Hafi því af hálfu aðildarfélaganna verið fylgzt með setningu reglugerðanna mótmælalaust og án ágreiningsatriða, hvað þetta varði, sbr. 36. gr. þágildandi laga nr. 38/1954. Engar athugasemdir eða mótmæli við framkvæmd og skilning stefndu á hugtakinu dagvinnulaun hafi komið fram af hálfu félaganna. Beri því að leggja til grundvallar skilning stefnda á hugtakinu dagvinulaun og þeirri framkvæmd, sem tíðkazt hafi um árabil og athugasemdalaus venja sé fyrir, en af hálfu stefnanda hafi ekki verið dregin í efa lagastoð reglugerðarinnar. Sé á það bent, að reglugerð nr. 410/1989 hafi beinlínis verið lögfrest í 2. mgr. ákvæðis til bráðabirgða með lögum nr. 70/1996. Mómæli stefndi framlögðum álitum laganefndar BHM sem þýðingarlausum. Hafi ekki komið fram formleg mótmæli við framkvæmd stefnda eða túlkun af hálfu BHM, og stefnandi hafi ekki lagt fram gögn, er sýni fram á, að félagið hafi gert um þetta ágreining.
Samkvæmt l. mgr. 9. gr. laga nr. 70/1996 hafi stefnandi átt rétt á launum fyrir störf sín samkvæmt þeim kjarasamningi, sem stéttarfélag hennar hafi gert við fjármálaráðherra. Kjarasamningur sá, sem í gildi var, þegar stefnandi hóf töku barnsburðarleyfis, hafi verið tæmandi um þau starfskjör, sem um starfið gildi. Verði talið, að sýslumaðurinn á Akureyri hafi ákveðið stefnanda einstaklingsbundin ráðningarkjör, sem hafi komið til viðbótar kjörum hennar samkvæmt kjarasamningi, sé ljóst, eftir 1. mgr. 10. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, að slík viðbótarlaun geti ekki talizt til dagvinnulauna, sbr. ákvæði 1.1.1 og 2.2.1 í kjarasamningi Stéttarfélags lögfræðinga, og þá heldur ekki samkvæmt 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 410/1989. Sé því mótmælt, að málamyndasamkomulag liggi fyrir, sem hafi haft að markmiði að skerða réttindi stefnanda í barnsburðarleyfi. Hafi stefnandi ekki sýnt fram á það. Verði talið, að samkomulag hafi verið gert um slíkar yfirvinnugreiðslur til stefnanda, sé ljóst, að með því hafi verið farið út fyrir ákvæði kjarasamnings.
Ákvæði 1. mgr. l. gr. reglugerðar nr. 410/1989 mæli fyrir um greiðslu dagvinnulauna, en ekki fastra launa eða fullra launa. Hugtakið föst laun megi rekja til þess fyrirkomulags, þegar laun ríkisstarfsmanna voru ákveðin með launalögum, sbr. lög nr. 40/1945 og lög nr. 92/1955. Jafnframt hafi verið kveðið á um yfirvinnu starfsmanna ríkisins í reglugerð nr. 143/1958 og reglugerð nr. 192/1958. Með tilkomu laga nr. 55/1962, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, hafi stéttarfélög ríkisstarfsmanna farið með samningsaðild fyrir þeirra hönd. Í kjarasamningi fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og Stéttarfélags lögfræðinga, sem hafi verið í gildi á þeim tíma, sem kröfur stefnanda nái til, sé í grein 1.1 fjallað um mánaðarlaun starfsmanns fyrir dagvinnu, sbr. grein 2.2.1. Um yfirvinnu sé síðan fjallað í grein 2.3. Verði talið, að samningur hafi verið gerður, þar sem ekki hafi verið krafizt vinnuframlags vegna greiddra yfirvinnutíma, sé ljóst að líta verði á slíkt sem launaávinning umfram kauptaxta kjarasamnings, og að slíkt sé hluti ráðningarsamnings. Megi til hliðsjónar vísa til Hrd. 3. febrúar 2000 í málinu nr. 352/1999. Væri með slíkri yfirborgun komið út fyrir svið kjarasamnings. Geti ákvörðun sýslumanns, eða samningur um sérstök ráðningarkjör umfram kjarasamning, ekki leitt til þess að skýra eigi orðið "dagvinnulaun" samkvæmt 1. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 410/1989 með öðrum hætti, en leiði af launum fyrir dagvinnu samkvæmt gildandi kjarasamningi, en þar sé ótvírætt vísað til kauptaxta kjarasamnings, þ.e. mánaðarlauna fyrir dagvinnu, sem fyrr segi. Breyti engu, hvort beinlínis sé sagt "samkvæmt kjarasamningi" eða ekki. Sé með hugtakinu dagvinna, t.d. í grein 1.4 í kjarasamningi vísað til mánaðarlauna. Á vinnumarkaði séu dagvinnulaun almennt talin vera laun samkvæmt kauptaxta kjarasamnings, þ.e. mánaðarlaun, en ekki yfirvinnugreiðslur í hvaða mynd sem sé. Af þessu leiði, að réttur stefnanda til dagvinnulauna í barnsburðarleyfi hafi ekki falið í sér rétt til greiðslu svokallaðrar fastrar yfirvinnu þá, nema sem leitt hafi af 4. gr. reglugerðarinnar og að fullu hafi verið greidd. Beri því að sýkna af kröfu hennar um vangoldin laun.
Af hálfu stefnda sé á því byggt, að ekki beri að einblína á 1. gr. reglugerðarinnar, svo sem gert sé af hálfu stefnanda. Um laun í barnsburðarleyfi fari eftir 1. mgr. 1. gr. og 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar, en í hinu síðarnefnda ákvæði segi, að fyrstu 3 mánuði í barnsburðarleyfi, svo og í framlengdu leyfi samkvæmt 6. og 7. gr. og fyrstu 2 mánuði samkvæmt 8. gr., skuli, auk dagvinnulauna, greiða meðaltal þeirra yfirvinnu-, vakta-, gæsluvakta- og óþægindaálagsstunda, sem konan hafi fengið greiddar síðustu 12 mánaða uppgjörstímabil yfirvinnu, áður en barnsburðarleyfi hófst. Stefnandi hafi, í samræmi við það, fengið greitt sem samsvaraði meðaltali yfirvinnu fyrstu 3 mánuðina í því 9 mánaða barnsburðarleyfi, sem hún tók. Þar sem réttur til yfirvinnu- eða óþægindaálagsstunda umfram það eigi sér ekki stoð í reglugerð nr. 410/1989, beri að sýkna af kröfu stefnanda um vangoldin laun.
Sem fyrr segi sé ekki komið fram, að samið hafi verið um "fasta - óunna yfirvinnu" enda geti slíkt ekki verið annað en rökleysa, svo sem orðasambandið feli í sér. Verði að gera ráð fyrir því, að þótt einhver hluti yfirvinnugreiðslna hafi ekki verið mældur sérstaklega, geti hún ekki átt rætur að rekja til annars en vinnuframlags í einhverri mynd, eða komið til vegna sérstaks álags vegna eðlis starfsins. Burtséð frá skilningi á hugtakinu dagvinnulaun hafi sú yfirvinna, sem stefnandi telji, að samið hafi verið fyrirfram um, að greidd skyldi, hiklaust átt undir orðalag l. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 410/1989, þannig að réttur til greiðslu á meðaltali hennar hafi einungis verið fyrir hendi fyrstu þrjá mánuði. Lögvarinn réttur hafi ekki verið til frekari greiðslna, og telji stefndi, að greiðslur til stefnanda í barnsburðarleyfi hafi að fullu verið efndar í samræmi við ákvæði títtnefndrar reglugerðar. Stefnandi eigi ekki kröfu til þess, að einstaklingsbundin ráðningarkjör hennar verði lögð til grundvallar umfram það, sem ákvæði 1. og 4. gr. reglugerðarinnar geri ráð fyrir.
Sé, með vísan til framanritaðs, áréttað, að hvort sem litið yrði á yfirvinnustundir þær, sem stefnandi fékk greiddar, sem fastar yfirvinnustundir, eða eftir stimpilklukku, sé ljóst, að í 1. mgr. 4. gr. sé enginn greinarmunur gerður þar á, hvað varði rétt til greiðslu yfirvinnustunda, auk dagvinnulauna. Orðið yfirvinnustundir taki því til allra þeirra greiðslna, sem greiddar séu sem yfirvinnustundir á grundvelli ákvæða kjarasamnings um yfirvinnu, þ.e. sem nemi 1,0385% af mánaðarlaunum starfsmanns, sbr. grein 1.5.1 í kjarasamningi. Sé því mótmælt, að í raun sé tilgangur 1. gr. reglugerðarinnar að tryggja regluleg laun, en undanskilja einungis óreglulegar tekjur, svo sem haldið sé fram. Ákvæði 1. gr. og 4. gr. séu skýr, um að dagvinnulaun skyldi greiða í 6 mánuði, eða með samsvarandi skerðingu og nam lengingu leyfis, en réttur til hvers kyns yfirvinnustunda, hvort sem þær stundir hafi verið fyrir sérstaklega mælt vinnuframlag eða ekki, aðeins sem numið hafi þeim rétti, sem kveðið sé á um í 1. mgr. 4. gr., þ.e. meðaltali yfirvinnustunda, sem greiddar hafi verið síðustu 12 mánaða uppgjörstímabil, sem numið hafi þeim rétti í fyrstu 3 mánuði, þótt þeim rétti hafi verið dreift. Til samanburðar sé byggt á því, að vakta- eða óþægindaálagsstundir séu ekki óreglulegar greiðslur, heldur allt eins, og raunar oftar, reglubundnar.
Allar yfirvinnugreiðslur til stefnanda hafi því fallið undir orðalagið yfirvinnustundir, sem réttur hafi einungis staðið til miðað við þrjá mánuði í 1. mgr. 4. gr., og þar með ekki undir hugtakið dagvinnulaun samkvæmt 1. gr. reglugerðarinnar. Sé annars vegar um að ræða dagvinnulaun samkvæmt kjarasamningi, þ.e. mánaðarlaun, sem sérstaklega séu skilgreind fyrir dagvinnu, og kjarasamningur geri ráð fyrir að reikna megi út fyrir hvern dag, sbr. grein 1.1.3 þar, og auk þess út frá því, hvert sé tímakaup í dagvinnu, sbr. grein 1.4.1 í kjarasamningi. Yfirvinna hins vegar, hverju nafni sem nefnist, og þótt lagt yrði til grundvallar, að vinnuframlagi hafi ekki verið skilað, sé undir engum kringumstæðum hluti af launum fyrir dagvinnu, enda yrði tímakaup fyrir dagvinnu t.d. ekki reiknað út ásamt greiðslum fyrir "óunna yfirvinnu", sem stefnandi telji sig hafa notið. Hafi öll yfirvinna stefnanda verið reiknuð út og greidd á grundvelli ákvæða kjarasamnings um yfirvinnu.
Til samanburðar verði ráðið af launaseðlum stefnanda, að einungis hafi verið greidd iðgjöld til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins af dagvinnulaunum, svo og desemberuppbót og oflofsuppbót, þegar því hafi verið að skipta. Hvorki fyrir töku barnsburðarleyfis, né meðan á því stóð, hafi verið greidd í lífeyrissjóðinn iðgjöld af yfirvinnugreiðslum, hvaða nafni sem stefnandi nefni þær, heldur af dagvinnulaunum fyrst og fremst, sbr. 10. gr. eldri laga nr. 29/1963 um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, sbr. einnig 23. gr. og 24. gr. laga nr. 1/1997 um sama efni, en stefnandi hafi greitt í Bdeild sjóðsins á þeim tíma, sem máli skipti. Sé því ljóst, að hugtakið dagvinnulaun í þessu réttarsambandi sé til samræmis við skilning stefnda á sama hugtaki í reglugerð nr. 410/1989, þ.e. að einungis sé um að ræða dagvinnulaun samkvæmt kjarasamningi, en ekki greiddar yfirvinnustundir, sem sérákvæði séu um í 4. gr. reglugerðarinnar. Í lögum nr. 1/1997 sé í 23. gr. miðað við föst laun fyrir dagvinnu, en í 24. gr. laganna um föst laun fyrir dagvinnu, persónuuppbót og orlofsuppbót samkvæmt kjarasamningum. Sé ljóst af dómafordæmum og lagaákvæðum, að með dagvinnulaunum sé átt við mánaðarlaun samkvæmt kauptöxtum, án greiðslna fyrir yfirvinnustundir, í hvaða mynd sem sé. Verði að leggja þann skilning í ákvæði 1. gr. reglugerðar nr. 410/1989, auk þess sem í 4. gr. sé sérstaklega fjallað um yfirvinnu-, vakta-, gæsluvakta- og óþægindaálagsstundir. Reglugerð nr. 410/1989 skilji afdráttarlaust á milli dagvinnulauna og sérhverra yfirvinnugreiðslna eða álagsgreiðslna, sbr. ákvæði 1. og 4. gr. og einnig 2. mgr. 3. gr. Reglugerðin geri ekki greinarmun á því, hvort yfirvinna sé tímamæld, fyrirfram ákveðin, eða án tillits til sérstaks vinnuframlags. Yfirvinnugreiðslur, hverju nafni sem nefnist, falli því undir 1. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar, og samkvæmt gagnályktun falli þær því ekki undir dagvinnulaunahugtak 1. gr. reglugerðarinnar.
Af hálfu stefnda sé því mótmælt, að brotinn hafi verið á stefnanda réttur samkvæmt 65. gr. stjórnarskrárinnar, eða að kröfur hennar sæki stoð í það ákvæði. Enginn sá munur, sem kunni að vera á réttarstöðu stefnanda og alþingismanna, feli í sér mismunun, sem falli undir efnisákvæði 65. gr. stjórnarskrár. Séu ákvæði 1. málsliðs 1. mgr. 12. gr. laga nr. 88/1995 um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað ekki sambærileg, og eigi þau einungis við um alþingismenn, en þeir fái ekki greidda yfirvinnu. Stefnandi sé ekki alþingismaður, og eigi þau lög því ekki við um hana. Sé ákvörðun launa einnig með ólíkum hætti og aðstaða ekki samanburðarhæf. Þá vísi stefnandi einnig til yfirlýstra markmiða aðila kjarasamnings með nýju launakerfi að auka jafnvægi dagvinnulauna. Stefndi telji, að í stefnu gæti misskilnings um þetta atriði, en í grein 0.1.2 í nefndum kjarasamningi segi, að með nýju launakerfi skuli auka hlut dagvinnulauna og að opna fyrir þann möguleika að breyta samsetningu "heildarlauna þannig að dregið [verði] úr yfirvinnu og vægi dagvinnulauna aukið án þess að það dragi úr vinnuskilum eða framleiðni stofnunar". Vandséð sé, hvernig þetta markmið styðji kröfur stefnanda, en að auki hafi stefnandi hafið barsburðarleyfi sitt í tíð þeirra kjarasamninga, sem giltu fyrir nefnda aðlögunarsamninga, og réttur til launa í barnsburðarleyfi hafi tekið mið af eldri kjarasamningum. Því sé einnig mótmælt, að ákvörðun Kjaradóms og kjaranefndar geti stutt kröfur stefnanda eða þá málsástæðu, að rétt skýrð ákvæði reglugerðar nr. 410/1989 stangist á við 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar. Fullyrðingar þessar séu órökstuddar og ósannaðar, en þeir, sem taki laun eftir ákvæðum um kjaranefnd eða kjaradóm, lúti sömu reglum eftir reglugerð nr. 419/1989.
Sem þrautavaramálsástæðu byggi stefnandi á því, að afstaða stefnda feli í sér óbeina mismunun gagnvart þeim, sem nýti sér fæðingarorlof. Sé á því byggt, að við þær félagslegu aðstæður, sem ríki á Íslandi, stangist slík lögskýring á við 2. mgr. 65. gr. stjórnarskrár um jafnrétti kynjanna og sambærileg ákvæði í EES-samningnum. Þá vísi stefnandi einnig til laga nr. 28/1991 um jafnan rétt og jafna stöðu karla og kvenna, sem nú séu fallin úr gildi. Telji stefnandi, að skýring stefnda komi harkalegar niður á konum er körlum í ríkisþjónustu. Stefndi mótmæli þessum fullyrðingum, sem séu með öllu óraunhæfar, rangar og ósannaðar. Fullyrðingu um, að fastar yfirvinnugreiðslur séu greiddar í orlofi og veikindaforföllum, styðji með engu móti kröfur stefnanda og ekki um samanburðarhæf tilvik að ræða eða mismunun, hvorki almennt né á grundvelli kynferðis. Fjárkrafa stefnanda eigi sér ekki stoð í þeim ákvæðum, sem hún vísi til undir þrautavaramálsástæðum.
Með vísan til alls framanritaðs beri því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda um greiðslu vangoldinna launa að fjárhæð kr. 108.878, svo og kröfum til dráttarvaxta þar af. Ekki sé ástæða til að gera athugasemdir við tölulegan útreikning fjárkröfu stefnanda, að því gefnu, að málatilbúnaður stefnanda til stuðnings henni yrði tekinn til greina. Miðað við skilning og framkvæmd stefnda á ákvæðum reglugerðar nr. 410/1989 sé ljóst, að engri vanefnd eða vangreiddum launum sé til að dreifa, heldur lítilsháttar ofgreiðslu, svo sem stefnandi hafi byggt á. Á hinn bóginn beri að árétta, að engin gögn eða upplýsingar liggi fyrir um samkomulag stefnanda við sýslumanninn á Akureyri um "yfirborganir", og verði talið, að greiðslur þess eðlis hafi átt sér stað, sé ljóst, að þær falli utan kjarasamnings um dagvinnulaun, sem um starf stefnanda hafi gilt, og geti því ekki talizt til dagvinnulauna í skilningi reglugerðarinnar.
Til stuðnings þrautavarakröfu stefnda sé vísað til framangreinds, auk þess sem dráttarvaxtakröfu stefnanda sé mótmælt sem rangri og órökstuddri, svo og upphafstíma þeirra með vísan til heimildar dómara í 3. og 4. mgr. 9. gr., sbr. 13. gr. vaxtalaga nr. 25/1987.
Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað vísist til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Mótmælt sé kröfu stefnanda til málskostnaðar, enda virðist hún ekki bera kostnað af rekstri málsins. Fullyrðingum af hálfu stefnanda til stuðnings málskostnaðarkröfum á bls. 13 í stefnu sé mótmælt sem röngum.
IV.
Forsendur og niðurstaða:
Stefnandi gaf skýrslu fyrir dómi og enn fremur Björn Jósef Arnviðarson, sýslumaður á Akureyri.
Í framburði Björns Jósefs kom fram, að þegar hann hóf störf sem sýslumaður í apríl 1996 voru karlkyns fulltrúum á embættinu greiddir 30 yfirvinnutímar, auk dagvinnulauna, og var sú fjárhæð greidd án þess að sérstaks vinnuframlags væri krafizt á móti. Þeim var síðan heimilt að vinna allt að 30 tíma í yfirvinnu, sem greitt var fyrir sérstaklega. Kvenkyns fulltrúar fengu hins vegar aðeins 20 tíma fasta yfirvinnutíma greidda, án sérstaks vinnuframlags, en höfðu síðan sömu yfirvinnuheimild og karlarnir. Þessu var síðan breytt um sumarið, og konurnar fengu 30 tíma fasta yfirvinnu, eins og karlarnir, án þess að gerðar væru kröfur um aukið vinnuframlag þeirra, en síðan var greitt sérstaklega fyrir hverja unna yfirvinnustund, allt að 30 tíma. Hann kvaðst hafa ráðið fulltrúa á þessum launakjörum, en föstu yfirvinnutímarnir hefðu ekki verið hluti af skriflegum ráðningarsamningi, heldur hefði verið greint frá föstu yfirvinnunni og yfirvinnuþakinu munnlega.
Stefnandi skýrði frá launakjörum sínum á sömu lund og Björn Jósef, þ.e. að hún hefði fengið föst mánaðarlaun auk fastrar yfirvinnu, án þess að aukins vinnuframlags væri krafizt, auk þess sem greitt hefði verið fyrir sérstaklega fyrir allt að 30 unnar yfirvinnustundir. Þá hafi hún að auki fengið greitt sérstaklega fyrir bakvaktir. Hún kvaðst telja, að hún hefði unnið umfram yfirvinnuþakið í eitt eða tvö skipti, örfáa tíma, en þá hefði ekki komið til sérstök greiðsla fyrir. Sú vinna hefði verið unnin að eigin frumkvæði, en hvorki að ósk né fyrirmælum yfirmanns hennar.
Eins og launakjörum stefnanda var háttað samkvæmt framansögðu verður að líta svo á, að fasta yfirvinnan hafi verið hluti af umsömdum dagvinnulaunum hennar, og hefur ekkert komið fram í málinu, sem bendir til þess, að aukið vinnuframlag hafi átt að koma á móti, eða að greiðslan hafi verið hugsuð sem bætur vegna álags eða annarra óþæginda. Bar stefnda því að reikna greiðslur þessar inn í dagvinnulaun í fæðingarorlofi stefnanda, samkvæmt 1., sbr. 2. mgr. 1. gr. reglugerðar nr. 410/1989. Er ekki fallizt á, að 4. gr. reglugerðarinnar taki til yfirvinnugreiðslna, þegar svo háttar sem hér, að þær greiðast sem hluti af dagvinnulaunum, heldur tekur sú grein til raunverulegra yfirvinnugreiðslna, þar sem krafizt er vinnuframlags á móti. Hefur stefndi ekki fært fram haldbær rök, sem leiða til annarrar niðurstöðu. Þar sem ekki er ágreiningur um útreikning dómkröfu stefnanda eða fjárhæð, verða kröfur hennar teknar til greina, eins og þær eru fram settar.
Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 150.000.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, íslenzka ríkið, greiði stefnanda, Friðriku Hörpu Ævarrsdóttur, kr. 108.878 ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 10. gr. laga nr. 25/1987 frá l. september 1997 til 1. júlí 2001, en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla l. nr. 38/2001 til greiðsludags, og leggjast dráttarvextir við höfuðstól árlega, í fyrsta sinn 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxta. Þá greiði stefndi stefnanda kr. 150.000 í málskostnað.