Hæstiréttur íslands
Mál nr. 91/2003
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
- Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi
|
|
Fimmtudaginn 13. mars 2003. |
|
Nr. 91/2003. |
Sýslumaðurinn á Akureyri(enginn) gegn X (Ólafur Rúnar Ólafsson hdl.) |
Kærumál. A liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Gæsluvarðhaldsúrskurður felldur úr gildi.
Hæstiréttur felldi úr gildi úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. mars 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 7. mars 2003, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 17. mars nk. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði var varnaraðili handtekinn aðfaranótt 7. mars 2003, grunaður um þátttöku í nokkrum innbrotum á Akureyri. Samkvæmt gögnum málsins er um að ræða innbrot í [...] og [...] 8. febrúar 2003 og [...] 5. mars sama árs.
Að morgni þriðjudagsins 11. febrúar sl. átti lögreglan tal af vitni, sem kvaðst hafa séð til ferða manns nálægt [...] að morgni laugardagsins 8. sama mánaðar, um það bil 20 mínútum eftir þann tíma, sem lögreglan telur að innbrotið hafi verið framið í veitingasöluna. Vitnið gaf lýsingu á manninum og kvað hann hafa verið þvoglumæltan og að því er virtist undir áhrifum fíkniefna. Ekki verður séð af gögnum málsins að vitnið hafi verið fengið til að bera kennsl á manninn við sakbendingu. Samkvæmt upplýsingaskýrslu lögreglu 6. mars 2003 fannst fartölva sú, er stolið var úr húsnæði [...] í fyrrnefndu innbroti, á heimili manns, sem kvað varnaraðila hafa afhent sér tölvuna til að „hreinsa úr henni“. Tekin var skýrsla af varnaraðila daginn eftir og sagði hann að tiltekinn maður hafi afhent sér tölvuna í því skyni að koma henni í verð, en hann áður ætlað að „hreinsa“ hana. Varnaraðili hefur neitað að gefa upp nafn þess manns, er hafi afhent honum tölvuna.
Sóknaraðili reisir kröfu um gæsluvarðhald á a. lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Til stuðnings því að fullnægt sé skilyrðum ákvæðisins vísar hann til þess að rannsókn málsins sé á frumstigi og ekki sé búið að ná til og handtaka alla þá, sem grunaðir séu um þátttöku í framangreindum brotum, auk þess sem eftir sé að taka skýrslur af vitnum. Varnaraðili geti því torveldað frumrannsókn málsins gangi hann laus meðan á henni standi, meðal annars með því að hafa áhrif á samseka og vitni og með því að skjóta undan sönnunargögnum.
Þær ástæður, sem sóknaraðili hefur samkvæmt framansögðu fært fram fyrir kröfu sinni, nægja ekki til þess að uppfyllt séu skilyrði a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 fyrir gæsluvarðhaldi yfir varnaraðila, enda liggur ekkert fyrir um hverjir aðrir en varnaraðili séu grunaðir um að eiga hlut að fyrrnefndum brotum eða að hverju rannsókn eigi að öðru leyti að beinast. Er heldur ekki annað því til styrktar í gögnum málsins að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi framið afbrot, sem gefi tilefni til að grípa til gæsluvarðhalds. Að þessu gættu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 7. mars 2003.
Mál þetta, barst dóminum í dag með bréfi sýslumannsins á Akureyri, dagsettu í dag og var að lokinni yfirheyrslu yfir kærða tekið til úrskurðar.
Krefst sýslumaður þess að X, kt. [...] sem sé skráður samkvæmt þjóðskrá óstaðsettur í hús á Akureyri verði úrskurðaður í gæsluvarðhald til mánudagsins 17. mars n.k. Kveður sýslumaður málsatvik þau að lögreglan á Akureyri hafi í nótt um kl. 02:00 handtekið kærða X kt. [...] vegna gruns um þátttöku í nokkrum innbrotum á Akureyri, m.a. sé rökstuddur grunur um að hann hafi brotist inn í starfstöð [...], [...] og [...]. Innbrotið á [...] mun hafa átt sér stað aðfaranótt 5. mars sl. og í [...] aðfaranótt 8. febrúar sl.
Kveður sýslumaður rannsókn máls þessa vera á frumstigi og ekki sé búið að ná til og handtaka alla þá sem grunaðir séu um þátttöku í brotinu, einnig sé eftir að yfirheyra vitni. Það sé því ljóst að kærði mun geta torveldað frumrannsókn málsins gangi hann laus meðan á henni standi, m.a. með því að hafa áhrif samseka og vitni og með því að skjóta undan sönnunargögnum. Kveðst sýslumaður byggja kröfu sína á 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála.
Í málinu liggja fyrir lögregluskýrslur og önnur gögn sem skjóta stoðum undir þann grun lögreglu að ákærði hafi gerst sekur um brot þau sem hann er grunaður um. Þykja því skilyrði framangreindrar lagagreinar vera fyrir hendi til að verða við kröfu sýslumanns.
Úrskurð þennan kveður upp Freyr Ófeigsson dómstjóri.
Á l y k t a r o r ð :
Kærði, X, kt. [...], sæti gæsluvarðhaldi til 17. mars 2003 kl. 17:00.