Hæstiréttur íslands

Mál nr. 132/2004


Lykilorð

  • Skjalafals
  • Sakartæming
  • Hegningarauki


Fimmtudaginn 21

 

Fimmtudaginn 21. október 2004.

Nr. 132/2004.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Trausta Aðalsteini Kristjánssyni

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

Skjalafals. Sakartæming. Hegningarauki.

T var ákærður fyrir fjársvik og skjalafals með því að hafa svikið út vörur hjá tveimur verslunum, sem hann lét skuldfæra heimildarlaust á reikning V, með því að framvísa úttektarbeiðnum á eyðublöðum frá V, sem hann vissi að voru falsaðar frá rótum með áritun á nafni Á, sem útgefanda. Var T talinn hafa unnið sér til refsingar samkvæmt 1. 155. gr. almennra hegningarlaga, sem tæmdi sök gagnvart 248. gr. sömu laga. Var refsing T ákveðin fangelsi í 4 mánuði, en um var að ræða hegningarauka við annan dóm þar sem T hlaut tveggja mánaða fangelsi fyrir umferðarlagabrot.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 22. mars 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar héraðsdóms um sakfellingu ákærða og að refsing hans verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfu ákæruvalds, en til vara að refsing hans verði milduð.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest sú niðurstaða hans að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í I. kafla ákæru, sbr. að sínu leyti einnig það sem sagt er hér á eftir varðandi þessa háttsemi þegar fjallað er um II. kafla ákæru.

Í gögnum málsins er að finna myndbandsupptöku af ákærða í verslun Elco sf., Smáratorgi 1, Kópavogi, 18. júlí 2002. Þar sést meðal annars hvar ákærði bakkar bifreiðinni R 4947 að vörugeymslu verslunarinnar og starfsmaður hennar aðstoðar ákærða við að bera varning út í bifreiðina. Viðurkenndi ákærði fyrir dómi að hafa móttekið þær vörur sem getið er um í gögnum málins, en ákærði reisir málsvörn sína á því að hann hafi ekki vitað að hann hafi notað falsað skjal í því skyni að fá vörurnar afhentar. Framburður ákærða um málsatvik er óglöggur og styðst ekki við annað sem fram er komið í málinu. Þannig hefur ákærði sagst hafa fengið í hendurnar frá B, sem nú er látinn, seðil er hann nefnir „afhendingarseðil“ og afhent starfsmanni verslunarinnar slíkan seðil og þannig fengið vörurnar. Hins vegar kvaðst ákærði ekki hafa séð svokallaða beiðnabók frá Vegargerð ríkisins sem stolið hafði verið frá henni, en úr bók þessari voru notaðar þær tvær úttektarbeiðnir sem um er getið í I. og II. kafla ákæru. Þessar beiðnir eru meðal gagna málsins. Virðast þær vera fylltar út af sama manni. Samkvæmt rithandarrannsókn, sem ákærði hefur viljað vísa til máli sínu til stuðnings, virðast beiðnirnar ekki vera útfylltar af ákærða. Hins vegar ber að líta til þess að hann er ekki ákærður fyrir það atriði, heldur að hafa framvísað beiðnum þessum með vitneskju um að þær væru falsaðar. Þá er kvittað undir sölureikninga um móttöku vara, bæði varðandi I. og II. kafla ákæru, með nafninu Árni Geirsson. Er það með annarri rithönd en þeirri sem kemur fram á úttektarbeiðnunum. Samkvæmt niðurstöðu rithandarrannsóknarinnar er ekki unnt að segja til um hvort kvittun fyrir vörurnar á sölureikningunum sé með rithönd ákærða. Hefur starfsmaður Elco sf. borið fyrir dómi hvernig staðið er að afhendingu vara úr versluninni samkvæmt úttektarbeiðnum. Eins og rakið er í héraðsdómi hefur ákærði borið fyrir dómi að B, sem nú er látinn, hafi beðið sig um að ná í umræddar vörur úr verslun Elco sf. Hafi hann átt stopul samskipti við B en þau hafi tengst fíkniefnaviðskiptum. Sagði ákærði B hafa beðið sig kvöldið áður að ná í vörurnar, en látið sig fá „afhendingarseðil“ daginn eftir og beðið fyrir utan verslunina meðan ákærði sótti þær. Er fallist á með héraðsdómi að ákærði hafi ekki haft minnstu ástæðu til að ætla að B hafi komist yfir afhendingarseðil Vegagerðarinnar með lögmætum hætti. Að framangreindu virtu er staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í II. kafla ákæru.

Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsingar samkvæmt 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en það ákvæði tæmir hér sök gagnvart 248. gr. sömu laga. Ákærði, sem er 42 ára gamall, hefur frá árinu 1980 átt samfelldan brotaferil. Hann hefur frá 1981 hlotið 20 refsidóma aðallega fyrir umferðarlagabrot, en einnig fimm dóma fyrir auðgunarbrot. Að gengnum þeim dómi sem nú er til endurskoðunar, eða 21. apríl 2004, var ákærði í Héraðsdómi Reykjavíkur dæmdur í 12 mánaða fangelsi fyrir umferðarlagabrot, þjófnað og heimildarlausa notkun í blekkingarskyni á skráningarmerki bifreiðar. Við ákvörðun refsingar ákærða er vísað til 77. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga, en um er að ræða hegningarauka við dóm 14. nóvember 2002, þar sem ákærði hlaut tveggja mánaða fangelsi fyrir umferðarlagabrot. Að þessu virtu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um refsingu ákærða.

Staðfest er ákvæði hins áfrýjaða dóms um skaðabætur með dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir.

Þá verður ákærði dæmdur til að greiða áfrýjunarkostnað málsins eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um refsingu ákærða, Trausta Aðalsteins Kristjánssonar.

Ákærði greiði Elco sf. 352.990 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. júlí 2002 til 3. nóvember 2003, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði Vegagerð ríkisins 137.463 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 9. janúar 2003 til 3. nóvember 2003, en með dráttarvöxtum samkvæmt  1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi  til greiðsludags.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 150.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. nóvember 2003.

Málið er höfðað með ákæruskjali dags. 8. apríl 2003, á hendur:

Trausta Aðalsteini Kristjánssyni, [kt.], óstaðsettum í hús í Kópavogi

“fyrir fjársvik og skjalafals með því að hafa 17. og 18. júlí 2002, svikið út vörur að andvirði alls 514.143 kr., sem hann lét skuldfæra heimildarlaust í reikning Vega­gerðarinnar, [kt.], með framvísun úttektarbeiðna á eyðublöðum frá Vega­gerðinni sem hann vissi að voru falsaðar frá rótum með áritun á nafni A, [kt.], sem útgefanda:

I.

Þann 17. júlí hjá verslun Hátækni ehf., Ármúla 26, Reykjavík,, vörur að andvirði 171.153 kr.

II.

Þann 18. júlí hjá verslun Elko sf., Smáratorgi 1, Kópavogi, vörur að andvirði 352.990 kr.

Telst þetta varða við 1. mgr. 155. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Í málinu er af hálfu eftirgreindra krafist skaðabóta:

Elko ehf., [kt.], 352.990 kr. ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38, 2001 frá 18. júlí 2002 en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.

Vegagerðin, Borgartúni 5-7, Reykjavík, 137.463 kr. ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá 9. janúar 2003 en síðan dráttar­vöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. , sbr. 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröf­unnar til greiðsludags.

Þess er krafist á ákærði verði dæmdur til refsingar.”

Verjandi ákærða gerir þær kröfur að ákærði verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins og að sakarkostnaður, þ. m. t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, verði greiddur úr ríkissjóði.  Þar af leiðandi verði bótakröfu vísað frá dómi.  Til vara er krafist vægustu refsingar er lög leyfa.

Málavextir:

Föstudaginn 26. júlí 2002 lagði B fram kæru hjá lögreglu  f.h. Hátækni ehf. Ármúla 26 vegna fjársvika og skjalafals hjá fyrirtækinu.  Kvað hann karl­mann hafa komið í fyrirtækið og spurst fyrir um verð á farsímum og handfrjálsum búnaði.  Að þeim upplýsingum fengnum hafi maðurinn þurft að fara og ná í beiðni en beðið kæranda að taka vöruna til á meðan.  Hann hafi síðan komið aftur, framvísað út­fylltri kaupbeiðni frá Vegagerðinni fyrir 6 farsímum og fylgihlutum sem hann hafi fengið afhenta en heildarverðmæti búnaðarins sé 171.153 krónur.  Síðar hafi komið í ljós að beiðnin hafi verið úr þjófnaðarmáli, en þann 19. júní 2002 var lögreglu tilkynnt um innbrot í bifreið þar sem stolið var m. a. skjalatösku með ýmsum pappírum merktum Vegagerðinni.  Sé undirskriftin fölsuð og nafn rangt skráð en kennitala til­heyri starfsmanni Vegagerðarinnar.  Kærandi gat gefið lýsingu á manninum.

Þriðjudaginn 20. ágúst 2002 hafði starfsmaður Vegagerðarinnar samband við lög­reglu og tjáði henni að gögn úr umræddu innbroti hefðu verið notuð til vöruúttekar hjá versl­uninni ELKO í Kópavogi og að til væri myndbandsupptaka af viðkomandi manni.  Lög­regla skoðaði myndbandið, sem sýndi mann taka á móti vörum og setja í bifreiðina.  Reyndist skráningarnúmer bifreiðarinnar vera [...], Ford Bronco en skráður eigandi var C.  Við myndflettingu hjá lögreglu taldi B, starfs­maður Hátækni ehf., að ákærði í málinu væri sá sem keypt hefði umrædda farsíma.

Í samvinnu við Landssíma Íslands hf. komst lögregla að því að tveir umræddra far­síma voru í notkun og kvaðst handhafi annars þeirra, D, hafa keypt hann af ákærða.  Hinn fannst í fórum C. 

Með ódagsettu bréfi BYKO/ELKO var lögð fram bótakrafa að fjárhæð 352.990 sem byggðist á nótu vegna þeirra vara sem teknar voru út úr versluninni með notkun á falsaðri beiðni úr beiðnabók merktri Vegagerð ríkisins en þar var um að ræða raftæki, svo sem sjónvörp, hljómtækjasamstæðu, myndbandstæki o. fl.        

Ákærði neitar alfarið bæði hjá lögreglu og hér fyrir dómi að hafa komið í versl­unina Hátækni ehf. umræddan dag og fengið þar afgreidda 6 farsíma með aukabúnaði.  Hann viðurkennir hins vegar að hafa komið í verslun Elko sf. í Kópavogi og tekið þar út vörur en neitaði að um fjársvik og skjalafals hafi verið að ræða í því sambandi.  Ákærði kvaðst ekki hafa ritað nafnið E sem móttakandi vörunnar og kveðst hann ekki kannast við mann með því nafni.  Ákærði kvað F hafa af­hent honum afhendingarseðil fyrir utan Elko sf. og beðið hann að fara að ná í vöruna í verslun. Hafi F beðið hann kvöldið áður að nálgast vöruna þar sem hann hefði ekki bifreið.  F hafi hann kynnst á Litla Hrauni og hafi þeir haft samband síðan.  Að­spurður hvað F hafi starfað kveðst hann telja að hann hafi aðeins selt pillur.  Hann kveðst hins vegar aldrei hafa haft viðskipti við F með þýfi.  Aðspurður kveður hann það ekki rétt að D hafi keypt af honum einn umræddra síma.

Vitnið, B, kvaðst hafa verið starfsmaður Hátækni ehf. á um­ræddum tíma.  Hann kvað ákærða, sem hann þekki aftur í réttinum, hafa komið í versl­unina og leitað upplýsinga um símtæki.  Hann hafi óskaði eftir 6 símtækjum með auka­búnaði en sagst þurfa að skreppa frá og ná í beiðni.  Óskað hann þess að tækin yrðu tekin til á meðan.  Vitnið kvaðst hafa útbúið móttökukvittun f. h. Vega­gerð­ar­innar en ákærði hafi tjáð honum að hann væri á vegum þess fyrirtækis.  Hann hafi síðan komið aftur með umrædda beiðni og fengið símtækin afgreidd og kvittað fyrir mót­töku.  Ákærði, sem hafi verið einn á ferð, hafi kvittað fyrir móttöku og farið með vöruna í poka verslunarinnar.

Vitnið, C, kvaðst þekkja ákærða.  Hann kvaðst hafa verið skráður fyrir bif­reiðinni [...], Ford Broco, sem ákærði hafi í raun átt.  Hann kvaðst hafa keypt far­síma, sem lögregla haldlagði af manni sem hann gat ekki nafngreint, og greitt fyrir hann 5000 krónur.  Síminn hafi verið nýr og í umbúðum. 

Vitnið, D, greindi frá því hjá lögreglu að hann hafi sumarið 2002 keypt farsíma, Nokia 5210, af manni sem heitir G.  Lýsti hann manninum og gerði grein fyrir því hvernig fundum þeirra bar saman.  Að skýrslugerð lokinni skoðaði vitnið um 40 myndir úr myndasafni tæknideildar og valdi síðan mynd af ákærða.  Fyrir dóm­inum staðfesti vitnið að hafa keypt símann af manni sem hann hafi ekki þekkt en vel geti verið að heiti G.  Aðspurður kvað vitnið ákærða, sem var í réttarsalnum, ekki ósvipaðan þeim manni þótt hann geti ekki fullyrt um það.  Undir hann er borinn fram­burður hans í lögregluskýrslu, sem hann kveður réttan.

Vitnið, H, kvaðst hafa keypt farsíma af manni sem heiti F og gangi undir viðurnefninu „sparimerki“.  Kvaðst hann hafa hitt F á Lauga­veg­inum og keypt símann sem hafi verið í umbúðum.  Hafi F fullvissað hann um að síminn væri vel fenginn.

Vitnið, I, starfsmaður BYKO, kom fyrir dóminn en ekki þykir ástæða til að rekja framburð hans nánar.

Niðurstaða.

Ákærði neitar sök í máli þessu.  Kveðst hann hvergi hafa komið nærri þegar vörur voru sviknar út úr verslun Hátækni ehf. þann 17. júlí 2002.  Hann viðurkennir hins vegar að hafa farið í verslun Elko sf. daginn eftir og sótt þangað vörur eins og í ákæru greinir en ákærði sást í eftirlitsmyndavél verslunarinnar.  Kvað hann F hafa afhent honum afhendingarseðil fyrir utan verslunina sem hafi látið hann ná í vör­urnar en F hafi beðið fyrir utan.  Ákærði neitaði að hafa ritað nafn E sem móttakanda vörunnar. 

Vitnið, B, stafsmaður Hátækni ehf. hefur lýst því hér fyrir dóm­inum  að maður hafi komið í verslunina og leitað upplýsinga um símtæki og látið taka til sex slík tæki með aukabúnaði.  Hafi hann síðan komið og fengið tækin afhent gegn út­fylltri kaupbeiðni frá Vegagerðinni.  Við myndbendingu hjá tæknideild lögreglunnar taldi hann mynd af ákærða líka þessum manni og fyrir dóminum kvaðst hann hins vegar þekkja ákærða aftur.  Vitnið, D, hefur borið að hann hafi keypt einn um­ræddra síma af manni sem hann kvað hjá lögreglu heita G og þekkti hann sömu­leiðis við myndbendingu sem ákærða í málinu.  Aðspurður kvað vitnið ákærða, sem var í réttarsalnum, ekki ósvipaðan þeim manni sem hann keypti símann af.  Þá var hald­lagður einn þessara síma hjá C, sem skráður var fyrir bifreiðinni [...] og var í raun eign ákærða.  Taldi C sig hafa keypt umræddan síma, sem hafi verið nýr og í umbúðum, af ónafngreindum manni á 5000 krónur. 

Ákærði hefur lýst því að hann hafi kynnst F á Litla Hrauni og þeir síðan verið í sambandi.  F þessi hafi ekki haft annan starfa með höndum en að selja pillur.  Að mati dómsins hafði ákærði ekki hina minnstu ástæðu til að ætla að F þessi, sem nú er látinn, hefði komist yfir afhendingarseðla Vegagerðarinnar með lög­mætum hætti.  Þá þykir framburður ákærða um að F hafi beðið fyrir utan versl­unina, á meðan ákærði fékk vörurnar afhentar, styðja það að ákærði hafi vitað að um lög­mæt viðskipti var ekki að ræða.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið þykir hafið yfir allan skynsamlegan vafa að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem í ákæru greinir og er brot hans þar rétt heimfært til refsingar.

Ákærði hefur samkvæmt sakavottorði nær óslitinn sakaferil frá árinu 1980 og hefur hlotið yfir nítján dóma auk sátta.  Flestir þessara dóma eru vegna um­ferð­ar­laga­brota en fimm dóma hefur hann hlotið fyrir auðgunarbrot.  Síðast hlaut ákærði dóm fyrir slíkt brot 10. október 2001, fangelsi í 30 daga vegna gripdeildar.  Sá dómur er hegn­ingarauki við dóm ákærða 17. apríl 2001, fangelsi í fjóra mánuði fyrir þjófnað og fíkniefnabrot.  Brot ákærða nú er hins vegar hegningarauki við dóm frá 14. nóvember 2002, fangelsi í tvo mánuði fyrir umferðarlagabrot en sá dómur var hegningarauki við þriggja mánaða fangelsisrefsingu er ákærði hlaut með dómi Hæstaréttar 31. október 2002 fyrir samskonar brot.

Samkvæmt þessu þykir refsing ákærða hæfileg fangelsi í 4 mánuði.

Dæma ber ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þ. m. t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 90.000 krónur.

Í málinu liggur fyrir annars vegar bótakrafa Elko ehf. að upphæð 352.990 krónur ásamt vöxtum og hins vegar Vegagerðarinnar að upphæð 137.463 krónur ásamt vöxtum.

Krafa Elko er byggð á reikningi yfir þær vörur sem ákærði móttók í versluninni.  Þá er krafa Vegagerðarinnar sömuleiðis byggð á reikningi Hátækni ehf. yfir umrædd símtæki að upphæð 131.472 krónur án virðisaukaskatts en Vegagerðinni var gert að greiða reikninginn. Ber að taka kröfuna til greina ásamt vöxtum eins og í dómsorði greinir.

Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Guðjón Magnússon, fulltrúi lögreglustjórans í Reykjavík.

Valtýr Sigurðsson héraðsdómari kveður upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Ákærði, Trausti Aðalsteinn Kristjánsson, sæti fangelsi í 4 mánuði.

Ákærði greiði allan sakarkostnaðar, þ. m. t. málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 90.000 krónur.

Ákærði greiði:

Elko sf., kt. 480185-0219, 352.990 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga nr. 38, 2001 frá 18. júlí 2002 en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr. sömu laga dóms­upp­sögu til greiðsludags.

Vegagerðin, Borgartúni 5-7, Reykjavík, 137.463 krónur. ásamt vöxtum, sam­kvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001, frá 9. janúar 2003 en síðan drátt­arvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga frá dómsuppsögu til greiðslu­dags.