Hæstiréttur íslands
Mál nr. 19/2002
Lykilorð
- Bifreið
- Líkamstjón
- Örorka
- Skaðabótalög
|
|
Fimmtudaginn 13. júní 2002. |
|
Nr. 19/2002. |
Valtýr Sævarsson(Karl Axelsson hrl.) gegn Vátryggingafélagi Íslands hf. (Jakob R. Möller hrl.) og gagnsök |
Bifreiðir. Líkamstjón. Örorka. Skaðabótalög.
V gerði kröfu um greiðslu úr ökumannstryggingu á hendur vátryggingafélagi um eftirstöðvar skaða- og miskabóta vegna tjóns sem hann varð fyrir í alvarlegu umferðarslysi í júlí 1994. Ekki var deilt um greiðsluskyldu félagsins heldur um uppgjör tiltekinna bótaliða, sem V gerði fyrirvara um þegar gengið var frá öðrum þáttum uppgjörsins. V, sem var námsmaður þegar slysið átti sér stað, krafðist þess að bætur fyrir varanlega örorku yrðu miðaðar við þágildandi 5.-7. gr. skaðabótalaga en ekki 8. gr. laganna. Miðað við aldur V þegar slysið varð og stöðu hans í námi, dómaframkvæmd og forsendur héraðsdóms að öðru leyti, var niðurstaða héraðsdóms staðfest um að tjón V vegna varanlegrar örorku skyldi bætt eftir reglum 8. gr. skaðabótalaga. Eins og aðstæðum V var háttað þóttu ekki efni til að taka til greina kröfu V um óbættan varanlegan miska og beita hinni sérstöku heimild 4. gr. skaðabótalaga til að ákveða hærri bætur en aðalregla ákvæðisins mælir fyrir um. Þá var krafa V um vangreiddar þjáningarbætur að hluta til tekin til greina og við það miðað að V stundaði nám á hluta þess tíma sem hann taldist veikur án þess að vera rúmliggjandi samkvæmt kröfugerð, auk þess að hafa verið við störf hjá föður sínum. Krafa V um bætur vegna námstafa og ýmiss ógreidds útlagðs kostnaðar var einnig tekin til greina að hluta og niðurstaða héraðsdóms um þá kröfuliði staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Garðar Gíslason og Pétur Kr. Hafstein.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. janúar 2002 og krefst þess að gagnáfrýjandi greiði sér 20.337.855 krónur með 2% ársvöxtum frá 10. júlí 1994 til 4. nóvember 2000 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 1. júlí 2001 en 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags auk málskostnaðar að skaðlausu í héraði og fyrir Hæstarétti, allt að frádregnum 351.014 krónum sem gagnáfrýjandi greiddi inn á kröfuna 27. júní 2001.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu 12. febrúar 2002. Hann krefst sýknu af öllum kröfum aðaláfrýjanda auk málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Svo sem í héraðsdómi greinir gerir aðaláfrýjandi kröfu á hendur gagnáfrýjanda um eftirstöðvar skaða- og miskabóta vegna tjóns sem hann varð fyrir í alvarlegu umferðarslysi 10. júlí 1994. Krafan er um greiðslu úr ökumannstryggingu samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 og er ekki deilt um greiðsluskyldu félagsins. Deilan stendur um uppgjör eftirgreindra bótaliða sem aðaláfrýjandi gerði fyrirvara um þegar gengið var frá öðrum þáttum uppgjörsins 23. janúar 2001.
Krafa um óbætta varanlega örorku.
Aðaláfrýjandi krefst þess að bætur fyrir varanlega örorku verði miðaðar við þágildandi 5. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 en ekki 8. gr. eins og gagnáfrýjandi hefur krafist og fallist var á í héraðsdómi. Málsrök aðila um þetta eru reifuð í héraðsdómi. Í fjórum dómum Hæstaréttar hefur sérstaklega verið tekin afstaða til ágreinings um skil á milli 5.-7. gr. og 8. gr. skaðabótalaga þegar um námsmenn er að ræða, þ.e. H.1998.1976 og H.2000.683 auk dóma í málum nr. 291/1999 og nr. 201/2001. Bera dómarnir með sér að hvert tilvik fyrir sig er skoðað og metið með tilliti til orðalags lagaákvæðanna og skýringa í athugasemdum með lagafrumvarpinu. Í fyrst og síðast talda dómnum voru aðilar eldri og lengra komnir í námi en í hinum tveimur dómunum, en þar var um að ræða ungt fólk, sem ekki hafði lokið stúdentsprófi og hafði nýtt vinnugetu sína á þeim tíma að verulegu leyti til þess að stunda nám. Voru tilvikin í fyrrnefndu dómunum felld undir 5.-7. gr. laganna en hin tvö undir 8. gr. þeirra. Aðaláfrýjandi var í námi sínu og að aldri svipað staddur og tjónþoli í H.2000.683 og eru tilvikin sambærileg í veigamiklum atriðum. Vegna þessa og með vísan til forsendna héraðsdóms að öðru leyti er niðurstaða hans um þennan kröfulið staðfest.
Krafa um óbættan varanlegan miska.
Þessi krafa aðaláfrýjanda er reist á sérstakri heimild næstsíðasta málsliðs þágildandi 1. mgr. 4. gr. skaðabótalaga til þess að ákveða hærri bætur en aðalregla ákvæðisins mælir fyrir um, sem er eftir miskastigi frá læknisfræðilegu sjónarmiði. Læknar hafa metið varanlegan miska aðaláfrýjanda 50% og er ekki ágreiningur um það mat. Vísar aðaláfrýjandi til dóms Hæstaréttar 15. mars 2001 í máli nr. 395/2000 þar sem lækni, sem hlotið hafði 90% varanlegan miska, var ákveðið 35% álag á bætur, með vísan til þessarar heimildar, en hann var háður aðstoð annarra við helstu athafnir daglegs lífs. Í nefndum dómi var því slegið föstu að heimild þessi væri ekki einskorðuð við að miski hefði verið metinn 100%. Allt að einu er hér um heimild að ræða, sem aðeins verður beitt við sérstakar aðstæður, eins og gert er ráð fyrir í lagaákvæðinu. Varanlegur miski aðaláfrýjanda var á rökstuddan hátt metinn 50%, sem er mikill og þungbær miski. Eins og aðstæðum hans er þó háttað eru ekki efni til að beita hinni sérstöku álagsheimild og er því ekki unnt að taka þennan kröfulið til greina.
Krafa um vangreiddar þjáningabætur.
Með vísan til forsendna héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómsmönnum, verður niðurstaða hans um þennan kröfulið staðfest, enda stundaði gagnáfrýjandi nám á hluta þessa tíma og var auk þess við störf hjá föður sínum. Þessi liður verður því tekinn til greina með 519.675 krónum.
Krafa vegna námstafa.
Með skírskotun til forsendna héraðsdóms þykir mega staðfesta niðurstöðu hans um þennan kröfulið. Hann verður því tekinn til greina með 900.000 krónum.
Krafa vegna ýmiss ógreidds útlagðs kostnaðar.
Með vísan til forsendna héraðsdóms verður staðfest niðurstaða hans um að hafna kostnaði vegna fæðubótaefna en taka til greina kostnað vegna lengdrar skólagöngu og aksturs, samtals 186.000 krónur. Gagnáfrýjandi hefur ekki andmælt kröfu vegna skemmds fatnaðar og muna á þeim forsendum að hún sé ekki studd gögnum. Ökumannstrygging samkvæmt 92. gr. umferðarlaga er slysatrygging og tekur ekki til tjóns á munum nema það tengist með beinum hætti líkamstjóni eigandans. Með hliðsjón af þessu er eðlilegt að tryggingin taki til fata sem aðaláfrýjandi var í þegar slys varð og skemmdust við það, sem metin eru samtals á 26.000 krónur, en ekki til þeirra smáhluta sem hann segir hafa verið í bifreiðinni og skemmst. Þessi kröfuliður verður því tekinn til greina með 212.000 krónum samtals.
Niðurstaða málsins verður því að gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda samtals 1.631.675 krónur með vöxtum eins og í dómsorði greinir.
Eftir atvikum málsins þykir rétt að gagnáfrýjandi greiði málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðst í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Gagnáfrýjandi, Vátryggingafélag Íslands hf., greiði aðaláfrýjanda, Valtý Sævarssyni, 1.631.675 krónur með 2% ársvöxtum af 1.982.689 krónum frá 10. júlí 1994 til 4. nóvember 2000 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 27. júní 2001 en af 1.631.675 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001 en 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda samtals 800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. desember 2001.
I
Mál þetta var höfðað 6. apríl 2001 og dómtekið 15. nóvember sl. Stefnandi er Valtýr Sævarsson, kt. 220675-5809, Hjallabraut 76, Hafnarfirði og stefndi er Vátryggingafélag Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3 5, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda eftirstöðvar þjáningabóta, bóta fyrir varanlegan miska, bóta fyrir varanlega örorku, útlagðs kostnaðar og annars fjártjóns vegna tafa í námi, samtals að fjárhæð 20.337.855 krónur með 2% ársvöxtum frá 10. júlí 1994 til 4. nóvember 2000 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til l. júlí 2001, en skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags auk málskostnaðar að skaðlausu, allt að frádregnum 351.014 krónum, sem stefndi greiddi inn á kröfuna 27. júní 2001.
Stefndi gerir þær dómkröfur að verða sýknaður af kröfum stefnanda og krefst jafnframt málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins, að teknu tilliti til skyldu stefnda til þess að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.
II
Stefnandi slasaðist alvarlega í umferðarslysi 10. júlí 1994 á Vesturlandsvegi í Borgarfirði, rétt norðan við bæinn Brautarholt í Mýrasýslu. Lenti bifreiðin G-3700, sem stefnandi ók til suðurs eftir þjóðveginum, í árekstri við bifreiðina M-3956, sem kom úr gagnstæðri átt en bifreið stefnanda hafði farið yfir á rangan vegarhelming og var áreksturinn mjög harður.
Bifreiðin, sem stefnandi ók, valt á veginum, en hin bifreiðin lenti utan vegar. Með stefnanda í bílnum var félagi hans, Jón Svanur Jóhannsson. Stefnandi festist í bifreiðinni. Fætur hans klemmdust undir stýrishjóli hennar auk þess sem vinstri framhurð klemmdist að honum. Þurfti að klippa hurðina af til að ná honum út.
Í slysinu hlaut stefnandi margvíslega áverka, hann hlaut beinbrot víða um líkamann, höfuðáverka, tannbrot og svonefnt þrengslaheilkenni í fótlegg. Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., var vátryggjandi bifreiðarinnar sem stefnandi ók. Er ágreiningslaust að stefnandi njóti óskerts bótaréttar úr ökumannstryggingu bifreiðarinnar samkvæmt 92. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.
Endurhæfing stefnanda eftir slysið tók langan tíma. Voru málsaðilar sammála um að ekki væri tímabært að meta afleiðingar slyssins fyrr en komið væri fram á árið 2000. Varð samkomulag með aðilum að óska eftir að læknarnir Jónas Hallgrímsson og Yngvi Ólafsson semdu matsgerð um þau matsefni sem tilgreind eru í skaðabótalögum nr. 50/1993 eins og þau voru á þeim tíma þegar slysið varð. Í matsgerð dagsettri 5. september 2000 komust þeir að þeirri niðurstöðu að varanlegur miski og varanleg örorka teldist vera 50%. Jafnframt mátu þeir samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga, tímabil tímabundins atvinnutjóns 100% tímabilin 10. júlí 1994 til 9. júní 1997 og 1. júní 1998 til 20. júlí 1998 en 50% tímabilið 10. júní 1997 til 31. maí 1998 og tímabil þjáninga þannig að stefnandi hefði rúmliggjandi í 148 daga, en veikur án þess að vera rúmliggjandi í 1.322 daga.
Þann 4. október 2000 sendi lögmaður stefnanda kröfubréf til stefnda með skaða- og miskabótakröfum samtals að fjárhæð 27.812.190 krónur auk vaxta og kostnaðar. Hafði þá verið tekið tillit til greiðslna stefnda á bótum vegna tímabundins atvinnutjóns stefnanda, innborgana á þjáningabætur og greiðslna á nokkrum útlögðum kostnaði. Með uppgjöri 23. janúar 2001 greiddi stefndi stefnanda krónur 7.494.125 með vöxtum og kostnaði en hafði áður greitt inn á kröfuna samtals 3.500.179. Gerði lögmaður stefnanda fyrirvara um fjárhæð þjáningarbóta, bóta fyrir varanlegan miska, innheimtuþóknunar lögmanns, vaxta og örorkubóta auk þess sem hann gerði fyrirvara um ógreiddan kostnað og annað fjártjón.
Ekki féllst stefndi á að greiða vegna útlagðs kostnaðar nema 129.853 krónur. Meðal þess tjóns sem stefndi vildi ekki greiða, voru ýmis útgjöld, sem stefnandi taldi að ættu rót sína að rekja til slyssins, en stefndi taldi ósannað að svo væri. Leitaði lögmaður stefnanda þá til Brynjólfs Jónssonar læknis og bað hann gefa álit um þessa kröfuliði. Hann skilaði áliti í tvennu lagi, 1. og 18. desember 2000. Þann 27. júní sl. greiddi stefndi stefnanda bætur vegna námstafa 300.000 krónur og útlagðs kostnaðar vegna stóls 51.014 krónur.
Stefnandi var nýlega orðinn 19 ára þegar slysið varð og átti eftir eitt ár til stúdentsprófs við Verslunarskóla Íslands, þar sem hann var við nám. Hann hafði aflað sér tekna árin á undan, aðallega með sumarvinnu og með vinnu við atvinnurekstur föður síns við pípulagnir. Samkvæmt skattframtölum hafði stefnandi 413.376 krónur í tekjur árið 1992 og 416.094 krónur árið 1993.
Í málinu liggur fyrir að slysið varð þess valdandi að stefnandi tafðist um eitt ár í námi sínu við Verslunarskólann, og lauk hann stúdentsprófi þaðan vorið 1996. Haustið 1996 hóf hann nám í tölvunarfræði við Háskóla Íslands, sem mun vera þriggja ára nám. Hann gerði hlé á námi sínu árið 1997. Námið hefur sóst honum seint og stefndi hann að því að ljúka því nú í haust en af því varð ekki. Gerir stefnandi ráð fyrir að ljúka því vorið eða haustið 2002. Námstafirnar rekur hann til afleiðinga slyssins. Hann hefur borið að hann þjáist af minnisleysi, stöðugum verkjum og svefnleysi sem hái honum við námið.
Ekki er ágreiningur með málsaðilum um matsniðurstöður læknanna um örorkustig hvað snertir tímabundið atvinnutjón, varanlegan miska og varanlega örorku, en ágreiningur er um nokkra þætti uppgjörs bóta. Er þannig ágreiningur um hvort bætur fyrir varanlega örorku skuli reiknaðar samkvæmt 5.-7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 eða samkvæmt 8. gr. laganna. Þá er ágreiningur með aðilum um hvort ástæða sé til að bæta stefnanda 50% álag vegna varanlegs miska. Auk þessa deila aðilar um fjárhæð þjáningabóta, bóta vegna tafa á námi og hluta útlagðs kostnaðar.
III
Í máli þessu gerir stefnandi kröfur á hendur stefnda vegna þess að hann telur skorta á að bætt hafi verið að fullu tjón hans vegna varanlegrar örorku, varanlegs miska, þjáninga, tafa í námi og útlagðs kostnaðar.
Varanleg örorka
Stefnandi gerir þá kröfu, að bætur til hans vegna varanlegrar örorku verði ákveðnar eftir reglum 5. - 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Kveðst hann miða kröfugerð sína við árslaun sem nemi svonefndu reiknuðu endurgjaldi hjá sérfræðingum, sem ekki hafi starfsmenn í þjónustu sinni. Árið 2000 hafi þetta endurgjald numið 3.600.000 krónum. Sé krafan við þetta miðuð en verðlagsbreytingum frá slysdegi samkvæmt 15. gr, skaðabótalaga þá eðlilega sleppt. Við endurgjaldið sé síðan bætt 6% vegna framlags í lífeyrissjóð. Reiknist árslaun eftir þessum mælikvarða 3.816.000 krónur og tjón vegna varanlegrar örorku þá 3.816.000,- x 7,5 x 50% eða 14.310.000 krónur.
Hafi stefndi ekki fallist á að greiða bætur samkvæmt ofanskráðu heldur viljað miða tjón stefnanda vegna varanlegrar örorku við reglu 8. gr. skaðabótalaga, þar sem fjallað sé um bætur til barna og tjónþola, sem að verulegu leyti nýti vinnugetu sína þannig að þeir hafi engar eða takmarkaðar vinnutekjur. Viðmiðunartala 8. gr. í janúar 2001 hafi verið 4.863.000 krónur. Útreikningur stefnda hafi því verið svofelldur: 4.863.000,- x 50% x 200% eða samtals 4.863.000 krónur sem stefndi hafi greitt 23. janúar og hafi því staðið eftir ógreiddar 9.447.000 krónur af þessum hluta kröfu stefnanda og sé sú krafa höfð uppi í þessu máli.
Kröfu sína um að útreikningur bóta fyrir varanlega örorku skuli miðast við 5. - 7. gr. skaðabótalaga en ekki 8. gr. byggir stefnandi á því að í fyrsta lagi eigi ekki að túlka undantekningarreglu 8. gr. þannig að undir það ákvæði falli allir tjónþolar, sem ekki hafi aflað sér fullra atvinnutekna síðasta árið fyrir slys. Megi ljóst vera af 2. mgr. 7. gr., að tjónþoli geti fallið undir 5. - 7. gr. laganna, þó að svo standi á, að meta þurfi árslaun sérstaklega. Í tilviki stefnanda sé um að ræða ungan mann, sem sé að mennta sig í því skyni að nýta vinnugetu sína í framtíðinni til að afla sér atvinnutekna. Hafi hann þegar sýnt fram á hæfileika sinn til tekjuöflunar með því að afla sér umtalsverðra tekna með fram námi sínu. Því eigi undantekningarákvæði 8. gr. laganna alls ekki við stefnanda heldur 2. mgr. 7. gr. þeirra. Eigi því að áætla stefnanda árslaun og sé ekki önnur viðmiðun betri en sú sem notuð sé við kröfugerðina.
Í öðru lagi kveður stefnandi að verði talið að textaskýring á 8. gr. skaðabótalaganna leiði til þess að stefnandi falli þar undir, sé á því byggt, að í því felist mismunun sem brjóti gegn rétti stefnanda samkvæmt 72. gr. sbr. 65. gr stjórnarskrárinnar. Af tölunum, sem grein sé gerð fyrir að framan, sé ljóst, að gríðarlegur munur verði á skaðabótum til stefnanda, eftir því hvort tjón hans mælist eftir 5. - 7. gr. eða 8. gr. Verði að leggja til grundvallar í málinu að bætur skv. 5. - 7. gr. séu fullar bætur fyrir fjártjónið en ákvörðun þeirra eftir reglu 8. gr. feli í sér verulega skerðingu á fullum bótum. Kveður stefnandi að aflahæfi manna njóti verndar 72. gr. stjórnarskrárinnar samkvæmt dómafordæmum Hæstaréttar. Sé heimilt sé að álykta sem svo, að stefnandi hefði aflað sér að minnsta kosti þeirrar starfsmenntunar, sem hann muni senn ljúka gangi fyrirætlanir hans eftir, ef hann hefði ekki orðið fyrir slysinu. Slysið hafi aðeins tafið hann í náminu en ekki komið í veg fyrir það. Ef hann hefði orðið fyrir nákvæmlega sams konar slysi t.d. einu ári eftir að námi hefði lokið, hefði hann án nokkurs vafa átt rétt til örorkubóta eftir reglum 5. - 7. gr. skaðabótalaga. Fjártjónið, sem hann þá hefði orðið fyrir, hefði verið nákvæmlega það sama og hann varð fyrir í slysinu í raun og veru. Fái það ekki staðist að unnt sé að láta tímasetningu slyssins valda slíkum meginmun á rétti til skaðabóta sem raun beri vitni ef bætur til stefnanda verða ákveðnar eftir 8. gr. en ekki 5.- 7. gr. laganna. Taka megi þennan samanburð af stefnanda og öðrum tjónþola, sem verði fyrir sams konar slysi eftir að hafa byrjað störf sem tölvunarfræðingur. Bætur til slíks manns yrðu ákveðnar miklu hærri en til stefnanda, þó að ljóst sé að tjónið sé það sama. Er á því byggt, að stefnandi þurfi ekki, hvað sem öðru líði, að sæta slíkri mismunun við ákvörðun örorkubóta sinna sem af þessu myndi leiða.
Varanlegur miski
Stefnandi telur að rétt sé að beita heimild í 4. gr. skaðabótalaga til að ákveða honum hærri bætur en leiði af viðmiðunarfjárhæð ákvæðisins, sem numið hafi vegna ákvæðis 15. gr. laganna, 4.863.000 krónum í janúar 2001. Án hækkunar hafi bætur til stefnanda fyrir 50% varanlegan miska numið 2.431.000 krónum og þá fjárhæð hafi stefndi viðurkennt og greitt. Stefnandi fellst ekki á að heimild til hækkunar sé bundin við að varanleg örorka teljist 100% og telur að beita eigi álagi að fullu þannig að 50% leggist á 2.431.000 kr. og því nemi þessi hluti kröfu stefnanda 1.215.500 kr.
Kemur fram hjá stefnanda að síðan bótagreiðslur hafi farið fram til stefnanda í janúar 2001, hafi gengið dómur í Hæstarétti, 15. mars 2001 í málinu nr. 395/2000 sem gefi fordæmi um, að heimild 4. gr. til hækkunar bóta sé ekki bundin við tilvik, þar sem varanlegur miski hefur verið metinn 100%. Telur stefnandi að fullt tilefni sé til að beita heimildinni til hækkunar í tilviki stefnanda. Í matsgerð þeirri sem lögð er til grundvallar í máli þessu komi fram, að stefnandi hafi hlotið margháttaða áverka víða um líkamann. Hann sé nánast aldrei verkjalaus og eigi því oft erfitt um svefn. Líkami hans stífni upp við hvíld og hann þurfi jafnan nokkurn tíma til að mýkja sig upp. Hann hafi þrálátan höfuðverk, stundum afar slæman. Hann þurfi reglulega að nota verkjalyf. Meðalsvefn hjá honum sé um 4 klukkustundir á nóttu og hann eigi erfitt með að sitja lengi kyrr. Hafi minni hans truflast og lyktarskyn minnkað. Þá hafi hann fundið fyrir breytingum á skapgerð sinni þannig að hann vilji fremur en fyrr vera einn og sé uppstökkari, sjálfum sér og öðrum til ama. Allt séu þetta atriði, sem hljóti að leiða til þess, að rétt teljist að beita hækkunarheimild 4. gr. skaðabótalaganna í tilviki stefnanda. Hér sé um ungan mann að ræða, og hafi slysið auk annars haft varanleg og afgerandi áhrif á möguleika hans til að njóta frístunda sinna um ókomna framtíð.
Þjáningabætur
Kemur fram hjá stefnanda að í bréfi lögmanns hans 4. október 2000 hafi verið krafist þjáningabóta samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga miðað við matsgerðina, þar sem komi fram að stefnandi teljist hafa verið rúmliggjandi vegna slyssins í 148 daga en veikur án þess að vera rúmliggjandi í 1.322 daga. Miðað við fjárhæðir októbermánaðar 2000 hafi þessi krafa numið 1.341.360 kr. Hafi viðmiðunarfjárhæðir laganna verið orðnar 0,76% hærri í janúar 2001 og hafi þessi krafa þá hækkað í 1.443.033 kr. Þar sem stefndi hafi einungis viljað greiða krónur 400.000 í bætur vegna þessa kröfuliðar sé nú gerð krafa um eftirstöðvarnar að fjárhæð 1.043.033 krónur.
Hafi stefndi ekki leitast við að sýna fram á nein þau atvik sem réttlætt geti frávik til lækkunar frá viðmiðunarfjárhæðum 3. gr. skaðabótalaganna enda verði ekki séð að nein slík atvik séu í máli þessu. Um þetta vísar stefnandi til Hæstaréttardóms frá 20. janúar 2000 í málinu nr. 284/1999.
Annað fjártjón vegna tafa í námi
Hefði stefnandi ekki orðið fyrir þessu slysi, megi ætla að hann hefði lokið stúdentsprófi frá Verslunarskóla Íslands vorið 1995 og háskólaprófi í tölvunarfræði vorið 1998. Reyndin sé sú, að hann hafi lokið stúdentsprófinu vorið 1996 og ekki sé fyrirséð hvenær hann ljúki háskólaprófi. Miðist kröfugerð hans í þessum lið við að um þriggja ára námstöf sé að ræða. Sé miðað við sömu árstekjur og varðandi varanlega örorku, hafi námstöfin valdið honum tjóni sem nemur 10.800.000 krónum. Frá því dragist tekjuöflun hans með námi sambærilegan tíma. Í kröfubréfinu 4. október 2000 hafi tekjur hans árin 1997-1999, samtals 2.806.450 krónur verið dregnar frá. Þar sem stefndi hafi greitt 300.000 krónur vegna þessa kröfuliðar þann 27. júní 2001 sé krafa stefnanda undir þessum lið 7.693.550 krónur.
Útlagður kostnaður
Upphafleg krafa stefnanda í bréfi til stefnda 4. október 2000 vegna ógreidds útlagðs kostnaðar hafi verið að fjárhæð 768.625 krónur. Hafi mörgum kröfuliðum stefnanda verið synjað í bréfi lögmanns stefnda 17. október 2000, meðal annars á þeirri forsendu að ekki lægju fyrir nægilegar læknisfræðilegar forsendur fyrir útgjöldunum. Hafi því verið aflað umsagnar Brynjólfs Jónssonar læknis um einstaka liði. Í samræmi við niðurstöðu læknisins hafi stefndi greitt allar kröfurnar nema þrjár, eða samtals 129.853 krónur til viðbótar við áður greiddan kostnað. Stefndi hafi ekki fallist á að greiða reikninga vegna fæðubótarefnis tímabilið 1995-1997 samtals að fjárhæð 156.903 krónur, reikning vegna vegna kaupa á Dauphin armstól og fóthvílu að fjárhæð 51.014 krónur og útlagðan kostnað vegna lengdrar skólagöngu, fatnaðar sem skemmdist í slysinu og vegna aksturs með stefnanda þann tíma sem hann var í endurhæfingu á Grensásdeild frá ágúst til desember 1994 en þetta hafi verið sett fram í einum kröfulið samtals að fjárhæð 430.855 krónur. Hafi ógreiddur útlagður kostnaður því numið 638.772 krónum, en stefndi hafi greitt reikninginn vegna Dauphin stóls ofl. að fjárhæð 51.014 krónur þann 27. júní sl.. Sé krafa stefnanda því samkvæmt þessum kröfulið samtals 587.758 krónur.
Til stuðnings kröfu um fæðubótarefni vísar stefnandi til umsagnar Brynjólfs Jónssonar læknis. Hinn kröfuliðurinn sem enn sé ógreiddur varði beinan útlagðan kostnað sem stefnda beri að bæta enda sé það að vissu marki viðurkennt í bréfi lögmanns stefnda 17. október 2000. Þessar kröfur hafi verið nauðsynlegt að áætla að hluta, þar sem ekki sé til að dreifa beinum sönnunargögnum um fjárhæð þeirra.
Samkvæmt framansögðu sundurliðast stefnukrafan þannig eftir að tillit hefur verið tekið til greiðslu stefnda þann 27. júní 2001 að fjárhæð 351.014:
1. Óbætt vegna varanlegrar örorku........kr. 9.447.000
2. Óbætt vegna varanlegs miska............ " 1.215.500
3. Vangreiddar þjáningabætur............... " 1.043.033
4. Annað fjártjón vegna námstafa........." 7.693.550
5. Ógreiddur útlagður kostnaður............ " 587.758
Samtals kr. 19.986.841
Stefnandi krefst 2% ársvaxta samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga frá slysdegi til upphafsdags dráttarvaxta 4. nóvember 2000, en þann dag hafi verið liðinn mánuður frá dagsetningu kröfubréfs lögmanns stefnanda. Vísist í þessu efni til 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987. Þá vísar stefnandi til nýrra laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, 1. mgr. 6. gr. Vegna dóms Hæstaréttar 15. mars 2001 í málinu nr. 395/2000 kveðst stefnandi falla frá þeim fyrirvörum sem snert hafi vexti og innheimtuþóknun. Um málskostnaðarkröfu sína vísar stefnandi til ákvæða í XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV
Varanleg örorka
Stefndi kveður að í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 50/1993, skaðabótalögum, hafi meðal annars verið sagt um 8. gr. að þegar draga skuli mörkin milli 2. mgr. 7. gr. og 8. gr. verði almennt að telja að 2. mgr. 7. gr. verði beitt um þann sem vinni hálft launað starf eða meira utan heimilis en 8. gr. um þann sem vinni minna en hálft starf utan heimilis. Reglum 8. gr. skuli beitt um ungt námsfólk þótt það afli tekna í vinnu með námi og án tillits til tekna af þess konar vinnu, svo framarlega sem nemandinn stundi í reynd nám með eðlilegum hætti. Bætur til námsmanna sem þiggi laun í tengslum við nám, svo sem iðnnemar eða læknastúdentar, skuli ákveða eftir 2. mgr. 7. gr. Þá skuli beita reglum 2. mgr. 7, gr., um þá sem séu atvinnulausir þegar tjón verði. Af þessu telur stefndi verða dregna þá ályktun að beinlínis sé til þess ætlast að 8. gr. skaðabótalaga verði beitt um tilvik stefnanda. Sá skilningur hafi og verið staðfestur í tveimur dómum í málum nr. 291 og 380/1999.
Ekki sé um það deilt, að bætur til stefnanda hafi þann 23. janúar 2001 vegna þessa liðar verið réttilega greiddar samkvæmt 8. gr. skaðabótalaga og verði þá í samræmi við ofangreint að sýkna stefnda af þessari kröfu.
Hvað snerti þá skoðun stefnanda að leiði textaskýring 8. gr. til þess, að hún verði talin eiga við atvik hans, feli sú skýring í sér mismunun, sem brjóti gegn rétti stefnanda samkvæmt 72., sbr. 65. gr. stjórnarskrár, kveður stefndi að tekist hafi verið á um þessi sjónarmið í hæstaréttarmáli nr. 380/1999 þar sem hafnað hafi verið að sú niðurstaða að miða bætur við 8. gr. fæli í sér brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Telur stefndi að sjá megi af ofangreindum dómum að miða skuli stöðu tjónsþola við slysdag. Samkvæmt þessu beri að sýkna stefnda af þessum hluta kröfu stefnanda.
Varanlegur miski
Varanlegur miski
Stefndi kveður að þótt viðurkennt sé, eins og fram komi í örorkumati að stefnandi hafi orðið fyrir miklu líkamstjóni og miska verði að gæta að því, að hækkunarheimildin í 1. mgr. 4. gr. sé undantekningarheimild, þegar sérstaklega standi á. Hvað varði vísun stefnanda til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 395/2000, sé þess að gæta að þar hafi afleiðingar tjóns verið alveg sérstakar. Tjónþoli í því máli hafi lamast upp að hálsi og verið öðrum háður um allar venjulegar athafnir daglegs lífs. Séu engin rök til þess í þessu máli að beita undantekningarheimild 1. mgr. 4. gr. skaðabótalaga og beri að sýkna stefnda af þessari kröfu.
Þjáningabætur
Í 3. málslið 3. gr. skaðabótalaga segi, að nemi bætur meira en 200.000 krónum, sé heimilt að víkja frá fjárhæðum þeim sem greini í 1. málslið. Um þennan málslið hafi verið sagt í athugsemdum með frumvarpi til upphaflegra skaðabótalaga að undantekningarregla þessi veiti svigrúm til að ákveða að álitum lægri þjáningabætur til tjónþola ef veikindatímabil eftir líkamstjón sé langt. Þá segi í athugasemdum að rök fyrir þessum undantekningum séu þau að ekki þyki rétt að binda hendur dómara um of í þessu efni vegna þess að sérstök tilvik kunni að koma upp þar sem staðlaða reglan leiði til óeðlilegrar niðurstöðu.
Ljóst sé af orðalagi athugasemda, að heimildin nái aðeins til þess að lækka þjáningabætur, þegar veikindatímabil sé mjög langt. Þá verði að hafa í huga að í dómi Hæstaréttar í máli nr. 284/1999, sem stefnandi vísi til máli sínu til stuðnings varðandi þennan kröfulið, hafi veikindatímabil tjónþola verið mun styttra en hjá stefnanda. Meira máli skipti þó að mati stefnda að ljóst sé af framlögðum gögnum í þessu máli að stefnandi geti ekki hafa verið veikur allan þann tíma sem greini í matsgerð. Heildarveikindatímabilið samkvæmt matsgerðinni sé frá slysdegi til 20. júlí 1998 eða rösk fjögur ár. Á þessum tíma hafi stefnandi bæði verið við nám og störf en hann hafi lokið stúdentsprófi vorið 1996 og fyrstu tveimur árunum af tölvunarfræðinámi sínu frá hausti 1996 til þess tíma sem veikindatímabili ljúki. Af skattframtölum sé ljóst, að á árinu 1995 hafi stefnandi haft smávægilegar tekjur, engar launatekjur á árinu 1996, en á árunum 1997 og 1998 hafi hann haft tekjur sem hafi verið að minnsta kosti sambærilegar við þær tekjur, sem hann hafði áður aflað við sumarstörf.
Telur stefndi að fyrir utan dóm Hæstaréttar í máli nr. 284/1999, virðist einungis einn annar dómur hafa gengið um það hvernig beita skuli lækkunarheimild 3. málsliðar 3. gr., það sé dómur Hæstaréttar í máli nr. 32/2001, en þar hafi kröfu bótagreiðanda um lækkun þjáningabóta verið hnekkt þar sem ekki hafi verið færð fram nein haldbær rök fyrir því að sérstök ástæða væri til að beita lækkunarheimildinni.
Skipti það því mestu hér að ekki hafi verið sýnt fram á það, þrátt fyrir niðurstöðu matsgerðar, að stefnandi hafi verið veikur allan tímann sem þar sé tiltekinn í skilningi 3. gr. skaðabótalaga. Sé því sérstök ástæða til þess að víkja frá þeirri viðmiðun af þeirri ástæðu einni þótt ekki væri annars að gæta. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 284/1999 hafi í sjálfu sér ekki reynt á efstu mörk útreiknaðra þjáningabóta, þótt ljóst sé að Hæstiréttur hafi ekki talið að hér ætti við sams konar venja og myndast hafi í danskri dómaframkvæmd, það er að hæstu þjáningabætur verði ekki meira en 50% hærri en það 200.000 kr. mark, sem greinir í 3. málslið 3. gr.
Stefndi hafi þegar greitt 400.000 krónur í þjáningabætur. Af samhengi bótaákvæða í skaðabótalögum sýnist ljóst, að bætur fyrir þjáningar séu fyrst og fremst ætlaðar til þess að bæta þjáningar á tiltölulega stuttu veikindatímabili fyrst eftir slys, eftir það taki við bætur fyrir varanlegan miska. Krafa stefnanda sé um sexfalda þá fjárhæð sem tiltekin sé í 3. málslið 3. gr. skaðabótalaga og sé ljóst að viðurkenning slíkrar kröfu víki mjög verulega frá þeim sjónarmiðum sem hér hafi verið reifuð. Vísi krafa stefnda um lækkun með vísun til 3. málsliðar 3. gr. annars vegar til þess að stefnandi hafi ekki verið veikur í skilningi 3. gr. allan þann tíma, sem talið sé í matsgerð, og hins vegar til þess að ákvörðun þjáningabóta eftir 1. málslið 3. gr. í þessu máli sé í andstöðu við það hlutverk sem þjáningabótum sé ætlað samkvæmt skaðabótalögum og samþættingu bótaákvæða þar.
Annað fjártjón vegna tafa í námi
Stefndi kveður óumdeilt að stefnandi hafi orðið að fresta stúdentsprófi frá vori 1995 til vors 1996 vegna slyssins. Stefndi kveðst þó ekki sjá að þá námstöf eigi að bæta eins og um atvinnutjón væri að tefla. Hafa verði í huga, yrði það viðurkennt, að þær bætur væru þá í reynd fyrir tímabundið atvinnutjón og skattskyldar sem slíkar. Einnig verði að huga að því hvað lögskýringargögn segi um þetta atriði.
Í athugasemdum með frumvarpi til hinna upphaflegu skaðabótalaga hafi um þetta verið sagt að námsmönnum hafi verið dæmdar bætur fyrir röskun á stöðu og högum vegna tafa sem orðið hafi á námi vegna slyss, sbr. þágildandi 1. mgr. 264. gr. hegningarlaga, nr. 19/1940. Ekki sé gert ráð fyrir neinni efnisbreytingu á þessu og verði því heimilt að bæta slíkt sem annað fjártjón en ekki sem bætur fyrir röskun á stöðu og högum.
Hafi því engin breyting orðið á rökum fyrir bótum vegna námstafa við setningu skaðabótalaga, það sem áður hafi verið kallað bætur fyrir röskun á stöðu og högum skyldi nú bætt að álitum sem annað fjártjón en ekki í þeim greinum skaðabótalaga sem fjalli um atvinnutjón, tímabundið eða varanlegt. Sé þetta og í samræmi við réttarframkvæmd í Danmörku. Stefndi hafi því bætt með 300.000 krónum, að álitum, námstöf við Verslunarskóla Íslands um eitt ár og telji þá námstöf bætta að fullu.
Hafi stefnandi ekki sýnt fram á að hann hafi í reynd orðið fyrir töf við háskólanám sitt vegna slyssins. Hann hafi þegar lokið tveimur árum af þremur, en hafi kosið að taka sér hlé frá námi til annarra starfa. Beri og að hafa í huga, að nám í tölvunarfræði hafi stefnandi ekki hafið fyrr en nokkrum árum eftir slys og hugsanlegar tafir við það nám geti því ekki verið vávænar afleiðingar af slysinu og sé ekkert orsakasamband milli slyss og hugsanlegra tafa.
Útlagður kostnaður
Hvað snertir kröfu stefnanda um fæðubótarefni þá kveður stefndi þau ekki nauðsynleg til að ná heilsu eftir sjúkdóma eða slys, þótt í bréfi Brynjólfs Jónssonar læknis séu viss rök færð fyrir notkun slíkra efna, að því er virðist, af sálrænum toga. Stefndi telur, að stefnandi hafi ekki sýnt fram á, að notkun efnanna sé vávæn afleiðing af slysinu og beri því að sýkna stefnda af kröfu vegna þeirra.
Stefndi kveður að fallast megi á, að skólagjöld við Verslunarskóla Íslands námsárið 1995-1996, 40.000 krónur séu kostnaður sem fallið hafi til vegna slyssins. Á sama hátt og varði meinta námstöf við tölvunarfræðinám, verði ekki séð að námsgjöld við Háskóla Íslands varði útlagðan kostnað vegna slyssins. Bókakostur, hvort sem er í Verslunarskóla Íslands eða Háskóla Íslands, sé ekki hluti útlagðs kostnaðar vegna slyssins og nýtist jafnt, þótt seinkun hafi orðið á námi. Beri því að sýkna stefnda af þeim hlutum kröfunnar.
Vegna krafna stefnanda um bætur fyrir fatnað og fleira sem farið hafi forgörðum í slysinu, verði að benda á, að bótakröfur stefnanda byggi á 92. gr. umferðarlaga. Eins og orðalag greinarinnar beri með sér, sé þar um að ræða slysatryggingu, sem tryggja skuli ökumanni bætur vegna slyss, sem hann kunni að verða fyrir við starfa sinn. Í dómum Hæstaréttar hafi og trygging þessi verið skilgreind sem slysatrygging, en bætur verði ákveðnar eftir sömu reglum og skaðabætur utan samninga. Þar sem hér sé um slysatryggingu að ræða, taki tryggingin ekki til munatjóns. Í skilmálum stefnda fyrir tryggingunni sé og ekki nein rýmkun, sem valdi því að annað tjón en líkamstjón og það sem beinlínis leiði af því, svo sem lækniskostnaður, verði bætt úr tryggingunni. Beri því að sýkna stefnda af kröfu stefnanda í þessum lið.
Stefndi hafnar því að í bréfi lögmanns stefnda til stefnda, dagsettu 17. október 2000, sé falin viðurkenning stefnda til stefnanda á réttmæti þessa liðar, enda sé það bréf lögmanns stefnda til stefnda en ekki stefnanda.
Fyrir öðrum kostnaðarþáttum á fylgiskjali hafi ekki verið gerð fullnægjandi grein. Verði ekki séð að kostnaður vegna aksturs eins og hann sé tilgreindur í kröfugerð stefnanda hafi verið annar og meiri en fallið hefði á stefnanda vegna ferða hvort sem er.
Stefndi kveðst ekki gera athugasemdir við vaxtakröfu stefnanda frá slysdegi 10. júlí 1994 til 4. nóvember 2000, en þann dag hafi verið mánuður liðinn frá dagsetningu kröfubréfs. Lögmaður stefnanda og stefndi hafi haft samráð um það, að ekki væri tímabært að ganga til uppgjörs fyrr en á árinu 2000 og sé því ekki haldið fram, að vextir eldri en fjögurra ára séu fyrndir. Að því er varði upphafstíma dráttarvaxta, þykir stefnda ljóst að þeir verði fyrst lagðir á frá uppsögu endanlegs dóms í málinu, enda telji stefndi ljóst að sýknað verði af helstu kröfum stefnanda, sem hafi verið meginástæða málsóknarinnar. Kröfu sína um málskostnað reisir stefndi á 1. og 3. mgr. 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, en kröfu um tillit til virðisaukaskatts byggir hann á lögum nr. 50/1988.
V
Eins og rakið hefur verið er ágreiningur með aðilum um hvort fara eigi eftir reglum 5.-7. gr. eða 8. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 við ákvörðun bóta fyrir varanlega örorku stefnanda af völdum umferðarslyssins 10. júlí 1994, eins og þau ákvæði voru þegar slysið varð. Hefur stefndi greitt stefnanda miðað við að 8. gr. skaðabótalaganna eigi við tilvik stefnanda, samtals 4.863.000 kr.
Ákvæði 5.-7. gr. skaðabótalaga hafa að geyma reglur um örorkubætur fyrir tjónþola með tekjureynslu en í 8. gr. laganna eru reglur um ákvörðun bóta til tjónþola sem hafa enga eða takmarkaða tekjureynslu. Í 1. mgr. 8. gr. eins og hún hljóðaði á þeim tíma er atvik máls þessa gerðust sagði, að bætur til barna og tjónþola, sem að verulegu leyti nýta vinnugetu sína þannig, að þeir hafi engar eða takmarkaðar vinnutekjur, skuli ákvarða á grundvelli miskastigs samkvæmt 4. gr. laganna.
Líta verður svo á að í 5.-7. gr. skaðabótalaganna komi fram aðalreglur um ákvörðun bóta vegna varanlegrar örorku en í 8. gr. sé fólgið undantekningarákvæði sem aðeins verði beitt þegar ekki liggja fyrir raunhæfar forsendur, með tilliti til reynslu, til að ákvarða tekjutap.
Í greinargerð með 8. gr. kemur fram að reglum greinarinnar skuli beitt um ungt námsfólk þótt það afli tekna í vinnu með námi og án tillits til tekna af þess konar vinnu svo framarlega sem nemandinn stundar í reynd nám með eðlilegum hætti. Er slys það sem mál þetta er sprottið af, átti sér stað, var stefnandi 19 ára nemandi við Verslunarskóla Íslands og átti eftir eitt ár í stúdentspróf. Vegna slyssins tafðist hann um eitt ár í náminu og lauk stúdentsprófi vorið 1996. Haustið 1996 hóf hann nám í tölvunarfræði við Háskóla Íslands. Hafði stefnandi aflað sér einhverra tekna með námi sínu fyrir og eftir slysið, árið 1992 voru heildartekjur hans krónur 413.376, árið 1993 krónur 416.094, árið 1994 krónur 225.183, árið 1995 krónur 30.000, árið 1996 krónur 0, árið 1997 krónur 651.843, árið 1998 krónur 464.364, árið 1999 krónur 1.044.019. Bar stefnandi fyrir dómi að vinnuframlag hans eftir slysið hafi í raun ekki verið í samræmi við launin sem hann fékk, megi frekar líta á þessar greiðslur sem styrk, en hann hefur aðallega haft tekjur af vinnu við fyrirtæki föður síns.
Þar sem stefnandi var ungur námsmaður, sem aflaði sér tekna með námi og ekkert annað komið fram í málinu en að hann hafi stundað nám sitt í reynd með eðlilegum hætti eru, engin rök til að skýra undantekningarákvæði 8. gr. svo þröngt að tilvik stefnanda falli ekki þar undir.
Stefnandi telur að ef skýring á texta 8. gr. skaðabótalaganna leiði til þess að stefnandi fallir þar undir, felist í því mismunun sem brjóti gegn rétti stefnanda samkvæmt 72. gr. sbr. 65. gr. stjórnarskrárinnar þar sem í aflahæfi séu fólgin eignaréttindi sem njóti verndar stjórnarskrárinnar. Þrátt fyrir tilgreind ákvæði stjórnarskrárinnar verður að líta svo á að löggjafinn hafi vald til setja reglur um það hvernig ákvarða skuli bætur, þegar aflahæfi manna er skert, enda sé það markmið slíkra reglna að fullar bætur komi fyrir. Mismunandi niðurstaða sem fæst við beitingu ólíkra reiknireglna samkvæmt 5.-7. gr. annars vegar og 8. gr. hins vegar getur verið tjónþolum úr báðum hópum til hagsbóta. Mestu máli skiptir þó að að tjónþolar í hvorum hópi um sig sæta samskonar aðferð við ákvörðun bóta. Verður því að telja að 1. mgr. 8. gr. eins og hún var hafi verið reist á skýrum málefnalegum forsendum og ekki talin andstæð þeim megintilgangi laganna að tjónþoli fái fullar bætur fyrir tjón sitt. Verður því ekki fallist á það með stefnanda að sú niðurstaða að bæta honum tjón hans vegna varanlegrar örorku eftir reglum 8. gr. skaðabótalaganna gangi í berhögg við stjórnarskrárvarin réttindi hans. Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið verður ekki hjá því komist að fallast á það með stefnda að tjón stefnanda vegna varanlegrar örorku verði bætt eftir reglum 8. gr. skaðabótalaganna. Ágreiningslaust er að stefnandi hefur samkvæmt uppgjöri 23. janúar 2001 fengið bætur fyrir varanlega örorku þannig greiddar úr hendi stefnda. Samkvæmt því ber að sýkna stefnda af þessum lið kröfu stefnanda.
Óumdeild er sú niðurstaða matsgerðar að varanlegur miski stefnanda sé 50%. Stefnandi telur að beita eigi hækkunarheimild í 4. gr. skaðabótalaganna um að þegar sérstaklega standi á sé heimilt að ákveða hærri bætur allt að 50%. Stefndi hefur þegar greitt stefnanda bætur vegna varanlegs miska að fjárhæð 2.431.000 krónur og er ekki ágreiningur um þann útreikning, en stefnandi krefst 50% álags ofan á þá fjárhæð, eða 1.215.500 til viðbótar.
Í 1. mgr. 4. gr. skaðabótalaga, eins og hún var þegar slysið varð, sagði að við ákvörðun fjárhæðar bóta fyrir varanlegan miska skyldi litið til þess hvers eðlis og hversu miklar afleiðingar tjóns væru frá læknisfræðilegu sjónarmiði, svo og til erfiðleika sem það valdi í lífi tjónþola. Varanlegur miski skyldi metinn til stiga og miðað skyldi við ástand tjónþola þegar ekki væri að vænta frekari bata. Síðan sagði að þegar miski væri metinn alger skyldu bætur vera 4 milljónir og síðan lækka í réttu hlutfalli við lægra miskastig. Síðan sagði að þegar sérstaklega stæði á væri heimilt að ákveða hærri bætur, þó ekki hærri en 6.000.000 króna. Í athugasemdum með frumvarpi til skaðabótalaga sagði að í undantekningartilvikum kynni fjárhæð bóta eftir að fjögurra milljón króna markinu væri náð að þykja ófullnægjandi einkum þegar tjónþoli hefði orðið fyrir margvíslegum líkamsspjöllum, til dæmis bæði orðið fyrir mikilli sköddun á útlimum og misst sjón á báðum augum. Heimildin til að ákveða hærri bætur þegar sérstaklega standi á væri sett í því skyni að unnt yrði að veita hærri bætur í slíkum tilvikum. Þessi tilvísun um að heimildinni verði beitt þegar sérstaklega standi á bendir til þess að hvert einstakt tilvik þurfi að skoða sérstaklega og við það miðað að henni verði beitt þegar gera megi ráð fyrir að hinn metni miski tjónþola nái ekki að bæta miska hans að fullu. Í máli þessu hefur komið fram að stefnandi, sem er ungur maður, hlaut við slysið margháttaða áverka um líkamann og á við mikla erfiðleika að etja eftir slysið. Í matsgerð kemur fram að áverkar hans af völdum slyssins voru brot á vinstri lærlegg, brot á hægri fótlegg, brot á hægra völubeini, brot á vinstra teningsbeini, brot á nærkjúku vinstri vísifingurs, nefbrot, sár í andliti, brot á tönnum, brot í neðsta liðbol hryggjar, þrengslaheilkenni í hægri fótlegg og höfuðhögg. Hefur komið fram hjá stefnanda að hann sé nánast aldrei verkjalaus, hafi þrálátan höfuðverk og þurfi reglulega að nota verkjalyf. Þá er fram komið að minni hans hefur truflast og hann upplifir auk þess skapgerðareinkenni sem gerir honum erfitt fyrir í daglegu lífi og samskiptum við aðra. Þessi minnisskerðing er varanleg eins og niðurstöður úr sálfræðimati bera með sér og helsta orsök tafa í námi. Er það mat dómsins að hinn 50% metni varanlegi miski nái ekki til að bæta miska stefnanda að fullu og standi því þannig sérstaklega svo á að rétt sé að ákvarða honum hærri bætur sem nemur 20% af þeim bótum sem hann hefur þegar fengið greiddar, eða af 2.431.500 krónum og því viðurkennt að stefndi eigi að greiða stefnanda 486.300 krónur.
Krafa stefnanda um þjáningabætur fær stuðning í matsgerð Jónasar Hallgrímssonar prófessors í líffærameinafræði og Yngva Ólafssonar sérfræðings í bæklunarlækningum. Þar kemur meðal annars fram að fyrst hafi reynt á starfsgetu stefnanda sumarið 1999 en stöðugu ástandi hafi fyrst verið náð þegar hann hafi byrjað að vinna aftur í kjölfar síðustu aðgerðarinnar 20. júlí 1998. Stefnandi styður kröfu sína við 3. gr. skaðabótalaganna og er óumdeilt að stefnandi á rétt á bótum samkvæmt því ákvæði. Í 3. ml. 3. gr. laganna segir að nemi bætur meira en 200.000 krónum sé heimilt að víkja frá fjárhæðum þeim sem greini í 1. ml. Um þetta sagði í greinargerð með frumvarpi til upphaflegra skaðabótalaga að undantekningarregla þessi veiti svigrúm til að ákveða að álitum lægri þjáningabætur til tjónþola ef veikindatímabil eftir líkamstjón sé langt. Þá sagði að rökin fyrir reglunni væru þau að ekki þætti rétt að binda hendur dómara um of í þessu efni vegna þess að sérstök tilvik kunni að koma upp þar sem staðlaða reglan leiði til óeðlilegrar niðurstöðu. Stefnandi hefur gert kröfu í samræmi við að hann hafi verið rúmliggjandi vegna slyssins í 148 daga en veikur án þess að vera rúmliggjandi í 1.322 daga. Krafa hans þannig reiknuð í samræmi við 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaganna nemur alls 1.443.033 krónum. Stefndi hefur greitt stefnanda 400.000 krónur vegna þessa kröfuliðar og gerir stefnandi kröfu um að fá mismuninn greiddan.
Stefndi heldur því fram að þrátt fyrir niðurstöðu í matsgerð sýni gögn málsins að stefnandi hafi ekki verið veikur í skilningi 3. gr. skaðabótalaganna allan framangreindan tíma í rösk fjögur ár, hann hafi bæði verið við nám og störf á þessum tíma.
Með hliðsjón af gögnum málsins er það mat hinna sérfróðu meðdómenda að þjáningabætur skuli metnar frá slysi 10. júlí 1994 til 1. september 1995 er hann hefur skólagöngu á ný, rúmliggjandi í 126 daga og veikur án þess að vera rúmliggjandi í 290 daga. Tímabilið frá 1. september 1995 til 20. júlí 1998 rúmliggjandi í 22 daga og veikur án þess að vera rúmliggjandi í 516 daga. Er það því niðurstaðan að þjáningabætur greiðist miðað við að stefnandi hafi verið rúmliggjandi 148 daga og veikur án þess að vera rúmliggjandi í 806 daga. Á verðlagi í október 2000 reiknast krafan þannig að 806 dagar á 840 krónur eða samtals 677.040 krónur og 148 dagar á 1.560 krónur eða samtals 230.880. Viðmiðunarfjárhæðum hefur ekki verið andmælt hins vegar er ljóst að hækkun stefnanda vegna lánskjaravísitölu frá október 2000 fram til janúar 2001 svo sem greinir í stefnu er of há. Lánskjaravísitala í október 2000 var 3939 en 3990 í janúar 2001. og er því niðurstaðan sú að þjáningabætur á verðlagi í janúar 2001 eru 919.675. Af þeirri kröfu hefur stefnandi greitt 400.000 krónur og er það því niðurstaða málsins að stefnandi á ógreiddar þjáningabætur að fjárhæð 519.675.
Stefnandi gerir kröfu um bætur vegna annars fjártjóns vegna tafa í námi. Samkvæmt 1. gr. skaðabótalaganna á sá, sem bótaábyrgð ber á líkamstjóni, að greiða skaðabætur fyrir atvinnutjón, sjúkrakostnað og annað fjártjón auk þjáningabóta. Óumdeilt er að hann tafðist um eitt ár við nám í Verslunarskóla Íslands vegna slyssins. Hins vegar er deilt um það að tafir þær, sem hafa orðið á námi hans við Háskóla Íslands, megi rekja til slyssins. Það liggur fyrir í málinu að stefnandi vann fyrir tekjum árið 1997 samtals 651.843 krónur, árið 1998 samtals 464.364 krónur og árið 1999 1.044.019 krónur. Óumdeilt er að nám stefnanda í tölvunarfræði hefur dregist frá því að hann hóf það haustið 1996 og til dagsins í dag þar sem hann gerir ráð fyrir að ljúka námi á næsta ári. Fyrir liggur í gögnum málsins að stefnandi tók sér hlé frá námi á árinu 1997. Ennfremur hefur hann borið að hann sé í vinnu hjá föður sínum og hafi það nokkuð frjálst hvernig og hvenær hann vinni. Þá hefur hann borið að í dag sé hann í vinnu og sé að skrifa lokaritgerð en sæki ekki tíma í skólanum nú fyrir áramót. Af gögnum málsins verður ráðið að stefnandi hafi fyrir slysið haldið eðlilegum takti við nám, en afleiðingar slyssins, sérstaklega heilaskaði með áberandi minnisskerðingu, sé sennilegasta skýring þess að stefnandi hefur tafist í námi. Telur dómurinn sannað að slysið hafi valdið töfum frá námi þótt hluta tafarinnar megi rekja til þess að stefnandi tók sér hlé og hefur auk þess unnið með náminu. Gerir stefnandi ráð fyrir töfum upp á þrjú ár og með vísan til þess sem að framan er rakið er unnt að fallast á það með stefnanda. Stefndi hefur viðurkennt greiðsluskyldu sína vegna námstafa í Verslunarskóla Íslands og þegar greitt stefnanda 300.000 krónur vegna þess. Hefur komið fram hjá stefnda að við ákvörðun þeirrar fjárhæðar hafi verið miðað við raunverulega töf og við það miðað við ákvörðun fjárhæðar eins og áður var bætt sem röskun á stöðu og högum samkvæmt 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga. Í athugasemdum með frumvarpi til hinna upphaflegu skaðabótalaga kemur fram um 1. gr. að með orðunum “annað fjártjón” sé átt við útgjöld sem falli á tjónþola strax eða fljótlega eftir tjónsatvik en erfitt sé að færa sönnur á til dæmis með því að leggja fram reikninga. Hafi námsmönnum verið dæmdar bætur fyrir röskun á stöðu og högum vegna tafa sem hafi orðið á námi vegna slyss sbr. 1. gr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem nú sé lagt til að verði felld niður. Ekki sé þó gert ráð fyrir neinni efnisbreytingu á þessu og heimilt að bæta slíkt sem annað fjártjón.
Af þessu má ráða að ekki hafi staðið til að breyta rökum fyrir bótum fyrir tafir á námi með setningu skaðabótalaganna og verða bætur fyrir slíkt tjón metið að álitum. Það er mat dómsins að hæfilegar bætur fyrir tafir á námi stefnda séu 1.200.000 krónur. Stefndi hefur þegar greitt 300.000 krónur og ber því að greiða mismuninn sem er 900.000 krónur.
Þá er ágreiningur um greiðslu stefnda á ýmsum kostnaði sem stefnandi heldur fram að bæta eigi. Hefur því verið haldið fram af hálfu stefnanda að í raun hafi lögmaður stefnda viðurkennt að vissu marki bótaskyldu vegna þessara kostnaðarliða og vísað í því sambandi til bréfs Hákonar Árnasonar hrl. til stefnda 17. október 2000. Hér er um að ræða umsögn lögmannsins til stefnda vegna bótakrafna stefnanda og verður ekki fallist á að bréf þetta bindi hendur stefnda á nokkurn hátt gagnvart stefnanda.
Er ágreiningur um að stefndi eigi að bæta stefnanda útlagðan kostnað vegna fæðubótaefna. Í álitsgerð Brynjólfs Jónssonar læknis segir um þetta að frá læknisfræðilegu sjónarmiði séu fæðubótaefni ekki talin nauðsynleg í sjálfu sér til þess að ná heilsu eftir sjúkdóm eða slys. Hins vegar sé það nauðsynlegt hverjum einstaklingi, ekki síst eins og í tilviki stefnanda, að reyna allt sem honum eða öðrum sem komi nálægt meðferðinni, hugkvæmist til að styrkja og hvetja einstaklinginn til dáða varðandi líkamlega og andlega endurhæfingu. Kveðst hann sjálfur ekki sjá af gögnum að hann hafi sérstaklega mælt með þessu, en stefnandi heldur því fram. Kemur fram hjá lækninum að þessi efni séu nauðsynleg í íþróttasamhengi, en bæklunarlæknar hafi ekki sértæka þekkingu á þessum sviðum og þó um beinan næringarskort sé ekki að ræða og ættu næringarefni að fást úr flestum venjulegum fæðutegundum sem neytt sé daglega. Kveðst hann geta fallist á að í ákveðnum tilfellum sé þetta liður í erfiðri endurhæfingu eins og stefnandi hafi sannarlega þurft að ganga í gegnum.
Það er álit hinna sérfróðu meðdómsmanna að fæðubótaefni hafi ekki verið notuð hjá sjúklingum við endurhæfingu að læknisráði nema sýnt hafi verið fram á vöntun þeirra. Slíkt hefur ekki verið gert í þessu tilviki og er það niðurstaða dómsins að sýkna beri stefnda af þessum lið kröfu stefnanda.
Þá hefur stefnandi gert kröfu um að stefndi greiði krónur 430.855 vegna ýmiss útlagðs kostnaðar. Hvað snertir kostnað vegna lengdrar skólagöngu þá hefur stefndi fallist á að greiða stefnanda kostnað sem hlaust af lengdri skólavist hans í Verslunarskóla Íslands að fjárhæð 40.000 krónur. Krafa hans vegna bóka er hins vegar ekki rökstudd og vandséð hvernig þau útgjöld megi rekja til slyssins og er stefndi því sýknaður af þeim kröfulið, enda ekki sýnt fram á að þær nýtist ekki við áframhaldandi nám stefnanda.
Þá er með vísan til þeirrar niðurstöðu að stefnandi hafi tafist um tvö ár í námi sínu í Háskóla Íslands rétt að taka til greina kostnaðarliði sem varða árgjald Háskóla Íslands samtals að fjárhæð 46.000 krónur.
Stefnandi hefur gert kröfu um að fá bætt fatnað og ýmsa muni sem hann kveður hafa skemmst í slysinu. Fatnaðurinn sem hann vill bættan eru íþróttagalli sem hann metur á 12.000 krónur, ullarpeysa sem hann metur á 6.500 krónur og íþróttaskór á 7.500 krónur. Þá telur hann upp smáhluti sem skemmst hafi, fjarstýring á bílskúrshurð 3.200 og viðgerð á farsíma NMT 5.055 krónur. Kröfur stefnanda að þessu leyti eru ekki studdar neinum gögnum og gögn málsins bera ekki með sér að hann hafi orðið fyrir þeim útgjöldum vegna slyssins að hægt sé að taka kröfu hans til greina að þessu leyti gegn mótmælum stefnda. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki fjallað um hvort slíkar kröfur séu bótaskyldar samkvæmt 92. gr. umferðarlaga.
Það er óumdeilt að stefnandi var í endurhæfingu á Grensásdeild vegna slyssins og liggur í augum uppi að hann þurfti að láta aka sér á milli staða. Ekki nýtur við gagna vegna þessarar kröfu en það er mat dómsins að rétt sé að að bæta stefnanda þennan kostnað sem hann óhjákvæmilega hefur orðið fyrir og rekja má til slyssins. Ver bæturnar ákveðnar að álitum 100.000 krónur. Er það því niðurstaða varðandi útlagðan kostnað að stefndi greiði stefnanda samtals 186.000 krónur.
Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að stefndi greiði stefnanda 2.091.975 krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði. Eftir þessum málsúrslitum þykir rétt að stefndi greiði stefnanda krónur 480.000 í málskostnað.
Af hálfu stefnanda flutti mál þetta Jón Steinar Gunnlaugsson hrl. en af hálfu stefnda flutti málið Jakob R. Möller hrl.
Dóminn kveða upp Greta Baldursdóttir dómsformaður og meðdómendurnir Ásgeir B. Ellertsson og Ríkharður Sigfússon.
D Ó M S O R Ð
Stefndi Vátryggingarfélag Íslands hf. greiði stefnanda, Valtý Sævarssyni, 2.091.975 krónur með með 2% ársvöxtum af 2.442.989 krónum frá 10. júlí 1994 til 4. nóvember 2000 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þeim degi til 27. júní 2001 en af krónum 2.091.975 frá þeim degi til 1. júlí 2001, en skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 480.000 krónur í málskostnað.