Hæstiréttur íslands

Mál nr. 399/1999


Lykilorð

  • Vinnuslys
  • Sjómaður
  • Skaðabætur
  • Líkamstjón


Fimmtudaginn 2

 

Fimmtudaginn 2. mars 2000.

Nr. 399/1999.

Gullberg hf.

(Guðmundur Pétursson hrl.)

gegn

Árna Jóni Gissurarsyni

(Sigurður Georgsson hrl.)

 

Vinnuslys. Sjómenn. Skaðabætur. Líkamstjón.

Í mars 1993 slasaðist Á á fæti um borð í fiskveiðiskipi í eigu G þegar hann steig ofan af botnvörpu, sem lá á þilfarinu og misteig sig. Á hélt því fram, að hann hefði haldið uppi vír með viðfestum króki, svokölluðum pokagils, til að hann festist ekki í vörpunni, en nafngreindur skipverji, sem stjórnaði vindu fyrir gilsinn, hefði híft óvænt í þannig að strekktist á vírnum með framangreindum afleiðingum. Framburður Á um tildrög slyssins þótti ekki fá stoð í framburði vitna og væri því ekki við annað að styðjast en frásögn Á um að tjónið hefði orðið af ástæðum, sem G bæri ábyrgð á. Með hliðsjón af því, sem fyrir lá um meiðsli Á í fyrstu, var ekki talið, að G hefði verið skylt að hafa frumkvæði að sjóprófi. Hefði G ekki haft tilefni til þess að hlutast til um sjópróf fyrr en haustið 1997 þegar Á kynnti vátryggjanda G að varanlegt tjón hefði orðið af slysinu. Hins vegar þótti Á hafa mátt vera ljóst mun fyrr, eða eftir læknisskoðun haustið 1995, að slysið kynni að hafa í för með sér alvarlegar afleiðingar. Hefði Á því haft fullt tilefni til þess eigi síðar en þá að eiga sjálfur frumkvæði að því að sjópróf yrði haldið eða lögreglurannsókn færi fram. Að þessu virtu þóttu ekki efni til að meta G í óhag að ekki hefðu verið rannsökuð atvik að slysinu. Með því að Á brast samkvæmt þessu sönnun fyrir því að G væri skaðabótaskylt var G sýknað af kröfu hans um skaðabætur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. október 1999. Hann krefst aðallega sýknu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa stefnda verði lækkuð og málskostnaður felldur niður fyrir báðum dómstigum.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Ágreiningur málsaðila á rætur að rekja til slyss, sem stefndi varð fyrir 6. mars 1993 um borð í fiskiskipi áfrýjanda, Gullveri NS 12. Var hann að stíga ofan af botnvörpu skipsins, sem lá á þilfarinu, þegar hann missteig sig og slasaðist við það á fæti, eins og nánar er lýst í héraðsdómi. Ber stefndi að hann hafi er atvikið varð haldið uppi vír með viðfestum króki, svokölluðum pokagils, til að hann festist ekki í vörpunni. Þegar hann hugðist stíga niður á þilfarið hafi nafngreindur skipverji, sem stjórnaði vindu fyrir pokagilsinn, híft óvænt í þannig að strekktist á vírnum. Við það hafi stefndi misst jafnvægið og fallið á þilfarið með áðurgreindum afleiðingum.

Rannsókn fór ekki fram á slysinu utan þess að lögregluskýrslur voru teknar 16. september 1998 af nokkrum skipverjanna í umræddri veiðiferð. Er framburður þeirra fyrir dómi og hjá lögreglu um atvik að slysinu rakinn í héraðsdómi. Fær staðhæfing stefnda um að kenna megi skipsfélaga hans um óhappið ekki stoð í framburði vitna. Er ekki við annað að styðjast en frásögn stefnda sjálfs um að tjónið hafi orðið af ástæðum, sem áfrýjandi geti borið skaðabótaábyrgð á gagnvart honum.

II.

Í 1. tölulið 219. gr. siglingalaga nr. 34/1985 er meðal annars mælt fyrir um að sjópróf skuli halda þegar maður, sem ráðinn er til starfa á skipi, hefur orðið fyrir meiri háttar líkamstjóni, er skipið var statt utan íslenskrar hafnar. Ekki var haldið sjópróf til að leiða í ljós atvik að meiðslum stefnda. Reisir hann kröfu sína öðrum þræði á því að áfrýjanda hafi borið að hlutast til um sjópróf. Vanræksla á þeirri skyldu hljóti að verða metin honum í óhag, enda verði að ætla að með sjóprófi í kjölfar slyssins hefðu atvik að því verið betur upplýst en reynst hafi unnt með lögreglurannsókn og skýrslutökum fyrir dómi mörgum árum síðar. Þessu mótmælir áfrýjandi og bendir á að frásögn stefnda sé í ósamræmi við allt annað, sem fram sé komið í málinu.

Í héraðsdómi er rakið að í fyrstu var talið að liðbönd hefðu slitnað í ökkla stefnda við áðurgreint óhapp. Nokkrum vikum síðar kom hins vegar í ljós að völubein í fætinum hafði einnig brotnað. Er viðurkennt að skipstjóranum á Gullveri hafi orðið um það kunnugt. Ekki verður hins vegar talið að meiðsl af þessum toga falli undir það að vera meiri háttar líkamstjón í merkingu 1. töluliðar 219. gr. siglingalaga og lögðu þessi atvik ein og sér því ekki skyldu á áfrýjanda til að eiga frumkvæði að sjóprófi. Stefndi leitaði eftir skiprúmi hjá áfrýjanda um fjórum mánuðum eftir slysið. Ekki er fram komið að hann hafi kynnt áfrýjanda að varanlegt tjón hafi orðið af slysinu fyrr en með bréfi til vátryggjanda hans 24. nóvember 1997. Er því ekkert fram komið um að áfrýjandi hafi haft tilefni fyrr en þá til að hlutast til um sjópróf. Stefnda hefur hins vegar sjálfum mátt vera ljóst mun fyrr að slysið kynni að hafa í för með sér alvarlegar afleiðingar. Til þess bendir vottorð Stefáns Carlssonar bæklunarlæknis 1. október 1998, þar sem segir meðal annars að stefndi hafi leitað til hans 12. október 1995. Hafi hann þá haft „sífelldar þrautir í ökklanum og læsingar og verulegan óstöðugleika. Við skoðun þá er hann með skerta hreyfingu upp á um 20° hægra megin miðað við vinstra megin og eymsli yfir liðböndum utanvert og talsverðan óstöðugleika.“ Samkvæmt þessu hefur stefndi haft fullt tilefni til þess ekki síðar en þá að eiga sjálfur frumkvæði að því að sjópróf yrði haldið eða rannsókn færi fram hjá lögreglu vegna slyssins. Það gerði hann hins vegar ekki, hvorki þá né síðar.

Að virtu öllu því, sem að framan er rakið, eru ekki efni til að meta áfrýjanda í óhag að ekki hafi verið rannsökuð atvik að slysi stefnda um borð í skipi hans. Með því að stefnda brestur sönnun fyrir því að áfrýjandi sé skaðabótaskyldur vegna tjóns, sem af því leiddi, verður hinn síðarnefndi sýknaður af kröfu hans. Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af rekstri málsins í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Gullberg hf., er sýkn af kröfu stefnda, Árna Jóns Gissurarsonar.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Austurlands 23. júlí 1999.

Mál þetta sem höfðað er með stefnu útgefinni 29. október 1998 og þingfest var hinn 17. nóvember 1998, var dómtekið hinn 5. maí 1999, að lokinni aðalmeðferð og munnlegum málflutningi. Málið var endurupptekið samkvæmt 115. gr. laga nr. 91/1991 og dómtekið að nýju hinn 20. júní 1999.

 

Stefnandi er Árni Jón Gissurarson, kt. 160565-3819, Nökkvavogi 28, Reykjavík, og stefndi Gullberg hf, kt. 580169-5709, Langatanga 5, Seyðisfirði.

 

Tryggingamiðstöðinni hf., kt. 660269-2079, Aðalstræti 6-8, Reykjavík, er stefnt til réttargæslu.

 

Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndi greiði skaðabætur kr. 6.354.137 auk vaxta skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 6. mars 1993 til 8. október 1998, en frá þeim degi með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi annarrar lægri fjárhæðar að mati dómsins með sömu vöxtum.

 

Stefnandi krefst málskostnaðar úr hendi stefnda þ.m.t. vegna útlagðs kostnaðar skv. reikningi.

 

Af hálfu stefnda eru gerðar þær dómkröfur aðallega, að sýknað verði af kröfum stefnanda, en til vara er krafist verulegrar lækkunar á stefnukröfu. Í aðalkröfu er krafist málskostnaðar að mati dómsins, en í varakröfu er þess krafist að málskostnaður verði felldur niður.

 

Af hálfu réttargæslustefnda eru ekki gerðar kröfur og ekki eru gerðar kröfur á hendur honum.

 

 

Í stefnu er málavöxtum lýst svo:

 

Stefnandi var við vinnu sína sem háseti á togaranum Gullveri NS-12, eign stefnda hinn 6. mars 1993, þegar hann varð fyrir því slysi sem málið er risið af. Stefnandi segir tildrög slyssins vera þau að hann og annar háseti, Páll Sigtryggur Björnsson, hafi verið tveir á þilfari skipsins, þegar nýlokið var að hífa inn botnvörpu skipsins.

 

Páll Sigtryggur stjórnaði svonefndum "pokagilsvír" en stefnandi lagði nótina niður í til þess gert rými á þilfarinu, skeifu. Áður hafði varpan verið yfirfarin til þess að ganga úr skugga um að hún væri í lagi. Síðasti þáttur þessa verks er að losa gilskrókinn úr vörpunni og koma honum á sinn stað í festingu undir gálganum stjórnborðsmegin. Til þess að krókurinn festist ekki í vörpunni hélt stefnandi við krókinn og Páll Sigtryggur hífði inn.

 

Þegar stefnandi er kominn aftast í vörpuna hífði Páll Sigtryggur áfram í vírinn í stað þess að hægja á og stöðva jafnvel alveg uns stefnandi væri kominn niður á þilfarið. Við það að Páll Sigtryggur hífði viðstöðulaust í gilsvírinn, missti stefnandi jafnvægið með þeim afleiðingum að hann lenti á svonefndu bakjárni á þilfarinu og meiddist.

 

Eftir slysatburðinn fór stefnandi  til klefa síns og kenndi mikils sársauka. Bað hann ítrekað um að vera fluttur til lands til þess að komast í sjúkrahús, en skipstjórinn varð ekki við þeirri beiðni fyrr en einum og hálfu sólarhring eftir slysið.

 

Þegar í land kom, var ekki hringt á sjúkrabíl fyrir stefnanda heldur þurfti hann með aðstoð skipsfélaga og eiginkonu að koma sér sjálfur á sjúkrahús. Í ljós kom að liðbönd höfðu slitnað og brot greindist á völubeini.

 

Ekki hlutaðist stefndi til um að fram færi sjópróf vegna slyssins, né var atburðurinn tilkynntur lögreglu eða vinnueftirliti.

 

Hinn 10. október 1993 eða rúmum sjö mánuðum eftir slysið útfyllti útgerðarstjóri stefnda, Adolf Guðmundsson, tilkynningu um slys á sjómanni til Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Atli Þór Ólafsson, læknir mat örorku stefnanda  þannig: Tímabundið í fjóra mánuði 100% og síðan varanleg örorka 15%.

 

Þá reiknaði Jón Erlingur Þorláksson, fjárhagslegt tjón stefnanda.

 

Stefnandi kom fyrir dóm og lýsti atvikum að slysinu. Hann kvaðst hafa verið háseti í þessum túr. Hefði hann og fleiri verið að ganga frá stjórnborðstrollinu og átti aðeins eftir að fara með pokagilsinn aftureftir og setja hann í stæðið sitt og strekkja í hann. Stefnandi kvaðst hafa verið í rennunni og hafa farið upp á trollið. Sigtryggur hafi hlaupið aftur á á gilsvinduna. Stefnandi hafi lyft gilsinum og haldið á honum til þess, að hann festist ekki í trollinu, þegar verið sé að hífa hann aftur á. Sigtryggur hafi híft í og þegar stefnandi hafi verið að fara fram af trollinu og hægt á sér, hafi  gilsinn togað aðeins í hann, þannig að hann missi jafnvægið og hafi hann ætlað að stíga niður á milli bakjárna, sem eru á dekkinu. Við það að honum fipast aðeins, lenti hann á bakjárni og missteig sig. Stefnandi kvaðst hafa fallið við og strax fundið til gífurlegs sársauka.

 

Páll Sigtryggur Björnsson, sem var háseti á Gullbergi í þessum túr, og er sá, sem stefnandi nefnir Sigtrygg í framburði sínum, kvaðst ekki muna að hafa séð það atvik, sem mál þetta snýst um. Hann kveðst telja sig muna, að hann hafi séð stefnanda liggjandi á dekkinu og hélt, að hann hefði snúið baki í hann þegar atvikið varð. Hann mundi ekki hvað hann hafði verið að gera, þegar slysið varð. Hann mundi ekki til þess, að hann hefði verið við pokagilsvinduna, enda taldi hann að hann hefði þá séð til stefnanda.  Hann mundi ekki hvaða starfi hann gegndi í þessum túr. Hann taldi sig muna óglöggt það sem þarna fór fram. Vitnið taldi, að verk það, sem stefnandi lýsir hér að framan, hafi verið eðlilegur þáttur í því, að ganga frá trollinu og pokagilsinum.

 

Þórhallur Jónsson, annar stýrimaður, kvaðst hafa séð slysið verða. Vitnið hafi verið uppi í brú þegar þetta gerðist. Hafi stefnandi verið að ganga aftur eftir með stóra gilsinn og hafi stigið fram af bobbingalengjunni og komið eitthvað illa niður á öklann og eftir því, sem vitninu skildist hefði brotnað á honum öklinn. Vitnið taldi, að þeir hefðu verið að ganga frá trollinu til þess að kasta því aftur, en fullyrti, að bakborðstrollið hefði ekki verið í sjó þegar þetta varð. Vitnið sagðist ekki vera viss um, að búið hefði verið að ganga frá pokagilsinum, en það hefði átt að vera búið að því.

 

Vitnið Jónas Pétur Jónsson, skipstjóri á Gullveri, kvaðst hafa verið á vakt, þegar umrætt slys varð, en sá það ekki verða. Hann taldi, að slysið hefði orðið, þegar búið var að draga stjórnborðstrollið inn og að stefnandi hefði verið á leið aftur með gilsinn til þess að koma honum fyrir á sínum stað. Hann taldi útilokað að slysið hefði orðið með þeim hætti, að stefnandi hefði verið að fara aftur eftir trollinu með pokagilsinn. Vitnið taldi, að bakborðstrollið hefði verið í rennunni bakborðsmegin. Vitnið sagði, að einhver hefði tilkynnt honum, að stefnandi hefði meiðst og fór vitnið þá niður til hans einni til tveimur mínútum eftir að þetta gerðist og talaði við hann og eftir það var hann studdur í klefa. Vitnið skoðaði meiðslin og hafði samband við lækni og lýsti þeim fyrir lækninum. Læknirinn hafi sagt, að ekki væri þörf á því að fara þegar í land. Þeir hefðu átt um sólarhring eftir á veiðum og hefðu þeir haldið áfram veiðum. Vitnið sagði, að stefnandi hefði verið mjög kvalinn og og gaf vitnið honum, samkvæmt læknisráði, verkjasprautu, sambærilega við morfín. Stefnandi hafði svo sjálfur farið til læknis þegar í land kom og hafði vitnið heyrt það, að ekkert athugavert hefði komið fram á mynd, en um þremur vikum seinna hefði hann heyrt, að hann hefði verið fótbrotinn. Vitnið taldi, að sér hefði ekki komið til hugar, að tilkynna þyrfti um slysið og láta fara fram rannsókn á því, enda taldi hann það vera langt innan þeirra marka að til þyrfti sjópróf eða aðra rannsókn. Hann hafi hins vegar fengið um það fyrirmæli frá útgerðinni, að færa öll minni háttar atvik, hversu lítil sem þau eru, inn í dagbók. Hann hafi talið, að hér væri um að ræða væga tognun,  sem mundi jafna sig á einni viku eða svo.

 

Vitnið Trausti Magnússon, háseti, sagðist hafa verið á dekki, þegar slysið varð og nánast horft á manninn detta. Stefnandi hafi verið að fara aftur með bakborðsgilsinn á bakborðstrollinu og stígur af „bússi”, sem vitnið nefndi svo, og stígur svo á rúnnjárn og misstígur sig þar. Þeir hafi verið að vinna við stjórnborsðtrollið og var verið að sturta úr poka á því trolli. Vitnið gat þess, að það hefði verið búið að gegna sama starfi og stefnandi gerði í þetta skipti, í sex ár og vissi alveg, hversu slæmt það gat verið að fara þarna niður af og hefði hann oft misstigið sig þarna og minnti að hann „hefði einu sinni fengið veikindi út á það.”

 

Málsástæður stefnanda:

Stefnandi byggir málsókn sína á almennu skaðabótareglunni og reglum um ábyrgð vinnuveitenda á mistökum starfsmanna sinna. Stefnandi telur að rekja megi slysatburðinn til þess að hásetinn Páll Sigtryggur sýndi ekki nægilega aðgæslu við að hífa inn pokagilsvírinn sem stefnandi hélt í ofan af vörpunni. Hafi Páll Sigtryggur átt að hægja á eða stöðva alveg hífinguna áður en stefnandi fór ofan af vörpunni.

 

Þá telur stefnandi að vera kunni að afleiðingar slyssins hafi orðið meiri en ella hefði orðið, ef skipstjórinn hefði brugðist rétt við og farið strax með stefnanda á spítala í stað þess að láta hann kveljast um borð í skipinu hátt í tvo sólarhringa án nauðsynlegrar aðhlynningar.

 

Vísað er til almennu skaðabótareglunnar svo og þeirra sjónarmiða sem fram koma í lögum nr. 50/1993.

 

Vaxtakrafan er reist á l. nr. 25/1987, málskostnaðarkrafa á 131. gr. l. nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun á l. nr. 50/1988.

 

Stefnandi sundurliðar dómkröfu sína svo:

 

A.

1. Bætur vegna tímabundinnar örorku

kr. 669.900

 

2. Bætur vegna varanlegrar örorku

" 8.194.700

 

3. Töpuð lífeyrisréttindi

" 491.700

 

 

kr. 9.356.300

B.

1. Frá dregst vegna skattfrelsisbóta og hagræðis af eingreiðslu 25%

 

kr. (2.239.075)

 

2. Frádráttur vegna greiðslu atvinnuslysatryggingar skv. kjarasamningi

 

kr.   (519.214)

 

Frádráttur vegna bóta frá Tryggingastofnun ríkisins

kr.    (543.874)

C.

Miskabætur

kr.      400.000

 

Kemur þá út stefnufjárhæðin

kr.    6.354.137.

 

Málsástæður stefnda:

Stefnandi heldur því fram að slysið hafi orðið með þeim hætti að hann hafi haldið við gilskrókinn og verið kominn aftast í vörpuna er félagi hans, Páll Sigtryggur Björnsson, hafi híft í vírinn í stað þess að hægja á eða stöðva og stefnandi þannig misst jafnvægið með þeim afleiðingum að hann missteig sig og meiddist á hægri ökkla.

 

Stefndi telur að þessi frásögn stefnanda eigi ekki stuðning í framburðum annarra skipverja en samkvæmt því sem fram kemur í lögregluskýrslum, sem teknar voru af þeim hjá lögreglunni á Seyðisfirði haustið 1998, var ekki um það að ræða að híft hefði verið í umræddan vír eins og stefnandi heldur fram. Áður nefndur Páll S. Björnsson, skipstjórinn Jónas P. Jónsson, 2. stýrimaður Þórhallur Jónsson og Kolbeinn Agnarsson háseti séu sammála um það að hér hefi verið um að ræða venjulegt óhappatilvik og hafi stefnandi einungis misstigið sig þegar hann var á leið aftur af varatrollinu og niður á dekk.

 

Þeim ber saman um það að slysið verði ekki rakið til mistaka annarra skipverja eða vanbúnaðar skipsins.

 

Stefnandi mun hafa hætt að vinna strax eftir slysið en ekki var farið beinustu leið í land. Tveimur dögum síðar, eða þann 8. mars 1993, komst stefnandi undir læknishendur á Heilsugæslustöðinni á Seyðisfirði.

 

Stefnandi mun hafa verið óvinnufær í fjóra mánuði vegna slyssins en hóf þá störf að nýju í Vélsmiðju Seyðisfjarðar hf. og virðist hafa unnið fulla vinnu síðan.

 

Með örorkumati dags. 19. júní 1998 mat Atli Þór Ólason, læknir, þá örorku er hann taldi stefnanda búa við vegna slyssins og var niðurstaðan sú að stefnandi hafi verið tímabundið óvinnufær í fjóra mánuði, en varanleg örorka teldist 15%.

 

Sýknukrafa stefndu er á því byggð að slys þetta hafi ekki orðið með þeim hætti að um geti verið að ræða ábyrgð að lögum hjá eiganda skips eða útgerð.

 

Stefnandi var vanur sjómaður og var að sinna venjubundnu starfi um borð í skipinu í umrætt sinn. Vitnin Páll Sigtryggur Björnsson, Jónas Pétur Jónsson og Þórhallur Jónsson eru sammála um að tildrög óhappsins hafi verið með þeim hætti að stefnandi hafi gengið aftur eftir skipinu með gilsinn í hendi og er hann var að stíga niður af varatrollinu, u.þ.b. 60 - 80 cm hæð, hafi hann misstigið sig með áðurgreindum afleiðingum.

 

Vitnið Kolbeinn Agnarsson segir hins vegar að stefnandi hafi sjálfur sagt að hann hafi misstigið sig þegar hann hafi farið með gilsinn aftur af bobbingalengunni.

 

Vitnið kannast ekki við að fullyrðing stefnanda um hífingu eigi við rök að styðjast, né heldur að einhver vanbúnaður skipsins hafi átt þátt í slysinu.

 

Það verður því ekki hjá því komist að mótmæla frásögn stefnanda af tildrögum slyssins enda eiga þau enga stoð í framburðum annarra er hér koma við sögu.

 

Það er því mat stefndu að hér sé um að ræða óhappatilvik og ekki við aðra að sakast en stefnanda sjálfan og því beri að sýkna.

 

Þá er því haldið fram af hálfu stefnanda að vera kunni að afleiðingar slyssins hafi orðið meiri en ef skipstjóri hefði ákveðið að sigla beint til hafnar eftir óhappið. Þessar fullyrðingar eru algerlega órökstuddar og hlýtur stefndi að vísa þeim á bug, enda liggur fyrir í gögnum málsins að þegar stefnandi komst undir læknishendur, tveim dögum eftir óhappið, að mikil bólga hafi þá ennþá verið í ökklanum þannig að brot sást ekki á röntgenmynd og því lítið hægt að gera að svo stöddu.

 

Hvað varðar skort á rannsókn er það vissulega viðurkennt að engin slík fór fram en hins vegar leiðir það ekki sjálfkrafa til þess að bótaskylda verði fyrir hendi, einkum og sér í lagi þar sem að vitni, sem gefa skýrslur síðar, eru sammála um megin atriði málsins. Hafa ber í huga að ekki virðist í upphafi vera um alvarlegt slys að ræða og kann það að vera skýring þess að rannsókn fór ekki fram.

 

Verði ekki fallist á sýknukröfu er þess krafist til vara að stefnukrafa verði stórlega lækkuð m.a. með tilliti til eftirfarandi:

 

Lögð er áhersla á það að stefnandi hljóti að verða að bera verulegan hluta tjóns síns sjálfur vegna eigin sakar.

 

Hafa beri í huga þá staðreynd að stefnandi var vanur sjómaður og var að vinna einfalt og algengt verk í umrætt sinn og honum mátti vera ljósar þær hættur er í því fólust. Augljóst er að mati stefndu að ef stefnandi hefði gætt fyllstu varúðar í umrætt sinn hefði ekkert slys orðið.

 

Fyrir utan eigin sök eru af hálfu stefndu gerðar eftirfarandi athugasemdir við kröfugerð stefnanda sem einnig leiðir til lækkunar verði á þær fallist.

 

Mótmælt er að tímabundnu tjóni sé til að dreifa, en samkvæmt upplýsingum frá stefndu fékk stefnandi full slysalaun meðan hann var frá vegna slyssins.

 

Þá verður ekki í annað ráðið af gögnum málsins en stefnandi hafi hafið fulla vinnu hjá Vélsmiðju Seyðisfjarðar þegar eftir að hann var vinnufær u.þ.b. fjórum mánuðum eftir slysið.

 

Miðað við það sem hér var rakið er það skoðun stefnda að metinnar örorku sé í raun ekki enn farið að gæta og hlýtur að verða að taka tillit til þess við ákvörðun bóta til stefnanda verði að einhverju leyti fallist á kröfur hans og er áskilinn réttur til að leggja fram nýjan örorkutjónsútreikning þar sem tekið verði tillit til þessara staðreynda, sjá t.d. Hrd. 1990:128.

 

Þá er örorkutjónsútreikningnum á dskj. nr. 12 mótmælt og því haldið fram að ekki standist að miða einungis við tekjur hans árið 1992 eins og gert er í útreikningum.

 

Þá er þess krafist að þær bætur sem kunna að verða dæmdar verði lækkaðar vegna skattfrelsis þeirra og hagræðis af eingreiðslu svo sem tíðkanlegt er í tilvikum sem þessum og jafnframt er bent á að miðað við 15% varanlega örorku þá á stefnandi rétt til greiðslu bóta hjá Tryggingastofnun ríkisins sem ber að draga frá endanlegum bótum og er þess krafist að tekið verði fullt tillit til þess við endanlega ákvörðun bóta, sjá t.d. Hrd. 1989:653.

 

Sama á við allar aðrar greiðslur er stefnandi kann að hafa fengið í tengslum við umrætt slys, þar á meðal greiðslur frá vinnuveitanda, slysatryggingu og lífeyrissjóði ef því er að skipta.

 

Miskabótakröfu er mótmælt sem of hárri og andstæðri dómvenju. Hafa ber í huga að nokkur miski er innifalinn í örorkumötum lækna, sbr. t.d. grein Páls Sigurðssonar, læknis, í Tímariti lögfræðinga 2. hefti 1972 og miski því í raun tvíkrafinn í málinu. Þá ber við ákvörðun miskabóta að miða við slysadag en ekki dómsuppsögudag.

 

Dráttarvaxtakröfu er mótmælt og því er haldið fram að dráttarvexti beri ekki að reikna fyrr en eftir endanlega dómsuppsögu í Hæstarétti, sbr. t.d. Hrd. 1989:1330, þá eru vextir sem áfallnir eru fyrir 3.11.1994 fyrndir, sbr. 3. gr. 2. tl. laga nr. 14/1905.

 

Niðurstaða:

Sannað er og viðurkennt af stefnda, að stefnandi varð fyrir því slysi, að falla ofan af stjórnborðstrolli og á dekkið um borð í  Gullveri NS 12 þann 6. mars 1993 og meiddist við það á hægri ökla.

 

Af hálfu stefnda var ekki hlutast til um, að rannsókn færi fram á slysi því, sem stefndi varð fyrir. Skipstjóri leitaði læknisráða þegar í stað og bentu bæði ráð læknis svo og útlit og líðan stefnanda, samkvæmt framburði skipstjóra, til þess, að slysið væri alvarlegt. Skipstjóri bar, að um þremur vikum seinna hefði hann frétt, að stefnandi hefði fótbrotnað. Þrátt fyrir það gerði hann engan reka að því að rannsókn færi fram.

 

Samkvæmt frásögn stefnanda var hann á leið gangandi ofan á trollinu, sem lá í rennunni stjórnborðsmegin á dekkinu, með gils, sem koma átti fyrir á sínum stað, eftir að hafa verið notaður við að hífa trollið. Eftir frásögn stefnanda var um að ræða pokagilsinn, sem festur er upp í gálga aftantil á skipinu og er dreginn inn á spil, sem er á móts við gálgann, stjórnborðsmegin. Spilið og gálginn er allnokkru aftar á skipinu en staður sá, sem stefnandi var á þegar hann féll. Hefur stefnandi haldið því fram, að híft hafi verið í gilsinn, þegar hann var að ganga með hann aftur eftir og hafi hann þá fallið við það, enda hafi alls ekki átt að hífa í gilsinn. Stefnandi hefur haldið því fram, að háseti, sem var með honum á dekkinu í umrætt sinn hafi verið við spilið og híft í gilsinn. Háseti þessi kom fyrir dóm, sem vitni hinn 5. maí s.l. og bar þá að hann myndi óljóst það, sem þarna hefði skeð.

 

Eitt vitni, taldi sig hafa séð, að stefnandi var á leið aftur eftir trollinu með annan gils  en pokagilsinn og sem aðeins var híft í framanfrá og öruggt var talið, að ekki hefði verið híft í þegar hann væri borinn aftur eftir dekkinu.

 

Aðrir, sem um málið hafa borið, hvort heldur hjá lögreglu eða fyrir dómi, hafa einungis getað borið um málið af afspurn eða af því, sem þeir töldu líklegt.

 

Verður að telja, með vísan til þess, sem að ofan segir um vanrækslu stefnda á að láta fara fram rannsókn á slysinu, að ekki hafi verið hnekkt staðhæfingum stefnanda um atvik að slysinu.

 

Eru þannig nægilegar líkur leiddar að því, að orsök slyss stefnanda hafi verið, að fyrir mistök starfsmanns stefnda, sem stefndi ber ábyrgð á,  hafi verið híft í gils þann, sem stefnandi var að fara með aftur eftir trollinu og að það hafi orðið til þess að hann féll og meiddist.

 

Ekki hefur verið sýnt fram á, að stefnandi hafi átt sök á tjóni sínu sjálfur.

 

Er stefndi því bótaskyldur um allt tjón, sem stefnandi varð fyrir í slysi þessu.

 

Samkvæmt örorkumati dr. Atla Þórs Ólasonar, læknis, hlaut stefnandi tímabundna örorku í fjóra mánuði frá slysdegi 100%, en síðan 15% varanlega örorku.

 

Hefur örorkumati þessu ekki verið hnekkt og verður það lagt til grundvallar.

 

Jón Erlingur Þorláksson, tryggingastærðfræðingur hefur reiknað örorkutjón stefnanda. Gerir hann grein fyrir aðferðum sínum við útreikninginn og verður ekki séð, að svo sé vikið frá venjubundnum aðferðum við útreikninginn, að ástæða sé til að líta framhjá honum við ákvörðun bóta. Verður því á venjulegan hátt höfð hliðsjón af útreikningi þessum.

 

Fram hefur komið í málinu, að stefnandi fékk greidd full laun í fjóra mánuði frá slysdegi. Hefur tímabundið tjón hans því verið bætt.. 

 

Höfuðstólsverðmæti tekjutaps reiknast á slysdegi vera samtals vegna varanlegar örorku og tapaðra lífeyrisréttinda kr. 8.686.400.

 

Stefnandi hefur orðið fyrir töluverðum miska vegna slyss þessa og verður tekið tillit til þess við ákvörðun heildarbóta.

 

Fram hefur komið og er viðurkennt, að stefnandi hefur fengið greitt úr slysatryggingu, sem stefndi hefur keypt hjá réttargæslustefnda, sem og frá Tryggingastofnun ríkisins, samtals kr. 1.063.088.

 

Þegar tekið hefur verið tillit til skattfrelsis bóta og hagræðis af eingreiðslu, og tekið hefur verið tillit til ofangreindra bóta- og launagreiðslna, teljast bætur fyrir miska og  varanlega örorku hæfilegar ákveðnar kr. 5.000.000.

 

Stefna var birt í máli þessu hinn 3. nóvember 1998 og eru eldri vextir en frá 3. nóvember 1994 fyrndir samkvæmt 2. mgr. 3. gr. l. nr. 14/1905. 

 

Stefndi greiði stefnanda vexti frá 3. nóvember 1994 eins og greinir í dómsorði.

 

 Stefndi greiði stefnanda  kr.  700.000  í málskostnað.

 

Logi Guðbrandsson, dómstjóri, kveður upp dóm þennan.

 

Dómsorð:

Stefndi, Gullberg hf. greiði stefnanda, Árna Jóni Gissurarsyni, kr. 5.000.000 með ársvöxtum af þeiri fjárhæð sem hér segir: 0,5% frá 3. nóvember 1994 til 11. maí 1995,  0,6% frá þeim degi til 1. febrúar 1996,  0,9% frá þeim degi til 11. sama mánaðar, 1% frá þeim degi til 21. sama mánaðar, 0,9% frá þeim degi til 21. apríl sama ár, 0,8% frá þeim degi til 11. maí sama ár, 0,7% frá þeim degi til 1. október sama ár, 0,8% frá þeim degi til 21. janúar 1997, 0,9% frá þeim degi til 1. maí sama ár, 1% frá þeim degi til 1.ágúst sama ár, 0,9% frá þeim degi til 1. september sama ár, 0,8% frá þeim degi til 1. janúar 1998, 0,9% frá þeim degi til1. mars sama ár, 0,8% frá þeim degi til 1. maí sama ár, en með 0,7% frá þeim degi til 8. október sama ár. Frá þeim degi greiði stefndi dráttarvexti samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 til greiðsludags.

 

Stefnandi greiði stefnanda 700.000 krónur í málskostnað.