Hæstiréttur íslands

Mál nr. 189/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Vanhæfi
  • Dómari


Miðvikudaginn 16

 

Miðvikudaginn 16. apríl 2008.

Nr. 189/2008.

Kristján S. Guðmundsson

(sjálfur)

gegn

Landsbanka Íslands hf.

(Ólafur Björnsson hrl.)

 

Kærumál. Vanhæfi. Dómarar.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu K um að héraðsdómarinn Á viki sæti í máli sem L hafði höfðað á hendur K.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Hjördís Hákonardóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. mars 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. apríl sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. mars 2008, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að Ásgeir Magnússon héraðsdómari víki sæti í máli, sem varnaraðili hefur höfðað gegn sóknaraðila. Kæruheimild er í a. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili setur fram kröfu sína með eftirfarandi hætti: „Þess er krafist að afskipti Héraðsdóms Reykjavíkur, og þar með taldir allir dómarar embættisins komi ekki á neinn hátt nálægt málum er snerta persónu þess er sett hefur fram þessa kröfu. Krafist er að óháðir aðilar skipi mann eða menn í stöðu dómara sem ekki er á neinn hátt tengdur Héraðsdómi Reykjavíkur. Þess er einnig krafist að Héraðsdómur Reykjavíkur greiði kæranda þóknun fyrir óþarfa vinnu við kærumálið.“

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Í máli þessu er aðeins til úrlausnar hvort Ásgeiri Magnússyni héraðsdómara sé rétt að víkja sæti í málinu og kemur krafa sóknaraðila því aðeins til skoðunar að því marki.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Varnaraðili krefst ekki kærumálskostnaðar og verður hann því ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. mars 2008.

Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 5. desember 2007. Stefnandi er Landsbanki Íslands hf., Austurstræti 11, Reykjavík. Stefndi er Kristján Sigurgeir Guðmundsson, Rauðagerði 39, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru eftirfarandi:

1) Að dæmd verði dauð og ómerk neðangreind ummæli stefnda (stafliðir a-d), sem hann lét falla í grein er birtist í Morgunblaðinu mánudaginn 29. október 2007 og bar yfirskriftina „Eimskip, óskabarn þjóðarinnar“, en stefndi er skráður höfundur greinarinnar:

a)               „Eftir yfirtöku á Hf. Eimskipafélagi Íslands svo og Landsbankanum réðust
ráðamenn þar í að sölsa undir sig umræddan lífeyrissjóð með slíkri ósvífni að
glæpsamlegt yrði talið í siðmenntuðum heimi.“

b)      „Þegar yfirtöku á lífeyrissjóðnum af hálfu Landsbankans hafði náðst þar sem
reglugerð sjóðsins var margbrotin hefur framkoma ráðamanna Landsbankans
gagnvart eigendum sjóðsins verið með eindæmum. Ósvífni og yfirgangur af
hálfu ráðandi afla í Landsbankanum að hunsa alla viðleitni eigenda (eigendurnir
eru sjóðfélagar) til að hafa afskipti af rekstri hans er í þá veru að einræðisöfl í
Rússlandi eru sem hvítvoðungar í samanburði við það framferði sem sýnt hefur
verið af hálfu ráðamanna Landsbankans.“

c)                „Í sambandi við meðferð Landsbankans á Lífeyrissjóði Hf. Eimskipafélags
íslands vaknar sú spurning hvort ekki hafi verið næg hefnd að leggja félagið
niður sem slíkt eða breyta um nafn. Varð að fullkomna hefndina með því að
eyðileggja Lífeyrissjóð Hf. Eimskipafélags Íslands einnig svo að ekkert minnti á
það sem á gekk fyrir um tuttugu árum og láta hefndina ná yfir þá sem störfuðu á
þeim tíma fyrir óskabarn þjóðarinnar? “

d)       „Eftir fyrirspurn til stjórnar lífeyrissjóðsins á ársfundi sjóðsins um hvort ekki
væri orðið tímabært að eigendur sjóðsins tækju við stjórn hans alfarið risu
valdagráðugir menn upp á afturlappirnar og ákváðu að kveða í eitt skipti fyrir
öll niður allt tal um afskipti hinna einu og sönnu eigenda að sjóðnum og sölsa
undir Landsbankann framtíðar ráðstöfunarrétt yfir því mikla fjármagni sem í
sjóðnum er.“

2)     Að stefnda verði refsað fyrir tilgreind ummæli um stefnanda undir stafliðum a-d,
hér að framan, sem í heild sinni fela í sér af hálfu stefnda, Kristjáns Guðmundssonar, útbreiðslu ærumeiðinga um stefnanda Landsbanka Íslands hf.
gegn betri vitund, sbr. 234., 235. og 236. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

3)     Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að mati dómsins.

Stefndi krefst þess að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða honum málskostnað að mati dómsins.      

Stefndi hefur við fyrirtöku málsins sett fram þá kröfu að dómari málsins víki sæti, enda telji hann að allir dómarar Héraðsdóms Reykjavíkur séu vanhæfir til fara með málið.     

Til stuðnings kröfu sinni vísar stefndi aðallega til þess að hann hafi ekki notið réttlátrar málsmeðferðar í tveimur málum, sem rekin voru fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og hann var aðili að. Þannig hefði dómari í málinu nr. M-51/2001 hafnað því að skipa nýjan matsmann í stað matsmanns sem dómstóllinn hefði kvatt til að beiðni stefnda, en sá hefði reynst óhæfur til starfsins. Þess í stað hefði dómarinn skipað sama matsmanninn á ný. Þá hefði dómari í málinu nr. E-13455/2002 framið lögbrot þegar hann komst að þeirri niðurstöðu að stefndi ætti ekki að fá greiddan málskostnað úr hendi stefnanda þrátt fyrir að hafa verið sýknaður af kröfum hans. Loks skírskotar stefndi til þess að af hálfu dómstólsins hafi ekki verið svarað eða brugðist við ítrekuðum óskum stefnda um að kvaddur yrði til nýr matsmaður.  Kveður stefndi að ítrekuð brot dómara og forsvarsmanna dómstólsins gagnvart sér leiði til þess að hvorki dómarinn í þessu máli né nokkur annar dómari við dómstólinn geti tekið hlutlausa afstöðu í máli því sem hér er til meðferðar. Beri dómaranum því að víkja sæti og krefst stefndi þess jafnframt að skipaður verði annar dómari sem á engan hátt tengist Héraðsdómi Reykjavíkur.

Engar kröfur eru gerðar af hálfu stefnanda í þessum þætti málsins.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla eru dómarar héraðsdómstólanna sjálfstæðir í dómstörfum og leysa þau af hendi á eigin ábyrgð. Hefur ákvæði þetta verið skýrt svo, með hliðsjón af langri dómvenju, að vanhæfi eins héraðsdómara til að fara með mál hafi ekki sjálfkrafa áhrif á hæfi annarra dómara og skipti þá engu þótt þeir starfi við sama dómstól. Verður því ekki fallist á það með stefnda, að framangreind sjónarmið hans, er lúta að gerðum dómara í framangreindum málum eða meintum misgjörðum forsvarsmanna dómstólsins í hans garð, geti leitt til þess að dómara í máli þessu beri að víkja sæti. Þar eð stefndi hefur ekki bent á önnur atriði í sambandi við hæfi dómarans sjálfs til að fara með mál þetta verður að hafna kröfu stefnda um að dómarinn víki sæti í málinu.

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Ásgeir Magnússon héraðsdómari víkur ekki sæti í máli þessu.