Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-77
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skaðabætur
- Miskabætur
- Dýravernd
- Stjórnsýsla
- Rannsóknarregla
- Meðalhóf
- Andmælaréttur
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 12. júní 2023 leita A og B leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 19. maí 2023 í máli nr. 41/2022: A og B gegn íslenska ríkinu. Gagnaðili leggur í mat Hæstaréttar hvort skilyrði séu til að verða við beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að skaða- og miskabótakröfu leyfisbeiðenda vegna tjóns sem þeir telja sig hafa orðið fyrir vegna ákvarðana Matvælastofnunar um að svipta þá vörslum alls sauðfjár sem þeir héldu á jörð sinni.
4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna gagnaðila af kröfum leyfisbeiðenda. Í dómi Landsréttar var vísað til þess að ítrekaðar athugasemdir hefðu verið gerðar við búfjárhald leyfisbeiðenda áður en þeir voru sviptir vörslum sauðfjár síns og að aðgerðir Matvælastofnunar hefðu átt sér langan aðdraganda. Könnun á aðstæðum og aðbúnaði sauðfjárins hefði margsinnis farið fram. Leyfisbeiðendum hefði í framhaldi af því ítrekað verið veittur frestur til að uppfylla kröfur Matvælastofnunar sem átt hefðu sér stoð í lögum nr. 55/2013 um velferð dýra og reglugerð nr. 60/2000 um eftirlit með aðbúnaði og heilbrigði sauðfjár og geitfjár og eftirlit með framleiðslu kjöts og annarra afurða þeirra. Var því staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að hvorki hefði verið brotið gegn rannsóknarreglu né meðalhófsreglu stjórnsýslulaga nr. 50/1993, sbr. 10. og 12. gr. laganna. Þá tók Landsréttur fram að samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga nr. 55/2013 væri Matvælastofnun heimilt að liðnum tveimur sólarhringum frá vörslusviptingu dýra að grípa til þess neyðarúrræðis að aflífa þau. Við töku slíkrar ákvörðunar bæri stofnuninni meðal annars að gæta að fjárhagslegum hagsmunum aðila máls en einnig að velferð dýranna. Í því sambandi yrði ekki litið fram hjá því sem kæmi fram í gögnum sem stöfuðu frá búfjáreftirlitsmönnum um bágborið ástand fjárins. Þá hefðu vigtarseðlar borið með sér að ástand margra gripa hefði verið bágborið og talsvert verið um vanmetafé en ætla mætti að það hefði að mestu leyti mátt rekja til lélegrar fóðrunar og brynningar og slæms aðbúnaðar.
5. Leyfisbeiðendur byggja á því að úrslit málsins hafi verulega almenna þýðingu og fordæmisgildi um vernd eignarréttar og mat á vinnuferli Matvælastofnunar í aðdraganda vörslusviptingar og slátrunar búfjár. Ekki séu fyrir hendi dómafordæmi í sambærilegum málum og því brýnt að fá úrlausn Hæstaréttar um ágreiningsefnið. Þá byggja leyfisbeiðendur á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni þeirra. Þá telja leyfisbeiðendur að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni.
6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.