Hæstiréttur íslands
Mál nr. 495/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Málshöfðunarfrestur
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Fimmtudaginn 27. ágúst 2015. |
|
Nr. 495/2015.
|
Þrotabú Ingvars Jónadab Karlssonar (Guðjón Ármann Jónsson hrl.) gegn Margréti Stefánsdóttur (enginn) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Málshöfðunarfrestur. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli þb. I á hendur M var vísað frá dómi á þeim grundvelli að málið hefði verið höfðað að liðnum málshöfðunarfresti 148. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Í dómi Hæstaréttar kom fram að við lok kröfulýsingarfrests hefði þb. I ekki haft nægilegt handbært fé til að standa að málsókn á hendur M. Ekki hefði verið tilefni til þess að taka afstöðu til málshöfðunar gegn M fyrr en á fyrsta skiptafundi í þrotabúinu 22. maí 2014, enda hefði málsóknin verið háð því að lánardrottnar, einn eða fleiri, tækju að sér að standa straum af henni. Undir þessum kringumstæðum var talið að fyrsti skiptafundur hefði markað upphaf málshöfðunarfrests samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991. Af þeim sökum var frestur til að höfða málið ekki liðinn þegar stefna birtist í Lögbirtingablaði 21. nóvember 2014. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. júlí 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. júlí 2015 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti. Verður því litið svo á að hún krefjist staðfestingar á úrskurði héraðsdóms í samræmi við 3. mgr. 158. gr., sbr. 4. mgr., 150. gr. laga nr. 91/1991.
I
Bú sóknaraðila var tekið til gjaldþrotaskipta með dómi Hæstaréttar 3. apríl 2014 í máli nr. 204/2014. Innköllun skiptastjóra birtist hið fyrra sinni í Lögbirtingablaði 10. mars 2014 og lauk því kröfulýsingarfresti í þrotabúið 10. maí sama ár. Fyrsti skiptafundur í þrotabúinu var síðan haldinn 22. sama mánaðar. Samkvæmt gögnum málsins tók skiptastjóri þrotabús sóknaraðila skýrslu af þrotamanni 13. maí 2014. Í skýrslu skiptastjóra kemur fram að hann hafi tjáð sóknaraðila að gildi kaupmála hans og varnaraðila frá 28. janúar 2009 væri „til skoðunar“.
Samkvæmt fundargerð fyrsta skiptafundar gerði skiptastjóri grein fyrir umræddum kaupmála milli sóknaraðila og varnaraðila og kom fram sú skoðun skiptastjóra að með kaupmálanum hefðu nánast allar eignir sóknaraðila orðið séreign varnaraðila. Á fundinum var rætt um að kanna möguleikann á því að rifta umræddum ráðstöfunum en jafnframt „að þær aðgerðir, og þá enn frekar riftunaraðgerðir, ef til kæmu, þörfnuðust fjármögnunar.“ Þá gerði skiptastjóri grein fyrir lausafjárstöðu búsins. Samkvæmt yfirliti skiptastjóra var laust fé í bönkum um 2.000.000 krónur, en á fundinum kom fram að stærsti hluti þeirra fjármuna væri hugsanlega handveðsettur Landsbankanum hf. Ef svo væri ætti búið einungis 250.000 krónur í lausu fé „sem ekki næðu þá, með skiptatryggingu, þeim kostnaði sem þegar væri á fallinn.“
Samkvæmt gögnum málsins var ákveðið að höfða riftunarmál gegn varnaraðila á fjórða skiptafundi búsins 1. október 2014. Í fundargerð kom fram að kröfuhafar tækju að sér að standa hlutfallslega straum af kostnaði við vinnu skiptastjóra í ágúst 2014 og að umrætt riftunarmál „muni kosta umtalsvert og verði vart tekið af eignum búsins, amk ekki á þessu stigi.“ Gerði skiptastjóri af þeim sökum ráð fyrir því að kröfuhafar myndu „ábyrgjast þann kostnað“.
Í úrskurði héraðsdóms er lýst tilraunum sóknaraðila til þess að birta stefnu fyrir varnaraðila bæði hér á landi og í Serbíu, en varnaraðili mun hafa flutt lögheimili sitt til Serbíu 2. október 2014. Eftir árangurslausar tilraunir til stefnubirtingar í Serbíu birti sóknaraðili stefnu sína í Lögbirtingablaði 21. nóvember 2014. Sóknaraðili þingfesti síðan mál þetta í Héraðsdómi Reykjavíkur 19. mars 2015. Varnaraðili sótti þá ekki þing en sóknaraðili fékk frest til frekari gagnaöflunar til 26. sama mánaðar. Ekki var heldur mætt af hálfu varnaraðila í það þinghald og var málið því, að kröfu sóknaraðila, dómtekið í þeim búningi sem það var, í samræmi við 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Með hinum kærða úrskurði var máli sóknaraðila vísað frá dómi þar sem það var talið höfðað að liðnum málshöfðunarfresti samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Skiptastjóri hefur lagt fyrir Hæstarétt gögn þar sem fram kemur að tveir reikningar í Landsbankanum hf., sem samkvæmt yfirliti á fyrsta skiptafundi voru flokkaðir sem innstæður, hafi samkvæmt kröfulýsingu bankans verið handveðsettir. Hafi skiptastjóri því einungis haft aðgang að innstæðum að fjárhæð um 130.000 krónur auk skiptatryggingar að fjárhæð 250.000 krónur, eða samtals um 380.000 krónur. Hefur skiptastjóri jafnframt lýst því yfir að við lok kröfulýsingarfrests hafi áfallinn skiptakostnaður verið um 500.000 krónur.
II
Samkvæmt 1. mgr. 148. gr. laga nr. 21/1991 skal höfða riftunarmál áður en sex mánuðir eru liðnir frá því skiptastjóri átti þess kost að gera riftunarkröfu, en frestur þessi byrjar þó aldrei að líða fyrr en við lok kröfulýsingarfrests. Af því sem rakið er að framan liggur fyrir að við lok kröfulýsingarfrests átti sóknaraðili ekki nægilegt handbært fé til að standa að málsókn á hendur varnaraðila. Þótt skiptastjóri hafi haft gildi kaupmálans til skoðunar fljótlega að loknum kröfulýsingarfresti verður ekki talið að tilefni hafi verið til þess að taka afstöðu til málshöfðunar gegn varnaraðila fyrr en á fyrsta skiptafundi í þrotabúinu, enda var málsókn háð því að lánardrottnar, einn eða fleiri, tækju að sér að standa straum af henni. Fyrsti skiptafundur í þrotabúinu var sem áður segir haldinn 22. maí 2014, sem við þessar aðstæður verður að marka upphaf málshöfðunarfrests samkvæmt 148. gr. laga nr. 21/1991, sbr. dóma Hæstaréttar 1. september 2003 í máli nr. 256/2003, sem birtist í dómasafni réttarins það ár á bls. 2850, og 3. janúar 1997 í máli nr. 463/1996, sem birtist í dómasafni réttarins 1997 á bls. 4.
Með vísan til framangreinds var frestur til að höfða mál þetta ekki liðinn þegar stefna birtist í Lögbirtingablaði 21. nóvember 2014. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Eftir þessum úrslitum verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka mál þetta til efnismeðferðar.
Varnaraðili, Margrét Stefánsdóttir, greiði sóknaraðila, þrotabúi Ingvars Jónadab Karlssonar, 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. júlí 2015.
Mál þetta, sem dómtekið var 26. mars sl., höfðaði þrotabú Ingvars Jónadabs Karlssonar, með aðsetur hjá skiptastjóra búsins að Suðurlandsbraut 30, Reykjavík, með stefnu birtri í Lögbirtingablaði 21. nóvember 2014 á hendur Margréti Stefánsdóttur með lögheimili í Serbíu.
Dómkröfur stefanda eru þær, að í fyrsta lagi verði rift með dómi ráðstöfunum Ingvars Jónadab Karlssonar til handa stefndu samkvæmt samkvæmt kaupmála frá 28. janúar 2009, sem skráður var hjá Sýslumanninum í Reykjavík 2. febrúar sama ár, samtals að fjárhæð 448.076.288 króna; nánar tiltekið þeim ráðstöfunum samkvæmt kaupmálanum, þar sem eftirfarandi eignir voru gerðar að séreign stefndu:
- Ráðstöfun til stefndu á 50% hlutafjár í Dvöl ehf., kt. [...].
- Ráðstöfun til stefndu á 25% hlutafjár í Dyrfjöllum ehf., kt. [...].
- Ráðstöfun til stefndu á 100% hlutafjár í Eignarhaldsfélaginu Land ehf., kt. [...].
- Ráðstöfun til stefndu á 50% hlutafjár í Eignarhaldsfélaginu Skólabrú 1 ehf., kt. [...].
- Ráðstöfun Ingvars til stefndu á 100% hlutafjár í Eldborg ehf., kt. [...].
- Ráðstöfun Ingvars til stefndu á 25% hlutafjár í Fjárhirðum ehf., kt. [...].
- Ráðstöfun til stefndu á 33,33% hlutafjár í Haukadal ehf., kt. [...].
- Ráðstöfun til stefndu á 10% hlutafjár í Hveralandi ehf., kt. [...].
- Ráðstöfun til stefndu á 100% hlutafjár í Íslandssporti ehf., kt. [...].
- Ráðstöfun til stefndu á 78% hlutafjár í Karli K. Karlssyni ehf., kt. [...]
- Ráðstöfun til stefndu á hlutafé Hveralands ehf., kt. 460405-1060, í Landgerði ehf., kt. [...].
- Ráðstöfun til stefndu á 100% hlutafjár í Landnemanum ehf., kt. [...].
- Ráðstöfun til stefndu á 16,90% hlutafjár í Lífsval ehf., kt. [...].
- Ráðstöfun til stefndu á 50% hlutafjár í Orkuveitur ehf., kt. [...].
- Ráðstöfun til stefndu á 100% hlutafjár í Rann ehf., kt. [...].
- Ráðstöfun til stefndu á hlutafé Íslandssports ehf., kt. [...], í Skeifunni ehf., kt. [...].
- Ráðstöfun til stefndu á 50% hlutafjár í Skjöldólfsstöðum ehf., kt. [...].
- Ráðstöfun til stefndu á 100% hlutafjár í Skúlatúni 4 ehf., kt. [...].
- Ráðstöfun til stefndu á 50% hlutafjár í Vatnajökli ehf., kt. [...].
- Ráðstöfun til stefndu á 100% hlutafjár í Velsæld ehf., kt. [...].
- Ráðstöfun til stefndu á 12% hlutafjár í Virðingu hf., kt. [...].
- Ráðstöfun til stefndu á 100% hlutafjár í Vínandanum ehf., kt. [...].
- Ráðstöfun til stefndu á 5% hlutafjár í Þverárfélaginu ehf., kt. [...].
- Ráðstöfun til stefndu á fasteigninni að Vesturhlíð 9, 105 Reykjavík, fnr. 223-7694.
- Ráðstöfun til stefndu á 50% eignarhluta í fasteigninni að Miðdal I, landnúmer 195718, Mosfellsbæ, fnr. 194-718.
- Ráðstöfun til stefndu á fasteigninni að Skipagötu 9, 600 Akureyri, fnr. 222-9324.
- Ráðstöfun til stefndu á fasteigninni að B-Tröð 12, Reykjavík, hesthús, fnr. 225-4925.
- Ráðstöfun til stefndu á fasteigninni 4th floor 31 Brechin Place, London.
- Ráðstöfun til stefndu á fasteigninni 1st floor ¼ Brechin Place, London.
Stefnandi krefst þess í öðru lagi, að rift verði með dómi ráðstöfunum Ingvars Jónadabs Karlssonar, sem fólust í afsali 30. janúar 2009 til stefndu, á bifreiðum með skráningarnúmerin BX-M43, DA-970 og TS-502, samtals að fjárhæð 13.329.459 krónar, en bifreiðarnar voru umskráðar milli aðilanna 3. febrúar 2009.
Í þriðja lagi krefst stefnanda þess, að stefndu verði gert að skila og afhenda stefnanda þessum eignum.
Verði afhendingu eignanna ekki komið við, krefst stefnandi þess, að stefndu verði gert að greiða stefnanda 900.000.000 krónur, eða aðra lægri fjárhæð, með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. febrúar 2009 til 8. janúar 2015, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.
Þá er krafist málskostnaðar, að teknu tilliti til skyldu stefnanda til greiðslu virðisaukaskatts.
Af hálfu stefndu var ekki sótt þing.
I
Með dómi Hæstaréttar 3. apríl 2014 í máli nr. 204/2014 var staðfestur úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. febrúar 2014, að bú Ingvars Jónadabs Karlssonar, skyldi tekið til gjaldþrotaskipta, og var Guðjón Ármann Jónsson hrl. skipaður skiptastjóri. Frestdagur skiptanna er 12. febrúar 2013 og lauk kröfulýsingarfresti 10. maí 2014. Heildarfjárhæð lýstra krafna í búið nemur tæpum 2.337.000.000 króna.
Í stefnu greinir frá því, að við könnum skiptastjóra á ráðstöfunum þrotamannsins, einkum með tilliti til riftunarreglna XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., hafi komið í ljós ráðstafanir til stefndu, núverandi eiginkonu þrotamannsins, með kaupmála 28. janúar 2009 og málamyndasölu, þar sem verulegum og í raun mestum hluta eigna þrotamannsins hafi verið ráðstafað án nokkurs gagngjalds. Í skattframtölum þrotamanns fyrir framtalsárin 2008 og 2009 séu engar eða óverulegar skuldir tilteknar. Hið sama gildi um framtal stefndu vegna framtalsársins 2009. Stefnda teljist nákominn þrotamanninum í skilningi 1. tl. 3. gr. laga nr. 21/1991, þar sem hún hafi verið sambúðarmaki þrotamanns um árabil, en þau hafi gengið í hjúskap skömmu eftir, að hinar riftanlegu ráðstafanir hafi átt sér stað.
Kröfur, sem staðreyndar hafi verið fyrir dómi, hafi síðla árs 2008 numið yfir 737 milljónir króna og hafi þrotamaður, að mati stefnanda, ekki átt eignir umfram skuldir, þegar þær eignatilfærslur, sem hér er krafist riftingar á, áttu sér stað og alls ekki eftir þær. Þannig hafi þrotamaður á þeim tíma ekki getað staðið í skilum með skuldbindingar sínar, sem þegar hafi að stórum hluta verið fallnar í gjalddaga. Þrotamaður hafi því verið þegar ógjaldfær eða að minnsta kosti orðið það við ráðstafanirnar og það hafi stefnda vitað eða mátt vita.
Stefnandi byggir á því að ekkert gagngjald hafi komið fyrir eignirnar. Það komi berlega fram í kaupmálanum, hvað þær eignir varðar, sem þar eru færðar til stefndu, og megi sjá af sameiginlegu skattframtali hjónanna fyrir árið 2009, að ekkert gagngjald hafi komið fyrir hinar yfirfærðu bifreiðar, enda stefnda tekjulaus með öllu.
Vísar stefnandi til þess, að samkvæmt 131. gr. laga nr. 21/1991 megi krefjast riftunar á gjöf eða gjafagerningi innan þar til greindra tímamarka. Samkvæmt 141. gr. laganna megi síðan, án tilgreindra tímamarka, krefjast riftunar ráðstafana þrotamanns, sem á ótilhlýðilegan hátt séu kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiði til þess að eignir hans verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiði til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, hafi þrotamaður verið ógjaldfær eða orðið það vegna ráðstöfunarinnar, og sá, sem hag hefði af henni, vissi eða hefði mátt vita um ógjaldfærni þrotamanns og þær aðstæður, sem leitt hafi til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg. Reglu 141. gr. laganna séu engin sérstök tímamörk sett, sé skilyrðum hennar á annað borð fullnægt, og eigi hún því við, enda þótt nokkur tími líði frá hinni riftanlegu ráðstöfun og fram að gjaldþroti.
Stefnandi byggir á því, að samkvæmt 141. gr. laga nr. 21/1991 séu framsal og afsal þrotamanns á flestum eignum sínum með kaupmálanum og síðan afsali bifreiðanna riftanlegar ráðstafanir. Í fyrsta lagi hafi þær leitt til þess, að eignirnar voru ekki til reiðu til fullnustu fyrir kröfuhafa þrotamanns, auk þess sem ekkert gagngjald hafi komið fyrir eignirnar. Í öðru lagi hafi þrotamaður verið ógjaldfær á þeim tíma, þegar ráðstafanirnar voru gerðar eða að minnsta kosti orðið það við þær. Í þriðja lagi hafi stefnda vitað eða mátt vita um ógjaldfærni þrotamanns, enda honum nákomin. Framsal eignanna hafi enn fremur verið ótilhlýðilegt í ljósi þeirra aðstæðna, sem uppi voru þegar framsölin áttu sér stað, þar sem skuldir þrotamanns jukust verulega í kjölfar falls íslensku bankanna, sem að lokum leiddi til gjaldþrotaskipta á búi hans. Telur stefnandi, að við þessar aðstæður, hafi þrotamaður brugðist við með því að koma nánast öllum eignum sínum undan fullnustu lánadrottna og stefnda tekið meðvitaðan þátt í þeim aðgerðum. Því beri að verða við dómkröfum stefnanda um riftun þessara ráðstafana.
Stefnandi krefst þess aðallega, að riftun frágenginni, að þeim eignum, sem afsalað var, verði skilað í þeim mæli, sem þær séu enn til staðar, enda verði slíkum skilum komið við án óhæfilegrar rýrnunar verðmæta. Enn fremur er þess krafist, þar sem skilum verður ekki komið við eða eignir hafa rýrnað í verði, að stefndu verði gert að jafna slíka rýrnum með peningagreiðslum, sbr. 144. gr. laga nr. 21/1991.
Verði skilum ekki komið við, gerir stefnandi þá kröfu, að stefndu verði gert að greiða stefnanda tjónsbætur samkvæmt 142. gr. laga nr. 21/1991, enda hafi henni verið kunnugt um riftanleika ráðstafanna, eins og stöðu og atvikum var háttað í upphafi árs 2009. Stefnandi byggir jafnframt á því, að allt að einu þó tjónsbætur yrðu ekki viðurkenndar, hafi umkrafin fjárhæð komið stefndu að notum og samsvari tjóni stefnanda, og því beri stefndu að endurgreiða hana að fullu. Á því er byggt að allar hinar riftanlegu ráðstafanir hafi komið stefndu að notum.
Í stefnu segir, að óformlegar viðræður, tilkynningar og tilraun til samninga um framangreindar ráðstafanir hafi farið fram gagnvart stefndu fram til 1. október 2014, að endanleg ákvörðun um riftun kaupmálans hafi verið tekin á skiptafundi. Þegar almennri riftunaráskorun til stefndu hafi ekki verið svarað, hafi stefnuvotti verið falið að birta stefndu formlega stefnu um riftun og endurkröfu verðmæta. Þá hafi komið í ljós, sbr. staðfestingu frá Þjóðskrá, að stefnda og þrotamaður hefðu flutt lögheimili sitt á tiltekið heimilisfang í Belgrað í Serbíu 2. október 2014.
Síðan þá hafi allra leiða verið leitað til að koma fram birtingu stefnu, hún birt í Lögbirtingablaði 7. nóvember sl., hún þýdd á serbnesku og aðgerðum hrundið af stað til birtingar hennar á uppgefnu heimili í Serbíu. Fljótlega hafi þær rökstuddu efasemdir vaknað, að heimili stefndu í Serbíu samkvæmt skráningu hjá Þjóðskrá væri ekki rétt og telur stefnandi sig nú, eftir mikla eftirgrennslan, hafið yfir allan vafa, að uppgefið heimilisfang fyrirfinnist ekki. Óþekkt heimilisfang, illt aðgengi að þarlendum stjórnvöldum og óvissa um, að stefnda hafi í raun flutt heimilisfesti sína til Serbíu, hafi takmarkað kosti til stefnubirtingar í málinu. Því hafi ný stefna verið gefin út, sem birt hafi verið í Lögbirtingablaði með vísan til a. og b. liðar 1. mgr., sbr. 2. mgr. 89. gr. laga nr. 91/1991, þar sem stefnandi telur aðstæður og fyrri birtingartilraunir og líkur á áframhaldandi ómöguleika á birtingu stefnunnar fullnægja skilyrðum lagaákvæðisins.
Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., en kröfu sína um riftun og skil á hinu ráðstafaða eða endurgreiðslu byggir hann á XX. kafla laganna. Þá er vísað til almennra reglna skaðabótaréttarins. Um vexti og dráttarvexti er vísað til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, en stefnandi krefst vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá því að hinar riftanlegu ráðstafanir áttu sér stað og til þingfestingardags, en dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi. Um varnarþing vísar stefnandi til 32. gr. laga nr. 91/1991, auk þess framar greinir um lagarök stefnanda fyrir birtingu stefnunnar í Lögbirtingablaði.
II
Af hálfu stefndu hefur ekki verið sótt þing og ber því að dæma málið eftir kröfum og málatilbúnaði stefnanda eftir því sem samrýmanlegt er fram komnum gögnum, nema gallar séu á því, sem varða frávísun þess án kröfu, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Stefna í málinu var birt í Lögbirtingablaði, enda þótt stefnda hafi skráð lögheimili í Serbíu samkvæmt Þjóðskrá og vísar stefnandi til a. og b. liðar 1. mgr. 89. gr. laga nr. 91/1991 sem heimildar fyrir þeirri birtingu.
Meginregla laga nr. 91/1991 um birtingu stefnu er sú, að birta skuli stefnu fyrir stefnda sjálfum eða þeim, sem bær er að taka móti stefnu fyrir hans hönd og skal jafnan birta stefnu á lögheimili stefnda, þar sem hann hefur fasta búsetu, dvalar- eða vinnustað, sbr. 1. og 3. mgr. 83. gr. og 2. og 3. gr. 85. gr. laganna. Í 2. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991 er gerð sú undantekning að birta má stefnu í Lögbirtingablaði samkvæmt 89. gr. laganna að fullnægðu einhverju þeirra skilyrða, sem fram eru sett í a.c. lið 1. mgr. ákvæðisins.
Stefnda flutti lögheimili sitt á nánar tiltekið heimili í Belgrað í Serbíu 2. október 2014. Samkvæmt gögnum málsins þykir sýnt, að það heimilisfang er ekki að finna í Belgrað í Serbíu. Þá sýnir skýrsla lögmannsstofu HRLE í Belgrað, auk fram lagðra viðeigandi ákvæða serbneskrar löggjafar um birtingu stefnu, að stefnu gagnvart einstaklingi skuli að birta gagnvart honum sjálfum eða á skráðu aðsetri eða lögheimili hans. Enn fremur hafi hvorki tekist að hafa uppi á þrotamanni eða stefndu í Serbíu eða heimilisfangi þeirra þar í landi.
Samkvæmt a. lið 1. mgr. 89. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt að birta stefnu í Lögbirtingablaði, ef upplýsinga verður ekki aflað um hvar megi birta stefnu eftir almennum reglum. Í 90. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er fjallað um það með hvaða hætti haga skuli stefnubirtingu, þegar stefndi á þekkt heimili eða aðsetur erlendis eða það liggur annars fyrir að hann eigi heimili í tilteknu ríki, en þá fer um birtingu stefnunnar eftir lögum þess ríkis og þjóðréttarsamningi, hafi slíkur samningur verið gerður við hlutaðeigandi ríki. Gildir það einnig þótt lögheimili stefnda í viðkomandi ríki sé óþekkt, en af fyrirmælum 90. gr. leiðir að í slíkum tilvikum ber að birta stefnu í því ríki eftir reglum þess um birtingu fyrir manni sem hefur óþekkt heimilisfang.
Meðal gagna málsins er að finna orðsendingu sendiráðs Lýðveldisins Serbíu til Sendiráðs Íslands vegna málsins, þar sem tilkynnt er niðurstaða könnunar á lögheimili eða aðsetri stefndu í Serbíu, en samkvæmt tilkynningunni er stefnda ekki til á skrám þar til bærra stofnana í Serbíu.
Með því að stefnda hefur ekki skráð lögheimili eða aðsetur í Serbíu hjá þar til bærum stjórnvöldum í því ríki, er loku fyrir það skotið, að koma megi fram birtingu þar, enda þótt reglur heimiluðu birtingu þar í landi fyrir einstaklingum með óþekkt heimilisfang, þar sem óvissa ríkir um, hvort stefnda hafi flutt aðsetur sitt og dvalarstað til ríkisins eða eigi þar lögheimili í raun. Verður því fallist á, að upplýsinga verði ekki aflað um það, hvar birta megi stefnu í máli þessu á hendur stefndu eftir almennum reglum. Þykja skilyrði a. liðar 1. mgr. 89. gr. laga nr. 91/1991 því uppfyllt og birting stefnu í Lögbirtingablaði 21. nóvember 2014 lögmæt. Áður útgefin stefna með sömu dómkröfur á hendur stefndu hafði þó áður verið birt í Lögbirtingablaði 7. sama mánaðar, en málið var ekki þingfest fyrir dómi.
Kröfulýsingarfresti mun hafa lokið 10. maí 2014. Samkvæmt fram lögðum gögnum málsins var skiptastjóra þegar í maí 2014 kunnugt um þann kaupmála milli þrotamanns og stefndu, sem ráðstafaði eignum þrotamannsins til hennar, og ætlað er að rifta í máli þessu. Samkvæmt skýrslu skiptastjóra 13. maí 2014 var þrotamanni „tjáð að skiptastjóri hefði gildi kaupmálans til skoðunar sem og frekari athugun með eignir hans, ráðstafanir og skattframtöl“. Þá var þrotamaður enn spurður út í eignir sínar og kaupmálann á fundi með skiptastjóra 19. júní 2014, þar sem skiptastjóri upplýsti að „framangreindur kaupmáli og gildi hans væri enn til skoðunar af hálfu skiptastjóra [svo] og kröfuhafa búsins“. Engar frekari upplýsingar er að finna meðal gagna málsins um þetta atriði eða framvindu mála umfram það, sem greinir í stefnu, að ákvörðun um riftun kaupmálans var ekki tekin fyrr en á skiptafundi 1. október 2014.
Samkvæmt skýru ákvæði 148. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. skal höfða dómsmál, ef þess reynist þörf til að koma fram riftun, innan sex mánuða frá því skiptastjóri átti þess kost að gera riftunarkröfuna, en sá frestur hefst þó ekki fyrr en við lok kröfulýsingarfrests. Mál þetta var höfðað 21. nóvember 2014 með birtingu stefnu í Lögbirtingablaði, sbr. 93. gr., sbr. 2. mgr. 83. gr. laga nr. 91/1991. Var þá þegar liðinn sá frestur, sem veittur er til höfðunar dómsmáls til riftunar vegna gjaldþrotaskipta og áskilinn er í 148. gr. laga nr. 21/1991. Þar sem ekki hafði verið hlutast til um höfðun málsins svo gildi hafi að lögum innan þess tíma, verður ekki hjá því komist að vísa máli þessu frá dómi án kröfu.
Hrannar Már S. Hafberg, aðstoðarmaður dómara, kveður upp úrskurðinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Máli þessu er vísað frá dómi.