Hæstiréttur íslands

Mál nr. 665/2014


Lykilorð

  • Gjaldþrotaskipti
  • Riftun
  • Frestdagur


                                     

Fimmtudaginn 11. júní 2015.

Nr. 665/2014.

Þrotabú KNH ehf.

(Grímur Sigurðsson hrl.)

gegn

Vátryggingafélagi Íslands hf.

(Helgi Sigurðsson hrl.)

og gagnsök

Gjaldþrotaskipti. Riftun. Frestdagur.

Þrotabú K ehf. höfðaði mál til riftunar á tilgreindum ráðstöfunum félagsins til V hf. á tímabilinu frá 18. maí til 12. október 2011, á meðan K ehf. naut heimildar til greiðslustöðvunar. K ehf. hafði í kjölfarið verið tekið til gjaldþrotaskipta, eftir að nauðasamningsumleitanir báru ekki árangur, og var frestdagur þeirra 3. maí 2011, sbr. 2. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Bar þrotabú K ehf. því við að ráðstafanirnar hefðu verið gerðar eftir frestdag til að standa skil á skuldum K ehf. við V hf. og leitaði riftunar þeirra, sbr. 1. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991, svo og endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar sem V hf. fékk á þennan hátt inn á kröfur sínar. V hf. hélt því fram að greiðslurnar hefðu ekki verið inntar af hendi til að standa skil á skuld K ehf. við sig, heldur hefðu þær falið í sér umsamda staðgreiðslu mánaðarlegra iðgjalda af vátryggingum félagsins á tímabilinu frá því það fékk heimild til greiðslustöðvunar og því brysti skilyrði 1. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991. Þá hefði staðgreiðslan verið forsenda þess að V hf. veitti K ehf. vátryggingar, eins og fjárhag þess var komið, en kaup þeirra hefðu verið félaginu nauðsynleg til að halda áfram starfsemi og komast þar með hjá tjóni. Hæstiréttur taldi að líta yrði svo á að K ehf. hefði með hinum umdeildu ráðstöfunum innt af hendi greiðslur inn á skuldir við V hf., enda lágu ekki fyrir í málinu samningar um breytingar sem V hf. kvað hafa verið gerðar á vátryggingum K ehf. eftir að félagið fékk heimild til greiðslustöðvunar, auk þess sem fyrir lá að iðgjöld voru ekki ákveðin og innheimt fyrir hvern mánuð, K ehf. hafði ekki staðgreitt þau fyrir upphaf vátryggingartímabils og greiðslur K ehf. vegna þeirra voru óreglulegar, bæði varðandi dagsetningar og fjárhæðir. Þá taldi rétturinn að skuldir K ehf. vegna iðgjaldanna hefðu ekki getað notið stöðu í réttindaröð við gjaldþrotaskipti á þrotabúi félagsins samkvæmt 4. tölul. 110. gr. laga nr. 21/1991 og að V hf. hefði ekki sýnt fram á að greiðsla iðgjaldanna hefði verið K ehf. nauðsynleg til að komast hjá tjóni. Var krafa þrotabús K ehf. samkvæmt 1. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 því tekin til greina ásamt fjárkröfu hans á hendur V hf.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. október 2014. Hann krefst þess að rift verði átta nánar tilgreindum greiðslum KNH ehf. til gagnáfrýjanda á tímabilinu frá 18. maí til 12. október 2011 á samtals 6.210.136 krónum og gagnáfrýjanda gert að greiða sér þá fjárhæð með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. desember 2012 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 5. janúar 2015. Hann krefst þess að dómurinn verði staðfestur um annað en málskostnað sem aðaláfrýjanda verði gert að greiða í héraði og fyrir Hæstarétti.

I

Samkvæmt málatilbúnaði gagnáfrýjanda átti hann frá 29. apríl 2009 í viðskiptum við KNH ehf. um vátryggingar sem hann veitti félaginu, meðal annars ábyrgðar- og húftryggingar vegna ökutækja, brunatryggingu húseigna og vátryggingar vegna starfsmanna þess samkvæmt kjarasamningum, en félagið starfaði á þeim tíma sem verktaki, einkum við vegagerð og aðra jarðvinnu. KNH ehf. lagði fyrir héraðsdóm 3. maí 2011 beiðni um heimild til greiðslustöðvunar, sem veitt var samdægurs til 24. sama mánaðar, en síðan framlengd til 18. ágúst, 26. október og 24. nóvember 2011. Degi eftir að heimild til greiðslustöðvunar rann út samkvæmt þessu óskaði félagið eftir heimild til að leita nauðasamnings, sem héraðsdómur varð við 2. desember 2011. Sú heimild mun hafa verið felld niður 13. janúar 2012 og var bú félagsins tekið til gjaldþrotaskipta 17. sama mánaðar eftir kröfu þess. Samkvæmt þessu er frestdagur við gjaldþrotaskiptin 3. maí 2011, sbr. 2. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Á kröfulýsingarfresti við skiptin, sem lauk 23. mars 2012, bárust skiptastjóra kröfur að fjárhæð samtals 2.284.903.738 krónur og voru viðurkenndar í kröfuskrá hans kröfur að fjárhæð alls 1.981.690.175 krónur, en þar af námu kröfur með stöðu í réttindaröð samkvæmt 110. gr. sömu laga 67.336.698 krónum. Í héraðsdómsstefnu kvað aðaláfrýjandi þrotabúið vera „sem næst eignalaust“.

Óumdeilt er að KNH ehf. hélt áfram starfsemi á tíma greiðslustöðvunar, en dró þó úr henni með því meðal annars að fella að nokkru niður samninga um fjármögnunarleigu á vinnuvélum og tækjum. Samkvæmt hreyfingayfirliti úr bókhaldi félagsins stóð það við upphaf greiðslustöðvunar í skuld við gagnáfrýjanda að fjárhæð 19.513.216 krónur, að virðist vegna ógreiddra iðgjalda af vátryggingum fyrir tímabil sem ljúka átti 30. júní 2011. Gagnáfrýjandi kveður samkomulag hafa tekist milli sín og KNH ehf. um að fella niður allar vátryggingar félagsins hjá sér miðað við 6. maí 2011 og stofna til nýrra vátrygginga, fyrst í stað vegna tímabilsins frá 12. maí til 31. ágúst 2011, en þær hafi svo verið framlengdar í eitt ár. Kveðst gagnáfrýjandi hafa sett það skilyrði fyrir þessum nýju vátryggingum að KNH ehf. greiddi fyrir fram mánaðarleg iðgjöld af þeim, sem hafi átt að nema um 1.000.000 krónum. Í málinu liggja ekki fyrir samningar eða bréfaskipti um þessa breyttu tilhögun á vátryggingum félagsins. Á hinn bóginn hefur gagnáfrýjandi lagt fram reikningsyfirlit um viðskipti þeirra, sem bera með sér að 6. maí 2011 hafi verið bakfærð iðgjöld vegna tímabilsins frá þeim degi til 30. júní sama ár, en 12. maí 2011 hafi félaginu verið færð til skuldar iðgjöld af nýjum vátryggingum frá sama degi til 31. ágúst 2011.

Á tímabilinu frá 18. maí til 12. október 2011 innti KNH ehf. af hendi átta greiðslur til gagnáfrýjanda sem gaf hverju sinni út af því tilefni skjal með fyrirsögninni: „Kvittun vegna skuldajöfnunar“. Var þar í fyrsta lagi um að ræða 1.300.000 krónur, sem var ráðstafað 19. maí 2011 inn á iðgjöld fyrir tímabilið 12. maí til 31. ágúst sama ár að fjárhæð samtals 1.353.234 krónur vegna ábyrgðar- og húftryggingar tíu tilgreindra bifreiða, ábyrgðartryggingar einnar bifreiðar og húftryggingar sex annarra bifreiða. Í öðru lagi greiddi KNH ehf. 1.000.000 krónur 23. júní 2011, en þessu fé varði gagnáfrýjandi næsta dag til innborgunar á iðgjöld fyrir tímabilið 12. maí til 31. ágúst 2011 að fjárhæð samtals 1.005.846 krónur af ábyrgðar- og húftryggingu fjögurra bifreiða, svo og af vátryggingum vegna átta vinnuvéla og annarra nánar tiltekinna lausafjármuna, auk dráttarvaxta að fjárhæð 23.974 krónur og 300 króna í innheimtukostnað. Í þriðja lagi mun KNH ehf. hafa framselt 21. júlí 2011 til gagnáfrýjanda skaðabótakröfu á hendur Mjólkursamsölunni ehf. að fjárhæð 364.094 krónur, en gagnáfrýjandi ráðstafaði andvirðinu 3. ágúst sama ár sem innborgun á iðgjöld, sem alls námu 382.484 krónum, af húftryggingu einnar bifreiðar á tímabilinu frá 25. maí 2010 til 30. júní 2011, slysatryggingu launþega frá 1. júlí 2010 til 30. júní 2011 og þremur tilgreindum samningum um frjálsa ábyrgðartryggingu á síðastnefndu tímabili. Í fjórða lagi greiddi KNH ehf. 910.000 krónur 2. ágúst 2011, sem gagnáfrýjandi ráðstafaði 24. sama mánaðar sem innborgun á iðgjöld frá 12. maí til 31. ágúst 2011 að fjárhæð alls 1.033.601 króna af ábyrgðartryggingu tveggja bifreiða, ótilgreindra vinnuvéla og fyrir starfsemi félagsins, svo og af slysatryggingu launþega, auk dráttarvaxta að fjárhæð 22.386 krónur og 300 króna í innheimtukostnað. Í fimmta lagi mun KNH ehf. hafa gefið út reikning 30. ágúst 2011 á hendur gagnáfrýjanda fyrir bótum vegna innbrots að fjárhæð 294.300 krónur, en gagnáfrýjandi tók hana 1. september sama ár til skuldajafnaðar við iðgjöld, sem alls námu 416.961 krónu, af vátryggingu vinnubúða og þriggja tilgreindra vinnuvéla á tímabilinu frá 1. september 2011 til 31. ágúst 2012. Í sjötta lagi greiddi félagið 1.000.000 krónur 2. september 2011 og tók gagnáfrýjandi þá fjárhæð 5. sama mánaðar til innborgunar á iðgjöld, sem alls voru 1.362.682 krónur, af ábyrgðartryggingu einnar bifreiðar frá 9. ágúst 2011 til 31. ágúst 2012 og vátryggingu staðsetningartækja og fimm vinnuvéla á tímabilinu 1. september 2011 til 31. ágúst 2012. Í sjöunda lagi greiddi KNH ehf. 1.000.000 krónur 12. október 2011, sem gagnáfrýjandi ráðstafaði degi síðar til greiðslu inn á iðgjöld að fjárhæð samtals 1.163.286 krónur vegna vátryggingar staðsetningartækja og þriggja vinnuvéla frá 1. september 2011 til 31. ágúst 2012. Loks mun KNH ehf. hafa í áttunda lagi gefið út reikning á hendur gagnáfrýjanda 12. október 2011 fyrir bótum vegna þjófnaðar að fjárhæð 341.742 krónur, en bætur þessar tók gagnáfrýjandi sama dag til skuldajafnaðar við iðgjöld af vátryggingu staðsetningartækja á tímabilinu frá 1. september 2011 til 31. ágúst 2012 sem námu 362.682 krónum.

Í málinu leitar aðaláfrýjandi riftunar á framangreindum ráðstöfunum á þeim grunni að þær hafi verið gerðar eftir frestdag til að standa skil á skuldum KNH ehf. við gagnáfrýjanda, sbr. 1. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991, svo og endurgreiðslu á þeim 6.210.136 krónum sem gagnáfrýjandi fékk á þennan hátt inn á kröfur sínar. Með hinum áfrýjaða dómi var krafa aðaláfrýjanda tekin til greina að því er varðar þann lið hennar, sem nefndur var í þriðja lagi hér að framan og sneri að greiðslu 21. júlí 2011 á 364.094 krónum, en að öðru leyti var gagnáfrýjandi sýknaður af henni. Gagnáfrýjandi unir niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að þessu leyti.

II

Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi ber gagnáfrýjandi aðallega fyrir sig að greiðslurnar, sem getið var að framan, hafi ekki verið inntar af hendi til að standa skil á skuld KNH ehf. við sig, heldur hafi þær falið í sér umsamda staðgreiðslu mánaðarlegra iðgjalda af vátryggingum félagsins á tímabilinu frá því að það fékk heimild til greiðslustöðvunar. Þegar af þeirri ástæðu bresti skilyrði 1. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 til að verða við kröfu aðaláfrýjanda. Eins og fjárhag félagsins hafi verið komið hafi staðgreiðsla þessi að auki verið forsenda fyrir því að gagnáfrýjandi veitti KNH ehf. vátryggingar, en kaup þeirra hafi verið félaginu nauðsynleg til að halda áfram starfsemi og komast þar með hjá tjóni.

Um þessar varnir gagnáfrýjanda verður að gæta að því sem fyrr segir að ekki liggja fyrir í málinu samningar um breytingar sem hann kveður hafa verið gerðar á vátryggingum KNH ehf. eftir að félagið hafði fengið heimild til greiðslustöðvunar 3. maí 2011. Af kvittunum gagnáfrýjanda, sem áður hefur verið lýst, verður þó ráðið að í byrjun hafi vátryggingar KNH ehf., sem áttu að gilda til loka júní 2011, verið felldar niður og gagnáfrýjandi þess í stað veitt vátryggingar frá 12. maí til 31. ágúst 2011, en þær hafi svo verið framlengdar frá 1. september sama ár til 31. ágúst 2012. Um gjalddaga iðgjalda af þessum nýju vátryggingum hefur það eitt komið fram að gagnáfrýjandi kveður þau hafa átt að greiðast fyrir fram til eins mánaðar í senn. Engir reikningar voru þó gefnir út fyrir iðgjöldum þessu til samræmis og greiddi KNH ehf. þau til gagnáfrýjanda óreglulega, bæði hvað varðar dagsetningar og fjárhæðir. Þannig greiddi félagið 18. maí, 23. júní og 2. ágúst 2011 samtals 3.210.000 krónur sem gagnáfrýjandi ráðstafaði til innborgunar á iðgjöld fyrir tímabilið frá 12. maí til 31. ágúst sama ár að fjárhæð alls 3.392.690 krónur. Iðgjöldin voru ekki ákveðin fyrir hvern mánuð, heldur í einu lagi fyrir þetta tímabil í heild vegna hverrar vátryggingar. Hvað sem öðru líður er ljóst af þessu að iðgjöldin voru ekki staðgreidd fyrir upphaf vátryggingartímabils. Sama máli gegnir um þær fjórar greiðslur á samtals 2.636.042 krónum sem KNH ehf. innti af hendi 30. ágúst, 2. september og 12. október 2011 og gagnáfrýjandi ráðstafaði til innborgunar á iðgjöld að fjárhæð alls 3.305.611 krónur fyrir tímabilið frá 1. september 2011 til 31. ágúst 2012. Verður af þessum sökum að líta svo á að KNH ehf. hafi með þessu innt af hendi greiðslur inn á skuldir við gagnáfrýjanda vegna iðgjalda annars vegar frá 12. maí til 31. ágúst 2011 og hins vegar frá 1. september 2011 til 31. ágúst 2012, auk greiðslu 21. júlí 2011 á 364.094 krónum inn á enn eldri skuldir. Ekki er deilt um að gagnáfrýjanda hafi verið kunnugt að KNH ehf. nyti heimildar til greiðslustöðvunar á tímabilinu sem þessar greiðslur fóru fram. Skuldir félagsins vegna iðgjaldanna hefðu ekki getað notið stöðu í réttindaröð við gjaldþrotaskipti á aðaláfrýjanda samkvæmt 4. tölulið 110. gr. laga nr. 21/1991, enda kom fram í skýrslu, sem aðstoðarmaður KNH ehf. við greiðslustöðvunina gaf við aðalmeðferð málsins í héraði, að þessar ráðstafanir hafi ekki verið bornar undir hann. Ekki hefur gagnáfrýjandi heldur sýnt fram á að greiðsla iðgjaldanna hafi verið félaginu nauðsynleg til að komast hjá tjóni, enda liggur ekkert fyrir um að hann hefði brugðist við frekari vanefndum félagsins með því að slíta vátryggingarsamningunum við það. Að þessu öllu gættu og með vísan til 1. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 verður krafa aðaláfrýjanda um riftun tekin til greina og gagnáfrýjanda gert að greiða honum þá fjárhæð, sem hann krefst, með dráttarvöxtum eins og í dómsorði greinir.

Gagnáfrýjandi verður dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn er í einu lagi svo sem segir í dómsorði.

Dómsorð:

Rift er greiðslum, sem KNH ehf. innti af hendi til gagnáfrýjanda, Vátryggingafélags Íslands hf., 18. maí, 23. júní, 21. júlí, 2. ágúst, 30. ágúst, 2. september og 12. október 2011 á samtals 6.210.136 krónum, og ber gagnáfrýjanda að greiða aðaláfrýjanda, þrotabúi KNH ehf., þá fjárhæð með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. desember 2012 til greiðsludags.

Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda samtals 2.000.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. september 2014.

I.

Mál þetta var höfðað 27. desember 2012 og dómtekið 4. september 2014 að loknum munnlegum málflutningi.

                Stefnandi er Þrotabú KNH ehf., Borgartúni 26, Reykjavík, en stefndi er Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík. 

                Stefnandi krefst þess í fyrsta lagi að eftirfarandi ráðstöfunum stefnanda til stefnda verði rift:

                1. Greiðslu stefnanda á skuld við stefnda 18. maí 2011 að fjárhæð 1.300.000 krónur.

                2. Greiðslu stefnanda á skuld við stefnda 23. júní 2011 að fjárhæð 1.000.000 króna.

                3. Greiðslu stefnanda á skuld við stefnda sem fram fór 21. júlí 2011 með afhendingu kröfu stefnanda á hendur Mjólkursamsölunni ehf. að fjárhæð 364.094 krónur.

                4. Greiðslu stefnanda á skuld við stefnda 2. ágúst 2011 að fjárhæð 910.000 krónur.

                5. Greiðslu stefnanda á skuld við stefnda að fjárhæð 294.300 krónur sem fram fór með skuldajöfnuði 30. ágúst 2011.

                6. Greiðslu stefnanda á skuld við stefnda 2. september 2011 að fjárhæð 1.000.000 króna.

                7. Greiðslu stefnanda á skuld við stefnda 12. október 2011 að fjárhæð 1.000.000 króna.

                8. Greiðslu stefnanda á skuld við stefnda að fjárhæð 341.742 krónur sem fram fór með skuldajöfnuði 12. október 2011.

                Þess er í öðru lagi krafist að stefndi greiði stefnanda 6.210.136 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá málshöfðunardegi til greiðsludags.

                Þess er í þriðja lagi krafist að stefndi greiði stefnanda málskostnað.

                Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Til vara er þess krafist að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar. Stefndi krefst jafnframt málskostnaðar.

II.

Málsatvik

Stefnandi var verktakafyrirtæki sem vann í verktöku við vegagerð og jarðvinnu. Stefnanda var veitt heimild til greiðslustöðvunar með úrskurði Héraðsdóms Vestfjarða hinn 3. maí 2011. Skyldi greiðslustöðvunin standa frá úrskurðardegi til 24. maí 2011. Í skýrslu aðstoðarmanns í greiðslustöðvun, dags. 23. maí 2011, til Héraðsdóms Vestfjarða, kemur m.a. fram að á greiðslustöðvunartíma hafi verið stillt upp áætlun um starfsemi félagsins til skemmri tíma, til þess að bjarga mætti þeim verðmætum sem felist í verkefnastöðu félagsins og verkstöðum auk þess sem unnið hefði verið að því að fá nýtt fjármagn inn í félagið.

                Með úrskurðum 27. maí, 23. ágúst og 1. nóvember 2011 var greiðslustöðvun stefnanda framlengd, síðast til 24. nóvember 2011. Með bréfi, dags. 25. nóvember 2011, óskaði stefnandi eftir heimild til að leita nauðasamninga og var sú beiðni samþykkt. Með úrskurði, dags. 13. janúar 2012 var heimild stefnanda til að leita nauðasamninga felld úr gildi og bú stefnanda í kjölfarið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Vestfjarða, dags. 17. janúar 2012.

                Samkvæmt skýrslu endurskoðunarfyrirtækisins Ernst & Young, dags. 16. maí 2012, hafði stefnandi innt af hendi eftirfarandi greiðslur til stefnda á tímabili greiðslustöðvunar stefnanda:

                1. Greiðslu á skuld við stefnda 18. maí 2011 að fjárhæð 1.300.000 krónur.

                2. Greiðslu á skuld við stefnda 23. júní 2011 að fjárhæð 1.000.000 króna.

                3. Greiðslu á skuld við stefnda 2. ágúst 2011 að fjárhæð 910.000 krónur.

                4. Greiðslu á skuld við stefnda 2. september 2011 að fjárhæð 1.000.000 króna.

                5. Greiðslu á skuld við stefnda 12. október 2011 að fjárhæð 1.000.000 króna.

                6. Greiðslu á skuld við stefnda að fjárhæð 341.742 krónur 12. október 2011 með skýringunni „Tjónsbætur upp í lausafj.tryggingar“.

                Samkvæmt áðurgreindri skýrslu Ernst & Young, skuldajafnaði stefnandi enn fremur eftirfarandi reikningum á móti skuld stefnda á hendur sér:

                7. Reikningur gefinn út á stefnda 12. október 2011 með skýringunni „Tjónabætur v. þjófnaðar Suðurströnd“ að fjárhæð kr. 379.642.

                8. Reikningur gefinn út á stefnda 30. ágúst 2011 með skýringunni „Bætur vegna innbrots“ að fjárhæð kr. 294.300.

                9. Reikningur gefinn út á Mjólkursamsöluna ehf. 30. júní 2011 með skýringunni „RE-447. Mjólkurbíll réttur við og fluttur til Reykjavíkur“ að fjárhæð kr. 364.094.

                Einnig kemur fram í skýrslu Ernst & Young að tekjur stefnanda á greiðslustöðvunartímabilinu hafi numið u.þ.b. 634 milljónum króna með virðisaukaskatti. Er tekið fram að félagið hafi haft tekjur frá ýmsum aðilum á tímabilinu, en um 80% þeirra hafi verið frá Vegagerðinni.

                Skuld stefnanda við stefnda nam 13.359.305 krónum við upphaf greiðslustöðvunar hinn 3. maí 2011, sbr. yfirlit hreyfinga á lánardrottnareikningi stefnda hjá stefnanda fyrir tímabilið 3. maí til 31. desember s.á.

                Á þeim tíma sem stefnandi leitaði eftir greiðslustöðvun vann félagið að vegavinnu á Vopnafjarðarvegi og Suðurstrandarvegi og að framkvæmdum við snjóflóðavarnargarð á Ísafirði.

                Stefnandi hafði áður átt í viðskiptum við stefnda eða frá 29. apríl 2009 og námu iðgjöld vegna tryggingarþjónustu um 1.000.000 króna fyrir hvern mánuð. Um var að ræða lögbundnar ábyrgðartryggingar ökutækja og brunatryggingar húseigna, kjarasamningsbundnar tryggingar starfsmanna og aðrar samnings- og skyldubundnar tryggingar. Stefndi hafnaði frekari viðskiptum við stefnanda eftir að stefnandi var kominn í greiðslustöðvun, nema greidd yrði fyrir þjónustuna 1.000.000 króna á mánuði, fyrir fram fyrir hvern mánuð.

                Samkvæmt hreyfingaryfirliti stefnanda hjá stefnda fyrir tímabilið 1. maí til 31. desember 2011 s.á. var greiðslum sem krafist er riftunar á varið í tryggingariðgjöld vegna nýtrygginga auk vaxta og innheimtukostnaðar sem stofnað var til eftir að heimild til greiðslustöðvunar var veitt. Var um að ræða greiðslur vegna vátryggingartímabila frá 12. maí 2011 til 31. ágúst 2012, en að undanskilinni greiðslu samkvæmt 3. tölulið í dómkröfum stefnanda, þ.e.a.s. greiðslu á skuld við stefnanda sem fram fór 21. júlí 2011 með afhendingu á kröfu stefnanda á hendur Mjólkursamsölunni ehf. að fjárhæð 364.094 krónur. Kom fram við aðalmeðferð málsins að greiðsla þessi hefði fyrir mistök verið færð inn á tryggingartímabil árið 2010.

                Jón Ármann Guðjónsson, aðstoðarmaður í greiðslustöðvun stefnanda gaf skýrslu fyrir dóminum. Tók hann fram að veitt hefði verið leyfi til áframhaldandi viðskipta stefnanda. Lagt hefði verið upp með að ljúka ákveðnum verkefnum sem félagið var byrjað á. Félagið hefði verið komið langt með ákveðin verk og það hefði verið mat hans að ef þeim yrði ekki lokið myndu miklir fjármunir tapast. Ekki hafi verið rætt sérstaklega um heimildir stefnanda til þess að greiða fyrir tryggingar en ljóst hefði verið að félagið var með tæki í rekstri og því hefði hann gefið sér, og taldi nauðsynlegt, að félagið væri með tryggingar. Hann hefði ekki samþykkt að tæki og mannskapur væru ótryggt á meðan væri verið að ljúka þeim. Hann hefði á hinn bóginn ekki samþykkt hinar umþrættu greiðslur sérstaklega.

III.

1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi krefst þess að rift verði greiðslum stefnanda á skuldum við stefnda á tímabili greiðslustöðvunar stefnanda. Vísar stefnandi til ákvæða 1. mgr. 19. gr., 1. mgr. 20. gr. og 1. mgr. 21. gr. gþl.

                Við upphaf greiðslustöðvunar hafi skuld stefnanda við stefnda numið 13.359.305 krónum. Kröfur vegna þessarar skuldar hafi stofnast fyrir frestdag og njóti réttarstöðu almennra krafna við gjaldþrotaskipti stefnanda. Þótt stefnandi hafi stofnað til einhverra skuldbindinga við stefnda á tímabili greiðslustöðvunar telur stefnandi það ekki skipta máli þar sem alltaf verði að ráðstafa greiðslu upp í elstu gjaldföllnu kröfu nema annað sé tekið fram við greiðsluna. Þannig hafi greiðslurnar átt að ganga upp í eldri skuldir stefnanda við stefnda sem urðu til fyrir greiðslustöðvunartímabilið. Kröfurnar sem greiddar voru hefðu því notið réttarstöðu almennrar kröfu í þrotabú stefnanda.

                Jafnvel þótt litið yrði svo á að greiðslunum hafi verið ráðstafað upp í kröfur sem stofnast höfðu eftir frestdag telur stefnandi að kröfurnar hefðu þrátt fyrir það með réttu notið réttarstöðu almennra krafna. Þá telur stefnandi að aðstoðarmaður hans við greiðslustöðvunina hafi ekki samþykkt þessar ráðstafanir, hvorki með sérstökum né almennum hætti. Stefndi beri sönnunarbyrðina fyrir því að heimild hafi staðið til þessara ráðstafana og að aðstoðarmaður stefnanda hafi samþykkt þær. Í ljósi alls framangreinds telur stefnandi ljóst að kröfur stefnda á hendur stefnanda hefðu ekki notið réttastöðu búskrafna samkvæmt 4. tölulið 110. gr. gþl. við gjaldþrotaskipti, heldur réttarstöðu almennra krafna samkvæmt 113. gr. sömu laga.

                Enn fremur telur stefnandi, að þótt litið yrði svo á að kröfur stefnda hefðu notið réttarstöðu búskrafna samkvæmt 4. tölulið 110. gr. gþl., þá hefðu þær ekki fengist greiddar við gjaldþrotaskipti stefnanda. Búskröfur þær sem lýst var við skiptin nemi 227.112.092 krónum en bú stefnanda hafi nánast verið eignalaust þegar mál þetta hafi verið höfðað. Þannig hefði stefndi, miðað við stöðu búsins við málshöfðun þessa, ekki fengið kröfur sínar greiddar nema að takmörkuðu leyti þótt þær yrðu taldar til búskrafna.

                Tilgangur riftunarreglna XX. kafla gjaldþrotalaga sé að tryggja jafnræði kröfuhafa. Þó að talið verði að stefndi hafi allt að einu átt búskröfur á hendur stefnanda, sem gætu notið úthlutunar að einhverju leyti við skiptin, verði að jafna stöðu búskröfuhafa þannig að allir sem séu í sömu stöðu fái sama hlutfall búskrafna sinna greitt.

                Þrotabúið hafi orðið fyrir tjóni vegna þeirra ráðstafana sem krafist sé riftunar á og telur stefnandi að í þeim hafi falist i) greiðsla stefnanda á skuld stefnda í óvenjulegum greiðslueyri samkvæmt 1. mgr. 134. gr. gþl. í tilviki riftunarkröfu nr. 3; ii) greiðsla stefnanda á skuld við stefnda eftir frestdag samkvæmt 1. mgr. 139. gr. gþl. og iii) ótilhlýðileg ráðstöfun stefnda til hagsbóta samkvæmt 141. gr. gþl. Krefst stefnandi þess að greiðslunum verði rift samkvæmt framangreindum ákvæðum.

                Þá telur stefnandi að skilyrði skuldajafnaðar vegna dómkrafna nr. 5 og 8 hafi ekki verið uppfyllt. Vísar stefnandi til 100. gr. gþl. Frestdagur við skiptin á búi stefnanda hafi verið 3. maí 2011. Þar sem kröfur bæði stefnanda og stefnda, sem notaðar voru til að skuldajafna á greiðslustöðvunartímabilinu, hafi stofnast eftir frestdag, sé ljóst að ákvæði gjaldþrotalaga um riftun greiðslu gildi um þessa skuldajöfnuði, sbr. 136. gr. gþl. Telur stefnandi að í þessum skuldajöfnuðum hafi falist greiðslur stefnanda á skuld við stefnda sem stefnandi krefst að verði rift skv. 1. mgr. 139. gr. og 1. mgr. 141. gr. gþl., sbr. 136. gr. gþl.

                Stefnandi byggir sjálfstætt á því að í greiðslu stefnanda á skuld við stefnda sem fram fór 21. júlí 2011 með afhendingu kröfu stefnanda á hendur Mjólkursamsölunni ehf. að fjárhæð 364.094 krónur, sbr. riftunarkröfu nr. 3, hafi falist greiðsla stefnanda á skuld við stefnda með óvenjulegum greiðslueyri í skilningi 1. mgr. 134. gr. gþl. Krefst stefnandi þess að greiðslunni verði rift samkvæmt heimild í ákvæðinu. Stefndi beri sönnunarbyrðina fyrir því að greiðslan hafi virst venjuleg eftir atvikum. Það hafi ekki tíðkast áður í viðskiptum aðila að stefnandi greiddi með kröfum sem hann hafi átt á hendur öðrum aðilum. Framangreint greiðslufyrirkomulag geti því ekki talist venjulegt.

                Stefnandi byggir sjálfstætt á því að í öllum þeim greiðslum, sem krafist er riftunar á í máli þessu, hafi falist greiðslur á skuldum stefnanda við stefnda eftir frestdag sem heimilt sé að rifta samkvæmt 1. mgr. 139. gr. gþl. Frestdagur við skiptin hafi verið 3. maí 2011. Stefnandi greiddi skuldir sínar við stefnda á tímabilinu frá 18. maí 2011 til 12. október 2011. Skilyrði riftunar samkvæmt framangreindu ákvæði er því uppfyllt.

                Þá fær stefnandi ekki séð að greiðslurnar hafi verið nauðsynlegar til að forða stefnanda frá tjóni. Verði að líta til þess að grundvallarreglan er sú að á greiðslustöðvunartímabili á skuldari ekki að greiða neinar skuldir. Auk þess verði að hafa í huga að þær kröfur sem stefnandi greiddi nutu ekki veðtrygginga, forgangsréttar eða annarra trygginga. Enn fremur voru greiðslur skuldanna ekki nauðsynlegar í þágu atvinnurekstrar stefnanda á þeim tíma er þær voru inntar af hendi og skiluðu þær sér ekki í neinum auknum tekjum fyrir stefnanda á greiðslustöðvunartímabilinu, eða forðuð honum frá tjóni.

                Enn fremur telur stefnandi að stefnda hafi mátt vera fullljóst að komin var fram beiðni stefnanda um greiðslustöðvun. Ljóst er að stefnandi var í miklum vanskilum við stefnda við upphaf greiðslustöðvunar. Stefnandi telur að gera hafi orðið þær kröfur til stefnda að hann fylgdist með fjárhagsstöðu stefnanda og leitaði tiltækra upplýsinga um vanskil hans og framkomnar beiðnir og kröfur samkvæmt lögum nr. 21/1991, sbr. 9. gr. þeirra. Verði að meta það stefnda til gáleysis hafi hann ekki leitað slíkra upplýsinga.

                Að lokum telur stefnandi ljóst að aðstoðarmaður stefnanda við greiðslustöðvun hafi ekki samþykkti umræddar greiðslur stefnanda til stefnda á greiðslustöðvunartímabilinu, hvorki með sérstökum né almennum hætti. Jafnvel þótt hann hefði samþykkt greiðslurnar telur stefnandi að slíkt samþykki hefði verið bersýnilega gefið í andstöðu við heimildir gjaldþrotalaga til ráðstafana, sbr. 3. mgr. 139. gr. laganna.

                Stefnandi byggir sjálfstætt á því að í greiðslum stefnanda til stefnda hafi falist ráðstafanir sem á ótilhlýðilegan hátt voru stefnda til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa. Krefst stefnandi þess að greiðslunum verði rift samkvæmt heimild í 141. gr. gþl.

                Stefnandi byggir kröfu sína, um greiðslu 6.210.136 króna úr hendi stefnda, á 1. og 3. mgr. 142. gr. gþl. Verði fallist á kröfu stefnanda um riftun á greiðslu stefnanda á skuld við stefnda, sem fram fór með afhendingu á kröfu stefnanda á hendur Mjólkursamsölunni ehf. að fjárhæð 364.094, krónur sbr. riftunarkröfu nr. 3, á grundvelli 134. gr. gþl. byggir stefnandi á því að hann eigi rétt á að krefja stefnda um endurgreiðslu á 364.094 krónum samkvæmt 1. mgr. 142. gr. gþl.

                Stefnandi byggir einnig á því að stefnda beri að endurgreiða þá fjárhæð sem hann auðgaðist um vegna hinna riftanlegu greiðslna á grundvelli 3. mgr. 142. gr. gþl. Í því ákvæði segir að fari riftun fram samkvæmt 139. eða 141. gr. skuli sá sem hafði hag af riftanlegri ráðstöfun greiða bætur eftir almennum reglum.

2. Helstu málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi vísar til 2. mgr. 20. gr. og 21. gr. laga nr. 21/1991 til stuðnings sýknukröfu sinni. Skuldara sé heimilt, meðan á greiðslustöðvun stendur, að inna af hendi greiðslur til að standa straum af nauðsynlegum útgjöldum af rekstri hans, sbr. 2. tölulið.- 20. gr. Það sama eigi við sé eignum varið í að greiða skuldir að því leyti sem heimilt sé samkvæmt 21. gr. laganna, sbr. 3. tölulið og til að greiða óumflýjanlegan kostnað af tilraunum til að koma nýrri skipan á fjármál skuldarans, sbr. 4. tölulið Í 5. tölulið er loks mælt fyrir um að undantekningin eigi við sé verið að kosta aðgerðir sem má telja víst að séu nauðsynlegar til að koma í veg fyrir verulegt tjón.

                Samkvæmt 2. máls. 1. mgr. 21. gr. sé skuldara heimilt að greiða skuldir eða efna aðrar skuldbindingar sínar meðan á greiðslustöðvun stendur ef telja má víst að það sé nauðsynlegt til að varna verulegu tjóni. Þá sé í 2. mgr. 21. gr. ákvæði um undantekningar frá almennu banni skuldara við að stofna til nýrra skulda, taka á sig aðrar skuldbindingar eða leggja höft á eignir sínar eða réttindi meðan á greiðslustöðvun stendur. Undantekningar frá banninu séu m.a. þær að slíkar ráðstafanir séu nauðsynlegar til að halda áfram atvinnurekstri skuldara eða til þess að varna verulegu tjóni. Þá sé það skilyrði að aðgerðirnar þyki lánardrottnum skuldarans til hagsbóta.

                Telur stefndi að framangreind atvik eigi við um þær greiðslur sem stefndi tók á móti frá stefnanda á tímabilinu. Greiðslur sem inntar voru af hendi til stefnda á tímabilinu og greinir í töluliðum 1-8 í stefnu hafi ekki verið uppgjör eldri skulda við stefnda heldur séu þær tilkomnar vegna þeirra skuldbindinga sem stofnuðust á greiðslustöðvunartímabilinu. Greiðslurnar fólu í sér óhjákvæmileg útgjöld stefnda til að geta haldið atvinnustarfsemi sinni gangandi og lokið vinnu við þau verkefni sem voru á borðinu, sem var jafnframt forsenda þess að markmiðum greiðslustöðvunar yrði náð. Með því væri hagur lánardrottna jafnframt best tryggður. Ljóst sé að án viðkomandi þjónustu frá stefnda hefði stefnandi og síðar kröfuhafar félagsins við gjaldþrotaskipti orðið af miklum verðmætum.

                Stefnandi hafi haft heimild og samþykki umsjónarmanns í greiðslustöðvun fyrir því að rekstri félagsins yrði áfram haldið og nauðsynlegur kostnaður því samfara yrði greiddur. Áframhaldandi samningssamband og greiðslur til stefnda hafi verið svo beintengdar rekstri stefnanda og slík grundvallarforsenda að ekki verði litið svo á að stefnandi hafi með greiðslunum farið út fyrir samþykki aðstoðarmanns, sbr. 1. mgr. 19. gr. gjaldþrotalaga. Útgjöld vegna trygginga voru stefnanda jafn nauðsynleg og olía á vinnuvélarnar og efniviður í framkvæmdirnar.

                Stefndi byggir á því að greiðslur til hans séu ekki riftanlegar á grundvelli 1. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Til greiðslu á skuld í skilningi ákvæðisins teljast ekki greiðslur þegar efni samninga er með þeim hætti að greiða á smátt og smátt gegn sambærilegu endurgjaldi gagnaðila svo sem á við t.a.m um leigusamninga, ráðningarsamninga og verksamninga. Byggir stefndi á því að sömu sjónarmið eigi við um tryggingarsamninga. Greiðslur til stefnda voru tilkomnar vegna nauðsynlegra tryggingariðgjalda sem greiða þurfti á greiðslustöðvunartímabilinu til að viðhalda tryggingum á því tímabili. 

                Stefndi byggir í öðru lagi á því að um greiðslur til hans eigi við undantekningar sem getið er um í ákvæði 139. gr. Ákvæðið mælir fyrir um þrjú tilvik þess að ekki sé unnt að gera kröfu um riftun á greiðslu skuldar eftir frestdag. Þar með talið að nauðsynlegt hafi verið að greiða til að komast hjá tjóni. Hefði stefndi ekki fengið greidd iðgjöld á tímabilinu sé ljóst að samningssambandi aðila hefði þá þegar verið rift, þ.e. vanskil myndu leiða til þess að hætt yrði að veita þjónustuna. Hlotist hefði af því mikið tjón fyrir stefnanda og kröfuhafa en telja verði ólíklegt að önnur tryggingarfélög hefðu verið tilbúin að stofna til viðskipta við stefnanda og veita honum þjónustuna án þess að fá greitt.

                Stefnandi byggir á því að greiðslur til stefnda, sbr. dómkröfur 1-8, verði ekki taldar ótilhlýðileg ráðstöfun í skilningi 141. gr. gjaldþrotalaga. Stefnandi hafi haft heimild og samþykki umsjónarmanns síns í greiðslustöðvun fyrir því að rekstri félagsins yrði fram haldið og nauðsynlegur kostnaður því samfara yrði greiddur. Greiðslur voru ekki inntar af hendi til stefnda í því skyni að gera hlut hans betri en annarra lánardrottna heldur voru þær greiðsla fyrir þjónustu sem var stefnanda nauðsynleg til að auka sem mest eignasafn sitt og voru þannig til þess fallnar og urðu raunverulega til þess að hægt var að bæta hag annarra lánardrottna. Þá mátti stefndi undir þessum kringumstæðum ekki ætla að greiðslur til hans væru ótilhlýðilegar. 

                Um greiðslur sem fengust með skuldajöfnun, sbr. dómkröfur 5 og 8, tekur stefndi fram að skuldajöfnun sé ekki sérstök riftunarástæða, heldur verði riftun slíkra greiðslna að grundvallast á riftunarreglum laga nr. 21/1991. Stefndi ítrekar að greiðslum til hans á tímabilinu, hvort sem er með innborgun stefnanda eða skuldajöfnun, verði ekki rift á grundvelli ákvæða XX. kafla gjaldþrotalaga. Vísar stefndi til fyrri umfjöllunar sinnar um ákvæði 139. gr. og 141. gr. gjaldþrotalaga.

                Stefndi tekur fram að gagnkröfur hans séu vegna réttar hans til tjónagreiðslna frá stefnda vegna tjóns á vátryggðum eignum á greiðslustöðvunartímabilinu. Ljóst sé að stefnandi hefði ekki eignast umræddar kröfur á hendur stefnda nema vegna þess að iðgjöld tímabilsins voru greidd. Eðlilegt er að tjónagreiðslur þessar séu skuldajafnaðar við iðgjöld í vanskilum.

                Til stuðnings kröfu sinni um sýknu byggir stefndi auk þess á því í öllum tilvikum að greiðslum til hans verði ekki rift og honum gert að endurgreiða féð þar sem reglur XVII. kafla laganna um skuldaröð hefðu leitt til þess að umræddar kröfur stefnda fengjust greiddar við gjaldþrotaskipti. Grundvallarskilyrði riftunarkröfu er að þrotabúið hafi orðið fyrir tjóni vegna ráðstöfunar. Stefndi byggir á því að svo hafi ekki verið í máli þessu.

                Verði ekki fallist á framangreint byggir stefndi á því að fjárkröfur stefnanda beri að lækka verulega með vísan til þeirra röksemda sem raktar eru í greinargerð þessari.   

IV.

Niðurstaða

Samkvæmt kröfugerð stefnanda á hendur stefnda, er krafist riftunar á átta greiðslum stefnanda til stefnda samtals að fjárhæð 6.210.136 krónur, sem inntar voru af hendi á greiðslustöðvunartímabili stefnanda, en félaginu var veitt heimild til greiðslustöðvunar á tímabilinu 3. maí 2011 til og með 24. nóvember s.á, með úrskurðum Héraðsdóms Vestfjarða, dags. 3. maí, 27. maí, 23. ágúst og 1. nóvember 2011. Með bréfi, dags. 25. nóvember 2011, óskaði stefnandi eftir heimild til að leita nauðasamninga og var sú beiðni samþykkt. Með úrskurði, dags. 13. janúar 2012 var heimild stefnanda til að leita nauðasamninga felld úr gildi og bú stefnanda í kjölfarið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Vestfjarða, dags. 17. janúar 2012.

                Samkvæmt gögnum málsins var greiðslum ráðstafað til kaupa á nýjum tryggingum stefnanda hjá stefnda og án þess að eldri skuldir væru greiddar, að undanskilinni greiðslu stefnanda sem fram fór 21. júlí 2011 með afhendingu á kröfu stefnanda á hendur Mjólkursamsölunni ehf. að fjárhæð 364.094 krónur, sbr. tölulið 3 í dómkröfum stefnanda. Samkvæmt skýringum stefnda við aðalmeðferð málsins var síðastgreindri greiðslu fyrir mistök ráðstafað inn á vangoldnar tryggingar frá árinu 2010.

                Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti er aðstoðarmanni skuldara heimilt að veita skuldaranum fyrir fram almennt samþykki til að verja fjármunum innan tiltekinna marka til að afla sér og fjölskyldu sinni daglegra nauðsynja eða til að standa straum af reglubundnum eða nauðsynlegum útgjöldum til að halda áfram rekstri sínum […].

                Fram kom í skýrslutöku aðstoðarmanns við greiðslustöðvun fyrir dóminum að veitt hefði verið leyfi til áframhaldandi viðskipta stefnanda á greiðslustöðvunartíma. Ekki hefði verið rætt sérstaklega um heimildir stefnanda til þess að greiða tryggingariðgjöld, en ljóst hefði verið að stefnandi hafi verið með tæki í rekstri og að hann hefði því gefið sér og talið nauðsynlegt að félagið væri með tryggingar. Telur dómurinn að líta verði svo á að með þessu hafi verið fullnægt skilyrðum 2. mgr. 19. gr. laga nr. 21/1991 um ráðstafanir stefnanda samkvæmt dómkröfuliðum 1-2 og 4-8.

                Víkur þá að ráðstöfunum stefnanda til stefnda samkvæmt dómkröfulið 3.

Samkvæmt 21. gr. laga nr. 21/1991, er skuldaranum óheimilt að greiða skuldir eða efna aðrar skuldbindingar sínar meðan á greiðslustöðvun stendur nema að því leyti sem víst er að skuldbindingin yrði efnd eða skuldin yrði greidd eftir stöðu sinni í skuldaröð ef til gjaldþrotaskipta kæmi á búi hans í kjölfar greiðslustöðvunar. Heimilt er þó annars að greiða skuld eða efna aðra skuldbindingu ef telja má víst að það sé nauðsynlegt til að varna verulegu tjóni. Ákvæði þetta þykir ekki eiga við í málinu. Með vísan til þessa og áðurgreindra skýringa stefnda um greiðslu fjárhæðarinnar vegna mistaka, er með vísan til 1. mgr. 139. gr. laga nr. 91/1991, fallist á kröfu stefnanda um riftun umræddrar greiðslu að fjárhæð 364.094 krónur. Ber stefnda að endurgreiða stefnanda greinda fjárhæð ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 27. desember 2012 til greiðsludags.

                Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, fellur málskostnaður milli aðila niður.

                Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

DÓMSORÐ:

Rift er greiðslu stefnanda á skuld við stefnda sem fram fór 21. júlí 2011 með afhendingu kröfu stefnanda á hendur Mjólkursamsölunni ehf. að fjárhæð 364.094 krónur. Að öðru leyti er stefndi sýkn af kröfum stefnanda.

                Stefndi greiði stefnanda 364.094 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 27. desember 2012 til greiðsludags.

                Málskostnaður er felldur niður.