Hæstiréttur íslands

Mál nr. 463/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Sönnunargögn
  • Lífsýni


                                     

Þriðjudaginn 26. ágúst 2014.

Nr. 463/2014.

A

(Hulda Rós Rúriksdóttir hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

Kærumál. Sönnunargögn. Lífsýni.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu A um að henni yrði veittur aðgangur að lífsýni B úr lífsýnasafni Rannsóknastofu Háskólans í meinafræði í því skyni að fá úr því skorið hvort hún væri dóttir hans.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.  

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. júní 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 18. júní 2014 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að henni yrði veittur aðgangur að lífsýni B úr lífsýnasafni Rannsóknastofu Háskólans í meinafræði. Kæruheimild er í f. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að framangreind krafa verði tekin til greina.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Málsatvikum er lýst í hinum kærða úrskurði. Eins og þar kemur fram er krafa sóknaraðila um að henni verði veittur aðgangur að lífsýni B gerð í því skyni að fá úr því skorið hvort hún sé dóttir hans. Er krafan annars vegar reist á XII. kafla laga nr. 91/1991, einkum síðari málslið 2. mgr. 77. gr. þeirra, og hins vegar á 9. gr. laga nr. 110/2000 um lífsýnasöfn.

Löggjafinn hefur markað þá stefnu með setningu barnalaga nr. 76/2003 að mál til feðrunar barns skuli rekið eftir fyrirmælum II. kafla þeirra laga. Í 1. mgr. 15. gr. laganna er svo fyrir mælt að dómari geti ákveðið að mannerfðafræðilegar rannsóknir verði gerðar á málsaðilum og öðrum þeim sem þar eru greindir. Þá segir í 1. mgr. 12. gr. að faðernismál sæti almennri meðferð einkamála að því leyti sem ekki sé mælt fyrir á annan veg í barnalögum. Samkvæmt því er ekkert til fyrirstöðu að sóknaraðili hafi uppi fyrrnefnda kröfu sína á grundvelli XII. kafla laga nr. 91/1991, en á hinn bóginn verður slík krafa ekki gerð með skírskotun til 9. gr. laga nr. 110/2000 sem er almennt ákvæði í samanburði við áðurgreint ákvæði barnalaga.

Svo sem rakið er í forsendum hins kærða úrskurðar ræðst úrlausn um það hvort fallist verði á kröfu sóknaraðila af því hvort það varði lögvarða hagsmuni hennar að fá aðgang að hinu umbeðna lífsýni samkvæmt síðari málslið 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991. Eins og greinir í úrskurðinum hefur sóknaraðili leitt líkur að því að H, sem er sonur  móður hennar og D, sé ekki albróðir hennar. Í ljósi þess hefur sóknaraðili samkvæmt 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar ríka hagsmuni af því að fá úr því skorið fyrir dómstólum hvort D eða einhver annar sé faðir hennar, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 28. janúar 2014 í máli nr. 800/2013. Í þeim dómi eru ákvæði 1. og 2. mgr. 10. gr. barnalaga skýrð svo að það sé skilyrði þess að faðernismál verði höfðað að líkur hafi verið færðar fyrir því að maður, sem talinn er faðir barns, hafi haft samfarir við móður barnsins á líklegum getnaðartíma þess.

Að þessu virtu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er fallist á með héraðsdómi að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að hún hafi lögvarða hagsmuni af því að krafa hennar um aðgang að lífsýni úr B verði tekin til greina. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur miðvikudaginn 18. júní 2014.

Með beiðni, móttekinni í Héraðsdómi Reykjavíkur 3. janúar sl., fer sóknaraðili, A, kt. [...], [...], [...], þess á leit að henni verði með úrskurði dómsins veittur aðgangur að lífsýni úr lífsýnasafni, varnaraðila, Rannsóknarstofu Háskólans í meinafræði, úr B, sem var fæddur [...] og lést [...], til að fá úr því skorið hvort hún sé dóttir hans.

Varnaraðili mótmælti kröfu sóknaraðila við þingfestingu málsins 27. janúar sl. Hann krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað.

Málið var tekið til úrskurðar 28. maí sl. að loknum munnlegum málflutningi þess.

I

Málavextir

Í beiðni sóknaraðila kemur fram um málavexti að hún sé fædd [...] og sé dóttir C, kt. [...], sem lést þegar sóknaraðili var 11 ára gömul. Samkvæmt fæðingarvottorði sé faðir sóknaraðila skráður eftirlifandi eiginmaður móður hennar, D, kt. [...]. Sóknaraðili telur sig hafa nokkra vissu fyrir því að D sé ekki blóðfaðir hennar og vill því leita leiða til að fullkanna þann orðróm sem hafi legið fyrir þess efnis. Telur hún sig hafa nokkra vissu fyrir því að B sem fæddur hafi verið [...], hafi verið faðir hennar.

Eins og fram komi í staðfestingu E yfirlæknis og formanns stjórnar Lífsýnasafns Rannsóknarstofu í meinafræði á Landspítalanum liggi fyrir lífsýni úr B. Sóknaraðili og systkini B, þau F, kt. [...] og G, kt. [...] hafi leitað til Landspítalans á árinu 2013 til að fá mannerfðafræðilega rannsókn til könnunar á mögulegum skyldleika þeirra og sóknaraðila. Tekið hafi verið blóð úr þeim og framkvæmd DNA rannsókn. Í niðurstöðu hennar frá 7. júní 2013 komi fram að ljóst þyki að erfðaefni sóknaraðila og systkinanna styðji skyldleika þeirra á milli. Til viðbótar þessari rannsókn hafi sóknaraðili og bróðir hennar, H, látið framkvæma DNA rannsókn á mögulegum skyldleika þeirra. H sé sonur móður sóknaraðila og eiginmanns hennar, D, föður sóknaraðila. Samkvæmt niðurstöðu þeirrar rannsóknar frá 19. febrúar 2013 séu líkur á að þau séu ekki alsystkini.

II

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili byggir kröfu sína á því að mikilvert sé fyrir hana að henni verði veittur aðgangur að lífsýni í Lífsýnasafni Rannsóknarstofu í meinafræði úr B til að fá úr því skorið hvort hún sé dóttir hans. Krafan sé sett fram með vísan til 2 mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991. Farið sé fram á úrskurð dómsins til að afla sýnilegs sönnunargagns til að sanna að B sé faðir hennar, þótt ekki hafi verið höfð uppi krafa vegna atviksins í dómsmáli. Telji sóknaraðili skilyrði ákvæðisins vera uppfyllt og að hún hafi lögvarða hagsmuni af því að fá niðurstöðu úr rannsókn lífsýnisins. Þá byggi sóknaraðili á því að sönnunarfærslan geti ráðið niðurstöðu um hvort hún láti verða af málshöfðun vegna faðernis hennar gagnvart dánarbúi B.

Sóknaraðili telur að sú niðurstaða sem fengist hafi úr DNA rannsóknum sem framkvæmdar hafi verið, leiði líkum að því að hugsanlegt sé að hún sé ekki dóttir D. Með vísan til þess óski hún eftir að dómur úrskurði um heimild hennar fyrir því að fá afhent lífsýni úr B, fæddum [...], sem varðveitt sé hjá lífsýnasafni Rannsóknarstofu í meinafræði á Landspítala.

Þá vísar sóknaraðili einnig til þess að hún hafi fengið leyfi Vísindasiðanefndar og Persónuverndar fyrir afhendingu lífsýnis úr B eins og gert sé ráð fyrir í lögum nr. 110/2000 um lífsýnasöfn. Formaður lífsýnasafnsins, E læknir, hafi hins vegar hafnað að afhenda umrætt lífsýni og tekið sé fram í bréfi hans 18. desember sl., að stjórn Lífsýnasafnsins hafi markað þá stefnu að afhenda ekki sýni í þeim tilgangi sem sóknaraðili æski, nema að úrskurður dómara liggi fyrir um það.

Um lagarök vísar sóknaraðili til ákvæða laga nr. 110/2000 um lífsýnasöfn, einkum 9. gr. hennar, og ákvæða laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sérstaklega XII. kafla laganna.

III

Málsatvik og lagarök varnaraðila

Varnaraðili byggir á því að skilyrði 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála séu ekki uppfyllt. Sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að hún eigi lögvarinna hagsmuna að gæta þar sem ekki liggi fyrir að líkindi séu fyrir því að hún sé dóttir B. Þá séu ekki uppfyllt skilyrði ákvæðisins um að líklegt sé að kostur á að afla sönnunar fari forgörðum, hvorki að því er varðar sönnunarstöðu almennt miðað við gögn málsins, né umrætt lífsýni. Sé ekkert komið fram um það að lífsýni í safni varnaraðila fari forgörðum í framtíðinni.

Þá telur varnaraðili afhendingu lífsýnis ekki verða byggða á ákvæðum laga nr. 110/2000 um lífsýnasöfn. Við skýringu 9. gr. laganna, sem sóknaraðili byggi á, einkum 5. mgr. hennar, beri að hafa í huga að lögin hafi ekki verið sett í þeim tilgangi að heimila aðgang að sýnum til að fá skorið úr um faðerni eða ætterni annað. Líta verði til 15. gr. læknalaga nr. 53/1988 og 12. gr. laga nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga um þagnarskyldu og ákvæða síðarnefndu laganna um sjúkraskrá, enda sé um að ræða upplýsingar til jafns á við þær sem felast í sjúkraskrá.

Þá byggir varnaraðili á því að þótt fyrir liggi rannsóknir um að hverfandi líkur séu á því að sóknaraðili og systkini hennar séu samfeðra hafi hún með því ekki gert líklegt að hún sé dóttir B heitins. Gera verði afar ríkar kröfur til þess og engan veginn sé unnt að telja framlögð gögn renna haldbærum stoðum undir þá tilgátu.

Framangreindu til stuðnings kveðst varnaraðili benda á að tilgangur sóknaraðila sé að fá úr því skorið hvort hún sé dóttir B, heitins. Rétt sé að sóknaraðili leiti úrræða á grundvelli II. kafla barnalaga nr. 76/2003 og óski þá eftir heimild til mannerfðafræðilegrar rannsóknar á grundvelli þeirra laga. Vísar varnaraðili til hliðsjónar til dóms Hæstaréttar frá 9. mars 2007 í máli nr. 116/2007. Telur varnaraðili þá leið eðlilega m.a. af tilliti til hagsmuna annarra er tengjast aðila máls og skyldmennum öðrum. Ekkert liggi fyrir um samþykki þeirra sem hluta eiga að málinu.

Með vísan til alls framangreinds telur varnaraðili að hafna verði kröfu sóknaraðila.

IV

Niðurstaða

Í máli þessu krefst sóknaraðili þess að fá aðgang að lífsýni úr B, sem fæddur var [...] og lést [...], sem varðveitt er í Lífsýnasafni Háskóla Íslands í meinafræði. Tilgangur sóknaraðila með beiðninni er sá að fá úr því skorið hvort hún sé dóttir B. Beiðni sína byggir sóknaraðili á 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála um öflun sönnunargagna án þess að mál hafi verið höfðað. Telur sóknaraðili að skilyrði ákvæðisins um lögvarða hagsmuni þess er beiðni setur fram eigi við í hennar tilviki þar sem hún henni sé mikilvægt að fá upplýsingar um faðerni sitt auk þess sem fyrir liggi niðurstöður rannsókna sem staðfesti að nokkru þann grun hennar að hún sé dóttir B. Varnaraðili telur sóknaraðila ekki hafa leitt líkur að því að hún hafi lögvarða hagsmuni, í skilningi ákvæðisins, af því að orðið verði við beiðni hennar auk þess sem ekki sé uppfyllt það skilyrði ákvæðisins að hætta sé á að kostur fari forgörðum. Ekkert slíkt sé uppi í málinu og engin hætta á því að umrætt lífsýni fari forgörðum í framtíðinni.

Að mati dómsins uppfyllir beiðni sóknaraðila skilyrði 1. og 2. mgr. 78. gr. laga nr. 91/1991. Dómurinn telur að líta verði svo á að beiðni sóknaraðila grundvallist fyrst og fremst á síðari málslið 2. mgr. 77. gr. laganna þar sem fram kemur að aðila sé, með sama hætti og greinir í fyrri málslið þess, heimilt að leita sönnunar fyrir dómi um atvik sem varða lögvarða hagsmuni hans og geta ráðið niðurstöðu um hvort hann láti verða af málshöfðun vegna þeirra. Eins og ákvæðið er skýrt í greinargerð eru þau skilyrði sett fyrir öflun slíkra gagna að aðili hafi annars vegar lögvarða hagsmuni af því að leita sönnunar og hins vegar að einhverju af eftirtöldu sé fullnægt; að kostur fari forgörðum að afla sönnunarinnar sé það ekki gert strax, að gagnaöflunin verði verulega erfiðari ef dráttur verður á henni eða að sönnunarfærslan geti ráðið niðurstöðu um hvort aðilinn láti verða af málshöfðun vegna viðkomandi atviks. Fram kemur í beiðni sóknaraðila að niðurstaða rannsóknar á lífsýninu geti haft áhrif á það hvort hún láti verða af málshöfðun á hendur dánarbúi B vegna faðernis hennar. Reynir því á það hvort sóknaraðili teljist hafa lögvarða hagsmuni, í skilningi ákvæðisins, af því að orðið verði við beiðni hennar.

Dómurinn telur ljóst að upplýsingar um faðerni sitt séu mikilvægar hverjum þeim sem eftir þeim óskar og að viðkomandi hafi hagsmuni af að fá slíkar upplýsingar. Sóknaraðili hefur lagt fram gögn er hún telur renna stoðum undir að B heitinn sé faðir hennar. Samkvæmt niðurstöðu DNA rannsóknar sem framkvæmd var á sýnum úr sóknaraðila og bróður hennar, H, kemur fram að líkur séu á að þau séu ekki alsystkini. Í niðurstöðu blóðrannsóknar sem gerð var á sýnum úr F, bróður B, kemur fram að veikur stuðningur sé fyrir því að F sé föðurbróðir sóknaraðila. Þá kemur fram í niðurstöðu rannsóknar sem gerð var á skyldleika milli F og G systur B annars vegar og sóknaraðila hins vegar að veikur stuðningur sé fyrir skyldleika milli þeirra tveggja og sóknaraðila. Dómurinn getur ekki fallist á að með niðurstöðum þessara rannsókna hafi sóknaraðili leitt slíkar líkur að því að B heitinn sé faðir hennar þannig að hún teljist hafa lögvarða hagsmuni, í skilningi síðari málsliðar 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991, af því að fá aðgang að umræddum lífsýnum. Er því ekki unnt að fallast á beiðni hennar á grundvelli þessa ákvæðis.

Þá telur dómurinn að ekki verði framhjá því litið að löggjafinn hefur markað málum af þessu tagi þann farveg sem kveðið er á um í barnalögum nr. 76/2003 en samkvæmt 15. gr. þeirra laga er hægt að krefjast mannerfðafræðilegra rannsókna í þeim tilgangi sem sóknaraðili æskir. Hvað sem líður túlkun á heimild 5. mgr. 9. gr. laga nr. 110/2000 um lífsýnasöfn, um notkun lífsýna í öðrum tilgangi en ætlað var þegar þau voru tekin, er ljóst að enga tilvísun er þar að finna til þess að aðgangur að sýnum samkvæmt ákvæðum þeirra laga „vegna erfðamála“, eins og segir í dæmaskyni í greinargerð með ákvæðinu, komi í stað þeirra mannerfðafræðilegra rannsókna sem mælt var fyrir um í þágildandi barnalögum nr. 90/1992, en umrædd 15. gr. laga nr. 76/2003 svarar til 48. gr. eldri laga, eða sé ætlað að standa samhliða úrræðum barnalaga. Allt að einu yrði sóknaraðili að sýna fram á að hún hefði hagsmuni að lögum fyrir því að fá aðgang að umræddu lífsýni en með vísan til niðurstaðna framangreindra rannsókna verður ekki talið að það hafi hún gert. Að mati dómsins verður aðgangur sóknaraðila að umræddu lífsýni því ekki heldur byggður á ákvæðum laga nr. 110/2000.

Með hliðsjón af öllu ofansögðu er beiðni sóknaraðila því hafnað.

Aðilar hafa ekki gert kröfu um málskostnað úr hendi hins og úrskurðast hann því ekki.

Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Hafnað er kröfu sóknaraðila, A, um að henni verði veittur aðgangur að lífsýni úr lífsýnasafni varnaraðila, Rannsóknarstofu Háskólans í meinafræði, úr B, sem var fæddur var [...] og lést [...].