Hæstiréttur íslands
Mál nr. 486/1998
Lykilorð
- Sjómaður
- Vinnusamningur
- Veikindalaun
|
|
Fimmtudaginn 20. maí 1999. |
|
Nr. 486/1998. |
Skagstrendingur hf. (Skarphéðinn Þórisson hrl.) gegn Ingva Sveini Eðvarðssyni (Steingrímur Þormóðsson hdl.) |
Sjómenn. Vinnusamningur. Laun í veikindum.
I var háseti á skipi í eigu S. Hann fór að finna til bakverkja í veiðiferð með skipinu og leitaði læknis fjórum dögum eftir að hann kom í land, einum degi áður en næsta veiðiferð átti að hefjast. Var hann þá að mati læknis orðinn óvinnufær. Vinnufyrirkomulag um borð í skipinu var þannig að hásetar voru við vinnu í tvær ferðir en í launalausu leyfi þá þriðju. Þegar I leitaði læknis hafði hann þegar farið í tvær veiðiferðir, en jafnframt óskað eftir því að fara í þriðju ferðina. Krafðist I launa úr hendi S fyrir þann tíma sem hann var óvinnufær. Talið var nægilega leitt í ljós að I hefði, áður en umræddri veiðiferð lauk, verið orðinn lítt fær til erfiðisvinnu vegna sjúkdóms. Því var staðfest niðurstaða héraðsdóms um skyldu S til að greiða I laun fyrir þann tíma sem hann var óvinnufær.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. desember 1998. Krefst hann sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Af hálfu stefnda eru dómkröfur reistar á því að hann hafi á ráðningartíma sínum hjá áfrýjanda orðið óvinnufær vegna sjúkdóms. Í stefnu til héraðsdóms kemur meðal annars fram, að stefndi hafi í október og nóvember 1997 verið farinn að finna fyrir miklum verkjum í baki við vinnu sína um borð í togara áfrýjanda Arnari HU 1. Stefndi hafi leitað læknis vegna þess að þrautum þessum linnti ekki.
Ágúst Óðinn Ómarsson, sem gegndi störfum stýrimanns á skipinu í veiðiferðinni frá 9. október til 13. nóvember 1997, bar fyrir dómi að hann hafi afhent stefnda lyf um 7. nóvember 1997 vegna þess að hann hafi borið sig illa sökum bakverkja. Árni Ólafur Sigurðsson skipstjóri bar einnig fyrir dómi að stefndi hefði oft kvartað um bakverki og fengið sterk verkjalyf.
Arnar HU 1 kom til hafnar á Skagaströnd í lok greindrar veiðiferðar 13. nóvember 1997 og fór stefndi þá til Reykjavíkur með nokkrum öðrum skipverjum. Hann leitaði til Ólafs F. Magnússonar læknis í Reykjavík 17. nóvember vegna bakverkja. Í vottorði læknisins segir, að stefndi hafi þá verið orðinn bakveikur í kjölfar erfiðisvinnu um borð í frystitogara og „greinilega ófær um að fara á sjó daginn eftir.“ Ólafur læknir staðfesti vottorð sitt fyrir dómi og gat þess, að augljóst hafi verið að stefndi myndi verða óvinnufær um nokkurt skeið. Vísaði læknirinn stefnda til Eggerts Jónssonar bæklunarlæknis, sem skoðaði hann degi síðar. Liggja fyrir þrjú vottorð frá bæklunarlækninum þess efnis að stefndi hafi verið óvinnufær vegna sjúkdóms frá 18. nóvember. Af fyrsta vottorðinu má ráða að það sé ritað vegna samtals við útgerðarstjóra áfrýjanda. Í hinum tveimur vottorðunum segir meðal annars, að stefndi hafi verið óvinnufær frá þeim degi til 23. desember 1997. Í einu vottorðanna er haft eftir stefnda, að hann hafi fengið verki í mjóbak við netavinnu um borð í skipinu og þau einkenni hafi ágerst.
Svo sem greinir í héraðsdómi óskaði stefndi eftir að fara í veiðiferð, sem hófst 18. nóvember 1997. Hins vegar er ekki leitt í ljós, að hann hafi leitað læknis eða tilkynnt áfrýjanda að hann væri óvinnufær eftir að honum varð ljóst, að þessari ósk hans hafði verið hafnað. Útgerðarstjóri áfrýjanda staðfesti fyrir dómi, að stefndi hafi tilkynnt um veikindi 17. nóvember 1997 og sent læknisvottorð til áfrýjanda í framhaldi af því.
Af framangreindu verður að telja nægilega leitt í ljós, að stefndi hafi áður en veiðiferð lauk 13. nóvember 1997 verið orðinn lítt fær til erfiðisvinnu vegna sjúkdóms. Með vísun til læknisvottorða þykir fullsannað, að stefndi hafi verið orðinn óvinnufær ekki síðar en 17. nóvember. Á launaseðli frá áfrýjanda eru stefnda reiknuð laun fyrir fjörutíu ráðningardaga frá 9. október til og með 17. nóvember 1997, en hann var lögskráður úr skiprúmi 18. nóvember. Er því ekki fallist á með áfrýjanda að stefndi hafi verið í launalausu leyfi í merkingu 2. málsl. 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 þegar hann varð óvinnufær.
Þykir mega staðfesta héraðsdóm með ofangreindum athugasemdum og að öðru leyti með skírskotun til forsendna hans, en þó þannig að málskostnaður verður ákveðinn í einu lagi í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Áfrýjandi, Skagstrendingur hf., greiði stefnda, Ingva Sveini Eðvarðssyni, samtals 300.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 19. október 1998.
Ár 1998, mánudaginn 19. október er dómþing Héraðsdóms Norðurlands vestra háð af Halldóri Halldórssyni, dómstjóra í réttarsal dómsins að Skagfirðingabraut 21, Sauðárkróki. Fyrir er tekið: Mál nr. E-10/1998. Ingvi Sveinn Eðvarðsson gegn Skagstrendingi hf.
Í málinu er kveðinn upp svofelldur dómur:
I.
Mál þetta, sem tekið var til dóms að loknum munnlegum málflutningi 21. september sl., er höfðað af Ingva Sveini Eðvaldssyni, kt. 300469-5159, Bankastræti 14, Skagaströnd á hendur Skagstrendingi hf., kt. 580269-6649, Túnbraut 1-3. Skagaströnd, með stefnu birtri 26. febrúar 1998.
Dómkröfur stefnanda:
Stefnandi krefst þess, að stefnda verði gert að greiða sér 1.057.094 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá þingfestingu máls þessa þann 4. mars 1998 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar að skaðlausu og að virðisaukaskattur verði lagður á málflutningsþóknun.
Dómkröfur stefnda.
Stefndi krefst þess aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda en til vara að stefnukröfur verði lækkaðar verulega. Stefndi gerir og kröfu um að stefnandi greiði honum málskostnað að skaðlausu.
II.
Málavextir.
Stefnandi var skipverji á Arnari Hu 1, sem er í eigu stefnda í u.þ.b. 4 ár. Frá því um áramótin 1996-1997 var svokallað skiptimannakerfi um borð í skipinu þ.e.a.s. hásetar voru við vinnu um borð í skipinu í tvær veiðiferði en í launalausu fríi þá þriðju. Mögulegt var þó að fara þrjár veiðiferðir í röð ef samkomulag var um það við skipstjóra. Stefnandi kveðst hafa gert samkomulag við skipstjóra um að hann færi næstu veiðiferð en stefndi segir stefnanda hafa átt að fara í frí þann túr.
Að sögn stefnanda gerðist það í október eða nóvember 1997 að hann fór að finna til verkja í baki þegar álag var mikið á bakinu. Þann 9. október 1997 fór hann í veiðiferð með skipinu og fann í þeim túr til verkja og bað af þeim sökum um verkjalyf, sem hann fékk hjá Ágústi Ómarssyni, stýrimanni. Stefnandi segir verkina ekki hafa horfið við þetta og hann liðið miklar þrautir í veiðiferðinni. Hann hafi þó unnið sín verk um borð í skipinu alla veiðiferðina sem lauk 13. nóvember. Stefnandi heldur því einnig fram, að hann hafi í júní eða júlímánuði sama ár kastast til vegna öldu sem kom upp skutrennuna og lent á bakinu. Hann hafi þó ekki tilkynnt þetta sem slys þar sem hann hafi talið að verkirnir liðu fljótlega hjá. Stefndi hlutaðist til um að lögreglan rannsakaði meint slys stefnanda en niðurstaða rannsóknarinnar var sú að ekkert benti til þess að stefnandi hafi orðið fyrir slysi.
Stefnandi leitaði ekki til læknis strax og komið var í land 13. nóvember heldur kveðst hann hafa vonast til að verkirnir liðu hjá en það hafi þeir ekki gert og því hafi hann farið til læknis 17. nóvember daginn áður en næsta veiðiferð hafi átt að hefjast. Stefnandi kveðst hafa tilkynnt stýrimanni um forföll sín en hann hafi sagt sér að tilkynna þetta til útgerðarstjóra stefnda sem hann hafi gert. Stefndi kveður aftur á móti að stefnandi hafi tilkynnt veikindi sín til skipstjóra sem hafi sagt stefnanda að veikindin skiptu engu máli þar sem hann hafi ekki átt að fara næstu ferð.
Ólafur Magnússon, heimilislækir stefnanda gaf út vottorð þess efnis að stefnandi væri óvinnufær og vísaði honum jafnframt til sérfræðings. Þann 18. nóvember hitti stefnandi Eggert Jónsson, bæklunarlækni sem með vottorði dagsettu 18. mars 1998 úrskurðaði hann óvinnufæran með öllu frá 18. nóvember 1997 til 23. desember sama ár.
Stefnanda var síðan eins og öðrum undirmönnum á Arnari sagt upp störfum með bréfi dagsettu 24. nóvember 1997. Í bréfinu er ástæða uppsagnarinnar sögð vera fyrirhugað verkfall vélstjóra. Stefnandi segir að uppsagnarbréfið hafi ekki borist honum til Reykjavíkur fyrr en í byrjun desember 1997 en það hafi verið sent á skráð heimilisfang sitt á Skagaströnd.
Að sögn stefnda sögðu skipverjar upp skiptimannakerfinu þegar liðnir voru nokkrir dagar af veiðiferðinni sem hófst 18. nóvember og vegna þess og fyrirhugaðs verkfalls vélstjóra hafi undirmönnum á skipinu verið sagt upp störfum en ljóst væri að ef skiptimannakerfi væri ekki til staðar þyrfti færri skipverja til að manna skipið.
Framburður fyrir dómi.
Stefnandi kveðst hafa hafa fundið til bakverkja í tveim síðustu veiðiferðunum sem hann fór á Arnari HU. Hann hafi sagt skipstjóra og stýrimanni frá veikindum sínum og Ágúst Ómarsson, stýrimaður hafi gefið honum lyf vegna þessa. Hann kveðst hins vegar ekki hafa fengið lyf við öðrum kvillum og raunar hafi hann ekki verið frá vinnu vegna veikinda þau 4 ár sem hann starfaði hjá stefnda.
Stefnandi kveðst í þrígang hafa rætt við Árna skipstjóra um að fá að fara í þriðju veiðiferðina en hann hafi sagt að erfitt væri að svara því á þeirri stundu. Stefnandi kveðst hafa vonast til að honum batnaði í bakinu þannig að hann gæti farið í þriðja túrinn en hann hafi vantað peninga og því mjög gjarnan viljað fara í veiðiferðina.
Stefnandi segist hafa greint Árna skipstjóra frá veikindum sínum eftir að ljóst varð að hann kæmist ekki í næstu veiðiferð. Árni hafi þá sagt það slæmt en jafnframt sagt sér að tala við útgerðarstjóra. Útgerðarstjórinn hafi brugðist illa við og sagst ætla að bera málið undir trúnaðarlækni LÍÚ. Skömmu síðar hafi útgerðarstjórinn hringt aftur og sagt að mat útgerðarinnar væri að hann væri að fara í launalaust frí þar sem hann hafi ekki átt að fara í næstu veiðiferð.
Að sögn stefnanda var Eggert Jónsson bæklunarlæknir sammála honum um að veikindi hans hafi upphaflega stafað af því er hann datt um sumarið 1997. Hann segist hafa farið nokkrum sinnum til Eggerts en ekki mætt í pantaða tíma vegna þess að hann hafi verið búinn að gera æfingar eins og læknirinn hafði ráðlagt og honum hafi liðið betur þegar að pöntuðum tíma kom. Stefnandi segir líðan sína eftir slysið þokkalega en hann hafi verið frá vinnu stundum vegna bakverkja.
Gylfi Guðbjörn Guðjónsson, útgerðarstjóri stefnda segir að stefnandi hafi ekki fengið greidd laun þar sem hann hafi að mati stefnda verið í launalausu leyfi þegar hann varð fyrir bakmeiðslum sínum. Það sé mat stefnda að eftir að áhöfnin er komin í land sé hún ekki á vegum útgerðarinnar og komin í leyfi. Hann ber að stefnandi hafi sent sér læknisvottorð eftir að hann tjáði sér um bakmeiðslin og að vegna þeirra kæmist hann ekki í næstu ferð.
Mætti greinir frá því að það þurfi eina og hálfa áhöfn á skipið með skiptimannakerfi eins og var um borð. Eftir að áhöfnin hafnaði skiptimannakerfinu hafi þurft að fækka í þessum hópi og þess vegna hafi öllum undirmönnum verið sagt upp og einnig hafi fyrirhugað verkfall vélstjóra haft áhrif. Hann kveðst hafa vonað að skiptimannakerfið kæmist aftur á og því hafi höfnun þess ekki verið tilgreind sem ástæða uppsagnar í uppsagnarbréfi. Þar sem stefnandi var ekki um borð í skipinu þegar uppsögnin fór fram hafi honum, eins og öðrum sem voru í landi, verið sent uppsagnarbréf í ábyrgðarpósti.
Mætti ber að venja hafi verið hjá fyrirtækinu að afskrá áhöfn ekki af skipinu fyrr en skipið lætur úr höfn í næstu veiðiferð.
Vitnið Ólafur Friðrik Magnússon, heimilislæknir kveðst staðfesta vottorð sitt sem liggur frammi í málinu. Vitnið segir stefnanda hafa komið til sín þann 17. nóvember og kveðst muna eftir því þegar stefnandi kom til hans. Vitnið lýsti ástandi stefnanda m.a. þannig: ,,það blasti við manni að hann gekk ekki óhaltur hann var bæði haltur, skakkur og hrjáður þannig að það blasti við mér að hann var augljóslega óvinnufær til erfiðisvinnustarfa.” Vitnið segist ekki geta sagt hver var ástæða veikinda stefnanda en kveðst ekki hafa ástæðu til að draga í efa frásögn stefnanda sjálfs.
Vitnið Ágúst Óðinn Ómarsson stýrimaður kveðst hafa látið stefnanda hafa lyf vegna bakverkja í nóvember 1997. Vitnið kveðst hafa séð að stefnandi bar sig illa en hins vegar sé það ekki óalgengt að menn beri sig illa við þessa erfiðisvinnu.
Vitnið Árni Ólafur Sigurðsson, skipstjóri á Arnari HU staðfestir yfirlýsingu sem hann gaf og liggur fyrir í málinu. Vitnið segir að stefnandi hafi ekki verið endurráðinn þar sem fyrirsjáanlegt var að fækka þurfti í áhöfninni vegna niðurfellingar á skiptimannakerfinu og hann bjó ekki á Skagaströnd. Vitnið kveðst ekki muna hvort hann sagði stefnanda að tala við útgerðarstjórann þegar stefnandi hringdi í hann til að tilkynna að hann kæmist ekki í túrinn. Vitnið kannast við að stefnandi hafi fengið verkjatöflur við einhverjum kvillum. Vitnið segir að hann hafi ekki lofað stefnanda plássi í þriðja túrinn enda hafi aðrir verið á undan honum í röðinni með pláss og aldrei hafi staðið til að stefnandi færi þriðja túrinn og því telji hann ekki skipta neinu máli þó stefnandi hafi ekki komist vegna meiðsla.
Vitnið Guðjón Guðjónsson, stýrimaður á Arnari HU var skipstjóri á skipinu í október 1997 staðfestir yfirlýsingu sína sem liggur frammi í málinu. Vitnið kveðst ekki muna eftir að sér hafi verið skýrt frá því að stefnandi hafi fengið verkjalyf í þeirri veiðiferð enda sé alvanalegt að skipverjar fái verkjalyf jafnt stefnandi sem aðrir. Vitnið kannast við að stefnandi hafi óskað eftir að fá að fara í þriðju veiðiferðina í röð en hann hafi sagt að því gæti hann ekki svarað og bent stefnanda á að tala við skipstjóra.
III.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi byggir kröfu sína á því, að hann hafi orðið óvinnufær vegna bakverks í veiðiferðinni 9. október til 13. nóvember 1997, en fyrst þá hafi verkurinn orðið honum til mikilla baga. Af þessum sökum skipti ekki máli hvort hann átti að vera í fríi næstu veiðiferð á eftir eða ekki. Þá bendir hann á að í næstu veiðiferð á undan hafi bak hans stífnað er unnið var í miklum törnum og þá hafi hann fengið verkja- og bólgueyðandi lyf hjá skipstjóra. Stefnandi telur að verki þessa megi rekja til þess að fyrr um sumarið hafi hann kastast til af völdum sjólags og komið illa niður á bakið. Þetta slys hafi hins vegar ekki verið tilkynnt til skipstjórnenda enda hafi hann vonast til að verkirnir liðu hjá.
Af þessum sökum telur stefnandi augljóst að bak hans hafi, hvort sem það var vegna slyss eða langvarandi álags, gefið sig við vinnu í þágu stefnda og að hann hafi orðið óvinnufær á ráðningartíma og þar með eigi hann rétt á launum skv. 36. gr. sjómannalaga.
Stefnandi byggir kröfu sína þannig upp, að hann reiknar saman hásetahlut í veiðiferðum sem hann hafði farið á árinu 1997 og hækkar þá tölu um 50%. Miðar hann við aflahlut, álag á aflahlut, hlífðarfatapeninga, fæðispeninga, starfsaldursálag, dagvinnu, yfirvinnu og orlof án alls frádráttar.
Tölulega sundurliðast hún þannig:
|
Meðalhásetahlutur frá 18. nóv. 97 til 18. jan 98 487.619x150% |
731.429 krónur |
|
Kauptrygging skv. kjarasamningi 70.629 krónur x3 |
211.887 krónur |
|
Uppsagnarfrestur í 7 daga skv. kjarasamn. 487.619/30= 16.254x7 |
113.778 krónur |
|
Samtals |
1.057.094 krónur |
Varðandi óvinnufærni sína vísar stefnandi til læknisvottorðs Eggerts Jónssonar læknis.
Stefnandi byggir einnig á því, að stefndi beri sönnunarbyrgði í máli þessu, þannig verði stefndi að sanna að bakverkir hans tengist ekki störfum hans í þágu stefnda og að óvinnufærni hans af þessum sökum sé ekki ástæða uppsagnarinnar eða ástæða þess að stefnandi var ekki endurráðinn á skipið. Í þessu sambandi bendir stefnandi á að stefndi hlutaðist ekki til um að hann væri skoðaður af trúnaðarlækni stefnda.
Stefnandi byggir einnig á því, að samið hafi verið um að hann færi í næstu veiðiferð þrátt fyrir skiptimannakerfið.
Loks byggir stefnandi á þeirri málsástæðu að uppsögnin frá 24. nóvember 1997 brjóti gegn 4. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938.
Varðandi lagarök vísar stefnandi til 36. gr. sjómannalaga nr. 20/1987 og kjarasamnings sem í gildi er milli Sjómannasambands Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna. Einnig vísar hann til 25. gr. nefndra sjómannalaga. Kröfu um málskostnað byggir hann á 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og 6. tl. 175. gr. siglingarlaga nr. 3471985.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi telur stefnanda þegar hafa fengið fullt endurgjald fyrir vinnu sína í þágu stefnda. Stefndi telur ósannaðar og mótmælir fullyrðingum stefnanda í þá veru að hann hafi orðið fyrir slysi um borð í Arnari HU og óvinnufærni hans megi rekja til þess. Í þessu sambandi bendir hann á að stefnandi sé tvísaga hvað slysatíma varðar. Í umboði til lögmanns síns greini stefnandi frá því að slys hafi átt sér stað við vinnu á dekki um miðjan september 1997. Lögreglan á Blönduósi hafi verið beðin um að rannsaka hvort eitthvað slys hafi orðið. Við rannsóknina hafi komið í ljós að skipstjórnarmenn og þeir sem voru á dekki með stefnanda kannist ekki við neitt slys. Í stefnu sé því hins vegar haldið fram að slysið hafi átt sér stað í júní 1997. Í læknisvottorði sem stefnandi hefur lagt fram sé hann sagður óvinnufær vegna sjúkdóms en ekki slyss. Þessar misvísanir og rangfærslur í málatilbúnaði stefnanda eigi að leiða til sýknu. Augljóst sé að stefnandi sé að reyna að verða sér úti um laun í launalausu fríi á röngum forsendum.
Stefndi mótmælir einnig þeirri fullyrðingu stefnanda sem rangri og ósannaðri að stefnanda hafi verið sagt upp störfum vegna veikinda hans. Uppsögnin hafi komi til vegna þess að áhöfnin á Arnari HU samþykkti að hætta með skiptimannakerfið og einnig vegna yfirvofandi verkfalls vélstjóra. Með því að skiptimannakerfið var fellt hafi þurft að fækka í áhöfn en það sé regla hjá stefnda að láta heimamenn ganga fyrir þegar ráðið er í áhöfn skipa hans.
Stefnanda hafi verið sagt upp með lög- og samningsbundnum uppsagnarfresti og sem hafi verið liðinn þegar skipið kom úr næstu veiðiferð og stoppaði í landi fram yfir jól. Af þessum sökum eigi stefnandi ekki rétt á neinum frekari launagreiðslum vegna uppsagnarinnar.
Stefndi telur því að stefnandi eigi hvorki rétt til launa með vísan til 36. gr. sjómannalaga né vegna uppsagnarinnar.
Varakröfu sína byggir stefndi á því, að verði talið að stefnandi skuli eiga rétt til frekari launa vegna þess að hann gat ekki notið frís vegna veikinda beri að lækka kröfur hans verulaga. Þá er þess krafist að stefnanda verði ekki reiknuð laun til lengri tíma en hann var óvinnufær eða til 23. desember 1997.
Hvað lagarök varðar vísar stefndi einkum til 9., 27., 28. og 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 og kjarasamnings SSÍ og LÍÚ. Kröfu um málskostnað reisir hann á 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
IV.
Niðurstaða.
Í máli þessu verður fyrst að ákvarða hvenær stefnandi varð óvinnufær í skilningi sjómannalaga og þá hvort það gerðist á ráðningartíma hans eða hvort hann var þá í launalausu leyfi.
Fyrir liggur að stefnandi fór til vitnisins Ólafs F. Magnússonar læknis þann 17. nóvember 1997 og bar vitnið að stefnandi hafi augljóslega verið óvinnufær er hann kom til hans. Stefnandi bar sjálfur að hann hafi harkað af sér í síðustu veiðiferð sinni en jafnframt hafi hann tekið verkjalyf. Aðspurður sagðist vitnið Árni Ólafur Sigurðsson stýrimaður hafa látið stefnanda hafa verkjalyf vegna bakverkja í nóvember 1997. Af þessum sökum telur dómurinn nægilega sannað að stefnandi hafi í raun verið orðinn óvinnufær vegna bakverkja í skilningi 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga áður en veiðiferðinni lauk þrátt fyrir að hann hafi unnið sín verk um borð í skipinu og sóst eftir að fara þriðju veiðiferðina í röð. Af hálfu stefnda var ekki hlutast til um að stefnandi færi til trúnaðarlæknis stefnda sem þá hefði getað gefið vottorð um ástand stefnanda. Hér verður að að byggja á framburði stefnanda í þá veru að hann hafi vonast til að verkirnir liðu hjá áður en næsta veiðiferð hæfist. Einnig verður að horfa til þess að stefnandi var lögskráður á skipið allt þar til það lagði úr höfn 18. nóvember 1997 eða daginn eftir að hann varð óvinnufær. Samkvæmt þessu verður lagt til grundvallar að stefnandi hafi í raun orðið óvinnufær á ráðningartíma hans hjá stefnda.
Við úrlausn málsins verður annað ekki talið sannað en að ekki hafi verið búið að ráða stefnanda til að fara næstu veiðiferð en hann átti að vera í landi samkvæmt skiptimannakerfi því sem notað var og því í launalausu fríi. Þegar atvikum hefur verði háttað með þessum hætti hefur dómaframkvæmd verið á þá lund að skipverjum hafa verið dæmd staðgengilslaun samkvæmt 36. gr. sjómannalaga.
Þar sem stefnandi varð óvinnufær á ráðningartíma á hann, sbr. 36. gr. sjómannalaga rétt á launum meðan hann var óvinnufær. Í málinu liggur frammi vottorð Eggerts Jónssonar, bæklunarlæknis dags. 18. mars 1998 en í því kemur fram að stefnandi hafi komið til hans þann 18. nóvember 1997. Þá hafi hann verið stirður í baki en gat þó beygt sig en átt erfiðara með að rétta úr sér. Þann 25. nóvember kom stefnandi aftur til Eggerts og var líðan hans þá skárri en dagamunur. Var honum ráðalagt að fara í sund og heita potta. Þann 23. desember 1997 kom stefnandi í síðasta sinn til Eggerts og var skárri en ekki fullgóður. Stefnandi mætti síðan ekki í pantaða tíma 3. og 5. febrúar 1998. Hann bar sjálfur fyrir dóminum að það hafi verið vegna þess að líðan hans hafi verið orðin betri enda hafi hann farið að ráðum læknisins. Í nefndu vottorði Eggerts er ekki kveðið á um tímalengd óvinnufærni stefnanda. Hins vegar ritaði hann þann 23. desember 1997 annað vottorð sem lagt hefur verið fram í málinu og þar kemur fram að stefnandi hafi verið óvinnufær frá 18. nóvember 1997 til og með 23. desember 1997. Með þessum vottorðum Eggerts Jónssonar og með tilliti til þess sem áður er rakið um vottorð og framburð Ólafs F. Magnússonar læknis verður að telja sannað að stefnandi var óvinnufær frá 17. nóvember til 23. desember 1997. Í vottorði Eggerts Jónssonar frá 18. mars 1998 kemur hins vegar ekkert fram um óvinnufærni stefnanda eftir 23. desember 1997 enda mætti stefnandi ekki til læknisins þrátt fyrir að hann ætti pantaða tíma. Þar sem stefnandi hefur ekki lagt fram nein gögn um óvinnufærni sína eftir 23. desember 1997 verður ekki hjá því komist að telja hann vinnufæran að þeim degi liðnum..
Eins og áður er rakið var stefnanda sagt upp störfum hjá stefnda með bréfi dagsettu 24. nóvember 1997. Á þessum tíma hafði stefnandi greint frá veikindum sínum og telur hann þau hafa verið ástæðu uppsagnar sinnar. Á þetta verður ekki fallist gegn andmælum stefnda enda er ljóst að öllum undirmönnum var sagt upp störfum en ekki stefnanda einum. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. samnings milli Verkalýðs og sjómannafélags Skagastrandar og stefnda, á undirmaður sem starfað hefur hjá félaginu í meira en 3 ár rétt á 21 dags uppsagnarfresti. Stefndi verður að bera hallann af því að uppsagnarbréfið barst honum ekki fyrr en um í byrjun desember þar sem það var sent í ábyrgðarpósti á skráð heimilisfang hans strax eftir dagsetningu þess. Verður því við það miðað að uppsagnarfrestur stefnanda hafi verið liðinn þegar hann varð aftur vinnufær þann 23. desember 1997 og á hann því ekki rétt á launum í uppsagnarfresti.
Stefnandi byggði á því við aðalmeðferð málsins að uppsögnin hafi brotið gegn 4. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur. Þessari málsástæðu var mótmælt sem of seint fram kominni og verður ekki um hana fjallað við úrlausn máls þessa.
Undir rekstri málsins hefur verið lagður fram launaseðill háseta vegna veiðiferðarinnar sem hófst 18. nóvember og stóð til 23. desember. Af launaseðli þessum má sjá að laun háseta voru, þegar allt er talið, 781.061. króna. Nánar sundurliðast þau þannig:
|
Aflahlutur |
608.008 krónur |
|
Álag á aflahlut |
60.801 krónur |
|
Hlífðarfatapeningar |
3.857 krónur |
|
Fæðispeningar |
28.728 krónur |
|
Starfsaldursálag |
3.492 krónur |
|
Yfirvinna |
4.074 krónur |
|
Orlof |
72.101 krónur |
|
Samtals laun |
781.061 krónur |
Hér háttar svo til að þetta er sama tímabil og stefnandi var óvinnufær nema hvað hann varð óvinnufær þann 17. nóvember en á þeim tíma var skipið ekki á sjó og því ekki um tekjur að ræða hjá skipverjum. Við ákvörðun launagreiðslu til stefnanda skal, eins og áður er getið, miða við staðgengilslaun sbr. 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga og átti hann því ekki að missa neins í launum sínum hvaða nafni sem þau nefnast meðan hann var óvinnufær og verður krafa hans því tekin til greina með þeirri upphæð sem að framan er getið með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá þingfestingardegi, 4. mars 1998.
Með hliðsjón af niðurstöðu málsins þykir rétt að stefndi greiði stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 200.000 krónur að viðbættum virðisaukaskatti.
Halldór Halldórsson, dómstjóri kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Stefndi, Skagstrendingur hf., greiði stefnanda Ingva Sveini Eðvarðssyni, 781.061 krónu með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga frá 4. mars 1998 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 200.000 krónur í málskostnað og hefur þá ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts.