Hæstiréttur íslands

Mál nr. 763/2017

Dalsnes ehf. (Kristján Gunnar Valdimarsson hdl.)
gegn
íslenska ríkinu (Óskar Thorarensen hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Einkahlutafélag
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Kærumálsgögn
  • Frávísunarúrskurður staðfestur

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem máli D ehf. gegn Í til ógildingar á úrskurði yfirskattanefndar og úrskurði ríkisskattsstjóra var vísað frá dómi. Í dómi Hæstaréttar kom fram að breyting ríkisskattstjóra á skattalegu eigin fé D ehf. hefði engin áhrif haft á gjöld D ehf. og var því fallist á þá niðurstöðu hins kærða úrskurðar að D ehf. hefði ekki sýnt fram á að hann hefði lögvarða hagsmuni af því að fá efnisdóm um kröfu sína á hendur Í. Þá var talið engu breyta þótt hluthafar D ehf. kynnu að telja sig hafa lögvarinna hagsmuna að gæta. Var því hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. desember 2017, en kærumálsgögn bárust réttinum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 2017, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði var skattalegt eigið fé sóknaraðila vegna auðlegðarskatts hækkað úr 1.063.223.798 krónum í 5.275.417.051 krónu með úrskurði ríkisskattstjóra 17. febrúar 2016. Í úrskurðinum kom fram að breytingin leiddi ekki til gjaldabreytinga hjá sóknaraðila, en gæti leitt til endurákvörðunar viðbótarauðlegðarskatts hjá hluthöfum hans.

Þar sem framangreind breyting hafði engin áhrif á gjöld sóknaraðila, hvorki á gjaldárinu 2013 né til frambúðar, verður fallist á þá niðurstöðu hins kærða úrskurðar að sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að fá efnisdóm um kröfu sína á hendur varnaraðila. Þá getur engu breytt þótt hluthafar sóknaraðila kunni að telja sig hafa lögvarinna hagsmuna að gæta, þar sem úrskurður ríkisskattstjóra tekur eingöngu til sóknaraðila og þeir eiga ekki aðild að máli þessu. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Samkvæmt 4. tölulið 4. gr. reglna nr. 677/2015 um kærumálsgögn í einkamálum, sem settar voru með stoð í 6. mgr. 147. gr. laga nr. 91/1991, skal koma fram stutt hlutlæg greining á ágreiningsefnum kærumálsins og efni héraðsdómsmálsins. Við gerð kærumálsgagna hefur sóknaraðili ekki farið eftir þessari reglu, en þar eru í löngu máli reifaðar málsástæður hans og lagarök, án hlutlægrar greiningar á ágreiningsefni málsins, sem laut eingöngu að því hvort vísa bæri málinu frá dómi vegna skorts á lögvörðum hagsmunum. Er þetta aðfinnsluvert.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Dalsnes ehf., greiði varnaraðila, íslenska ríkinu, 350.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 24. nóvember 2017.

                Mál þetta var höfðað 21. febrúar 2017. Málið var fyrst dómtekið 9. október sama ár en endurflutt og dómtekið að nýju 20. nóvember sama ár.

                Stefnandi er Dalsnes ehf., Fossaleyni 21, Reykjavík, en stefndi er íslenska ríkið, Arnarhvoli Reykjavík.

                Stefnandi krefst þess að felldur verði úr gildi úrskurður yfirskattanefndar nr. 194/2016 frá 5. október 2016 og að jafnframt verði felldur úr gildi úrskurður ríkisskattstjóra frá 17. febrúar sama ár. Þá krefst stefandi málskostnaðar.

                Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar.

                Í máli þessu deila aðilar um hvort ríkisskattstjóra hafi verið heimilt að hækka skattalegt eigið fé stefnanda vegna álagningar auðlegðarskatts um 4.212.193.253 krónur úr 1.063.223.798 krónum í 5.275.417.051 krónu í skattframtali félagsins 2013 og krefst stefnandi ógildingar þeirra tveggja úrskurða skattyfirvalda sem annars vegar kváðum á um breytinguna og hins vegar staðfestu þá ákvörðun. Breyting þessi á skattframtali hafði ekki í för með sér breytingu á skattlagningu stefnanda.

                Við endurflutning málsins beindi dómari því til lögmanna málsaðila að fjalla sérstaklega um sjónarmið um það hvort stefnandi teldist hafa lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins með hliðsjón af því að breyting á skattframtali hans hafði ekki skattlegar afleiðingar fyrir hann, sbr. og þá málsástæðu stefnanda að ákvæði 2. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003 stæðu breytingunni í vegi.

I

                Með lögum nr. 128/2009 um breyting á lögum nr. 90/2003 um tekjuskatt var lögfest bráðabirgðaákvæði XXXIII sem mælti fyrir um tímabundna álagningu svokallaðs auðlegðarskatts. Var skatturinn lagður á einstaklinga sem áttu eignir umfram tiltekin mörk. Einnig var sú skylda lögð á lögaðila að færa upplýsingar í skattframtöl sín er leiddu fram skattstofn auðlegðarskatts vegna eignar einstaklinga í viðkomandi félagi. Umræddar upplýsingar voru á hinn bóginn ekki grundvöllur skattlagningar lögaðilanna sjálfra. Með lögum nr. 164/2011 var tímabil auðlegðarskatts framlengt með bráðabirgðaákvæði XLVII í lögum nr. 90/2003. Var það ákvæði efnislega sambærilegt við fyrra bráðabirgðaákvæðið.

                Í skattframtal sínu 2013 gerði stefnandi grein fyrir verðmæti eignarhlutdeildar sinnar í nokkrum öðrum félögum, en þessar fjárhæðir eru einn þeirra þátta er mynda bókfært virði stefnanda sjálfs, sem aftur er grundvöllur eftir atvikum að álagningu auðlegðarskatts á einstaklinga sem eiga hluti í stefnanda.  Var ekkert þessara félaga skráð á markaði og bar því að leiða fram verðmæti þeirra með því að taka bókfært virði þeirra og draga nafnverð hlutabréfa frá, að því er innlend félög varðaði og er ekki ágreiningur með aðilum um að þetta gerði stefnandi. Á hinn bóginn telur stefnandi að honum hafi verið rétt varðandi erlend félög að telja fram bókfært virði hlutdeildar sinnar í félaginu en draga frá bókfært virði þess til leiðréttingar. Vísar hann til þess að leiðbeiningar skattyfirvalda og eyðublöð skattframtals hafi tilgreint þessa aðferð sem rétta. Hafi hann því fyllt út framtalið varðandi erlenda félagið Dalsnes A/S í góðri trú að því er þetta varðar. Ríkisskattstjóri og yfirskattanefnd komust á hinn bóginn að þeirri niðurstöðu að framtalið hefði verið ranglega fyllt út og nota hefði átt sömu aðferð varðandi erlendi félög og innlend að tilgreina bókfært verð eignarhluta í umræddu félagi og draga frá nafnverð hlutabréfa til leiðréttingar og fá þannig út virði félagsins, sem hafði svo bein áhrif á skattalegt eigið fé stefnanda. Leiddi þessi mismunur til hækkunar á skattalegu eigin fé stefnanda um 4.212.193.253 krónur úr 1.063.223.798 krónum í 5.275.417.051 krónu. Eins og fyrr segir voru leiddi þetta ekki til breytinga á skattlagningu stefnanda eða viðurlaga gegn honum af hálfu skattyfirvalda. Ekki er í málinu upplýst um hvort og þá hvaða breytingar þetta hafði í för með sér gagnvart eigendum stefnanda.

                Eins og fyrr segir lagði stefnandi fram skattframtal 2013 og lögðu skattyfirvöld á félagið opinber gjöld í samræmi við það. Kemur fram í greinargerð stefnda að það hafi verið gert 30. október 2013. Þann 15. september 2015 sendi ríkisskattstjóri stefnanda fyrirspurnarbréf vegna misræmis sem hann taldi vera á framtali stefnanda og fyrr er lýst. Stefnandi sendi skýringar og athugasemdir með bréfi 1. október 2015. Ríkisskattstjóri tilkynnti að fyrirhugað væri að breyta skattframtali stefnanda, vegna rangrar færslu virðis hlutafjár Dalsness A/S, á þann veg að „lækka“ skattalegt eigið fé félagsins um 4.212.193.253 krónur. Stefnandi gerði ekki athugasemdir vegna framangreinds en í tölvubréfi ítrekaði hann sjónarmið sem hann hefði sett fram í bréfi 1. október 2015. Ríkisskattstjóri kvað upp úrskurð 17. febrúar 2016 þar sem skattalegt eigið fé stefnanda vegna auðlegðarskatts var hækkað um 4.212.193.253 krónur. Stefnandi kærði þann úrskurð til yfirskattanefndar sem hafnað kröfu um ómerkingu úrskurðarins með úrskurði nr. 194/2016 sem kveðinn var upp 5. október 2016.

                Mál þetta er höfðað til að fá framangreindum úrskurðum hnekkt.

II

                Stefnandi byggir á því að hann hafi fært á skattframtal sitt 2013 stofn til auðlegðarskatts varðandi félagið Dalsnes AS, sbr. lög nr. 90/2003, eins og þeim var breytt fyrst með lögum nr. 128/2009 og síðar með lögum nr. 164/2011, en með nefndum lagabreytingum hafi tekið gildi bráðabirgðaákvæði XXXIII og síðar bráðabirgðaákvæði XLVII sem kváðu á um álagningu auðlegðarskatts. Þetta hafi hann gert í samræmi við skriflegar leiðbeiningar skattyfirvalda. Byggir hann á því að óheimilt hafi verið að breyta framtali hans eins og gert var fyrst með úrskurði ríkisskattstjóra 17. febrúar 2016 sem síðar var staðfestur með úrskurði yfirskattanefndar 5. október 2016, sbr. eftirfarandi málsástæður.

                Stefnandi byggir á að mál þetta snúist um það hvort fullnægjandi upplýsingar séu í skattframtali hans samkvæmt 2. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003.

                Í fyrsta bréfi sínu í málinu frá 15. september 2015 hafi ríkisskattstjóri vísað til vegna reits 5045 í skattframtali stefnanda „Eignarhl. í erl. dóttur- og hld fél“ að þar væri færð fjárhæðin 4.220.961.253 krónur og ef litið væri til skýringar nr. 9 í ársreikningi félagsins 2012 yrði ekki betur séð en að um sé að ræða bókfært virði hlutabréfaeignar félagsins í Dalsnesi A/S og jafnframt segi ríkisskattstjóri að væri litið til skýringar 9 í ársreikningi félagsins 2012, sem fylgt hafi með skattframtali 2013, þá væri nafnverði hlutabréfaeignar í Dalsnesi A/S, 8.768.000 krónur.

                Það komi skýrt fram í skýringu nr. 9 í ársreikningi hvert sé nafnverð og bókfært virði dóttur- og hlutdeildarfélaga stefnanda og séu það sundurliðaðar fjárhæðir eftir félögum og ríkisskattstjóri reki það í bréfi sínu hvernig þetta sé fært í reiti á skattframtali.

                Ríkisskattstjóri taki sjálfur fram hvaða upplýsingar nákvæmlega liggi fyrir hjá embættinu þegar álagning fari fram. Því sé haldið fram að upplýsingar í skattframtali stefnanda 2013 og fylgigögnum þess séu fullnægjandi í skilningi 2. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003.

                Stefnandi hafi talið fram í samræmi við form skattframtals og í fullu samræmi við leiðbeiningar ríkisskattstjóra um útfyllingu skattframtalsins.

                Stefnandi hafi fært í reiti 0430 á skattframtali bókfært virði Dalsnes A/S í samræmi við þetta. Að þessu leyti sé skattframtal stefnanda fullnægjandi útfyllt. Það liggi því fyrir fullnægjandi upplýsingar í framtalinu í skilningi 2. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003.

                Það hafi því legið fyrir og hafi verið ríkisskattstjóra fullljóst við álagningu opinberra gjalda 2013 að stefnandi hafi fært bókfært virði hlutdeildar í Dalsnesi A/S, sbr. einnig sérstaklega fyrirspurnarbréf ríkisskattstjóra 15. september 2015, sem sé fyrsta bréf embættisins í málinu. Þá hafi legið fyrir hvert nafnverð umræddra bréfa hafi verið, sbr. skýringu nr. 9 í ársreikningi stefnanda fyrir árið 2012, en sá ársreikningur hafi legið fyrir hjá embættinu og hafi fylgt skattframtali stefnanda. Hafi ríkisskattstjóra því verið í lófa lagið að gert breytingu á skattframtalinu í samræmi við leiðréttingarheimildir sínar í 3. ml. 1. mgr. 95. gr. sömu laga, eins og 2. mgr. 97. gr. hafi verið túlkuð, sbr. t.d. dóm Hæstaréttar 1996, bls. 470 (nr. 15/1996).

                Ríkisskattstjóri hafi því getað gert þessa leiðréttingu án þess að afla sérstakra upplýsinga, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda hafi þessar upplýsingar legið fyrir hjá ríkisskattstjóra.

                Breyti engu hér um þótt villa hafi slæðst inn í skýringu 9 í ársreikningi Dalsness 2012 um nafnvirði dótturfélagsins Innness ehf., þ.e. að það hafi í raun verið 2.644.580 krónur en ekki 3.560.000 krónur, enda taki ríkisskattstjóri það fram í bréfi sínu frá 15. september 2015 að samkvæmt fyrirliggjandi hlutafjármiða frá Innnesi ehf. væri hlutabréfaeign í því félagi 2.644.580 krónur í lok árs 2012. Það hafi því verið fullnægjandi upplýsingar hjá ríkisskattstjóra einnig vegna nafnverðseignar í Innnesi ehf.

                Sérstaklega sé því haldið fram að það teljist rétt framtal eigna á skattframtali þegar stefnandi fari nákvæmlega og skilmerkilega að formi ríkisskattstjóra á skattframtali rekstraraðila og leiðbeiningum embættisins. Þá komi einnig fram í 1. málslið 1. mgr. 90. gr. laga nr. 90/2003, að allir skattskyldir aðilar skuli afhenda ríkisskattstjóra skýrslu í því formi sem ríkisskattstjóri ákveði þar sem greindar séu að viðlögðum drengskap tekjur á síðastliðnu ári og eignir í árslok, svo og önnur atriði sem máli skipti við skattálagningu. Það eitt að telja fram í samræmi við fyrirmæli ríkisskattstjóra leiði til þess að framtalið teljist með fullnægjandi upplýsingum í skilningi 2. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003. Stefnandi hafi gert allt rétt í samræmi við leiðbeiningarnar. Halla af röngum og villandi leiðbeiningum ríkisskattstjóra beri að fella á ríkið. Sömu leiðbeiningar hafi komið fram í einstaklingsframtölum.

                Samkvæmt skýru og ótvíræðu orðalagi 2. mgr. b-liðar XXXIII ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 90/2003, beri að draga frá skattalegu bókfærðu eigin fé félagsins nafnverð eða stofnverð hlutabréfa og tekið sé fram í leiðbeiningum ríkisskattstjóra að það skuli draga frá kaupverð (bókfært virði) erlendra hlutabréfa.

                Skattalög og leiðbeiningar skattyfirvalda eigi að vera skýr, ótvíræð og fyrirsjáanleg samkvæmt grundvallarreglum stjórnsýslu- og skattaréttar. Þegar orðalag tilvitnaðs bráðabirgðalagaákvæðis sé skoðað ásamt leiðbeiningum ríkisskattstjóra sé staðhæft að færa megi nafnverð eða stofnverð og síðan í leiðbeiningum að færa skuli erlend hlutabréf á kaupverði. Það sé því rétt talið fram samkvæmt leiðbeiningunum. Skattlagning eigi því að fara fram í samræmi við þetta.

                Vegna tilvísunar yfirskattanefndar til 5. töluliðar 73. gr. laga nr. 90/2003 skuli áréttað að það ákvæði eigi almennt við um framtal eigna en í þessu máli sé fjallað um afbrigði þess og verið sé að leiða fram svokallaðan auðlegðarskattstofn sem sé annar en eignaskattstofn. Ákvæði XXXIII til bráðabirgða í lögum nr. 90/2003 sé einmitt frávik frá því hvernig meta skuli hlutabréf til auðlegðarskattstofns, en b-liður XXXIII ákvæðis til bráðabirgða hefjist einmitt á orðunum: „Þrátt fyrir ákvæði 5. tölul. 73. gr.“ og einnig sé að finna sérreglu í 2. mgr. nefnds b-liðar sem hér sé til umfjöllunar.

                Eins og fram komi hér að framan hafi verið vísað til stofnverðs/kaupverðs í lögunum og skýrlega tekið fram í leiðbeiningum við útfyllingu eyðublaðs RSK 3.23 að færa eigi erlend hlutabréf á kaupverði vegna einstaklinga og í framtali lögaðila komi þetta skýrt fram á eyðublaði RSK 1.04.

                Skattalög og leiðbeiningar skattyfirvalda eigi að vera skýr og ótvíræð samkvæmt grundvallarreglum stjórnsýslu- og skattaréttar.

                Þá sé því haldið fram að þar sem stefnandi hafi talið fram í samræmi við form skattframtals og leiðbeiningar RSK megi hann hafa haft réttmætar væntingar um að hann hafi verið að gera rétt, en ekki sé aðeins um túlkunarreglu að ræða heldur geti hún verið sjálfstæð réttarheimild sem veiti borurunum ákveðin réttindi. Í skattarétti hafi verið viðurkennt að leiðbeiningar skattyfirvalda geti leitt til þess að skattaðili geti byggt rétt á því svo framarlega sem þær séu ekki beinlínis í andstöðu við æðri réttarheimild, þ.e. skattalögin í þessu tilviki.

                Í leiðbeiningum ríkisskattstjóra vegna skattframtals rekstraraðila RSK 1.04, segi á bls. 42 í skýringum við reit 0430 að þar skuli skrá nafnverðseign í íslensku félagi, en bókfært verð eignar í erlendu félagi (sem geti verið nafnverð, kaupverð eða markaðsverð). Ennfremur megi nefna að á eyðublaði RSK 3.23 komi fram leiðbeiningar skattyfirvalda um að skrá eigi erlend hlutabréf á kaupverði.

                Í 2. mgr. b-liðar XXXIII ákvæðis til bráðabirgða í lögum nr. 90/2003 komi fram að sá sem eigi hlut í félagi sem ekki sé skráð í kauphöll eða á skipulegum tilboðsmarkaði skuli telja fram til auðlegðarskattstofns hlutdeild sína í skattalegu bókfærðu eigin fé félagsins eins og það sé talið fram í skattframtali félagsins, skv. 1. mgr. þessa stafliðar.

                Leiðbeiningar RSK samræmist skattalögum en séu í öllu falli ekki í andstöðu við lög.

                Stefnandi hafi því talið fram í samræmi við leiðbeiningar RSK. Fullnægjandi upplýsingar hafi verið fyrir hendi hjá ríkisskattstjóra til að byggja rétta álagningu á, sbr. 2. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003 og ríkisskattstjóri hafi getað breytt skattframtali stefnanda á grundvelli heimilda sinna samkvæmt 3. málslið 1. mgr. 95. gr. sömu laga.

                Ríkisskattstjóri hafi því ekki haft heimild til þess á árinu 2016 að breyta skattframtali stefnanda fyrir árið 2013. Af þessum sökum beri að fella niður úrskurð ríkisskattstjóra 17. febrúar 2016 og úrskurð yfirskattanefndar nr. 194/2016 þar sem kröfu stefnanda um ómerkingu úrskurðar ríkisskattstjóra hafi verið hafnað.

                Um lagarök kveðst stefnandi vísa til laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sérstaklega til 1. mgr. 90. gr., 1. mgr. 91. gr., 95. gr., 96. gr. og 2. mgr. 97. gr. laganna og stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum 7. og 10. gr. Um málskostnað vísar stefnandi til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

                Við endurflutning málsins lagði stefnandi áherslu á að félagið hefði lögvarða hagsmuni af úrlausn um hvernig skattframtal þess skyldi fært. Þá vísaði stefnandi og til þess að hagsmunir félagsins og eigenda þess væru um margt samtvinnaðir, sbr. til dæmis Hæstaréttardóm 19. mars 2009 í máli réttarins nr. 218/2008.

                Þá byggði stefnandi einnig á að skýra bæri orðalag 97. gr. laga nr. 90/2003 rúmri skýringu þannig að þær tímatakmarkanir sem þar kæmu fram ættu einnig að ná til breytinga sem gerðar væru á skattframtali þótt ekki leiddi til skattbreytinga. Minnti hann á að samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 95. gr. sömu laga bæri ríkisskattstjóra að leggja framtal skattaðila til grundvallar álagningu.  Þá hvíldi samkvæmt 3. málslið sömu málsgreinar skylda á ríkisskattstjóra að leiðrétta fjárhæðir einstakra liða ef þeir reynist í andstöðu við lög og fyrirmæli skattyfirvalda, svo og einstaka liði ef telja megi að óyggjandi upplýsingar séu fyrir hendi. Eins og dómvenja standi til beri að skýra síðast tilvitnuð lagaákvæði saman með 2. mgr. 97. gr. sömu laga þannig að tímafrestur þeirra leiðréttinga sem unnt sé að framkvæma samkvæmt 3. málslið 1. mgr. 95 gr. sömu laga sé sá sem greini í nefndri 2. mgr. 97. gr. laganna. Einnig benti stefnandi á að á því sé byggt í málinu sem sjálfstæðri málsástæðu að hann hafi haft réttmætar væntingar til þess að skattframtal hans væri rétt fyllt út.

III

                Helstu málsástæður stefnda eru þær að skattyfirvöldum hafi verið heimilt að framkvæma þá breytingu sem gerð var á skattframtali stefnanda á þeim tíma sem hún var gerð. Málsmeðferð hafi ekki verið ábótavant og um augljósa ritvillu hafi verið að ræða þegar ríkisskattstjóri hafi boðað „lækkun“ en ekki hækkun tilgreindrar fjárhæðar í bréfi sínu 26. nóvember 2015. Megi sjá það af samhengi sé bréfið lesið í heild.

                Stefndi byggir einnig á því að umrædd breyting sem gerð var sé efnislega rétt og í samræmi við ákvæði XXXIII til bráðabirgða og ákvæði XLVII til bráðabirgða í lögum nr. 90/2003, en að sú aðferð sem stefnandi viðhafði sé það ekki. Þá hafnar stefndi því að fullnægjandi upplýsingar hafi legið fyrir til að ríkisskattstjóri gæti gert breytingar á grundvelli heimildar sinnar samkvæmt 3. málslið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003 og bendir á að stefnandi hafi viðurkennt að upplýsingar um nafnverð hlutabréfi í félaginu Innnesi ehf. hafi verið misvísandi og þarfnast leiðréttingar við, sbr. bréf stefnanda til ríkisskattstjóra 1. október 2015.

                Stefndi mótmælir því að stefnandi geti á einhvern hátt byggt á sjónarmiðum um réttmætar væntingar, enda hafi framtalsaðferð hans verið andstæð skýrum fyrirmælum í fyrr tilvitnuðum bráðabirgðaákvæðum og 5. tl. 73. gr. laga nr. 90/2003 sem gildi samhliða þeim og sé þeim til fyllingar. Telur stefndi að rétt skýrð leiði þessi ákvæði til þess að stefnanda hafi borið að gera grein fyrir bókfærðu verði hlutabréfa í Dalsnesi A/S að frádregnu nafnverði bréfanna. Geti rangar leiðbeiningar sem fram komi hjá skattyfirvöldum ekki staðið ofar lögum og ekki skapað réttmætar væntingar.

                Stefndi vísar til laga nr. 90/2003 um tekjuskatt um efnishlið málsins og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála varðandi málskostnað og sjónarmið um lögvarða hagsmuni.

                Við endurflutning málsins komu fram þau sjónarmið stefnda að stefnandi ætti ekki lögvarða hagsmuni að úrlausn málsins þar sem engar skattbreytingar hefðu orðið vegna þeirra breytinga sem skattyfirvöld gerðu á skattframtali hans.

IV

                Eins og áður hefur verið rakið var auðlegðarskattur lagður á tímabundið með lögum nr. 128/2009 um breyting á lögum nr. 90/2003 um tekjuskatt og var tímabilið framlengt með lögum nr. 164/2011. Mæla bráðabirgðaákvæði XXXIII og XLVII í lögum nr. 90/2003 fyrir um þessa skattheimtu. Í nefndum lagaákvæðum felast fyrirmæli um skattlagningu einstaklinga sem eiga eignir umfram nánar greind viðmið. Í sömu lagaákvæðum er lögð sú skylda á lögaðila að leiða fram í skattframtali sínu skattalegt eigið fé til álagningar auðlegðarskatts og ber félögunum í því skyni að greina m.a. frá verðmæti eignarhlutar í öðrum félögum.

                Sá skattstofn sem þannig er leiddur fram nýtist skattyfirvöldum til að leggja á auðlegðarskatt en breytir engu um skattlagningu umrædds félags. Er því sú staða uppi að þær breytingar sem skattyfirvöld gerðu á skattframtali stefnanda 2013 varða hann engu fjárhagslega. Verður þó á hinn bóginn að hafa í huga, að mati dómsins, að skattaðili teljist almennt hafa hagsmuni af því að fá úr því skorið hvort hann hafi fært skattframtal sitt rétt í tiltekið skipti.

                Þegar litið er til þeirra röksemda sem stefnandi hefur uppi hér fyrir dómi verður ekki séð að hann beinlínis beri brigður á að sú breyting sem skattyfirvöld gerðu á framtali hans hafi verið efnislega rétt. Á hinn bóginn byggir hann á því annars vegar að á grundvelli leiðbeininga með skattframtali sem hafi stutt þá aðferð sem hann notaði hafi hann haft réttmætar væntingar til þess að framtal hans væri rétt útfyllt. Hins vegar vísar hann til þess að sá tími sem mælt sé fyrir um í 2. mgr. 97. gr. laga nr. 90/2003 hafi verið liðinn þegar athugasemdir hafi verið gerðar og skattyfirvöldum því ekki heimilt að breyta framtalinu. Í tilvitnuðu lagaákvæði segir að hafi skattaðili látið í té í framtali sínu eða fylgigögnum þess fullnægjandi upplýsingar, sem byggja hafi mátt á rétta álagningu, sé eigi heimilt að endurákvarða honum skatt nema vegna síðustu tveggja ára sem næst séu á undan því ári þegar endurákvörðun hafi farið fram.

                Eins og greinir í lagaákvæðinu setur það tímamörk á heimildir skattyfirvalda til að breyta skattálagningu. Fyrir liggur í máli þessu að skattálagningu stefnanda var ekki breytt með hinni umdeildu ákvörðun. Þá verður ekki séð að sjónarmið um réttmætar væntingar geti falið í sér fullnægjandi grundvöll kröfugerðar stefnanda enda vandséð og óútskýrt til hvaða hagsmuna stefnanda umræddar væntingar vísa. Er að mati dómsins ekki unnt að telja að hagsmunir stefnanda og eigenda hans fari hér augljóslega saman eða að þeir geti á einhvern hátt verið samtvinnaðir. Er enda ekki upplýst hverjir eru eigendur stefnanda og hvort og þá hvernig breytingin hafði áhrif á hagsmuni þeirra og í framhaldi hvaða áhrif það hafði á hagsmuni stefnanda að svo varð. Hefur stefnandi, að mati dómsins, ekki sýnt fram á með fullnægjandi hætti hvaða lögvörðu hagsmuni hann hefur af úrlausn málsins. Verður málin, þegar af þessari ástæðu, vísað sjálfkrafa frá dómi, sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

                Þrátt fyrir framangreinda niðurstöðu þykir rétt, eins og í máli þessu liggur, að málskostnaður milli aðila falli niður.

                Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð

                Máli þessu er vísað frá dómi.

                Málskostnaður fellur niður.