Hæstiréttur íslands

Mál nr. 243/2010


Lykilorð

  • Gjaldþrotaskipti
  • Riftun


Fimmtudaginn 20. janúar 2011.

Nr. 243/2010.

Íslandsbanki hf. 

(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.)

gegn

þrotabúi E.B. veitinga ehf.

(Jón Ögmundsson hrl.)

Gjaldþrotaskipti. Riftun.

Í málinu deildu aðilar um hvort innborganir á reikning Þ hjá I, samtals að fjárhæð 1.533.878 krónur væru riftanlegar. Innborganirnar fóru fram eftir frestdag en áður en úrskurður um gjaldþrotaskipti var kveðinn upp. I byggði á því að greiðslurnar væru ekki riftanlegar þar sem bankinn hefði verið grandlaus um framkomna beiðni um gjaldþrotaskipti þegar innborganirnar bárust, sbr. undantekningarákvæði í 139. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Talið var að gera yrði ríkar kröfur til I, sem fjármálastofnunar, um að bankinn fylgdist með fjárhagsstöðu viðskiptavina sinna og leitaði upplýsinga um vanskil þeirra og framkomnar beiðnir og kröfur samkvæmt lögum nr. 21/1991, sbr. 9. gr. þeirra. Ef meta ætti I það til gáleysis að leita ekki slíkra upplýsinga þyrfti þá bankinn að hafa sérstaka ástæðu til slíkrar könnunar, til dæmis vegna gjaldfallinna krafna eða annarra vanefnda Þ við I.  Ekki væri að sjá að Þ hafi verið í vanskilum við I á því tímabili er um ræddi, né að bankinn hefði gripið til innheimtuaðgerða gagnvart Þ fyrir uppkvaðningu gjaldþrotaúrskurðarins. Var því talið að skilyrði undantekningarákvæðis 1. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 um grandleysi I væri fullnægt. Þar sem riftunin var heldur ekki reist á ákvæðum 141. gr. laga nr. 21/1991 var I sýknaður af kröfum Þ.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson og Garðar Gíslason.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. apríl 2010. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I

Þann 23. febrúar 2009 var bú E.B. veitinga ehf. tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur. Frestdagur við skiptin var 7. janúar 2009. Skiptastjóri óskaði þess með bréfi 23. febrúar 2009 að bankareikningum hins gjaldþrota félags yrði lokað og sér sent yfirlit yfir hreyfingar á þessum reikningum síðustu sex mánuði. Kröfulýsingarfrestur mun hafa runnið út 3. maí 2009. Alls námu lýstar kröfur í búið 64.170.492. krónum.  Þeirra á meðal voru tvær kröfur sem áfrýjandi lýsti, annars vegar vegna skuldar á reikningi nr. 515-26-391419 að fjárhæð 4.909.898 krónur en hins vegar vegna skuldar á reikningi nr. 515-26-391421 að fjárhæð 210.880 krónur. Síðarnefndi reikningurinn var veltureikningur og kom í ljós við yfirferð skiptastjóra á innsendu reikningsyfirliti að 1.500.000 króna yfirdráttarheimild á reikningnum var fullnýtt á frestdegi en eftir þann dag og til þess dags er gjaldþrotaúrskurður var upp kveðinn höfðu borist inn á reikninginn 18 innborganir samtals að fjárhæð 1.533.878 krónur eins og nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi. Skiptastjóri taldi að umræddar innborganir teldust til fjármuna búsins og krafðist með bréfi 19. maí 2009 riftunar á framangreindum greiðslum með vísan til 139. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., jafnframt sem hann krafðist þess að áfrýjandi endurgreiddi búinu fyrrgreinda fjárhæð. Því hafnaði áfrýjandi 28. maí 2009 og höfðaði stefndi mál þetta með stefnu 23. júní 2009.

II

Samkvæmt 1. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 má krefjast riftunar á greiðslu skuldar ef greitt er eftir frestdag nema ein þriggja undantekninga sem upp eru taldar í ákvæðinu eigi við. Þær eru í fyrsta lagi að reglur XVII. kafla laganna hefðu leitt til þess að skuldin hefði greiðst við gjaldþrotaskipti, í öðru lagi að nauðsynlegt hafi verið að greiða til að komast hjá tjóni eða í þriðja lagi að sá sem greiðslu naut hafi hvorki vitað né mátt vita að komið hafi fram beiðni um gjaldþrotaskipti. Er það meginregla að greiðsla skuldar eftir frestdag sé riftanleg nema öruggt sé að einhver framangreindra undantekninga eigi við. Í máli þessu snýst ágreiningur aðila einkum um hvort áfrýjandi hafi verið grandlaus um að fram væri komin beiðni um gjaldþrotaskipti. Hvílir sönnunarbyrgði um grandleysi í þessu efni á áfrýjanda, sbr. dóm Hæstaréttar í máli 339/2003, sem birtur er í dómasafni réttarins 2004 á bls. 301. Ljóst er að E.B. veitingar ehf. voru í árslok 2008 og ársbyrjun 2009 í vanskilum við marga kröfuhafa. Þannig sést af gögnum málsins að í janúarmánuði 2009 komu fram sex kröfur til Héraðsdóms Reykjavíkur um gjaldþrotaskipti á búi félagsins. Þá eru meðal gagna málsins upplýsingar frá CreditInfo  þar sem fram kemur meðal annars að sjö árangurslaus fjárnám voru gerð hjá E.B. veitingum ehf. í desembermánuði 2008. Gera verður ríkar kröfur til þess að áfrýjandi, sem er fjármálastofnun og starfrækir sérstaka innheimtudeild, fylgist með fjárhagsstöðu viðskiptavina sinna og leiti tiltækra upplýsinga um vanskil þeirra og framkomnar beiðnir og kröfur samkvæmt lögum nr. 21/1991, sbr. 9. gr. þeirra. Til þess að honum verði metið það til gáleysis að leita ekki slíkra upplýsinga verður þó að telja að til þurfi að koma að hann hafi haft einhverja sérstaka ástæðu til slíkrar könnunar, til dæmis vegna gjaldfallinna krafna eða annarra vanefnda viðkomandi á skuldbindingum við áfrýjanda. Af gögnum þessa máls er ekki að sjá að E.B. veitingar ehf. hafi verið í vanskilum við áfrýjanda á því tímabili er um ræðir og af fyrrgreindum upplýsingu CreditInfo verður, hvað sem öðru líður, ráðið að áfrýjandi hafði ekki gripið til neinna innheimtuaðgerða gagnvart félaginu fyrir uppkvaðningu  gjaldþrotaúrskurðarins. Verður því að telja að skilyrði undantekningarákvæðis 1. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 um grandleysi áfrýjanda sé fullnægt. Þar sem riftun á umræddum innborgunum verður heldur ekki reist á ákvæðum 141. gr. laga nr. 21/1991 verður áfrýjandi sýknaður af kröfum stefnda.

Eftir atvikum verður hvor aðili látinn bera sinn kostnað af máli þessu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Íslandsbanki hf., er sýkn að kröfum stefnda, þrotabúi E.B. veitinga ehf.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. janúar 2010.

Mál þetta, sem höfðað var í júní 2009, var dómtekið 11. janúar sl.

Stefnandi er Þb. E.B. veitingar ehf.

Stefndi er Íslandsbanki hf.

Dómkröfur stefnanda eru að rift verði með dómi greiðslum sem fram fóru á tímabilinu frá frestdegi, þann 7. janúar 2009, til úrskurðardags, hinn 23. febrúar 2009, alls að fjárhæð kr. 1.533.878,-.

Að stefnda verði gert að greiða stefnanda kr. 1.533.878,- ásamt dráttarvöxtum samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af kr. 1.533.878,- frá 24.03.2009 til greiðsludags.

Þá gerir stefnandi þá kröfu að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu skv. málskostnaðarreikningi lögmanns stefnda.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til að greiða stefnda málskostnað ásamt virðisaukaskatti að mati dómsins.

I

Málsatvik eins og stefnandi lýsir þeim:

Þann 23. febrúar sl. var bú einkahlutafélagsins E.B. veitinga tekið til gjaldþrotaskipta skv. úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur og Anton Björn Markússon hrl. skipaður skiptastjóri. Frestdagur við skiptin var 7. janúar 2009 en samkvæmt upplýsingum frá fyrirsvarsmönnum félagsins hætti félagið starfsemi um áramót. Var auglýsing um gjaldþrotaúrskurðinn birt í Lögbirtingablaði þann 03.03.2009 og rann kröfulýsingarfrestur því út þann 03.05.2009.

                Meðal kröfulýsinga sem bárust í búið var kröfulýsing Íslandsbanka dags. 12.03.2009 vegna tékkareikninga nr. 515-26-391421 og 515-26-1419. Samkvæmt kröfulýsingunni, sem styðst við yfirlit yfir færslur á bankareikningi, var staða tékkareiknings nr. 515-26-391421 neikvæð um kr. 210.880,- á úrskurðardegi og var kröfu þeirri lýst í búið ásamt innheimtukostnaði.

Skiptastjóri óskaði eftir því strax í kjölfar gjaldþrotaúrskurðarins að bankareikningum þrotamannsins yrði lokað og var beiðni þess efnis send Íslandsbanka þann 24. febrúar en jafnframt var óskað eftir því að yfirlit yfir færslur á reikningnum sl. 6 mánuði yrðu sendar skiptastjóra. Við yfirferð á þeim yfirlitum kom í ljós að staðan á tékkareikningi nr. 515-26-391421 var á frestdegi, þann 7 janúar sl., neikvæð um kr. 1.500.000,- en ekki neikvæð um kr. 210.880,- líkt og kröfunni hafði verið lýst í búið. Við nánari athugun kom í ljós að borist höfðu eftir frestdag innborganir á reikning þrotamannsins að fjárhæð kr. 1.533.878,- sem sundurliðast á eftirfarandi hátt:

12.01.2009             kr. 156.500,-           innborgun frá Islandia Travel OSL A/S

12.01.2009             kr.   13.103,-           innborgun frá Islandia Travel ehf.

12.01.2009             kr.   47.300,-           innborgun frá Skálpa ehf. 

15.01.2009             kr. 117.131,-           innborgun frá Marel ehf.

16.01.2009             kr.   86.440,-           innborgun frá Flugfélagi Íslands ehf.

19.01.2009             kr. 127.500,-           innborgun frá Lögmannafélagi Íslands ehf.

20.01.2009             kr.   58.240,-           innborgun frá N1 hf.

22.01.2009             kr.   19.051,-           innborgun frá Reykjavíkurborg

22.01.2009             kr.   43.035,-           innborgun frá Össuri hf.

22.01.2009             kr.   27.620,-           innborgun frá Landhelgisgæslunni

22.01.2009             kr.   35.920,-           innborgun frá Landhelgisgæslunni

26.01.2009             kr. 131.429,-           innborgun frá Gullfoss

28.01.2009             kr. 118.751,-           innborgun frá Íslenskum Fjallaleiðsögumönnum ehf.

02.02.2009             kr. 280.121,-           innborgun með símagreiðslu

03.02.2009             kr.     9.920,-           innborgun frá Iceland Visitor ehf.

03.02.2009             kr. 125.400,-           innborgun frá Islandia Aktiebolag

13.02.2009             kr.   38.756,-           innborgun með símagreiðslu

16.02.2009             kr.   70.655,-           innborgun frá IPT Island Pro travel GmbH

Alls:                       kr. 1.533.878,-

Þar sem það er mat skiptastjóra að umræddir fjármunir teljist til eigna búsins og eigi sem slíkir að berast skiptastjóra til vörslu og koma síðar til úthlutunar úr búinu sendi hann stefnda innheimtubréf, dags. 19. maí 2009, og fór fram á að fjármunirnir yrðu greiddir inn á fjárvörslureikning skiptastjóra. Við skipti á búinu myndu fjármunirnir svo koma jafnt til skipta milli allra kröfuhafa í samræmi við lög um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991. Þetta gerði stefnandi í ljósi þess að einungis var um hefðbundinn veltureikning að ræða sem var því á engan hátt veðsettur stefnda og veitti stefnda því engan forgang á greiðslu kröfu sinnar. Stefndi hafnaði hins vegar beiðni um endurgreiðslu í svarbréfi, dagsettu 28. maí 2009. Vísaði stefndi til þess að hann hefði verið grandlaus um gjaldþrotaskiptin þegar greiðslur bárust og því væru þær, á grundvelli undanþáguheimildar í 139. gr. laga nr. 21/1991, ekki riftanlegar. Getur stefnandi ekki sætt sig við þessa niðurstöðu og á því ekki annarra kosta völ en að höfða mál til innheimtu fjármunanna.

Stefndi gerir ekki athugasemdir við málsatvikalýsingu stefnanda að öðru leyti en að mótmælt er því mati skiptastjóra að fjármunir þeir sem bárust inn á reikning þrotamanns eftir frestdag tilheyri þrotabúinu. Þá heldur stefndi því fram að hann hafi hvorki vitað, né mátt vita, að fram væri komin krafa um gjaldþrotaskipti þegar greiðslur bárust inn á umræddan reikning.

II

Stefnandi, sem  telur að ráðstöfun innborgana upp í kröfu stefnda feli í sér brot á jafnræði kröfuhafa og fer því fram á riftun þeirra og endurgreiðslu, byggir kröfu sína á þeirri meginreglu gjaldþrotaskiptaréttar að greiðslur eftir frestdag séu riftanlegar. Byggist sú meginregla á 139. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti sem heimilar riftun ef greitt er eftir frestdag nema reglur XVII. kafla hefðu leitt til að skuldin hefði greiðst við gjaldþrotaskipti, nauðsynlegt hafi verið að greiða til að forða tjóni eða að sá sem greiðslu naut hafi hvorki vitað né mátt vita að komið hafi fram beiðni um heimild til greiðslustöðvunar, til að leita nauðungasamnings eða krafa um gjaldþrotaskipti.

Ljóst sé að krafa stefnda í þrotabúið sé almenn krafa enda um hefðbundinn veltureikning að ræða og sé henni lýst sem slíkri í búið. Þegar litið sé til þess að búið sé svo til eignalaust, og til þess að kröfur samkvæmt kröfuskrá hljóða upp á kr. 64.170.492,-, sé ljóst að krafan hefði aldrei fengist greidd úr þrotabúinu. Þá sé ljóst að ráðstöfun innborgana upp í kröfur stefnda hafi á engan hátt verið nauðsynlegar til að forða tjóni.

                Að mati stefnanda hafi stefnda mátt vera það ljóst að félagið stefndi í þrot og því geti hann ekki borið fyrir sig þá undantekningu að hann hafi ekki vitað að fram væri komin krafa um gjaldþrotaskipti á félaginu. Hvað það varði vilji stefnandi fyrst af öllu benda á að hluti af starfsemi stefnda felist í því að innheimta kröfur. Til að sjá um slíkt hafi stefndi sérstaka innheimtudeild. Innheimtustarfsemi á Íslandi sé sérhæfð og við hana fáist fáir aðilar sem séu vel meðvitaðir um það sem eigi sér stað á sviðinu. Þeir sem starfi við innheimtur hjá stefnda hafi mátt vita að E.B. veitingar ehf. stefndu í þrot. Þannig hafi verið búið að gera fjölda árangurslausra fjárnáma hjá félaginu og alls hafi sex beiðnir um gjaldþrotaskipti á hendur því verið lagðar fram á stuttum tíma frá mismunandi kröfuhöfum. Ljóst sé því að vanskilin voru víðtæk og mikil og á vitorði margra og því hefði stefndi sem fjármálastofnun, sem starfar skv. lögum 161/2002, átt að hafa grun um greiðsluerfiðleika félagsins. Þá hafi E.B. veitingar ehf. alfarið verið hættar að nota umræddan veltureikning enda hættar starfsemi frá og með síðustu áramótum og hefði það eitt mátt vekja athygli stefnda á því að eitthvað athugavert væri í gangi með málefni félagsins.

Stefnandi telji einnig að undanþáguákvæðið á grundvelli gáleysis geti ekki átt við um stefnda þar sem stefndi sé fjármálafyrirtæki sem hafi vörslur þess reiknings er skuldunautar stefnanda greiddu kröfur sínar inn á. Sé undantekningunni einkum ætlað að taka til einstakra og tilfallandi gerninga sem eigi sér stað eftir frestdag og krafist er riftunar á. Slíkt geti því ekki átt við í þessu tilviki enda sé stefndi að skuldajafna umræddum innborgunum á móti kröfum sínum sem séu tilkomnar fyrir frestdag. Falli slíkt ekki að meginreglum gjaldþrotaskiptalaga annars vegar um jafnræði kröfuhafa og hins vegar um það að gerningar eftir frestdag séu almennt riftanlegir.

                Að mati stefnanda eiga því engar framangreindar undantekningar við um þá aðstöðu sem uppi sé í máli þessu. Því til stuðnings vísi stefnandi enn fremur til þess að í framkvæmd hafi það gilt að túlka beri þröngt þá undantekningu sem fram komi í niðurlagi 1. mgr. 139. gr. um að greiðslu verði ekki rift hafi móttakandi hennar verið grandlaus. Byggist sú túlkun á því að um undantekningu frá meginreglu sé að ræða en undantekningarreglur beri almennt að túlka þröngt. Hvíli sönnunarbyrði um gáleysið jafnframt á þeim sem haldi slíku fram. Að mati stefnanda hafi stefndi ekki sýnt fram á gáleysi sitt á nokkurn hátt heldur hafi hann einungis haldið því fram án þess að færa frekari rök fyrir því og hafi hann hafnað greiðslum á þeim grundvelli.

Stefnandi telji að fjármunir þeir sem greiddir voru inn á reikning hins gjaldþrota félags, sem var í vörslu stefnda, séu eignir búsins og eigi sem slíkar að færast á fjárvörslureikning skiptastjóra búsins og koma síðar til úthlutunar úr búinu á grundvelli reglna gjaldþrotaskiptalaga. Með því að greiðslur þær sem skuldunautar félagsins greiddu félaginu inn á umræddan reikning hafi einungis komið til skuldajöfnunar við skuldir félagsins við Íslandsbanka og þannig komið til lækkunar á yfirdrætti sé verið að brjóta á jafnræði kröfuhafa. Það að útistandandi skuldir félagsins og svo til einu eignir þess hafi alfarið runnið til stefnda brjóti því gegn meginreglu skiptaréttar um jafnræði kröfuhafa. Það sé skoðun stefnanda að það eitt að stefndi hafði umráð þess reiknings er umræddar kröfur voru greiddar inn á ætti ekki að vera nægilegt til þess að hann nyti réttar fram yfir aðra kröfuhafa. Það eigi því ekki að vera stefnda til hagsbóta og hagræðis að hafa umráð umrædds veltureiknings á þann hátt að hann hafi með því forgang til skuldajafnaðar við kröfur sínar enda hafi verið um hefðbundinn veltureikning að ræða sem ekki var veðsettur stefnda á nokkur hátt og veitti stefnda því ekki forgang til þeirra greiðslna er bárust inn á reikninginn.

Stefndi reisir kröfu sína um riftun einnig á því að umrædd greiðsla sé riftanleg á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt þeirri grein megi krefjast riftunar ráðstafana sem á ótilhlýðilegan hátt séu kröfuhafa til hagsbóta á kostnað annarra, leiða til þess að eignir þrotamannsins verði ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leiða til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns, ef þrotamaðurinn var ógjaldfær eða varð það vegna ráðstöfunarinnar og sá sem hafði hag af henni vissi eða mátti vita um ógjaldfærni þrotamannsins og þær aðstæður sem leiddu til þess að ráðstöfunin væri ótilhlýðileg. Stefnandi telji að þar sem gert hafi verið árangurslaust fjárnám hjá félaginu hafi það legið ljóst fyrir að félagið var ógjaldfært. Að mati stefnanda séu því engar líkur til þess að krafa stefnda hefði fengist greidd úr þrotabúinu sem almenn krafa, auk þess sem stefnda hafi verið fullkunnugt um greiðsluerfiðleika E.B. veitinga ehf.

Til stuðnings riftunarkröfu stefnanda sé vísað til XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, aðallega 139. gr. laganna en einnig á 141. gr. sömu laga. Til stuðnings endurgreiðslukröfunni sé vísað til meginreglu gjaldþrotaskiptaréttar um jafnræði kröfuhafa og 3. mgr. 142. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti en greinin kveði á um að ef riftun fer fram skv. 139. gr. eða 141. gr. skuli sá sem hafði hag af riftanlegri ráðstöfun greiða bætur eftir almennum reglum.

Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styðji stefnandi við III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 en upphafsdagur dráttarvaxta styðjist við 3. mgr. 5. gr. laganna.

Krafan um málskostnað styðjist við 129. gr. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Varðandi varnarþing vísist til 32. gr. laga nr. 91/1991.

III

Stefndi byggir á að ljóst sé af efni 139. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. að riftun greiðslna eftir frestdag sé ekki meginregla, heldur sé heimilt að krefjast riftunar eigi nánar tilgreindar ástæður við. Slíkar ástæður eigi ekki við í máli þessu, þar sem stefndi hafi hvorki vitað, né mátt vita, að krafist hefði verið gjaldþrotaskipta hjá þrotamanni. Almenna reglan sé sú að greiðsla inn á reikning teljist vera réttmæt, nema viðtakandi viti eða megi vita að greiðslan sé óréttmæt, og heimild til riftunar slíkra greiðslna sé undantekning frá meginreglunni og beri sem slíkri að túlka þröngt, enda komi það fram í 139. gr. að slík riftun sé eingöngu heimil við þar taldar aðstæður. Til þess beri að líta að tékkareikningur verði að teljast nauðsynlegur þáttur í rekstri félagsins sem nú standi til gjaldþrotaskipta. Fram komi í 2. mgr. 139. gr. gjaldþrotaskiptalaga að krefjast megi riftunar annarra ráðstafana sem gerðar hafi verið eftir frestdag nema ráðstöfunin hafi verið nauðsynleg í þágu atvinnurekstrar þrotamannsins, eðlileg með tilliti til sameiginlegra hagsmuna lánardrottna eða til að fullnægja daglegum þörfum. Ekki verði rift gagnvart þeim sem mátti líta svo á að ráðstöfunin hafi verið þess eðlis sem á undan segi eða hvorki vissi né mátti vita um beiðni um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings eða kröfu um gjaldþrotaskipti. Sú ráðstöfun sem hér um ræði, að taka við greiðslum inn á tékkareikning þrotamanns, teljist almennt nauðsynleg í rekstri félags og fullnægi daglegum þörfum. Íslandsbanka hafi ekki verið kunnugt um, eins og áður segi, að komin væri fram beiðni um gjaldþrotaskipti og bankanum ekki frekar kunnugt um almenna stöðu rekstrarins.

Þrátt fyrir að í starfsemi stefnda felist m.a. innheimta krafna á hendur viðskiptavinum í vanskilum, sé ekki hægt að fullyrða að bankanum megi vera ljós almenn staða hvers og eins viðskiptavinar. Í tilviki stefnanda hafi verið um veltureikning að ræða sem þrotamaður nýtti til skammtímafjármögnunar og hafi sá reikningur ekki verið í innheimtu hjá innheimtudeild bankans. Bankinn sjálfur (þ.m.t. innheimtudeild) fylgist ekki daglega með stöðu og aðstæðum einstakra viðskiptavina. Það sé fyrst þegar vanskil viðskiptamanns eru orðin umtalsverð (greiðslur berast ekki á gjalddögum) að mál viðskiptavinar séu send innheimtudeild og komi þá til frekari skoðunar. Sú fullyrðing stefnanda, að þrotamaður hafi hætt starfsemi og notkun reikningsins, breyti hér engu. Bankanum hafði heldur ekki borist tilkynning þar um. Bankinn fylgist ekki daglega með færslum á einstökum reikningum viðskiptavina og tengi við aðgerðir til innheimtu. Ekkert hafi gefið bankanum tilefni til að ætla að þrotamaður væri til gjaldþrotaskipta.

Ekki verði séð hvernig staða stefnda sem fjármálastofnunar eigi að gera stöðu hans verri en annarra í viðskiptum sínum. Stefndi reki lánastarfsemi og innheimti lán til viðskiptamanna eftir því sem þau falli á gjalddaga og eða lendi í vanskilum. Stefndi hafi strax brugðist við beiðni skiptastjóra og lokað reikningi þrotamanns og veitt skiptastjóra umbeðnar upplýsingar og hafi þá fyrst orðið kunnugt um að bú þrotamanns væri til gjaldþrotaskipta. Ef fallast ætti á rök stefnanda væri stefndi í þeirri aðstöðu að fylgjast daglega með innsendum beiðnum um gjaldþrotaskipti og sú ein leið fær að loka reikningum viðskiptamanna í hvert sinn sem lögð sé inn slík beiðni vegna viðkomandi viðskiptamanna. Ljóst sé að viðskiptamaður myndi þá taka við greiðslu með öðrum hætti og óvíst að slíkt yrði til hagsbóta fyrir væntanlegt þrotabú eða aðra kröfuhafa.

Þegar af þeirri ástæðu að stefnda varð ekki kunnugt um að óskað hefði verið eftir að þrotamaður yrði tekinn til gjaldþrotaskipta fyrr en með bréfi skiptastjóra 23.02.2009 verður riftunar fyrrgreindra greiðslna ekki krafist á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991, en meðal skilyrða riftunar samkvæmt henni sé að viðtakandi greiðslunnar  vissi eða hafi mátt vita um ógjaldfærni þrotamannsins. Ekki hafi heldur verið sýnt fram á að greiðslurnar hafi verið stefnda til hagsbóta með ótilhlýðilegum hætti, enda hafi einfaldlega verið um greiðslur skuldara þrotamanns inn á veltureikning að ræða, en hlutverk bankans og skylda sé að taka við slíkum greiðslum fyrir hönd reikningseiganda hverju sinni. Ekkert liggi fyrir sem sýni að stefnda hafi verið ljóst eða hafi mátt vera ljóst hvernig gjaldfærni þrotamanns væri háttað á þeim tíma sem tekið var við umræddum greiðslum.

Vísað sé til almennra reglna gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991 og nánar til 1. og 2. mgr. 139. gr. og 141. gr. sömu laga. Um málskostnaðarkröfur vísist til 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV

Í máli þessu er ekki ágreiningur um málsatvik. Snýst málið einvörðungu um það hvort innborganir inn á reikning E.B. veitinga ehf. hjá stefnda eftir frestdag, 7. janúar 2009, samtals að fjárhæð 1.533.878 krónur, séu riftanlegar.

Samkvæmt 1. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. má krefjast riftunar á greiðslu skuldar, ef greitt var eftir frestdag, nema reglur XVII. kafla hefðu leitt til að skuldin hefði greiðst við gjaldþrotaskipti, nauðsynlegt hafi verið að greiða til að komast hjá tjóni eða sá sem greiðslu naut hafi hvorki vitað né mátt vita að komið hafi fram beiðni um heimild til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings eða krafa um gjaldþrotaskipti.

Telja verður, að það sé meginregla samkvæmt 1. mgr. 139. gr., að greiðslur skuldar eftir frestdag séu riftanlegar, nema undantekningarreglur ákvæðisins eigi við.

Byggir stefndi sýknukröfu sína á þeirri undantekningarreglu framangreindrar 1. mgr. 139. gr. að hann hafi hvorki vitað né mátt vita um framkomna beiðni um gjaldþrotaskipti á búi E.B. veitinga ehf. En óumdeilt er að krafan hefði aldrei fengist greidd úr þrotabúinu og að ráðstöfun innborgana upp í kröfur stefnda voru á engan hátt nauðsynlegar til að forða tjóni.

Sönnunarbyrði fyrir því að undanþáguskilyrðið, sem skýra verður þröngt, sé til staðar hvílir á stefnda. Hefur stefndi, sem er fjármálastofnun sem starfar samkvæmt lögum nr. 161/2002 og starfrækir sérstaka innheimtudeild, ekki sannað að hann hafi verið grandlaus um fram komna kröfu um gjaldþrotaskipti á búi E.B. veitinga ehf., þegar greiðslurnar fóru fram. Er því fullnægt skilyrðum 1. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 til að verða við kröfu stefnanda um riftun. Verður stefndi því samkvæmt 3. mgr. 142. gr. laganna dæmdur til að greiða stefnanda stefnufjárhæðina með umkröfðum vöxtum eins og greinir í dómsorði.

Eftir niðurstöðu málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 300.000 krónur í málskostnað.

Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.

Dómsorð:

Rift er greiðslum sem fram fóru á tímabilinu frá frestdegi, þann 7. janúar 2009, til úrskurðardags, hinn 23. febrúar 2009, alls að fjárhæð kr. 1.533.878,-.

Stefndi, Íslandsbanki hf., greiði stefnanda, þrotabúi E.B. veitinga ehf., kr. 1.533.878,- ásamt dráttarvöxtum samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndaálags, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af kr. 1.533.878,- frá 24.03.2009 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 300.000 krónur í málskostnað.