Hæstiréttur íslands

Nr. 2020-67

Friðjón Guðjohnsen (sjálfur)
gegn
Íslenska ríkinu og Minjastofnun Íslands (Eiríkur Áki Eggertsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Deiliskipulag
  • Lóðarréttindi
  • Skaðabótaábyrgð
  • Málskostnaður
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Með beiðni 20. febrúar 2020 leitar Friðjón Guðjohnsen leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 7. febrúar 2020 í máli nr. 263/2019: Íslenska ríkið og Minjastofnun Íslands gegn Friðjóni Guðjohnsen og gagnsök, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Íslenska ríkið og Minjastofnun Íslands „leggja í mat Hæstaréttar hvort skilyrði séu til að verða við ofangreindri beiðni um leyfi til áfrýjunar og þá hvort tilefni sé til að takmarka leyfið við tiltekin atriði málsins.“

Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um hækkun á málskostnaði sem honum var dæmdur í Landsrétti. Héraðsdómur hafði fallist á kröfu leyfisbeiðanda um viðurkenningu á bótaskyldu gagnaðila fyrir því tjóni sem framkvæmd laga um menningarminjar nr. 80/2012 hafði bakað leyfisbeiðanda og dæmt honum málskostnað. Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu með fyrrnefndum dómi og dæmdi leyfisbeiðanda málskostnað í héraði og fyrir Landsrétti í einu lagi.

Leyfisbeiðandi byggir á því að málsmeðferð í héraði og fyrir Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant. Ekki hafi verið tekin afstaða til beiðni hans um að gagnaðila yrði gerð réttarfarssekt og álag á málskostnað. Telur leyfisbeiðandi að málið hafi verulegt almennt gildi auk þess sem það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína.

Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður hvorki séð að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant né að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi til eða efni, sbr. 4. málsliður sömu málsgreinar. Er beiðninni því hafnað.