Hæstiréttur íslands

Mál nr. 340/2000


Lykilorð

  • Sjómaður
  • Ráðningarsamningur
  • Uppsögn


Fimmtudaginn 1

 

Fimmtudaginn 1. febrúar 2001.

Nr. 340/2000:

Fiskiðjusamlag Húsavíkur hf.

(Kristinn Hallgrímsson hrl.)

gegn

Þorgrími Jóel Þórðarsyni

(Jónas Haraldsson hdl.)

                                                   

Sjómenn. Ráðningarsamningur. Uppsögn.

F hafði í hyggju að hefja útgerð skipsins S. Útgerðarstjóri F ræddi við B um að hann tæki að sér skipstjórastarf á S, sem kvaðst hafa sett það sem skilyrði fyrir ráðningunni að hann fyndi stýrimann, sem gæti leyst hann af. Kvaðst B síðan hafa tilynnt útgerðarstjóranum að hann hefði fengið Þ til stýrimannsstarfa á skipinu. Deilt var um um hvort B hefði haft heimild til að ráða Þ sem stýrimann á skipið. Ósannað var að F hefði gert fyrirvara á ráðningu B sem skipstjóra og takmarkað heimildir hans til að ráða Þ sem stýrimann á skipið. Talið var sannað að til ráðningarsamnings hefði stofnast. F var talinn þurfa að bera hallann af skorti á sönnun um stofnun ráðningarsamningsins, enda hafði ekki verið gerður skriflegur ráðningarsamningur við Þ,  þrátt yfir ákvæði 1. mgr. 6. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Ekki var talið að 1. mgr. 6. gr. sjómannalaga yrði skýrð svo að það væri gildisskilyrði skiprúmssamninga að þeir væru skriflegir. Þá var ekki talið að lögskráning sjómanna í og úr skiprúmi samkvæmt lögum nr. 43/1987 væri ein og sér sönnun um ráðningu í skiprúm eða slit á skiprúmssamningum. Talið var að ráðningu Þ hefði verið slitið er útgerðarstjóri F tilkynnti honum að hætt hefði verið við útgerð skipsins. Með vísan til 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga var Þ talinn eiga rétt til launa í uppsagnarfresti. Ekki var fallist á að skerða ætti fjárkröfu hans vegna tekna sem hann hefði aflað annars staðar frá í uppsagnarfresti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir og Haraldur Henrysson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 5. september 2000 og krefst sýknu af öllum kröfum stefnda. Til vara krefst hann þess að krafa stefnda verði lækkuð verulega. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. 

I.

Í héraðsdómi er greint frá því að áfrýjandi hafi í ágúst 1999 haft áform um að gera út togarann Skagfirðing SK-4 til ísrækjuveiða, en skip þetta lá þá í höfninni á Sauðárkróki og var í eigu fyrirtækis þar. Í byrjun ágúst ræddi útgerðarstjóri áfrýjanda, Kristján Björn Garðarsson, við Bjarka Helgason um að taka að sér skipstjórastarf á skipinu. Lýsir Bjarki því í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi og skriflegri yfirlýsingu að hann hafi sett það sem skilyrði, að hann fyndi stýrimann, sem gæti leyst hann af.  Kveðst Bjarki hafa tilkynnt útgerðarstjóranum að hann hefði fengið stefnda til stýrimannsstarfa á skipinu. Áfrýjandi gerði ekki svo sannað sé fyrirvara á ráðningu Bjarka Helgasonar sem skipstjóra og ósannað er að hann hafi takmarkað heimildir hans til að ráða stefnda sem stýrimann á skipið. Var það þó brýnt ef áfrýjandi vildi hafa fyrirvara á ráðningu þeirra og gera hana háða því að útgerð skipsins hæfist, einkum þar sem stefndi hafði sagt upp skiprúmi á öðru skipi vegna ráðningarinnar.  Stóð það áfrýjanda næst að tryggja sér sönnun um slíkar takmarkanir.

Upplýst er í málinu að stefndi undirbjó, ásamt Bjarka Helgasyni, úthald skipsins  meðal annars að því er laut að búnaði veiðarfæra þess og mannskap.

Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 hvílir skylda til að gera skriflegan skiprúmssamning við skipverja á útgerðarmanni, eða skipstjóra ef hann ræður skipverja, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Verður stefndi ekki látinn bera halla af því að ekki var gerður við hann skriflegur skiprúmssamningur. Fyrirmæli sjómannalaga um skriflega skiprúmssamninga hafa ekki verið skýrð svo að það form sé gildisskilyrði slíkra samninga. Lögskráning sjómanna í og úr skiprúmi samkvæmt lögum nr. 43/1987 um það efni er ekki ein og sér sönnun um ráðningu í skiprúm eða slit á skiprúmssamningum.

Með vísan til framangreinds og þess sem fram kemur í forsendum hins áfrýjaða dóms verður staðfest sú niðurstaða hans, að til ráðningarsamnings hafi stofnast milli málsaðila um að stefndi yrði stýrimaður á skipinu á fyrirhugðum ísrækjuveiðum þess á vegum áfrýjanda. Verður einnig að líta svo á að ráðningu  hans hafi verið slitið hinn 25. ágúst 1999, er útgerðarstjóri áfrýjanda upplýsti hann um að hætt hefði verið við útgerð skipsins. Voru ráðningarslitin fyrirvaralaus og liggur ekki fyrir að stefndi hafi átt þess kost að vinna hjá áfrýjanda á þeim þriggja mánaða uppsagnarfresti sem hann átti samkvæmt 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga.

II.

Krafa stefnda er um laun í uppsagnarfesti. Samkvæmt skýru orðalagi 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga á skipverji, sem vikið hefur verið úr skiprúmi áður en ráðningartími hans er liðinn og án þess að heimild sé til þess í 23. eða 24. gr. laganna, rétt á kaupi þann tíma, sem fyrir er mælt í 9. gr. Á stefndi því rétt á kaupi í þrjá mánuði.  Skipverjar, aðrir en skipstjóri, en um hann gildir sérregla samkvæmt 2. mgr. 45. gr. sjómannalaga, þurfa ekki að sæta frádrætti á slíkum kröfum vegna tekna annars staðar frá á uppsagnarfresti. Þá á stefndi rétt á fatapeningum með þeim rökum sem fram koma í forsendum héraðsdóms. Verður því fallist á kröfur stefnda en tölulega hefur þeim ekki verið andmælt. Niðurstöðum héraðsdóms um dráttarvexti og málskostnað skal óraskað.

Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur á að vera óraskaður.

Áfrýjandi, Fiskiðjusamlag Húsavíkur hf., greiði stefnda, Þorgrími Jóel Þórðarsyni, 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 9. júní 2000.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 12. maí s.l., hefur Þorgrímur Jóel Þórðarson, kt. 021066-3549, höfðað hér fyrir dómi gegn Fiskiðjusamlagi Húsavíkur hf., kt. 550169-4609, Garðarsbraut 14, Húsavík, með stefnu birtri 19. janúar 2000.

Stefnandi gerir þær dómkröfur, að stefnda verði dæmt til að greiða stefnanda kr. 447.490,- auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987 af þeirri fjárhæð frá þingfestingu málsins til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu að teknu tilliti til þess, að stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur.

Stefnda gerir þær kröfur aðallega, að það verði sýknað af öllum kröfum stefnanda í málinu og að stefnda verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda.  Til vara krefst stefnda þess, að stefnukrafan verði lækkuð verulega og stefnda dæmdur málskostnaður að skaðlausu.  Loks krefst stefnda þess, að dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda beri dráttarvexti samkvæmt III. kafla laga nr. 25, 1987 frá 15. degi eftir dómsuppsögu og til greiðsludags.

Málsatvik samkvæmt gögnum málsins eru í stuttu máli þau, að í ágústmánuði 1999 stóð til hjá stefnda að leigja Skagfirðing SK-4 og gera hann út til ísrækjuveiða.  Ræddi útgerðarstjóri stefnda, Kristján Björn Garðarsson um það við Bjarka Helgason, að hann tæki að sér skipstjórn á nefndu skipi.  Tók Bjarki vel í það og ræddi hann því næst við stefnanda um að hann yrði 1. stýrimaður um borð í Skagfirðingi.  Eftir stutta umhugsun og að gerðum ákveðnum ráðstöfunum tjáði stefnandi Bjarka að hann tæki boði hans um stöðu 1. stýrimanns á Skagfirðingi. 

Það drógst að útgerð Skagfirðings hæfist á vegum stefnda, bæði vegna viðgerða á skipinu og einnig vegna þess, að erfiðlega gekk að fá vélstjóra á skipið.  Var m.a. auglýst eftir vélstjórum í Morgunblaðinu, en án árangurs.

Vegna framangreinds dráttar fór Bjarki Helgason að ókyrrast og varð úr að hann réði sig á annað skip.  Stuttu síðar ákvað stefndi að slá af greind áform um útgerð Skagfirðings.

Þann 25. ágúst 1999 fór stefnandi að eigin frumkvæði á fund Kristjáns Björns Garðarssonar útgerðarstjóra stefnda.  Var hann þar upplýstur um að ekkert yrði af útgerð Skagfirðings á vegum stefnda.

Í framhaldinu leitaði stefnandi til lögmanns þar sem hann taldi sig eiga rétt til greiðslna vegna ráðningar sinnar hjá stefnda.  Með bréfi lögmanns stefnda dags. 12. október 1999 var lögmanni stefnanda tjáð, að stefnda teldi stefnanda aldrei hafa verið ráðinn til starfa hjá stefnda, enda hefði enginn ráðningarsamningur verið við hann gerður.  Ekki tókst að ljúka ágreiningi aðila með samkomulagi og höfðaði stefnandi því mál þetta.

Stefnandi kveðst byggja mál sitt á því, að honum beri réttur til launa í þrjá mánuði vegna riftunar stefnda á ráðningarsamningi stefnanda, sem Bjarki Helgason, skipstjóri Skagfirðings SK-4, hafi gert við hann í krafti stöðuumboðs síns.  Stefnandi hafi verið ráðinn á b.v. Skagfirðing SK-4 af nefndum skipstjóra og hafi hann ekki haft neina ástæðu til að ætla, að Bjarki hefði ekki umboð til að ráða stefnanda á skipið, enda hafi hann komið fram sem skipstjóri þess.  Hafi Bjarki staðfest það með áritun sinni, að hann hafi ráðið stefnanda sem 1. stýrimann á skipið.  Þá sé ljóst, að stefnandi hefði ekki beðið um lausn úr öðru skipsplássi á þeim forsendum, að hann væri búinn að ráða sig í betra pláss, hefði ekki verið búið að ráða hann á b.v. Skagfirðing SK-4.  Stefnandi hafi verið þess fullviss að hann hafi verið ráðinn á skipið og hafi hann lagt sitt að mörkum til að koma skipinu á veiðar, m.a. með því að reyna að hjálpa til við ráðningu vélstjóra á það.  Þá hafi stefnanda verið kunnugt um, að búið væri að útvega veiðarfæri fyrir skipið, sem passað hafi því sérstaklega.

Kveður stefnandi að þó svo útgerðarmaður kunni að hafa takmarkað rétt viðkomandi skipstjóra til að ráða skipverja, eða hafi jafnvel bannað skipstjóranum berum orðum að ráða menn á skipið án afskipta útgerðarinnar, þá gildi slíkt bann ekki gagnvart sjómanni, sem sé grandlaus og viti ekki af slíku ráðningarbanni.  Hafi Bjarki Helgason brotið í bága við slík bein fyrirmæli útgerðar, hafi stefnanda verið með öllu ókunnugt um slíkt bann og hafi það því ekkert gildi gagnvart honum.  Telji stefndi að Bjarki hafi valdið sér tjóni með ráðningu stefnanda, þá sé það mál milli Bjarka og stefnda, en komi stefnanda ekkert við.  Ráðning Bjarka Helgasonar á stefnanda byggist á almennum reglum samningaréttar um grandleysi og gildi samninga, sem aðilar geri sín á milli.

Stefnandi kveður það engu breyta, að ekki hafi verið gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefnanda.  Munnleg ráðning sé gild ef hægt sé að sanna að hún hafi átt sér stað.  Skriflegir ráðningarsamningar séu undantekning en ekki regla, þrátt fyrir ákvæði bæði í sjómannalögum og kjarasamningum um skriflega ráðningarsamninga.  Þó stefndi tíðki hugsanlega að gera skriflega ráðningarsamninga við skipverja á skipum sínum, líkt og hann hafi fullyrt sjálfur, þá valdi það ekki ógildi munnlegs ráðningarsamnings, fullnægi ráðningin skilyrðum laga til að geta talist ráðning.

Stefnandi kveður skipverja geta krafist skaðabóta vegna riftunar ráðningarsamnings samkvæmt meðalbótareglunni í 25. gr. sjómannalaga nr. 35, 1985, sbr. 9. gr. laganna, sem mæli fyrir um að yfirmenn eigi rétt á launum í þriggja mánaða uppsagnarfresti.

Kveðst stefnandi hafa verið ráðinn ótímabundið í þjónustu stefnda.  Samkvæmt því beri honum réttur til meðalllauna í uppsagnarfresti, sem sé í tilviki stefnanda þrír mánuðir.

Um lagarök kveðst stefnandi aðallega byggja kröfur sínar á 3. mgr. 6. gr., 9. gr. og 25. gr. sjómannalaga nr. 35, 1985 og almennum reglum vinnu- og samningaréttar um gildi samninga og þýðingu grandleysis við gerð samninga.  Um dráttarvexti vísist til  III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987, um málskostnað til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91, 1991 og um virðisaukaskatt til laga um virðisaukaskatt nr. 50, 1988.

Stefnda kveðst byggja á því, að enginn ráðningarsamningur hafi stofnast milli stefnanda og stefnda um starf 1. stýrimanns á Skagfirðingi SK-4.  Enginn hafi verið ráðinn á skipið af stefnda, hvorki sem skipstjóri eða stýrimaður.  Stefnandi hafi aldrei unnið neitt í þágu stefnda vegna fyrrnefnds skips.  Stefnandi hafi því ekki farið á launaskrá stefnda eða verið lögskráður á fyrrnefnt skip, enda hafi skipið ekki verið gert út.

Málatilbúnað stefnanda kveður stefnda eingöngu byggja á þeirri einhliða atvikalýsingu og málatilbúnaði, sem fram komi í faxbréfi frá stefnanda dags. 22. september 1999.  Þá hafi verið liðinn meira en mánuður frá því að hætt hafi verið við áætlanir um útgerð Skagfirðings.  Í nefndu faxi sé fullyrt að Bjarki Helgason hafi verið ráðinn sem skipstjóri á Skagfirðingi og hafi hann skrifað upp á faxið:  „Til staðfestingar á ráðningu“ (stefnanda).  Stefnda kveður stefnanda og Bjarka þekkjast og hafa verið skipverja á sama skipi á úthafsveiðum.  Kveðst stefnda ekki hafa haft nokkra hugmynd um hina meintu ráðningu stefnanda, enda hafi fullyrðingar stefnanda um ráðninguna verið settar fram mánuði eftir að hætt hafi verið við áform um útgerð skipsins.  Bjarki hafi ekki haft neinar forsendur eða heimild frá stefnda til að ráða menn á umrætt skip, enda hafi honum verið manna ljósast, að ekki hafi verið búið að ganga frá nauðsynlegum undirbúningi að útgerð og rekstri skipsins og því ekki hægt að ákveða brottfarardag þess til veiða.  Aðeins hafi verið rætt við Bjarka um að taka að sér skipstjórn, ef af útgerð skipsins yrði.  Forsendur til bindandi mannaráðninga hafi því ekki verið fyrir hendi.  Bjarki hafi því aðeins getað greint stefnanda frá fyrirætlunum stefnda og þær forsendur hafi ekki getað dulist stefnanda.

Stefnda kveður fullyrðingar stefnanda þess efnis, að til munnlegs ráðningarsamnings hafi stofnast án vitneskju stefnda, ekki standast því Bjarki Helgason hafi ekki frekar en stefnandi verið ráðinn á Skagfirðing, enda hafi Bjarki engar launakröfur haft uppi þegar hætt hafi verið við áform um útgerð skipsins.  Bjarki hafi því ekki haft stöðuumboð til að gera bindandi samninga fyrir hönd stefnda samkvæmt sjómannalögum.

Kveður stefnda skylt, skv. 6. gr. sjómannalaga nr. 35, 1985, að gera skriflega ráðningarsamninga við sjómenn og jafnframt séu settar lágmarkskröfur í greininni um efnisatriði slíkra samninga.  Skuli útgerðarmaður sjá um að slíkir samningar séu gerðir við skipverja í tvíriti og skuli skipsrúmssamningurinn m.a. greina ferð þá eða tímabil, sem skipverjinn sé ráðinn til, hvar ráðningu skuli slitið og hver uppsagnarfrestur sé, sé um það samið.  Stefnda kveður því ranga þá fullyrðingu stefnanda, að munnlegir ráðningarsamningar séu meginregla við ráðningu sjómanna.  Það sé lögbundin skylda að gera skriflegan ráðningarsamning við sjómann, sé hann ráðinn á skip til ákveðinnar ferðar eða til ákveðins tímabils og hafi stefnanda átt að vera þetta ljóst.

Um ráðningu stefnanda og Bjarka Helgasonar kveður stefnda ekki hafa verið gerða skipsrúmssamninga, enda hafi þeir aldrei verið ráðnir á Skagfirðing SK-4, sem skipverjar.  Sú fullyrðing að stefnandi hafi verið ráðinn munnlega af „skipstjóranum“ (sic) Bjarka Helgasyni, fái því ekki staðist samkvæmt sjómannalögum.  Stefnda kveður skipstjóra, sem geri munnlegan ráðningarsamning, fara augljóslega út fyrir stöðuumboð sitt, sbr. 3. mgr. sbr. 1. mgr. 6. gr. sjómannalaga, og jafnframt fremja lögbrot.  Bjarki Helgason hafi ekki verið ráðinn sem skipstjóri, sbr. 1. mgr. 6. gr. og hafi því fráleitt haft nokkuð stöðuumboð til að gera skipsrúmssamninga fyrir hönd stefnda.  Stefnandi hafi því sönnunarbyrði um þær fullyrðingar sínar að til ráðningarsamnings hafi stofnast og að Bjarki hafi haft stöðuumboð til gerðar slíks samnings.

Stefnda kveður bæði stefnanda og Bjarka Helgasyni hafa verið ljóst, að stefnda hafi framfylgt í hvívetna lagaskyldu sinni um gerð skriflegra ráðningarsamninga við skipverja á skipum félagsins.  Útgerðarstjóri stefnda hafi gert við þá báða skriflega skipsrúmssamninga um ráðningu meðan þeir hafi verið í starfi skipverja hjá útgerðinni.  Stefnandi hafi verið í áhöfn skips hjá stefnda fyrir rúmlega tveimur árum og verið gerður skriflegur ráðningarsamningur um þá ráðningu, eins og venja hafi verið hjá stefnda.  Stefnanda og Bjarka hafi því verið fullkunnugt um ferli ráðninga hjá stefnda og að útgerðarstjóri gerði ráðningarsamninga við áhöfn skipa félagsins.  Hvorugum hafi því getað dulist að þeir væru ekki í ráðningarsambandi.

Sýknu- og varakröfu um lækkun stefnufjárhæðarinnar rökstyður stefndi með því, að stefnandi hafi ekki sýnt fram á neitt fjártjón vegna meintrar riftunar á ráðningarsamningi.  Óumdeilt sé, að stefnandi hafi unnið launaða vinnu hjá öðrum vinnuveitanda á því þriggja mánaða kauptryggingartímabili, sem hann geri skaðabótakröfu fyrir.  Krafa stefnanda sé skaðabótakrafa vegna meintrar riftunar á ráðningarsamningi, en ekki krafa um laun í uppsagnarfresti.  Skaðabótakröfuna beri því að lækka vegna launagreiðslna frá öðrum atvinnurekendum eða sjálfstæðrar vinnu á sama tímabili.  Kveðst stefnda mótmæla kröfu um fatapeninga, enda sé augljóst að föt stefnanda hafi ekki slitnað vegna vinnu í þágu stefnda.  Þá sé mótmælt kröfu og útreikningi á dráttarvöxtum og málskostnaði.

Til stuðnings kröfu sinni um málskostnað kveðst stefnda vísa til 130. og 131. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála.

Skýrslu fyrir dómi gaf vitnið Kristján Björn Garðarsson, en vitnið Bjarki Helgason gaf skýrslu í gegnum síma.

Bjarki Helgason bar fyrir dómi, að þáverandi útgerðarstjóri stefnda, Kristján Björn Garðarsson, hafi boðið honum starf skipstjóra á Skagfirðingi SK-4.  Kvaðst Bjarki hafa tekið sér umhugsunarfrest og gert Kristjáni Birni grein fyrir því, að hann tæki ekki að sér starfið, nema hann fengi með sér sem 1. stýrimann, mann sem hann gæti treyst.  Kvaðst Bjarki hafa haft samband samdægurs við stefnanda og falast eftir honum í starfið og hafi stefnandi tekið boði hans degi síðar.  Kvaðst Bjarki síðan hafa haft samband við Kristján Björn og tjáð honum að hann tæki að sér skipstjórastarfið þar sem stefnandi hefði fallist á að vera með honum á skipinu.  Kvað Bjarki hafa staðið til að sækja skipið til  Sauðárkróks 5-6 dögum síðar.   

Kristján Björn Garðarsson kvaðst fyrir dómi kannast við að hafa rætt við Bjarka Helgason um að hann tæki að sér skipstjórn á Skagfirðingi SK-4, ef til útgerðar skipsins á vegum stefnda kæmi.   Kristján Björn neitaði því hins vegar staðfastlega, að til ráðningar Bjarka á skipið hafi komið, þar sem hætt hafi verið við útgerð þess.  Bar Kristján Björn jafnframt, að Bjarki hafi komið til sín áður en áform um útgerð Skagfirðings SK-4 hafi verið lögð á hilluna og tilkynnt honum að hann hefði ákveðið að ráða sig á annað skip.  Kvaðst Kristján Björn hafa lýst yfir skilningi sínum á þessari ákvörðun Bjarka og tók fram, að hann hafi talið Bjarka vera óbundinn stefnda og því geta ráðið sig annað án samþykkis stefnda.

Óumdeilt er að ein megin ástæða þess, að hætt var við útgerð stefnda á Skagfirðingi SK-4, var sú að ekki fengust vélstjórar á skipið.  Fyrir liggur í málinu auglýsing úr Morgunblaðinu þann 14. ágúst 1999, þar sem auglýst var eftir vélstjórum á skipið.  Bjarki Helgason upplýsti við skýrslutöku fyrir dómi, að eitt þeirra þriggja símanúmera sem gefið hafi verið upp í auglýsingunni, sé númer sem hann sé rétthafi að.  Kvað Bjarki útgerðina hafa sett umrædda auglýsingu í blaðið og hafi Kristján Björn óskað eftir heimild hans til að birta númer hans í auglýsingunni, sem hann hafi veitt.   Þá kvað Bjarki það hafa verið sett í sínar hendur að finna mannskap á skipið.

Fyrir liggur að Bjarka Helgasyni var greidd nokkur fjárhæð vegna starfa hans fyrir stefnda, en stefnda hefur haldið því fram, að um greiðslu útlagðs kostnaðar hafi verið að ræða, en ekki launagreiðslur og bar Kristján Björn Garðarsson fyrir dóminum, að nefndri greiðslu hafi verið ætlað að dekka þann kostnað sem Bjarki hafi orðið fyrir vegna aksturs og símanotkunar í þágu stefnda og umstangs við að útvega veiðarfæri á Skagfirðing SK-4. 

Verður í þessu sambandi að horfa til þess, að Bjarki bar fyrir dóminum að hann hafi fengið sig lausan úr starfi sínu hjá stefnda til að ráða sig á annað skip.  Aðstaða stefnanda og Bjarka verður því að teljast ólík hvað launagreiðslur varðar, þar sem stefnandi óskaði aldrei eftir að losna úr starfi sínu.  Það að Bjarki tilkynnti stefnda um það er hann réði sig annað til starfa, en krafðist ekki launa fyrir vinnu sína fram til þess tíma, bendir hins vegar til þess, að hann hafi á þeirri stundu verið í starfi hjá stefnda og talið sig þurfa samþykki stefnda til að ráða sig annað.

Því hefur hvorki verið mótmælt af stefnda, að Bjarka Helgasyni hafi verið falið að finna áhöfn á Skagfirðing SK-4, né að ætlunin hafi verið að sækja skipið til Sauðárkróks 5-6 dögum eftir að Kristján Björn óskaði eftir því við Bjarka að hann tæki að sér skipstjórn á skipinu.  Þykja með vísan til þessa, framangreindrar auglýsingar stefnda og áðurlýstra starfa Bjarka í þágu stefnda, nægjanlega sterkar líkur að því leiddar, að Bjarki Helgason hafi verið ráðinn af stefnda, sem skipstjóri á Skagfirðing SK-4.

Kristján Björn Garðarsson kvaðst fyrir dómi ekki reka minni til þess, að Bjarki Helgason hafi gert það að skilyrði fyrir væntanlegri ráðningu sinni sem skipstjóra á Skagfirðing SK-4 að stefnandi yrði 1. stýrimaður á skipinu.  Hins vegar varð ekki annað skilið á Kristjáni Birni en hann kannaðist við, að nafn stefnanda hefði borið á góma í samtölum hans og Bjarka.

Bjarki Helgason bar fyrir dómi, að hann hafi ráðið stefnanda sem 1. stýrimann á Skagfirðing SK-4.  Hafi stefnandi unnið að því að undirbúa skipið undir veiðar.  Hann hafi ásamt Bjarka sjálfum verið að leita að hentugum toghlerum og hafi haft samband við þá menn, sem síðast hafi verið á Skagfirðingi SK-4 og fengið hjá þeim teikningu af trolli, sem netagerð Höfða ehf. hafi síðan stuðst við, er troll var útbúið fyrir skipið. 

Í 3. mgr. 6. gr. sjómannalaga nr. 35, 1985 kemur fram, að skipstjóri hafi stöðuumboð til að ráða skipverja á skip sitt, svo skuldbindandi sé fyrir útgerðarmann skipsins.  Með vísan til niðurstöðu dómsins um ráðningu stefnda á Bjarka Helgasyni í stöðu skipstjóra á Skagfirðingi SK-4 hér að framan, verður að telja með vísan til 3. mgr. 6. gr. sjómannalaga, að stefnandi hafi, svo bindandi sé gagnvart stefnda, verið ráðinn munnlega sem 1. stýrimaður á  Skagfirðing SK-4 af skipstjóra skipsins.  Fullyrðingum stefnda þess efnis, að Bjarki hafi ekki haft heimild til mannaráðninga á skipið, þrátt fyrir ákvæði 3. mgr. 6. gr. sjómannalaga, verður þegar að hafna sem ósönnuðum.

Verður að miða við það í málinu, að ráðning stefnanda hafi verið ótímabundin, enda bera gögn málsins ekki annað með sér og ber stefnda sönnunarbyrði fyrir því, að öðruvísi hafi verið um samið.

Ekki verður fallist á það með stefnda, að skýra beri 1. mgr. 6. gr. sjómannalaga nr. 35, 1985 á þann hátt, að munnlegir skiprúmssamningar séu ógildir, enda kemur það hvergi fram í greininni, hvorki beint né óbeint.  Þá gengi slík túlkun formreglu þvert gegn grunnreglum samninga- og vinnuréttar.

Ef skipverja er vikið úr skiprúmi áður en ráðningartími hans er liðinn og án þess að heimild sé til þess í 23. eða 24. gr. sjómannalaga á hann, skv. 1. mgr. 25. gr. laganna, rétt á kaupi þann tíma sem mælt er fyrir um í 9. gr. nefndra laga.  Við þá ákvörðun stefnda, að falla frá útgerð Skagfirðings SK-4, varð ljóst að stefnandi myndi ekki gegna starfi 1. stýrimanns á skipinu.  Eins og rakið hefur verið hér að framan, sagði stefnda stefnanda hvorki upp störfum, né greiddi honum laun vegna ráðningar hans á skipið.  Verður því að telja með vísan til nefndrar 25. gr., að með lýstu framferði stefnda hafi stefnanda verið vikið úr skiprúmi í skilningi greinarinnar og eigi hann því rétt til jafngildis launa í 3 mánuði, sbr. og 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga. 

Bætur samkvæmt sérreglu 25. gr. sjómannalaga eru meðalhófsbætur og sæta því ekki skerðingu vegna tekna annars staðar frá í uppsagnarfrestinum.  Störf stefnanda í uppsagnarfrestinum varða því í engu ákvörðun bóta í máli þessu og ber því að hafna kröfu stefnda um lækkun á kröfum stefnanda vegna launagreiðslna frá öðrum atvinnurekendum eða sjálfstæðrar vinnu í uppsagnarfresti.

Kveðið er á um rétt yfirmanna til fatapeninga í grein 1.16 í kjarasamningi milli Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Landsambands íslenskra útvegsmanna, en um kjör stefnanda fer samkvæmt nefndum samningi.  Í kjarasamningnum er hvergi tekið fram að réttur til fatapeninga sé því háður, að sýnt sé fram á slit fatnaðar.  Fatapeningar eru því óskilyrtur þáttur í launakjörum stefnanda og verður því að taka kröfu stefnanda um greiðslu þeirra til greina.

Stefnandi hefur sundurliðað kröfur sínar um þriggja mánaða laun á eftirfarandi hátt:  Kauptrygging 1. stýrimanns í þrjá mánuði, þ.e. kr. 127.807,- x 3 = kr. 383.421,-.  Fast kaup í þrjá mánuði, þ.e. kr. 2.574,- x 3 = kr. 7.722,-.  Fatapeningar í þrjá mánuði, þ.e. kr. 2.457,- x 3 = kr. 7.371,-.  Starfsaldursálag í þrjá mánuði, þ.e. kr. 2.556,- x 3 = kr. 7.668,-.  Auk 10,17 % orlofs, sem gerir kr. 41.308,-.  Samtals er því stefnufjárhæðin kr. 447.490,-.

Með vísan til framangreindrar niðurstöðu dómsins og þess, að stefnda hefur ekki mótmælt útreikningi krafna stefnanda tölulega á annan hátt en þann, er þegar hefur verið vikið að, þykir verða að taka kröfur stefnanda að fullu til greina.  Dæmist því stefnda til að greiða stefnanda kr. 447.490,- ásamt dráttarvöxtum eins og krafist er frá þingfestingardegi málsins, sem var 2. febrúar 2000 til greiðsludags.

Eftir framangreindum úrslitum þykir rétt að dæma stefnda til greiðslu málskostnaðar, sem þykir hæfilegur krónur 140.000,- að virðisaukaskatti meðtöldum.

Dóm þennan kveður upp Freyr Ófeigsson, dómstjóri.

D Ó M S O R Ð :

Stefnda, Fiskiðjusamlag Húsavíkur h.f., greiði stefnanda, Þorgrími Jóel Þórðarsyni, kr. 447.490,- ásamt dráttarvöxtum, sbr. III. kafla vaxtalaga nr. 25, 1987, af þeirri fjárhæð frá 2. febrúar 2000 til greiðsludags og kr. 140.000,- í málskostnað.