Hæstiréttur íslands
Mál nr. 35/2012
Lykilorð
- Líkamsárás
|
|
Fimmtudaginn 1. nóvember 2012. |
|
Nr. 35/2012. |
Ákæruvaldið (Hulda Elsa
Björgvinsdóttir saksóknari) gegn X (Kristján
Stefánsson hrl.) |
Líkamsárás.
X
var sakfelldur í héraði og dæmdur í 6 mánaða fangelsi fyrir tvær líkamsárásir
og hótun gagnvart þáverandi eiginkonu sinni og barnsmóður. X neitaði sök. Í
héraðsdómi, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, var
lögð til grundvallar trúverðug og staðföst skýrsla A sem studd var
áverkavottorðum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir
Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til
Hæstaréttar 16. desember 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af
hálfu ákæruvalds er þess krafist að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og
refsing hans þyngd.
Ákærði krefst aðallega sýknu, en til
vara að refsing hans verði milduð og bundin skilorði. Þá krefst hann þess að
einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi, en til vara að hún verði lækkuð.
A, áður [...], hefur ekki látið málið
til sín taka fyrir Hæstarétti. Verður því litið svo á að hún krefjist þess að
staðfest verði ákvæði hins áfrýjaða dóms um einkaréttarkröfu sína, sbr. 1. mgr.
208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða
dóms verður hann staðfestur.
Ákærði verður dæmdur til að greiða
áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns,
sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera
óraskaður.
Ákærði, X, greiði áfrýjunarkostnað
málsins, 268.391 krónu, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns,
Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms
Reykjavíkur 2. nóvember 2011.
I
Málið, sem dómtekið var 17. október
síðastliðinn, er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu,
útgefinni 28. júní 2011 á hendur „X, kennitala [...], [...], [...], fyrir
líkamsárás á hendur þáverandi sambýliskonu og barnsmóður sinni, A,
I
með því að hafa, mánudaginn 20.
september 2010, ráðist á hana, á heimili þeirra að [...] í Reykjavík, rifið í
hár hennar svo hún féll í gólfið og í framhaldinu sparkað einu sinni hægra
megin í brjóstkassa hennar, með þeim afleiðingum að A hlaut rispu og
yfirborðsáverka á hægri bringu og brjóstkassa.
Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr.
almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981 og 110. gr. laga
nr. 82/1998.
II
með því að hafa, aðfaranótt
sunnudagsins 3. október 2010, ráðist á hana, fyrst á heimili þeirra að [...] í
[... ]og slegið hana hnefahöggi í hægri kinn, en síðar sömu nótt hótað að drepa
hana og ógnað henni með hníf í Heiðmörk í Reykjavík og rekið hnífinn í hægri
hendi hennar, allt með þeim afleiðingum að A hlaut bólgur á hægra kinnbeini,
mar á vinstri kinn og á hálsi, skrapsár vinstra megin á hálsi og skrámur á
hægri hendi.
Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr.
almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981 og 110. gr.
laga nr. 82/1998 og 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 125. gr.
laga nr. 82/1998.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur
til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Brotaþoli krefur ákærða um greiðslu
miskabóta að fjárhæð 1.500.000 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. vaxtalaga frá
21. september 2010 til birtingardags kröfunnar en dráttarvaxta frá þeim degi
til greiðsludags. Þá er þess krafist að hann verði dæmdur til að greiða þóknun
réttargæslumanns.
Ákærði neitar sök og krefst sýknu. Þess
er krafist að sakarkostnaður, þar með talin málsvarnarlaun, verði greiddur úr
ríkissjóði. Ákærði krefst sýknu af skaðabótakröfunni en til vara að henni verði
vísað frá dómi.
II
Ákærði og brotaþoli bjuggu saman frá
árinu 2001 og þar til brotaþoli fór af sameiginlegu heimili þeirra í byrjun
október 2010. Brotaþoli lýsti því í yfirheyrslu hjá lögreglu að ákærði hefði
lengi beitt sig ofbeldi, auk þess að vera bæði ráðríkur og stjórnsamur á
heimili. Varðandi atvikið í fyrri lið ákæru kvað brotaþoli ákærða hafa ráðist á
sig á heimili þeirra. Hann hefði þrifið í hár hennar svo hún hefði fallið í
gólfið og þá sparkað í brjóstkassa hennar. Kvaðst brotaþoli hafa átt erfitt með
að anda og hreyfa sig. Hún fór á slysadeild og í vottorði þaðan er haft eftir
henni: „Segir eiginmann sinn hafa sparkað í brjóstkassa hægra megin og sagt það
myndi verða meira að gert ef ekki væri sonur þeirra á heimilinu í næsta
herbergi. Skoðun: Það er rispa eða far eftir högg yfir hægri bringuspölum. Það
eru engin eymsli yfir lifur eða kvið og lungnahlustun er eðlileg. Ekki mæði eða
hósti.“ Þá sáust yfirborðsáverkar á brjóstkassa framanverðum. Hjá lögreglu
neitaði ákærði að hafa veitt brotaþola þessa áverka og kvað þetta aldrei hafa gerst.
Varðandi atvikið í síðari lið ákæru
kvaðst brotaþoli hafa leigt íbúð frá 1. október 2010 og hugsað sér að flytja um
þá helgi. Hún kvaðst hafa látið niður í töskur og farið með á nýja heimilið en
snúið aftur á það gamla til að elda og fleira. Ákærði hefði ekki vitað af þessu
og hefði það verið ætlun hennar að flytja smátt og smátt. Um kvöldið eftir að
hún var sofnuð hefði ákærði farið að skoða í tösku hennar og þá fundið
leigusamning um nýju íbúðina. Kvað hún hann hafa brugðist illa við, vakið hana
og slegið hnefahögg á hægri kinn. Eftir það hefði hann neytt hana til að
klæðast og koma með sér í nýju íbúðina. Þar hefði hann látið þau orð falla að
hún væri of stór fyrir hana og hún hlyti að ætla að flytja þangað með öðrum
manni. Hann hefði síðan neytt sig til að bera töskurnar út í bíl og ekið síðan
með sig út fyrir borgina. Kvaðst brotaþoli hafa séð skilti sem á stóð Heiðmörk
og hefði ákærði beygt þar inn. Eftir að hafa stöðvað bílinn kvað brotaþoli
ákærða hafa rifið sig út úr honum og hótað sér með hníf, meðal annars lífláti.
Hún kvaðst hafa reynt að ýta honum frá sér og hefði þá komið við hnífinn með
hægri hendi. Allt í einu hefði ákærði svo hætt og þau snúið aftur til gamla
heimilisins.
Brotaþoli fór á slysadeild að morgni 4.
október og í vottorði þaðan segir að þegar sambýlismaður hennar hafi komist að
því að hún hefði leigt sér íbúð og væri að flytja frá honum hefði hann ráðist á
hana aðfaranótt sunnudagsins 3. október. „Hún segir að hann hafi farið með sig
upp í Heiðmörk, þar sem hann ógnaði henni með hníf og er hún með litla skrámu á
hæ. hendi eftir að verjast hnífnum. Segir hann einnig hafa lamið sig í andlitið
og hún er talsvert bólgin á hæ. kinnbeini og með marblett á hálsi. Segist aum
yfir rifbeinum hæ. megin og segir ekki frá öðrum áverkum. Raunar er það þannig
að við þetta atvik segir hún að viðkomandi hafi hótað sér með hníf sem hann
beitti við háls og hendi en hún hafi ekki fengið við þetta tilfelli nein högg
en hann hafi hótað henni með þeim orðum að hún ætti ekki að fara frá honum.“ Í
vottorðinu segir að það sé lítið mar vinstra megin á kinn. Lítið skrapsár sé á
hálsi vinstra megin við skjaldkirtilsbrjóskið og á hægri hendi sé lítið sár
yfir II. miðhandarbeini sem er sagt yfirborðslægur skurður. Loks kvartaði
brotaþoli yfir eymslum í brjóstholi hægra megin, en ekki var þar mar eða grunur
um rifbrot.
Í yfirheyrslu hjá lögreglu kannaðist
ákærði við að hafa farið með brotaþola í íbúðina um miðja nótt. Kvaðst hann
hafa verið mjög ósáttur við að hún væri að leigja íbúð án hans vitundar. Hann
neitaði að hafa hótað henni eða ógnað með hnífi. Þá neitaði hann að hafa ekið
með hana í Heiðmörk. Þau hefðu setið í bílnum og ræðst við, meðal annars um
heimilisofbeldi almennt. Ákærði kannaðist við að eiga hníf sem fannst við leit
í bílnum.
III
Við þingfestingu neitaði ákærði sök og
var þá ákveðin aðalmeðferð. Í upphafi aðalmeðferðar ítrekaði hann þá afstöðu
sína. Síðan lýsti ákærði því yfir að hann myndi ekki svara spurningum heldur
vísaði til þess sem hann hafði borið hjá lögreglu.
Brotaþoli bar varðandi atvikið í fyrri
lið ákærunnar að hún og ákærði hefðu rifist og hann hefði orðið mjög reiður og
byrjaði að berja hana. Hún kvaðst hafa setið á rúminu og verið með tölvu og
hann hefði togað í hár hennar og dregið hana niður á gólfi. Þar sem hún hefði
legið í gólfinu hefði hann sparkað í brjóstkassa hennar. Hún kvaðst hvorki hafa
getað andað né hreyft sig. Hún kvaðst bara hafa legið og veinað og hefði hann
þá hætt og farið út úr herberginu. Eftir að hafa jafnað sig kvaðst brotaþoli
hafa sest, en ekki mundi hún hvort hún hefði sest á stól eða rúmið. Sonur
þeirra hefði verið að horfa á sjónvarp og þess vegna hefði hún látið sem ekkert
hefði gerst. Næsta dag kvaðst hún svo hafa farið til læknis. Hún kvað ákærða
hafa verið sér reiðan vegna þess að hún sinnti ekki heimilisverkum svo honum
líkaði.
Varðandi atvikið í síðari lið ákærunnar
bar brotaþoli að ákærði hefði komist að því að hún vildi flytja af heimilinu.
Hún hafði flutt eitthvað af búslóð sinni í nýja íbúð sem hún hafði leigt, enda
hefði hún ákveðið að slíta sambúðinni. Hún kvaðst hafa verið sofandi þegar
ákærði hefði farið í tösku hennar, sem hún hafði falið á baðherberginu, og
fundið leigusamning um nýju íbúðina. Hann hefði vakið hana og spurt hvað væri í
gangi. Brotaþoli kvaðst hafa orðið mjög hrædd, enda bæði þreytt og syfjuð. Hún
kvaðst hafa setið á klósettinu þegar ákærði hefði slegið hana með hnefanum á
hægri vangann. Síðan neyddi hann hana til að klæða sig og fara með honum í nýju
íbúðina til að sýna honum. Þegar þangað var komið tók ákærði töskurnar og svo
fóru þau aftur í bílinn og óku á brott. Hún kvaðst ekki hafa vitað hvert ákærði
ók, en hún vissi að þau voru ekki á leiðinni heim heldur út úr bænum. Þetta var
annaðhvort seint um nótt eða snemma morguns og enginn á ferli. Nokkrum sinnum á
leiðinni hefði ákærði hótað að drepa hana. Brotaþoli kvaðst muna eftir skilti
sem á stóð Heiðmörk en ákærði ók eftir vegi sem lá þangað og stöðvaði á
eyðilegum stað. Hún kvað ákærða hafa þvingað sig út úr bílnum og tekið upp hníf
og sagt henni að öskra og spurði hver ætti að hjálpa henni núna. Ákærði hefði
ógnað sér með hnífnum og látið eins og hann ætlaði að meiða hana. Hún kvaðst
hafa reynt að ýta ákærða frá sér, en hann hefði beint hnífnum að andliti hennar
og hálsi. Þegar hún var að ýta honum frá sér hefði hún lent á hnífnum og
skorist á hendi. Allt í einu var eins og ákærða hefði snúist hugur og hefði
hann sest inn í bílinn. Hún hefði einnig sest inn í bílinn og ákærði hefði
síðan ekið þeim heim. Þegar heim var komið hefðu þau farið að sofa.
Læknirinn, sem ritaði vottorð varðandi
fyrri ákæruliðinn, staðfesti það. Hann bar að áverkarnir, sem lýst er í
vottorðinu, geti komið heim og saman við lýsingu brotaþola á því sem hún sagði
að gerst hefði. Hann kvaðst sjálfur hafa skoðað brotaþola og séð að hún var með
höggáverka, en ekki væri hægt að segja til um með hverju höggið hefði verið
greitt, en það hefði ekki verið verkfæri eða hnífur eða málmhlutur, heldur væri
um að ræða það sem kallaður er „sljór áverki“. Höggið hefði verið þungt, það
sæist á því hvernig markaði undan því.
Læknirinn, sem ritaði vottorð varðandi
síðari ákæruliðinn, staðfesti það. Hann bar að hafa ritað vottorðið samkvæmt
bókum slysadeildar, en hjúkrunarfræðingur hefði skráð upplýsingar eftir
brotaþola á deildinni. Hjúkrunarfræðingurinn hefði bókað að brotaþoli hefði
verið með áverka hægra megin í andliti en læknirinn, sem skoðaði hana, hefði
skráð að hún hefði verið með áverka vinstra megin. Þá kvað hann skurðinn á
hendi brotaþola hafa getað verið veittan með hníf. Læknirinn kvaðst ekki
sjálfur hafa skoðað brotaþola heldur unglæknir sem hefði unnið á sína ábyrgð.
IV
Ákærði og brotaþoli eru ein til
frásagnar um það sem gerðist milli þeirra í þau tvö skipti sem um getur í
ákæru. Við úrlausn málsins verður því aðallega að byggja á mati á
trúverðugleika framburðar þeirra. Bæði gáfu þau skýrslur hjá lögreglu. Fyrir
dómi gaf brotaþoli skýrslu en ákærði neitaði að tjá sig og vísaði til skýrslu
sinnar hjá lögreglu. Kvaðst hann hafa sagt þar allt sem hann hefði um málið að
segja.
Það er mat dómsins að brotaþoli hafi
gefið skýrslu sína fyrir dómi óþvingað og eðlilega þar sem hvorki var að greina
hik né misbresti í frásögn hennar þannig að í ósamræmi væri svo nokkru næmi við
skýrslur hennar hjá lögreglu. Vegna afstöðu ákærða er hins vegar ekki hægt að
leggja mat á trúverðugleika hans á sama hátt. Þrátt fyrir að dómendur hafi
kynnt sér skýrslu hans hjá lögreglu getur mat þeirra á henni ekki komið í stað
þess að meta framburð sem gefinn er milliliðalaust fyrir dóminum. Samkvæmt
þessu er það mat dómsins að brotaþoli hafi gefið trúverðuga skýrslu fyrir dómi.
Brotaþoli leitaði á slysadeild eftir að
atvikin gerðust, sem í ákæru greinir. Fyrir dóminn hafa verið lögð
áverkavottorð og auk þess hafa læknarnir, sem þau sömdu, staðfest þau og gefið
skýrslur um skoðun á brotaþola. Frásögn brotaþola á slysadeild af því sem
gerðist er skráð í áverkavottorðin eins og rakið var. Varðandi fyrra tilvikið
er frásögn hennar þar sú sama og hjá lögreglu og fyrir dómi auk þess sem
áverkarnir koma heim og saman við frásögn hennar. Varðandi síðara tilvikið bar
brotaþoli hjá lögreglu og fyrir dómi að ákærði hefði slegið hana á hægri vanga
og þannig skýrði hún og frá á slysadeild. Læknirinn, sem ritar vottorðið, bar
hins vegar að læknir sá, sem hefði skoðað hana, hefði skráð að áverkinn væri á
vinstri vanga. Þrátt fyrir þetta verður lagt til grundvallar að brotaþoli hafi
verið með áverka á hægri vanga, enda styðst það við framburð hennar og
áverkavottorðið sem byggir á því sem skráð er af hjúkrunarfræðingi sem tók á
móti henni á slysadeild. Þá er ákærða gefið að sök að hafa rekið hníf í
brotaþola eins og rakið er í síðari ákærulið. Brotaþoli bar aftur á móti að hún
hefði skorist á hnífnum þegar hún hefði reynt að verjast ákærða eins og rakið
var.
Með vísun til þess, sem nú hefur verið
rakið, er það niðurstaða dómsins að við úrlausn málsins eigi að leggja til
grundvallar trúverðuga og staðfasta skýrslu brotaþola sem studd er
áverkavottorðunum eins og rakið var. Ákærði verður því sakfelldur fyrir það sem
honum er gefið að sök í fyrri kafla ákærunnar og það sem honum er gefið að sök
í þeim síðari nema að hafa rekið hnífinn í brotaþola. Byggja verður á framburði
brotaþola um að hún hafi skorist á hendi þegar hún reyndi að verjast atlögu
hans og rakst í hnífinn. Þá telur dómurinn sannað með trúverðugum framburði
brotaþola að ákærði hafi hótað henni og ógnað eins og honum er gefið að sök í
síðari kafla ákæru. Með þessum athugasemdum verður ákærði sakfelldur samkvæmt
ákærunni og eru brot hans þar rétt færð til refsiákvæða.
Á árinu 2001 var ákærði tvívegis
sektaður fyrir umferðarlagabrot og einu sinni fyrir þjófnað. Á árinu 2002 var
hann aftur sektaður fyrir þjófnað og árið 2003 var hann dæmdur í 60 daga
fangelsi, skilorðsbundið í 2 ár, fyrir þjófnað. Árið 2009 var hann sektaður
fyrir líkamsárás. Við ákvörðun refsingar nú verður höfð hliðsjón af 3. mgr. 70.
gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga. Refsing ákærða er hæfilega ákveðin
fangelsi í sex mánuði sem ekki eru skilyrði til að skilorðsbinda.
Samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr.
50/1993 og með hliðsjón af gögnum málsins um árásirnar eru miskabætur til
brotaþola hæfilega ákveðnar 600.000 krónur ásamt vöxtum eins og í dómsorði
greinir. Vextir skulu reiknast frá
síðari árásardeginum. Það athugast að ákærða var birt bótakrafan 8. febrúar
2011 og miðast upphafstími dráttarvaxta við þann dag er liðnir voru 30 dagar
frá þeim degi. Þá athugast einnig að brotaþoli hefur tekið upp annað föðurnafn
en í ákæru greinir og er hið nýja tilgreint í dómsorðinu.
Loks verður ákærði dæmdur til að greiða
sakarkostnað, málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola
að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dóminn kváðu upp héraðsdómararnir
Arngrímur Ísberg, dómsformaður, Hervör Lilja Þorvaldsdóttir og Jón
Finnbjörnsson.
D Ó M S O R Ð
Ákærði, X, sæti fangelsi í 6 mánuði.
Ákærði greiði A 600.000 krónur með
vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 3. október 2010 til 8. mars
2011 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til
greiðsludags.
Ákærði greiði 55.200 krónur í
sakarkostnað, málsvarnarlaun verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl.,
251.000 krónur og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Margrétar Gunnlaugsdóttur
hdl., 125.500 krónur.