Hæstiréttur íslands
Mál nr. 175/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Samningur
- Málsástæða
- Erlend réttarregla
|
|
Mánudaginn 24. mars 2014. |
|
Nr. 175/2014.
|
Deutsche Bank AG London (Baldvin Björn Haraldsson hrl.) gegn Kaupþingi hf. (Þröstur Ríkharðsson hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Samningur. Málsástæða. Erlend réttarregla.
Með samningi 9. nóvember 2007 skuldbatt D sig til að veita K hf. lausafjárfyrirgreiðslu gegn greiðslu árlegrar þóknunar. Í samningnum var meðal annars tiltekið að hraða skyldi greiðslu þóknunarinnar í því tilviki að breyting yrði á yfirráðum K hf., sem þá skyldi greiða þóknunina þegar í stað. F tók yfir vald hluthafafundar K hf. 9. október 2008, vék stjórn hans frá og skipaði honum skilanefnd. Með bréfi þann sama dag tilkynnti D K hf. að vegna breytinga á yfirráðum K hf. væri D laus undan skuldbindingum sínum samkvæmt samningnum. Samhliða þessu gerði D kröfu um að K hf. greiddi tafarlaust árlega þóknun samkvæmt fyrirmælum samningsins. D lýsti síðar kröfu við slit K hf. til heimtu þóknunarinnar. Með úrskurði héraðsdóms var hafnað að viðurkenna kröfu D við slit K hf. þar á meðal með skírskotun til þess að samkvæmt gögnum málsins lægi fyrir að D hefði áður talið að eftir atvikin 9. október 2008 mætti jafna stöðu K hf. til þess að hafin væru gjaldþrotaskipti á búi hans. Samkvæmt því hefði ekki orðið breyting á yfirráðum K hf. í merkingu hins umþrætta samnings er atvikin gerðust og D ætti þar af leiðandi ekki kröfu á hendur K hf. til heimtu þóknunar á grundvelli samningsins. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu hins kærða úrskurðar. Í dómi Hæstaréttar var meðal annars tekið fram að D hefði fyrir réttinum haft uppi nýja málsástæðu, þess efnis að yrði ekki fallist á að breytt yfirráð K hf. hefðu átt sér stað og réttur D til þóknunar úr hendi K hf. stofnast af þeim sökum, hefði krafa D fallið í gjalddaga við töku K hf. til slita á grundvelli 1. mgr. 99. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þessi málsástæða kom ekki til álita fyrir réttinum samkvæmt 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 4. mgr. 150. gr. sömu laga og 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. febrúar 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. mars sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. febrúar 2014 þar sem hafnað var tilgreindri kröfu sóknaraðila sem lýst var við slit varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að kröfu hans, samtals að fjárhæð 13.804.859 evrur og 13.500 sterlingspund, verði skipað í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 við slit varnaraðila. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Samkvæmt gögnum málsins gerðu aðilar 9. nóvember 2007 með sér samning um lausafjárfyrirgreiðslu. Eins og gerð er grein fyrir í hinum kærða úrskurði var í 7. gr. samningsins kveðið á um þóknun til sóknaraðila fyrir að takast á hendur þá skuldbindingu að veita varnaraðila, sem þá hét Kaupþing banki hf., lausafjárfyrirgreiðslu samkvæmt samningnum. Eftir grein 7.1 skyldi gjalddagi þóknunarinnar vera 9. nóvember ár hvert til og með 9. nóvember 2011. Samkvæmt grein 7.3 skyldi þó hraða greiðslu þóknunarinnar í því tilviki að breyting yrði á yfirráðum varnaraðila, en við það bæri honum að greiða sóknaraðila þóknunina þegar í stað.
Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar varnaraðila 9. október 2008, vék stjórn hans frá störfum og skipaði honum skilanefnd samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Sóknaraðili sendi varnaraðila bréf sama dag þar sem tilkynnt var að vegna breytingar á yfirráðum varnaraðila, eins og lýst væri í f. lið 5. gr. áðurgreinds samnings, væri sóknaraðili laus undan skuldbindingum sínum samkvæmt honum. Jafnframt var þess krafist að sóknaraðila yrði greidd árleg þóknun eftir 7. gr. samningsins, að fjárhæð 12.906.602 evrur, sem samkvæmt grein 7.3 kæmi tafarlaust til greiðslu vegna breytingar á yfirráðum varnaraðila.
Í samræmi við efni bréfsins 9. október 2008 lýsti sóknaraðili við slit varnaraðila kröfu þeirri, sem um er deilt í málinu, að höfuðstól 12.906.602 evrur, auk 896.390 evra í vaxtakostnað og 1.857 evra og 13.500 sterlingspunda vegna útlagðs kostnaðar. Í greinargerð sóknaraðila í héraði kvaðst hann „einkum“ byggja á þeirri málsástæðu að ákvæði greinar 7.3 í samningi aðila hafi orðið virkt við fyrrnefnda ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Þrátt fyrir að með hinu tilvitnaða orði væri látið í veðri vaka að krafa sóknaraðila kynni að vera reist á öðrum málsástæðum komu þær hvorki fram í greinargerðinni né kæru hans til Hæstaréttar. Hins vegar sagði meðal annars í greinargerð sóknaraðila hér fyrir dómi: „Ef ekki yrði fallist á að breytt yfirráð hafi átt sér stað og krafan fallið í gjalddaga skv. ákvæði 7.3 í samningnum ... taka við ófrávíkjanleg ákvæði íslenskra laga um gjaldþrotaskipti ... Samkvæmt 1. mgr. 99. gr. laga nr. 21/1991 gjaldfalla allar kröfur á hendur varnaraðila frá og með 22. apríl 2009, þ.m.t. krafa sóknaraðila.“ Þessi nýja málsástæða sóknaraðila, sem ekki er í samræmi við málatilbúnað hans í héraði, kemur ekki til álita við úrlausn málsins fyrir Hæstarétti samkvæmt 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 4. mgr. 150. gr. sömu laga og 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991.
Að framangreindu virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Deutsche Bank AG London, greiði varnaraðila, Kaupþingi hf., 400.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. febrúar 2014.
Þetta mál, sem barst dóminum, 15. febrúar 2013, með bréfi slitastjórnar Kaupþings banka hf., var þingfest 5. mars það ár og tekið til úrskurðar 18. desember 2013.
Sóknaraðili, Deutsche Bank AG, Winchester House, 1 Great Winchester Street, Lundúnum, Bretlandi, krefst þess að að viðurkennd verði krafa hans við slit Kaupþings hf. að fjárhæð 12.906.602 evrur auk 896.390 evra í vaxtakostnað og 1.867 evrur og 13.500 bresk pund vegna útlagðs kostnaðar, samtals 13.804.859 evrur og 13.500 pund, svo og að krafa sóknaraðila njóti stöðu í réttindaröð skv. 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.
Sóknaraðili krefst einnig málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Varnaraðili, Kaupþing hf., kt. 560882-0419, Borgartúni 26, Reykjavík, krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað en afstaða slitastjórnar staðfest.
Hann krefst jafnframt málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Málavextir
Haustið 2007 falaðist Kaupþing banki hf. eftir samningi við sóknaraðila til þess að tryggja mætti lausafjárstöðu bankans. Sóknaraðili og Kaupþing undirrituðu, 9. nóvember 2007, samning um lausafjárfyrirgreiðslu, „Liquidity Facility Agreement“ (samningurinn). Sóknaraðili samdi skilmála samningsins einhliða en samkvæmt samningnum skuldbatt hann sig til að veita Kaupþingi banka aðgang að lausafé með því að lofa að kaupa skuldabréf sem Kaupþing myndi gefa út á gildistíma samningsins. Skuldabréfin mátti Kaupþing gefa út samkvæmt skuldabréfaútgáfum sínum, annað hvort EUR 12.000.000.000 Euro Medium Term Note Programme eða USD 10.000.000.000 US Medium Term Note Programme. Sú fjárhæð sem sóknaraðili lofaði að kaupa samkvæmt samningnum gat numið allt að 1.000.000.000 evra í samræmi við skilyrði hvorrar skuldabréfaútgáfu fyrir sig. Samningurinn gilti í fimm ár frá dagsetningu hans. Sóknaraðili þurfti aldrei að kaupa skuldabréf af varnaraðila í samræmi við skilmála samningsins.
Í 7. gr. samningsins er kveðið á um þóknun sóknaraðila fyrir þá skuldbindingu að veita Kaupþingi banka aðgang að allt að 1.000.000.000 evra í fimm ár. Sóknaraðili innheimti ekki neina upphafsþóknun en samkvæmt grein 7.1 skyldi bankinn greiða sóknaraðila þóknun að jafnvirði 0,35% af heildarskuldbindingunni árlega. Gjalddagi þóknunarinnar var 9. nóvember ár hvert til og með 9. nóvember 2011. Kæmi til útgáfu skuldabréfa á samningstímanum skyldi eftirstæðum árlegum greiðslum þóknunar flýtt hlutfallslega og þær greiddar á viðkomandi útgáfudegi, sbr. grein 7.2. Þannig var tryggt að sóknaraðili fengi alltaf greidda þóknun sem næmi fjárhæð að jafnvirði fimm árlegra þóknana sem væri þó lækkuð með tilliti til núvirðisútreiknings skv. grein 7.1. Yrði breyting á yfirráðum Kaupþings banka (e. Change of Control Event) á gildistíma samningsins skyldi eftirstæðum árlegum greiðslum einnig flýtt og þær greiddar um leið og slíkur atburður yrði, sbr. grein 7.3. Þannig var einnig tryggt að sóknaraðili fengi alltaf þóknun að jafnvirði fimm árlegra þóknana skv. grein 7.1. Samkvæmt grein 18.(a) í samningnum skyldu ensk lög gilda um hann.
Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar Kaupþings banka hf., 9. október 2008, vék félagsstjórn í heild sinni frá störfum og skipaði bankanum skilanefnd í samræmi við ákvæði 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 128/2008.
Sama dag, 9. október 2008, tilkynnti sóknaraðili varnaraðila skriflega um gjaldfellingu hinnar árlegu þóknunar, á grundvelli ákvæðis í grein 7.3 í samningnum um breytingu á yfirráðum. Í ákvæðinu segir að komi til breytinga á yfirráðum útgefanda skuldabréfanna, þ.e. Kaupþings banka, gjaldfalli það árlega gjald sem útgefandi skuli greiða sóknaraðila samkvæmt samningnum, á þann hátt að útgefandi samþykki að greiða, undir slíkum kringumstæðum, samtölu þeirra árlegu gjalda sem útgefandi hefði þurft að greiða á hverjum gjalddaga til loka samningstímans eftir breytingu á yfirráðum, lækkað með tilliti til núvirðisútreiknings á greiðslunni þar sem hún sé í raun fyrirfram greidd. Ákvæðið í heild sinni hljóðar svo á ensku:
Upon the occurrence of a Change of Control Event, the timing of payment of the Annual Facility Fee shall be accelerated. In such a case, the Issuer agrees to pay to the Liquidity Facility Provider immediately the present value of the Annual Facility Fee that would have been payable on each Facility Fee Payment Date occurring after the date of the occurrence of the Change of Control Event (on the basis of the Net Facility Limit as at the occurrence of the Change of Control Event) as discounted to the date of payment of the present value of the Annual Facility Fee (with each year comprising 360 days of twelve 30-day months) at a rate equal to the Discount Rate.
Sóknaraðili byggði á því í tilkynningunni til Kaupþings banka, að með þeirri ákvörðun Fjármálaeftirlitsins að taka yfir vald hluthafafundar bankans, víkja félagsstjórn í heild sinni frá störfum og skipa bankanum skilanefnd hafi þetta ákvæði samningsins orðið virkt þannig að sóknaraðili ætti kröfu á hendur varnaraðila á grundvelli ákvæðisins. Varnaraðili brást ekki við þessari tilkynningu.
Í grein 1 í samningnum um lausafjárfyrirgreiðslu er þessi skilgreining á „Change of Control Event“, sem hljóðar svo á ensku:
Change of Control Event means any single person, or group of persons acting in concert, acquires control of the Issuer (a Change of Control Event) and for this purpose, control means the power, direct or indirect (A) to vote more than 50 per cent of the securities having ordinary voting power for the election of directors of the Issuer, or (B) to direct or cause the direction of the management and policies of the Issuer whether by contract or otherwise the right to direct the management and policies whether by voting control, contract or otherwise of the Issuer.
Kaupþingi banka hf. var veitt heimild til greiðslustöðvunar 24. nóvember 2008 og var skipuð slitastjórn 25. maí 2009 samkvæmt 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009 og 4. tölulið ákvæðis II til bráðabirgða við þau lög. Slitameðferð bankans hófst 22. apríl 2009.
Varnaraðili, slitabú bankans, birti innköllun til skuldheimtumanna í fyrra sinni í Lögbirtingablaði 30. júní 2009. Að liðnum sex mánuðum, 30. desember 2009, rann kröfulýsingarfrestur út. Sóknaraðili lýsti kröfu sinni við slitameðferð varnaraðila, 23. desember 2009. Sú krafa sem hér er til meðferðar fékk númerið 20100118-0006 í kröfuskrá. Slitastjórn hafnaði kröfu varnaraðila, 22. nóvember 2010, þar sem hún væri ekki nægilega rökstudd. Sóknaraðili mótmælti afstöðu slitastjórnar til kröfunnar á kröfuhafafundi, 3. desember 2010. Árangurslaust var reynt að leysa ágreininginn á fundum. Á þeim rökstuddi varnaraðili þá ákvörðun sína að hafna kröfu sóknaraðila með því að hann teldi ekki uppfyllt fyrrgreint ákvæði samningsins um „Change of Control“ sem sóknaraðili lagði til grundvallar kröfu sinni.
Varnaraðili vísaði ágreiningnum til héraðsdóms Reykjavíkur til úrlausnar,15. febrúar 2013.
Málsástæður sóknaraðila
Sóknaraðili byggir kröfu sína einkum á þeirri málsástæðu að grein 7.3 í samningi hans við Kaupþing banka um lausafjárfyrirgreiðslu, hafi orðið virkt við þá ákvörðun Fjármálaeftirlitsins að taka yfir vald hluthafafundar Kaupþings banka, víkja félagsstjórn í heild sinni frá störfum og skipa bankanum skilanefnd.
Skilyrði þess að grein 7.3 í samningnum eigi við, það er að yfirráð yfir varnaraðila hafi breyst (e. Change of Control Event) þar sem (1) Fjármálaeftirlitið teljist vera aðili (e. person) samkvæmt greininni og (2) yfirtaka Fjármálaeftirlitsins á hluthafafundi varnaraðila og skipan skilanefndar yfir varnaraðila teljist vera „control“ í skilningi sömu greinar.
Yfirráð yfir varnaraðila breyttust (Change of Control Event)
Sóknaraðili byggir á því að grein 7.3 í samningnum um „Change of Control“ hafi tekið gildi með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, 9. október 2008, þar sem atburðarásin frá birtingu ákvörðunarinnar falli undir áður nefnda skilgreiningu á „Change of Control Event“ samkvæmt samningnum.
Samkvæmt skilgreiningunni breytist yfirráð varnaraðila þegar einhver einn aðili (e. person) eða fleiri aðilar í sameiningu nái yfirráðum yfir honum en í því tilviki teljist breyting á yfirráðum (e. Change of Control Event) hafa orðið í skilningi samningsins. Þá segi enn fremur að í þessum tilgangi skuli yfirráð þýða beint eða óbeint vald til að (A) nýta meira en 50% atkvæðisréttar þeirra hluta sem veiti rétt til að taka þátt í kjöri um stjórnarmenn varnaraðila eða (B) til að stýra varnaraðila eða hafa vald til að stýra stefnu hans hvort sem er skv. atkvæðisrétti, samningi eða á annan hátt.
Með 100. gr. a laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 128/2008, hafi Fjármálaeftirlitinu verið veitt heimild til að taka yfir vald hluthafafundar varnaraðila, víkja félagsstjórn frá störfum og skipa bankanum skilanefnd. Í 100. gr. a laga nr. 161/2002 komi nánar tiltekið fram að umboð stjórnar fjármálafyrirtækisins (varnaraðila) falli úr gildi og réttur hluthafa til að taka ákvarðanir um málefni þess á grundvelli eignarhluta sinna verði jafnframt óvirkur. Í kjölfar þess að Fjármálaeftirlitið felldi úr gildi umboð félagsstjórnar og gerði rétt hluthafa til ákvarðanatöku óvirkan hafi verið skipuð skilanefnd sem, samkvæmt fyrrgreindri 100. gr. a laga nr. 161/2002, hafi farið með sömu heimildir og félagsstjórn og hluthafafundur hefðu ella haft á hendi og starfaði almennt í samráði við Fjármálaeftirlitið.
Sóknaraðili byggir þannig á því að Fjármálaeftirlitið sé aðili sem hafi tekið við yfirráðum í fyrrgreindum skilningi samningsins. Þar með hafi virkjast umrædd grein 7.3 um þóknun vegna breytingar á yfirráðum og á því sé fjárkrafa sóknaraðila byggð.
Í þeim tilgangi að sýna fram á að breyting á yfirráðum (e. Change of Control Event) hafi orðið samkvæmt skýru orðalagi samningsins, telur sóknaraðili mikilvægt að rekja hvernig Fjármálaeftirlitið og aðgerðir þess gagnvart varnaraðila sjálfum, hluthöfum hans, stjórn og stjórnun hans, 9. október 2008, uppfylli öll skilyrði greinar 7.3. í samningnum samkvæmt enskum lögum, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 43/2000 um lagaskil á sviði samningaréttar og 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Fjármálaeftirlitið telst vera aðili (e. person) samkvæmt enskum rétti
Samkvæmt ákvæði 18. (a) í samningnum gildi ensk lög um hann. Sóknaraðili byggir kröfu sína á því að Fjármálaeftirlitið teljist aðili (e. person) samkvæmt enskum lögum þar sem í samningnum sjálfum sé ekki skilgreining á slíkum aðila. Því verði sérstaklega að líta til nánar tiltekinna enskra lagareglna við mat á því hvort Fjármálaeftirlitið teljist slíkur aðili.
Samkvæmt málsgrein 6 1 (b) í Law of Property Act 1925, gildi sú regla að í samningum undirrituðum eftir 31. desember 1925 falli undir hugtakið aðili (e. person) svokallað „corporation“, sbr. lögfræðiálit ensku lögmannstofunnar Slaugther & May frá 23. apríl sl. Þessi lagalega skilgreining á aðila (e. person) sé í samræmi við fyrri ákvörðun „High Court“ í máli Willmott gegn London Road Car Co Ltd. Í því máli hafi stefnandi samþykkt að leigja stefnda land og byggingar. Leigusamningur sem aðilar undirrituðu kvað á um bann við framleigu án samþykkis leigusala, stefnanda í málinu, sem skyldi ekki verða neitað um þegar slíkt væri sanngjarnt með tilliti til þess um hvaða aðila (e. person) væri að ræða. Þegar annað félag sem bar heitið London General Omnibus Company („LCG“) keypti starfsemi stefnda óskaði stefndi eftir slíku samþykki frá stefnanda vegna framleigu til LCG. Þrátt fyrir að stefnandi neitaði að gefa slíkt samþykki afhenti stefndi LCG landið og byggingarnar. Stefnandi höfðaði þá mál á hendur stefnda og fór fram á afhendingu landsins og bygginganna vegna vanefnda á umræddum leigusamningi enda ekki um aðila að ræða þar sem LCG væri félag. Niðurstaða dómsins var sú að hugtakið aðili samkvæmt leigusamningnum gæti vel falið í sér lögaðila og þar með félag.
Um skilgreiningu á „corporation“ verði einnig litið til enskra laga en „corporation“ sé skilgreint sem aðili er lög kveði á um að hafi önnur einkenni en eigendur/meðlimir þess, í þessu tilviki Fjármálaeftirlitsins. Nánar tiltekið sé þetta aðili sem sé bær að lögum til að hafa hagsmuna að gæta almennt, bær til að taka á sig samningsskuldbindingar, vera lögsóttur og lögsækja aðra í eigin nafni, ekki ósvipað og gildi í íslenskum rétti þ.e. hver sá aðili sem er bær að lögum til að eiga réttindi og bera skyldur. Sé aðilinn erlendur verði hann viðurkenndur fyrir enskum dómstólum hafi verið til hans stofnað í samræmi við lög þess lands þar sem aðilinn var upphaflega stofnsettur. Í þeim tilgangi að sanna hina framangreindu erlendu réttarreglu vísar sóknaraðili til fjögurra dóma enskra dómstóla í eftirfarandi málum:
(A) Henriques gegn General Privileged Dutch Co. Hollenskt félag höfðaði innheimtumál á hendur hópi einstaklinga vegna skuldar við sig. Hópurinn áfrýjaði til „House of Lords“ og bar það fyrir sig að ensk lög gerðu ekki ráð fyrir að erlend félög gætu höfðað slíkt mál fyrir enskum dómstólum en þar sem hollenska félagið gat sannað tilvist sína samkvæmt hollenskum lögum samþykkti dómstóllinn málshöfðunina og dæmdi hollenska félaginu í vil.
(B) Newby gegn Von Oppen og Colt´s Patent Firearms Manufacturig Co. Hér tiltók enski dómstóllinn „High Court“ að eðli málsins samkvæmt gæti erlendur lögaðili einnig verið stefndi í máli fyrir enskum dómstólum tækist að sýna fram á að til hans hefði verið stofnað í samræmi við lög þess lands þar sem lögaðilinn var stofnsettur.
(C) Lazard Bros & Co gegn Midland Bank Ltd. Áfrýjandi taldi rússneskt félag skulda sér tiltekna fjárhæð. „House of Lords“ tók það fram í forsendum fyrir niðurstöðu sinni að viðurkenna bæri rétthæfi erlends lögaðila fyrir enskum dómstólum væri hægt að sýna fram á að til hans hefði verið stofnað í samræmi við lög þess lands þar sem lögaðilinn var stofnsettur. Þar sem dómurinn taldi að sýnt hefði verið fram á slit hins erlenda lögaðila tók dómstóllinn það einnig sérstaklega fram að líkt og með tilvistina bæri dómstólnum að hafna aðildarhæfi þess lögaðila fyrir enskum dómstólum sem hefði verið slitið í samræmi við lög þess lands þar sem umræddur lögaðili var stofnaður.
(D) Sarrio SA gegn Kuwait Investment. Aðildarhæfi kúveisks lögaðila var viðurkennt samkvæmt enskum lögum af „Court of Appeal“ þar sem hægt var að sýna fram á að til hans hafði verið stofnað í samræmi við lög þess lands þar sem lögaðilinn var stofnsettur.
Framangreindu til viðbótar bendir sóknaraðili á að enskir dómstólar myndu viðurkenna slíkan aðila þótt slíkur aðili uppfyllti ekki alla eiginleika „corporation“ samkvæmt enskum lögum. Þessu til stuðnings vísar sóknaraðili til dóms enska dómstólsins „Court of Appeal“ í máli Bumper Development Corp. Ltd. gegn Metropolitan Police Commissioner, en samkvæmt málavaxtalýsingu í því máli var fornmun stolið úr musteri og enskt félag keypti síðan muninn í góðri trú. Musterið höfðaði því mál fyrir „House of Lords“ til að endurheimta fornmuninn af lögreglunni sem hafði lagt hald á hann. Dómstóllinn tók það sérstaklega fram að þótt musterið væri ekki hæft til að reka mál samkvæmt enskum lögum væri það hæft samkvæmt lögum sem um aðilann giltu á Indlandi og þar með var musterið talið bært til að höfða málið fyrir enskum dómstólum. Nánar tiltekið kveði enskur réttur á um að lög þess lands þar sem aðilinn var upphaflega stofnsettur skuli skera úr um hvort aðilinn sé aðildarbær lögaðili. Sé erlendur lögaðili stofnsettur í samræmi við reglur þess lands sem um hann gilda og lögaðilinn er aðildarhæfur í því landi skuli hann talinn falla undir hugtakið aðili (e. person) og vera aðildarbær fyrir enskum dómstólum.
Í ljósi framangreinds telur sóknaraðili einsýnt að Fjármálaeftirlitið samsvari því sem átt er við með hugtakinu „person“. Fjármálaeftirlitið hafi verið stofnað á grundvelli laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og starfi samkvæmt þeim. Það sé sjálfstæð ríkisstofnun sem lúti sérstakri stjórn en stofnunin heyri undir ráðherra, sbr. 3. gr. laga nr. 87/1998. Þar með sé ljóst að Fjármálaeftirlitið hafi önnur einkenni en ríkið sem óþarft sé að gera nánari grein fyrir. Þá hafi Fjármálaeftirlitið almennt hagsmuna að gæta í starfsemi sinni, en það sé hlutverk þess að hafa eftirlit með starfsemi nánar tiltekinna aðila, sbr. 2. gr. laganna og séu ákvarðanir eftirlitsins ekki endanlegar í þeim skilningi að höfða megi dómsmál á hendur Fjármálaeftirlitinu til þess að fá úr því skorið hvort þær standist lög eða ekki. Fjármálaeftirlitið sé jafnframt bært til þess að taka á sig sjálfstæðar samningsskuldbindingar, sbr. t.d. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 87/1998. Að lokum megi einnig benda á að Fjármálaeftirlitið geti lögsótt aðra í eigin nafni. Að öllu framangreindu virtu telur sóknaraðili ljóst að Fjármálaeftirlitið uppfylli öll skilyrði enska hugtaksins „corporation“ í samræmi við ensk lög auk þess sem Fjármálaeftirlitið hafi verið stofnað í samræmi við íslensk lög. Fjármálaeftirlitið sé einnig talið til þess bært að íslenskum lögum að eiga réttindi og bera skyldur. Af þessu leiði að Fjármálaeftirlitið falli undir hugtakið aðili (e. person) samkvæmt skilgreiningu samningsins, um breytingu á yfirráðum (e. Change of Control Event).
Yfirtaka Fjármálaeftirlitsins á hluthafafundi varnaraðila og skipan skilanefndar yfir varnaraðila telst vera „control“
Sóknaraðili byggir einnig á því að yfirtaka hluthafafundar hafi falið í sér breytingu á yfirráðum samkvæmt skilgreiningu samningsins á „Change of Control Event“. Eins og áður greini teljist það breyting á yfirráðum þegar einhver einn aðili (e. person) eða fleiri aðilar í sameiningu nái yfirráðum yfir varnaraðila. Þá segi enn fremur að í þessum tilgangi skuli yfirráð þýða beint eða óbeint vald til að (A) nýta meira en 50% atkvæðisréttar þeirra hluta sem veiti rétt til að taka þátt í kjöri um stjórnarmenn varnaraðila eða (B) til að stýra varnaraðila eða hafa vald til að stýra stefnu hans hvort sem er skv. atkvæðisrétti, samningi eða á annan hátt.
Samkvæmt 100. gr. a laga nr. 161/2002 geti fjármálafyrirtæki í fjárhags- eða rekstrarerfiðleikum upp á sitt eindæmi leitað eftir því við Fjármálaeftirlitið að það taki við ráðum yfir fyrirtækinu. Taki Fjármálaeftirlitið beiðnina til greina geti það fellt úr gildi umboð stjórnar fjármálafyrirtækisins og verði þá jafnframt óvirkur réttur hluthafa eða stofnfjáreigenda til að taka ákvarðanir um málefni þess á grundvelli eignarhluta sinna.
Samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, 9. október 2008, hafi það meðal annars tekið yfir vald hluthafafundar og vikið félagsstjórn í heild sinni frá störfum þegar í stað í samræmi við framangreint ákvæði 100. gr. a laga nr. 161/2002. Í ljósi þessa telur sóknaraðili einsýnt að slík yfirtaka á valdi hluthafafundar í samræmi við lagaheimild feli í sér breytingu á yfirráðum (e. control) skv. ákvæði samningsins.
Þá telur sóknaraðili einnig auðsýnt að í þeirri ákvörðun Fjármálaeftirlitsins að víkja allri félagsstjórn varnaraðila frá og að skipa skilanefnd í hennar stað felist einnig breyting á yfirráðum (e. control) skv. fyrrgreindu samningsákvæði. Heimildum slíkrar skilanefndar séu einnig gerð skil í 1. mgr. 100. gr. a laga nr. 161/2002 en þar komi beinlínis fram að skilanefnd fari ein með sömu heimildir að lögum og eftir samþykktum fjármálafyrirtækisins og stjórn og hluthafafundur hefði ella haft á hendi. Samkvæmt umræddri ákvörðun, 9. október 2008, skyldi skilanefndin fylgja ákvörðunum sem eftirlitið tæki á grundvelli 100. gr. a laga nr. 161/2002 og starfa í samráði við það.
Fjármálaeftirlitið hafi því haft beina heimild lögum samkvæmt til að (A) nýta meira en 50% atkvæðisréttar þeirra hluta sem veita rétt til að taka þátt í kjöri um stjórnarmenn varnaraðila og (B) stýra varnaraðila og stefnu hans alfarið enda hafi fyrri stjórn varnaraðila áður farið þess á leit við Fjármálaeftirlitið að það tæki yfir vald hluthafafundar varnaraðila. Í framhaldinu hafi eftirlitið vikið allri félagsstjórn frá og skipað skilanefnd eins og áður segi.
Í ljósi alls framangreinds telur sóknaraðili einsýnt að öll skilyrði ákvæðis 7.3 í samningi aðila sem liggur til grundvallar þessu ágreiningsmáli séu uppfyllt. Hann telur kröfu sína því lögmæta að öllu leyti og krefst þess að hún verði viðurkennd að fullu við slitameðferð varnaraðila.
Útreikningur dráttarvaxta og kostnaður í aðalkröfu
Sóknaraðili krefst þess að við höfuðstólinn leggist dráttarvextir samkvæmt breskum lögum sem kallist „Late Payment of Commercial Debts (Interest) Act“ frá 1998 þar sem þjónustusamningurinn sé milli aðila sem falli undir framangreind lög. Samkvæmt þeim lögum beri krafa sóknaraðila 8% ársvexti umfram opinbert skráð álag Englandsbanka frá 10. október 2008 samkvæmt útgefinni vaxtatöflu þess banka, 30. júní 2008, sem hafi verið 5% og krefjist sóknaraðili þeirra vaxta til 22. apríl 2009. Krafa sóknaraðila um dráttarvexti frá 10. október 2009 til 22. apríl 2009 nemi því 896.390 evrum og krefjist sóknaraðili þess að krafan njóti stöðu í réttindaröð skv. 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Sóknaraðili krefst einnig útlagðs kostnaðar vegna innheimtu kröfunnar í samræmi við ákvæði 11.(b) í samningnum. Útlagður kostnaður vegna innheimtu kröfunnar nemi 1.867 evrum og 13.500 breskum pundum eins og kröfulýsing sýni. Sóknaraðili krefst þess að fjárkrafa hans vegna kostnaðar njóti rétthæðar skv. 113. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Kröfu sinni til stuðnings vísar sóknaraðili til íslenskra og breskra laga. Hann vísar til laga nr. 21/1991, nr. 161/2002, nr. 38/2001, nr. 43/2000 og nr. 91/1991, allra eins og þeim hefur síðar verið breytt. Krafa hans um málskostnað byggist á ákvæði 130. gr. laga nr. 91/1991 og lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt af málskostnaði. Sóknaraðili byggir einnig á grundvallarreglum kröfu- og samningaréttar. Sóknaraðili vísar jafnframt til tveggja breskra réttarheimilda Late Payment of Commercial Debts (Interest) Act 1998 og Law of Property Act 1925.
Málsástæður varnaraðila
Varnaraðili byggir á því að sóknaraðili eigi ekki réttmæta kröfu á hendur sér á grundvelli samnings aðila um lausafjárfyrirgreiðslu. Yfirráð varnaraðila hafi ekki breyst við skipun skilanefndar eins og hugtakið „breytt yfirráð“ sé skilgreint í samningi málsaðila, sóknaraðili hafi gjaldfellt aðra samninga milli málsaðila á grundvelli ógjaldfærni varnaraðila, og túlka beri skilmála samningsins varnaraðila í hag. Því beri að hafna öllum kröfum og málsástæðum sóknaraðila sem byggi á samningnum.
Yfirráð breyttust ekki við skipun skilanefndar (e. Change of Control Event)
Varnaraðili andmælir ekki þeim fullyrðingum sóknaraðila að Fjármálaeftirlitið teljist aðili (e. person) samkvæmt enskum lögum enda sé eftirlitið bært að íslenskum lögum til að eiga réttindi og bera skyldur og geti komið fram sem aðili í dómsmáli fyrir íslenskum dómstólum.
Varnaraðili hafnar hins vegar alfarið þeim málatilbúnaði sóknaraðila, að sá atburður þegar Fjármálaeftirlitið ákvað, 9. október 2008, að taka yfir vald hluthafafundar varnaraðila, víkja félagsstjórn hans í heild sinni frá störfum og skipa honum skilanefnd falli undir hugtakið „breytt yfirráð“ (e. Change of Control Event) eins og sá atburður sé skilgreindur í samningi aðila. Þegar af þeirri ástæðu hafi grein 7.3 í samningnum um greiðslu þóknunar ekki orðið virk við þann atburð og því geti sóknaraðili ekki talist eiga réttmæta kröfu á hendur varnaraðila á grundvelli samningsins. Öllum fullyrðingum og röksemdum sóknaraðila þess efnis sé hafnað sem röngum.
Varnaraðili telur ljóst að svo alvarleg og afdrifarík ákvörðun að taka yfir vald hluthafafundar varnaraðila, víkja félagsstjórn hans frá störfum og skipa yfir varnaraðila skilanefnd, sem Fjármálaeftirlitið hafi tekið, í skjóli opinbers valds, með það fyrir augum að takmarka afleiðingar efnahagshruns á Íslandi, hefði ekki verið tekin hefði varnaraðili ekki verið ógjaldfær og kominn í greiðsluþrot. Varnaraðili bendir á að þessi skilningur hafi verið staðfestur í dómaframkvæmd Hæstaréttar þar sem fram komi að með skipan skilanefndar yfir varnaraðila hafi réttarstaða varnaraðila og viðsemjanda hans orðið þannig að leggja mætti hana að jöfnu við að hafin væru gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila. Aðstöðu aðila verði því ekki jafnað til þess að yfirráð hafi breyst eins og sóknaraðili fullyrði. Þessu til stuðnings vísar varnaraðili meðal annars til dóms Hæstaréttar í máli nr. 17/2013 frá 25. febrúar 2013 þar sem segi m.a.:
Þrátt fyrir þetta verður að gæta að því að þótt í 100. gr. a. laga nr. 161/2002, eins og hún hljóðaði samkvæmt 5. gr. laga nr. 125/2008, hafi ekki verið mælt fyrir um sérstaka málsmeðferð í framhaldi af ákvörðun eins og þeirri, sem Fjármálaeftirlitið tók um sóknaraðila 9. október 2008, voru öll málefni hans sett undir skilanefnd, sem skipuð var í skjóli opinbers valds og hlaut samkvæmt heiti sínu að hafa verið ætlað að leggja drög að aðgerðum til skuldaskila sóknaraðila (Kaupþings). [...] Við þessar aðstæður mátti leggja réttarstöðu aðila að jöfnu við að hafin væru gjaldþrotaskipti á búi sóknaraðila (Kaupþings) [...]. (Áherslubreytingar varnaraðila)
Með vísan til þess sem að framan greinir telur varnaraðili ljóst að samningurinn verði ekki á skynsamlegan hátt túlkaður á annan veg en að umræddur atburður, það er skipan skilanefndar yfir varnaraðila, falli undir ákvæði c-liðar 5. gr. samningsins. Ótvírætt verði ráðið af víðtæku orðalagi þess ákvæðis að því hafi verið ætlað að taka á öllum tilvikum sem kynnu að koma upp og lytu að ógjaldfærni varnaraðila á einn eða annan hátt. Enn fremur gefi það augaleið að ákvæði f-liðar 5. gr., sbr. grein 7.3 í samningnum, um uppsagnar- og gjaldfellingarheimildir sóknaraðila kæmu breytt yfirráð (e. Change of Control Event) á varnaraðila til á frjálsum markaði með kaupum á ákveðnum fjölda hluta eða öðrum leiðum, hafi engan veginn verið ætlað að gilda um það færi varnaraðili í greiðslustöðvun, slitameðferð, gjaldþrot eða álíka uppgjör vegna ógjaldfærni hans.
Þessu til nánari skýringar bendir varnaraðili á að í 5. gr. samningsins sé gerður skýr greinarmunur annars vegar á breytingum á yfirráðum (e. Change of Control Event) hjá varnaraðila, sbr. f-lið, og hins vegar á gjaldþroti, slitameðferð og öðrum álíka atburðum, sbr. c-lið ákvæðisins. Nánar tiltekið komi fram um þetta atriði í 5. gr. að skylda sóknaraðila til að skrá sig og greiða fyrir skuldabréf sem Kaupþing gaf út sé m.a. háð því að:
c) the Issuer having not gone into liquidation and not being dissolved, there having been no meeting of the members or creditors the Issuer convened for the purpose of considering a resolution (or to petition for) its winding-up or for its administration and no such resolution having been passed, no liquidator, trustee in bankruptcy, judicial custodian, compulsary manager, receiver, administrative receiver, administrator or similar officer having been appointed (or requested to be appointed) in respect of the Issuer or any of its assets and no event analogous (in the opinion of the Liquidity Facility Provider) to that described in this paragraph (c) having occured in any jurisdiction;
og;
f) no Change of Control Event having occured since the date of this Agreement.
Að áliti varnaraðila sýnir einföld skoðun á c- og f-lið 5. gr. að í þessum stafliðum séu tvö aðskilin samningsákvæði sem sé hvoru um sig ætlað að hafa réttaráhrif samkvæmt efni sínu. Samningsákvæðunum hafi með öðrum orðum verið ætlað að taka á og bregðast við ólíkum atburðum sem kynnu að verða á gildistíma samningsins.
Framangreindur skilningur varnaraðila fái meðal annars stoð í því að í hvorum stafliðnum um sig sé sjálfstætt skilyrði sem varnaraðila hafi borið að uppfylla til þess að skylda sóknaraðila gæti orðið virk. Þá verði skýrt ráðið af niðurlagi 5. gr. að sóknaraðila hafi verið heimilt að leysa sig undan skuldbindingum sínum skv. samningnum hvort heldur sem er með vísan til þess að yfirráð varnaraðila breyttust (e. Change of Control Event), sbr. f-lið 5. gr., eða þeirra atburða sem taldir séu í c-lið 5. gr. samningsins (gjaldþrot, slitameðferð o.fl.). Loks verði b-liður 10. gr. samningsins ekki skilinn á annan veg en þann að líta beri á þau atvik sem tilgreind eru í c-lið 5. gr. annars vegar og í f-lið hins vegar sem tvær mismunandi vanefndaástæður. Vanefnd á öðru hvoru ákvæðinu hafi verið nægjanleg til þess að sóknaraðili gæti sagt samningnum upp, sbr. orðalagið:
[If] the Issuer fails to comply with any other provision under this Agreement [...] the Liquidity Facility Provider may by notice to the Issuer cancel all or any part of the Facility Limit.
Á afleiðingum þessara vanefndaástæðna sé hins vegar sá grundvallarmunur að sóknaraðili skyldi eiga rétt á núvirtri eingreiðslu tiltekinnar fjárhæðar yrði vanefnd varnaraðila rakin til breyttra yfirráða hjá varnaraðila (e. Change of Control Event), sbr. grein 7.3 í samningnum en sóknaraðili ætti ekki rétt á slíkri greiðslu yrði vanefnd rakin til annarra ástæðna eins og til dæmis ógjaldfærni varnaraðila.
Af þessum ástæðum telur varnaraðili ljóst að í c- og f-lið 5. gr. samningsins séu tvö aðskilin ákvæði sem hafi sjálfstæða þýðingu fyrir samningssamband aðila. Varnaraðili bendir á að sá skilningur sé í samræmi við enskar og íslenskar túlkunarreglur sem kveði á um að öll ákvæði samninga eigi að hafa merkingu fyrir viðkomandi samningssamband. Varnaraðili telur fráleita þá hugmynd, að túlka megi samninginn á þann hátt að sami atburður, það er sú ákvörðun Fjármálaeftirlitsins að skipa varnaraðila skilanefnd, geti átt undir tvö gerólík samningsákvæði, þ.e. bæði c- og f-lið 5. gr., en á því virðist málatilbúnaður sóknaraðila reistur. Væri skilningur sóknaraðila aftur á móti réttur mætti eins halda því fram að ákvæði c-liðar 5. gr. væri merkingarlaust og þar með óþarft fyrir efni samningsins þar sem öll þau atriði sem þar eru nefnd myndu hvort sem er falla innan marka f-liðar 5. gr. Slíkur málatilbúnaður standist enga skoðun.
Að öllu framangreindu virtu sé auðséð, að mati varnaraðila, að greiðsluþrot Kaupþings banka, 9. október 2008, falli undir ákvæði c-liðar 5. gr. samningsins enda þyki ljóst af orðalagi þess að því hafi verið ætlað að gilda um slíkan atburð. Þegar af þeirri ástæðu beri að hafna öllum kröfum sóknaraðila sem byggja á þeim haldlausa málatilbúnaði að horft verði fram hjá umræddu samningsákvæði og að ógjaldfærni bankans verði þess í stað heimfærð undir ákvæði f-liðar 5. gr., sbr. ákvæði 7.3 í samningnum.
Sóknaraðili gjaldfelldi aðra samninga með vísan til ógjaldfærni varnaraðila
Í tengslum við áður raktar málsástæður vekur varnaraðili athygli á því að sóknaraðili gjaldfelldi aðra samninga sína við varnaraðila í október 2008 með vísan til þess að varnaraðili hefði, 9. október 2008, verið kominn í greiðsluþrot þegar Fjármálaeftirlitið ákvað að taka yfir vald hluthafafundar varnaraðila, víkja félagsstjórn hans frá störfum og skipa honum skilanefnd.
Í því sambandi bendir varnaraðili í fyrsta lagi á að sóknaraðili og Kaupþing banki hf. hafi gert með sér rammasamning um afleiðuviðskipti, svonefndan ISDA 2002 Master Agreement (ISDA-samningurinn), sem tók gildi 30. janúar 2003. Frá undirritun hans og allt þar til bankinn varð ógjaldfær hafi þó nokkrir afleiðusamningar verið gerðir milli sóknaraðila og Kaupþings banka sem lutu ákvæðum ISDA-samningsins, en í 5. kafla hans sé fjallað um vanefnda- og uppsagnarástæður (e. Events of Default and Termination Events).
Sóknaraðili hafi, 9. október 2008, tilkynnt Kaupþingi banka um gjaldfellingu (e. Termination Notice) á öllum afleiðugerningum undir ISDA-samningnum þar sem varnaraðili hefði vanefnt samninginn. Sóknaraðili hafi stutt gjaldfellinguna við ákvæði 5(a)(vii) (Bankruptcy) í ISDA-samningnum sem fjalli um vanefndir vegna ógjaldfærni, gjaldþrots, slitameðferðar, nauðasamningsumleitana o.fl. Í þessari tilkynningu sóknaraðila hafi sagt um þetta atriði:
Deutsche Bank tilkynnir gagnaðila hér með að einn eða fleiri atburðir hafi átt sér stað og séu viðvarandi skv. rammasamningnum. Sérstaklega ber að nefna, án takmörkunar, að vanefndartilvik hefur átt sér stað og er viðvarandi skv. gr. 5(a)(vii) rammasamningsins og að viðbótar-uppsagnartilvik hefur átt sér stað skv. gr. 5(b)(vi) rammasamningsins.
Með hliðsjón af ákvæði 5(a)(vii) sem sóknaraðili hafi þarna vísað til verði tilkynningin ekki skilin á annan hátt en þann að sóknaraðili hafi gjaldfellt viðkomandi afleiðusamninga á grundvelli þeirrar vanefndaástæðu að varnaraðili væri kominn í greiðsluþrot. Þessa tilkynningu um gjaldfellingu ISDA-samningsins hafi sóknaraðili sent sama dag og hann sendi tilkynningu um gjaldfellingu hins umþrætta samnings, 9. október 2008.
Í annan stað megi nefna að, 28. september 2007, hafi sóknaraðili og varnaraðili gert með sér lánasamning sem bar heitið EUR 300.000.000 Deposit Agreement (FRB-lánasamningurinn).
Í 20. kafla FRB-lánasamningsins sé fjallað um vanefndaástæður (e. Events of Default) samkvæmt samningnum. Sérstaka athygli veki hins vegar að í 7. kafla FRB-lánasamningsins, sem beri heitið Fyrirframgreiðsla og Niðurfelling (e. Prepayment and cancellation), sé í grein 7.2 ákvæði um breytt yfirráð (e. Change of Control) og áréttar varnaraðili sérstaklega að sá atburður sé skilgreindur efnislega á sama hátt og í samningnum um lausafjárfyrirgreiðslu. Að auki megi nefna að bæði ákvæði 7.3 í þeim samningi og ákvæði 7.2 í FRB-lánasamningnum hafi veitt sóknaraðila heimild til gjaldfellingar breyttust yfirráð yfir varnaraðila.
Eins og áður greini hafi sóknaraðili gjaldfellt lánin undir FRB-lánasamningnum með vísan til greiðsluþrots varnaraðila. Í þeirri gjaldfellingartilkynningu, dagsettri 10. október 2008, hafi nánar tiltekið komið fram:
Vanefndartilvik hefur orðið samkvæmt gr. 20.7 (Gjaldþrotameðferð) innlánssamningsins, sem rekja má til þess að: [...] (ii) íslenska Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar lántaka og skipaði slitastjórn sem þegar hefur tekið við heimildum stjórnar, eins og greint er frá í yfirlýsingu lántaka dagsettri 9. október 2008. (Undirstrikun varnaraðila)
Varnaraðili bendir á að vanefndaákvæði 20.7 (Gjaldþrotameðferð) FRB-lánasamningsins, því ákvæði sem sóknaraðili grundvallaði framangreinda gjaldfellingu á, svipi óneitanlega til orðalagsins í vanefndaákvæði c-liðar 5. gr. í samningi aðila um lausafjárfyrirgreiðslu. Þannig kveði þau bæði á um það með víðtækum hætti að líta beri á það sem vanefnd varnaraðila verði hann gjaldþrota, fari hann í slitameðferð o.s.frv. Varnaraðili telur ljóst að sóknaraðili, sem samdi ákvæði beggja samninga einhliða, hafi ætlað umræddum ákvæðum sama hlutverk, þ.e. að veita sóknaraðila heimild til að segja upp viðkomandi samningum kynni varnaraðili að verða ógjaldfær á einhvern hátt. Annar skilningur sé einfaldlega rangur að mati varnaraðila.
Varnaraðili leggi sérstaka áherslu á að gjaldfellingartilkynningar sóknaraðila þar sem byggt hafi verið á ógjaldfærni varnaraðila sem vanefndaástæðu, séu í samræmi við skilning varnaraðila á ákvæðum samninganna. Þá samræmist þær enn fremur þeirri niðurstöðu Hæstaréttar að við skipun skilanefndar yfir varnaraðila, hafi réttarstaða varnaraðila og viðsemjanda hans verið þannig, að leggja mætti að jöfnu við að hafin væru gjaldþrotaskipti á búi varnaraðila.
Þegar allt framangreint sé haft í huga veki athygli að talsverðs misræmis gæti í annars vegar málatilbúnaði sóknaraðila í greinargerð hans og hins vegar þeim tilkynningum sem hann sendi varnaraðila um gjaldfellingu á öðrum samningum milli aðila. Nánar tiltekið verði að telja undarlegt að sóknaraðili hafi gjaldfellt afleiðusamninga undir ISDA-samningnum og FRB-lánasamninginn með vísan til vanefndaákvæða sem gildi um greiðsluþrot, slitameðferð, greiðslustöðvun o.fl., á sama tíma og sóknaraðili gjaldfelldi hinn umþrætta samning um lausafjárfyrirgreiðslu á grundvelli breyttra yfirráða (e. Change og Control Event) yfir varnaraðila. Varnaraðili telur þessa framkvæmd sérstaklega einkennilega þegar haft sé í huga að sóknaraðili hafi byggt gjaldfellingu FRB-lánasamningsins á fyrrnefndu vanefndaákvæði þrátt fyrir tilvist „change of control“ ákvæðis. Sóknaraðili hafi þó vísað til sama atburðar í báðum tilkynningunum, að Fjármálaeftirlitið hefði tekið yfir stjórn varnaraðila með skipun skilanefndar.
Ekki verði önnur ályktun dregin en að eina ástæða þessa misræmis í málatilbúnaði sóknaraðila milli samninga sé sú staðreynd að sóknaraðili hafi eygt möguleika á að fá greidda þóknun úr hendi varnaraðila gæti hann gjaldfellt samninginn á grundvelli breyttra yfirráða (change of control), en slík þóknun hafi ekki staðið til boða yrði samningur gjaldfelldur á grundvelli greiðsluþrots varnaraðila. Þetta sé skýrt dæmi um kröfuhafa sem velji ákvæði í hverjum samningi fyrir sig sem henti honum best án þess að gæta innbyrðis samræmis í málatilbúnaði sínum (e. cherry-picking).
Túlka ber skilmála samningsins varnaraðila í hag
Varnaraðili áréttar að enda þótt í samningi aðila felist tvíhliða og gagnkvæmt samningssamband sé óumdeilt að sóknaraðili hafi samið skilmála samningsins einhliða, en þetta verði meðal annars ráðið af fram lögðu tölvuskeyti sóknaraðila til starfsmanns varnaraðila. Varnaraðili hafi því lítið haft um orðalag samningsins að segja.
Varnaraðili byggir á því að telji dómurinn vafa leika á túlkun samningsins um hvort hinn margnefndi atburður, þegar Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar varnaraðila, vék stjórn hans frá og skipaði honum skilanefnd, falli undir c- eða f-lið 5. gr., beri á grundvelli meginreglunnar in dubio contra stipulatorem að meta þann vafa sóknaraðila í óhag þar sem hann samdi skilmála samningsins. Nánar tiltekið byggir varnaraðili á andskýringarreglu samningarréttar sem meginreglu við skýringu og túlkun samninga, en af henni leiði að túlka beri óljós eða umdeilanleg samningsákvæði þeim aðila í óhag sem hafi samið þau einhliða, eða ráðið til lykta þeim atriðum sem valda ágreiningi.
Að mati varnaraðila verður hugtakinu breytt yfirráð (e. Change of Control), eins og það er skilgreint í samningi aðila, ekki jafnað við það þegar yfir varnaraðila er skipuð skilanefnd sem var ætlað að leggja drög að skuldaskilum hans. Það var augljóslega ekki tilgangur ákvæðisins og leiki enginn vafi á því að hvorki sóknaraðili né varnaraðili hafi haft þann skilning í upphafi samningssambandsins. Í þessu sambandi bendir varnaraðili á að áður en sóknaraðili hafi útbúið lokaútgáfu samningsins hafi hann sent varnaraðila viðskiptaskilmála (e. Term Sheet), þar sem réttindi, skyldur og kjör aðila í væntanlegu samningssambandi hafi verið ákvörðuð. Varnaraðili leggur sérstaka áherslu á að í skilmálunum sé hugtakið breytt yfirráð (e. Change of Control Event) skilgreint mun þrengra en í samningnum. Telur varnaraðili skilmálana veita sterka vísbendingu um það hvaða inntak aðilar ætluðu raunverulega að veita umræddu samningsákvæði.
Þá bendir varnaraðili á að þekkt sé í fjármálagerningum, sérstaklega þeim sem varði skuldabréf, að ákvæði um breytt yfirráð (e. Change of Control) séu höfð til tryggingar fjárfestum slíkra bréfa, komi til þess að meirihluti af hlutum í útgefanda þeirra sé keyptur með lánsfé, þ.e. skuldsettum yfirtökum. Slík trygging sé þá til þess fallin að verja fjárfesta fyrir mikilli verðlækkun á skuldabréfum þeirra með því að gera þeim kleift að selja (e. put) bréfin aftur til útgefandans á fyrir fram ákveðnu verði. Varnaraðili bendir á að slík ákvæði séu hins vegar byggð á þeirri mikilvægu forsendu að viðkomandi útgefandi sé keyptur á markaði. Hlutverk þeirra sé aftur á móti ekki, eins og sóknaraðili byggi á, að veita fjárfestum vernd í kjölfar greiðsluþrots viðkomandi útgefanda. Telja verði að þetta eigi sérstaklega við þegar slíkir atburðir falli undir gildissvið annarra ákvæða í þeim samningum sem gerðir hafi verið vegna viðskiptanna.
Loks bendir varnaraðili á að það leiði af meginreglu samningaréttar um samningsfrelsi að við túlkun samnings skipti mestu máli að leiða í ljós vilja eða tilætlun sem liggi að baki yfirlýsingum aðila, að því leyti sem samrýmst geti eðlilegum hugmyndum eða trausti sem yfirlýsingin veki eða geti vakið í huga móttakanda hennar. Að mati varnaraðila gat sóknaraðila ekki dulist við samningsgerðina að því ákvæði sem hann reisir kröfur sínar á hafi ekki verið ætlað að veita honum rétt til greiðslu úr hendi varnaraðila yrði hann ógjaldfær. Að öllu framangreindu virtu væri að mati varnaraðila verulega ósanngjarnt yrði fallist á kröfu sóknaraðila, byggða á samningsákvæði sem hafi engan veginn verið ætlað að gilda um greiðsluþrot varnaraðila, en það verði auðveldlega ráðið af orðalagi þess og annarra ákvæða samningsins. Telja verði þetta eiga sérstaklega við þegar haft sé í huga að sóknaraðili samdi skilmála samningsins einhliða og hafði þannig öll tök á að orða þá skýrar en raun bar vitni.
Varnaraðili styður kröfur sínar við lög um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 og meginreglur þeirra laga. Jafnframt vísar hann til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og meginreglna samningaréttar. Krafa hans um málskostnað er reist á XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 en krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
Niðurstaða
Sóknaraðili, Deutsche Bank AG, og Kaupþing banki gerðu með sér, 9. nóvember 2007, samning um lausafjárfyrirgreiðslu. Sóknaraðili lofaði að kaupa af Kaupþingi skuldabréf að fjárhæð allt að einum milljarði evra á fimm ára tímabili. Fyrir þá þjónustu að veita Kaupþingi aðgang að þessu lausafé skyldi Kaupþing banki greiða sóknaraðila þóknun árlega. Þóknunin skyldi þó aðeins greiðast í tveimur tilvikum, ef sóknaraðili keypti skuldabréf af bankanum eða ef yfirráð yfir bankanum breyttust. Sóknaraðili keypti aldrei nein skuldabréf af Kaupþingi banka á grundvelli þessa samnings.
Þegar Fjármálaeftirlitið ákvað, 9. október 2008, að skipa Kaupþingi banka skilanefnd tilkynnti sóknaraðili bankanum að hin árlega þóknun væri fallin í gjalddaga vegna breyttra yfirráða yfir honum.
Hugtakið breytt yfirráð er skilgreint þannig í 1. grein samningsins að einn aðili eða hópur aðila sem vinni saman, öðlist yfirráð yfir útgefanda og hvað það varðar þýði yfirráð vald, beint eða óbeint, til þess að ráða meira en 50% atkvæða verðbréfa sem fylgir almennur atkvæðaréttur til kjörs á stjórnendum útgefanda, eða að stjórna eða ráða stefnu og stýringu stjórnar útgefanda með samningi eða á annan hátt öðlast rétt til þess að stjórna stjórn og stefnu útgefanda hvort sem það er með atkvæðisrétti, samningi eða á annan hátt.
Í 5. gr. þessa samnings sóknaraðila við Kaupþing banka um lausafjárfyrirgreiðslu eru sett ýmis skilyrði fyrir því að sóknaraðili yrði skuldbundinn til að kaupa skuldabréf af Kaupþingi. Þeirra á meðal eru að:
a) sóknaraðili varð að hafa fengið tilkynningu frá útgefanda sem uppfyllti kröfur 6. gr.,
b) útgefandi bréfanna, Kaupþing banki, varð að vera gjaldfær og mátti ekki teljast, samkvæmt lögum, ófær um að greiða skuldir sínar á gjalddaga og ekki hafa hætt eða hótað að hætta allri starfsemi sinni,
c) útgefandi bréfanna, Kaupþing, mátti ekki sæta skiptameðferð og ekki hafa verið leystur upp, eigendur hans eða kröfuhafar máttu ekki hafa fundað í þeim tilgangi að álykta um slit eða búskipti og engin slík ályktun mátti vera samþykkt, enginn bústjóri, fjárvörsluaðili við gjaldþrot, vörsluaðili skipaður af dómara eða samsvarandi stjórnandi mátti hafa verið skipaður til að stýra eignum útgefandans og enginn samsvarandi atburður, að mati sóknaraðila, mátti hafa orðið,
d) útgefandi varð að uppfylla lágmarkskröfur um eigið fé samkvæmt lögum nr. 161/2002,
e) útgefandi mátti, á útgáfudegi skuldabréfanna, ekki hafa lægra lánshæfismat en Baa2 (stöðugar horfur) hjá matsfyrirtækinu Moodys og BBB (stöðugar horfur) frá Fitch,
f) ekki mátti hafa orðið breyting á yfirráðum útgefanda frá undirritun samningsins,
g) ekkert mátti hafa gerst sem ylli því að upplýsingar og ábyrgðir samkvæmt 8. gr. væru ekki lengur réttar,
h) á útgáfudegi skuldabréfa mátti Kaupþing banki ekki hafa brotið efnislega gegn ákvæðum samningsins nema sóknaraðili hefði lýst yfir því að hann ætlaði ekki að bera það brot fyrir sig.
Væri eitthvert ofangreindra skilyrða ekki uppfyllt væri lánveitandanum, Deutsche Bank, heimilt (en ekki skylt) að tilkynna útgefandanum, Kaupþingi banka, að lánveitandinn væri laus undan skuldbindingu sinni samkvæmt 2 gr., þ.e.a.s. þeirri að kaupa skuldabréf af Kaupþingi.
Samkvæmt 7. gr. skyldi ekkert þessara vanefndatilvika þó veita sóknaraðila rétt til greiðslu þóknunar nema það tilvik sem tilgreint er í f-lið, að yfirráð yfir Kaupþingi banka breyttust.
Í þessu máli þarf að svara því hvort sú ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, 9. október 2008, að skipa Kaupþingi banka skilanefnd sé atburður sem falli undir f-lið 5. gr. samningsins eins og sóknaraðili heldur fram eða undir c-lið 5. gr. samningsins eins og varnaraðili byggir á.
Varnaraðili hefur bent á að sóknaraðili hafi tilkynnt Kaupþingi banka, 9. október 2008, að hann gjaldfelldi svonefndan ISDA-samning þar sem vanefndatilvik samkvæmt ákvæði 5(a)(vii) Bankruptcy um gjaldþrot hefði orðið og væri vanefndin viðvarandi. Þegar sóknaraðili gjaldfelldi lán undir FRB-lánasamningnum tilkynnti hann Kaupþingi banka hf., 10. október 2008, að vanefndatilvik hefði orðið samkvæmt ákvæði 20.7 Insolvency Proceedings þar sem Kaupþing Singer & Friedlander hafi með dómsúrskurði verið sett undir stjórn bústjóra og þar sem Fjármálaeftirlitið hafi tekið yfir vald hluthafafundar og skipað bankanum skilanefnd.
Framlögð gögn sýna þannig að sóknaraðili taldi varnaraðila ógjaldfæran, 9. október 2008, svo og að hann væri í stöðu sem jafna mætti til þess að hafin væru gjaldþrotaskipti á bankanum. Hæstiréttur hefur í dómi, 25. febrúar 2013, í máli nr. 17/2013 staðfest þessa sýn sóknaraðila á réttarstöðu Kaupþings banka.
Með vísan til þessa dóms Hæstaréttar verður að leggja til grundvallar að 9. október 2008 hafi varnaraðili verið í aðstöðu sem leggja megi að jöfnu við að hafin væru gjaldþrotaskipti á búi hans. Í dóminum er áréttað að það hafi verið hlutverk þeirrar skilanefndar sem Fjármálaeftirlitið skipaði að leggja drög að aðgerðum til skuldaskila varnaraðila.
Sóknaraðili hefur lagt fyrir dóminn úrlausnir enskra dómstóla þar sem, að hans sögn, eru orðaðar meginreglur um túlkun samninga að enskum rétti. Af þeim sem hér þykja hafa þýðingu eru þessar helstar:
Þegar dómari metur hvað samningsaðilar áttu við með þeim orðum sem þeir kusu að nota, á dómstóllinn að spyrja sig að því hvað sanngjörn manneskja, sem hefur allar þær upplýsingar sem eðlilegt er að gera ráð fyrir að samningsaðilar hafi haft á þeim tíma þegar samningurinn var gerður, hafi gert ráð fyrir að þeir hafi meint. (When determining what the parties to a contract meant by the language they chose, the court asks what a reasonable person, who had all the background knowledge which would reasonably have been available to the parties at the time they contracted, would have understood the parties to have meant.)
Túlkun samnings skal vera hlutlæg. (The interpretation of a contract is an objective exercise.)
Dómurinn á ekki að spyrja sig að því hver var tilætlun samningsaðilanna, heldur hvað sanngjörn manneskja hefði haldið að væri tilætlun samningsaðilanna, út frá þeim orðum sem þeir völdu að nota. (The question for the court is not what the parties intentions were, but what a reasonable person would have taken the parties intentions to be from the words actually used.)
Þegar ákvæði er ótvírætt verður dómurinn að beita því enda þótt niðurstaðan samræmist ekki eðlilegum viðskiptaháttum. (Where a provision is unambiguous, the court is bound to apply it, even when the result is not commercially reasonable.)
Orð í samningum skulu hafa þá merkingu sem þau hafa almennt, jafnvel þótt niðurstaðan virðist ósanngjörn fyrir annan málsaðilann. (Words used in a contract should be given their ordinary meaning, even if the consequences appear to be harsh for one side or another.)
Túlkun ensks dómstóls á samningi hefst á texta samningsins. (In interpreting a contract, an English court will start with the language of the contract itself.)
Að virtum þeim túlkunarreglum sem sóknaraðili hefur lagt fyrir dóminn er það mat dómsins að sanngjörn manneskja, sem hefur sömu upplýsingar og samningsaðilar höfðu við samningsgerðina, telji, þegar hún horfir hlutlægt á texta samningsins og þau orð sem voru valin og hefur ekki í huga hvort útkoman kunni að vera ósanngjörn, að samningsaðilar hafi ætlað sér, í c-lið 5. gr., að lýsa réttarstöðu sem samsvari þeirri sem Kaupþing banki var í þegar Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar hans, 9. október 2008, og skipaði honum skilanefnd.
Það er jafnframt mat dómsins að hin sanngjarna, upplýsta, hlutlægt hugsandi manneskja, sem þó skeytir ekki um ósanngjarna niðurstöðu, telji, þegar 5. gr. samningsins er metin heildstætt, að samningsaðilar hafi ætlað sér, við gerð samningsins, að láta það réttarástand sem lýst er í f-lið samningsins taka til þess þegar annað félag nær yfirráðum yfir útgefanda á frjálsum markaði en ekki þegar löggjafi þess lands þar sem útgefandi er stofnaður grípur til þeirrar neyðarráðstöfunar að heimila opinberri stofnun að hlutast til um málefni hans, til þess að tryggja starfsemi fjármálakerfis landsins.
Þykir í þessu sambandi ekki hafa þýðingu tilkynning Fjármálaeftirlitsins á ensku, 9. október 2008, þar sem segir að Fjármálaeftirlitið hafi á grundvelli heimildar frá Alþingi „proceeded to take control of Kaupþing“. Í íslensku útgáfu tilkynningarinnar segir að Fjármálaeftirlitið hafi skipað skilanefnd sem taki við öllum heimildum stjórnar Kaupþings. Af lestri enskra laga verður ekki annað séð en það verkefni, að taka við öllum heimildum stjórnar, sé einmitt hið sama og viðurkenndur bústjóri (licensed insolvency practitioner) fær oftast nær þegar hann tekur til starfa undir þeim ýmsu heitum (liquidator, trustee in bankruptcy, judicial custodian, compulsory manager, receiver, administrative receiver, administrator) sem hlutverki hans eru fengin í c-lið 5. gr. lausafjárfyrirgreiðslusamningsins, hvort sem hann er skipaður til verksins af stærsta kröfuhafa skuldarans, eins og mun tíðkast í enskum rétti, eða af dómstóli.
Það er því niðurstaðan að þegar Fjármálaeftirlitið tók yfir stjórn Kaupþings banka hf., 9. október 2008, hafi ekki orðið breyting á yfirráðum (Change of Control) í þeim skilningi sem það hugtak hefur í samningi sem sóknaraðili, Deutsche Bank AG, gerði við Kaupþing banka hf., 9. nóvember 2007. Ákvæði í grein 7.3 í samningnum varð því ekki virkt. Af þeim sökum á Deutsche Bank ekki fjárkröfu við slit Kaupþings á grundvelli þessa samnings um lausafjárfyrirgreiðslu.
Vegna þessarar niðurstöðu og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, verður sóknaraðili dæmdur til að greiða varnaraðila 900.000 krónur í málskostnað. Við ákvörðun hans hefur verið tekið tillit til skyldu varnaraðila til þess að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun.
Ingiríður Lúðvíksdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Hafnað er þeirri kröfu sóknaraðila, Deutsche Bank AG, við slit Kaupþings hf. sem er númer 20100118-0006 á kröfuskrá varnaraðila.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 900.000 kr. í málskostnað.