Hæstiréttur íslands

Mál nr. 587/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Farbann


         

Föstudaginn 9. nóvember 2007.

Nr. 587/2007.

Ríkislögreglustjóri

(Björn Þorvaldsson, settur saksóknari)

gegn

X

(Gísli M. Auðbergsson hdl.)

 

Kærumál. Farbann.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta farbanni samkvæmt b. lið 1. mgr. 103. gr., sbr. 110. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var felldur úr gildi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. nóvember 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Austurlands 6. nóvember 2007, þar sem varnaraðila var bönnuð för frá Íslandi til föstudagsins 9. nóvember 2007 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að hann verði staðfestur.

Sóknaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 7. nóvember 2007 og krefst þess að varnaraðila verði bönnuð för frá Íslandi allt til þriðjudagsins 13. nóvember 2007 kl. 16.

Varnaraðili hefur sætt farbanni frá 9. október 2007. Með dómi Hæstaréttar 29. október 2007 í máli nr. 561/2007 var fallist á kröfu sóknaraðila um framlengingu farbanns til 6. nóvember 2007. Sóknaraðili hefur ekki skýrt nægilega hvers vegna sá tími hefur ekki dugað honum til að ljúka þeim þáttum rannsóknarinnar sem þá lágu kröfu hans til grundvallar. Er því ekki unnt að verða við kröfu hans um frekari farmlengingu farbannsins á þessum forsendum. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

                                               

Úrskurður Héraðsdóms Austurlands 6. nóvember 2007.

Ríkislögreglustjóri hefur með beiðni dagsettri í dag krafist þess, með vísan til 110. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, að X, kt. [...], til heimilis að [...], Selfossi, verði bönnuð för frá Íslandi í eina eða til þriðjudagsins 13. nóvember 2007, kl. 16.00.

Í kröfu Ríkislögreglustjóra segir að hinn 3. október s.l. hafi Afli starfsgreinafélagi borist tölvupóstur, sem undirritaður hafi verið af 10 starfsmönnum starfsmannaleigunnar A, sem leigi starfsmenn til B, en þar fullyrði þeir að gögn sem afhent hafi verið Vinnumálastofnun af hálfu B vegna eftirlitshlutverks stofnunarinnar, hafi verið röng. Meðal annars komi þar fram að framlagðir ráðningarsamningar séu ekki í samræmi við raunveruleg launakjör þar sem þeir hafi t.d. ekki fengið greitt fyrir yfirvinnu og vaktavinnu.

Fimmtudaginn 4. október s.l. hafi Sýslumanninum á Seyðisfirði borist kæra frá Vinnumálastofnun, sem óskað hafi eftir lögreglurannsókn á því hvort umrædd gögn sem hefðu verið lögð fram af hálfu B til stofnunarinnar hafi verið fölsuð. Sama dag hafi borist kæra lögmanns Afls Starfsgreinafélags Austurlands fyrir hönd 13 erlendra starfsmanna B. vegna ætlaðra brota fyrirsvarsmanna B og/eða starfsmannaleigunnar A gegn starfsmönnunum. Samkvæmt kærunni sé óskað eftir rannsókn á því hvort starfsmennirnir hafi á einhvern hátt verið neyddir með ólögmætum hótunum til að skrifa undir skjöl þess efnis að þeir hafi móttekið mun hærri launagreiðslur frá B en þeir hefðu í raun og veru gert. Samkvæmt framburðarskýrslum sem liggi fyrir í málinu hafi kærði, auk C, séð um að afhenda starfsmönnunum laun sín og láta þá kvitta fyrir móttöku á umrædd skjöl. Þannig hafi kærði mögulega gerst sekur um hlutdeild í skjalabroti.

Sunnudaginn 7. október s.l. hafi lögmaður Afls síðan sent aðra kæru til Sýslumannsins á Seyðisfirði. Samkvæmt kærunni séu tveir fulltrúar fyrirtækjanna B og A, kærði X og C, sakaðir um að hafa boðið starfsmönnunum fé ef þeir færu tafarlaust úr landi og gæfu engar frekari skýrslur hjá lögreglu vegna málanna. Þá hafi þeir hótað því að sverta nöfn starfsmannanna gagnvart öðrum fyrirtækjum hérlendis sem og erlendis. Í kjölfar þessa hafi átta af starfsmönnunum yfirgefið landið. Rökstuddur grunur leiki á að til standi að senda kærða úr landi, en C hafi yfirgefið landið í flýti daginn eftir að kæra vegna meintra hótana og mútugreiðslna hafi borist lögreglu.

Loks kemur fram í beiðni Ríkislögreglustjóra að rannsókn málsins sé nú vel á veg kominn og að lögregla hafi lokið yfirheyrslum yfir 13 vitnum í málinu, auk þess sem teknar hafi verið skýrslur af þeim vitnum fyrir dómi. Lögregla hafi þegar yfirheyrt kærða en yfirheyrslum yfir honum sé ekki lokið og enn eigi eftir að bera undir hann framburði fyrirsvarsmanna  og eins starfsmanns B. Þá eigi eftir að yfirheyra a.m.k. tvo starfsmenn B og D og  eru þessar yfirheyrslur og skýrslutaka af ákærða fyrirhugaðar í lok vikunnar og að öllum líkindum verði þá  unnt að aflétta farbanninu.. Nauðsynlegt sé að tryggja nærveru kærða til að geta upplýst um brot þau sem honum hafi verið gefin að sök. Í þágu rannsóknar málsins þyki, með vísan til þess sem að framan sé rakið, brýna nauðsyn bera til að dómari leggi fyrir kærða að halda sig á Íslandi allt til þriðjudagsins 6. nóvember n.k. kl. 16:00.

Um lagarök er vísað til þess að verið sé að rannsaka meint brot gegn 155. gr., 158. gr., sbr. 22. gr. og 253. gr.  almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem varðað geti kærða fangelsi ef sök sannast. Um heimild til farbanns er vísað til 110. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 103. gr., laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991.

Niðurstaða:

Af gögnum málsins verður ráðið að rökstuddur grunur sé um að varnaraðili hafi gerst sekur um brot gegn almennum hegningarlögum nr. 19/1940 sem fangelsisrefsing er lögð við. Rannsókn málsins er ekki lokið og á enn eftir að yfirheyra kærða frekar og einnig tvo starfsmenn B og D. Kærði er erlendur ríkisborgari sem hefur ekki önnur tengsl við Ísland en þau að hafa stundað hér tímabundið atvinnu. Verður því að telja að hætta sé á því að kærði muni reyna að komast af landi brott áður en meðferð máls hans er lokið hér á landi og að hann muni þannig koma sér hjá fullnustu refsingar. Fallist er á nauðsyn ber til þess að návist kærða, sem er eins og fyrr getur lettneskur ríkisborgari, verði tryggð á meðan mál hans er hér til meðferðar, en rannsókn málsins er alveg á lokastigi.. Þykir því rétt með vísan til 110. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála að fallast á kröfu Ríkislögreglustjóra um það að kærða X verði gert að sæta farbanni áfram, en miðað við þann tíma rannsóknari hefur haft til að ljúka rannsókn í málinu þykir verða að stytta tímalengd farbannsins til föstudagsins 9. nóvember 2007, kl. 16.00.

Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Kærða, X, er bönnuð för frá Íslandi til föstudagsins 9. nóvember 2007, kl. 16.00.