Hæstiréttur íslands
Mál nr. 506/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Kröfulýsing
- Réttindaröð
- Slit
|
|
Fimmtudaginn 6. september 2012. |
|
Nr. 506/2012.
|
Motor Insurer´s Bureau (Björn L. Bergsson hrl.) gegn Landsbanka Íslands hf. (Kristinn Bjarnason hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Kröfulýsing. Réttindaröð. Slit.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem því var hafnað að kröfu M við slit fjármálafyrirtækisins L hf. yrði veitt staða sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Krafan var til komin vegna tveggja samninga um svokölluð heildsöluinnlán og var því ekki mótmælt af hálfu L hf. að þau flokkuðust sem innstæður í skilningi 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Þar sem kröfunni hafði verið lýst sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 var ekki unnt að fallast á dómkröfu M og var henni því hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. júlí 2012, sem barst héraðsdómi sama dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júlí 2012, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að tvær kröfur sem hann lýsti við slit varnaraðila skyldu njóta réttar sem forgangskröfur samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. þeirra laga. Sóknaraðili krefst þess að kröfum hans, annars vegar að fjárhæð 497.339.359 krónur og hins vegar að fjárhæð 201.655.886 krónur, verði skipað í réttindaröð við slit varnaraðila sem forgangskröfum samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Það athugist að úrlausn málsins getur ekki ráðist af túlkun á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/24/EB frá 4. apríl 2001 um endurskipulagningu og slit lánastofnana en vikið er að þessari tilskipun í forsendum hins kærða úrskurðar. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Motor Insurer´s Bureau, greiði varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., 300.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. júlí 2012.
Mál þetta, sem þingfest var 16. september 2011, var tekið til úrskurðar 26. júní sl. Sóknaraðili er Motor Insurers Bureau, 1 Cabot Square, Canary Wharf, London, Bretlandi, en varnaraðili er Landsbanki Íslands hf., aðalstöðv. Austurstræti 16, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess að viðurkennt verði að krafa hans nr. 3330 í kröfuskrá, samtals að fjárhæð 497.339.359 krónur, og krafa hans nr. 3680 í kröfuskrá, samtals að fjárhæð 201.655.886 krónur, séu við slit varnaraðila forgangskröfur skv. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Einnig krefst hann málskostnaðar úr hendi varnaraðila skv. framlögðum málskostnaðarreikningi.
Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Jafnframt krefst hann málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.
Málavextir
Krafa sóknaraðila byggist á tveimur innlánssamningum sem hann gerði við varnaraðila. Annars vegar er um að ræða samning hinn 9. janúar 2008 um að leggja inn á reikning í útibúi varnaraðila í London 1.000.000 sterlingspunda, sem skyldu vera laus til útborgunar til sóknaraðila ásamt 5,55% samningsvöxtum hinn 7. janúar 2009, og hins vegar samning 22. ágúst 2008 um að leggja inn 2.500.000 sterlingspund, sem skyldu vera laus til útborgunar ásamt 6,15% samningsvöxtum hinn 21. ágúst 2009. Ekki er um það ágreiningur milli aðila að um hafi verið að ræða svokölluð heildsöluinnlán.
Hinn 7. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar varnaraðila, vék stjórninni frá og skipaði skilanefnd yfir bankann á grundvelli 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Því næst var Nýi Landsbankinn hf. stofnaður, Landsbankinn hf., og voru innlendar innstæður varnaraðila, sem og helstu eignir hans sem tengdust innlendri starfsemi, fluttar yfir til nýja bankans, sbr. ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008 um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbanka Íslands hf. Varnaraðila var veitt heimild til greiðslustöðvunar 5. desember 2008, en slitameðferð bankans hófst við gildistöku laga nr. 44/2009 hinn 22. apríl 2009 og var bankanum skipuð slitastjórn 29. sama mánaðar. Slitastjórn varnaraðila gaf út innköllun til skuldheimtumanna, sem birtist í Lögbirtingablaði 30. apríl 2009 og lauk kröfulýsingarfresti 30. október sama ár.
Sóknaraðili lýsti kröfum sínum á hendur Landsbanka Íslands hf. með kröfulýsingu, dags. 18. júní 2009, sem móttekin var af slitastjórn varnaraðila 30. júní 2009. Í kröfulýsingu var annars vegar gerð krafa um höfuðstól að fjárhæð 1.000.000 sterlingspunda og samningsvexti vegna samningstímabilsins að fjárhæð 55.347,95 sterlingspund, sbr. kröfu nr. 3680 í kröfuskrá. Hins vegar var í kröfulýsingu gerð krafa um höfuðstól að fjárhæð 2.500.000 sterlingspund og samningsvexti vegna samningstímabilsins að fjárhæð 153.328,77 sterlingspund, sbr. kröfu nr. 3330 í kröfuskrá.
Í skrá um lýstar kröfur við slitameðferð varnaraðila lýsti slitastjórn þeirri afstöðu til kröfu nr. 3330 í kröfuskrá að höfuðstóll hennar að fjárhæð 2.500.000 sterlingspund, sem umreiknaðist í kröfuskrá í 477.700.000 krónur, væri samþykktur að öllu leyti sem almenn krafa á grundvelli 113. gr. laga nr. 21/1991, sem og krafa um samningsvexti á samningstímabilinu að því leyti sem hún samrýmdist gögnum og útreikningum slitastjórnar varnaraðila að fjárhæð 102.780,82 sterlingspund, sem umreiknaðist í kröfuskrá í 19.639.359 krónur. Þá lýsti varnaraðili þeirri afstöðu í kröfuskrá til kröfu nr. 3680 að höfuðstóll hennar að fjárhæð 1.000.000 sterlingspunda, sem umreiknaðist í kröfuskrá í 191.080.000 krónur, væri samþykktur að öllu leyti sem almenn krafa á grundvelli 113. gr., sem og krafa um samningsvexti á samningstímabilinu að fjárhæð 55.347,95 sterlingspund, sem umreiknaðist í kröfuskrá í 10.575.886 krónur. Þá var í tilkynningu varnaraðila til sóknaraðila um afstöðu slitastjórnar til viðurkenningar krafnanna tekið fram það mat slitastjórnar að kröfunum hefði verið lýst sem almennum kröfum skv. 113. gr. laga nr. 21/1991 og að kröfunum hefði ekki verið lýst sem forgangskröfum skv. 112. gr. laganna innan tímamarka 2. mgr. 85. gr. laga nr. 21/1991.
Sóknaraðili mótmælti framangreindri afstöðu varnaraðila til viðurkenningar krafnanna á kröfuhafafundi hinn 1. desember 2010 og var haldinn fundur vegna þessa ágreinings aðilanna hinn 21. júní 2011. Ekki tókst að jafna ágreining á þeim fundi og ákvað slitastjórn því í samræmi við 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. að beina ágreiningsefninu til Héraðsdóms Reykjavíkur eftir ákvæðum 171. gr. laganna.
Við aðalmeðferð málsins gaf símaskýrslu Mohammed Hemani, starfsmaður sóknaraðila.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili vísar til þess að óumdeilt sé í málinu að innlánssamningar sóknaraðila við varnaraðila séu heildsöluinnlán, sambærileg þeim sem fjallað sé um í dómi Hæstaréttar frá 28. október sl., í máli nr. 311/2011, þar sem komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að slík innlán væru innstæður sem nytu forgangs við slitameðferð varnaraðila skv. 112. gr. laga nr. 21/1991. Samkvæmt skilningi sóknaraðila lúti ágreiningur aðila því eingöngu að því hvort kröfu sóknaraðila beri að skýra svo að hún njóti réttar skv. 112. gr., eins og efni hennar gefi tilefni til, eða teljist almenn krafa skv. 113. gr. sömu laga. Séu málsástæður sóknaraðila því eingöngu bundnar við það atriði.
Á því sé byggt af hálfu sóknaraðila að krafa hans skuli njóta réttar skv. 112. gr. laga nr. 21/1991 í samræmi við 3. mgr. 102. gr. laga nr. 16/2002. Leiði það bæði af efni kröfunnar, sem og af kröfulýsingu sóknaraðila, dags. 18. júní 2009, en þar komi fram að um sé að ræða formlega skráningu á kröfulýsingu vegna heildsöluinnstæðna (wholesale deposits) sóknaraðila hjá varnaraðila. Þá beri fylgiskjöl greinilega með sér að um heildsöluinnlán sé að ræða. Við gerð kröfulýsingarinnar hafi verið fylgt leiðbeiningum sem fram hafi komið á heimasíða varnaraðila þar sem meðal annars hafi komið fram að kröfuhöfum væri uppálagt að flokka kröfur sínar með tilliti til ákvæða 109. til 114. gr. laga nr. 21/1991. Í kröfulýsingu sóknaraðila sé tekið fram að sóknaraðili telji, án þess að það sé fullyrt, (we believe) að krafan njóti réttar skv. 113. gr. laganna. Virðist sem synjun varnaraðila á kröfu sóknaraðila, um að krafan njóti þess forgangs skv. 112. gr. sem henni beri samkvæmt efni sínu, byggist á því að sóknaraðili hafi fyrirgert þeim rétti með því að tilgreina þá skoðun sína að um væri að ræða kröfu sem félli undir 113. gr. umræddra laga. Ljóst sé hins vegar að slík synjun standist ekki.
Sé í því sambandi á því byggt að í fyrsta lagi njóti krafa sóknaraðila forgangs á grundvelli 112. gr. laga nr. 21/1991, sama hvernig henni sé lýst svo lengi sem kröfuhafi afsali ekki rétti sínum með ótvíræðum hætti. Um sé að ræða innstæðu, sem lög hafi mælt fyrir um að njóti forgangs. Vísist í þeim efnum til 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sem mæli fyrir um að innstæður samkvæmt lögum nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi teljist til krafna sem skuli njóta rétthæðar skv. 1. og 2. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Í því samhengi sé og bent á að í kjölfar og á grundvelli nefndrar lagasetningar hafi Fjármálaeftirlitið gefið út ákvörðun þar sem fram hafi komið að hinn Nýi Landsbanki yfirtæki allar innlánaskuldbindingar í útibúum Landsbanka Íslands á Íslandi. Í næstu grein á eftir sé sérstaklega tekið fram að slíkar innstæður flytjist sjálfkrafa yfir og greiðist út, ekki sé þörf á sérstakri kröfulýsingu vegna þess. Í framhaldi hafi innlán, nákvæmlega sambærileg við þau sem hér sé deilt um, sem lögð hafi verið inn í útibú Landsbankans á Íslandi, en ekki í London, einfaldlega verið greidd út að öllu leyti strax á haustmánuðum 2008, án nokkurrar kröfulýsingar. Tilteknir aðilar hafi því fengið tafarlausan aðgang að fjármunum sínum, óháð þeim forgangi sem lögin veiti slíkum kröfum við slit fjármálastofnana og óháð slitameðferðarferli. Megi því segja að þeir kröfuhafar hafi í raun notið sama réttar og ef krafa þeirra hefði verið flokkuð sem sértökukrafa skv. 109. gr. laga nr. 21/1991, en slíkum kröfum þurfi ekki að lýsa í þrotabú innan kröfulýsingafrests, sbr. 4. tl. 2. mgr. 118. gr. sömu laga.
Megintilgangur nefndra breytingalaga nr. 125/2008 hafi verið sá að setja nýjar reglur um slitameðferð fjármálafyrirtækja vegna þeirra aðstæðna sem þá hafi verið á fjármálamörkuðum. Enda þótt lögin mæli fyrir um að ýmsum reglum laga nr. 21/1991 skuli fylgt við slit fjármálafyrirtækja sé það ekki algilt, enda séu slit fjármálafyrirtækja um margt ólík gjaldþrotameðferð hefðbundinna fyrirtækja.
Ljóst sé að engin skilyrði séu sett fyrir réttarstöðu innstæðna skv. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 á sama hátt og gert sé vegna þeirra krafna sem tilgreindar séu í 112. laga nr. 21/1991. Sé á því byggt að það sama gildi um stöðu þeirra í kröfuröð. Slíkar kröfur njóti því einfaldlega forgangs skv. 112. gr. og breyti röng tilgreining lagaákvæðis í fylgiskjali kröfulýsingar eða kröfulýsingunni sjálfri þar engu. Slík niðurstaða sé og í samræmi við þá vernd sem lögum nr. 98/1999 sé ætlað að veita innstæðum og samrýmist einnig lögskýringargögnum með frumvarpi til laga nr. 44/2009 og nr. 125/2008, sbr. yfirlýsingar íslenska ríkisins um að allar innistæður skuli tryggðar að fullu án hámarks.
Á því sé byggt að bréf sóknaraðila, undirritað af Mohammed Hemani hinn 18. júní 2009, sé hin eiginlega kröfulýsing, ásamt staðfestingarskjölum þeim sem kölluð séu „Deposit Confirmation“, og nægi þau ein og sér til að tryggja að krafa sóknaraðila fái réttarstöðu sem forgangskrafa skv. 112. gr. laga nr. 21/1991. Útfyllt eyðublaðsform sem fylgt hafi kröfulýsingunni hafi enga sjálfstæða þýðingu og hafi eingöngu verið bætt við vegna ólögmætra, óljósra og villandi leiðbeininga varnaraðila.
Í 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 sé hvergi gerð krafa um að tilgreint sé tiltekið ákvæði laganna við lýsingu á kröfu. Þá komi og fram í skýrslu varnaraðila um afstöðu til viðurkenningar krafna, sem unnin hafi verið fyrir kröfuhafafund hinn 24. febrúar 2010, að til þess að lýst krafa fái aðra rétthæð en sem almenn krafa þurfi kröfuhafi að tilgreina í kröfulýsingu sinni hverrar rétthæðar sé krafist. Almennt sé nægilegt að tilgreina viðeigandi lagaákvæði en einnig geti texti kröfulýsingar gefið til kynna afstöðu kröfuhafa að þessu leyti. Hafi varnaraðili þannig beinlínis lýst því yfir að mögulegt sé að kröfur teljist til forgangskrafna þótt tilgreining forgangsákvæðis gjaldþrotalaga sé ekki til staðar í kröfulýsingu, enda beri texti kröfulýsingar með sér efni kröfunnar. Texti kröfulýsingar sóknaraðila hafi borið það greinilega með sér að um væri að ræða kröfulýsingu vegna heildsöluinnlána, kröfur sem varnaraðili hafi samþykkt að njóti forgangs skv. 112. gr. laga nr. 21/1991.
Sóknaraðili byggi og á því að höfnun varnaraðila á að veita sóknaraðila sama forgang og sambærilegar kröfur hafi fengið, feli í sér brot á 2. tl. 16. gr. tilskipunar Evrópuráðsins nr. 24 frá 2001 um endurskipulagningu og slit lánastofnana, sem innleidd hafi verið með lögum nr. 161/2002, og síðari breytingum á þeim lögum. Mæli sú grein fyrir um að kröfur kröfuhafa með lögheimili í aðildarríki skuli meðhöndla og forgangsraða á sams konar hátt og kröfu kröfuhafa með lögheimili í heimaaðildarríki. Þessi tilskipun varði eingöngu slit á fjármálafyrirtækjum og undirstriki enn frekar sérstöðu slíkra slita, sbr. það sem fjallað hafi verið um að framan. Synjun á kröfu sóknaraðila í máli þessu feli í raun í sér að nefnd grein tilskipunarinnar hafi í tvígang verið brotin við slitameðferð varnaraðila. Hafi það gerst fyrst þegar sambærilegar kröfur í útibúi varnaraðila á Íslandi hafi verið færðar í nýja einingu og greiddar út og svo þegar sambærilegar kröfur, sem skildar hafi verið eftir hjá varnaraðila, hafi verið flokkaðar sem forgangskröfur skv. 112. gr. laga nr. 21/1991 en krafa sóknaraðila sem almenn krafa.
Þá sé vísað til þess að útgefnar upplýsingar, form, og leiðbeiningar þær sem varnaraðili hafi bent kröfuhöfum á að notast við þegar kröfu væri lýst, og sóknaraðili hafi stuðst við, hafi verið ólögmætar og villandi. Sé þar um að ræða svokallað kröfulýsingaform og upplýsingar á heimasíðu varnaraðila. Varnaraðili hafi sjálfur einhliða tekið þá ákvörðun að dreifa slíkum formum á sameiginlegu vefsvæði, sem verið hefði opið öllum kröfuhöfum, að sögn til aðstoðar þeim þúsundum erlendra kröfuhafa sem hefðu í hyggju að lýsa kröfum. Í raun hafi þessi stöðlun á kröfulýsingum fyrst og fremst verið gerð til að auðvelda varnaraðila móttöku og flokkun kröfulýsinga. Hafi varnaraðila ekki borið nein skylda til slíks samkvæmt ákvæðum laga nr. 21/1991 og sé á því byggt að honum hafi beinlínis verið það óheimilt. Sé slíka heimild hvorki að finna í þeim lögum né lögum nr. 161/2001 um fjármálafyrirtæki, sem þó hafi sérstaklega verið breytt til að auðvelda slitameðferð fjármálafyrirtækja. Útgáfa kröfulýsingaforma og leiðbeininga á heimasíðu um það hvernig ætti að lýsa kröfu hafi því verið óheimil. Hafi hún verið til þess fallin að skapa falskt öryggi hjá kröfuhöfum um að væri leiðbeiningunum fylgt og/eða leiðbeiningum í forminu sjálfu hljóti fyllsti réttur kröfuhafans að vera tryggður. Af þeim sökum hafi sóknaraðili látið umrætt form fylgja kröfulýsingu sinni þar sem fram hafi verið tekið að hann teldi að krafan ætti að flokkast undir 113. gr. laga nr. 21/1991.
Á umræddu eyðublaðaformi komi fram að kröfuhafar eigi að merkja við hvaða grein gjaldþrotaskiptalaga nr. 109 til 114 eigi við um kröfu þeirra. Sé svo til nánari skýringar að finna texta sem bendi til að nefndar greinar vísi til 109.-114. gr. laga nr. 21/1991. Um einstaka kröfuflokka sé svo vísað til tilgreindra upplýsinga á heimasíðu varnaraðila (FAQ) en þar hafi verið að finna enska þýðingu dómsmálaráðuneytisins á nefndum ákvæðum laga nr. 21/1991.
Svo hátti hins vegar til að staða kröfu sóknaraðila sem forgangskröfu verði ekki lesin úr nefndum ákvæðum laga nr. 21/1991, enda fjalli þau ekki um innstæður á innlánsreikningum í bönkum. Næsta eðlilegt sé að sá sem ókunnugur sé íslenskum lögum en fylgi leiðbeiningum útgefnum af varnaraðila dragi þá ályktun að krafa sóknaraðila njóti réttarstöðu sem almenn krafa skv. 113. gr. laga nr. 21/1991, enda komi þar afar skýrt fram að þar eigi heima allar þær kröfur sem ekki séu taldar upp í ákvæðunum að ofan. Þar séu innstæður ekki taldar upp. Hið sanna verði ekki ljóst fyrr en 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki sé gaumgæfð, eftir breytingu með lögum nr. 125/2008. Af henni en ekki ákvæðum laga nr. 21/1991 verði ráðið að krafa sóknaraðila sé forgangskrafa. Hvergi sé hins vegar vísað til laga um fjármálafyrirtæki í leiðbeiningum varnaraðila. Varnaraðili hafi ranglega ráðlagt kröfuhöfum að raða kröfum sínum í réttindaröð í samræmi við ákvæði laga nr. 21/1991 og verði sóknaraðila ekki lagt til lasts að fylgja leiðbeiningum varnaraðila í þessum efnum. Allan vafa um inntak kröfulýsingar hans að þessu leyti beri í það minnsta að túlka sóknaraðila í vil, sér í lagi í ljósi þess að við lestur 112. gr. laga nr. 21/1991 sé afar skýrt að þær kröfur sem ekki séu beinlínis taldar þar upp skuli mæta afgangi samkvæmt síðari ákvæðum. Innstæður séu ekki meðal þeirra krafna sem taldar séu upp í 112. gr. og því engin leið að átta sig á því að þær njóti forgangs samkvæmt þeirri grein.
Loks sé á það bent að sóknaraðili hafi mótmælt afstöðu varnaraðila löngu áður en formleg afstaða hafi verið tekin til kröfunnar og hún samþykkt sem almenn krafa. Hafi það verið gert með bréfi, dags. 22. febrúar 2010. Hafi því þá sérstaklega verið mótmælt að í kröfuskránni, sem þá hafi verið tilbúin og birt, væri búið að skrá kröfu sóknaraðila sem almenna kröfu skv. 113. gr. laga nr. 21/1991 og merkja við að ekki hefði enn verið tekin afstaða til hennar. Hafi sóknaraðili bent á að skýrt kæmi fram í kröfulýsingu hans að um heildsöluinnlán væri að ræða og að varnaraðili hefði samþykkt að slíkar kröfur nytu forgangs skv.112. gr. sömu laga. Hafi því verið farið fram á að tekin yrði afstaða til kröfunnar á nefndum fundi, rétt eins og annarra forgangskrafna, enda um forgangskröfu að ræða. Hafi þessi mótmæli verið ítrekuð með bréfi, dags. 27. maí 2010. Með bréfi, dags. 7. september 2010, hafi verið skorað á varnaraðila að taka afstöðu til kröfunnar sem forgangskröfu og frestun varnaraðila á að taka afstöðu til kröfunnar mótmælt. Svar varnaraðila hafi síðan borist með bréfi, dags. 18. nóvember 2010, þar sem fram hafi komið að varnaraðili samþykkti kröfuna sem almenna kröfu skv. 113. gr. laga nr. 21/1991 og að ekki hafi verið grundvöllur fyrir því að samþykkja hana sem forgangskröfu skv. 112. gr. þar sem henni hafi verið lýst sem almennri kröfu fyrir mistök.
Ekkert hafi verið því til fyrirstöðu fyrir varnaraðila, strax í kjölfar fyrstu athugasemda sóknaraðila, að hafna kröfunni að svo stöddu sem forgangskröfu og gefa sóknaraðila þar með tækifæri til að koma að frekari skýringum og gögnum og ítreka afstöðu sína þess efnis að um forgangskröfu væri að ræða. Slík framganga hefði ekki verið í ósamræmi við lög nr. 21/1991 heldur þvert á móti í samræmi við það sem tíðkast hefði í framkvæmd. Með því að sóknaraðila hafi ekki gefist tækifæri til að skýra kröfu sína nánar, eftir að í ljós hafi komið að varnaraðili áliti kröfu varnaraðila ekki njóta forgangs skv. 112. gr., hafi varnaraðili brotið gegn meginreglu gjaldþrotaskiptaréttarins um jafnræði kröfuhafa.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Varnaraðili vísar til þess að kröfu sóknaraðila um forgang skv. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. hafi ekki verið lýst innan kröfulýsingarfrests og komist sú krafa því ekki að við slitameðferð varnaraðila, sbr. 118. gr. sömu laga. Sé þetta í samræmi við ákv. 1. mgr. 117. gr. laganna, en samkvæmt því ákvæði skuli sá sem vilji halda uppi kröfu á hendur þrotabúi, og geti ekki fylgt henni eftir skv. 116. gr. laganna, lýsa henni fyrir skiptastjóra. Þá komi m.a. fram í 2. mgr. 117. gr. laganna að í kröfulýsingu skuli kröfur tilteknar svo skýrt sem verða megi, svo sem fjárhæð kröfu og vaxta í krónum og hverrar stöðu sé krafist að hún njóti í skuldaröð. Í samræmi við áskilnað þessa ákvæðis hafi sóknaraðili lýst kröfum sínum og krafist þess að þær nytu stöðu almennra krafna í réttindaröð með vísan til 113. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili hafi þannig ekki krafist þess að kröfurnar nytu stöðu forgangskrafna við slitameðferðina fyrir lok kröfulýsingarfrests og beri því að hafna þeirri kröfu hans. Sé hvað þetta varði einnig vísað til 118. gr. laga sömu laga þar sem fram komi að sé kröfu á hendur þrotabúi ekki lýst fyrir skiptastjóra áður en fresti lýkur skv. 2. mgr. 85. gr. laganna, og ekki sé unnt að fylgja henni fram gagnvart því skv. 116. gr., þá falli hún niður. Vísi varnaraðili til þess að ekkert undantekningarákvæða 118. gr. laganna eigi við um kröfu sóknaraðila. Einnig sé í þessu samhengi vísað til meginreglu gjaldþrotaréttar um jafnræði kröfuhafa við gjaldþrotaskipti. Mótmælt sé þeirri staðhæfingu sóknaraðila að bæði leiði af efni kröfu hans og kröfulýsingu að samþykkja beri kröfu hans um rétthæð skv. 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002. Eins og fyrr greini þurfi kröfuhafi skv. 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 að láta í ljós í kröfulýsingu hvaða stöðu hann telji kröfuna eiga að njóta í skuldaröð eða réttindaröð. Ekki sé þannig nóg að vísa til þess hvers eðlis krafan sé. Væri fallist á slíkan málatilbúnað hefði tilgreindur áskilnaður 2. mgr. 117. gr. enga þýðingu. Hvorki leiði beinlínis af efni kröfu sóknaraðila að kröfur hans njóti stöðu forgangskrafna skv. 112. gr. né verði slíkur forgangur leiddur af kröfulýsingu hans. Þvert á móti komi skýrt fram í kröfulýsingunni að krafist sé rétthæðar skv. 113. gr., eins og að framan greini.
Í öðru lagi sé hafnað þeirri staðhæfingu sóknaraðila að einungis hið undirritaða bréf teljist til eiginlegrar kröfulýsingar sóknaraðila enda uppfylli það skjal eitt og sér ekkert þeirra skilyrða sem gerð séu til kröfulýsinga í 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991. Verði þannig eðli málsins samkvæmt að telja að kröfulýsing sóknaraðila felist einnig í hinu útfyllta formblaði, sem hafi verið hluti af kröfulýsingarskjölum sóknaraðila, og að önnur skjöl teljist til fylgiskjala með henni. Kjarni málsins sé hins vegar sá að sóknaraðili hafi lýst kröfum sínum sem almennum kröfum skv. 113. gr. laga nr. 21/1991 í kröfulýsingu og að hann sé bundinn af þeirri lýsingu samkvæmt ákvæðum þeirra laga. Ekki sé þannig nóg að kröfuhafi hafi tilgreint eðli krafnanna í kröfulýsingu, þ.e. að um heildsöluinnlánskröfur (wholesale deposits) væri að ræða, enda sé skýr áskilnaður gerður um það í 2. mgr. 117. gr. laga að í kröfulýsingu komi fram hverrar stöðu sé krafist í skuldaröð.
Í málatilbúnaði sóknaraðila sé vísað til skýrslu varnaraðila um afstöðu til viðurkenningar krafna um að texti kröfulýsingar geti gefið til kynna afstöðu kröfuhafa til rétthæðar lýstrar kröfu þótt ekki hafi verið vísað í viðeigandi lagaákvæði þar að lútandi. Þetta kunni að geta átt við í einhverjum tilvikum. Þannig kunni til dæmis lýstri innstæðukröfu, þar sem krafist sé forgangs samkvæmt íslenskum lögum, að vera veittur forgangur á grundvelli 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002. Að sama skapi kunni kröfur, sem lýst sé sem sértökukröfum, kröfum utan skuldaraðar, búskröfum eða veðkröfum, að njóta rétthæðar skv. 109.-111. gr. sömu laga. Hins vegar eigi framangreint ekki við í tilviki sóknaraðila. Þannig komi hvergi fram í kröfulýsingu hans að krafist sé forgangs, þ.e. hvorki í orðum né með vísan til viðeigandi lagaákvæða. Þvert á móti flokki hann kröfur sínar skýrlega í kröfulýsingu sem almennar kröfur og vísi í því samhengi til 113. gr. laga nr. 21/1991.
Í þriðja lagi sé mótmælt þeirri staðhæfingu sóknaraðila að starfsmenn hans hafi við gerð kröfulýsingar fylgt óljósum og ólögmætum fyrirmælum sem hafi verið að finna í kröfulýsingarformum á vefsíðu varnaraðila. Tilgreind kröfulýsingarform hafi fyrst verið sett inn á vefsíðu varnaraðila og gerð aðgengileg kröfuhöfum í september 2009, líkt og áður greini. Því sé þannig mótmælt að varnaraðili hafi veitt sóknaraðila óljósar, ólögmætar og villandi leiðbeiningar við gerð kröfulýsingar sem móttekin hafi verið af varnaraðila í lok júní sama ár.
Hvað sem framangreindu líði byggi varnaraðili á að sóknaraðili hefur lýst kröfum sínum á hendur varnaraðila á eigin ábyrgð og áhættu varðandi það að hún stæðist kröfur íslenskra laga, þ. á m. 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991. Þá sé og vísað til þeirra fyrirvara sem fram komi í tilgreindum kröfulýsingarformum. Telji sóknaraðili sig hins vegar hafa orðið fyrir tjóni vegna atvika sem séu á ábyrgð slitabús varnaraðila geti það ekki leitt til þess að krafan verði viðurkennd sem forgangskrafa á grundvelli 112. gr. laga nr. 21/1991. Engin rök standi því til að fallast á umkrafða rétthæð sóknaraðila í málinu, sbr. einnig meginreglu gjaldþrotaréttar um jafnræði kröfuhafa við búskipti.
Í fjórða lagi sé mótmælt þeirri málsástæðu sóknaraðila að það verði leitt af ákv. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 að kröfur sóknaraðila njóti forgangs á grundvelli 112. gr. laga nr. 21/1991, sama hvernig þeim hafi verið lýst, svo lengi sem sóknaraðili hafi ekki afsalað sér rétti sínum með ótvíræðum hætti. Tilvitnað ákvæði laga nr. 161/2002 verði að skýra til samræmis við önnur ákvæði laganna, sem og lög nr. 21/1991. Sé í því samhengi vísað til 4. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 þar sem fram komi að ákvæði XVIII. kafla laga nr. 21/1991 gildi um meðferð krafna við slitameðferð fjármálafyrirtækis eins og varnaraðila.
Bent sé á að það hafi ekkert með það að gera hvort viðurkenna eigi kröfur sóknaraðila um forgang skv. 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, hvort Fjármálaeftirlitið hafi hinn 9. október 2008 tekið stjórnvaldsákvörðun á grundvelli laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, um að Nýi Landsbanki Íslands hf. yfirtæki skuldbindingar í útibúum Landsbanka Íslands hf. á Íslandi vegna innlána frá viðskiptavinum.
Mótmælt sé þeim málsástæðum sóknaraðila sem byggi á því að höfnun varnaraðila á að veita sóknaraðila sama forgang og sambærilegar kröfur hafi fengið feli í sér brot á 2. tl. 16. gr. tilskipunar Evrópuráðsins nr. 24/2001 um endurskipulagningu og slit lánastofnana, sem innleidd hafi verið með lögum nr. 161/2002, og síðari breytingum á þeim lögum. Vísi varnaraðili til þess að þar sem varnaraðili sé í slitameðferð gildi um þá meðferð íslensk lög skv. 2. mgr. 99. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, sbr. 9. gr. laga nr. 130/2004, en með þeim lögum hafi verið innleidd tilskipun Evrópuþingsins og -ráðsins 2001/24/EB frá 4. apríl 2001 um fjárhagslega endurskipulagningu og slit lánastofnana. Ákvæðið sé í samræmi við 10. gr. tilskipunarinnar. Árétti varnaraðili ákvæði 4. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 þar sem fram komi að ákvæði XVIII. kafla og 5. þáttar laga um gjaldþrotaskipti gildi um meðferð krafna á hendur fjármálafyrirtæki við slit þess, sbr. m.a. 117. og 118. gr. laga nr. 21/1991. Hafi allir kröfuhafar í sambærilegri stöðu verið meðhöndlaðir á sama hátt við slitameðferð varnaraðila. Þannig hafi slitastjórn varnaraðila viðurkennt kröfur þeirra heildsöluinnlánskröfuhafa sem lýst hafi kröfum sínum með vísan til 112. gr. laga nr. 21/1991 sem forgangskröfur samkvæmt tilgreindu lagaákvæði. Þá hafi slitastjórnin einnig viðurkennt kröfur þeirra heildsöluinnlánskröfuhafa sem annaðhvort hafi lýst kröfum sínum með vísan til 113. gr. laganna eða án þess að tilgreina stöðu kröfu í réttindaröð sem almennar kröfur samkvæmt tilgreindu. Mótmæli varnaraðili því með öllu að þeir heildsöluinnlánskröfuhafar sem lýst hafi kröfum sínum sem forgangskröfum og þeir sem hafi lýst þeim sem almennum kröfum séu í sambærilegri stöðu við slitameðferð varnaraðila. Sé því og mótmælt, með vísan til þess sem að framan greini, að slitastjórn varnaraðila hafi brotið gegn 2. tl. 16. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og -ráðsins 2001/24/EB um fjárhagslega endurskipulagningu og slit lánastofnana við afstöðutöku til lýstra krafna sóknaraðila við slitameðferð varnaraðila.
Loks sé vísað til þess að krafa sóknaraðila um rétthæð skv. 112. gr. laga nr. 21/1991 og mótmæli við afstöðu varnaraðila til kröfunnar hafi fyrst komið fram í bréfi sóknaraðila til varnaraðila, dags. 22. febrúar 2010. Kröfulýsingarfrestur hafi hins vegar runnið út hinn 30. október 2009 og hafi krafa sóknaraðila um forgang því verið fallin niður fyrir vanlýsingu þegar bréf sóknaraðila hafi borist varnaraðila. Hafni varnaraðili þannig með öllu þeirri staðhæfingu sóknaraðila að varnaraðili hafi brotið gegn meginreglu gjaldþrotalaga um jafnræði kröfuhafa við búskipti við afstöðutöku til lýstra krafna sóknaraðila. Þvert á móti byggi varnaraðili einmitt á grundvelli jafnræðisreglu gjaldþrotaréttarins og hafi slitastjórn því verið ófært að samþykkja aðra rétthæð en skv. 113. gr. laga nr. 21/1991 er hún hafi tekið afstöðu til lýstra krafna sóknaraðila.
Niðurstaða
Sóknaraðili telur að viðurkenna beri kröfu hans sem forgangskröfu skv. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slit varnaraðila. Vísar hann í fyrsta lagi til þess að óumdeilt sé að krafa sín sé tilkomin vegna heildsöluinnlána hans til varnaraðila. Krafa hans sé því innstæða í samræmi við 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og eigi að njóta forgangs skv. 112. gr. án tillits til þess hvernig henni hafi verið lýst, svo lengi sem sóknaraðili hafi ekki afsalað sér rétti sínum með ótvíræðum hætti.
Sú meginregla kemur fram í 1. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 að sá sem vilji halda fram kröfu á hendur þrotabúi verði að lýsa henni fyrir skiptastjóra. Í 2. mgr. sömu greinar segir að kröfulýsing skuli vera skrifleg og þar er jafnframt að finna ákvæði um efni kröfulýsingar. Meðal þess sem koma skal fram í kröfulýsingu er hverrar stöðu sé krafist að krafa njóti í skuldaröð. Innan þeirra marka sem ákvæðið setur ræður kröfuhafi því hvernig hann útbýr kröfulýsingu sína. Í bréfi sóknaraðila til slitastjórnar varnaraðila, dags. 18. júní 2009, sem ber yfirskriftina lýsing á kröfu á hendur Landsbankanum hf. af hendi Motor Insurer´s Bureau, er farið fram að á litið verði á bréfið sem formlega kröfulýsingu á hendur varnaraðila í tengslum við heildsöluinnlán milli aðilanna. Því næst er tekið fram: „Þær upplýsingar sem óskað var eftir á heimasíðu ykkar eru útlistaðar á töflu á næstu síðu ásamt gögnum til að styðja kröfu okkar.“ Verður framangreindur texti í bréfi sóknaraðila ekki skýrður á annan veg en þann að kröfulýsing sóknaraðila sé fólgin í framangreindu bréfi sóknaraðila ásamt umræddri meðfylgjandi töflu og að með henni hafi fylgt gögn til staðfestingar á samkomulagi aðilanna og innborgun innlánanna til varnaraðila. Verður því ekki á það fallist með sóknaraðila að líta verði svo á að umrædd tafla hafi enga sjálfstæða þýðingu í því tilliti, enda uppfyllir framangreint bréf eitt og sér ekki þau skilyrði sem sett eru í 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 um það hvað koma skuli fram í kröfulýsingu. Í 10. lið (dálki) umræddrar töflu er eftirfarandi tekið fram varðandi rétthæð kröfu: „Samkvæmt 17. kafla laga nr. 21/1991, við teljum að rétthæð kröfunnar sé í samræmi við 113. gr.“ (Under Chapter 17 of Act No. 21/1991, we believe the ranking of the claim is set out undir Article 113). Samkvæmt framangreindu og öðru því sem fram kemur í kröfulýsingunni er ljóst að hvergi kemur þar fram, með orðalagi í texta eða með tilvitnun í 112. gr. laga nr. 21/1991, að sóknaraðili geri kröfu til þess að krafa hans njóti forgangs samkvæmt nefndri lagagrein. Þvert á móti tekur hann fram að hann telji að krafan falli undir 113. gr. sömu laga. Með hliðsjón af framangreindu, og þeim sjónarmiðum sem fram koma í dómum Hæstaréttar í málum nr. 303/2003 og 156/2012, verður að líta svo á að sóknaraðili telji kröfur sínar vera meðal almennra krafna skv. 113. gr. laga nr. 21/1991 og að viðurkenna beri þær sem slíkar. Gildir einu í því sambandi þótt því sé ómótmælt að krafan teljist heildsöluinnlán og flokkist sem innstæða samkvæmt lögum nr. 98/1999 í skilningi ákv. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002. Samkvæmt skýru ákvæði 4. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 gilda ákvæði XVIII. kafla laga nr. 21/1991 um meðferð krafna við slitameðferð varnaraðila, þar á meðal áhrif þess að kröfu sé ekki lýst. Breytir því engu þótt lagaheimild fyrir forgangi innstæðna sé að finna í fyrrgreindu ákv. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 en ekki 112. gr. laga nr. 21/1991. Ekki verður því talið nægilegt að fram hafi komið í texta kröfulýsingar sóknaraðila að um heildsöluinnlán væri að ræða, enda er forgangur innstæðna ávallt háður því skilyrði að hans sé krafist í samræmi við ákvæði laga.
Ekki verður á það fallist með sóknaraðila að framangreint lagaskilyrði í 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991 um að taka beri fram í kröfulýsingu hverrar stöðu sé krafist að krafa njóti í skuldaröð feli í sér mismunun milli kröfuhafa eftir búsetu, og þar með brot gegn tilskipun Evrópuráðsins nr. 24 frá 2001 um endurskipulagningu og slit lánastofnana, enda um að ræða almennar reglur sem ætlað er að ná til allra kröfuhafa í sambærilegri stöðu. Þá verður heldur ekki talið að slík mismunun hafi falist í ákvörðun varnaraðila um að taka ekki til greina síðbúna tilkynningu sóknaraðila til varnaraðila, dags. 22. febrúar 2010, þess efnis að skilja verði kröfulýsingu hans þannig að þar hafi í raun verið krafist forgangs skv. 112. gr. laga nr. 21/1991, enda bréfið móttekið löngu eftir lok kröfulýsingarfrests.
Loks er því hafnað að fallast beri á kröfur sóknaraðila um forgang á þeirri forsendu að ástæðu þess að hann hafi lýst kröfu sinni með þeim hætti sem raun beri vitni megi rekja til rangra og villandi upplýsinga frá slitastjórn varnaraðila. Verður ekki á slíkt fallist þegar af þeirri ástæðu að meintar bótaskyldar athafnir eða athafnaleysi slitastjórnar, af því tagi sem sóknaraðili vísar til, geta ekki leitt til þess, þótt sannaðar væru, að krafa hans fengi betri stöðu í kröfuröð en hún hefði að öðrum kosti öðlast.
Í samræmi við allt framangreint er hafnað dómkröfu sóknaraðila um að kröfur hans í kröfuskrá varnaraðila nr. 3330 að fjárhæð 497.339.359 krónur og nr. 3680 að fjárhæð 201.655.886 krónur verði viðurkenndar sem forgangskröfur við slit varnaraðila.
Eftir þessum úrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir, að teknu tilliti til þingfestingargjalds að fjárhæð 250.000 krónur, vera hæfilega ákveðinn 650.000 krónur.
Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð:
Kröfum sóknaraðila, Motor Insurers Bureau, á hendur varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., er hafnað.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 650.000 krónur í málskostnað.