Hæstiréttur íslands
Mál nr. 758/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Gjaldþrotaskipti
- Veðsetning
- Tryggingarbréf
|
|
Þriðjudaginn 16. desember 2014. |
|
Nr. 758/2014.
|
Landsbankinn hf. (Arnar Þór Stefánsson hrl.) gegn þrotabúi Arnar Eyfjörð Þórssonar og (Einar Þór Sverrisson hrl.) Fikti ehf. (Jón Ögmundsson hrl.) |
Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Veðsetning. Tryggingarbréf.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem leyst var úr ágreiningi um kröfu sem L hf. lýsti við gjaldþrotaskipti á þrotabúi Ö. L hf. krafðist þess að staðfest yrði að hann nyti veðréttar í tiltekinni fasteign þrotabús Ö á grundvelli tryggingarbréfs og viðauka við það, til tryggingar skuldum K ehf. við sig svo og að krafa sem hann lýsti í búið á grundvelli þessa nyti stöðu í réttindaröð samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991. Í úrskurði héraðsdóms var rakið að umrædd fasteign hefði samkvæmt tryggingarbréfinu staðið ásamt öðrum fasteignum til tryggingar skuldum Ö ehf. og hefði Ö ritað undir það sem þinglýstur eigandi þeirrar fasteignar. Með viðauka við tryggingarbréfið um skuldskeytingu skyldi bréfið standa til tryggingar skuldum K ehf. í stað Ö ehf. Voru í viðaukanum talin upp sömu veðandlög og í tryggingarbréfinu en Ö ritaði ekki undir bréfið sem þinglýstur eigandi fasteignarinnar. Taldi héraðsdómur hvorki sannað að til hafi staðið að fasteignin stæði, eftir gerð viðaukans, til tryggingar skuldum K ehf. né að Ö hefði gefið samþykki fyrir því að svo yrði. Hefði því ekki stofnast til gilds veðréttar í fasteigninni til tryggingar skuldum K ehf. með útgáfu viðaukans. Var kröfum L hf. því hafnað. Var úrskurður héraðsdóms staðfestur í Hæstarétti með vísan til forsendna hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. nóvember 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 25. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. nóvember 2014, þar sem leyst var úr ágreiningi um kröfu sem sóknaraðili lýsti við gjaldþrotaskipti varnaraðilans þrotabús Arnar Eyfjörð Þórssonar. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að að staðfest verði að hann njóti þriðja veðréttar í fasteign varnaraðilans að Lundi í Þingeyjarsveit, fastanúmer 223-1713, á grundvelli tilgreinds tryggingarbréfs og viðauka við það, til tryggingar skuldum Kistumels ehf. við sig. Hann krefst þess jafnframt að krafa sín í bú þessa varnaraðila, á grundvelli tryggingarbréfsins og viðaukans við það, verði samþykkt með stöðu í réttindaröð samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991. Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Hinn kærði úrskurður verður staðfestur með vísan til forsendna hans.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Landsbankinn hf., greiði varnaraðilum, þrotabúi Arnar Eyfjörð Þórssonar og Fikti ehf., hvorum um sig 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. nóvember 2014.
Mál þetta var þingfest 21. mars sl. og tekið til úrskurðar 10. október sl. Sóknaraðili er Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík, en varnaraðilar eru þrotabú Arnar Eyfjörð Þórssonar, Andrésarbrunni 3, Reykjavík og Fikt ehf., Sandakri 14, Garðabæ.
Sóknaraðili krefst þess að staðfest verði að hann njóti, á grundvelli tryggingarbréfs nr. 0137-63-370552, útgefnu 3. júlí 2007 og viðauka við það, dagsettum 19. febrúar 2008, upphaflega 5. veðréttar og uppfærsluréttar, í allri fasteign varnaraðila að Lundi, lóð 177019, Þingeyjarsveit, fastanúmer 223-1713, til tryggingar kröfu sóknaraðila á hendur Kistumeli ehf., kt. [...]. Þá er þess krafist að krafa sóknaraðila í þrotabú Arnar Eyfjörð Þórssonar á grundvelli tryggingarbréfs nr. 0137-63-370552, útgefnu 3. júlí 2007, og viðauka þess, dagsettum 19. febrúar 2008, tryggðu með veði í Lundi, lóð 177019, Þingeyjarsveit, fastanúmer 223-1713, til tryggingar skuldum Kistumels ehf., kt. [...], upphaflega að fjárhæð 16.500.000 krónur, uppreiknað með vísitölu neysluverðs, verði samþykkt og njóti rétthæðar samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Jafnframt krefst sóknaraðili þess að síðari hluta kröfu varnaraðilans, þrotabús Arnar Eyfjörð Þórssonar, um afmáningu tryggingarbréfs úr þinglýsingabók verði hafnað. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Varnaraðilinn þrotabú Arnar Eyfjörð Þórssonar krefst þess að kröfum sóknaraðila verði hafnað og staðfest verði að sóknaraðili njóti ekki veðréttar í fasteigninni Lundi, landnúmer 177019, fastanúmer 223-1713. Þá er þess krafist að staðfest verði að tryggingarbréfi, útgefið 3. júlí 2007, sem nú hvílir á 3. veðrétti fasteignarinnar Lundar, landnúmer 177019, fastanúmer 223-1713, skuli aflýst og það afmáð úr þinglýsingabók fasteignarinnar. Varnaraðili krefst einnig málskostnaðar úr hendi sóknaraðila, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Varnaraðilinn Fikt ehf. krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Jafnframt krefst hann málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
I
Málsatvik
Félagið Örn Þórsson ehf., kt. [...], gaf 3. júlí 2007 út tryggingarbréf, auðkennt nr. 0137-63-370552. Með tryggingarbréfinu voru Landsbanka Íslands hf. settar að veði fjórar þar tilgreindar fasteignir til tryggingar á öllum skuldum félagsins Arnar Þórssonar ehf. við bankann. Meðal þessara fasteigna var fasteignin að Lundi, lóð 177019, Þingeyjarsveit, fastanúmer 223-1713, sem var sett að veði með 5. veðrétti og uppfærslurétti. Örn Eyfjörð Þórsson undirritaði tryggingarbréfið, annars vegar fyrir hönd Arnar Þórssonar ehf. og hins vegar persónulega sem þinglýstur eigandi fasteignarinnar að Lundi. Tryggingarbréfið var móttekið til þinglýsingar hjá sýslumanninum á Húsavík 5. júlí 2007 og innfært daginn eftir.
Hinn 19. febrúar 2008 gaf Örn Þórsson ehf. út skjalið ,,NÝR AÐILI Viðauki við tryggingarbréf“. Samkvæmt efni skjalsins er það viðauki við framangreint tryggingarbréf. Samkvæmt skjalinu skyldi veðandlag samkvæmt tryggingarbréfinu, þar með talin fyrrgreind fasteign að Lundi, framvegis einungis standa til tryggingar á öllum skuldum Kistumels ehf., kt. [...], við Landsbanka Íslands hf. en veðtrygging samkvæmt tryggingarbréfinu vegna skulda Arnar Þórssonar ehf. falla niður. Að öðru leyti skyldu ákvæði tryggingarbréfsins haldast óbreytt. Örn Eyfjörð undirritaði skjalið tvívegis, annars vegar fyrir hönd Arnar Þórssonar ehf. og hins vegar fyrir hönd hins nýja aðila, Kistumels ehf. Á viðaukanum var einnig gert ráð fyrir undirritun þinglýsts eiganda hins veðsetta, væri hann annar en útgefandi. Engin undirritun er á þeim stað á skjalinu.
Með bréfi, dags. 24. maí 2011, var fyrir hönd Arnar Eyfjörð skorað á sóknaraðila að aflétta fyrrnefndu tryggingarbréfi af fasteigninni Lundi, þar sem engar fjárskuldbindingar hvíldu lengur að baki tryggingarbréfinu af hálfu Arnar Þórssonar ehf. Sóknaraðili hafnaði þessari áskorun með bréfi, dags. 30. maí 2011. Sóknaraðili kveður að í kjölfar þessara bréfaskipta hafi komið í ljós að honum hefði láðst að senda umræddan viðauka til þinglýsingar hjá Sýslumanninum á Húsavík. Skjalið var móttekið til þinglýsingar hjá sýslumanninum á Húsavík 31. maí 2011 og innfært daginn eftir án athugasemda sem þinglýst skjal nr. R-427/2011.
Sýslumaðurinn á Húsavík sendi sóknaraðila bréf, dags. 19. september 2011, þar sem honum var gerð grein fyrir því að embættinu hefði borist krafa Arnar Eyfjörð um að afmá þinglýst skjal nr. R-427/2011 af fasteigninni að Lundi. Í bréfinu kom fram sú afstaða sýslumanns að fallast yrði á kröfuna þar sem Örn Eyfjörð hefði ekki gefið persónulegt samþykki sitt til veðsetningar á fasteigninni með undirritun sinni á skjalið. Sóknaraðili mótmælti þessari afstöðu sýslumanns með bréfi, dags. 5. október 2011. Með bréfi sýslumannsins á Húsavík, dags. 28. desember 2011, var sóknaraðila og Erni Eyfjörð tilkynnt ákvörðun embættisins um að afmá skjalið nr. R-427/2011 úr þinglýsingabók. Sóknaraðili bar þessa úrlausn undir Héraðsdóm Norðurlands eystra. Með úrskurði dómsins 24. apríl 2012 var kröfu sóknaraðila um að fella úr gildi ákvörðun þinglýsingarstjóra hafnað.
Varnaraðilinn Fikt ehf., sem lánveitandi, og Örn Eyfjörð, sem lántaki, gerðu með sér lánssamning 27. mars 2012. Samkvæmt honum var Erni Veitt lán að fjárhæð 6.000.000 króna til eins árs sem skyldi endurgreiða með einni afborgun 1. apríl 2013. Til tryggingar endurgreiðslu lánsins gekkst lántaki í sjálfskuldarábyrgð, auk Jóns Þórs Arnarsonar, kt. [...]. Þann 1. október 2012 var undirritað tryggingarbréf þar sem fasteign Arnar, Lundur í Þingeyjarsveit, var sett til tryggingar endurgreiðslu lánsins. Samkvæmt tryggingarbréfinu var varnaraðilanum Fikti ehf. veittur 4. veðréttur í fasteigninni með uppfærslurétti. Viðauki við lánssamninginn var undirritaður 11. október 2012 þar sem kveðið var á um þá breytingu að til viðbótar tryggingu lánsins yrði áðurnefnd fasteign sett að veði.
Bú Arnar Eyfjörð var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 7. mars 2013. Sóknaraðili lýsti veðkröfu í þrotabúið 7. maí 2013 á grundvelli fyrrgreinds viðauka um skuldskeytingu við tryggingarbréf 19. febrúar 2008. Varnaraðilinn Fikt ehf. lýsti einnig veðkröfu í búið 13. maí 2013. Skiptastjóri hafnaði kröfu sóknaraðila á þeim grundvelli að gildur veðréttur sóknaraðila hefði ekki stofnast í fasteigninni Lundi í Þingeyjarsveit. Ekki var leyst úr ágreiningi um kröfuna á skiptafundi, sem haldinn var til að fjalla um þessa kröfu 3. desember 2013, og vísaði skiptastjóri ágreiningnum til úrlausnar héraðsdóms með bréfi sem móttekið var 19. desember sama ár.
Ágreiningur málsaðila snýr að því hvort sóknaraðili eigi veðrétt í fasteign varnaraðila að Lundi í Þingeyjarsveit á grundvelli fyrrnefnds viðauka frá 19. febrúar 2008 við tryggingarbréf sem gefið var út 3. júlí 2007.
II
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili byggir kröfur sínar á því að með viðauka, dagsettum 19. febrúar 2008, hafi aðilum samist svo um að veð sóknaraðila í Lundi, lóð 177019, Þingeyjarsveit, fastanúmer 223-1713, skyldi framvegis einungis standa til tryggingar öllum kröfum sóknaraðila á hendur Kistumel ehf. Ekki sé fortakslaus skylda til þess að þinglesinn eigandi riti undir á þeim hluta skjals þar sem ætlast er til að þinglesinn eigandi riti undir til að gild veðsetning stofnist í eign hans. Sóknaraðili telur að eins og aðstæðum hafi verið háttað við gerð viðaukans feli hann í sér þau réttindi sem sóknaraðili krefst staðfestingar á, þrátt fyrir að ekki hafi verið skrifað undir á þeim tiltekna stað á skjalinu þar sem þinglýstum eiganda er gert að skrifa undir, sé hann annar en útgefandi.
Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands hafi varnaraðilinn þrotabú Arnar Eyfjörð Þórssonar verið þinglýstur eigandi umræddrar fasteignar allt frá árinu 1997. Örn Eyfjörð Þórsson hafi 12. desember 1997 stofnað einkahlutafélagið Örn Þórsson ehf. Á þeim tíma þegar viðaukinn var undirritaður hafi hann verið í framkvæmdastjórn, með prókúruumboð og jafnframt verið eini stjórnarmaður félagsins. Örn Eyfjörð hafi einnig verið meðal stofnenda Kistumels ehf., en félagið hafi verið stofnað 22. júní 2007. Þegar viðaukinn var undirritaður hafi Örn Eyfjörð einn verið skráður í framkvæmdastjórn Kistumels ehf. og sem meðstjórnandi í stjórn félagsins með stjórnarformanninum Rannveigu Sveinsdóttur.
Örn Þórsson ehf. hafi gefið út umræddan viðauka og undirritun Arnar Eyfjörð sé til staðar á viðaukanum á tveimur stöðum, án fyrirvara. Í viðaukanum felist yfirlýsing aðila þess efnis að tryggingarbréf nr. 0137-63-370552 standi eftirleiðis, að allsherjarveði, til tryggingar skulda Kistumels ehf. við sóknaraðila. Samkvæmt viðaukanum sé honum ótvírætt ætlað að taka til fasteignanna að Kistumel 6a, 8 og 6 auk fyrrgreindrar fasteignar varnaraðila að Lundi. Einungis mannleg mistök hafi leitt til þess að ekki var skrifað undir á þriðja staðnum. Viðaukinn sé ekki flókinn á neinn hátt og skýrt komi fram hvaða eignir standi til tryggingar. Örn Eyfjörð hafi vitað að viðaukinn fæli í sér áframhaldandi veðsetningu umræddrar eignar hans að Lundi, nú einungis til tryggingar skuldum Kistumels ehf. Kistumelur ehf. hafi tekið yfir skuldir Sem best ehf., m.a. með umræddum viðauka. Eðlilegt sé að tryggingar fylgi með þegar skuldir eru yfirteknar. Þannig sé rökrétt að ætlunin hafi allan tímann verið sú að tryggingarbréfið myndi tryggja skuldir Kistumels ehf., með öllum þeim veðandlögum sem tryggingarbréfið var tryggt með.
Vegna mikillar aðkomu sinnar að viðskiptunum, sem fyrirsvarsmaður félagsins Örn Þórsson ehf. og sem annar fyrirsvarsmanna félagsins Kistumels ehf., hafi Örn Eyfjörð gert sér fulla grein fyrir því persónulega, sem þinglýstur eigandi umræddrar fasteignar að Lundi, að meðal efnis viðaukans væri áframhaldandi veðsetning þessarar eignar hans til tryggingar skuldum nýs aðila. Erni Eyfjörð hafi verið í lófa lagið að gera fyrirvara um að undanskilja þessa eign veðsetningu við gerð viðaukans en það hafi hann ekki gert, heldur skrifað undir viðaukann. Hér sé um að ræða gilt loforð um veðsetningu, gefið af aðila sem hafði heimild til að ráðstafa veði.
Í úrskurði Héraðsdóms Norðurlands eystra í máli nr. T-2/2012 hafi eftirfarandi komið fram: „Sóknaraðili byggir á því að skjalið veiti honum allt að einu slíkan veðrétt, þar sem áritun varnaraðila á skjalið fyrir hönd tveggja einkahlutafélaga sýni að honum hafi verið fullkunnugt um gerninginn. Slíkur efnisréttur, umfram það sem skjalið segir berum orðum, verður ekki sóttur í máli sem rekið er samkvæmt sérstökum reglum 3. gr. þinglýsingarlaga, þótt hans megi leita í almennu einkamáli svo sem meðal annars var gert í hæstaréttarmáli nr. 227/1997 sem birtur er í dómasafni Hæstaréttar frá árinu 1998, bls. 1634 og áfram.“ Skýrt komi fram í tilvitnuðum orðum úrskurðarins að eingöngu sé litið til formsins þegar mál eru höfðuð á grundvelli 3. gr. þinglýsingarlaga. Úrskurðurinn hafi því enga þýðingu hvað efnisréttinn varðar. Ekki sé hægt að höfða mál á hendur þrotabúi, sbr. 116. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., og því ekki hægt að stefna varnaraðila til staðfestingar á veðréttinum í framhaldi af úrskurði Héraðsdóms.
Afmáning viðaukans úr þinglýsingabók hafi enga þýðingu varðandi samning sóknar- og varnaraðila, enda sé þinglýsing eingöngu tól til að afla þeim réttindum sem skjölin taka til réttarverndar gagnvart grandlausum þriðja manni.
Sóknaraðili vísar til dóma Hæstaréttar í málum nr. 227/1997 og nr. 162/2009, þar sem reynt hafi á sambærileg álitaefni. Draga megi þá ályktun af þessum dómum Hæstaréttar að ef finna megi undirskrift þinglýsts eiganda fasteignar á veðskjali og atvik séu með þeim hætti við gerð skjalsins að líklegt þyki að eigandinn hafi mátt gera sér grein fyrir því að efni veðskjalsins væri áframhaldandi veðsetning persónulegrar eignar hans, feli undirskrift hans í sér gilda veðsetningu þrátt fyrir að hún sé ekki á þeim hluta skjalsins þar sem beinlínis er ætlast til að þinglýstur eigandi fasteignar riti undir.
Sóknaraðili byggir á því að undirritanir varnaraðila á viðaukann, f.h. útgefanda og nýs aðila, feli jafnframt í sér persónulegt samþykki hans fyrir áframhaldandi allsherjarveðsetningu fasteignar hans að Lundi, nú til tryggingar skuldum Kistumels ehf. við sóknaraðila. Það sé því afstaða sóknaraðila að um gilda veðsetningu hafi verið að ræða samkvæmt viðaukanum og að varnaraðila beri að samþykkja kröfu sóknaraðila í búið sem veðkröfu á grundvelli 111. gr. laga nr. 21/1991 til tryggingar kröfum Kistumels ehf. Þinglýsing viðaukans skipti engu máli hvað þetta varðar.
Bú Kistumels ehf. hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 31. október 2013. Sóknaraðili hafi gert kröfu í búið að fjárhæð 47.353.942 krónur. Engar eignir hafi fundist í búinu og skiptum hafi lokið 20. janúar 2014 samkvæmt 155. gr. laga nr. 21/1991 án þess að greiðsla fengist upp í lýstar kröfur. Krafa sé þannig sannanlega til staðar að baki tryggingarbréfinu. Sóknaraðila sé því nauðsynlegt að fá staðfestingu á veðrétti sínum samkvæmt viðaukanum og úthlutun í samræmi við það við sölu eða innlausn eignarinnar.
Aðild sóknaraðila eigi rætur að rekja til ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 um að ráðstafa eignum og skuldum Landsbanka Íslands hf. til sóknaraðila, sem þá hét Nýi Landsbanki Íslands hf., með heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga 125/2008.
Sóknaraðili vísar til meginreglna kröfuréttar og samningaréttar um skuldbindingargildi loforða og skyldu til að efna samninga, sem og til almennra reglna kröfuréttar og veðréttar um ábyrgðarskuldbindingar og heimildir til veðsetninga. Þá er vísað til ákvæða þinglýsingarlaga nr. 39/1978. Krafa um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Sóknaraðili sé ekki virðisaukaskattskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi varnaraðila.
III
Málsástæður og lagarök varnaraðilans þrotabús Arnar Eyfjörð Þórssonar
Um höfnun kröfu sóknaraðila vísar varnaraðili til þeirrar meginreglu að kröfuhafi verði að samþykkja nýjan skuldara svo gilt sé. Sömu sjónarmið beri að leggja til grundvallar varðandi veðsetningar, þ.e. veðsali, sá sem lætur eign að veði, verði að samþykkja veðsetningu þegar nýr aðili gengst við skuld. Fullyrðing sóknaraðila um að ekki sé fortakslaus skylda til að þinglesinn eigandi riti undir á réttan stað skjals svo til gildrar veðsetningar stofnist eigi ekki við nein rök að styðjast, enda hafi sérhver undirritun á lánaskjöl ákveðna þýðingu við samningsgerð. Ekki verði slakað svo á kröfum til skjalagerðar að undirritanir geti orðið skuldbindandi, óháð staðsetningu undirritunar á skjalið þannig að byggja megi á undirritun, svo lengi sem hana sé að finna einhvers staðar á skjali. Fjármálafyrirtæki geti ekki öðlast aukinn rétti sökum þess að aðili skrifi undir skjöl sem fyrirsvarsmaður félags en ekki megi líta svo á að að með því sé hann að að undirgangast skuldbindingar sem einstaklingur.
Sóknaraðili byggi á því að Erni Eyfjörð hafi verið fullkunnugt um efni og tilgang viðaukans og fallist varnaraðili á það. Erni Eyfjörð hafi nefnilega verið fullkunnugt um að tryggingarbréfið skyldi einungis standa til tryggingar skuldum Kistumels ehf. við sóknaraðila og hann hafi ritaði undir skjalið í þeim tilgangi. Jafnframt hafi Erni Eyfjörð verið fullkunnugt um að persónuleg fasteign hans ætti ekki lengur að standa til tryggingar samkvæmt tryggingarbréfinu. Gegn eindreginni neitun varnaraðila, og þvert á þær upplýsingar sem viðaukinn sjálfur beri með sér, hljóti sóknaraðila að vera takmörk sett í fullyrðingum um huglæga afstöðu Arnar Eyfjörð til samkomulagsins. Vísun sóknaraðila til þess að Erni hafi verið fullkunnugt um að fasteign hans skyldi standa áfram til tryggingar skuldum Kistumels vegna þess að viðaukinn sé feitletraður um þetta skipti ekki nokkru máli enda sé viðaukinn meira og minna feitletraður.
Ómögulegt sé að byggja á því að til veðsetningar á fasteign í persónulegri eigu varnaraðila hafi stofnast með því að Örn Eyfjörð ritaði undir viðaukann fyrir hönd lögaðila. Þar sem sérstaklega vanti undirritun veðsala hafi verið ætlun samningsaðila að undanþiggja umrædda fasteign veðsetningu. Hafa verði í huga að Örn Eyfjörð hafi verið einn í stjórn Arnar Þórssonar ehf., en framkvæmdastjóri og stjórnarmaður í Kistumel ehf., Rannveig Sveinsdóttir, hafi verið stjórnarformaður Kistumels ehf., og jafnframt prókúruhafi. Örn Eyfjörð hafi því ekki verið eini eigandi Kistumels ehf. Samkvæmt þessu sé ekki sjálfgefið að Örn Eyfjörð hafi ætlað sér að leggja persónulega fasteign sína að veði fyrir skuldbindingum félags sem hann hafði ekki einn fyrirsvar fyrir. Að minnsta kosti verði vafi um slíkt túlkaður varnaraðila í hag. Viðaukinn varði tvo lögaðila, sem eigi sjálfstæðan rétt og bera sjálfstæðar skyldur óháð því hver sé fyrirsvarsmaður þeirra hverju sinni.
Sóknaraðili hafi samið hinn umdeilda viðauka og lagt hann fram staðlaðan gagnvart Erni Eyfjörð. Þá lágmarkskröfu verði að gera til fjármálastofnana að þær séu sjálfar bærar til þess að hafa tryggingarréttindi sín skilmerkilega fram sett, með tilhlýðilegum undirritunum á réttum stöðum sérstaklega og einkum í ljósi þess að skjalið stafar frá sóknaraðila sjálfum. Þá verði að líta til stöðu samningsaðila, þar sem annars vegar sé um að ræða einstakling og hins vegar fjármálafyrirtæki, sem hafi m.a. útlánastarfsemi að meginstarfi, og hafi fjölda sérfræðinga á sínum vegum.
Við túlkun viðaukans beri einnig að líta til samskipta Arnar Eyfjörð við sóknaraðila og aðdraganda undirritunar hans. Örn Eyfjörð hafi margítrekað við sóknaraðila að sumarhúsið skyldi ekki vera til tryggingar eftir útgáfu viðaukans við tryggingarbréfið, þar sem aðrar veðsettar eignir hefðu aukist til muna að virði. Varnaraðili hafi unnið mikið starf í þeim eignum sem staðsettar séu við Kistumel sem samhliða hafi leitt til virðisaukningar þeirra. Því hafi sóknaraðili haft betri tryggingar í eignunum að Kistumel við undirritun viðaukans en við útgáfu upphaflega tryggingarbréfsins. Þessum sjónarmiðum hafi varnaraðili haldið á lofti gagnvart sóknaraðila. Það renni stoðum undir þá fullyrðingu að aldrei hafi staðið til að sumarhúsið að Lundi skyldi áfram veðsett sóknaraðila eftir skuldskeytingu. Sóknaraðila sé fullkunnugt um þessi samskipti og aðdragandann. Í þessu ljósi sé ósanngjarnt að bera viðaukann fyrir sig, óháð því hver endanleg fullnusta sóknaraðila var við búskipti Kistumels ehf.
Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra í málinu nr. T-2/2012 veiti mikilvægar vísbendingar við úrlausn þessa máls, enda þótt hann lúti að þinglýsingu viðaukans sérstaklega og taki því ekki til deiluefnisins með beinum hætti. Dómurinn fallist á að tilgreining á samþykki veðsala hafi ekki verið svo skýr í viðaukanum sem gera verði kröfu til, svo veðsetning verði talin hafa átt sér stað. Þá komi fram í forsendum úrskurðarins að hvergi standi berum orðum á skjalinu að þinglýstur eigandi hafi samþykkt þá ráðstöfun að setja fasteign sín að veði eins og sóknaraðili reyni að byggja á í máli þessu.Veigamikil rök séu fyrir því að þar sem skjalið uppfyllti ekki kröfur til þinglýsingar verði það tæpast lagt til grundvallar veðsetningu, gegn eindreginni neitun varnaraðila um að slíkt hafi verið ætlun eða tilgangur viðaukans.
Varnaraðili vísar til meginreglna fjármunaréttarins, einkum kröfuréttar og veðréttar, og samningaréttar um skuldbindingargildi loforða og skyldu til efnda. Þá vísast til 1. mgr., sbr. 2. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Krafa um málskostnað styðst við 130. gr., sbr. og 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt byggir á 1. gr., sbr. 2. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Þar sem varnaraðili sé ekki virðisaukaskattsskyldur beri honum nauðsyn til þess að fá dóm fyrir skattinum úr hendi sóknaraðila.
IV
Málsástæður og lagarök varnaraðilans Fikts ehf.
Varnaraðilinn Fikt ehf. byggir á því að krafa sóknaraðila njóti ekki réttar samkvæmt lögum þar sem viðauki við umrætt tryggingarbréf hafi verið afmáður úr þinglýsingabókum sýslumanns. Af því leiði að krafa sóknaraðila verði ekki samþykkt sem veðkrafa á grundvelli 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Samkvæmt ákvæðum þinglýsingalaga nr. 39/1978 stofnist veðréttur vegna samningsveða í fasteign við þinglýsingu í fasteignabók sýslumanns, sbr. 19. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð. Þinglýsing í fasteignabók sé því forsenda þess að veðréttur sem veitir sjálfvörsluveð í fasteign öðlist réttarvernd. Hinn 28. desember 2011 hafi sýslumaður afmáð umræddan viðauka úr þinglýsingabókum embættisins með vísan til 1. mgr. 27. gr. þinglýsingalaga. Ágreiningur um þá ákvörðun sýslumanns hafi þegar verið til lykta leiddur með úrskurði Héraðsdóms Norðurlands eystra, sem staðfesti ákvörðun embættisins, og geti hún því ekki komið til umfjöllunar að nýju í máli þessu. Þegar af þeirri ástæðu beri dóminum að hafna öllum kröfum sóknaraðila málsins.
Þá kveður varnaraðilinn að fasteignir verði ekki veðsettar nema með afdráttarlausu samþykkti þess aðila sem telst hafa þinglýsta eignarheimild til fasteignar í skilningi 1. mgr. 25. gr. þinglýsingarlaga. Þar sem samþykkis þinglýsts eiganda var ekki aflað við útgáfu viðaukans hafi ekki verið stofnað til löglegrar veðsetningar á fasteigninni að Lundi til tryggingar skuldum Kistumels ehf.
Varnaraðili árétti að við lánveitingu varnaraðila til Arnar Eyfjörð hafi legið ljóst fyrir að búið var að afmá viðaukann úr þinglýsingarbókum. Varnaraðili hafi því enga ástæðu haft til að gera ráð fyrir tilvist veðkröfu sóknaraðila. Þá muni Örn Eyfjörð sjálfur hafa staðið í þeirri trú að allar skuldbindingar að baki kröfu sóknaraðila væru niður fallnar. Að sögn Arnar Eyfjörð hafi það verið tímabundin ráðstöfun að veita sóknaraðila veð í fasteigninni Lundi og sú ráðstöfun hafi einvörðungu átt að vera bundin við félagið Örn Þórsson ehf., enda hafi Örn sjálfur aldrei haft vilja til að veðsetja fasteign í sinni persónulegu eigu til tryggingar skuldum Kistumels ehf. Í samræmi við það hafi hann ekki viljað undirrita viðauka við tryggingarbréfið til samþykkis veðsetningunni.
Varnaraðili byggir á því að gera verði ríkar kröfur til sóknaraðila sem fjármálafyrirtækis um að hann annist skjalagerð með forsvaranlegum hætti og gæti þess að frágangur þeirra sé með þeim hætti að þau geti haft þá réttarverkan sem til er ætlast. Starfsmönnum sóknaraðila hafi, sem sérfræðingum í gerð og frágangi veðskjala, mátt vera ljóst að viðaukinn hafi verið ótækur til þinglýsingar á fasteignina Lund, enda hafi skjalið ekki verið áritað um samþykki þinglýsts eiganda hennar til veðsetningarinnar. Ekkert liggi fyrir um að slíkt samþykki hafi nokkru sinni verið gefið af Erni Eyfjörð og því sé mótmælt sérstaklega. Sóknaraðili verði að bera hallann af því að samþykki Arnar Eyfjörð skorti fyrir veðsetningunni.
Um lagarök vísar varnaraðili til ákvæða laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., þinglýsingalaga nr. 39/1978 og laga nr. 75/1997 um samningsveð. Krafa varnaraðila um málskostnað byggir á 129. gr., sbr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
V
Niðurstaða
Í máli þessu, sem beint hefur verið til dómsins á grundvelli laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., hefur sóknaraðili krafist þess að staðfest verði að hann njóti veðréttar, á grundvelli tryggingarbréfs frá 3. júlí 2007 og viðauka við það frá 19. febrúar 2008, upphaflega 5. veðréttar og uppfærsluréttar, í allri fasteign varnaraðila að Lundi, lóð 177019, Þingeyjarsveit, fastanúmer 223-1713, til tryggingar kröfu sóknaraðila á hendur Kistumeli ehf., kt. [...]. Þá er þess krafist að krafa sóknaraðila í þrotabú Arnar Eyfjörð Þórssonar á grundvelli áðurnefnds tryggingarbréfs og viðauka við hann til tryggingar skuld upphaflega að fjárhæð 16.500.000 krónur, uppreiknuð með vísitölu neysluverðs, verði samþykkt og njóti rétthæðar samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. sem veðkrafa. Verður kröfugerð sóknaraðila skilin svo að hann telji sig njóta veðréttar í áðurnefndri fasteign varnaraðila þrotabús Arnar Eyfjörð Þórssonar fyrir fjárhæð sem nemur 16.500.000 krónum, auk dráttarvaxta, verðbóta, lögbundinna vanskilaálaga o.fl. samkvæmt ákvæðum bréfsins sjálfs og kröfulýsingu sóknaraðila í bú varnaraðilans 7. maí 2013.
Sóknaraðili kveður að upphaflega hafi fasteignin að Lundi verið sett að veði til tryggingar öllum skuldum félagins Örn Þórsson ehf. en síðar með viðaukanum einungis til tryggingar skuldum félagins Kistumels ehf. í stað fyrrnefnda félagsins. Byggir sóknaraðili á því að með undirritun sinni á umþrættan viðauka hafi þrotamaður samþykkt skuldskeytingu sem viðaukinn gerði ráð fyrir og með því áframhaldandi veðsetningu þeirra eigna sem þar voru upp taldar í viðaukanum, þ. á m. í fasteigninni Lundi í Þingeyjarsveit. Mannleg mistök hafi valdið því að sóknaraðili hafi ekki verið látinn rita undir á skjalið sem veðsali og þinglýstur eigandi umræddrar fasteignar. Þrotamanni hafi á hinn bóginn verið full kunnugt um að ætlunin hafi verið að áðurnefnd fasteign hans stæði nú til tryggingar skuldum nýs skuldara, Kistumels ehf. í stað fyrri skuldara, Arnar Þórssonar ehf. Þrotamaður hafi komið að rekstri beggja félaga og hafi ritað undir viðaukann fyrir hönd þeirra.
Skiptastjóri búsins hafnaði kröfu sóknaraðila með vísan til þess að ekki hefði stofnast gildur veðréttur í fasteigninni til handa sóknaraðila. Þrotamaðurinn Örn Eyfjörð Þórsson hafi aldrei ætlað að setja fasteignina að veði til tryggingar skuldum félagsins Kistumels ehf. enda hafi hann ekki ritað samþykki sitt sem slíkur á umræddan viðauka við tryggingarbréfið. Sönnunarbyrði um að atvik að undirritun viðaukans hafi verið með öðrum hætti en skjalið sjálft beri með sér hvíli á sóknaraðila. Þá verði sóknaraðili að bera hallann af óvandaðri skjalagerð í málinu. Sönnun um þetta hafi ekki tekist og því beri að hafna kröfu sóknaraðila og staðfesta að sóknaraðili njóti ekki veðréttar í fasteigninni Lundi og að tryggingarbréfi sem hvílir á þriðja veðrétti fasteignarinnar verði aflýst og það afmáð úr þinglýsingabók.
Varnaraðilinn Fikt ehf., sem einnig lýsti veðkröfu í bú þrotamanns á grundvelli tryggingarbréfs 1. október 2012 sem móttekið var til þinglýsingar 24. október 2012 og innfært í þinglýsingabækur 26. sama mánaðar, byggir annars vegar á því að umræddur viðauki feli ekki í sér gilda veðsetningu þar sem samþykki þinglýsts eiganda fasteignar sé nauðsynlegt skilyrði gildrar veðsetningar. Slíkt samþykki skorti og ekki sé unnt að álykta af atvikum máls að ætlun Arnar Eyfjörð Þórssonar hafi verið að setja að veði til tryggingar skuldum Kistumels ehf., fasteign sína að Lundi í Þingeyjarsveit. Sönnunarbyrði um slíkt hvíli á sóknaraðila. Þá verði sóknaraðili sem fjármálastofnun að bera hallann af lélegri skjalagerð og að hafa ekki tryggt sér skýrar og ótvíræðar sannanir fyrir veðréttindum. Hins vegar byggir varnaraðilinn á því að í öllu falli njóti meintur veðréttur sóknaraðila ekki réttarverndar þar sem umræddur viðauki hafi verið afmáður úr þinglýsingabókum og sé því ekki tækur til þinglýsingar. Aðrir veðréttir hvíli á eigninni og réttarvernd sé því lykilatriði í slíkum tilvikum. Veðrétti varnaraðilans, Fikts ehf., hafi verið þinglýst og gangi hann því framar meintum veðrétti sóknaraðila.
Ágreiningsefni máls þessa, eins og það liggur fyrir dóminum, lýtur að því hvort stofnast hafi gildur veðréttur sóknaraðila í eign varnaraðila til tryggingar skuldum Kistumels ehf. á grundvelli viðauka um skuldskeytingu við tryggingarbréf sem upphaflega stóð til tryggingar skuldum félagsins Örn Þórssonar ehf. og krafa hans af þeim sökum njóti rétthæðar sem veðkrafa á grundvelli 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Með heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. tók Fjármálaeftirlitið þá ákvörðun 9. október 2008 að ráðstafa eignum og skuldum Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbanka Íslands, nú sóknaraðili máls þessa, Landsbankinn hf. Sóknaraðili er því réttur aðili máls þessa.
Í máli þessu liggur fyrir að þrotamaðurinn Örn Eyfjörð Þórsson gaf út tryggingarbréf til forvera sóknaraðila 3. júlí 2007 þar sem fasteign hans að Lundi í Þingeyjarsveit var, ásamt öðrum fasteignum sem þar eru tilgreindar, sett að veði til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu á öllum skuldum og fjárskuldbindingum félagsins Arnar Þórssonar ehf. þá eða síðar allt að fjárhæð 16.500.000 krónur. Undir tryggingarbréfið ritar Arnar Þórsson sem þinglýstur eigandi um samþykki sitt fyrir veðsetningunni og fyrir hönd félagsins. Tryggingarbréfið var innfært í þinglýsingabækur 4. júlí 2007. Af hálfu þrotabús Arnar Eyfjörð Þórssonar hefur því verið haldið fram að umrædd veðsetningin hafi átt að vera tímabundin ráðstöfun og aldrei hafi staðið til að fasteign stæði síðar til tryggingar skuldum annars félags en Arnar Þórssonar ehf.
Viðauki var gerður við áðurnefnt tryggingarbréf 19. febrúar 2008. Samkvæmt honum skyldi bréfið nú standa einungis til tryggingar skuldum félagsins Kistumels ehf. gagnvart sóknaraðila í stað félagsins Arnar Þórssonar ehf. Að öðru leyti skyldu ákvæði tryggingarbréfsins haldast óbreytt. Í viðaukanum eru talin sömu veðandlög og verið höfðu í áðurnefndu tryggingarbréfi, þ. á m. fasteignin að Lundi. Óumdeilt er að Örn Eyfjörð Þórsson ritaði ekki undir bréfið sem þinglýstur eigandi hinnar veðsettu eignar en hann ritaði á hinn bóginn undir á tveimur stöðum á skjalið, annars vegar f.h. félagsins Arnar Þórssonar ehf. og hins vegar f.h. hins nýja aðila, Kistumels ehf., ásamt öðrum fyrirsvarsmanni þess, Rannveigu Guðmundsdóttur.
Eins og skjalið sjálft ber með sér skortir samþykki veðsala, Arnar Eyfjörð Þórssonar, þinglýsts eiganda fasteignarinnar Lundar fyrir ráðstöfun þeirri er í skjalinu fólst. Sóknaraðili hefur engan reka gert að því að færa sönnur á að atvik að undirritun viðaukans hafi verið með öðrum hætti en ráða má af skjalinu sjálfu. Verður því að telja ósannað í málinu að til hafi staðið að fasteign Arnar Eyfjörð Þórssonar að Lundi í Þingeyjarsveit stæði, eftir gerð viðaukans, nú til tryggingar skuldum hins nýja skuldara, Kistumels ehf., eins og hún hafði áður staðið til tryggingar skuldum Arnar Þórssonar ehf. Jafnframt verður að telja ósannað að Örn Þórsson hafi gefið samþykki sitt fyrir því að eign hans stæði nú til tryggingar skuldum nýs skuldara og er hafnað sjónarmiðum sóknaraðila um grandsemi þrotamanns þar að lútandi. Sóknaraðili er fjármálastofnun og eru skjöl þau sem á reynir í máli þessu samin einhliða af honum. Gera verður þær kröfu til fjármálastofnana að þær vandi til skjalagerðar og að réttilega sé gengið frá skjölum er lúta að mikilvægum ráðstöfunum eins og um er að ræða í máli þessu og að þær tryggi sér skýrar og ótvíræðar sannanir fyrir veðréttindum. Óskýrleika hvað þetta varðar verður að skýra sóknaraðila í óhag. Er það því niðurstaða dómsins að ekki hafi stofnast til gilds veðréttar í fasteigninni Lundi til tryggingar skuldum félagsins Kistumels ehf. með útgáfu umþrætts viðauka 19. febrúar 2008 við tryggingarbréf og verður fallist á sjónarmið varnaraðilanna þrotabús Arnar Eyfjörð Þórssonar og Fikts ehf. þar að lútandi. Verður og ekki fram hjá því litið að umþrættur viðauki hefur verið afmáður úr þinglýsingabókum og var niðurstaða sýslumanns um það staðfest í úrskurði Héraðsdóms Norðurlands eystra 24. apríl 2012. Ljóst er því að sóknaraðili getur ekki aflað skjali sínu þeirrar réttarverndar sem nauðsynleg er til að verja rétt sinn fyrir öðrum skuldheimtumönnum þrotamanns sem byggja kröfur sínar á þinglýstum skjölum. Á það einnig við um rétthæð veðhafa við gjaldþrotaskipti sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 17. desember 1992 í máli nr. 471/1989. Verður því að líta svo á að meint krafa sóknaraðila hafi aldrei notið réttarverndar enda ekki til gilds veðréttar stofnað í öndverðu.
Verður því ekki talið að með viðaukanum hafi sóknaraðila verið veitt veðtrygging í umræddri eign svo gilt sé og verður því að hafna kröfu sóknaraðila um staðfestingu veðréttar á grundvelli tryggingarbréfsins og viðaukans við það eins og nánar segir í kröfugerð hans og þegar hefur verið rakin. Þegar af þeirri ástæðu verður hafnað síðari hluta kröfugerðar hans þess efnis að krafa hans samkvæmt tryggingarbréfinu og viðaukanum sem hann lýsti í bú varnaraðilans, þrotabú Arnar Eyfjörð Þórssonar, njóti rétthæðar samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Varnaraðilinn, þrotabú Arnar Eyfjörð Þórssonar, krefst þess að staðfest verði að sóknaraðili njóti ekki veðréttar í fasteigninni Lundi í Þingeyjarsveit. Telja verður að þessi hluti kröfu hans felist í fyrri hluta hennar um að kröfum sóknaraðila verði hafnað sem þegar hefur verið fallist á samkvæmt ofansögðu. Hvað varðar kröfu varnaraðilans um að umræddu tryggingarbréfi skuli aflýst og það afmáð úr þinglýsingabók fasteignarinnar Lundar í Þingeyjarsveit er til þess að líta að mál þetta er rekið samkvæmt ákvæðum laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og hefur verið beint til dómsins vegna ágreinings um lýsta kröfu í bú varnaraðila sbr. 171. gr. Úr þessum þætti í kröfu varnaraðila verður því ekki leyst í máli þessu og er þessum hluta krafna hans vísað frá dómi eins og nánar greinir í úrskurðarorði.
Eftir þessum úrslitum verður sóknaraðila, með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, gert að greiða varnaraðilum málskostnað sem þykir, eftir atvikum og með hliðsjón af umfangi málsins, vera hæfilega ákveðinn 300.000 krónur til handa hvorum um sig.
Af hálfu sóknaraðila flutti málið Sonja Marsibil Þorvaldsdóttir hdl. Af hálfu varnaraðilans, þrotabús Arnar Eyfjörð Þórssonar, flutti málið Hólmgeir Elías Flosason hdl. en af hálfu varnaraðilans, Fikts ehf., Hrafnhildur Kristinsdóttir hdl.
Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan. Dómarinn tók við meðferð málsins 16. júní sl.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Hafnað er kröfu sóknaraðila, Landsbankans hf., um staðfestingu veðréttar í fasteign varnaraðilans, þrotabús Arnar Eyfjörð Þórssonar, að Lundi í Þingeyjarsveit landnúmer 177019, fastanúmer 223-1713 á grundvelli tryggingarbréfs frá 3. júlí 2007 og viðauka við það frá 19. febrúar 2008 til tryggingar skuldum Kistumels ehf. við sóknaraðila.
Hafnað er að krafa sóknaraðila, sem hann lýsti 7. maí 2013 í bú varnaraðila, þrotabú Arnar Eyfjörð Þórssonar, á grundvelli áðurnefnds tryggingarbréfs og viðauka við það, njóti rétthæðar samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Kröfu varnaraðilans, þrotabús Arnar Eyfjörð Þórssonar, um að staðfest verði að áðurnefnt tryggingarbréf skuli aflýst og afmáð úr þinglýsingabók fasteignarinnar Lundi í Þingeyjarsveit, er vísað frá dómi.
Sóknaraðili greiði varnaraðilunum, þrotabúi Arnar Eyfjörð Þórssonar og varnaraðilanum Fikti ehf., hvorum um sig 300.000 krónur í málskostnað.