Hæstiréttur íslands

Mál nr. 199/2016

Ákæruvaldið (Margrét Unnur Rögnvaldsdóttir saksóknari)
gegn
X (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason og Karl Axelsson og Hjördís Hákonardóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. mars 2016 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2016 þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 11. apríl 2016 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                                 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. mars 2016.

                Héraðssaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], skuli sæta gæsluvarðhaldi áfram allt til mánudagsins 11. apríl 2016 kl. 16:00.

Í greinargerð kemur fram að Héraðssaksóknari hafi gefið út ákæru á hendur X, hinn 29. janúar sl., fyrir tvær tilraunir til nauðgana, aðfaranótt sunnudagsins 13. desember 2015, í miðbæ Reykjavíkur. Ákærða sé gefið að sök að hafa veist að tveimur konum með ofbeldi með skömmu millibili í því skyni að hafa við þær samræði eða önnur kynferðismök. Hafi þær báðar hlotið áverka af árásum ákærða og samkvæmt framburðum þeirra og annarra vitna hafi það orðið brotaþolunum til bjargar að ákærði varð fyrir utanaðkomandi truflun. Um málavaxtalýsingu vísist nánar til meðfylgjandi ákæruskjals. Séu brot ákærða samkvæmt báðum ákæruliðum talin varða við 1. mgr. 194. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, og þess krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.

Sakamálið hafi verið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 10. febrúar sl. Ákærði hafi neitað sök og ákveðið hafi verið að aðalmeðferð málsins myndi fara fram miðvikudaginn 30. mars nk., eins og fram komi í þingbók máls nr. [...]/2016. Ákærði hafi sætt gæsluvarðhaldi vegna málsins frá 18. desember sl. Fyrst hafi hann sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna, sbr. úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur í máli [...]/2015 og dóm Hæstaréttar í máli nr. [...]/2015. Frá 23. desember sl. hafi ákærði sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna, þ. e. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, sbr. úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur í málum [...]/2015, [...]/2016 og [...]/2016 sem allir hafi verið staðfestir af Hæstarétti, sbr. dóma í málum nr. 854/2015, 52/2016 og 123/2016.

Ákærði sé að mati héraðssaksóknara undir sterkum grun um að hafa framið þau brot sem honum séu gefin að sök í ákærunni. Refsing fyrir brot gegn ákvæðinu sem hann sé ákærður fyrir að hafa brotið varði fangelsi frá 1 ári og allt að 16 árum. Sakarefni málsins sé alvarlegt og standi ríkir almannahagsmunir til þess að menn gangi ekki lausir þegar svo standi á. Að mati héraðssaksóknara séu skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 uppfyllt og hafi dómstólar lagt til grundvallar í þrígang að skilyrðunum sé fullnægt. Héraðssaksóknari telji ekkert fram komið sem breytt geti því mati dómstóla.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Skilyrði þess að gæsluvarðhaldi verði beitt samkvæmt ákvæði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, er að sterkur grunur sé um að viðkomandi hafi framið afbrot sem að lögum getur varðað 10 ára fangelsi, enda sé brotið þess eðlis að ætla megi varðhald nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna.

Með vísan til þess sem fram kemur í rannsóknargögnum málsins þykir vera kominn fram sterkur grunur um að ákærði hafi gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 194. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem varðar allt að 16 ára fangelsi.  Í þinghaldi hinn 10. febrúar sl. var þingfest ákæra á hendur ákærða vegna brota þessara, þar sem hann neitaði sök og var málinu þá frestað til aðalmeðferðar til 30. mars n.k. Ákærði hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 18. desember sl., fyrst á grundvelli rannsóknarhagsmuna en frá 23. desember á grundvelli almannahagsmuna.

Með dómum Hæstaréttar Íslands í máli nr. 854/2015, 52/2016 og 123/2016, er lagt til grundvallar að fullnægt sé skilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til þess að ákærði sæti gæsluvarðhaldi, m.a. þar sem brot ákærða sé þess eðlis að ætla megi að varðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Að mati dómsins er ekkert komið fram nú sem breytir þeim forsendum sem lagðar eru til grundvallar í dómum Hæstaréttar.

Í ljósi þess sem hér hefur verið rakið verður fallist á með Héraðssaksóknara að skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga 88/2008 séu uppfyllt. Er krafa um áframhaldandi gæsluvarðahald því tekin til greina eins og krafist er og nánar greinir í úrskurðarorði, en ekki þykir ástæða til að marka varðhaldinu skemmri tíma.

  Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

                X, kt. [...], skal sæta áframhaldandi gæslu­varð­haldi allt til mánudagsins 11. apríl nk. kl. 16:00.