Hæstiréttur íslands

Mál nr. 420/2013


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Skaðabætur
  • Sératkvæði


Dómsatkvæði

                                     

Þriðjudaginn 17. desember 2013.

Nr. 420/2013.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari)

gegn

Jóni Karli Arnarssyni

(Gunnar Sólnes hrl.

Arnbjörg Sigurðardóttir hdl.)

(Kristín Edwald hrl.

réttargæslumaður)

Kynferðisbrot. Börn. Skaðabætur. Sératkvæði.

J var sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn A með því að hafa annars vegar á heimili sínu, er stúlkan var tólf ára, reynt að kyssa hana, káfað á brjóstum og kynfærum hennar utan klæða og stungið fingri í leggöng hennar og hins vegar, er stúlkan var þrettán ára, kysst hana á munninn og gert sogbletti á háls hennar er þau dvöldu í sumarbústað ásamt móður A og sambýlismanni. Var háttsemi J talin varða við 1. mgr. 194. gr. og 1. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og var refsing hans ákveðin fangelsi í 18 mánuði. Þá var honum gert að greiða A skaðabætur.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 11. júní 2013. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og refsing hans þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins og að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að refsing verði milduð og fjárhæð einkaréttarkröfu lækkuð.

A krefst þess að ákærða verði gert að greiða sér 1.500.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.

I

Ákærði er í máli þessu borinn sökum um nauðgun og önnur kynferðisbrot gegn A, sem er fædd 1998, með því að hafa tvívegis haft við hana kynferðismök og áreitt hana kynferðislega og nýtt sér yfirburðastöðu sína gagnvart henni vegna aldurs-, þroska- og aflsmunar. Annars vegar er hann ákærður fyrir hafa 7. júní 2011, er stúlkan var tólf ára gömul, á heimili sínu á [...] reynt að kyssa hana, káfað á brjóstum og kynfærum hennar utan klæða og stungið fingri í leggöng hennar. Er ákærði sakaður um að hafa notfært sér í þessu tilviki að hann var fjarri öðrum með stúlkunni. Hins vegar er hann ákærður fyrir að hafa í lok mars 2012 í sumarbústað í [...], þegar stúlkan var þrettán ára gömul, stungið fingri í leggöng hennar í heitum potti fyrir utan bústaðinn og nokkru síðar í stofu þar kysst hana á munninn, gert sogbletti á háls hennar og reynt að setja fingur í leggöng hennar.

Ákærði heldur því fram að sér hafi ekki verið kunnugt um aldur stúlkunnar, en talið hana hafa verið sextán til sautján ára í júní 2011. Fallist er á með héraðsdómi að ákærða hafi ekki getað dulist réttur aldur stúlkunnar.

II

Stúlkan lýsti atvikum sem greinir í fyrri lið ákæru í tilskrifi, sem hún sendi systur sinni á rafrænum samskiptamiðli um þremur vikum eftir að ætluð brot voru framin en meginefni þeirrar lýsingar er tekið upp í héraðsdómi. Lýsti hún atvikum í aðalatriðum með sama hætti í skýrslu fyrir héraðsdómi, sem mat framburð hennar trúverðugan. Ákærði viðurkennir að hafa að beiðni stúlkunnar sótt hana um miðnætti á heimili vinar síns á [...], E, þar sem hún dvaldist ásamt móður sinni, unnustu E. Móðirin og E höfðu ásamt öðrum gesti neytt nokkurs áfengis þá um kvöldið og gengið til náða er stúlkan var sótt. Ákærði viðurkennir einnig að hafa ekið með stúlkuna um og út fyrir bæinn, en að lokum hafi hún þegið boð um að koma heim til hans. Þar kveður ákærði ekki annað hafa gerst en að þau hafi horft á kvikmynd saman, en að því búnu hafi hann ekið henni til baka til E. Stúlkan hitti þá móður sína en upplýsti hana ekki um hin ætluðu brot. Stúlkan dvaldi ásamt tveimur systrum sínum erlendis frá því skömmu eftir þetta og til loka ágústmánaðar. Kveður móðir hennar að hún hafi upplýst sig um ætluð kynferðisbrot í október eða nóvember þetta ár. Eins og gerð er grein fyrir í héraðsdómi ræddi móðir stúlkunnar þetta við E sem hafði samband við ákærða og áttu þau eftir það fund með honum. Ákærði kveður þau hafa á þessum fundi borið hann sökum um að hafa framið kynferðisbrot gegn stúlkunni, en hann hafi neitað því að nokkuð slíkt hafi gerst. Héraðsdómur hefur um nokkur atriði metið trúverðugleika framburðar ákærða og verður að skilja dóminn svo að framburður hans sé almennt metinn ótrúverðugur. Fyrir dómi kvað móðirin ákærða hafa á þessum fundi viðurkennt það sem þau E báru á hann. Sérstaklega spurð sagði hún meðal annars að ákærði hafi viðurkennt að hafa einu sinni sett fingur í leggöng stúlkunnar og reynt að kyssa hana. Fyrir dómi kvað E ákærða hafa viðurkennt að hafa strokið á stúlkunni brjóstin og kynfærin „en ekkert farið upp í kynfærin á henni eða neitt slíkt“.  Tvær systur stúlkunnar gáfu á hinn bóginn skýrslu fyrir dómi og kom fram að hún hafi sagt þeim að ákærði hafi farið með fingur inn í leggöng hennar. Að virtu öllu þessu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms um þennan lið ákæru staðfest.

Í síðari lið ákærunnar er ákærði borinn sökum um að hafa í lok mars 2012 framið kynferðisbrot gegn stúlkunni í heitum potti við fyrrnefndan sumarbústað og síðar um nóttina í stofu bústaðarins, en hann var þar gestur er stúlkan dvaldi í bústaðnum með móður sinni og E. Fallist er á með héraðsdómi að í ljósi framburðar móður stúlkunnar um að ákærði og stúlkan hafi ekki dvalið ein í heita pottinum nema þá ef til vill örskamma stund, sem samrýmist framburði ákærða, sé ósannað að hann hafi brotið gegn henni þar á þann hátt sem í ákæru greinir. Einnig er fallist á með héraðsdómi að sannað sé að ákærði hafi gerst sekur um að kyssa stúlkuna og gera sogbletti á háls hennar eftir að þau voru orðin ein í stofu bústaðarins er móðir hennar og E voru gengin til náða. Á hinn bóginn er í héraðsdómi ekki sérstaklega fjallað um hvort ætlað brot ákærða gegn stúlkunni þá um nóttina, sem lýst er svo að hann hafi ,,reynt að setja fingur sinn í leggöng hennar“, sé sannað, heldur lætur héraðsdómur við það sitja að telja sannaðar aðrar sakargiftir en þær, sem lúta að háttsemi ákærða í heita pottinum. Í ljósi þess hve veigamikill þáttur þessi hluti brotalýsingar er bar héraðsdómi samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að leggja sérstaklega mat á hvort fram væru komnar nægar sannanir um þessar sakargiftir. Verður ekki talið að ákæruvaldið hafi axlað þá sönnunarbyrði um þessa háttsemi ákærða sem á því hvílir samkvæmt 108. gr. laganna og verður ákærði sýknaður að þessu leyti.

Að virtu öllu framangreindu verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um refsingu ákærða, einkaréttarkröfu og sakarkostnað. Í ljósi þess að héraðsdómi í máli þessu var áfrýjað af hálfu ákæruvaldsins verður allur áfrýjunarkostnaður felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun verjanda ákærða og þóknun réttargæslumanns, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir. Auk þess greiðist úr ríkissjóði útlagður kostnaður verjandans, sem tilgreindur er í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Gunnars Sólnes hæstaréttarlögmanns, 627.500 krónur, útlagður kostnaður hans, 28.470 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Kristínar Edwald hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur.

Sératkvæði

Ólafs Barkar Þorvaldssonar og

Viðars Más Matthíassonar

Við erum sammála meirihluta dómenda um annað en það, hvort sakfella beri ákærða fyrir þann hluta fyrri ákæruliðarins er varðar sakargiftir um að hafa reynt að kyssa stúlkuna og ,,stungið fingri í leggöng hennar.“ Við teljum að þótt héraðsdómur hafi metið framburð stúlkunnar trúverðugan og skilja verði dóminn svo, að framburður ákærða sé almennt metinn ótrúverðugur, þá verði að gera þá kröfu, svo unnt sé að sakfella fyrir framangreinda háttsemi, að framburður stúlkunnar um hana fái nægan stuðning í framburði annarra vitna eða ákærða eða hlutrænum sönnunargögnum. Við teljum að taka beri tillit til þess að stúlkan upplýsti móður sína um ætluð kynferðisbrot fyrst í október eða nóvember árið sem atvik urðu og þess að móðurina og unnusta hennar, E, greinir á um það, hvað ákærði játaði fyrir þeim á fundi, sem hann átti með þeim, og gerð er grein fyrir í atkvæði meirihluta dómenda, um að gerst hefði umrætt sinn. Í skýrslu móðurinnar fyrir dómi kvað hún ákærða hafa viðurkennt það sem þau báru á hann. Sérstaklega spurð kvað hún meðal annars að hann hafi viðurkennt að hafa einu sinni sett fingur í leggöng stúlkunnar og reynt að kyssa hana. Í skýrslu E fyrir dómi kvað hann ákærða hafa viðurkennt að hafa strokið á stúlkunni brjóstin og kynfærin ,,en ekkert farið upp í kynfærin á henni eða neitt slíkt“. Tvær systur stúlkunnar gáfu skýrslu fyrir dómi og báru báðar að hún hefði sagt þeim að ákærði hafi farið með fingur inn í leggöng hennar. Framburður þeirra styðst þó ekki við annað en frásögn stúlkunnar. Framburður stúlkunnar hefur þannig aðeins að hluta nægilega stoð í framburðum annarra vitna. Framburður hennar um að hann hafi reynt að kyssa hana og farið með fingur í leggöng hennar nýtur samkvæmt framansögðu, gegn neitun ákærða, ekki þess stuðnings í framburði annarra vitna að unnt sé að telja þessa háttsemi sannaða svo að ekki verði vefengt með skynsamlegum rökum, eins og áskilið er í 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Við teljum því að sýkna beri ákærða af þessum sakargiftum. Að öðru leyti erum við sammála niðurstöðu meiri hluta dómenda um sakfellingu og um einkaréttarkröfu, en teljum með hliðsjón af framangreindu að ákærði eigi að sæta fangelsi í tíu mánuði.

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 30. maí 2013.

Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð föstudaginn 5. apríl, er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 3. janúar 2013,

„fyrir nauðgun og önnur kynferðisbrot, gegn stúlkunni A, fæddri [...] 1998 með því að hafa haft kynferðismök við stúlkuna, sem þá var 12 og 13 ára gömul, og áreitt hana kynferðislega en ákærði nýtti sér yfirburðastöðu sína gagnvart stúlkunni vegna aldurs-, þroska- og aflsmunar og að því er varðar ákærulið 1, það að hún var ein með honum fjarri öðrum:

1. Með því að hafa 7. júní 2011 á ofangreindu heimili ákærða að [...] á [...], reynt að kyssa stúlkuna, káfað á brjóstum og kynfærum hennar utan klæða og stungið fingri í leggöng hennar.

2. Með því að hafa í lok mars 2012 í sumarbústað að [...] í [...], stungið fingri í leggöng stúlkunnar í heitum potti og nokkru síðar, í stofu sumarbústaðarins, kysst stúlkuna á munninn, gert sogbletti á háls hennar og reynt að setja fingur sinn í leggöng hennar.

Telst þetta varða við 1. mgr. 194. gr. og 1. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og [...] greiðslu sakarkostnaðar.“

Með framhaldsákæru, dagsettri 30. janúar 2013, var einkaréttarkröfu aukið við ákæruna, svo sem hér greinir:

„Af hálfu B, kennitala [...], vegna ólögráða dóttur hennar, A, kennitala [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða brotaþola kr. 1.500.000 í miskabætur með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001, frá því mánuður er liðinn frá því að ákærða var kynnt bótakrafan, sbr. 9. gr. laganna.

Þá er krafist málskostnaðar vegna réttargæslu og aðstoðar við gerð bótakröfu, að mati dómsins, og að viðbættum virðisaukaskatti.“

Ákærði neitar sök og krefst sýknu.  Hann krefst þess að bótakröfu verði vísað frá dómi.  Til vara krefst hann vægustu refsingar sem lög framast leyfi og að bótakrafa verði lækkuð.  Ákærði andmælti ekki að bótakrafa kæmist að í málinu með útgáfu framhaldsákærunnar.

Málavextir

Hinn 21. maí 2012 tilkynnti félagsmálastjórinn á [...] lögreglustjóranum á [...] um meint kynferðisbrot gagnvart A.  Í greinargerð félagsmálastjóra sagði að hinn 2. maí hefði borist tilkynning til Neyðarlínu um að A hefði verið nauðgað er hún hefði verið í sumarbústað með móður sinni og unnusta móðurinnar.  Hefði þetta gerst áður. A ætti stuðningsfjölskyldu og væri hjá henni einu sinni í mánuði.  Hefði hún sagt C, sem væri hluti af þeirri fjölskyldu, að Jón Karl Arnarsson, ákærði í máli þessu, hefði „puttað“ sig á [...], er hún hefði verið þar með móður sinni hjá unnusta hennar.  Væri Jón Karl kunningi unnustans.  Í framhaldi af þessu hafi móðir stúlkunnar verið boðuð í viðtal og „opnað á málið við hana.  Hún ræddi einnig aðeins við dóttur sína og sagði hún henni það sama“, segir í greinargerð barnaverndaryfirvalda.

Í málinu liggur prentaður texti, sagður sendur af A til systur hennar D á vefsíðunni „facebook“ hinn 29. júní 2011.  Er þar lýst samskiptum bréfritara og ákærða.  Segir þar að ákærði hafi boðið bréfritara „á rúntinn“ og þau ekið um og loks farið heim til ákærða að horfa á myndband.  Segir svo: „...og síðan byrjaði hann að kítla mig og ég fór að hlæja og síðan tók hann í hendurnar mínar og lagði mig niður í rúmmið og sagði ég ættla að trufla þig að horfa á myndina og síðan reyndi hann að kyssa mig en ég setti alltaf hendina fyrir munninn og síðan spurði hann um ég var heit og ég sagði já og ég klæddi mig úr peisunni og siðan byrjaði hann að káfa á mér og hann byrjaði að klæða mig úr buxonum og síðan byrjaði hann að putta mig og síðan hætti hann og spurði um hann mætti fá hann inn í mig og ég sagði nei og þá sagði hann plíss og ég sagði nei og þá sagði hann 5 min ? og ég sagðin nei og þá sagði hann 4 min ? og ég sagði nei og þá sagði hann 3 min og ég sagði nei og þá sagði hann 2 min ? og ég sagðin nei og þá spruði hann 1 min ? og ég sagði nei og síðan sagði hann enga min ? og ég sagði já og hann sagði ok og svo kysti hann mig og síðan sagði hann núna náði ég að kyssa þig og síðan hélt hann áframm að putta mig þángað til að myndin var búin [...] síðan var klukkan hálf 2 og ég sagði ég held að ég ætti að fara og hann sagði ég slepp þér ekki héðan fyrir en klukkan verður 3 og ég sagði ok og hann fór ofan á mig og hann spurði er ég þúngur og ég sagði nei og síðan fór hann af mér og setti mig á hann og ég spurði um ég var þúng og hann sagði að ég var léttari en tannstaungull en ég horfði alltaf á klukkuna þángað til að klukkan var 3 og ég sagði núna er klukkan 3 um nóttina og hann sagði ég skal skuttla þér heim til E.“

Í málinu liggur bréf barnahúss, undirritað af Þorbjörgu Sveinsdóttur og dagsett 27. mars 2013.  Segir þar að A hafi farið í átta viðtöl við Þorbjörgu, en A hafi orðið fyrir grófu einelti um margra ára skeið og sé vinafá.  Komi afleiðingar þess berlega í ljós í samskiptum við hana.  Í niðurstöðum Þorbjargar segir meðal annars: „Sjálfsmatskvarðar og viðtöl við A hafa leitt í ljós fjölmörg einkenni sem þekkt eru meðal barna og unglinga sem sætt hafa kynferðislegu ofbeldi eða áreitni.  Má nefna að minningar varðandi ætluð brot hafa sótt mikið á stúlkuna og truflað hana í daglegu lífi.  Áfallastreitueinkenni eins og endurupplifanir, forðun og ofurárvekni koma skýrt fram [og] hafa hamlandi og truflandi áhrif á daglegt líf stúlkunnar nú.  Sjálfsmynd stúlkunnar er verulega brotin eftir áralangt gróft einelti og er ljóst að afleiðingar kynferðisofbeldis þess sem stúlkan kveðst hafa sætt af hálfu aðila sem hún bar mikið traust til, þegar hún var einungis 12 og 13 ára gömull eru ekki til þess fallnar að bæta sjálfsmynd stúlkunnar og trú á eigin getu.  Verður að segjast eins og er að stúlkan var sérstaklega útsett fyrir broti af því tagi sem hún kveðst hafa sætt af hálfu meints geranda.  Eykur þetta að mati undirritaðrar verulega alvarleika afleiðinga meints kynferðisbrots á sálræna heilsu A.“

Framburður A fyrir dómi

Ákæruliður 1

A gaf skýrslu fyrir dómi hinn 4. júní 2012.  Hún sagðist hafa sent ákærða sms-skeyti um miðnætti, tveimur dögum fyrir afmæli sitt árið 2011.  Eftir svar hans og nokkur skeyti þeirra í millum hefði ákærði spurt A hvort hún vildi hitta sig.  Hún hefði „náttúrulega“ samþykkt það og þau farið „á rúntinn“.  Eftir nokkurn akstur hefði ákærði stungið upp á að þau færu heim til hans að horfa á kvikmynd og hefði hún samþykkt það.  Þau hefðu verið í sóffa og horft á myndina, en þegar þau hefðu ekki verið komin „í miðja myndina“ hefði ákærði tekið um maga A og svo hönd, „og lét mig liggja svona beint.“  Hefði hún þá legið á bakinu.  Næst hefði ákærði reynt að kyssa stúlkuna en hún fært höfuðið undan.  Síðan hefði hann reynt að klæða hana úr fötunum.  Að sögn stúlkunnar, hefði næst gerst að ákærði „puttaði mig, mér leið bara eins og ég var svona dauð dúkka, bara gat ekki hreyft mig eða neitt og þú veist, ég gat ekki hugsað skýrt og ég gat ekki hreyft mig eða neitt.“  Nánar spurð sagði hún að ákærði hefði klætt hana úr peysunni og snert brjóst hennar, tekið buxur hennar niður á miðja kálfa og stungið fingri í leggöng hennar.

A sagði að fyrir þetta atvik hefði hún verið búin að segja ákærða að hún væri tólf ára gömul.

Ákæruliður 2

A sagði að í heita pottinum við sumarbústaðinn hefðu verið þau ákærði, móðir hennar og E, unnusti móðurinnar.  E hefði farið fyrstur upp úr, en móðir A svo.  Hefðu þau ákærði þá verið ein eftir.  Ákærði hefði komið að henni, haft á orði að sér væri kalt og „síðan puttaði hann mig þarna í heita pottinum og síðan ég gat ekki gert neitt, af því að að, þótt mig langaði það, ég var alltaf að hugsa um bara að ýta honum frá mér, en ég þorði það ekki af því að við vorum í heita potti.“  Hún hefði verið í bikini-fötum en ákærði hefði farið með fingur inn fyrir buxur hennar.  Eftir þetta hefði verið farið inn og þar hefði fólk borðað kvöldmat.  Eftir matinn hefði A farið að horfa á myndband.  Þegar myndin hefði verið hálfnuð eða svo hefði ákærði komið, látið hana sitja í sóffanum, „og síðan reyndi hann áfram að kyssa mig og eitthvað þannig og hérna og síðan reyndi hann að putta mig aftur [...] og síðan sagði ég alltaf „hættu“ og eitthvað, og síðan spurði hann mig mörgum sinnum að byrja með sér...“

Skýrsla ákærða og framburður vitna við aðalmeðferð fyrir dómi

Ákærði

Ákæruliður 1

Ákærði kvaðst þekkja A gegn um E, unnusta B móður hennar, og hafa gert í nokkur ár.  Þeir E hefðu þekkst lengi.  Samskiptin hefðu þó ekki verið sérstaklega mikil, fyrst og fremst í samkvæmum heima hjá E.  Eitthvað hefði hann spjallað við stúlkuna í þeim samkvæmum.  Ákærði kvaðst ekkert vita um stöðu stúlkunnar almennt eða félagslega stöðu.  Áður en þetta mál hefði komið hefði ákærði ekki vitað hversu gömul stúlkan var, en hafa gert ráð fyrir því að hún væri sextán eða sautján ára eða svo, en hann hefði þó ekki sérstaklega velt því fyrir sér.  Hann hefði ekki vitað í hvaða skóla hún gengi.

Ákærði sagði að A hefði sent sér sms-skeyti og upp úr því hefði verið ákveðið að ákærði sækti hana, en stúlkan hefði meðal annars sagt að sér liði illa en drykkja væri þá á heimilinu.  Það hefði verið vegna þessarar vanlíðunar sem ákærði hefði ákveðið að sækja hana.  Þetta hefði verið um miðnætti.  Þau hefðu ekið eitthvað um en svo farið heim til ákærða í [...] og horft þar á kvikmynd, en ákærði hefði þá átt þar heima einn.  Ákærði hefði svo keyrt stúlkuna heim, en kvaðst ekki muna hvað klukkan hefði verið þá, hugsanlega hálf þrjú eða þrjú, en ekki meira.  Þau hefðu átt létt spjall í bifreiðinni á heimleiðinni.

Ákærði kvaðst fyrst hafa heyrt af ásökunum í sinn garð þegar E og B hefðu borið á sig að hafa verið „eitthvað að þukla á“ A.  Hann kvaðst ekki muna hvenær þetta hefði verið, en þó sama sumar að því er ákærði teldi.  Kvaðst ákærði telja að þetta hefði verið á heimili E.  Hefði ákærða fundist þetta „algjört rugl“ og hefði hann sagt þeim að ekkert slíkt hefði gerst.  Einnig hefði E hringt í ákærða og endurtekið slíkar ásakanir en ákærði svarað á sama veg, að þær væru rangar.  Ákærði kannaðist hins vegar ekki við að hann hefði svarað þannig að sannleikurinn væri ekki eins alvarlegur og stúlkan segði, og ekki við að hann hefði beðist afsökunar á því er hann hefði gert.  Hefði ákærði aldrei gengist við því að nokkuð hefði gerst.  Hann kvaðst ekki minnast þess að í þessum samtölum hefði verið minnst á aldur stúlkunnar.

Ákærði sagði að þetta hefði breytt samskiptum sínum við E og B og hefði hann lítið hitt þau síðan, en þó eitthvað.  Ætti enda lítið sameiginlegt með þeim eftir að hann hefði hætt að drekka fyrir tveimur mánuðum.  Eftir þetta hefði A sent sér nokkur sms-skeyti og meðal annars sagst vera komin með nýtt símanúmer.  Þá hefði hún reynt að verða „vinur“ ákærða á vefsíðunni „facebook“, en ákærði hefði ekki svarað þeirri beiðni.

Ákæruliður 2

Ákærði sagðist hafa komið til þeirra E, B og A í sumarbústaðinn og verið einn dag og eina nótt.  Þau hefðu hins vegar verið komin áður.  Ákærði hefði áður rætt við E í síma og ferðin í sumarbústaðinn verið hugsuð til að hitta E.  Vín hefði verið haft um hönd í bústaðnum, fullorðna fólkið hefði drukkið og ákærði hefði séð E gefa A eplabjór.

Ákærði kvaðst á þessum tíma enn hafa talið að stúlkan væri sextán eða sautján ára gömul.  Hefði þetta verið í fyrsta skipti sem þau hittust frá því hann hefði verið borinn sökum sumarið áður.

Ákærði sagði að um kvöldmatarleyti hefðu þau öll hefðu farið í heitan pott.  E hefðu farið upp úr pottinum og síðar B og þau A.  Hefðu þau A verið ein í pottinum í hæsta lagi í „einhverjar sekúndur“.

Ákærði kvaðst hafa sofið frammi, rétt við svalahurðina en E og B í einu herbergi en A í öðru.  Um kvöldið hefðu þau A verið í stofusóffanum, líklega hlið við hlið, og horft á einhverja kvikmynd, E verið eitthvað á sveimi en B farin í háttinn.  Kvaðst ákærði telja að E hefði verið á fótum allan tímann og ákærði þannig aldrei verið einn á fótum með A.  Eftir myndina hefði fólk farið að sofa, ákærði hefði farið til svefnstaðar síns og kvaðst gera ráð fyrir að A hefði farið í sitt herbergi.  Ákærði kvaðst hvorki hafa kysst stúlkuna né gert á hana „sogbletti“.  Þá hefði hann ekki reynt að fara með hönd í klof hennar.  Ekkert slíkt hefði hann heldur gert í heita pottinum fyrr um daginn.

Ákærði sagði að ástand hefði verið eðlilegt daginn eftir og kvaðst hann ekki hafa tekið eftir neinum „sogblettum“ á hálsi A og ekki minnast neinnar umræðu um slíka bletti. B og E hefðu boðið sér að gista aðra nótt en hann hefði sagst ætla að fara og verið búinn að hafa samband við mann og fá hann til að sækja sig.  Ákærði kvaðst muna vel eftir þessu, þó að hann hefði eitthvað drukkið.

Stuttu eftir þetta hefði ákærði heyrt frá E að A hefði borið sakir á ákærða vegna atburða í sumarbústaðnum.  Kvaðst ákærði ekki muna hvers eðlis þær ásakanir hefðu verið, en sér hefði fundist „leiðinlegt“ að heyra þetta.

Ákærði kvaðst enga skýringu hafa á þeim ásökunum sem stúlkan bæri hann.  Engin leiðindi hefðu verið milli þeirra.

Vitni

Vitnið B, móðir A, kvaðst hafa þekkt ákærða í gegn um E.  Hefði stundum komið um helgar til E. Einu sinni hefði A verið þar á sama tíma en vitnið kvaðst ekki telja að þau hefðu umgengist sérstaklega þá.  Ákærði hefði hins vegar spurt um aldur hennar og fengið það svar að hún væri tólf ára.

Það kvöld sem fyrri ákæruliður snýst um hefði verið haldið samkvæmi hjá E.  Þar hefðu verið þau E, A og maður er F héti. Vín hefði verið haft um hönd og F orðið svo ölvaður að hann hefði lagst til svefns í stofunni.  Um miðnætti hefði vitnið farið með A inn í rúm og sagt henni að fara að sofa.  Að því búnu hefði vitnið sjálft gengið til náða.  Um nóttina hefði vitnið vaknað við það að A hefði gengið inn og klukkan þá verið um fjögur.  Hefði A gefið þá skýringu á ferðum sínum að hún hefði farið út að ganga þar sem hún hefði ekki getað sofið.  Hefði A komið vitninu fyrir sjónir sem „svolítið stressuð“.

Vitnið sagði að um ári eftir þetta, eða að minnsta kosti einhverjum mánuðum síðar, hefði D dóttir þess sagt vitninu og E frá því að þessa nótt hefði A farið í bíltúr með ákærða og svo heim með honum að horfa á kvikmynd.  Þar hefði ákærði leitað á hana.  Vitnið hefði þá rætt þetta við A sem hefði sagt að ákærði hefði „puttað“ sig.

Eftir þetta hefðu vitnið og E rætt þetta mál við ákærða sem hefði komið til þeirra að beiðni E.  Ákærði hefði viðurkennt athæfið, þar á meðal að hafa „puttað“ A, ákærði hefði grátið og beðist innilega fyrirgefningar.  Hefði hann heitið því að gera þetta aldrei aftur og þau hefðu trúað honum.  Vitnið kvaðst hafa minnt ákærða á aldur A.

Vitnið sagði að þegar þau hefðu verið í sumarbústaðnum á [...], löngu eftir þetta samtal við ákærða, hefði hann hringt í E og spurt hvort hann mætti slást í hópinn.  E hefði borið það undir vitnið sem hefði ekki verið hrifið af hugmyndinni, þar sem A væri á staðnum, en þau hefðu þó trúað því að ákærði myndi ekki gera neitt af sér aftur. Hefði ákærði fengið að koma og verið eina nótt.

Vitnið sagði að þau hefðu öll farið í heitan pott við bústaðinn, en þar hefði ekkert gerst.  E hefði farið fyrstur upp úr og tekið að matbúa en vitnið, A og ákærði orðið eftir og vitnið verið á milli þeirra.  A og ákærði hefðu verið að fíflast í pottinum, skvetta vatni hvort á annað og slíkt, en ekkert meira hefði gerst.  Vitnið var ítrekað spurt hvort ákærði og A hefðu verið ein í pottinum og sagði vitnið svo ekki hafa verið, nema ef það hefði gerst eftir að vitnið hefði verið gengið til náða.  Um daginn og kvöldið hefðu þau ekki verið þar ein.  Þau hefðu farið upp úr pottinum beint á eftir vitninu.

Eftir þetta hefði fólk borðað kvöldverð og fengið sér í glas.  Um miðnætti eða svo hefðu E og vitnið farið að sofa og sagt A að gera hið sama og læsa að sér.  Hefði hún þá verið farin inn í herbergi sitt.  Vitnið hefði svo vaknað um nóttina þegar E, „alveg brjálaður“, hefði rekið A aftur inn í herbergi sitt, en E hefði komið að henni frammi með ákærða, sem hefði verið ber að ofan.  Vitnið hefði þá farið fram og sagt A að fara inn í herbergi að sofa.  Hefðu A og ákærði þá setið á sóffa hlið við hlið og horft á kvikmynd í tölvu.  Að mati vitnisins hefði ákærði verið undir áfengisáhrifum en ekki miklum.

Morguninn eftir hefði vitnið svo fengið „sjokk“ þegar A hefði komið fram, „öll þakin í sogblettum“ á hálsi og niður á bringu.  Þau hefðu farið og vakið ákærða og hefði vitnið þá spurt hann hvort hann hefði verið svangur kvöldið áður.  Ákærði hefði bara hlegið.  Vitnið kvaðst hafa sagt ákærða að ef hann ætlaði að haga sér svona þá yrði hann að fara.

Vitnið kvaðst hafa spurt A eftir þetta hvað hefði gerst og hefði hún sagt að þegar þau hefðu verið að horfa á myndina hefði ákærði allt í einu ráðist á hálsinn á henni og farið að sjúga.

Vitnið sagði að A væri farin að loka sig mikið af og væri komin „algjörlega í tölvuheiminn“.

Vitnið D, systir A, sagðist hafa verið með henni í [...] sumarið 2011.  Einn daginn hefði A sagt vitninu frá því að hún hefði farið í bílferð með ákærða og í framhaldi af henni heim til hans.  Þar hefði ákærði meðal annars lagt A á rúm sitt og farið „ofan á hana“.  Þau hefðu horft saman á kvikmynd og hefði ákærði „reynt eitthvað“.  Að öðru leyti hefði A ekkert sagt vitninu frá atburðum.  Vitnið hefði spurt A hvort hún hefði sagt móður þeirra þetta og hefði A játað því. Í ágústmánuði sama árs hefði vitnið hins vegar rætt þetta mál við móður sína sem hefði komið af fjöllum.  Þegar vitnið var nánar spurt um þetta samtal þeirra systra sagði það að A hefði sagt sér þetta skriflega í gegn um „facebook“.  Þá sagði vitnið, nánar spurt, að A hefði sagt að þegar ákærði hefði ýtt henni í rúmið hefði hann strokið henni á kynfærum og „svo farið þangað inn“, en hún þá sagt honum að hætta.

Vitnið sagði að A hefði einhvern tíma einnig sagt sér af sumarbústaðarferð á [...] þar sem hún hefði farið í heitan pott ásamt móður þeirra, E og ákærða.  Vitnið kvaðst hins ekki muna til þess að A hefði sagt nokkuð hafa gerst í pottinum.  Móðir þeirra hefði kallað hana úr pottinum því hún hefði ekki viljað hafa þau ákærða ein í pottinum.  Hefði A ekkert sagt um hvort þau ákærði hefðu verið lengi ein þar.  Þá hefði A sagt vitninu að um kvöldið hefði ákærði ráðist á sig og gefið sér „sogblett“.  Þegar hún hefði ætlað að ganga til náða hefði ákærði farið á eftir henni inn, því ekki hefði verið hægt að læsa herberginu og þar lagst yfir hana með þeim orðum að hann væri með verjur á sér.

Vitnið sagði að áður en þessi mál hefðu komið upp hefðu þær systur rætt kynferðisbrot og vitnið sagt systur sinni að hún gæti fengið hjálp og stuðning frá vitninu ef eitthvað henti hana í þá veru.  Vitnið sagðist enga ástæðu hafa til að efast um frásögn systur sinnar.

Vitnið kvaðst telja systur sína þyngri í lund nú en áður og strítt í skóla.  Notaði hún nú netið til að eignast vini, einkum frá framandi löndum.

Vitnið kvaðst telja sig hafa sagt satt og rétt frá í símayfirheyrslu lögreglu.  Þá staðfesti vitnið útprentað skjal með tölvuprentuðum skilaboðum, og sagði þetta óbreytt skilaboð A til vitnisins um vefsíðuna „facebook“ hinn 29. júní 2011.

Vitnið G, systir A, sagði að hún hefði sagt sér að hún hefði sagt ákærða aldur sinn, en vitnið kvaðst ekki vita hvenær.  Þá hafði vitnið það eftir A að ákærði hefði reynt að snerta hana á lærum og reynt að „putta hana“.  Vitnið kvaðst ekki muna hvenær A hefði sagt sér þetta.

Vitnið hafði eftir A að í sumarbústaðarferð hefði hún farið í heitan pott með móður sinni, E og ákærða.  Ákærði hefði þar haft á orði að sér væri kalt, farið nær A og reynt að snerta hana.  Þá hefði ákærði í þessari ferð gert „þvílíkan sogblettinn á hálsinn á henni.“  Þetta hefði A sagt vitninu tveimur til fjórum vikum eftir sumarbústaðarferðina.

Vitnið hefði séð sogblettinn þegar þau hefðu komið heim.  „Hann var mjög stór“, næstum um allan háls.  Hefði A þá sagt henni að ákærði hefði gert blettinn.

Fram kom hjá vitninu að það og D systir þess hefðu rætt þessi mál.  Þegar það var nánar spurt taldi vitnið að vitneskja sín um hvað gerst hefði á heimili ákærða væri frá systrum sínum báðum komin.  Aftur á móti hefði A sagt sér frá atburðum í sumarbústaðnum, en þó hefði D sagt sér eitthvað af þeim. A hefði sagt sér frá því sem gerst hefði í pottinum.

Vitnið sagði að eftir þetta væri A enn lokaðri en áður, sem hefði þó verið slæmt áður vegna mikils eineltis.

Vitnið E sagði þau B vera í „fjarsambandi“ og hafa verið í kynnum frá árinu 2005, en hefðu þekkst mörgum árum áður, áður en B hefði flutt til [...].  Kæmu börn B stöku sinnum á heimili vitnisins, oftast A.  Vitnið hefði þekkt ákærða frá unglingsárum hans en samskipti þeirra væru ekki sérstaklega mikil, en þeir hefðu meðal annars [...].  Hefði ákærði oft komið heim til vitnisins, þar á meðal í eitt skipti þegar bæði B og A hefðu verið þar staddar.  Vitnið sagðist halda, en ekki vera visst, um að ákærði hefði spurt um aldur A, en taldi aldur hennar að minnsta kosti hafa borið á góma.

Vitnið sagði svo frá kvöldi fyrra ákæruliðar að það hefði verið á heimili sínu ásamt mæðgunum B og A og manni er F héti.  Vín hefði verið haft um hönd.  Vitnið hefði farið til sængur en hitt fólkið vakað áfram.  Þegar vitnið hefði vaknað að morgni hefði F verið farinn en þær mæðgur á staðnum.  Ekkert óeðlilegt hefði borið til tíðinda og vitnið ekkert vitað um málið fyrr en löngu síðar þegar B hefði komið til sín og sagt að ákærði væri hinn versti maður.  Hefði B sagt að A hefði farið af heimilinu þessa nótt og hitt ákærða sem hefði leitað á hana.  Vitnið hefði aldrei rætt málið við A.

Vitnið sagðist hafa hringt í ákærða og spurt hvort hann hefði eitthvað verið að „eiga við A“, eins og vitnið orðaði það fyrir dómi.  Ákærði hefði viðurkennt að eitthvað hefði verið „í gangi“, en ekki farið út í smáatriði.  Hefði ákærði sagt að hann bæri þar ekki einn sök, því A hefði „eitthvað ögrað“ honum.  Ákærði hefði beðist „innilegrar afsökunar“ og sagst sjá mikið eftir þessu.  Hefði ákærði sagt bæði vitninu og síðar B þetta og hefði viljað biðja A afsökunar.  Ákærði hefði komið á fund þeirra B og þar beðist afsökunar.  Hefði hann verið „mjög sár“ og mikið niðri fyrir, en ekki grátandi.

Vitnið sagði að ákærði hefði sagst hafa strokið brjóst A og kynfæri en aldrei farið inn í þau.  Vitnið hefði sérstaklega spurt ákærða hvort hann hefði sett fingur í leggöng A en ákærði neitað því.  Ekki hefði verið rætt þeirra í millum hvort ákærði hefði strokið A innan eða utan klæða.  Vitnið kvaðst hafa minnst á aldur A við ákærða í samtalinu.

Vitnið sagði að ákærði hefði virst „virkilega miður sín“ og hefði vitnið trúað honum.  Eftir þetta hefðu þau B verið í mjög litlum samskiptum við ákærða, hann hefði komið einu sinni á heimilið á þeim tíma.

Vitnið sagði þau hafa farið í sumarbústaðinn á [...] og hefði þá ákærði hringt og spurt hvort hann mætti slást í hópinn.  Eftir samráð við B hefði vitnið samþykkt það, enda hefði iðrun hans verið treyst.  Vitnið var spurt hvernig A hefði verið, eftir að ákærði hefði verið kominn á staðinn, og svaraði það því til að hún hefði virst vera „ákaflega hress“.  Um kvöldið hefðu þau ákærði setið saman í sóffa, horft á sjónvarp og deilt kartöfluflögum úr skál.  Allt hafi virst vera „í góðu lagi og ekkert vandamál þar á milli, að manni fannst.“

Fyrr um daginn hefðu þau öll farið í heitan pott. Vitnið hefði farið fyrst upp úr og tekið að elda kvöldmat, B síðar, en ákærði og A hefðu verið einhverja stund ein í pottinum, en ekki lengi. Vel hefði sést til þeirra í pottinum innan úr bústaðnum og hefði verið „sterkt og gott útiljós“.  Vitnið kvaðst hins vegar ekki hafa séð til þeirra hverja stund, enda verið að sinna matseldinni og þá snúið baki í heita pottinn.

Vitnið sagði að þau B hefðu sofið í einu herbergi, A í öðru en ákærði í skoti í stofunni og hefði mátt draga tjald fyrir.  Vitnið hefði farið að sofa á undan öðrum og sofið þar til það hefði farið fyrst allra á fætur morguninn eftir.  Kvaðst vitnið fyrst ekki muna til þess að hafa farið fram úr um nóttina, en þegar skýrsla þess hjá lögreglu var borin undir það, sagði það rifjast upp fyrir sér að það hefði farið fram um nóttina og hefðu A og ákærði setið og talað saman með kartöfluflöguskálina á milli sín, á sóffanum sem ákærða var ætlaður til svefns.  Hefði vitnið sagt A að koma sér í háttinn.

Vitnið sagði að fullorðna fólkið hefði allt verið í glasi en A ekki.

Vitnið sagði að þegar A hefði komið fram um morguninn hefði hún öll verið „þakin sogblettum á hálsinum“.  Vitnið og B hefðu spurt hvernig á þeim stæði en A gefið lítið út á það.  Augljóst hefði hins vegar verið að hún hefði ekki getað gefið sér blettina sjálf.  Þegar ákærði hefði farið á fætur hefði B spurt hann hvort hann hefði verið svangur.  Ákærði hefði fáu svarað en fljótlega hringt í einhvern félaga sinn og fengið hann til að sækja sig, sem sá hefði gert og ákærði farið með honum.  Vitnið sagði að ákærði hefði ekki viðurkennt berum orðum að hafa valdið blettunum, en bæði ákærði og A hefðu farið undan í flæmingi ef á þá hefði verið minnst.

Vitnið kvaðst ekki treysta sér til að svara því hvort A hefði breyst í háttum í tengslum við þessi mál.  Væri hún dul og mjög föst í heimi netsins en síður í mannlegum samskiptum utan þess.

Vitnið C sagðist hafa þekkt fjölskyldu A í tæplega sex ár, en A hefði komið til vitnisins þrisvar í viku síðustu fjögur ár, til að fá stuðning við heimanám og félagslega þjálfun, en auk þess hefðu A og G systir hennar síðustu tvö ár komið einu sinni í mánuði á heimili vitnisins í stuðningsheimsókn frá föstudegi til sunnudags.  Félagsleg staða A hefði almennt verið mjög slæm, sjálfsmynd léleg og stúlkan feimin og óframfærin.  Væri henni erfitt að segja nei og þyrfti hún mikla þjálfun í samskiptum.

Vitnið sagði að fyrir um ári hefðu þær systur komið til venjubundinnar helgardvalar og hefði vitnið þá strax tekið eftir áverkum á A, eins og rispum og sogblettum, frá eyra, niður eftir kjálka og niður á háls. Vitnið hefði spurt hvort eitthvað hefði komið fyrir en hún ekkert viljað gefa út á það.  Um kvöldið hefði vitnið rætt þetta við hana aftur og hún þá ekki heldur viljað ræða neitt.  Þegar A hefði brugðið sér afsíðis hefði G hins vegar sagt vitninu að atburðir hefðu orðið í sumarbústað á [...], en þar hefði vinur fjölskyldunnar „puttað“ A, eins og G hefði orðað það.

Skömmu eftir að A hefði komið fram til þeirra aftur hefði G sagt að hún væri búin að segja vitninu „þetta“.  Hefði A þá reiðst en síðar um kvöldið hefði vitnið fengið að heyra nánari sögu frá þeim systrum.  Hefði það farið fram þannig að G hefði fyrst og fremst séð um frásögnina en A jánkað inn á milli eða leiðrétt ef henni hefði fundist ekki rétt farið með.  Að þessari sögn G hefði A farið í sumarbústaðinn ásamt móður sinni, unnusta móðurinnar og einhverjum vinum.  Um nóttina, þegar móðirin, unnustinn og einhverjir vinanna hefðu verið farin að sofa en A verið frammi að horfa á sjónvarpið, hefði maður að nafni Jón Karl komið og gert sér dælt við hana og strokið blíðlega.  Hefði þessu lokið með því að hann hefði stungið fingri í leggöng hennar og „puttað hana“, eins og þær hefðu orðað það.  Áverkarnir á hálsi hefðu komið til af því að maðurinn hefði sogið hálsinn og rispað með skeggrót sinni.

Vitnið kvaðst telja að stúlkurnar hefðu verið hjá sér helgina eftir atburðinn.

Á mánudeginum hefði vitnið greint barnaverndaryfirvöldum á [...] frá málinu.

Vitnið sagði að í síðari samtölum sínum við A hefði komið fram hjá stúlkunni að annað atvik hefði orðið, heima hjá manni þessum, þar sem hann hefði neytt hana til kynferðislegra athafna, sem stúlkan hefði ekki lýst nákvæmar en svo.

Vitnið kvaðst telja að A væri að lokast meira og meira og væri nú komin inn í eigin heim og tölvunnar.  Hefði hún þar átt samskipti við ýmsa menn sem athugun hefði leitt í ljós að væru eldri en þeir segðust vera.  Hallaði nú undan fæti.

Vitnið kvaðst hafa staðið þær systur báðar að því að hagræða sannleikanum sér í hag, en það væri einungis í smærri málum daglegs lífs.  Vitnið kvaðst telja þær segja satt og rétt frá í alvarlegri málum og sagðist enga ástæðu hafa til að efast um frásögn A í þessu máli.  Hefðu þær systur gengið í gegn um sitt af hverju og lært mikilvægi þess að segja satt frá.  Væru þær vinafáar en stæðu þétt saman.

Vitnið sagði að líkamlega væri A að verða kynþroska og taka á sig útlit kvenna, en í fari væri hún „frekar barnaleg“.  Fyrir ári hefði verið útilokað, jafnvel lítt kunnugum manni, að telja hana vera sextán eða sautján ára gamla.

Vitnið kvaðst hafa starfað sem kennari barna um tuttugu ára skeið.

Vitnið F kvaðst hafa verið í samkvæmi heima hjá E í júlí 2011.  Þar hefðu verið auk þeirra þær B og A.  Vín hefði verið haft um hönd.  E hefði gengið til náða en þau B spjallað saman þar til hún hefði farið að sofa.  Hefði vitnið þá fljótlega sofnað í stofunni.  Einhvern tíma eftir miðnættið hefði vitnið vaknað og þá enginn verið frammi.  Vitnið hefði ákveðið að fara heim en í stigaganginum hefði vitnið mætt A sem þá hefði verið að koma heim.  Hefði vitninu fundist undarlegt að hún væri á ferli úti svo seint.  Þá kvaðst vitnið aldrei hafa orðið vart við að hún færi af heimilinu um kvöldið.

Vitnið kvaðst hafa vitað um aldur A og kvaðst telja útlit hennar samsvara honum.  Hefði ekki verið unnt að telja hana vera sextán eða sautján ára.

Vitnið Jónas Halldór Sigurðsson rannsóknarlögreglumaður sagði að D hefði fyrr um daginn komið til sín.  Vitnið hefði farið á „prófíl“ á „facebook“-síðu hennar og tekið þaðan og prentað út texta sem stafað hefði frá A 29. júní 2011.  Væri textinn óbreyttur.

Vitnið Þorbjörg Sveinsdóttir staðfesti vottorð sitt.  Vitnið sagði að á tólf ára starfsferli sínum í Barnahúsi hefði það aldrei hitt barn sem hefði orðið fyrir eins grófu einelti og A hefði orðið fyrir í skóla og stæði í raun enn.  Vegna þess eineltis væri hún útsett fyrir broti eins og því sem hún segði hafa gerst.  Vitnið sagði að í samtölum þeirra hefði A sagt frá atburðum með sama hætti og fyrir dómi, hvorki aukið við né dregið úr.

Vitnið sagði að útlit A og aldur væru í góðu samræmi.  Mjög ólíklegt væri að menn teldu hana vera fjórum árum eldri en hún er í raun.  Liti hún alls ekki út fyrir að vera eldri en hún er.

Vitnið H, [...], kvaðst hafa náð í ákærða í sumarbústaðinn umrætt sinn, um miðjan dag.  [...] hefði hringt í það skömmu áður og beðið það um að sækja ákærða.  Vitnið hefði ekið þangað og beðið eftir ákærða í bifreiðinni í fimm mínútur eða svo.  Ákærði hefði eitthvað spjallað við fólk á pallinum við bústaðinn, karl og konu á aldur við ákærða eftir því sem vitnið myndi, en komið svo í bifreiðina til vitnisins.  Ekkert óeðlilegt hefði verið að sjá og ekkert óeðlilegt við fas ákærða.  Væri ekkert eftirminnilegt við aksturinn heim.

Vitnið kvaðst telja að ákærði hefði fyrst ætlað að vera lengur í bústaðnum en áætlanir hans breyst.

Niðurstaða

Ákærði neitar sök að öllu leyti.  Samkvæmt meginreglu sakamálaréttarfars verður hann ekki sakfelldur nema sök hans verði talin sönnuð svo að hafið sé yfir skynsamlegan vafa.

A bar vitni fyrir dómi.  Er hún trúverðug að mati dómsins.  Framburður hennar um atvik sem fyrri ákæruliður tekur til er í meginatriðum í samræmi við frásögn sem hún sendi systur sinni skriflega sumarið 2011.  Upptaka af framburði hennar liggur fyrir í málinu og var hluti hennar spilaður við aðalmeðferð málsins.

Ljóst er ákærði kom til fundar við móður A og unnusta hennar og var þar spurður um frásögn stúlkunnar.  Ágreiningur er þeirra í millum um viðbrögð hans.  Ákærði kveðst hafa neitað öllum ásökunum á fundinum en þau segja bæði að hann hafi gengist við því að hafa haft í frammi kynferðislega háttsemi gagnvart henni.

Telja verður nær útilokað að slíkar umræður fari fram, án þess að aldur stúlkunnar komi til tals.  Er ákaflega ósennilegt að ákærða hafi, að minnsta kosti eftir þann fund, ekki verið ljóst hversu gömul stúlkan var.  Vitnin C, Þorbjörg Sveinsdóttir og F báru öll fyrir dómi að þau teldu ekki hafa verið unnt að álíta A sextán eða sautján ára gamla á þeim tíma sem um ræðir.  Þótt vitnin C og Þorbjörg hafi meiri reynslu af börnum en gerist og gengur, en C hefur starfað sem kennari í tuttugu ár en Þorbjörg í Barnahúsi í tólf, þykir þetta veikja töluvert þann framburð ákærða að hann hafi í raun talið stúlkuna orðna sextán ára gamla sumarið 2011.  Eins og áður segir kom stúlkan fyrir dóm og var hluti skýrslugjafar hennar sýndur við aðalmeðferð málsins.  Eftir það álítur dómurinn fjarstæðukennt að telja stúlkuna sextán eða sautján ára gamla.  Þegar á allt þetta er horft þykir framburður ákærða um álit hans á aldri stúlkunnar afar ótrúverðugur.

Vitnið C var mjög trúverðugt að mati dómsins.  Þykir engin ástæða vera til að efast um þann framburð C að stúlkan hafi komið til hans með þá áverka á hálsi sem hann lýsti.  Er þetta til stuðnings þeim framburði þeirra B og E að hún hafi fengið slíka áverka í sumarbústaðarferðinni.  Þykir mega ganga út frá að svo hafi verið, þó svo virðist að vísu sem enginn hafi tekið ljósmynd af áverkunum.  Er afar sennilegt að slíkir blettir hefðu komið til tals, ekki síst þegar fyrri samræður fullorðna fólksins um samskipti ákærða og stúlkunnar eru hafðar í huga.  Þegar á þetta er horft þykir mjög ótrúverðugur sá framburður ákærða, að hann hafi enga bletti séð á hálsi stúlkunnar og engra umræðna um slíka bletti minnast.

Ljóst er að ákærða var leyft að slást í hópinn með fjölskyldunni í sumarbústaðarferð, þrátt fyrir að hafa, að sögn móður hennar og unnusta móðurinnar, viðurkennt að hafa framið kynferðisbrot gegn stúlkunni.  Þau báru fyrir dómi að þau hefðu trúað því að hann hefði innilega iðrast þeirra gjörða, sem þau segja að hann hafi viðurkennt fyrir sér, og að stúlkunni stafaði ekki hætta af honum.  Sá framburður þeirra þykir út af fyrir sig ekki ótrúverðugur og þykir sú staðreynd, að ákærði fékk að heimsækja þau í sumarbústaðinn, ekki verða til þess að frásögn þeirra B og E af fundi þeirra ákærða verði vísað á bug.  Á hinn bóginn verður við mat á vitnisburði þeirra að hafa í huga tengsl þeirra við stúlkuna.

Ljóst er að A hefur um langt skeið glímt við verulega erfiðleika.  Vitnið Þorbjörg lýsti til dæmis að stúlkan hefði orðið fyrir alvarlegra einelti en vitnið vissi dæmi um, eftir tólf ára starf hjá Barnahúsi. Stæði eineltið enn.  Strax vegna þessa er torveldara en ella að meta hvort ástand hennar nú sé vísbending um að hún hafi orðið fyrir broti af því tagi sem fjallað er um í málinu.  Verður að telja að á öllum slíkum ályktunum yrði sá vafi sem skylt yrði að skýra ákærða í hag.

Meðal þess sem ákærði er borinn sökum um, er að hafa stungið fingri í leggöng stúlkunnar er þau hafi verið í heitum potti við sumarbústaðinn á [...].  Í ljósi framburðar móður stúlkunnar, þess efnis að stúlkan og ákærði hefðu ekki verið ein saman í pottinum, þykir kominn upp sá vafi á sekt hans hvað þetta atriði varðar, að sök hans hafi þar ekki verið sönnuð, þrátt fyrir að framburður A þyki almennt trúverðugur.  Verður ákærði sýknaður af þessu atriði.

Ef ljóst þætti að stúlkan hefði borið rangt frá um atriði sem þetta, þá yrði að telja það veikja trúverðugleika hennar almennt í málinu.  Ekki þykir svo standa á hér.  Má hér hafa í huga að vitnið E bar, eins og A, að ákærði og stúlkan hefðu verið ein í pottinum um stund.  Þó framburður B þyki vekja nægan vafa um þetta ákæruatriði til að af því verði sýknað, þykir almennur trúverðugleiki A í málinu ekki hafa breyst við þetta.

Eins og áður segir þykir A trúverðug í vitnisburði sínum.  Þykir framburðurinn fá talsverða stoð í þeim blettum sem byggja verður á að verið hafi á hálsi hennar eftir sumarbústaðarferðina, en engin önnur skýring hefur komið fram á blettunum en sú sem hún ber.

Þá þykir ekkert í frásögnum þeirra vitna, sem borið hafa um að hún hafi sagt sögu sína, draga úr trúverðugleika hennar.  Er þar ekki síst horft til frásagnar vitnisins C og þess aðdraganda sem C ber að hafi verið að frásögninni.  Þegar á hinn bóginn er horft til þess, að ákærði ber að sér hafi aldrei verið sagt hversu gömul stúlkan er, og þá ekki heldur þegar hann var sakaður um kynferðislega háttsemi við hana, og hann hafi talið hana vera sextán og sautján ára gamla, sem vitni sem hafa umgengist hana telja fráleitt, og einnig horft til þess að hann kannaðist alls ekki við að hafa séð á henni þá bletti, sem telja verður ljóst að hafi verið á henni, og að ekki hafi verið minnst á þá bletti við sig í sumarbústaðnum, þykir trúverðugleiki hans í málinu hafa beðið mikinn hnekki.  Þegar horft er til þess að ekkert þykir hafa komið fram sem telja verður grafa undan trúverðugleika stúlkunnar í málinu og þess sem óhjákvæmilega þykir draga úr trúverðugleika ákærða, þykir mega leggja framburð hennar til grundvallar, með þeirri undantekningu sem áður var rakin.  Þegar horft er til hins trúverðuga framburðar stúlkunnar, og þeirrar stoðar sem framburðurinn fær í þeim blettum sem telja verður ljóst að hún hafi borið eftir sumarbústaðarferðina, hefur lögfull sönnun verið færð að sök ákærða, að öðru leyti en því að hann verður sýknaður af því sem honum er gefið að sök að hafa gert í heita pottinum við sumarbústaðinn.  Þau ákæruatriði sem eftir standa eru í ákæru rétt færð til refsiheimilda.

Ákærði hefur brotið gegn ungri stúlku og misnotað það traust sem honum var sýnt sem vini fjölskyldunnar, annars vegar þegar stúlkan þáði heimboð hans og hins vegar þegar honum var leyft að slást í hóp fjölskyldunnar í sumarbústaðnum.  Þótt ekki sé sannað í málinu að ákærða hafi mátt vera ljóst hversu illa stúlkan stóð fyrir, þá framdi hann gegn ungri stúlku brot sem getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir hana þegar til lengri tíma er litið. Á hinn bóginn er sakaferill ákærða sá einn að fyrir tæpum áratug var hann dæmdur til 30.000 króna sektar fyrir fíkniefnalagabrot.  Hann féllst greiðlega á að bótakrafa kæmist að í málinu þótt farist hefði fyrir að geta hennar í ákæru.

Þegar á allt er horft verður ákærði dæmdur til fangelsis í átján mánuði og er ekki möguleiki að binda refsinguna skilorði.

Í málinu er krafist bóta af hálfu A eins og áður er getið og var ákærða kynnt krafan hinn 9. ágúst 2012.  Margviðurkennt er í dómaframkvæmd að brot sem þessi séu til þess fallin að hafa alvarleg áhrif á þolanda, jafnvel um langt skeið.  Það hversu illa stúlkan stóð fyrir er líklegt til að gera hér illt verra.  Verður ákærði dæmdur til að greiða henni 700.000 krónur ásamt vöxtum eins og greinir í dómsorði.

Samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara nemur sakarkostnaður málsins 244.420 krónum og eru þar innifaldar 106.675 króna þóknun verjanda á rannsóknarstigi og 92.745 króna þóknun réttargæslumanns á rannsóknarstigi.  Verður ákærði dæmdur til greiðslu þessa sakarkostnaðar sem og til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ásgeirs Arnar Blöndals Jóhannssonar héraðsdómslögmanns, 268.825 krónur og þóknun Örnu Bryndísar Baldvins McClure héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns, 158.255 krónur, en í þóknun beggja er virðisaukaskattur innifalinn.  Er þóknun beggja ákveðin með hliðsjón af þeim greiðslum sem þau hafa þegar fengið í málinu.  Af hálfu ákæruvaldsins fór Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari með málið.  Gætt var ákvæða 1. mgr. 184. gr. laga nr. 88/2008.

Héraðsdómararnir Þorsteinn Davíðsson, Erlingur Sigtryggsson og Ólafur Ólafsson dæma málið.

D Ó M S O R Ð

Ákærði, Jón Karl Arnarsson, sæti fangelsi í átján mánuði.

Ákærði greiði A 700.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 9. september 2012 til greiðsludags.

Ákærði greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ásgeirs Arnar Blöndals Jóhannssonar héraðsdómslögmanns, 268.825 krónur og þóknun Örnu Bryndísar Baldvins McClure héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns, 158.255 krónur, og 244.420 króna annan sakarkostnað.