Hæstiréttur íslands

Mál nr. 463/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gagnsök
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Mánudaginn 29

 

Mánudaginn 29. nóvember 2004.

Nr. 463/2004.

Skúli Jóhannsson

(Jón Auðunn Jónsson hrl.)

gegn

Kaupthing Bank Luxembourg S.A.

(Steinar Þór Guðgeirsson hrl.)

 

Kærumál. Gagnsök. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Gagnsök S í máli sem K hafði höfðað gegn honum til greiðslu skuldar var vísað frá dómi vegna vanreifunar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Guðrún Erlendsdóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. nóvember 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. október 2004, þar sem vísað var frá dómi gagnsök, sem sóknaraðili höfðaði í máli varnaraðila á hendur sér. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdómara að taka gagnsökina til efnislegrar meðferðar. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar úrskurðar héraðsdómara og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. október 2004.

             Mál þetta var höfðað 21. október 2003.

             Stefnandi er Kaupthing Bank Luxembourg S. A., 12 rue Guillaume Schneider, L-2522 Luxemburg.

             Stefndi er Skúli Jóhannsson, Bankastræti 11, Reykjavík.

             Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð EUR 147.816 auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001um vexti og verðtryggingu frá 23. júlí 2002 til greiðsludags og málskostnaðar.

             Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda en til vara að kröfur hans verði lækkaðar stórlega og í báðum tilvikum málskostnaðar úr hendi stefnanda.

             Stefndi höfðaði gagnsök með gagnstefnu sem var lögð fram í dómi 25. nóvember 2003.  

             Í gagnsök krefst gagnstefnandi þess að gagnstefndi verði dæmdur til að greiða sér 392.220.000 krónur auk meðalvaxta banka og sparisjóða af innlánum frá 31. ágúst 2000 til 2. desember 2002 og dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.  Þess er krafist að dæmd gagnkröfufjárhæð gangi með dómi til skuldajafnaðar við þá fjárhæð sem kunni að verða dæmd úr hendi gagnstefnanda í aðalsök, ef kröfur aðalstefnanda verða teknar þar til greina, en annars sjálfstæðs dóms fyrir allri kröfunni eða því sem umfram kunni að vera af gagnsakarfjárhæð.  Að auki er krafist málskostnaðar úr hendi gagnstefnda.

             Gagnstefndi krefst þess aðallega að gagnsök verði vísað frá dómi.  Til vara krefst gagnstefndi sýknu af kröfum gagnstefnanda og til þrautavara stórfelldrar lækkunar á kröfum hans.  Þá krefst gagnstefndi málskostnaðar úr hendi gagnstefnanda.

             Frávísunarkrafa gagnstefnda var tekin til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 12. þ.m.  Gagnstefnandi krefst þess að frávísunarkröfunni verði hafnað og að sér verði ákvarðaður málskostnaður í þessum þætti málsins.

 

             Samkvæmt samningsgerð aðila annaðist gagnstefndi fyrir gagnstefnanda stofnun eignarhaldsfélagsins Kilimanjaro Investment Holding S. A. 31. ágúst 2001.  Hluthafar skyldu að lágmarki vera tveir og stjórnarmenn að lágmarki þrír.  Hlutafé var ákveðið 392.220.000 krónur og var greitt með 430.000 hlutum í félaginu Integra S. A.   Miðað var við gengið 12.50.

Í vistunarsamningi,  sem var undirritað samhliða samningi um stofnun eignar­haldsfélagsins, er rakin sú þjónusta sem gagnstefnda var ætlað að veita:  Að veita eignarhaldsfélaginu heimilisfesti.  Að halda utan um bækur eignarhaldsfélagsins, hlutaskrá og skattskil.  Að undirbúa aðalfundi eignarhaldsfélagsins og sjá um fram­kvæmd þeirra.  Að taka á móti öllum póstsendingum er berast eignarhaldsfélaginu.  Að framsenda til stjórnarmanna eignarhaldsfélagsins, að þeirra ósk, allar slíkar sendingar.  Að sjá til þess að greidd séu öll lögbundin gjöld í Luxemburg.  Að tryggja að ársreikningur verði undirbúinn og frágenginn.

Af hálfu gagnstefnanda er því haldið fram að eignir eignarhaldsfélagsins (hlutabréf í Integra S. A.) hafi verið í eignastýringu hjá gagnstefnda.  Þessu er mótmælt af hálfu gagnstefnda; enginn eignastýringarsamningur hafi verið gerður á þeim tíma sem eignarhaldsfélagið var stofnað eða síðar, hvorki í nafni gagnstefnanda persónulega né eignarhaldsfélagsins Kilimanjaro Investment Holding S. A.

Gagnstefnandi óskaði eftir láni hjá gagnstefnda að upphæð 10.000.000 króna og gerðu aðilar með sér lánssamning þar að lútandi dags. 7. desember 2000 að fjárhæð EUR 135.000.  Vextir voru ákveðnir LIBOR vextir að viðbættu 300 stiga álagi.  Til tryggingar greiðslum setti gagnstefnandi gagnstefnda að veði hlutafé að nafnvirði 3.902.200 krónur í Kilimanjaro Investment Holding S. A.  Vaxta- og lánstímabil var ákveðið þrír mánuðir og að beiðni gagnstefnanda greiddi gagnstefndi þ. 8. desember 2000 EUR 135.000 inn á reikning gagnstefnanda nr. [...] hjá gagnstefnda.

Í aðalstefnu segir að stefnandi (gagnstefndi) hafi að ósk stefnda (gagn­stefnanda) framlengt framangreint vaxta-  og lánstímabil nokkrum sinnum en þegar fram liðu stundir hafi komið í ljós að verðmæti tryggingar fyrir láninu hafi farið lækkandi. 

Í bréfi 6. júní 2002 vekur gagnstefndi athygli gagnstefnanda á því að lánsvirði tryggingarinnar sé EUR 5.721 en heildarupphæðin, sem greiða beri honum, EUR 146.975 og er farið fram á að lögð verði inn greiðsla eigi lægri fjárhæðar en EUR 141.254. Framangreint var ítrekað með bréfi gagnstefnda til gagnstefnanda 17. júlí 2002 en samkvæmt því nam umkrafinn mismunur EUR 147.816.  Gagnstefnandi varð ekki við kröfu gagnstefnda um greiðslu né lagði hann fram frekari tryggingar.  Lögmaður gagnstefnda sendi gagnstefnanda áskorun um greiðslu skuldarinnar með bréfi, dags. 6. september 2002, samtals 19.821.965 krónur að meðtalinni innheimtu­þóknun að upphæð 605.800 krónur.  Með bréfi lögmanns gagnstefnanda 2. desember 2002 var framangreindri kröfu mótmælt jafnframt því sem uppi var höfð skaðabótakrafa á hendur gagnstefnda að höfuðstól 392.220.000 krónur vegna stórfelldra mistaka og gáleysis gagnstefnda við ráðgjöf, vörslu og eignastýringu verðbréfa gagnstefnanda.  Kröfum og fullyrðingum gagnstefnanda var mótmælt af hálfu gagnstefnda með bréfi lögmanns hans 13. janúar 2003.  Með bréfi, dags. 14. mars 2003, rifti gagnstefndi vistunarsamningi sínum við Kilimanjaro Investment Holding S. A. jafnframt því að tilkynna um yfirdrátt fyrirtækisins að upphæð 7.023.625 krónur. 

Í aðalsök byggir stefnandi kröfur sínar á því að stefndi hafi gert bindandi lánssamning við stefnanda sem hafi falist í því að stefnandi hafi lánað stefnda EUR 135.000 sem stefndi hafi átt að endurgreiða með nánar tilgreindum hætti.  Lánssamningur þessi sé í fullu gildi og geti stefnandi ekki borið ábyrgð á því að stefndi standi ekki í skilum á greiðslu lánsins.  Kröfugerð stefnda er reist á því að hann lýsir yfir skuldajöfnuði gagnkröfu sinnar um greiðslu bóta að fjárhæð 392.220.000 krónur við kröfur stefnanda.

Í gagnsök byggir gagnstefnandi dómkröfur sínar á almennum reglum skaðabótaréttarins um bótaábyrgð vegna tjóns af völdum réttarabrota utan og innan samninga, einkum sakarreglunni.  Gagnstefndi hafi í umsýslu sinni vanrækt samningsskyldur og starfsskyldur sínar og borið fyrir borð hagsmuni gagnstefnanda.  Ekki hafi verið vakað yfir eignum, greining á stöðu virðist ekki hafa farið fram, “eignasafnið” hafi ekki verið ávaxtað, engin fjárfestingatækifæri nýtt og engin markviss endurskoðun á stöðu málsins í heild virðist hafa farið fram á því tveggja ára tímabili sem hér um ræðir.  Á öllu tímabilinu hafi einungis verið um að ræða hlutabréf í einu félagi og það í tæknigeiranum.  Áhættan hafi því ekki getað orðið meiri enda staðfest með gjaldþroti Integra S. A. haustið 2002. 

 

Frávísunarkrafa gagnstefnda er byggð á eftirfarandi málsástæðum.

Gagnstefna fullnægi ekki skilyrðum 2. mgr. 28. gr. laga nr. 91/1991.  Gagn­stefnandi byggi gagnkröfu sína á  ætluðum eignastýringarsamningi sem hann telji í gildi milli gagnstefnda og eignarhaldsfélagsins Kilimanjaro Investment Holding S. A.  Vísað er til þess að með stofnun þess félags hafi eignarréttur gagnstefnanda á hlutafé í Integra S. A. yfirfærst til sérstaks lögaðila með takmarkaðri ábyrgð og gagnstefnandi einungis orðið hluthafi í nefndu eignarhaldsfélagi.  Krafa sú, sem gagnstefndi haldi uppi í aðalsök, eigi hins vegar rætur að rekja til lánssamnings milli gagnstefnda og gagnstefnanda persónulega og komi eignarhaldsfélagið þar hvergi nærri.  Því sé ljóst að gagnkrafan eigi ekki rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings, hvað þá sömu aðila.

Gagnstefndi sé félag með heimili og starfsstöð í Luxemburg.  Heimild 2. tl. 42. gr. laga nr. 91/1991 verði að skýra með hliðsjón af varnarþingsreglum Lúganó­samningsins um dómsvald og fullnustu dóma í einkamálum, sbr. lög nr. 68/1995, sem samkvæmt 1. gr. eigi við um ágreining aðila en bæði Luxemburg og Ísland hafi gengist undir skuldbindingar þær sem í samningnum felist.  Þar segi í 3. tl. 6. gr. að gagnkröfu megi sækja á því varnarþingi þar sem aðalkrafan sé til meðferðar ef hún eigi rót sína að rekja til sama samnings og málsatvika og aðalkrafan byggist á.  Þannig hafi samningurinn að geyma frekari skilyrði en íslensk lög fyrir því að gagnkrafa komist að í málum, sem heyri undir samninginn, en varnarþingsreglur Lúganósamningsins gangi fyrir varnarþingsreglum V. kafla laga nr. 91/1991.

Lögsaga íslenskra dómstóla taki ekki til ágreiningsefnisins þar sem samið hafi verið um að ágreiningsefni gagnstefnanda í gagnsök heyri undir dómstóla og lög í Luxemburg nema gagnstefndi kjósi annað og er um það vísað til framlagðra samninga.

Frávísunarkrafa gagnstefnda er loks reist á því að málatilbúnaður gagn­stefnanda sé svo vanreifaður, bæði varðandi aðild og kröfugerð, að vísa beri kröfum hans frá dómi.

 

Í gagnstefnu er ekki gerður greinarmunur á gagnstefnanda persónulega og eignarhaldsfélaginu Kilimanjaro Investment Holding S. A. og þess ekki getið að gagn­stefnandi hafi verið hluthafi í eignarhaldsfélaginu eða orðið fyrir tjóni sem slíkur.  Þannig liggur ekki fyrir í málinu hver sé grundvöllur þess að gagnstefnandi geti haft uppi bótakröfu í gagnsökinni.  Engin rök eru heldur færð fram fyrir kröfufjárhæðinni 392.220.000 eða gögn lögð fram henni til stuðnings en fjárhæðin samsvarar hlutafé framangreinds eignarhaldsfélags eins og það var ákveðið við stofnun þess.  Krafa gagnstefnanda er þannig ódómhæf.

Niðurstaða úrskurðarins er samkvæmt þessu sú að þegar vegna vanreifunar beri að vísa gagnsök frá dómi.  Ákvörðun um málskostnað bíður dóms.

Úrskurðinn kveður upp Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

             Gagnsök er vísað frá dómi.