Hæstiréttur íslands
Mál nr. 669/2015
Lykilorð
- Akstur án ökuréttar
- Ölvunarakstur
- Ökuréttarsvipting
- Hegningarauki
- Ítrekun
- Skilorðsrof
- Refsiákvörðun
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttur settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 29. september 2015 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði staðfest.
Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en refsingu ákærða sem ákveðin er eins og nánar greinir í dómsorði.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærði, Freyr Frímannsson, sæti fangelsi í níu mánuði.
Héraðsdómur skal að öðru leyti vera óraskaður.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 520.024 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Hjalta Steinþórssonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 26. júní 2015.
Mál þetta, sem þingfest var 8. maí 2015 og dómtekið þann 18. júní sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á Suðurlandi þann 18. mars sl., sem barst dóminum 27 sama mánaðar, á hendur Frey Frímannssyni, kt. [...], til heimilis að [...], Reykjavík,
„ fyrir umferðarlagabrot
I.
með því að hafa að kvöldi mánudagsins 28. apríl 2014 ekið bifreiðinni [...] sviptur ökurétti ævilangt frá N1-Skaftárskála að Klausturvegi á Kirkjubæjarklaustri og fyrir að hafa umrætt sinn vanrækt vátryggingarskyldu bifreiðarinnar sem var óvátryggð þegar lögregla stöðvaði akstur hennar framangreint sinn.
Teljast brot ákærða varða við 1. mgr. 48. gr. og 93. gr., sbr. 91. og 92. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, allt sbr. 1. mgr. 100. gr. sömu laga.
II.
með því að hafa, að morgni fimmtudagsins 1. maí 2014 ekið bifreiðinni [...] um bifreiðastæði við N1-Skaftárskála á Kirkjubæjarklaustri undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 1,39‰) og sviptur ökurétti ævilangt [sic]
Teljast brot ákærða varða við 1. mgr. 48. gr. og 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. nefndra umferðarlaga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til að sæta sviptingu ökuréttar, samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987 með áorðnum breytingum og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Ákærði mætti við þingfestingu málsins, ásamt Guðmundínu Ragnarsdóttur hdl., sem skipuð var verjandi ákærða að hans ósk. Gekkst ákærði þá við þeirri háttsemi sem lýst er í ákæru, en kvaðst hafa haft gild ökuréttindi í umrædd skipti og vísaði í því sambandi til ökuskírteinis sem gefið var út í Noregi þann 7. maí 2013 með gildistíma til 7. maí 2028.
Málavextir að öðru leyti eru ágreiningslausir og vísast um þá til ákæruskjals. Þá segir í frumskýrslu lögreglu að hið norska ökuskírteini ákærða hafi verið haldlagt í kjölfar afskipta lögreglu af akstri ákærða þriðjudaginn 29. apríl 2014. Samkvæmt gögnum málsins afhenti lögregla ákærða umrætt ökuskírteini þann 30. sama mánaðar, þ.e. degi áður en hann var stöðvaður grunaður um akstur undir áhrifum áfengis, sbr. síðari lið ákæru.
Skýrslutökur fyrir dómi
Í skýrslutöku fyrir dómi kvaðst ákærði hafa flutt til Noregs á árinu 2010 og haft meðferðis íslenskt ökuskírteini sem hafi runnið út 22. júlí 2010. Ákærði tók fram að honum hafi ekki verið gert að skila inn ökuskírteini sínu í kjölfar þess að hann var sviptur ökurétti hér á landi. Hann hafi ekki þurft á bifreið að halda fyrr en leið á dvöl hans í Noregi og því sótt ökuskóla og í framhaldinu fengið útgefið ökuskírteini. Aðspurður hvort hann hefði upplýst norsk yfirvöld um að hann væri sviptur ökurétti á Íslandi kvaðst ákærði hafa sagt þeim að hann væri ekki með bílpróf og þyrfti því að taka próf. Í framhaldinu hafi hann sótt nám í norskum ökuskóla.
Vitnið A lögregluvarðstjóri staðfesti að hafa afhent ákærða norska ökuskírteinið þann 30. apríl 2014 í samræmi við fyrirmæli frá yfirlögregluþjóni embættisins með þeim skilaboðum að norska ökuskírteinið gilti hér á landi. Eftir það hafi lögregla á Kirkjubæjarklaustri ekki haft afskipti af ætluðu ökuréttindaleysi ákærða. Vitnið kvað síðar hafi komið í ljós að um misskilning hafi verið að ræða, norska ökuskírteini ákærða hefði ekki átt að gilda hér á landi. Vitnið lýsti því að hafa hitt ákærða í Skaftárskála þann 1. maí 2014, gefið sig á tal við ákærða, metið ástand hans þannig að vitninu hafi þótt tilefni til að greina ákærða frá því að ef hann æki bifreið í þessu ástandi myndi vitnið stöðvað aksturinn. Í framhaldinu hafa vitnið fylgst með umferð í nágrenni Skaftárskála, séð ákærða aka af stað og stöðvað akstur bifreiðarinnar.
Niðurstaða
Ákærði játaði sök að því undanskildu að hann kveðst hafa verið með fullgild ökuréttindi þegar lögregla hafði afskipti af akstri hans 28. apríl og 1. maí 2014 á Kirkjubæjarklaustri og vísar í því sambandi til þess að hann hafi á umræddum tíma haft fullgild ökuréttindi samkvæmt norsku ökuskírteini útgefnu þann 7. maí 2013 með gildistíma til 7. maí 2028. Fyrir dómi kvaðst ákærði hafa greint norskum yfirvöldum frá því að hann hefði ekki bílpróf og sótt í framhaldinu tíma í norskum ökuskóla. Samkvæmt gögnum málsins og framburði vitnisins A lögregluvarðstjóra liggur fyrir að lögreglan afhenti ákærða norska ökuskírteinið tveimur dögum eftir að lögregla tók ökuskírteinið í sína vörslu í kjölfar fyrri afskipta af akstri ákærða og degi áður en lögregla hafði afskipti af akstri ákærða í síðara skiptið.
Samkvæmt gögnum málsins er ágreiningslaust að ákærði var sviptur ökurétti ævilangt með dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra uppkveðnum þann 28. júlí 2011 og fyrir liggur að dómurinn var birtur ákærða þann 26. ágúst 2011. Fyrir dómi kvaðst ákærði hafa, við komu til Noregs, haft undir höndum íslenskt ökuskírteini sem runnið hafi út 22. júlí 2010. Þá greindi ákærði frá því að ekki hafi verið óskað eftir að hann skilaði ökuskírteini sínu í kjölfar dóma í málum á hendur honum þar sem kveðið hafi verið á um sviptingu ökuréttar. Í þessu sambandi er til þess að líta að samkvæmt 4. mgr. 53. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, skal sá sem misst hefur ökuréttindi vegna sviptingar eða afturköllunar, afhenda lögreglu ökuskírteini sitt. Samkvæmt því bar ákærða að hafa frumkvæði að því að afhenda ökuskírteini sitt í kjölfar dómanna.
Eins og áður er rakið framvísaði ákærði norsku ökuskírteini þegar lögregla hafði afskipti af akstri hans 28. apríl og 1. maí 2014. Um sviptingu ökuréttar gilda meðal annars ákvæði 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Ákvæði 5. mgr. 101. gr. laganna, kveður á um að svipting ökuréttar feli ekki eingöngu í sér sviptingu réttar samkvæmt ökuskírteini, heldur einnig sviptingu réttar til að öðlast ökuskírteini. Þá segir í 2. málslið 1. mgr. 106 gr. áðurnefndra laga, að ekki megi veita manni sem hafi verið sviptur ökurétti ævilangt ökurétt að nýju fyrr en svipting hafi staðið í fimm ár. Verður því að leggja til grundvallar að ákærða hafi mátt vera kunnugt um að hann væri sviptur ökurétti þegar hann ók bifreiðinni [...]á Kirkjubæjarklaustri 28. apríl og 1. maí 2014.
Að öllu framangreindu virtu er það mat dómsins að ákærða hafi mátt vera ljóst að á meðan hann sætir ævilangri sviptingu ökuréttar samkvæmt dómi íslensks dómstóls, sem jafnframt felur í sér sviptingu réttar til að öðlast ökuskírteini samkvæmt íslenskum lögum, gæti hann ekki komið sér undan slíkri réttindasviptingu hér á landi með því að öðlast ökuréttindi erlendis. Að þessu virtu, og að teknu tilliti til skýlausrar játningar ákærða hvað varðar háttsemi þá er lýst er í ákæru, telst sannað að ákærði hefur gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og þar þykir rétt færð til refsiákvæða. Ákærði hefur með háttsemi sinni unnið sér til refsinga. Breytir engu um saknæmi brota ákærða þó lögregla hafi afhent honum hið norska ökuskírteini þann 30. apríl 2014, enda var ákærði án gildra ökuréttinda samkvæmt íslenskum lögum þegar lögregla hafði afskipti af akstri umrædda daga.
Samkvæmt framlögðu sakavottorði á ákærði þó nokkurn brotaferil að baki, meðal annars hefur hann nokkrum sinnum sætt refsingum fyrir ölvunarakstur og réttindaleysi. Þann 6. febrúar 2007 var ákærða gerð sekt meðal annars vegna aksturs sviptur ökurétti. Þann 7. mars 2007 var ákærða gerð sekt fyrir að hafa þann 23. janúar það ár, meðal annars ekið sviptur ökurétti. Þann 27. nóvember 2008 var ákærða gerð sekt meðal annars vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna þann 1. ágúst 2008, auk þess sem hann var þá sviptur ökurétti í fjóra mánuði. Þann 30. október 2009 var ákærði fundinn sekur, meðal annars fyrir að hafa 19. september 2008 ekið ölvaður og 24. janúar 2009 ekið ölvaður og sviptur ökurétti, sem og að hafa þar að auki 9. október 2007, 2. nóvember 2008, 19. janúar og 23. janúar 2009, ekið sviptur ökurétti. Var ákærði þá dæmdur til að sæta fangelsi í fjóra mánuði, en fullnustu refsingarinnar frestað skilorðsbundið til þriggja ára, auk þess sem hann var sviptur ökurétti tímabundið. Þann 19. febrúar 2010 var ákærði fundinn sekur og dæmdur hegningarauki, meðal annars fyrir að hafa þann 22. janúar 2009 ekið sviptur ökurétti. Var ákærði dæmdur til að sæta fangelsi í sex mánuði, en refsingunni frestað skilorðsbundið til tveggja ára. Var þá og dæmdur upp fyrrgreindur skilorðsdómur frá 30. október 2009. Þann 20. maí 2010, var ákærði fundinn sekur um að hafa 31. maí og 3. júní 2009 ekið undir áhrifum fíkniefna, en honum þá ekki gerð sérstök refsing. Loks var ákærði þann 28. júlí 2011, dæmdur meðal annars fyrir að hafa þann 31. mars 2010 ekið undir áhrifum fíkniefna og var honum gert að sæta fangelsi í sjö mánuði, en fullnustu sex mánaða refsingarinnar var frestað skilorðsbundið til þriggja ára, auk þess sem hann var sviptur ökurétti ævilangt. Var þá og dæmdur upp skilorðsdómur frá 19. febrúar 2010. Þrátt fyrir ákvæði 61. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, verður litið til þess að ákærði hefur frá því hann varð 18 ára margoft áður sætt refsingu vegna aksturs sviptur ökurétti og vegna aksturs undir áhrifum áfengis eða fíkniefna eins og áður er lýst og hefur það áhrif á ákvörðun refsingar hans nú. Ákærði er nú meðal annars fundinn sekur um ölvunarakstur og telst það brot hans, að virtum hegningaraukasjónarmiðum, nú ítrekað í þriðja sinn. Með sama hætti telst ákærða nú í þriðja sinn gerð refsing vegna aksturs sviptur ökurétti. Með brotum þeim sem lýst er í ákæru hefur ákærði rofið skilorð dóms frá 28. júlí 2011, og ber að dæma upp framangreinda refsingu og dæma ákærða refsingu nú í einu lagi, sbr. 60. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin fangelsi í níu mánuði og fimmtán daga. Þó svo ákærði hafi í máli þessu ekki brotið gegn almennum hegningarlögum er til þess að líta að ákærði hefur nú í annað sinn rofið skilorð samkvæmt eldri dómi. Þá vísar ákærði til sömu raka og fram koma í dómnum frá 28. júlí 2011, þ.e. að hann hafi snúið baki við fyrra lífi, sé í fastri vinnu, í sambúð og eigi von á barni. Að virtum sakarferli ákærða, ítrekuðum umferðarlagabrotum og dómvenju, þykja því ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna.
Með vísan til 101. og 102. gr., þó einkum 3. mgr. 101. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, með síðari breytingum, ber að árétta ævilanga sviptingu ökuréttar ákærða.
Með vísan til 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, sem nemur samkvæmt yfirliti lögreglu samtals 26.710 kr., auk þóknunar skipaðs verjanda, sem er hæfilega ákveðin 333.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og 6.800 krónur í útlagaðan kostnað verjanda.
Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð :
Ákærði, Freyr Frímannsson, sæti fangelsi í níu mánuði og fimmtán daga.
Áréttuð er ævilöng svipting ökuréttar ákærða.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, samtals 366.510 krónur, þar af þóknun skipaðs verjanda síns, Guðmundínu Ragnarsdóttur hdl., 333.000 krónum og útlagðan kostnað verjanda, 6.800 krónum.