Hæstiréttur íslands

Mál nr. 744/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Föstudaginn 21. nóvember 2014.

Nr. 744/2014.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Karl Ingi Vilbergsson aðstoðarsaksóknari)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Guðrún Erlendsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 20. nóvember 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 19. nóvember 2014, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 17. desember 2014 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 19. nóvember 2014.

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur í dag krafist þess að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi til miðvikudagsins 17. desember nk., kl. 16:00.

                Kröfu sína byggir lögreglustjóri á 106. gr., 164. gr., 4. mgr. 220. gr. 2. mgr. 218. gr. og 2. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

                Kærði mótmælir kröfunni og krefst þess að henni verði hafnað.

                Í greinargerð lögreglustjóra segir að, að morgni miðvikudagsins 12. nóvember, um kl. 4:30, hafi lögreglan á Akureyri fengið tilkynningu um að eldur logaði í bifreið við [...].  Þegar lögregla hafi komið á vettvang hafi hún séð mikinn reyk koma frá bifreiðastæði við [...]. Hafi logað mikill eldur í bifreiðinni [...]. Sjá hafi mátt bjórflösku fyrir aftan bifreiðina en búið hafi verið að troða fataefni ofan í flöskuna og hafi þetta verið eins og „molotov kokteill“. Þar skammt frá hafi verið önnur bjórflaska með engu fataefni. Strax hafi vaknað grunur um að þarna væri um íkveikju að ræða. Eigandi bifreiðarinnar, A, kvaðst hafa verið vakinn upp um þrjúleytið og þá hafi verið grímuklæddur maður fyrir utan. Kvaðst A hafa sagt honum að koma sér í burtu. Sá hafi verið dökkklæddur og um 175 cm á hæð. Síðan hafi hann vaknað nokkuð seinna og þá heyrt mikinn hávaða og séð að búið var að kveikja í bifreið hans. 

                Að kvöldi 12. nóvember hafi X og Y verið handteknir grunaðir um aðild að málinu. Hafi þeir í yfirheyrslu hjá lögreglu viðurkennt sök sína. Í framburðum þeirra beggja komi fram að kærði Z hafi beðið þá um að ganga í skrokk á A. Hafi þeir átt að fá um hálfa milljón króna fyrir verkið eða allt eftir því hversu mikið þeir slösuðu A. Kærði hafi margsinnis komið við sögu lögreglu en eftirfarandi brot séu til rannsóknar hjá lögreglu og muni líklega sæta ákærumeðferð:

„Mál lögreglu nr. 025-2014-[...] frá [...] 2014

Rán: X fór ásamt stúlku og öðrum dreng til 79 ára gamals manns. Stúlkan sakaði manninn um að hafa nauðgað sér er hún var barn og vildi fá bætur. X og stúlkan þrýstu á manninn með óbeinum hótunum uns hann lét undan. Þá hjálpaði X manninum við að fara inn á heimabanka sinn og millifæra 1 milljón á stúlkuna. Sakborningar fóru auk þess til Akureyrar með greiðslukort mannsins og notuðu.

Mál lögreglu nr. 024-2014-[...] frá [...] 2014

Þ, unnusta X, var handtekin með 57 grömm af marijuana í fórum sínum sem hún sagði í eigu X, sem væri eigandi þeirra.

Mál lögreglu nr. 024-2014-[...]  frá [...] 2014

X er grunaður um að hafa í a.m.k. fjögur skipti móttekið amfetamín frá Æ. Talið er að amfetamínið frá Æ hafi X ætlað að selja í smásölu.

Mál lögreglu nr. 024-2014-[...] frá [...] 2014

X handtekinn á Akureyri er hann ók bifreið undir áhrifum fíkniefna og sviptur ökuréttindum aðfaranótt. Kastaði rúmum 5 grömmum af maríhuana út er lögreglan gaf honum stöðvunarmerki. Lögregla fann efnin en lét X ekki vita af því, fylgdist aftur á móti með því er X kom til að leita að efnunum síðar um nóttina auk þess sem X sagði frá því í síma að hann hefði kastað efnunum út.

Mál lögreglu nr. 025-2014-[...] frá [...] 2014

X er grunaður um sölu á kannabisefnum.

Mál lögreglu nr. 024-2014-[...] frá [...] 2014 

Þar vísaði X á nokkur grömm af kannabisefnum og ætluðu amfetamíni er hann var handtekinn á heimili sínu v. rannsóknar á íkveikju.

Þá hafa verið gefnar út ákærur á hendur kærða vegna eftirfarandi mála:

Mál lögreglu nr. 024-2012-[...] frá [...] 2012.

X gefið að sök brot gegn valdstjórninni með því að hafa haft í líkamsmeiðingar og líflátshótunum við starfsmenn fjölskyldudeildar Akureyrarbæjar. Ákæra gefin út 18. ágúst sl.

Mál lögreglu nr. 024-2012-[...] frá [...] 2012

X er gefið að sök að hlutdeild í ráni í húsnæði [...] að [...] á Akureyri. Ákæra gefin út 1. október 2013.

Mál lögreglu nr. 024-2012-[...] frá [...] 2012

X grunaður um vörslu á kannabisefnum. Ákæra gefin út 5. maí sl.

Mál lögreglu nr. 024-2012-[...] frá [...] 2012

X grunaður um vörslur á amfetamíni og maríhúana og akstur sviptur ökuréttindum. Ákæra gefin út 5. maí sl.

Mál lögreglu nr. 024-2014-[...] frá [...] 2014

X grunaður um vörslur á amfetamíni og maríhúana og akstur bifreiðar á röngum skráningarmerkjum. Ákæra gefin út 27. ágúst sl.

Mál lögreglu nr. 007-2014-[...] frá [...] 2014

X grunaður um vörslu fíkniefna og akstur bifreiðar á röngum skráningarmerkjum. Ákæra gefin út 4. september sl.

Mál lögreglu nr. 024-2014-[...] frá [...] 2014

X grunaður um vörslu fíkniefna og akstur undir áhrifum fíkniefna og sviptur ökuréttindum. Ákæra gefin út 6. október sl.“

                Kærði eigi að baki langan sakaferil eða allt frá árinu 1994 til dagsins í dag. Hann hafi 25 sinnum verið dæmdur fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, umferðarlögum og lögum um ávana- og fíkniefni. Með vísan til framangreinds og ferils kærða telji lögregla yfirgnæfandi líkur á því að kærði muni halda brotastarfseminni áfram fari hann frjáls ferða sinna og því sé nauðsynlegt að kærði sæti gæsluvarðhaldi á meðan mál hans sæta dómsmeðferð. Sakarefni málanna eru talin varða við 106. gr. 164. gr., 4. mgr. 220. gr., 2. mgr. 218. gr., 2. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, ákvæða laga um ávana og fíkniefni nr. 65/1974 og ákvæði umferðarlaga nr. 50/1987. Um heimild til gæsluvarðhalds er vísað til c-liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. 

                Samkvæmt því sem rakið hefur verið og gögnum málsins er kærði undir rökstuddum grun um að hafa gerst sekur um fjölmörg hegningarlagabrot og brot á lögum um ávana- og fíkniefni. Þá liggur fyrir að kærði á að baki nokkuð langan sakarferil og hefur margoft hlotið fangelsisdóma fyrir hegningarlagabrot, umferðarlagabrot og fíkniefnalagabrot frá því árið 1994. Í greinargerð lögreglustjóra er rakin brotastarfsemi kærða á árunum 2012, 2013 og 2014 og varða brotin meðal annars 106. gr., 164. gr., 4. mgr. 220. gr., 2. mgr. 218. gr., 252. gr. og 2. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga og gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Við brotum þessum liggur fangelsisrefsing, sannist sök. Ákæra vegna sumra þessara brota hefur verið gefin út. Með vísan til nefndrar greinargerðar lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og rannsóknargagna málsins þykir liggja fyrir rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst sekur um háttsemi sem fangelsisrefsing liggur við. Þá þykir mega ætla að kærði muni halda áfram brotastarfsemi fari hann frjáls ferða sinna. Samkvæmt þessu er fallist á það með lögreglustjóra að uppfyllt sé skilyrði c. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til þess að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi og er krafa lögreglustjóra því tekin til greina eins og hún er sett fram og nánar greinir í úrskurðarorði. Ekki þykja nein efni vera til þess að marka gæsluvarðhaldi skemmri tíma en krafist er.

Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

                Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi til miðvikudagsins 17. desember nk., kl. 16:00.