Hæstiréttur íslands
Mál nr. 358/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Lögbann
- Aðildarhæfi
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Fimmtudaginn 30. september 2004. |
|
Nr. 358/2004. |
Siðanefnd Háskóla Íslands(Gestur Jónsson hrl.) gegn Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni (Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.) |
Kærumál. Lögbann. Aðildarhæfi. Frávísun máls frá héraðsdómi.
H krafðist þess að lagt yrði lögbann við fyrirhugaðri efnismeðferð S á kæru til hennar vegna tiltekinnar bókar sem H hafði ritað. Í Hæstarétti var tekið fram að siðanefnd Háskóla Íslands væri ekki með lögum markað hlutverk. Yrði hún því ekki talin hafa slíka stöðu innan stjórnkerfis Háskóla Íslands að hún gæti borið skyldur eða átt réttindi að landslögum og átt þannig aðild að dómsmáli. Var málinu vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 24. ágúst 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. ágúst 2004, þar sem synjun sýslumannsins í Reykjavík 29. júlí 2004 við beiðni varnaraðila um lögbann var felld úr gildi og sýslumanni gert að leggja samkvæmt kröfu varnaraðila lögbann við fyrirhugaðri efnismeðferð sóknaraðila á kæru tiltekinna aðstandenda Halldórs Laxness til sóknaraðila vegna bókar varnaraðila „Halldór“. Kæruheimild er í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, eins og henni var breytt með 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi en til vara að kröfum varnaraðila verði hafnað. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og að sóknaraðila verði gert að greiða honum kærumálskostnað.
Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði á málið rætur að rekja til kæru ekkju Halldórs Laxness til sóknaraðila vegna bókar sem varnaraðili ritaði og gefin var út af Almenna bókafélaginu síðla árs 2003. Í kærunni var varnaraðila, sem gegnir stöðu prófessors við Háskóla Íslands, gefið að sök að hafa brotið gegn siðareglum Háskóla Íslands sem samþykktar voru á háskólafundi 7. nóvember 2003. Með ákvörðun 2. júlí 2004 féllst nefndin, að kröfu varnaraðila, á að vísa tilteknum atriðum kærunnar frá en taka hana að öðru leyti til efnislegrar meðferðar. Í kjölfarið höfðaði varnaraðili mál og krafðist þess meðal annars að ákvörðun nefndarinnar um að taka kæruna til meðferðar yrði felld úr gildi. Þar sem sóknaraðili féllst ekki á að fresta meðferð málsins vegna fyrrnefndrar málsóknar krafðist varnaraðili 27. júlí 2004 að sýslumaðurinn í Reykjavík legði lögbann við því að sóknaraðili tæki kæruna til efnismeðferðar. Sýslumaður hafnaði beiðni varnaraðila 29. júlí 2004. Krafðist varnaraðili samdægurs úrlausnar héraðsdóms um þá ákvörðun.
Í beiðni varnaraðila um lögbann segir að gerðarþoli sé siðanefnd Háskóla Íslands. Samkvæmt málatilbúnaði hans er sóknaraðili sjálfstæð úrskurðarnefnd innan Háskóla Íslands sem tekur endanlegar ákvarðanir í kærumálum sem til hennar er beint. Þannig geti yfirstjórn háskólans ekki gefið nefndinni fyrirmæli um meðferð einstakra mála sem hún fjallar um. Standi því réttarfarsleg nauðsyn til þess að binda nefndina sjálfa við dóm í málinu. Sóknaraðili heldur því hins vegar fram að siðanefnd sé hluti af stjórnkerfi Háskóla Íslands en ekki sjálfstæður lögaðili þótt hún njóti viss sjálfstæðis í störfum sínum. Hafi nefndir á borð við siðanefndina, sem skipaðar séu til þess að sinna tilteknum einstökum verkefnum innan Háskóla Íslands, ekki aðildarhæfi í dómsmálum.
Ekki eru ákvæði í lögum um skipun siðanefndar Háskóla Íslands eða hlutverk hennar. Eins og nánar er rakið í hinum kærða úrskurði var nefndinni komið á fót með samþykkt háskólafundar og verkefni hennar og hlutverk ákveðið með reglum, sem samþykktar voru á þeim vettvangi. Siðanefnd Háskóla Íslands er ekki með lögum markað hlutverk. Verður hún ekki talin hafa slíka stöðu innan stjórnkerfis Háskóla Íslands að hún geti borið skyldur eða átt réttindi að landslögum og átt þannig aðild að dómsmáli, sbr. 1. mgr. 16. gr. laga nr 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt því verður kröfum varnaraðila á hendur siðanefnd Háskóla Íslands vísað frá héraðsdómi, en málskostnaður verður ekki dæmdur siðanefndinni, enda skortir hana eftir framansögðu hæfi til að eignast slík réttindi.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. ágúst 2004.
Með bréfi árituðu um móttöku hjá Héraðsdómi Reykjavíkur 29. júlí sl. krefst sóknaraðili, Hannes Hólmsteinn Gissurarson, úrlausnar héraðsdóms um þá ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík að synja kröfu hans um lögbann 27. sama mánaðar við því að varnaraðili, siðanefnd Háskóla Íslands, taki til efnismeðferðar liði eitt og fjögur í kæru Auðar Sveinsdóttur vegna dánarbús Halldórs Laxness 5. apríl 2001.
Endanleg krafa sóknaraðila er að framangreind ákvörðun sýslumanns, sem tilkynnt var sóknaraðila með bréfi 29. júlí 2004, verði felld úr gildi og lagt verði fyrir sýslumann að leggja á lögbann í samræmi við beiðnina. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi varnaraðila. Hann krefst einnig málskostnaðar.
Varnaraðili krefst aðallega frávísunar málsins, en til vara að kröfu sóknaraðila verði hafnað. Hann krefst einnig málskostnaðar.
I.
Málsatvik
Atvik málsins eru ágreiningslaus.
Með samþykkt háskólafundar Háskóla Íslands 7. nóvember 2003 voru samþykktar sérstakar siðareglur Háskóla Íslands. Á sama fundi voru einnig samþykktar „starfsreglur siðanefndar Háskóla Íslands“, en samkvæmt 1. gr. starfsreglnanna skal starfa við skólann siðanefnd sem úrskurðar um það hvort siðareglur skólans hafi verið brotnar. Umrædd siðanefnd er varnaraðili málsins.
Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. greindra reglna tekur varnaraðili við skriflegum kærum um meint brot á siðareglum frá nafngreindum aðilum innan eða utan Háskólans. Varnaraðili tekur ekki mál til meðferðar að eigin frumkvæði. Í 2. til 9. gr. reglnanna er nánar kveðið á um nefndarskipun, málsmeðferð og hvernig fara skuli með niðurstöður nefndarinnar. Þannig kemur fram í 2. gr. reglnanna að formaður varnaraðila sé skipaður af háskólaráði samkvæmt tilnefningu rektors. Þegar fram komi kæra um brot á siðareglum séu tveir menn skipaðir í varnaraðila til þess að fjalla um kæruna ásamt formanni. Í umboði háskólaráðs skipi rektor þessa tvo menn að fengnum tilnefningum formanns varnaraðila. Skipunartími formanns sé þrjú ár, en skipun annarra nefndarmanna taki einungis til fyrirliggjandi máls. Samkvæmt 4. gr. skal varnaraðili kanna hvort kæra snerti siðareglur Háskóla Íslands. Varnaraðili vísi frá kærum sem ekki varði siðareglurnar eða séu tilefnislausar. Þá segir að varnaraðili geti vísað kærum frá, ef um er að ræða meint brot á lagareglum sem hægt er að bera undir úrskurð stjórnvalda eða dómstóla. Í 7. gr. reglnanna kemur meðal annars fram að varnaraðili mæli ekki fyrir um viðurlög við brotum sem hann kemst að niðurstöðu um, en skuli taka afstöðu til alvarleika brotsins og hvort telja megi að um endurtekið brot sé að ræða. Í 8. gr. kemur fram að varnaraðili skuli búa til útdrátt úr umfjöllun sinni og birta sem skýringu við viðkomandi ákvæði reglnanna á háskólavefnum. Þetta eigi þó ekki við ef ákveðið hefur verið að niðurstaða nefndarinnar sé trúnaðarmál. Í 9. gr. starfsreglnanna segir að niðurstaða varnaraðila sé endanleg og verði henni ekki áfrýjað. Ef niðurstaða varnaraðila bendi til þess að um sé að ræða brot í starfi í skilningi laga skuli varnaraðili vekja athygli rektors á því. Varnaraðila sé ennfremur heimilt að benda rektor á annmarka á reglum sem gilda um Háskóla Íslands.
Hinn 5. apríl 2004 beindu tilteknir aðstandendur Halldórs Laxness kæru til varnaraðila vegna bókar sóknaraðila „Halldór“ sem gefin var út 27. nóvember 2003. Í kærunni eru talin upp í fjórum liðum atriði sem kærendur telja að feli í sér brot gegn siðareglum og viðteknum sjónarmiðum um faglega starfshætti. Í fyrsta lagi að sóknaraðili hafi brotið gegn siðareglum og viðteknum sjónarmiðum um faglega starfshætti með því að nýta sér ritverk Halldórs Laxness án þess að geta heimilda með fullnægjandi hætti. Í öðru lagi að hann hafi með alvarlegum hætti brotið gegn höfundarheiðri og höfundarrétti Halldórs Laxness með því að endursegja texta hans og breyta honum og gera hann þannig að sínum. Í þriðja lagi hafi sóknaraðili nýtt sér ýmis óbirt ritverk Halldórs Laxness, þar á meðal bréf, dagbók og handrit, án samþykkis kærenda og breyti engu þótt téð ritverk hafi verið afhent Landsbókasafni til varðveislu. Í fjórða lagi hafi sóknaraðili „kryddað“ lýsingar sínar á ævi Halldórs Laxness með upplýsingum úr verkum annarra höfunda og úr skáldverkum Halldórs og í raun brenglað ævisögu hans, en þetta samrýmist ekki viðurkenndum starfsháttum við ævisagnaritun auk þess sem þar kunni að hafa verið vegið að mannorði og minningu Halldórs og annarra sem koma við sögu í bókinni.
Sóknaraðili krafðist frávísunar kærunnar. Með ákvörðun 2. júlí 2004 vísaði siðanefndin 2. og 3. lið kærunnar frá en ákvað að taka aðra hluta hennar til efnismeðferðar og veitti sóknaraðila frest til að skila greinargerð til 3. ágúst 2004. Í rökstuðningi ákvörðunar varnaraðila kemur fram að varnaraðili telji að í málinu séu ákveðnir þættir sem eigi undir úrskurð dómstóla og lúti að meintum brotum kærða gegn höfundarétti samkvæmt höfundalögum nr. 73/1972. Hins vegar snúi kæran einnig að öðrum veigamiklum þáttum sem lýst sé í nánar tilgreindum ákvæðum siðareglnanna er varði viðurkennd fræðileg vinnubrögð háskólakennara, svo sem vandvirkni í störfum og afstöðu til annarra fræðimanna, en slík atriði eigi að jafnaði ekki undir úrlausn dómstóla. Þá kemur fram að varnaraðili telji það utan verkssviðs síns að fjalla um meint brot á ákvæðum höfundalaga eða önnur meint brot sóknaraðila á réttindum annarra sem vernduð séu með lögum. Það sé hins vegar í fullu samræmi við markmið siðareglnanna að tekið sé á öðrum þáttum sem lúti að vandvirkni í vinnubrögðum, heilindum og heiðarleika kennara við skólann. Það sé megintilgangur varnaraðila að meta slík atriði og fjalla um fræðistörf starfsmanna skólans þar sem lögum sleppi og að slíkt sé unnt án þess að taka afstöðu til meintra brota sóknaraðila á lögum.
Í framhaldi af þessari ákvörðun varnaraðila höfðaði sóknaraðili almennt einkamál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur til að fá ákvörðun varnaraðila hnekkt að því leyti sem nefndin hafði ekki fallist á kröfur hans. Var stefna í málinu birt varnaraðila 27. júlí 2004, en málið verður þingfest 2. september nk. Jafnframt óskaði sóknaraðili eftir því að varnaraðili frestaði frekari umfjöllun um málið þar til niðurstaða lægi fyrir í héraðsdómsmálinu. Að fenginni umsögn kærenda ákvað varnaraðili að ekki væri ástæða til að fresta málsmeðferð fyrir nefndinni vegna málsóknarinnar og tilkynnti sóknaraðila þetta með bréfi 26. júlí 2004.
Hinn 27. júlí 2004 krafðist sóknaraðili þess að sýslumaðurinn í Reykjavík legði lögbann við því að varnaraðili tæki til efnismeðferðar 1. og 4. lið kærunnar. Sýslumaður hafnaði beiðninni með bréfi 29. júlí 2004. Í bréfi sýslumanns segir að ekki verði talið að í beiðni sóknaraðila hafi verið sannað eða gert sennilegt að athöfn sú, er krafist væri að lagt væri lögbann við, brjóti gegn lögvörðum rétti sóknaraðila. Verði því að telja bersýnilegt að skilyrðum 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. væri ekki fullnægt. Var beiðni sóknaraðila synjað með vísan til 3. mgr. 26. gr. og 8. gr. laga nr. 31/1990 og hún endursend sóknaraðila ásamt fylgigögnum.
II.
Málsástæður og lagarök sóknaraðila
Sóknaraðili telur í fyrsta lagi varnaraðila skylt að bíða þess að sóknaraðili fái úrlausn dómstóla um það hvort varnaraðila sé rétt að taka umrædda kæru til efnismeðferðar, áður en til slíkrar meðferðar kemur. Í þessu sambandi bendir sóknaraðili á 2. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þar sem kveðið er á um að leysa skuli úr frávísunarkröfu fyrir dómi, áður en tekið er til við efnisþátt máls.
Í öðru lagi bendir sóknaraðili á að ef komist verður að þeirri niðurstöðu fyrir dómstólum að varnaraðili hafi ekki haft heimild til að fjalla efnislega um framangreinda kæru hafi verið vegið með óbætanlegum hætti gegn hagsmunum sóknaraðila. Áhrifum úrskurðar varnaraðila verði ekki eytt eftir að hann hafi verið kveðinn upp, jafnvel þótt dómstólar dæmi síðar að engin heimild hafi verið til að kveða hann upp. Þessi málsmeðferð gangi gegn meðalhófi í stjórnsýslu. Í framhaldi af þessum sjónarmiðum bendir sóknaraðili á að kærendur til varnaraðila hafi enga lögvarða hagsmuni af því að fá efnislega úrlausn um kæruna, áður en niðurstaða dómstóla um heimildir varnaraðila liggur fyrir.
Sóknaraðili bendir á að siðareglurnar og starfsreglur varnaraðila voru settar eftir að gerðarbeiðandi vann það verk sem kæran til varnaraðila beinist að. Það fái ekki staðist að varnaraðili taki til skoðunar meint brot háskólamanna áður en reglurnar voru settar. Sóknaraðili telur einnig að heimild hafi skort til að setja reglurnar og birtingu þeirra hafi verið áfátt. Þetta eigi að leiða til þess að varnaraðili hafi átt að vísa málinu frá sér.
Vegna málsástæðna varnaraðila bendir sóknaraðili á að varnaraðili fari ekki með neitt framkvæmdarvald ríkisins. Varnaraðili sé nefnd sem sett sé á fót innan skólans til að fjalla um mál sem þar geta komið upp. Rekstur skóla feli ekki í sér meðferð á ríkisvaldi í þeim skilningi sem það hugtak hafi í stjórnlagafræði. Þetta sé í eðli sínu einkaréttarleg starfsemi, enda séu fjölmargir skólar í landinu einkareknir, þar með taldir háskólar. Því eigi ákvæði 60. gr. stjórnarskrár lýðveldisins nr. 33/1944 eigi við um ákvörðun varnaraðila. Sóknaraðili telur einnig að ákvörðun varnaraðila geti ekki talist „yfirvaldsboð“ í skilningi þess ákvæðis, enda fari varnaraðili ekki með opinbert vald.
Í munnlegum málflutningi féll sóknaraðili frá þeirri málsástæðu, sem fram kemur í bréfi hans til dómsins 29. júlí 2004, að ákvörðun sýslumanns sama dag sé órökstudd.
III.
Málsástæður og lagarök varnaraðila
Krafa varnaraðila um frávísun málsins byggist á því að kveðið er á um það í 1. mgr. 33. gr. laga nr. 31/1990 að gerðarbeiðandi geti krafist úrlausnar héraðsdómara um ákvörðun sýslumanns um synjun, m.a. lögbannsgerðar. Ber honum að gera það með tilkynningu til sýslumanns innan viku frá því að honum varð viðkomandi ákvörðun kunn. Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. laganna gilda ákvæði 86. 91. gr. laga um aðför um málsmeðferð. Samkvæmt 86. gr. þeirra laga ber sýslumanni að afhenda þeim sem leita vill úrlausnar héraðsdóms staðfest eftirrit gagna málsins ásamt endurriti úr gerðabók og ber þeim sem úrlausnar leitar að senda héraðsdómara málsgögn án tafar. Er sýslumanni heimilt að senda héraðsdómara athugasemdir sínar um málið. Varnaraðili telur að í máli þessu verði ekki séð að sóknaraðili hafi beint tilkynningu til sýslumanns eins og áskilið er. Hafi formkröfum laga fyrir því að synjun verði borin undir héraðsdóm því ekki verið fullnægt og beri dómara því þegar af þeirri ástæðu að vísa málinu sjálfkrafa frá dómi.
Sóknaraðili telur einnig að vísa beri málinu frá dómi með hliðsjón af því að varnaraðili sé hluti af stjórnkerfi Háskóla Íslands en ekki sjálfstæður lögaðili þó hann njóti viss sjálfstæðis í störfum sínum. Varnaraðili sé skipaður formanni sem skipaður sé af háskólaráði samkvæmt tilnefningu rektors til þriggja ára og tveimur nefndarmönnum sem skipaðir eru í nefndina hverju sinni er mál berst nefndinni. Nefndir, sem skipaðar séu til þess að sinna tilteknum, einstökum verkefnum innan Háskóla Íslands, hafi ekki aðildarhæfi í dómsmálum, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 486/1999 frá 31. maí 2000. Lögbannskröfu hefði því réttilega átt að beina að Háskóla Íslands og háskólarektor til fyrirsvars en ekki varnaraðila.
Verði málinu ekki vísað frá dómi byggir varnaraðili á því að skilyrðum 24. gr. laga nr. 31/1990 sé ekki fullnægt til að leggja megi á hið umbeðna lögbann. Varnaraðili tekur undir það með sýslumanni að vandséð sé hvernig sóknaraðili geti talist eiga lögvarinn rétt til þess að varna því að til þess bær aðili á vinnustað hans fjalli um ávirðingar sem á hann eru bornar vegna starfa hans, enda geti hann borið slíkar úrlausnir undir dómstóla samkvæmt almennum reglum. Þótt Háskóli Íslands sé opinber stofnun og ýmis önnur sjónarmið gildi um samskipti við starfsmenn en í einkafyrirtækjum eigi hér það sama við og ef um einkafyrirtæki væri að ræða. Gæti starfsmaður einkafyrirtækis ekki fengið lögbann við umfjöllun nefndar innan fyrirtækis um ætluð brot hans á starfsreglum þess. Verði talið að röksemdir sýslumanns nægi ekki einar og sér til að hafna kröfu sóknaraðila byggir varnaraðili á því að hafna beri kröfunni af eftirfarandi ástæðum.
Í fyrsta lagi verði lögbann einungis lagt við athöfnum einstaklings eða fyrirsvarsmanns félags eða stofnunar, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990. Varnaraðili sé augljóslega hvorki einstaklingur né fyrirsvarsmaður félags. Að mati varnaraðila geti hann heldur ekki talist fyrirsvarsmaður stofnunar. Hvorki hafi nefndin neitt fyrirsvar fyrir Háskóla Íslands né geti hún talist stofnun í skilningi laganna.
Í öðru lagi sé Háskóli Íslands opinber stofnun sem starfi samkvæmt lögum. Um starfsemi stofnunarinnar gildi stjórnsýslulög og þar sem þeim sleppir óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttar. Gildi þetta meðal annars um samskipti stofnunarinnar við starfsmenn sína. Stofnunin hafi sett sér siðareglur sem kynntar hafi verið starfsmönnum og fengið varnaraðila heimildir til að fjalla um ætluð brot starfsmanna stofnunarinnar eða nemenda á reglunum eftir kröfu nánar tilgreindra aðila. Varnaraðili sé hluti af stjórnsýslu Háskóla Íslands og sæki heimildir sínar til stjórnenda stofnunarinnar. Falli málsmeðferð fyrir varnaraðila undir stjórnunarheimildir stofnunarinnar gagnvart starfsmönnun sínum og boðvald stofnunarinnar yfir þeim sem vinnuveitanda. Byggir varnaraðili því á að nefndin sé í þessum skilningi stjórnvald í skilningi 2. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 og því verði ekki lagt lögbann við störfum hennar. Í þessu sambandi er og vísað til áðurgreindra röksemda um að varnaraðili sé ekki réttur aðili málsins heldur stofnunin. Er sjónarmiðum sóknaraðila um að samskipti stjórnenda Háskóla Íslands við starfsmenn séu í raun einkaréttarlegs eðlis mótmælt. Vísar varnaraðili þessu til stuðning til ítrekaðra fordæma Hæstaréttar.
Að lokum byggir varnaraðili á því að útilokað sé, jafnvel þótt svo ólíklega vildi til að dómurinn teldi að líta bæri á varnaraðila með sama hætti og hann starfaði í þágu einkafyrirtækis, að sóknaraðili geti fengið lögbann lagt við umfjöllun varnaraðila um mál sóknaraðila. Telur varnaraðili að ef fallist yrði á kröfu sóknaraðila fælist í þeirri niðurstöðu skerðing á tjáningarfrelsi varnaraðila sem andstæð væri 73. gr. stjórnarskrárinnar og ákvæðum alþjóðlegra mannréttindasáttmála.
IV.
Niðurstaða um formhlið málsins
Samkvæmt 1. mgr. 33. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. getur gerðarbeiðandi krafist úrlausnar héraðsdóms um synjun kyrrsetningar-, löggeymslu- eða lögbannsgerðar, stöðvun gerðar eða synjun kröfu hans um endurupptöku hennar með því að tilkynna það sýslumanni innan viku frá því honum verður sú ákvörðun kunn. Eftir því sem ekki er að finna reglur um kröfu gerðarbeiðanda í V. kafla laga nr. 31/1990 fer um meðferð málsins samkvæmt 86. til 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Samkvæmt 2. til 3. málslið 1. mgr. 86. gr. nefndra laga skal sýslumaður bóka nákvæmlega hver sú ákvörðun er sem krafist er úrlausnar héraðsdómara um og hverjar kröfur aðilar gera og að jafnaði bóka í stuttu máli röksemdir sem þeir færa fyrir kröfum sínum. Samkvæmt 3. mgr. greinarinnar skal sýslumaður afhenda þeim sem krefst úrlausnar héraðsdómara staðfest ljósrit gagna og eftirrit úr gerðabók varðandi gerðina svo fljótt sem við verður komið. Samkvæmt 4. mgr. greinarinnar skal sá sem krefst úrlausnar héraðsdómara án tafar senda héraðsdómara málsgögn. Samkvæmt lokamálsgrein greinarinnar er sýslumanni heimilt að senda héraðsdómara athugasemdir sínar um málsefnið.
Eins og áður greinir barst krafa sóknaraðila vegna synjunar sýslumanns héraðsdómi 29. júlí sl. Samkvæmt framangreindum reglum um meðferð kröfu um úrlausn ákvörðunar sýslumanns fyrir héraðsdómi bar sóknaraðila ekki að beina þeirri tilkynningu til héraðsdóms heldur til Sýslumannsins í Reykjavík. Til þess er hins vegar að líta að framangreindar formreglur um meðferð kröfu um úrlausn um ákvörðun sýslumanns fyrir héraðsdómi hafa einkum það hlutverk að tryggja að sýslumanni verði kunnugt um kröfu um málskot til héraðsdóms svo að hann geti stöðvað frekari framkvæmd gerðar, ef henni er að skipta, á meðan meðferð dómsmáls stendur, en auk þess er tilkynning til sýslumanns forsenda þess að sýslumaður geti nýtt sér heimild sína til umsagnar, sbr. 5. mgr. 86. gr. laga nr. 90/1989. Þá liggur fyrir að af hálfu sýslumanns var ekki bókað um málið í gerðabók og skortir ekki á að öll gögn lögbannsmálsins, eins og það lá fyrir sýslumanni, hafi verið lögð fram í málinu. Að þessu virtu, svo og með hliðsjón af því að sóknaraðili tilkynnti fulltrúa sýslumanns um kröfuna símleiðis 3. ágúst sl., telur dómari að framangreint frávik frá reglum sé ekki þess eðlis að það leiði til þess að vísa beri kröfu sóknaraðila sjálfkrafa frá dómi.
Varnaraðili er sjálfstæð og viðvarandi nefnd á vegum Háskóla Íslands. Skiptir engu í þessu sambandi hvernig nánari skipan nefndarinnar í hverju og einu máli er háttað. Liggur skýrt fyrir í málinu að það eru fyrirhugaðar athafnir þessarar nefndar sem eru andlag lögbannsbeiðni sóknaraðila. Dómari telur að varnaraðili geti átt réttindi og borið skyldur að lögum, til dæmis þær að láta ógert að fjalla um eða kveða upp úrskurði um tiltekin mál við þær aðstæður að lögbann hefur verið lagt við slíkri athöfn. Samkvæmt þessu er málinu réttilega beint að varnaraðila og verður því ekki vísað frá dómi af þeirri ástæðu að varnaraðila skorti aðildarhæfi.
V.
Niðurstaða um efnishlið málsins
Samkvæmt gögnum málsins voru siðareglur Háskóla Íslands samþykktar á háskólafundi 7. nóvember 2003, en sama dag voru samþykktar starfsreglur siðanefndar Háskóla Íslands, varnaraðila máls þessa. Samkvæmt formála reglnanna eru með skráningu þeirra fangaðir í orð helstu þættir þeirrar siðferðilegu ábyrgðar sem er samofin störfum við Háskóla Íslands í þeim tilgangi að hvetja og aðstoða starfsfólk hans við að sinna störfum sínum á vandaðan og árangursríkan hátt. Þá segir að með reglum um málsmeðferð sé einnig skapaður farvegur trúnaðar og óhlutdrægni fyrir rökstuddar ásakanir um misbrest og stuðlað að því að leyst verði úr ágreiningi á málefnalegan hátt.
Að mati dómara einkennast framangreindar siðareglur af víðtækum og almennt orðuðum ákvæðum sem iðulega gefa tilefni til mats. Umræddar siðareglur snerta mikilvæga hagsmuni háskólaborgara, einkum háskólakennara og annarra fræðimanna, með því að brot á reglunum er til þess fallið að skaða orðstír og fræðimannaheiður þeirra gagnvart starfsbræðrum sem og samfélaginu í heild. Er þýðing þessara hagsmuna vandmetin þegar um er að ræða menn sem í mörgum tilvikum hafa gert vísindi og fræði að lífsstarfi sínu. Að þessu slepptu er enn fremur ljóst að brot gegn ákvæðum siðareglna getur jafnframt talist brot á starfsskyldum starfsmanns háskólans og þannig leitt til viðbragða af hálfu yfirstjórnar skólans. Við slíkar aðstæður yrði úrskurður varnaraðila tilefni og jafnframt, að hluta eða í heild, grundvöllur eiginlegrar stjórnvaldsákvörðunar, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1990.
Samkvæmt framangreindu telur dómari ljóst að varnaraðila er falið að fjalla um mikilvæga og lögverndaða hagsmuni háskólaborgara samkvæmt reglum sem oft geta gefið tilefni til mats og andstæðra túlkana, en samkvæmt starfsreglum varnaraðila hefur hann það hlutverk að úrskurða endanlega um það hvort siðareglur hafi verið brotnar, eins og nánar greinir í I. kafla hér að framan. Getur það ekki ráðið úrslitum um mikilvægi úrskurða varnaraðila að þessu leyti þótt þeir verði ekki studdir viðurlögum og yfirstjórn háskólans sé í sjálfsvald sett hvort hún grípur til aðgerða í framhaldi af þeim. Samkvæmt þessu er það álit dómara að setning framangreindra siðareglna og stofnun varnaraðila sem úrskurðaraðila um efni þeirra í kærumálum gegn einstökum háskólaborgurum hafi falið í sér íþyngjandi fyrirkomulag fyrir þá sem undir reglurnar og lögsögu varnaraðila voru settir. Er þá einnig haft í huga það yfirlýsta markmið laga nr. 41/1999 um Háskóla Íslands og laga nr. 136/1997 um háskóla að tryggja akademískt frelsi kennara sem og nemenda.
Af hálfu varnaraðila er á því byggt að hann sé hluti af stjórnsýslu Háskóla Íslands og sæki heimildir sínar til stjórnenda háskólans. Falli málsmeðferð fyrir varnaraðila þannig undir almennar stjórnunarheimildir háskólans gagnvart starfsmönnun sínum og boðvald skólans yfir þeim sem vinnuveitanda.
Á þessi sjónarmið varnaraðila getur dómari ekki fallist. Varnaraðili hefur að ýmsu leyti annað og víðtækara hlutverk en leiðir af almennu boð- og eftirlitsvaldi yfirstjórnenda háskólans gagnvart starfsmönnum. Kemur það meðal annars fram í því að varnaraðili getur kveðið upp úrskurð um brot á nefndum siðareglum í tilefni af kærum frá aðilum innan eða utan háskólans án tillits til þess hvort um ætlað brot í starfi er að ræða, sbr. 2. málslið 9. gr. framangreindra siðareglna. Almennt væru hins vegar ekki efni til þess að yfirstjórn skólans hefði formleg afskipti af starfsmanni í tilefni af kvörtun um störf hans nema ástæða þætti til að áminna hann eða vísa honum úr starfi samkvæmt nánari ákvæðum laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Að virtri stöðu varnaraðila sem sjálfstæðrar úrskurðarnefndar og þeirri málsmeðferð sem honum er ætlað að viðhafa telur dómari einnig að úrskurðir hans geti einnig haft önnur og meiri áhrif á orðstír og fræðimannaheiður þeirra sem hann fjallar um en viðbrögð yfirstjórnar háskólans í framhaldi af kvörtunum vegna tiltekinna starfsmanna.
Í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar ber Háskóla Íslands að starfa innan þeirra heimilda sem honum eru markaðar með lögum nr. 41/1999 og annarri löggjöf sem að honum snýr. Sömuleiðis ber einstökum stjórnendum og stofnunum innan skólans að gæta lögbundinna valdmarka sinna. Eiga því önnur sjónarmið við um Háskóla Íslands en einkafyrirtæki eða einkaréttarleg félög sem koma fót úrskurðar- eða siðanefndum með lögum eða samþykktum sínum. Með hliðsjón af því sem áður greinir um hlutverk og áhrif varnaraðila er því nauðsynlegt að kanna hvort hann hafi nægilega stoð í þeim réttarreglum sem liggja Háskóla Íslands til grundvallar og hvort samþykktir um varnaraðila hafi verið gerðar af þar til bærum aðila samkvæmt þessum reglum.
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 41/1999 skal Háskóli Íslands vera vísindaleg rannsókna- og fræðslustofnun er veiti nemendum sínum menntun til að sinna sjálfstætt vísindalegum verkefnum og gegna ýmsum störfum í þjóðfélaginu, en auk þess skal skólinn einnig sinna endurmenntun þeirra sem lokið hafa háskólaprófi, miðla fræðslu til almennings og veita þjóðfélaginu þjónustu í krafti þekkingar sinnar, allt eftir því sem nánar er kveðið á um í lögunum og öðrum reglum er gilda um skólann. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laganna er háskólaráð æðsti ákvörðunaraðili innan háskólans. Háskólaráð fer með úrskurðarvald í málefnum skólans og stofnana sem honum tengjast og fer með almennt eftirlit með starfsemi hans og rekstri samkvæmt því sem nánar er mælt fyrir um í lögunum og reglum settum með stoð í þeim. Háskólaráð skal meðal annars kveða nánar á um skipulag sameiginlegrar stjórnsýslu háskólans og stjórnsýslu deilda og stofnana að undangenginni umsögn háskólafundar, sbr. 4. mgr. 2. gr. laganna. Um háskólafund er kveðið í 7. gr. laganna. Segir þar í 1. mgr. að háskólafundur sé samráðsvettvangur háskóladeilda og háskólastofnana. Háskólafundur vinni að þróun og eflingu Háskóla Íslands og móti og setji fram sameiginlega vísinda- og menntastefnu háskólans. Í 2. mgr. 7. gr. laganna kemur m.a. fram að háskólafundur sé ályktunarbær um þau málefni sem honum séu falin samkvæmt lögum nr. 41/1999 eða reglum settum með stoð í þeim. Háskólarektor er hins vegar yfirmaður stjórnsýslu háskólans og æðsti fulltrúi hans gagnvart mönnum og stofnunum innan háskólans og utan, sbr. 1. mgr. 6. gr. laganna.
Hvergi í lögum nr. 41/1999 um Háskóla Íslands né lögum nr. 136/1997 um háskóla er að finna sérstaka heimild til að setja siðareglur eða koma á fót úrskurðarnefnd um störf háskólaborgara, með þeim hætti sem áður greinir. Þá verður ekki ráðið af lögum nr. 41/1999 að háskólafundi sé ætlað það hlutverk að setja háskólaborgurum reglur eða koma á fót úrskurðarnefndum til þess að fjalla um ágreiningsmál í tilefni af slíkum reglum. Þvert á móti verður ráðið af lögum nr. 41/1999 að þær nánari reglur, sem setja skuli samkvæmt lögunum, þar á meðal um starfsskyldur háskólakennara, sbr. 4. mgr. 11. gr. laganna, skuli settar af háskólaráði og skuli þær birtar í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 1. mgr. 20. gr. laganna.
Það er álit dómara að setning framangreindra siðareglna og stofnun varnaraðila, sem eins og áður segir fól í sér íþyngjandi fyrirkomulag fyrir þá sem undir reglurnar og lögsögu varnaraðila voru settir, geti hvorki helgast af almennu hlutverki háskólans, sbr. 1. gr. laga nr. 41/1999, né almennum heimildum yfirstjórnar háskólans til stjórnunar og skipulags innra starfs síns, sbr. einkum 4. mgr. 2. gr. og 4. mgr. 11. gr. laga nr. 41/1999 og 18. gr. laga nr. 136/1997. Samkvæmt þessu telur dómari fram kominn verulegan vafa um það atriði hvort siðanefnd Háskóla Íslands, varnaraðili máls þessa, hafi nægilega stoð í lögum og sé af þeirri ástæðu heimilt að fara með það mál sem varð tilefni að kröfu sóknaraðila um lögbann. Án tillits til þess hvort heimilt var að setja á fót varnaraðila, með þeim hætti sem áður greinir, telur dómari jafnframt verulegan vafa leika á hvort réttur aðili innan Háskóla Íslands hafi sett þær reglur sem hér um ræðir. Af þessum ástæðum er það niðurstaða dómara að sóknaraðili hafi gert nægilega sennilegt að áframhaldandi meðferð varnaraðila á máli hans fyrir varnaraðila muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990.
Enda þótt dómari telji að varnaraðili sé stjórnsýslunefnd í þeim skilningi að hún starfar innan ríkisstofnunar, fjallar m.a. um málefni tiltekinna starfsmanna ríkisins og er komið á fót á grundvelli allsherjarréttarlegra heimilda, liggur fyrir að úrskurðir varnaraðila geta hvorki lagt lagalegar skyldur á aðila kærumála né eru þeir bindandi fyrir yfirstjórn háskólans. Samkvæmt þessu eru úrskurðir varnaraðila ekki stjórnarathafnir í skilningi 2. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990 og er ákvæðið þannig ekki því til fyrirstöðu að sóknaraðili geti krafist lögbanns samkvæmt IV. kafla laganna. Þegar af þessari ástæðu á 60. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 einnig ekki við um fyrirhugaða úrskurði varnaraðila. Þá verður kröfu sóknaraðila um lögbann ekki hafnað með vísan til annarra atriða sem greinir í 2. mgr. 24. gr. laga nr. 31/1990.
Af beiðni sóknaraðila um lögbann verður nægilega ráðið að beiðni hans beinist gegn varnaraðila, siðanefnd Háskóla Íslands, og þeirri yfirvofandi athöfn hans sem áður er gerð grein fyrir. Eins og áður segir hefur sóknaraðili gert sennilegt að þessi athöfn muni brjóta gegn lögvörðum rétti hans. Þá er það mat dómara að réttindi sóknaraðila muni fara forgörðum eða verða fyrir teljandi spjöllum, verði sóknaraðili knúinn til að bíða dóms um þau, enda liggur fyrir í málinu sú afstaða varnaraðila að úrskurða um umrædda kæru án tillits til þess hvort dómur hefur gengið í því máli sem sóknaraðili hefur höfðað gegn varnaraðila og áður greinir. Samkvæmt þessu er það niðurstaða dómara að skilyrðum 24. gr. laga nr. 31/1990 sé fullnægt um beiðni sóknaraðila. Í tilefni af máltilbúnaði varnaraðila telur dómari rétt að taka fram að með þessari niðurstöðu eru með engum hætti takmarkaðar stjórnskipulega verndaðar heimildir þeirra einstaklinga, sem skipa varnaraðila, til þess að fjalla um og tjá sig um verk sóknaraðila í ræðu og riti í eigin nafni.
Samkvæmt framangreindu verður synjun sýslumanns 29. júlí 2004 við beiðni sóknaraðila um lögbann felld úr gildi. Eins og málið liggur fyrir verður lagt fyrir sýslumann að leggja á lögbann í samræmi við beiðni sóknaraðila, eftir atvikum eftir að sóknaraðili hefur lagt fram tryggingu samkvæmt nánari ákvörðun nánari sýslumanns, sbr. 30. gr. laga nr. 30/1990.
Eftir úrslitum málsins verður varnaraðili dæmdur til að greiða málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 150.000 krónur og er þá ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.
Af hálfu sóknaraðila flutti málið Jón Steinar Gunnlaugsson hrl.
Af hálfu varnaraðila flutti málið Gestur Jónsson hrl.
Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Felld er úr gildi synjun Sýslumannsins í Reykjavík 29. júlí 2004 við beiðni sóknaraðila, Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar, um lögbann.
Lagt er fyrir sýslumann að leggja lögbann við fyrirhugaðri efnismeðferð varnaraðila, siðanefndar Háskóla Íslands, á kæru tiltekinna aðstandenda Halldórs Laxness vegna bókar sóknaraðila „Halldór“, enda leggi sóknaraðili fram tryggingu eftir nánari ákvörðun sýslumanns, sbr. 30. gr. laga nr. 30/1990.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 150.000 krónur í málskostnað.