Hæstiréttur íslands
Mál nr. 232/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Innsetningargerð
|
|
Miðvikudaginn 24. maí 2006. |
|
Nr. 232/2006. |
Kópavogsbær(Þórður Clausen Þórðarson hrl.) gegn Orkuveitu Reykjavíkur (Hjörleifur B. Kvaran hrl.) |
Kærumál. Innsetningargerð.
Hafnað var kröfu K um innsetningu með beinni aðfarargerð í umferðarrétt um land í umráðum O að landspildu sem K taldi sig hafa á leigu af eiganda jarðarinnar V. Varð ekki annað skilið af málatilbúnaði aðila en að hið leigða land væri á landsvæði sem deilt var um í öðru máli hvort tilheyrði V eða R. Þótti slíkur vafi uppi um heimild K til landsins að varhugavert væri að láta hina umbeðnu aðfarargerð ná fram að ganga, sbr. 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Hjördís Hákonardóttir og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. apríl 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. maí sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. apríl 2006, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að heimilað yrði að hann eða verktakar á hans vegum yrðu með beinni aðfarargerð settir inn í endurgjaldslausan og óhindraðan umferðarrétt með öll nauðsynleg tæki til vatnsöflunar um vegi og læst hlið í landi varnaraðila í Heiðmörk í Reykjavík að borholu við Vatnsendakrika í landi Vatnsenda í Kópavogi. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að aðfarargerðin verði heimiluð og sér dæmdur málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
Með 1. gr. laga nr. 57/1942 um heimild fyrir Reykjavíkurbæ til þess að taka eignarnámi hluta af landi jarðarinnar Vatnsenda í Seltjarnarneshreppi var bæjarstjórn Reykjavíkur leyft að taka spildu úr jörðinni eignarnámi til að auka við fyrirhugað friðland bæjarins. Samkvæmt gögnum málsins var þessarar heimildar neytt og afsal gefið út 7. júní 1951 fyrir spildunni, sem talin var alls 689 hektarar að stærð, en hún er á svæði, sem nú er kennt við Heiðmörk. Fyrir liggur að með eignarnámi þessu var land Vatnsenda klofið í tvennt, þannig að annars vegar var eftir svæði norðan Heiðmerkur, sem liggur að hluta að Elliðavatni, og hins vegar svæði sunnan friðlandsins. Báðir hlutar landsins, sem áfram heyrði til Vatnsenda, teljast innan marka Kópavogsbæjar, en spildan, sem tekin var eignarnámi, er í umdæmi Reykjavíkurborgar. Innan þessarar spildu mun borgin hafa heimilað vatnsveitu sinni og síðar varnaraðila að taka kalt vatn til miðlunar í veitu sinni. Deilur hafa verið uppi um árabil milli eigenda Vatnsenda og Reykjavíkurborgar um mörk svæðisins, sem fyrrnefnt eignarnám tók til, einkum að því er varðar mörkin að sunnanverðu, en um þau er nú rekið mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, sem dómur Hæstaréttar 24. maí 2006 í máli nr. 210/2006 tekur til. Með samningum 17. apríl og 22. maí 2002 hefur sóknaraðili gerst leigutaki að spildu úr syðri hluta lands Vatnsenda, í svokölluðum Vatnsendakrika, undir brunnsvæði til vatnstöku. Í leigusamningi er spildan ekki afmörkuð, heldur tiltekið að hún eigi að vera að lágmarki 30 en hámarki 80 hektarar, og verði hún „nákvæmlega skilgreind þegar fyrir liggur hverjar lágmarkskröfur verða gerðar til stærðar brunnsvæðis að lokinni ítarlegri úttekt á þörf þar að lútandi.“ Sóknaraðili kveðst á árinu 2003 hafa borað tilraunaholur í spildunni og lagt þar vegi, en til að gera þetta hafi hann fengið heimild varnaraðila til að fara um afgirt brunnsvæði og vegi hans í Heiðmörk. Vorið 2005 hafi sóknaraðili leitað eftir sams konar heimild, en í það sinn til að hefja framkvæmdir við vatnsveitu. Því erindi hafnaði varnaraðili. Í máli þessu krefst sóknaraðili heimildar til aðfarargerðar til að fá framgengt umferðarrétti um land í Heiðmörk, sem hann kveður varnaraðila ráða yfir.
Af málatilbúnaði aðilanna verður ekki annað ráðið en að landspildan, sem sóknaraðili telur til leiguréttinda yfir, sé á því svæði, sem eigandi Vatnsenda og Reykjavíkurborg deila um hvort eignarnám samkvæmt lögum nr. 57/1942 hafi tekið til. Sú deila þeirra er til úrlausnar í áðurnefndu máli, sem rekið er fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Meðan hún er ekki til lykta leidd er gegn andmælum varnaraðila slíkur vafi uppi um heimild sóknaraðila yfir spildunni, sem hann krefst hér umferðarréttar að, að varhugavert er að láta umbeðna aðfarargerð ná fram að ganga, sbr. 3. mgr. 83. gr. laga nr. 90/1989. Verður niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest um annað en málskostnað, en rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. apríl 2006.
Mál þetta var þingfest 17. febrúar 2006 og tekið til úrskurðar 27. mars 2006. Dómkröfur gerðarbeiðanda, Kópavogsbæjar, eru að gerðarbeiðandi eða verktakar á hans vegum, verði með úrskurði settur inn í endurgjaldslausan og óhindraðan umferðarrétt með öll nauðsynleg tæki og tól til vatnsöflunar um vegi og vegaslóða, sem og læst hlið í landi gerðarþola, Orkuveitu Reykjavíkur, Bæjarhálsi 21, Reykjavík, í Heiðmörk í Reykjavík, að borholu við Vatnsendakrika í landi Vatnsenda í Kópavogi. Þá er krafist málskostnaðar.
Gerðarþoli, Orkuveita Reykjavíkur, krefst þess að öllum kröfum gerðarbeiðanda verði hafnað. Þá krefst gerðarþoli málskostnaðar.
I.
Í aðfararbeiðninni er málsatvikum lýst þannig að með erindi dags. 19. september 2002 hafi Vatnsveita Kópavogs, sbr. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, tilkynnt Skipulagsstofnun um fyrirhugaða borun á 3 tilraunaholum fyrir neysluvatn við Vatnsendakrika í Heiðmörk og lagningu tveggja vega að holunum í framhaldi af vegum Orkuveitu Reykjavíkur en aðkoma að svæðinu sé í gegnum afgirt svæði Orkuveitunnar. Skipulagsstofnun hafi komist að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
Með erindi dags. 15. maí 2003 hafi Skipulagsstofnun verið tilkynnt um fyrirhugaða gerð vatnsveitu Kópavogs í Vatnsendakrikum í Vatnsenda, Kópavogi og Reykjavík. Skipulagsstofnun hafi þann 25. júní 2003 komist að þeirri niðurstöðu að gerð vatnsveitunnar sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif.
Tilraunaholur hafi verið boraðar á umræddu svæði á árinu 2003 og vegir lagðir, en sú framkvæmd hafi verið byggð á ákvörðun Skipulagsstofnunar dagsettri 1. nóvember 2002. Orkuveita Reykjavíkur hafi á þeim tíma heimilað að farið yrði í gegnum afgirt brunnasvæði og vegi Orkuveitunnar til að unnt væri að bora tilraunaholurnar og leggja vegi að þeim en þeir hafi verið lagðir í framhaldi af vegum Orkuveitunnar. Í ljós hafi komið að mikið vatn er á svæðinu hafi verið ákveðið að ráðast í gerð vatnsveitu.
Með beiðni dags. 17. maí 2004 hafi verið óskað eftir meðmælum Skipulagsstofnunar í samræmi við 3. tl. ákvæða til bráðabirgða í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, um leyfi fyrir borun 4ra borhola auk lagningar vegslóða í tengslum við gerð vatnsveitu við Vatnsendakrika, Kópavogi. Í beiðninni komi fram að augljóst sé að sá hluti framkvæmdar sem óskað sé eftir meðmælum fyrir sé innan lögsögu Kópavogsbæjar sem hafi með samningi dags. 22. maí 2002 leigt umrætt svæði af landeiganda.
Hinn 2. júlí 2004 hafi Skipulagsstofnun veitt meðmæli fyrir því að Kópavogsbær gæfi út leyfi fyrir framkvæmdinni og hafi skipulagsnefnd Kópavogsbæjar samþykkt umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir borun 4ra vinnsluhola og vegaslóða þann 6. júlí 2004. Bæjarstjórn Kópavogs hafi staðfest ákvörðun skipulagsnefndar á fundi sínum þann 17. ágúst 2004. Framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdinni hafi verið gefið út þann 23. febrúar 2005 og hafi það verið tilkynnt Reykjavíkurborg með bréfi dags. 11. feb. 2005. Samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 séu kærufrestir vegna samþykkta skipulagsnefnda 1 mánuður og engin kæra hafi borist.
Með bréfi dags. 14. apríl 2005 hafi verktaki á vegum Vatnsveitu Kópavogsbæjar óskað eftir heimild Orkuveitunnar til þess að fara í gengum brunnsvæði Orkuveitunnar í Heiðmörk við Vatnsendakrika. Með bréfi Orkuveitunnar dags. 26. apríl 2005 hafi beiðni verktakans verið hafnað.
Með bréfi bæjarstjóra Kópavogsbæjar til forstjóra Orkuveitunnar dags. 9. júlí sl. hafi beiðni verktaka um aðgang að svæðinu verið ítrekuð en svar hafi ekki borist.
II.
Gerðarbeiðandi beinir beiðninni að gerðarþola þar sem hann hafi, sem umráðaaðili lands og veghaldari á vatnstöku og brunnsvæði við Vatnsendakrika, Heiðmörk, aftrað gerðarbeiðanda frá því að komast að vatnstöku svæði á landi sem gerðarbeiðandi hafi tekið á leigu og sé innan lögsögumarka hans. Þá byggir gerðarbeiðandi á að réttur hans til að afla vatns sé óumdeilanlegur, sbr. ákvæði l. nr. 32/2004 um vatnsveitur sveitarfélaga. Jafnframt sé gerðarþola sé óheimilt skv. 26. gr. vatnalaga nr. 15/1923 að hindra að gerðarbeiðandi nýti sér rétt þennan.
Þar sem ekki séu neinir aðrir vegir færir að borholunum en vegir gerðarþola sé ljóst að gerðarþoli hindri gerðarbeiðanda í að nýta sér lögvarinn rétt til vatnstöku.
Þá sé vegna staðhátta, en borsvæðið sé við Húsafellsbrunann sem sé fólkvangur og erfitt yfirferðar, nánast útilokað að leggja nýja vegi að borholunum án þess að valda verulegu jarðraski, óþarfa náttúruspjöllum og gífurlegum kostnaði. Þá væri slík vegalagning glórulaus í ljósi þess að nú þegar liggi vegir að svæðinu. Það séu því einnig almannahagsmunir að gerðarþola verði gert að hlíta kröfum gerðarbeiðanda.
Þá sé gerðarþola ekki heimilt skv. 40. gr. vegalaga nr. 45/1994 að hindra för gerðarbeiðanda um hlið og vegi á svæðinu en ekki verði séð að fyrir liggi formlegt leyfi sveitarstjórnar fyrir því að læsa þeim hliðum sem um ræði. Þó svo að slíkt leyfi væri fyrir hendi heimilaði það ekki gerðarþola að hindra gerðarbeiðanda för um vegi og hlið og aftra honum frá að nýta og fara um vegi sem hann hefur forræði á og hefur kostað.
Ekki sé heldur að sjá að ákvæði reglugerða um varnir gegn mengun vatns veiti gerðarþola heimild til að svipta gerðarbeiðanda umferðarrétt um svæðið né leggi á hann neinar slíkar skyldur. Gerðarþoli hafi áður heimilað gerðarbeiðanda för um svæðið og hafi ekki verið talin nein ástæða til að takmarka þá umferð á nokkurn hátt með vísan til vatnsverndunarhagsmuna. Gerðarbeiðandi telji að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að honum verði gert kleift að fara um vegi og hlið gerðarþola á umræddu svæði og að gerðarþola sé ekki heimilt að hindra för gerðarbeiðanda og framkvæmdir á svæðinu. Gerðarbeiðandi telur þá háttsemi gerðarþola að banna gerðarbeiðanda umferð að kaldavatns borholum sínum vera ólögmæta, enda komi hún í veg fyrir að gerðabeiðandi geti neytt réttinda sinna. Sé gerðarbeiðanda því nauðugur sá kostur að krefjast innsetningar í rétt sinn til að stöðva heimildarlausa og þar með ólögmæta hindrun á rétti sem njóti verndar skv. lögum.
Þar sem gerðarþoli hafi neitað verktaka á vegum gerðarbeiðanda för um framan greinda vegi og hlið og ekki orðið við beiðni gerðarbeiðanda um aðgang að svæðinu, sé þess krafist að gerðarþola verði gert að heimila alla nauðsynlega för um land sitt í Heiðmörk með vísan til ákvæða 26. gr. vatnalaga nr. 15/1923, 40. gr. vegalaga nr. 45/1994 og með tilvísun til 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför.
II.
Gerðarþoli byggir á að gerðarþoli sé sameignarfyrirtæki fjögurra sveitarfélaga, Reykjavíkurborgar, Akranesskaupstaðar, Borgarbyggðar og Borgarfjarðarsveitar. Gerðarþoli starfi á grundvelli laga um heimild til stofnunar sameignarfyrirtækis um Orkuveitur Reykjavíkur nr. 139/2001. Reykjavíkurborg hafi gefið Vatnsveitu Reykjavíkur og síðar Orkuveitu Reykjavíkur leyfi til vatnstöku á svæðinu eins og í öðrum eignarlöndum borgarinnar.
Gerðarþoli sé ekki eigandi spildunnar eins og haldið sé fram í gerðarbeiðni. Reykjavíkurborg sé og hafi verið eigandi spildunnar og beinist því krafa gerðarbeiðanda að röngum lögaðila. Um sé að ræða aðildarskort sem leiði til sýknu, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, sbr. 84. gr. aðfararlaga nr. 90/1989. Þegar af þessari ástæðu beri að hafna kröfu gerðarbeiðanda.
Í aðfararbeiðni sé í tvígang staðhæft að gerðarþoli hafi hafnað beiðni verktaka á vegum gerðarbeiðanda um umferðarrétt gegnum afgirt vatnsverndarsvæði Vatnsendakrika. Þetta sé rangt og þau gögn sem vísað sé til af hálfu gerðarbeiðanda styðji ekki þessa fullyrðingu.
Þá sé þess getið að eigandi Vatnsendajarðarinnar, Þorsteinn Hjaltested bóndi, reki mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur gegn Reykjavíkurborg. Dómkröfur stefnanda í því máli séu að viðurkennt verði með dómi að syðri mörk eignarnáms Reykjavíkur skv. lögum nr. 57/1942, verði eftir línu sem dregin er eftir legu upprunalegrar Heiðmerkurgirðingar. Stefndi, Reykjavíkurborg, byggi sýknukröfu sína m.a. á að skv. eignarnámsmatsgerðum hafi 689 ha verið teknir eignarnámi úr landi Vatnsenda og að borgin hafi greitt eignarnámsbætur fyrir þá landstærð. Segi í matsgerðinni að 629,5 ha séu innan girðingar, 29,5 ha sunnan girðingar og loks 30 ha norðan og austan Arnarbælis. Reykjavíkurborg sé því m.a. eigandi 29,5 ha sunnan girðingar.
Í aðfararbeiðni komi ekkert fram um réttindi gerðarbeiðanda til þess landsvæðis sem hann krefjist aðgangs að og sagt sé að tilheyri Vatnsendalandi. Lagður sé fram samningur milli eiganda Vatnsenda og Vatna ehf. dags. 17. apríl 2002, án þess að tilvist samningsins sé skýrð frekar eða aðkoma gerðarbeiðanda að þessum samningi. Undir venjulegum kringumstæðum ætti þessu vanreifun að leiða til frávísunar án kröfu. Til þess að upplýsa málið betur sé rétt að geta þess að Vatnsendabóndinn hafi selt gerðarbeiðanda einkahlutafélag sitt, Vatna, og þar með leigurétt að 30 80 ha landspildu úr landi jarðarinnar Vatnsenda með samningi dags. 22. maí 2002. Spilda þessi sé sunnan Heiðmerkurgirðingar og að henni snúi krafa gerðarbeiðanda. Gerðarbeiðandi hafi þegar borað eftir vatni á þessu svæði en það sé að öllum líkindum innan þeirra 689 ha sem Reykjavíkurbær hafi tekið eignarnámi.
Það sé því eignarréttarlegur ágreiningur milli eiganda Vatnsenda og Reykjavíkurborgar, en hvorugur sé aðili að því máli sem hér sé til meðferðar, um það land sem gerðarbeiðandi krefjist aðgangs að. Meðan málum sé þannig háttað verði að synja kröfu gerðarbeiðanda. Skv. 3. mgr. 83. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 skuli aðfararbeiðni að jafnaði hafnað ef varhugavert teljist að gerði nái fram að ganga á grundvelli þeirra sönnunargagna sem heimilt sé að afla skv. ákvæðum laganna. Með vísan til framangreinds og þess eignarréttarlega ágreinings sem ríki á því svæði sem aðfararbeiðnin taki til beri að hafna kröfu gerðarbeiðanda.
III.
Gerðarbeiðandi krefst dómsúrskurðar um að gerðarbeiðandi, eða verktakar á hans vegum, verði settir inn í endurgjaldslausan og óhindraðan umferðarrétt með öll nauðsynleg tæki og tól til vatnsöflunar um vegi og vegaslóða sem og læst hlið í landi gerðarþola, Orkuveitu Reykjavíkur, í Heiðmörk í Reykjavík, að borholu við Vatnsendakrika í landi Vatnsenda í Kópavogi.
Það er skilyrði beinnar aðfarargerðar að krafa gerðarbeiðanda sé svo skýr eða ljós, að um skýlaus réttindi sé að ræða eða að réttmæti kröfu gerðarbeiðanda sé það ljós, að öldungis megi jafna til að dómur hafi gengið um hana.
Fyrir liggur að Reykjavíkurborg, sem ekki á aðild að málinu, er eigandi lands þess sem gerðarbeiðandi krefst umferðarréttar um. Gerðarþoli hefur hins vegar leyfi Reykjavíkurborgar til vatnstöku á landinu en ekkert annað liggur fyrir í málinu um rétt gerðarþola til landsins. Þá liggur fyrir að ágreiningur er um eignarhald á landi því sem gerðarbeiðandi krefst aðgangs að og að dómsmál er í gangi á milli eiganda Vatnsendajarðarinnar og Reykjavíkurborgar vegna þess.
Gerðarbeiðandi getur ekki byggt rétt til umferðar um landsvæðið á því að gerðarþoli hafi áður heimilað honum för um landið. Þá getur gerðarbeiðandi ekki byggt rétt til umferðar um landið á því að réttur hans til vatns sé óumdeilanlegur sbr. ákvæði laga nr. 32/2004 um vatnsveitur sveitarfélaga. Þá veita ákvæði 26. gr. vatnalaga nr. 15/1923 og 40. gr. vegalaga nr. 45/1994 gerðarbeiðanda ekki rétt til umferðar um landið. Loks getur gerðarbeiðandi ekki byggt rétt til umferðar á almannahagsmunum eða því að hann hafi lögvarða hagsmuni af því að honum verði heimiluð för um svæðið. Samkvæmt því hefur gerðarbeiðandi ekki sýnt fram á að hann eigi skýlausan rétt til að fara um land það sem hann krefst umferðarréttar um. Eru því ekki lagaskilyrði til að aðfarargerðin nái fram að ganga, sbr. 1. mgr. 78. gr. aðfararlaga.
Með hliðsjón af öllu framanröktu verður ekki hjá því komist að hafna kröfu gerðarbeiðanda.
Eftir niðurstöðu málsins verður gerðarbeiðandi dæmdur til að greiða gerðarþola 100.000 krónur í málskostnað.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kröfu gerðarbeiðanda, Kópavogsbæjar, er hafnað.
Gerðarbeiðandi greiði gerðarþola 100.000 krónur í málskostnað.