Hæstiréttur íslands
Mál nr. 395/2008
Lykilorð
- Almannatryggingar
- Stjórnsýsla
- Endurgreiðslukrafa
|
|
Fimmtudaginn 26. febrúar 2009. |
|
Nr. 395/2008. |
Tryggingastofnun ríkisins(Erla S. Árnadóttir hrl.) gegn Leifi Björnssyni (Gestur Jónsson hrl.) |
Almannatryggingar. Stjórnsýsla. Endurgreiðslukrafa.
L hóf töku lífeyris hjá T við 67 ára aldur árið 2002. T taldi að L hafi fengið ofgreitt vegna áranna 2003 og 2004. L fékk einnig greiddan lífeyri 2005 og 2006 en T taldi að L hefði ekki haft rétt til þess. Komu ofgreiðslurnar í ljós við endurreikning bóta. Var L tilkynnt með bréfum T að krafist væri endurgreiðslu ofgreidds lífeyris. Höfðaði L mál gegn T og krafðist þess að ákvörðun T um að krefja hann um endurgreiðslu yrði felld úr gildi. Talið var að T hafi skýrt tölulegar forsendur endurkröfu sinnar með fullnægjandi hætti við rekstur málsins fyrir héraðsdómi. Þá hafi T gætt andmælaréttar L með fullnægjandi hætti við töku ákvarðana um endurkröfuna og ekki væri hald í málsástæðum um að málsmeðferðarreglna hafi ekki verið gætt að öðru leyti. Var kröfum L því hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. júlí 2008 og krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með hinum áfrýjaða dómi var vísað frá sérstakri viðurkenningarkröfu stefnda um að hann væri skuldlaus við áfrýjanda, svo og varakröfu og þrautavarakröfu um að skuld hans takmarkist við nánar tilgreindar fjárhæðir. Sú niðurstaða var ekki kærð til Hæstaréttar eftir reglum XXIV. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og kemur ekki til úrlausnar í málinu.
I
Stefndi náði 67 ára aldri á miðju ári 2002 og hóf töku lífeyris hjá áfrýjanda við það tímamark og fékk einnig greiddar bætur næstu árin á eftir til og með 2006. Ekki er ágreiningur um að hann hafi átt rétt til lífeyris hjá áfrýjanda 2002 til 2004 að báðum árum meðtöldum. Áfrýjandi telur hins vegar að stefndi hafi fengið meira greitt en hann átti rétt til á þessu tímabili, en ágreiningur aðila snýst vegna þessara ára einungis um kröfu áfrýjanda um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar, sem hann telur stefnda enn skulda vegna ofgreiðslu 2004. Stefndi fékk einnig greiddar bætur á árunum 2005 og 2006, en áfrýjandi telur að réttur hans til bóta hafi enginn verið á þessum árum og krefst endurgreiðslu að fullu. Öll ofgreiðsla til stefnda vegna ársins 2003 hafi verið jöfnuð með afdrætti við greiðslu bóta til hans á árunum 2005 og 2006 og 715 krónur hafi gengið upp í ofgreiðslu vegna 2004. Á þeim tíma sem atvik málsins urðu giltu lengst af lög nr. 117/1993 um almannatryggingar með síðari breytingum, en þau voru síðar endurútgefin sem lög nr. 100/2007. Krafa stefnda í málinu snýr að ákvörðunum, sem áfrýjandi tók á tímabilinu frá 10. júlí 2007 til 22. nóvember sama ár varðandi ætlaða ofgreiðslu til stefnda og hvernig skuldin skyldi endurgreidd, en þá höfðu lög nr. 100/2007 tekið gildi. Ákvæði þeirra greina eldri og yngri laga, sem reynir á í málinu, eru efnislega hliðstæð.
Misræmi varð milli samanlagðra mánaðarlegra greiðslna áfrýjanda til stefnda á hverju áranna 2004, 2005 og 2006 og þess réttar, sem hann átti í raun. Í héraðsdómi er lýst því fyrirkomulagi sem gildir um bótaútreikning fyrir bótaþega, sem áfrýjandi gerir í upphafi árs á grundvelli upplýsinga frá þeim fyrrnefnda um áætlaðar tekjur hans og um endurútreikning, sem gerður er eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur liggja fyrir við álagningu opinberra gjalda. Áfrýjandi gerir upp staðgreiðslu skatta óháð því hvort bótaþegi hefur staðið honum skil á ofgreiðslu. Í tilviki stefnda reyndust tekjur öll árin hærri en gengið var út frá í undanfarandi áætlun þannig að greiðslur áfrýjanda til hans urðu of háar og endurkrafa myndaðist. Skiptir þá mestu að á árinu 2005 seldi stefndi hlutabréf með verulegum hagnaði, þannig að réttur hans til bóta féll að áliti áfrýjanda niður með öllu frá og með sama ári vegna ákvæða í lögum nr. 117/1993 um tekjutengingu bóta.
Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir hvaða greiðslur stefndi fékk að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta, sem áfrýjandi hélt eftir. Á árinu 2004 fékk hann 479.375 krónur, hinu næsta 298.409 krónur og árið 2006 fékk hann 282.024 krónur, samtals 1.059.808 krónur. Endurútreikningur áfrýjanda leiddi í ljós að ofgreitt var öll árin og telur hann endurkröfu sína vegna ársins 2004 að teknu tilliti til bakfærðrar staðgreiðslu og áðurnefndra 715 króna hafa numið 169.710 krónum, vegna 2005 hafi hún með sama hætti verið 210.991 króna og vegna 2006 sé hún 282.024 krónur, eða samtals 662.725 krónur.
II
Svo sem áður var getið jafnaði afdráttur af bótagreiðslum á árunum 2005 og 2006 ofgreiddar bætur vegna ársins 2003 og einnig greiddust 715 krónur upp í ofgreiðslu vegna 2004. Áfrýjandi krafði stefnda um endurgreiðslu með bréfi 15. janúar 2007 þar sem tekið var fram að skuld vegna ársins 2005 væri 210.991 króna, en að viðbættum eftirstöðvum eldri krafna væri skuldin samtals 380.701 króna. Stefndi brást við með því að beina kæru 12. febrúar 2007 til úrskurðarnefndar almannatrygginga samkvæmt 7. gr. laga nr. 117/1993, þar sem þess var krafist að ákvörðun áfrýjanda yrði endurskoðuð og að nefndin felldi kröfuna niður. Nefndin kvað upp úrskurð 8. júní 2007, þar sem málinu var vísað til áfrýjanda að nýju „til fyllri meðferðar á endurreikningi bóta kæranda og skilagreinar á endurgreiðslum ofgreiddra bóta af hans hálfu.“
Áfrýjandi tók málið fyrir að nýju og með bréfi til stefnda 10. júlí 2007 tilkynnti hann að í samræmi við úrskurð nefndarinnar hefði hann endurreiknað bætur fyrir árin 2004 og 2005. Niðurstaðan væri sú að fyrri endurreikningur væri réttur og krafa áfrýjanda stæði því óbreytt. Með bréfinu fylgdu tvö skýringablöð, eitt fyrir hvort ár. Áfrýjandi sendi stefnda enn bréf 8. október 2007 þar sem tilkynnt var að hann hefði endurreiknað bótarétt þess síðarnefnda fyrir árið 2006. Niðurstaðan sýndi að bætur á því ári væru ofgreiddar um 282.024 krónur. Krafði hann stefnda um greiðslu þeirrar fjárhæðar. Loks ritaði áfrýjandi stefnda bréf 22. nóvember 2007 þar sem segir í upphafi að fyrir liggi að skuld þess síðarnefnda vegna ofgreiddra bóta lífeyristrygginga næmi 662.725 krónum. Bent var á að „samkvæmt meginreglu“ beri að endurgreiða ofgreiðslur innan tólf mánaða frá því að þær verði til. Þess var farið á leit að stefndi endurgreiddi skuldina fyrir 15. janúar 2008.
Stefndi höfðaði málið 25. október 2007 þar sem þess var meðal annars krafist að felld yrði úr gildi ákvörðun áfrýjanda 10. júlí 2007 um að krefja stefnda um 380.701 krónu. Krafan var á því reist að „hin umstefnda ákvörðun sé röng að efni til og órökstudd, auk þess sem stefndi hafi við töku ákvörðunarinnar brotið gegn meginreglum stjórnsýsluréttarins ...“, sem síðan var fjallað um í einstökum atriðum svo sem nánar greinir í hinum áfrýjaða dómi. Með bókun í þinghaldi við aðalmeðferð málsins 31. mars 2008 jók stefndi við kröfur sínar á þann veg að felld yrði úr gildi ákvörðun áfrýjanda 22. nóvember 2007 um að krefja stefnda um 662.725 krónur. Sú krafa kom í stað upphaflegrar kröfu stefnda, sem laut að fyrrnefndri ákvörðun áfrýjanda 10. júlí 2007 um endurgreiðslu á 380.701 krónu vegna áranna 2004 og 2005. Af hálfu áfrýjanda var samþykkt að krafan fengi komist að í málinu.
III
Áfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt nokkur ný skjöl í málinu. Þau sýna meðal annars árlegar heildargreiðslur til stefnda, heildarendurkröfur áfrýjanda vegna ofborgana og jafnframt mánaðarlegan afdrátt af bótagreiðslum upp í ofgreiðslu fyrri ára. Þessi afdráttur var gerður á tuttugu mánaða tímabili frá maí 2005 til desember 2006 að báðum mánuðum meðtöldum. Fram kemur heildarfjárhæð þessa afdráttar, sem var 331.247 krónur. Ennfremur var lagður fram svokallaður hreyfingalisti, sem sýnir stöðu kröfu áfrýjanda eftir hvern afdrátt með niðurstöðutölunni 662.725 krónum í október 2007, sem er sú fjárhæð, sem fram kemur í áðurnefndu bréfi áfrýjanda 22. nóvember 2007.
Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti var af hálfu stefnda tekið fram að jafnvel þótt litið yrði svo á að með nýjum gögnum hefði áfrýjanda tekist að sýna fram á réttmæti útreikninga sinna um lífeyrisrétt stefnda og endurkröfurétt áfrýjanda vegna tekjutengingar bóta, breytti það engu um að reglur stjórnsýsluréttar hafi ekki verið virtar og áfrýjandi því ekki staðið rétt að málum. Sérstök áhersla var lögð á að áfrýjandi hefði ekki skýrt tölulega hlið málsins og því með engu móti verið unnt fyrir stefnda að gera sér grein fyrir þeim kröfum, sem áfrýjandi beindi að honum á árinu 2007. Það ætti jafnt við um fjárhæðina 380.701 krónu í bréfum 15. janúar 2007 og 10. júlí sama ár vegna áranna 2004 og 2005 og endanlegu kröfufjárhæðina 662.725 krónur í bréfi 22. nóvember 2007, þar sem árinu 2006 hafði verið bætt við. Þetta fengi stoð í áðurnefndri niðurstöðu úrskurðarnefndar almannatrygginga og staðan hafi ekki heldur verið orðin ljós við uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms, svo sem fram komi í forsendum hans.
IV
Við meðferð málsins fyrir héraðsdómi var meðal annars deilt um rétt stefnda til lífeyris 2005, en á því ári seldi hann hlutabréf sín í Þreki ehf. með verulegum hagnaði. Að því leyti laut ágreiningur að skýringu á 1. mgr. 18. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt. Í forsendum héraðsdóms var komist að þeirri niðurstöðu að áfrýjanda hafi borið að endurreikna bætur fyrir það ár og miða við að fjármagnstekjur að fjárhæð 13.289.491 króna yrði færð á tekjuárið 2005. Stefndi hafi því ekki átt rétt á bótum það ár og áfrýjandi átt endurkröfurétt, sem ekki hafi borið að falla frá. Á þessar forsendur héraðsdómara er fallist og stefndi hefur að öðru leyti ekki fært fram neitt, sem fær haggað réttmæti útreikninga áfrýjanda á lífeyrisrétti hans og endurkröfum vegna ofgreiðslna.
Að framan var getið um niðurstöðu úrskurðarnefndar 8. júní 2007, þar sem hún lagði fyrir áfrýjanda að fara að nýju yfir endurreikning bóta og leggja fram skilagrein yfir endurgreiðslu ofgreiddra bóta. Með nýrri ákvörðun áfrýjanda 10. júlí 2007 varð hann að hluta við því sem fyrir hann var lagt. Í fylgiskjölum með bréfinu var að finna ítarlegar skýringar á útreikningi bóta og endurkröfum, en skilagrein fyrir endurgreiðslu ofgreiddra bóta fylgdi ekki. Úr þessu bætti áfrýjandi við meðferð málsins fyrir héraðsdómi með því að leggja fram lista yfir afdrátt af bótagreiðslum án þess þó að samlagningartala fylgdi. Fyrir Hæstarétt var lagt sams konar yfirlit að öðru leyti en því að tölur höfðu verið lagðar saman með niðurstöðunni 331.247 krónur, þannig að eftir stóð ógreidd ofborgun, 662.725 krónur. Við rekstur málsins í héraði lagði áfrýjandi einnig fram tvö skjöl, dagsett í janúar 2008, sem hafa að geyma yfirlit krafna og uppgjör fyrir árin 2004 og 2005. Þar er staða skuldar fyrir árið 2004 sögð vera 169.710 krónur og 210.991 króna vegna 2005 eða samtals 380.701 króna. Greiðsluseðlar áfrýjanda til stefnda í október 2006 til desember sama ár bera með sér að á því ári hafi stefnda verið greiddar 282.024 krónur, sbr. einnig bréf áfrýjanda 8. október 2007 varðandi endurreikning og uppgjör bótargreiðslna ársins 2006, en óumdeilt er að stefndi naut ekki réttar til lífeyris það ár. Heildarskuld stefnda er samkvæmt því 662.725 krónur.
Samkvæmt því, sem að framan er rakið, skýrði áfrýjandi tölulegar forsendur endurkröfu sinnar með fullnægjandi hætti við rekstur málsins fyrir héraðsdómi og breytir engu um það þótt samlagning hafi ekki fylgt á þeim lista, sem sýndi afdrátt við mánaðarlegar greiðslur bóta átta mánuði á árinu 2005 og allt árið 2006. Fyrir málshöfðun hafði áfrýjandi reglulega sent stefnda gögn, sem eru meðal málsskjala og hafa að geyma upplýsingar um lífeyrisrétt hans og endurkröfur áfrýjanda. Þar ber einkum að nefna mánaðarlega greiðsluseðla, sem frá og með maí 2005 til ársloka 2006 bera með sér frádráttarlið með skýringunni „innborgun á ofgreiðslukröfu.“ Kemur þar bæði fram innborgun í viðkomandi mánuði og innborgun í heild á árinu. Að virtum þessum gögnum og fylgiskjölum með bréfum áfrýjanda 10. júlí 2007 og 8. október sama ár hefði stefnda því einnig fyrir höfðun málsins átt að vera unnt að gera sér grein fyrir tölulegum forsendum kröfu áfrýjanda í áðurnefndu bréfi til hans, þrátt fyrir að því hafi ekki fylgt sú skilagrein, sem honum bar þá að fá.
Áfrýjandi gætti andmælaréttar stefnda með fullnægjandi hætti við töku þeirra ákvarðana um endurkröfu, sem ágreiningur aðilanna snýst um. Ekki er hald í málsástæðum stefnda, sem reistar eru á því að málsmeðferðarreglna hafi að öðru leyti ekki verið gætt. Samkvæmt öllu framanröktu verður áfrýjandi sýknaður af kröfu stefnda í málinu.
Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði. Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda málskostnað fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Tryggingastofnun ríkisins, er sýkn af kröfum stefnda, Leifs Björnssonar.
Málskostnaður í héraði fellur niður.
Stefndi greiði áfrýjanda 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. apríl 2008.
Mál þetta er höfðað 25. október 2007 og dómtekið 31. mars 2008. Stefnandi er Leifur Björnsson, Laugarnesvegi 68, Reykjavík. Stefndi er Tryggingastofnun ríkisins, Laugavegi 114, Reykjavík.
Endanlegar dómkröfur stefnanda, eins og þær voru settar fram við aðalmeðferð málsins, eru í fyrsta lagi að felld verði úr gildi með dómi ákvörðun stefnda 22. nóvember 2007, um að krefja stefnanda um greiðslu á 662.725 kr.
Í öðru lagi er þess aðallega krafist að viðurkennt verði með dómi að stefnandi sé skuldlaus við stefnda.
Til vara að skuld stefnanda við stefnda hafi hinn 22. nóvember 2007 takmarkast við útborgaðan lífeyri árin 2005 og 2006, þ.e. 83.921 kr.
Til þrautavara að skuld stefnanda við stefnda hafi hinn 22. nóvember 2007 takmarkast við útborgaðan lífeyri árin 2004, 2005 og 2006, þ.e. 232.764 kr.
Endanleg krafa stefnanda um málskostnað er samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi. Þess er krafist að við málskostnaðarákvörðun verði gætt að skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af lögmannsþóknun.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.
I.
Stefnandi hóf töku ellilífeyris hjá stefnda, Tryggingastofnun ríkisins, hinn 14. júní 2002. Samkvæmt skattframtali stefnanda fékk hann greiddar 314.028 krónur frá stefnda það ár.
Á árinu 2003 fékk stefnandi 582.684 kr. greiddar frá stefnda. Endurreikningur bóta ársins 2003 fór fram haustið 2004, þar sem lagðar voru til grundvallar tekjur samkvæmt skattframtali 2004 (tekjuárið 2003). Heildartekjur stefnanda af launum og lífeyrisgreiðslum árið 2003 voru 962.190 kr. Þá voru fjármagnstekjur stefnanda og eiginkonu hans 974.741 kr. Þar af voru 900.000 kr. arður af hlutafjáreign í Þreki ehf., en stefnandi og eiginkona hans voru meðal stofnenda félagsins árið 1985. Samkvæmt yfirliti stefnda um uppgjör vegna ársins 2003 hafði stefnandi því fengið ofgreiddar 330.532 kr.
Fyrir liggur yfirlit um lífeyrisréttindi stefnanda hjá stefnda að fjárhæð 479.375 kr. á árinu 2004. Til frádráttar komu 330.532 kr. vegna endurkröfu stefnda á hendur stefnanda fyrir ofgreiddar bætur árið 2003. Samkvæmt skattframtali stefnanda 2005 fékk hann þannig greiddar 148.843 kr. á árinu 2004.
Með bréfi stefnda, dags. 21. nóvember 2005, var stefnanda tilkynnt að fram hefði farið endurreikningur á bótum lífeyristrygginga á árinu 2004 í samræmi við 10. gr. þágildandi laga um almannatryggingar nr. 117/1993, sbr. reglugerð nr. 939/2003. Í bréfinu kemur fram að endurreikningurinn hafi verið gerður á grundvelli upplýsinga skattyfirvalda um tekjur ársins 2004. Niðurstaða endurreiknings var sú að bætur til handa stefnda hafi verið ofgreiddar sem nemur 171.022 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Var stefnanda gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum, teldi stefnandi útreikninginn eða forsendur hans ekki réttan, en athugasemdir bárust ekki frá honum.
Stefndi tilkynnti svo stefnanda með bréfi, dags. 18. janúar 2006, að ofgreiddar bætur árið 2004 nemi 224.387 kr., eða 170.425 kr. að frádreginni staðgreiðslu skatta. Fram hefur komið að mismunur á fjárhæðum í bréfinu 21. nóvember 2005, 171.022 kr., og í bréfinu 18. janúar 2006, 170.425 kr., skýrist af því stefnandi fékk greidda kjarauppbót í desember 2005. Staðgreiðsla af því hafi numið 597 kr. sem kom til lækkunar á endurkröfu. Þá segir í bréfinu að heildarskuld stefnanda við stefnda, að viðbættum eftirstöðvum eldri krafna, sé 341.523 kr. Jafnframt kemur fram í bréfinu að fyrirhugað væri að hefja innheimtu þessara krafna með mánaðarlegum frádrætti af greiðslum til stefnanda frá og með 1. febrúar 2006, 4.575 kr. á mánuði, þar til kröfurnar yrðu að fullu greiddar. Ef breyting yrði á rétti stefnanda til greiðslna eða skuldastöðu gæti mánaðarleg fjárhæð breyst.
Í bréfi stefnda til stefnanda, dags. 3. maí 2006, er vísað til þess að fram hafi komið ósk frá stefnanda um aðra tilhögun endurgreiðslu. Var samþykkt að frádráttur yrði 14.474 kr. á mánuði í 23 mánuði frá og með 1. mars 2006. Var tekið fram að ef aðstæður breyttust gæti greiðsludreifing fallið úr gildi.
Á árinu 2005 fékk stefnandi 74.022 kr. frá stefnda, samkvæmt því sem fram kemur á skattframtali 2006. Samkvæmt yfirliti sem liggur fyrir í málinu er sú fjárhæð tilkomin þannig að lífeyrisgreiðslur stefnanda hafi verið að fjárhæð 298.409 kr. en til frádráttar komu 224.387 kr. vegna ofgreiddra bóta árið 2004.
Endurútreikningur bóta ársins 2005 fór fram haustið 2006, eftir að álagning opinberra gjalda fyrir árið 2005 hafði farið fram. Með bréfi stefnda, dags. 27. október 2006, var stefnanda tilkynnt að bætur ársins 2005 hefðu verið ofgreiddar um 210.991 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Var stefnanda gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum, teldi hann útreikninginn eða forsendur hans ekki réttan, en athugasemdir bárust ekki frá honum. Samkvæmt útreikningum stefnda á endurreikningi lífeyrisgreiðslna, sem fylgdu með bréfinu, var um að ræða 296.829 kr. lífeyrisgreiðslur vegna 2005, að frádregnum 85.838 kr. vegna staðgreiðslu, samtals 210.991 kr. Í útreikningunum kemur einnig m.a. fram að samkvæmt skattframtali voru fjármagnstekjur vegna söluhagnaðar 13.289.492 kr., sem ekki hefði verið gert ráð fyrir í tekjuáætlun ársins 2005. Samkvæmt skattframtali 2006, fyrir tekjuárið 2005, eru þessar fjármagnstekjur tilkomnar vegna sölu stefnanda og eiginkonu hans á hlutafé í Þreki ehf. Á skattframtalinu 2006 var söludagur tilgreindur 17. janúar 2005 og söluverð 100.000.000 kr., sem greitt var með skuldabréfi til 10 ára og var 1. gjalddagi bréfsins í janúar 2006. Söluhagnaður var tilgreindur 93.026.440 kr. Á skattframtalinu var þess óskað að söluhagnaður yrði tekjufærður á sjö árum, sbr. 27. gr. laga nr. 90/2003. Var 1 hluti af 7 talinn fram, þ.e. 13.289.492 kr.
Stefnandi kveðst hafa sett sig í samband við starfsmenn stefnda vegna endurreiknings bóta ársins 2005 og leitað skýringa á honum. Stefnandi hafi hins vegar ekki fengið viðhlítandi svör við þeirri málaleitan sinni.
Með bréfi stefnda, dags. 24. nóvember 2006, var stefnanda tilkynnt að tekjur stefnanda fyrir árið 2007 hefðu verið áætlaðar, en tekjuáætlunin myndi grunn að útreikningi bóta árið 2007. Voru áætlaðar fjármagnstekjur vegna arðs 4.388.352 kr. og 18.658.392 kr. vegna söluhagnaðar. Var þeim tilmælum beint til stefnanda að yfirfara tekjuáætlunina og leiðrétta hana ef við átti. Samkvæmt þessari tekjuáætlun átti stefnandi ekki að fá lífeyrisgreiðslur á árinu 2007.
Stefnandi kveðst hafa leitað til Jóns Kristins Jónssonar bókhaldara, líklega um mánaðamótin nóvember/desember 2006, í því skyni að fá upplýsingar frá stefnda um meðferð fjármagnstekna við ákvörðun bóta. Ekki liggja fyrir nein gögn þar að lútandi.
Stefndi sendi stefnanda bréf, dags. 15. janúar 2007, um innheimtu ofgreiddra bóta ársins 2005, þar sem vísað er til þess að bætur ársins hafi verið ofgreiddar um 210.991. Svo segir í bréfinu: „Að viðbættum eftirstöðvum eldri krafna (fram til 1. júlí 2006) er skuld þín við Tryggingastofnun 380.701 kr.“ Var þess farið á leit að stefnandi endurgreiddi fjárhæðina. Var stefnanda leiðbeint um að heimilt væri að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndar almannatrygginga. Bréf stefnda var ítrekað 29. mars 2007.
Stefnandi kærði ákvörðun stefnda samkvæmt bréfi 15. janúar 2007 til úrskurðarnefndar almannatrygginga sem kvað upp úrskurð 8. júní 2007. Í úrskurðinum segir m.a. að ekki sé að finna greinargóðar og gagnsæjar upplýsingar um það hvernig fjárhæð kröfunnar, 380.701 kr., sé tilkomin og samansett. Þá liggi heldur ekki fyrir upplýsingar um það hvert það samkomulag var sem haldið er fram að aðilar hafi gert á árinu 2005 um endurgreiðslu ofgreiddra bóta. Þótti úrskurðarnefndinni hin kærða ákvörðun, um endurgreiðslu að fjárhæð 380.701 kr., ekki nægjanlega vel rökstudd og var málinu því vísað heim til stefnda sem skyldi endurreikna bætur stefnanda á ný og gera nákvæma skilagrein fyrir því hvernig endurgreiðslum á ofgreiddum bótum af hálfu stefnanda hefði verið ráðstafað af hálfu stofnunarinnar.
Lögmaður stefnanda óskaði eftir fundi með starfsmönnum stefnda sem haldinn var 10. júlí 2007. Á fundinum var lagt fram bréf stefnda, dags. sama dag, þar sem segir að í samræmi við úrskurði nefndarinnar hafi stefndi endurreiknað bætur stefnanda vegna áranna 2004 og 2005. Niðurstaða endurreiknings stofnunarinnar sé sú að fyrri endurreikningur sé réttur og krafa stofnunarinnar standi því óbreytt. Vísað var til þess að í fylgigögnum væru nákvæmir útreikningar um endurkröfu bóta og helstu bréfaskipti aðila. Einnig segir í bréfinu að bótaþega sé skylt að veita stefnda allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Þá sé bótaþega skylt að tilkynna stefnda um breytingar á tekjum sem geti haft áhrif á greiðslur. Stefnandi hafi ekki uppfyllt þessa skyldu sína og því hafi myndast ofgreiðslur vegna áranna 2003, 2004 og 2005. Þá segir að í samræmi við samkomulag hafi hluti af bótum ársins 2005 verið látinn ganga upp í fyrri skuld stefnanda. Þegar árið 2005 hafi verið gert upp hafi hins vegar komið í ljós að stefnandi hafi ekki átt rétt á bótum frá stefnda fyrir það ár og því skuldi stefnandi enn ofgreiddar bætur vegna áranna 2004 og 2005. Upphafleg dómkrafa stefnda, samkvæmt stefnu málsins, var um ógildingu þessarar ákvörðunar stefnda 10. júlí 2007.
Með bréfi stefnda, dags. 8. október 2007, var stefnanda tilkynnt um endurreikning og uppgjör bótagreiðslna ársins 2006. Eins og undangengin ár fór endurreikningurinn fram á grundvelli endanlegra upplýsinga um tekjur ársins 2006 sem sóttar voru til skattyfirvalda. Einnig var tekið mið af upplýsingum um aðrar aðstæður sem lágu fyrir hjá stefnda. Niðurstaða endurreiknings var sú að bætur ársins hefðu verið ofgreiddar um 282.024 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Var stefnanda gefinn kostur á að koma athugasemdum á framfæri, ella teldist uppgjöri bóta lokið með þessari niðurstöðu. Jafnframt var honum leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar almannatrygginga. Með bréfi stefnda fylgdu yfirlit yfir endurreikning lífeyrisgreiðslna 2006.
Stefnandi höfðaði mál þetta eins og áður segir 25. október 2007. Eftir að málið var höfðað sendi stefndi stefnanda bréf, dags. 22. nóvember 2007, þar sem segir að skuld stefnanda, vegna ofgreiddra bóta lífeyristrygginga, sé að fjárhæð 662.725 kr. Var þess farið á leit við stefnanda að greiða skuldina. Endanleg dómkrafa stefnanda, um ógildingu ákvörðunar, sem sett var fram við aðalmeðferð málsins, er um þessa ákvörðun, að krefja stefnanda um greiðslu að fjárhæð 662.725 kr.
II.
Stefnandi reisir kröfu sína um ógildingu á ákvörðun stefnda einkum á því að ákvörðunin sé röng að efni til og órökstudd, auk þess sem stefndi hafi við töku ákvörðunarinnar brotið gegn meginreglum stjórnsýsluréttarins, sbr. ákvæði III. og IV. kafla stjórnsýslulaga. Þessir annmarkar vegi saman, eða eftir atvikum hver um sig, svo þungt að óhjákvæmilegt sé að ógilda ákvörðunina.
Í fyrsta lagi telur stefnandi að rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaganna hafi verið brotin af hálfu stefnda, þar sem augljóst sé af gögnum málsins að grundvöllur ákvörðunar hafi ekki verið kannaður til hlítar. Þetta hafi gerst þrátt fyrir mikla eftirgangsmuni, þar á meðal fyrir tilstilli úrskurðarnefndar almannatrygginga, sem sérstaklega hafi lagt fyrir stefnda að byggja ákvörðun í máli stefnanda á viðhlítandi grundvelli. Það sé því brot á reglum stjórnsýsluréttarins að stefndi skuli ekki hafa tryggt að grundvöllur ákvörðunar væri ljós og í samræmi við lög og fyrirmæli úrskurðarnefndarinnar.
Í öðru lagi byggir stefnandi á því að meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaganna hafi ekki verið gætt í málinu. Tekin hafi verið ákvörðun, sem hafi verið verulega íþyngjandi fyrir stefnanda, án þess að fram hafi farið mat á öðrum úrræðum. Í því sambandi leggur stefnandi sérstaka áherslu á að stefndi hafi töluvert svigrúm lögum samkvæmt til ákvarðana varðandi endurgreiðslu bóta, auk þess sem stofnunin hafi sjálf gert samkomulag um meðferð þeirra ellilífeyrisgreiðslna sem um ræði í málinu. Samkvæmt 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 939/2003, um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags frá Tryggingastofnun ríkisins, með síðari breytingum, sé stefnda þannig heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta. Telur stefnandi að stefnda hafi borið að beita þessari heimild, þó ekki væri nema vegna verulegra annmarka á stjórnsýslu stefnda í máli stefnanda. Með sama hætti hafnar stefnandi því að stefnda hafi ekki verið heimilt að greiða kæranda neinar tekjutengdar bætur á árinu 2005. Sú málsástæða eigi augljóslega ekki við rök að styðjast.
Í þriðja lagi telur stefnandi að andmæla- og upplýsingaréttar hans sem málsaðila, samkvæmt IV. kafla stjórnsýslulaganna, einkum 13. og 15. gr., hafi ekki verið gætt. Stefnandi segir að hin umstefnda ákvörðun virðist byggja á tilteknum forsendum um það hvernig tekjufærslu fjármagnstekna hans og eiginkonu hans hafi verið háttað árið 2005. Þessar forsendur hafi hins vegar hvergi komið fram í málinu þannig að stefnandi geti tekið afstöðu til þeirra, þrátt fyrir að eftir því hafi verið leitað. Í þessu sambandi bendir stefnandi á að þegar hin umdeilda ákvörðun 10. júlí 2007 hafi verið tekin höfðu tekið gildi breytingar á almannatryggingalögum sem sérstaklega vörðuðu tekjufærslu fjármagnstekna ellilífeyrisþega, sbr. 1. gr. laga nr. 166/2006. Stefnandi hafi haft beina, lögvarða hagsmuni af þessum breytingum, en enga vitneskju fengið um afstöðu stefnda til þess, enda þótt eftir því hafi verið leitað. Stefnandi telur að með því hafi reglur IV. kafla stjórnsýslulaga verið brotnar, enda liggi fyrir að samkvæmt 13. gr. laganna skuli málsaðili eiga þess kost að tjá sig um tiltekin lagasjónarmið og fá upplýsingar um matskennd atriði við meðferð máls.
Í fjórða lagi telur stefnandi að leiðbeiningarskyldu samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaganna hafi ekki verið gætt. Stefndi hafi þannig ekki, þegar eftir því hafi verið leitað, getað veitt upplýsingar varðandi framkvæmd samkomulags um endurgreiðslu vegna bótagreiðslna árið 2004. Frá því samkomulagi hafi verið gengið án nokkurs fyrirvara af hálfu stefnda um mögulegar endurgreiðslur. Stefndi geti því ekki komið eftir á og gert slíkar kröfur. Þá sé vakin athygli á því að stjórnvaldi sé skylt samkvæmt 23. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 að skrá upplýsingar um málsatvik. Verði ekki séð að þessa atriðis hafi verið gætt.
Samandregið telur stefnandi að stefndi hafi ekki getað gert neina viðhlítandi grein fyrir ákvörðunum sínum, fyrst ákvörðun frá 15. janúar 2007 og síðan ákvörðunar frá 10. júlí 2007. Enda þótt fyrir liggi afdráttarlaus fyrirmæli úrskurðarnefndar almannatrygginga, um að stefndi skuli gera skýra skilagrein um ráðstöfun og meðferð á bótagreiðslum stefnanda sé síðari ákvörðun stefnda sama marki brennd og hin fyrri, þ.e. að alfarið skorti á að sýnt sé með skýrum, sundurliðuðum hætti hvernig fjárhæð kröfu stefnda sé fundin út. Engin ný efnisatriði komi þannig fram í forsendum síðari ákvörðunarinnar.
Stefnandi segir að skortur á upplýsingum og leiðbeiningum geri honum ókleift að taka afstöðu til þess hver staða hans sé lögum samkvæmt og hvernig farið hafi verið með mikilvæg réttindi hans sem m.a. njóti verndar 76. gr. stjórnarskrárinnar. Þá hafi stefnda gjörsamlega mistekist að leiða viðhlítandi rök að því að stefnandi skuldi stofnuninni umkrafða fjárhæð.
Stefnandi byggir á því að hann hafi staðið með fullum heilindum að samskiptum við stefnda. Þá hafi upplýsingagjöf hans til stefnda í hvívetna verið í samræmi við lög. Í því sambandi bendir stefnandi á að samkvæmt 7. mgr. 10. gr. almannatryggingalaga sé það fyrst og fremst á grundvelli skattframtals sem endurreikningur bótagreiðslna fari fram. Miðað sé við það sama í 1. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 939/2003, um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags frá Tryggingastofnun ríkisins. Það sjónarmið sem umdeild ákvörðun byggi öðrum þræði á, þ.e. að stefnandi hafi ekki uppfyllt tilkynningarskyldu sína, sé því bæði óréttmætt og skorti nauðsynlegan lagagrundvöll. Íþyngjandi ákvörðun á borð við þá sem deilt sé um í málinu, verði augljóslega ekki reist á þessu sjónarmiði.
Varðandi annmarka á efni hinnar umstefndu ákvörðunar byggir stefnandi á því að hún standist hvorki lögmætis- né réttmætisreglu íslensks réttar. Enda þótt ákvörðunin hafi ekki verið rökstudd, eins og skylt sé, liggi fyrir að niðurstaða hennar sé önnur en leiða megi með nokkrum hætti af lögum og málefnalegum sjónarmiðum. Þar sem rökstuðningur stefnanda fyrir þessari málsástæðu falli saman við umfjöllun hans um fjárhæðir og ákvörðun á skuldastöðu vísar stefnandi til málstástæðna um aðrar kröfur hans.
Að því gefnu að ákvörðun stefnda um skuld stefnanda verði ógilt gerir stefnandi aðallega þá kröfu að skuldastaða sín verði ákvörðuð þannig að hann sé skuldlaus við stefnda. Byggt er á því að stefnda hafi mistekist að sýna fram á að stefnandi skuldi stefnda nokkuð vegna lögskipta aðila.
Í þessu sambandi er sérstaklega á því byggt að endurkrafa stefnda vegna bótagreiðslna árið 2005 sé óréttmæt og byggð á röngum grundvelli. Fyrir liggi með óyggjandi hætti að stefnandi hafi fyrst á árinu 2006 farið að fá í hendur þær fjármagnstekjur sem endurkrafan vegna 2005 sé byggð á. Með vísan til þess að ellilífeyrir sé ætlaður til framfærslu, sbr. meginreglur almannatryggingalaga, gangi ekki upp að krafist sé endurgreiðslu lífeyris nema vegna þeirra tekna sem lífeyrisþegi sé sannanlega farinn að njóta.
Verði talið, gegn væntingum stefnanda, að hann skuldi stefnda lýtur varakrafa hans að því að skuld verði takmörkuð við útborgaðan lífeyri stefnda til stefnanda árin 2005 og 2006, þ.e. 83.921 kr., enda liggi fyrir að stefndi hafa gert fyrirvaralaust samkomulag um ráðstöfun annarra greiðslna sem komi í veg fyrir að stefnandi verði talinn skulda stefnda þær greiðslur.
Þrautavarakrafa stefnanda er sett fram ef svo fer að dómurinn telji að til endurgreiðslu geti komið á grundvelli samkomulags aðila um uppgjör vegna ársins 2004. Er þá gerð krafa um að skuld stefnanda verði afmörkuð við útborgaðan lífeyri stefnda til stefnanda árin 2004, 2005 og 2006, þ.e. 232.764 kr., enda liggi fyrir í gögnum málsins, í greinargerð stefnda til úrskurðarnefndar almannatrygginga, að stefndi sé að öðru leyti skuldlaus við stefnda.
Um fjárhæð dómkrafna sinna byggir stefnandi á skattframtölum og öðrum gögnum um tekjur sínar. Hann telur að þessi gögn sýni að frá því að stefnandi hóf töku ellilífeyris, um mitt ár 2002, hafi heildargreiðslur til hans frá stefnda numið 1.129.476 kr.
Krafa stefnda samkvæmt hinni umdeildu ákvörðun sé um endurgreiðslu á 380.701 kr., þannig að stefndi telji skyldu sína til greiðslu ellilífeyris til stefnda allt frá miðju ári 2002 einungis vera upp á 748.775 kr. Þessi fjárhæð standist þó ekki miðað við réttindi sem stefnandi eigi samkvæmt lögum, enda hafi stefndi með engu móti getað rökstutt umrædda kröfufjárhæð.
Stefnandi telur að öll gögn málsins sýni fram á að réttur hans til ellilífeyris hafi verið með þessum hætti:
|
Árið 2002 |
314.028 kr. |
(Óumdeild réttindi og fjárhæð) |
|
Árið 2003 |
252.152 kr. |
(Óumdeild fjárhæð) |
|
Árið 2004 |
254.988 kr. |
(Óumdeild fjárhæð) |
|
Árið 2005 |
263.916 kr. |
(Umdeild fjárhæð og réttindi. Staðgreiðsla 53.962) |
|
Árið 2006 |
0 kr. |
(Enginn réttur. Staðgreiðsla 85.838 kr.) |
|
Samtals |
1.080.492 kr. |
|
Mismunur á þessu og heildargreiðslum stefnda sé innan við 50.000 kr. og því nemi ofgreiðslan lægri fjárhæð en innheimta skal á bótagreiðsluári, samkvæmt 11. mgr. reglugerðar nr. 939/2003, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 917/2006. Af þeim sökum verði að viðurkenna að stefnandi sé skuldlaus við stefnda.
Við aðalmeðferð málsins lagði stefnandi fram eftirfarandi yfirlit um útreikninga að baki stefnukröfum:
|
Ár |
Réttur skv. stefnu |
Réttur skv. grg. |
Greitt |
Mism. skv. stefnu |
Mism. skv. TR |
Aths. |
|||
|
2002 |
314.028 |
314.028 |
314.028 |
0 |
0 |
Óumdeild réttindi og fjárhæð. |
|||
|
2003 |
252.152 |
252.152 |
582.684 |
-330.532 |
-330.532 |
Óumd. grunnlífe. Engin staðgr. afdr. |
|||
|
2004 |
254.988 |
254.988 |
148.843 |
106.145 |
106.145 |
Óumd. grunnlífeyrir. Engin staðgr. afdr. |
|||
|
2005 |
263.916 |
0 |
74.022 |
189.894 |
-74.022 |
Umd. grunnlífeyrir. Staðgreiðsla 53.962. |
|||
|
2006 |
0 |
0 |
9.899 |
-9.899 |
-9.899 |
Enginn réttur. Staðgreiðsla 85.838 |
|||
|
Samt. |
1.085.084 |
821.168 |
1.129.476 |
-44.392 |
-308.308 |
|
|||
|
|
|
|
|
|
|
|
|||
|
|
Endurkrafa TR |
662.725 |
|
||||||
|
|
|
|
|
||||||
|
Aðalkrafa er um mismun skv. stefnu |
44.392 |
|
|||||||
|
Varakrafa er samtals fyrir greitt 2005 og 2006 |
83.921 |
|
|||||||
|
Þrautavarakrafa er samt. fyrir greitt 2004-2006 |
232.764 |
|
|||||||
Um lagarök vísar stefnandi til almannatryggingalaga, nú laga nr. 100/2007, einkum ákvæða III. kafla laganna og þar með 11. mgr. 16. gr. og 17. gr. Einnig er vísað til ákvæða í I. kafla laganna um úrskurðarnefnd almannatrygginga. Þá er vísað til ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum 7., 10., 12., 13., 15. gr. og V. kafla laganna um rökstuðning stjórnvaldsákvarðana. Jafnframt er byggt á lögmætis- og réttmætisreglu íslensks réttar og meginreglum laga um skuldbindingargildi stjórnvaldsákvarðana og stjórnsýslusamninga. Þá er og vísað til 1. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944 og ákvæða upplýsingalaga nr. 50/1996, einkum 23. gr.
Um málskostnaðarkröfu er vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
III.
Í greinargerð stefnda segir að af hálfu stefnanda sé grundvöllur máls þessa byggður á bréfi stefnda 10. júlí 2007 þar sem stefnanda var tilkynnt um heildarskuld við stefnda vegna ofgreiddra tekjutengdra bóta eftir að úrskurðarnefnd almannatrygginga kvað upp úrskurð um að vísa málinu aftur til stefnda. Megi skilja málatilbúnað stefnanda þannig að hann byggi á því að um hafi verið að ræða nýja stjórnvaldsákvörðun þegar stefnanda var sent bréf, dags. 15. janúar 2007, með upplýsingum um heildarskuld við stefnda. Verði ekki ráðið af stefnu að sú ákvörðun sé í tengslum við nokkra aðra ákvörðun stefnda vegna endurkrafna á hendur stefnanda. Stefndi mótmælir þessari framsetningu með vísan til þess að stefndi hafi ítrekað átt í bréfaskrifum við stefnanda vegna endurreiknings bóta áranna 2003, 2004 og 2005. Hafi stefnanda því vel mátt vera kunnugt um hvernig fjárhæðir samanstóðu í bréfinu 15. janúar 2007.
Stefndi tekur fram að atvik hafi gerst í tíð laga nr. 117/1993, með síðari breytingum, og vísar til þeirra sem „laga um almannatryggingar“. Lögin hafi verið endurútgefin sem lög nr. 100/2007, sem tóku gildi 30. maí 2007.
Stefndi kveðst hafa framkvæmt árlegan endurreikning tekjutengdra bóta almannatrygginga í samræmi við lög um almannatryggingar. Endurreikningur bóta fari fram með þeim hætti að þegar álagning opinberra gjalda hefur farið fram, þ.e. í byrjun ágúst ár hvert, séu bornar saman tekjuáætlanir bótaþega og þær tekjur sem skattyfirvöld leggja til grundvallar við álagningu opinberra gjalda vegna sömu ára, þ.e. samkvæmt skattframtali, sé því skilað. Stefndi greiði bætur mánaðarlega á grundvelli tekjuáætlana en komi í ljós við endurreikning viðkomandi árs að tekjur hafi verið of- eða vanáætlaðar, á þeim tíma þegar mánaðarlegar greiðslur fóru fram, leiði það til þess að í ljós kemur mismunur á greiddum bótum til bótaþega og þeim bótarétti sem viðkomandi á lögum samkvæmt rétt á með tilliti til tekna.
Stefndi mótmælir því að ákvörðun stefnda um skuld stefnanda verði ógilt og er öllum málsástæðum sem krafa stefnanda er studd við mótmælt af hálfu stefnda. Stefndi segir að ekki sé um það að ræða að ákvörðun hafi verið tekin um að krefja stefnanda um greiðslu umræddrar fjárhæðar án nokkurs aðdraganda, eins og látið sé að liggja í stefnu.
Hvað varðar meint brot stefnda á rannsóknarreglu þá verði ekki séð hvernig unnt væri að rannsaka mál stefnanda með öðrum og ítarlegri hætti en gert var við endurreikning bóta þeirra ára sem um ræðir. Stefndi vísar sérstaklega til ákvæðis 10. gr. laga um almannatryggingar þar sem mælt sé fyrir um hvernig endurreikningur bóta skuli fara fram. Leggja skuli til grundvallar niðurstöður skattyfirvalda eftir að álagningu opinberra gjalda viðkomandi tekjuárs hafi verið lokið. Stefnandi hafi ekki bent á hvaða rannsókn hefði átt að fara fram af hálfu stefnda þessu til viðbótar. Á yfirlitsblöðum sem fylgdu bréfi stefnda 10. júlí 2007 komi greinilega fram hvaða tekjuforsendur hafi verið lagðar til grundvallar annars vegar árið 2004 og hins vegar árið 2005. Þessar upplýsingar hafi stefnandi fengið áður, eða við endurreikning bóta hvers árs, eins og aðrir bótaþegar. Enn fremur hafi þess verið getið á greiðsluseðlum vegna mánaðarlegra greiðslna hvaða forsendur lægju að baki útreikningi fjárhæðar og eftir atvikum hversu stórum hluta hennar væri ráðstafað inn á eldri ofgreiðslukröfur.
Þá mótmælir stefndi því að ekki hafi verið gætt meðalhófs við meðferð málsins. Stefndi byggir á því að skylda til að endurkrefja um ofgreiddar bætur sé meginregla samkvæmt lögum um almannatryggingar, sbr. orðalag 50. gr. laganna. Heimild til að falla frá endurkröfu eigi eingöngu við í sérstökum tilvikum, sbr. orðalag 12. gr. reglugerðar nr. 939/2003 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags frá Tryggingastofnun ríkisins, með síðari breytingum. Stefndi mótmælir því að borið hafi að falla frá endurkröfu á hendur stefnanda að fullu eða að hluta. Slíkt sé eingöngu heimilt í sérstökum tilvikum, t.d. þegar fjárhagslegar aðstæður bótaþega séu með þeim hætti að honum yrði ofviða að standa skil á endurgreiðslukröfu. Hafi ekki verið sýnt fram á neitt slíkt eða sambærilegar aðstæður hjá stefnanda. Stefndi ítrekar að ástæða endurkrafna vegna þeirra ára sem mál þetta varðar sé sú að stefnandi vanáætlaði tekjur sínar og maka við gerð tekjuáætlana til stefnda.
Stefndi segir að augljóst sé að meginmarkmið við greiðslu tekjutengdra bóta sé að þær séu frá upphafi í samræmi við raunverulegan rétt viðkomandi bótaþega og ekki þurfi að koma til mikilla breytinga þegar endurreikningur bóta fari fram. Stefnandi hafi haft tilefni til að huga betur að þeim tekjuupplýsingum sem hann gaf stefnda eftir að niðurstaða endurreiknings bóta ársins 2003 lá fyrir en það hafi hann ekki gert. Afleiðingar þess hafi verið þær að bætur voru greiddar umfram bótarétt hans árin á eftir. Stefndi getur þess einnig í þessu sambandi að þrátt fyrir að atvik kunni að vera með þeim hætti að bótaþega áskotnist tekjur í lok almanaksárs, og tilkynni um það samtímis til stefnda, geti verið að ekki náist að lækka greiðslur þá mánuði ársins sem eftir séu til að ná niður áhrifum af hinum óvæntu tekjum. Leiði það því til þess við uppgjör þess árs að endurkrafa myndist á hendur viðkomandi bótaþega þrátt fyrir að hann sinni upplýsingaskyldu sinni. Skylda til að krefja um ofgreiddar bætur sé hins vegar meginregla samkvæmt lögum um almannatryggingar. Stefndi telur rétt að geta þess sérstaklega að bótaréttur lífeyrisþega, einnig réttur til grunnlífeyris, geti fallið að öllu leyti niður séu tekjur viðkomandi yfir ákveðnum mörkum, sbr. ákvæði II. kafla laga um almannatryggingar og yfirlit unnin af stefnda um greiðslutegundir og fjárhæðir árin 2004, 2005 og 2006.
Stefndi mótmælir alfarið staðhæfingum stefnanda um brot á andmælarétti og vísar því til stuðnings til allra þeirra samskipta sem stefnandi hafi átt við stefnda við endurreikning hvers árs. Hafi stefnanda þannig í hvert skipti verið gefinn kostur á að andmæla fyrirhuguðum ákvörðunum stefnda um endurkröfur á hendur honum og stefnanda sent yfirlit um forsendur endurreiknings líkt og öðrum bótaþegum.
Hvað varðar brot á upplýsingarétti telur stefndi að ekki verði séð hvert hlutverk stefnda geti verið við upplýsingagjöf þegar um sé að ræða frumvarp sem ekki hafi enn verið samþykkt af Alþingi, eins og raunin hafi verið með lög nr. 166/2006 um breytingu á lögum um almannatryggingar. Umrædd lög hafi tekið gildi 1. janúar 2007 og geti ekki verið skýrð með öðrum hætti en þannig að þau gildi um þær fjármagnstekjur eða séreignarsparnað sem greiddur sé bótaþega eftir gildistöku laganna. Hafi umrædd lög því ekki þýðingu í málinu þar sem sala stefnanda á hlutafé í Þreki ehf. fór fram á árinu 2005. Stefndi áréttar að það sé hlutverk sitt að framkvæma endurreikning bóta á grundvelli álagningar skattyfirvalda. Skattframtöl viðkomandi bótaþega séu því þau gögn sem stefnda beri að leggja til grundvallar, sbr. 10. gr. laga um almannatryggingar. Hafi stefndi ekki lagaheimildir til að leggja aðrar forsendur til grundvallar. Stefnandi hafi nýtt sér heimild samkvæmt 27. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003 til að dreifa skattskyldum söluhagnaði, vegna sölu á hlutafé í Þreki ehf., á sjö ár. Sú staðreynd að fyrsta afborgun af skuldabréfinu hafi ekki verið greidd fyrr en 17. janúar 2006 geti ekki haft þýðingu við endurreikning bóta ársins 2005 þar sem stefnda beri að leggja tekjur samkvæmt skattframtali til grundvallar við endurreikning bóta.
Um málsástæður stefnanda þess efnis að stefndi hafi ekki gætt leiðbeiningarskyldu gagnvart stefnanda, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga, vísar stefndi til bréfa sem send voru stefnanda vegna endurreiknings bóta ársins 2004. Í bréfi stefnda 3. maí 2006 hafi verið tilkynnt um breytta tilhögun endurgreiðslu ofgreiddra bóta ársins 2004 vegna beiðni stefnanda þar að lútandi. Stefnanda hefði verið í lófa lagið að snúa sér til stefnda þegar breyting var gerð á fyrirkomulaginu, þ.e. eftir 3. maí 2006, ef hann hafði athugasemdir við það en ekki liggi fyrir upplýsingar um að hann hafi gert það.
Hvað varðar staðhæfingu í stefnu, um að frá samkomulagi um endurgreiðslur vegna ofgreiddra bóta ársins 2004 hafi verið gengið án nokkurs fyrirvara af hálfu stefnda um mögulegar endurgreiðslur, þá sé ljóst að þegar mánaðarlegum greiðslum ársins 2006 hafi verið ráðstafað inn á eldri kröfur þá hafi það verið gert á þeirri augljósu forsendu að stefnandi ætti bótarétt á árinu 2006. Þegar svo kom í ljós við endurreikning bóta ársins 2006 að bótaréttur hefði ekki verið til staðar hafi það eðlilega leitt til þess að endurkrafa vegna ársins 2004 stóð óhögguð. Enn fremur hafi þurft að gera endurkröfu á hendur stefnanda vegna bótagreiðslna ársins 2006. Stefndi byggir á því að engin þau atvik séu til staðar sem geri það að verkum að krafa vegna ofgreiddra bóta ársins 2004 sé fallin niður, enda hefur ekki verið sýnt fram á það af hálfu stefnanda. Vísast um það sérstaklega til 50. gr. laga um almannatryggingar auk almennra reglna kröfuréttar. Í 50. gr. laga um almannatryggingar sé jafnframt skýrt tekið fram að hafi bætur verið ofgreiddar skuli draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi kunni síðar að öðlast rétt til.
Því er mótmælt að stefnandi hafi fullnægt skyldum sínum gagnvart stefnda, eins og fullyrt sé í stefnu, og að upplýsingagjöf stefnanda hafi verið í samræmi við lög. Samkvæmt 2. mgr. 47. gr. laga um almannatryggingar, sbr. einnig 10. gr., sé bótaþega skylt að veita stefnda allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu og endurskoðun þeirra. Stefndi áréttar að skattframtöl bótaþega séu grundvallargögn við endurreikning bóta en markmið laga um almannatryggingar sé að mánaðarlegar greiðslur til bótaþega séu sem réttastar þannig að ekki þurfi að koma til nema óverulegrar breytingar á bótarétti við endurreikning. Bótaþegum sé gert að veita stefnda upplýsingar um áætlaðar tekjur í því skyni að bótagreiðslur til þeirra séu sem næst því að vera í samræmi við bótarétt þeirra. Hafi stefndi ítrekað, í bréfum til bótaþega, brýnt fyrir þeim mikilvægi þess að vanda til tekjuáætlana.
Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að stefndi hafi brotið gegn einhverjum málsmeðferðarreglna stjórnsýslulaga við meðferð máls stefnanda þá byggir stefndi á eftirfarandi málsástæðum.
Stefndi telur að það eitt að komist sé að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið gegn málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga leiði ekki sjálfkrafa til þess að fella beri ákvörðun úr gildi. Það þurfi að vera hægt að slá því föstu að formannmarki sé verulegur. Stefndi byggir á því að hann hafi sýnt fram á að ákvarðanir um endurkröfur á hendur stefnanda séu réttar að efni til. Yfirlitin sem fylgdu bréfi 10. júlí 2007 sýni fjárhæðir án tillits til staðgreiðslu en á yfirlitum krafna, dags. 15. janúar 2008, sem fyrir liggja í málinu, komi fram hverjar fjárhæðirnar séu að teknu tilliti til staðgreiðslu (169.710+210.991=380.701). Með bréfi stefnda 15. janúar 2007, og aftur með bréfi 10. júlí 2007, hafi stefnandi verið krafinn um greiðslu 380.701 kr. Ný yfirferð yfir mál stefnanda, að gengnum úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga, hafi leitt til sömu niðurstöðu og áður um fjárhæðir endurkröfu.
Þá byggir stefndi á því að þrátt fyrir að formannmarki kunni að vera staðreyndur sé ljóst að efni ákvarðana stefnda gagnvart stefnanda hefði ekki getað orðið annað þrátt fyrir að formannmarki teldist ekki hafa verið fyrir hendi. Stefndi byggir enn fremur á því að þar sem um lögbundnar en ekki matskenndar ákvarðanir sé að ræða séu vandséð rök fyrir því að fella slíkar ákvarðanir úr gildi eingöngu af þeirri ástæðu að formgalla væri slegið föstum.
Stefndi mótmælir kröfu stefnanda um að viðurkennt verði að hann sé skuldlaus við stefnda, enda hafi stefndi lagt fram ítarleg fylgigögn með bréfinu 10. júlí 2007, þar sem útreikningur og forsendur endurkröfu vegna áranna 2004 og 2005 komu fram. Hvað varðar ráðstöfun mánaðarlegra bótagreiðslna inn á ofgreiðslukröfur vísar stefndi til greiðsluseðla stefnda til stefnanda og upplýsinga um gjaldaliði árin 2004 og 2005.
Stefndi telur að stefnandi hafi ekki fært rök fyrir því hvernig hægt sé að komast að þeirri niðurstöðu að hann sé skuldlaus við stefnda. Með vísan til þess sé varakröfu og þrautavarakröfu stefnanda einnig mótmælt þar sem stefndi telur liggja fyrir gögn um það í málinu að krafa hans á hendur stefnanda sé rétt. Stefnandi hafi ekki lagt fram neina útreikninga eða yfirlit um það hvernig fjárhæðir samkvæmt varakröfu og þrautavarakröfu séu fundnar. Stefndi vísar á bug tilvísun stefnanda, í umfjöllun um þrautavarakröfu, í greinargerð stefnda til úrskurðarnefndar almannatrygginga, um að stefnandi skuldi eingöngu 232.764 kr. Ekki verði séð hvernig draga megi þá ályktun af umræddri greinargerð og sé þeim skilningi á efni hennar því hafnað. Eigi stefnandi með þessu við þær fjárhæðir sem fram komi á launamiðum og þ.a.l. skattframtölum 2005, 2006 og 2007, vegna tekjuáranna 2004, 2005 og 2006. Vísast um það til framlagðs álits ríkisskattstjóra á því hvernig fara beri með leiðréttingar á bótafjárhæðum vegna endurreiknings. Samkvæmt álitinu skuli líta svo á að sú fjárhæð sem leiðrétting á bótunum nemi samkvæmt 10. gr. laga um almannatryggingar teljist óvissar tekjur í skilningi 2. mgr. 59. gr. laga nr. 90/2003 og skuli koma til hækkunar eða lækkunar á tekjuskattstofni þess árs þegar leiðréttingin sé ákveðin og framkvæmd.
Stefndi byggir á því að stefnandi hafi hvorki sýnt fram á að hann sé skuldlaus við stofnunina né að greiðsluskylda hans sé önnur og minni en stefndi hefur haldið fram. Fullyrðingar í stefnu um slíkt séu ekki studdar neinum haldbærum rökum eða gögnum og teljist því ósannað að kröfur þær sem stefndi hefur beint að stefnanda vegna endurreiknings bótaréttar áranna 2003, 2004, 2005 og 2006 séu rangar að efni til.
Um lagarök vísar stefndi til umfjöllunar um málsástæður. Krafa um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.
IV.
Í máli þessu er óumdeilt að bætur til stefnanda voru ofgreiddar árin 2003 og 2004. Ágreiningur er hins vegar um rétt stefnanda til bóta árið 2005 og hvort bætur það ár hafi verið ofgreiddar.
Þegar stefnandi fékk greiddar bætur hjá stefnda voru í gildi lög nr. 117/1993 um almannatryggingar, með síðari breytingum. Lögin voru endurútgefin sem lög nr. 100/2007 um almannatryggingar. Í 2. mgr. 10. gr. laga nr. 117/1993 eru tilgreindar þær tekjur sem leggja skal til grundvallar við útreikning á tekjutengdum bótum almannatrygginga. Notað er tekjuhugtak skattalaga. Til tekna teljast því tekjur samkvæmt II. kafla þágildandi laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og hafa fjármagnstekjur því áhrif á bætur stefnanda. Samkvæmt 5. mgr. 10. gr. laga nr. 117/1993 voru bætur til stefnanda greiddar á grundvelli áætlunar um tekjur. Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins lágu svo fyrir, við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum ári síðar, bar stefnda að endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna samkvæmt því. Á skattframtali stefnanda 2006, vegna tekjuársins 2005, voru færðar fjármagnstekjur að fjárhæð 13.289.492 kr., vegna sölu á hlutafé, sem ekki hafði verið gert ráð fyrir í tekjuáætlun ársins 2005. Stefnda bar því að endurreikna bæturnar og miða við að fjármagnstekjurnar eru færðar á tekjuárið 2005, en ekki það hvernig greiðslum samkvæmt skuldabréfi hafi verið háttað. Dómurinn fellst því á það með stefnda að stefnandi hafi ekki átt rétt á bótum árið 2005 og átti stefndi því endurkröfurétt á hendur stefnanda vegna ofgreiddra bóta. Ekki er fallist á með stefnanda að stefnda hafi borið að beita heimild í 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 939/2003 um að falla frá endurkröfu, enda liggur ekkert fyrir um að fjárhagslegar eða félagslegar aðstæður stefnanda séu alveg sérstakar.
Eins og rakið hefur verið kærði stefnandi til úrskurðarnefndar almannatrygginga ákvörðun stefnda, frá 15. janúar 2007, um að stefnandi skuldi 380.701 kr. vegna ofgreiddra bóta. Nefndin heimvísaði málinu til stefnda þar sem ekki lægju fyrir greinargóðar og gagnsæjar upplýsingar um það hvernig fjárhæð kröfunnar væri tilkomin og samsett. Stefndi endurreiknaði bætur vegna áranna 2004 og 2005 og í bréfi 10. júlí 2007 komst stefndi að sömu niðurstöðu og áður, þ.e. að stefnandi skuldi 380.701 kr. Er þetta sú ákvörðun sem stefnandi krafðist upphaflega ógildingar á með stefnu þessa máls. Í málatilbúnaði stefnda er vísað til þess að fjárhæðin 380.701 kr. sundurliðist þannig: 169.710+210.991=380.701.
Í skattframtali stefnanda kemur fram að hann fékk greiddar 148.843 kr. frá stefnda á árinu 2004. Í útreikningum sem fylgdu bréfinu 10. júlí 2007, og yfirlitum sem fyrir liggja í málinu, segir hins vegar að bætur stefnanda vegna ársins 2004 séu að fjárhæð 479.375 kr. Endurreiknaðar bætur séu 254.988 kr. og mismunurinn því 224.387 kr. Frá þeirri fjárhæð séu dregnar 53.962 kr. í staðgreiðslu. Eftir standi því 169.710 kr.
Samkvæmt skattframtali stefnanda fékk hann greiddar 74.022 kr. frá stefnda á árinu 2005. Í útreikningunum, með bréfi 10. júlí 2007, segir hins vegar að bætur stefnanda vegna ársins 2005 hafi verið 296.829 kr., en þar sem hann hafi ekki átt rétt á bótum það ár skuldi hann þá fjárhæð. Frá þeirri fjárhæð séu dregnar 85.838 kr. í staðgreiðslu og eftir standi því 210.991 kr.
Í uppgjöri stefnda 8. október 2007, vegna endurreiknings bóta ársins 2006, segir að bætur hafi verið ofgreiddar um 282.024 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Þessi fjárhæð, að viðbættum 380.701 kr., geri samtals 662.725 kr. (169.710+210.991+282.024=662.725).
Að mati dómsins er óljóst hvort skuld stefnanda við stefnda nemi 662.725 kr. þar sem ekki liggur fyrir með skýrum hætti hvernig stefndi hefur ráðstafað endurgreiðslum á ofgreiddum bótum, árin 2003, 2004, 2005 og 2006 og hvernig fjárhæðirnar koma heim og saman við þær greiðslur sem stefnandi hefur fengið í raun og fram koma á skattframtölum. Ákvörðun stefnda er því háð slíkum annmörkum að rétt er að fella hana úr gildi, eins og nánar greinir í dómsorði.
Þar sem dómurinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að ákvörðun stefnda sé háð slíkum annmörkum að hana beri að ógilda hefur dómurinn að svo komnu máli ekki forsendur til að taka afstöðu til annarra krafna stefnanda, um að viðurkennt verði að hann sé skuldlaus við stefnda, eða varakröfu og þrautavarakröfu um viðurkenningu á tiltekinni skuldastöðu. Verður því ekki hjá því komist að vísa þessum kröfum sjálfkrafa frá dómi, sbr. 4. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Stefndi hefur tapað málinu í öllu verulegu, þar sem ákvörðun hans er ógild, og verður því dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað svo hann verði skaðlaus af rekstri málsins, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Við ákvörðun málskostnaðar verður að líta til raunverulegs kostnaðar stefnanda af flutningi málsins, sbr. a-lið 1. mgr. 129. gr. laga nr. 91/1991, þar á meðal kostnaðar sem hann þarf að bera vegna virðisaukaskatts af endurgjaldi fyrir þjónustu lögmanns síns samkvæmt lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Fyrir liggur málskostnaðaryfirlit um 401.625 kr. lögmannsþóknun, að viðbættum virðisaukaskatti, 98.398 kr., samtals 500.023 kr. Samkvæmt þessu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 500.023 krónur í málskostnað.
Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir, settur héraðsdómari.
Dómsorð:
Ákvörðun stefnda, Tryggingastofnunar ríkisins, frá 22. nóvember 2007, um að krefja stefnanda, Leif Björnsson, um greiðslu á 662.725 krónum, er felld úr gildi.
Viðurkenningarkröfu stefnanda um að hann sé skuldlaus við stefnda, svo og varakröfu hans um að skuld hans takmarkist við 83.921 krónu og þrautavarakröfu, um að skuld hans takmarkist við 232.764 krónur, er vísað frá dómi án kröfu.
Stefndi greiði stefnanda 500.023 krónur í málskostnað.