Hæstiréttur íslands
Mál nr. 487/2011
Lykilorð
- Ábyrgð
- Nauðungarsala
- Sönnun
|
|
Fimmtudaginn 10. maí 2012. |
|
Nr. 487/2011.
|
Birgir Hauksson og Haukur Ólafsson (Skúli Bjarnason hrl.) gegn Íslandsbanka hf. (Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.) |
Ábyrgð. Nauðungarsala. Sönnun.
Í hf. krafðist greiðslu 3.000.000 króna úr hendi B og H á grundvelli yfirlýsingar sem þeir höfðu gefið um sjálfskuldarábyrgð vegna skuldar félagsins B ehf. Meðal eigna félagsins var fasteign sem síðar var seld nauðungarsölu og Í hf. leysti til sín sem ófullnægður veðhafi fyrir 19.000.000 krónur. Í málinu byggðu B og H sýknukröfu sína á því að markaðsverð fasteignarinnar væri mun hærra en sem nam þeirri fjárhæð sem hún hafði verið seld fyrir og skuldin væri því þegar greidd. Í Hæstarétti var talið að með vísan til 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu hefði stefndi ekki lagt fram viðhlítandi gögn um hver væri mismunur á eftirstöðvum hinnar umkröfðu skuldar og markaðsvirði fasteignarinnar við samþykki boðs og þar með um tilvist þeirrar kröfu sem hann sótti á hendur B og H. Þegar af þeirri ástæðu voru B og H sýknaðir af kröfum Í hf.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson og Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason settur hæstaréttardómari.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 16. ágúst 2011. Þeir krefjast aðallega sýknu en til vara lækkunar á kröfum stefnda. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Byggingarfélagið Timburmenn ehf. stofnaði 13. apríl 2004 tékkareikning við útibú stefnda á Akranesi. Félagið mun hafa fengið heimild til yfirdráttar á reikningnum sem féll niður 7. október 2008. Áfrýjendur rituðu undir yfirlýsingu 20. febrúar 2007 um að þeir tækju á sig sjálfskuldarábyrgð á greiðslu skuldar á reikningnum fyrir allt að 3.000.000 krónum ásamt vöxtum og kostnaði. Innstæðulausar færslur á fyrrnefndum tékkareikningi 9. febrúar 2009 námu 13.183.323 krónum og var reikningnum þá lokað. Áfrýjendur voru samkvæmt gögnum málsins stofnendur byggingarfélagsins, áfrýjandinn Haukur sat í stjórn þess og var skráður framkvæmdastjóri og báðir áfrýjendur höfðu prókúruumboð fyrir félagið.
Byggingarfélagið var tekið til gjaldþrotaskipta 23. febrúar 2009 og lauk skiptum 2. september 2010. Meðal eigna félagsins var fasteignin Esjumelur 7 í Reykjavík sem á hvíldu tvö tryggingarbréf í eigu stefnda. Annað þeirra var útgefið af byggingarfélaginu 17. maí 2004, upphaflega að fjárhæð 7.000.000 krónur, tryggt með 4. veðrétti og uppfærslurétti. Hitt var upphaflega að fjárhæð 15.000.000 krónur, útgefið af sama aðila 17. apríl 2008, tryggt með 5. veðrétti og uppfærslurétti. Fasteignin Esjumelur 7 var seld nauðungarsölu 25. mars 2010 og leysti stefndi eignina til sín sem ófullnægður veðhafi fyrir 19.000.000 krónur. Meðal lýstra krafna í þrotabú byggingarfélagsins var krafa stefnda vegna áðurnefndrar yfirdráttarskuldar og kveður stefndi ekkert hafa fengist greitt upp í skuldina við skipti þrotabúsins.
Í málinu hefur verið lagt fram yfirlit um ráðstöfun söluandvirðis fasteignarinnar Esjumelur 7. Er söluverð eignarinnar þar áætlað 30.000.000 krónur, greiðslur inn á kröfu stefnda á hendur hinu gjaldþrota félagi sagðar nema samtals 23.459.272 krónum, og byggir stefndi á því að eftirstöðvar kröfu hans nemi samkvæmt þessu 8.957.671 krónu. Af hálfu áfrýjenda er meðal annars á því byggt, eins og nánar er rakið í héraðsdómi, að markaðsverð umræddrar fasteignar hafi verið mun hærra en þær 19.000.000 krónur sem hún var seld fyrir við nauðungarsöluna og sé því skuld þeirra við stefnda á grundvelli ábyrgðaryfirlýsingarinnar þegar greidd. Um sé að ræða vandað 452 fermetra iðnaðarhúsnæði á 3000 fermetra lóð og hafi verðmæti þess numið að minnsta kosti 31.000.000 krónum, en það sé sú fjárhæð sem stefndi hafi boðið áfrýjendum eignina á í kjölfar nauðungarsölunnar.
II
Samkvæmt 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu eins og hún hljóðaði fyrir breytingu þá sem gerð var á henni með 4. gr. laga 60/2010 hvíldi sönnunarbyrði eftir almennum reglum á þeim sem hélt því fram að markaðsverð seldrar eignar hefði verið hærra en söluverð hennar við nauðungarsöluna. Með 4. gr. laga nr. 60/2010 var 57. gr. fyrrnefndu laganna breytt og sönnunarbyrðinni snúið við. Samkvæmt greininni svo breyttri getur sá sem notið hefur réttinda yfir eign sem hann hefur ekki fengið fullnægt með öllu af söluverðinu því aðeins krafið gerðarþola eða annan um greiðslu þess sem eftir stendur að hann sýni fram á að markaðsverð eignarinnar við samþykki boðs hefði ekki nægt til fullnustu kröfunnar. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 60/2010 segir í skýringum við 4. gr. að í breytingunni felist að það verði hlutverk þess sem vill innheimta eftirstöðvar veðskuldar hjá gerðarþola eða ábyrgðarmanni skuldar að sýna fram á hvert var markaðsverð eignarinnar á þeim tíma sem hún var seld. Kröfuhafi megi þannig ekki krefja um meira en nemur mismuni á eftirstöðvum skuldarinnar og markaðsverði hinnar seldu eignar.
III
Mál þetta var höfðað 28. september 2010. Samkvæmt 9. gr. laga nr. 60/2010 skyldu þau öðlast þegar gildi. Lögin voru birt 18. júní 2010. Í greinargerð áfrýjenda í héraði héldu þeir því strax fram að krafa stefnda á hendur þeim væri að fullu greidd þar sem markaðsverð fasteignarinnar að Esjumel 7 væri mun hærra en þær 19.000.000 krónur sem gengið var út frá í frumvarpi skiptastjóra til úthlutunar á söluandvirði og framlögðu yfirliti um ráðstöfun söluandvirðis eignarinnar og vísuðu þeir í því sambandi til 57. gr. laga nr. 90/1991. Í greinargerðinni var áskorun á hendur stefnda um að leggja fram uppgjör vegna nauðungarsölunnar. Þá segir orðrétt í greinargerðinni: „[Áfrýjendur] áskilja sér rétt til að leggja fram frekari gögn til þess að sanna verðmæti eignarinnar við nauðungarsölu, nái aðilar ekki samkomulagi um þá fjárhæð undir rekstri málsins. Innan þess áskilnaðar fellur einnig að láta dómkveða matsmenn gerist þess þörf.“ Við fyrirtekt málsins í héraði 12. apríl 2011 lagði stefndi fram ásamt fleiri skjölum frumvarp skiptastjóra byggingarfélagsins til úthlutunar og yfirlit um ráðstöfun á söluandvirði fasteignarinnar Esjumelur 7, en áfrýjendur létu bóka að þeir „telji framlagningu ranga, villandi og ófullnægjandi.“
Að framan er gerð grein fyrir þeirri breytingu á 57. gr. laga nr. 90/1991 sem gerð var með lögum nr. 60/2010. Áfrýjendur andmæltu því strax í greinargerð sinni með vísan til 57. gr. laga nr. 90/1991 að frumvarp skiptastjóra Byggingarfélagsins Timburmanna ehf. og framlagt yfirlit um úthlutun söluandvirðis fasteignarinnar að Esjumel 7 væri rétt, en það eru einu gögnin í málinu um virði eignarinnar. Í samræmi við ákvæði 57. gr. laganna bar stefnda við svo búið, vildi hann halda kröfu sinni á hendur áfrýjendum til streitu, að afla frekari gagna um markaðsvirði eignarinnar við samþykki boðs, en það gerði hann ekki. Gegn andmælum áfrýjenda verður samkvæmt þessu að leggja til grundvallar að stefndi hafi ekki lagt fram viðhlítandi gögn um hver sé mismunur á eftirstöðvum hinnar umkröfðu skuldar og markaðsvirði fasteignarinnar og þar með um tilvist þeirrar kröfu sem hann sækir á hendur áfrýjendum. Ber þegar af þeirri ástæðu að sýkna áfrýjendur af kröfum stefnda í málinu.
Eftir þessum málsúrslitum verður stefnda gert að greiða áfrýjendum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákvarðast í einu lagi eins og nánar greinir í dómsorði.
Við meðferð málsins í héraði var gætt ákvæðis 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Dómsorð:
Áfrýjendur, Birgir Hauksson og Haukur Ólafsson, skulu sýknir af kröfum stefnda, Íslandsbanka hf., í máli þessu.
Stefndi greiði áfrýjendum samtals 750.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. maí 2011.
Mál þetta, sem dómtekið var 12. apríl sl., er höfðað með stefnu birtri 27. október 2010.
Stefnandi er Íslandsbanki hf., Kirkjusandi 2, 155 Reykjavík vegna útibús 552, Kirkjubraut 40, Akranesi.
Stefndu eru Birgir Hauksson, Geithömrum 11, Reykjavík og Haukur Ólafsson, Hábæ 28, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda 3.000.000 króna ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 9. febrúar 2009 til greiðsludags.
Þá er krafist málskostnaðar.
Dómkröfur stefndu eru þær að stefndu verði sýknaðir af kröfum stefnanda. Til vara krefjast stefndu þess að stefnukröfur verði verulega lækkaðar.
Þá er í öllum tilvikum krafist málskostnaðar.
MÁLSATVIK OG MÁLSÁSTÆÐUR
Í stefnu er málsatvikum lýst svo að hinn 13. apríl 2004 hafi Byggingarfélagið Timburmenn ehf. opnað tékkareikning nr. 90 við útibú stefnanda á Akranesi. Félagið hafi fengið heimild til yfirdráttar á reikningnum sem fallið hafi niður hinn 7. október 2008. Hinn 9. febrúar 2009 hafi innistæðulausar færslur á reikningnum numið 13.183.323 krónum. Hafi reikningnum þá verið lokað. Áður hefði stefndu verið send tilkynning um löginnheimtu.
Hinn 20. febrúar 2007 hafi stefndu Birgir Hauksson og Haukur Ólafsson undirritað yfirlýsingu um að þeir tækju á sig sjálfskuldarábyrgð á greiðslu skuldar allt að 3.000.000 króna ásamt vöxtum og kostnaði vegna reikningsins.
Byggingarfélagið Timburmenn hafi verið úrskurðað gjaldþrota hinn 23. febrúar 2009 og skiptum hafi lokið hinn 2. september 2010 en ekkert hafi fengist upp í kröfu þessa við skipti þrotabúsins og hún ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir.
Stefndu byggja kröfu sína um sýknu í fyrsta lagi á því að skuld stefndu sé þegar greidd.
Við nauðungarsölu á fasteign Byggingarfélagsins Timburmanna ehf., Esjumel 7, Reykjavík, hafi stefnandi leyst fasteignina til sín sem ófullnægður veðhafi, en á eigninni hafi hvílt tvö tryggingarbréf í eigu stefnanda. Stefnandi muni hafa keypt eignina á 19.000.000 króna, enda þýðingarlítið verið fyrir aðra að keppa þar sem fyrir hafi legið kröfulýsingar af hálfu stefnanda upp á samtals 35.094.989 krónur. Stefndu halda því fram að verðmæti eignarinnar, sem sé vandað iðnaðarhúsnæði, 452 fermetrar að stærð, á 3.000 fm. lóð, hafi verið miklu meira en 19.000.000 króna og numið a.m.k. 31.000.000 króna, en það sé sú fjárhæð sem bankinn hafi boðið þeim eignina á í kjölfar uppboðsins. Vísa stefndu í þessu sambandi til 57. gr. nauðungarsölulaga nr. 90/1991.
Í öðru lagi sé krafan um sýknu á því byggð að yfirlýsing stefndu um sjálfskuldarábyrgð sé ekki skuldbindandi fyrir þá.
Með setningu laga um ábyrgðarmenn, nr. 32/2009, hafi nú verið færðar í lög reglur sem ætlað sé að tryggja að ábyrgðarmenn séu upplýstir um þá áhættu sem í persónulegri ábyrgð felist áður en þeir gangist undir hana. Á þeim tíma sem stefndu hafi undirritað yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð vegna yfirdráttar á tékkareikningi Byggingarfélagsins Timburmanna ehf. hefðu íslensk lög hins vegar ekki að geyma almennar reglur um ábyrgðarmenn fjárskuldbindinga eða hvernig staðið skyldi að samningagerð um sjálfskuldarábyrgð. Bankar og aðrar fjármálastofnanir hefðu þannig að mestu mótað eigin reglur um samskipti sín og ábyrgðarmanna. Hins vegar hafi stefnandi verið aðili að Samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga sem haft hafi að markmiði að draga úr vægi ábyrgðar einstaklinga. Vísað sé berum orðum til þessa samkomulags í ábyrgðaryfirlýsingunni og teljist það hluti hennar. Með samkomulaginu hafi verið settar meginreglur til verndar ábyrgðarmönnum og meðal annars kveðið á um skyldu til þess að leggja mat á greiðslugetu greiðanda og nauðsynlega upplýsingagjöf til ábyrgðarmanna.
Engum vafa sé undirorpið að stefndu hafi verið veiki aðilinn í samningssambandinu við fjármálastofnunina Glitni, síðar Íslandsbanka. Bankanum, sem sérfræðiaðila á sviði fjármálaviðskipta, hafi borið að standa þannig að samningsgerðinni við stefndu, sem séu báðir menntaðir trésmiðir og hafi enga sérþekkingu á fjármálaviðskiptum, að tryggt væri að þeir væru vel upplýstir um áhættu sína sem ábyrgðarmenn enda afleiðingar þess að takast á sig slíka ábyrgð verulega íþyngjandi fyrir viðkomandi einstaklinga og fjölskyldur þeirra falli ábyrgðin á þá. Í þeirri yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð sem lögð hafi verið fyrir dóminn sé skráð með verulega áberandi hætti, bæði undirritað og feitletrað, að ávallt sé skylt að meta greiðslugetu reikningseiganda þegar ábyrgð ábyrgðarmanns á skuldum viðkomandi reikningseiganda nemi hærri fjárhæð en 1.000.000 króna. Þetta sé í samræmi við 3. mgr. 3. gr. samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, en þar sé afdráttarlaust kveðið á um skyldu fjármálafyrirtækja til þess að greiðslumeta skuldara þegar ábyrgð ábyrgðarmanns á skuldum viðkomandi skuldara nemi meira en 1.000.000 króna. Þrátt fyrir þessa fortakslausu skyldu, sem sé skýrt orðuð bæði í ábyrgðaryfirlýsingunni sjálfri og samkomulaginu, sem þar sé vísað til, liggi fyrir að ekkert mat hafi farið fram á greiðsluskyldu skuldarans, en sérstaklega sé hakað við þann möguleika á yfirlýsingunni að ekki sé óskað eftir því að greiðslugeta sé metin. Beri fjármálafyrirtækið, sem útbúið hafi og gengið frá yfirlýsingunni, hallann af því. Ekkert liggi heldur fyrir um það í málinu að bankinn hafi uppfyllt skyldur sínar um upplýsingagjöf eftir að til skuldaábyrgðar hafi verið stofnað, en kveðið sé á um þær í 5. gr. Samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga. Ekkert komi fram um það í gögnum málsins hver staða tékkareikningsins hafi verið þegar yfirdráttarheimildin er sögð felld niður né liggi fyrir nokkurt yfirlit yfir reikningsfærslur þar til reikningnum hafi verið lokað í febrúar 2009. Þá liggi ekkert fyrir um að stefnendum hafi verið tilkynnt skriflega um áramót fyrir hvaða kröfum þeir hafi verið í ábyrgðum, hverjar eftirstöðvar þeirra væru, hvort vextir væru í vanskilum og hversu miklum ef um þau væri að ræða. Með vísan til alls framangreinds, sem og eðlilegra og góðra viðskiptahátta, geti ábyrgðaryfirlýsingin ekki verið skuldbindandi gagnvart stefndu. Ljóst megi vera að stefndu hefðu aldrei undirgengist umrædda ábyrgð hefði matið farið fram og leitt hefði verið í ljós hversu áhættusamt það væri.
Þrautavarakrafa um lækkun stefnukröfu byggir á því að persónuleg ábyrgð stefndu geti aldrei orðið hærri en 1.000.000 króna sem sé hámarksfjárhæð ábyrgðar án skyldu til mats á greiðslugetu reikningseiganda en lækkunarkrafan byggi að öðru leyti á sömu málsástæðum og sýknukrafan. Sérstaklega sé á það bent að auk lækkunarinnar á höfuðstól niður í eina milljón beri að lækka enn frekar vegna hlutfallslegrar fullnægju þeirra krafna sem staðið hafi að baki tryggingarbréfunum á eigninni, hafi eigi náðst fullar efndir. Þurfi í því sambandi að ganga út frá raunvirði eignarinnar, sem stefndu halda fram að geti aldrei hafa verið lægra en 31.000.000 króna.
Stefndi vísar m.a. til laga nr. 90/1991, um nauðungarsölu, einkum 57. gr., til almennra reglna samninga- og kröfuréttarins, góðra viðskiptahátta sem og samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga. Þá er vísað til laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 80. gr. laganna varðandi frávísunarkröfu, en krafan um málskostnað er byggð á 1. mgr. 130. gr., sbr. 129. gr. sömu laga.
NIÐURSTAÐA
Stefndu halda því fram að markaðsverð fasteignarinnar að Esjumel 7, Reykjavík, hafi verið mun hærra en þær 19.000.000 króna sem hún var seld fyrir og vísa til 57. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungaruppboð. Sé krafa stefnanda að fullu uppgerð þegar tillit sé tekið til verðmætis eignarinnar. Af hálfu stefnanda hefur verið lagt fram yfirlit yfir ráðstöfun söluandvirðis þar sem gengið er út frá því að áætlað söluverð fasteignarinnar sé 30.000.000 króna og að greiðslur inn á kröfu stefnanda á hendur Timburmönnum ehf. nemi samtals 23.459.272 krónum. Eftirstöðvar kröfu stefnanda nema þá 8.957.671 krónu. Stefndu hafa ekki sýnt fram á að skuld sú er þeir ábyrgðust hafi verið gerð upp við uppboðið og er þessari málsástæðu þeirra fyrir sýknu hafnað.
Stefndu gáfu út yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð hinn 20. febrúar 2007. Kemur fram í yfirlýsingu þessari að þeir ábyrgist in solidum greiðslu yfirdráttar á tékkareikningi Byggingarfélagsins Timburmanna ehf. við útibú forvera stefnanda á Akranesi og að hámarksfjárhæð ábyrgðar sé 3.000.000 króna auk vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar. Stefndu ábyrgðust skuld fyrirtækis en ekki einstaklings og á því samkomulag um notkun ábyrgðar á skuldum einstaklinga ekki við hér. Stefndu eru því bundnir af sjálfskuldarábyrgðaryfirlýsingu þeirri er þeir undirgengust hinn 20. fenbrúar 2007 og verða kröfur stefnanda því teknar til greina með vöxtum eins og greinir í dómsorði.
Eftir úrslitum málsins verða stefndu dæmdir til þess að greiða stefnanda 350.000 krónur í málskostnað.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp þennan dóm.
DÓMSORÐ
Stefndu, Birgir Hauksson og Haukur Ólafsson, greiði stefnanda, Íslandsbanka hf. in solidum 3.000.000 króna ásamt dráttarvöxtum skv. III. kafla laga nr. 38/2001 frá 9. febrúar 2009 til greiðsludags.
Stefndu greiði in solidum stefnanda 350.000 krónur í málskostnað.