Hæstiréttur íslands
Mál nr. 156/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Samlagsaðild
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Mánudaginn 26. mars 2007. |
|
Nr. 156/2007. |
Sigurður Skjaldberg(Steingrímur Þormóðsson hrl.) gegn Vífilfelli hf. og Sjóvá-Almennum tryggingum hf. (Ólafur Haraldsson hrl.) |
Kærumál. Samlagsaðild. Frávísunarúrskurður staðfestur.
S stefndi annars vegar V hf. og S hf. og hins vegar R og VÍ hf. til greiðslu skaðabóta vegna tveggja ótengdra umferðarslysa. Ekki var talið að fullnægt væri skilyrðum 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 til að hafa þessar dómkröfur uppi sama máli og því fallist á að kröfum S gegn V hf. og S hf. yrði vísað frá dómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. mars 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. febrúar 2007, þar sem kröfum sóknaraðila gegn varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdómara að taka kröfur hans gegn varnaraðilum til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðilum kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Sigurður Skjaldberg, greiði varnaraðilum, Vífilfelli hf. og Sjóvá-Almennum tryggingum hf., samtals 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. febrúar 2007.
Mál þetta er höfðað með stefnu birtri 18. júlí 2006 og tekið til úrskurðar 15. febrúar sl. Stefnandi er Sigurður Skjaldberg, Bugðulæk 8, Reykjavík. Stefndu eru Ragnheiður Sigríður Gestsdóttir, Júllatúni 5, Höfn, Sjóvá Almennar tryggingar hf., Kringlunni 5, Reykjavík, Vátryggingafélag Íslands hf., Ármúla 3, Reykjavík og Vífilfell hf., Stuðlahálsi 1, Reykjavík.
Í þessum þætti málsins gera stefndu Sjóvá Almennar tryggingar hf. og Vífilfell hf. kröfu um að kröfum stefnanda gegn þeim verði vísað frá dómi og stefnandi úrskurðaður til greiðslu málskostnaðar. Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu þessara stefndu verði hrundið. Hann krefst einnig málskostnaðar.
Af hálfu stefndu Ragnheiðar og Vátryggingafélagsins er ekki gerð krafa um frávísun málsins.
I
Í máli þessu gerir stefnandi annars vegar þá efniskröfu, aðallega, að stefnda Vátryggingafélagið og stefnda Ragnheiður verði dæmd sameiginlega til að greiða stefnanda 15 milljónir króna með nánar tilgreindum vöxtum vegna áverka sem stefnandi hlaut í bílsslysi 25. október 1996, allt að frádreginni innborgun að fjárhæð 1.629.779 krónur 10. apríl 2000. Til vara er þessi krafist að þessi stefndu verði sameiginlega dæmd til að greiða stefnanda 5.164.897 krónur með nánar tilgreindum vöxtum vegna slyssins, allt að frádreginni innborgun að fjárhæð 1.629.779 krónur 10. apríl 2000. Hins vegar krefst stefnandi þess, aðallega, að stefnda Sjóvá og stefnda Vífilfell verði dæmd til að greiða stefnanda 15 milljónir króna með nánar tilgreindum vöxtum vegna áverka sem stefnandi hlaut í bílsslysi 15. júlí 2001. Til vara er þessi krafist að þessi stefndu verði sameiginlega dæmd til að greiða stefnanda 3.857.936 krónur með nánar tilgreindum vöxtum vegna slyssins, allt að frádreginni innborgun að fjárhæð 1.750.242 krónur 23. mars 2003. Í efnisþætti málsins krefjast stefndu aðallega sýknu, en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar.
Endanlegar kröfur stefnanda byggja á tveimur umferðarslysum, annars vegar slysi 25. október 1996, en hinu 15. júlí 2001. Afleiðingar fyrrgreinda slyssins voru metnar til sjö stiga miska og sjö stiga varanlegrar örorku með matsgerð tveggja lækna 9. mars 2000 og greiddi stefnda Vátryggingafélagið stefnanda bætur á þeim grundvelli 10. apríl 2000. Afleiðingar síðargreinda slyssins voru metnar til sjö stiga miska og fimm stiga varanlegrar örorku með matsgerð læknis og lögfræðings 7. mars 2003 og greiddi stefnda Sjóvá stefnanda bætur á þeim grundvelli 23. mars 2003.
Málatilbúnaður stefnanda byggir á því að hann hafi orðið fyrir meira tjóni en fram kemur í framangreindum matsgerðum sem bótauppgjör voru miðuð við. Hefur hann lagt fram í málinu ýmis vottorð lækna og önnur gögn þessu til stuðnings. Að beiðni stefnanda voru hinn 28. október 2005 dómkvaddir tveir matsmenn til að meta tjón stefnanda vegna beggja slysa. Samkvæmt matsgerð þeirra 25. september 2006 er varanlegur miski eftir fyrra slysið 25 stig, en varanleg örorka 15 stig. Varanlegur miski eftir síðara slysið sjö stig, en varanleg örorka 10 stig. Endanlegar kröfur stefnanda byggja á þessari matsgerð. Efnisvarnir stefndu byggja bæði á því að stefnandi hafi ekki sýnt fram á frekara tjón en hann hafi þegar fengið greitt fyrir og einnig því að kröfur stefnanda séu fyrndar. Að öðru leyti gefur úrlausnarefni þessa þáttar málsins ekki tilefni til þess að rekja frekar málsatvik, málsástæður og lagarök aðila.
II
Af hálfu stefndu Sjóvár og Vífilfells er krafa um frávísun á því byggð að skilyrði 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála fyrir samlagsaðild séu ekki uppfyllt. Dómkröfur stefnanda eigi ekki rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings. Nægi í þessu efni ekki að vísa til þess að um sé að ræða áverka á sömu persónu. Að kröfu stefndu beri því að vísa málinu frá dómi. Þessi stefndu byggja einnig á því að dómkrafa stefnanda sé svo vanreifuð að ekki sé fullnægt skilyrðum d-, e- og g-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Beri að vísa málinu frá vegna vanreifunar stefnanda að þessu leyti.
Af hálfu stefnanda er á því byggt að kröfur hans eigi rætur að rekja til sömu aðstöðu, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991. Er þessu til stuðnings vísað til þess að sú matsgerð dómkvaddra matsmanna 25. september 2006, sem kröfur stefnanda séu reistar á, taki til beggja slysa. Sé því ekki hægt að fjalla um þessi slys stefnanda nema í einu og sama máli. Þá varði báðar kröfur sama líkaman þótt tjónsatburðir séu tveir. Sé því fullnægt skilyrðum 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 fyrir samlagsaðild. Stefnandi mótmælir staðhæfingum stefndu um að ekki sé fullnægt kröfum 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991.
III
Niðurstaða
Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er fleiri en einum heimilt að sækja mál í félagi ef dómkröfur þeirra eiga rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings. Þá segir að með sömu skilyrðum megi sækja fleiri en einn í sama máli, en ella skuli vísa máli frá dómi að kröfu varnaraðila að því er hann varðar.
Í máli þessu hefur stefnandi uppi tvær sjálfstæðar fjárkröfur vegna tveggja ótengdra umferðarslysa. Þótt á því sé byggt að líkami stefnanda hafi í báðum slysum orðið fyrir tjóni getur það ekki leitt til þeirrar niðurstöðu að kröfur hans teljast reistar á sama atviki eða aðstöðu samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991. Þá getur það ekki haggað þessari niðurstöðu þótt tjón stefnanda vegna beggja tjónsatvika hafi verið metið með einni og sömu matsgerð dómkvaddra matsmanna. Samkvæmt þessu er ekki fullnægt skilyrðum 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 til að hafa framangreindar dómkröfur uppi í sama máli. Að kröfu stefndu Sjóvár og stefndu Vífilfells verður málinu vísað frá dómi að því er þessa stefndu varðar.
Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður stefnandi dæmdur til að greiða stefndu Sjóvá og stefndu Vífilfelli sameiginlega málskostnað sem ákveðst hæfilegur 60.000 krónur.
Af hálfu stefndu Sjóvár og stefndu Vífilfells flutti málið Jóhann Hafstein hdl.
Af hálfu stefnanda flutti málið Steingrímur Þormóðsson hrl.
Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kröfum stefnanda, Sigurðar Skjaldberg, gegn stefndu, Sjóvá Almennum tryggingum hf. og Vífilfelli hf., er vísað frá dómi.
Stefnandi greiði stefndu sameiginlega 60.000 krónur í málskostnað.