Hæstiréttur íslands
Mál nr. 385/2005
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Þriðjudaginn 30. ágúst 2005. |
|
Nr. 385/2005. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Böðvar Bragason lögreglustjóri) gegn X (Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. ágúst 2005, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. ágúst 2005, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 2. september 2005 kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. ágúst 2005.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess X, kt. [...], óstaðsettum í hús í Reykjavík, verði með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 2. september 2005 kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglunnar kemur fram að lögreglan í Reykjavík rannsaki nú tilraun til manndráps og/eða sérstaklega hættulegar líkamsárásir sem hafi átt sér stað á bifreiðastæði við Geirsgötu í Reykjavík aðfaranótt sunnudagsins 20. ágúst 2005. Lögreglan kveður málsatvik vera með þeim hætti að kl. 00:59 hafi lögreglunni borist tilkynning um fjöldaslagsmál á bifreiðastæðinu. Þegar lögreglan hafi komið á vettvang hafi þeim verið tilkynnt um að maður hefði verið stunginn með hnífi. Eftirlitsmyndavél hafi verið beint að kærða þar sem hann hafi sést á gangi og hann verið handtekinn í Lækjargötu stuttu síðar og verið þá með blóðugan hníf í hendi. Í ljós hafi komið að sá sem hafði verið stunginn hét A og hafi hann verið fluttur stuttu síðar á slysa- og bráðadeild Landspítala háskólasjúkrahúss. Mánudaginn 22. þ.m. hafi B, komið á lögreglustöðina og lagt fram kæru á hendur kærða fyrir að hafa stungið hann með hníf í bakið umrætt sinn.
Samkvæmt læknisvottorði Þórarins Arnórssonar, sérfræðings á Landspítala háskólasjúkrahúsi, dags. 21. þ.m. hafi A reynst vera með tvö stungusár á baki. Önnur stungan hafi náð í gegnum brjóstvegg og reynst vera um 3-4 cm langur skurður á lunga A. Hitt stungusárið hafi ekki náð eins djúpt inn í lungnavefinn eða um 3-4 cm. Að mati sérfræðingsins hafi verið um lífshættulega áverka að ræða og blæðing verið metin um 7 lítrar blóðs og hafi A þurft að gangast undir brjóstholsaðgerð með hraði. Í dag hafi borist læknisvottorð Theodórs Friðrikssonar, sérfræðings á spítalanum þar sem fram komi að áverkar A teljist lífshættulegir og hafi hann verið stunginn í brjósthol með þeim afleiðingum að slagæðar bæði í lunga og brjóstvegg hafi farið í sundur. Samkvæmt læknisvottorði Theodórs hafi B reynst vera með skurðsár á herðablaði ca 1 ½ cm langan neðan við vinstra herðablað.
Rannsókn málsins hafi leitt í ljós að til mikilla átaka hafi komið í miðbæ Reykjavíkur umrædda nótt. Af upptökum úr eftirlitsmyndavélum í miðborginni sjáist að til nokkurra átaka hafi komið á svipuðum stað stuttu áður en hinn kærði atburður hafi átt sér stað. Ekki verði af upptökunum ráðið að kærði hafi tekið þátt í þeim. Upptökurnar sýni hins vegar að tveir menn gangi í burtu og hópur manna á eftir. Samkvæmt framburði vitna hafi það verið A og félagi hans C sem voru að ganga í burtu en kærði og félagar hans hafi farið á eftir þeim. Kærði hafi viðurkennt að til einhverra ryskinga hafi komið með honum og piltunum. Þá viðurkenni hann að hafa verið með hníf sem hann hafi tekið upp og sveiflað honum að öðrum piltinum en beri því við að það hafi verið í sjálfsvörn. Telji hann að ef stungusárin séu tvö hljóti hnífurinn að hafa “skoppað”. Þá hafi kærði viðurkennt að hafa lent í átökum við annan pilt og telji að hann hafi slegið til hans með hnífnum en ekki í því skyni að skaða hann með honum.
Rannsókn máls þessa hafi verið haldið sleitulaust áfram frá því að lögreglu hafi borist tilkynning um atvikið. Enn hafi þó ekki tekist að hafa upp á öllum vitnum málsins en af upptökum úr eftirlitsmyndavélum sé ljóst að fjöldi ungmenna hafi verið á staðnum sem hafi mjög sennilega séð atvikið. Erfiðlega hafi gengið að hafa upp á þessum vitnum en leitast sé við að fá vitni á lögreglustöð til að bera kennsl á þá sem sjáist á upptökunum.
Kærði liggi undir rökstuddum grun um að hafa veitt A og B lífshættulega áverka með hnífi. Ef kærði haldi frelsi sínu nú hafi hann tök á því að torvelda rannsókn málsins m.a. með því að hafa áhrif á hugsanlega samseka og vitni málsins. Beri því brýna nauðsyn til þess að hann sæti gæsluvarðhaldi áfram meðan rannsókn málsins haldi áfram. Brotaþolar séu tveir en kærði hafi einungis viðurkennt að hafa veitt öðrum þeirra áverka með hnífnum og frásögn hans af atvikinu fái ekki staðist sé tekið mið af fyrirliggjandi læknisvottorðum vegna A. Enn hafi ekki tekist að upplýsa í hvaða tímaröð áverkarnir hafi verið veittir og enn eigi eftir að upplýsa betur atlögu kærða að B. Frumrannsókn lögreglu hafi beinst í fyrstu að árásinni á A en árásin á B hafi ekki komið upp úr kafinu fyrr en á sl. mánudag. Um sé að ræða umfangsmikla rannsókn þar sem fjöldi vitna komi við sögu. Eins og sakir standi telji lögreglan að málið sé ekki nægilega upplýst og því sé brýn nauðsyn á því að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi.
Lögreglan kveðst rannsaka ætluð brot kærða sem talin séu geta varðað við 211. gr., sbr. 20. gr., eða eftir atvikum 2. mgr. 218. sömu laga. Með vísan til framanritaðs, framlagðra gagna og a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála sé þess krafist að framangreind krafa nái fram að ganga eins og hún sé fram sett.
Að virtum gögnum málsins telur dómari að fram sé kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi framið brot sem varðað getur við 211. gr., sbr. 20. gr., eða eftir atvikum 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga ef sannast. Í gögnum málsins kemur fram að rannsókn málsins hefur verið haldið sleitulaust áfram m.a. með yfirheyrslum lögreglu yfir vitnum. Jafnframt er ljóst að erfiðlega hefur gengið að hafa uppi á öllum vitnum málsins en af upptökum úr eftirlitsmyndavélum er ljóst að fjöldi ungmenna var á staðnum. Þá er ljóst að kærði hefur einungis viðurkennt að hafa veitt öðrum meintra brotaþola áverka og lögregla á eftir að upplýsa meinta atlögu kærða að brotaþolanum B en lögreglu var fyrst kunnugt um meinta atlögu kærða að B sl. mánudag. Af þessum ástæðum er það álit dómara að ætla megi að kærði geti torveldað rannsókn málsins gangi hann laus. Er því fullnægt skilyrðum a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála til að kærði sæti áframhaldandi gæsluvarðhaldi eins og krafist er.
Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 2. september 2005 kl. 16:00.